a product message image
{' '} {' '}
Limited time offer
SAVE % on your upgrade

Page 1

20

20

1


Þínir hagsmunir hafa forgang - tryggðu öryggi fjölskyldunnar • Sjúkrasjóður tryggir 90% af launum í veikindum og slysum • Styrkir til sjúkraþjálfunar, líkamsræktar, gleraugnakaupa ofl. • Öflug endurmenntun og fjölbreyttir fræðslustyrkir • 30 glæsileg sumarhús víða um land • Hús á Flórída og tilboðsferðir til sólarlanda • Fjölmörg tilboð og afslættir

Öflugt stéttarfélag – aukin þjónusta

Félag iðn- og tæknigreina er stéttar- og fagfélag fyrir starfsfólk í eftirtöldum greinum: • Málm-, véltækni-, framleiðslugreinum og vélstjórn

• Farartækja- og flutningsgreinum (bílgreinum)

• Bygginga- og mannvirkjagreinum

• Þjónustugreinum (snyrtifræði, hársnyrtiiðn)

• Náttúrunýtingu (garðyrkju) • Hönnun, listum, handverki • Tækniteiknun


20

20

Blaðið 2020 er gefið út af öllum iðn- og starfsnámsskólum á Íslandi. Skólarnir eru 14 talsins og eins ólíkir og þeir eru margir, námsframboð er gríðarlega fjölbreytt, þar sem fagmenntaðir einstaklingar útskrifast á hverju ári. Eins og sjá má í blaðinu er fjölbreytni starfsnáms á Íslandi gríðarlega mikið. Alls er hægt að stunda nám í nærri 60 greinum í 14 mismunandi skólum. Nafn blaðsins vísar í sameiginlegt markmið skólanna, skýrt og mælanlegt markmið, að 20% grunnskólanemenda skrái sig í iðn- og verknám frá og með árinu 2020. Blaðinu er dreift til foreldra og forráðamanna allra nemenda í 8., 9. og 10. bekk á Íslandi, í samtals um 12.000 eintökum.

Fjórða tölublað 2020 Prentuð eintök 12.500 Einnig aðgengilegt á ISSUU.com Útgefandi: Iðn- og starfsnámsskólar á Íslandi. Ábyrgðarmaður: Magnús Ingvason. Ritstjórn: Guðlaug M. Pálsdóttir, Kristrún Birgisdóttir, Magnús Ingvason, Ólafur Sveinn Jóhannesson, Silja Sif Engilbertsdóttir, Steinunn Þórdís Árnadóttir og Stefán Andrésson. Umsjón: Laila Sæunn Pétursdóttir. Umbrot og hönnun: Laila Sæunn Pétursdóttir og Emilía Erla Ragnarsdóttir. Hönnun forsíðu: Silja Sif Engilberstdóttir. Ljósmynd forsíðu: Allan Sigurðsson. Prentun: Ísafoldarprentsmiðja. Dreifing: Póstdreifing ehf.


%

MENNTASKÓLINN Í KÓPAVOGI

VERKMENNTASKÓLINN Á AKUREYRI

Dagsetning

5. september 2001

Viðskiptavinur

Fjölbraut Ármúla

Verkefni

Merki


ÁGÆTI LESANDI, Getur þú ímyndað þér samfélagið okkar án iðn- og tæknimenntaðs starfsfólks? Hvernig förum við að í slíku samfélagi, hvernig liti slíkt samfélag út? Engar byggingar, engin farartæki, ekkert rafmagn, engar vélar, símar, tölvur, tímarit, ekkert fagfólk. Staðreyndin er sú að samfélagið eins og við þekkjum það er byggt upp af fagfólki – fagfólki sem hefur menntað sig til að byggja upp og viðhalda heilu samfélagi. Hvort sem þú ert foreldri eða ungmenni þá teljum við fjölbreytt efni blaðsins eiga erindi við þig, efni sem á við okkur öll og snertir alla. Það er hagnýtt að rækta bæði bókvit og verkvit frá unga aldri. Iðn- og starfsnám veitir traustan undirbúning fyrir lífið og fyrir frekara nám. Starfsmenntapróf býður upp á alþjóðleg starfsréttindi sem gefur möguleika á vinnu um víða veröld. Iðn- og starfsnám lokar engum leiðum. Það er alltaf hægt að bæta við, taka stúdentspróf og fara í nám á háskólastigi. Ef stefnan er sett á háskólanám veitir starfsmenntapróf dýrmætt forskot, með grunn í góðri verkkunnáttu, sem er gulls ígildi. Háskólarnir kalla sérstaklega eftir fólki með hagnýta reynslu og verklega þekkingu sem reynist vera ómetanlegt veganesti t.d. í verk- og tæknifræðinámi eða heilbrigðisiðngreinum. Við hvetjum þig til að leita í blaðinu að hugmyndum um nám og störf sem gætu hentað þér. Og ekki hika við að hafa samband og biðja um meiri upplýsingar. Náms- og starfsráðgjafar framhaldsskólanna eru ávallt reiðubúnir að svara fyrirspurnum og gefa góð ráð. Með bestu óskum um bjarta framtíð, Skólameistarar iðn- og starfsnámsskólanna

5


Framtíðin

· Óvissuferð inn í framtíðina · Vinna – nám – verknám · Hvert ætla ég – hvað ætla ég að gera? · Framtíðin er spennandi óvissuferð · AFL Starfsgreinafélag er góður ferðafélagi því við getum fylgt þér milli starfsgreina

www.asa.is

AFL Starfsgreinafélag | asa@asa.is | Sími/tel. 470 0300


10 ÁSTÆÐUR

FYRIR AÐ ÞÚ ÆT TIR AÐ VELJA IÐN- OG STARFSNÁM • Þú getur notað hugmyndaflugið og hönnunarhæfileika þína • Þú lærir hvernig á að leysa vandamál og að vinna sjálfstætt • Þú getur komist fljótt út á vinnumarkaðinn og farið að afla tekna • Það er auðveldara að fá vinnu í útlöndum og þú getur unnið næstum hvar sem er • Þú getur reddað ýmsu heima hjá þér • Þú þarft ekki að taka námslán því þú færð laun á meðan þú ert í starfsnáminu • Þú færð strax reynslu af því hvernig er að vinna við það sem þú ert að læra • Margir sem útskrifast úr iðn- og starfsnámi stofna sitt eigið fyrirtæki • Þú getur tekið stúdentspróf með iðn- og starfsnáminu ef þú vilt bæta við þig námi seinna • Þú getur unnið við það sem þú hefur áhuga á

7


8


www.fa.is

VINNUR VIÐ FOUNDATION, NÝJASTA VERKEFNI APPLE TV HÁKON HJARTARSON ER GARÐBÆINGUR Á SAUTJÁNDA ÁRI SEM STUNDAR NÁM VIÐ FJÖLBRAUTASKÓLANN VIÐ ÁRMÚLA (FÁ). HANN HEFUR ÞRÁTT FYRIR UNGAN ALDUR UNNIÐ VIÐ KVIKMYNDAGERÐ Í NOKKURN TÍMA OG ÞÁ SÉRSTAKLEGA TÆKNIHLIÐINA. Hákon hefur lengi haft brennandi áhuga á myndavélum og einnig því hvernig ljós og hljóð virka. Hann skráði sig því í kvikmyndaklúbb Garðaskóla þar sem hann fékk m.a. tækifæri til að búa til handrit fyrir stuttmyndir og auglýsingar. „Kennarinn sá eitthvað í mér og hvatti mig til að gúggla kvikmyndafyrirtæki til að reyna að fá vinnu.“ Hákon sagðist hafa farið að ráði kennarans, gúgglað og í kjölfarið sent pósta á ótal fyrirtæki til að athuga hvort hann gæti fengið vinnu. Í fyrstu gekk ekki vel að fá vinnu því „allir vildu fá einhvern með bílpróf“ sem hann var ekki kominn með enda aðeins 15 ára á þessum tíma. Þetta var í lok sumarsins 2017 og Hákon nánast búinn að gefast upp á því að fá jákvæð svör en allt í einu kom svarið… hann fékk vinnu hjá einu þeirra fyrirtækja sem hann hafði sent póst á og þá var ekki aftur snúið. Hjá þessu fyrsta fyrirtæki vann hann að ýmsum verkefnum eins og t.d. grip, ljós, special effects verkefnum; búa til sprengingar, reyk og eld. Hann aðstoðaði við gerð sjónvarpsauglýsinga fyrir ýmis þekkt fyrirtæki. Hákon vann mikið á þessum tíma, nýtti hvert tækifæri sem gafst til að kynnast öllum þáttum kvikmyndagerðarinnar. Síðan hefur Hákon m.a. unnið fyrir Stöð 2 og Sjónvarp Símans. Stærsta verkefnið er þó án efa í tengslum við stórvirkið Foundation sem er dýrasta verkefni Apple TV streymisveitunnar til þessa. Tökur fóru fram hér á landi síðasta sumar og í haust. Þar sinnti Hákon margvíslegum verkefnum, sérstaklega í tengslum við ljós, en annars gerði hann það sem þurfti til að fá sem mesta reynslu. Aðspurður um hvað námið í skólanum væri að bæta við þá reynslu sem hann hefði svaraði hann því til að í skólanum lærði maður ekki aðeins að taka upp efni heldur einnig mikið um það sem gerðist á undan kvikmyndatökunni sjálfri eins og handritsskrif og eftir að tökum lyki sbr. klippingar og fleira. Hákon segir framtíðina óráðna en allavega þá stefni hann á að klára lista- og nýsköpunarbraut FÁ ásamt stúdentsprófi en að því loknu hefur hann áhuga á frekari frama í kvikmyndaheiminum. Handritsskrif og klippingar heilla hann mest og vonandi mun hann eiga bjarta framtíð í þeim efnum í framtíðinni.

9


VEFBÆKUR IÐNÚ Nú stendur nemendum til boða að kaupa sér aðgang að námsefni sem er gagnvirkt og í stöðugri þróun.

Kynntu þér málið á www.vefbok.is

Brautarholt 8 - 105 Reykjavík - Sími 517-7200 - idnu@idnu.is - www.idnu.is

Augl.2020-107.5x170-2.indd 1

Framtíðin er snjöll – mótaðu hana með okkur

Hjá okkur starfar fjöldi tækni- og iðnmenntaðra kvenna og karla með fjölbreyttan bakgrunn. Við hvetjum iðn- og tækninema um allt land að kynna sér Veitur sem framtíðarvinnustað. www.veitur.is/framtidin

Í góðu sambandi við framtíðina

5.2.2020


www.fb.is

Útskriftarræða Magneu Óskarsdóttur haustönn 2019

ÞAÐ SKEMMTILEGASTA SEM ÉG HEF GERT

KÆRU SAMNEMENDUR, KENNARAR OG AÐRIR GÓÐIR GESTIR Til hamingju með daginn. Þetta eru stór tímamót í lífi okkar allra sem marka kaflaskipti. Skólagöngu okkar hér í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti (FB) er formlega lokið og ættum við að gefa því gott klapp. Þar sem ég á ekki bíl og bý á Seltjarnarnesi þá er ég búin að ferðast í skólann með strætó flesta morgna í tvö og hálft ár. Til að setja það í samhengi eru það 750 klukkustundir eða 31 dagur og þið megið þá bara velja hvort ég var allan janúar, september eða október í strætó. Nota bene ég er með 96% mætingu sem þýðir að ég er ekki ýkja en ég er að segja ykkur þetta til að lýsa því hversu vel mér hefur liðið í snyrtifræðinni. Ástæðan fyrir því að ég reif mig á fætur snemma á morgnanna til þess að mæta tímanlega í skólann er vegna þess að ég fann rétta námið fyrir mig sem lét mig hlakka til að mæta í skólann og það er allt FB að þakka. Það var skrítið að setjast aftur á skólabekk í framhaldsskóla eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá MH. Ég fékk alveg skot frá vinum og leiðinlega frændanum: „Hva, ertu bara aftur komin í framhaldsskóla?“ Og já, það var rétt. Eftir að hafa útskrifast úr bóknámi frá MH var FB eini skólinn sem bauð upp á iðnnám sem tengdist áhugasviði mínu. Var erfitt að aðlagast í FB? Nei. Á móti mér tóku yndislegir kennarar, persónulegir, hlýir og umfram allt fagmenn fram í fingurgóma og sjö stelpur sem ég er svo heppin að geta kallað vinkonur mínar í dag. Ég ákvað fljótt að hér skyldi ég nýta öll þau tækifæri sem að skólinn hefði upp á að bjóða.

