Page 29

að selja afurðir undir vörumerkjum verslunarkeðja. Sumir saltfiskverkendur völdu þá leið en SÍF valdi að fjárfesta í markaðssetningu undir vörumerkinu Islandia. Pökkunarverksmiðjan var lögð niður árið 1990 en þá keypti SÍF franska fyrirtækið Nord Morue. Fyrirtækið framleiddi saltfiskafurðir fyrir stórmarkaði í Frakkalandi og víðar í Mið-Evrópu og aflaði SÍF þannig þekkingar á framleiðslusviðinu auk sambanda í smásölugeiranum. Eftir þau kaup framleiddi Nord Morue vörur undir merkjum Islandia og jók þannig sýnileika þess í matvöruverslunum (Valdimar Unnar Valdimarsson og Halldór Bjarnason, 1997b). Nánar er fjallað um vörumerki í kafla 2.3. Upp úr 1990 hóf ráðuneytið að veita fleiri smærri fyrirtækjum útflutningsleyfi fyrir saltfisk. Þá höfðu fiskverkendur tekið upp á því að flytja ísaðan fisk til Bretlands og Danmerkur þar sem hann var saltaður og seldur inn á saltfiskmarkaði sem íslenskur saltfiskur og spilaði það hlutverk í þeirri ákvörðun þáverandi ráðherra, Jóns Baldvins Hannibalssonar. Lykilþáttur í afléttingu útflutningstakmarkana var hinsvegar EES samningurinn sem gerður var meðal EFTA landa og Evrópusambandslanda. Þar er kveðið á um frjálst flæði vöru og þjónustu á milli aðildarlanda og varð sá samningur til þess að í janúar 1993 var útflutningstakmörkunum á saltfisk endanlega aflétt (Knútsson og Gestsson, 2006). Á árunum 1990 til 1993 var rekstraform SÍF tekið að valda erfiðleikum í samkeppni þar sem það gerði ákvörðunartöku hæga og erfiða. Árið 1991 fékk félagið heimild til aukins frelsis og gat þá meðal annars selt afurðir fyrirtækja sem ekki voru aðilar í SÍF og gat auk þess selt fiskafurðir aðrar en saltfisk. Það var svo í kjölfar erfiðleika sem meðal annars mátti rekja til minnkandi botnfiskafla að árið 1993 var tekin ákvörðun um að SÍF skyldi gert að hlutafélagi.

Hluta í

hinu

nýja SÍF

hf.

eignuðust

eigendur

gamla

samvinnufélagsins í hlutfalli við eign sína í því félagi, eigendur voru þá um 700 þar sem sá stærsti fór með 4,71% eignarhlut. Miklar áherslubreytingar áttu sér stað næstu ár og óx fyrirtækið mikið með kaupum á fiskvinnslum bæði í Evrópu og Norður-Ameríku. Árið 1997 var SÍF hf. skráð á markað og var á þeim tíma stærsti saltfiskseljandi í heiminum með um 16% markaðshlutdeild (Knútsson og Gestsson, 2006).

19

Sameiginleg markaðssetning í sjávarútvegi  

12 ECTS eininga lokaverkefni til 180 ECTS eininga B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri. Höfundur: Sindri Már Atlason