Page 1

70. ÍÞRÓTTAÞING ÍSÍ GULLHAMRAR GRAFARHOLTI, REYKJAVÍK 8. - 9. APRÍL 2011

Þinggerð Íþróttaþings 2011 70. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hófst föstudaginn 8. apríl kl. 16.30 með því að Jóhanna Þórhallsdóttir flutti „Maístjörnuna“ eftir Halldór Laxnes við erlent lag, við píanóundirleik Kjartans Valdimarssonar. 1. Setning 70. Íþróttaþings Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands Ávarp Ólafur E. Rafnsson forseti ÍSÍ. Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson. Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir. Formaður UMFÍ, Helga Guðjónsdóttir. Ágætu þingmenn, Heiðursfélagar ÍSÍ, góðir þingfulltrúar og aðrir gestir, Ég býð ykkur velkomin til Íþróttaþings. Við höldum nú Íþróttaþing í annað sinn síðan hrun varð í íslensku efnahagslífi á haustmánuðum 2008. Þetta hefur verið tímabil fjárhagslegra þrenginga, óvissu og skerðingar ýmissa lífsgæða sem við höfðum fram að þeim tíma talið sjálfsögð. Íslensk íþróttahreyfing er beinn þolandi þessa ástands – og sú fjárfesting forvarna og mannauðs sem byggst hefur upp á aldarlangri starfsemi hreyfingarinnar hefur laskast. Á sama tíma er aðdáunarvert að fylgjast með æðruleysi og aðlögun ykkar sem starfa í grasrót íþróttahreyfingarinnar. Þótt vissulega gæti reiði gagnvart skilningsleysi stjórnvalda hefur hreyfingin einbeitt sér að því að gæta að sínum félagsmönnum – og hlúð að kjarna grasrótarstarfsins. Hið pýramídalagaða stjórnkerfi íþróttahreyfingarinnar er sá styrkur sem heldur starfseminni saman. Mikilvægt er fyrir okkur að rjúfa ekki þá samstöðu, og gæta vel að því að þótt við störfum í einum hluta pýramídans þá eru aðrir hlutar hans nauðsynlegir. Afreksfólkið okkar dregur vagninn sem fyrirmyndir fyrir æsku landsins – og varpar kastljósi athygli á árangur ástundunar skipulegs íþróttastarfs. En með sama hætti þá falla íþróttastjörnur ekki af himnum ofan – heldur eru þær uppskera umfangsmikils starfs í neðri hluta pýramídans – grasrót hreyfingarinnar. Þetta er varhugavert að slíta í sundur – en ógnir steðja að því jafnvægi sem ríkt hefur. Aukið fjármagn innan atvinnuíþrótta erlendis hefur að nokkru raskað því jafnvægi. Mikilvægt er að


70. Íþróttaþing ÍSÍ fjármagn skili sér inn í íþróttahreyfinguna, en renni ekki í gegnum hana til hagsmunaaðila sem hafa jafnvel ekki íþróttastarfsemi sem aðalmarkmið. Í því samhengi má nefna ólöglega veðmálastarfsemi og viðskiptalegt eignarhald á íþróttafélögum. Ef ekki verður spyrnt við fótum kunna að opnast dyr fyrir skipulagða glæpastarfsemi – sem gjarnan er fylgifiskur fjármunamyndunar. Þessi ógn kann að verða til staðar hér á landi sem erlendis ef ekki verður brugðist við. Við ættum að hafa lært að virða ekki að vettugi blikkandi aðvörunarljós. Við þurfum að huga að fjárhagslegri ábyrgð með þeim hætti að ungmenna- og uppbyggingarstarf framtíðar verði aldrei veðsett eða skuldsett. Við megum ekki láta kapphlaup um markaðsstarfsemi leiða til þess að íþróttaeiningar eyði fjármunum umfram tekjur, til útgjalda sem ekki fela í sér virðisauka fyrir íþróttalegt starf. En hér er ábyrgð stjórnvalda jafnframt mikil. Auk þess að veita atbeina sinn að því að spyrna við ólögmætum áhrifum á íþróttastarfsemi er nauðsynlegt að grundvöllur hinnar frjálsu íþróttastarfsemi sé styrktur með þeim hætti að stjórnunareiningar hennar hafi burði til að takast á við þessar ógnir – svo ekki sé minnst á burði til þess að standa undir skipulagningu hins mikla endurgjaldslausa sjálfboðaliðastarfs sem grundvallar forvarnir og grasrótarstarf íþróttahreyfingarinnar. Hér hafa núverandi stjórnvöld því miður algerlega brugðist. Þrátt fyrir fjölmarga fundi með stjórnvöldum hafa engar lausnir verið boðnar. Það skal tekið fram að samskipti við menntamálaráðherra og fjárveitingavald hafa verið afar góð – en nær fullkomlega árangurslaus. Auðvitað erum við meðvituð um efnahagsástand og niðurskurð. En ef litið er til forgangsröðunar innan ráðuneytis íþróttamála þá hefur verið myndarlega bætt í framlög til annarra þátta menningar á sama tíma og framlög ríkisvaldsins til íþróttamála hafa verið skorin inn að beini. Við munum öll eftir því að í sömu viku og Íþróttaþing var haldið fyrir 2 árum voru framlög til listamannalauna hækkuð myndarlega – þau ein nema nú u.þ.b. helmingi hærri fjárhæð en framlög ríkisins til íþróttahreyfingarinnar á fjárlögum. Sambærilegur sjóður íþróttahreyfingarinnar – Afrekssjóður ÍSÍ – fær nú 24,7 milljónir á fjárlögum, eða rúmlega 5% af heildarframlögum til listamannalauna. Hefur sá sjóður rýrnað umtalsvert að verðgildi og er nú innan við helmingur að raunvirði frá því menntamálaráðuneytið gerði síðast samning við ÍSÍ um þann sjóð árið 2003. Þetta er auðvitað vert að hafa í huga næst þegar við fögnum Evrópu- eða Ólympíumeisturum með íslenska fánann á brjóstinu. Niðurskurður á hóflegum rekstri skrifstofu ÍSÍ hefur verið mikill – en á sama tíma hafa bæst umtalsverð gjöld á hreyfinguna í formi tryggingargjalds og annarra skattahækkana. Okkur þykja það ekki góð skilaboð til að grundvalla hið mikla samfélagslega verðmæta starf sem unnið er innan íþróttahreyfingarinnar. Okkur þykir það ekki góð fjárfesting að vannýta það starf sem margfaldar hverja krónu sem til þess er lagt. Það virðist stundum gleymast að menn eru ekki að biðja um framlög í eigin þágu – heldur til þess að eiga þess kost að starfa í endurgjaldslausri samfélagsþjónustu fyrir íslenska þjóð. Það er vert að hafa það í huga þegar samanburður við aðra þjóðfélagshópa er gerður. 2


70. Íþróttaþing ÍSÍ Fjármál ÍSÍ eru rekin af mikilli ábyrgð, og ég fullyrði að hvergi er bruðlað með fé. Frá efnahagshruni hafa endar náðst saman fyrst og síðast með útsjónarsemi gjaldkera okkar Gunnars Bragasonar og framkvæmdastjóra Líneyju Rutar – og viðeigandi er að halda því til haga að hvergi hafði fé verið ávaxtað af áhættu, og hvergi tapaðist fé vegna fjárfestinga í hruninu. Nú er hinsvegar svo komið að gengið hefur á eigið fé og kostnaður hefur stóraukist af þátttöku í mótum erlendis vegna óhagstæðrar gengisþróunar. Það hefur verið forgangsmál hjá stjórn ÍSÍ þrátt fyrir þetta að reyna að halda úti óbreyttri þjónustu við sambandsaðila – en ljóst má vera að komið er að þolmörkum í þeim efnum. Því miður mun að óbreyttu þurfa að skerða þá þjónustu, og mun það án efa koma niður á því góða starfi sem unnið er innan ykkar raða, ágætu sambandsaðilar. Við höfum þegar séð þess merki í formi niðurskurðar slysabótasjóðsins – sem ÍSÍ tók að sér sem þjónustuaðili fyrir ríkisvaldið á sínum tíma – og kom þar með í veg fyrir að þau framlög yrðu lögð niður. Á sama tíma hefur bæði þörfin fyrir þá þjónustu aukist vegna niðurskurðar annarsstaðar, og gjaldskrár hækkað. Það er brýnt að Velferðarráðuneytið komi þeim málum aftur í það horf sem viðunandi er fyrir íþróttahreyfinguna. Það hefur verið skýr stefna okkar að ráðast ekki á aðra til þess að rökstyðja mikilvægi fjárframlaga til starfseminnar. Þótt íþróttahreyfingin hafi í sjálfu sér ekki gert annað en að fagna auknum fjárframlögum til lista- og menningarstarfsemi þá hafa á hinn bóginn í vaxandi mæli stigið fram á sjónarsviðið aðilar úr þeim ranni sem hafa viljað stilla íþróttum og listum upp sem andstæðingum þegar kemur að stuðningi hins opinbera. Þetta tel ég ranga nálgun – alranga – en hef þó talið mér rétt og skylt að verja mína hreyfingu ef á hana er ráðist með þeim hætti. Íþróttir og listir eru tvær hliðar á sama teningi – menningu þjóðarinnar. Vilji menn taka samanburð þá skulu menn gera það af fullum heiðarleika og leggja öll spilin á borðið. Heildarframlög til íþróttahreyfingarinnar nema u.þ.b. 330 milljónum króna á fjárlögum – að meðtöldum framlögum til sérsambanda og ferðakostnaðarsjóðs – en sá liður sem felur í sér listir og menningu í sama ráðuneyti nemur um 6-7 milljörðum króna – sex til sjö þúsund milljónum. Sá liður hefur frá árinu 2008 hækkað um u.þ.b. 200 milljónir á sama tíma og lækkun framlaga til langstærstu fjöldahreyfingar landsins hefur verið 100 milljónir. Og það sem verra er – stóra súlan vill tína fleiri epli úr garði litlu súlunnar. Ítrekað hefur verið ráðist að tekjustofnum íþróttahreyfingarinnar sem felast í lottó og getraunum – án þess að stjórnvöld hafi með nokkrum hætti komið fram og varið það brothætta kerfi sem íþrótta- og ungmennafélagshreyfingin býr við. Þvert á móti liggja fyrir yfirlýsingar innanríkisráðherra um að hann vilji skoða skerðingar okkar tekna í þágu annarrar menningarstarfsemi – stóru súlunnar. Við rekum hér á kostnað ríkisins landslið í sinfóníutónleik, leiklist, óperuflutningi og listdansi, svo dæmi séu tekin. Allt glæsileg landslið – og sómi þjóðarinnar á erlendri grundu. En ég hygg að eitthvað myndi heyrast ef við myndum krefjast þess að landslið okkar t.d. í knattspyrnu og handknattleik færu með sama hætti á launaskrá ríkisins. Það er nefnilega þannig að það verður ekki fyrr en listastarfsemi verður rekin á sama sjálfboðaliðagrundvelli og íþróttahreyfingin sem unnt er að gera réttmætan samanburð á rekstrarforsendum og ríkisframlögum. Það vekur raunar upp spurningar hvort við séum á rangri leið – ættum ef til vill að íhuga hvor ríkisrekstur á listastofnunum sé ekki ómur fortíðar, og efla 3


70. Íþróttaþing ÍSÍ fremur styrki og framlög til frjálsrar áhugalistastarfsemi – sem víða blómstrar á Íslandi. Þá – og ekki fyrr en þá – er unnt að bera þetta saman við starfsemi íþróttahreyfingarinnar. Bygging Hörpunnar – glæsilegs tónlistarhúss – er ánægjuefni, og vil ég nota tækifærið og óska unnendum lista og menningar til hamingju með verðugan vettvang. Ætla mætti að sú ákvörðun að ljúka við 27 milljarða framkvæmd í bullandi niðurskurði fjárlaga myndi leiða til skilnings þess þjóðfélagshóps sem mun þar iðka sína starfsemi – á því að aðrir sambærilegir geirar menningar muni ekki sæta niðurskurði til að fjármagna þá ákvörðun. En það virðist öðru nær. Þessi góða framkvæmd – sem vel að merkja kostar jafn mikið í byggingu og ríkið leggur til allrar íþróttahreyfingarinnar í 80 ár miðað við núverandi framlög – kostar í rekstri a.m.k. þrefalt meira en árlegt framlag til íþróttahreyfingarinnar. Íþróttahreyfingin tekur ekki afstöðu til stjórnmálalegra skoðana – mikilvægasta stjórnmálamynstur fyrir íþróttahreyfinguna eru ríkjandi stjórnvöld hverju sinni. Hinsvegar verður núverandi ríkisstjórn að gera upp við sig hvað hún hyggst gera til framtíðar í málefnum íþróttahreyfingarinnar – hvort hún ætli að verða fyrsta ríkisstjórn í lýðveldissögunni til þess beinlínis að stilla sér upp andspænis hinni frjálsu íþróttahreyfingu í landinu. Það er raunar kaldhæðnislegt að – auk niðurskurðar og skattahækkana – séu einu áþreifanlegu yfirstandandi aðgerðir ríkisvaldsins gagnvart íþróttahreyfingunni fólgnar í undirbúningi reglna til að þjóðnýta – bótalaust – hugverkaréttindi hreyfingarinnar á grundvelli tilskipunar Evrópusambandsins um útsendingar frá íþróttaviðburðum í ólæstri dagskrá – hugverkaréttindi sem byggð hafa verið upp með margra áratuga langri sjálfboðastarfsemi þess pýramída sem lýst var hér áðan. Og á hvaða grundvelli skyldi það nú vera gert? Jú, á þeim forsendum að um sé að ræða viðburði sem taldir eru hafa “verulega þýðingu í þjóðfélaginu” eða “sérstaka menningarlega þýðingu” eins og segir í umræddri tilskipun. Það var og. Er virkilega enginn innan ríkisstjórnar Íslands sem kemur auga á mótsögn hér? Væri ekki nær að stjórnvöld myndu vera sjálfum sér samkvæm og efla framlög til þeirrar starfsemi sem hefur þessa verulegu þýðingu fyrir þegna landsins – starfsemi sem þau vilja nú þjóðnýta með framangreindum hætti. Mér er ekki kunnugt um að til standi með sama hætti að þjóðnýta hugverkaréttindi okkar frægasta listafólks. Þvert á móti. Því hafa ber í huga að ef íþróttaáhugamaður vill fara t.d. á veitingastað og njóta útsendingar íþróttakappleiks þá þarf sá hinn sami fyrst að greiða lögbundið gjald til tónskálda og eigenda flutningsréttar tónlistar áður en hann fær að sjá íþróttaviðburðinn. STEF gjöld. Sér virkilega enginn neitt athugavert við þessa þversögn innan þess ráðuneytis sem er í fyrirsvari fyrir báða málaflokka? Það er hinsvegar laukrétt í þessu samhengi að íþróttir skipa afar stóran sess í hjörtum þjóðarinnar. Áhorf í sjónvarpi á stóra íþróttaviðburði þar sem íslenskir íþróttamenn etja kappi er fordæmalaust. Þriðjungur íslensku þjóðarinnar er beint skráður og virkur í íþróttahreyfingunni, annar þriðjungur óbeint virkur í formi almenningsíþrótta og almennrar hreyfingar sem byggst hefur upp fyrir tilstilli grasrótarstarfsins – og segja má með sanni að sá þriðjungur sem eftir stendur fylli flokkinn á tyllidögum þegar afreksfólk okkar kemur heim með medalíur í farteskinu. Í þeim hópi hafa ekki síst verið kjörnir fulltrúar þjóðarinnar. 4


70. Íþróttaþing ÍSÍ Að baki þessu starfi stendur ósérhlífin sveit sjálfboðaliða og stjórnenda sem unnið hefur að uppbyggingu pýramídans í heila öld. Það er sá efnahagsreikningur mannauðs sem hefur fyrst og síðast fleytt okkur í gegnum efnahagsörðugleikana – það er sú auðlegð sem aldrei verður af okkur tekin með niðurskurðaráformum. Ég tel raunar nauðsynlegt að við förum að skrásetja þennan mannauð betur – og tel ekkert óeðlilegt við að íþróttafélög vinni að því að gera aðskilin reikningsskil fyrir sinn rekstur, annarsvegar hefðbundin fjármunareikningsskil – en hinsvegar efnahags- og rekstrarreikning þess sjálfboðaliðastarfs sem fram fer innan hvers félags. Ég hygg að það muni koma mörgum á óvart hversu umfangsmikið það starf er, en þegar hafa verið lögð drög að slíkri skráningu innan Íþróttaog Ólympíusambands Íslands. Ég vil þakka okkar ágætu félögum í Ungmennafélagi Íslands fyrir gott samstarf á liðnu kjörtímabili. Helga Guðjónsdóttir hefur veitt samtökunum forystu af miklum glæsibrag og samskiptin verið góð. Viðvarandi umræða hefur verið innan beggja hreyfinga um samlegðaráhrif af því að auka samstarf – jafnvel með sameiningu – þessara tveggja samtaka, og þá ekki síst í ljósi efnahagslegs niðurskurðar. Það er í samræmi við aðrar hagræðingaraðgerðir í okkar samfélagi – og má þar meðal annars nefna sameiningu ráðuneyta sem hafa með höndum talsvert ólíkari starfssvið en ÍSÍ og UMFÍ. Þrátt fyrir farangur fortíðar má segja að starfsemi þessara góðu systursamtaka hafi aldrei legið jafn nærri hvor annarri og nú. Þótt vissulega heyrist raddir um sameiningu fyrst og fremst á grundvelli hagræðingar og fjárhagslegs sparnaðar þá er þetta í mínum augum fyrst og síðast sóknarfæri til þess að efla starfsemina í þágu okkar aðildarfélaga – sem eru sameiginleg í flestum tilvikum. Öll aðildarfélög UMFÍ eru jafnframt innan vébanda ÍSÍ. Má þar auðvitað sem dæmi nefna að bæði samtökin hafa staðið fyrir góðum verkefnum á sviði almenningsíþrótta – raunar jafnvel svo að töluverður ruglingur hefur orðið þar á – og að umfangsmesta starfsemi UMFÍ felst í skipulagningu eins besta einstaka viðburðar fyrir foreldra og ungmenni í íslensku samfélagi nú um stundir – hinu árlega Unglingalandsmóti – sem þegar allt kemur til alls er íþróttamót, sem byggir að stofni til á uppbyggingu og starfsemi sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Það er viðburður sem ég hygg að myndi eflast verulega með sameiningu – og umfram allt með því að gefa öllum Íslendingum kost á að taka þátt sem fullgildum meðlimum – og að öllum sveitarfélögum landsins yrði gert kleyft að gerast mótshaldari á jöfnum forsendum. Það yrði fyrst Unglingalandsmót fyrir Ísland allt. Mér er kunnugt um að umræða hefur orðið á vettvangi nokkurra héraðssambanda um þessi mál. Sú umræða hefur verið málefnaleg og á forsendum viðkomandi íþróttahéraða.

Ég hef ávallt sagt frá því ég tók fyrst við embætti forseta ÍSÍ að ég myndi ekki sjá fyrir mér þvingun á samruna. Slíkt veit aldrei á gott. En meginatriðið er að við megum aldrei gleyma hverja við störfum fyrir – það eru iðkendur og félagar í okkar hreyfingu. Enginn einstaklingur eða samtök eru svo stór að gangi framar þeim hagsmunum. 5


70. Íþróttaþing ÍSÍ Framundan er hundraðasta afmælisár ÍSÍ – en þann 28. janúar næstkomandi er liðin öld frá því að Íþróttasamband Íslands var stofnað á miklum umbrotatímum í íslensku samfélagi. Níu árum síðar – árið 1921 var Ólympíunefnd Íslands stofnuð – en þessi samtök voru svo sameinuð í Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands árið 1997. Ráðgert er að halda upp á afmælisárið af glæsibrag, og hafa starfað starfshópar bæði vegna ritunar sögu sambandsins, sem og skipulagningar afmælisársins. Ég vonast til þess að sem flest ykkar muni njóta þeirra viðburða sem á boðstólum verða. Nauðsynlegt er að starfsemi jafn fjölbreyttra samtaka og ÍSÍ sé í stöðugri þróun og með skýra sýn til framtíðar. Á formannafundum undanfarin ár höfum við kynnt fyrir ykkur með skilmerkilegum hætti okkar stefnumótun og framtíðarsýn. Fyrir þessu þingi hér liggur ennfremur afrakstur umfangsmikillar vinnu hópa sem skipaðir voru í kjölfar síðasta Íþróttaþings – til að ramma inn störf og stefnumarkmið íþróttahreyfingarinnar í formi innra skipulags hreyfingarinnar, og leggja jafnframt drög að ytra skipulagi hreyfingarinnar og íþróttamála á Íslandi til framtíðar. Vil ég færa formönnum þeirra hópa – Lárusi Blöndal varaforseta og Helgu Steinunni Guðmundsdóttur ritara – sem og þeim fjölmörgu sem þar hafa lagt hönd á plóginn – mínar bestu þakkir. Þrátt fyrir gagnrýni og skort á stuðningi frá stjórnvöldum – þá tel ég hér tilefni til þess að færa þakkir til eins fulltrúa íslensks ríksvalds sem ávallt hefur sýnt íþróttahreyfingunni virðingu og stuðning. Þetta er aðili sem hefur verið ósérhlífinn við að tala máli íslenskrar æsku og íþróttahreyfingar – og man ég vart eftir öðru en að hann hafi brugðist vel við málaleitunum um að þiggja boð til viðburða hjá stórum sem smáum aðilum innan hreyfingarinnar. Er ég hér að tala um verndara Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands – Forseta Íslands Hr. Ólaf Ragnar Grímsson. Vil ég færa honum sérstakt þakklæti fyrir öflugan stuðning, og gott samstarf á undanförum árum. Þá vil ég þakka meðlimum Ólympíufjölskyldunnar – Icelandair, Sjóvá, Valitor og Íslandsbanka – fyrir gott samstarf og endurnýjun samninga á nýafstöðnu kjörtímabili. Þrátt fyrir erfitt rekstrarumhverfi hafa þessir aðilar ekki hlaupist brott, og hafa staðið með okkur – og eru okkur mikilvægir til að takast á við þau stóru verkefni sem framundan eru, ekki síst Ólympíuleikana í London á næsta ári. Þá tel ég rétt að færa þakkir til hinnar frábæru liðsheildar sem myndar kjörna framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Þar hefur ríkt mikill einhugur, og eflaust gera fæstir sér grein fyrir því hversu mikið starf þeir einstaklingar inna af hendi. Eru flest þau störf ekki í sviðsljósinu – en allir stjórnarmenn hafa með höndum ákveðin ábyrgðarsvið og hlutverk innan stjórnskipulagsins. Allt frábærir einstaklingar með hugsjón fyrir íþróttum – og stuðning við ykkar starfi í grasrótinni. Það eru forréttindi að fá að koma fram fyrir hönd þessa hóps og vera hluti af honum. Ég er ánægður með hversu stór hluti liðsins hefur áfram boðið fram krafta sína í þágu hreyfingarinnar – og það traust sem núverandi stjórn hefur verið sýnt af ykkar hálfu. Að lokum vil ég færa sérstakar þakkir til Líneyjar Rutar Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ fyrir afar náið og gott samstarf undanfarin ár. Hið sama má segja um einstaklega þolinmótt og duglegt starfslið hennar á skrifstofu ÍSÍ. 6


70. Íþróttaþing ÍSÍ Viðfangsefnin eru fjölbreytt – og hvort sem menn eru að slökkva elda eða kveikja eldmóð – þá er mannauðurinn ómetanlegur, og viðhorfið jákvætt. Þið eruð öll að vinna frábært starf – og fyrir það er ég þakklátur. Ég óska ykkur öllum velfarnaðar í ykkar störfum og hlakka til að eiga við ykkur samstarf á komandi starfstímabili. Ég segi 70. Íþróttaþing ÍSÍ sett.

Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ kynnti söngkonuna Jóhönnu Þórhallsdóttur. Jóhanna flutti lagið „Vorið er komið”. Textinn er eftir Jón Thoroddsen og lagið eftir Hallbjörgu Bjarnadóttur. Undirleikari var Kjartan Valdimarsson.