Fyrir tilstilli FB fékk ég Erasmus+ styrk til að fara og öðlast starfsreynslu í Finnlandi. Þar fékk ég að vinna á finnskri snyrtistofu í heilan mánuð. Sú ferð mun seint gleymast og starfsreynslan sem ég öðlaðist þar er ómetanleg. Einnig gafst mér tækifæri til að taka þátt í Íslandsmóti iðn- og verkgreina í snyrtifræði á þessu ári og var ég ákveðin í að skrá mig. Það var mikill spenningur í kringum keppnina því við vissum eiginlega ekki hvað við vorum að fara út í og á endanum kom í ljós að þetta var án efa eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert í lífi mínu til þessa en ég hef aldrei komið sjálfri mér jafn mikið á óvart. Ég hef tileinkað mér vaxandi hugarfar á meðan ég hef lært hér í FB. Ég trúi því að ég geti þróað styrkleika mína og hæfni með vinnusemi, góðum aðferðum, reynslu sem ýtir mér út fyrir þægindarammann og hjálp frá öðrum, svo sem kennurum og samnemendum. Rannsóknir benda til þess að vaxandi hugarfar hafi jákvæð áhrif á áhugahvöt nemenda og geri þeim kleift að einbeita sér að náminu, að þeir gefist síður upp, hræðist ekki mistök og að námsárangur verði betri. Kennurunum mínum tókst að skapa umhverfi og aðstæður sem vöktu mig til vaxandi hugarfars. Einn helsti styrkur þessa náms er jafnvægið á milli þess að læra fagið og að starfa við það. Starfsreynslan ásamt hnitmiðuðu og kröfuhörðu námi gerir það að verkum að mér líður vel að takast á við hverja þá áskorun sem bíður mín á vinnumarkaðnum. Að velja sér starfsvettvang hlýtur að teljast ein af stærstu ákvörðunum sem hver og einn tekur í sínu lífi og hér í FB hef ég fengið tækifæri til að vaxa og dafna í mínu námi, gert mistök og lært af þeim í uppbyggilegu umhverfi sem ég verð alltaf þakklát fyrir og mun taka með mér út í lífið. Takk fyrir mig FB!

11


www.va.is

RAFMAGNAÐUR BLAKARI Í FJÖLBREYTTU NÁMI Hlynur Karlsson er 17 ára nemandi við Verk-

menntaskóla Austurlands (VA). Hann hefur valið sér þá leið í náminu að hann stundar nám í rafvirkjun og tekur viðbótarnám til stúdentsprófs með áherslu á raungreinar samhliða því. Hugmyndin kviknaði sumarið áður en hann hóf nám í VA en varð ekki alvöru fyrr en hann hafði lokið einni önn á náttúruvísindabraut. „Þá fattaði ég að mig langaði frekar að fara í rafvirkjun heldur en bóknám. Mig langaði til að læra rafmagnsfræði og hafa þá stúdentinn með.“

12


Hann settist því niður með móður sinni og kortlagði hvernig væri hægt að gera þetta. Því næst hitti hann náms- og starfsráðgjafa og í kjölfarið hófst námið. Í VA er bæði hægt að taka bóknám og verknám og því auðvelt fyrir Hlyn að flétta námið saman. Í raun tefur þetta hann ekkert í námi en hann nefnir að ef hann hefði byrjað strax á báðum brautum þá hefði hann getað tekið þetta ögn hraðar.

Langaði að læra rafmagnsfræði og taka stúdentinn Hlynur viðurkennir að fólkið í kringum hann hafi verið ögn hissa í byrjun að hann vildi skipta yfir í verknám. Það er þó auðvelt að sjá kostina. Hann vildi ekki binda sig við annað hvort vegna þess að ef hann tæki bæði hefði hann fleiri möguleika í námi og starfi. Það sem er í uppáhaldi hjá honum í náminu er stærðfræði sem nýtist á báðum brautum. Hann nefnir einnig verklegu fögin í rafvirkjuninni sem og líffræði og eðlisfræði af stúdentsbrautinni.

Klára námið fyrst Framtíðin er óráðin hjá Hlyni enda nægur tími til að ákveða sig. Hann nefnir þó rafeindavirkjun, rafmagnsfræði, tæknifræði og jafnvel að fara að vinna. Það er ekkert sérstakt starf sem heillar. Hann ætlar að klára námið fyrst og hugsa svo. Allir möguleikar eru opnir.

Gott að vera heima Námið liggur svo sannarlega fyrir honum og finnst honum hvorug brautin neitt sérstaklega erfið. Sumt er þó erfiðara en annað en allt mjög skemmtilegt sérstaklega verklegu fögin þar sem hann fær að gera eitthvað og fikta. Það skiptir einnig máli fyrir hann að námið er í boði í heimabyggð, það er stór kostur og minni líkur á að hann hefði farið í námið ef svo hefði ekki verið.

Þú getur alltaf skipt Þegar Hlynur er beðinn um ráðleggingar til grunnskólanema mælir hann heilshugar með rafvirkjuninni og krakkarnir eigi að láta vaða í verknám liggi áhuginn þar. Þá sé líka alltaf hægt að skipta ef svo ber undir. „Ef þig langar til að skipta um nám þegar þú ert hálfnaður með annað þá er það allt í lagi, nægur tími til að læra og aldrei of seint að byrja á einhverju nýju.“

Blakar í frístundum Meðfram náminu æfir Hlynur blak af kappi. Hann spilar með meistaraflokki Þróttar og hefur leikið með unglingalandsliðum. Í Neskaupstað, þar sem VA er staðsettur, er einmitt vagga blakíþróttarinnar og því ekki aðeins hægt að samtvinna námið heldur einnig stunda afreksíþróttir samhliða því.

13


Íslandsmeistari í málaraiðn „Ég er mikil keppnismanneskja,“ segir Guðrún Blöndal nýbakaður Íslandsmeistari í málaraiðn. Þessa dagana vinnur hún hjá málarameistara í Reykjavík

og æfir fyrir Norðurlandamótið í iðngreinum, sem fram fer í Osló 20. ágúst næstkomandi. Guðrún fæddist í Lúxemborg og ólst þar upp til þriggja ára aldurs, eftir það fluttist hún heim til Íslands með fjölskyldu sinni og lauk grunnskólanámi í Austurbæjarskóla.

Þegar kom að því að velja framhaldsskóla þá byrjaði Guðrún í MR en hún skipti um skóla á öðru ári og byrjaði í málaraiðn í Tækniskólanum (Tskóli). „Mig hefur alltaf langað til þess að læra eitthvað verklegt, vinna með höndunum, ég skoðaði t.d. hönnunarbrautir og klæðskerann - en ákvað að velja málarann.“ Árið 2019 tók Guðrún þátt í Íslandsmóti iðnnema, þar sem keppt er í hinum ýmsu iðnog starfsgreinum, en hún gerði sér lítið fyrir og sigraði keppnina – fyrst allra kvenna á Íslandi. „Þetta var mjög gaman og það er líka skemmtileg staðreynd að ég er fyrsti iðnaðarmaðurinn í fjölskyldunni.“ Í dag er Guðrún Íslandsmeistari í iðngrein sem telur mun fleiri karla en konur, iðngrein sem hentar þó báðum kynjum vel. Þeir sem læra málaraiðn taka tvö ár í skóla og 96 vikur á námssamning hjá meistara – en sá hluti námsins er launað starfsnám. „Ef ég mætti gefa nemendum í grunnskóla einhver ráð um val á framhaldsskóla þá myndi ég segja þeim að velja með hjartanu. Ef þið hafið áhuga á því að vinna með höndunum þá mæli ég með því að byrja þar.“

14


www.tskoli.is

Fyrsta íslenska konan sem lauk sveinsprófi var Ásta Kristín

Árnadóttir, oft kölluð Ásta málari,

en hún lauk sveinsprófi í málaraiðn árið 1909. Ásta toppaði þetta

allt saman með því að verða fyrsta konan í heiminum sem lauk

iðnmeistaraprófi í sömu grein. 110 árum síðar varð Guðrún fyrst kvenna til að verða

Íslandsmeistari í málaraiðn.

15


Kæru foreldrar/forráðamenn Ein af stærri ákvörðunum sem nemendur í efri bekkjum grunnskóla standa frammi fyrir er að velja sér nám að loknum grunnskóla. Möguleikarnir eru fjölmargir og því er mikilvægt að nemendur kynni sér vel hvað er í boði til að auka líkurnar á ígrundaðri ákvörðun um það hvert leiðin liggur að loknum grunnskóla. Foreldrar eru oftar en ekki áhrifavaldar þegar að náms- eða skólavali kemur og því er mikilvægt að setjast niður með barninu og skoða vel og ræða allar þær námsleiðir sem í boði eru. Of oft velja nemendur að fara í ákveðna skóla sem mögulega bjóða ekki upp á nám sem hentar þeirra áhugasviði, slíkt getur aukið líkur á brotthvarfi frá námi.

Þessi listi getur hjálpað ykkur að byrja: Á hvernig störfum hefur barnið áhuga? Um hvað snýst viðkomandi starf? Hefur barnið gaman af því að skapa/hanna eða vinna í höndunum? Ef já þá hvernig? Langar barninu til að eiga möguleika á því síðar að starfa erlendis? Vill barnið klára stúdentspróf? Vill barnið ljúka framhaldsskóla með iðn- og starfsmenntun. Margir halda því fram að ein leið sé betri en önnur, það borgi sig t.d. að taka stúdentspróf og helst af náttúrufræðibraut til að loka ekki neinum dyrum. Þetta er fjarri lagi þar sem það er vel hægt, ef vilji er fyrir hendi, að taka stúdentspróf samhliða iðn- og starfsnámi. Verum styðjandi, hlustum á börnin okkar og verum jákvæð fyrir þeim hugmyndum sem þau hafa varðandi námsval. Með því aukum við líkurnar á því að börnin okkar finni sér farveg í því sem þau virkilega langar til að starfa við í framtíðinni.

17


www.vma.is

GÓÐUR GRUNNUR FYRIR VÉLAVERKFRÆÐI „Þegar ég var í grunnskóla Í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit leiddi ég ekki hugann að því að fara í vélstjórnarnám en svo kynnti ég mér hvaða kostir væru í stöðunni og niðurstaðan var að fara í vélstjórn í Verkmenntaskólanum á Akureyri (VMA). Ég sé ekki eftir því. Vélstjórnin sameinar bóklegt nám í raungreinum - stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði - og verklegt nám, sem var mér framandi, t.d. málmsmíði og málmsuða,“ segir Þóra Kolbrún Jóhannsdóttir, sem hafði ákveðið við lok grunnskóla að hún ætlaði að fara í háskólanám í vélaverkfræði. Sem grunnur fyrir vélaverkfræðina taldi Þóra Kolbrún að vélstjórnin væri besti kosturinn og hún er sannfærð um að hún hafi veðjað á réttan hest. Hún er nú á sjöttu önn af átta í vélstjórnarnáminu. Fyrsta árið er grunndeild málmiðnaðar sem allir nemendur í málmsmíðagreinum, bifvélavirkjun og vélstjórn taka og síðan tekur vélstjórnin við. Lengd námsins ræðst af því hversu víðtækum vélstjórnarréttindum nemendur sækjast eftir. Auk fyrsta ársins í grunndeild málmiðnaðar tekur Þóra Kolbrún þrjú ár í vélstjórninni. Námstími hennar í VMA er því fjögur ár og lýkur með stúdentsprófi og C-réttindum í vélstjórn vorið 2021. Í framhaldinu ætlar hún að fara í vélaverkfræði.

18


Fékk styrk sem að nýtist vel

Þóra Kolbrún sleppti tíunda bekk grunnskóla og fór beint úr níunda bekk í grunndeild málmiðnaðar. „Ég var ekki orðin fimmtán ára gömul þegar ég byrjaði í VMA. Þetta var því mikil áskorun og verklegi hlutinn í grunndeildinni var mér framandi. Engu að síður gekk námið vel og mér fannst það skemmtilegt. Ég er ekki í nokkrum vafa að þetta er mjög góður grunnur fyrir háskólanám. Ég hef lært ótrúlega margt um vélar, hönnun véla, kælitækni, vélfræði og margt fleira sem ég tel að muni hjálpa mér í vélaverkfræðinni. Námið er viðamikið og gerir miklar kröfur,“ segir Þóra Kolbrún, sem var í hópi verknámsnemenda af öllu landinu sem fengu á liðnu hausti styrki úr hvatningarsjóði Kviku. Styrkinn, sem nemur einni milljón króna, ætlar Þóra Kolbrún að nýta þegar kemur að háskólanáminu.

