Page 1


JÓLAKONFEKT KRAFTS

Eins og áður mun Kraftur bjóða til sölu konfekt frá Nóa Síríusi. Um er að ræða 1 kg. kassa sem eru sérmerktir félaginu. Allur ágóði rennur til Neyðarsjóðs Krafts þetta árið. Hægt er að kaupa konfekt í gegnum netverslun okkar http://vefverslun.krabb.is/collections/kraftur. Annað hvort getur fólk fengið konfektið sent í pósti eða sótt það á skrifstofu félagsins í Skógarhlíð 8. Einnig er hægt að hafa samband í síma 866-9600 til að panta konfekt fyrir jólin. Konfektkassi merktur Krafti er tvöföld jólagjöf; fyrir þann sem þiggur og einnig gjöf til styrktar félaginu.

AÐVENTUKVÖLD KRAFTS 2016

Aðventukvöld félagsins verður í ár haldið í Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þann 1. desember n.k. kl. 18:00. Stefán Máni, rithöfundur, les upp úr nýrri bók sinni og KK mun skemmta viðstöddum. Jólahappdrættið okkar verður á sínum stað þar sem vinningar eru fjölmargir og glæsilegir. Boðið verður upp á létt jólahlaðborð. Kenneth Máni mun mæta í eigin persónu og draga úr vinningum. Einnig verður konfektið okkar til sölu á staðnum sérstöku tilboði fyrir félagsmenn og aðstandendur. Allir félagar og fjölskyldur þeirra eru hjartanlega velkomnir og varla þarf að taka fram að aðventukvöldið er án endurgjalds. Hlökkum til að sjá ykkur.


KÆRU FÉLAGSMENN

Nú fer senn að líða að lokum þessa árs og hefur það aldeilis verið viðburðaríkt hjá félaginu en Kraftur lét ýmislegt til sín taka á árinu. Þar ber hæst til tíðinda hversu vel átakið okkar heppnaðist “Share your scar” sem gerði það að verkum að félagið hefur verið mun meira áberandi og í umræðunni á árinu. Einnig á sviði hagsmunabaráttu þar sem félagið hefur látið í sér heyra varðandi kostnað krabbameinssjúklinga í heilbrigðiskerfinu sem og verðandi kaup á nýjum krabbameinslyfjum. Við hjá Krafti viljum senda ykkur þessa innihaldsríku jólakveðju svo þið kæru félagsmenn fáið innsýn í það starf sem hefur verið unnið á árinu. Við hjá Krafti erum sífellt að að leita nýrra leiða til að koma til móts við okkar skjólstæðinga. Það sem nýjast er á nálinni eru sálfræðiviðtöl hjá sálfræðingi félagsins, félagsmönnum okkar að kostnaðarlausu, kaffihúsakvöldin okkar og viðtalstímarnir inni á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga. Nú í janúar erum við síðan að fara af stað með vitundarvakningu um ungt fólk og krabbamein þar sem félagið leitast við að safna mánaðarlegum styrktaraðilum til að styrkja stoðir félagsins fjárhagslega. Samhliða átakinu munu verða seld perluð armbönd með slagorðinu “LÍFIÐ ER NÚNA” sem verða gerð af sjálfboðaliðum og þeim sem vilja leggja málefninu lið, sem við vonum að verði sem flestir :) Um leið og við þökkum ykkur öllum fyrir samfylgdina á árinu viljum við óska ykkur gleðilegra jóla með von um að nýja árið færi ykkur gæfu og gleði. LÍFIÐ ER NÚNA! Stjórn og starfsfólk Krafts


AÐVENTUKVÖLD KRAFTS 2015

Hið árlega aðventukvöld Krafts var haldið þann 3. desember á síðasta ári og hófst hátíðin klukkan 18.00 í húsakynnum Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. Dagskráin var óvenju glæsileg í þetta sinn og hófst með því að Jón Gnarr las upp úr bók sinni, Útlaganum. Síðan kom Jón Jónsson og söng nokkur lög fyrir okkur og að lokum var boðið upp á jólahappdrætti en vinningar hafa aldrei verið fleiri né veglegri. Gestum aðventukvöldsins, sem voru um 120 talsins, var boðið uppá veglegt jólahlaðborð sem gerð voru góð skil. Kraftur seldi bolina sína og jólakonfektið á staðnum. Það er mál manna að afar vel hafi tekist til enda var þátttakan framar öllum vonum.

