Page 1

NÓVEMBER 2011

FÍLADELFÍUFRÉTTIR

FÍLADELFÍU

fréttir

Fréttablað Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu Hátúni 2 Reykjavík Nóvember 2011 1. tölublað 1. árgangur

Orgelið kemur verulega á óvart „Þetta hljóðfæri kemur mér verulega á óvart. Það er svo heillegt og pípurnar svo flottar og óskemmdar. Það er eins og maður sé að vinna í nýju hljóðfæri,“ sagði Björgvin Tómasson orgelsmiður. Hann hefur nú hafið viðgerð á pípuorgelinu í Fíladelfíu. Hann byrjaði á aðalverkinu, sem inniheldur átta raddir. Pípur eru hreinsaðar, verkið yfirfarið og pípurnar svo stilltar hver um sig og hver við aðra. Björgvin sagði að orgelið hafi verið orðið ákaflega skítugt. Það er ekki að furða því það hefur hvorki verið hreinsað né yfirfarið í heild frá því það var vígt í júní 1975. Miðvikudaginn 26. október var Björgvin að stilla svonefnda mixtúru, en þá hljóma fimm mismunandi pípur saman þegar stutt er á eina nótu. Þannig koma 270 pípur við sögu í þessari rödd. Við höfum nú þegar safnað fyrir helmingi viðgerðarinnar og ríflega það. Söfnunin er komin yfir 1,8 milljónir. Það hefur verið einkar ánægjulegt að finna góðar undirtektir fólks á öllum aldri, jafnt þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu og þeirra sem búa úti á landi og vilja styðja þetta verkefni. Fíladelfía er höfuðkirkja okkar hvítasunnumanna á Íslandi og ljóst að hvítasunnumenn um allt land láta sig varða það sem þar gerist. Best væri að geta haldið verkinu áfram viðstöðulaust. Björgvin Tómasson orgelsmiður tekur allar pípurnar úr orgelinu, yfirfer allt verkið, hreinsar orgelið og stillir.

Til að svo geti orðið þurfum við að gera átak í söfnuninni. Við skulum ljúka verkefninu svo orgelið megi áfram prýða kirkjuna og tónar þess hljóma Guði til dýrðar og mönnum til blessunar og gleði eins og til var stofnað þegar orgelið var gefið í kirkjuna.Velunnarar orgelsins hafa ýmist lagt inn á reikninginn mánaðarleg framlög eða stök framlög. Við þökkum fyrir trúfesti ykkar allra og örlæti. Guð blessi ykkur fyrir það. Hreinsun, inntónun og stilling á orgelinu öllu kostar 2.650.000 krónur. Smíða þarf þrjár pípur sem voru skemmdar fyrir mörgum árum. Þær kosta samtals 390.000 krónur. Samtals kostar viðgerðin því um 3.040.000 krónur.

Guðni Einarsson

Munið söfnunarreikninginn: 0338-03-409100, kt. 540169-3739 Nánari upplýsingar veitir Guðni Einarsson, gudnieinars@gmail.com, GSM 892 4935.

Hvíta tækið ofan á nótnaborðinu virkar líkt og fjarstýrðir fingur. Þegar Björgvin er að vinna inni í orgelinu getur hann stjórnað tækinu með fjarstýringu og látið það ýta á hverja nótu fyrir sig.