Ekki bara fyrir karla Erfiðlega hefur gengið að brjóta niður þann ímyndarmúr að í vélstjórn séu bara vinnugallaklæddir vélstjórar til sjós. Þóra Kolbrún segir vélstjórnina vera svo miklu meira og ungt fólk sem horfi til góðrar og hagnýtrar menntunar, hvort sem er til að fara strax út á vinnumarkaðinn að námi loknu eða til að búa sig undir frekara nám, ætti að gefa vélstjórnarnáminu gaum. Kynjahalli hefur verið í vélstjórninni og segir Þóra Kolbrún að það þurfi að breytast, námið sé ekkert síður fyrir stelpur en stráka. Hún vonast til að með aukinni kynningu á þeim starfsmöguleikum sem bjóðist að náminu loknu og hversu góður grunnur það sé fyrir háskólanám velji fleiri stúlkur þessa námsleið. „Ég er oft spurð að því af hverju fleiri stelpur fari ekki í vélstjórn. Ég veit ekki svarið en býst við að líklegasta skýringin sé þessi útbreidda ranga hugmynd um námið og störf að því loknu. Að mínu mati hafa stelpur ekki horft nægilega mikið á vélstjórnina sem raunhæfan valkost. Vonandi breytist það í framtíðinni,“ segir Þóra Kolbrún.

19


www.fva.is

Ég vil komast eins langt og ég get í fótbolta


Afreksíþróttasvið við Fjölbrautaskóla Vesturlands (FVA) er samstarfsverkefni FVA, íþróttafélaga á Akranesi og Akraneskaupstaðar. Sviðið er hugsað fyrir nemendur sem hafa stundað afreksíþróttir í töluverðan tíma og vilja hafa aukið svigrúm til að stunda íþrótt sína samhliða námi í skólanum. Við fengum ungan efnilegan fótboltamann til að segja okkur aðeins frá sér og náminu.

Árni Salvar Heimisson er Skagamaður fæddur 2003. Eins og margir Skagamenn hefur hann æft fótbolta frá unga aldri og er nú á afreksíþróttasviði FVA þar sem hann leggur einnig stund á nám í rafvirkjun.

Atvinnumenn í afrekinu Í grunnskóla fékk Árni ásamt öðrum nemendum kynningu á námi við FVA og fannst strax spennandi kostur að geta haldið áfram að æfa fótbolta á afreksíþróttasviði: „Ég hafði heyrt frá fótboltamönnum sem ég þekki og eru komnir í atvinnumennsku að þeir hafi verið í afrekinu.“ Aðspurður hvers vegna nám í rafvirkjun hafi orðið fyrir valinu segist Árni muna eftir því að hafa fylgst með rafvirkja við vinnu sína og hugsað að þetta hlyti að vera gaman. „Síðan hef ég alltaf haft mjög gaman af því að vinna með höndunum. Afi minn var smiður og ég var alltaf eitthvað að smíða með honum. Svo hugsaði ég að ég þekki í raun ekki marga rafvirkja og langaði að læra eitthvað sem ég gæti notað í framtíðinni, alla vega lagað ristavél eða eitthvað.“ Áhugaverðast finnst Árna að læra verklegar greinar „Já, að tengja ljós og rofa og alls konar svoleiðis verkefni sem ég sé að ég get notað í framtíðinni. Svo er stærðfræðin auðvitað hluti af þessu öllu, þetta passar mjög vel saman.“

Fær æfingarnar í töfluna

Árni segir það ganga mjög vel að leggja samhliða stund á afreksíþróttir og rafvirkjun: „Þetta púslast bara mjög vel saman, alls ekki neitt stress. Ég fæ fótboltaæfingar í töflu tvo morgna í viku og svo fáum við líka þrektíma og bóklegan tíma inn í stundatöfluna. Það eru mjög reyndir þjálfarar með hverja grein hef ég heyrt, bæði í sundinu og fimleikum, og í fótboltanum er það Siggi Jóns sem er með okkur og hann er náttúrulega toppþjálfari.“ „Ég stefni að því að klára viðbótarnám til stúdentsprófs eftir rafvirkjunina. Mitt markmið með náminu var að taka grunn í einhverju sem ég hef áhuga á. Mig langar að komast langt í fótboltanum en ef það klikkar einhvern veginn þá er ég allavega með grunninn í rafvirkjun til að gera eitthvað og fá vinnu. Í framtíðinni verð ég vonandi kominn í atvinnumennsku, ef ekki þá verð ég örugglega orðinn rafvirki hérna á Skaganum. Að laga ristavélar og ljós og svona!“ Árni segist ekki sjá eftir því að hafa valið þetta nám: „FVA er glæsilegur skóli og mikið af frábærum kennurum. Svo er félagslífið líka gott og góð böll. Ég myndi mæla með því fyrir alla sem hafa áhuga á iðnnámi að skoða þetta, hvort sem það er rafvirkjun eða einhver önnur iðn.“

21


ÁR NÝSKÖPUNAR 2020 Samtök iðnaðarins tileinka árið 2020 nýsköpun. Þannig vilja samtökin leggja sitt af mörkum til að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar fyrir framfarir í íslensku atvinnulífi. Með því að styðja við umgjörð og hvata til nýsköpunar í nýjum og rótgrónum fyrirtækjum eflum við samkeppnishæfni Íslands til framtíðar.


www.bhs.is

VELJIÐ ÞAÐ SEM ÞIÐ VILJIÐ GERA

Það skiptir svo miklu máli að hafa áhuga á því sem maður er að læra Aldís Birta útskrifaðist sem félagsliði og stúdent frá Borgarholtsskóla (Borgó) haustið 2019. Hún starfar við heimaþjónustu í dag þar sem enginn dagur er eins. Hún starfar t.d. með einstaklingum með einhverfu, öldruðum og fólki með MND sjúkdóminn.

Ekki bein leið frá grunnskóla til útskriftar Að eigin sögn var Aldís Birta meira að einbeita sér að félagslífinu og nemendaráðinu fyrstu árin í Borgó. Hún flakkaði á milli brauta og var meðal annars á listnámsbraut og félags- og hugvísindabraut áður en hún fann sína hillu á félagsliðabraut. Hún vissi alltaf að hún vildi starfa með fólki og hafði sérstaklega áhuga á því að starfa með fullorðnu fólki með fötlun.

henni að finna út hvað það var sem hún hafði áhuga á að gera. Bóklegu fögin á brautinni voru skemmtileg og fjölbreytt. Þar stóð upp úr afbrigðasálfræði, félagsleg virkni og lyfjafræði. Aldís Birta stefnir á frekara nám og langar í háskólanám tengt félagsliðanum. Þar er hún helst að skoða uppeldisfræði, félagsog tómstundafræði og hjúkrunarfræði.

Hvað þarf að hafa í huga þegar velja á nám?

Ótrúlega skemmtilegt að fara í starfsnám

Það stóð ekki á svörum þegar Aldís Birta var spurð hvaða skilaboðum henni þætti mikilvægt að koma til þeirra sem eru að klára grunnskólann eða velja sér nám á framhaldsskólastigi. „Að taka sér tíma og prófa sig áfram. Það eru ekki allir búnir að velja sér framtíðarstarfið beint eftir grunnskóla, ég ætlaði mér að verða leikari. En það hentar mér alls ekki í dag. Ég veit alveg hvað það er sem ég vill gera í framtíðinni og það er akkúrat það sem ég er að gera í dag!

Aldís Birta er á því að starfsnámið hafi gefið henni mikla og góða innsýn í störf félagsliða á fjölbreyttum vinnustöðum. Hún prófaði að vinna með fötluðum börnum og unglingum, einstaklingum sem eru andlega veikir og hún fór einnig í starfsnám í Ljósinu. Það að fara á svona fjölbreytta vinnustaði hjálpaði

Gangi ykkur vel í framhaldsskólagöngunni, gefið ykkur tíma í að ákveða ykkur, ekki velja skóla bara af því að vinir ykkar eru að fara í þann skóla. Veljið það sem þið raunverulega viljið gera, það skiptir svo miklu máli að hafa áhuga á því sem maður er að læra.“

23


Kynning

AF HVERJU EKKI VERKNÁM? FRAMTÍÐIN ER ÞÍN Þegar við spyrjum börnin okkar um hvað þau vilji verða þegar þau verða stór er svarið oft lögga, kokkur, læknir eða slökkviliðsmaður. Af hverju? Jú þetta eru störf sem eru í algeng í daglegu tali og stór hluti af samfélaginu. En þegar kemur að því að gera það upp við sig hvert skuli haldið á menntabrautinni þá velja langflestir bóknámsleiðina. Með fullri virðingu fyrir því vali þá er það nú einu sinni þannig að það hentar ekki öllum að fara þá leið. Ófá dæmi eru um að krakkar klára stúdent og jafnvel háskólanám en svo kemur jafnvel í ljós að hugurinn leitar allt annað og þá má líka skipta um skoðun. Til að samfélagið gangi sinn vanagang verður að vera jafnvægi til staðar. Fólk sem fer í iðnnám á sviði matvæla- og veitingagreina er á launum á meðan á námi stendur og er því ekki háð námslánum þó svo að hótel mamma sé auðvitað oftar en ekki til staðar. Þannig að ef fólk finnur sig í matreiðslu, bakstri, kjötiðn eða framreiðslu kemur fólk með sína þekkingu út á vinnumarkaðinn og strax komið með flott laun enda samkvæmt síðustu kjarakönnun okkar í MATVÍS þá eru meðaltekjur félagsmanna 634.000 kr. á mánuði.

FÆRÐ RÉTTINDI STRAX EFTIR NÁM Nemendur í matvæla- og veitingagreinum hefja t.d. námið sitt á veitingastað þar sem meistari er þeim til handleiðslu og þau fylgja svokallaðri Vinnustaðahandbók. „Nemendur fá þá strax reynslu á vinnustað og átta sig á hvort námið hentar þeim. Þau eru þá ekki að stúdera nám til margra ára og koma svo á vinnumarkaðinn og finna sig ekki,“ segir Óskar Hafnfjörð Gunnarsson hjá Matvís. En eftir þriggja og fjögurra ára nám í skóla og á vinnustað eru nemendur í matvæla- og veitingagreinum komnir með viðurkennd starfsréttindi og góð laun og geta strax hafist handa á vinnustað eða haldið áfram í námi svo sem í iðnstúdentinn, meistaranám, viðskiptafræði á bifröst eða í hótelstjórnarskóla, matvælafræði o.s.frv.

24

EFTIRSÓTTIR STARFSKRAFTAR UM ALLAN HEIM Útskrifaðir nemendur í matvæla- og veitingagreinum eru sérlega eftirsóttir á vinnustöðum og það er stöðugt verið að auglýsa eftir lærðum fagmönnum. Fjölmargir staðir auglýsa einnig eftir nemendum á samning og á vefnum www.idan.is geta áhugasamir fundið staði til að hefja starfsnám sitt. Fólk sem hefur lært þessar iðngreinar hér á landi er gríðarlega eftirsótt til starfa erlendis. Þannig að atvinnuöryggi er mikið og tækifærin mörg. Þetta nám veitir inngöngu á vinnumarkaðinn hvar sem er í heiminum. Með því að ljúka námi í matvæla- og veitingagreinum er búið að opna allan heiminn fyrir þér. Í dag eru Íslendingar að reka Michelin staði t.d. í London og New York og bakari var að opna bakarí í Kúveit, Barein og Dubai. Ásamt því að eiga fjöldan allan af glæsilegu fagfólki víða í Evrópu og reyndar um allan heim.

