Page 1

Heimurinn er hér > Dagbók Háskólinn á Bifröst > HHS > Þróunarhagfræði Kennari > Dr. Magnús Árni Magnússon Nemandi > Sigurður Kaiser


Háskólinn á Bifröst | Félagsvísindasvið HHS |  Sumar 2014 Þróunarhagfræði |  Dagbók Kennari: Dr. Magnús Árni Magnússon Nemandi: Sigurður Kaiser

Heimurinn er hér Námið í þróunarhagfræði hefur verið einstaklega áhugavert og spennandi og snertir á mörgum mikilvægustu spurningum samtímans. Námið fjallar um hvernig alþjóðasamfélagið er að þróast og hvaða lausnir eru í sjónmáli fyrir þann hluta mannkyns sem býr við kröpp kjör. Spurningarnar og viðfangsefnin eru með okkur daglega, m.a. í fréttum og á netinu, en vandamálin eru samt fjarlæg í vernduðu umhverfi. Því er mikilvægt að kanna vel aðstæður, greina þær upplýsingar sem fyrir liggja og leita lausna, m.a. við þeirri spurningu hvers vegna ekki gengur betur í baráttunni við fátækt í þróunarlöndunum. Baráttan hefur verið háð af allflestum þjóðríkjum heims og ríkjasamböndum, í gegnum fjölmargar stofnanir og alþjóðasamtök, en einnig af óháðum samtökum með þátttöku almennings. Miðað við framlög til þróunarsamvinnu og opinberrra alþjóðastofnana, en ekki síður til óopinberra góðgerðarsamtaka (e. NGO's), mætti ætla að mjög ríkur vilji væri til þess meðal háþróaðra þjóða, að leysa vandamálin sem hafa skapast vegna fátæktar, koma á jöfnuði meðal þjóðríkja og lyfta þannig fátækasta hluta mannkyns, meira en milljarði jarðarbúa, upp úr ofsafátækt. Efnahagslegt umfang baráttunnar og tengdra geira er gríðarlegt enda mikið í húfi og alþjóðlegur þjónustuiðnaður hefur í raun orðið til sem sinnir þróunaraðstoð. Verkefnið virðist endalaust – og er það í raun. En hvers vegna? Jú, því þrátt fyrir stóra áfangasigra á liðnum árum verða ný lönd og landsvæði fátækt sífellt að bráð hvort sem er í kjölfar atburða af mannavöldum eða náttúruhamfara. Nægir þar að nefna fjölgun umhverfisflóttafólks vegna loftslags- og veðurfarsbreytinga í kjölfar hlýnunar jarðar og eitt stærsta óleysta flóttamannavandamál sem mannkynið hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir; flóttinn vegna yfirstandandi borgarastyrjaldar í Sýrlandi. Í því tilfelli, hefur allt að níu milljónum íbúa Sýrlands, verið kastað niður í ginnungargap fátæktar og allsleysis. Aðstæður þar eru skelfilegar og það sorglega er, að þær eru alfarið tilkomnar af mannavöldum. Í þessari dagbók verður farið yfir námskeiðið í tímaröð og hvaða málefni voru til umfjöllunar, sem og hugleiðingar mínar og þann lærdóm sem draga má af náminu. Fréttir sem þóttu áhugaverðar í beinum eða óbeinum tengslum við námsefnið, er einnig fjallað um.   Þróunarhagfræði | Dagbók

2


DAGUR I, 26. maí 2014 | Hvað er þróunarhagfræði? Ánægjulegt var að mæta til leiks í fyrsta tímann í þróunarhagfræði (e. Development Economics) eftir þriggja vikna törn í kynjafræði. Í fyrsta tímanum var farið yfir viðfangsefni námskeiðsins og helstu hugmyndir og þær kenningar sem við komum til með að kynnast á þessum þremur vikum sem framundan eru. Ég hafði keypt námsbókina, Economic Development, fyrir nokkru, en hafði ekki tök á að hefja lestur fyrr en á allra síðustu dögum. Fyrsti kaflinn lofar mjög góðu, bókin er stútfull af upplýsingum og vönduðu efni um stóru línurnar í þróun heimsmála. Jafnframt eru tekin mýmörg raunveruleg dæmi um stöðu ríkja og samfélaga, svæða og álfa og þau skoðuð með gleraugum hagfræðinnar og þeirra alþjóðlegu efnahagslegu mælitækja sem þekkt eru. Skipta má þróunarhagfræði í tvennt; a) að greina vandamálin innan þróunarríkja með bestu fáanlegu upplýsingum og aðferðum hagfræðinnar og b) að greina úrræði til umbóta á macro og/eða micro skala. Í þróunarhagfræði eru stóru lausnirnar til umfjöllunar og er fagið líklega sú grein hagfræðinnar þar sem hægt er að gera hvað mest gagn ef rétt er á málum haldið – nú eða ógagn ef rangar ákvarðanir eru teknar. Helstu spurningar sem reynt verður að svara á námskeiðinu eru; 1. Hvaða efnahagslegu þættir knýja áfram hagvöxt og þróun? og 2. Hvaða skipulagslegu og uppbyggingarlegu eiginleikar einkenna þróunarlönd? Sérstaklega var áhugavert að kynnast og lesa um kenningar nóbelsverðlaunahafans Amartya Sen, um að hæfileikar og eiginleikar hvers og eins eigi að fá að njóta sín betur í samfélaginu. Ég tengi vel við þessar hugmyndir, enda aldrei passað í kassa og vil helst vera langt utan við þann ramma sem mér er settur hverju sinni, hvort sem um er að ræða í   Þróunarhagfræði | Dagbók