NÓVEMBER 2011

FÍLADELFÍUFRÉTTIR

Nýtt fréttablað Fíladelfíu Stjórn kirkjunnar hefur undanfarið rætt mikilvægi þess að meðlimir kirkjunnar hefðu greiðari aðgang að upplýsingum um það mikla starf sem boðið er upp á sem og upplýsingum um það sem framundan er. Var ákveðið að gefa reglulega út ítarlegt fréttablað sem allir safnaðarmeðlimir hefðu aðgang að. Þar hefðu allir leiðtogar kirkjunnar tækifæri til að segja frá því starfi sem þeir bera ábyrgð á og forstöðumenn, safnaðarstjórn og öldungaráð gætu upplýst söfnuðinn um þau mál sem væru að gerjast hjá þeim. Þannig gætu safnaðarmeðlimir jafnvel haft áhrif á framvindu mála með því að koma með góðar ábendingar og athugasemdir. Fréttablaðinu var gefið nafnið Fíladelfíufréttir þar sem sú nafngift gefur góða mynd af umfjöllunarefni blaðsins. Fíladelfíufréttir verða gefnar út rafrænt og sendar í tölvupósti til þeirra sem hafa skráð netfang á skrifstofu safnaðarins en einnig verður mögulegt fyrir þá sem ekki hafa tölvupóst að nálgast það í kirkjunni. Þar sem útgáfan verður rafræn eru fá takmörk fyrir efnistökum. Safnaðarmeðlimir eru því hvattir til að senda inn efni og fyrirspurnir, annað hvort með því að ræða við undirritaðan eða með tölvupósti á fildadelfiufrettir@gmail.com. Útgáfa Fíladelfíufrétta verður í raun tvöföld. Annars vegar uppsett fréttablað til lestrar á tölvuskjánum og hins vegar textaskjal fyrir þá sem vilja prenta út blaðið án þess að eyða bleki í myndir og skraut.

2

JesúKonur og Mæður í Bæn Frá upphafi hafa JesúKonur á Íslandi hvatt konur til að rísa upp og vera þær konur sem Guð hefur kallað þær til að vera, bæði í sínu daglega umhverfi, fjölskyldu sinni og samfélaginu öllu. JesúKonur hittast einu sinni í mánuði og eiga samfélag saman. Í Reykjavík er auk þess starfandi JesúStelpu hópur sem hittist á sama tíma og JesúKonur. Það eru tvær stelpur, fyrrum nemendur MCI, sem leiða JesúStelpur. Markmiðið er að gefa unglingsstelpum tækifæri til að hittast undir góðu og heilbrigðu andrúmslofti. Þær fá kennslu um Jesú, samfélgið við hann og við hverja aðra, bæn og margt annað. Þær eru hvattar til að lifa fyrir Jesú og eignast heilbrigðar fyrirmyndir auk þess sem þær fá stuðning í málum sem tengjast unglingsárunum.

aðra og kynslóðirnar. Þetta var mögnuð stund þar sem eldri konur tóku utan um þær yngir og blessuðu þær. Á sama hátt báðu unglingsstelpurnar fyrir eldri konum. Undanfarin tvö ár höfum við hvatt konur til að vera gerendur orðsins en ekki aðeins heyrendur þess. Í kjölfar þessa fórum við af stað með Mæður Í Bæn haustið 2009. Mæður Í Bæn ganga út á það að virkja mömmur til að biðja saman fyrir börnunum sínum og skólunum þeirra. Nokkrir hópar hafa farið af stað á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Við vitum að bænin virkar og að við getum af öryggi lagt líf barna okkar í Guðs hendur. Við höfum fengið að heyra yndislega vitnisburði um það hvernig Guð grípur inní kringumstæður bæði hjá börnunum og skólunum.  Nú á haustdögum fengum við nýjan leiðtoga til að taka að

Fjalar Freyr Einarsson

FÍLADELFÍU

fréttir

Útgefandi: Hvítasunnukirkjan Fíladelfía Hátúni 2, 105 Reykjavík Stofnuð 18. maí 1936

Ábyrgðarmaður og ritstjóri: Fjalar Freyr Einarsson Hönnun og umbrot: Guðjón Hafliðason

Fyrir tveimur árum héldum við sameiginlega stund þar sem við hvöttum kynslóðirnar til að sameinast. Mikill fjöldi kvenna á öllum aldri kom. Við fræddumst um yngri kynslóðir og þau vandamál sem unglingar standa frammi fyrir í dag og við fræddumst um eldri kynslóðina. Að lokum tóku allar konurnar þátt í að blessa hverja

sér Mæður Í Bæn á Íslandi. Hún heitir Ásdís Margrét Rafnsdóttir og leiðir Mæður Í Bæn hópinn í Mosfellsbæ. Við munum halda áfram að hvetja mæður til að safnast saman og biðja því það er þrá okkar að sjá hóp fyrir hvern einasta skóla landsins. 

