Page 1

Listafélag Háteigskirkju Tónleikadagskrá Vor 2014 www.listafelag.is


Kæru tónlistarunnendur! Viðtökurnar við tónleikadagskrá okkar haustið 2013 hafa verið mjög góðar. Við erum sérstaklega þakklát korthöfunum okkar því án þeirra gætum við ekki haldið áfram. Það er afar gefandi að taka á móti fjölda tónleikagesta í hverri viku og njóta með þeim fjölbreyttrar tónlistardagskrár. Allir geta fundið tónleika við sitt hæfi og við hvetjum tónlistarunnendur til að kynna sér áskriftarkortin okkar sem tryggja ókeypis sæti á alla tónleikana á tónleikadagskránni. Því fleiri sem styrkja Listafélag Háteigskirkju með því að kaupa áskriftarkort, því meira blómstrar tónlistarstarfið við kirkjuna. Listafélagið hlaut nýverið styrk úr Tónlistarsjóði og Héraðssjóði Reykjavíkurprófastsdæmis vestra. Fyrir það erum við afar þakklát enda felst í því viðurkenning og hvatning til áframhaldandi uppbyggingar starfseminnar. Nánar má lesa um starfsemi Listafélagsins á vefsíðunni okkar www.listafelag.is og einnig á facebook. Starfsemin er í stöðugri þróun og við viljum gjarnan heyra frá fólki varðandi allt sem við kemur henni. Verið velkomin á tónleika í Háteigskirkju.

Kári Allansson

Listrænn stjórnandi Listafélags Háteigskirkju.

Á ljúfum nótum í Háteigskirkju er hádegistónleikaröð á föstudögum kl. 12:00-12:30. Listrænn stjórnandi þeirrar tónleikaraðar er Lilja Eggertsdóttir. Föstudagstónleikarnir eru auðmerktir með rauðum lit og við þá stendur skrifað „ – Hádegistónleikar –“ Þeir eru um hálftími að lengd og miðaverð í hvert skipti er aðeins 1.000 krónur. Áskriftarkort Listafélagsins veita líka öruggt sæti og ókeypis aðgang að hádegistónleikunum sem og öllum öðrum tónleikum. Almenn lengd kvöld- og helgartónleika er um klukkustund.


Janúar Föstudagur 24. janúar kl.12:00

– Hádegistónleikar –

Rómantík og tangó Gréta Rún Snorradóttir sellóleikari og Lilja Eggertsdóttir píanóleikari flytja þekkt verk frá síðrómantíska tímabilinu í bland við tangótónlist.

Laugardagur 25. janúar kl. 17:00

Hvað mun dreyma barn með bros í augum? Lagaflokkurinn „Heimtur“ samanstendur af 11 lögum eftir Ingibjörgu Azimu (1973 ) við ljóð Jakobínu Sigurðardóttur (1918-1994). Tónlistin er samin á árunum 2009-2013 og er um frumflutning á heildarverkinu að ræða þó hluti þess hafi verið fluttur áður. Upphaf verksins má rekja til ársins 2009 er Margrét Hrafnsdóttir, sópran og Ólöf Sigursveinsdóttir, sellóleikari pöntuðu tónlist við ljóð Jakobínu af Ingibjörgu Azimu, barnabarni ljóðskáldsins. Margrét og Ólöf voru búsettar og starfandi á Stuttgart á þeim tíma og saman skipuðu þær kammerhópinn Aurora Borealis. Í mars 2010 frumflutti hópurinn upprunalega gerð lagaflokksins í Berlín, innihaldandi 7 ljóð fyrir selló og sópran. Verkið hélt síðan áfram að þróast næstu árin, harmónikka og klarinett bættust í kammerhópinn og tónlist við fleiri ljóð varð til. Útgáfa á geisladisk með lagaflokknum er áætluð haustið 2014. Flytjendur: Margrét Hrafnsdóttir, sópran, Ólöf Sigursveinsdóttir, selló, Grímur Helgason, klarinett og Ave Kara Tonisson, harmónikka. Miðaverð: 1.500 kr.

