Page 1

Þinggerð Íþróttaþings 2009

Þinggerð Íþróttaþings 2009 69. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hófst föstudaginn 17. apríl kl. 16.30 með því að sýnt var myndband frá Ólympíuleikunum í Peking. Því næst frumflutti Ragnheiður Gröndal frumsamið lag við góðar undirtektir. Ragnheiður lék einnig sjálf undir á flygil.

1. Setning þingsins. Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ. Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, Formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur, Kjartan Magnússon Formaður UMFÍ, Helga Guðjónsdóttir, Þingmenn, Heiðursfélagar ÍSÍ, Góðir þingfulltrúar og aðrir gestir, Ég býð ykkur velkomin til Íþróttaþings. Íþróttaþing er nú haldið í skugga efnahagskreppu. Þrjár meginstoðir fjármagns til hinnar frjálsu íþróttahreyfingar í landinu – opinber framlög ríkis og sveitarfélaga, stuðningsaðilar atvinnulífs, og síðast en ekki síst heimilin í landinu – berjast öll fyrir sínum fjárhagslega grundvelli. Fjárhagsleg afkoma er ekki sjálfstætt markmið íþróttahreyfingarinnar - en lífsnauðsynleg til að ná íþróttalegum markmiðum. Fyrstu aðgerðir framkvæmdastjórnar ÍSÍ við bankahrunið lutu að því að skipa vinnuhóp til að greina stöðu mála – áhrif og úrræði til lausnar vanda aðila innan hreyfingarinnar – og hinsvegar að taka stefnumótandi ákvörðun um verndun barna- og unglingastarfsins. Var ályktun send til sveitarfélaga og aðildarsambanda – og náðist góð samstaða um að standa vörð um þann hluta starfsins sem lýtur að ungmennum og æsku landsins. Á þessu stigi verð ég að hrósa hreyfingunni – ykkur sambandsaðilum, íþróttafélögum, keppendum og öðrum í grasrótarstarfinu – fyrir að hafa mætt þessum aðsteðjandi vanda af ábyrgð og æðruleysi. Ég hef hvergi mætt öðru en samhug og stuðningi innan hreyfingarinnar, og samstaðan í því að komast í gegnum þessi vandamál í sameiningu og án innbyrðis deilna er í raun aðdáunarverð. Íþróttir og íþróttahreyfingin á Íslandi gegna vaxandi hlutverki í samfélaginu – og hefur þar orðið mikil þróun á undanförnum árum. Íþróttir skipa stóran sess í uppeldi barna og ungmenna. Íþróttir hafa skapað byltingu í lífstíl almennings með ábyrgari afstöðu til hollustu og heilbrigðis. Íþróttaafrek okkar fremstu 1


Þinggerð Íþróttaþings 2009

keppenda sameina þjóðina og bera hróður landsins um allan heim. Og það er innistæða fyrir þeirri útrás. En þetta færir einnig aukna ábyrð á okkar herðar. Kröfur til íþróttahreyfingarinnar hafa vaxið, ný viðfangsefni hefur verið talið sjálfsagt að leggja á hið mikla stjórnskipulag sjálfboðaliða í grasrótinni – án þess að samfélagið hafi samhliða í öllum tilvikum gefið hreyfingunni tækifæri – eða úrræði – til að mæta þeim kröfum. Áfangar hafa þó náðst á undanförnum árum. Vil ég fyrst nefna atbeina sveitarfélaga - en þeim hefur að mínu mati ekki ávallt verið hampað verðskuldað fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja og víða skynsama niðurgreiðslu æfingagjalda yngstu iðkenda - sem sannarlega hefur aukið jöfnuð í samfélaginu. Þetta hefur byggt upp samfélagsgerð með sáttmála hinnar frjálsu íþróttahreyfingar við almenning – íbúana – sem í senn mynda þá hreyfingu og sitja jafnframt allt í kringum borðið sem þátttakendur, stjórnendur, foreldrar – og síðast en ekki síst skattgreiðendur. Skipulegt íþróttastarf er nokkuð sem almenningur hvorki getur eða vill vera án í dag – og er ákvörðunarforsenda þess hvar ungar fjölskyldur velja sér framtíðarheimili. Íþróttamannvirkin eru í flestum tilvikum skólamannvirki sem íþróttahreyfingin – að mestu í sjálfboðavinnu – nýtir að afloknu skólastarfi til félagslegrar þjónustu fyrir samfélagið sem ella hefði þurft að standa fyrir með öðrum hætti og viðeigandi kostnaði. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þátttaka í skipulegu íþróttastarfi eykur lífsgæði ungmenna, minnkar líkur á neyslu áfengis, tóbaks og annarra skaðvalda - og gerir ungmenni skipulagðari og hæfari í námi. Ég er raunar alltaf jafn stoltur af því þegar ég les um afreksíþróttafólk sem dúxar í skóla. Þau tilvik eru mörg, og þau eru ekki tilviljanir. Hvað sem efnahagsástandi líður þá eru þetta verðmæti sem við höfum byggt upp til framtíðar hér á landi – efnahagsreikningur mannauðs – í samfélagsgerð sem er að mínu mati sú besta í heimi. Um þetta verðum við að standa vörð – og aldrei fremur en nú við endurreisn lífsgilda og efnahagslífs. Íþróttahreyfingin er stoð í því starfi – ekki styrkþegi. Að því er varðar hina hlið hins opinbera valds – ríkisvaldið – þá hafa líka áfangar náðst. Má einkum nefna fyrstu framlög ríkisvaldsins til sérsambanda ÍSÍ, sem fram að því höfðu verið fjárhagsleg eylönd. Í öðru lagi samning við menntamálaráðuneytið um sjóð til að létta undir kostnaði fjölskyldna og íþróttafélaga við ferðakostnað innanlands – sem reynst hefur ákaflega gott og vinsælt framtak, bæði meðal neytenda og almennings. 2


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Gerðir voru samningar um stigvaxandi framlög. Þetta eru sannarlega ekki stórar fjárhæðir í ríkisbúskapnum, en hverri einustu krónu er vel varið og vel tekið. Ég hygg að reynslan, nýting fjárins, viðtökur hreyfingarinnar og almennings geri ekkert annað en að staðfesta það að þetta voru réttar, skynsamar og löngu tímabærar samfélagslegar ákvarðanir. En betur má ef duga skal. Framhjá því verður ekki litið að ríkisvaldið á Íslandi á enn býsna langt í land með að styðja við starfsemi íþróttahreyfingarinnar hérlendis svo sambærilegt verði við nágrannaríki okkar. Íþróttahreyfingin er ekki að krefjast þess að vera sett framar brýnustu velferðarmálum né aðsteðjandi bráðavanda. En hreyfingin telur á annað hundrað þúsund félaga – og teljast langstærstu fjöldasamtök þjóðarinnar. Hafa framlög verið í hróplegu ósamræmi við fjölda félaga, samfélagslegt mikilvægi og yfirlýsingar stjórnvalda um verðmæti starfsins. Forysta ÍSÍ átti fundi með ráðherra í september síðastliðinn – í kjölfar árangursríkra Ólympíuleika. Var sóknarhugur beggja megin borðs, og framtíðarmarkmið háleit – hvort heldur laut að afreksmarkmiðum eða fjárhagslegum stuðningi - en 5 ára samningur um árleg 30 milljóna króna framlög ríkisins í afrekssjóð ÍSÍ rann einmitt út um síðastliðin áramót, eftir að hafa rýrnað um tæplega helming á þeim tíma vegna verðlagsbreytinga. Tæpum tveimur vikum síðar hrundi íslenskt bankakerfi. Er það hvorki okkar sök né höfum við viðeigandi úrræði til að tryggja rekstrarforsendur hreyfingarinnar í þeirri efnahagskreppu sem í kjölfarið hefur fylgt - enda hefur samhliða molnað verulega úr öðrum fjárhagsstoðum eins og fyrr segir. Íþróttahreyfingin er ekki að krefjast þess að vera undanskilin niðurskurði og hagræðingu í yfirstandandi efnahagsþrengingum – heldur er verið að vísa til þess hvernig spilin voru gefin úr stokknum í upphafi. Með því að frjálsum félagasamtökum var gert að afla sér fjár frá atvinnulífi og heimilum – á meðan sambærileg menningarstarfsemi er víðast að fullu á fjárlögum – þá verður einfaldlega að líta á heildarmyndina. Það hefur reyndar berlega komið í ljós að fjölmargir aðrir aðilar í samfélaginu – sumir meira og minna ríkisreknir – hafa á góðæristímanum nartað ríflega í þá köku atvinnulífsins umfram rekstur á fjárlögum, og ósjaldan haft betri árangur en íþróttahreyfingin. Stuðningur fyrirtækja við barna- og unglingastarf hefur ekki alltaf verið efstur á dagskrá – og sjaldan hlaupið á mörgum milljónum króna. Innan hreyfingarinnar hefur verið brugðist við þrengingum af ábyrgð og æðruleysi – en vissulega af ótta og óvissu um framtíðina. Mikilvægt er að gera 3


Þinggerð Íþróttaþings 2009

sér grein fyrir því að hvergi er farið með fé af jafnmikilli ábyrgð og innan íþróttahreyfingarinnar og hvergi margfaldast framlög jafn mikið og raun ber vitni í gegnum skipulag sjálfboðaliðastarfs. Fita til niðurskurðar er einfaldlega ekki til staðar. Þá er jafnframt mikilvægt að tryggja samfellu í okkar afreksstarfi. Árangri á þeim vettvangi verður ekki náð nema með langtímamarkmiðum, og sé rofið gat í samfellu þeirra markmiða má búast við að langur tími kunni að líða uns við komumst aftur á spor þess glæsilega árangurs sem varðaður hefur verið á undanförnum árum. Það má aldrei vanmeta mikilvægi þeirra fyrirmynda sem afreksstarfið skapar okkur – fyrir æsku landsins og allan almenning. Afrek okkar fremsta íþróttafólks - og auðvitað líka okkar frábæru listamanna - er líklega besta landkynning sem völ er á. Þetta eru ódýrustu sendiherrar lands og þjóðar. Íþróttir og listir eru að mínu mati raunar tvær hliðar á sama teningi sem nefnist menning - og falla undir sama ráðuneyti mennta- og menningarmála. Í fyrirspurnum ÍSÍ til framboða fyrir síðustu Alþingiskosningar mátti finna tilvísun í svörum um samanburð á listamannalaunum og framlögum til afreksfólks í íþróttum, og finnst mér það athyglisverður samanburður. Ég tel ástæðu til að óska félögum okkar í afrekssveit íslenskra listamanna til hamingju með nýsamþykkt lög um hækkun listamannalauna úr 1200 mánaðarlaunum í 1600. Þetta gefur íþróttahreyfingunni vonandi fyrirheit um sambærilegan skilning á framlögum til afreksstarfs í íþróttum. A-styrkur - hæsti styrkur - einstaklings hjá Afrekssjóði nemur að vísu ekki nema um 60% af mánaðrlegri fjárhæð listamannalauna, og enn erum við nokkuð fjarri því að ná 1.600 mánaðarlaunum á ári - því raunin er sú að einungis einn íþróttamaður er á A-styrk eins og er - spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir. Um næstu helgi eru aftur kosningar til Alþingis. Framkvæmdastjórn ÍSÍ sendi framboðum sem fyrr spurningar um afstöðu til íþróttamála, og liggja svör þeirra hér frammi. Hvet ég þingfulltrúa til að kynna sér rækilega þau svör - og beita sínum lýðræðislega rétti í þágu þessarar stærstu fjöldahreyfingar landsins. ---Á formannafundi ÍSÍ í nóvember síðastliðinn kynnti ég rækilega fyrir ykkur mína framtíðarsýn á þau viðfangsefni sem liggja fyrir á næstu starfsárum - og tel ekki tilefni til endurtekningar hér. Fékk ég góð viðbrögð við þeim áherslum og get vart túlkað öðruvísi en svo að samhugur hafi verið um þann farveg.