Erdna Varðardóttir


NÓVEMBER 2011

FÍLADELFÍUFRÉTTIR

3

Risa knús frá Argentínu Sigurður og Natalie njóta útsendinga Ljósbrotsins af samkomum frá Íslandi Sigurð og Natalie þekkja margir í kirkjunni en Natalie var ritari kirkjunnar um árabil. Þau búa nú með börnum sínum í Argentínu. Kirkjan hefur styrkt Hola! como estás?

þau úr kristniboðssjóði kirkjunnar til kirkjubyggingar þar. Nýlega sendu þau okkur neðangreint bréf en það var sent á forstöðuhjón kirkjunnar.

Hæ elsku Vörður og Ester. Héðan er allt gott að frétta, tíminn líður hratt og Leandro er orðin 7 mánaða. Victoríu gengur mjög vel í skólanum og svo er yndislegt að hafa Önnu. Mamma mín kom fyrir 3 vikum og það er bara fjör hjá okkur. Sigurður er að læra gaslagnir hjá tækniskólanum og gengur bara mjög vel svo er hann að vinna að fleirum verkefnum sem eru svona langtímaverkefni og þau miðast áfram og það er bara spennandi. Eftir að við fluttum í bæinn aftur þá byrjaði ég í nöglunum og ég er að safna mér viðskiptavinum. Kirkjan okkar er yndisleg eins og alltaf. Við Anna vorum á árlegri ráðstefnu á vegum Assemblies of God sem var haldin í Mendoza sem er fylki við Chile hún var í 4 daga. Það var ofsalega gaman og mikil blessun. Ég horfi á samkomur frá Fíladelfíu á sunnudagsmorgnum en þá er kl. 8 hjá okkur. Það er meiriháttar, svo mikil blessun og yndislegt. Takk fyrir að senda þetta út. Ég væri sko til í að gera horft á miðvikudagana líka - Helgi er frábær og auðvitað þið öll. Svo má ekki gleyma Kotmótinu , vá við vorum svo spennt hér að horfa og upplifðum alveg Kotmótsstemninguna. Við vorum límdar við tölvuna og Victoría skildi ekkert í þessu. Svo er gaman að geta horft á upptökurnar. Nú erum við með svo góða tengingu að við getum auðveldlega horft skýrt á það sem boðið er upp á. Guði sé lof. Nýverið var vinnudagur í kirkjunni en nú er verið að klára viðbygginguna. Á sínum tíma þegar Fíladelfía styrkti kirkjubygginguna var byrjað en svo var ekki gert neitt meir en nú er byrjað á fullu aftur og nú á að klára. Risa knús frá okkur til ykkar og safnaðarins. Natalie og co. Sálmarnir 34:8 Engill Drottins setur vörð kringum þá sem óttast hann og frelsar þá.