NÝR SÁLFRÆÐINGUR

Nýr sálfræðingur, Þorri Snæbjörnsson, var ráðinn til starfa hjá Krafti á haustmánuðum í samstarfi við Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. Sálfræðingur sér um utanumhald Stuðningsnets Krafts ásamt því sem hann sinnir sálfræðiviðtölum skjólstæðinga félagsins og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. Félagsmönnum okkar er boðið upp á 1-3 sálfræðiviðtöl þeim að kostnaðarlausu. Frekari upplýsingar má finna inn á www.kraftur.org.

SUMARGRILL KRAFTS

Hið árlega sumargrill Krafts var haldið í Hljómskálagarðinum þann 23. júní á þessu ári. Pylsuvagn Atlantsolíu mætti á svæðið og Úlfur Úlfur, Ari Eldjárn og Friðrik Dór skemmtu viðstöddum. Þá var hoppukastali og Candy floss fyrir börnin auk þess sem gestum gafst kostur á að láta taka af sér ljósmynd í boði Instamynda. Aðsóknin var vonum framar þrátt fyrir óhagstætt veður.

KAFFIHÚSAKVÖLD KRAFTS

Á þessu ári var bryddað upp á þeirri nýjung að halda kaffihúsakvöld fyrir Krafts-félaga og aðstandendur þeirra. Kaffihúsakvöldin eru haldin á þriggja vikna fresti á kaffihúsinu Stofunni kl. 20. Þar getur fólk hist og rætt málin yfir rjúkandi heitum bolla í kósý stemmingu. Fulltrúar frá Krafti taka vel á móti ykkur. Nánari upplýsingar er að finna á Facebook-síðu félagsins og á www.kraftur.org,

VIÐTALSTÍMAR Á SPÍTALANUM

Kraftur býður nú upp á viðtalstíma á Landspítalanum í samvinnu við dagdeild blóð-og krabbameinslækninga 11-B á miðvikudögum kl. 10-11. Í viðtalstímum veitum við upplýsingar um þjónustu félagsins sem og annað sem lýtur að ungu fólki með krabbamein og aðstandendum þess.

AFSLÖPPUN Í BERGMÁLI

Kolbrún Karlsdóttir, sem rekur líknar- og vinafélagið Bergmál, bauð Krafts-félögum og aðstandendum þeirra að dveljast yfir helgi í glæsilegu húsi samtakanna á Sólheimum. Boðið var upp á gistingu og veitingar sem Bergmál stóð straum af. Ingó veðurguð og Sólmundur Hólm mættu á staðinn og skemmtu gestum.Í byrjun næsta árs hefur Bergmál boðið Krafti að dvelja þar eina helgi. Nánari upplýsingar þar um munu birtast þegar nær dregur.


REYKJAVÍKURMARAÞONIÐ

Kraftur tók að vanda þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Alls hlupu 88 manns fyrir félagið og söfnuðust 1.280.000 krónur í allt. Kraftur var með öflugt stuðningslið við JL húsið sem lét vel í sér heyra. Áheit í Reykjavíkurmaraþoninu er mikilvægur liður í fjáröflun félagsins og færir Kraftur þeim fjölmörgu, sem hlupu fyrir félagið og hétu á hlauparana, sínar bestu þakkir.

KRAFTSMAÐUR MÁNAÐARINS

Að undanförnu hefur Kraftur lagt áherslu á að kynna fólkið á bak við Kraft á samfélagsmiðlum félagsins. Þar hafa til að mynda verið kynntir félagsmenn okkar sem og stjórn og starfsfólk . Okkur finnst skipta máli að fólk fái að vita hvernig það er að vera ungur og greinast með krabbamein og einnig hvernig það er að vera aðstandandi í þessum sporum. Brot hefur verið birt úr sögu þessara einstaklinga á samfélagsmiðlum félagsins.. Þeir sem vilja fylgjast með okkur geta bætt Krafti við á instagram og snapchat undir notendanafninu krafturcancer.