3


náminu eða í lífinu almennt. Slíkt hefur auðvitað bæði kosti og galla, en hugmyndin um að hæfileikar hvers og eins nýtist, til þess að allir fái notið sín og geti blómstrað, er heillandi. Að mati Sen er það, hvað hver og einn er (e. being) og gerir (e. doing) afgerandi mælikvarði á hvort viðkomandi er virkur þegn, eigi þannig möguleika á því að virka vel. Með því að opna með markvissari hætti á fjölbreytta eiginleika einstaklinga, verði framfarirnar hvað mestar og á forsendum fólks, en ekki fyrirtækjasamsteypa. Þróun, í huga Sen, er ferli, þar sem raunverulegt frelsi fólks til athafna eykst. Sen hefur einnig skoðað möguleikana á því að nýta aðrar leiðir til þess að mæla stöðu samfélaga, m.a. hamingju fólks, virkni þess og hversu frjálst það er til þess að eiga raunverulegt val um hvert stefnir í lífinu. Sannarlega áhugaverðar hugmyndir og þó óskylt sé, ekki langt frá nýjum hugmyndum um hvernig meta beri starfsgetu fólks innan velferðar og tryggingakerfisins hér á Íslandi. Lögð verði áhersla á hvað hver og einn getur lagt fram, í stað þess að fókusa á það sem viðkomandi getur ekki, t.d. þegar meta á hæfni viðkomandi. Í stað örorkumats verði starfsgetumat lagt á þá sem aðstoð þurfa, þannig verði unnið með getu hvers og eins, ekki vangetu. Í upphafi dags kom fram hversu gríðarmikill ójöfnuður milli fólks og þjóða er í raun og veru, eitthvað sem maður heyrir um daglega, en þegar tölur og upplýsingar eru settar fram og bornar saman með skýrum hætti, er ljóst að ástandið er grafalvarlegt. Ekki síst hversu munurinn er víða mikill innan þjóðríkja, ekki einungis á milli þeirra. Fátækt, eða ofsafátækt, er klárlega eitt stærsta og umfangsmesta vandamál sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir. Og þetta er staðreynd, þrátt fyrir að stöðug og að mörgu leyti markviss alþjóðleg barátta við fátækt og ójöfnuð hafi verið háð um áratugaskeið. Hvers vegna ekki gengur hraðar að kveða niður draug ójöfnuðar og fátæktar verður áhugavert að reyna að fá svör við á námskeiðinu. Ekki vantar náttúrauðlindir né fjármagn í heiminum, en dreifing gæðanna er hinsvegar verulega ósanngjörn og ójöfn. Alþjóðasamfélagið er þannig verulega stéttskipt og þjóðríkin misvel í stakk búin til þess að taka á vandamálum sem fátækt og ójöfnuður kalla fram innan landamæra þeirra, en líka þvert á landamæri. Baráttan gegn fátækt virðist því viðvarandi fyrir mannkynið, vilji það á annað borð þróast sem ein heild, sem fjölskylda. Nú virðist almennt viðurkennt, að til þess að berjast gegn langvarandi fátækt, verður að ráðast að rótum vandans innan samfélaga. Þessu megi ná fram með uppbyggingu lýðræðislegra stofnana, bættu heilbrigði, aukinni almennri menntun, innleiðingu nýjustu tækni, áherslu á jafnrétti í sem víðtækustum skilningi og með skýrum fókus á umhverfisvernd og sjálfbærni. Ekki dugi t.a.m. að „dreifa“ því fé sem safnast til góðgerðarmála jafnt yfir samfélög og þegna sem í vanda eru staddir hverju sinni, heldur beri   Þróunarhagfræði | Dagbók

4


að verja fjármunum í heildstæðar áætlanir um aðstoð, þróun og uppbyggingu – með skýrum og mælanlegum markmiðum, jafnvel árangurstengdum. Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) eru miðpunktur þess þróunar- og mannúðarstarfs sem ríki heims hafa skuldbundið sig til að inna af hendi og hefur þeim verið falið að framkvæma verkefnið. Þróunarsamvinnustofnun SÞ hefur það hlutverk að aðstoða þróunarríkin við að berjast gegn fátækt, byggja upp stofnanir og koma í veg fyrir átök. Starf SÞ fer þó að öllu fram í samstarfi við stjórnvöld viðkomandi landa og það getur skapað togstreytu innan ríkjanna. Í dag var fjallað um þúsaldarmarkmið SÞ (MDG) sem samþykkt voru árið 2000 og áttu að nást fyrir 2015. Markmiðin eru: 1) Útrýma ofsafátækt og hungri, 2) tryggja almenna grunnmenntun allra, 3) stuðla að jafnrétti og valdefla konur, 4) draga úr ungbarnadauða, 5) bæta heilbrigði barnshafandi kvenna, 6) berjast gegn alnæmi (HIV/AIDS), malaríu og öðrum smitsjúkdómum, 7) tryggja sjálfbærni í umhverfismálum og 8) þróa enn frekar alþjóðlega þróunarsamvinnu. Markmiðin eru afar metnaðarfull, sums staðar og á sumum sviðum hefur sem betur fer verulegur árangur náðst, á öðrum sviðum ekki. Velta má fyrir sér hvort þróuðu löndin hafi þannig viðurkennt ábyrgð sína gagnvart þróunarlöndunum? Það sé einfaldlega skylda ríkra þjóða að styrkja hinar fátækari? Velta má fyrir sér hvort ábyrgðin hafi þannig verið samfélagsvædd, með því að lögbinda ákveðið hlutfall skatttekna til þróunaraðstoðar. Aðstoðin séu þær skaðabætur sem viðkomandi þjóð telur sig skuldbundna til að greiða. Eða er einungis verið að senda fjármuni vegna þess að þjóðin metur það svo að hún sé aflögufær? Hlutfallið tekur mið af alþjóðlegu viðmiði SÞ – sum ríki fara eftir viðmiðinu, önnur ekki. Ísland er t.d. langt á eftir og við verjum mun minni fjármunum hlutfallslega til þróunaraðstoðar en önnur ríki sem við viljum bera okkur saman við. Lítið hefur farið fyrir umræðu hér heima um hvort aðstoðin sé í raun skaðabætur vegna vanrækslu fyrri kynslóða, endurgreiðsla fyrri aðstoðar, eða hvort um sé að ræða ölmusu ríku landanna – og því beri Íslendingum að taka þátt. Við Íslendingar ættum þó að hafa hugfast, að fyrir aðeins nokkrum áratugum vorum við þiggjendur slíkrar neyðaraðstoðar. Í raun einnig í kjölfar hrunsins 2008, en hagkerfið var betur í stakk búið þá til að takast á við áföllin sem hrunið framkallaði, í samanburði við tímann eftir seinna stríð. Markmið námskeiðsins eru að geta metið raunverulegar aðstæður í þróunarlöndum og mátað þær við helstu kenningar, kunna skil á helstu þáttum þróunarhagfræði og samspili þeirra og að skilja og geta notað efnahagslega mælikvarða við greiningu á vandamálum. Þessum fyrsta degi var vel varið og framsetning á uppbyggingu og skipulagi námskeiðsins, sem og lærdómsmarkmiðum, skýr af hálfu okkar góða kennara. Hlakka til framhaldsins.   Þróunarhagfræði | Dagbók