NÓVEMBER 2011

FÍLADELFÍUFRÉTTIR

4

Hvað er Kirkja án veggja? Kynning á Ljósbroti, einum af þeim þáttum í starfi Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu sem gerir hana að „Kirkju án veggja“ Hvað er Ljósbrot? Ljósbrot er myndbandadeild innan Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu. Hvert er hlutverk Ljósbrots? 1. Að dreifa fagnaðarerindinu um Drottinn vorn Jesúm Krist, í sjónvarpi og interneti. 2. Að vera tæki fyrir safnaðarmeðlimi og aðra kristna til að koma trú sinni á framfæri á myndmiðli. 3. Vera vettvangur fyrir safnaðarmeðlimi sem áhuga hafa á mynd- og hljóðvinnslu, til þess að sinna áhugamálum sínum með Kristinlegu efni. 4. Að skapa aðstöðu til framleiðslu, eftirvinnslu, fjölföldunnar og klippingar á kristinlegu efni. Hvaða verkefnum sinnir Ljósbrot? Ljósbrot tekur upp allar sunnudagssamkomur í Fíladelfiu kl. 11 og sendir beint út á internetið á filadelfia.is og á lindintv.is. Ræðan úr samkomunni er svo send út á sjónvarps stöðinni Omega á sunnu dagskvöldum kl. 20. Ljósbrot tekur upp viðtals þættina Vatnaskil og eru þeir sýndir á Omega á mánudags kvöldum kl 20. Biblíulestrarnir á miðviku dagskvöldum kl. 18 eru sendir beint út á filadelfia.is. Einnig tekur Ljósbrot upp ýmsa viðburði eins og UNG tónleika ofl.

Hvað getur Ljósbrot gert? • Framleitt auglýsingar fyrir einstaklinga og fyrirtæki. • Afritað og fjölfaldað myndefni • Unnið eftirvinnslu eins og klippingar, setja inn texta og hljóð, litaleiðrétta myndefni, hljóðsett ofl. Hver er framtíðarsýn Ljósbrots? Þrá okkar sem höfum lagt Ljósbroti lið er að halda áfram því starfi sem unnið er nú, en með jöfnum framfaraskrefum. Við telum að með því að framleiða meira af tónlistarefni, bæta útsendingar sunnudagssamkoma og biblíulestra kirkjunnar,

bæta og viðhalda tækjaeign og bæta aðstöðu starfsmanna, getum við betur þjónað því hlutverki sem Guð hefur lagt á hjarta okkar. Okkur dreymir um að endurhanna innsíðu Ljósbrots á heimasíðuni svo viðmótið verði aðgengilegra og auðveldara og við viljum auka gæði framleiðslunnar á öllu sem Ljósbrot tekur þátt í.

Margir hafa látið í ljósi þakklæti fyrir það starf sem unnið er í Ljósbroti. Áhorf á reglulegar útsendingar á netinu hefur aukist jafnt og þétt. Mælingar hjá netþjóni sýna að 150 tölvur, að meðaltali, tengjast útsendingum á sunnudögum. Reglulega er horft á útsendingarnar í u.þ.b. 4 löndum fyrir utan Ísland. Ómar Hafliðason


NÓVEMBER 2011

FÍLADELFÍUFRÉTTIR

Biblíuskólinn Í mars fóru starfsmenn og nemendur MCI til Amsterdam á MCE ráðstefnu þar. Um 150 manns voru á ráðstefnunni sem var yndisleg í alla staði og virkilega uppörvandi að sjá og kynnast nemendum annarstaðar frá Evrópu. Það er spennandi að vera þáttakandi í því sem Guð er að gera.

Strax eftir ráðstefnuna í Amsterdam var ferðinni heitið til Kongó. Lagt var af stað í 10 tíma flug til Ruanda og þaðan ekið yfir landamærin til Goma í Kongó. Ferðin var farin í samstarfi við Helge Flatöy, trúboða frá Troens Bevis í Noregi. Við byrjuðum á að halda fjögurra daga samkomuherferð í bænum í samstarfi við innfædda í kirkjunum. Kennsla fyrir leiðtoga og forstöðumenn var á daginn sem gekk vonum framar. Samkomuherferðin var mjög lítil en þrátt fyrir það frelsuðust um 150 manns og fengu gefins eftirfylgdarefnið Nýja lífið eftir Aril Edvardsen.