4


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Framtíðarsýn ÍSÍ byggir að stóru leyti á íþróttalegum markmiðum sambandsaðila. Það er hlutverk ÍSÍ að tryggja umgjörð sem treystir þær stoðir sem grundvalla árangur í því starfi, hvort sem hann lýtur að fjölgun iðkenda, fjölgun íþróttagreina eða íþróttalegum árangri í formi bættra afreka. Í venjulegu árferði eiga markmið eins tímabils að marka nýjan upphafspunkt þess næsta. En mikilvægt er þegar tekin er ákvörðun um verkefni eða þátttöku í verkefni að menn spyrji sig ávallt hvort það rúmist innan hlutverks og tilgangs hreyfingarinnar – og geri sér jafnframt grein fyrir því hvort um er að ræða kjarnastarfsemi eða þróunarstarfsemi. Þróunarstarf er mikilvægt, en það er engu að síður nauðsynlegt að gera greinarmun á þessu tvennu. Málið snýst um að hafa yfirsýn og burði til að forgangsraða ef úrræði eru ekki til staðar. Ef umgjörð íþróttaviðburðar er ekki í lagi – mannskap skortir á ritaraborð eða til dómgæslu – þá er ekki skynsamlegt að leggja áherslu á skemmtiatriðin í hálfleik. Það er ávallt hlutverk Íþróttaþings að meta mörk okkar starfsemi. Íþróttaleg markmið eiga að vera okkar leiðarljós – og við megum aldrei missa sjónar af því hverjir okkar skjólstæðingar eru, eða hverjir þeirra hagsmunir eru. Forseti og stjórn ÍSÍ fá býsna mikinn fjölda beiðna um samstarf og þátttöku í góðum verkefnum. Því miður hefur þurft að hafna mörgum slíkum beiðnum á grundvelli fyrrgreindrar forgangsröðunar. Forgangsröðun viðfangsefna mun líklegra verða enn mikilvægari nú þegar kreppir að úrræðum hreyfingarinnar. ---Ég var mikið spurður að því þegar ég tók við þessu embætti hver afstaða mín væri til sameininga innan hreyfingarinnar. Mín afstaða var þá – og er enn – að ekki sé vænlegt að þvinga fram sameiningar í starfsemi frjálsra félagasamtaka. Skynsamlegra sé að meta hagkvæmni og samlegðaáhrif út frá hagsmunum skjólstæðinga og færa þann boðskap inn í umræðuna af virðingu við alla aðila og öll sjónarmið. Þetta virðist hafa orðið raunin ef marka má sameiningar innan héraðssambanda og íþróttabandalaga á undanförnum árum. Þannig hefur HSÞ sameinast UNÞ, viðræður standa yfir um sameiningu íþróttahéraða innan sveitarfélagsins Fjallabyggðar, viðræður hafa staðið um inngöngu aðildarfélaga USVS í HSK og ennfremur hafa átt sér stað viðræður um aukið samstarf og sameiningu hjá UDN við nágranna sína. Allar þessar sameiningar og viðræður hafa farið fram á forsendum sambandsaðila og með hagsmuni skjólstæðinganna að leiðarljósi. Hjá ÍSÍ höfum 5


Þinggerð Íþróttaþings 2009

við tekið þá afstöðu að styðja við slíkar breytingar bæði skipulagslega og fjárhagslega, og auðvelda samlegðaráhrifum að skila sér til grasrótarinnar. Skylda til slíks er ríkari nú á tímum fjárhagsþrenginga. En skylda til að huga að samlegðaráhrifum hvílir ekki eingöngu á sambandsaðilum og grasrót. Umræður urðu fyrir nokkrum árum um sameiningu hjá þeim samtökum sem sinna yfirstjórn íþrótta- og æskulýðsmála í landinu. Margt var þar sagt af tilfinningahita, og eflaust hefði mátt sýna andstæðum sjónarmiðum beggja megin meiri virðingu. Rykið hefur nú sest eftir þá umræðu og nýtt fólk komið til forystu. Ytri aðstæður – ekki síst efnhagskreppa – hafa síðan fært ný sjónarmið inn í umræðuna. Húsnæðismál beggja samtaka þurfa endurskoðunar og framtíðarlausna við, og skipurit samtakanna hafa fléttast meira saman á undanförnum árum með auknum þunga almenningsíþrótta innan ÍSÍ og vel heppnaðra íþróttamóta UMFÍ fyrir ungmenni á hverju sumri. Allir skjólstæðingar UMFÍ eru einnig skjólstæðingar ÍSÍ. Ég leyfi mér því ekki að trúa að sjónarmið sem lúta að öðru en hagsmunum okkar skjólstæðinga hindri aukið samstarf. Það voru því sannarlega sár vonbrigði að heyra af ítrekaðri synjun á inngöngu aðila sem uppfyllir öll skilyrði. Ég álykta að þar hafi menn einfaldlega gert mistök, enda í mötsögn við eðli frjálsra félagasamtaka - slíkt er hvorki ungmennafélagsandi né Íslandi allt. Það er svo aftur misskilningur hjá þeim sem halda fram að ungmennafélagsandinn sé gamaldags. Hans er líklega aldrei meiri þörf en nú um stundir þegar taumlaus efnishyggja og siðrof hefur velt samfélagi okkar á hliðina. Ungmennafélagsandinn lifir góðu lífi innan íþróttahreyfingarinnar, auðvitað sem systurhugtak ólympíuhugsjónarinnar. Hafa þau íþróttalegu gildi lifað þegar stjórnmálastefnur hafa hrunið. Samstarf okkar við UMFÍ hefur verið með miklum ágætum undanfarin ár, og tel ég að gott fólk hafi valist til starfa undir forystu Helgu Guðjónsdóttur. Það verður ávallt skylda okkar gagnvart skjólstæðingum hvors um sig að eiga góð samskipti. Hvort þau samskipti feli í sér umræður um aukið samstarf eða samruna af einhverju tagi er nokkuð sem ég árétta að eigi að snúast um hagsmuni skjólstæðinganna. ---En með sama hætti þurfum við á vettvangi ÍSÍ ávallt að velta fyrir okkur mörkum okkar eigin starfsemi. Það er eitt af lögbundnum hlutverkum framkvæmdastjórnar ÍSÍ að vernda sjálfstæði íþróttahreyfingarinnar. Slíkt

6


Þinggerð Íþróttaþings 2009

sjálfstæði byggir ekki eingöngu á fjárhagslegum grunni, heldur ekki síður á vitund um íþróttalega kjarnastarfsemi. Ég hef stundum sagt að íþróttahreyfingin sé í sjálfu sér ekki með skilgreind markmið sem forvarnarsamtök, en hinsvegar er þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi besta forvörn sem völ er á. Við erum ekki umhverfissamtök, en við reisum íþróttalegan árangur á virðingu við umhverfissjónarmið á þeirri vegferð. Við erum ekki friðarhreyfing – en keppni í íþróttum hefur engu að síður stuðlað að meiri friði í heiminum en nokkur önnur starfsemi. Dæmi eru um að stríðandi þjóðir geri vopnahlé til að sameinast í íþróttakeppni. Íþróttir eru stéttlaust samfélag. Í íþróttum er ekki spurt hverra manna þeir eru, við hvað þeir starfa, hvort þeir eru efnaðir eða fátækir, af hvaða kyni eða kynþætti þeir eru, hvaða trúarbrögð eða stjórnmálaskoðanir þeir aðhyllast. Hver einstaklingur nýtur virðingar á grundvelli tæknilegrar getu – persónuleika við að fara með þá hæfileika – og stoltsins við að bera fána þjóðar eða félags á brjóstinu til þátttöku, árangurs og afreka. Við vernd sjálfstæðis hreyfingarinnar er þannig afar mikilvægt að virða hlutleysi gagnvart stjórnmálum, trúarbrögðum og ólíkum menningarheimum. Staðfesta í því að draga mörkin við íþróttastarf er grundvöllur þess að friður, mannréttindi, betra mannlíf og jafnrétti verði fremur að afleiðingum okkar íþróttalegu kjarnastarfsemi. Ólympíuleikar eru ljósasta dæmið um freistingar utanaðkomandi aðila við að príla upp á bak þeirrar athygli sem íþróttir njóta. Íþróttahreyfingin verður að vera trú sínum gildum og íþróttalegu kjarnastarfsemi – og getur í sjálfu sér aldrei opnað aðrar dyr án þess að ógna framtíðartilveru sinni. Annað svið sem íþróttahreyfingin þarf að meta mörk sinnar starfsemi er t.d. hvort áhersla á lýðheilsu og almenningsíþróttir hafi aukist of mikið eða hvort þróunarstarf okkar á sviði forvarna og samfélagsþjónustu hafi gengið framar hinni hreinræktuðu íþróttastarfsemi. Að vel ígrunduðu máli tel ég svo ekki vera. Sú skoðun mín hefur styrkst að samspil og gagnkvæmur stuðningur almenningsíþrótta- og afrekssviðs ÍSÍ sé góð vinningsformúla. Aukin vitund almennings um íþróttir stuðlar bæði að aukinni þátttöku sem og áhuga á að fylgjast með. Velvilji almennings er góður grundvöllur þess að óska aukinna framlaga til starfsins úr opinberum sjóðum. Almenningur er andlag þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem hvetur atvinnulífið til samstarfs við íþróttahreyfinguna, og hinn sami almenningur myndar fjölskyldur og heimili landsins sem leggur okkur til skjólstæðingana. 7


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Viðburðir á borð við kvennahlaup, Lífshlaupið, Hjólað í vinnuna, Göngum í skólann, stafgöngukennsla og íþróttir eldri borgara – svo dæmi séu tekin – hafa slegið í gegn hjá þjóðinni, og smám saman myndað sáttmála um að hreyfing og hollusta séu æskileg – og að ÍSÍ sem forystuafl hinnar frjálsu íþróttahreyfingar í landinu sé kjörinn samstarfsaðili til að stuðla að allsherjarhreyfingu og nýjum lífsstíl. ÍSÍ hefur þannig tekið forystu sem leiðandi aðili á sviði lýðheilsu í landinu – í góðu samstarfi við aðila á borð við heilbrigðisráðuneyti og lýðheilsustöð. Á sama tíma er mikilvægt að gera sér grein fyrir þeirri staðreynd að pýramídalagað stjórnskipulag sjálfboðaliðanna hefur á heilli öld þróast og grundvallast á afreksmiðuðu starfi – þjónusta við lýðheilsusjónarmið og forvarnir grundvallast á sértæku endurgjaldi fyrir þá þjónustu. Byggir þessi þjónusta því beint og óbeint á samstarfi og virðingu við afreksstarf íþróttahreyfingarinnar. Forvarnir ber að líta á sem fjárfestingu en ekki útgjaldalið. Sagt er að eitt gramm af forvörnum verði að tonni af árangri. Eitt prósent sparnaður í heilbrigðiskerfi okkar er um það bil 3-4 sinnum meira en ríkisvaldið leggur til íþróttahreyfingarinnar á fjárlögum. Hluti af þessu er að huga að fyrirkomulagi stjórnenda og sjálfboðaliðastarfs – sem hefur verið eitt helsta gæluverkefni þess sem hér stendur undir merkjum stjórnendaþróunar. Felur það fremur í sér hugafarsbreytingu en einstök átök eða aðgerðir. Við höfum yfir að ráða vel útfærðu kerfi við að finna og þjálfa keppendur. Við höfum sambærilegt skipulag til að laða að og þjálfa hæfa dómara og þjálfara. En við höfum ekkert slíkt fyrirkomulag varðandi þá sem raunverulega reka starfsemina – stjórnendur og sjálfboðaliða – hvorki til að finna, hvetja eða mennta með fullnægjandi hætti. Án þeirra verður allt okkar starf á sandi byggt. Ég á mér þann draum að nýr viðbótarvalkostur blasi við þeim ungmennum sem einhverra hluta vegna falla brott frá iðkun íþrótta á unglingsaldri – að taka þátt í starfinu sem hluti af hópnum á félagslegum grundvelli. Að okkur beri gæfa til að virkja fleiri vannýtta hópa til félagsstarfa – og að við sýnum störfum þeirri meiri skilning, þakklæti og stuðning. Angi af þessu er fyrirmyndarfélagskerfi fræðslusviðs ÍSÍ. Er þar um að ræða öflugt tæki til að ná fram jákvæðum markmiðum í stjórnun, skipulagi og starfsemi íþróttafélaga með hvatningu og frumkvæði. Kerfið felur í sér gagnsærra stjórnskipulag og skipulegri umgjörð t.a.m. barna- og unglingastarfs.

8


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Í stað þess að beita boðum og bönnum þá hefur skipulag sem virðir t.d. jafnrétti kynja og umhverfismál náðst með hvatningu. Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að vera viðstaddur afhendingu þessara viðurkenninga og upplifa stolt stjórnarmanna í kjölfar þeirrar sjálfsskoðunar og sjálfsnámskeiðs sem felst í því að uppfylla skilyrði þess að verða fyrirmyndarfélag. Þar myndast verðmætur mannauður sem vert er að hlúa að. Mörg sveitarfélög hafa reyndar haft skilning á því að þau félög sem uppfylla þessi skilyrði eru samfélagslega verðmætari, og eru mörg sveitarfélög farin að styrkja þau félög ríflega umfram önnur. ----Góðir þingfulltrúar. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka stjórnvöldum, ríki og sveitarfélögum, fyrir gott samstarf á því kjörtímabili sem nú er að líða. Ég vil þakka Forseta Íslands – verndara íþróttahreyfingarinnar – fyrir gott samstarf og stuðning við okkar málefni. Ég vil þakka þeim tveimur menntamálaráðherrum sem ég hef átt samstarf við á kjörtímabilinu, þeim Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Katrínu Jakobsdóttur, fyrir góð samskipti. Ég vil þakka meðlimum Ólympíufjölskyldunnar fyrir myndarlegan stuðning og gott samstarf, en sum þeirra fyrirtækja berjast nú fyrir tilveru sinni. Ég hef starfað með tveimur framkvæmdastjórum hjá ÍSÍ á kjörtímabilinu, þeim Stefáni Konráðssyni og Líneyju Rut Halldórsdóttur, og vil ég þakka þeim afar náið og gott samstarf sem felur í sér að jafnaði nokkurra klukkustunda samskipti á hverjum degi. Þá vil ég að lokum þakka frábæru samstarfsfólki innan framkvæmdastjórnar og skrifstofu ÍSÍ fyrir ánægjulegar stundir og árangursríkt samstarf. Það er raunar ótrúlegt að hið mikla umfang ÍSÍ sem sjá má í fyrirliggjandi ársskýrslu skuli vera rekið með innan við 10 stöðugildum starfsmanna - auk sjálfboðastarfsins. Íslensk íþróttahreyfing þarf ekki að hafa áhyggjur með þeim mikla mannauði sem þar er að finna. Ég segi 69. Íþróttaþing sett.

2. Kjörnir fyrsti og annar þingforseti Tillaga gerð um Alfreð Þorsteinsson og Stein Halldórsson. Samþykkt samhljóða.

9


Þinggerð Íþróttaþings 2009

3. Kjörnir fyrsti og annar þingritari Tillaga gerð um Viðar Sigurjónsson og Jónu Hildi Bjarnadóttur. samhljóða.

Samþykkt

Þingforsetar og þingritarar tóku þegar til starfa.