Ávarp forseta Íslands, herra Ólafs Ragnars Grímssonar. Ágæti menntamálaráðherra Forseti ÍSÍ Formaður UMFÍ Hin vaska forystusveit íþróttahreyfingarinnar sem hér er saman komin Ég óska ykkur hjartanlega til hamingju með þetta þing og líka árangurinn af starfinu á undanförnum árum þótt aðstæður hafi verið erfiðar. Við vorum á það minnt fyrir skömmu, þegar Sigurður okkar Magnússon var borinn til grafar, hve gríðarlegar breytingar hafa orðið í íþróttastarfi Íslendinga á æviskeiði þeirrar kynslóðar sem nú er óðum að hverfa. Það er nánast ógerlegt fyrir okkur að skilja hvernig það var fyrir hann á árunum skömmu eftir heimsstyrjöldina síðari að verða framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur tvítugur að aldri og þurfa að láta það verða sitt fyrsta verk að finna herbergiskytru á Hverfisgötunni til að eiga samastað, kaupa ritvél og skrifblokk, heftara, borð og stól til að geta hafið störf. Það var líka fróðlegt á afmælishátíð Sundsambandsins að heyra lýsingar á því hve erfiðlega gekk að festa í sessi samtök sundhreyfingarinnar, íþróttar sem þó sannarlega hefur orðið ein helsta almenningsíþrótt Íslendinga á okkar tímum. Þetta er mikil afrekssaga og nauðsynlegt að halda því til haga að afreksfólkið í íþróttahreyfingu okkar Íslendinga er ekki aðeins þeir sem hljóta verðlaun á pöllum hér heima og á alþjóðalegum keppnismótum heldur kannski fyrst og fremst það góða fólk sem hefur í áratugi, margt hvert alla sína ævi, helgað íþróttahreyfingunni krafta sína og gert hana að því afli og þeirri þjóðareign sem hún er. Það væri fróðlegt að velta því fyrir sér hve fátæklegt íslenskt samfélag væri, félagslega og menningarlega, ef ekki væru á hverjum degi þúsundir æskumanna, foreldrar, þjálfarar og forystumenn hreyfingarinnar að koma saman vítt og breitt um landið í uppeldi og þjálfun. Hér voru nefnd áðan framlögin til íþróttahreyfingarinnar og borin saman við framlög til hinna opinberu menningarstofnana; sá samanburður var satt að segja ansi fróðlegur; kom á óvart. Það mætti líka bera saman framlögin til íþróttastarfsins í landinu og framlög ríkis og sveitarfélaga til skólastarfs. Ef við skoðum uppeldisfræðina, rannsóknir fræðimanna sem kanna hvað skilar árangri í menntun og þjálfun hverrar kynslóðar, þá skipar íþróttastarfið þar oft 7


70. Íþróttaþing ÍSÍ mikilvægari sess heldur en bóknámið og ástundunin í tímunum. Þegar menn horfa til baka og spyrja sig hvaða kennari það var sem hafði einna mest áhrif á mig í æsku og hvað var það sem nýttist mér best þegar ég hóf störf og stofnaði fjölskyldu og varð nýtur þjóðfélagsþegn? Þá verður svarið ærið oft: félagsskapurinn á vettvangi íþróttanna. Fyrir fáeinum dögum fórum við Dorrit á keppnisleik FH og Hauka í Hafnarfirði í handboltanum; skemmtilegur leikur, ótrúlega jafn. Það var ekki fyrr en á síðustu mínútunni í anda góðra handboltaleikja sem úrslitin voru ráðin. Skemmtilegt kvöld. En það sem mér fannst merkilegast var ekki frammistaða leikmannanna á vellinum þótt hún væri frábær og gaman að sjá nýja kynslóð handboltamanna mæta þar til leiks. Það sem mér fannst merkilegast var að sjá æsku Hafnarfjarðar fjölmenna, auðvitað sitt hvorum megin, í ólíkum búningum, en engu að síður æska Hafnarfjarðar, og sjá hvernig FH og Haukar eru að ala upp þetta unga fólk sem þarna var saman komið. Sjá gleðina, áhugann, hollustuna, einbeitinguna og sigurviljann hjá krökkunum, sjö, átta, níu, tíu, ellefu, tólf ára gömlum. Forseti ÍSÍ nefndi það réttilega hér áðan að frá síðasta þingi höfum við öll, þjóðin, glímt við erfiðleika og það hefur verið þraut fyrir íþróttahreyfinguna eins og flesta ef ekki alla. Þá má það ekki gleymast, hvorki hér á ykkar vettvangi né hjá stjórnvöldum eða þjóðinni, að endurreisn þjóðar eftir hrun af því tagi sem við höfum orðið fyrir er ekki bara efnahagslegt verkefni, felst ekki bara í fjárlögum, breytingum á lögum um banka og fjármálastofnanir eða samningum við erlend ríki. Endurreisn þjóðar felst fyrst og fremst í því að hún öðlist sjálfstraust sitt á nýjan leik. Hvað sem líður góðum verkum á vettvangi efnahagsmála þá munu þau duga lítt ef sjálfstraustið kemur ekki á ný. Ég er viss um að framlag landsliðs okkar í handbolta á Evrópumótinu í Vín, frábær árangur kvennalandsliðsins í knattspyrnu, ótrúleg framganga unglingalandsliðsins í fótboltanum og fjöldi sigra sem okkar frábæra íþróttafólk í fjölmörgum greinum hefur unnið á þessum tveimur árum hefur verið veigameira framlag til að efla sjálfstraust þjóðarinnar á ný og hjálpað henni að ná samstöðu og kjarki heldur en margt annað sem gert hefur verið á hinum svokallaða formlega vettvangi ákvarðanatöku. Vandi okkar Íslendinga við hrunið var kannski ekki fyrst og fremst efnahagslegur, það var hið félagslega og andlega áfall sem þjóðin varð fyrir. Ég vil hér í dag þakka íþróttahreyfingunni fyrir ótrúlegt og merkilegt framlag hennar í að endurreisa sjálfstraust og baráttuvilja þjóðarinnar. Bæði með því að þjappa henni saman á þeim keppnisstundum sem við munum öll með hjálp fjölmiðlanna en ekki síður fyrir að leiða fólkið saman á hverjum degi, í hverri viku, hverjum mánuði árið um kring, í öllum byggðarlögum og öllum landshlutum og láta það finna samstöðuna og getuna í krafti þeirra verka sem unnið er að á vettvangi íþróttahreyfingarinnar. Við værum ekki stödd þar sem við erum þó í dag sem þjóð ef við ættum ekki hreyfingu af því tagi sem íþróttahreyfingin hefur verið. Þó að verkefnin séu fyrst og fremst að ná árangri í íþróttum og þjálfa æskufólk og keppendur þá er það engu að síður mikilvægur þáttur í félagslegum veruleika okkar Íslendinga sem og annarra þjóða að íþróttahreyfingin er burðarás í vilja þjóðar — í vilja þjóðar. Það fjármagn sem varið er til hennar er ekki bara fjárfesting í keppnisíþróttum heldur fyrst og fremst fjárfesting í okkur sjálfum sem þjóð, í vitund okkar, skilningi og getu. Þegar við komum hér saman skömmu eftir bankahrunið á þingi ÍSÍ þá var uggur í brjósti margra. Þið hafið háð hetjulega baráttu við að halda starfinu gangandi og þótt margt megi nefna sem betur hefði mátt gera, þótt skort hafi fjármuni eins og hér var ágætlega rakið, þá held ég samt sem áður að það sé nánast kraftaverk hvað ykkur hefur tekist að gera á þessum tveimur árum. Fyrir það vil ég þakka hér í dag, þakka ykkur fyrir hönd þjóðarinnar. Á þessum erfiðleikatímum hefur verið gaman að koma á vettvang íþróttastarfsins, hvort sem það hefur verið hjá yngstu flokkunum, á leiki í Hafnarfirði eða á mót erlendis og finna kraftinn sem í ykkur býr. 8


70. Íþróttaþing ÍSÍ

Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, kæru þinggestir. Nú eru tvö ár frá síðasta íþróttaþingi. Á þeim tíma sem liðinn er höfum við vissulega þurft að glíma við erfiðleika í samfélaginu, niðurskurð á öllum sviðum og umræðan í þjóðfélaginu heftur oft á tíðum verið neikvæð. Eigi að síður hefur tekist að verja tilvist flestra, ef ekki allra verkefna á sviði íþróttamála. Íþróttalífið í landinu hefur haldið velli þrátt fyrir þessa erfiðleika og virðist sem iðkendum fjölgi. Svo virðist sem foreldrar forgangsraði meira í þágu barna sinna en áður. Ég er einnig þess fullviss að samtakamáttur íþróttahreyfingarinnar hefur haft mjög mikið að segja. Það hafa verið óteljandi sjálfboðaliðar sem hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar og ræktað grasrótarstarfið. Það er ekki auðvelt og ekki sjálfgefið að viðhalda góðu starfi við þær aðstæður sem við höfum búið við undanfarin ár og því meiri ástæða er til þess að þakka íþróttahreyfingunni fyrir þann góða árangur sem náðst hefur á þessum tímum. Ég kynnti á samráðsfundi með ÍSÍ og sérsamböndum í haust helstu atriði nýrrar íþróttastefnu sem ráðuneytið hefur unnið að. Ég hef að fengnum athugasemdum samþykkt stefnuna og munum við á næstu misserum senda hana út til ykkar til nánari kynningar. Framgangur stefnu sem þessarar er samstarfsverkefni og hún mun ganga eftir ef allir aðilar sem koma að íþróttamálum í landinu vinna saman þ.e. ráðuneytið, sveitarfélög í landinu og íþróttahreyfingin og óska ég eftir því að við getum átt gott samstarf um eflingu íþrótta í landinu sem sannarlega er tilgangurinn með þessari stefnumótun. Framlög til afrekssjóðs hafa verið skert á fjárlögum síðustu ára og er það miður en á móti hefur tekist að halda á fjárlögum framlögum vegna Ólympískra verkefna. Engum blöðum er um það að fletta að efla þarf þennan stuðning þannig að á fjárlögum verði föst framlög vegna Ólympíuleika og að unnið verði að eflingu afrekssjóðs á fjárlögum næstu ára. Ferðasjóður íþróttafélaga er verkefni sem að mínu mati hefur tekist með miklum ágætum. Mér sýnist að með úthlutun sjóðsins sé að takast að ná þeim markmiðum sem sett voru með stofnun hans. Þau íþróttafélög sem ferðast lengst og oftast fá mest úr sjóðnum og greinilegt er að nú er valinn öruggari ferðamáti. Ég þakka ÍSÍ gott samstarf um þetta verkefni. Umræða um breytingar á Lottó hefur á síðustu misserum komið upp í fjölmiðlum og eins hefur Bandalag íslenskra listamanna viðrað þetta mál á samráðsfundum sem ég hef átt með þeim. Nú síðast hefur innanríkisráðherra ljáð máls á því að setja af stað starfshóp sem á að skoða breytingar á því fyrirkomulagi sem nú er. Því miður hefur ekki verið eftir áliti mínu leitað í þeirri fjölmiðlaumfjöllun sem þó hef mest um það að segja hvernig framlögum til íþróttamála og lista er háttað. Hins vegar hef ég komið því á framfæri við listamenn og innanríkisráðherra að mín skoðun sé sú að fyrirkomulaginu eigi ekki að breyta. Að minnsta kosti verður að hafa í huga að breytingar á þessu fyrirkomulagi geta ekki orðið án upplýstrar umræðu og nákvæmrar skoðunar á framlögum til þessara málaflokka enda um verulegt inngrip í kerfi, sem hefur verið nokkur sátt um, að ræða. Og ekki má gleyma því að inn í þessa umræðu blandast einnig velferðarráðuneytið og framlög til öryrkja. Ég hef kynnt mér þetta fyrirkomulag og tilurð fyrirtækisins Íslenskrar getspár og tel að það séu ekki mörg rök sem hníga að breytingum á lögum um talnagetraunir.

9


70. Íþróttaþing ÍSÍ Þátttaka almennings í Lífshlaupinu og Hjólað í vinnuna sýnir að mikil vakning hefur orðið í iðkun almenningsíþrótta. Íþróttahreyfingin hefur lagt sitt að mörkum til þess að efla þennan þátt meðal landsmanna. Þetta er að mínu mati mjög ánægjuleg þróun. Skólarnir eru t.a.m að auka sína þátttöku enda eru þetta mjög góð verkefni til þess að kynna almenningsíþróttir fyrir nemendum. Og svo geta þessi verkefni stuðlað að jákvæðum og góðum skólabrag sem ég hef lagt mikla áherslu á við stjórnendur skólanna. Unnið hefur verið að endurskoðun aðalnámskrár fyrir öll skólastig í kjölfar breytinga á lögum um leik- grunn- og framhaldsskóla frá árinu 2008. Meginlínur hvað íþróttir varðar eru að sett verður aukið vægi á heilbrigði í námsskránni sem kemur inn á íþróttakennsluna. Þetta er þó enn í vinnslu og eftir er að útfæra þetta nákvæmlega. Íþróttakennsla í grunn og framhaldsskólum er að mínu mati mjög mikilvæg og eru veigamiklar ástæður fyrir því. Við þurfum að auka vægi hreyfingar hjá börnum og unglingum almennt, bæði innlendar rannsóknir og skýrslur t.d. OECD og kannanir ráðuneytisins ungt fólk segja okkur það. Þetta verður gert með ýmsum hætti en öflug íþróttakennsla sem byggir upp þekkingu nemenda á því hvernig hægt er að tryggja líkamlega færni og nauðsynlega hreysti er grundvallaratriði. Vissulega hefur ýmislegt verið gert til þess að ýta undir þetta. Í ráðuneytinu höfum við t.a.m. sett af stað verkefnin heilsueflandi framhaldsskóli og Íþróttavakningu framhaldsskólanna. Árið 2007 var gerður samningur milli menntamálaráðuneytisins, Lýðheilsustöðvar og samtaka framhaldsskólanemenda sem kallaður hefur verið HOFF og stendur fyrir Heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum. Samningurinn var til þriggja ára og var endurnýjaður í haust. Það hefur margt áunnist á þeim þremur árum sem HOFF verkefnið hefur verið við lýði. Íþróttavakning framhaldsskólanna, hefur verið framkvæmd tvisvar sinnum en markmiðið með henni er að fá sem flesta framhaldsskólanemendur til að hreyfa sig, sem síðan leiðir sjálfkrafa til betri líðan og betri námsárangurs. Í heilsueflingunni tóku um 10.000 framhaldsskólanemendur úr rúmlega 30 framhaldsskólum landsins þátt síðasta vetur. Verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli sem einnig hefur verið sett af stað í framhaldsskólum er ekki hugsað sem átak heldur viðvarandi þróun þar sem áhersla er lögð á að hver og einn taki ábyrgð á eigin heilsu og líðan og tileinki sér lífsvenjur sem eru uppbyggilegar fyrir líkamlegt og andlegt heilbrigði. Fyrst verður næring tekin fyrir, því næst hreyfing, þá geðrækt og loks lífsstíll. Á öðrum sviðum utan skóla hafa sveitarfélög t.d. niðurgreitt þátttöku í íþróttastarfi og almenningsíþróttir hafa eflst eins og áður er getið. Einnig hafa margir framhaldsskólar verið að feta sig áfram með þróun afrekssviða og sækir mikill fjöldi efnilegs íþróttafólks skóla sem bjóða upp á slíkar leiðir. Í flestum tilfellum eiga skólarnir í samvinnu við íþróttafélagið eða félögin í hverfinu um skipulagningu og hefur þetta tekist með ágætum víðast hvar. Ákveðið hefur verið að setja í reglugerð lista um mikilsverða viðburði í opinni dagskrá og byggir hann á heimild í núgildandi útvarpslögum. Markmiðið með slíkum lista er að tryggja að viðburðir sem hafa veigamikla samfélagslega þýðingu, séu aðgengilegir öllum áhorfendum. Ástæða þess að talin var þörf á að setja slíka heimild innan Evrópska efnahagssvæðisins á sínum tíma er að slíkir viðburðir sem áður höfðu verið í opinni dagskrá urðu aðeins aðgengilegir ákveðnum hluta landsmanna sem gátu greitt fyrir efnið. Til þess að teljast mikilsverður viðburður þarf hann að uppfylla ströng skilyrði, m.a. þarf að sýna fram á mikið áhorf á meðan viðburðurinn var í opinni dagskrá, hann þarf að hafa samfélagslegt gildi og þarf að teljast reglulegur viðburður. Margar nágrannaþjóðir okkar hafa sett slíkan lista, t.d. Finnar og Bretar auk þess sem Norðmenn eru að 10


70. Íþróttaþing ÍSÍ leggja lokahönd á undirbúning að slíkum lista. Mikilvægt er að samráð sé haft við alla hagsmunaaðila við gerð slíks lista. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur nú kallað eftir tillögum frá helstu hagsmunaaðilum, sjónvarpsstöðvunum, ÍSÍ og BÍL áður en hafin er vinna við samráðsskjal og lista sem síðan verður kynntur á heimasíðu ráðuneytisins. Ráðuneytið er ekki með þessu að hlutast til um það hvort íþróttahreyfingin geti selt rétt til sýninga á íþróttaviðburðum heldur er einungis verið að tryggja að mikilsverðir viðburðir sem taldir eru hafa veigamikla samfélagslega þýðingu séu landsmönnum aðgengilegir í opinni dagskrá. Í íþróttahreyfingunni og starfi hennar býr ótrúlega mikill kraftur og samfélagsleg atorka sem er þjóðfélaginu mjög mikilvægt. Þau gildi sem íþróttahreyfingin vinnur eftir eiga mikið erindi við samfélagið og er mikilvægt að íþróttahreyfingin standi vörð um þessi gildi og haldi þeim á lofti. Gangi ykkur vel í þeim mikilvægu þingstörfum sem framundan eru.

Ávarp formanns UMFÍ, Helgu Guðrúnar Guðjónsdóttur Forseti Íslands, menntamálaráðherra, forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, heiðursfélagar, þingfulltrúar og góðir gestir. Ég vil fyrir hönd Ungmennafélags Íslands þakka fyrir það ágæta boð að vera með ykkur hér í dag. Ég flyt ykkur kveðjur frá stjórn og starfsmönnum UMFÍ með þökkum fyrir góð samskipti og gott samstarf. Frá upphafi hefur ungmennafélagshreyfingin átt því láni að fagna að vera dugleg við að finna sér verkefni og viðfangsefni til að vinna að. Um það vitnar 104 ára saga hreyfingarinnar. Í dag eru aðaláherslurnar í starfsemi Ungmennafélags Íslands á fræðslu og forvarnir, landsmót og unglingalandsmót, umhverfismál, ungmennamál, almenningsíþróttir og íþróttir 50 plús. 14. Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina í umsjón UÍA og fyrsta landsmót 50 plús verður haldið í Húnaþingi vestra á Hvammstanga 24. – 26. júní í umsjón USVS. Mótin eru öllum opin til þátttöku og vil ég nota þetta tækifæri og hvetja ykkur til að fjölmenna á bæði mótin. Hjá Íþrótta- og ólympíuhreyfingunni er mikið um að vera í ár bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Mikill metnaður er í starfinu og þær tillögur sem liggja hér fyrir þinginu sýna að ÍSÍ tekur hlutverk sitt alvarlega og af fullri ábyrgð. Vel hefur verið staðið að undirbúningi og þátttöku í hinum ýmsu verkefnum á árinu og ber að þakka því góða fólki sem starfar hjá Íþrótta- og Ólympíusambandinu fyrir vel unnin störf sem við hin njótum öll góðs af. Íþróttahreyfingin gæti ekki staðið fyrir því mikla og góða starfi sem hún stendur fyrir ef ekki kæmi til stuðningur frá stjórnvöldum, fyrirtækjum og öðrum sem sýnt hafa því góða og mikla starfi áhuga og skilning sem hreyfingin stendur fyrir og vinnur að. Hins vegar er ljóst að niðurskurður á fjármagni í kjölfar efnahagsbreytinganna 2008 er farinn að bitna á hreyfingunum og er það áhyggjuefni eins og forseti ÍSÍ kom svo vel inn á hér áðan. Fram til þessa hefur okkur tekist að halda úti starfseminni þannig að hún bitni ekki á barna- og unglingastarfinu en nú fer að nálgast þann 11


70. Íþróttaþing ÍSÍ tímapunkt að það verður erfitt. Það er því afar mikilvægt að stjórnvöld endurskoði þær fjárveitingar sem úthlutað er til íþrótta- og æskulýðsmála og láti hug fylgja máli. Meti að verðleikum hið mikla og göfuga starf sjálfboðaliðans sem þjóðfélagið getur ekki verið án. Í gegnum tíðina hafa Ungmennafélag Íslands og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands átt í góðu samstarfi og eiga enn. Má í því sambandi nefna samstarf UMFÍ og sérsambanda ÍSÍ í kringum landsmót og unglingalandsmót UMFÍ, smíði á Felix, Getspá og getraunir, forvarnaverkefni og sameiginlegan áhuga og metnað um að gera veg íþrótta sem mestan í samfélaginu. Samstarfið byggir á grunngildum íþrótta og ungmennafélagsandans sem eru samheldni, mannvirðing, friður, skilningur og umburðarlyndi. Við erum þess meðvituð að hvert og eitt okkar er dýrmætur hluti af því sem þarf til að skapa samfélag mannauðlinda einmitt nú þegar íslenska þjóðin skiptist í ýmist ringlaðar, svartsýnar eða reiðar fylkingar. Við þurfum að komast upp úr hjólförunum sem við höfum verið föst í um allt of langan tíma, horfa til framtíðar og saman þurfum við að leggja okkar af mörkum við uppbygginguna sem ein heild fyrir heildina. Þar er íþróttahreyfingin sterkt afl við að móta hugarfarslega og félagslega þætti með lýðræði hinna frjálsu félagasamtaka að vopni hvort heldur um er að ræða uppeldi iðkenda eða árangur þeirra í íþróttum. Góðir félagar og vinir, ég óska ykkur málefnalegs og góðs þings. Það er ósk mín að íþrótta- og ungmennafélgshreyfingin nái í ljósi fjölbreytileika í starfi, sjónarmiða og markmiða að stuðla að mörgum spennandi verkefnum í framtíðinni. Við skiptum svo miklu máli. Til hamingju með ykkar góða og mikilvæga starf, þá glæsilegu umgjörð sem hér er og gangi ykkur vel í störfum ykkar. Íslandi allt! Heiðranir Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ bað Ólaf Rafnsson forseta ÍSÍ og Lárus Blöndal varaforseta ÍSÍ um að koma upp á sviðið. Lárus gerði grein fyrir tillögu framkvæmdastjórnar ÍSÍ um nýja heiðursfélaga ÍSÍ sem var svohljóðandi: 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 að Gullhömrum í Reykjavík, samþykkir að kjósa eftirfarandi einstaklinga, heiðursfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands fyrir frábær störf í forystu íslenskrar íþróttahreyfingar. Hörður Gunnarsson og Páll Aðalsteinsson. Þingheimur samþykkti með lófaklappi. Lárus bað heiðursmennina tvo að koma upp á sviðið til að taka á móti viðurkenningu því til staðfestingar. Lárus fór jafnframt í stórum dráttum yfir störf þessara nýkjörnu heiðursfélaga. Ólafur og Líney afhentu Herði og Páli viðurkenningarskjöl og blóm. Lárus Blöndal gat þess einnig að á fundi framkæmdastjórnar ÍSÍ þann 7. apríl sl. hefði stjórnin samþykkt að heiðra Margréti Bjarnadóttur og Jens Kristmannsson með heiðurskrossi ÍSÍ fyrir þeirra frábæru störf í þágu íþróttahreyfingarinnar. Lárus bað þau um að koma á svið og taka við 12


70. Íþróttaþing ÍSÍ viðurkenningunni. Ólafur Rafnsson afhenti þeim blómvendi.

Margréti og Jens Heiðurskross ÍSÍ ásamt

Lárus gat þess einnig að á fyrrgreindum fundi framkvæmdastjórnar ÍSÍ hefði verið ákveðið að veita Guðmundi Gíslasyni fyrrum Ólympíufara og formanni Samtaka íslenskra Ólympíufara gullmerki ÍSÍ. Lárus bað Guðmund um að koma upp á svið og taka við viðurkenningunni. Ólafur Rafnsson nældi viðurkenningunni í Guðmund. Að lokum óskaði Lárus Blöndal öllum þeim sem fengu viðurkenningar innilega til hamingju og gaf Ólafi Rafnssyni orðið. Ólafur óskaði þessum öflugu aðilum til hamingju með viðurkenningar sínar og tilkynnti svo um 10 mínútna kaffihlé. Ólafur bað þó þingfulltrúa alla um að stilla sér upp í hléinu fyrir framan þingsalinn vegna hópmyndatöku.

2. Kjörnir 1. og 2. þingforseti Ólafur Rafnsson las upp tillögu um Daníel Jakobsson sem þingforseta og Stein Halldórsson sem varaþingforseta. Samþykkt samhljóða. Ólafur bað þingforseta um að taka þegar til starfa. Þingforseti þakkaði traust sem honum var sýnt. Hann fór yfir nokkur praktísk atriði s.s. varðandi boðun þingsins. Hann vitnaði í lög ÍSÍ í þessum efnum. Hann sagði þingið hafa verið auglýst með þeim fyrirvara sem kröfur eru gerðar um og lýsti þingið löglega boðað. Hann gat þess að frambjóðendum til framkvæmdastjórnar ÍSí yrði gefinn kostur á því að kynna sig í lok þingstarfa þennan fyrri þingdag. Hann minnti einnig á atkvæðaspjöldin hvítu og rauðu sem væru í þinggögnum og minnti á að hvítt spjald væri fyrir já og rautt fyrir nei. Þingforseti sagði frá nefndarstörfum sem fram færu í Laugardalnum um kvöldið og hvatti þingfulltrúa til þátttöku þar.

3. Kjörnir 1. og 2. þingritari Daníel Jakobsson þingforseti bar upp tillögu um Viðar Sigurjónsson sem 1. þingritara og Örvar Ólafsson sem 2. þingritara. Samþykkt samhljóða.

4. Kosning ungra íþróttamanna skv. gr. 12.3 Þingforseti las upp tillögu um þau Þorbjörgu Ágústsdóttur skylmingarkonu, Einar Örn Jónsson handknattleiksmann, Kristján Una Óskarsson skíðamann og Söru Pálmadóttur körfuknattleikskonu. Samþykkt samhljóða.

5. Kosning 5 manna kjörbréfanefndar Þingforseti las up tillögu um Guðríði Adnegaard sem formann, Elínu Rán Björnsdóttur, Elísabetu Ólafsdóttur, Frímann Ara Ferdínandsson og Ólaf Odd Sigurðsson. Samþykkt samhljóða. Starfsmaður nefndarinnar var Örvar Ólafsson. Þingforseti bað nefndina að hefja störf strax.

6. Ávörp gesta sjá hér að ofan undir setningu þings 13


70. Íþróttaþing ÍSÍ 7. Lögð fram skýrsla framkvæmdastjórnar Þingforseti óskaði eftir heimild þingheims til þess að skýrsla stjórnar og reikningar yrðu kynnt sameiginlega og að að því loknu yrði opnað fyrir umræður um hvorttveggja. Samþykkt samhljóða. Líney Rut Halldórsdóttir flutti skýrslu framkvæmdastjórnar og minnti jafnframt á að skýrslan lægi frammi á þinginu. Hún renndi yfir skýrsluna í stórum dráttum. Hún minnti á að gott væri að sjá merki ÍSÍ á heimasíðum sambandsaðila.

8. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar Þingforseti bauð Gunnari Bragasyni gjaldkera ÍSÍ að koma í pontu og gera grein fyrir reikningum sambandsins. Gunnar fór yfir reikninga. Þingforseti bauð Guðríði Adnegaard að koma í pontu og gera grein fyrir störfum kjörbréfanefndar. Guðríður óskaði eftir því við þingheim að fá að bera upp lokatölur varðandi þingfulltrúa þar sem þingið væri komið nokkuð fram úr áætluðum tíma. Það var samþykkt samhljóða. Sérsamböndin áttu rétt á 94 fulltrúum, 63 voru mættir, Héraðssamböndin/íþróttabandalögin áttu rétt á 94 fulltrúum, 84 eru mættir. Þingforseti sagði það hefð að lesa nöfn þingfulltrúa upp en leitaði tilbrigða sem þingheimur samþykkti. Þingforseti tilkynnti þá dagskrárbreytingu að vegna tímaskorts þá myndu frambjóðendur til framkvæmdastjórnar ÍSÍ og varastjórnar kynna sig seinni dag þingsins, á laugardagsmorgninum. Þingforseti gaf orðið laust um skýrslu framkvæmdastjórnar og reikninga. Valdimar Leó kom í pontu og þakkaði fyrir ágæta skýrslu og stjórn og starfsfólki ásamt forseta og framkvæmdastjóra ÍSÍ fyrir frábær störf. Hann fagnaði öruggum ávöxtunarleiðum gjaldkera ÍSÍ. Valdimar sagði gjaldkera hafa minnst á tryggingargjald sem skipti hreyfinguna miklu máli. Hann taldi ræðu forseta ÍSÍ góða og taldi hreyfinguna orðna ákveðnari, hún þyrði að krefjast fjármuna frá ríki og minnti á það að hreyfingin yrði að bretta upp ermar. Hann kom inn á heiðursviðurkenningar og minnti á að Margrét Bjarnadóttir væri enn að starfa fyrir UMSK. Hann kom inn á ræðu menntaog menningarmálaráðherra og fagnaði því sem hann taldi sig skilja í ræðu hennar að lottóið og getraunirnar yrðu áfram innan raða íþróttahreyfingarinnar. Hann taldi það afar dapurt þegar aðilar væru að kroppa í þessa fjármuni og taldi æskilegt að fram kæmi ályktun á þinginu varðandi efnið. Þingforseti minnti Valdimar á að skila inn skriflegri ályktun ef hann vildi að hún yrði borðin upp fyrir þingið. Hörður Oddfríðarson kom í pontu og gerði að umræðuefni skýrslu stjórnar og gjaldkera. Hann þakkaði gott samstarf við framkvæmdastjórn og starfsfólk ÍSÍ sem hann sagði hafa verið gott og gjöfult en eflaust mætti gera betur á báða bóga. Hann taldi skýrsluna útprentaða bruðl með fjármuni og sagði það eðlilegt að nú færu fram pappírslaus þing. Hann sagði heimasíðuna mjög góða þegar hún virkaði og sagðist vonast til þess að þegar afmælisár ÍSÍ hefst þá verði heimasíðan endanlega í lagi og að upplýsingar sem koma frá sambandsaðilum fari örugglega inn á heimasíðuna. Hann taldi vanta í skýrsluna texta um fjölda iðkenda og keppenda. Hann hvatti alla 14


70. Íþróttaþing ÍSÍ til að taka þátt í afmælisárinu af heilum hug. Hann sagðist telja viðburðinn Íþróttamaður ársins skemmtilegan viðburð en taldi íþróttahreyfinguna þurfa að verða frjórri við að koma málum sínum á framfæri í tengslum við viðburðinn. Hann sagði hreyfinguna hafa barið sér á brjóst en samt væru fyrirmyndarfélög starfandi um allt land og það væri eðlilegt að leiða hugann einnig að héraðs- og sérsamböndum, jafnvel að gera þau að fyrirmyndarsamöndum, eða í öllu falli að vinna betur saman, samnýta tæki, starfsfólk o.s.frv. Varðandi skiptingu fjármuna milli menningar og lista annars vegar og íþróttahreyfingarinnar hins vegar þá taldi hann það alvarlegt mál þegar aðilar kæmu fram í fjölmiðlum og teldu íþróttahreyfinguna vinna að því að hella brennivíni í íþróttafólk á ferðalögum. Hann kom inn á það í málflutningi sínum hvernig það væri ef leiklistarfólk þyrfti að borga með sér á frumsýningu. Hann taldi nauðsynlegt að koma inn á það á þingum og fundum sem íþróttafulltrúar sæktu erlendis, hverjir hefðu bruðlað með fé hér á Íslandi. Geir Þorsteinsson formaður KSÍ kom í pontu og þakkaði framkvæmdastjórn fyrir góð störf og forseta fyrir frábæra setningarræðu. Hann kom inn á orð mennta- og menningarmálaráðherra um lista yfir viðburði til sýninga í ólæstri dagskrá. Honum fannst þessi orð sýna taktleysi ráðuneytisins í samskiptum við íþróttahreyfinguna. Geir minnti á að KSÍ hefði aflað hundruða milljóna í tekjur vegna útsendingarrétta á viðburðum í knattspyrnu. Hann sagði að sambandið hefði ekki fengið eitt bréf frá ráðuneytinu vegna þessa máls og þaðan af síður að leitað hafi verið til sambandsins með öðrum hætti. Hann sagði að málið brynni eðlilega á KSÍ og hugsanlega fleiri samböndum og að spurningin væri auðvitað sú hversu langt ætlunin væri að seilast í þessum efnum. Hann minnti á grein Ólafs Rafnssonar forseta ÍSÍ á heimasíðu ÍSÍ sem hann sagði vera frábæra grein. Geir lagði fram tillögu til þingsins. 70. Íþróttaþing ÍSÍ haldið í Gullhömrum í Reykjavík, mótmælir þeirri fyrirætlan mennta- og menningarmálaráðherra að setja lista yfir íþróttaviðburði sem ber að sýna í opinni útsendingu í sjónvarpi. Þjóðnýting útsendingaréttinda á íþróttaviðburðum sem skipulagðir eru af sérsamböndum ÍSÍ er skerðing á frelsi þeirra til að afla tekna til starfsemi sinnar. Rekstur sérsambanda ÍSÍ byggir að mestu leyti á sjálfsaflafé, þau njóta lítilla sem engra styrkja frá stjórnvöldum. Tekjur af útsendingarrétti í sjónvarpi frá íþróttaviðburðum geta skipt sköpum í rekstri sérsambanda ÍSÍ. Það er vitanlega í þágu íþróttanna að sem flestir njóti útsendinga frá viðburðum þeim tengdum en það eitt og sér má ekki verða til þess að skerða möguleika sérsambanda til að afla sér tekna. KSÍ. Þingforseti tók við ályktun Geirs og sagðist setja hana í ferli á þinginu. Engilbert Olgeirsson framkvæmdastjóri HSK kom í pontu og þakkaði fyrir ánægjulegt samstarf við ÍSÍ og góðar gjafir á afmæli sambandsins. Hann var ekki sammála því að prentun ársskýrslunnar væri bruðl. Hann sagði frá reikningi frá STEF sem HSK fékk vegna tónlistarflutning Ingós í tengslum við viðburð hjá HSK. Hann sagði frá skoðun sem fram kom á héraðsþingi HSK sem varð að tillögu þar sem hvatt er til þess að samstarf og/eða sameining ÍSÍ og UMFÍ sé skoðuð. Hann taldi æskilegt að afmælishátíð ÍSÍ á næsta ári verði sem glæsilegust. Þingforseti lokaði mælendaskrá.