FJÖLMARGAR KEPPNIR OG NÝJUNGAR Bæði nemendur og útskrifað fagfólk geta tekið þátt í keppnum hérlendis og erlendis sem gerir starfið enn skemmtilegra þar sem stöðugt er verið að leita nýjunga. „Við erum að taka þátt í keppnum um allan heim. Á hverju ári sendum við t.d. tvo framreiðslunema og tvo matreiðslunema í Norðurlandakeppni og svo eru keppnir eins og Kokkur ársins og keppnir á Norðurlöndunum. Við erum að senda keppendur á EuroSkills 2020 Austurríki í öllum okkar greinum þar sem ungir upprennandi fagmenn úr allri Evrópu keppa innbirgðis. Við tökum þátt í Íslandsmóti iðngreina og keppum þar í bakstri, framreiðslu, kjötiðn og matreiðslu. Kokkalandsliðið er fyrir löngu búið að skipa sér á stall með þeim fremstu í heimi þegar kemur að keppnum í matreiðslu og nýta þau sér ásamt öllum okkar greinum aðstöðuna hér hjá MATVÍS til að æfa sig. Það er vissulega keppnisandi í þessu sem gerir námið og fagið enn meira spennandi. Þannig að ef fólk vill fá útrás fyrir sköpunar elementið þá er það svo sannarlega hægt í matvælagreinunum.


www.fss.is

VERÐUR ÞÉR SKIPT ÚT FYRIR VÉLMENNI? Heimurinn horfir nú á upphaf tæknibyltingar, hinnar svokölluðu fjórðu iðnbyltingar. Vélmennavæðingin blasir við og innan fárra áratuga verða mörg núverandi störf horfin og önnur hugsanlega tekin við. Afgreiðsla í verslun, akstur bíla og fleiri slíkum störfum mun fækka með tímanum. Það er ekki spurning um hvort þetta muni gerast heldur einungis hversu hratt. Gott dæmi um þessa þróun er að á síðasta ári var fjölda afgreiðslufólks í matvöruverslunum skipt út fyrir tölvur sem unnu sama verk. Áður en langt um líður verða nánast öll afgreiðslustörf horfin, þannig að sjálfvirknivæðingin er ekki einhver spá um fjarlæga framtíð heldur eitthvað sem er að gerast. Það er mikilvægt fyrir samfélagið okkar að unga fólkið hafi góðan skilning á þessari nýju tækni. Til að koma til móts við þessa þörf hefur Fjölbrautaskóli Suðurnesja (FS) hafið kennslu á nýju fagi; róbótafræði. Í faginu setja nemendur upp sínar eigin tölvur sem tengjast nemum sem veita upplýsingar um hitastig, loftþrýsting, rakastig, sýn o.fl. Einnig geta þær framkvæmt vinnu t.d. með því að keyra mótora í gegnum forritskóða. Þessa mótora er svo hægt að

tengja saman á marga vegu til að framkvæma hin ýmsu verk í umhverfi tölvunnar og þetta er í rauninni upphafsskrefið að því að byggja vélmenni. Í róbótafræði eru notaðar pínulitlar og ódýrar tölvur (6x9 cm.) sem eru ekki með skjá, lyklaborði eða mús en virka eins og fullgildar tölvur. Þess utan eru þær með rafrásir sem gera tölvunum kleift að keyra mótora og nema umhverfi sitt eins og lýst var hér að ofan. Í róbótafræðinni eru þessar smátölvur settar inn í litla bíla sem þá er hægt að stjórna með tölvunni og fylgjast með því frá sjónarhorni bílsins.

Geturðu skrifað tölvuforrit sem leiðbeinir bílnum að græna kallinum? Til að setja róbótafræði í sögulegt samhengi þá er þetta svolítið eins og að leika sér með gufuvélar í Englandi um 1750. Þetta er ný tækni á frumstigi. Oft þarf að gera margar tilraunir til að finna réttu lausnina og það getur tekið tíma og kostað mikla vinnu. En til lengri tíma litið mun skilningur unga fólksins á þessari tækni skipta okkur öllu máli. Já, verður þér skipt út fyrir vélmenni? Vertu á undan og hannaðu það sjálfur.

25


www.mk.is

BRENNUR FYRIR BAKSTRI

Gunnlaugur Arnar er 25 ára bakari og konditor sem keppir á árinu fyrir Íslands hönd í alþjóðlegri konditorkeppni í Tævan. Gunnlaugur lærði

bakarann í Menntaskólanum í Kópavogi (MK) og fór svo í konditor og

starfsnám til Danmerkur hjá einum virtasta og jafnframt elsta konditorstað í Kaupmannahöfn: La Glace.

Leist svakalega vel á mig

Gunnlaugur sótti um hjá La Glace nokkrum mánuðum fyrir útskrift úr bakaranum í von um að komast að í konditornám og ná að þróa sig áfram. „Þeim leist bara svona svakalega vel á mig og ég var boðaður í viðtal nokkrum dögum eftir að ég sendi inn umsóknina. En þar sem ég var ekki útskrifaður þá var ekki hægt að klára umsóknarferlið og var ég því beðinn um að hafa aftur samband eftir útskriftina sem var náttúrulega mikil viðurkenning,“ segir Gunnlaugur. Eftir útskrift fékk Gunnlaugur að koma í prufur og var svo tekinn inn á námssamning í janúar 2018.

Mikill heiður að komast að hjá La Glace

„La Glace er einn flottasti konditori staður í Danmörku. Hann er að halda núna upp á 150 ára afmæli sitt og það er svakaleg hefð í Danmörku fyrir þessum stað. Þarna hafa kynslóðir eftir kynslóðir komið og gætt sér á kaffi og kökum. Maður sér t.d. ömmur og afa með barnabörnum sínum en þau sjálf hafa jafnvel komið þarna með sínum ömmum og öfum og þannig koll af kolli. Þarna eru gamlir klassíkerar og einhverjar tertur sem hafa verið á boðstólum öll 150 árin en svo er líka fylgst með nýjustu tísku og nýtískulegur blær

26


settur á aðra hluti,“ útskýrir Gunnlaugur. Það er mjög erfitt að komast að í starfsnámi hjá La Glace og var Gunnlaugur að vonum gríðarlega ánægður. „Þegar ég kom í skólann og hitti aðra nemendur í skólanum var ég bara strax spurður hvernig mér hefði tekist að fá vinnu þarna þar sem allir reyna að komast að í starfsnáminu hjá La Glace. Þá fann maður enn frekar hvað það var mikill heiður að komast að hjá þeim,“ segir Gunnlaugur enn fremur.

Ný ævintýri taka við

Nú er Gunnlaugur fluttur heim og er ástæðan sú að hann mun keppa fyrir Íslands hönd í heimsmeistarakeppni konditora 25 ára og yngri í Tævan. „Ég var beðinn að taka þátt í keppninni meðan ég var enn úti og ég ákvað að sjálfsögðu að slá til og flytja heim. Nú er ég á fullu að undirbúa mig fyrir keppnina. Þetta er í annað sinn sem Ísland keppir í þessari keppni og enginn smá heiður að fá að taka þátt. Núna er ég algjörlega að einbeita mér að þessu verkefni og er með styrktaraðila og aðstöðu í bakaradeildinni í MK en annars væri ekki séns fyrir mig að vera að gera þetta svona. Ég tek langa æfingadaga á hverjum degi til að undirbúa mig fyrir keppnina. Þetta er þriggja daga keppni og þurfum við að búa til tertu og diskaða eftirrétti, fjórar tegundir af konfektmolum, tvær týpur af marsipanfígúrum og eitt sykurskrautstykki,“ útskýrir Gunnlaugur.

Iðnnám er vinna án landamæra

Gunnlaugur veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér en segir iðnnámið vera svo frábært því fólk geti nýtt það hvar sem er í heiminum. „Allar þjóðir í heimi baka brauð og þú getur bakað tertur alls staðar í heiminum. Möguleikarnir eru endalausir. Ég held öllum dyrum opnum varðandi framtíðina sérstaklega á tímum sem þessum þar sem atvinnutilboð koma meira að segja á Instagram,“ segir Gunnlaugur að lokum en hann heldur úti Instagram síðunni https://www.instagram.com/gulliarnar/.

27


SJÁLFBÆRNI - HAGSÆLD - FRAMSÆKNI

VIÐ BJÓÐUM VANDAÐ & HAGNÝTT NÁM SKÓGUR & NÁTTÚRA Á þessari braut eru kenndar grunngreinar náttúrufræði, svo sem jarðvegs- og áburðarfræði, plöntuþekking, plöntulífeðlisfræði, vistfræði og umhverfisfræði. Starfsvettvangur útskrifaðra nemenda er skóg- og trjárækt og verkstjórn á þeim sviðum. Jafnframt vinna þeir m.a. störf sem tengjast uppgræðslu, útivistar- og ferðaþjónustusvæðum, grænum svæðum í þéttbýli, ofl.

FRAMTÍÐIN ER GRÆN Garðyrkja í dag er blómleg atvinnugrein og hefur að skipa metnaðarfullu fagfólki sem vinnur ötullega að því að framleiða matvæli með ýmsum aðferðum, gróður sem hentar innanhúss sem utan, afskorin blóm sem gleðja við öll tækifæri, ræktar skóg og sinnir honum frá gróðursetningu til grisjunar og mótar og fegrar okkar nánasta umhverfi með gróðri og grjóti/hellum svo sómi er að.

STARFSMENNTANÁM Á GARÐYRKJUBRAUTUM LBHÍ FER FRAM Á REYKJUM Í ÖLFUSI OG ER SÉRHÆFT TVEGGJA ÁRA BÓK- OG VERKLEGT NÁM ÁSAMT 60 VIKNA VERKNÁMSSAMNINGI UNDIR HANDLEIÐSLU GARÐYRKJUFRÆÐINGS EÐA MEISTARA.

Grunnur að góðri fagþekkingu er að sjálfsögðu menntun og þjálfun viðkomandi starfa. Garðyrkjunámið fer fram á Reykjum í Ölfusi í Garðyrkjuskólanum fyrir ofan Hveragerði. Kynnið ykkur námið betur og heimsækið okkur á opnu húsi Sumardaginn fyrsta, 23.apríl 2020 á Reykjum. Allir velkomnir!

LANDBÚNAÐARHÁSKÓLI ÍSLANDS

REYKIR | HVANNEYRI | KELDNAHOLT

UMSOKNIR.LBHI.IS SÆKTU UM FYRIR

5. JÚNÍ 2020

WWW.LBHI.IS | 433 5000


FJÖLBREYTT GARÐYRKJUNÁM

ÍSLENSKIR BANANAR

YLRÆKT

Framleiðsla matvæla í gróðurhúsum er ört vaxandi grein og mikil þörf fyrir vel menntað garðyrkjufólk. Ylræktarfræðingur/garðyrkjufræðingur á sviði ylræktar starfar við ylræktar- og útimatjurtaframleiðslu í garðyrkjustöð eða við eigin rekstur.

GARÐ- & SKÓGARPLÖNTUR

Nemendur fá staðgóða þekkingu í garðyrkjuframleiðslu og uppeldi garðog skógarplantna við íslenskar aðstæður og góða þekkingu á rekstri.

LINDA MARÍA TRAUSTADÓTTIR YLRÆKTARBRAUT Námið leiddi mig í rétta átt. Fögin eru ótrúlega fræðandi og hef ég lært svo mikið um um náttúruna, umhverfismál, gaðryrkju og alla ræktun almennt. Skólinn er ekki stór og það myndast góð samstaða mili nemenda og kennara.

LÍFRÆN RÆKTUN MATJURTA

Stóraukin eftirspurn er eftir afurðum framleiddum með lífrænum aðferðum þannig að atvinnumöguleikar eru miklir að loknu námi. Nemendur læra framleiðslu á matjurtum og afurðum þeirra eftir aðferðum lífrænnar ræktunar, bæði í gróðurhúsum og utanhúss.

KRISTÍN SNORRADÓTTIR SKRÚÐGARÐYRKA Ég kláraði skrúðgarðyrkjuna 2018 og lauk sveinsprófi. Ég stefni á að ljúka meistaraskólanum í vor. Kristín stofnað eigið skrúðgarðyrkjufyrirtæki,Torfkofinn, eftir námið en þar tekur hún að sér hönnun og uppbyggingu lóða og garða ásamt trjáklippingum, gróðursetingu og þökulögn. WWW.TORFKOFINN.IS

BLÓMASKREYTINGAR

SKRÚÐGARÐYRKJA

Í náminu fá nemendur kennslu og þjálfun í öllum helstu aðferðum við meðhöndlun og notkun blóma í blómaskreytingum. Ítarlega er farið yfir form- og litafræði og unnið er með öll algengustu stílbrigði blómaskreytinga.

Skrúðgarðyrkja er lögfest iðngrein. Í náminu er kennt allt er viðkemur nýbyggingu, viðhaldi og endurgerð lóða af ýmsum stærðum og gerðum, hvort sem það er einkagarðurinn eða stór opin svæði.

Að loknu námi geta nemendur starfað sjálfstætt sem blómaskreytar eða tekið að sér verslunarstjórn og/eða rekstur blómaverslunar. Einnig er vaxandi eftirspurn eftir skreytingum fyrir viðburði, fundi eða samkomur af ýmsum toga Blómaskreytingar eru fjölbreytt nám og mikil áhersla á verklega þekkingu og góðan grunn í garðyrkjufræðum, fagurfræði og hönnun.