Hópurinn okkar bjó á Dina senteret og var mikið með stelpunum sem þar búa. Þau keyptu kjúklinga og reistu hænsnagirðingu fyrir þau og meiningin var að sá grasfræjum til að gera umhverfið fallegt en grasfræin komust ekki í tæka tíð. Þau tóku þátt í starfi stelpnanna á heimilinu og voru eins mikið með þeim og hægt var. Góðar gjafir Fyrir ferðina höfðum við fengið gefins ýmislegt skemmtilegt til að gefa heimilinu eins og fótbolta, gítara, snyrtivörur og hátalara til að hægt væri að hlusta á tónlist. Allir hlutirnir

voru vel þegnir og var strax farið að leika með fótboltana og spila á gítarana þó enginn kynni á þá. Einn daginn var ákveðið að hafa dekurdag fyrir stelpurnar á Dina senteret. Allur dagurinn fór í að snyrta og nudda og fengu allar stelpurnar á heimilinu handnudd, naglalakk og förðun og að lokum voru myndir teknar af þeim öllum. Dagurinn gekk ótrúlega vel og gleðin og kærleikurinn skein úr augum allra. Það er erfitt fyrir þann sem á allt að reyna að setja sig í spor þess sem hefur misst allt eins og margar af þeim stelpum sem búa á Dina. Þrátt fyrir það eru þær glaðar og kátar. Þær hafa eignast von og framtíð. Nemendur okkar voru oft í vandræðum með hvað þeir gætu svo sem gefið stelpunum því þeim fannst þær hafa gefið sér svo mikið. Það eina sem hægt er að gefa inn í svona kringumstæður er trúin á Jesú og hin eilífa von sem við væntum öll. Við þökkum ykkur öllum fyrir fyrirbænir og stuðning ykkar. Vernd Guðs var yfir öllum sem fóru til Kongó, enginn varð veikur, engu var stolið og engin hætta skapaðist. Við þökkum Guði fyrir trúfesti hans og vernd. Aukið bóknám og verknám Undanfarin ár höfum við unnið að því að bæta Biblíuskólann

5

en frekar. Við höfum bætt við bóklega námsefnið og náð að gera það enn markvissara og betra. Einnig höfum við unnið að því að laga þjónustuna sem nemendur taka að sér. Flest allar deildir kirkjunnar hafa komið að þessu með okkur og getum við státað af mjög góðu verknámi fyrir nemendur í flestu sem kirkjan bíður uppá s.s. barnastarf, unglingastarf, starf eldri borgara, kvennastarf, karlastarf, tónlistarstarf, almennt safnaðarstarf og fjölmiðlun þar sem videódeild kirkjunnar og Lindin kristið útvarp koma að þjálfun. Markmið okkar er að gera einstaklinga hæfari til að þjóna Guði með þeim hæfileikum sem Guð hefur gefið þeim. Við þráum að sjá öfluga og sterka kristna einstaklinga sem skína fyrir Jesú í sínu daglega umhverfi og í kirkjunni sinni.

Skólasókn án heimavistar Eitt að þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu mánuðum er breyting á umgjörð skólans. Hingað til hefur verið skylda að búa á heimavist til að geta stundað nám í MCI. Nú hafa verið gerðar breytingar á þessum skilyrðum. Frá og með þessu hausti höfum við opnað skólann þannig að einstaklingar geta fengið inngöngu í MCI án þess að búa á heimavistinni. Heimavistin verður samt sem áður í boði fyrir þá sem það kjósa allavega fyrst um sinn.