Fimmtudagur 30. janúar kl. 20:00

Komdu út með sjó Hafið hefur alltaf skipt okkur Íslendinga miklu máli. Hetjur hafsins hafa lagt mikið á sig til að færa björg í bú og því miður hafa ekki allir sjófarendur skilað sér heilir heim. Efnisskrá tónleikanna samanstendur af íslenskum sönglögum sem fjalla um hið magnaða haf, bæði í gleði og sorg, ástríðu og harmi. Flytjendur: Berta Dröfn Ómarsdóttir söngkona og Sigurður Helgi Oddsson píanóleikari.

Miðaverð: 1.000 kr.


Föstudagur 31. janúar kl. 12:00

– Hádegistónleikar –

Hin ljúfa kyrrð Flutt verða lög úr Neun deutche Arien eftir Handel ásamt fleiri verkum. Flytjendur: Erla Björg Káradóttir sópran, Balázs Stankowsky fiðla og Kitty Kovács píanó.

Febrúar Laugardagur 1. febrúar kl. 15:00

Karlakórinn Esja ásamt Gissuri Páli Gissurarsyni Karlakórinn Esja fagnar um þessar mundir eins árs afmæli sínu og efnir því til tónleika með hefðbundinni karlakórs efnisskrá. Kórfélagar hafa unun af því að flytja verk eins og Smávinir fagrir, Þú komst í hlaðið, Rósin, Land míns föður, Bára blá og svo mætti lengi telja. Kórinn er með einn lægsta meðalaldur karlakóra á Íslandi og leggur mikið upp úr snyrtimennsku og ungmennafélagsanda. Tenórsöngvarinn og heiðursmaðurinn Gissur Páll Gissurarson verður sérstakur gestur á tónleikunum. Eftir tónleikana bjóða kórfélagar til kaffisamsætis í safnaðarheimili kirkjunnar. Þar verður boðið upp á heimagert bakkelsi og kaffi. Miðaverð: 1.500 kr.

Miðvikudagur 5. febrúar kl. 20:00

Tenórarnir þrír Fram koma tenórarnir Egill Árni Pálsson, Einar Clausen og Kári Friðriksson,ásamt píanóleikaranum Nínu Margréti Grímsdóttur. Verkefnaval er fjölbreytt, íslensk lög og dúettar, óperettuaríur, bæði á þýsku og ensku og svo auðvitað óperuaríur og ítölsk sígild „tenórlög” eins og O sole mio. Miðaverð: 3.000 kr.


Föstudagur 7. febrúar kl. 12:00

– Hádegistónleikar –

Frönsk rómantík Auður Guðjohnsen mezzosópran og Lilja Eggertsdóttir píanóleikari flytja franska tónlist eftir tónskáld eins og H. Duparc, G. Fauré og C. Debussy.

Miðvikudagur 12. febrúar kl. 20:00

Edgar Smári Edgar Smári er sjálfmenntaður söngvari og hefur sungið og tekið þátt í fjöldamörgum tónleikum og sýningum bæði á sviði og í sjónvarpi þar á meðal söngvakeppni sjónvarpsins. Edgar Smári hefur síðastliðin tíu ár sungið með gospelkórum bæði Reykjavíkur og Fíladelfíu, sungið á jólatónleikum Björgvins og Frostrósa. Árið 2005 kom út fyrsta sólóplata Edgars Smára sem ber nafnið Ferðalangur og svo ljóðaplatan Blær sem kom út hautið 2011 en þar samdi Edgar Smári lög við hin ýmsu ljóð ljóðaskálda. Á efnisskrá þessara tónleika flytur hann frumsamin lög í bland við hugljúf dægurlög bæði íslensk og erlend. Kvöldstund með Edgari Smára í Háteigskirkju verður án efa hugljúf eins og þeir vita sem á hann hafa hlítt. Miðaverð: 1.500 kr.