4. Ávörp gesta. Ávarp forseta Íslands, herra Ólafs Ragnars Grímssonar Forseti ÍSÍ, Fyrrum forsetar, Góðir þingfulltrúar. Þegar forystusveit íþróttafélagana kemur saman til að móta stefnu og starfshætti er vert að hugleiða hvernig nýliðin misseri hafa varpað óvenjulega skýru ljósi á þann sess sem íþróttirnar skipa í hugum og hjörtum Íslendinga, daglegri önn og á hátíðarstundum, en líka í erfiðleikum og þjóðarvanda. Við urðum á liðnu ári vitni að því hvernig íþróttahetjur, afreksfólk á keppnisvelli, sameinaði landsmenn á sigurstundu, náði að skapa eina þjóðarsál á slíkan hátt að talið verður til stórtíðinda svo lengi sem Íslendingar rekja sína sögu. Íþróttahreyfingin færði okkur í fyrra einhverjar stærstu sigurstundir sem Íslendingar hafa lifað frá lýðveldisstofnun. Landslið karla í handboltanum og kvenna í knattspyrnunni sýndu hvað liðsheildin megnar á góðum degi. Við höfum einnig á tímum kreppu og hruns í efnahagslífi fundið hvernig hinn daglegi vettvangur íþróttastarfsins veitir fjölskyldum nokkurt skjól, færir efnivið í gleðistundir, eykur þrek í glímunni við erfiðleika, úthald þegar þrautir vaxa, vekur von í brjósti þar sem áður ríkti dapurleiki. Þjálfunin er, eins og við vitum, nauðsynleg hverjum manni, hvort heldur það er röskleg ganga í morgunsárið, boltaleikur með félögunum, sundsprettur í hádeginu, skíðaferð með fjölskyldunni – og íþróttafélögin hafa, sum jafnvel í heila öld, verið vettvangur samstarfs og þroska, uppeldisstöðvar fyrir þátttöku á vettvangi lýðræðis og samfélags. Í reynd er íþróttastarfið svo samofið gerð þjóðfélagsins að við getum varla hugsað okkur það Ísland sem okkur er kært án þess að framlag íþróttanna skipi þar veglegan sess. Myndin af tugþúsundum á Arnarhóli þegar þjóðin fagnaði silfurliði mun um aldur og ævi reynast eitt sterkasta táknið um samstöðu Íslendinga, vitnisburður um hvernig íþróttirnar ná að móta sjálfsmynd og sigurvilja heillar þjóðar. Sú mynd er okkur dýrmætt veganesti þegar áföllin í efnahagslífi móta verkefni dagsins og setja starfsemi ykkar þrengri skorður en áður var. Samt er rétt að hafa í huga að byggðarlögin búa enn að fjölþættri og glæsilegri aðstöðu sem íþróttastarfinu hefur hlotnast á undanförnum áratugum. Því eru 10


Þinggerð Íþróttaþings 2009

víðast hvar góð skilyrði til að gera íþróttastarfið að öflugum þætti í viðspyrnunni sem þjóðin þarf nú á að halda. Á tímum atvinnuleysis, tekjutaps og eignamissis er áríðandi að fjölskyldurnar, hinir fullorðnu, börnin og unglingarnir, geti sótt gleði og kraft í íþróttaiðkan, félagsskapinn, sjálfboðastarfið, hvatningu á keppnisleik. Það er verðugt verkefni á þessum tímum að leita nýrra leiða í íþróttastarfi til að virkja fjöldann sem nú þarf á hjálp og þjálfun að halda – finna leiðir sem ekki krefjast mikilla útgjalda en fela í sér boð um þátttöku fyrir sem flesta, jafnvel bara í kraftgönguferðum um náttúruna, boltaleikjum fyrir fjölskylduna, helgarmótum og kvöldæfingum þar sem hugmyndin er einfaldlega að vera með, líkt og er leiðarljós hjá Special Olympics og reyndar líka á unglingalandsmótum UMFÍ sem lengi hafa verið sannkallaðar fjölskylduhátíðir. Á þessu ári og hinum næstu þarf þjóðin á öflugri þátttöku íþróttafélagana að halda í hinu víðtæka endurreisnarstarfi sem framundan er, þarf að tileinka sér lífsgildin, hugsjónirnar og samstöðuna sem löngum hafa verið burðarásar í árangri félaganna í byggðum landsins, hverfum bæja og borgarinnar, læra hvernig hægt er að ná árangri, hver og einn, um leið og sérhver liðsmaður styður hina. Þjóðin sem hyllti íþróttahetjur á ágústkvöldi þarfnast nú öflugs liðsinnis hreyfingarinnar – mun fyrr ná á ný auknu afli með sóknaranda og lærdóma íþróttastarfsins að leiðarljósi. Hin félagslega ábyrgð sem jafnan hefur einkennt starf ykkar mun reynast okkur öllum góður grunnur. Með þeim orðum færi ég íþróttahreyfingunni í senn alúðarþakkir og heillaóskir. Ávarp menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur Forseti Íslands, ráðherrar, þingmenn, forseti ÍSÍ og aðrir góðir gestir. Það er mér sönn ánægja að vera hér með ykkur í dag, fulltrúum þessarar mikilvægu fjöldahreyfingar. Við stöndum í erfiðum sporum, íslenska þjóðin. Áföll haustsins og vetrarins eftir alla þá þenslu sem ríkti síðustu árin hafa reynt á okkur og mun reyna á okkur. Tveir atburðir í íþróttalífinu standa líklega upp úr á síðasta ári, annars vegar silfrið í Kína og hins vegar glæsilegur árangur íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, auk að sjálfsögðu óteljandi persónulegra sigra. Það hefur hins vegar ekki verið síður ánægjulegt að sjá í vetur þær styrku stoðir sem íslenskt samfélag hefur þrátt fyrir öll áföll. Þar er ekki síst ánægjulegt að vita af þeirri sterku hreyfingu sem íþróttahreyfingin er og þau miklu og mannbætandi áhrif sem hún hefur staðið fyrir alla tíð og er samfélaginu gríðarlega mikilvæg á erfiðum tímum eins og núna. Íþróttir eru hluti af lífi marga og ÍSÍ hefur ýtt undir þátttöku fullorðinna á markvissan hátt með verkefnum eins og Hjólað í vinnuna og Lífshlaupinu. 11


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Afreksíþróttir fá jafnan mesta athygli fjölmiðla og markaðar og hefur áherslan á þær jafnvel aukist síðustu mánuðina og árin. Þrátt fyrir það hefur íþróttahreyfingin lagt mikla, og ég leyfi mér að segja, megináherslu á þann þátt sem snýr að þátttöku unglinga og barna í íþróttum. Þar hefur fólk uppskorið gott samfélag en kannski litla athygli. Það er í raun áhyggjuefni hversu lítið er fjallað um almenningsíþróttir í fjölmiðlum og þá ekki síður íþróttir barna og unglinga. Nú stendur fyrir dyrum endurskoðun á þjónustusamningi ráðuneytisins við Ríkisútvarpið og tel ég brýnt að litið sé sérstaklega til skyldna Ríkisútvarpsins á þessu sviði eins og öðrum þeim sem snúa að fræðslu og menningu. Það má kannski orða það svo að þessi ríkisstjórn og hin næsta þurfi að huga vel að vörninni og byggja upp markvissar sóknir. Mikilvægasti hluti þessarar varnarbaráttu er að verja barna- og unglingastarfið. Við munum hins vegar gefa okkur tíma til að undirbúa jarðveginn fyrir umbætur og þróun og móta, í nánu samstarfi við hreyfingar eins og ÍSÍ, stefnuna fyrir framtíðina. Þær tillögur sem liggja fyrir þessu þingi bera þess glöggt merki að íþróttahreyfingin hyggur áfram á umbætur í íþróttamálum þjóðarinnar og slær þar ekkert af. Nú stendur yfir endurskoðun samninga ráðuneytisins við ÍSÍ: samning um stuðning við sérsambönd, samning um Afrekssjóð ÍSÍ og samning um Ferðasjóð ÍSÍ. Ég geri mér fyllilega grein fyrir mikilvægi þessara samninga fyrir íþróttahreyfinguna og um leið allt samfélagið. Það eru auðvitað erfiðir tímar framundan á efnahagssviðinu en ég legg mikla áherslu, mikla áherslu, á að við reynum að koma sem best til móts við þarfir íþróttahreyfingarinnar með sitt mikilvæga hlutverk í uppbyggingu samfélagsins. Ég tel nauðsynlegt og mun leggja allt kapp á að ráðuneytið og forysta ÍSÍ hafi með sér náið samstarf um framhaldið. Íþróttahreyfingin hefur á síðustu árum og áratugum sýnt mikla samfélagslega ábyrgð. Í íþróttahreyfingunni hefur komið saman stór þverskurður af íslensku þjóðinni og lagt sitt af mörkum í þágu afreks- og almenningsíþrótta. Ég legg mikla áherslu á að áfram sé hlúð að þessari mikilvægu stoð og er þess fullviss að íslenska þjóðin mun njóta þess mikla starfs sem fer fram innan vébanda ÍSÍ. Ég þakka fyrir mig og vona að þið eigið góðar og skapandi stundir á Íþróttaþingi 2009. Ávarp formanns UMFÍ, Helgu G. Guðjónsdóttur Forseti Íslands, menntamálaráðherra, forseti Íþrótta og ólympíusambands Íslands, þingforseti, þingfulltrúar og góðir gestir. Ég vil fyrir hönd Ungmennafélags Íslands þakka fyrir það ágæta boð að vera með ykkur hér í dag. Ég flyt ykkur kveðjur frá framkvæmdastjóra og stjórn UMFÍ með þakklæti fyrir gott samstarf. Það verður sannkallað Landsmótssumar hjá Ungmennafélagshreyfingunni í ár. 12


Þinggerð Íþróttaþings 2009

26. Landsmót UMFÍ verður haldið á Akureyri dagana 9. – 12. júlí nk. Mótið er afmælismót þar sem 100 ár eru liðin frá því að fyrsta mótið var haldið á Akureyri árið 1909. Mikil vinna hefur verið í gangi vegna mótsins og metnaður er mikill hjá mótshöldurum að gera mótið sem glæsilegast. Á Akureyri eru til staðar glæsileg íþróttamannvirki og þegar flautað verður til leiks á Landsmótinu verður glæsilegur leikvangur, frjálsíþrótta- og knattspyrnuvöllur ásamt stúku á Þórssvæðinu tekinn í notkun. 12. Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Unglingalandsmótin eru búin að festa sig í sessi sem íþrótta og fjölskylduhátíð, heilbrigður og skemmtilegur viðburður sem stendur yfir mestu ferðahelgi landsins, verslunarmannahelgina. Mótin eru forvörn af bestu gerð því þau eru vímuefnalaus. Þátttaka á báðum mótunum er heimil öllum sambandsaðilum UMFÍ og öllum íþróttabandalögum ÍSÍ. Ég vil því nota þetta tækifæri og hvetja sem flesta til að mæta á mótin, taka þátt eða einfaldlega upplifa þann anda sem einkennir mótin. Það var stórt ár hjá Íþrótta og ólympíuhreyfingunni á síðasta ári enda Ólympíuár. Ánægjulegt var að fylgjast með hversu vel var staðið að undirbúningi og þátttöku Íslands á leikunum og þeim árangri sem náðist og mun falla okkur Íslendingum seint úr minni eins og forseti ÍSÍ kom svo vel inn á í ávarpi sínu. En það hefur einnig verið gaman að fylgjast með öðru starfi Íþrótta og ólympíuhreyfingarinnar. Af mörgu sem hreyfingin hefur unnið að undanfarin ár má nefna útgáfu á ýmsu forvarnar og fræðsluefni sem er mjög áhugavert og metnaðarfullt, almenningsíþróttaverkefnin, ferðasjóð ÍSÍ og aukið fjármagn til sérsambanda. Fyrir þinginu liggja margar ályktanir og tillögur sem m.a. annars koma inn á þau atriði sem ég nefni hér á undan en einnig ýmislegt annað áhugavert sem sýnir hversu meðvituð íþróttahreyfingin er um það umhverfi sem hún starfar í. Fyrir allt þetta góða starf ber að þakka því ágæta fólki sem starfar hjá Íþrótta og ólympíusambandinu fyrir vel unnin störf sem við hin njótum öll góðs af. Í gegnum tíðina hafa Ungmennafélag Íslands og Íþrótta og ólympíusamband Íslands haft skiptar skoðanir á málefnum sem varða hreyfingarnar en ég fullyrði að samstarf þessara hreyfinga er gott. Ég vil nefna það sérstaklega hér að Ungmennafélag Íslands hefur gengið frá samstarfssamningum við FRÍ, KSÍ, KKÍ og LH um aðkomu þeirra að Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki.

13


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Það er hlutverk ungmennafélagshreyfingarinnar, að starfa við hlið ÍSÍ að framgangi íþrótta í landinu og samningarnir við þessi fjögur sérsambönd eru liður í því að auka hróður íþrótta viðkomandi sérsambanda til viðbótar við unglingalandsmótið sem eitt og sér eykur íþróttastarf því þar mega allir taka þátt, óháð áður unnum afrekum. Ungmenna- og íþróttahreyfingarnar hafa verið hvattar til að halda sínu striki og helst bæta í, í skugga þeirra alvarlegu áfalla sem hafa dunið yfir þjóðina síðustu mánuði. Við munum axla ábyrgð og láta hvergi deigan síga við að slá skjaldborg utan um það mikilvæga starf sem við erum að vinna með aðstoð þeirra þúsunda sjálfboðaliða sem við eigum í okkar röðum. En til þess að geta staðið fyrir því mikla og góða starfi sem hreyfingarnar standa fyrir þá þurfum við áfram að njóta þess öfluga stuðnings sem við höfum notið. Stjórnvöld á hverjum tíma með menntamálaráðherra í fararbroddi ásamt mörgum fyrirtækjum hafa veitt hreyfingunum mikinn fjárhagslegan stuðning og með því móti viðurkennt mikilvægi þess starfs sem þær standa fyrir og vinna að. Við erum þakklát fyrir þennan stuðning, hann er okkur lífsnauðsynlegur og því viljum við hvetja til þess að hann verði áfram til staðar og að skerðingin verði sem minnst þrátt fyrir andbyrinn. Góðir félagar, ég óska ykkur málefnalegs og góðs þings. Það er von mín og trú að ungmenna- og íþróttahreyfingin geti unnið saman að sameiginlegum verkefnum á komandi árum. Að við náum í ljósi fjölbreytileika í starfi, ólíkra sjónarmiða og markmiða að stuðla að mörgum spennandi verkefnum og viðburðum á þeim sviðum sem við störfum á. Við erum að vinna gott starf og það skiptir máli fyrir land og þjóð. Til hamingju með góða stöðu íþróttahreyfingarinnar, þá glæsilegu umgjörð sem hér er og gangi ykkur vel í störfum ykkar og munum að þrátt fyrir mótvind augnabliksins er gott að vera Íslendingur. Íslandi allt. Ávarp Kjartans Magnússonar formanns Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur Forseti Íslands Forseti ÍSÍ Menntamálaráðherra Formaður UMFÍ Ágætu þingforsetar og þingfulltrúar.