NÓVEMBER 2011

Biblíuskólinn framhald

Ný heimasíða Í maí opnuðum við nýja heimasíðu skólans. Nýja heimasíðan er með breyttu útliti og auðveldara er að leita upplýsinga um starfsemi skólans. Þar er líka hægt að lesa fréttir um starfsemi skólans sem eru uppfærðar reglulega. Enn er verið að vinna í nýju heimasíðunni auk þess sem við stefnum að því að hafa hana bæði á íslensku og á ensku. Slóð nýju heimasíðunnar er sú sama og á þeirri gömlu www.mci.is Fjáröflun með Orkulyklum Fjaröflun er alltaf í gangi hjá okkur í skólanum. Haustið 2010 gerðum við samning um bensínlykla hjá Orkunni og Shell. Með því að fá sér bensínlykilinn og fara í MCI hópinn færð þú afslátt af bensíni og Orkan gefur MCI trúboðssjóði eina krónu af hverjum seldum bensínlítra. Þessari fjáröflun hefur verið tekið ótrúlega vel til þessa og fjöldi fólks fengið sér bensínlyklana. Rétt fyrir Kongóferðina greiddi Orkan nokkur hundruð þúsund krónur inná Trúboðssjóðinn okkar. Það er von okkar að margir haldi áfram að styrkja trúboðsferðir Biblíuskólans með þessum auðvelda hætti því

FÍLADELFÍUFRÉTTIR

öll viljum við sem neytendur fá sem ódýrast eldsneytisverð.

Kafé Center Á sumardaginn fyrsta opnaði Biblíuskólinn kaffihús í Fíladelfíu. Meiningin er að kaffihúsið nýtist gestum og gangandi ásamt safnaðarmeðlimum og á þann hátt getum við opnað kirkjuna okkar enn frekar fyrir þá sem fyrir utan eru. Hugmyndin um opnun kaffihússins fengu nemendur Biblíuskólans sem áttuðu sig á því hvað starfsemi kirkjunnar var ósýnileg. Þeim fannst vanta aðstaða þar sem fólk gat komið og fengið upplýsingar um hvað væri um að vera og fyrir hvað kirkjan standi. Meiningin var að kaffihúsið gæti í leiðinni þjónað sem upplýsingamiðstöð (information center) um kirkjuna og starfsemi hennar eftir samkomur og uppákomur í söfnuðinum og með þeim hætti væri hægt að kynna fyrir nýjum gestum allt það sem kirkjan okkar hefur uppá að bjóða. Verið er að vinna að upplýsingamiðstöðinni en til þess að það gangi upp þarf öll kirkjan að vilja taka þátt. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér frekari hugmyndir varðandi upplýsingamiðstöðina geta haft samband við Ólaf Zóphoníasson á netfangið mci@mci.is Erdna Varðardóttir

6

Molar frá safnaðarstjórn Safnaðarfundur Safnaðarfundur verður haldinn miðvikudaginn 23. nóvember í kjölfar biblíulestrar og bænastundar, kl 19.30, boðið verður upp á hressingu svo fólk verði ekki glorsoltið. Haustmótinu frestað Hætt var við haustmót safnaðarins sem allajafna fer fram um miðjan október. Þeir prédikarar sem stóð til að fá komust ekki og virtist sem allar kringumstæður gerðu mótshaldið erfitt. Í staðinn verður haldið nýársmót 12. - 15. janúar og verður aðalpredikari Daníel Egeli sem er nýr forstöðumaður Fíladelfíu í Osló. Hann er rómaður prédikari þekktur fyrir hressilegan stíl. Samstarf við Blátt áfram Í kjölfar þeirrar vitunda-

vakningar sem hefur átt sér stað um hættuna á kynferðisofbeldi ákvað kirkjan að fara í samstarf við forvarnarsamtökin Blátt áfram. Annar stofnandi samtakanna er meðlimur í söfnuðinum og hefur verið mjög hjálpsamur og viljugur að aðstoða okkur við að gera kirkjuna okkar enn betri. Eitt námskeið var haldið skömmu eftir áramót, annað nú í haust og var það skyldunámskeið fyrir alla starfsmenn í barna- og unglingastarfi en leiðtogar í Royal Rangers sátu einnig námskeiðið. Annað námskeið var svo haldið til fyrir foreldra. Kirkjan hefur hlotið viðurkenningu frá samtökunum sem „Verndarar barna“ og munu viðurkenningaskjöl verða hengd upp á næstu dögum. Samstarfið hefur tekist gríðarlega vel og verður haldið áfram.