Föstudagur 14. febrúar kl. 12:00

Ástir og ævintýri Ýmis lög eftir Mahler, m.a. úr Des Knaben Wunderhorn Flytjendur: Þórunn Elín Pétursdóttir sópran, Anna Rún Atladóttir píanó.

– Hádegistónleikar –


Miðvikudagur 19. febrúar kl. 20:00

Stærri spámenn og smærri Heit tónlistarblanda með verkum tónskálda allt frá hlýindum Miðjarðarhafsins til stranda Norður-Íshafs. Verk eftir Strauss, Puccini, Verdi, Lehár, Wagner, Saint-Saëns og Donizetti auk Sigvalda Kaldalóns, Sigfúsar Einarssonar, Bjarna Þorsteinssonar og fleiri. Söngvarar: Auður Gunnarsdóttir sópran, Snorri Wium tenór, Sigríður Aðalsteinsdóttir mezzosópran og Gunnar Guðbjörnsson tenór. Hljómsveit - Kammerhópurinn Stilla: Lilja Eggertsdóttir píanó, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir fiðla, Margrét Soffía Einarsdóttir fiðla, Þórunn Harðardóttir víóla og Helga Björg Ágústsdóttir selló. Miðaverð: 3.500 / 2.500

Föstudagur 21. febrúar kl. 12:00

– Hádegistónleikar –

Vetrardulúð Flutt verður vetrarprógramm með lögum eftir George Crumb og fleiri. Flytjendur: Ísabella Leifsdóttir sópran og Tinna Þorsteinsdóttir píanóleikari.

Miðvikudagur 26. febrúar kl. 20:00

Matthías Stefánsson og Jónas Þórir Matthías Stefánsson fiðluleikari og Jónas Þórir píanóleikari munu flytja lög eins og Cinema Paradiso, Theme from Schindler´s list, Il Postino, kafla úr gítarkonsert eftir Rodrigo og fleiri falleg, kröftug lög af geisladiski þeirra félaga sem nefnist Paradiso. Miðaverð: 1.500 kr.

MATTHÍAS STEFÁNSSON

JÓNAS ÞÓRIR


Föstudagur 28. febrúar kl. 12:00

– Hádegistónleikar –

Brahms ljóð og dúettar Flutt verða þekkt og vinsæl ljóð og dúettar eftir J. Brahms. Flytjendur: Anna Jónsdóttir sópran, Þóra Passauer kontra alt, Brynhildur Ásgeirsdóttir píanóleikari.

Mars

Laugardagur 1. mars kl. 17:00

Gunnar Reynir Sveinsson 80 ára Í tilefni af 80 ára afmælisári Gunnars Reynis Sveinssonar viljum við nokkrir vinir hans heiðra minningu Gunnars. Á tónleikunum flytja Tríó Reynis Sigurðssonar, Símon H. Ívarsson og Kammerkór Mosfellsbæjar verk eftir Gunnar Reyni. Þar er um auðugan garð að gresja, því Gunnar kom víða við í tónsmíðum sínum. Gunnar er einkum þekktur fyrir tengsl sín við jasstónlist, bæði sem hljóðfæraleikari og með tónsmíðum sínum. Reynir Sigurðsson lék oft með Gunnari Reyni á árum áður og sköpuðust góð vinarbönd þeirra á milli. Símon gaf út diskinn „Glíman við Glám” sem var útnefnd til tónlistarverðlauna, en diskurinn inniheldur eingöngu lög Gunnars Reynis og er afrekstur samstarf þeirra til fjölda ára. Kammerkór Mosfellsbæjar hefur sungið mörg kórverk Gunnars og meðal annars frumflutt sum þeirra. Gunnar átti gott samstarf við Halldór Laxnes og m.a. verða lög Gunnars við ljóð Halldórs Laxness flutt á tónleikunum. Miðaverð: 2.000 kr.