14


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Sérstaklega vil ég bjóða þá þingfulltrúa sem hafa búsetu utan Reykjavíkur velkomna til borgarinnar og vona að þeir eigi hér gott þing um helgina og skemmti sér vel eins og menn eiga alltaf að gera þegar þeir koma til Reykjavíkur. Við vitum öll hvaða málefni hefur borið hæst í vetur og mun gera á næstu misserum, þ.e. efnahagsástandið og hvernig brugðist verður við því, ekki bara sem þjóð heldur líka sem samtök og einstaklingar. Það er einmitt ánægjulegt hvernig íþróttahreyfingin hefur brugðist við og um leið kennt okkur hinum hvernig bregðast skuli við, ekki bara núna heldur endranær. Þar má t.d. nefna hin góðu gildi um drengilega keppni, að leggja sig allan fram, að standa saman, leika ekki gegn eigin marki og síðast en ekki síst að gefast aldrei upp. Mér hefur fundist aðdáunarvert hvernig íþróttahreyfingin hefur brugðist við þessu ástandi. Ég álít að af mörgu leyti hafi það verið tímamótafundur sem haldinn var í Laugardalnum í byrjun vetrar af íþróttahreyfingunni þar sem rætt var um viðbrögð við efnahagsástandinu. Meginniðurstaða þess fundar var að verja barna- og unglingastarfið. Fundurinn sendi skýr skilaboð um það að það væri það mikilvægasta, það mætti síst verða sá liður í starfinu sem efnahagsástandið bitnaði á. Íþróttahreyfingin brást þ.m. fyrr við kreppunni en margur annar og brást jafnframt afar vel við. Niðurstöður þessa fundar höfðu mikil áhrif inn í íþróttaumræðuna hjá Reykjavíkurborg og örugglega hjá fleiri sveitarfélögum. Við hjá Reykjavíkurborg höfðum þessar niðurstöður fundarins mjög að leiðarljósi í allri vinnu t.d. við fjárhagsáætlun. Það starf sem íþróttahreyfingin innir af hendi í þjóðfélaginu fyllir mig bjartsýni á framtíðina og ég lít á það starf sem afar dýrmætan lið fyrir þjóðfélag okkar. Við sjáum það hjá Reykjavíkurborg að áhugi á íþróttum í vetur hefur í raun verið að aukast, við sjáum t.d. stóraukna aðsókn í sundlaugar borgarinnar, aukna aðsókn á íþróttaviðburði, jafnvel meiri þátttöku í skíðalöndum Reykvíkinga þar sem líklegt má telja að hluti þeirra sem áður fór í skíðaferðir til útlanda renni sér nú á heimaslóðum. Ýmsar tölur benda til þess að íþróttamannvirki Reykjavíkurborgar hafi verið betur nýtt en oft áður. Við hjá Reykjavíkurborg viljum samt reyna að nýta mannvirkin ennþá betur, erum á stöðugri vakt eftir hættumerkjum og reynum að hvetja ungviðið og í raun alla til að taka þátt í uppbyggjandi starfi og þar skipar íþróttastarfið að sjálfsögðu vænlegan sess. Ég vil í þessu sambandi þakka íþróttafélögunum fyrir þeirra mikla framlag í vetur. Félögin hafa m.a. verið að koma sér upp svokölluðum „virknisetrum“ þar sem fólk er hvatt til að koma saman í íþróttahúsunum og stunda íþróttir sér að kostnaðarlausu. Þetta álít ég afar dýrmætt og ég hef þegar heyrt í nokkrum atvinnulausum aðilum sem segja þetta skipta þá miklu máli, að geta haft þessa rútínu á deginum að stunda íþróttir. Þar er jafnvel um að ræða fólk sem ekki hefur lagt stund á íþróttir til margra ára. Þrátt fyrir kreppu þá munu borgaryfirvöld gera það sem í þeirra valdi stendur til að efla íþróttastarf og halda áfram að reisa íþróttamannvirki. Einhverjum mannvirkjum mun væntanlega seinka en lögð verður áhersla á ódýrari mannvirki í staðinn. Það er von mín að hin svokallaða kreppa muni valda þenslu bæði í huga okkar og vöðvum, að við munum gefa okkur sjálfum og fjölskyldum okkar 15


Þinggerð Íþróttaþings 2009

meiri tíma. Mér fannst ánægjulegt að heyra ávarp formanns UMFÍ, ég á mér þann draum að það muni verða stóraukið samstarf á milli ÍSÍ og UMFÍ, jafnvel sameining með hvaða hætti sem það verður. Ég álít að hvor samtökin fyrir sig hafi mikið að gefa hinu. Ég vil að endingu þakka mjög gott samstarf borgarinnar og ÍSÍ, ég óska þingfulltrúum góðs gengis um helgina, borgin mun mjög líta til þess sem hér verður samþykkt og hafa það að leiðarljósi í sínu starfi eins og áður. Ég óska ykkur góðs gengis og þakka fyrir mig. Ragnheiður Gröndal flutti tvö lög og lék undir á flygil við afar góðar undirtektir þingfulltrúa. Þingforseti gerði 10 mínútna hlé á þinginu. Þingforseti gerði grein fyrir nokkrum praktískum þáttum. Kynnti notkun hvítra og svartra spjalda í þinggögnum, minnti á kvöldverð á laugardagskvöldinu, og minnti á kjör í framkvæmdastjórn.

5. Álit kjörbréfanefndar Þingforseti bað formann kjörbréfanefndar, Frímann Ara Fredi nandsson að koma í pontu og gera grein fyrir störfum nefndarinnar. Frímann Ari fór yfir niðurstöður nefndarinnar. Alls 27 sérsambönd áttu seturétt með 137 þingfulltrúum og voru fulltrúar 26 sérsambanda mættir, alls 93 fulltrúar sem gátu farið með 124 atkvæði. Seturétt frá 26 héraðssamböndum og íþróttabandalögum áttu 137 fulltrúar og voru 114 mættir frá 22 samböndum og gátu þeir farið með 132 atkvæði. Alls voru því mættir 207 fulltrúar af 274. Samþykkt samhljóða.

6. Heiðranir Forseti ÍSÍ, Ólafur Rafnsson veitti þremur aðilum heiðurskrossa ÍSÍ fyrir framúrskarandi störf í þágu íþróttahreyfingarinnar. Heiðurskross ÍSÍ er æðsta heiðursmerki sem ÍSÍ veitir. Ólafur bað Líneyju Rut Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ og Lárus Blöndal varaforseta ÍSÍ að aðstoða við afhendingu þessara heiðursmerkja. Heiðurskross ÍSÍ hlutu þau Björg Blöndal, Logi Kristjánsson og Unnur Stefánsdóttir. Tillaga til þingsins um nýja heiðursfélaga ÍSÍ. Ólafur Rafnsson las upp tillögu um Alfreð Þorsteinsson, Hafstein Þorvaldsson, Lovísu Einarsdóttur og Valdimar Örnólfsson fyrir frábær störf að íþróttamálum. Þingheimur samþykkti tillöguna með lófaklappi og komu þessir aðilar á svið og tóku við blómum auk skjals sem staðfestingu á því að þau væru orðnir Heiðursfélagar ÍSÍ. Ólafur Rafnsson bað þingfulltrúa að rísa úr sætum sínum og hylla nýja heiðursfélaga sem þingfulltrúar gerðu. 16


Þinggerð Íþróttaþings 2009

7. Kosning ungra íþróttamanna skv. gr. 12.3 Tillaga lá fyrir um fjóra unga íþróttamenn, þá Eyþór Þrastarson, Rakel Hönnudóttur, Rúnar Kárason og Rögnu Ingólfsdóttur. Samþykkt samhljóða.

8. Lögð fram skýrsla framkvæmdastjórnar Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjórnar.

framkvæmdastjóri

ÍSÍ

fór

yfir

ársskýrslu

9. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar Þingforseti gat um að hefð væri á Íþróttaþingum að skýrsla stjórnar og reikningar væru kynnt samhliða og opnað fyrir umræður um hvort tveggja að kynningu lokinni. Engin athugasemd var gerð við þetta fyrirkomulag af hálfu þingfulltrúa. Gunnar Bragason kynnti reikninga fyrir árin 2006, 2007 og 2008 en nú voru þrjú ár liðin frá síðasta Íþróttaþingi.

10. Umræður og samþykkt reikninga Þingforseti gaf orðið laust um skýrslu og reikninga. Valdimar Leó Friðriksson kom í pontu og þakkaði fyrir skýrslu og reikninga. Hann sagðist ósáttur ef til niðurskurðar kæmi frá ríki til íþróttahreyfingarinnar. Hann minnti á þann sparnað í heilbrigðiskerfinu sem kemur til vegna starfsemi hreyfingarinnar og taldi að hreyfingin ætti alls ekki að sætta sig við niðurskurð í þessum efnum. Valdimar ræddi um, að hans mati óþarfa aðstoðarmenn ráðherra, þar væru 60 milljónir króna sem íþróttahreyfingin gæti auðveldlega notað. Valdimar innti gjaldkera ÍSÍ eftir því hvar fjármagn ÍSÍ hefði verið ávaxtað á erfiðum tímum. Hann minnti einnig á ábyrgð þeirra sem kosnir yrðu í framkvæmdastjórn. Þeir yrðu að standa sig í þeirri baráttu sem framundan væri. Gunnar Bragason svaraði fyrir það hvar fjármagn hreyfingarinnar hefði verið ávaxtað og tók það fram að það hafði ekki verið í áhættufjármagni og því væri staðan mun betri en annars hefði verið. Hann gat þess að sú stefna hefði verið mörkuð fyrir nokkrum árum að taka ekki miklar áhættur varðandi ávöxtun fjármagns ÍSÍ. Hann nefndi það einnig að íþróttahreyfingin hefði nú þegar tekið á sig niðurskurð þar sem hún væri að fá algjört lágmarksfé til rekstrar. Þingforseti bar upp reikninga og voru þeir samþykktir samhljóða.

17


Þinggerð Íþróttaþings 2009

11. Kosning þingnefnda Þingforseti kynnti tilnefningar í nefndir þingsins sem voru þrjár. Allsherjarnefnd: Gísli Páll Pálsson formaður, Hörður Oddfríðarson, Hörður Þorsteinsson, Auður Ólafsdóttir og Sturlaugur Sturlaugsson. Samþykkt samhljóða. Starfsmaður nefndarinnar var Andri Stefánsson. Fjárhagsnefnd: Sigurjón Pétursson formaður, Hannes S. Jónsson, Róbert Svavarsson, Guðrún Inga Sívertsen og Ásta Óskarsdóttir. Samþykkt samhljóða. Starfsmaður nefndarinnar var Berglind Guðmundsdóttir. Laganefnd: Snorri Ólsen formaður, Jón Eiríksson, Guðbjörg Norðfjörð og Pétur Guðbjörnsson. Samþykkt samhljóða. Starfsmaður nefndarinnar var Halla Kjartansdóttir.

12. Lagðar fram tillögur. Þingforseti mæltist til þess að ekki yrðu umræður um tillögurnar undir þessum lið, en þær færu inn í nefndir þingsins og fengju þar umfjöllun. Hann hvatti þingfulltrúa til að taka virkann þátt í nefndarstörfum síðar sama kvöld. Þingfulltrúar gerðu ekki athugasemdir við þetta. Stofnun nýrra sérsambanda. Þingskjal nr. 1. Ólafur Rafnsson kynnti tillögu um stofnun sérsambanda sem hljóðar svo: 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, samþykkir að heimila framkvæmdastjórn ÍSÍ að stofna þrjú ný sérsambönd fram að næsta Íþróttaþingi, um akstursíþróttir, hnefaleika og kraftlyftingar. Vísað til allsherjarnefndar. Lagabreytingatillögur Þingskjal nr. 2 og 3. Lagabreytingatillögur og Ályktun um lyfjamál. Lárus Blöndal kynnti eftirfarandi tillögur um lagabreytingar . Um er ræða breytingar byggðar á kröfum Alþjóðaólympíuhreyfingarinnar, kröfum alþjóðalyfjaeftirlitsins og í þriðja lagi breytingar sem koma frá ÍSÍ. 1.5 Sem landssamband á Íslandi, er nýtur viðurkenningar Alþjóðaólympíunefndarinnar (the International Olympic Committee – IOC) og heyrir Ólympíuhreyfingunni til, tekst ÍSÍ á hendur að sínu leyti og fyrir hönd framkvæmdastjórnar sinnar og allra sambandsaðila að virða Ólympíusáttmálann og heilbrigðisreglur Ólympíuhreyfingarinnar og að hlíta ákvörðunum aðalfunda Alþjóðaólympíunefndarinnar. 18