Skrúðgarðyrkjunemar læra líka öll helstu undirstöðufög garðyrkjunnar eins og grasafræði, jarðvegsfræði, plöntulífeðlisfræði, plöntuvernd, rekstrar- og markaðsfræði og plöntuþekkingu á trjám, runnum og garðblómum.


www.fas.is

Sögur án orða

Á vorönn 2020 var kennd hreyfilist á lista- og menningarsviði Fjölbrautarskóla Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Teresa M. Rivarola eða Tess var með námskeið í leiklist þar sem var lögð áhersla á að tjá sögur með líkamanum. Nemendur vinna með sögur úr sínu nærumhverfi eða sínar eigin sögur, aðalatriðið er að þeir hafi persónulegar tengingar við sögurnar. Námskeiðið er krefjandi því verkefnið er ólíkt öllu öðru sem nemendur hafa áður fengist við, eða að túlka með líkamanum án orða og koma sögunni þannig til skila til áhorfanda. Einnig verða nemendur kennarar í nokkrar klukkustundir, því þeir fara með það sem þeir hafa lært á námskeiðinu í grunnskólann og eru þar með opinn tíma í hreyfilist fyrir 6. og 7. bekk. Í lok febrúar var haldin sýning á afrakstri námskeiðsins þar sem nemendur sáu einnig um umgjörð sýningarinnar. Námskeiðið er hluti af smiðjuáfanga þar sem nemendur í sjónlistum og sviðslistum koma saman og vinna að nokkrum verkefnum.

30


www.fnv.is

FLOTT NÁM Í HESTAMENNSKU „Námið gefur nemandanum víðara sjónarhorn á þjálfun hrossa og aukna þekkingu á umhirðu þeirra. Það gefur góða innsýn í rekstur þjálfunarstöðva sem mun nýtast í framtíðinni og ekki spillir fyrir að í náminu gefst færi á að ríða hæfileikaríkum hrossum á háu þjálfunarstigi. Loks geta opnast tækifæri til að kynnast vinnubrögðum bestu reiðmanna landsins auk þess að á þessum vettvangi myndast tengsl nemandans við aðila í hestamennsku.“

Ofangreind tilvitnun í nemanda á hestabraut sem brautskráist á vorönn 2020 er gott dæmi um reynslu af náminu þar sem hann fjallar um starfsnámshluta brautarinnar. Sá hópur fólks sem stundar hestamennsku sem áhugamál og/eða atvinnu hefur farið stækkandi ár frá ári. Fagmennska hefur að sama skapi vaxið með fjölgun þeirra sem hafa stundað nám í hestamennsku á háskólastigi. Framhaldsskólanemum hefur í nokkur ár boðist að stunda nám í hestamennsku í nokkrum framhaldsskólum. Það hefur bæði nýst sem hagnýtt nám fyrir hestamenn og góður undirbúningur fyrir áframhaldandi nám á háskólastigi.

SILFURVERÐLAUN Í BERLÍN Annars vegar er boðið upp á nám til hestaliða og hins vegar nám til stúdentsprófs. Námið er skipulagt í samvinnu Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV), Fjölbrautaskóla Suðurlands og Háskólans á Hólum. Þetta nám hefur reynst góður undirbúningur fyrir áframhaldandi nám og störf í hestamennsku þar sem leitast er við að fá nemendum raunhæf verkefni sem búa þá undir frekara nám og störf í grein-

inni. Þess er skemmst að minnast að Ásdís Ósk Elvarsdóttir vann til silfurverðlauna í tölti og samanlögðum fjórgangsgreinum á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín 2019 en hún lauk stúdentsprófi af hestabraut vorið 2018. Þá hafa nemendur af þessari braut átt sæti í undibúningshópi U-21 landsliðsins í hestaíþróttum.

GÓÐ SAMVINNA VIÐ HESTATENGDA STARFSEMI Námið á hestabrautunum byggir á náinni og góðri samvinnu við hestatengda starfsemi svo sem ferðaþjónustu og hrossarækt auk keppni í hestaíþróttum. Nemendur hestabrautar standa m.a. fyrir opnu hestaíþróttamóti einu sinni á skólaári sem ætlað er yngri flokkum; börnum, unglingum og ungmennum. Með þessu móti er leitast við að þjálfa nemendur í mótahaldi og vekja áhuga ungmenna á hestamennsku og námi í greininni.

Nemendur hestabrautar taka tvær starfsnámslotur í námi til stúdentsprófs. Námið fer fram að sumri í lok annarar annar og svo aftur í lok fjórðu annar að undangegnu undirbúningsnámskeiði. Nemendur velja sjálfir vettvang starfsnámsins í samráði við verkefnisstjóra starfsnáms. Oftast er um að ræða fyrirtæki í hestatengdri ferðaþjónustu, hrossaræktarbú og tamningastöðvar. Reynsla nemenda af þessu námi er mjög jákvæð þar sem nemendur öðlast þekkingu og færni í hestamennsku sem og innsýn í hestamennsku sem atvinnugrein og áhugamál.

31


www.fsu.is

Fjölbreytt nám og vinna Frá haustönn 2019 hafa tveir

nemendahópar Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu) unnið að

byggingu tveggja timburhúsa. Þegar vinnan hófst voru

nemendurnir á sinni 3. önn

í húsasmíði en verkið verður klárað á vorönn 2020.

32


HVERS VEGNA ERUÐ ÞIÐ AÐ LÆRA HÚSASMÍÐI? „Þetta er fjölbreytt nám og vinna og svo þarf einhver að smíða hús.“

HVAÐ ER SKEMMTILEGAST VIÐ NÁMIÐ? „Bullið í kennurunum,“ sagði einhver, en það var nú sagt í gríni, en að rökræða við kennarana finnst þeim skemmtilegt. Það fer fram mikið nám með því að tala saman um námsefnið og kennararnir útskýra mjög vel. Þeir segja að rökræður og útskýringar kennara sé það sem er mikilvægast, t.d. hvernig best er að standa að því að smíða timburhús. Nemendurnir sögðu líka að starf húsasmiða snérist mikið um samskipti, við vinnufélagana að sjálfsögðu og síðan við rafvirkja, pípara, málara o.fl. iðnaðarmenn. Oft þarf líka að tala við hönnuði og náttúrulega þá sem er verið að vinna fyrir.

HVERNIG ER AÐ VERA ÚTI AÐ SMÍÐA HÚS? ER ÞAÐ EKKI ERFITT, KALT OG SVOLEIÐIS? „Nei, nei, það er auðvelt að klæða sig rétt og svo vinnum við okkur til hita. Það er mjög fínt að vera úti að vinna og sérstaklega skemmtilegt að smíða svona hús. Við lærum mjög mikið á því að gera svona ,,alvöru“ verkefni. Það er svo gaman að sjá húsið verða til. Við viljum helst ekki taka frímínútur eða hleypa kennaranum í kaffi, það tefur okkur.“

ER ÞETTA GAGNLEGT NÁM, GETUR MAÐUR NÝTT ÞAÐ FYRIR SJÁLFAN SIG? „Já, maður er alltaf að því, ég ætla að hengja upp mynd á eftir fyrir mömmu á gifsvegg,“ sagði einn. Hann var að læra hvernig festingar væru góðar í það. Svo kom umræða um það að möguleiki væri að byggja hús fyrir sjálfan sig og náttúrulega að halda húsinu sínu eða íbúðinni við. Laga það sem skemmist, breyta og bæta.

HÚSASMÍÐIN ER MJÖG FJÖLBREYTT OG MARGIR ATVINNU-MÖGULEIKAR. HVAÐ LANGAR YKKUR HELST AÐ VINNA VIÐ? „Við uppslátt, sem sagt að slá upp steypumótum,“ nefndi einn. Næsti ætlar að verða bóndi. „Gott að kunna að smíða það sem þarf, húsið sitt og svona,“ sagði hann. Flestir vildu vinna við eitthvað fjölbreytt svo sem smíða hús, nýbyggingar og viðhald, útivinnu og bara alls konar.

33


Marel hefur í 40 ár hannað og smíðað vélar sem umbylta matvælaframleiðslu á heimsvísu og vaxið úr sprota í alþjóðlegt fyrirtæki með yfir 6000 starfsmenn í fleiri en 30 löndum. Sá árangur hefði aldrei orðið án kunnáttu og útsjónarsemi okkar iðnmenntaða starfsfólks.

marel.is


www.fa.is

Sjúkraliðanámið kom sér vel

Steinar Jónsson er 26 ára Reykvíkingur sem stundar nám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Eftir útskrift úr 10. bekk frá Valhúsaskóla hóf Steinar nám í Kvennaskólanum en fann fljótt að hefðbundið bóknám átti ekki við hann en hann hafði mikinn áhuga á heilbrigðisgreinum. Í kjölfar þess að hann veiktist og þurfti að leggjast inn á spítala jókst sá áhugi til muna en á meðan á spítaladvölinni stóð heillaðist hann af störfum sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga. Hann hætti því í Kvennó og skráði sig í sjúkraliðanám í Fjölbrautaskólanum við Ármúla (FÁ). Hann útskrifaðist sem sjúkraliði árið 2017 og árið 2018 lauk hann viðbótarnámi til stúdentsprófs frá sama skóla. Eftir útskrift starfaði hann á krabbameinsdeild Landspítalans í eitt ár og eftir það ákvað hann að skrá sig í hjúkrunarfræðina.

Af hverju ekki læknir? Í samtali okkar við Steinar kom fram að bæði faðir hans og systir eru læknar og þá lá beinast við að spyrja hann af hverju hann hefði ekki valið að fara sömu leið. „Ég hafði bara meiri áhuga á starfi hjúkrunarfræðinga en lækna. Hjúkrunarfræðingar standa oft nær sjúklingunum en læknar og það er eitthvað sem ég vil gera.“

Sjúkraliðanámið gaf ákveðið forskot Þegar Steinar innritaðist í námið þurfti hann eins og aðrir nemendur í hjúkrunarfræði á þeim tíma að fara í gegnum svokallaðan klásus eða samkeppnispróf til komast áfram í náminu. Aðspurður segir Steinar að það hafi hjálpað honum mikið að hafa lokið sjúkraliðanáminu þ.e. honum fannst hann hafa ákveðið forskot og sumt af því sem kennt var á fyrsta misseri námsins var í raun bara upprifjun fyrir hann. Hann finnur einnig fyrir því að verklega námið úr sjúkraliðanáminu nýtist honum vel inn í hjúkrunarfræðinámið því þar lærði hann ýmislegt gagnlegt sem ekki er kennt í hjúkrunarfræðináminu. Hann fær einnig metinn hluta af verklega hluta sjúkraliðanámsins inn í verklega hluta hjúkrunarfræðinámsins.

Fjölbreytt starf Starfssvið sjúkraliða er mjög fjölbreytt og í verknámshluta sjúkraliðanámsins fékk Steinar tækifæri til að starfa á mismunandi stofnunum og deildum. Hann hefur mótað sér ákveðna skoðun um á hvaða sviði hann langar til að sérhæfa sig í hjúkrunarnáminu en hann hefur áhuga á að starfa sem hjúkrunarfræðingur á sviðum tengdum krabbameinslækningum. Hvað sem verður, er ljóst, að Steinar hefur úr mörgu að velja því skortur er á bæði sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum og þeir því eftirsóttir til starfa bæði hér á landi og erlendis.

35


Kynning

VILTU VÍKKA SJÓNDEILDARHRINGINN? Erasmus+ veitir nemendum í starfsmenntaskólum og nemum á samningi tækifæri til að fara í náms- og þjálfunarferðir og starfsnám hjá fyrirtækjum, skólum og stofnunum í Evrópu í 2 vikur til 12 mánuði. Námið/þjálfunin skal vera hluti af námi viðkomandi nemanda og metið sem slíkt að dvöl lokinni. Allar nánari upplýsingar eru á: https://www.erasmusplus.is/.

ÞAÐ Á ENGINN AÐ LÁTA SVONA TÆKIFÆRI FRAM HJÁ SÉR FARA Telma Dögg Björnsdóttir er 23 ára nemi í klæðskurði við Tækniskólann. Hún hlaut Erasmus+ styrk sem hjálpaði henni að komast í starfsnám í útlöndum. Telma er núna í starfsnámi hjá Cambell's of Beauly í skosku hálöndunum. Campbell's of Beauly er fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í breskum sveita og skotveiðifatnaði. Telma ákvað að fara út í starfsnám því hún hafði ekki tækifæri til að læra þennan klæðskurð heima á Íslandi og verður úti í eitt ár. Hún segir að hún hafi tækifæri núna til að upplifa nýja hluti og menningu en eitt það eftirminnilegasta sem hefur gerst var þegar Karl Bretaprins kom og opnaði nýtt klæðskera verkstæði hjá þeim.

