Page 1

Samband íslenskra sveitarfélaga

Tíðindi

l. .2 tb s mar 6 201


TÍÐINDI

Lokaskýrsla fagráðs um símenntun og starfsþróun kennara Föstudaginn 10. mars sl. afhenti fagráð um símenntun og starfsþróun kennara mennta- og menningarmálaráðherra lokaskýrslu um störf sín ásamt tillögum um næstu skref.

Skýrsluna og fylgirit hennar má finna á vef fagráðsins. Þar eru einnig nánari upplýsingar um fagráðið og störf þess.

Í skýrslunni kemur fram ný framtíðarsýn um starfsþróun kennara og skólastjórnenda og lögð áhersla á kennaramenntun sem starfsævilanga menntun, að skilgreina þurfi fjármagn og aðgengilegt og skilvirkt stoðkerfi um þessa mikilvægu starfsemi. Lagt er til að ráðherra skipi samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda sem fylgi eftir tillögum fagráðsins með tilnefningum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandi Íslands, Skólameistarafélagi Íslands, Menntavísindasviði HÍ, Háskólanum á Akureyri og Listaháskóla Íslands.

Fagráð um símenntun og starfsþróun kennara var stofnað með skipunarbréfi þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra 27. febrúar 2013. Stofnun þess kom í kjölfar vinnu samstarfsnefndar um símenntun og starfsþróunar kennara sem lauk störfum í október 2012 þar sem lagt var til að stofnað yrði fagráð til að koma samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands (HÍ), Háskólans á Akureyri (HA) og Listaháskóla Íslands (LHÍ) í formlegan farveg.

2


TÍÐINDI

Samráðsfundur um opinber fjármál Fimmtudaginn 18. febrúar sl. efndi Samband íslenskra sveitarfélaga til samráðsfundar með sveitarfélögum í tilefni af því að lög um opinber fjármál nr.123/2015 eru komin til framkvæmda, en í 11. gr. laganna er fjallað um samskipti og samráð ríkis og sveitarfélaga. Fundinn sóttu um 60 fulltrúar sveitarfélaga en fundurinn fór fram á Grand hóteli í Reykjavík. Sambandið kom að mótun þessarar lagasetningar og hefur þróun og staða málsins hverju sinni verið kynnt fyrir sveitarfélögum á fjármálaráðstefnum og landsþingum undanfarin ár. Formlegt samráðsferli er nú hafið og fyrir hönd sveitarfélaga koma starfsmenn sambandsins, samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál, samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga – Jónsmessunefnd, og stjórn sambandsins, að því á ýmsum stigum. Hluti þessa ferlis er sameiginlegur fundur fulltrúa allra sveitarfélaga um málið. Fjármálaáætlun, tölulegar upplýsingar, bankaskattur og lífeyrismál meðal umfjöllunarefna

Auk þess sem farið var yfir samráðsferlið, efnisatriði væntanlegs samkomulag ríkis og sveitarfélaga um

fjármálaáætlun um opinber fjármál, og ýmsar tölulegar upplýsingar vegna framangreindra laga, var fjallað um þann hluta tekjustofna sveitarfélaga sem fellst í hlutdeild sveitarfélaga í svokölluðum bankaskatti. Einnig var farið yfir stöðu lífeyrismála opinberra starfsmanna. Framsögur um þessi mál höfðu Halldór Halldórsson, formaður stjórnar sambandsins, Karls Björnsson framkvæmdastjóri og Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs sambandsins. Miklar og fjörugar umræður fóru fram á fundinum. Góð samstaða kom fram um þann þátt sem snýr að sveitarfélögunum í samráðinu við ríkið á grundvelli laga um opinber fjármál. Á hinn bóginn voru skiptar skoðanir um bankaskattsmálið. Um lífeyrismálin var einnig rætt en ljóst er að ófjármagnaður halli A-deilda lífeyrissjóða LSR og LSS, sem sveitarfélögin bera ábyrgð á, er mikill og við honum þarf að bregðast. • Upptökur og erindi af fundinum má finna á vef sambandsins.

3


TÍÐINDI

Lokahátíðir Stóru upplestrarkeppinnar 2015-2016 veitt keppninni brautargengi í sínu umdæmi og lagt henni ómetanlegt lið, en sjálft uppeldisstarfið, ræktun upplestrarins, hefur hvílt á herðum kennara.

