Bragi - Ársrit Umf. Selfoss 2017

Page 65

G

yða Dögg Heiðarsdóttir próf­aði fyrst krossara þegar hún var ellefu ára. Þá hafði hún suð­að í foreldrum sínum í tvö ár eftir að hún sá mynd í Fréttablaðinu. Hún tók þátt í sinni fyrstu keppni 2012 og var það ár valin nýliði ársins hjá Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasambandi Íslands. Í sumar varð hún Íslandsmeist­aratitil sinn í mótokrossi í kvennaflokki. Gyða Dögg var svo valin akstursíþróttamaður ársins 2016 í kvennaflokki hjá MSÍ. Gyða Dögg keppir fyrir mótokrossdeild Umf. Selfoss og þjálfaði m.a. í sumar yngri iðkendur hjá deildinni.

Æfði rosalega mikið í sumar

Gyða Dögg keppti í sumar í opnum kvennaflokki en þar má keyra í hvaða hjólastærð sem er og keppendur mega vera á hvaða aldri sem er. Hún keppti á 250cc Hondu. Yfirleitt er keppnin í mótokrossi tvískipt. Fyrst er keyrð tímataka í 15 mínútur og hjólunum síðan raðað upp á ráslínu eftir því hversu góðan tíma viðkomandi er með. Þeir sem fá bestu tímana fá síðan að velja fyrst. Svo eru keyrðar 15 mínútur plús tveir hringir og sá sem endar með flest stig eftir bæði hollin vinnur. Ef tveir keppendur vinna sitt hvort hollið telst sá sem sigrar það síðara sigurvegari mótsins en stigin skiptast jafnt. Gyða Dögg var spurð hvernig sumarið hefði verið hjá henni. „Ég hef æft rosalega mikið í sumar, miklu meira en ég hef gert síðustu tímabil. Það var m.a. út af því að það kom aftur upp stelpa, sem heitir Karen Arnardóttir, en hún hafði verið frá keppnum í tvö ár. Hún var að berjast við mig um efstu sætin og ég fékk mikla keppni frá henni í sumar.“

Endaði sem Íslandsmeistari

Fyrsta mótið hjá Gyðu Dögg í sumar var á Selfossi. Það byrjaði vel og endaði með sigri. Í öðru mótinu sprakk rétt strax hjá henni að framan þannig að hún þurfti að keyra á sprungnu dekki og endaði í fjórða sæti en varð í öðru sæti í heildina. „Það var svolítið sjokk að byrja svona, sérstaklega með að þurfa að keyra á einu á hjólinu og allt sem því fylgdi. Samt gekk þetta ágætlega í sumar. Ég var samt stundum óheppin. Á Akureyri fékk ég t.d. grjót í hnéð í keppninni. Annars var þetta rosalega mikil barátta og ótrúlega gaman í sumar. Ég var oftast 3 stigum fyrir ofan Karen, en á næst síðasta mótinu vann ég báðar keppnirnar og jók forskotið um 6 stig. Síðasta keppnin endaði svo fullkomlega. Þá vann ég bæði mótóin og var frekar örugg en Karen var búin að æfa frekar mikið í þessari braut.“ Lokaniðurstaðan úr sumrinu varð sú að Gyða endaði í fyrsta sæti til Íslandsmeistara í kvennaflokki.

Æfði mikið í Bolaöldu

Gyða Dögg var spurð hvernig æfingum væri háttað hjá henni. „Ég var á námskeið hjá Ingva Birni Birgissyni sem hefur m.a. mikið keppt erlendis. Námskeiðið var á vegum VÍK í Bolaöldu, skammt frá Litlu kaffistofunni, þannig að við vorum mjög oft þar. Ef keppni var á Selfossi fórum við þangað að æfa. Við reyndum að æfa alltaf í brautinni fyrir keppnir. Pabbi er að keppa líka sjálfur og svo á ég tvö lítil systkini sem eru að hjóla líka. Þetta heldur fjölskyldunni mikið saman. Yfir sumartímann æfi ég tvisvar í viku virka daga og tek þá oftast fjögurra tíma æfingar. Svo eru keppnir um helgar og stundum æfingar. Maður reynir að æfa eins lengi á haustin og hægt er eða á meðan brautir eru færar.“ Gyða Dögg Heiðarsdóttir með krossarann sem hún keppti á síðastliðið sumar. Ljósmynd: ÖG.