9. Umræður og samþykkt reikninga. 15


70. Íþróttaþing ÍSÍ Þingforseti leitaði samþykkt þingheims varðandi skýrslu og reikninga og var hvort tveggja samþykkt samhljóða.

10.Kosning þingnefnda. Þingforseti ítrekaði að nefndarfundirnir væru opnir og öllum heimil þátttaka í fundunum. a) Fjárhagsnefnd fimm manna. Tillaga um Ástu Óskarsdóttur sem formann, Guðrúnu Ingu Sívertsen, Sigfús Ólaf Helgason, Sigurjón Pétursson og Sturlaug Sturlaugsson. Samþykkt með lófaklappi. Berglind Guðmundsdóttir og Steinunn Tómasdóttir voru starfsmenn nefndar. b) Allsherjarnefnd fimm manna. Tillaga um Hörð Þorsteinsson sem formann, Guðjón Guðmundsson, Hlín Ágústsdóttur, Margréti Björnsdóttur og Stefán Halldórsson. Andri Stefánsson og Þórarinn Alvar Þórarinsson voru starfsmenn nefndar. c) Laganefnd fimm manna Tillaga um Snorra Ólsen sem formann, Atla Vagnsson, Ágúst Sindra Karlsson, Hauk Örn Birgisson og Ragnheiði Thorlacius. Halla Kjartansdóttir og Örvar Ólafsson voru starfsmenn nefndar. d) Aðrar nefndir skv. ákvörðun þings hverju sinni Þinforseti leitaði samþykkt þingheims til að sleppa umræðum um tillögur þingsins til morguns. Samþykkt samhljóða.

11.Stofnun nýrra sérsambanda Þingforseti kynnti að engin tillaga lægi fyrir um stofnun nýs sérsambands. Þó lægi fyrir heimild framkvæmdastjórnar frá Íþróttaþingi árið 2006 til að stofna Hnefaleikasamband ÍSÍ og heimild frá Íþróttaþingi frá árinu 2009 til að stofna Akstursíþróttasamband ÍSÍ. Þingforseti gat um reglur ÍSÍ sem sérsambönd þurfa að uppfylla sem hann áleit fyrst og fremst ástæðu þess að stofnun þessara tveggja sambanda hefði ekki farið fram.

12.Lagabreytingatillögur Þingforseti gat um tillögur til laganefndar og leitaði samþykkt þingsins til að visa þeim til laganefndar og að það skjal yrði merkt sem þingskjal 1. Samþykkt samhljóða.

Tillaga um breytingar á lögum ÍSÍ Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ

5.2.a Félagið hafi iðkun íþrótta á stefnuskrá sinni. Breytist og verður þannig: 5.2.a Félagið hafi iðkun íþrótta sem samþykkt hefur verið af framkvæmdastjórn ÍSÍ á stefnuskrá sinni.

16


70. Íþróttaþing ÍSÍ 5.4. Hafi félagið á stefnuskrá sinni iðkun íþróttar, sem hefur ekki áður verið stunduð innan aðildarfélags ÍSÍ skal viðkomandi héraðssamband/íþróttabandalag vísa umsókninni til ákvörðunar framkvæmdastjórnar ÍSÍ. Breytist og verður þannig: 5.4. Hafi félagið á stefnuskrá sinni iðkun íþróttar, sem ekki hefur verið samþykkt af framkvæmdastjórn ÍSÍ, þá skal viðkomandi héraðssamband/íþróttabandalag vísa umsókninni til ákvörðunar framkvæmdastjórnar ÍSÍ. Íþróttafélag innan vébanda ÍSÍ er óheimilt að stunda aðrar íþróttir en þær sem samþykktar hafa verið af framkvæmdastjórn ÍSÍ og/eða IOC.

5.5. Héraðssamband/íþróttabandalag skal tilkynna ÍSÍ aðild nýs félags um leið og hún hefur verið samþykkt. Breytist og verður þannig: 5.5 Hafi félagið á stefnuskrá sinni fleiri en eina íþróttagrein er félaginu heimilt að stofna deild um hverja þeirra, samanber lög viðkomandi félags. Stofnun deilda skal tilkynna til viðkomandi héraðssambands/íþróttabandalags og viðkomandi sérsambands. Aðalstjórn félags fer með æðsta vald í félaginu milli aðalfunda og ber ábyrgð á starfi og fjárhag deilda félagsins.

11.3. Eigi síðar en 2 vikum fyrir íþróttaþing skal senda aðilum dagskrá þingsins, reikninga, fjárhagsáætlun, tillögur sem borist hafa ásamt þeim tillögum sem framkvæmdastjórn hyggst leggja fyrir þingið. Breytist og verður þannig: 11.3. Eigi síðar en 2 vikum fyrir íþróttaþing skal senda aðilum dagskrá þingsins, reikninga, fjárhagsáætlun, tillögur sem borist hafa ásamt þeim tillögum sem framkvæmdastjórn hyggst leggja fyrir þingið. Framlagning gagna fyrir og á Íþróttaþingi skal vera á rafrænu formi, verði því við komið.

12.7. Við afgreiðslu á málum er tengjast Ólympíuleikum, Smáþjóðaleikum, Ólympíudögum Evrópuæskunnar og Ólympíusamhjálpinni gilda aðeins atkvæði ólympísku sérsambandanna, enda hafi meirihluti ólympískra sérsambanda samþykkt það. Breytist og verður þannig 12.7 Við afgreiðslu á málum er tengjast Ólympíuleikum, Ólympíuleikum ungmenna, Smáþjóðaleikum, Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar og Ólympíusamhjálpinni gilda aðeins atkvæði ólympísku sérsambandanna, enda hafi meirihluti ólympískra sérsambanda samþykkt það. 19.1. Í upphafi starfstíma síns skipar framkvæmdastjórn fastanefndir og stjórnir stoðsviða ÍSÍ. Stoðsvið ÍSÍ eru þrjú; Afrekssvið, Fræðslusvið og Almenningsíþróttasvið. Kjörtímabil þeirra er til tveggja ára, hið sama og framkvæmdastjórnar, nema annað sé sérstaklega ákveðið. Stoðsvið ÍSÍ skulu m.a. hafa yfirumsjón með viðkomandi málaflokkum, vera framkvæmdastjórn til ráðuneytis og sjá um verkefni þeim tengdum. Þær fastanefndir sem skipa skal eru: Stjórn Afrekssjóðs, stjórn Styrktarsjóðs ungs og efnilegs íþróttafólks, Heilbrigðisráð, Lyfjaeftirlitsnefnd, Lyfjaráð, Fjármálaráð, Laganefnd og Alþjóðanefnd. Aðrar nefndir eru skipaðar eftir því sem tilefni gefst til að mati framkvæmdastjórnar. Breytist og verður þannig: 19.1. Í upphafi starfstíma síns skipar framkvæmdastjórn fastanefndir og ráð stoðsviða ÍSÍ. Stoðsvið ÍSÍ eru þrjú; Afreks- og Ólympíusvið, Þróunar- og fræðslusvið og Almenningsíþróttasvið. Kjörtímabil þeirra er til tveggja ára, hið sama og framkvæmdastjórnar, nema annað sé sérstaklega ákveðið. Stoðsvið ÍSÍ skulu m.a. hafa yfirumsjón með viðkomandi málaflokkum, vera framkvæmdastjórn til ráðuneytis og sjá um verkefni þeim tengdum. Þær fastanefndir sem skipa skal eru: Stjórn Afrekssjóðs, stjórn Styrktarsjóðs ungs og efnilegs íþróttafólks, Heilbrigðisráð, Lyfjaeftirlitsnefnd, Lyfjaráð, Fjármálaráð, Laganefnd, Heiðursráð, Íþróttamannanefnd og Alþjóðanefnd. Aðrar nefndir eru skipaðar eftir því sem tilefni gefst til að mati framkvæmdastjórnar.

27.11 Tilkynna skal alla dóma um óhlutgengi félagi hins dómfellda og viðkomandi sérsambandi, ef um 17


70. Íþróttaþing ÍSÍ einstakling er að ræða, en hlutaðeigandi samtökum íþróttahreyfingarinnar, ef dómþoli er félag. Breytist og verður þannig: 27.11 Tilkynna skal alla dóma um óhlutgengi félagi hins dómfellda, viðkomandi héraðssambandi/íþróttabandalagi og viðkomandi sérsambandi, ef um einstakling er að ræða, en hlutaðeigandi samtökum íþróttahreyfingarinnar, ef dómþoli er félag.

41.1. Framkvæmdastjórn ÍSÍ skipar 3 menn í Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ til tveggja ára í senn og skal amk. einn þeirra hafa lokið háskólaprófi í læknisfræði eða öðrum lífvísindum. Menntamálaráðuneytinu skal gefinn kostur á að tilnefna einn nefndarmanna. Breytist og verður þannig: 41.1. Framkvæmdastjórn ÍSÍ skipar þrjá menn í Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ til tveggja ára í senn og skal amk. einn þeirra hafa lokið háskólaprófi í læknisfræði eða öðrum lífvísindum. Mennta- og menningarmálaráðuneytinu skal gefinn kostur á að tilnefna einn nefndarmanna.

45.2. Hlutverk héraðssambanda/íþróttabandalaga er: a. Að stjórna sameiginlegum íþróttamálum héraðsins og vera þar fulltrúi ÍSÍ, en sérráð, er stofnuð eru, fara með stjórn sérgreinamála innan héraðsins. b. Að annast samstarf um íþróttamál við sveitar- og bæjarstjórnir og aðra opinbera aðila innan héraðs. c. Að varðveita og skipta milli félaganna því fé, sem til þess hefur verið veitt. d. Að aðstoða við skipulag, undirbúning og framkvæmd íþróttamóta í héraði. e. Að hafa frumkvæði um eflingu íþróttastarfs innan héraðs. f. Að staðfesta lög aðildarfélaga. g. Að fylgjast með því að starfsemi aðildarfélaga fari fram skv. gildandi lögum þeirra og íþróttahreyfingarinnar í heild. Vanræki aðildarfélag að halda aðalfund á tilsettum tíma, skal stjórn héraðssambandsins/íþróttabandalagsins, ef þörf krefur, boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans. Breytist og verður þannig: 45.2. Hlutverk héraðssambanda/íþróttabandalaga er: a. Að stjórna sameiginlegum íþróttamálum héraðsins og vera þar fulltrúi ÍSÍ, en sérráð, er stofnuð eru, fara með stjórn sérgreinamála innan héraðsins. b. Að annast samstarf um íþróttamál við sveitar- og bæjarstjórnir og aðra opinbera aðila innan héraðs. c. Að varðveita og skipta milli félaganna því fé, sem til þess hefur verið veitt í því skyni. d. Að aðstoða við skipulag, undirbúning og framkvæmd íþróttamóta í héraði. e. Að hafa frumkvæði um eflingu íþróttastarfs innan héraðs. f. Að staðfesta lög/lagabreytingar aðildarfélaga og halda utan um staðfest lög félaga. g. Að tilkynna ÍSÍ og viðkomandi sérsambandi um stofnun nýrra félaga og deilda. h. Að fylgjast með því að starfsemi aðildarfélaga fari fram skv. gildandi lögum þeirra og íþróttahreyfingarinnar í heild. Í því skyni skal héraðssamband/íþróttabandalag hafa fullan aðgang að bókhaldi og fylgiskjölum sambandsaðila sinna og ef ástæða þykir til getur stjórn viðkomandi héraðssambands/íþróttabandalags tilnefnt sérstakan endurskoðanda fyrir félagið og fyrirskipað ítarlega rannsókn á fjárreiðum viðkomandi sambandsaðila. Sambandsaðili getur krafist þess að bókhaldsgögn fari eingöngu um hendur löggilts endurskoðanda. i. Vanræki aðildarfélag að halda aðalfund á tilsettum tíma, skal stjórn héraðssambandsins/íþróttabandalagsins, ef þörf krefur, boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans. j. Ársþingi héraðssambands/íþróttabandalags er heimilt, hafi íþróttafélag ekki farið að lögum og/eða fyrirmælum þess, að ákveða að víkja félaginu úr héraðssambandinu/íþróttabandalaginu. k. Ákveði ársþing héraðssambands/íþróttabandalags að víkja félagi úr því er héraðssambandinu/íþróttabandalaginu skylt að tilkynna það til ÍSÍ og viðkomandi sérsambands/sérsambanda.

18


70. Íþróttaþing ÍSÍ 47.1. Sérsamband er samband héraðssambanda/íþróttabandalaga í hlutaðeigandi íþróttagrein, samanber 47.2. gr. Breytist og verður þannig: 47.1. Sérsamband er samband héraðssambanda/íþróttabandalaga í hlutaðeigandi íþróttagrein. Sérsamband hefur heimild til að hafa bein boðskipti við þau félög sem hafa iðkun íþróttagreinar viðkomandi sérsambands á stefnuskrá sinni.

47.2. Hafi aðeins eitt félag innan héraðssambandsins iðkun íþróttagreinar sérsambandsins á stefnuskrá sinni, getur það félag verið aðili að sérsambandinu, ef héraðssambandið samþykkir. Ef fleiri en eitt félag innan héraðssambands hafa iðkun íþróttagreinar sérsambands á stefnuskrá sinni, hefur viðkomandi sérsamband heimild til að hafa bein boðskipti við þau ef hlutaðeigandi héraðssamband samþykkir. Greinin felld út í heild sinni. Allir töluliðir sem á eftir koma í 47. grein breytast til samræmis við það.

48.3. Í lögum sérsambanda skulu vera ákvæði um eftirfarandi: a. Sérsambandsþing séu boðuð með auglýsingu og/eða tilkynningu með eigi minna en eins mánaðar fyrirvara. Fundarboð skal senda héraðssamböndum/íþróttabandalögum. b. Val fulltrúa á sérsambandsþingi miðist við fjölda iðkenda, félaga eða keppenda eða eftir annari aðferð sem viðkomandi sérsamband ákveður, en hvert héraðssamband/íþróttabandalag skal þó a.m.k. eiga rétt á einum fulltrúa. Fundarboð skal senda héraðssamböndum/íþróttabandalögum. c. Dagskrá sérsambandsþings sé ákveðin í lögum. d. Skriflegt fundarboð (síðara fundarboð) með dagskrá og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir sérsambandsþing, skuli senda héraðssamböndum/íþróttabandalögum með eigi minna en tveggja vikna fyrirvara. e. Við afgreiðslu almennra mála og í kosningum ráði einfaldur meirihluti atkvæða viðstaddra atkvæðisbærra fulltrúa, en til lagabreytinga þurfi 2/3 hluta sömu fulltrúa. 60.3. Nefnd þessi skal þannig skipuð, að einn nefndarmanna sé tilnefndur af fráfarandi stjórn, annar sé tilnefndur af menntamálaráðuneyti og sá þriðji sé tilnefndur af Hæstarétti, og sé hann jafnframt formaður. Breytist og verður þannig: 48.3. Í lögum sérsambanda skulu vera ákvæði um eftirfarandi: a. Sérsambandsþing séu boðuð með auglýsingu og/eða tilkynningu með eigi minna en eins mánaðar fyrirvara. Fundarboð skal senda þeim aðilum sem eiga rétt á fulltrúa/fulltrúum á þingið samkvæmt lögum viðkomandi sérsambands. b. Val fulltrúa á sérsambandsþingi miðist við fjölda iðkenda, félaga eða keppenda eða eftir annari aðferð sem viðkomandi sérsamband ákveður og framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkir. Stjórn hvers héraðssambands/íþróttabandalags, sem hefur viðkomandi íþróttagrein innan sinna vébanda, skal þó a.m.k. eiga rétt á einum fulltrúa. c. Dagskrá sérsambandsþings sé ákveðin í lögum. d. Skriflegt fundarboð (síðara fundarboð) með dagskrá og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir sérsambandsþing, skuli senda viðkomandi aðilum með eigi minna en tveggja vikna fyrirvara. e. Við afgreiðslu almennra mála og í kosningum ráði einfaldur meirihluti atkvæða viðstaddra atkvæðisbærra fulltrúa, en til lagabreytinga þurfi 2/3 hluta sömu fulltrúa.

49.1. Skylt er framkvæmdastjórn ÍSÍ að hafa forgöngu um stofnun sérsambands, ef a.m.k. 5 héraðssambönd/íþróttabandalög eða sérráð, þar sem viðkomandi íþróttagrein er stunduð, æskja þess. Breytist og verður þannig: 49.1. Skylt er framkvæmdastjórn ÍSÍ að hafa forgöngu um stofnun sérsambands, ef a.m.k. 5 héraðssambönd/íþróttabandalög, þar sem viðkomandi íþróttagrein er stunduð, æskja þess og iðkendafjöldi í íþróttagreininni sé yfir 250. 19


70. Íþróttaþing ÍSÍ

49.3. Þegar stofnun sérsambands er ákveðin, skal framkvæmdastjórn ÍSÍ tilkynna það öllum héraðssamböndum og viðkomandi sérráðum með fundarboði. Framkvæmdastjórn skal síðan tilkynna sambandsstofnunina öllum þeim, er málið varðar. Eftir það heyra öll sérgreinamál íþróttarinnar undir stjórn sérsambandsins. Fulltrúafjöldi hvers héraðssambands/íþróttabandalags á stofnfundi miðast við iðkendafjölda skv. starfsskýrslum s.l. árs. Breytist og verður þannig: 49.3. Þegar stofnun sérsambands er ákveðin, skal framkvæmdastjórn ÍSÍ tilkynna það öllum héraðssamböndum/íþróttabandalögum og félögum þar sem viðkomandi íþróttagrein er stunduð og boða þessa aðila til stofnþings. Hvert héraðssamband/íþróttabandalag og félag skal eiga kost á einum fulltrúa á stofnþing. Eftir stofnun sérsambandsins heyra öll sérgreinamál íþróttarinnar undir stjórn þess.

50.2.

Sérráðin eru fulltrúar sérsambandsins hvert í sínu héraði.

Greinin felld út í heild sinni.

50.3. Sérráð skal koma fram á sviði íþróttagreinar sinnar gagnvart aðilum utan héraðs í samráði við stjórn héraðssambandsins/íþróttabandalagsins. Greinin felld út í heild sinni.

Ný grein 51.2 Um sérráð skulu héraðssambönd/íþróttabandalög gera starfsreglur sem kynna þarf sérsambandi í viðkomandi íþróttagrein.

Grein 51.2. verður grein 51.3 51.3 Íþróttafélög eða félagsdeildir fá inngöngu í sérráð, ef þau eru í viðkomandi héraðssambandi/íþróttabandalagi. Með inntökubeiðni skal því fylgja vottorð héraðssambandsins/íþróttabandalagsins um aðild umsækjanda að sambandinu. Breytist og verður þannig: 51.3 Íþróttafélög eða félagsdeildir fá inngöngu í sérráð, ef þau eru í viðkomandi héraðssambandi/íþróttabandalagi.

52.1.

Sérráði er stjórnað af: a. Aðalfundi. b. Sérráðsstjórn. Breytist og verður þannig: 52. Sérráði er stjórnað af sérráðsstjórn, sem skipuð er af stjórn viðkomandi héraðssambands/íþróttabandalags eða eftir annari aðferð sem kveðið er á um í starfsreglum viðkomandi sérráðs.

52.2. Lög sérráðs og lagabreytingar, sem gerðar kunna að verða, með árituðu samþykki stjórnar héraðssambandsins, skulu lagðar fyrir hlutaðeigandi sérsamband til staðfestingar. 20


70. Íþróttaþing ÍSÍ

Greinin felld út í heild sinni og grein 52.1 verður því að grein 52.

60.3. Nefnd þessi skal þannig skipuð, að einn nefndarmanna sé tilnefndur af fráfarandi stjórn, annar sé tilnefndur af menntamálaráðuneyti og sá þriðji sé tilnefndur af Hæstarétti, og sé hann jafnframt formaður. Breytist og verður þannig: 60.3. Nefnd þessi skal þannig skipuð, að einn nefndarmanna sé tilnefndur af fráfarandi stjórn, annar sé tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneyti og sá þriðji sé tilnefndur af Hæstarétti, og sé hann jafnframt formaður.

13.Aðrar tillögur lagðar fyrir þingið Tillaga að breytingu á Lögum ÍSÍ um lyfjamál Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ

70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið Gullhömrum í Reykjavík 8. - 9. apríl 2011, samþykkir ný Lög ÍSÍ um lyfjamál í samræmi við kröfur Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar – WADA. Með samþykkt falli eldri Lög ÍSÍ um lyfjamál niður.

Greinargerð: Á 69. Íþróttaþingi ÍSÍ var samþykkt að taka í gildi sérstök lög um lyfjamál þ.e. Lög ÍSÍ um lyfjamál. Í ljósi breyttra krafna hjá Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnuninni (WADA) og ábendinga þar um er nauðsynlegt að uppfæra verulega Lög ÍSÍ um lyfjamál. Samkvæmt Alþjóða lyfjareglunum (World Anti-Doping Code) ber hverjum undirritunaraðila að setja reglur og verklagsreglur til að tryggja að allir íþróttamenn eða aðrir einstaklingar sem lúta valdsviði þeirra og aðildarsamtaka samþykki miðlun persónulegra upplýsinga þeirra eftir þörfum eða heimildum lyfjareglnanna og séu bundnir af og hlíti ákvæðum lyfjareglnanna. Jafnframt að þeir íþróttamenn eða aðrir einstaklingar sem brjóta gegn þessum reglum, sæti viðeigandi refsingum. Þessar sértæku íþróttareglur og verklagsreglur sem ætlað er að framfylgja lyfjareglum á heimsvísu og með samræmdum hætti eru í eðli sínu einstakar og eru því ekki háðar eða takmarkaðar af landsreglum og lagaákvæðum sem gilda um meðferð sakamála eða atvinnumál. Þegar gögn og lagaákvæði í tilteknu máli eru metin, skulu allir dómstólar, gerðadómar og aðrir úrskurðaraðilar þekkja og virða hið sérstaka eðli ákvæða lyfjareglnanna og þá staðreynd að þessar reglur endurspegla samhljóða álit stórs hóps hagsmunaaðila um allan heim með drengilega keppni að leiðarljósi. Helstu breytingar á lögunum snúa að aukinni kröfu um skýringatexta. Í lögin er kominn inngangur þar sem markmiðum laganna og tilgangi lyfjaeftirlits er lýst. Bætt hefur verið við nánari skýringum á einstökum liðum laganna og dæmum um beitingu þeirra. Meðal annarra atriða sem breytast má 21


70. Íþróttaþing ÍSÍ nefna að búið er að skilgreina betur hvert hlutverk og ábyrgð mismunandi aðila er í ferlinu. Nánari lýsing á hvernig hægt er að standa að vali á íþróttamönnum í lyfjapróf. Upplýsingar um meðferð niðurstaðna hafa verið uppfærðar. Sérstakt ákvæði um gagnavernd er komið í lögin. Bætt hefur verið við sérstakri grein um gagnkvæma viðurkenningu. Ítarlegar er lýst hvað teljast opinberar upplýsingar og hvernig fara beri með þær. Sérstök grein er komin um hlutverk og ábyrgð íþróttamanna og annarra þeirra er koma að lyfjaeftirlitsmálaflokknum. Vísað til laganefndar, merkt þingskjal 2.

Tillaga til ályktunar um áfengisauglýsingar Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, skorar á alla sambandsaðila ÍSÍ, að beita sér gegn hvers konar áfengisauglýsingum í tengslum við íþróttastarf sem hvetja til neyslu áfengra drykkja. Greinargerð: Börn og ungmenni eru öðrum fremur berskjölduð fyrir áhrifum auglýsinga. Unglingsárin eru mikilvæg í þroska hvers ungmennis og rannsóknir benda til þess að áfengisauglýsingar geti haft veruleg áhrif á drykkjuhegðun þeirra. Minnt er á þær reglur sem eru í gildi um aldurstakmörk um meðhöndlun áfengis og eru sambandsaðilar ÍSÍ hvattir til að sýna ábyrgð og skynsemi þegar kemur að vali styrktaraðila og/eða auglýsinga í útgáfu á vegum íþróttahreyfingarinnar og í íþróttamannvirkjum. Vísað til allsherjarnefndar, merkt þingskjal 3.