Lokahátíðir Stóru upplestrarkeppninnar, sem nemendur í 7. bekkjum grunnskóla vítt og breitt um landið taka þátt í, er víða einn sá viðburður í menningarlífi sveitarfélaga sem beðið er á hverju ári með mikilli eftirvæningu. Allir skólar, með um 4400 12 ára nemendur, eru árlega skráðir til verkefnisins og keppnin ávallt sett formlega af stað á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember. Þá hefst ræktunarhluti verkefnisins, sá hluti upplestrarkeppninnar sem mestu máli skiptir. Á því tímabili er lögð sérstök rækt við vandaðan upplestur og framburð í hverjum bekk og lýkur í lok febrúar. Í mars eru lokahátíðir keppninnar haldnar í hverju héraði og hafa þær verið 30- 32 í mörg ár. Þar stíga á stokk fulltrúar skólanna og lesa texta og ljóð en það er sama lesefnið hjá öllum og valið af fagfólki. Einn þáttur keppninnar er þó sjálfvalið ljóð lesaranna. En Stóra upplestrarkeppnin hefur líka sent frá sér nýjan sprota sem er Litla upplestrarkeppnin sem haldin er í í 4. bekk og byggir á sömu hugmyndafræði og sú stóra en löguð að þroska og aldri yngri nemenda. Markmiðið er að „verða betri í lestri í dag heldur en í gær“ og í því felst keppnin. Það verkefni hefur einnig náð talsverðri útbreiðslu og yfir 60 skólar víðs vegar um landið þátttakendur. Verkefnið hefur frá upphafi hlotið afbragðsviðtökur skólafólks og er sérstaklega ánægjulegt að finna hvað nemendur hafa sýnt mikinn áhuga á að leggja sig fram um að lesa upp af listfengi. Skólaskrifstofur hafa

4

Stóra upplestrarkeppnin er haldin að frumkvæði áhugafólks um eflingu tungunnar en er ekki greidd af yfirvöldum né skilgreind opinberlega sem hluti af verksviði skólayfirvalda. Vorið 2004 voru stofnuð formleg samtök, Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn, sem hafa séð um framkvæmd keppninnar frá þeim tíma. Upplestrarkeppnin er ekki “keppni” í venjulegum skilningi heldur þróunarverkefni sem um leið er stuðningur við markmið aðalnámskrár í móðurmálskennslu. Höfuðáhersla er lögð á bekkjarstarfið og að allir nemendur njóta góðs af. Þá má geta þess að forseti Íslands veitti Ingibjörgu fálkaorðuna á nýársdag 2013 fyrir að styðja og styrkja læsi í grunnskólum landsins og þar vegur Stóra upplestrarkeppnin mest. Allar frekari upplýsingar má finna á vefsvæðinu: http://upplestur. hafnarfjordur.is/.


TÍÐINDI

Breytingar á regluverki skipulags- og mannvirkjamála Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kynnt tillögur að breytingum á byggingarreglugerð sem ætlað er að styðja við áform stjórnvalda um lækkun byggingarkostnaðar. Jafnframt eru kynntar hugmyndir að endurskoðun á mannvirkjalögum og skipulagslögum, en þær breytingar eru liður í innleiðingu á framtíðarskipan húsnæðismála sem félags- og húsnæðismálaráðherra hefur forgöngu um. Þessar áformuðu breytingar á regluverkinu hafa verið til umsagnar að undanförnu og m.a. fengið rýni hjá byggingarfulltrúum sveitarfélaga og skipulagsmálanefnd sambandsins. Sambandið hefur nú, ásamt allmörgum sveitarfélögum, sent inn umsögn sína um breytingarnar. Varðandi breytingar á byggingarreglugerð tilgreinir sambandið sérstaklega að kröfur um lágmarksstærðir íbúðarherbergja séu felldar út úr reglugerðinni. Sambandið telur að hér sé um róttæka breytingu að ræða sem fylgjast þurfi grannt með hvernig reynist. Ef breytingin verður að veruleika leggur sambandið til að Mannvirkjastofnun verði falið að greina, með formlegum