Föstudagur 7. mars kl. 12:00

– Hádegistónleikar –

Svört er ég - Ljóðaljóðin eftir Pál Ísólfsson ásamt öðrum sönglögum hans Ljóðaljóðin er ljóðaflokkur eftir Pál Ísólfsson við texta Salómons úr Biblíunni. Deildar meiningar eru um túlkun textans en ljóðin eru þó fyrst og fremst lofgjörð sambands tveggja elskhuga. Einnig verða flutt fleiri sönglög eftir Pál, við ljóð Davíðs Stefánssonar. Flytjendur: Hildur Evlalía Unnarsdóttir mezzosópran, Lilja Eggertsdóttir píanóleikari.


Laugardagur 8. mars kl. 17:00

Eternal light - A Requiem eftir Howard Goddall Flytjendur eru Kór Akraneskirkju, einsöngvararnir Björg Þórhallsdóttir sópran og Einar Clausen tenór ásamt hljóðfæraleikurum. Einnig verður flutt andleg og veraldleg tónlist frá ýmsum löndum. Stjórnandi: Sveinn Arnar Sæmundsson Miðaverð: 2.500 kr.

Fimmtudagur 13. mars kl. 20:00

Tónmál ástarinnar Einsöngstónleikar Bjargar Pétursdóttur Íslensk og erlend lög af ýmsum uppruna. Meðleikarar eru Krystyna Cortes (píanó) og Ársæll Másson (gítar) Á efnisskránni verða m.a. lög eftir Fauré, Gershwin, Hreiðar Inga Þorsteinsson, Jón Þórarinsson og Margréti Sighvatsdóttur. Miðaverð: 1.000 kr.

Föstudagur 14. mars kl. 12:00

– Hádegistónleikar –

Tríó Sunnu Gunnlaugs Tríó Sunnu Gunnlaugs er Tónlistarhópur Reykjavíkur 2013. Tríóið gaf út diskinn Long Pair Bond í lok árs 2011 og fékk hann glimrandi móttökur um allan heim. Tríóið fór um gjörvöll Bandaríkin, lék á JazzAhead hátíðinni í Bremen og jazzhátið Oslóar. Einnig komu þau fram sem einn af fulltrúum Íslands á menningarhátíð í hinu mikilsvirta Kennedy Center í Washington. Tríóið hljóðritaði nýjan disk í maí síðastliðinn. Tríóið er skipað Þorgrími Jónssyni á kontrabassa, Scott McLemore á trommur auk Sunnu á píanó. Þau leika tónlist sem samkvæmt danska jazzritinu Jazz Special „einkennist af kyrrð og hugulsemi”.


Fimmtudagur 20. mars kl. 20:00

Sálmari leikur lofgjörðartónlist Hljómsveitin Sálmari er hópur sem var stofnaður af meðlimum úr hljómsveitinni „Tilviljun?“. Hljómsveitin leikur nýja lofgjörðartónlist eftir margar af frægustu lofgjörðarsveitum heims. Miðaverð: 1.500 kr

– Hádegistónleikar –

Föstudagur 21. mars kl. 12:00

Í Hallormsstaðaskógi - lögin með Öddu Örnólfs Dagskrá í tilefni af 60 ára söngafmæli Öddu flutt af dóttur hennar Ragnhildi Þórhallsdóttur sópran. Flytjendur: Ragnhildur Þórhallsdóttir sópran, Lilja Eggertsdóttir píanóleikari og hljómsveit.