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Breytist og verður þannig: 1.5 Sem landssamband á Íslandi, er nýtur viðurkenningar Alþjóðaólympíunefndarinnar (the International Olympic Committee – IOC) og heyrir Ólympíuhreyfingunni til, tekst ÍSÍ á hendur að sínu leyti og fyrir hönd framkvæmdastjórnar sinnar og allra sambandsaðila að virða Ólympíusáttmálann og Alþjóðalyfjareglurnar og að hlíta ákvörðunum aðalfunda Alþjóðaólympíunefndarinnar. Skýring: Breytt samkvæmt athugasemdum frá Alþjóðaólympíunefndinni (IOC). Heilbrigðisreglur ólympíuhreyfingarinnar heita nú Alþjóðalyfjareglurnar. 4. grein Tilgangur og markmið j. Berjast gegn notkun hvers kyns efna og aðferða sem bönnuð eru af IOC eða alþjóðasérsamböndum. Gera ráðstafanir sem hafa að markmiði að koma í veg fyrir að heilsu íþróttamanna sé stefnt í hættu , í samræmi við heilbrigðisreglur Ólympíuhreyfingarinnar. Breytist og verður: j. Berjast gegn notkun hvers kyns efna og aðferða sem bönnuð eru af IOC eða alþjóðasérsamböndum. Gera ráðstafanir sem hafa að markmiði að koma í veg fyrir að heilsu íþróttamanna sé stefnt í hættu, í samræmi við Alþjóðalyfjareglurnar. Skýring: Breytt samkvæmt athugasemdum frá Alþjóðaólympíunefndinni (IOC). Heilbrigðisreglur ólympíuhreyfingarinnar heita nú Alþjóðalyfjareglurnar. Nýr stafliður k: k. Samþykkja og framkvæma Alþjóðalyfjareglurnar og tryggja með því að stefnur og reglur ÍSÍ í lyfjaeftirlitsmálum, aðildar- og/eða fjármögnunarkröfur og verklagsreglur um meðferð niðurstaðna séu í samræmi við Alþjóðalyfjareglurnar og virði öll hlutverk og ábyrgðarsvið íþróttasamtaka sem eru skráð í Alþjóðalyfjareglurnar. Skýring: Breytt samkvæmt athugasemdum frá Alþjóðaólympíunefndinni (IOC). Nýr stafliður er merktur k. og færast síðari stafliðir í greininni niður um einn bókstaf. 12. grein 12.1. Á íþróttaþingi eiga sérsambönd fulltrúa samkvæmt eftirgreindum reglum og iðkendafjölda síðastliðins starfsárs: Sérsamband sem hefur 999 iðkendur eða færri á 3 fulltrúa, 1 frá stjórn sérsambands og 2 sem kjósa skal á sambandsþingi viðkomandi sambands. 19


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Sérsamband sem hefur 1.000 - 4.999 iðkendur á 5 fulltrúa, 1 frá stjórn sérsambands og 4 sem kjósa skal á sambandsþingi viðkomandi sambands. Sérsamband sem hefur 5.000 - 9.999 iðkendur á 7 fulltrúa, 2 frá stjórn sérsambands og 5 sem kjósa skal á sambandsþingi viðkomandi sambands. Sérsamband sem hefur 10.000 iðkendur eða fleiri á 9 fulltrúa, 2 frá stjórn sérsambands og 7 sem kjósa skal á sambandsþingi viðkomandi sambands. Hvert sérsamband skal kjósa jafnmarga varamenn og nemur fulltrúatölu þess. Sambandsþingum sérsambanda er heimilt að vísa vali á fulltrúm á íþróttaþing til stjórna sambanda enda sé það samþykkt af 4/5 þingfulltrúa. Grein 12.1 breytist og verður: 12.1. Á íþróttaþingi eiga sérsambönd fulltrúa samkvæmt eftirgreindum reglum og iðkendafjölda síðastliðins starfsárs: Sérsamband sem hefur 999 iðkendur eða færri á 2 fulltrúa, 1 frá stjórn sérsambands og 1 sem kjósa skal á sambandsþingi viðkomandi sambands. Sérsamband sem hefur 1.000 - 4.999 iðkendur á 3 fulltrúa, 1 frá stjórn sérsambands og 2 sem kjósa skal á sambandsþingi viðkomandi sambands. Sérsamband sem hefur 5.000 - 9.999 iðkendur á 5 fulltrúa, 1 frá stjórn sérsambands og 4 sem kjósa skal á sambandsþingi viðkomandi sambands. Sérsamband sem hefur 10.000 iðkendur eða fleiri á 7 fulltrúa, 2 frá stjórn sérsambands og 5 sem kjósa skal á sambandsþingi viðkomandi sambands. Hvert sérsamband skal kjósa jafnmarga varamenn og nemur fulltrúatölu þess. Sambandsþingum sérsambanda er heimilt að vísa vali á fulltrúm á íþróttaþing til stjórna sambanda enda sé það samþykkt af 4/5 þingfulltrúa. Skýring: Fulltrúar á Íþróttaþingi ÍSÍ eru orðnir það margir að erfitt er orðið að hýsa þingið. Fjöldi fulltrúa sérsambanda ræður einnig fjölda fulltrúa héraðssambanda og íþróttabandalaga. Þingfulltrúar eru nú 274 en verða með þessari breytingu 184 miðað við iðkendafjölda 2008. 26. grein Form og efni kæru. 26.2 Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í kæru: c. Nafn fyrirsvarsmanns kæranda, heimilisfang hans, símanúmer og númer myndsendis.

20


Þinggerð Íþróttaþings 2009

C. liður breytist og verður þannig: c. Nafn fyrirsvarsmanns kæranda, heimilisfang hans, símanúmer, númer myndsendis og netfang Skýring: Verið er að bæta við nauðsynlegum upplýsingum. 27. grein Málsmeðferð. Nýr töluliður 27.6: 27.6 Hver aðili skal hafa rétt á túlki við skýrslugjöf ef dómstóllinn telur þörf á því. Skýring: Aðlögun að reglum Alþjóðalyfjaeftirlitsins. Nýr töluliður er merktur 27.6 og færast síðari töluliðir í greininni niður um einn. 29. grein Tilnefning talsmanns fyrir dómi. Nýr töluliður 29.1: 29.1 Hver málsaðili á rétt á málssvara við meðferð málsins fyrir dómstólum ÍSÍ. Skýring: Aðlögun að reglum Alþjóðalyfjaeftirlitsins. Nýr töluliður er merktur 29.1 og færast síðari töluliðir í greininni niður um einn. Ný 43. grein Þrátt fyrir ákvæði greina 41 og 42 er ÍSÍ heimilt að veita öðrum þar til bærum aðilum, umboð til að skipuleggja og framkvæma eftirlit með lyfjanotkun íþróttamanna, ásamt því að fara með ákæruvald í málum er varða brot á Lögum ÍSÍ um lyfjamál. Skýring: Undanfarin misseri hafa ÍSÍ og menntamálaráðuneytið undirbúið stofnun á nýju lyfjaeftirliti sem þessir aðilar stæðu sameiginlega að og hefði víðtækari valdheimildir en Lyfjaeftirlit ÍSÍ hefur í dag. Vonast er til að til þessa geti komið fyrir Íþróttaþing ÍSÍ 2011 og því nauðsynlegt að hafa inn í lögunum heimild til þess að veita nýjum aðila leyfi til að stunda lyfjaeftirlit og fara með ákæruvald í þeim málum. Ný 44. grein Niður falli lagagreinar 43 – 50 og í staðinn komi ný 44. grein:

21


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Lagaákvæði um lyfjamál sem eru byggð eru á Alþjóðalyfjareglunum (World Anti Doping Code), sem gefnar eru út af Alþjóðalyfjaeftirlitinu (World Anti Doping Agency, WADA) eru nú í sér lögum, Lögum ÍSÍ um lyfjamál. Skýring: Til að koma til móts við óskir Alþjóðalyfjaeftirlitsins er gert tillaga um að lagaákvæði um lyfjamál verði í sér lögum og falla þá niður ákvæði sem fjölluðum um sama mál niður úr lögum ÍSÍ. Þessi nýja grein gerir grein fyrir þessum breytingum. 49. grein Nýr töluliður: 49.2 Heimilt er framkvæmdastjórn ÍSÍ að hafa forgöngu um að leggja niður sérsamband ef íþróttagreinin er ekki stunduð a.m.k. innan fimm héraðssambanda/íþróttabandalaga. Skýring: Talin er þörf á að hafa heimild fyrir framkvæmdastjórn ÍSÍ til að leggja niður sérsambönd ef starfsemi þeirra hefur dregist það mikið saman að þau uppfylli ekki þau skilyrði sem sett eru fyrir stofnun sérsambanda. Nýr töluliður er merktur 49.2 og færast síðari töluliðir aftur um einn. Nýr töluliður: 49.4 Þegar niðurlagning sérsambands er ákveðin skal framkvæmdastjórn ÍSÍ tilkynna viðkomandi héraðssamböndum/íþróttabandalögum það bréflega. Skýring: Nauðsynlegt ákvæði í tengslum við heimild við að leggja niður sérsamband. Nýr töluliður er merktur 49.4. 60. grein Ráðstöfun eigna 60.3. Nefnd þessi skal þannig skipuð, að einn nefndarmanna sé tilnefndur af fráfarandi stjórn, annar sé Íþróttafulltrúi ríkisins og sá þriðji sé tilnefndur af Hæstarétti, og sé hann jafnframt formaður. Grein 60.3 breytist og verður þannig: 60.3. Nefnd þessi skal þannig skipuð, að einn nefndarmanna sé tilnefndur af fráfarandi stjórn, annar sé tilnefndur af menntamálaráðuneyti og sá þriðji sé tilnefndur af Hæstarétti, og sé hann jafnframt formaður. Skýring: Búið er að fella niður starfsheitið Íþróttafulltrúi ríkisins. Grein 60.4 breytist og verður þannig: 60.4. Falli nefndarmaður frá, annar en Íþróttafulltrúi ríkisins, eða verði það starf lagt niður, tilnefnir Hæstiréttur mann í staðinn, þannig að nefndin sé ávallt fullskipuð. 22


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Skýring: Í samræmi við breytingu á 60.3 Vísað til laganefndar. Þingskjal nr. 27. Tillaga um breytingu á 33. grein laga ÍSÍ Lúðvík Georgsson kynnti tillöguna.

Tillaga um breytingu á 33. grein laga ÍSÍ Áfrýjun Flutningsaðili: Knattspyrnusamband Íslands

Núverandi texti: 33.2 Þar sem sérsamband ákveður að hafa sérstaka dómstóla þá verður málum þeirra ekki skotið til áfrýjunardómstóls ÍSÍ. Þó er heimilt að áfrýja þeim málum áfrýjunardómstóla sérsambanda sem hafa almennt gildi fyrir íþróttahreyfinguna í heild. Áfrýjun tekur þá aðeins til þeirra atriða máls er hafa slíkt almennt gildi og tilgreind eru í áfrýjunarskjali. Áfrýjunardómstóll ÍSÍ ákveður í þessum tilvikum hvort kæruatriði séu þess eðlis að hann eigi um þau að fjalla. Ef áfrýjunardómstóllinn hafnar kæruatriðum áfrýjanda er málinu endanlega lokið. Tillaga KSÍ: 33.2 Þar sem sérsamband ákveður að hafa sérstaka dómstóla þá verður málum þeirra ekki skotið til áfrýjunardómstóls ÍSÍ. Vísað til laganefndar. Þingskjal nr. 4. Ályktun um Ríkisútvarpið ohf. Líney Rut Halldórsdóttir kynnti ályktun um Ríkisútvarpið ohf.

Ályktun um Ríkisútvarpið ohf. Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ

69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, skorar á stjórn RÚV að sjá til þess að umfjöllun og fréttaflutningur af íþróttum skerðist ekki frá því sem verið hefur undanfarin ár, enda er umfjöllun um íþróttir lögbundin skylda RÚV. Vísað til allsherjarnefndar. Þingskjal nr. 5. Tillaga um endurskoðun innra skipulags ÍSÍ. Hafsteinn Pálsson kynnti tillöguna.

23


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Tillaga um endurskoðun innra skipulags ÍSÍ Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ

69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, samþykkir að endurskoða innra skipulag Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Vísað til allsherjarnefndar. Þingskjal nr. 8. Ályktun um stuðning sveitarfélaga. Jón Gestur Viggósson gerði grein fyrir tillögunni.

Ályktun um stuðning sveitarfélaga Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ

69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið 17.-18. apríl 2009 á Hilton Hótel Nordica, skorar á sveitarfélög á Íslandi að styðja dyggilega við starf íþróttahreyfingarinnar með framlögum til reksturs íþróttafélaga og niðurgreiðslu æfingagjalda barna og unglinga. Vísað til allsherjarnefndar. Þingskjal nr. 9. Ályktun um Íslenska Getspá og Íslenskar getraunir. Gunnar Bragason gerði grein fyrir ályktuninni.

Ályktun um Íslenska getspá og Íslenskar getraunir Flutningsaðili: Framkvæmdstjórn ÍSÍ

69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið 17.-18. apríl 2009 á Hilton Hótel Nordica, hvetur íþróttahreyfinguna að standa vörð um fyrirtæki hreyfingarinnar, Íslenska getspá og Íslenskar getraunir. Vísað til fjárhagsnefndar. Þingskjal nr. 10. Ályktun um íþróttamannvirki. Ingibjörg Bergrós Jóhannesdóttir gerði grein fyrir tillögunni.

Ályktun um íþróttamannvirki Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ

69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, fagnar þeirri miklu uppbyggingu íþróttamannvirkja sem farið hefur fram í sveitarfélögum á landsvísu. Vísað til allsherjarnefndar. 24


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Þingskjal nr. 6. Ályktun um ríkisstyrk til sérsambanda ÍSÍ. Sigríður Jónsdóttir kynnti ályktunina.

Ályktun um ríkisstyrk til sérsambanda ÍSÍ Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ

69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið 17.-18. apríl 2009 á Hilton Hótel Nordica, skorar á ríkisstjórn Íslands að endurnýja samning um stuðning til sérsambanda ÍSÍ og jafnframt hækka árlegt framlag til að efla megi starfsemi sérsambandanna. Vísað til fjárhagsnefndar. Þegar hér var komið sögu var ákveðið að vísa tillögum til nefnda án kynningar. Þingskjal nr. 11. Ályktun um stuðning við héraðssambönd og íþróttabandalög.

Ályktun um stuðning við héraðssambönd og íþróttabandalög Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ

69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, hvetur ríkisstjórn Íslands að styðja héraðssambönd og íþróttabandalög með myndarlegum fjárframlögum, líkt og gert hefur verið gagnvart sérsamböndum ÍSÍ. Slíkur fjárstuðningur myndi skapa grundvöll til ráðningu starfsmanna í héruðum, bættri þjónustu til aðildarfélaga og faglegri umgjörð um íþróttastarf á landsvísu. Vísað til fjárhagsnefndar. Þingskjal nr. 12. Ályktun um munntóbak.