hætti, hvernig hönnun á litlum íbúðum, einkum á miðsvæðum innan sveitarfélaga, muni þróast á komandi misserum. Ýmsar hugmyndir eru uppi um lagabreytingar og mælist sambandið til að þær fái heildstæða yfirferð sem skili vel ígrunduðu frumvarpi um atriði sem þarf að endurskoða í lagarammanum að fenginni reynslu. Megináhersla er lögð á að endurskoða þá kröfu að frá og með 1. janúar 2018 þurfi svokallað faggildingu til þess að byggingarfulltrúar yfirfari hönnunargögn og annist úttektir. Að mati sambandsins er um að ræða íþyngjandi kröfu sem leggst með mjög misjöfnum hætti á embættin. Skoða beri að krafan um faggildingu verði aðlöguð að umfangi framkvæmda. Þannig verði yfirferð gagna og úttektir vegna stærri verka á grundvelli faggildingar en að byggingarfulltrúar geti áfram sinnt yfirferð og úttektum vegna annarra framkvæmda með lítið breyttu sniði. Umsögn sambandsins.

5


TÍÐINDI

XXIX. landsþing fór fram í Salnum í Kópavogi en að þessu sinni verður landsþingið á Grand hóteli í Reykjavík.

XXX. landsþing sambands íslenskra sveitarfélaga XXX. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga verður haldið föstudaginn 8. apríl nk. í Grand hóteli í Reykjavík. Yfirskrift landsþingsins að þessu sinni er Umbætur og breytingar – tækifæri eða ógnanir? og verða meginumfjöllunarefni landsþingsins fjármál sveitarfélaga og húsnæðismál. Landsþingið hefst kl. 10 að morgni og stefnt er að því að þingstörfum ljúki um kl. 15:15 síðdegis. Sveitarstjórnir kjósa fulltrúa á landsþing sambandsins að afloknum

6

almennum sveitarstjórnarkosningum til fjögurra ára og gildir kosningin út kjörtímabilið, sbr. 5. gr. samþykkta sambandsins. Að þinginu loknu hefst aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. á sama stað, en þar eiga allir sveitarstjórnarmenn seturétt. Að loknum aðalfundi lánasjóðsins býður sjóðurinn til móttöku í Grand hóteli. Til aðalfundar lánasjóðsins hefur verið boðað með sérstöku bréfi frá sjóðnum.


TÍÐINDI

Jafnrétti í sveitarfélögum málþing 31. mars og námskeið 1. apríl 2016 – Grand hótel Reykjavík Þessir viðburðir eru skipulagðir með vísun til stefnumörkunar Sambands íslenskra sveitarfélaga kjörtímabilið 2014-2018 þar sem segir að sambandið skuli hvetja og styðja sveitarfélögin í því að ná fram jafnrétti kynjanna í reynd. Sérfræðingar frá sænska sveitarfélagasambandinu, SALAR, munu vera með kynningu á málþinginu 31. mars og leiðbeinendur á námskeiðinu 1. apríl. SALAR hefur um nokkra ára skeið, með fjárstuðningi frá sænska ríkinu, stutt sænsk sveitarfélög í að gera jafnréttismál sjálfbær innan sveitarfélaga. Áherslan hefur verið á að kynjasjónarmið séu samþætt inn í starfsemi sveitarfélaga og aðferðir kynjasamþættingar nýttar til að veita íbúum betri og skilvirkari þjónustu. Á málþinginu verða einnig íslenskar kynningar. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri mun segja frá því hvernig norrænt jafnréttisverkefni, sem sveitarfélagið tók þátt, var vakning fyrir aukna áherslu á jafnréttismál innan sveitarfélagsins. Birgir Björn Sigurjónsson fjármálastjóri Reykjavíkurborgar mun segja frá því hvernig borgin vinnur að hagræðingaraðgerðum út frá kynjasjónarmiðum. Krístín Ásgeirsdóttir framkvæmdastýra jafnréttisstofu mun síðan fara yfir úttekt stofunnar á stöðu jafnréttismála í sveitarfélögum og hvaða stuðning jafnréttisstofa getur veitt sveitarfélögum. Í lokin verða umræður um stöðu jafnréttismála í sveitarfélögum. Málþingið hefst kl. 13:30 og lýkur kl. 17:00.

