Friðrik Friðriksson útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1998 og hefur leikið fjölda hlutverka bæði á sviði og í sjónvarpi, meðal annars hjá Þjóðleikhúsinu, LR og Leikfélagi Íslands. Hann leikstýrði Verði þér að góðu og Húmanímal hjá Ég og vinir mínir og hefur þrívegis leikstýrt Sögustund í Þjóðleikhúsinu. Hann var tilnefndur til Grímunnar fyrir leik í Legi og Sumarljósi og fyrir leikstjórn á Húmanímal.
Hilmir Snær Guðnason útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1994. Hann hefur farið með fjölmörg hlutverk hjá Þjóðleikhúsinu, LR og víðar og leikið í mörgum kvikmyndum, auk þess sem hann hefur leikstýrt fjölda sýninga. Hann hefur oft verið tilnefndur til Grímunnar og hlaut verðlaunin fyrir leik í Veislunni og Ég er mín eigin kona og fyrir leikstjórn á Fjölskyldunni. Hann hlaut Edduverðlaunin fyrir Mávahlátur.
Guðrún Snæfríður Gísladóttir lauk prófi frá Leiklistarskóla Íslands 1977. Hún hefur farið með fjölda burðarhlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, Alþýðuleikhúsinu og LR og lék meðal annars í Fórninni eftir Tarkovskí. Hún hlaut Grímuna fyrir Mýrarljós og var tilnefnd fyrir Dagleiðina löngu, Íslandsklukkuna, Vegurinn brennur og Þrettándakvöld. Hún hlaut Menningarverðlaun DV fyrir Agnesi barn guðs og Stefaníustjakann 2012.
Jóhannes Haukur Jóhannesson útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2005. Hann hefur leikið fjölda hlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, LR, LA og leikhópum. Nýleg verkefni hans hér eru Tveggja þjónn, Dýrin í Hálsaskógi og Vesalingarnir. Hann lék meðal annars í Alvöru mönnum í Austurbæ, Söngvaseið hjá LR, Hellisbúanum í Gamla bíói og kvikmyndinni Svartur á leik. Hann var tilnefndur til Grímunnar fyrir Eilífa hamingju.
Hilmir Jensson útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2010. Hann hefur leikið hér í Þjóðleikhúsinu í Sögustund: Búkollu, Vesalingunum, Bjart með köflum, Lé konungi, Ballinu á Bessastöðum og Leitinni að jólunum, og var aðstoðarmaður leikstjóra í Finnska hestinum og Hreinsun. Hann lék í Gálmu og Ég er vindurinn hjá Sóma þjóðar og í Spuna eða Kamelljóni fjárhirðisins í Skemmtihúsinu.
Ólafía Hrönn Jónsdóttir útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1987. Hún hefur farið með fjölda hlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, LR, leikhópum og í kvikmyndum. Hún hlaut Grímuna fyrir leik sinn í Heimsljósi og Pétri Gaut og var tilnefnd fyrir Beðið eftir Godot, Lé konung, Utan gátta, Ívanov, Sólarferð, Stórfengleg og Þetta er allt að koma. Hún hlaut Edduverðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni Brúðgumanum.
Pálmi Gestsson lauk námi frá Leiklistarskóla Íslands 1982. Hann hefur leikið fjölda hlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, LR, í kvikmyndum og sjónvarpi, meðal annars með Spaugstofunni. Meðal nýlegra verkefna hans hér eru Heimsljós, Hreinsun, Lér konungur, Hænuungarnir, Engisprettur, Hart í bak og Ríkarður þriðji. Hann var tilnefndur til Grímunnar fyrir leik sinn í Hænuungunum. Saga Garðarsdóttir útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ vorið 2012 og þreytir nú frumraun sína í Þjóðleikhúsinu, en hún leikur einnig hér í Fyrirheitna landinu, Englum alheimsins og Dýrunum í Hálsaskógi í vetur. Hún lék með Alþýðuóperunni í La Serva Padrona eða Ráðskonuríki og hélt ásamt öðrum listræna fyrirlesturinn Heilinn – hjarta sálarinnar. Hún hefur komið víða fram sem uppistandari og verið með grínþætti í útvarpi og sjónvarpi. Snorri Engilbertsson útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ vorið 2012, stundaði leiklistarnám við École Philippe Gaulier í París og nám í samkvæmisdönsum um tíu ára skeið. Hann hefur leikið með ýmsum leikhópum og í kvikmyndum, og var tilnefndur til Edduverðlaunanna fyrir leik sinn í Sumarlandinu. Hann leikur í Dýrunum í Hálsaskógi, Tveggja þjóni, Fyrirheitna landinu og Englum alheimsins hér í vetur.
Vigdís Hrefna Pálsdóttir útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2002 og lauk mastersprófi frá Royal Scottish Academy of Music and Drama í Glasgow. Hún hefur farið með fjölmörg hlutverk í Þjóðleikhúsinu, hjá LA og leikhópum. Meðal nýlegra verkefna hennar hér eru Tveggja þjónn, Vesalingarnir, Heimsljós, Hreinsun, Lér konungur, Allir synir mínir, Hænuungarnir, Oliver, Ástin er diskó lífið er pönk og Sumarljós. Þórunn Arna Kristjánsdóttir útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2010. Hún hefur leikið hér í Þjóðleikhúsinu í Jónsmessunótt, Dýrunum í Hálsaskógi, Afmælisveislunni, Vesalingunum, Heimljósi, Sögustund: Ævintýrinu um Hlina kóngsson, Bjart með köflum, Ballinu á Bessastöðum, Leitinni að jólunum og Finnska hestinum. Hún lauk árið 2006 B.Mus gráðu í söng frá tónlistardeild LHÍ.