Ályktun um munntóbak Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ

69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, mælist til þess að munntóbak sé ekki notað af iðkendum, þjálfurum og öðrum þeim sem koma að skipulögðu starfi íþróttahreyfingarinnar. Vísað til allsherjarnefndar

25


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Þingskjal 13. Ályktun um siðareglur.

Ályktun um siðareglur íþróttahreyfingarinnar Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ

69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, samþykkir að settar verði siðareglur fyrir íþróttahreyfinguna. Vísað til allsherjarnefndar. Þingskjal nr. 14. Breytingartillaga um stefnuyfirlýsingu ÍSÍ í afreksmálum.

Breytingartillaga um stefnuyfirlýsingu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í afreksmálum Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ

69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, samþykkir eftirfarandi breytingar við stefnuyfirlýsingu Íþróttaog Ólympíusambands Íslands í afreksmálum. Að grein: Til þess að ná settu marki ber hreyfingunni að setja sér tímabundnar markvissar áætlanir um frammistöðu á stórmótum á borð við álfumeistaramót, heimsmeistaramót og ólympíuleika. Verði: Til þess að ná settu marki ber hreyfingunni að setja sér tímabundnar markvissar áætlanir um frammistöðu á álfumeistaramótum, heimsmeistaramótum og ólympíuleikum. Afrekssvið ÍSÍ skal í samvinnu við sérsambönd ÍSÍ og séríþróttanefndir ÍSÍ móta tímasett markmið og kynna þau fyrir hreyfingunni. Að á undan skilgreiningu afreka bætist við: Stefnuyfirlýsing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í afreksmálum skal vera til umfjöllunar á Íþróttaþingi. Vísað til allsherjarnefndar. Þingskjal nr. 15. Ályktun um skattamál.

Ályktun um skattamál

Flutningsaðili: Íþróttabandalag Hafnarfjarðar

Íþróttahreyfingin heldur úti umfangsmiklum rekstri í kringum þjálfun, sem er í 26


Þinggerð Íþróttaþings 2009

raun hluti af menntakerfi landsins. Þetta gerir íþróttahreyfingin án nokkurra styrkja frá ríki. Því miður hefur fjárskortur íþróttahreyfingarinnar gert að verkum að þjálfarar eru ráðnir sem verktakar í stað þess að vera ráðnir sem launamenn. Þetta hefur aukið hættu á undanskoti tekna auk þess sem þetta hefur haft í för með sér ákveðið flækjustig í framtalsgerð fyrir þjálfara. Með það fyrir augum að vinna gegn þessu fyrirkomulagi leggur ÍBH til að ríkið komi til móts við íþróttahreyfinguna með þeim hætti að íþróttahreyfingin fái styrk í samræmi við þær fjárhæðir sem greiddar eru í skatta til ríkissjóðs af launum þjálfara. Með þessu væri hægt að ráða þjálfara sem launþega og koma í veg fyrir undanskot launa. Vísað til fjárhagsnefndar. Þingskjal nr. 16. Tillaga um breytingar á starfsreglum afrekssjóðs ÍSÍ.

Tillaga um breytingar á starfsreglum Afrekssjóðs ÍSÍ Flutningsaðili: Íþróttabandalag Hafnarfjarðar

Íþróttabandalag Hafnarfjarðar hvetur ÍSÍ til að vinna að endurbótum starfsreglna fyrir Afrekssjóð ÍSÍ. Nauðsynlegt er að auka fagleg vinnubrögð við úthlutanir úr Afrekssjóði ÍSÍ m.a. með því að taka upp punktakerfi sem flokkar einstaklingsíþróttamenn, lið og unga og framúrskarandi íþróttamenn í styrkleikahópa til þess að auka gegnsæi við ákvarðanatöku sjóðsstjórnar. Punktakerfið ætti að mestu að byggjast upp á möguleikum íþróttafólks / liða til að komast á Ólympíuleika eða Heimsmeistaramót í sinni íþróttagrein, staða einstaklinga / liða á heimslista yrði eingöngu höfð til hliðsjónar. Vísað til allsherjarnefndar. Þingskjal nr. 17. Áskorun um þjóðarleikvanga.

Áskorun um þjóðarleikvanga Flutningsaðili: Íþróttabandalag Reykjavíkur

69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, hvetur ríkisvaldið til að taka þátt í frekari uppbyggingu þjóðarleikvanga. Vísað til allsherjarnefndar. Þingskjal nr. 18. Tillaga um endurskoðun skipulags íþróttahreyfingarinnar.

Tillaga um endurskoðun skipulags íþróttahreyfingarinnar Flutningsaðili: Íþróttabandalag Reykjavíkur

27


Þinggerð Íþróttaþings 2009

69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að skipa milliþinganefnd sem fái það verkefni að skoða skipulag íþróttahreyfingarinnar í landinu og koma með tillögur um úrbætur á því þar sem það á við. Mikilvægt er að nefndin skoði skipulagið á öllum stigum íþróttastarfsins þ.e. frá íþróttafélagagrunni, héraðssambandagrunni, sérsambandagrunni svo og yfirstjórn. Nefndin verði skipuð aðilum úr íþróttahreyfingunni og utan hennar. Nefndin kynni vinnu sína á formannafundi ÍSÍ 2009, drög að tillögum á formannafundi ÍSÍ 2010 og ljúki vinnu í síðasta lagi 3 mánuðum fyrir Íþróttaþing 2011. Vísað til allsherjarnefndar. Þingskjal nr. 19. Tillaga um rannsóknarmiðstöð fyrir íþróttir.

Tillaga um Rannsóknarmiðstöð fyrir íþróttir Flutningsaðili: Íþróttabandalag Reykjavíkur

69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, hvetur ÍSÍ til að taka þátt í stofnun rannsóknarmiðstöðvar fyrir íþróttir í samstarfi við, sérsambönd, héraðssambönd, háskóla og aðra hagsmunaaðila. Rannsóknarmiðstöðin verði staðsett í Laugardal, höfuðstöðvum íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Þingið hvetur ríkisvaldið til að styðja myndarlega við þetta verkefni. Stefnt skal að því að rannsóknarmiðstöðin taki til starfa eigi síðar en árið 2010. Vísað til fjárhagsnefndar. Þingskjal nr. 20. Áskorun um ferðasjóð íþróttafélaga.

Áskorun um Ferðasjóð íþróttafélaga Flutningsaðili: Íþróttabandalag Reykjavíkur

69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, hvetur ríkisvaldið til að standa við fyrri áform um að veita fjármunum í Ferðasjóð íþróttafélaga og að sjóðurinn vaxi eins og áætlað var. Vísað til fjárhagsnefndar. Þingskjal nr. 21. Tillaga um eflingu námskeiðahalds.

Tillaga um eflingu námskeiðahalds Flutningsaðili: Íþróttabandalag Reykjavíkur

28


Þinggerð Íþróttaþings 2009

69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, hvetur framkvæmdastjórn ÍSÍ til að efla enn frekar námskeiðahald sérsambanda fyrir þjálfara og dómara. Þá hvetur þingið ÍSÍ til að efla samstarf milli íþróttagreina og aðlaga framboð á almennri fræðslu að breyttum tíðaranda. Vísað til allsherjarnefndar. Þingskjal nr. 22. Ályktun um stofnun Íþrótta- og menntaráðs Íslands.

Ályktun um stofnun Íþrótta- og menntaráðs Íslands Flutningsaðili: Sundsamband Íslands Íþróttaþing samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að hlutast til um stofnun Íþrótta- og menntaráðs Íslands. Ráðið gæti verið skipað einstaklingum frá sérsamböndum innan ÍSÍ ásamt fulltrúa ÍSÍ og UMFÍ. Hlutverk ráðsins verður að vinna með Menntamálaráðuneyti í að samræma reglur(til dæmis um námsframvindu og skólasókn) innan skóla á öllum stigum þannig að eðlilegt tillit verði tekið til afreksíþróttafólks í námi óháð þeirri íþróttagrein sem það stundar. Vísað til allsherjarnefndar. Þingskjal nr. 23. Ályktun um stofnun afreksíþróttamannasjóðs.

Ályktun um stofnun Afreksíþróttamannasjóðs Flutningsaðili: Sundsamband Íslands Íþróttaþing samþykkir að hefja undirbúning að stofnun Afreksíþróttamannasjóðs sem gæti komið til móts við þarfir fullorðins afreksíþróttafólks. Sjóðurinn er fyrst og fremst ætlaður til að fullorðið afreksíþróttafólk í einstaklingsíþróttum geti framfleytt sér á sómasamlegan hátt jafnframt því að stunda íþrótt sína. Vísað til allsherjarnefndar. Þingskjal nr. 24. Tillaga til ályktunar um sáttmála fyrir íþróttahreyfinguna.

Tillaga til ályktunar um sáttmála fyrir íþróttahreyfinguna Flutningsaðili: Knattspyrnusamband Íslands

Íþróttaþing 2009 hvetur ríkisstjórn Íslands til þess að gera sáttmála við íþróttahreyfinguna til næstu fjögurra ára sem staðfestir mikilvægi íþrótta í íslensku samfélagi, forvarnargildi íþrótta og þátt íþróttaafreka í sjálfsímynd 29


Þinggerð Íþróttaþings 2009

þjóðar. Sáttmálinn verður grundvöllur að eflingu íþróttastarfs og stuðnings ríkisvaldsins við það og feli m.a. í sér fjárstuðning við ÍSÍ, afreksfólk og sérsambönd innan ÍSÍ. Vísað til allsherjarnefndar. Þingskjal nr. 25. Tillaga um stofnun starfshóps um hlutafélög innan íþróttahreyfingarinnar.

Tillaga um stofnun starfshóps um hlutafélög innan íþróttahreyfingarinnar Flutningsaðili: Knattspyrnusamband Íslands

Íþróttaþing 2009 samþykkir að skipa 5 manna starfshóp sem fari yfir þá þróun sem átt hefur sér stað með stofnun hlutafélaga til reksturs íþróttastarfsemi innan ÍSÍ og móti stefnu og tillögur um skipan þeirra mála. Stjórn ÍSÍ skal skipa starfshópinn og skal hann skila tillögum til stjórnarinnar í lok árs 2009. Vísað til fjárhagsnefndar. Þingskjal nr. 26. Tillaga til ályktunar um ferðasjóð.

Tillaga til ályktunar um ferðasjóð Flutningsaðili: Knattspyrnusamband Íslands

Íþróttaþing 2009 hvetur ríkisstjórn Íslands til þess að auka framlög í ferðasjóð íþróttafélaga þannig að 90 milljónir verði til ráðstöfunar fyrir árið 2009 eins og fyrirheit höfðu verið gefin um. Jafnframt að framlög verði hækkuð í 200 milljónir í áföngum og því markmiði náð eigi síðar en árið 2012. Vísað til fjárhagsnefndar.

30


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Þingskjal nr. 28. Fjárhagsáætlun ÍSÍ. Áætlun Tekjur:

Rauntölur

2008

1. Framlag Alþingis 2. Íslensk Getspá 3. Ósóttir vinningar 4. Íslenskar Getraunir 5. Styrkir IOC/EOC 6. Aðrar tekjur

2008

Gjöld: 8. Skrifstofukostnaður 9. Þing/fundir innanl.+kostn. stjórn 10. Þing og fundir erlendis 11. Framlag vegna fundaraðstöðu 12. Kostn. v. stoðsviða og nefnda 13. Smáþjóðaleikar 14. Ólympíudagar Æskunnar 15. Íþróttaleg samskipti-Ól.fjölsk. 16. Annar kostnaður 17. Verkefnasjóður 18. Íþróttamiðstöð Laugardal 19. Lyfjaeftirlit 20 Tölvukerfi íþróttahr.-Felix 21. Ólympíuleikar 22. Ólympíuleikar ungmenna 23. Íþróttaþing 24. Sjóður ungra og efnilegra

Áætlun

2009

2010

114.900.000 12.000.000 5.000.000 4.900.000 9.000.000 9.000.000

114.900.000 13.061.046 5.000.000 2.100.000 7.321.123 5.460.994 32.863.105

15.000.000

10.000.000

154.800.000

180.706.268

171.500.000

170.600.000

Áætlun

Rauntölur

Áætlun

Áætlun

2008

2008

2009

2010

7. Fjarmagnstekjur Samtals:

Áætlun 123.900.000 10.500.000 5.000.000 2.100.000 9.000.000 6.000.000

128.000.000 10.500.000 5.000.000 2.100.000 9.000.000 6.000.000

46.000.000

47.097.869

47.000.000

52.000.000

8.500.000 4.500.000 1.500.000 10.300.000 0 0 10.000.000 6.000.000 3.000.000 8.000.000 12.000.000 10.000.000 22.000.000

6.933.711 3.799.141 853.155 8.452.976 0 0 9.095.916 5.136.461 3.000.000 7.048.561 12.848.391 7.838.780 24.154.791

6.500.000 4.500.000 1.500.000 10.600.000 27.000.000 10.000.000 1.500.000 5.000.000 2.000.000 7.400.000 12.000.000 10.000.000 8.000.000

0 13.000.000

0 13.000.000

6.500.000 12.000.000

7.000.000 4.500.000 1.500.000 12.000.000 1.000.000 1.000.000 6.000.000 5.000.000 4.000.000 10.000.000 15.000.000 10.000.000 12.000.000 7.000.000 0 14.000.000

Fyrningar

392.555 Samtals:

154.800.000

149.652.307

171.500.000

162.000.000

Hagnaður/(tap)

0

31.053.961

0

8.600.000

Vísað til fjárhagsnefndar. Þingforseti gerði grein fyrir því í hvaða sölum Íþróttamiðstöðvarinnar í Laugardal nefndirnar áttu að starfa. 31


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Engar frekari tillögur lágu fyrir þinginu. Kynningu á frambjóðendum var frestað til næsta dags. Laugardagur 18. apríl kl. 10.00. Þingstörf halda áfram.

