Page 27

útflutningsskatti á sjávarafurðir, miðað við FOB verð (Arnór Sigurjónsson, 1945). Þegar fiskimálanefnd hóf störf voru aðeins starfandi tvö hraðfrystihús á Íslandi. Annað var Sænsk-íslenska frystihúsið og hitt var frysihús Ingólfs Esphólín. Frystihús Esphólíns var mun mærra í sniðum en þar var fiskur frystur í umbúðum og þótti betri vara en pækilfrystur fiskur Sænsk-Íslenska frytihússins. Fiskimálanefnd hafði strax mikinn áhuga á því að auka veg frystingar á fiski og vann á næstu árum mikið starf í uppsetningu frystihúsa og kennslu vinnubragða sem og í markaðsleit og sölumennsku (Arnór Sigurjónsson, 1945). Árið 1935 festi fiskimálanefnd kaup á frystihúsi Ingólfs Esphólíns og réði hann í vinnu við að leiðbeina við uppsetningu búnaðar og kenna hraðfrystingu. Ári síðar var Hraðfrystistöð Fiskimálanefndar svo flutt í stærra húsnæði í Ísbirninum og sótti fiskimálanefnd þekkingu til Bandaríkjanna til þess að þróa frystiaðferðir sínar. Eftir þetta tók hraðfrystihúsum að fjölga hratt. Á árunum 1936 til 1944 lánaði fiskimálanefnd fé til uppsetningar 47 frystihúsa og veitti loforð fyrir 3 til viðbótar auk þess sem reist voru frystihús á vegum kaupfélaga, gerði það heildarfjölda frystihúsa í landinu 62 (Arnór Sigurjónsson, 1945). Þessi frystihús störfuðu eftir gæðastöðlum sem settir voru af fiskimálanefnd og í skýrslu Arnórs Sigurjónssonar um störf fiskimálanefndar (1945) má finna eftirfarandi lýsingu af því hvernig rekjanleiki var tryggður: „Framleiðslunni var hagað þannig, að hver frystistöð hafði sitt sérstaka merki eða auðkenni á hverjum pakka, og hver pakki hafði auk þess sérstakt númer, svo að rekja mátti hverja skemmd eða galla, er fram kom á vörunni, til þess starfsmanns, er pakkinn hafði búið út og handfjallaði. Um þetta allt hafði fiskimálanefnd að sjálfsögðu alla forystu, og sú forysta fór að mestu leyti um hendur skrifstofu og frystistöðvar nefndarinnar.“ Fiskimálanefnd setti ýmis skilyrði fyrir lánveitingum til uppsetningar frystihúsa. Eitt þessara skilyrða var að höfð væri samvinna við nefndina um sölu framleiðslunnar. Þetta var upphaf Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna (héðan í frá SH) sem fór með sölu-, markaðs- og gæðamál frystihúsanna (Arnór Sigurjónsson, 1945). Um SH er fjallað nánar í kafla 2.1.4.

17

Sameiginleg markaðssetning í sjávarútvegi  

12 ECTS eininga lokaverkefni til 180 ECTS eininga B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri. Höfundur: Sindri Már Atlason