Page 30

Árið 1999 óx SÍF til muna. Síldarútvegsnefnd var hlutafélagsvædd árið 1998 og árið 1999 sameinaðist hið nýstofnaða félag SÍF undir nafni hins síðara. Seinna sama ár sameinaðist SÍF svo Íslenskum Sjávarafurðum hf. sem varð til við hlutafélagsvæðingu Sjávarútvegsdeildar Sambandsins. Um Síldarútvegsnefnd og Íslenskar Sjávarafurðir ef fjallað nánar í köflum 2.1.5 og 2.1.6. Eftir þessar sameiningar stóð SÍF uppi sem stærsta fyrirtæki landsins á sviði útflutnings sjávarafurða og var hlutverk fyrirtækisins endurskilgreint sem „alþjóðlegt markaðs og framleiðslufyrirtæki á sviði kældra fiskafurða“ (Knútsson og Gestsson, 2006). Árið 2000 var áætlað að SÍF hefði um fjórðungshlutdeild í útflutningi íslenskra sjávarafurða og í rekstrarreikningi ársins 2001 kom fram að félagið ætti 21 dótturfélag, flest erlendis og með 100% hlutdeild í þeim flestum (Ívar Jónsson, 2003). Með þessum sameiningum var svo komið að þrjú þeirra stóru sölufélaga sem komið var á fót snemma á 20. öld voru komin undir eitt hlutafélag og aðeins SH stóð þar utan. Árin á eftir kom reglulega upp sú umræða að sameina skyldi SÍF og SH en úr því varð aldrei (Knútsson og Gestsson, 2006). Upp úr þessu urðu svo enn frekari breytingar á skipulagi SÍF. Árið 2005 var Iceland Seafood Corp, sem var dótturfélag SÍF sem hélt utan um framleiðslustarfsemi í Bandaríkjunum, selt til íslenska fyrirtækisins Sjóvíkur (SÍF selur Iceland Seafood Corporation, 2005). Síðar sama ár var meirihluti Iceland Seafood International (ISI), sem var dótturfélag SÍF á Íslandi sem sá um hefðbundin sölu- og markaðsstörf, selt til íslenskra aðila. ISI er enn í íslenskri eigu og starfandi hérlendis, þá er ISI eigandi Islandia vörumerkisins sem það notar enn á saltfiskmörkuðum (SÍF selur Iceland Seafood International, 2005). Árið 2006 skipti það sem eftir var af SÍF um nafn og varð Alfesca sem sérhæfði sig í framleiðslu neytendavara úr sjávarfangi og átti verksmiðjur í Englandi, Frakklandi og á Spáni (SÍF verður Alfesca, 2006), það heitir í dag Labyrie Fine Foods og er í erlendri eigu.

20

Sameiginleg markaðssetning í sjávarútvegi  

12 ECTS eininga lokaverkefni til 180 ECTS eininga B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri. Höfundur: Sindri Már Atlason