í starfsemi sveitarfélaga og á einstökum sviðum, svo sem í skipulagsmálum, félagsþjónustu, menningarog tómstundamálum og skólamálum. Námskeiðið mun fara fram á ensku. Það hefst kl. 09:00 og lýkur kl. 16:00. Sænsku sérfræðingar hafa áratuga reynslu af því að vinna með sænskum sveitarfélögum að framgangi jafnréttismála. Það er sænska reynslan, og reyndar alls staðar viðurkennd staðreynd, að lykillinn að árangri í jafnréttismálum er skilningur og áhugi stjórnenda. Þess vegna er aðal markhópur málþingsins yfir- og millistjórnendur í sveitarfélögum, fulltrúar í sveitarstjórnum og jafnréttisnefndum og auðvitað líka starfsfólk sem fer með jafnréttis- og umbótamál. Málþingið og námskeiðið eru haldin í samstarfi við Jafnréttisstofu og jafnréttisráð með fjárstuðningi ráðsins. Í tengslum við þessa viðburði verður gefið út fræðsluhefti fyrir stjórnendur um jafnrétti í sveitarfélögum sem allir þátttakendur fá í hendur. Bæði málþingið og námskeiðið verða haldin á Grand hóteli og hægt er að skrá sig á báða viðburðina eða hvorn fyrir sig. Málþingsgjald kr. 2.500 og námskeiðsgjald kr. 5.000 Skráning, dagskrár sérfræðingana.

og

upplýsingar

um

sænsku

Á námskeiðinu 1. apríl verður farið dýpra ofan í hagnýta aðferðarfræði við beita kynjasamþættingu

7


TÍÐINDI

Námsferð fyrir sveitarstjórnarmenn til að kynna sér íbúalýðræði í sænskum sveitarfélögum Samband íslenskra sveitarfélaga býður sveitarstjórnarmönnum upp á námsferð til Svíþjóðar 29. ágúst til 1. september nk. til að kynna sér íbúalýðræði í sænskum sveitarfélögum, en þau standa mjög framarlega á því sviði í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Í Svíþjóð er áherslan á að samþætta íbúasamráð inn í ákvörðunartökuferla og beita réttum aðferðum til að ná til rétts hóps íbúa. Þessar aðferðir eru kynntar í handbókinni „Leiðsögn um lýðræði í sveitarfélögum“ sem er aðgengileg á vef sambandsins, sbr. kaflinn „Íbúalýðræði – yfir og allt um kring.“ Sænska sveitarfélagasambandið, SALAR, hefur á að skipa ráðgjöfum sem kenna og aðstoða sænsk sveitarfélög við að framkvæma íbúasamráð.

8

Hópurinn mun fá kynningar hjá íbúalýðræðissérfræðingum sænska sveitarfélagasambandsins og heimsækja sveitarfélög á Stokkhólmssvæðinu. Leitað verður eftir því að kynningar verði á ensku. Sveitarfélagið Västerås er meðal þeirra sveitarfélaga sem hefur samþykkt að taka á móti hópnum. Västerås er 100 km. fyrir vestan Stokkhólm og er gert ráð fyrir að hópurinn hafi bækistöð þar. Ýmsar áhugaverðar upplýsingar um íbúasamráð eru á vef sænska sveitarfélagasambandsins bæði á sænsku og ensku. Nánari upplýsingar veitir Anna G. Björnsdóttir sviðsstjóri hjá sambandinu, anna@samband.is.


TÍÐINDI

Niður með grímuna -geðheilsa ungmenna á Íslandi í brennidepli á ráðstefnu unga fólksins Dagana 16. - 18. mars 2016 fór fram ungmennaráðstefna UMFÍ, Ungt fólk og lýðræði, en ráðstefnan var haldin með dyggilegum stuðningi Evrópu Unga fólksins. Þetta er í sjöunda sinn sem UMFÍ stendur fyrir ráðstefnunni en markmið hennar er að styðja við lýðræðislega þátttöku ungs fólks. Að þessu sinni sóttu um 90 einstaklingar ráðstefnuna bæði ungmenni, sem starfa í ungmennaráðum víðsvegar um landið, og starfsmenn sem sjá um málefni ungmenna í sínu sveitarfélagi. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var Niður með grímuna - Geðheilsa ungmenna á Íslandi. Í byrjun ráðstefnunnar fór fulltrúi úr Ungmennaráði UMFÍ yfir stöðu mála hér á landi hvað varðar heilheilbrigðismál ungmenna og var unnið með þemað út ráðstefnuna. Í lok ráðstefnunnar var send út ályktun þar sem skorað var á stjórnvöld, jafnt ríki sem sveitarfélög, að leita meira til ungmenna og taka tillit til þeirra skoðana á málefnum samfélagsins, einkum en ekki eingöngu þeim er varða ungmennin sjálf. Í ályktuninni var fjallað um þann langa biðlista sem er eftir sér- og ítarþjónustu í heilbrigðiskerfinu og skorað á stjórnvöld að efla þjónustuna en „í lok síðasta árs voru 718 börn og ungmenni á biðlistum eftir þessháttar þjónustu,