Laugardagur 22. mars kl. 16:00

Fjölskyldutónleikar - Eitthvað fyrir alla - Disney lögin - Stóru lögin - Fyndnu lögin Vegna fjölda áskorana er boðið upp á fjölskyldutónleika Völu, Þórs og Vignis Þórs um helgi, fyrir þá sem komast ekki með börnin í hádeginu 4. apríl. Laugardaginn 22. mars kl. 16 verður mikið fjör í Háteigskirkju en þá verða tónleikar fyrir börnin, foreldrana, afa og ömmur. Þór og Vala fara á kostum, syngja og grínast eins og þeim er einum lagið. Fullorðna fólkið fær að heyra nokkrar „söngleikjabombur” t.d. úr Vesalingunum og Sound of Music og krakkarnir syngja með Disney-lögum eins og Hakúna Matata. Flytjendur eru Þór Breiðfjörð (Vesalingarnir Grímuhafi 2012) Valgerður Guðnadóttir (Vesalingarnir, Söngvaseiður Grímuhafi 2009) og Vignir Þór Stefánsson sem leikur á píanó. Miðaverð: 2.000 kr. ókeypis fyrir litlu börnin, 2 ára og yngri

Fimmtudagur 27. mars kl. 20:00

Bach & Händel Fluttar verða aríur fyrir sópran og óbó eftir Bach og Händel, þar sem hlutverk óbósins er meira í ætt við mótsöngvara en undirleikara. Sólveig Sigurðardóttir syngur, Össur Ingi Jónsson spilar á óbó og Kári Allansson á orgel. Miðaverð: 1.500 kr.


Föstudagur 28. mars kl. 12:00

– Hádegistónleikar –

Liederkreis op. 39 Hugi Jónsson barítón og Guðrún Dalía píanóleikari flytja ljóðaflokkinn Liederkreis op. 39 eftir Robert Schumann.

Apríl Fimmtudagur 3. apríl kl. 20:00

Kirkjutónlist, kristall og Cage Arnhildur Valgarðsdóttir píanóleikari og Ragnheiður Árnadóttir söngkona flytja afar fjölbreytta dagskrá. Á dagskránni má finna: Kirkjuaríur og kvöldsálma eftir Bach,Purcell, Händel og Haydn. Einnig ljóðalestur við undirleik kristallsglasa, sólóaríu John Cage og frumflutning á tveimur íslenskum verkum. “Útsæði “ eftir Jón Guðmundsson fyrir píanó og söngrödd og Veröld þín, ljóðaflokkur Matthíasar Matthíasen, Ásbjörg Jónsdóttir, nemi í tónsmíðum við LHÍ samdi tónlistina. Miðaverð: 1.500 kr.

Föstudagur 4. apríl kl. 12:00

– Hádegistónleikar –

Fjölskyldutónleikar – Stóru lögin - Litlu lögin - Disney-lögin Tónleikar fyrir börnin, foreldrana, afa og ömmur. Þór og Vala fara á kostum, syngja og grínast eins og þeim er einum lagið. Fullorðna fólkið fær að heyra nokkrar “söngleikjabombur” og krakkarnir syngja með Disney-lögum eins og Hakúna Matata. Flytjendur: Þór Breiðfjörð, Valgerður Guðnadóttir og Vignir Þór Stefánsson.

Fimmtudagur 10. apríl kl. 20:00

Með ítölsku ívafi Kristín R. Sigurðardóttir sópransöngkona og Julian M. Hewlett píanóleikari og organisti flytja tónlist með ítölsku ívafi. Efnisskráin samanstendur af tónverkum eftir yngri sem eldri tónskáld, allt frá barokki, klassík, rómantík og til dagsins í dag. Einnig verða frumflutt þrjú ný lög eftir flytjendur. Miðaverð: 2.000 kr.


Föstudagur 11. apríl kl. 12:00

– Hádegistónleikar –

Leyndardómur trúarinnar Lilja Eggertsdóttir sópran og Kári Allansson organisti flytja sálma og aðrar trúarlegar tónlistarperlur.

Skírdagur 17. apríl kl. 20:00

Messa Félagar úr Kammerkór Háteigskirkju syngja.

Föstudagurinn langi 18. apríl kl. 14:00

Guðsþjónusta með lestri píslarsögunnar Félagar úr Kammerkór Háteigskirkju syngja.