NÓVEMBER 2011

FÍLADELFÍUFRÉTTIR

Molar frá safnaðarstjórn framhald

Jólatónleikarnir Árlegir jólatónleikar Fíladelfíu fara fram 6. og 7. desember. Haldnir verða tvennir tónleikar hvort kvöld. Miðasalan hófst 1. nóvember.

Biblíulestrar á miðvikudögum Biblíulestrarnir í haust hafa tekist mjög vel og verið gríðarlega vel sóttir. Þeim hefur einnig verið sjónvarpað gegnum netið fyrir söfnuðina utan höfuðborgarsvæðisins. Á Selfossi hefur söfnuðurinn komið saman og hlustað á lestrana og borðað saman eftir á. Til stendur að halda þessu samstarfi áfram eftir áramót. Biblíulestrarnir hafa verið teknir upp og verða settir á hlaðvarp safnaðarins sem er að finna á heimasíðunni.

Stjórnir kirkjunnar Í kjölfar síðasta aðalfundar varð töluverð breyting á stjórn safnaðarins. Áður skipuðu

öldungar stjórn safnaðarins og ásamt stjórn Samhjálpar. Nú hefur þessu verið skipt upp.

Stjórn safnaðarins er skipuð fimm einstaklingum; forstöðumanni, tveim öldungum, formanni rekstrarráðs og einum aðila kosnum á aðalfundi. Formaður stjórnar í dag er Sveinbjörn Gizurarson, öldungur, varaformaður er Vörður Leví Traustason, forstöðumaður, einnig sitja í stjórn Helgi Guðnason, fulltrúi öldunga, Gísli Freyr Valdórsson, formaður rekstrarráðs og Dögg Harðardóttir, fulltrúi aðalfundar. Stjórnin sér um öll hagnýt mál, fylgir eftir að starfsfólk og ráð safnaðarins sinni hlutverkum sínum. Öldungaráð skipa Vörður Leví Traustason, formaður, Helgi Guðnason, varaformaður, G. Ólafur Zophoníasson, Heiðar Guðnason, Hjalti

Skaale Glúmsson, Þorsteinn Óskarsson, Alís Inga Freygarðsdóttir, Sveinbjörn

7

Gizurarson og Kornelíus Traustason, djákni. Öldungaráð hefur andlega forystu safnaðarins á sínum herðum, allt er snýr að kennslu, sálgæslu og andlegu lífi safnaðarins. Rekstrarráð er skipað þrem einstaklingum, Gísla Frey Valdórssyni, formanni, Guðfinnu Helgadóttur og Snorra Jónssyni. Fljótlega verður hægt að sjá myndir af framangreindum einstaklingum á heimasíðu kirkjunnar ásamt því að uppfærðar verða upplýsingar um stjórn. Samþykktir safnaðarins á heimasíðunni eru þó réttar, þær sem samþykktar voru á síðastliðnum aðalfundi. Foreldramorgnar Foreldramorgnar hófust að nýju föstudagin 28. október kl. 11. Það er Kristín Jóna Kristjónsdóttir (kona Helga Guðnasonar) ætlar að halda utan um þá sem tilraunaverkefni og ef vel gengur halda þeir áfram.

Bænarefni Bænarefni mánaðarins er að Guð veiti söfnuðinum náð til að vaxa í öllu upp til höfuðsins og veiti leiðtogum náð til að skipuleggja og byggja upp safnaðarstarfið þannig að meðlimirnir geti vaxið í gjöfum og þjónustu.

Helgi Guðnason

Fíladelfíufréttir  

Fréttabréf Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu

Read more
Read more
Similar to
Popular now
Just for you