__MAIN_TEXT__

Page 30

FLEIRI STÖRF - BETRI STÖRF

Codland er samnefnari yfir aukna verðmætasköpun í sjávarútvegi:

MILLJARÐAR BÚNIR TIL ÚR MENNTUN OG NÝSKÖPUN Codland er klasaverkefni sem snýst um að vinna verðmæti úr aukaafurðum sem falla til í sjávarútvegi eins og til að mynda slógi. Markmiðið er að hámarka nýtingu á þorski en vonir standa til að hægt sé að tvöfalda verðmæti þorsks sem veiddur er við Ísland. Ólíklegustu vörur eru nú framleiddar þar sem íslenskur þorskur og framsækin nýsköpun eru í lykilhlutverki. Að Codland verkefninu standa sjávarútvegsfyrirtækin Vísir og Þorbjörn í Grindavík, Íslenski sjávarklasinn, Ice West, Norðurbragð og Ensímtækni, ásamt fleirum. Við setjumst niður með Pétri H. Pálssyni, framkvæmdastjóra Vísis til að hlusta á sögur frá þessu heillandi landi. „Fyrir nokkrum áratugum hófum við að þurrka hausa sem ekki var gert mikið af í þá daga og fáir sem höfðu reyndar trú á því verkefni. Nú erum við með öflugt fyrirtæki utan um þann rekstur. Codland er eins konar framhald af þeirri sögu. Við tókum þá ákvörðun að losa okkur við ákveðið vandamál sem kostaði okkur mikinn pening – að eyða slógi sem safnaðist upp,“ segir Pétur. Úr varð verksmiðja sem hefur nú hafið starfsemi. „Við erum sannfærðir um að þetta muni ganga,“ segir Pétur en næsta skref er að skipin komi með allt sem til fellur við veiðarnar

30

í land. Engu er hent - allt er nýtt. Í framhaldinu kom í ljós að hagkvæmt yrði að setja upp lifrarbræðslu samhliða og bættist þá fyrirtækið Ice-West í klasann, en sjávarútvegsfyrirtækin leggja vinnslunni til hráefni.

Samvinna skiptir máli Einn af þeim þáttum sem hjálpar til við að setja upp fullvinnslu sem þessa er græna íslenska orkan sem nóg er af á Reykjanesi. Síðan skiptir það lykilmáli að fyrirtæki með svipaða hugsun vinni saman. Pétur segir að eftir að Íslenski sjávarklasinn kom að málum hafi ekki verið aftur snúið. „Úr þessu urðu regnhlífar­ samtök sem ætla að nýta sér hráefni sem áður var hent eða nýtt í ódýrar afurðir. Nú er hugsunin sú að allt sem við höfum í höndunum fari í einn farveg og allir vinni saman. Þegar menn leika sér með tölurnar sjáum við að í raun er hægt að rúmlega tvöfalda verðmæti þorsksins,“ segir Pétur. Þetta eru alvöru tölur – 135 milljarðar króna. „Þetta byggir á þeim vörum sem er verið að framleiða í dag þannig að við erum ekkert að svífa með himinhvolfum í þeim efnum.“ Ekkert er þó enn fast í hendi. Pétur bendir á að það sé ekki hægt að tvöfalda verðmæti þorskaflans í heild á einu bretti.

En verkefnið er farið að stað. „Við byrjum rólega og stefnum hærra. Þetta er langhlaup og í þessum efnum verða menn að hafa óbilandi trú, mikla þolinmæði og afl.“ Pétur nefnir einnig að miklu skipti að ýmsar útgerðir í landinu séu að vinna margháttað þróunarstarf í fullvinnslu. „Samvinna útgerða um allt land í fullvinnslu getur skilað miklum árangri og að því vill Codland stuðla,“ segir Pétur. Klasahugmyndafræðin er heit þessa dagana en Pétur segir þetta ekki ósvipað því sem gerist í kaffistofum fyrirtækja landsins. „Þegar menn eru á kaffistofum að spjalla saman hrynja veggir.“ Það sama á við þegar fyrirtækin fara að tala saman. „Ef það kemur í ljós að þau eiga viðskiptalega samleið vinna þau saman – annars ekki.“ Codland hefur einnig hafið viðræður við Bláa Lónið og Orf líftækni um mögulegt samstarf. „Þarna getur myndast eins konar þróunarþríhyrningur með þessum tveim öflugu fyrirtækjum í nágrenninu og Codlandklasanum“, segir Pétur.

Tækifæri fyrir ungt menntað fólk Pétur segir að íslenskur sjávarútvegur þurfi á ungu vel menntuðu fólki að halda í nýsköpunarverkefni eins og Codland. Aukin eftirspurn sé eftir starfsfólki með fjölbreytta menntun og reynslu. Ungt fólk

geti í dag fengið góð störf við hæfi við að hanna, framleiða, markaðssetja og selja alls kyns vörur, bæði heima og erlendis. „Við þurfum fólk sem er með menntun sem háskólar heimsins eru að bjóða. Við þurfum matvælafræðinga, efnafræðinga, hönnuði, markaðsmenn, rannsóknarfólk og svo mætti áfram telja. Við höfum fallið á því síðustu áratugi að tala um að störfum sé að fækka í sjávarútvegi þegar staðreyndin er sú að störfum í sjávarútvegi er að fjölga. Þetta eru ekki lengur leiðinleg láglaunastörf heldur spennandi hálaunastörf sem krefjast menntunar,“ segir Pétur. „Störfin hafa verið að færast til og breytast.“

Ótrúleg verðmætasköpun Tækifærin til að margfalda verðmætasköpun í sjávarútvegi eru í raun ótrúleg. Pétur segir að hægt sé að horfa á þá möguleika sem eru til staðar eins og píramýda þar sem fóðurgerð og matvælaframleiðsla mynda grunninn en þar ofan á bætast við þættir eins og framleiðsla á heilsutengdum vörum, framleiðsla á snyrtivörum og síðan ekki síst framleiðsla á lyfjum eða efnum til lyfjaframleiðslu. „Eftir því sem sérhæfingin eykst verður magnið minna og minna en verðið hærra og hærra.“

Profile for Samtök  atvinnulífsins

FLEIRI STÖRF - BETRI STÖRF  

TÍMARIT SAMTAKA ATVINNULÍFSINS

FLEIRI STÖRF - BETRI STÖRF  

TÍMARIT SAMTAKA ATVINNULÍFSINS

Advertisement