5


DAGUR II, 27. maí 2014 | Samanburður á stöðu þróunarríkja Í dag ræddum við stöðu þúsaldarmarkmiða SÞ, hvort þau væru yfir höfuð mikilvæg eða nauðsynleg, hver forgangsröðunin ætti að vera og hvort alþjóðafjármálakreppan hafi sett strik í reikninginn. Með þessari nálgun SÞ – sértækum og mælanlegum stuðningi – hefur víða tekist vel til við endurreisn samfélaga, lægstu tekjuhópunum hefur verið lyft upp í millitekjuhópa og ofsafátækt minnkað, þó enn sé langt í land, ekki síst þar sem lítið lát er á fólksfjölgun, einna helst í þróunarlöndunum, á þeim svæðum sem mesta aðstoð þurfa. Einnig var farið yfir þá þætti sem þróunarlöndin eiga sameiginlega og efnahagslegar skilgreiningar og flokkun þeirra skv. þekktum alþjóðastöðlum. Flokkarnir eru fjórir skv. Alþjóðabankanum; lágtekjulönd (LIC), lægri-millitekjulönd (LMC), efri-millitekjulönd (UMC) og hátekjulönd (HIC). Mælikvarðarnir eru þjóðarframleiðsla á hvern íbúa (GNI per capita) og innanlandsframleiðsla á hvern íbúa (GDP per capita). Kaupmáttur (PPP) er einnig mælikvarði sem hægt er að nota til samanburðar á innkomu og afkomumöguleikum íbúa milli landa, en þá þarf að rétta af fyrir verðlagi og nota samanburðarhæfar vörur eða þjónustu. Þróunarvísitalan (HDI) er mælikvarði sem nýttur er til þess að meta stöðu íbúa ríkja, en hún er samsett úr þremur þáttum; lífslíkum við fæðingu, þekkingu íbúa eftir læsi og skólasókn og lífsgæðum eftir kaupmætti. Þróunarvísitalan getur þó verið misjöfn innan ríkjanna, t.d. allt önnur í stórborgum en á landsbyggð, eða á milli þjóðfélagshópa. Einnig kynntumst við nýju þróunarvísitölunni (NHDI) frá árinu 2010. Þá var farið nokkuð ítarlega í einkenni þróunarlanda. Ljóst er að þau eiga marga sameiginlega þætti þrátt fyrir gríðarlega fjölbreytni hvað varðar m.a. stærð, fólksfjölda, auðlindir og efnahagslega stöðu.   Þróunarhagfræði | Dagbók

6


Það er góð hugmynd frá kennara okkar að horfa saman á innspírandi fyrirlestra eða myndbönd, og verður slíkt á dagskrá daglega. Myndböndin auka skilning, setja tölulegu upplýsingarnar í nýtt samhengi og bæta oft miklu við námsefnið. Í TED-fyrirlestri sínum kennir ítalski frumkvöðullinn Ernesto Sirolli okkur að hlusta á íbúa þess þróunarlands og landssvæðis sem aðstoðin á að beinast að hverju sinni, í stað þess að leggja sömu mælistikuna á staðbundin viðfangsefni. Ekki reyna að leysa vandamálin í Afríku með vestrænum lausnum! Ef við viljum raunverulega hjálpa fólki til sjálfshjálpar, eigum við að þegja, hætta að þykist kunna allt best og hlusta á vilja, skoðanir og hugmyndir íbúanna. Þörf áminning sem undirstrikar að öll aðstoð verður að vera á forsendum heimafólks. Í lok dags fórum við yfir stórborgarþróun og þá miklu fjöldaflutninga frá dreifðari byggðum til borganna. Þróunin er hröð og nýjar súperborgir spretta upp eins og gorkúlur. Fólksfjölgun er jafnframt hröð, ekki síst í þróunarlöndunum, þar sem fæðingartíðni er há.

  Þróunarhagfræði | Dagbók

7


DAGUR III, 28. maí 2014 | Fátækt og ójöfnuður Í dag fórum við m.a. yfir sjö mikilvægar spurningar varðandi þróun og hvernig gæðunum, auðlindum jarðar og manna er dreift. Hvaða opinberu stefnur gagnist helst í baráttunni við fátækt, hvernig ójöfnuður og fátækt tengjast, hvort ójöfnuður sé alltaf af hinu slæma, hverjir séu raunverulega hinir fátæku í heiminum, hverjir hagnist helst á hagvexti og hvort efnahagslegur vöxtur sé alltaf í þágu þeirra fátækustu. Einnig voru skoðaðir þeir helstu mælikvarðar sem nýttir eru til að mæla ójöfnuð og fátækt, s.s. Lorenz-kúrfan og GINIstuðullinn. Þá kynntumst við fjölvíðu fátæktarvísitölunni (MPI) sem Sameinuðu þjóðirnar tóku í gagnið árið 2010, sem mælir heilsu, menntun og lífsgæði. Myndband dagsins var fyrirlestur ástralska siðfræðingsins Peter Singers, sem minnti okkur á mikilvægi þess að leggja okkar að mörkum í baráttunni við fátækt og ójöfnuð. Singer telur það skyldu okkar að hjálpa, því þjáning og dauði vegna skorts á næringu, skjóli og læknishjálp, sé böl. Sé það í valdi okkar að koma í veg fyrir slíkt böl, án þess að fórna þar með einhverju sem hafi viðlíka þýðingu siðferðilega, beri okkur að gera það. Við getum komið í veg fyrir fátækt án þess að valda okkur eða þeim sem okkur eru háð verulegum skaða – þess vegna beri okkur að koma í veg fyrir fátækt. Fjarlægð okkar gagnvart þeim sem þurfi á aðstoðinni að halda skipti ekki máli og það drægi ekki úr skyldu okkar hvort aðrir séu í sömu aðstöðu eður ei – okkur beri samt sem áður að hjálpa. Það sé hinsvegar ekki hægt að áfellast nokkurn fyrir að aðstoða ekki – því aðstoðin sé góðverk. Singer segir að það jafngildi samt sem áður að bjarga ekki drukknandi barni, ef við gefum ekki til fátækra, heldur eyðum peningunum í okkur sjálf. Alla jafna gagnast ójöfnuður helst hinum ríku og   Þróunarhagfræði | Dagbók

8


valdamiklu. Viðhald meintrar efnahagslegrar valdakeðju alþjóðasamfélagsins, er fyrst og fremst í þágu ríkra og þeirra sem halda um valdataumana hverju sinni. Áframhaldandi valdsækni þeirra mun svo vafalaust skapa enn frekari ójöfnuð í framtíðinni og vandséð hvernig snúa megi af þeirri vegferð. Á þessu eru þó ánægjulegar undantekningar – um auðjöfra sem hafa gefið af eigin auði og bjargað lífi fjölmargra. Þeir telji slíkt siðferðilega skyldu. Nægir að nefna Bill og Melindu Gates og Warren Buffett sem gefið hafa háar fjárhæðir til góðgerðarmála með miklum árangri líkt og fram kom í fyrirlestri Singers. Þeirra góðgerðarsamtök hafa ekki verið sett upp í neinum öðrum tilgangi en að hjálpa fátækum, yfirbyggingin er sem allra minnst og mestallt fjármagn sem þau gefa fer beint til þeirra sem á þurfa að halda. Slík samtök eru ekki mörg, en þau hafa náð ótrúlegum árangri. Sjá infomynd af Facebook-síðu Bill Gates um ungbarnadauða, sem farið hefur minnkandi síðustu áratugi:

  Þróunarhagfræði | Dagbók

9


Ein meginspurning dagsins var hvort ójöfnuður gæti í einhverjum tilfellum verið til góðs, rökin m.a. að hætta væri á stöðnun í hagkerfinu og að ef fullkominn jöfnuður ríkti, vantaði hvatana til þess að leggja mikið á sig! Bíddu, bíddu, er þá ekki verið að leggja efnahagslega mælikvarða á allt, ekkert geti þrifist án fjármagns? Getur verið að peningar stjórni meira og minna öllu? Nú eru samfélög víðast hvar í heiminum reyndar þannig uppbyggð, að peningar eru orðnir að lífsnauðsyn. Peningar því orðnir okkar annað súrefni, nauðsynlegir til þess að lifa af. Að hafa aðgang að peningum er orðið álíka mikilvægt og að geta sinnt frumþörfunum; sofa, nærast og drekka vatn – eða næstum því. Segja má að þessi þróun hafi átt sér stað á nokkrum áratugum og hafi orðið sífellt meira áberandi síðustu ár, ekki síst hér á Íslandi. Peningadýrkun náði hér hámarki í aðdraganda hrunsins, þegar óbeisluð efnishyggja tröllreið samfélaginu með skelfilegum afleiðingum. Það er því ekki auðvelt að komast af án þess að vera hluti af peningakerfinu. Eða réttara sagt; eiga hlut í peningunum og taka þátt í veðmálinu. Hvatarnir sem peningarnir vekja eru því víða – efnishyggjan ógurlega aftur á uppleið. Lærðum við ekkert af hruninu? Einnig má velta fyrir sér hvers vegna dreifing náttúrugæða hefur ekki tekist betur en raun ber vitni. Hvers vegna ekki hafi tekist að skapa víðtæka sátt um nýtingu auðlinda í þágu allra – ekki síst í þágu þeirra sem á þurfa að halda hverju sinni. Hvaða hindranir, aðrar en græðgi þeirra sem nú hafa aðgang að auðnum, skyldu vera í veginum? Hér á Íslandi hefur ekki tekist að dreifa gæðunum með sanngjörnum hætti. Hvers vegna tekst okkur ekki betur upp í þessu litla samfélagi? Hér gætu náttúruauðlindir í þjóðareigu hæglega dugað margfalt til þess að lyfta öllum þegnum landsins upp um tekjuflokka og bæta þar með lífsgæði þjóðarinnar í heild. T.d. má velta fyrir sér hvers vegna bæði heilbrigðisþjónusta og samgöngur á landsbyggðinni hafi verið í betra ásigkomulagi fyrir nokkrum áratugum síðan. Hér hefur augljóslega eitthvað farið úrskeiðis og dreifing gæðanna mislukkast. Líklega má skrifa slíkt á fjármálavæðingu samfélagsins síðustu áratugi, þar sem aðrir þættir en uppbygging stofnana samfélagsins hafa verið í forgrunni. Sumir segja, m.a. Bono, að kapitalismi hafi hjálpað fleirum upp úr fátækt en nokkur önnur hugmyndafræði. Bono hefur reyndar sitthvað til síns máls, enda hefur honum tekist að fá helstu kapitalistana að borðinu og þeir afskrifað helling af skuldum þróunarríkja. Síðustu áratugi hafa tekjur hundruð milljóna, sem áður höfðu nánast engar, aukist. Lífsgæði hafa þokast uppávið. En ójöfnuðurinn hefur einnig aukist. Hinir ríku verða ríkari. Þeir ríkustu ofsaríkir. Þeir ofsafátæku, örlítið betur settir, en fátækir engu að síður. En skiptir nokkru máli hvort sumir séu afar ríkir, svo lengi sem allir hinir hafa í sig og á – og geti sinnt grunnþörfunum?   Þróunarhagfræði | Dagbók

10


DAGUR IV, 2. júní 2014 | Fólksfjöldahagfræði Ég gat því miður ekki mætt í tíma í dag, var örþreyttur eftir langa kosningabaráttu. Af glærum dagsins að dæma voru mörg mikilvæg mál til umfjöllunar, líkt og ávallt. Spurningar dagsins snerust að mestu um fólksfjöldaþróun, hina miklu fólksfjölgun og hvernig hægt væri að samræma aukna notkun á gæðum jarðar, þeim auknu kröfum um lífsgæði sem allir þrá. Eru þróunarlöndin í stakk búin til að taka á móti þeim síaukna mannfjölda sem fólksfjölguninni fylgir ásamt því að taka á eigin vanda heimafyrir? Hvernig munu vinnumarkaðir þessara landa bregðast við vandanum? Hvaða áhrif mun fjölgunin hafa á fátækt? Hvernig munu heilbrigðisyfirvöld þessara landa tækla þessa fjölgun, á sama tíma og gæta þarf að almennri heilsu þeirra sem fyrir eru. Getur verið að samspil sé á milli fátæktar og fjölskyldustærðar, þar sem fæðingartíðni er hærri í fátækustu löndunum? Hver þróunin verður á allra næstu árum mun hafa mikil áhrif á alla þætti þróunar- og mannúðarstarfs. Sænski heilbrigðissérfræðingurinn Hans Rosling átti svo fyrirlestur dagsins, sem ég hafði reyndar séð áður líkt og flesta aðra, þar sem ég er mikill TED-aðdáandi. Rosling fer þarna yfir fólksfjöldaþróun og fjölda fátækra síðustu áratugi, á myndrænan og fjörugan hátt. Frétt dagsins | Hvers vegna er nígerísku stúlkunum ekki bjargað? Frá Nígeríu halda áfram að berast hryllilegar fréttir um fjöldamannrán Boko Haram hryðjuverkasamtakanna, á hundruðum skólastúlkna. Í raun er óskiljanlegt, að þrátt fyrir alla þá hernaðartækni sem alþjóðasamfélagið býr yfir, að ekki hafi tekist að bjarga stúlkunum. BBC NEWS 2. júní 2014: Nigeria schools walk line between Islamic and Western traditions   Þróunarhagfræði | Dagbók

11


DAGUR V, 3. júní 2014 | Stórborgarvæðing og fólksflutningar Í dag vaknaði ég snemma og var kominn af stað uppeftir, þó eftir lítinn svefn. Áður en ég rúllaði niður í Hvalfjarðargöngin snéri ég við, því ég fann að ég var ekki nægilega upplagður. Missti þess vegna aftur því miður af tíma dagsins, en af glærunum að dæma fóru fram áhugaverðar umræður um stórborgarmyndun sem á sér stað á helstu þéttingarsvæðum heimsins, sem og þá miklu fólksflutninga sem slíkt hefur í för með sér, frá dreifðum byggðum til borganna. Þróunin er afar hröð og árið 2025 verða 30 súperborgir með meira en 10 milljónir íbúa (5 árið 1975). Nú búa fleiri jarðarbúar í borgum en dreifðum byggðum. Frétt dagsins | Stríðið í Sýrlandi Skelfilegar fréttir en ekki síður hryllilegar ljósmyndir berast reglulega frá Sýrlandi, myndir sem gætu allt eins verið frá borgum að lokinni kjarnorkustyrjöld. Eyðileggingin er algjör víða og vandséð hvernig takast megi á við endurreisn samfélagsins. Forsetakosningarnar voru marklausar, enda þær níu milljónir íbúa sem helst eru á móti núverandi forseta löngu sviptir kosningarétti. Uppgangur fjölmargra öfgahópa, sem hafa ekki endilega það markmið að taka þátt í lýðræðinu í landinu, né að koma á stöðugleika á nýjan leik, virðist fara stigvaxandi. Landið hefur farið frá því að vera tiltölulega stöðugt (þrátt fyrir að vera undir einræðisstjórn), þar sem íbúarnir lifðu sínu lífi að mestu óáreittir, í það að vera rjúkandi rúst á aðeins tveimur árum. Alþjóðasamfélagið situr aðgerðarlaust hjá, á meðan flóttamönnum fjölgar og skaðinn sem átökin hafa þegar valdið í landinu verður ekki bættur í bráð. BBC NEWS 3. júní 2014: Syria election: A ballot amid a battle   Þróunarhagfræði | Dagbók