36

AÐ FARA ÚT TIL AÐ ÖÐLAST REYNSLU, ER EITTHVAÐ SEM ÉG MÆLI 100% MEÐ SPENNANDI OG SKEMMTILEG LÍFSREYNSLA Sigrún Klara Sævarsdóttir er 20 ára sjúkraliðsnemi við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Hún fékk Erasmus+ styrk til að fara til Tenerife í einn mánuð síðastliðið sumar til að vinna á hjúkrunarheimili þar. Sigrún segir að starfsnámið hafi verið mjög spennandi og að fólkið sem hún sinnti á hjúkrunarheimilinu hafi verið yndislegt. Hún vann á virkum dögum en nýtti helgarnar til að ferðast um eyjuna, fara í skemmtigarða og slaka líka á í sólbaði. Sigrún mælir tvímælalaust með því að fara til útlanda í starfsnám þar sem þetta er svakalega skemmtileg lífsreynsla.

Úlfar Örn Úlfarsson er 21 árs matreiðslunemi í Menntaskólanum í Kópavogi. Hann ákvað að nýta sumarfríið sitt til að læra meira og fór til Helsinki á veitingastaðinn Olo sem er með Michelin stjörnu. Úlfar fékk fimm vikna styrk frá IÐUNNI fræðslusetri fyrir þær fimm vikur sem hann var í Helsinki. Úlfar segir að starfsnámið hjá Olo hafi kennt honum mjög margt um „fine dining“ matreiðslu og þetta hafi verið rosalega góð reynsla og frábært ævintýri. Það er meira að segja búið að bjóða honum vinnu á Olo ef hann hefur áhuga í framtíðinni en hann stefnir á að prófa líka annan veitingastað í útlöndum í næsta sumarfríi.


www.fb.is

VANN

R Æ Ð U K E P P N I Í FINNLANDI Ég er búinn að vera í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti (FB) síðan í ágúst 2018. Ég kom úr öðrum skóla þar sem ég var ekki alveg að finna mig og var ekki alveg viss um hvert ég ætti að fara. Eftir að hafa talað við fólk i kringum mig var stungið upp á því að ég færi í FB. Ég hafði búið 5 ár í Noregi og vissi mjög lítið um framhaldskólana sem voru á Íslandi. Eina sem mig langaði að gera var að klára stúdentinn og rafvirkjann á sama tíma. Það tók ekki langan tíma fyrir mig að finna mig í FB og ég vissi fljótt að þessi skóli átti vel við mig. Mér leið vel í tímunum, strákarnir hérna voru mjög skemmtilegir og ég var með þægilega stundatöflu. Eftir stuttan tíma var ég byrjaður að kynnast skólanum vel og ekki bara nemendunum heldur kennurunum líka. Það sem kom mér á óvart var að það virtist vera staður fyrir alla í FB. Alveg sama hver þú ert, þá virðist alltaf vera einhver staður fyrir þig og það var það sem gerir það svo létt fyrir flesta nemendur að finna sig hérna. Þetta varð líka bara betra þegar ég kynntist Erasmus prógraminu. Ég fékk tækifæri til að fara til útlanda á vegum skólans, kynnast fullt af nemendum frá öðrum löndum og upplifa ólíka menningu. Tækifærið að fara í svona námsferðir var það besta sem gat gerst. Ég fékk að fara í tvær ferðir með skólanum á vegum Erasmus. Fyrsta ferðin mín var til Turku í Finnlandi þar sem ég tók þátt í ræðukeppni fyrir hönd skólans og keppti á móti nemendum frá Ítalíu, Portúgal, Noregi og Finnlandi. Sú keppni gekk mjög vel og ég vann. Seinni ferðin mín var aðeins lengri en það var verkleg ferð til Eistlands sem ég fór í með besta vini mínum. Við fengum Erasmus styrk frá skólanum til að fara í skiptinám á rafvirkjabraut í framhaldsskóla í Tartu í þrjár vikur. Báðar ferðirnar voru frábærar og fengi ég séns til að gera þetta aftur myndi ég taka hann. Eftir að hafa verið í FB í þrjár annir og klárað stúdentinn og rafvirkjann á sama tíma þá get ég sagt að ég hef aldrei verið í jafn fjölbreyttum og aktívum skóla. Ég mæli líka með að allir nýti sér tækifærin sem skólinn býður og kynni sér Erasmus prógrammið og njóti þess.

37


www.tskoli.is

DRAUMASTARFSNÁMIÐ Í SKOSKU HÁLÖNDUNUM Telma Dögg Björnsdóttir, nemandi í klæðskurði í Tækniskólanum, er stödd í skosku hálöndunum þar sem hún er í starfsnámi hjá Campbells's of Beauly. Nám í fataiðngreinum í Tækniskólanum (Tskóli) er byggt þannig upp að þú byrjar í fatatækni þar sem þú lærir undirstöðuatriði í saumaskap og getur að því loknu starfað sem fatatæknir eða farið í áframhaldandi nám í fataiðngreinunum; klæðskurði eða kjólasaum. Telma Dögg er að læra klæðskurð og hefur nú verið um tíma í Skotlandi í starfsnáminu sínu.

SAUMAR SVEITA- OG SKOTVEIÐIFATNAÐ „Ég ákvað að fara út fyrir þægindarammann og láta ekki staðsetningu starfsnámsins stjórna vali mínu heldur var mitt markmið að fá sem mest út úr þessum tíma og það varð til þess að ég sótti um starfsnám hjá Campbells’s of Beauly.“ Campbell’s of Beauly er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1858 og sérhæfir sig í breskum sveita- og skotveiðifatnaði. Campbell’s sérsaumar fatnað fyrir um 130 veiðisetur (e. Estates) og hinn almenna viðskiptavin. „Við vinnum mest með tweed ull sem veiðisetrin láta vefa sérstaklega með það í huga að blandast í nærliggjandi umhverfi og einnig vinnum við með tartan, sem eru ákveðið köflótt mynstur og þá oft sérstök fjölskyldu tartan.“

HITTI KARL BRETAPRINS „Lífið hérna í hálöndunum er mjög rólegt og eru lopapeysan og gönguskórnir mest notuðu flíkur mínar. Beauly er 1300 manna bær umkringdur sveitabæjum og fallegum skógum. Ég er mjög heppin með vinnustað og því eru allir dagar skemmtilegir. Mér, sem nema, er treyst fyrir að sérsauma á viðskiptavini og ég fæ líka að vera með í mátunum og mælingum. Starfsnámið hefur nú þegar veitt mér mikla reynsla og einstök tækifæri eins og að hitta Karl Bretaprins þegar að hann kom og opnaði nýja klæðskeraverkstæðið okkar.”

SVEINSPRÓF OG SPENNANDI ATVINNUTÆKIFÆRI Eftir að starfsnámi lýkur kemur Telma Dögg heim og stefnir ótrauð á að skella sér í sveinsprófið eins fljótt og hún getur. En nám í klæðskurði og fatasaum opnar spennandi möguleika í að vinna í sjálfstæðum atvinnurekstri. Einnig er möguleiki á ýmiskonar sérhæfingu t.d. í tengslum við leikhús og kvikmyndir eða afla sér viðbótarmenntunar til að fjölga möguleikunum enn frekar.

38


www.fas.is

Jöklaferðirnar einstaklega áhugaverðar „Ég hef lengi haft áhuga á útivist og fjallaferðum,“ segir Helga Lára Kristinsdóttir, nemandi í Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). „Ég þurfti því ekki að hugsa mig lengi um þegar ég sá auglýst nám í fjallamennsku. Þetta nám kenndi mér margt og voru jöklaferðirnar einstaklega áhugaverðar og eitthvað sem mig langar að upplifa aftur.“ Helga Lára segir að í náminu sé farið yfir allt sem maður þarf að kunna til að geta farið sjálfur á jökul og jafnvel geta tekið nokkra vini með. „Við lærðum m.a. broddatækni, hvernig á að meðhöndla ísexi, hvaða öryggisbúnað þarf að hafa með og hvernig á að bjarga félaga ef hann fellur í sprungu. Þetta nám kenndi mér ótrúlega margt sem mun gagnast mér í framtíðinni bæði til að stunda áhugamálin og til að fá mögulega vinnu sem leiðsögumaður.“

39


www.bhs.is

LÍFIÐ ER EINS KONAR JAFNVÆGISKÚNST


Halldór Jóhann Gunnarsson hóf nám á framhaldsskólabraut í Borgarholtsskóla (Borgó). Námið á brautinni tekur eitt ár og er til að undirbúa nemendur fyrir nám á öðrum brautum. Eftir framhaldsskólabrautina fór hann út á vinnumarkaðinn en sneri aftur í skólann nokkrum árum síðar og lauk námi á listnámsbraut skólans. Á námstímanum sínum í Borgarholtsskóla hafði hann unnið að ferilmöppu sem hann nýtti sér við umsókn í Listaháskóla Íslands (LHÍ). Mappa Halldórs sem var mjög vönduð og flott varð til þess að hann komst inn í nám í grafískri hönnun í LHÍ sem hann er að ljúka við þessa dagana. Halldór hefur unnið að mörgum fallegum verkum fyrir skólann. Fyrsta listaverkið eftir hann er Fjólublái fálkinn (táknmynd nemendafélags Borgarholtsskóla) sem hann málaði á vegg í rými nemendafélagssins á meðan hann var enn nemandi í skólanum.

MÁLAR VERK FYRIR SKÓLANN Í vetur málaði hann tvö verk fyrir skólann. Hið fyrra var listaverk inni í nútímastofu skólans en stofan er notuð til kennslu nýsköpunar. Lýsing Halldórs á verkinu er eftirfarandi: Hugmyndin að verkinu er að hluta til sótt í útlit prentplatna sem algengar eru í alls kyns raftækjum. Þar er komin tenging við tækni og framtíð sem nota má til að túlka nútímann eða núið. Önnur hugmynd var að nota heila, órofna línu til að skapa heildarmynd og gefa áhorfandanum tækifæri til að njóta þess að fylgja línunni/flæðinu, hvíla í núinu og vera ekki of upptekinn af framtíðinni. Seinna verk hans í vetur hafði verið draumur hans frá því hann var nemandi skólans en það var að mála veggmynd á stóran vegg í anddyri skólans. Þar voru fyrirmælin að gæða grunngildi skólans lífi; framsækni, sköpun, sjálfsaga, náungakærleik og jafnrétti. Hugmyndin sem Halldór gekk út frá við þetta verk var fyrst og fremst jafnvægi. Eins og Halldór segir sjálfur: „Það sem leiddi að þessari niðurstöðu var hugsunin um hvaða ráð ég hefði viljað fá þegar ég hóf framhaldsskólagönguna. Besta ráðið væri: „Passaðu upp á jafnvægið.“

ALLIR ÞÆTTIR ÞURFA AÐ SPILA SAMAN Það er merkilegur tími að byrja í framhaldskóla þú færð meðal annars að finna fyrir aukinni ábyrgð á eigin lífi. Þetta eru í raun fyrstu kynni að því sem koma skal, lífinu sjálfu. Á þessum árum fær maður að kynnast því hvernig margir ólíkir þættir lífsins; skóli, vinna og félagslíf þurfa að spila saman ef allt á vera eins og maður vill hafa það. Sömuleiðis á þetta ekki síður við um starfsfólk skólans, sem þó flest hefur eflaust komist að þessari niðurstöðu, að lífið sé eins konar jafnvægiskúnst.

41


FRUMKVÆÐI / FÆRNI / FAGMENNSKA

ÍAV er eina verktakafyrirtækið sem er bæði ISO 9001 gæðavottað og OHSAS 18001 öryggisvottað. Við erum stolt af því að huga vel að bæði starfsmönnum og viðskiptavinum okkar.