Páskadagur 20. apríl kl. 8:00

Hátíðarmessa Félagar úr Kammerkór Háteigskirkju syngja. Eftir messu er morgunverður í boði sóknarnefndar Háteigskirkju.

Miðvikudagur 23. apríl kl. 20:00

Exsultate jubilate Mótettan Exsultate jubilate K165 samdi Mozart aðeins 17 ára gamall undir áhrifum frá ítölskum óperum þess tíma. Mótettan er í þremur hlutum og er einkar fögur á að hlýða líkt og önnur verk Mozarts. 258 ár eru liðin frá fæðingu Mozarts, þessa merkilega tónlistarsnillings, sem samdi ógrynni merkra verka á stuttri ævi. Hann lést langt fyrir aldur fram, aðeins 35 ára gamall. Sópransöngkonan Gréta Hergils og Arnhildur Valgarðsdóttir píanóleikari, flytja verkið í heild sinni sem og aðrar vel valdar Mozart aríur. Miðaverð: 1.500 kr.


Föstudagur 25. apríl kl. 12:00

– Hádegistónleikar –

Orfeus í undirheimum Kammerhópurinn Stilla kynnir hlustendur fyrir hinni fjörugu óperettu Orfeus í Undirheimum eftir Jacques Offenbach, en hópurinn hyggst flytja verkið í heild sinni í upphafi hausts. Flutt verða vel valin brot úr verkinu, meðal annars Galop infernal sem er betur þekkt undir nafninu Can-can. Flytjendur: Kammerhópurinn Stilla.

Maí Föstudagur 2. maí kl. 12:00

– Hádegistónleikar –

Tríó fyrir víólu, klarinett og píanó W.A. Mozart: Kegelstatt-tríó í Es-dúr, K. 498 Max Bruch: Kaflar úr 8 lögum fyrir karinett, víólu og píanó, op. 83 Kegelstatt-tríóið er fyrsta verkið sem skrifað var fyrir þessa hljóðfærasamsetningu. Klarinettið var þá nýtt hljóðfæri sem Mozart nýtti snilldarlega í tónsmíðum sínum og ruddi þannig til rúms. Þessi samsetning var síðar notuð af nokkrum rómantískum tónskáldum, m.a. Max Bruch sem skrifaði í hárri elli 8 stutt verk, en sonur hans var klarinettleikari og víólan uppáhalds hljóðfærið hans. Flytjendur: Sigurjón Bergþór Daðason, klarinett Þórunn Harðardóttir, víóla, Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanó.

Miðvikudagur 7. maí kl. 20:00

Gamla hverfið Gamla hverfið er tónlistardagskrá sem samanstendur af 14 frumsömdum lögum og textum eftir Helga Þór Ingason. Samnefndur hljómdiskur kom út í byrjun júní 2013. Lögin eru af ýmsum toga, sum eru í suður amerískum takti en einnig eru ballöður á efnisskránni, jass og sumt er erfitt að flokka. Tónlistarflutningur er í höndum þeirra Einars Clausen (söngur), Einars Sigurðssonar (kontrabassi), Karls Péturs Smith (slagverk), Matthías Stefánsson (gítar) og Helga Þórs Ingasonar (píanó). Miðaverð: 1.500 kr


Föstudagur 9. maí kl. 12:00

– Hádegistónleikar –

Móðurást Móðurást verður rauði þráðurinn á tónleikunum. Leitað verður fanga í ljóðum og aríum og sagt í stuttu máli frá verkunum og tengingu þeirra við móðurást. Flytjendur: Hörn Hrafnsdóttir, mezzó-sópran og Antonía Hevesí, píanó.