Tillaga um fæðubótarefni Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, hvetur íþróttamenn til að sýna fyllstu aðgætni við notkun fæðubótarefna og minnir á að það er íþróttamaðurinn sjálfur sem ber ábyrgð á því sem hann innbyrðir og kann að innihalda efni af bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar - WADA. Greinargerð: Umræða um fæðubótarefni og notkun þeirra hefur verið áberandi í fjölmiðlum að undanförnu. Virðist sem notkun þeirra hafi færst mjög í vöxt. Þeim sem nota slík efni og taka þátt í keppnisíþróttum er ráðlagt að hafa í huga að sýnt hefur verið fram á að sum fæðubótarefni innihalda efni sem bannað er að nota í íþróttum. Neysla fæðubótarefna felur í sér áhættu fyrir íþróttamenn. Það er alltaf sá sem neytir efnanna sem ber áhættuna af því að bönnuð efni finnist í sýni hans við lyfjaeftirlit. Þó neysla fæðubótarefna geti skýrt niðurstöðu efnagreiningar firrir hún neytandann ekki fullri ábyrgð á þeim og er því engin málsvörn. Vísað til allsherjarnefndar, merkt þingskjal 4.

22


70. Íþróttaþing ÍSÍ

Tillaga um tóbaksnotkun Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, hvetur sambandsaðila til að halda á lofti áróðri gegn allri tóbaksnotkun í tengslum við íþróttastarf. Óásættanlegt er að munntóbak sé notað í tengslum við íþróttastarf af iðkendum, þjálfurum og öðrum þeim sem koma að skipulögðu starfi íþróttahreyfingarinnar. Greinargerð: Í stefnuyfirlýsingu ÍSÍ um forvarnir og fíkniefni kemur skýrt fram að neysla áfengis, tóbaks eða fíkniefna á aldrei samleið með iðkun íþrótta. Það er því keppikefli fyrir íþróttahreyfinguna að vinna með markvissum hætti að forvörnum innan síns vettvangs. Allir sem starfa fyrir íþróttahreyfinguna bera ábyrgð sem fyrirmyndir barna og ungmenna, ekki síst þjálfarar og afreksíþróttafólk. Munntóbak hefur hingað til verið vinsælt meðal ungra karlmanna en á undanförnum árum hafa æ fleiri ungar konur einnig byrjað að nota munntóbak. Rannsóknir sýna að neysla munntóbaks hefst oft vegna hópþrýstings og fyrirmynda. Fram kemur á heimasíðu Lýðheilsustöðvar að: „Allur innflutningur, sala og dreifing á fínkorna munntóbaki er ólöglegur. Innflutningur til eigin nota er ekki undanskilinn þessari reglu.“ Komið hefur fram í rannsóknum að munntóbaksneytendum er hættara við meiðslum en þeim sem ekki nota munntóbak. Meiðsl í vöðvum, liðum, hnjám, liðböndum og sinum og bakeymsli ýmiss konar voru algengari meðal munntóbaksneytenda en þeirra sem ekki notuðu munntóbak eða reyktóbak. Vísað til allsherjarnefndar, merkt þingskjal 5.

Tillaga um umferðaröryggi og íþróttir Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, skorar á sambandsaðila að huga vel að umferðaröryggi íþróttaiðkenda og þá sérstaklega barna og ungmenna, m.a. með því að setja sér vinnureglur um skipulag og framkvæmd ferðalaga á þeirra vegum. Greinargerð: Mikil ferðalög fylgja viðburðum íþróttafélaga, héraðssambanda/sérsambanda í tengslum við keppnishald, æfingar eða æfingabúðir. Þessi ferðalög eiga sér stað á öllum árstímum. Nauðsynlegt er að forráðamenn íþróttafélaga/sérsambanda setji sér reglur um ferðalög á vegum félagsins, þ.e. skipulag og framkvæmd. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur átt fundi með Umferðarstofu um umferðaröryggi og þá sérstaklega í tengslum við íþróttir. ÍSÍ hefur, í samráði við Umferðarstofu, útbúið gátlista fyrir íþróttahreyfinguna varðandi ferðalög á vegum hreyfingarinnar. Sambandsaðilum ÍSÍ er bent á að hafa gátlistann til hliðsjónar við gerð eigin vinnureglna um ferðir í tengslum við starfsemi viðkomandi aðila. Gátlistann er að finna á heimasíðu ÍSÍ, www.isi.is undir liðnum „Efnisveita”. Vísað til allsherjarnefndar, merkt þingskjal 6. 23


70. Íþróttaþing ÍSÍ Tillaga um öryggi barna og ungmenna Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, hvetur sambandsaðila ÍSÍ til að vinna gegn hvers konar áreitni, einelti eða afbrigðilegri hegðan í íþróttahreyfingunni með því að setja sér reglur um gott eftirlit með samskiptum og hegðun í íþróttafélaginu. Greinargerð: Einelti/áreitni getur átt sér stað nánast hvar sem er og hvenær sem er og þar af leiðandi innan íþróttahreyfingarinnar sem og annars staðar. Áhrifaríkasta tækið sem íþróttafélag hefur yfir að ráða gegn einelti eru iðkendurnir sjálfir. Þó að meirihluti þeirra eigi ekki beina aðild að einelti veit þessi hópur oft af einelti löngu áður en hinir fullorðnu fá vitneskju um það. Mikilvægt er að íþróttafélaginu takist að virkja þennan hóp „hlutlausra áhorfenda” til að taka afstöðu gegn einelti í verki og tilkynna til forráðamanna íþróttafélags eða starfsfólks íþróttamannvirkisins ef þeir verða varir og vitni að slíku. Mikilvægt er að trúnaður ríki milli barna og fullorðinna og að nafnleynd sé virt. Æskilegt væri að veita starfsfólki íþróttafélagsins þjálfun í að þekkja einkenni eineltis. Samkvæmt „Viðbragðsáætlun ÍSÍ við óvæntum atburðum“ er lagt til að íþróttafélögin komi sér upp áætlun um hvernig skuli brugðist við ef upp kemst um einelti/áreitni í félaginu. Öllum aðilum þarf að vera ljóst hver hefur með slík mál innan félagsins að gera og hvernig tekið skulu á eineltismálum. Umræða um einelti þarf að ná til starfsfólks íþróttafélagsins, foreldra og einnig til iðkendanna sjálfra sem oftast eru þolendur eða gerendur þegar einelti er annars vegar. Því er mikilvægt að settar séu ákveðnar reglur um samskipti og hegðun í íþróttafélaginu og að viðbragðsáætlun íþróttafélagsins við einelti sé kynnt öllum aðilum, t.d. á heimasíðu íþróttafélagsins. Vísað til allsherjarnefndar, merkt þingskjal 7.

Tillaga um þjálfaramenntun sérsambanda Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, hvetur sambandsaðila ÍSÍ til að efla menntun þjálfara m.a. með auknu námskeiðahaldi í samræmi við samþykkta stefnu ÍSÍ í þjálfaramenntun. Greinargerð: Kröfur um menntun og fagleg störf íþróttaþjálfara eru sífellt að aukast. Stefna ÍSÍ í þjálfaramenntun er skýr og var endurskoðuð fyrir fáeinum árum án breytinga. Hluti sérsambanda ÍSÍ hefur staðið sig vel hvað varðar framboð námskeiða fyrir þjálfara en önnur síður. Það er afar mikilvægt að sambandsaðilar bjóði upp á þjálfaramenntun og auki þar með þekkingu og fagleg vinnubrögð. Vísað til allsherjarnefndar, merkt þingskjal 8.

Tillaga um stefnuyfirlýsingu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í afreksmálum Flutningsaðili: Framkvæmdstjórn ÍSÍ

24


70. Íþróttaþing ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8.- 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, samþykkir eftirfarandi stefnuyfirlýsingu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í afreksmálum. Afreksstefna ÍSÍ Sameiginlegt markmið íþróttahreyfingarinnar er að Íslendingar eigi hverju sinni afreksmenn og afreksflokka í íþróttum er skipi sér á bekk með þeim bestu í heiminum og að stöðugt hækki afreksstig íslenskra íþrótta. Í því felst að efla hæfni og færni þeirra sem að afreksíþróttastarfinu koma og sem með afreksíþróttamanninum vinna, tryggja möguleika afreksíþróttamanna framtíðarinnar til að ná settu marki, stuðla að bættum framfærsluaðstæðum íþróttamannsins, og auka íslenska þjálfunarkunnáttu. Til þess að ná settu marki ber hreyfingunni að setja sér tímabundnar markvissar áætlanir um frammistöðu á stórmótum. Afrekssvið ÍSÍ skal í samvinnu við sérsambönd ÍSÍ og séríþróttanefndir ÍSÍ móta tímasett markmið og kynna þau fyrir hreyfingunni. Til að tryggja slagkraft markmiðanna til langframa ber ásamt því að einblína á keppnisárangur, að styrkja eigin getu og hæfileika hreyfingarinnar til að vinna að langtímamarkmiðum í afreksíþróttum. Sérstaklega ber að leggja aukna áherslu á að efla þjálfunarþekkinguna, bæði innan einstakra íþrótta og þvert á íþróttastarfið; m.a. með því að mynda teymi fagfólks til að auka þekkingu þjálfara. Stefnuyfirlýsing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í afreksmálum skal vera til umfjöllunar á Íþróttaþingi. Skilgreining afreka Framkvæmdastjórn ÍSÍ skal á hverjum tíma skilgreina viðmið afreka í samvinnu við sérsambönd ÍSÍ og tilkynna sambandsaðilum um slík viðmið. Eftirfarandi skilgreiningar skulu vera til hliðsjónar: ða þegar einstaklingur eða flokkur skipar sér með árangri sínum í fremstu röð í heiminum.

markvissri og mikilli þjálfun geta skipað sér á bekk með þeim bestu. Þó yfirstjórn afreksíþróttastarfsins sé hjá heildarsamtökunum verður íþróttahreyfingin að axla sameiginlega ábyrgðina á því að halda úti afreksíþróttastefnu og skiptir þá öllu að ríkur metnaður til starfsins sé fyrir hendi jafnt hjá ÍSÍ, sérsamböndum, íþróttahéruðum og félögum.

25


70. Íþróttaþing ÍSÍ Full ástundun forsenda aðstoðar Öll vinna að því að ná settu marki í afreksíþróttum skal eiga sér stað innan siðferðisgilda íþróttanna. Enn fremur ber að stefna að því að ástundun afreksíþróttamanna sé hluti af lífsmunstri og þau ár sem einstaklingurinn helgar íþróttinni krafta sína komi það ekki niður á þroska einstaklingsins og undirbúningi undir að takast á við lífið að íþróttaferli loknum. Til þess að ná settu marki ber að beita þeim ráðum sem fyrir hendi eru til íþróttagreina og einstaklinga sem sýnt hafa getu til að skipa sér á bekk með þeim bestu. Allir, sem hátt stefna, hafa möguleika á að njóta stuðnings en árangur og geta ræður ferðinni um áframhald og möguleika á stuðningi. Framfarir og full ástundun af hálfu íþróttamanna og sérsambanda er forsenda áframhaldandi aðstoðar. Afrek er uppskera margra ára markvissrar starfsemi og lítil von er um árangur án faglegra vinnubragða og viðunandi starfsumhverfis íþróttamannsins til að þroska hæfileika sína. Leiðarljós afreksstefnu ÍSÍ er að bæta það umhverfi sem afreksíþróttir búa við. Markmið og viðfangsefni í afreksíþróttastarfinu eru m.a.: Markmið/viðfangsefni Að beita sér fyrir aðstöðu til æfinga fyrir afreksíþróttir á vettvangi sveitarfélaga og ríkis. Að ferlamál fatlaðs afreksíþróttafólks séu tekin til skoðunar.

Að stuðla að og miðla niðurstöðum rannsókna á sviði íþrótta- og þjálfunarvísinda til þjálfara, íþróttamanna og annarra er málið varðar. Að stuðla að og efla samráð og upplýsinga-þjónustu á sviði lækna-vísinda íþróttanna/ íþróttaheilsufræði. Að veita hvers kyns ráðgjöf og stuðning er getur orðið til að efla afreksíþróttafólk, bæði meðan á keppni þeirra stendur og að loknum keppnisferli.

Leiðir Að hvert sérsamband skilgreini þá aðstöðu sem nauðsynleg er fyrir afreksíþróttafólk. Þessi skilgreining er kynnt sveitarfélögum og ríki. Að hvetja opinbera aðila til að styrkja landsliðsæfingar og/eða afreksæfingar á vegum sérsambanda. Að efla aðgengi afreksíþrótta að þeim íþróttamannvirkjum sem er til staðar, jafnt fyrir fatlað sem ófatlað afreksíþróttafólk. Að efla samvinnu við háskólastofnanir og þá aðila sem sinna rannsóknum á Íslandi. Fjölga þeim fræðsluviðburðum er miðla niðurstöðum rannsókna á sviði íþrótta- og þjálfunarvísinda. Efla samvinnu við fagfélög er tengjast læknavísindum íþrótta. Miðla upplýsingum um læknavísindi íþrótta, s.s. á heimasíðu ÍSÍ. Að koma á fót Íþróttamannanefnd ÍSÍ. Að efla starfsemi Samtaka íslenskra Ólympíufara.

26

Mæling Opinber skráning á þeim stöðum sem uppfylla kröfur ÍSÍ um aðstöðu til æfinga fyrir afreksíþróttir. Fjármagn opinbera aðila sem fer til æfinga á vegum sérsambanda. Fjöldi tíma sem úthlutað er til sérsambanda vegna æfinga. Upplýsingar um bætt aðgengi afreks-íþróttafólks að íþróttamannvirkjum.

Fjöldi rannsókna er tengjast íþróttum á ári. Fjöldi fræðsluviðburða er miðla niðurstöðum rannsókna.

Fjöldi ritaðra greina er birtast á Íslandi um læknavísindi íþrótta.

Reglubundnar skoðanakannanir meðal afreksíþróttafólks. Fjöldi fræðsluviðburða á vegum SÍÓ og Íþróttamannanefndar.


70. Íþróttaþing ÍSÍ

Markmið/viðfangsefni Að skapa kjöraðstæður fyrir afreksíþróttafólk innan skólakerfis og á almennum vinnumarkaði til að ná árangri samhliða námi og starfi.

Að markaðssetja afreksíþróttirnar í þjóðfélaginu.

Að efla þekkingu þjálfara, dómara og annara sem koma að afreksíþróttastarfi á Íslandi þannig að þeir séu á heimsmælikvarða.

Að veita afreksíþróttafólki/ flokkum fjárhagslegan stuðning.

Leiðir Ná samningum við LÍN um meiri sveigjanleika fyrir afreksíþróttafólk í námi. Að stuðla að bættum réttindum afreksíþróttafólks innan hins opinbera kerfis, s.s. rétt til fæðingarorlofs og fjölda viðverudaga erlendis á ári vegna íþróttaviðburða. Að stuðla að bættu aðgengi afreksíþróttafólks til fjarnáms á mennta- og háskólastigi. Að styðja við þróun Afreksíþróttabrauta í framhaldsskólum. Að skólar viðurkenni fjarveru afreksíþróttafólks vegna landsliðsverkefna. Kynna afreksíþróttir í skólum sem og á vinnustöðum. Stuðla að fjölbreyttari umræðu í fjölmiðlum um afreksíþróttir. Markviss vinna til að kynna mikilvægi afreksíþrótta fyrir almenna íþróttaiðkun á Íslandi. Að auka framboð af fræðsluviðburðum sem höfða til þjálfara, dómara og annarra þátttakanda í afreksíþróttastarfinu. Að veita styrki til þjálfara, dómara og annarra þátttakenda í afreksíþróttastarfi til að sækja sér þekkingu. Að framlög ríkis, sveitarfélaga og styrktaraðila til afreksstarfs aukist.

Mæling Fjöldi afreksíþróttafólks sem er í námi samhliða íþróttaiðkun. Fjöldi afreksíþróttafólks sem getur stundað vinnu samhliða íþróttaiðkun. Sérúrræði í opinberum regluramma varðandi afreksíþróttafólk. Fjöldi afreksfólks í viðurkenndu fjarnámi. Fjöldi framhaldsskóla er bjóða uppá Afreksíþróttabrautir. Staðfest yfirlýsing frá skólum um viðurkenningu fjarveru vegna landsliðsverkefna.

Reglubundin viðhorfskönnun meðal markhópa.

Fjöldi fræðsluviðburða fyrir þjálfara, dómara og annarra í fremstu röð. Fjöldi styrkja sem veittir eru til þjálfara, dómara og annarra á heimsmælikvarða.

Aukning fjármagns til afreksíþrótta í reikningu ???

Fagteymi ÍSÍ og Afrekssjóður ÍSÍ Fagteymi ÍSÍ er teymi fagfólks á sviði þjálffræði, sálfræði og íþróttameiðsla, sem ÍSÍ kemur sér upp (t.d. í samvinnu við menntastofnanir) til að sinna fræðsluverkefnum fyrir sambandið og miðla þekkingu til afreksfólks og þjálfara með námskeiðum ásamt því að vera til staðar þegar á þarf að halda að mati Afrekssviðs ÍSÍ. Með teyminu gefst afreksíþróttamönnum jafnframt tækifæri á að leita eftir aðstoð færustu sérfræðinga sem völ er á t.d. við meiðslum, sálfræðiaðstoð og þjálfunaraðferðum. Um Afrekssjóð ÍSÍ gildir sérstök reglugerð er framkvæmdastjórn ÍSÍ setur. Afrekssjóður ÍSÍ skal standa að uppbyggingu afreksíþrótta á Íslandi með því að styðja íslenskt afreksíþróttafólk og sérsambönd við að ná sem bestum árangri í alþjóðlegri keppni. Forsenda styrkveitinga er að sérsambönd hafi markvissa og raunhæfa afreksstefnu. Stuðningurinn felst í fjárframlögum, bættri menntun þjálfara og ýmiskonar tæknilegri aðstoð. Þannig verður Afrekssjóður ÍSÍ sérsamböndum til aðstoðar við að efla og bæta íþróttastarf sitt. Allar greinar sem viðurkenndar eru af ÍSÍ eiga rétt 27


70. Íþróttaþing ÍSÍ á að sækja um í sjóðinn. Fjárstyrkir Afrekssjóðs ÍSÍ, sem fyrst og fremst skal veita til ákveðinna verkefna, skulu vera fyrirfram skilgreind og kostnaðaráætluð. Er þá t.d. átt við styrki til þátttöku í keppni, æfingabúðum, til ráðningu landsliðsþjálfara hjá minni sérsamböndum, til að bæta umhverfi og aðstöðu „afreksíþróttafólks" og til verkefna er lúta að því að leita uppi íþróttaefni. Styrkir til einstaklinga skulu taka mið af íþróttalegri þörf þeirra og félagslegum aðstæðum. Afrekssjóði ÍSÍ er jafnframt heimilt að styrkja sérfræðinga Fagteymis ÍSÍ til að sækja námskeið um nýjustu aðferðir íþróttavísinda. Greinargerð: Á Íþróttaþingi árið 2009 var samþykkt að stefnuyfirlýsing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í afreksmálum skuli vera til umfjöllunar á Íþróttaþingi. Stjórn afrekssviðs ÍSÍ hefur rætt mikilvægi þess að setja skýrari markmið í stefnu sambandsins með tilliti til árangurs og þátttöku á stórmótum. Jafnframt hefur verið rætt um áherslur í styrkveitingum, misjöfn skilyrði sambandsaðila, aðstæður íþróttamanna og kröfur samfélagsins. Ljóst er að huga þarf að fjölmörgum ytri þáttum í afreksstefnu ÍSÍ og jafnframt að skoða vel þá reynslu sem til er orðin innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi og í löndunum í kringum okkur. Í ofangreindri stefnuyfirlýsingu hafa verið gerðar minniháttar breytingar á orðalagi, setningar færðar til milli málsgreina auk þess sem bætt hefur verið við leiðum að markmiðum stefnunar sem og hvernig hægt er að mæla árangurgagnvart þeim markmiðum sem eru í núverandi stefnuyfirlýsingu ÍSÍ. Jafnframt er sett sú krafa á framkvæmdastjórn ÍSÍ að skilgreina viðmið afreka í samvinnu við sérsambönd ÍSÍ og kynna fyrir sambandsaðilum. Afrekssvið ÍSÍ boðaði fulltrúa sérsambanda ÍSÍ til málþings í mars 2011 og voru þar rædd fjölmörg atriði er tengjast afreksmálum íþróttahreyfingarinnar. Flest þeirra atriða rúmast innan þeirra markmiða og leiða sem talin eru upp hér í stefnunni, en tvö markmið hafa bæst við; ferlamál fatlaðs afreksíþróttafólks og menntun þjálfara, dómara og annarra þátttakenda í afreksíþróttastarfinu. Að loknu málþinginu er ljóst að þörf er á víðtækri umræðu um afreksmál og reglulegu mati á framgangi afreksstefnu ÍSÍ, bæði á vettvangi ÍSÍ sem og sambandsaðila. Með víðtækri umræðu og reglulegu mati á framgangi afreksstefnu ÍSÍ skapast betri skilyrði fyrir Afrekssjóð ÍSÍ og Styrktarsjóð ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna, en rétt er að ítreka að framkvæmdastjórn ÍSÍ setur reglugerðir fyrir þessa sjóði, sem taka m.a. mið af stefnuyfirlýsingu ÍSÍ í afreksmálum. Vísað til allsherjarnefndar, merkt þingskjal 9.

Tillaga um Íslenska getspá og Íslenskar getraunir Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, hvetur sambandsaðila sína til að standa vörð um Íslenskar getraunir og Íslenska getspá. Þá eru sambandsaðilar hvattir til að gera ekki samstarfssamninga við talnafyrirtæki sem ekki hafa starfsleyfi á Íslandi. Greinargerð Sala í leikjum Íslenskrar getspár og Íslenskra getrauna hefur skipt sköpum fyrir starfsemi íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Þýðing þessa fjárframlags til starfsemi íþróttahreyfingarinnar hefur aldrei verið mikilvægari eins og nú, þegar framlög sveitarfélaga, fyrirtækja og ríkisvalds hafa dregist saman sökum kreppunnar. 28


70. Íþróttaþing ÍSÍ Erlend samkeppni er enn til staðar, þrátt fyrir að Alþingi hafi einróma samþykkt að skerpa á lögum nr. 38/2005 sem miða að því að banna auglýsingar erlendra fyrirtækja á þessu sviði. Það vekur sérstaka athygli að enn komast erlendir aðilar upp með að auglýsa, þó í fáum fjölmiðlum, án þess að ríkisvaldið og lögregluyfirvöld hafi brugðist við. Íslenskar getraunir og Íslensk getspá eru fyrirtæki í eigu íþróttahreyfingarinnar og er afkoma þeirra afar mikilvæg fyrir íþróttastarf í landinu. Það er nauðsynlegt að sambandsaðilar standi vörð um þessi fyrirtæki og efli þau til framtíðar. Vísað til allsherjarnefndar og merkt þingskjal 10.

Tillaga um stóraukið framlag ríkisvaldsins til íþróttamála Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. – 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, ítrekar mikilvægi þess að ríkisvaldið styðji með myndarlegum hætti við starf íþróttahreyfingarinnar og standi vörð um starfsemi hennar. Greinargerð: Í áfangaskýrslunni „Íþróttavæðum Ísland” sem var liður í mótun íþróttastefnu á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins árið 2006 kemur eftirfarandi fram: „Íþróttastarf er veigamikill þáttur í íslensku þjóðlífi en íþróttir snerta marga þætti þjóðfélagsins. Íþróttir fléttast inn í menningarstarf, menntun, afþreyingu og ferðamennsku, þær eru atvinnuskapandi og tengjast náið hagkerfi og afkomu byggðarlaga. Þá lækkar regluleg hreyfing heilbrigðiskostnað, eykur framleiðni, ýtir undir betra skólastarf, dregur úr fráveru í starfi, getur minnkað ofbeldi, hvetur til samvinnu og samstöðu og er, sem forvörn, ein hagkvæmasta og áhrifaríkasta leiðin að bættri lýðheilsu. Regluleg hreyfing landsmanna er þar með styrkur fyrir íslenskt þjóðfélag. Íþróttir skipa veglegan sess í lífi margra Íslendinga sem taka þar með þátt í íslensku samfélagi á uppbyggilegan máta. Íþróttir eru mikilvægur liður í félagslegri og persónulegri uppbyggingu og þroska einstaklingsins. Þá gegnir regluleg hreyfing lykilhlutverki í heilbrigði landsmanna þar sem hreyfing stuðlar að aukinni hreysti Íslendinga. Íþróttir auka þar með lífsgæði Íslendinga sem þjóðar en ástundum Íþrótta, sem og annarrar hreyfingar, er ómissandi þáttur í heilsusamlegum lífsstíl og forvörn sem leiðir af sér lengri og heilbrigðari lífsævi, einstaklingum og samfélaginu öllu til góða.” Íþróttahreyfingin er borin uppi af framlögum frá þremur meginstoðum, þ.e. opinberum aðilum, fyrirtækjum og heimilum landsins. Samdráttur er verulegur frá tveimur síðastnefndum stoðum og því nauðsynlegt að hægt sé að treysta á stuðning frá hinu opinbera til að halda úti styrku starfi íþróttahreyfingarinnar. Vísað til fjárhagsnefndar og merkt þingskjal 11.

29


70. Íþróttaþing ÍSÍ Tillaga um stuðning sveitarfélaga við íþróttastarf Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. – 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, hvetur sveitarfélög á Íslandi til að styðja áfram dyggilega við starf íþróttahreyfingarinnar með auknum fjárframlögum til reksturs íþróttafélaga og niðurgreiðslum æfingagjalda barna og unglinga. Greinargerð: Forsvarsmenn sveitarfélaga hafa almennt áttað sig á þýðingu íþróttastarfs og þess mikla forvarnargildis sem íþróttastarfið stendur fyrir. Æskilegt er að íþróttafélögin fái styrkveitingar til reksturs þ.m.t. vegna starfsmannahalds og ráðningar þjálfara. Allmörg sveitarfélög hafa á undanförnum árum tekið upp að greiða niður æfingagjöld barna í íþróttum- og tómstundastarfi með það að markmiði að fleiri börn taki þátt í heilbrigðu íþrótta- og tómstundastarfi. Þessu framtaki ber að fagna en nauðsynlegt er að sveitarfélögin standi vörð um þessi framlög. Vísað til fjárhagsnefndar, merkt þingskjal 12.

Tillaga um stuðning við héraðssambönd og íþróttabandalög Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, hvetur ríkisstjórn Íslands að styðja héraðssambönd og íþróttabandalög með fjárframlögum, líkt og gert hefur verið fyrir sérsambönd ÍSÍ. Slíkur fjárstuðningur myndi skapa grundvöll til ráðningu starfsmanna í héruðum sem án efa myndi leiða til bættrar þjónustu til aðildarfélaga og faglegra íþróttastarfs á landsvísu. Greinargerð: Samkvæmt íþróttalögum er landinu skipt í íþróttahéruð. Í hverju íþróttahéraði skal vera eitt héraðssamband/íþróttabandalag allra íþróttafélaga í héraðinu til að vinna að hinum ýmsu hagsmunamálum þeirra. Samkvæmt grein 45.2. í lögum ÍSÍ er hlutverk héraðssambanda/íþróttabandalaga eftirfarandi: a. Að stjórna sameiginlegum íþróttamálum héraðsins og vera þar fulltrúi ÍSÍ, en sérráð, er stofnuð eru, fara með stjórn sérgreinamála innan héraðsins. b. Að annast samstarf um íþróttamál við sveitar- og bæjarstjórnir og aðra opinbera aðila innan héraðs. c. Að varðveita og skipta milli félaganna því fé, sem til þess hefur verið veitt. d. Að aðstoða við skipulag, undirbúning og framkvæmd íþróttamóta í héraði. e. Að hafa frumkvæði um eflingu íþróttastarfs innan héraðs. f. Að staðfesta lög aðildarfélaga. g. Að fylgjast með því að starfsemi aðildarfélaga fari fram skv. gildandi lögum þeirra og íþróttahreyfingarinnar í heild. Vanræki aðildarfélag að halda aðalfund á tilsettum tíma, skal stjórn héraðssambandsins/íþróttabandalagsins, ef þörf krefur, boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.