12


DAGUR VI, 4. júní 2014 | Menntun og lýðheilsa Mættur aftur! Í dag fórum við yfir afar áhugavert viðfangsefni og víðtækt sem er í raun grunnurinn að þróun og uppbyggingu samfélaga; Human Capital samanstendur af þekkingu og heilbrigði íbúanna. Samfélag er í raun ekki annað en íbúarnir, fólkið sem þar býr á hverjum tíma. Virðisaukningin sem samfélagið nýtur ef fjármagni er markvisst veitt í grunnmenntun og langtíma, viðvarandi heilsu íbúanna er ótvíræð. Því hljóta þessir þættir að skipta miklu máli þegar kemur að því að forgangsraða þróunaraðstoð. Að byggja upp skóla og menntakerfi, þar sem það skortir og að styrkja almenna menntun þar sem henni er ábótavant, t.d. með því að þjálfa og mennta kennara og skólastjórnendur. Að byggja upp heilsugæslu og sjúkrahús, þar sem slíkar stofnanir eru ekki til staðar og að mennta og þjálfa lækna og heilbrigðisstarfsfólk svo takast megi á við staðbundin heilsufarsvandamál. Þessir tveir þættir kallast svo á og vinna saman að bættum lífsgæðum fólksins; gott heilbrigði hefur áhrif á skólasókn og heilsuhraustir nemendur eru betri námsmenn. Ekki dugi að auka tekjur, því rannsóknir hafi sýnt að slíkt þurfi ekki að leiða sjálfkrafa til aukinna fjárfestinga í menntun barna, en tengja megi heilsu móður beint við heilbrigði barna, óháð tekjum. Einnig eru bein tengsl milli almennrar grunnmenntunar og hærri tekna síðar á lífsleiðinni, sem og framhaldsmenntunar. Barnaþrælkun, eða vinna barna og unglinga er víða stunduð, en einnig víða bönnuð og ein leið til þess að sporna við henni er að senda fleiri börn í skóla, sbr. þúsaldarmarkmið SÞ um almenna grunnmenntun allra. Barnaþrælkun er í raun ein birtingarmynd fátæktar og því óumflýjanleg á sumum þróunarsvæðum. Meðan staðan er slík, er nauðsynlegt að fylgjast með stöðunni og aðstæðum barna sem stunda vinnu, stuðla að því að ákveðið stuðningsnet sé til staðar og reyna að koma í veg fyrir frekari misnotkun.   Þróunarhagfræði | Dagbók

13


Breski prófessorinn, Richard Wilkinson, hefur í áratugi rannsakað lýðheilsu og áhrif ójöfnuðar og félagslegra þátta á heilbrigði einstaklinga, en ekki síður samband versnandi heilbrigðis og aukins ójöfnuðar á Vesturlöndum. Wilkinson hefur komist að því að afgerandi fylgni sé á milli flestra stærri þátta lýðheilsu (t.d. heilbrigðis, glæpa, trausts í samfélaginu) og ójöfnuðar. Samfélög þar sem jöfnuður ríki, þar sem minna bil sé á milli hinna ríku og þeirra fátæku, séu hamingjuríkari og almennt heilbrigðari samfélög. Fátækt hafi löngum verið talin helsta breyta hvað varðar félagslegt óheilbrigði, s.s. vegna smitsjúkdóma, glæpa, offitu og ótímabærra þungana, en rannsóknir Wilkinson sýni að samfélagsheilsa hafi ekki beina tengingu við landsframleiðslu. Ójöfnuður skipti mun meira máli og hafi áhrif á alla þætti mannlegs samfélags, t.d. geðheilbrigði, ofbeldi og ásókn í fíkniefni. Jafnframt megi tengja lífslíkur við ójöfnuð og óttann við að hafa ekki nægilega sterka félagslega stöðu. Rannsóknirnar sýni að heilbrigði samfélaga sé ekki bundið eingöngu við efnahagslegan vöxt, heldur hvernig manneskjur komi fram hver við aðra, hvað skilji þær að og hvað tengi þær saman. Því skipti máli hvernig samfélög séu byggð upp og að sem mestur jöfnuður ríki. Wilkinson hefur sagt að „ef Bandaríkjamenn vilji upplifa ameríska drauminn, ættu þeir að flytja til Danmerkur.“

Frétt dagsins | Efnahagslegar áskoranir í Suður-Afríku í kjölfar kosninga Kosningar eru nýafstaðnar í Suður-Afríku og niðurstaða þeirra vakti áhuga þar sem við erum að vinna hópverkefni um svæðið sunnan Sahara eyðimerkurinnar í Afríku. BBC NEWS 9. maí 2014: South Africa election: ANC wins huge victory BBC NEWS 6. maí 2014: South Africa's economic challenges   Þróunarhagfræði | Dagbók

14


DAGUR VII, 5. júní 2014 | Landbúnaður og matvælahagfræði Matur eða matarskortur er viðfangsefni dagsins, enda beintengt þeim þáttum sem þróun samfélaga er grundvölluð á, að tryggja fæðu, fæðuöryggi og nægilegar birgðar eða aðferðir til þess að samfélögin geti staðið af sér óvænta atburði s.s. veðurfarsbreytingar, uppskerubresti, stríðsátök eða náttúruhamfarir. Matvælaverð og stöðugleiki þess er einnig mikilvægur faktor þegar kemur að því að meta hversu öruggt samfélag er, því flestir íbúar þróunarlanda eru ekki í þeirri stöðu að geta staðið af sér miklar verðsveiflur/hækkanir á matvælum, hvorki til skamms tíma, né til lengri tíma. Samfélög þurfi því að miða að því að vera að einhverju leyti sjálfbær með fæðu, þó það geti reynst erfiðara og erfiðara nú á tímum, þar sem framleiðsla hrávara er að stórum hluta á höndum fárra aðila sem stýra að miklu leyti markaðnum. Þó er þetta ekki algilt og í einstaka greinum er næg og heilbrigð samkeppni. Það kemur nokkuð á óvart að í þróunarlöndunum virðist staðan vera þannig að stærra hlutfall tekna fer í mat, en í háþróuðum ríkjum, en sú virðist raunin. Mestu áhyggjurnar hljóta þó að snúa að þeim stóra hluta mannkyns sem lifir við fátæktarmörk og hefur varla í sig og á, sem og þeim rúmlega milljarði sem er vannærður, lifir í ofsafátækt og á fáar leiðir uppúr því ástandi, er fastur í vítahring fátæktar og vonleysis og leggst til hvílu á kvöldin, svangur. Viðvarandi hungursneyð hrjáir í raun þennan hluta mannkyns og varanleg lausn ekki í sjónmáli. Með hungri og vannæringu kemur orkuleysi, versnandi heilsa, vangeta til vinnu eða skólasóknar og möguleikar til bættra lífsgæða og félagslegrar stöðu fara sífellt versnandi. Þetta eigi ekki hvað síst við þá þjóðfélagshópa sem eru viðkvæmari fyrir, sérstaklega konur og börn á þeim svæðum sem nú þegar eru verst sett. Bitni því helst á þeim sem eiga þegar um sárt að binda.   Þróunarhagfræði | Dagbók