ISO 9001

OHSAS 18001

FM 512106

OHS 606809

Quality Management

Occupational Health and Safety Management

Á heimavistinni búa framhaldsskóla Öflugur þátttakandi á öllum sviðum mannvirkjagerðar í 65 ár

ÍAV hf. | Höfðabakka 9 | 110 Reykjavík | s. 530 4200 | www.iav.is

NÁNARI UPPLÝSINGAR OG UMSÓKNIR HEIMAVIST.IS

FRAMHALDSSKÓLANEMENDUR ALLS STAÐAR AÐ AF LANDINU

15 MÍNÚ

TUR

2 MÍNÚTUR

IM

ING

AR

8M

ÍNÚ

TUR

HLÍÐARFJALL VEITINGARSTAÐUR

BÍÓH

7M

UR

HE

NÚT

VMA Á AKU A OG RE AH M YR T S I I V A ÚS

NN

NN BÆRI MIÐ R SLANI VER ÚS

3 MÍ

ME

S

SU ND RÆ K ÍÞR TIN ÓT T

MA

ÍNÚ

TUR 3M

ÍNÚ

TUR

LY ST KA IGA FF I

N IN UR S

8 MÍNÚTUR

Heimavist MA og VMA

VMA


www.vma.is

Rafneminn með mörg járn í eldinum

anemendur alls staðar að af landinu

Ætla mætti að sólarhringur Önnu Kristjönu Helgadóttur sé töluvert lengri en gengur og gerist. Hún stundar nám í grunndeild rafiðna í Verkmenntaskólanum á Akureyri (VMA), er afar virk í félagsstarfi í skólanum, tekur ríkan þátt í starfi Skátafélagsins Klakks á Akureyri, situr í ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og yrkir ljóð og skrifar smásögur þegar tími gefst til. Þegar Anna Kristjana er spurð hvernig hún komi þessu öllu heim og saman segist hún einfaldlega þurfa að hafa alltaf eitthvað að gera og lykilatriðið sé að skipuleggja sig vel. Þannig gangi þetta upp.

Rafmagnið heillar Á fyrstu önn náms í VMA var Anna Kristjana í grunndeild matvælabrautar, síðan í eina önn á náttúrufræðibraut en lýkur í vor grunndeild rafiðna og stefnir á nám í rafeindavirkjun næsta haust. „Þegar ég var á matvælabrautinni kynntist ég krökkum sem voru í grunndeild rafiðna. Í eyðum í stundaskránni fór ég með þeim í tíma í grunndeild rafiðna og það kveikti áhuga minn. Ég ákvað því að færa mig yfir í rafmagnið og sé ekki eftir því. Ég hef alltaf haft gaman af stærðfræði og á fyrstu önninni í grunndeildinni vorum við mikið í formúlum og slíku í rafmagnsfræðinni. En þetta hefur bara orðið skemmtilegra og skemmtilegra eftir því sem liðið hefur á námið og ég hlakka til að byrja í rafeindavirkjuninni í haust,“ segir Anna Kristjana.

Á kafi í félagslífinu Þetta er annar veturinn sem Anna Kristjana situr í stjórn nemendafélags VMA – Þórdunu og þar er að sjálfsögðu í mörg horn að líta og nóg að gera. Hún var í Gettu betur liði VMA í vetur og er einnig

í Tækniráði Þórdunu, sem heldur utan um tæknimál vegna viðburða í skólanum. Sem hluti af Tækniráðinu kom hún að hljóð- og ljósvinnslu í uppfærslu Leikfélags VMA á leikritinu Tröllum sem sýnt var í Menningarhúsinu Hofi í febrúar. Anna Kristjana segist yrkja og skrifa þegar tími gefst til á veturna en mest skrifi hún á sumrin. Árið 2018 sigraði hún Ungskáld, sem er árleg ritlistasamkeppni ungs fólks á aldrinum 16 til 25 ára í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, og voru verk Önnu Kristjönu í tveimur efstu sætunum.

Vill styrkja stöðu barna og unglinga Í vetur hefur Anna Kristjana setið í ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Hún sótti um að sitja í ráðinu til eins árs og var ein tólf ungmenna af öllu landinu sem voru valin af hundrað og áttatíu umsækjendum. Á starfsárinu hittist ráðið á sex fundum. Einn þeirra er með ríkisstjórn Íslands, og fer yfir ýmis mál með fólki úr stjórnkerfinu, með það að markmiði að styrkja stöðu barna og unglinga í samfélaginu. Á fundi ungmennaráðs í janúar sl. var fundað í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og rætt um menntamál frá ýmsum hliðum.

43


Harðasti r u ð a m r a ð a iðn Íslands NAFN OG ALDUR:

Malín Bergljótardóttir Frid, 21 árs. Fædd á Selfossi en ólst frá fjögurra ára aldri til tólf ára aldurs á Akureyri en þá flutti ég suður til Reykjavíkur.

NÁM OG STARF:

Lærði rafvirkjun í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti og starfa nú sem rafvirki hjá Veitum.

AF HVERJU VALDIRÐU RAFVIRKJUN?

Mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Ég byrjaði á íþróttabraut en fann mig ekki. Fór þá í áhugasviðsgreiningu og í ljós kom iðnstörf. Ég ákvað svo bara að skrá mig á rafvirkjabraut, gekk mjög vel og er mjög ánægð að hafa valið hana og klárað.

HVERNIG ER VINNAN?

Þetta er mjög skemmtileg vinna og krefjandi. Ég vinn við bæði loftlínuvinnu og svo líka við tengingar á háspennu og lágspennu, í götuskápum eða við að setja stóra kapla í jörðu.

HVERNIG ER AÐ VERA STELPA OG VINNA VIÐ RAFVIRKJUN?

Það er bara mjög gaman, ég er bara ein af strákunum og það er alltaf skemmtileg stemning í vinnunni. Það skiptir ekki máli af hvaða kyni maður er, maður á bara ekki að vera hræddur við að prófa eitthvað nýtt. Það getur verið óþægilegt fyrir alla að stíga út fyrir þægindarammann sinn en maður fær rosalega mikið út úr því.

NÝVERIÐ VARSTU KOSIN HARÐASTI IÐNAÐARMAÐURINN 2019 Á ÚTVARPSSTÖÐINNI X977 SEGÐU OKKUR AÐEINS FRÁ:

Það var bara eitthvað djók hjá yfirmanni mínum að skrá mig í keppnina og svo voru bara allt í einu allir mjög peppaðir yfir þessu, fjölskylda og vinir og bara fólk í kringum mig. Ég fæ meira að segja svona komment stundum: „Hey ert þú ekki Harðasti iðnaðarmaðurinn“ en að öðru leyti hefur ekki mikið breyst og ég hef ekki látið titilinn stíga mér til höfuðs.

44


Kynning

HVAÐ ÆTLAR ÞÚ AÐ VERÐA? Á Íslandi er þörf fyrir iðnmenntað fólk og ljóst að atvinnumöguleikar þeirra sem velja sér þann starfsvettvang eru miklir. IÐAN fræðslusetur í samstarfi við Samtök iðnaðarins, Verkiðn og Rafmennt hefur sett upp vefinn www.namogstorf.is sem virkilega getur hjálpað þér að taka ákvörðun um hvað þig langar að læra og fást við í framtíðinni. Á www.namogstorf.is færð þú aðgang að upplýsingum og fræðslu um nám og störf. Þar eru viðtöl við einstaklinga sem starfa við iðngreinar og þú getur jafnvel speglað þig í. Á vefnum eru líka ýmsir tenglar sem geta aðstoðað þig við að taka ákvörðun og tengingar við náms- og starfsráðgjafa. Taktu upplýsta ákvörðun um framtíðina – ekki elta hópinn.

LAGNINGAM EI

A

FÉL

PU PÍ

AR ST

AG

LÖGGILTUR

9 0 Á RA

18. mars 1933

PÍPULAGNINGAMEISTARI

FÉLAG MÁLMIÐNAÐARMANNA AKUREYRI


www.va.is

Frá vinstri, Guðjón Berg Stefánsson, Adam Ingi Guðlaugsson, Þór Elí Sigtryggsson, Fannar Ingi Eiríksson og Steinn Jónsson.

VASKIR VÉLSTJÓRNARNEMAR Í Verkmenntaskóla Austurlands (VA) er boðið upp á nám í vélstjórn til B-réttinda. Námið er 217 einingar og skiptist að jafnaði á sex annir. Námið hefur mjög sterka tengingu við austfirskt samfélag þar sem sjávarútvegur er grunnstoðin. Öflugir námshópar hafa myndast í vélstjórninni og einn þeirra er hópur nemenda sem er á fjórðu önn í náminu. Hópinn skipa þeir Adam Ingi Guðlaugsson, Fannar Ingi Eiríksson, Guðjón Berg Stefánsson, Steinn Jónsson og Þór Elí Sigtryggsson.

trésmíðavélar, bílalyftur, loftpressur, bílavörur, verkfæri, dælur, súluborvélar, lyftibúnaður, rennibekkir, bandsagir

allt fyrir iðnaðinn...

rakatæki, sogbúnaður, legupressur, slönguhjól, 3d prentarar, sagarblöð, járnsmíðavélar, suðuborð, handverkfæri


Áhuginn var svo mikill

Best að byrja strax

Þegar strákarnir voru beðnir um að nefna af hverju þeir væru í þessu námi nefndu þeir áhuga fyrir greininni, að námið sé „fjölbreytt og skemmtilegt“ og þeir væru til í að vinna við þetta í framtíðinni. Áhuginn nær mislangt aftur. Tveir þeirra, þeir Adam og Þór Elí, hafa haft áhuga síðan um miðja grunnskólagöngu meðan þeir Fannar og Steinn höfðu verið í öðru námi áður. Fannar í bóklegu en Steinn í rafvirkjun. Bóknámið hafði ekki heillað Fannar og hann sagði: „Ég veit ekki hvað ég ætti að fara að læra annað“ sem sýnir að hann er á réttri hillu.

Þeir líta á það, að hafa byrjað í náminu strax eftir grunnskólanám, sem það eina í stöðunni og benda á nærtækt dæmi um nemanda sem þeir þekkja. Sá kláraði stúdent úr öðrum skóla fyrst en er nú í vélstjórnarnámi og sá lýsir því sem mistökum að hafa tekið stúdentinn á undan.

Þú getur fengið vinnu hvar sem er Þegar talið barst að framtíðaratvinnu er ljóst að sjómennskan á hug þeirra flestra. Þrír þeirra nefndu strax að sjórinn væri draumavinnustaðurinn meðan tveir vildu alveg eins vera í landi. Það væri mikilvægt að prófa sig áfram hvar maður vildi vinna og að ljúka náminu skapaði fjölbreytt atvinnutækifæri. Það væri hægt að sitja við tölvu eða gera við vélar allan daginn eftir því hvað hugurinn girntist hverju sinni. Þeir eru sammála um að launin að námi loknu heilli en þau væru þó ekkert aðalatriði heldur skipti miklu máli að klára réttindin fyrst, það skapi manni starfsframa. „Þú getur fengið vinnu hvar sem er, í öllum bæjarfélögum,“ ef þú klárar réttindin.

Þú ert ekki bara einhver tala á blaði Þeir bera VA afar vel söguna og segja að mesti munurinn á honum og öðrum skólum felist í því hversu lítill og heimilislegur hann sé. Þegar talið berst að kennurunum eru strákarnir sammála um að þeir séu mjög góðir. „Þú ert ekki bara einhver tala á blaði einhvers staðar, þeir sjá miklu meira um þig og hjálpa þér miklu meira heldur en væri kannski gert annars staðar.“ Það hjálpar að skólinn er lítill og hópastærðin þar með en hóparnir þurfa að vera samstilltir. Þessi hópur hefur verið saman síðan þeir byrjuðu í náminu og eru þeir orðnir mjög samheldnir. Þeir eru jafnvel til í að vinna saman að námi loknu í einhverri virkjun langt frá mannabyggðum. Þegar þeir ljúka náminu í VA þurfa þeir að fara annað hvort norður eða suður ef þeir ætla að klára C-réttindin. Það stendur ekkert í þeim og þeir ætla sér allir þangað. Adam ætlar suður en hinir ætla norður. Þegar þeir voru spurðir hvort það væri ekkert mál var viðkvæðið: „Þarf maður ekki einhvern tímann að flytja út?“ Þegar þú hefur valið rétta námið er stefnan skýr.

47


www.mk.is

1

2 3 Gerðu það sem þig virkilega langar Dominik Henryk Pryzbyla er 20 ára kjötiðnaðarnemi við Menntaskólann í Kópavogi (MK). Hann mun keppa fyrir hönd Íslands í Euroskills 2020 keppninni í Graz í Austurríki í flokknum kjötiðnarmenn 25 ára og yngri. Dominik sigraði á Íslandsmóti iðn- og verkgreina árið 2019 í kjötiðn og með þeim sigri hlaut hann keppnisrétt í Euroskills sem er Evrópukeppni iðn- og verkgreina. „Ég þarf að æfa mig mikið fyrir keppnina og veit ekki enn hvernig kjöt ég fæ en það getur verið naut, lamb eða svín. Við fáum skrokkinn og svo eigum við að skila 90 vörum úrbeinuðum í stykkjum en dómarar láta okkur ekki vita fyrr en við erum komin út hvernig við eigum að skila af okkur vörunni. Svo það er mikil óvissa í þessu,“ segir Dominik. En hann er að vonum spenntur fyrir keppninni.