13. Kynning frambjóðenda. Þingforseti kynnti Reyni Ragnarsson í pontu með kynningu á frambjóðendum til forseta ÍSÍ og í framkvæmdastjórn. Reynir sagði einungis eitt framboð til forseta ÍSÍ, það væri Ólafur E. Rafnsson. Reynir bauð síðan frambjóðendum til framkvæmdastjórnar að koma í pontu eftir röð sem dregið hafði verið um. Hann sagði þá sem setið hafa í framkvæmdastjórn hafa hálfa mínútu í pontu en nýja frambjóðendur eina mínútu. Frambjóðendur komu upp í eftirfarandi röð. Aðalstjórn: Helga H. Magnúsdóttir Þorgrímur Þráinsson Helga Steinunn Guðmundsdóttir Hafsteinn Pálsson Sigríður Jónsdóttir Örn Andrésson Gunnar Bragason Friðrik Einarsson Lárus Blöndal Helgi Sigurðsson Jón Gestur Viggósson Varastjórn: Sigfús Helgason Gústaf Adolf Hjaltason Halldór Halldórsson Ingibjörg Bergrós Jóhannesdóttir Þór I. Vilhjálmsson Ofangreindir utan Halldórs Halldórssonar kynntu sig m.t.t. þeirra tímamarka sem formaður kjörnefndar hafði gefið fyrirmæli um. Þingforseti bað formann kjörbréfanefndar að koma í ræðustól og gera grein fyrir breytingum á kjörbréfum. Formaður gerði grein fyrir breytingu á túlkun á atkvæðamagni þannig að einn fulltrúi frá sambandsaðila hafi nú 3 atkvæði en ekki eitt. 129 atkvæði koma þá frá sérsamböndum og 134 frá héraðssamböndum. 32


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Þingforseti gaf orðið laust varðandi þessar breytingar. Arnþór Sigurðsson FRÍ kom með fyrirspurn varðandi rök fyrir þessari breytingu. Frímann Ari gerði grein fyrir breytingunni og sagði að túlkun laganefndar ÍSÍ væri sú að einn fulltrúi geti farið með 3 atkvæði. Þetta væri hugsað fyrir þá sem ættu um langan veg að fara, ekki þyrfti að koma með alla þá þingfulltrúa sem viðkomandi sambandsaðili ætti rétt á og þannig væri hægt að spara hvað ferðakostnað snertir. Fleiri athugasemdir komu ekki. Samþykkt með þorra atkvæða gegn þremur.

14. Niðurstöður þingnefnda Þingforseti bauð formanni laganefndar að koma í ræðustól og gera grein fyrir störfum nefndarinnar. Snorri Ólsen formaður nefndarinnar tilkynnti að þinggögn vegna tillagna frá laganefnd væru ekki komin í hendur þingfulltrúa og því var afgreiðslu á tillögum sem lágu fyrir nefndinni frestað. Þingforseti bauð formanni allsherjarnefndar að koma í pontu. Formaður Gísli Páll Pálsson greindi frá að alls 16 tillögur hefðu verið teknar fyrir hjá nefndinni. 10 tillögum var breytt, 5 voru samþykktar óbreyttar og einni var vísað frá sem þó væri að vissu leyti tekin fyrir inni í annarri tillögu. Þingskjal nr. 1. Stofnun sérsambanda. Óbreytt. Síðustu þrjár línurnar í greinargerðinni féllu þó út í meðferð nefndar. Þingskjal 1 – Tillaga um stofnun sérsambanda 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, samþykkir að heimila framkvæmdastjórn ÍSÍ að stofna þrjú ný sérsambönd fram að næsta Íþróttaþingi, um akstursíþróttir, hnefaleika og kraftlyftingar. Samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 4. Ályktun um Ríkisútvarpið ohf. Tillagan kom breytt frá nefnd. Þingskjal 4 – Ályktun um Ríkisútvarpið ohf. 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, skorar á stjórn RÚV að sjá til þess að umfjöllun og fréttaflutningur af einstökum íþróttagreinum og almennri heilsurækt verði aukinn frá því sem verið hefur undanfarin ár og umfjöllun um íþróttaiðkun barna og unglinga verði bætt. Íþróttaþing minnir á að umfjöllun um íþróttir er lögbundin skylda RÚV og jafnræði íþróttagreina í umfjöllun er mikilvæg. Samþykkt samhljóða. 33


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Þingskjal nr. 5. Innra skipulag ÍSÍ. Kom óbreytt frá nefnd. Þingskjal 5 – Tillaga um endurskoðun innra skipulags ÍSÍ 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, samþykkir að endurskoða innra skipulag Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 8. Ályktun um stuðning sveitarfélaga. Kom óbreytt frá nefnd. Þingskjal 8 – Ályktun um stuðning sveitarfélaga 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið 17.-18. apríl 2009 á Hilton Hótel Nordica, skorar á sveitarfélög á Íslandi að styðja dyggilega við starf íþróttahreyfingarinnar með framlögum til reksturs íþróttafélaga og niðurgreiðslu æfingagjalda barna og unglinga. Samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 9. Getspá og getraunir. Kom óbreytt frá nefnd. Þingskjal 9 – Ályktun um Íslenska getspá og Íslenskar Getraunir 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið 17.-18. apríl 2009 á Hilton Hótel Nordica, hvetur íþróttahreyfinguna að standa vörð um fyrirtæki hreyfingarinnar, Íslenska getspá og Íslenskar getraunir. Samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 10. Uppbygging íþróttamannvirkja. Nefndin bætti við tillöguna. Þingskjal 10 – Ályktun um íþróttamannvirki 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, fagnar þeirri miklu uppbyggingu íþróttamannvirkja sem farið hefur fram í sveitarfélögum á landsvísu og hvetur þau til að halda áfram á sömu braut. Sigfús Helgason kom í pontu og minnti á að mikilvægt væri að íþróttahreyfingin væri höfð með í ráðum þegar íþróttamannvirki væru byggð. 34


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Hann taldi að því miður væru mistök oft gerð þegar íþróttahreyfingin kæmi ekkert að ákvörðunum um hönnun íþróttamannvirkja. Tillagan var samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 12. Ályktun um munntóbak. Nefndin breytti tillögunni töluvert. Þingskjal 12 – Ályktun um munntóbak 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, áréttar að tóbak, þar með talið munntóbak, sé ekki notað af iðkendum, þjálfurum og öðrum þeim sem koma að skipulögðu starfi íþróttahreyfingarinnar. Íþróttaþing minnir á að munntóbak (snus) er ólöglegt fíkniefni á Íslandi og tóbaksnotkun af hverju tagi, er óleyfileg í íþróttamannvirkjum á Íslandi. Samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 13. Ályktun um siðareglur. Smávægileg breyting frá nefnd. Þingskjal 13 – Ályktun um siðareglur 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að setja siðareglur fyrir íþróttahreyfinguna. Samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 14. Breytingartillaga á stefnuyfirlýsingu ÍSÍ í afreksmálum. Kom talsvert breytt frá nefnd. Nafni tillögunnar var breytt í „Tillaga um breytingu á stefnuyfirlýsingu ÍSÍ í afreksmálum“. Þingskjal 14 – Tillaga um breytingu á stefnuyfirlýsingu ÍSÍ í Afreksmálum 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, samþykkir eftirfarandi breytingar við stefnuyfirlýsingu Íþróttaog Ólympíusambands Íslands í afreksmálum. Að grein: Til þess að ná settu marki ber hreyfingunni að setja sér tímabundnar markvissar áætlanir um frammistöðu á stórmótum á borð við álfumeistaramót, heimsmeistaramót og ólympíuleika. 35


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Verði: Til þess að ná settu marki ber hreyfingunni að setja sér tímabundnar markvissar áætlanir um frammistöðu á stórmótum. Afrekssvið ÍSÍ skal í samvinnu við sérsambönd ÍSÍ og séríþróttanefndir ÍSÍ móta tímasett markmið og kynna þau fyrir hreyfingunni. Að á undan skilgreiningu afreka bætist við: Stefnuyfirlýsing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í afreksmálum skal vera til umfjöllunar á Íþróttaþingi. Samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 16. Tillaga um breytingar á starfsreglum Afrekssjóðs ÍSÍ. Miklar breytingar gerðar. Þingskjal 16 – Tillaga um breytingar á starfsreglum Afrekssjóðs ÍSÍ 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, hvetur framkvæmdastjórn ÍSÍ til að vinna að endurskoðun starfsreglna fyrir Afrekssjóð ÍSÍ, með sérstakri áherslu á framfærslu afreksíþróttamanna, þjálfunarumhverfi og kostnaðarþátttöku þeirra vegna stórmóta. Samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 17. Áskorun um þjóðarleikvanga. Kom óbreytt frá nefnd. Þingskjal 17 – Áskorun um þjóðarleikvanga 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, hvetur ríkisvaldið til að taka þátt í frekari uppbyggingu þjóðarleikvanga. Samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 18. Endurskoðun skipulags íþróttahreyfingarinnar. Kom óbreytt frá nefnd. Þingskjal 18 – Tillaga um endurskoðun skipulags Íþróttahreyfingarinnar 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að skipa milliþinganefnd sem fái það verkefni að skoða skipulag íþróttahreyfingarinnar í landinu og koma með tillögur um úrbætur á því þar sem það á við. Mikilvægt er að nefndin skoði skipulagið á öllum stigum íþróttastarfsins þ.e. frá íþróttafélagagrunni, héraðssambandagrunni, sérsambandagrunni svo og yfirstjórn. Nefndin verði skipuð aðilum úr 36


Þinggerð Íþróttaþings 2009

íþróttahreyfingunni og utan hennar. Nefndin kynni vinnu sína á formannafundi ÍSÍ 2009, drög að tillögum á formannafundi ÍSÍ 2010 og ljúki vinnu í síðasta lagi 3 mánuðum fyrir Íþróttaþing 2011. Samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 21. Efling námskeiðahalds. Tvenns konar breytingar í meðferð nefndar. Þingskjal 21 – Tillaga um eflingu námskeiðahalds 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, hvetur framkvæmdastjórn ÍSÍ til að stuðla enn frekar að eflingu námskeiðahalds sérsambanda fyrir þjálfara, dómara og aðra stjórnendur innan íþróttahreyfingarinnar. Þá hvetur þingið ÍSÍ til að efla samstarf milli íþróttagreina og aðlaga framboð á almennri fræðslu að breyttum tíðaranda. Samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 22. Stofnun íþrótta- og menntaráðs. Kom mikið breytt frá nefnd. Þingskjal 22 – Ályktun um íþróttir og skólastarf 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, hvetur framkvæmdastjórn ÍSÍ til að vinna áfram að bættu námsumhverfi afreksíþróttafólks á öllum skólastigum, mikilvægi íþrótta innan skólakerfisins og aukinni samvinnu íþróttafélaga við skólakerfið. Samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 23. Ályktun um stofnun afreksíþróttamannasjóðs. Að einhverju leyti felld inn í aðra tillögu þingsins (16). Þingskjal 23 – Ályktun um stofnun Afreksíþróttamannasjóðs Tillagan dregin til baka. Hörður Oddfríðarson kom í pontu og tilkynnti að tillagan hafi verið dregin til baka í nefndinni í gær. Þar af leiðandi væri ekki rétt að frávísunartillagan kæmi til afgreiðslu. Gísli Páll kom í pontu og sagði þetta hárrétt, baðst afsökunar og lagði til að hún fengi ekki frekari umfjöllun. 37


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 24. Sáttmáli íþróttahreyfingarinnar. Kom lítilsháttar breytt frá nefnd. Þingskjal 24 – Tillaga til ályktunar um sáttmála Íþróttahreyfingarinnar Íþróttaþing 2009 hvetur ríkisstjórn Íslands til þess að gera sáttmála við íþróttahreyfinguna til næstu fjögurra ára sem staðfestir mikilvægi íþrótta í íslensku samfélagi, forvarnargildi íþrótta og þátt íþróttaafreka í sjálfsímynd þjóðar. Sáttmálinn verður grundvöllur að eflingu íþróttastarfs og stuðnings ríkisvaldsins við það og feli m.a. í sér fjárstuðning við ÍSÍ, afreksfólk og sambandsaðila ÍSÍ. Samþykkt samhljóða. Þingforseti þakkaði formanni allsherjarnefndar fyrir vel unnin störf. Hann gat þess að þingstörf hefðu gengið það vel fyrir sig að rétt væri að gera 10mín. kaffihlé. (kl. 11.10) Þinghlé í 10 mínútur. Þingforseti gaf formanni laganefndar, Snorra Ólsen orðið. Snorri Ólsen sagði þremur málum hafa verið vísað til nefndarinnar. Þingskjal 3. Lög ÍSÍ um lyfjamál. Kom nánast óbreytt frá nefnd, engar efnislegar breytingar en textinn lagaður verulega. Þýðingar á erlendum texta höfðu orsakað einkennilegt orðalag. Sjá lögin í heild sinni með áorðnum breytingum sem fylgiskjal hér aftan við þinggerðina. Hörður Oddfríðarson spurði hvað gerðist ef tilagan yrði felld. Snorri Ólsen sagðist ekki rétti maðurinn til að útskýra það. Lárus Blöndal kom í pontu og sagði að ÍSÍ væri á undanþágu og ef tillagan yrði felld þá fengi ÍSÍ ekki áframhaldandi undanþágu þannig að ÍSÍ yrði þá aldrei fullgildur þátttakandi t.d. hvað stórmót snertir. Það verði að lúta þeim reglum sem gilda um lyfjamál á alþjóðavettvangi. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 2. Lagabreytingar. Grein 1 kom óbreytt frá nefnd og var samþykkt samhljóða. Grein 4 kom óbreytt frá nefnd og var samþykkt samhljóða. Grein 12 kom óbreytt frá nefnd. Arnþór Sigurðsson FRÍ taldi merkilegt að þrátt fyrir að fulltrúar væru ekki á svæðinu þá væri hægt að fara með atkvæði þeirra. Hann lagðist þó ekki gegn tillögunni. Snorri gat þess að þetta hefði fengið umfjöllun í nefnd og að í lögum 38