en það eru þeir sem þegar höfðu sótt grunnþjónustu en ekki fengið.“ Einnig var í ályktuninni lögð áhersla á „mikilvægi þess að bæta og auka fjármála-, kynja- og lýðræðisfræðslu á öllum skólastigum til þess að undirbúa börn og ungmenni fyrir virka lýðræðisumræðu í samfélaginu.“ Ályktunin í heild.

Sumarhátíðir á vef sambandsins Líkt og undanfarin ár safnar Samband íslenskra sveitarfélaga saman upplýsingum um sumarog bæjarhátíðir víðsvegar um land. Vefmælingar hafa sýnt að almenningur sækir mikið í þessar upplýsingar og á vori hverju koma margar fyrirspurnir til sambandsins um hátíðir sumarsins. Sveitarfélög hafa nú þegar fengið tölvupóst þar sem þess er farið á leit að þau veiti upplýsingar um sumarhátíðir á sínu svæði, dagsetningu þeirra, heiti, hvað er til skemmtunar og hvar hægt er að fá nánari upplýsingar og eru upplýsingarnar færðar inn jafnóðum og þær berast. Almennar hátíðir, s.s. sjómannadagurinn og verslunarmannahelgi, sem og íþróttahátíðir margskonar,

komast ekki allar á viðburðardagatalið en er upplýsingum um hátíðir á sjómannadag og um verslunarmannahelgi safnað saman á einn stað.

Enn vantar nokkuð af hátíðum á vefinn okkar og eru það vinsamleg tilmæli að sveitarfélög sendi okkur upplýsingar á netfangið ingibjorg@ samband.is. 9


Gleðilega páska Örvar Þór Ólafsson nýr starfsmaður Lánasjóðs sveitarfélaga Egill Skúli Þórólfsson, sem starfað hefur í áhættu- og fjárstýringu hjá Lánasjóði sveitarfélaga hefur ákveðið að láta af störfum hjá Lánasjóðnum og hverfur til starfa í fjárstýringu hjá Íslandsbanka. Egill hefur starfað hjá sjóðnum frá haustinu 2008 og þökkum við honum samstarfið og samveruna og óskum honum alls hins besta á nýjum vettvangi. Í hans stað hefur verið ráðinn Örvar Þór Ólafsson. Örvar starfaði hjá Glitni á árunum 2004 til 2008 en hjá Marorku 2008 til 2010. Örvar var lánastjóri hjá slitastjórn Glitnis á árunum 2010 til 2014 en síðan þá hefur hann leitt sölu- og markaðsstarf á fjármálalausnum hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Kóða. Örvar er menntaður viðskiptafræðingur MBA frá Fairfield University í Connecticut í Bandaríkjunum auk þess að vera löggiltur verðbréfamiðlari. Hann er giftur Guðrúnu Árdísi Össurardóttur, fatahönnuði, og eiga þau fjögur börn. Örvar mikill útivistarmaður en í frístundum rekur hann Fjallafélagið ásamt Haraldi Erni bróður sínum.

Af menntun og störfum sínum þekkir Örvar vel til starfsemi fjármálafyrirtækja og fjármálamarkaða og hlökkum við til að vinna með honum næstu árin. Örvar hóf störf þann 1. mars sl., en Egill Skúli lætur af störfum á aðalfundi lánasjóðsins þann 8. apríl nk.

© Samband íslenskra sveitarfélaga Borgartúni 30 • Pósthólf 8100 • 128 Reykjavík Hönnun og umbrot: Ingibjörg Hinriksdóttir Ritstjóri og ábm.: Magnús Karel Hannesson 2016/12 Afritun og endurprentun er heimil svo fremi að heimildar sé getið.

Profile for Samband islenskra sveitarfelaga

Tíðindi 2. tbl., 4. árg. mars 2016  

Tíðindi af vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga

Tíðindi 2. tbl., 4. árg. mars 2016  

Tíðindi af vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga

Profile for samband
Advertisement