15


Lausnir og umbótatillögur finnast þó í myndbandi Alþjóðabankans, sem sýnir vel með orðaleik og teiknimyndum, hversu alvarlegt vandamálið er. Ein lausnin er fjárfesting í betri og markvissari landbúnaði. Einnig er stuðningur við smærri bændur og býli talinn mikilvægur, sem og að smærri bændur myndi tengslanet sín á milli, en líka beint við markaði – ekki ósvipað verkefni hér á Íslandi, sem kallað hefur verið „Beint frá býli“ og hefur gefið góða raun. Slíkar aðgerðir muni leiða til vaxandi umsvifa bænda og bættrar heilsu, sem og og heilbrigðari barna – sem aftur geti þá sinnt skólanum. Færri muni sofna svangir. Slíkar staðreyndir settar fram með skýrum hætti minna okkur hér á Klakanum á hversu ótrúlega heppin við erum að hafa fæðst hér, en ekki þar. Fyrir það ættum við að vera þakklát. Hlutfall kvenna innan landbúnaðar kemur á óvart, þær sinna 60-80% starfa innan geirans í Afríku og Asíu og um 40% í Suður-Ameríku. Þær vinna jafnframt lengur en karlar og þau stuðningsverkefni sem stjórnvöld hafa komið á laggirnar virðast ekki ná til kvenna. Frétt dagsins | Ímynd al-Shabab hryðjuverkasamtakanna Í Sómalíu starfa hryðjuverkasamtök, sem hafa á sínum snærum færa almannatengla og gera út á skýra ímynd, sem sjá má í fréttaskýringu BBC. Samtökin nýta sér nútímatækni og samskiptahætti, eru t.d. á Facebook og YouTube og hafa jafnframt notað Twitter. Samtökin gefa út myndbönd til þess að koma boðskapnum á framfæri, enda með alræmda fjölmiðlaog samskiptadeild. Markmið samtakanna er að koma á íslömsku ríki í Sómalíu og virðast vera að ná ágætis árangri í gegnum samfélagsmiðlana. Hvað getur maður sagt? BBC NEWS 5. júní 2014: How Somalia’s al-Shabab militants hone their image   Þróunarhagfræði | Dagbók

16


DAGUR VIII, 6. júní 2014 | Umhverfið Í dag var fjallað um umhverfismál sem vissulega tengjast efnahagsþróun órjúfanlegum böndum. Á jörðinni eru stórkostlegar náttúruauðlindir. Þau gæði jarðarinnar sem maðurinn hefur ákveðið að nýta til sinna þarfa eru grunnurinn að auðsöfnun og velmegun þess hluta mannkyns sem hefur annað hvort öðlast aðgang að þessum gæðum með lögmætum hætti, eða ólögmætum. Svo má deila um hvað sé lögmætt. Hafi spillt stjórnvöld samþykkt lög sem heimila vafasama og ósjálfbæra nýtingu auðlinda í þágu fárra, hlýtur að vera hægt að draga slíkan gjörning í efa á forsendum almannahagsmuna. En slíkt virðist erfitt og þeir sem eiga eða leigja aðgang að mestu djásnunum vernda þau eins og ormar á gulli. Freistingin um að fá hærra verð fyrir náttúrugæðin á markaði er alltaf til staðar á meðan heimilt er að versla með auðlindir eða aðgengi að þeim. Verðþrýstingur myndast og slíkt getur og hefur oft leitt til þess að auðlindin þornar upp, markaðurinn gleypir hana þangað til lítið er eftir. Vítahringur fátæktar og almennt þekkingar- og kunnáttuleysi getur einnig leitt til ósjálfbærar nýtingar auðlinda, en það þarf ekki að gerast. Oftar en ekki eru það því hagsmunir fárra og allra síst umhverfisins, sem fá að njóta arðsins að auðlindunum, ekki almenningur. Tækifærin til sjálfbærrar nýtingar auðlinda verða þó sífellt fleiri og fjölbreyttari. Ljóst er þó að dreifing náttúrugæðanna er ósanngjörn. Væri dreifingin með öðrum og jafnari hætti, þyrfti stór hluti mannkyns ekki að búa við ömurleg lífsskilyrði. Lausnin á fátækt snýst því fyrst og fremst um réttláta dreifingu náttúrugæða. Flestöll þróunarlandanna, sem mörg hver hafa ekki notið efnahagslegs vaxtar í mörg ár og upplifa því stöðnun, eiga gríðarmiklar náttúrauðlindir, en ójöfnuður og viðvarandi stéttskipting, sem og óburðugar, í sumum   Þróunarhagfræði | Dagbók

17


tilfellum ónýtar stofnanir samfélaga, gera það svo að verkum að dreifingin er óréttlát í grundvallaratriðum. Náttúran hefur fært manninum nægilega mikil gæði til margra árþúsunda. Gæði sem skipta jörðina minna máli en mannkynið. Jörðin mun lifa manninn af, hvernig sem fer. Því er það undir mannkyninu komið hversu lengi auðlindirnar nýtast og í þágu hverra; fárra eða allra. Ljóst er, að nýta mætti gæðin með réttlátari hætti fyrir fleiri, án þess að ganga svo nærri náttúrunni að; a) hún beri óafturkræfan skaða af og b) mannkynið allt njóti betri lífsgæða. Mannkynið hefur látið undir höfuð leggjast að hugsa til framtíðar og græðgi og kæruleysi hefur oft ráðið ferðinni. Nú þarf maðurinn að breyta lifnaðarháttum sínum ef hann vill lifa af. Hættum að valda náttúrunni skaða áður en það verður um seinan! Hitt stóra vandamál mannkyns og það sem útlit er fyrir að geti orðið okkur að aldurtila, er hlýnun jarðar; hækkandi meðalhitastig og síaukið magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Áhyggjurnar snúa ekki síst að þróunarlöndunum. Mótsögnin sem í því felst, að ætla að leysa efnahagsleg vandamál með hefðbundnum og gamaldags aðferðum – berjast gegn fátækt með auknum hagvexti – er að áframhaldandi efnahagslegur vöxtur þróunarríkjanna, sem og t.d. Brasilíu, Indónesíu, Kína og Indlands, mun setja enn meiri þrýsting á lofthjúpinn og auka magn koltvísýrings í andrúmsloftinu, hraða hlýnun jarðar. Þróunarlöndin, Kína og Indland, hafa verið treg til að ganga að samkomulagi um að draga úr gróðurhúsaáhrifum. Nú sé þeirra tími kominn. Vesturlönd verði að líta í eigin barm og geti vel dregið úr framleiðslu sinni. Nú eigi ríkin sem setið hafa eftir, þróunarríkin, að fá svigrúm til að stunda sína „iðnvæðingu“. Slíkt muni lyfta íbúum upp úr fátækt – hafa þar með afgerandi áhrif á baráttuna gegn fátækt. Halda þessi rök? Líklega ekki, því mannkyninu öllu er stefnt í voða með síauknu magni koltvísýrings í andrúmsloftinu. Í lok dagsins kynntum við hópverkefni okkar um Afríku sunnan Sahara (SubSaharan Africa) og fékk það fínar viðtökur. Við völdum tvö lönd til samanburðar, Sómalíu og Suður-Afríku. Einnig sköpuðust áhugaverðar umræður að lokinni kynningu. Ljóst er að þetta svæði er í hvað mestri þörf fyrir þróunaraðstoð, líkt og staða þúsaldarmarkmiða SÞ sýnir. Þarna býr fátækasta fólkið og mikilvægt að beina aukinni mannúðaraðstoð þangað. Frétt dagsins | Nauðganir á Indlandi Á Indlandi gengur nú yfir hræðilegur nauðgunarfaraldur. Kerfið og stjórnvöld, m.a. lögreglan, virðist lamað þegar kemur að því að leysa slík mál. Hvað er til ráða? BBC NEWS 30. maí 2014: The village where cousins were raped and hanged   Þróunarhagfræði | Dagbók