30


70. Íþróttaþing ÍSÍ Héraðssambönd og íþróttabandalög ÍSÍ eru 25 talsins og mörg þeirra hafa lítið sem ekkert fjármagn til reksturs skrifstofu. Starf héraðssambanda og íþróttabandalaga hvílir þá á stjórnum viðkomandi sambanda sem starfa án undantekninga sem sjálfboðaliðar. Auknar kröfur eru gerðar til íþróttaforystu á landsvísu, af hálfu sveitarfélaga, foreldra og iðkenda. Það er því nauðsynlegt að tryggja rekstrarumhverfi héraðssambanda og íþróttabandalaga til að þau geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu skv. ofangreindum lista, mætt þessum auknu kröfum, eflst og dafnað. Fjárstuðningur ríkisins til sérsambanda ÍSÍ hefur gjörbreytt rekstrarumhverfi sambandanna og fjárstuðningur til héraðssambanda og íþróttabandalaga myndi skipta sköpum í starfi íþróttahéraða á landsvísu. Vísað til fjárhagsnefndar, merkt þingskjal 13.

Tillaga um Slysabótasjóð íþróttahreyfingarinnar Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, skorar á ríkisvaldið að auka framlag sitt til Slysabótasjóðs íþróttahreyfingarinnar. Greinargerð: Árið 2002 ákvað Tryggingaráð að hætta að nýta undanþáguheimild í 3. mgr. 27.gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar úr slysatryggingum umfram það sem sjúkratryggingar greiða þegar um er að ræða slysatryggingu íþróttafólks, nema ef slysið hefur valdið óvinnufærni í 10 daga eða meira. Forráðamenn ÍSÍ beittu sér fyrir því að þessi stuðningur við íþróttafólk yrði ekki alveg felldur niður og gerðu samkomulag við heilbrigðisráðuneytið um styrk til að koma til móts við kostnað íþróttafólks í kjölfar íþróttaslysa sem valda óvinnufærni í 9 daga eða minna. Hefur ÍSÍ annast umsýslu þessara mála síðan. Allir iðkendur 16 ára og eldri, innan vébanda ÍSÍ, gátu sótt um 80 % endurgreiðslu til ÍSÍ á sjúkrakostnaði, sbr. gildandi reglugerð um sjóðinn allt til ársins 2010. Í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi í október 2008 varð veruleg aukning á fjölda umsókna um endurgreiðslu úr sjóðnum. Einnig hafa orðið umtalsverðar verðhækkanir á hvers konar lækniskostnaði og kostnaði við sjúkraþjálfun. Við uppgjör og endurskoðun á rekstri sjóðsins í byrjun árs 2010 varð ljóst að ekki yrði hægt að reka sjóðinn miðað við óbreytt endurgreiðsluhlutfall. Leitað var til heilbrigðisráðuneytisins með aukið framlag en við því var ekki orðið og var frekari skerðing á framlagi á fjárlögum Alþingis fyrir árið 2011. Sjóðurinn hefur verið rekinn á föstu, árlegu framlagi frá heilbrigðisráðuneytinu. Framlag ráðuneytisins var 20 milljónir á ári frá árinu 2002-2009 en framlagið var skert um 1,2 m.kr. eða í 18,8 m. kr á fjárlögum 2010 og árið 2011 er framlagið 17,8 m.kr. Um mitt síðasta ár, að höfðu samráði við heilbrigðisráðuneytið, samþykkti framkvæmdastjórn ÍSÍ að skerða hlutfall endurgreiðslna úr sjóðnum um helming, eða niður í 40%. Fundað hefur verið með fulltrúum velferðarráðuneytisins og er beðið eftir frekari svörum frá ráðuneytinu um framtíðarfyrirkomulag sjóðsins. Samkvæmt Reglugerð ÍSÍ um greiðslu bóta vegna íþróttaslysa, þá er framkvæmdastjórn ÍSÍ heimilt að hætta endurgreiðslum ef styrktarfé er uppurið eða fresta greiðslum til næsta árs. 31


70. Íþróttaþing ÍSÍ

Vísað til fjárhagsnefndar, merkt þingskjal 14.

Tillaga um Ferðasjóð íþróttafélaga Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. – 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, hvetur ríkisvaldið til að auka framlag sitt í Ferðasjóð íþróttafélaga. Íþróttaþing ÍSÍ felur framkvæmdastjórn ÍSÍ jafnframt að eiga viðræður við ríkisvaldið um að gerður sé samningur um sjóðinn. Greinargerð: Á fundi ríkisstjórnar Íslands í mars 2006 var samþykkt að koma á fót ferðasjóði íþróttafélaga, til að jafna aðstöðumun og efla íþrótta- og forvarnarstarf í samræmi við tillögur nefndar sem menntamálaráðherra fól að fjalla um ferðakostnað íþróttafélaga. Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands var falin umsjón og umsýsla sjóðsins. Ferðasjóður íþróttafélaga er afar mikilvægur fyrir íþróttahreyfinguna í landinu enda mikill kostnaður við að ferðast landshorna á milli til keppni. Útgjöld vegna þessa rekstrarþáttar í starfsemi íþróttafélaga verða sífellt meiri. Það skiptir miklu máli fyrir íþróttahreyfinguna í landinu að fá styrki til að greiða niður ferðakostnað við þátttöku í mótum enda þurfa félög oft að sækja keppni um langan veg. Árið 2007 var framlag ríkisins til sjóðsins 30 m.kr. Árið 2008 var sjóðurinn skertur um 1 m.kr. á fjárlögum og var því 59 m.kr. úthlutað vegna keppnisferða 2008. Árið 2009 var fyrirhugað að framlag ríkisins til sjóðsins yrði hækkað í 90 m.kr., samkvæmt samningi, en þeirri hækkun var frestað. ÍSÍ úthlutaði því 60 m.kr. vegna keppnisferða 2009. Á fjárlögum 2010 var sjóðnum úthlutað 57 m.kr. vegna keppnisferða 2010, sem úthlutað var í febrúar 2011. Samkvæmt fjárlögum 2011 verður framlag í sjóðinn 54,1 m.kr. vegna keppnisferða á árinu 2011. Heildarkostnaður umsókna í sjóðinn vegna keppnisferða á árinu 2010 var tæplega 400 m.kr. og er þá einungis sótt um styrki á fyrirfram skilgreind styrkhæf mót, svo sem Íslandsmót. Þá er ótalinn gisti- og uppihaldskostnaður vegna sömu ferða. Framlag ríkisins til Ferðasjóðs íþróttafélaga fyrir árið 2010 var 57 m.kr. Á fjárlögum 2011 er gert ráð fyrir 54,1 m.kr. til sjóðsins. Vísað til fjárhagsnefndar, merkt þingskjal 15.

Tillaga um ríkisstyrk sérsambanda ÍSÍ Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, skorar á ríkisstjórn Íslands að endurnýja samning um stuðning til sérsambanda ÍSÍ og jafnframt hækka árlegt framlag til að efla megi starfsemi sérsambandanna. Greinargerð: Samkvæmt grein 47.5 í lögum ÍSÍ er hlutverk sérsambanda í meginatriðum eftirfarandi: 32


70. Íþróttaþing ÍSÍ a. Að vinna að stofnun nýrra sérráða og efla á annan hátt viðkomandi sérgrein í landinu. b. Að setja nauðsynlegar reglur, löggilda dómara, ráðstafa landsmótum og staðfesta met. c. Að vera fulltrúi íþróttagreinar sinnar gagnvart útlöndum og sjá um að reglur varðandi greinina séu í samræmi við alþjóðareglur. Allt frá árinu 2006 hefur verið gert ráð fyrir framlagi á fjárlögum Alþingis til sérsambanda ÍSÍ samkvæmt samningi sem ráðuneyti mennta- og menningarmála gerði við ÍSÍ. Fjárframlag ríkisins skiptist á eftirfarandi hátt skv. samningi: Árið 2006 kr. 30,0 m.kr., 2007 40,0 m.kr., 2008 60,0 m.kr. og 2009 70,0 m.kr. Samningurinn rann út í árslok 2009 og hefur ekki verið endurnýjaður vegna óvissu í efnahagsmálum. Engu að síður hefur verið gert ráð fyrir framlagi til sérsambanda ÍSÍ á fjárlögum 2010 (63,7 m.kr) og 2011 (61,8 m.kr.) og er miðað við að unnið sé eftir einstökum greinum samningsins sem var undirritaður 2006. Markmiðið með samningnum var að aðstoða sérsambönd ÍSÍ til að efla og útbreiða viðkomandi íþróttagreinar. Sérsambönd ÍSÍ eru mörg hver lítil og hafa litla möguleika á sjálfsaflafé til reksturs, ekki síst í ljósi þeirra efnahagsþrenginga sem þjóðin býr við í dag. Samstarf við fyrirtæki um fjármögnun er nánast ómöguleg. Til þess að sérsambönd geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu, þarf aukið fjármagn til reksturs þeirra. Áframhaldandi rekstrarstyrkur frá ríkisvaldinu myndi renna styrkum stoðum undir starf sambandanna til framtíðar. Vísað til fjárhagsnefndar, merkt þingskjal 16.

Ályktun um siðareglur íþróttahreyfingarinnar Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, hvetur sambandsaðila sína til að setja sér leiðbeinandi siðareglur. Greinargerð: Á síðasta Íþróttaþingi var samþykkt að skipa vinnuhóp um siðareglur ÍSÍ. Vinnuhópurinn leitaði víða fanga og m.a. voru sambærilegar reglur nágrannaríkja okkar skoðaðar auk IOC, Code of Ethics. Vinnuhópurinn setti saman „Siðareglur ÍSÍ” sem eru óskuldbindandi, leiðbeinandi reglur um hegðun í íþróttahreyfingunni. Sambandsaðilar ÍSÍ eru hvattir til að setja sér sjálfstæðar siðareglur sem byggja á reglum ÍSÍ. Siðareglurnar verða aðgengilegar á heimasíðu ÍSÍ. Vísað til allsherjarnefndar og laganefndar, merkt þingskjal 17.

Tillaga um Afrekssjóð ÍSÍ Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, skorar á Alþingi Íslands að auka verulega framlag ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ. Greinargerð: Afrekssjóður styrkir fyrst og fremst sérsambönd ÍSÍ og afreksíþróttafólk í verkefnum á vegum sérsambanda ÍSÍ, sem í flestum tilfellum eiga sér stað erlendis. Kostnaður vegna afreksíþróttafólks 33


70. Íþróttaþing ÍSÍ er því meira og minna í erlendri mynt. Vegna óhagstæðs gengismunar hafa útgjöld þessara aðila stóraukist og sum sambönd og íþróttamenn hafa þurft að hætta við þátttöku í mótum og keppnum vegna þessa. Framlag ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ fyrir árið 2011 er 24,7 m.kr. Árið 2006 var styrkurinn 30 m.kr. og hafði sú upphæð verið óbreytt árin þar á undan. Flestir kostnaðarliðir sambandsaðila sem styrktir eru með fjármagni úr sjóðnum er erlendur kostnaður. Verðgildi þess styrks hefur rýrnað mjög ef borin eru saman framlög síðustu ára. Þannig var framlag ríkisins árið 2006 í erlendum upphæðum um 480 þús. bandaríkjadalir eða tæplega 400 þús. evrur, en er 2011 sem nemur rúmlega 211 þús. bandaríkjadölum eða tæplega 157 þús. evrum. Ef framlagið til sjóðsins er borið saman við þróun vísitalna og gengis er ljóst að um verulega rýrnun á virði framlaga til sjóðsins er að ræða. Afrekssjóður ÍSÍ er annars fjármagnaður með hlutdeild úr tekjum íþróttahreyfingarinnar frá Íslenskri Getspá samkvæmt ákvörðun Íþróttaþings. Íslenskt afreksíþróttafólk eru mikilvægar fyrirmyndir fyrir íslenska æsku og þjóðfélagið í heild sinni. Þegar vel gengur styðja Íslendingar vel við sína fremstu íþróttamenn en þegar á móti blæs er stutt í gagnrýnisraddir. Úthlutun Afrekssjóðs fyrir árið 2011 tekur mið af því að um er að ræða árið fyrir Sumarólympíuleikar. Sjóðurinn hefur fulla trú á að styrkþegar geti unnið sér inn þátttökurétt á leikunum og þannig skipa sér í röð meðal þeirra bestu í heimi í sinni íþróttagrein. Til framtíðar er mikilvægt að hlúa enn betur að þessu fólki með því að gefa því tækifæri á að taka þátt í verðugum verkefnum og styðja við bakið á því með fræðslu og faglegri þekkingu. Vísað til fjárhagsnefndar, merkt þingskjal 18.

Tillaga um fjárhagsáætlun 2011-2012 Flutningsaðili: framkvæmdastjórn ÍSÍ FJÁRHAGSÁÆTLUN 2011 – 2012 Tekjur:

Rauntölur 2010

1. Framlag Alþingis 108.800.000 2. Íslensk Getspá 17.591.136 3. Ósóttir vinningar 5.000.000 4. Íslenskar Getraunir 7.700.000 5. Styrkir IOC/EOC 15.873.857 6. Aðrar tekjur 3.347.768 7. Fjarmagnstekjur 323.562 Frestuð tekjufærsla vegna ólympískra verkefna -6.000.000 Samtals: 152.636.323 Gjöld: Rauntölur 2010 8. Skrifstofukostnaður 54.832.342 9. Þing og fundir innanlands og 7.328.192 kostnaður stjórnar 10. Þing og fundir erlendis 3.598.044 11. Framlag vegna fundaraðstöðu 865.740 12. Kostnaður vegna stoðsviða og 16.473.965 nefnda 13. Smáþjóðaleikar 834.378 14. Ólympíudagar Æskunnar 1.544.294 15. Íþróttaleg samskipti-10.816.671 Ólympíufjölskyldan 16. Annar kostnaður 7.465.703 17. Verkefnasjóður 2.000.000 18. Íþróttamiðstöð Laugardal 10.043.812 19. Lyfjaeftirlit 12.804.554 20. Tölvukerfi 13.977.393 íþróttahreyfingarinnar-Felix 21. Ólympíuleikar 8.242.294

Áætlun 2011

Áætlun 2012

109.300.000 16.230.000 5.000.000 4.900.000 16.800.000 14.000.000 8.000.000

127.000.000 16.500.000 5.000.000 4.900.000 16.000.000 14.000.000 8.000.000 6.000.000

34

180.230.000 Áætlun 2011 64.700.000 7.000.000

191.400.000 Áætlun 2012 68.000.000 8.000.000

4.000.000 1.000.000 14.000.000

4.000.000 1.000.000 14.000.000

19.300.000 6.650.000 -4.500.000

0 1.000.000 0

7.000.000 2.000.000 8.000.000 12.000.000 6.000.000

7.000.000 3.000.000 10.000.000 12.000.000 10.000.000

7.000.000

21.000.000


70. Íþróttaþing ÍSÍ 22. Ólympíuleikar ungmenna 23. Íþróttaþing 24. Sjóður ungra og efnilegra 25. Afmæli ÍSÍ - 100 ára Fyrningar

5.724.967 737.809 12.000.000 3.250.000

Samtals: Hagnaður/(tap)

151.611.876 1.024.447

2.000.000 6.000.000 12.000.000 6.000.000

5.000.000 0 12.000.000 15.000.000

705.060 180.150.000 80.000

191.000.000 400.000

Vísað til fjárhagsnefndar, merkt þingskjal 19.

Ályktun frá KSÍ. 70. Íþróttaþing ÍSÍ mótmælir þeirri fyrirætlan mennta- og menningarmálaráðherra að setja lista yfir íþróttaviðburði sem ber að sýna í opinni útsendingu í sjónvarpi. Þjóðnýting útsendingarréttinda á íþróttaviðburðum sem skipulagðir eru af sérsamböndum ÍSÍ er skerðing á frelsi þeira til að afla tekna til starfsemi sinnar. Greinargerð: Rekstur sérsambanda ÍSÍ byggir að mestu leyti á sjálfsaflafé, þau njóta lítilla sem engra styrkja frá stjórnvöldum. Tekjur af útsendingarrétti í sjónvarpi frá íþróttaviðburðum geta skipt sköpum í rekstri sérsambanda ÍSÍ. Það er vitanlega í þágu íþróttanna að sem flestir njóti útsendinga frá viðburðum þeim tengdum en það eitt og sér má ekki verða til þess að skerða möguleika sérsambanda til að afla sér tekna. Þingforseti leitaði samþykktar þingheims til að vísa þessari ályktun inn í allsherjarnefnd. Samþykkt samhljóða. Vísað til allsherjarnefndar, merkt þingskjal 20. Þingforseti las einnig bókun frá Valdimar Leó um lottótekjur. Bókun Valdimars Leós Ársþing ÍSÍ fagnar afdráttarlausri yfirlýsingu mennta- og menningarmálaráðherra um að fyrirkomulag lottós verði óbreytt í framtíðinni. Hann óskaði eftir samþykkt þingheims til að fá að vísa bókuninni til allsherjarnefndar. Samþykkt samhljóða. Vísað til allsherjarnefndar, merkt þingskjal 21. Þingforseti gaf Herði Gunnarssyni nýkjörnum heiðursfélaga ÍSÍ orðið.

35


70. Íþróttaþing ÍSÍ Hörður þakkaði fyrir þann heiður sem honum var sýndur með veitingu viðurkenningarinnar og sagðist taka við henni af auðmýkt. Hann benti jafnframt á að þrátt fyrir að hann hefði verið viðloðandi glímuíþróttina í 63 ár þá tæki hann þessa viðurkenningu ekki sem tilmæli um það að hann ætti að draga sig í hlé. Hann nefndi að skýrsla framkvæmdastjórnar væri góð en lengi mætti gott bæta og benti í því sambandi á ársskýrslu Glímusambands Íslands sem taka mætti til fyrirmyndar. Vel skrifaðar skýrslur væru mikilvægar heimildir fyrir söguna. Þingforseti gaf Herði Oddfríðarsyni orðið. Hörður Oddfríðarson kom í pontu og kom með tillögu um breytingar við lög svo að laganefnd fengi einhverjar tillögur til umfjöllunar. Þingskjal nr. 22. Grein 11.2. Breytingin/viðbótin verður: Við lok hvers Íþróttaþings skal ákveðin dagsetning næsta Íþróttaþings. Grein 17.1 b breytist og verði svo (breyting skáletruð): 11 menn kosnir á Íþróttaþingi til fjögurra ára í senn, auk þeirra þrír varamenn kjörnir til tveggja ára í senn. 1. Forseti kjörinn til fjögurra ára á næsta íþróttaþingi eftir sumarólympíuleika 2. 5 meðstjórnendur kjörnir til fjögurra ára á hverju Íþróttaþingi, skal hver þingfulltrúi kjósa 5 frambjóðendur til að atkvæði teljist gilt. 3. 3 varamenn til tveggja ára, skal hver þingfulltrúi kjósa 3 frambjóðendur til að atkvæði teljist gilt. Hörður fór fram á það við þingið að þessum breytingum á lögum yrði hleypt inn til laganefndar til umræðu. Þingforseti þakkaði Herði Oddfríðarsyni fyrir, sagðist koma þessu til laganefndar þingsins en tók það jafnframt fram að um væri að ræða breytingartillögu við þegar fram komið þingskjal. Þingforseti gerði hlé á þingi kl. 19.50 og sagði nefndarstörf hefjast í Laugardalnum um kl. 20.30. Hann tók það fram að það yrðu veitingar í Laugardalnum í tengslum við nefndarstörfin og ítrekaði svo að framboðskynningar til framkvæmdastjórnar og varastjórnar yrðu við upphaf seinni þingdags.

Seinni þingdagur. 14.Framboð til framkvæmdastjórnar Þingforseti hóf þing aftur kl. 10.05. Hann bað Reyni Ragnarsson formann kjörstjórnar um að koma í pontu og stýra kynningu frambjóðenda til framkvæmdastjórnar og varastjórnar.

36


70. Íþróttaþing ÍSÍ Reynir sagði öll framboð lögleg. Reynir sagðist eitt framboð hafa borist til forseta ÍSÍ, frá Ólafi E. Rafnssyni. Hann sagði ellefu framboð hafa borist um 10 sæti í framkvæmdastjórn ÍSÍ. Hann minnti á þá hefð sem skapast hefði á undangengnum þingum þess efnis að þeir sem ekki fengju kjör inn í framkvæmdastjórnar ættu þess kost að bjóða sig fram til kjörs varastjórn. Reynir las upp í stafsrófsröð nöfn þeirra sem voru í framboði til framkvæmdastjórnar. Friðrik Einarsson Gunnar Bragason Gústaf Adolf Hjaltason Hafsteinn Pálsson Helga St. Guðmundsdóttir Helga H. Magnúsdóttir Ingibjörg Bergrós Jóhannesdóttir Jón Gestur Viggósson Lárus Blöndal Sigríður Jónsdóttir Örn Andrésson Í varastjórn bárust eftirfarandi framboð. Garðar Svansson Guðmundur Ágúst Ingvarsson Gunnlaugur Júlíusson Hann greindi frá því að dregið hefði verið um í hvaða röð frambjóðendur kæmu upp til að kynna sig. Allir frambjóðendur sem voru í kjöri til framkvæmdastjórnar kynntu sig og sínar áherslur. Þingforseti þakkaði frambjóðendum kynninguna og bauð Snorra Ólsen að koma í pontu og kynna niðurstöður laganefndar.

15.Þingnefndir gera grein fyrir störfum sínum. Snorri Olsen gat þess að laganefnd hefði fjallað um þingskjal 17 og ekki gert neinar athugasemdir við þá tillögu. Sú tillaga kæmi samt ekki til afgreiðslu fyrr en allsherjarnefnd hefði fjallað um hana einnig. Snorri gat um skjöl sem ættu að vera á borðum þingfulltrúa varðandi breytingar sem urðu á þingskjölum í meðferð nefndar. Hann benti fulltrúum einnig á að þeir þyrftu að hafa skjölin með upprunalegu tillögunum frá því daginn áður við hendina líka til að átta sig á breytingunum.

37


70. Íþróttaþing ÍSÍ Þingskjal 1 Tillaga um breytingar á lögum ÍSÍ Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ

5.2.a Félagið hafi iðkun íþrótta á stefnuskrá sinni.

Breytist og verður þannig: 5.2.a Félagið hafi iðkun íþróttar sem samþykkt hefur verið af framkvæmdastjórn ÍSÍ á stefnuskrá sinni. Kom óbreytt frá nefnd. Samþykkt með öllum atkvæðum gegn einu. 5.4. Hafi félagið á stefnuskrá sinni iðkun íþróttar, sem hefur ekki áður verið stunduð innan aðildarfélags ÍSÍ skal viðkomandi héraðssamband/íþróttabandalag vísa umsókninni til ákvörðunar framkvæmdastjórnar ÍSÍ. Breytist og verður þannig: 5.4. Hafi félagið á stefnuskrá sinni iðkun íþróttar, sem ekki hefur verið samþykkt af framkvæmdastjórn ÍSÍ, þá skal viðkomandi héraðssamband/íþróttabandalag vísa umsókninni til ákvörðunar framkvæmdastjórnar ÍSÍ. Íþróttafélag innan vébanda ÍSÍ er óheimilt að stunda aðrar íþróttir en þær sem samþykktar hafa verið af framkvæmdastjórn ÍSÍ og/eða IOC. Nefndin lagði til að tillagan verði felld. Samþykkt með öllum atkvæðum gegn einu.

5.5. Héraðssamband/íþróttabandalag skal tilkynna ÍSÍ aðild nýs félags um leið og hún hefur verið samþykkt. Breytist og verður þannig: 5.5 Hafi félagið á stefnuskrá sinni fleiri en eina íþróttagrein er félaginu heimilt að stofna deild um hverja þeirra, samanber lög viðkomandi félags. Stofnun deilda skal tilkynna til viðkomandi héraðssambands-/íþróttabandalags og viðkomandi sérsambands. Aðalstjórn félags fer með æðsta vald í félaginu milli aðalfunda og ber ábyrgð á starfi og fjárhag félagsins í heild. Kom breytt frá nefnd. Samþykkt með öllum atkvæðum gegn einu. 11.3. Eigi síðar en 2 vikum fyrir íþróttaþing skal senda aðilum dagskrá þingsins, reikninga, fjárhagsáætlun, tillögur sem borist hafa ásamt þeim tillögum sem framkvæmdastjórn hyggst leggja 38


70. Íþróttaþing ÍSÍ fyrir þingið. Breytist og verður þannig: 11.3. Eigi síðar en 2 vikum fyrir íþróttaþing skal senda aðilum dagskrá þingsins, reikninga, fjárhagsáætlun, tillögur sem borist hafa ásamt þeim tillögum sem framkvæmdastjórn hyggst leggja fyrir þingið. Framlagning gagna fyrir og á Íþróttaþingi má vera á rafrænu formi, verði því við komið. Kom breytt frá nefnd Samþykkt með öllum atkvæðum gegn þremur.

12.7. Við afgreiðslu á málum er tengjast Ólympíuleikum, Smáþjóðaleikum, Ólympíudögum Evrópuæskunnar og Ólympíusamhjálpinni gilda aðeins atkvæði ólympísku sérsambandanna, enda hafi meirihluti ólympískra sérsambanda samþykkt það. Breytist og verður þannig: 12.7 Við afgreiðslu á málum er tengjast Ólympíuleikum, Ólympíuleikum ungmenna, Smáþjóðaleikum, Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar og Ólympíusamhjálpinni gilda aðeins atkvæði ólympísku sérsambandanna, enda hafi meirihluti ólympískra sérsambanda samþykkt það. Óbreytt frá nefnd. Samþykkt samhljóða.

19.1. Í upphafi starfstíma síns skipar framkvæmdastjórn fastanefndir og stjórnir stoðsviða ÍSÍ. Stoðsvið ÍSÍ eru þrjú; Afrekssvið, Fræðslusvið og Almenningsíþróttasvið. Kjörtímabil þeirra er til tveggja ára, hið sama og framkvæmdastjórnar, nema annað sé sérstaklega ákveðið. Stoðsvið ÍSÍ skulu m.a. hafa yfirumsjón með viðkomandi málaflokkum, vera framkvæmdastjórn til ráðuneytis og sjá um verkefni þeim tengdum. Þær fastanefndir sem skipa skal eru: Stjórn Afrekssjóðs, stjórn Styrktarsjóðs ungs og efnilegs íþróttafólks, Heilbrigðisráð, Lyfjaeftirlitsnefnd, Lyfjaráð, Fjármálaráð, Laganefnd og Alþjóðanefnd. Aðrar nefndir eru skipaðar eftir því sem tilefni gefst til að mati framkvæmdastjórnar. Breytist og verður þannig: 19.1. Í upphafi starfstíma síns skipar framkvæmdastjórn fastanefndir og ráð stoðsviða ÍSÍ. Stoðsvið ÍSÍ eru þrjú; Afreks- og Ólympíusvið, Þróunar- og fræðslusvið og Almenningsíþróttasvið. Kjörtímabil þeirra er til tveggja ára, hið sama og framkvæmdastjórnar, nema annað sé sérstaklega ákveðið. Stoðsvið ÍSÍ skulu m.a. hafa yfirumsjón með viðkomandi málaflokkum, vera framkvæmdastjórn til ráðuneytis og sjá um verkefni þeim tengdum. Þær fastanefndir sem skipa skal eru: Stjórn Afrekssjóðs, stjórn Styrktarsjóðs ungs og efnilegs íþróttafólks, Heilbrigðisráð, Lyfjaeftirlitsnefnd, Lyfjaráð, Fjármálaráð, Laganefnd, Heiðursráð, Íþróttamannanefnd og Alþjóðanefnd. Aðrar nefndir eru skipaðar eftir því sem tilefni gefst til að 39


70. Íþróttaþing ÍSÍ mati framkvæmdastjórnar. Óbreytt frá nefnd. Samþykkt samhljóða.

27.11 Tilkynna skal alla dóma um óhlutgengi félagi hins dómfellda og viðkomandi sérsambandi, ef um einstakling er að ræða, en hlutaðeigandi samtökum íþróttahreyfingarinnar, ef dómþoli er félag. Breytist og verður þannig: 27.11 Tilkynna skal alla dóma um óhlutgengi félagi hins dómfellda, viðkomandi héraðssambandi/íþróttabandalagi og viðkomandi sérsambandi, ef um einstakling er að ræða, en hlutaðeigandi samtökum íþróttahreyfingarinnar, ef dómþoli er félag. Kom óbreytt frá nefnd. Samþykkt samhljóða.