ÆTLAÐI AÐ VERÐA EINS OG PABBI Dominik ákvað ungur að aldri að gerast kjötiðnaðarmaður og feta þannig í fótspor föður síns. „Ég sagði við pabba að ég ætlaði mér að gerast kjötiðnaðarmaður alveg eins og hann þegar ég var 8 ára og ég er búinn að standa við það. Mér finnst kjötiðnin

48

rosalega spennandi. Við erum að undirbúa vöruna en þurfum líka að kunna að elda vöruna og vita hvernig á að meðhöndla hana. Ef maður er t.d. að vinna við kjötborð og þangað kemur fólk sem veit ekki hvernig á að elda vöruna þá þurfum við að leiðbeina þeim og kenna hvernig sé best að gera það,“ segir Dominik.

STEFNIR Á LANDSLIÐIÐ Dominik stefnir á að þjálfa sig áfram og verða betri en markmið hans er að komast í landsliðið í kjötiðn. Markmiðið er að vinna keppnina árið 2030 og ætlar hann að þjálfa sig þannig upp að hann geti verið þá með landsliðinu. „Þegar ég byrjaði þá voru margir í kringum mig sem sögðu að ég myndi ábyggilega aldrei klára kjötiðnina eða gera þetta. En mig langar að sýna fólki að ef maður hefur áhuga að gera hlutina sem maður vill þá getur maður það,“ segir Dominik að lokum.


      ‚        ‚        

 

   ­€

‚ƒ„  €

…†  ­†  ‡   ƒ† € † ˆ† ‚‡ † € ‰Š

 ‹ 


www.fva.is

Það sem þú menntar þig í verður aldrei tekið af þér STARFSMENNTASTYRKUR 90% AF SKRÁNINGARGJALDI EÐA HÁMARK 130.000 KR. Á ÁRI Starfstengd námskeið Starfstengd netnámskeið Almennt nám til eininga Tungumálanámskeið Sjálfstyrkingarnámskeið innanlands Ráðstefnur sem tengjast starfi umsækjanda Stjórnendaþjálfun/starfstengd markþjálfun

www.starfsmennt.is

AÐ SJÓÐNUM STANDA VR, LÍV OG SA

~ 7~ Margrét Sæunn Pétursdóttir er fædd og uppalin í Borgarfirði þar sem foreldrar hennar reka kúabú. Vorið 2019 lauk hún námi í vélvirkjun og leggur nú stund á viðbótarnám til stúdentsprófs. Á sumrin hefur Margrét unnið á farartækjaverkstæði Norðuráls: „Námssamningurinn er 18 mánuðir og svo get ég tekið sveinsprófið. Ég nýti alveg eitthvað úr náminu hjá Norðuráli en þar er ég samt meira í að gera við og svoleiðis. Námið hefur líka nýst mjög vel heima. Ef brotna stoðir úti í fjósi eða eitthvað svoleiðis þá kann ég núna á suðuvélina. Ég hef alltaf verið mjög mikið í vélum og það er sniðugt að geta bjargað sér í svo mörgu heima,“ segir Margrét.

Kemst á góðan stað ef þú velur iðnnám En hvers vegna valdi Margrét þetta nám?: „Ég var líka að skoða það að fara á hestabrautina á Selfossi eða í Menntaskólanum í Kópavogi. En bróðir minn var í Fjölbrautaskóla Vesturlands (FVA) á undan mér og mér fannst líka spennandi að vera á heimavist og sleppa við að leigja. Svo fannst mér líka áhugavert þegar ég kom að einn af kennurunum sagði að eftir námið ertu komin með titil, komin á mun betri stað þegar þú velur iðnnám því þá getur þú komist á samning og farið að vinna við þetta.“ Aðspurð um ástæður þess að hafa valið að klára stúdentinn til viðbótar við vélvirkjunina segist Margrét vera með áframhaldandi nám í huga: „Upphaflega ætlaði ég í verkfræði en langar núna að fara í Landbúnaðarháskólann og taka búvísindi þar. Og þá eru allar dyr opnar, miklu fleiri en ef þú ert bara búin með iðnnámið. Svo á ég frænku sem er búin að vera rosaleg fyrirmynd fyrir mig. Hún fór í skóla og fann sig ekki þar, skipti yfir í verknám og algerlega brilleraði. Hún sagði mér einmitt að ég yrði að taka stúdentinn en ekki bíða eins og hún gerði og þurfa að taka hann í fjarnámi síðar.“

Þú kemst í raun skrefi framar „Ég er mjög sátt við þá ákvörðun að hafa farið í iðnnám. Pabbi hefur alltaf sagt við mig að það sem þú menntar þig í verður aldrei tekið af þér. Hann hefði sjálfur viljað hafa tækifæri til að fara í meira nám og segir alltaf við mig, sama hvort ég er að spá í að fara í framhaldsskóla eða háskóla eða hvað sem er, að þú getur alltaf lært eitthvað. Ég hef alltaf horft rosalega mikið í þetta; þótt þú byrjir á einhverju og langar ekki að klára það þá ertu samt búin að læra það. Ég myndi líka allan daginn ráðleggja krökkum að fara í iðnnám, hvort sem það er eitthvað tengt vélum, smíði eða rafvirkjun. Ef þú hefur áhuga á einhverju svona þá er þetta það sem þú átt að gera. Ég hef líka heyrt marga segjast sjá eftir því að hafa ekki farið í iðnnám og skil það alveg. Og svo getur þú bara tekið stúdentinn eftir á og þá ertu í raun komin skrefi framar, komin með starfstitil en líka stúdentspróf. Síðan hjálpar þetta svo mikið í lífinu, bara verkþekking yfir höfuð. Þú getur bjargað þér í langflestu.“


51


ÞAÐ ER EKKERT...

– eins gagnslaust og rafmagnslaus snjallsími!

Til að snjalltæki virki þurfa þau RAFMAGN, FORRIT OG ÖPP Nám í rafiðnaði veitir aðgang að fjölbreyttum, vellaunuðum og skemmtilegum störfum. Námið býður upp á frítt námsefni á íslensku með aðgangi fyrir alla. Nám í rafiðnaði er krefjandi og fjölbreytt sem veitir góð atvinnutækifæri og spennandi starfsumhverfi með áherslu á tækninýjungar og öra framþróun.

LÁTUM SNJALLTÆKIN VIRKA OG LÆRUM AÐ ÞJÓNUSTA ÞAU

RAFIÐNAÐARSAMBAND ÍSLANDS - STÓRHÖFÐA 31 - SÍMI 5400 100 - www.rafis.is

Ótrúlegt hvað hægt er að búa til

Rafvirkjanám er fjölbreytt nám og gefur töluverð tækifæri til að afla sér framtíðartekna. Rafvirki starfar við uppsetningu, viðhald, viðgerðir og eftirlit með raftækjum, rafkerfum og rafbúnaði til vinnslu og dreifingar á raforku. Hann vinnur á verkstæðum, í nýbyggingum, farartækjum á sjó og landi, heild- og raftækjaverslunum, orkufyrirtækjum, iðnfyrirtækjum og iðjuverum.

52


www.fsu.is

Margir rafvirkjar vinna í fjarskipta-, nýsköpunar- og tæknifyrirtækjum en starfið býður upp á fjölbreytta vinnu við tæknilausnir, forritun og þróun á búnaði. Í byggingagreinum er rafvirki virkur í lagnavinnu og við úrlausnir tæknilegra lausna. Hann notar viðeigandi mælitæki við störf sín og framkvæmir bilanaleit og viðgerðir á rafbúnaði.

Nemendur í rafvirkjun á 6. önn í Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu) höfðu meðal annars þetta að segja: „Mín reynsla er ekki mikil en rafmagnið er ekki að fara þvÍ nútímafólk þarf á því að halda. Þegar ég var ungur þá var ég mikið að tengja rafmagn í bílum og setja saman tölvur. Í skólanum kynntist ég Arduino, sem er tölvuforrit í stýringum. Þar opnaðist nýr heimur fyrir mér. Hugbúnaðurinn gerir þér kleift að stjórna öllu og læra forritun.“ „Rafvirkjun er mjög fjölbreytt nám og atvinnumöguleikarnir líka. Það eru örugglega margir sem halda, án þess kannski að velta því mikið fyrir sér, að rafvirkjar séu bara að leggja raflagnir í hús, hengja upp ljós og tengja allskonar dót. Einnig séu nokkrir inni á verkstæðum að gera við þvottavélar og slíkt. Ég hef lengi haft áhuga á rafmagni en samt hefur það komið mér á óvart hvað þetta er fjölbreytt. Eftir næstum þrjú á í náminu er ég enn að uppgötva eitthvað nýtt. Rafmagnið er einhvern veginn allsstaðar og allskonar. Há og lág spenna, stýringar, viðvörunarkerfi o.fl. o.fl. Og núna eru meira að segja bílarnir farnir að keyra á rafmagni.“ „Ég hef mestan áhuga á tölvuhlutanum. Að hanna rafrásir, læra forritun og stýringar allskonar. Vinna með lága spennu. Það er alveg ótrúlegt hvað hægt er að búa til, láta t.d. róbóta létta okkur störfin. Vinna jafnvel flókin og erfið störf hratt og örugglega en samt af mikilli nákvæmni. Ég held að maður geti verið að læra eitthvað nýtt í þessu alla ævi. Það er vegna þess að nú þegar er svo margt til og svo er þetta alltaf að þróast, nýjar uppgötvanir og aðferðir. Rafmagnið er sennilega að verða mikilvægara og mikilvægara með hverju árinu.“

53


www.fss.is

VENTI KVÆÐI SÍNU Í KROSS OG FÓR Í VÉLSTJÓRN Elvar Jósepsson byrjaði á náttúrufræðibraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FS) árið 2010 og stefndi á að verða verkfræðingur. Þegar leið á námið kom í ljós að áhuginn hafði minnkað á þeim áformum en hann ákvað samt að klára stúdentinn, sem hann og gerði árið 2014. Hann fór svo á vinnumarkaðinn þar sem hann vann í frystihúsi við ýmis störf. Þar kynntist hann vélstjórum og fékk í kjölfarið mikinn áhuga á kælitækni. Það, ásamt miklum áhuga hans á skipum, vakti upp gamlan draum um að verða vélstjóri. Hann ákvað því að hefja nám í vélstjórn árið 2017 og lauk því nú í desember 2019. Elvar segist hafa fengið metið u.þ.b. eitt ár úr stúdentsnáminu en sá dálítið eftir því að hafa ekki tekið vélstjórnina með því á sínum tíma. Elvar segir að starf vélstjórans sé fjölbreytt og krefjandi og það sé hægt að fá vinnu alls staðar. Hann er núna að vinna í Skipasmíðastöð Njarðvíkur (Slippnum) við að setja upp vélar, skipta um og tengja vélar og vinna járnsmíðavinnu í kringum það. Í framtíðinni langar hann að ljúka D-stigi í vélstjórn og vinna kannski við hönnun á skipum og vélakerfum og er jafnframt spenntur fyrir því að taka vélfræðinginn í framhaldinu. Nám í vélstjórn opnar nefnilega ýmis tækifæri. Elvar hvetur nemendur til að velja sér nám eftir áhugasviði.

54

C

M

Y

CM

MY

CY

CMY

K


Flugvirkjun Flugvirkjun býður upp á góða starfsmöguleika bæði hérlendis og erlendis. Tækniskólinn er eini skólinn á Íslandi sem býður uppá nám í flugvirkjun. Kynntu þér málið á tskoli.is


Fé lag

vé l s t j ó ra

L an d s f é la g

í

vé l-

o g o g

m á l m t æk ni m a nna má lmt æ k ni

Fa g m e n n t i l sjós og lands VM-Félag vélstjóra og málmtæknimanna er meðal stærstu fag- og stéttarfélaga landsins. Vélstjórar og málmiðnaðarmenn eiga margt sameiginlegt bæði í námi og á vinnumarkaði.

K y n n t u

þ é r

m á l i ð

á

w w w . v m . i s

Profile for Laila Markaðsstofa

2020 tímaritið 2020  

Blaðið 2020 er gefið út af öllum iðn- og starfsnámsskólum á Íslandi. Skólarnir eru 14 talsins og eins ólíkir og þeir eru margir, námsframboð...

2020 tímaritið 2020  

Blaðið 2020 er gefið út af öllum iðn- og starfsnámsskólum á Íslandi. Skólarnir eru 14 talsins og eins ólíkir og þeir eru margir, námsframboð...

Advertisement