VEFVERSLUN KRAFTS OG NÝ HEIMASÍÐA

Ný heimasíða félagsins mun líta dagsins ljós í desember en Vefgerðin kemur að hönnun nýrrar heimasíðu og gefur alla sína vinnu í þágu félagsins. Þá verður einnig sett upp ný vefverslun samhliða heimasíðunni. Á vefverslunni verður seldur ýmis varningur til styrkar félaginu. Nú er verið að hanna ýmsar vörur til að selja í vefversluninni og má þar nefna armbönd sem verða seld samhliða átakinu okkar í janúar. Á næsta ári munu koma fleiri vörur sem bætast í hópinn, t.d. bolir, pokar og húfur svo eitthvað sé nefnt. Allur ágóði af sölunni mun renna beint til starfsemi Krafts.

NÝTT ÁTAK Í JANÚAR Á NÆSTA ÁRI

Share your scar gekk svo sannarlega vonum framar í byrjun ársins og við höfum ákveðið að halda áfram að byggja á þeim góða árangri sem náðist með því að blása til nýrrar vitundarvakningar um krabbamein og ungt fólk í janúar 2017. Að þessu sinni beinum við sjónum okkar að fólkinu á bak við hinar tölulegu staðreyndir en árlega greinast um 70 manns á aldrinum 18 – 40 ára með krabbamein hér á landi. Þetta er hópur sem þarf að takast á við krefjandi og fjölbreyttar áskoranir bæði meðan á meðferð stendur, einnig þær síðbúnu afleiðingar sem geta hlotist eftir að meðferð lýkur. Verið er að leggja lokahönd á með hvaða hætti átakið mun verða en það mun að öllum líkindum ekki fara fram hjá ykkur. Á sama tíma mun félagið leitast við að safna mánaðarlegum styrktaraðilum til að styrkja stoðir félagsins fjárhagslega til að gera enn betur í að styðja við bakið á okkar félagsmönnum. Átakinu lýkur síðan með “pop-up” tónleikum á Rósenberg á alþjóðadegi krabbameins þann 4. febrúar.

PERLAÐ MEÐ KRAFTI

Einn liðurinn í átakinu okkar í janúar er framleiðsla á perluarmböndunum með slagorðinu “Lífið er núna” og munum við leita til sjálfboðaliða sem og ykkar, kæru félagsmenn, til að perla með okkur armböndin en þau munu verða seld samhliða átakinu okkar í janúar. Þann 13. desember ætlum við að hafa fyrsta perluhittinginn frá kl. 17.00 - 22.00 og mun verða opið hús í Ráðgjafarþjónustunnni, Skógarhlíð þar sem þið ásamt vinum og vandamönnum eruð meira en velkomin til að koma og perla með okkur. Það væri frábært ef þið sæuð ykkur fært að leggja okkur lið svo hægt sé að koma fullt af armböndum í sölu í janúar. Einnig munum við standa fyrir perluviðburði þann 14. janúar á Kexinu frá kl. 12 - 17 sem verður liður í átakinu okkar þar sem öllum er velkomið að koma í sama tilgangi að perla með KRAFTI.


ÁRNASYNIR

HÁTÍÐARÚTGÁFA

Hátíð handa þér Síríus súkkulaði hefur fylgt íslensku þjóðinni síðan 1933. Við Íslendingar höfum notið Síríus súkkulaðis hversdagslega en ekki síst þegar við viljum gera okkur glaðan dag og njóta þess besta. Með hátíðarútgáfu vinsælla tegunda tekur Síríus þátt í gleðinni með landsmönnum og færir þeim uppáhalds súkkulaðið sitt með hátíðarbrag.

JólaKraftur 2016  
JólaKraftur 2016  

Jólakort til félagsmanna okkar desember 2016.

Advertisement