Miðvikudagur 14. maí kl. 20:00

Hymnalaya Hymnalaya er nýleg hljómsveit úr Reykjavík. Hljómsveitin samanstendur af 5 aðal meðlimum; Einar Kristinn Þorsteinsson (gítar og söngur), Gísli Hrafn Magnússon (gítar), Kristófer Rodriguez Svönuson (trommur og slagverk), Þórdís Björt Sigurþórsdóttir (fiðla) og Gylfi Bragi Guðlaugsson (bassi). Hljómsveitin sendi frá sér plötuna Hymns sumarið 2013 sem gefin var út af Record Records. Hljómur Hymnalaya á rætur að rekja í gamla sálma í bland við þjóðlaga- og samtímatónlist. Miðaverð: 2.000 kr.

Föstudagur 16. maí kl. 12:00

– Hádegistónleikar –

Af fingrum fram Jazz, þjóðlög og söngvar ýmiss konar í nýjum búningi í bland við frumsamið efni. Flytjendur: Helga Laufey Finnbogadóttir, píanó og Guðjón Steinar Þorláksson, kontrabassi.


Miðvikudagur 21. maí kl. 20:00

Yndissöngvar Kirkjukór Háteigskirkju flytur úrval íslenskra kórverka, jafnt veraldleg sem andleg. Miðasala er hjá kórfélögum og við innganginn. Miðaverð: 2.000 kr. Ókeypis fyrir 12 ára og yngri í fylgd með fullorðnum.

Föstudagur 23. maí kl. 12:00

– Hádegistónleikar –

Íslenskt vor Einsöngslög og dúettar við píanó- og orgelundirleik. Flytjendur: Elma Atladóttir sópran, Jóhanna Ósk Valsdóttir mezzosópran og Bjartur Logi Guðnason organisti.

Föstudagur 30. maí kl. 12:00

– Hádegistónleikar –

SONATA - barokk og rómantísk meistaraverk eftir Vivaldi og Schubert Flutt verður Sonata V, Largo, Allegro, Largo, Allegro eftir Antonio Vivaldi og Sonata Arpeggione eftir Franz Schubert. Flytjendur: Victoria Tarevskaia selló og Sophie Schoonjans harpa.


Styrkur við Listafélag Háteigskirkju

Nafn: Kennitala: Heimili og póstnr: Netfang: Sími/farsími: Kortanúmer og gildistími: Fjárhæð í krónum:

(Fyrir 2.500 kr. á mánuði fæst áskriftarkort Listafélags Háteigskirkju. Lágmarks binditími er 6 mánuðir)

Mánaðarlega þar til ég læt vita um annað. Í

skipti.

Ég vil millifæra beint á reikning Listafélags Háteigskirkju. R.nr. 0301-13-303935. Kt. 600169-3439. Korthafar eiga aðeins örugg sæti mæti þeir fyrir auglýstan tónleikatíma. Ég heimila hér með að kortið mitt verði skuldfært fyrir tilgreindri fjárhæð sem rennur til Listafélags Háteigskirkju. Verðbreytingar á áskriftarkorti Listafélags Háteigskirkju taka gildi 1. september ár hvert og eru tilkynntar korthöfum fyrirfram. Hætta má sem styrktaraðili hvenær sem er með því að senda tölvupóst á listafelag@hateigskirkja.is eða í síma 511-5400 á skrifstofutíma.

Dags.

Undirskrift/staðfesting.

Skila má þessu blaði til kirkjuvarðar eða senda það með tölvupósti á listafelag@hateigskirkja.is Einnig má fylla út rafrænt eyðublað á www.listafelag.is undir flipanum „Áskriftarkort“


Áskriftarkort Listafélags Háteigskirkju Fáðu frítt inn og öruggt sæti á alla viðburði Listafélags Háteigskirkju. Aðeins 2.500 krónur á mánuði. Sjá nánar á www.listafelag.is

Prentgripur

Sjá nánari upplýsingar á næstu bls. fyrir framan…

Listafélag Háteigskirkju vor 2014  

www.listafelag.is

Read more
Read more
Similar to
Popular now
Just for you