Ég byrjaði þetta allt saman

En hvernig skyldi þessi mikli áhugi á mótokrossi hafa byrjað hjá fjölskyldunni?

Fjöldi viðurkenninga og verðlauna Árið 2015 varð Gyða Dögg Íslandsmeistari í opnum flokki kvenna í mótokrossi líkt og í ár. Hún var jafnframt valin akstursíþróttakona ársins 2015 og 2016 hjá Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasamband Íslands. Hún var einnig valin íþróttamaður Ölfuss 2015 og 2016. Árið 2013 varð hún Íslandsmeistari í 85cc flokki kvenna. Hún varð Unglingalandsmótsmeistari UMFÍ fjögur ár í röð eða 2012 til 2015. „Ég byrjaði þetta allt saman. Við vorum einhvern tíma að skoða Fréttablaðið og ég sá bleikan krossara sem mig langaði rosalega mikið í. Ég suðaði og suðaði í tvö ár um að fá svona hjól að prufa og þá loksins fékk ég einhvern lítinn krossara til að prufa. Þá var ég ellefu ára að verða tólf. Fyrst vorum við ekki mikið í kringum þetta almennilega, ég var mest að leika mér í einhverjum brautum og við vorum aðallega að keyra einhverja slóða. Þegar ég svo loksins var komin með rétta hjólastærð var ákveðið að setja mig á námskeið. Þá fékk þjálfarinn minn mig til að prófa að keppa og ýtti mér aðeins út í þetta. Árið 2012 var fyrsta keppnistímabilið mitt. Það ár var ég valin nýliði ársins. Þetta var svona ár þar sem ég var að prófa þetta. Ég byrjaði í kvennaflokki eða þeim flokki sem ég er að keppa í núna. Mér fannst það ekki henta mér því ég var á litlu hjóli. Flestar hinna voru á stórum hjólum þannig að þjálfarinn minn fékk mig til að prófa 85cc hjól sem oftast eru strákar á. Mér fannst sú hjólastærð miklu skemmtilegri,“ segir Gyða Dögg.

Mættu alveg vera fleiri stelpur „Við erum svona átta til tíu sem erum að keppa í kvennaflokki núna. Það mættu alveg vera fleiri stelpur í þessu. Það er samt einhver aukning hjá stelpum núna. Fyrstu mótin eru yfirleitt í maí og þau síðustu í ágúst. Það eru fimm keppnir í Íslandsmeistaramótinu yfir sumarið og svo eru stundum einhver bikarmót, Unglingalandsmót UMFÍ, skemmtikeppnir og fleira.

Pabbi fann ástæðu til að kaupa sér hjól

„Ég byrjaði í þessu sporti þegar við áttum heima í Grindavík, en við fluttum til Þorlákshafnar fyrir þremur árum. Pabbi er með mér í þessu núna og er að keppa líka. Hann var samt ekkert í þessu í fyrstu en svo þegar ég var komin með hjól fann hann sér ástæðu til að kaupa hjól líka. Hann þyrfti auðvitað að vera með mér og svona.“ Gyða Dögg segir að stefnan fyrir næsta ár sé að halda áfram í kvennaflokki. Það sé frekar ólíklegt að það verði unglingaflokkur. Þær séu ekki nógu margar. „Svo langar mig eftir tvö ár að reyna að komast út. Næsta sumar ætla ég að fara út og kynna mér þetta, sjá hvernig þetta er.“ Viðtal: Örn Guðna.

65

BRAGI ársrit Ungmennafélags Selfoss


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.