41.1. Framkvæmdastjórn ÍSÍ skipar 3 menn í Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ til tveggja ára í senn og skal amk. einn þeirra hafa lokið háskólaprófi í læknisfræði eða öðrum lífvísindum. Menntamálaráðuneytinu skal gefinn kostur á að tilnefna einn nefndarmanna. Breytist og verður þannig: 41.1. Framkvæmdastjórn ÍSÍ skipar þrjá menn í Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ til tveggja ára í senn og skal amk. einn þeirra hafa lokið háskólaprófi í læknisfræði eða öðrum lífvísindum. Ráðuneyti íþróttamála skal gefinn kostur á að tilnefna einn nefndarmanna. Kom breytt úr nefnd. Samþykkt samhljóða.

45.2. Hlutverk héraðssambanda/íþróttabandalaga er: a. Að stjórna sameiginlegum íþróttamálum héraðsins og vera þar fulltrúi ÍSÍ, en sérráð, er stofnuð eru, fara með stjórn sérgreinamála innan héraðsins. b. Að annast samstarf um íþróttamál við sveitar- og bæjarstjórnir og aðra opinbera aðila innan héraðs. c. Að varðveita og skipta milli félaganna því fé, sem til þess hefur verið veitt. d. Að aðstoða við skipulag, undirbúning og framkvæmd íþróttamóta í héraði. e. Að hafa frumkvæði um eflingu íþróttastarfs innan héraðs. f. Að staðfesta lög aðildarfélaga. g. Að fylgjast með því að starfsemi aðildarfélaga fari fram skv. gildandi lögum þeirra og íþróttahreyfingarinnar í heild. Vanræki aðildarfélag að halda aðalfund á tilsettum tíma, skal stjórn héraðssambandsins/íþróttabandalagsins, ef þörf krefur, boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans. 40


70. Íþróttaþing ÍSÍ Breytist og verður þannig: 45.2. Hlutverk héraðssambanda/íþróttabandalaga er: a. Að stjórna sameiginlegum íþróttamálum héraðsins og vera þar fulltrúi ÍSÍ, en sérráð, er stofnuð eru, fara með stjórn sérgreinamála innan héraðsins. b. Að annast samstarf um íþróttamál við sveitar- og bæjarstjórnir og aðra opinbera aðila innan héraðs. c. Að varðveita og skipta milli félaganna því fé, sem til þess hefur verið veitt í því skyni. d. Að aðstoða við skipulag, undirbúning og framkvæmd íþróttamóta í héraði. e. Að hafa frumkvæði um eflingu íþróttastarfs innan héraðs. f. Að staðfesta lög/lagabreytingar aðildarfélaga og halda utan um staðfest lög félaga. g. Að tilkynna ÍSÍ og viðkomandi sérsambandi um stofnun nýrra félaga og deilda. h. Að fylgjast með því að starfsemi aðildarfélaga fari fram skv. gildandi lögum þeirra og íþróttahreyfingarinnar í heild. Í því skyni skal héraðssamband/íþróttabandalag hafa fullan aðgang að bókhaldi og fylgiskjölum aðildarfélaga/sérráða sinna og ef ástæða þykir til getur stjórn viðkomandi héraðssambands/íþróttabandalags tilnefnt sérstakan skoðunarmann reikninga fyrir félagið og fyrirskipað ítarlega rannsókn á fjárreiðum viðkomandi aðildarfélags/sérráðs. Aðildarfélag/sérráð getur krafist þess að bókhaldsgögn fari eingöngu um hendur löggilts endurskoðanda. Nýr liður: 45.3 Vanræki aðildarfélag að halda aðalfund á tilsettum tíma, skal stjórn héraðssambandsins/íþróttabandalagsins, ef þörf krefur, boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans. Ársþingi héraðssambands/íþróttabandalags er heimilt, hafi íþróttafélag ekki farið að lögum og/eða fyrirmælum þess, að ákveða að víkja félaginu úr héraðssambandinu/íþróttabandalaginu. c. Ákveði ársþing héraðssambands/íþróttabandalags að víkja félagi úr því er héraðssambandinu/íþróttabandalaginu skylt að tilkynna það til ÍSÍ og viðkomandi sérsambands/sérsambanda. Kom breytt frá nefnd. Samþykkt samhljóða.

47.1. Sérsamband er samband héraðssambanda/íþróttabandalaga í hlutaðeigandi íþróttagrein, samanber 47.2. gr. Breytist og verður þannig: 47.1. Sérsamband er samband héraðssambanda/íþróttabandalaga í hlutaðeigandi íþróttagrein. Sérsamband hefur heimild til að hafa bein boðskipti við þau félög sem hafa iðkun íþróttagreinar viðkomandi sérsambands á stefnuskrá sinni. Óbreytt frá nefnd. Samþykkt samhljóða.

47.2. Hafi aðeins eitt félag innan héraðssambandsins iðkun íþróttagreinar sérsambandsins á stefnuskrá sinni, getur það félag verið aðili að sérsambandinu, ef héraðssambandið samþykkir. Ef 41


70. Íþróttaþing ÍSÍ fleiri en eitt félag innan héraðssambands hafa iðkun íþróttagreinar sérsambands á stefnuskrá sinni, hefur viðkomandi sérsamband heimild til að hafa bein boðskipti við þau ef hlutaðeigandi héraðssamband samþykkir. Greinin felld út í heild sinni. Allir töluliðir sem á eftir koma í 47. grein breytast til samræmis við það. Óbreytt frá nefnd. Samþykkt samhljóða.

48.3. Í lögum sérsambanda skulu vera ákvæði um eftirfarandi: a. Sérsambandsþing séu boðuð með auglýsingu og/eða tilkynningu með eigi minna en eins mánaðar fyrirvara. Fundarboð skal senda héraðssamböndum/íþróttabandalögum. b. Val fulltrúa á sérsambandsþingi miðist við fjölda iðkenda, félaga eða keppenda eða eftir annari aðferð sem viðkomandi sérsamband ákveður, en hvert héraðssamband/íþróttabandalag skal þó a.m.k. eiga rétt á einum fulltrúa. Fundarboð skal senda héraðssamböndum/íþróttabandalögum. c. Dagskrá sérsambandsþings sé ákveðin í lögum. d. Skriflegt fundarboð (síðara fundarboð) með dagskrá og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir sérsambandsþing, skuli senda héraðssamböndum/íþróttabandalögum með eigi minna en tveggja vikna fyrirvara. e. Við afgreiðslu almennra mála og í kosningum ráði einfaldur meirihluti atkvæða viðstaddra atkvæðisbærra fulltrúa, en til lagabreytinga þurfi 2/3 hluta sömu fulltrúa. Breytist og verður þannig: 48.3. Í lögum sérsambanda skulu vera ákvæði um eftirfarandi: a. Sérsambandsþing séu boðuð með auglýsingu og/eða tilkynningu með eigi minna en eins mánaðar fyrirvara. Fundarboð skal senda þeim aðilum sem eiga rétt á fulltrúa/fulltrúum á þingið samkvæmt lögum viðkomandi sérsambands. b. Val fulltrúa á sérsambandsþingi miðist við fjölda iðkenda, félaga eða keppenda eða eftir annari aðferð sem viðkomandi sérsamband ákveður og framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkir. Stjórn hvers héraðssambands/íþróttabandalags, sem hefur viðkomandi íþróttagrein innan sinna vébanda, skal þó a.m.k. eiga rétt á einum fulltrúa. c. Dagskrá sérsambandsþings sé ákveðin í lögum. d. Skriflegt fundarboð (síðara fundarboð) með dagskrá og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir sérsambandsþing, skuli senda viðkomandi aðilum með eigi minna en tveggja vikna fyrirvara. e. Við afgreiðslu almennra mála og í kosningum ráði einfaldur meirihluti atkvæða viðstaddra atkvæðisbærra fulltrúa, en til lagabreytinga þurfi 2/3 hluta sömu fulltrúa. Óbreytt frá nefnd. Samþykkt samhljóða. 49.1. Skylt er framkvæmdastjórn ÍSÍ að hafa forgöngu um stofnun sérsambands, ef a.m.k. fimm héraðssambönd/íþróttabandalög eða sérráð, þar sem viðkomandi íþróttagrein er stunduð, æskja þess. 42


70. Íþróttaþing ÍSÍ Breytist og verður þannig: 49.1. Skylt er framkvæmdastjórn ÍSÍ að hafa forgöngu um stofnun sérsambands, ef a.m.k. fimm héraðssambönd/íþróttabandalög, þar sem viðkomandi íþróttagrein er stunduð, æskja þess og iðkendafjöldi í íþróttagreininni er yfir 250. Breytt frá nefnd. Samþykkt með öllum atkvæðum gegn tveimur.

49.3. Þegar stofnun sérsambands er ákveðin, skal framkvæmdastjórn ÍSÍ tilkynna það öllum héraðssamböndum og viðkomandi sérráðum með fundarboði. Framkvæmdastjórn skal síðan tilkynna sambandsstofnunina öllum þeim, er málið varðar. Eftir það heyra öll sérgreinamál íþróttarinnar undir stjórn sérsambandsins. Fulltrúafjöldi hvers héraðssambands/íþróttabandalags á stofnfundi miðast við iðkendafjölda skv. starfsskýrslum s.l. árs. Breytist og verður þannig: 49.3. Þegar stofnun sérsambands er ákveðin, skal framkvæmdastjórn ÍSÍ tilkynna það öllum héraðssamböndum/íþróttabandalögum og félögum þar sem viðkomandi íþróttagrein er stunduð og boða þessa aðila til stofnþings. Hvert héraðssamband/íþróttabandalag og hvert félag skal eiga kost á einum fulltrúa á stofnþingi. Eftir stofnun sérsambandsins heyra öll sérgreinamál íþróttarinnar undir stjórn þess. Breytt frá nefnd. Samþykkt samhljóða.

50.2. Sérráðin eru fulltrúar sérsambandsins hvert í sínu héraði. Greinin felld út í heild sinni. Óbreytt frá nefnd. Samþykkt samhljóða 50.3. Sérráð skal koma fram á sviði íþróttagreinar sinnar gagnvart aðilum utan héraðs í samráði við stjórn héraðssambandsins/íþróttabandalagsins. Greinin felld út í heild sinni. Breytt frá nefnd, þó ekki efnislega. Samþykkt samhljóða. Ný grein 51.2 Héraðssambönd/íþróttabandalög skulu setja starfsreglur um sérráð sem kynna þarf sérsambandi í viðkomandi íþróttagrein. 43


70. Íþróttaþing ÍSÍ

Óbreytt frá nefnd. Samþykkt samhljóða. Grein 51.2. verður grein 51.3 51.3 Íþróttafélög eða félagsdeildir fá inngöngu í sérráð, ef þau eru í viðkomandi héraðssambandi/íþróttabandalagi. Með inntökubeiðni skal því fylgja vottorð héraðssambandsins/íþróttabandalagsins um aðild umsækjanda að sambandinu. Breytist og verður þannig: 51.3 Íþróttafélög eða félagsdeildir fá inngöngu í sérráð, ef þau eru í viðkomandi héraðssambandi/íþróttabandalagi. Óbreytt frá nefnd. Samþykkt samhljóða. 52.1. Sérráði er stjórnað af: a. Aðalfundi. b. Sérráðsstjórn. Breytist og verður þannig: 52.1. Sérráði er stjórnað af sérráðsstjórn, sem skipuð er af stjórn viðkomandi héraðssambands/íþróttabandalags eða eftir annarri aðferð sem kveðið er á um í starfsreglum viðkomandi sérráðs. Óbreytt frá nefnd. Samþykkt samhljóða.

52.2. Lög sérráðs og lagabreytingar, sem gerðar kunna að verða, með árituðu samþykki stjórnar héraðssambandsins, skulu lagðar fyrir hlutaðeigandi sérsamband til staðfestingar. Greinin felld út í heild sinni og grein 52.1 verður því að grein 52. Óbreytt frá nefnd. Samþykkt samhljóða. 60.3. Nefnd þessi skal þannig skipuð, að einn nefndarmanna sé tilnefndur af fráfarandi stjórn, annar sé tilnefndur af menntamálaráðuneyti og sá þriðji sé tilnefndur af Hæstarétti, og sé hann jafnframt formaður. Breytist og verður þannig:

44


70. Íþróttaþing ÍSÍ 60.3. Nefnd þessi skal þannig skipuð, að einn nefndarmanna sé tilnefndur af fráfarandi stjórn, annar sé tilnefndur af ráðuneyti íþróttamála og sá þriðji sé tilnefndur af Hæstarétti, og sé hann jafnframt formaður. Breytt úr nefnd, ekki efnislega. Samþykkt samhljóða. Snorri gat um tillögu sem með einhverju hætti hefði verið vísað til laganefndar og nefndin því fjallað um hana. Um var að ræða tillögu Harðar Oddfríðarsonar þar sem Hörður lagði til breytingu á lagagrein 11.2 og 17.1.b. Niðurstaða laganefndar var sú að vísa þessari tillögu til framkvæmdastjórnar ÍSÍ. Laganefnd ákvað að taka tillöguna að öðru leyti ekki til efnislegrar umfjöllunar. Þingforseti bað formann kjörbréfanefndar, Frímann Ara Ferdinandsson að koma í pontu. Frímann Ari gerði grein fyrir fjölda mættra þingfulltrúa en hann leiðrétti fyrst tölur frá fyrri degi þingsins. 85 af 94 fulltrúum voru mættir frá héraðssamböndum/ Íþróttabandalögum og 73 af 94 fulltrúum frá sérsamböndum. Þingforseti bað um heimild þingheims til að fá að opna fyrir umræður um lagabreytingar í heild sinni. Samþykkt samhljóða. Hörður Oddfríðarson kom í pontu og sagðist ekki skilja hræðslu laganefndar við að taka á málum og hafa álit. Hörður taldi sig hafa farið mjög rækilega í gegnum lög ÍSÍ og þingsköp og sagðist ekki sjá annað en verið væri að brjóta á rétti hans. Hann sagði að tillagan sem hann hefði lagt fram á fyrri þingdegi hefði vera meðhöndluð sem eitthvert aukaplagg og að laganefnd hefði þar með talið sig geta komist hjá því að fjalla um hana efnislega. Hörður óskaði eftir því að tillagan yrði lögð fram og bað þingforseta um að leita eftir samþykki þingsins til þess að tillagan kæmi til afgreiðslu. Hann benti einnig á það að lagagreinar 11.3, 11.4, 12.7, 13.1, 14.4 og 62 í lögum ÍSÍ segi til um það hvernig fara eigi með lagabreytingar og mál sem koma til þings. Hörður segir að lagagreinarnir segi vissulega að málum eigi að skila fyrir ákveðinn tíma fyrir Íþróttaþing en síðan sé þessi möguleiki gefinn að tekin séu upp mál með samþykki þingsins. Hörður sagði það hafa verið gert í tveimur tilfellum á fyrri þingdegi og sagðist því ósáttur við meðferð tillögu hans. Hörður gat þess einnig að ekkert stæði í lögunum um að lagabreytingar væru undanþegnar frá þeim málum sem mætti bera upp á þingi með þessum hætti. Hörður sagði það meginreglu að 2/3 þingfulltrúa geti veitt heimild til upptöku mála á Íþróttaþingi, hvort þau séu rædd eða tekin til afgreiðslu. Að öðru leyti sagðist Hörður ánægður með störf laganefndar. Snorri Olsen formaður laganefndar kom í pontu og sagði að laganefnd hefði alls ekki óttast það að taka þessa tillögu til umræðu en að það hefði verið mjög gott ef sá sem bar tillöguna upp hefði komið í laganefnd og fylgst þar með umræðum því að umræðan var á þá leið að laganefnd taldi þessar breytingar að svo stöddu ekki vera skynsamlegar. Snorri taldi rétt að hafa það í huga að þegar rætt væri um lög ÍSÍ þá væru skýr ákvæði um það hvað þingið mætti gera varðandi tillögur lögum tengdum og hvernig tillögur þyrftu að berast fyrir þing. Hann sagði að tilgangur laganna mætti ekki gleymast og benti á það að ástæða þess að tillögur þyrftu að berast tímanlega fyrir þing væri sú að gefa sambandsaðilum kost á því að sjá hvað tekið yrði fyrir á þinginu. Snorri nefndi það sem dæmi að það gæti m.a. haft áhrif á mætingu þegar þingfulltrúar hefðu um það upplýsingar tímanlega að gera ætti róttækar lagabreytingar sem gætu haft í för með sér 45


70. Íþróttaþing ÍSÍ grundvallarbreytingu á starfi hreyfingarinnar. Snorri taldi það að hans mati mjög hættulegt ef þingfulltrúar gætu komið fram með tillögu að lagabreytingu sem jafnvel breytti ekki nema einu orði í lögum ÍSÍ sem hugsanlega opnaði á það að á Íþróttaþingi gætu menn breytt hverju sem væri í lögunum, án þess að það hafi auglýst eða kynnt. Á þessum forsendum taldi laganefnd rétt að tillagan fengi meiri umfjöllun, að framkvæmdastjórn ÍSÍ fengi tillöguna til skoðunar og umræðu og að ef vilji væri fyrir hendi til breytinga þá yrði það kynnt á formannafundi ÍSÍ. Snorri sagði það skoðun sína að svona breytingar ætti ekki að gera á hlaupum að kvöldi til eða á laugardagsmorgni.

Fleiri kvöddu sér ekki hljóðs um lagabreytingatillögur.

Þingforseti bauð Snorra Ólsen að koma í pontu vegna breytinga á lögum um lyfjamál. Snorri kom og útskýrði málin, sagði frá störfum laganefndar m.t.t. þessa, sagði málið mjög sérhæft og tæknilegt og sagði nefndina hafa farið yfir tillöguna aðallega m.t.t. málfars og uppsetningar. Snorri sagði að nefndin hefði gert breytingar á orðinu eignarhald í orðið varsla í greinum 2.6.1 og 2.6.2. Einnig hefði þessu orði verið breytt þar sem um væri að ræða skilgreiningar á þessum lagabálk. Snorri sagði að laganefnd hefði einnig lagfært númeraröð í grein 7.1.1 og 7.1.2. af því að þar hefðu númer fallið niður. Einnig hefði nefndin lagfært tvítekið númer í grein 14.5 og bætt við númeragreiningu á grein 18.2. Laganefnd taldi eðlilegt að þessi lagabálkur verði ræddur í heild sinni og borinn upp sem slíkur. Þingforseti leitaði samþykkis þingsins til að fá að bera lögin um lyfjamál upp í heild sinni. Samþykkt samhljóða.

16. Kosning forseta ÍSÍ Þingforseti bað Reyni Ragnarsson formann kjörnefndar um að koma í pontu og gera grein fyrir kosningu forseta ÍSÍ. Reynir sagði einn aðila í framboði til forseta ÍSÍ, Ólaf E. Rafnsson. Þingfulltrúar stóðu strax upp og klöppuðu Ólafi lof í lófa. Reynir lýsti Ólaf E. Rafnsson rétt kjörinn forseta ÍSÍ til tveggja ára með öllum greiddum atkvæðum. Þingforseti óskaði Ólafi E. Rafnssyni til hamingju með kjörið. Þingforseti bar upp lögin um lyfjamál, þau voru samþykkt samhljóða. Þingforseti las upp tillögu Harðar J. Oddfríðarsonar um meðhöndlun framkvæmdastjórnar á greinum 11.2 og 17.1 þar sem stjórnin ynni að breytingum fram að næsta Íþróttaþingi. Greinar 11.2 og 17.1b eins og Hörður vildi breyta þeim: 11.2 breytist og hljóði svo (breyting skáletruð) Íþróttaþing skal haldið annað hvert ár, á tímabilinu 1. Mars til 1. Júní. Við lok hvers íþróttaþings skal ákveðin dagsetning næsta íþróttaþings. Skal þingið auglýst með þriggja mánaða fyrirvara og ítrekað síðar. 46


70. Íþróttaþing ÍSÍ Framkvæmdastjórn ákveður fundarstað. Kjör eða tilnefning fulltrúa til setu á íþróttaþingi fer sérstaklega fram fyrir hvert þing. 17.1 b breytist og hljóði svo (breyting skáletruð) 11 menn kosnir á íþróttaþingi til fjögurra ára í senn, auk þeirra eru þrír varamenn kjörnir til tveggja ára. 1. Forseti kjörin til fjögurra ára á næsta íþróttaþingi eftir sumarólympíuleika 2. 5 meðstjórnendur kjörnir til fjögurra ára á hverju íþróttaþingi, skal hver þingfulltrúi kjósa 5 frambjóðendur til að atkvæði teljist gilt. 3. 3 varamenn til tveggja ára, skal hver þingfulltrúi kjósa 3 frambjóðendur til að atkvæði teljist gilt.

Tillaga Harðar Oddfríðarsonar um vísan ofangreindra tillagna til framkvæmdastjórnar ÍSÍ: 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8.-9. apríl að Gullhömrum í Reykjavík samþykkir að ofangreindum tillögum verði vísað til framkvæmdastjórnar ÍSÍ. Framkvæmdastjórn vinnur að tillögu um lagabreytingar til að leggja fyrir næsta Íþróttaþing. Framkvæmdastjórn skal leitast við að lagabreytingin taki gildi strax á næsta þingi. Í vinnu sinni skal framkvæmdastjórn m.a. ráðfæra sig við formannafund ÍSÍ. Samþykkt með meginþorra atkvæða að taka tillögu til afgreiðslu. Tillagan frá Herði svo samþykkt með meginþorra atkvæða.

Niðurstaða umræðu allsherjarnefndar Þingforseti bauð Herði Þorsteinssyni í pontu til að gera grein fyrir störfum allsherjarnefndar. Hörður fór yfir tillögurnar. Þingskjal 3, áfengisauglýsingar, töluverð umræða innan nefndar. Breytt tillaga.

Tillaga til ályktunar um áfengisauglýsingar 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, skorar á alla sambandsaðila ÍSÍ, að beita sér gegn hvers konar áfengisauglýsingum í tengslum við íþróttastarf sem hvetja til neyslu áfengra drykkja. Jafnframt hvetur Íþróttaþing sambandsaðila ÍSÍ til að beita sér gegn áfengisnotkun í tengslum við skipulagt íþróttastarf. Greinargerð: Börn og ungmenni eru öðrum fremur berskjölduð fyrir áhrifum auglýsinga. Unglingsárin eru mikilvæg í þroska hvers ungmennis og rannsóknir benda til þess að áfengisauglýsingar geti haft veruleg áhrif á drykkjuhegðun þeirra. Minnt er á þær reglur sem eru í gildi um aldurstakmörk um meðhöndlun áfengis og eru sambandsaðilar ÍSÍ hvattir til að sýna ábyrgð og skynsemi þegar kemur að vali styrktaraðila og/eða auglýsinga í útgáfu á vegum íþróttahreyfingarinnar og í íþróttamannvirkjum. 47


70. Íþróttaþing ÍSÍ Þingskjal 4, fæðubótarefni, óbreytt úr nefnd.

TILLAGA TIL ÁLYKTUNAR UM FÆÐUBÓTAREFNI 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, hvetur íþróttamenn til að sýna fyllstu aðgætni við notkun fæðubótarefna og minnir á að það er íþróttamaðurinn sjálfur sem ber ábyrgð á því sem hann innbyrðir og kann að innihalda efni af bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar - WADA.

Greinargerð: Umræða um fæðubótarefni og notkun þeirra hefur verið áberandi í fjölmiðlum að undanförnu. Virðist sem notkun þeirra hafi færst mjög í vöxt. Þeim sem nota slík efni og taka þátt í keppnisíþróttum er ráðlagt að hafa í huga að sýnt hefur verið fram á að sum fæðubótarefni innihalda efni sem bannað er að nota í íþróttum. Neysla fæðubótarefna felur í sér áhættu fyrir íþróttamenn. Það er alltaf sá sem neytir efnanna sem ber áhættuna af því að bönnuð efni finnist í sýni hans við lyfjaeftirlit. Þó neysla fæðubótarefna geti skýrt niðurstöðu efnagreiningar firrir hún neytandann ekki fullri ábyrgð á þeim og er því engin málsvörn.

Þingskjal 5, tóbak, breytt úr nefnd.

Tillaga um tóbaksnotkun Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, hvetur sambandsaðila til að halda á lofti áróðri og beita sér af alefli gegn allri tóbaksnotkun og annarri notkun fíkniefna í tengslum við íþróttaiðkun. Óásættanlegt er að fíkniefni hverju nafni sem þau nefnast séu notuð í tengslum við íþróttaiðkun af iðkendum, þjálfurum og öðrum þeim sem koma að skipulögðu starfi íþróttahreyfingarinnar. Íþróttaþing minnir á að starfsmenn íþróttahreyfingarinnar gegna mikilvægu fyrirmyndarhlutverki innan hreyfingar sem utan. Í stefnuyfirlýsingu ÍSÍ um forvarnir og fíkniefni kemur skýrt fram að neysla áfengis, tóbaks eða annarra fíkniefna á aldrei samleið með iðkun íþrótta.

Greinargerð: Það er því keppikefli fyrir íþróttahreyfinguna að vinna með markvissum hætti að forvörnum innan síns vettvangs. Allir sem starfa fyrir íþróttahreyfinguna bera ábyrgð sem fyrirmyndir barna og ungmenna, ekki síst þjálfarar og afreksíþróttafólk. Munntóbak hefur hingað til verið vinsælt meðal ungra karlmanna en á undanförnum árum hafa æ fleiri ungar konur einnig byrjað að nota munntóbak. Rannsóknir sýna að neysla munntóbaks hefst oft vegna hópþrýstings og fyrirmynda. Fram kemur á heimasíðu Lýðheilsustöðvar að: „Allur innflutningur, sala og dreifing á fínkorna munntóbaki er ólöglegur. Innflutningur til eigin nota er ekki undanskilinn þessari reglu.“ Komið hefur fram í rannsóknum að munntóbaksneytendum er hættara við meiðslum en þeim sem ekki nota munntóbak. Meiðsl í vöðvum, liðum, hnjám, liðböndum og sinum og bakeymsli ýmiss 48


70. Íþróttaþing ÍSÍ konar voru algengari meðal munntóbaksneytenda en þeirra sem ekki notuðu munntóbak eða reyktóbak. Þingskjal 6, umferðaröryggi og íþróttir. Breytt úr nefnd.

Tillaga um umferðaröryggi og íþróttir Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, skorar á sambandsaðila að huga vel að umferðaröryggi íþróttaiðkenda og þá sérstaklega barna og ungmenna, m.a. með því að setja sér vinnureglur um skipulag og framkvæmd ferðalaga á þeirra vegum. Jafnframt skorar Íþróttaþing ÍSÍ á skipulagsyfirvöld sveitarfélaga að huga að öryggi gangandi og hjólandi fólks í umhverfi íþróttamannvirkja. Greinargerð: Mikil ferðalög fylgja viðburðum íþróttafélaga, héraðssambanda/sérsambanda í tengslum við keppnishald, æfingar eða æfingabúðir. Þessi ferðalög eiga sér stað á öllum árstímum. Nauðsynlegt er að forráðamenn íþróttafélaga/sérsambanda setji sér reglur um ferðalög á vegum félagsins, þ.e. skipulag og framkvæmd. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur átt fundi með Umferðarstofu um umferðaröryggi og þá sérstaklega í tengslum við íþróttir. ÍSÍ hefur, í samráði við Umferðarstofu, útbúið gátlista fyrir íþróttahreyfinguna varðandi ferðalög á vegum hreyfingarinnar. Sambandsaðilum ÍSÍ er bent á að hafa gátlistann til hliðsjónar við gerð eigin vinnureglna um ferðir í tengslum við starfsemi viðkomandi aðila. Gátlistann er að finna á heimasíðu ÍSÍ, www.isi.is undir liðnum „Efnisveita”. Skorað er á skipulagsyfirvöld sveitarfélaga að huga að öryggi fólks í umhverfi eldri íþróttamannvirkja jafnt sem nýbygginga, og að tryggja að gangandi og hjólandi fólk eigi hættulaust aðgengi að íþróttamannvirkjum. Þingskjal 7, öryggi barna og ungmenna, smávægileg breyting.