18


DAGUR IX, 10. júní 2014 | Auðlindabölvun Dagurinn fór m.a. í það að kynnast hinni svokölluðu auðlindabölvun, sem getur t.d. lýst sér þannig að fátækt ríki sem á nægar náttúruauðlindir, auðnist samt ekki að nýta þær með þeim hætti að efnahagurinn vænkist. Ofnýting, nú eða vannýting, skili litlu sem engu til þeirra sem mest þurfi á að arðinum og vextinum að halda. Fátækt, þekkingar- og kunnáttuleysi geri það að verkum að aulindin rennur úr greipum heimamanna til þeirra sem kunna betur með að fara, arðræna þar með íbúa landsins og skilja þá eftir með sárt ennið. Uppgötvun auðlinda í fátæku ríki getur jafnframt leitt til pólitískrar spillingar, sem aftur leiðir til enn verri stöðu þeirra sem verst eru settir í samfélaginu. Fókus stjórnvalda sem slíkt stunda, hverfur frá uppbyggingu lýðræðislegra stofnana og innviða, yfir á að þóknast þeim aðilum, fyrirtækjum eða samsteypum sem hafa gert samning um nýtingu auðlinda – oft með loforðum um bætt samfélag, sem aldrei hlutgervist. Ætli íbúar að sækja rétt sinn í kjölfar ósættis um nýtingu gæðanna, er við ofurefli að etja, fyrirtækin ráði til sín her lögfræðinga og eigi sigur vísan. BBC-heimildarmyndin Bölvun olíunnar tekur á mörgum þeim þáttum sem hér hafa verið nefndir, m.a. hvernig uppgötun náttúruauðlinda getur farið með fátæk svæði og komið efnahag þeirra úr jafnvægi. Við Íslendingar erum á hraðri leið með að verða olíuríki og margar þeirra spurninga sem fram koma í myndinni þurfum við að spyrja okkur á allra næstu árum. Þar koma m.a. til siðferðilegar spurningar varðandi nýtingu kolefna. Ljóst verður að erfitt verður fyrir stjórnmálamenn að afneita olíugróðanum og fáir verða fyrstir til þess. Þó er umræðan að hefjast og margt sem bendir til þess að hún geti orðið málefnaleg.

  Þróunarhagfræði | Dagbók

19


En er skaðinn þegar skeður? Er orðið of seint að hætta við olíuævintýrið? Er freistingin sem felst í gróðanum svo mikil að enginn mun þora í þann slag? Nú reynir á stoðir samfélagsins. Frétt dagsins | Ráðstefna um kynferðisofbeldi á stríðshrjáðum svæðum Bandaríska kvikmyndaleikkonan og aktivistinn Angelina Jolie, sem einnig gegnir stöðu mannúðarsendiherra Sameinuðu þjóðanna, opnaði í dag alþjóðlega ráðstefnu um leiðir til þess að útrýma kynferðisofbeldi á stríðshrjáðum svæðum og í kjölfar átaka. Ráðstefnan er haldin í London og William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, er gestgjafi ráðstefnunnar. Samkvæmt tölum WHO eru 150 milljónum kvenna og stúlkna nauðgað árlega í tenglsum við átök og 73 milljónum karla og drengja. Hinsvegar sé erfitt að áætla nákvæmar tölur, þar sem hræðsla við að tilkynna um slíka glæpi sé mikil. Í viðtali í tengslum við ráðstefnuna sagði Jolie algerlega óásættanlegt að stjórnvöld ríkja heims létu ofbeldi gagnvart konum og stúlkum í kjölfar stríðsátaka viðgangast. Yfirvöld hefðu engar afsakanir, því lausnirnar væru þekktar og til staðar. Ráðstefnan væri haldin til þess að upplýsa stjórnvöld um þessar lausnir og því gætu þau ekki lengur skýlt sér á bakvið þekkingarleysi. Ekki mætti nota nauðganir sem vopn í stríði, slíkt bitnaði einna helst á þeim sem enga aðild eigi að stríðum, konum og börnum, ekki síst stúlkubörnum, sem eigi sér enga viðreisnarvon, geti ekki varist slíkum árásum, né eigi möguleika á að vinna sig síðar uppúr slíkri hræðilegri reynslu. BBC NEWS 10. júní 2014: Angelina Jolie opens summit on sexual violence in war BBC NEWS 10. júní 2014: Where is sexual violence happening in conflict zones?   Þróunarhagfræði | Dagbók

