ÍSLANDSPÓSTUR
JAFNRÉTTISÁÆTLUN 1. MARKMIÐ 1.1. Samkvæmt lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla, (18.gr.laga nr.10/2008), er öllum fyrirtækjum og stofnunum með fleiri en 25 starfsmenn skylt að setja sér jafnréttisáætlun. Markmiðið með gerð jafnréttisáætlunar fyrir Íslandspóst er að tryggja jafna stöðu kynjanna eins og getið er í lögum. Leitast er við að allir starfsmenn fyrirtækisins njóti sömu virðingar og hafi jöfn tækifæri til starfsframa. Allir starfsmenn sitja við sama borð óháð kynferði, skoðunum, aldri, efnahag, trúarbrögðum, litarhætti og þjóðerni, kynhneigð eða stöðu þeirra að öðru leyti. Markmið og gildissvið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði. 1.2. Íslandspóstur vill tryggja að fyrirtækið sé eftirsóttur og framsækinn vinnustaður þar sem leitast er við að gera starfsmönnum kleift að þróast í starfi og nýta hæfileika sína til fullnustu. Fyrirtækið setur sér það markmið að samskipti starfsmanna einkennist af virðingu og trausti og að kjör starfsmanna séu ávallt samkeppnishæf. Áhersla er lögð á fjölskylduvæn gildi og að starfsfólki gefist kostur á sveigjanleika í starfi eftir því sem við verður komið. Jafnréttisáætlun miðar að því að tryggja jafna stöðu starfsmanna og vinna gegn kynbundnum launamun og hvers konar mismunun með markvissu forvarnar- og fræðslustarfi. Íslandspóstur leggur jafnframt áherslu á að tryggja góðan aðbúnað og öryggi starfsmanna og leitast við að leggja starfsmönnum jafnan til þann búnað sem best er til þess fallinn að þeir geti sinnt starfi sínu af kostgæfni.
2. FRAMKVÆMD OG UMFANG 2.1. Áætlun þessi tekur til stjórnkerfis Íslandspósts og starfsmanna fyrirtækisins. 2.2. Jafnréttisnefnd er skipuð af forstjóra. Hlutverk jafnréttisnefndar er að fylgjast með lögum og reglum stjórnvalda varðandi jafna stöðu kynjanna, fylgja eftir framkvæmd jafnréttisáætlunar Íslandspósts og kanna ábendingar starfsmanna og viðskiptavina með tilliti til jafnréttis. Ennfremur er nefndinni ætlað að gera jafnlaunakönnun og endurskoða jafnréttisáætlun Íslandspósts með tveggja ára millibili.
3. STARFSMANNASTEFNA 3.1. Starfsfólk fyrirtækisins er valið af kostgæfni og lögð er áhersla á að starfsmaður finni að honum sé treyst í starfi sínu. Stjórnendum ber að sýna hæfni í samskiptum, sveigjanleika, frumkvæði og jákvætt hugarfar ásamt því að ná fram samheldni og góðum liðsanda á vinnustöðum fyrirtækisins.