Page 1

Daniel Reuter

Neskirkja  20. maí– 16. september 2018

The Maps of Things


Ljósmyndir eru allsstaðar í daglegu umhverfi okkar. Við höfum þær fyrir augunum hvert sem litið er, blöð, bækur og allur hinn rafræni heimur. Þær staldra þó mislengi við í vitundinni. Flestar fljúga hratt hjá en ein og ein mynd hreyfir við okkur og festir sig rækilega í minninu, kveikir gamlar tilfinningar eða vekur nýjar. Ljósmyndin er sterkur miðill sem getur hjálpað áhorfandanum til að skilja hlutina á nýjan hátt, fá nýtt sjónarhorn á raunveruleikann eða sjá nýtt samhengi. Tengsl arkitektúrs og ljósmyndarinnar eru einnig sterk. Við miðlun byggingarlistar er ljósmyndin burðarás til að skýra eðli og andrúm viðfangsefnisins. Ljósmyndin sýnir hluti sem er erfitt að koma á framfæri á annan hátt. Tilgangur ljósmyndanna er ekki alltaf að fanga fegurðina heldur einnig að sýna andstæður eða vekja tilfinningu fyrir andrúmi staðarinns, efni og tíma. Þær skyggnast líka undir yfirborðið, vekja spurningar um okkur, samfélagið og hvert við stefnum.


Texti: Helgi Bollason Thóroddsen

Viðfangsefni Daniels Reuters eru margskonar og snerta grunneðli listformsins; andstæður og samhljómur umhverfisins, efni, áferð, ljós og skuggar. Ljósmyndir Daniels fela í sér ríka tilfinningu fyrir umhverfinu. Yfir þeim er dulúð og þær vekja hjá áhorfandanum margvísleg hugrenningatengsl. Mannvirki eru Daniel hugleikin. Spor mannsins eru sýnd andspænis náttúrunni þannig að hvort um sig nýtur sín á nýjan hátt. Mannvirkin fá jarðtengingu og nýtt samhengi við umhverfið og náttúran fær viðmið og mælikvarða.


Daniel Reuter er fæddur í Þýskalandi árið 1976 og ólst upp í Lúxemborg. Hann er

með MFA í ljósmyndun frá University of Hartford, Connecticut í Bandaríkjunum. Árið 2013 sendi hann frá sér bókina History of the Visit sem tilnefnd var til verðlauna á Paris Photo-ljósmynda­­ hátíðinni (Paris-Photo Aperture Foundation First Photobook of the Year Award 2013) og þýsku ljósmyndabóka-verðlaunanna (German Photobook Award 2015). Daniel myndaði verk íslenskra arkitekta og manngert umhverfi á Íslandi fyrir bókina Snert á arkitektúr sem kom út árið 2017 en Sigrún Alba Sigurðar­ dóttir skrifaði texta bókarinnar. Verk hans hafa verið sýnd víða í Evrópu, í Banda­ríkjunum og í Japan. Daniel starfar sem ljósmyndari og ljósmynda­kennari á Íslandi og í Lúxemborg.

Heimasíða

www.danielreuter.net

Samtal og málþing Þann 3. júní mun Sigrún Sigurðardóttir leiða samtal

um sýningu Daniels Reuter. Málþing um bókina Snert á arkitektúr verður haldið 31. ágúst kl. 15 —17 í Safnaðar­ heimili Neskirkju. Að málþinginu stendur Hönnunarog arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Listamannaspjall fer fram 2. september að lokinni messu kl. 12.30.

Sjónlistaráð

Í Sjónlistaráði Neskirkju eru Helgi Bollason Thóroddsen, Hildigunnur Sverrisdóttir og Steinar Örn Atlason.

Neskirkja  Opin kirkja í Vesturbænum

www.neskirkja.is

Daniel Reuter  
Daniel Reuter  
Advertisement