20


DAGUR X, 11. júní 2014 | Erlend fjárfesting og mannúðaraðstoð Þátttaka og umsvif erlendra aðila, hvort sem um ræðir óháð góðgerðarsamtök, stofnanir eða alþjóðlegar fyrirtækjasamsteypur innan hagkerfis sjálfstæðs ríkis, geta verið viðkvæm og kalla yfirleitt á deilur, ekki síst ef um ræðir nýtingu þjóðarauðlinda. Stjórnvöld víða hafa sett sér skýrar reglur um slíkt samstarf og/eða afnot af landsins gæðum, en einnig er algengt að engar slíkar reglur séu til staðar sem oft leiðir til vafasamara og óformlegra samninga. Stórfyrirtæki séu oft á höttunum eftir ódýru vinnuafli, hugsanlega í landi þar sem eftirlit er lítið sem ekkert með starfsemi þeirra. Slíkt henti til þess að standast alþjóðlega samkeppni og arðsemiskröfu á markaði. Freistnivandi stjórnvalda við slíkar aðstæður, er að starfsemi fyrirtækisins skapar störf. Þó þau séu láglaunastörf, geti það eflt atvinnustigið í landinu og aðstoðað við að lyfta þeim sem eru á botninum uppúr sárri fátækt. Að sama skapi er mannúðaraðstoð erlendra aðila innan ríkis, einnig viðkvæm, þó af öðrum orsökum og ekki þarf að vera samasemmerki milli fjárhæða sem settar eru í hjálparstarf og þess árangurs sem næst. Þar ráða stjórnvöld ríkisins jafnframt miklu, flest aðstoð þarf að fara í gegnum þau, eða fyrirtæki og stofnanir þeim tengdum og þar reynir á lýðræðislega innviði samfélagsins. Myndband dagsins var fyrirlestur þýska heimspeksins Thomas Pogge, sem telur að Vesturlönd eigi ekki siðferðilegt tilkall til þeirra auðlinda og jarðarframleiðslu sem þau standi fyrir, heldur eigi þeir sem búi við fátækt tilkall til auðsins. Dreifa beri gæðunum með mun jafnari og sanngjarnari hætti. Pogge segir að við eigum að taka með í reikninginn með hvaða hætti misskipting auðsins sé tilkomin; hún eigi rætur að rekja til misréttis, kúgana og glæpa í fortíðinni. Og þrátt fyrir að við getum ekki borið ábyrgð á því sem forfeður okkar hafi gert, getum við ekki réttlætt það siðferðilega að við njótum ávaxtanna af syndum þeirra.   Þróunarhagfræði | Dagbók

21


Okkur beri því skylda til að bregðast við og í raun sé lausnin ekki flókin, aðeins fáein prósent af landsframleiðslu ríkustu þjóðanna þurfi að færa yfir til þróunarríkjanna til þess að lyfta fátækasta hópi jarðarbúa uppúr ofsafátækt. Lausnina vanti því ekki, heldur viljann. Pogge tekur einnig þátt í vinnu við að endurskilgreina þúsaldarmarkmið SÞ og telur að gera verði ríkari kröfur um eftirfylgni með mælanlegum og árangurstengdum markmiðum. Í lok dagsins vorum við svo heppin að fá til okkar í heimsókn, aðstoðarrektor skólans, Önnu Elísabetu Ólafsdóttur, sem hefur reynslu af mannúðar- og uppbygginarstarfi í Tanzaníu. Fyrirlestur Önnu var afar áhugaverður og innspírandi, ekki síst í ljósi þeirra fjölmörgu þátta þróunar- og mannúðarstarfs sem við höfum kynnst á námskeiðinu og mikil reynsla hennar setur hlutina – og allar tölulegu upplýsingarnar – í raunverulegt samhengi. Frétt dagsins | Efnahagsleg áhrif HM í knattspyrnu Þær fréttir berast nú frá Brasilíu að hálf þjóðin sé mótfallin því að heimsmeistaramótið í knattspyrnu fari fram í landinu, ekki síst vegna mikils kostnaðar í ljósi þeirrar erfiðu efnahagslegu stöðu sem stór hluti þjóðarinnar býr við. Innviðir landsins, heilbrigðis- og menntakerfi þurfi frekar á fjármununum að halda. Opnunarleikur mótsins fer fram á morgun á milli heimamanna og Króatíu (minnstu munaði að við Íslendingar kæmust á mótið og þá væri nú mikið fjör á Klakanum og allir í fríi – hver yrðu efnahagsleg áhrif þess?). Mikið er um mótmæli í Brasilíu og ólga, mannréttindasamtök hafa skorist í leikinn og ítrekaðar fréttir berast af spillingu innan FIFA. Í ljósi þess að í kringum slíkan viðburð ætti að vera þjóðhátíð, er fróðlegt að bera saman fréttir frá Brasilíu nú og fréttir af gleðinni sem ríkti í Suður-Afríku fyrir fjórum árum, þegar keppnin var haldin þar. Efnahagslega stuðlaði HM að mikilli uppsveiflu efnahagsins og ein ástæða ákvörðunarinnar um að halda HM þar var sögð sú að með keppninni myndi efnahagurinn fá þá nauðsynlegu innspítingu sem hann þyrfti á að halda. Nú virðist meira vera rætt um spillingu í kringum mótið, t.d. hafi heimamenn litla möguleika á að ná sér í aukapening, því allir kostunarsamningar eru við stórar alþjóðlegar fyrirtækjasamsteypur, sem hagnist á keppninni í skjóli samninga við FIFA. Og eins og myndbandið hér að neðan sýnir er andstaðan barin niður af yfirvöldum, líkt og m.a. Amnesty International og fleiri mannréttindasamtök hafa lýst áhyggjum af. BBC NEWS 11. júní 2014: Mixed World Cup emotions in Brazil YOUTUBE 7. maí 2014: Bienvenidos al mundial 2014 - Acción directa Prensa libre BBC NEWS 11. júní 2010: South Africa gripped by World Cup fever   Þróunarhagfræði | Dagbók

22


DAGUR XI, 12. júní 2014 | Er vandi þróunarríkjanna á okkar ábyrgð? Dagurinn hófst með sýningu myndbands okkar um mikilvægi þátttöku í mannúðarstarfi. Við kusum að finna sterkar ljósmyndir og klippa þær saman, ásamt tölulegum upplýsingum um stöðu þróunarmála í Afríku. Ekki var annað að sjá en samnemendur okkar sem og kennari væru hrifin af myndbandinu. Hóparnir gerðu allir áhugaverð og skemmtileg myndbönd. Þetta form kennslu er stórlega vanmetið, enda margir nemendur orðnir lagnir við myndbandagerð auk þess sem tæknin er á færi flestra með litlum tilkostnaði nú til dags. Frétt dagsins | Annað Íraksstríð yfirvofandi? Í dag bárust fréttir af því að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hafi lýst því yfir á blaðamannafundi í Hvíta húsinu að möguleiki væri á hernaðaríhlutun í Írak, svo stöðva mætti uppgang íslamskra vígasveita. Sveitirnar hafi náð tveimur borgum á sitt vald á síðustu dögum. Nú er bara að vona að íslensk stjórnvöld hafi lært af þeirri hneisu sem þátttaka Íslands í Íraksstríðinu árið 2003 var og láti vera af allri þátttöku, ef til átaka kemur. Líklega var þar um að ræða svartasta blett í sögu utanríkismála á Íslandi. Þegar slíkar fréttir berast veltir maður fyrir sér hversu miklu þurfi að kosta til, svo snúa megi þróuninni í MiðAusturlöndum við, ef ekki hefur betur tekist upp í Írak eftir 10 ára stríð og uppbyggingu. Að allir þeir gríðarmiklu fjármunir sem fóru í stríðsreksturinn, þróunaraðstoð, uppbyggingu og hjálparstarf að stríðinu loknu, hafi ekki náð að styrkja stoðir samfélagsins er sorglegt. BBC NEWS 11. júní 2014: How can militants take over Iraqi cities? BBC NEWS 12. júní 2014: Iraq conflict: All options open to fight insurgents   Þróunarhagfræði | Dagbók

23


Þróunarhagfræði | Dagbók

24

Heimurinn er hér  

Þróunarhagfræði 2014