Tillaga um öryggi barna og ungmenna Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, hvetur sambandsaðila ÍSÍ til að vinna gegn hvers konar áreitni, einelti eða afbrigðilegri hegðan í íþróttahreyfingunni með því að setja sér reglur um eftirlit með samskiptum og hegðun í íþróttafélaginu. Greinargerð: Einelti/áreitni getur átt sér stað nánast hvar sem er og hvenær sem er og þar af leiðandi innan íþróttahreyfingarinnar sem og annars staðar. Áhrifaríkasta tækið sem íþróttafélag hefur yfir að ráða gegn einelti eru iðkendurnir sjálfir. Þó að meirihluti þeirra eigi ekki beina aðild að einelti veit þessi hópur oft af einelti löngu áður en hinir fullorðnu fá vitneskju um það. Mikilvægt er að íþróttafélaginu takist að virkja þennan hóp „hlutlausra áhorfenda” til að taka afstöðu gegn einelti í verki og tilkynna til forráðamanna íþróttafélags eða starfsfólks íþróttamannvirkisins ef þeir verða varir og vitni að slíku. Mikilvægt er 49


70. Íþróttaþing ÍSÍ að trúnaður ríki milli barna og fullorðinna og að nafnleynd sé virt. Æskilegt væri að veita starfsfólki íþróttafélagsins þjálfun í að þekkja einkenni eineltis. Samkvæmt „Viðbragðsáætlun ÍSÍ við óvæntum atburðum“ er lagt til að íþróttafélögin komi sér upp áætlun um hvernig skuli brugðist við ef upp kemst um einelti/áreitni í félaginu. Öllum aðilum þarf að vera ljóst hver hefur með slík mál innan félagsins að gera og hvernig tekið skulu á eineltismálum. Umræða um einelti þarf að ná til starfsfólks íþróttafélagsins, foreldra og einnig til iðkendanna sjálfra sem oftast eru þolendur eða gerendur þegar einelti er annars vegar. Því er mikilvægt að settar séu ákveðnar reglur um samskipti og hegðun í íþróttafélaginu og að viðbragðsáætlun íþróttafélagsins við einelti sé kynnt öllum aðilum, t.d. á heimasíðu íþróttafélagsins.

Þingskjal 8, tillaga um þjálfaramenntun, viðbót frá nefnd.

Tillaga um þjálfaramenntun sérsambanda Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ

70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, hvetur sambandsaðila ÍSÍ til að efla menntun þjálfara m.a. með auknu námskeiðahaldi í samræmi við samþykkta stefnu ÍSÍ í þjálfaramenntun, svo og með samræmingu og samstarfi við menntastofnanir. Greinargerð: Kröfur um menntun og fagleg störf íþróttaþjálfara eru sífellt að aukast. Stefna ÍSÍ í þjálfaramenntun er skýr og var endurskoðuð fyrir fáeinum árum án breytinga. Hluti sérsambanda ÍSÍ hefur staðið sig vel hvað varðar framboð námskeiða fyrir þjálfara en önnur síður. Það er afar mikilvægt að sambandsaðilar bjóði upp á þjálfaramenntun og auki þar með þekkingu og fagleg störf íþróttaþjálfara.

Þingskjal 9, afreksmál, breytt frá nefnd. Viðbót.

Tillaga um stefnuyfirlýsingu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í afreksmálum Flutningsaðili: Framkvæmdstjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8.- 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, samþykkir eftirfarandi stefnuyfirlýsingu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í afreksmálum, en hvetur framkvæmdastjórn ÍSÍ til að halda áfram að móta skýrar áherslur og forgangsröðun í afreksstarfi.

Afreksstefna ÍSÍ Sameiginlegt markmið íþróttahreyfingarinnar er að Íslendingar eigi hverju sinni afreksmenn og afreksflokka í íþróttum er skipi sér á bekk með þeim bestu í heiminum og að stöðugt hækki afreksstig íslenskra íþrótta. Í því felst að efla hæfni og færni þeirra sem að afreksíþróttastarfinu koma og sem með afreksíþróttamanninum vinna, tryggja möguleika afreksíþróttamanna framtíðarinnar til að ná settu marki, stuðla að bættum framfærsluaðstæðum íþróttamannsins, og auka íslenska þjálfunarkunnáttu.

50


70. Íþróttaþing ÍSÍ Til þess að ná settu marki ber hreyfingunni að setja sér tímabundnar markvissar áætlanir um frammistöðu á stórmótum. Afrekssvið ÍSÍ skal í samvinnu við sérsambönd ÍSÍ og séríþróttanefndir ÍSÍ móta tímasett markmið og kynna þau fyrir hreyfingunni. Til að tryggja slagkraft markmiðanna til langframa ber ásamt því að einblína á keppnisárangur, að styrkja eigin getu og hæfileika hreyfingarinnar til að vinna að langtímamarkmiðum í afreksíþróttum. Sérstaklega ber að leggja aukna áherslu á að efla þjálfunarþekkinguna, bæði innan einstakra íþrótta og þvert á íþróttastarfið; m.a. með því að mynda teymi fagfólks til að auka þekkingu þjálfara. Stefnuyfirlýsing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í afreksmálum skal vera til umfjöllunar á Íþróttaþingi.

Skilgreining afreka Framkvæmdastjórn ÍSÍ skal á hverjum tíma skilgreina viðmið afreka í samvinnu við sérsambönd ÍSÍ og tilkynna sambandsaðilum um slík viðmið. Eftirfarandi skilgreiningar skulu vera til hliðsjónar: 

Um framúrskarandi íþróttamann eða flokk er þá fyrst að ræða þegar einstaklingur eða flokkur skipar sér með árangri sínum í fremstu röð í heiminum.

Afreksmaður er hver sá íþróttamaður/flokkur sem stenst ákveðna viðmiðun í viðkomandi grein.

Afreksefni teljast þeir íþróttamenn/flokkar sem ekki hafa náð jafn langt en taldir eru með markvissri og mikilli þjálfun geta skipað sér á bekk með þeim bestu.

Þó yfirstjórn afreksíþróttastarfsins sé hjá heildarsamtökunum verður íþróttahreyfingin að axla sameiginlega ábyrgðina á því að halda úti afreksíþróttastefnu og skiptir þá öllu að ríkur metnaður til starfsins sé fyrir hendi jafnt hjá ÍSÍ, sérsamböndum, íþróttahéruðum og félögum.

Full ástundun forsenda aðstoðar Öll vinna að því að ná settu marki í afreksíþróttum skal eiga sér stað innan siðferðisgilda íþróttanna. Enn fremur ber að stefna að því að ástundun afreksíþróttamanna sé hluti af lífsmunstri og þau ár sem einstaklingurinn helgar íþróttinni krafta sína komi það ekki niður á þroska einstaklingsins og undirbúningi undir að takast á við lífið að íþróttaferli loknum. Til þess að ná settu marki ber að beita þeim ráðum sem fyrir hendi eru til íþróttagreina og einstaklinga sem sýnt hafa getu til að skipa sér á bekk með þeim bestu. Allir, sem hátt stefna, hafa möguleika á að njóta stuðnings en árangur og geta ræður ferðinni um áframhald og möguleika á stuðningi. Framfarir og full ástundun af hálfu íþróttamanna og sérsambanda er forsenda áframhaldandi aðstoðar. Afrek er uppskera margra ára markvissrar starfsemi og lítil von er um árangur án faglegra vinnubragða og viðunandi starfsumhverfis íþróttamannsins til að þroska hæfileika sína. Leiðarljós afreksstefnu ÍSÍ er að bæta það umhverfi sem afreksíþróttir búa við. Markmið og viðfangsefni í afreksíþróttastarfinu eru m.a.: Markmið/viðfangsefni Að beita sér fyrir aðstöðu til æfinga fyrir afreksíþróttir á vettvangi sveitarfélaga og ríkis. Að ferlamál fatlaðs

Leiðir Að hvert sérsamband skilgreini þá aðstöðu sem nauðsynleg er fyrir afreksíþróttafólk. Þessi skilgreining er kynnt sveitarfélögum og ríki. Að hvetja opinbera aðila til að styrkja landsliðsæfingar og/eða afreksæfingar á 51

Mæling Opinber skráning á þeim stöðum sem uppfylla kröfur ÍSÍ um aðstöðu til æfinga fyrir afreksíþróttir. Fjármagn opinbera aðila sem fer til æfinga á vegum sérsambanda.


70. Íþróttaþing ÍSÍ afreksíþróttafólks séu tekin til skoðunar.

Að stuðla að og miðla niðurstöðum rannsókna á sviði íþrótta- og þjálfunarvísinda til þjálfara, íþróttamanna og annarra er málið varðar. Að stuðla að og efla samráð og upplýsingaþjónustu á sviði læknavísinda íþróttanna/ íþróttaheilsufræði. Að veita hvers kyns ráðgjöf og stuðning er getur orðið til að efla afreksíþróttafólk, bæði meðan á keppni þeirra stendur og að loknum keppnisferli.

vegum sérsambanda.

Fjöldi tíma sem úthlutað er til sérsambanda vegna æfinga.

Að efla aðgengi afreksíþrótta að þeim íþróttamannvirkjum sem er til staðar, jafnt fyrir fatlað sem ófatlað afreksíþróttafólk. Að efla samvinnu við háskólastofnanir og þá aðila sem sinna rannsóknum á Íslandi.

Upplýsingar um bætt aðgengi afreksíþróttafólks að íþróttamannvirkjum. Fjöldi rannsókna er tengjast íþróttum á ári.

Fjölga þeim fræðsluviðburðum er miðla niðurstöðum rannsókna á sviði íþrótta- og þjálfunarvísinda.

Fjöldi fræðsluviðburða er miðla niðurstöðum rannsókna.

Efla samvinnu við fagfélög er tengjast læknavísindum íþrótta.

Fjöldi ritaðra greina er birtast á Íslandi um læknavísindi íþrótta.

Miðla upplýsingum um læknavísindi íþrótta, s.s. á heimasíðu ÍSÍ. Að koma á fót Íþróttamannanefnd ÍSÍ. Að efla starfsemi Samtaka íslenskra Ólympíufara. Að stuðla að því að Afreksíþróttamiðstöð verði til.

52

Reglubundnar skoðanakannanir meðal afreksíþróttafólks. Fjöldi fræðsluviðburða á vegum SÍÓ og Íþróttamannanefndar. Reglubundnar mælingar og meðferðir afreksíþróttafólks.


70. Íþróttaþing ÍSÍ Markmið/viðfangsefni Að skapa kjöraðstæður fyrir afreksíþróttafólk innan skólakerfis og á almennum vinnumarkaði til að ná árangri samhliða námi og starfi.

Leiðir Ná samningum við LÍN um meiri sveigjanleika fyrir afreksíþróttafólk í námi.

Mæling Fjöldi afreksíþróttafólks sem er í námi samhliða íþróttaiðkun.

Að stuðla að bættum réttindum afreksíþróttafólks innan hins opinbera kerfis, s.s. rétt til fæðingarorlofs og fjölda viðverudaga erlendis á ári vegna íþróttaviðburða.

Fjöldi afreksíþróttafólks sem getur stundað vinnu samhliða íþróttaiðkun.

Að stuðla að bættu aðgengi afreksíþróttafólks til fjarnáms á mennta- og háskólastigi.

Fjöldi afreksfólks í viðurkenndu fjarnámi.

Að styðja við þróun Afreksíþróttabrauta í framhaldsskólum.

Að markaðssetja afreksíþróttirnar í þjóðfélaginu.

Að skólar viðurkenni fjarveru afreksíþróttafólks vegna landsliðsverkefna. Kynna afreksíþróttir í skólum sem og á vinnustöðum.

Sérúrræði í opinberum regluramma varðandi afreksíþróttafólk.

Fjöldi framhaldsskóla er bjóða uppá Afreksíþróttabrautir. Staðfest yfirlýsing frá skólum um viðurkenningu fjarveru vegna landsliðsverkefna. Reglubundin viðhorfskönnun meðal markhópa.

Stuðla að fjölbreyttari umræðu í fjölmiðlum um afreksíþróttir.

Að efla þekkingu þjálfara, dómara og annara sem koma að afreksíþróttastarfi á Íslandi þannig að þeir séu á heimsmælikvarða. Að veita afreksíþróttafólki/ flokkum fjárhagslegan stuðning.

Markviss vinna til að kynna mikilvægi afreksíþrótta fyrir almenna íþróttaiðkun á Íslandi. Að auka framboð af fræðsluviðburðum sem höfða til þjálfara, dómara og annarra þátttakanda í afreksíþróttastarfinu. Að veita styrki til þjálfara, dómara og annarra þátttakanda í afreksíþróttastarfi til að sækja sér framhaldsþekkingar. Að framlög ríkis, sveitarfélaga og styrktaraðila til afreksstarfs aukist.

Fjöldi fræðsluviðburða fyrir þjálfara, dómara og annarra í fremstu röð. Fjöldi styrkja sem veittir eru til þjálfara, dómara og annara á heimsmælikvarða.

Aukning fjármagns til afreksíþrótta í reikningum Íþróttahreyfingarinnar.

Fagteymi ÍSÍ og Afrekssjóður ÍSÍ Fagteymi ÍSÍ er teymi fagfólks á sviði þjálffræði, sálfræði og íþróttameiðsla, sem ÍSÍ kemur sér upp (t.d. í samvinnu við menntastofnanir) til að sinna fræðsluverkefnum fyrir sambandið og miðla þekkingu til afreksfólks og þjálfara með námskeiðum ásamt því að vera til staðar þegar á þarf að halda að mati Afrekssviðs ÍSÍ. Með teyminu gefst afreksíþróttamönnum jafnframt tækifæri á að leita eftir aðstoð færustu sérfræðinga sem völ er á t.d. við meiðslum, sálfræðiaðstoð og þjálfunaraðferðum. Um Afrekssjóð ÍSÍ gildir sérstök reglugerð er framkvæmdastjórn ÍSÍ setur. Afrekssjóður ÍSÍ skal standa að uppbyggingu afreksíþrótta á Íslandi með því að styðja íslenskt afreksíþróttafólk og sérsambönd við að ná sem bestum árangri í alþjóðlegri keppni. Forsenda styrkveitinga er að sérsambönd hafi markvissa og raunhæfa afreksstefnu. Stuðningurinn felst í fjárframlögum, bættri menntun þjálfara og ýmiskonar tæknilegri aðstoð. Þannig verður Afrekssjóður ÍSÍ sérsamböndum til aðstoðar við að efla og bæta íþróttastarf sitt. Allar greinar sem viðurkenndar eru af ÍSÍ eiga rétt á að sækja um í sjóðinn. Fjárstyrkir Afrekssjóðs ÍSÍ, sem fyrst og fremst skal veita til ákveðinna verkefna, skulu vera fyrirfram skilgreind og kostnaðaráætluð. Er þá t.d. átt við styrki til þátttöku í keppni, æfingabúðum, til ráðningar landsliðsþjálfara hjá minni sérsamböndum, til að bæta umhverfi og aðstöðu „afreksíþróttafólks" og til verkefna er lúta að því 53


70. Íþróttaþing ÍSÍ að leita uppi íþróttaefni. Styrkir til einstaklinga skulu taka mið af íþróttalegri þörf þeirra og félagslegum aðstæðum. Afrekssjóði ÍSÍ er jafnframt heimilt að styrkja sérfræðinga Fagteymis ÍSÍ til að sækja námskeið um nýjustu aðferðir íþróttavísinda.

Greinargerð: Á Íþróttaþingi árið 2009 var samþykkt að stefnuyfirlýsing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í afreksmálum skuli vera til umfjöllunar á Íþróttaþingi. Stjórn afrekssviðs ÍSÍ hefur rætt mikilvægi þess að setja skýrari markmið í stefnu sambandsins með tilliti til árangurs og þátttöku á stórmótum. Jafnframt hefur verið rætt um áherslur í styrkveitingum, misjöfn skilyrði sambandsaðila, aðstæður íþróttamanna og kröfur samfélagsins. Ljóst er að huga þarf að fjölmörgum ytri þáttum í afreksstefnu ÍSÍ og jafnframt að skoða vel þá reynslu sem til er orðin innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi og í löndunum í kringum okkur. Í ofangreindri stefnuyfirlýsingu hafa verið gerðar minni háttar breytingar á orðalagi, setningar færðar til milli málsgreina auk þess sem bætt hefur verið við leiðum að markmiðum stefnunar sem og hvernig hægt er að mæla árangurgagnvart þeim markmiðum sem eru í núverandi stefnuyfirlýsingu ÍSÍ. Jafnframt er sett sú krafa á framkvæmdastjórn ÍSÍ að skilgreina viðmið afreka í samvinnu við sérsambönd ÍSÍ og kynna fyrir sambandsaðilum. Afrekssvið ÍSÍ boðaði fulltrúa sérsambanda ÍSÍ til málþings í mars 2011 og voru þar rædd fjölmörg atriði er tengjast afreksmálum íþróttahreyfingarinnar. Flest þeirra atriða rúmast innan þeirra markmiða og leiða sem talin eru upp hér í stefnunni, en tvö markmið hafa bæst við; ferlamál fatlaðs afreksíþróttafólks og menntun þjálfara, dómara og annarra þátttakenda í afreksíþróttastarfinu. Að loknu málþinginu er ljóst að þörf er á víðtækri umræðu um afreksmál og reglulegu mati á framgangi afreksstefnu ÍSÍ, bæði á vettvangi ÍSÍ sem og sambandsaðila. Með víðtækri umræðu og reglulegu mati á framgangi afreksstefnu ÍSÍ skapast betri skilyrði fyrir Afrekssjóð ÍSÍ og Styrktarsjóð ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamann, en rétt er að ítreka að framkvæmdastjórn ÍSÍ setur reglugerðir fyrir þessa sjóði, sem taka m.a. mið af stefnuyfirlýsingu ÍSÍ í afreksmálum.

Þingskjal 10, “talnafyrirtæki”, breytt úr nefnd.

Tillaga um Íslenska getspá og Íslenskar getraunir Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, hvetur sambandsaðila sína til að standa vörð um Íslenskar getraunir og Íslenska getspá. Þá eru sambandsaðilar hvattir til að gera ekki samstarfssamninga við fyrirtæki á sviði talna- og íþróttagetrauna sem ekki hafa starfsleyfi á Íslandi. Greinargerð Sala í leikjum Íslenskrar getspár og Íslenskra getrauna hefur skipt sköpum fyrir starfsemi íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Þýðing þessa fjárframlags til starfsemi íþróttahreyfingarinnar hefur aldrei verið mikilvægari eins og nú, þegar framlög sveitarfélaga, fyrirtækja og ríkisvalds hafa dregist saman sökum kreppunnar. 54


70. Íþróttaþing ÍSÍ Erlend samkeppni er enn til staðar, þrátt fyrir að Alþingi hafi einróma samþykkt að skerpa á lögum nr. 38/2005 sem miða að því að banna auglýsingar erlendra fyrirtækja á þessu sviði. Það vekur sérstaka athygli að enn komast erlendir aðilar upp með að auglýsa, þó í fáum fjölmiðlum, án þess að ríkisvaldið og lögregluyfirvöld hafi brugðist við. Íslenskar getraunir og Íslensk getspá eru fyrirtæki í eigu íþróttahreyfingarinnar og er afkoma þeirra afar mikilvæg fyrir íþróttastarf í landinu. Það er nauðsynlegt að sambandsaðilar standi vörð um þessi fyrirtæki og efli þau til framtíðar.

Þingskjal 17, siðareglur, óbreytt nema að orðið “óskuldbindandi” í greinargerðinni falli út.

Ályktun um siðareglur íþróttahreyfingarinnar Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, hvetur sambandsaðila sína til að setja sér leiðbeinandi siðareglur. Greinargerð: Á síðasta Íþróttaþingi var samþykkt að skipa vinnuhóp um siðareglur ÍSÍ. Vinnuhópurinn leitaði víða fanga og m.a. voru sambærilegar reglur nágrannaríkja okkar skoðaðar auk IOC, Code of Ethics. Vinnuhópurinn setti saman „Siðareglur ÍSÍ” sem eru leiðbeinandi reglur um hegðun í íþróttahreyfingunni. Sambandsaðilar ÍSÍ eru hvattir til að setja sér sjálfstæðar siðareglur sem byggja á reglum ÍSÍ. Siðareglurnar verða aðgengilegar á heimasíðu ÍSÍ.

Þingskjal 20, KSÍ, íþróttaviðburðir, orðalagsbreyting frá nefnd.

Ályktun um fyrirætlun mennta- og menningarmálaráðherra um að setja saman lista yfir íþróttaviðburði sem ber að sýna í ólæstri dagskrá. Flutningsaðili: Knattspyrnusamband Íslands 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, mótmælir þeirri fyrirætlun mennta- og menningarmálaráðherra um að setja saman lista yfir íþróttaviðburði sem ber að sýna í ólæstri dagskrá í sjónvarpi. Þjóðnýting útsendingarréttinda á íþróttaviðburðum er skerðing á frelsi íþróttahreyfingarinnar til tekjuöflunar. Greinargerð: Rekstur sérsambanda ÍSÍ byggir að mestu leyti á sjálfsaflafé, þau njóta lítilla sem engra styrkja frá stjórnvöldum. Tekjur af útsendingarrétti í sjónvarpi frá íþróttaviðburðum geta skipt sköpum í rekstri sérsambanda ÍSÍ. Það er vitanlega í þágu íþróttanna að sem flestir njóti útsendinga frá viðburðum þeim tengdum en það eitt og sér má ekki verða til þess að skerða möguleika sérsambanda til að afla sér tekna.

55


70. Íþróttaþing ÍSÍ Þingskjal 21, Lottó (Valdimar Leó), smá orðalagsbreyting frá nefnd.

Ályktun um fyrirkomulag Lottó Flutningsaðili: UMSK 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, fagnar afdráttarlausri yfirlýsingu mennta- og menningarmálaráðherra að fyrirkomulag talnagetrauna (Lottó) verði óbreytt í framtíðinni.

17. Umræður og afgreiðsla tillagna allsherjarnefndar Þingskjal 3. Áfengisauglýsingar. Haukur Örn Birgisson varaforseti Golfsambands Íslands kom í pontu og tjáði sig m.a. um það að það væri óþarfi að skora sérstaklega á sambandsaðila að fara eftir lögum. Hann taldi rétt að fella tillöguna. Viðar Garðarsson formaður ÍHÍ tók undir orð Hauks og lagði fram formlega tillögu um að ályktuninni yrði vísað til framkvæmdastjórnar. Hann vísaði í rannsóknir um auglýsingar og áhrif þeirra til drykkju, sagði hvergi til niðurstöður um slík áhrif. Hann sagðist skilja áhyggjur af áfengisneyslu barna og ungmenna en þessa ályktun væri ekki hægt að styðja að hans mati. Þingforseti leit svo á að Viðar hafi lagt það til að ályktunin yrði felld. Hörður Oddfríðarson kom í pontu og óskaði Ólafi Rafnssyni til hamingju með kjörið og sagði það ánægjulegt hversu víðtækan stuðning hann hefði hjá hreyfingunni. Hann sagði að sér fyndist það vont að aðilar komi upp og beri fólk sökum um að vera svo vitlaust að það átti sig ekki á einföldustu hlutum. Hörður fullyrti það að það væri beinlínis rangt að ekki væru til rannsóknir sem benda til þess að auglýsingar um áfengi hafi áhrif á neyslu. Hann lagði áhrif á orðin “bendir til”. Hann sagði íþróttahreyfinguna gefa sig út fyrir það að vera forvarnarhreyfing og því hæpið að geta ekki hvatt til þess að sambandsaðilar beiti sér gegn áfengisnotkun í tengslum við íþróttastarf. Hann lagði það til að þessi tillaga yrði samþykkt. Haukur Birgisson kom aftur í pontu og gerði grein fyrir því af hverju hann hefði ekki setið í allsherjarnefnd, hann hefði verið kjörinn í laganefnd. Hann sagði að ekki ætti að setja reglur sem við sjálf gætum ekki fylgt. Hann taldi algjörlega óraunhæft að fylgja þessu eftir, allavega annarri málsgreininni. Geir Þorsteinsson kom í pontu og kom með málamiðlunartilögu. Hann lagði til að fyrstu tvær línurnar stæðu en annað félli út, greinargerðin stæði óbreytt. Hörður Oddfríðarson kom í pontu og hnykkti á því að sér þætti undarlegt ef ábyrgðarmaður í íþróttahreyfingunni treysti sér ekki til að beita sér gegn notkun áfengis í hreyfingunni. Ef þetta væri algengt þá gæti hreyfingin ekki sagst vera sú forvörn sem hún teldi sig vera.

56


70. Íþróttaþing ÍSÍ Leifur Gunnarsson varaformaður ÍBV kom í pontu og sagðist ekki hafa áhyggjur að áfengisauglýsingum en annað mál væri með munntóbaksnotkun íþróttaiðkenda. Hann fagnaði því sem stóð í þingskjali 5 um munntóbak. Hann sagði fyrirmyndina koma frá eldri iðkendum, jafnvel atvinnumenn í íþróttum. Þingforseti benti á að umræður stæðu yfir um þingskjal nr. 3 þar sem fjallað væri um áfengisauglýsingar. Þingforseti bar upp tillögu Viðars Garðarssonar um að fella tillöguna. Fellt með meginþorra atkvæða. Þingforseti bar þá upp málamiðlun Geirs Þorsteinssonar.

Tillaga til ályktunar um áfengisauglýsingar 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, skorar á alla sambandsaðila ÍSÍ, að beita sér gegn hvers konar áfengisauglýsingum í tengslum við íþróttastarf. Samþykkt með meirihluta atkvæða. Þingskjal 4. Tillaga um fæðubótarefni. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 5. Tillaga um tóbaksnotkun. Eiríkur Ágúst varaformaður Ungmennafélags Álftaness kom í pontu og sagði frá þátttöku sinni í rýnihóp um neftóbak sem ætlað væri að finna út neftóbak sem gengur í munninn á börnum og unglingum. Verið sé að reyna að breyta tóbakinu til að það henti betur til notkunar í munn! Eiríkur Ágúst sagði að sína skoðun að setja ætti íþróttaþjálfara sem uppvísir yrðu að notkun tóbaks í munn í bann. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 6. Umferðaröryggi og íþróttir. Valdimar Leó kom í pontu og bar upp viðbótartillögu vegna áhuga hans á því að hreyfingin komi meira að skipulagsmálum hjá sveitarfélögum. Hann vildi að í deiliskipulagi sveitarfélaga væri gert ráð fyrir íþróttamannvirkjum og að íþróttafélög komi með umsögn um deiliskipulag sveitarfélaga. Valdimar vildi bæta við tillöguna eftirfarandi: Íþróttaþing ÍSÍ hvetur skipulagsyfirvöld sveitarfélaga til að leita umsagnar íþróttahreyfingarinnar þegar við á. 57


70. Íþróttaþing ÍSÍ Í greinargerð vill Valdimar bæta við: Nauðsynlegt er að tryggja aðkomu íþróttafélaga að skipulagsvinnu sveitarfélaga með þarfir og öryggi iðkenda í huga. Haraldur Þórarinsson formaður LH taldi vanta umfjöllun eða tillit til hesta og umferð þeirra. Hann sagði að það gleymdist stundum að hestamenn væru líka innan íþróttahreyfingarinnar og að mannvirki sem lúta að hestaíþróttum væru líka íþróttamannvirki. Haraldur vildi bæta við hugtakinu „hesta“ í tillöguna. Hörður hjá GSÍ kom í pontu og sagðist sammála Valdimar Leó. Hann taldi einnig að hestar ættu auðvitað að vera með í þessum pakka, hér væri fyrst og fremst verið að huga að almennum þáttum og hestar kæmu inn þegar rætt væri um íþróttaiðkun. Hörður benti jafnframt á að orðalag tillögunnar væri með þeim hætti að það ætti við alla íþróttaiðkendur sem hestamenn féllu að sjálfsögðu undir. Þingforseti bar breytingartillögu Valdimars Leós upp og var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn tveimur. Þingforseti bað þingritara að umorða tillöguna með sómasamlegum hætti í tengslum við viðbót Haraldar Þórarinssonar um hestaíþróttafólk.

