Page 38

viðskiptaráðuneytisins á fót útflutningsnefnd freðfisks og hafði hún sambærilegt hlutverk og Fiskimálanefnd á Íslandi, að stuðla að uppbyggingu frystiiðnaðarins og annast útflutning þar til samtök framleiðenda gætu tekið við. Áfram var þó reynt að stofna landssamtök freðfiskframleiðenda án árangurs, skipaði ríkið stjórn slíks félags til bráðabirgða en gekk þeim afar illa að fá framleiðendur til liðs við sig. Framleiðendur gerðu ekki greinarmun á eðli framleiðslu fersks og frosins fisks og þótti óþarfa tilstand að gera frystiiðnaðinn að sérgrein. Þess í stað skoruðu þeir á framleiðendur frosins fisks að ganga í landssamband ferskfiskframleiðenda (Jón Hjaltason o.fl., 1996a). Norðmenn tóku margir hverjir illa í frystivæðinguna og skipafélög voru óviljug til að koma upp frystilestum í skipum. Hið sama hafði átt sér stað með íslensk skipafélög og tóku framleiðendur þá til þess ráðs að stofna eigið skipafélag. Hinn sami dugur reyndist ekki í norskum framleiðendum og varð norska sjávarútvegsráðuneytið aftur að koma að málum og tók á leigu 14 frystiskip til þess að koma afurðum á markaði (Jón Hjaltason o.fl., 1996a). Árið 1946 fór sendinefnd á vegum norskra stjórnvalda til Bandaríkjanna að kanna möguleika á sölu á frystum fiski. Vakti nefndin þá athygli á því að samkeppnisaðilar þeirra, Íslendingar, væru þá þegar komnir með eigin sölufulltrúa í New York sem annaðist sölu afurða og innkaup aðfanga til framleiðslu. Lagði nefndin mikla áherslu á þetta forskot Íslendinga og þótti mikið til koma. Áhersla á Bandaríkjamarkað var komin til vegna þess að þar var fyrir hendi frystikeðja sem ekki hafði þá verið komið upp í Evrópu. Nefndin lagði ríka áherslu á það að sala frysts fisks færi fram sameiginlega en ekki í beinni sölu sjálfstæðra aðila með tilheyrandi undirboðum, óhagræði og erfiðleikum við samrýmingu gæðamála. Með þetta að leiðarljósi lagði nefndin til að strax yrði stofnað félag framleiðenda til þess að sjá um útflutning frysts fisks. Félagið yrði að hafa sjálfstæði gagnvart framleiðendum og hefði vald til þess að ákvarða staðla um gæðamál, umbúðir og fleira. Úr varð að stofnað var félagið Norsk Frossenfisk A/L sem síðar var endurnefnt Frionor árið 1963. Misvel gekk í frystiiðnaði Norðmanna næstu ár og reyndist samkeppnin við Íslendinga oft erfið. Eftir að Noregur varð iðnaðar- og olíuríki varð hinsvegar breyting á þann veg að iðnaður var látinn bæta upp tap útgerðar og fiskvinnslu í því skini að jafna lífskjör milli byggða í landinu (Jón Hjaltason o.fl., 1996a). 28

Sameiginleg markaðssetning í sjávarútvegi  

12 ECTS eininga lokaverkefni til 180 ECTS eininga B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri. Höfundur: Sindri Már Atlason

Advertisement