Tillaga um umferðaröryggi og íþróttir Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ

70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8. - 9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, skorar á sambandsaðila að huga vel að umferðaröryggi íþróttaiðkenda og þá sérstaklega barna og ungmenna, m.a. með því að setja sér vinnureglur um skipulag og framkvæmd ferðalaga á þeirra vegum. Jafnframt skorar Íþróttaþing ÍSÍ á skipulagsyfirvöld sveitarfélaga að huga að öryggi gangandi og hjólandi fólks sem og hestaíþróttafólks og annarra íþróttaiðkenda í umhverfi íþróttamannvirkja. Íþróttaþing ÍSÍ hvetur skipulagsyfirvöld sveitarfélaga til að leita umsagnar íþróttahreyfingarinnar þegar við á. Greinargerð: Mikil ferðalög fylgja viðburðum íþróttafélaga, héraðssambanda/sérsambanda í tengslum við keppnishald, æfingar eða æfingabúðir. Þessi ferðalög eiga sér stað á öllum árstímum. Nauðsynlegt er að forráðamenn íþróttafélaga/sérsambanda setji sér reglur um ferðalög á vegum félagsins, þ.e. skipulag og framkvæmd. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur átt fundi með Umferðarstofu um umferðaröryggi og þá sérstaklega í tengslum við íþróttir. ÍSÍ hefur, í samráði við Umferðarstofu, útbúið gátlista fyrir íþróttahreyfinguna varðandi ferðalög á vegum hreyfingarinnar. Sambandsaðilum ÍSÍ er bent á að hafa gátlistann til hliðsjónar við gerð eigin vinnureglna um ferðir í tengslum við starfsemi viðkomandi aðila. Gátlistann er að finna á heimasíðu ÍSÍ, www.isi.is undir liðnum „Efnisveita”.

58


70. Íþróttaþing ÍSÍ Skorað er á skipulagsyfirvöld sveitarfélaga að huga að öryggi fólks í umhverfi eldri íþróttamannvirkja jafnt sem nýbygginga, og að tryggja að gangandi og hjólandi fólk, hestaíþróttafólk og aðrir íþróttaiðkendur eigi hættulaust aðgengi að íþróttamannvirkjum. Nauðsynlegt er að tryggja aðkomu íþróttafélaga að skipulagsvinnu sveitarfélaga með þarfir og öryggi iðkenda í huga. Tillagan í heild samþykkt samhljóða. Þingforseti tilkynnti þinghlé til kl. 12.53 vegna hádegisverðar. Þingforseti bauð Reyni Ragnarsson velkominn í pontu vegna kosninga í framkvæmdastjórn ÍSÍ. Reynir afhenti kjörseðla og gerði grein fyrir framkvæmd kosninganna. Hann las upp fjölda fulltrúa frá hverju sérsambandi og síðan héraðssambandi og bað fulltrúa þeirra að sækja kjörseðlana jafn óðum. Auk þess bað Reynir aðra fulltrúa viðkomandi sambandsaðila hverju sinni um að standa upp þannig að hann gæti séð hverjir væru mættir. Reynir minnti á það að það yrði að merkja við 10 nöfn, hvorki fleiri eða færri til þess að kjörseðill teldist gildur. Þingfoseti gerði í kjölfarið hlé á þingi á meðan kjörseðlum var safnað saman. Í þinghléi var sýnt myndband frá Sjóvá kvennahlaupi ÍSÍ. Þingforseti hélt áfram að bera upp tillögur allsherjarnefndar. Þingskjal 7. Öryggi barna og ungmenna Tillaga um öryggi barna og ungmenna, fellur út orðið “gott”. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 8. Þjálfaramenntun. Smá orðalagsbreyting: Svo og með samræmingu….. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 9. Afreksstefna ÍSÍ. Skjalið lagt fram í heild sinni. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 10. Getspá og Getraunir. Orðalagsbreyting: fyrirtæki á sviði talna og íþróttagetrauna. Samþykkt samhljóða.

59


70. Íþróttaþing ÍSÍ Þingskjal 17. Siðareglur ÍSÍ. Óskuldbindandi fellt út úr þriðju línu í greinargerð. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 20. Ályktun um íþróttaviðburði í ólæstri dagskrá. Friðrik Aspelund sambandsstjóri UMSB hvaddi sér hljóðs. Hann lýsti yfir ánægju sinni með það að tillaga um þessi málefni væri á dagskrá. Honum fannst tillagan ekki góð, hún einblíndi bara á einn margra þátta sem snúa að þessu máli. Friðrik lagði til að í stað orðsins „mótmælir” kæmu orðin „lýsir áhyggjum af“. Honum fannst seinni málsgreinin í ályktuninni í raun óþörf og helst til harkaleg. Þorgerður Diðriksdóttir formaður FSÍ kom í pontu og lagði til að tillögunni yrði vísað frá. Þingforseti bar upp frávísunartillögu Þorgerðar og var því hafnað með meginþorra atkvæða. Viðar Garðarsson ÍHÍ var á andstæðri skoðun við Þorgerði. Hann taldi að verið væri að ráðast á hugverkaréttindi íþróttahreyfingarinnar. Viðari fannst rétt að greitt sé fyrir þau réttindi sem íþróttahreyfingin á. Hann vill ekki að ráðherra geti þjóðnýtt rétt íþróttahreyfingarinnar og vildi því að tillagan stæði. Þingforseti bar upp tillögu Friðriks Aspelund um orðalagsbreytingar „lýsir áhyggjum af“ í stað „mótmælir“. Hafnað með yfirgnæfandi meirihluta. Þingforseti bar upp tillögu Friðriks Aspelund um að síðari málsgrein ályktunarinnar falli út „Þjóðnýting……….til tekjuöflunar“. Hafnað með miklum meirihluta. Kosið um greinina í heild sinni. Samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta. ÞIngskjal 21. Fyrirkomulag Lottós. Haukur Birgisson kom í pontu og var með fyrirspurn um ræðu mennta- og menningarmálaráðherra. Haukur vildi fá að vita hvort ráðherra hefði lýst því yfir afdráttarlaust sem vitnað er í í tillögunni. Svör bárust úr sal að svo hefði verið og Haukur hafði þá ekki frekari athugasemdir eða fyrirspurnir. Ingvar Sverrisson formaður ÍBR hvaddi sér hljóðs og vildi ræða ályktun Valdimars. Ingvar sagði það framundan að stórefla framlög til íþróttastarfs í íþróttum. Hann taldi að hreyfingin ætti ekki að vera í vörn þar sem m.a. framkvæmdastjórn ÍSÍ hefði verið að leggja grunn að sókn. Hann taldi þörf á hærri framlögum inn í starfið. Ingvar sagðist hræddur um að ef íþróttahreyfingin verji Lottóið of fast gefi það stjórnmálamönnum færi á að auka ekki framlög á annan hátt. Ingvar lagði fram breytingartillögu:

60


70. Íþróttaþing ÍSÍ 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8.-9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík fagnar umræðu sem átt hefur sér stað um Lottóið undanfarið. Íþróttaþing lýsir yfir vilja til að ræða um framtíð Íslenkrar Getspár með aðkomu Bandalags íslenskra listamanna. Mikilvægt er að við slíkar breytingar á tekjustofnum íþróttahreyfingarinnar tryggi ríkið eðlilega skiptingu fjármuna milli lista annars vegar og íþrótta hins vegar. Umræður um verulega hækkun fjárframlaga til íþróttastarfs á Íslandi verður að fara fram samhliða viðræðum um aðkomu listamanna að Lottói. Valdimar Leó steig í pontu og taldi rétt að tilkynna að Hörður Oddfríðarson væri farinn af þingi. Hann nefndi það að orð íþróttamálaráðherra væru til á upptöku frá þinginu. Hann fagnaði umræðu nefndar um tillöguna og sagði að sér litist vel á hugmynd Ingvars, formanns ÍBR. Valdimar Leó taldi því rétt að hann drægi sína tillögu til baka. Þingforseti taldi að fyrst tillaga Valdimars hefði fengið umfjöllun í nefnd og kæmi þaðan til afgreiðslu þingsins þá stæði hún og yrði borin upp. Lárus Blöndal varaforseti ÍSÍ tók til máls, hann vildi ekki hleypa fleirum að Lottóinu og sagði það ekki þýða að ekki verði sótt fram á öðrum sviðum. Lárus lagði til að tillögu Ingvars yrði hafnað. Geir Þorsteinsson KSÍ steig í pontu. Hann taldi ekki ráðlegt að samþykkja tillögu formanns ÍBR á þessum tíma. Stjórn ÍSÍ þarf að koma að stefnumörkun í tekjuöflun. Geir hvatti Ingvar til að draga sína tillögu til baka. Hann taldi rétt að kalla frekar sambandsaðila til skrafs og ráðagerða. Þórður Árni Hjaltested varaformaður ÍF kom í pontu og las ályktun sambandsþings ÍF frá því 2. apríl 2011. Hann sagðist styðja tillögu Valdimars. Sturlaugur Sturlaugsson ÍA kom í pontu og sagðist sammála fyrri ræðumönnum um að menn taki ekki áhættuna af því að gefa eftir gegn því að fá eitthvað annað betra. Hann taldi tillögu ÍBR út í hött miðað við þá stöðu sem við byggjum við. Eiríkur Ágúst UMSK kom í pontu og lagði til að tillaga ÍF yrði tekin óbreytt til afgreiðslu á Íþróttaþinginu. Í tengslum við það taldi hann rétt að Ingvar og Valdimar drægju sínar tillögur til baka. Gunnar Bragason kom í pontu og fór yfir umræðu í fjárhagsnefnd sem fram fór kvöldið áður þar sem m.a. kom fram að fara ætti í átak til frekari tekjuöflunar íþróttahreyfingarinnar. Hann taldi ekki rétt að gefa það upp á þessu þingi að hreyfingin væri tilbúin til að gefa eitthvað frá sér. Gunnar vildi að tillögu Valdimars yrði haldið til streitu. Ingvar Sverrisson hvaddi sér hljóðs. Hann sagðist svo sem ekki hafa átt von á góðum viðbrögðum við tillögu sinni. Hann benti á hættu vegna nýrra samkeppnisaðila í lotto/Getraunamarkaði. Hann velti því upp hver stefna íþróttahreyfingarinnar væri á nýjum mörkuðum. Hann taldi samt að hreyfingin væri ekki að taka neinn séns á neinu í tengslum við þá tillögu sem hann lagði fram. Hann velti því upp hvort Bandalag íslenskra listamanna fái að stofna nýtt Lottó.

61


70. Íþróttaþing ÍSÍ Ingvar ákvað að draga tillögu sína til baka. Hann lagði til að stjórn Getrauna/Getspár láti kanna hvað aukin samkeppni muni þýða fyrir fyrirtækið. Lárus Blöndal sagðist skilja sjónarmið Ingvars. Hann sagði að íþróttahreyfingin væri að sækja um leyfi fyrir nýja leiki til að auka tekjurnar. Hann sagði einnig að umræða væri í gangi um að stofna eitt fyrirtæki á vegum ríkisvaldsins sem hefði með allt happdrætti að gera. Það yrði þá samið um það hvernig tekjurnar skiptust milli aðila. Lárus taldi óvarlegt að gefa ákveðnum aðilum aðgang að fyrirtæki íþróttahreyfingarinnar. Viðar Garðarsson ÍHÍ kom í pontu, tók undir orð Ingvars og var ánægður með orð Lárusar. Hann sagði að hreyfingin þyrfti að vera vakandi fyrir nýjum tækifærum og einnig verja það sem hún hefur. Eiríkur Ágúst kom í pontu og sagðist hafa fengið leyfi hjá ÍF til að leggja fram ályktun ÍF á Íþróttaþinginu. 70. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið dagana 8.-9. apríl 2011 í Gullhömrum í Reykjavík, lýsir áhyggjum sínum vegna hugmynda um að taka upp og breyta lögum og reglugerðum varðandi Lottó, Íslenska getspá. Íþróttahreyfingin má ekki við frekari skerðingum á tekjum til starfseminnar og fer þingið fram á að ríkisvaldið tryggi óbreytt eignarhald á Íslenskri Getspá. Jafnframt hvetur þingið ríkisvaldið til að auka fjárveitingar til þess mikla sjálfboðastarfs sem íþróttahreyfingin vinnur í þágu þjóðarinnar. Eiríkur sagðist leggja þetta fram sem tillögu á þinginu. Valdimar Leó kom í pontu og lagði til að tillögu ÍF yrði bætt við hans tillögu. Hann leitaði ráða hjá þingforseta og lagði svo til að tvær sjálfstæðar tillögur yrðu lagðar fram. Þingheimur mótmælti því ekki. Þingforseti bað um leyfi þingheims til að bera upp tillögu Eiríks. Samþykkt með öllum greiddum nema fjórum! Tillaga Eiríks borin upp og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum nema fimm atkvæðum. Tillaga Valdimars Leós borin upp og samþykkt með öllum atkvæðum gegn einu. Þingforseti sagði það hefð að einhverjar stökur eða ljóðmæli féllu til á Íþróttaþingum. Hann las upp eina limru sem honum hafði borist frá Helgu Magnúsdóttur. Lalla lýst ekki á´etta, að listaspíkan fá´etta, í lotto við höldum eins og áður við töldum þá viljum við alein eig´etta. 62


70. Íþróttaþing ÍSÍ Niðurstaða umræðu fjárhagsnefndar Þingforseti bað Ástu Óskarsdóttur formann fjárhagsnefndar að kynna umræður nefndarinnar frá því í gær. Ásta sagði átta tillögur hafa verið ræddar í nefnd, sjö af þeim tillögur til ríkis og sveitarfélaga um aukin fjárframlög. Ásta sagði að samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra ÍSÍ þá hefði hátt í 90 aðilum á vegum ríkis og sveitarfélaga, þ.m.t. ráðherrum og þingmönnum hefði verið boðið á setningu þingsins. Ásta velti því upp hvort þetta fólk vissi í raun hvað íþróttahreyfingin væri að gera og stæði fyrir. Þingskjal 11 Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt óbreytt. Þingskjal 12 Nefndin leggur til að samþykkt verði óbreytt. Nefndin leggur einnig til að Framkvæmdastjórn ÍSÍ komi þessu á framfæri við sveitarfélög. Þingskjal 13 Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt án breytinga. Þingskjal 14 Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt án breytinga. Nefndin taldi þetta gríðarlega mikilvægt málefni og í raun einn af stærstu kostnaðaraukum sem orðið hafa undanfarið í hreyfingunni. Þingskjal 15 Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með orðalagsbreytingum. Í stað orðsins „gerður“ kemur orðið „endurnýjaður“. Lagt til að samningur verði endurnýjaður. Þingskjal 16 Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt án breytinga. Þingskjal 19 Fjárhagsáætlun 2011-2012, umræður aðallega um þrjá liði; Auknar aðrar tekjur, lækkun kostnaðar vegna Smáþjóðaleika og liðinn annar kostnaður. Nefndin áleit tekjuáætlun Lottósins varlega áætlaða fyrir næsta ár. Nefndin lagði til að fjárhagsætlunin yrði samþykkt óbreytt. Þingforseti bað Reyni Ragnarsson að koma í ræðustól og gera grein fyrir niðurstöðu úr kosningu til setu í framkvæmdastjórn ÍSÍ. Reynir Ragnarsson tilkynnti úrslit kosninganna og fóru þær þannig að Gunnar Bragason, Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Lárus Blöndal, Jón Gestur Viggósson, Friðrik Einarsson, Örn Andrésson, Sigríður Jónsdóttir, Helga Magnúsdóttir, Hafsteinn Pálsson og Ingibjörg B. Jóhannesdóttir voru réttilega kjörin til setu í framkvæmdastjórn ÍSÍ til næstu tveggja ára.

63


70. Íþróttaþing ÍSÍ Gústaf Adolf Hjaltason náði ekki kjöri til setu í framkvæmdastjórn ÍSÍ en ákvað að bjóða sig fram til varastjórnar. Í framboði til varastjórnar ÍSÍ voru eftirfarandi aðilar: Garðar Svansson Guðmundur Ágúst Ingvarsson Gunnlaugur Júlíusson Gústaf Adolf Hjaltason Dregið var um röð á kynningu framboða þeirra fjögurra sem bjóða sig fram til varastjórnar Reynir Ragnarsson tilkynnti um röð kynninga frambjóðenda í varastjórn ÍSÍ. Garðar Svansson, Gunnlaugur Júlíusson, Guðmundur Ágúst Ingvarsson og Gústaf Adolf Hjaltason. Frambjóðendur kynntu sig og framboð sín. Guðmundur Ágúst Ingvarsson var fjarverandi.

Umræður og afgreiðsla tillagna fjárhagsnefndar Þingskjal 11. Stóraukið framlag ríkis til íþróttamála. Hannes S. Jónsson formaður KKÍ kom í pontu. Hann taldi sér skylt að koma upp og ræða málin. Hrósaði forseta og framkvæmdastjórn fyrir vinnu undanfarinna vikna, sérstaklega ræðu forsetans við setningu þingsins. Hann taldi það dónaskap að þingmenn hafi ekki gefið sér tíma til að koma á setningu þings stærstu fjöldahreyfingar landsins. Garðar Svansson sagðist hafa verið formaður HSH síðan árið 2006 og ef hann næði kjöri í varastjórn ÍSÍ þá dytti hann sjálfkrafa út sem formaður HSH. Hann sagði ársþing HSH sem fram færi nk. miðvikudag verða 26. héraðsþing sem hann sæti en samt væri hann yngstur þeirra aðila sem gæfu kost á sér í framkvæmdastjórn ÍSÍ. Hann sagði mikla reynslu sína og þekkingu vera aðalástæðu þess að hann gæfi nú kost á sér í framkvæmdastjórn. Gunnlaugur Júlíusson sagðist vera hagfræðingur og í vinnu hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Hann sagðist hafa tekið þátt í félagsstörfum í gegnum börnin, sat í aðalstjórn Víkings og stjórn knattspyrnudeildar og ætti nú sæti í stjórn frjálsíþróttadeildar Ármanns. Hann sagði íþróttalegan bakgrunn ekkert sérstakan, þó ætti hann héraðsmet í kringlukasti innan UNÞ. Gunnlaugur sagðist hafa uppgötvað það á síðari árum að hlaup, helst af lengri gerðinni ættu vel við hann, hann hefði því lagt stund á þá grein undanfarið. Hann sagði síðasta ár hafa verið hans besta í svokölluðum ofurhlaupum til þessa þar sem hann setti Norðurlandamet í sólarhringshlaupi á hlaupabretti. Hann sagðist einnig hafa verið fyrstur í heiminum til að ljúka hinum svokölluðum fjórum ofurhlaupum, þ.e. elsta, lengsta, fjölmennasta og elsta 100 mílna hlaup í heiminum og einnig að hann væri 8. á heimslista í tveggja sólarhringa hlaupi. Guðmundur Ingvarsson gat ekki kynnt framboð sitt þar sem hann er staddur erlendis. Knútur G. Hauksson formaður HSÍ kynnti Guðmund og bar kveðju hans. Hann sagði að í raun þyrfti lítið að kynna Guðmund. Hann sagði að Guðmundur væri búinn að vinna gríðarlegt starf fyrir íþróttahreyfinguna, hafi verið formaður HSÍ í allmörg ár, vel á annan tug.

64


70. Íþróttaþing ÍSÍ Gústaf Adolf Hjaltason sagðist gefa kost á sér í varastjórn ÍSÍ, sagðist hafa setið þar í tvö ár, eitt kjörtímabil og sagðist hafa áhuga á því að gera svo áfram. Farið beint í kosningu eftir afhendingu kjörseðla. Þingskjal 11. Tillagan borin upp til samþykktar. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 12. Enginn hvaddi sér hljóðs. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 13. Enginn hvaddi sér hljóðs. Samþykkt með öllum atkvæðum nema einu. Þingskjal 14. Engin hvaddi sér hljóðs. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 15. Sigfús Ó. Helgason ÍBA, vildi meina að oft hefði verið þörf en nú sé nauðsyn. Ferðakostnaður að sliga mörg félög úti á landi. Gríðarlegar kostnaðarhækkanir orðið á undanförnum misserum. Rútuferðir hefði hækkað úr 120.000.- í 180.000.- á skömmum tíma. Tillagan samþykkt samhljóða. Þingskjal 16. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 18. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 19. Fjárhagsáætlun samþykkt samhljóða. Afgreiðslu þingskjala lokið. Gunnar Gunnarsson ritari UÍA kom í pontu og sagði það ákveðna hefð að fulltrúi UÍA komi upp í lok þinga með gamanmál. 65


70. Íþróttaþing ÍSÍ

Á ÍSÍ þingi eru átökin hörð og ýmsir þar æa og óa. Í hóp eru komin ægileg skörð og alls engar vísu frá Jóa. Vísunni fylgdi kær kveðja frá Jóhanni Tryggvasyni fyrrverandi formanni UÍA.

18. Kosningar. Reynir Ragnarsson kom í pontu og gerði grein fyrir kosningum skoðunarmanna reikninga, aðila í dómstóla ÍSÍ og kjörnefnd ÍSÍ. Hann bar upp tillögu um Tryggva Geirsson og Hallgrím Þorsteinsson sem skoðunarmenn reikninga. Til vara Sigríður Ármannsdóttir og Friðjón B. Friðjónsson. Samþykkt með lófaklappi. Hann bar næst upp tillögu um Gunnar Guðmundsson, Halldór Frímannsson, Hilmar Gunnlaugsson, Guðmund Jónsson, Ólaf Björnsson og Sigurð Inga Halldórsson í Dómstól ÍSÍ. Samþykkt með lófaklappi. Reynir bar upp tillögu um Jón G. Zoega, Gest Jónsson, Snorra Ólsen, Hallgrím I. Jónsson, Björgvin Þorsteinsson og Karl Gauta Hjaltason í Áfrýjunardómstól ÍSÍ. Samþykkt með lófaklappi. Reynir las upp tillögu um Reyni Ragnarsson, Jón Ásgeir Eyjólfsson, Valdimar Leó Friðriksson, Guðrúnu Ingu Sívertsen og Guðríði Adnegaard í kjörnefnd ÍSÍ. Til vara Sigríði Bjarnadóttur og Jón Þór Þórðarson. Samþykkt með lófaklappi. Reynir tilkynnti næst niðurstöður í kosningum til varastjórnar. Eftirtaldir náðu kjöri: Gústaf Adolf Hjaltason, Garðar Svansson og Gunnlaugur Júlíusson. Stefán A. Halldórsson formaður FRÍ kom í pontu og sagðist eiga ættir að rekja austur á firði og því væri líklega rétt að hann færi með einhver ljóðmæli. Ef Frí er í fjörkröggum rambandi þá fundin er gulllausnin glampandi. Nauðsyn má heita nafninu´ að breyta að frjálsástaríþróttasambandi. Ei framar mun fjárskorti kvíðandi og því tel ég einmitt tilhlíðandi að iðkendur skráist í Felix og sjáist 66


70. Íþróttaþing ÍSÍ það vilja´ allir teljast vel ríðandi. Viðar Garðarsson kom í pontu og sagðist óska eftir því að framkvæmdastjórn ÍSÍ leggi vinnu í hugmynd komna frá FRÍ um að íþróttahreyfingin eigi að koma sér upp sínum eigin fjölmiðli. Þröstur Guðjónsson formaður ÍBA kom í pontu og óskaði forseta ÍSÍ og framkvæmdastjórn til hamingju með kjörið. Hann sagði það vera búið að vera mjög ánægjulegt að vera á þinginu. Hann færði Ólafi Rafnssyni forseta ÍSÍ kveðju og gjöf frá ÍBA. Gunnar Gunnarsson kom upp öðru sinni og beindi þeim tilmælum til ÍSÍ að kanna betur og taka fjarfundarbúnað í notkun. Honum fannst hugmyndin um fjölmiðil hreyfingarinnar vera áhugaverð og benti í því skyni á tímarit UÍA, Snæfell sem gefið væri út einu sinni til tvisvar á ári. Hann sagði UÍA vera 70 ára í ár.

19. Þingslit Þingforseti gaf Ólafi Rafnssyni ný endurkjörnum forseta ÍSÍ orðið og fól honum að slíta þingi. Ólafur þakkaði fyrir gott þing og það traust sem honum hefði verið sýnt með endurkjöri og hlýjum kveðjum. Hann þakkaði fyrir góðar umræður og þá málefnalegu vinnu sem verið hefði á þinginu. Hann sagði að aldrei mætti vanmeta vægi góðs undirbúnings fyrir viðburð eins og Íþróttaþing ÍSÍ og þakkaði sérstaklega fyrir þann lið sem og fyrir störf þingnefndanna sem fram fóru í gærkvöldi. Ólafur fagnaði umræðu um afreksstarfið og minnti á að það drægi í raun vagninn fyrir íþróttahreyfinguna og því þyrfti að tryggja því það fjármagn sem því bæri. Hann fór yfir kosningu í stjórn og varastjórn og sagði það að þegar framboð væru fleiri en þau sæti sem í boði væru þá bæri það vott um öfluga hreyfingu. Hann sagði aðila í framkvæmdastjórn vera afar öfluga og að hann væri fyrst og fremst að koma hér fram fyrir þeirra hönd, þetta byggðist allt á liðsheildinni. Hann óskaði Garðari Svanssyni og Gunnlaugi Júlíussyni til hamingju með kjörið og jafnframt velkomna í varastjórn sambandsins. Hann gat þess sérstaklega að aðilar í varastjórn störfuðu að fullu með aðalstjórn eins og um aðila þar væri að ræða. Ólafur færði Helga Sigurðssyni sem ekki gaf kost á sér til áframhaldandi setu í framkvæmdastjórn blómvönd með þakklæti fyrir samstarfið á liðnu kjörtímabili. Ólafur leit svo á að störf þingsins endurspegluðu mikið traust til framkvæmdastjórnar ÍSÍ, taldi sig ráða það af þeim umræðum sem fram hefðu farið á þinginu, viðbrögð við skýrslu stjórnar og framlögðum reikningum. Ólafur segist hafa sagt það á þingum sambandsaðila að menn eigi að taka til máls hafi menn skoðanir. Það sé ekki bara til að vera sammála síðasta ræðumanni heldur til að koma sem flestum sjónarmiðum inn í umræðuna til þess að ákvörðun og niðurstaða verði upplýstari og betri en ella. Hann taldi að samfélagið gæti margt margt af íþróttahreyfingunni þar sem keppendur takast í hendur fyrir leik, takast síðan á í leiknum innan þeirra marka og reglna sem þar gilda og takast svo aftur í hendur eftir leik, sama hver úrslitin urðu. Hann taldi þetta vera þann einhug og styrk sem hreyfingin ætti aldrei að gefa afslátt af. Ólafur þakkaði starfsfólki ÍSÍ fyrir þeirra framlag til þingsins og samstarfsins. Hann afhenti þeim blóm með þakklæti fyrir vel unnin störf.

67


70. Íþróttaþing ÍSÍ Hann þakkaði einnig þingforsetum fyrir vel unnin störf og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ afhenti þeim blómvönd. Ólafur þakkaði þingfulltrúum fyrir komuna og sagði 70. Íþróttaþingi ÍSÍ slitið kl. 15.15.

_______________________________ Daníel Jakobsson 1. þingforseti

_______________________________ Viðar Sigurjónsson, 1. þingritari

68

Þinggerð 2011  
Þinggerð 2011  
Advertisement