Þinggerð Íþróttaþings 2009

ÍSÍ í dag væri það þannig að hver fulltrúi hefði þrjú atkvæði og hann benti einnig á það að með fjölgun sérsambanda fari fulltrúum á þingum hreyfingarinnar fjölgandi. Stefán Gunnlaugsson ÍBA spurði um tölulegar breytingar með tillögunni. Snorri taldi að um þriðjungsfækkun væri að ræða. Samþykkt með þorra atkvæða. Grein 26 kom óbreytt frá nefnd og var samþykkt samhljóða. Grein 27 kom breytt frá nefnd og var samþykkt samhljóða. Grein 29 kom aðeins breytt frá nefnd og var samþykkt, einn á móti. Grein 42 kom mikið breytt frá nefnd og var samþykkt samhljóða. Grein 43 kom óbreytt frá nefnd og var samþykkt samhljóða. Grein 44 kom óbreytt frá nefnd og var samþykkt samhljóða. Grein 55 (sem verður 49. gr.) Kom breytt frá nefnd (5 varð 3) og var samþykkt, tveir á móti. Grein 66 (verður grein 60) kom óbreytt frá nefnd og var samþykkt samhljóða. Þingforseti bað um atkvæði um lagabreytingarnar í heild og voru þær samþykktar samhljóða. Lagabreytingartillögur með áorðnum breytingum: Þingskjal 2 – Lagabreytingatillögur 1. Grein

Breytist og verður þannig: 1.5 Sem landssamband á Íslandi, er nýtur viðurkenningar Alþjóðaólympíunefndarinnar (the International Olympic Committee – IOC) og heyrir Ólympíuhreyfingunni til, tekst ÍSÍ á hendur að sínu leyti og fyrir hönd framkvæmdastjórnar sinnar og allra sambandsaðila að virða Ólympíusáttmálann og Alþjóðalyfjareglurnar og að hlíta ákvörðunum aðalfunda Alþjóðaólympíunefndarinnar. 4. grein Tilgangur og markmið Breytist og verður: j. Berjast gegn notkun hvers kyns efna og aðferða sem bönnuð eru af IOC eða alþjóðasérsamböndum. Gera ráðstafanir sem hafa að markmiði að koma í veg fyrir að heilsu íþróttamanna sé stefnt í hættu , í samræmi við Alþjóðalyfjareglurnar. Nýr stafliður k: k. Samþykkja og framkvæma Alþjóðalyfjareglurnar og tryggja með því að stefnur og reglur ÍSÍ í lyfjaeftirlitsmálum, aðildar- og/eða fjármögnunarkröfur og verklagsreglur um meðferð niðurstaðna séu í samræmi við Alþjóðalyfjareglurnar

39


Þinggerð Íþróttaþings 2009

og virði öll hlutverk og ábyrgðarsvið íþróttasamtaka sem eru skráð í Alþjóðalyfjareglurnar. 12. grein Grein 12.1 breytist og verður: 12.1. Á íþróttaþingi eiga sérsambönd fulltrúa samkvæmt eftirgreindum reglum og iðkendafjölda síðastliðins starfsárs: Sérsamband sem hefur 999 iðkendur eða færri á 2 fulltrúa, 1 frá stjórn sérsambands og 1 sem kjósa skal á sambandsþingi viðkomandi sambands. Sérsamband sem hefur 1.000 - 4.999 iðkendur á 3 fulltrúa, 1 frá stjórn sérsambands og 2 sem kjósa skal á sambandsþingi viðkomandi sambands. Sérsamband sem hefur 5.000 - 9.999 iðkendur á 5 fulltrúa, 1 frá stjórn sérsambands og 4 sem kjósa skal á sambandsþingi viðkomandi sambands. Sérsamband sem hefur 10.000 iðkendur eða fleiri á 7 fulltrúa, 2 frá stjórn sérsambands og 5 sem kjósa skal á sambandsþingi viðkomandi sambands. Hvert sérsamband skal kjósa jafnmarga varamenn og nemur fulltrúatölu þess. Sambandsþingum sérsambanda er heimilt að vísa vali á fulltrúm á íþróttaþing til stjórna sambanda enda sé það samþykkt af 4/5 þingfulltrúa. 26. grein Form og efni kæru. 26.2

Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í kæru:

C. liður breytist og verður þannig: c. Nafn fyrirsvarsmanns kæranda, heimilisfang hans, símanúmer, númer myndsendis og netfang. 27. grein Málsmeðferð. Nýr töluliður 27.6: 27.6 Hver aðili skal hafa rétt á túlki við skýrslugjöf ef dómstóllinn telur þörf á því. Dómstóllinn metur hverju sinni á hvorn aðila kostnaður af slíkri þjónustu fellur. Nýr töluliður er merktur 27.6 og færast síðari töluliðir í greininni niður um einn. 29. grein Tilnefning talsmanns fyrir dómi. Nýr töluliður 29.1: 29.1 Hver málsaðili á rétt á málssvara við meðferð málsins fyrir dómstólum ÍSÍ. Nýr töluliður er merktur 29.1 og færast síðari töluliðir í greininni niður um einn. 40


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Ný 43. grein Þrátt fyrir ákvæði greina 41 og 42 er ÍSÍ heimilt að veita öðrum þar til bærum aðilum, umboð til að skipuleggja og framkvæma eftirlit með lyfjanotkun íþróttamanna, ásamt því að fara með ákæruvald í málum er varða brot á Lögum ÍSÍ um lyfjamál. Ný 44. grein Niður falli lagagreinar 43 – 50 og í staðinn komi ný 44. grein: Lagaákvæði um lyfjamál sem eru byggð eru á Alþjóðalyfjareglunum (World Anti Doping Code), sem gefnar eru út af Alþjóðalyfjaeftirlitinu (World Anti Doping Agency, WADA) eru nú í sér lögum, Lögum ÍSÍ um lyfjamál. 49. grein Nýr töluliður: 49.2 Heimilt er framkvæmdastjórn ÍSÍ að hafa forgöngu um að leggja niður sérsamband ef íþróttagreinin er ekki stunduð a.m.k. innan fimm héraðssambanda/íþróttabandalaga. Nýr töluliður: 49.4 Þegar niðurlagning sérsambands er ákveðin skal framkvæmdastjórn ÍSÍ tilkynna viðkomandi héraðssamböndum/íþróttabandalögum það bréflega. 60. grein Ráðstöfun eigna Grein 60.3 breytist og verður þannig: 60.3. Nefnd þessi skal þannig skipuð, að einn nefndarmanna sé tilnefndur af fráfarandi stjórn, annar sé tilnefndur af menntamálaráðuneyti og sá þriðji sé tilnefndur af Hæstarétti, og sé hann jafnframt formaður. Grein 60.4 breytist og verður þannig: 60.4. Falli nefndarmaður frá, annar en Íþróttafulltrúi ríkisins, eða verði það starf lagt niður, tilnefnir Hæstiréttur mann í staðinn, þannig að nefndin sé ávallt fullskipuð.

Þingskjal 27. Tillaga um breytingu á 33. grein um áfrýjun. Kom töluvert breytt frá nefnd. Snorri Ólsen kynnti breytinguna. Þingskjal 27 – Tillaga til breytinga á 33. grein laga ÍSÍ um áfrýjun 33.2 Þar sem sérsamband ákveður að hafa sérstaka dómstóla þá verður málum þeirra ekki skotið til áfrýjunardómstóls ÍSÍ. Þó er heimilt að áfrýja þeim málum áfrýjunardómstóla sérsambanda sem varða Ólympíusáttmálann eða túlkun á honum.

41


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Áfrýjunardómstóll ÍSÍ ákveður í þessum tilvikum hvort kæruatriði séu þess eðlis að hann eigi um þau að fjalla. Ef áfrýjunardómstóllinn hafnar kæruatriðum áfrýjanda er málinu endanlega lokið. Geir Þorsteinsson KSÍ kom í pontu og óskaði Alfreð Þorsteinssyni til hamingju með nafnbótina Heiðursfélagi ÍSÍ og þakkaði honum fyrir vel unnin störf. Hann óskaði einnig forseta ÍSÍ til hamingju með síðasta tímabil og hvatti hann og framkvæmdastjórn til áframhaldandi góðra verka. Hann sagði það ljóst að það ríkti ekki sátt um það fjárframlag sem veitt væri til íþróttahreyfingarinnar. Hann sagði þrjú dómsstig til vansa og ekki í takt við tímann. Hann sagði það áríðandi að úrslit íþróttaviðburða ráðist á þeim tíma sem viðburðurinn eigi sér stað. Hann sagði þó komna sátt um málið og lagði til að tillagan yrði samþykkt eins og hún kom frá nefnd. Stefán Bogi Sveinsson UÍA kom í pontu og sagðist búa við þá bölvun að vera lögfræðingur. Hann sagðist ekki sáttur við tillöguna eins og hún kemur frá nefnd. Hann sagði það rétt að vissulega væri víða búið við tvö dómsstig en það væri ekki almenn regla. Hann gat þess að oft væri hægt að vísa málum til 3. dómsstigs eins og t.d. mannréttindadómstóls Evrópu. Hann minnti á að samkvæmt núgildandi lögum ættu mál ekki að koma til umfjöllunar hjá áfrýjunardómstól ÍSÍ nema þau varði íþróttahreyfinguna í heild. Hann nefndi það að að sér vitandi þá vissi hann ekki til þess að KSÍ hefði leitað til ÍSÍ varðandi þessa tillögu. Hann taldi að verið væri að þrengja verulega að dómstólum íþróttahreyfingarinnar með þessari tillögu. Hann gerði það að tillögu sinni að vísa þessari tillögu frá. Snorri Ólsen útskýrði að með tillögunni sé áfram hægt að áfrýja málum til áfrýjunardómstóls ÍSÍ en búið sé að þrengja það ákvæði. Hann gat þess að þessi lausn hefði verið rædd við forystu KSÍ og ÍSÍ og þar teldu menn að þetta væri ásættanleg lausn. Hann sagði að þingið þyrfti að kveða upp um það hvort tillögunni verði vísað frá eða ekki. Hörður Þorsteinsson GSÍ kom í pontu og minnti á tvö dómstig hjá GSÍ en sagði að í lögum þeirra væri getið um það að hægt væri að vísa málum til ÍSÍ og það gæti orðið svo að GSÍ þyrfti að breyta sínum lögum ef tillagan yrði samþykkt. Snorri Ólsen gat um það að sérsamböndum væri áfram heimilt að vísa tillögum til áfrýjunardómstóls ÍSÍ og því þyrfti ekki að breyta lögum þeirra þó tillagan verði samþykkt. Frávísunartillögunni var vísað frá með meirihluta atkvæða. Tillagan eins og hún kom frá nefnd var samþykkt með þorra atkvæða, sex voru á móti.

42


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Snorri Ólsen bað þingforseta um að leita afbrigða þingsins varðandi nýtt þingmál sem nefndin hafði tekið til umfjöllunar, þ.e. þingsköp ÍSÍ. Þingforseti gerði það og engar athugasemdir voru gerðar. Snorri kynnti breytingarnar. Samþykkt samhljóða. Þingforseti þakkaði laganefnd fyrir vel unnin störf. Hann kynnti hádegishlé og nefndi að þingstörf héldu áfram kl. 13.00. Þingstörf hófust aftur kl. 13.05.

15. Kjörnefnd kynnir framboð. Þingforseti gerði grein fyrir kosningum til framkvæmdastjórnar og gaf hann Reyni Ragnarssyni formanni kjörnefndar orðið. Reynir bar upp framboð Ólafs E. Rafnssonar til forseta ÍSÍ og klappaði þingheimur hátt og lengi og stóð jafnframt upp úr sætum sínum. Næst kynnti Reynir tilhögun kosninga í framkvæmdastjórn ÍSÍ. Héraðssambönd komu upp og sóttu atkvæðaseðla sína til samræmis við upptalningu Reynis. Sérsambönd komu því næst upp og sóttu atkvæðaseðla sína í samræmi við upptalningu Reynis. Atkvæðaseðlum var safnað saman og þingforseti bað talningafólk um að fara í hliðarsali og hefja talningu. Niðurstöður þingnefnda, framhald. 19. Tillögur fjárhagsnefndar. Þingforseti bað Sigurjón Pétursson formann fjárhagsnefndar að gera grein fyrir störfum nefndarinnar. Sigurjón fór yfir störf nefndarinnar. Níu málum var vísað til nefndarinnar. Þingskjal nr. 6. Ríkisstyrkur til sérsambanda. Kom óbreytt frá nefnd. Þingskjal 6 – Ályktun um ríkisstyrk til sérsambanda ÍSÍ 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið 17.-18. apríl 2009 á Hilton Hótel Nordica, skorar á ríkisstjórn Íslands að endurnýja samning um stuðning til sérsambanda ÍSÍ og jafnframt hækka árlegt framlag til að efla megi starfsemi sérsambandanna. Samþykkt samhljóða. Þingskjöl nr. 7, 20 og 26 fjalla allar um ferðasjóðinn. Lagt til að 26 verði samþykkt en ekki 7 og 20 á þeim forsendum að tillaga 26 gangi lengst.

43


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Þingskjal 26 – Tillaga til ályktunar um ferðasjóð Íþróttaþing 2009 hvetur ríkisstjórn Íslands til þess að auka framlög í ferðasjóð íþróttafélaga þannig að 90 milljónir verði til ráðstöfunar fyrir árið 2009 eins og fyrirheit höfðu verið gefin um. Jafnframt að framlög verði hækkuð í 200 milljónir í áföngum og því markmiði náð eigi síðar en árið 2012. Guðjón Þorsteinsson KKÍ kom í ræðustól. Hann nefndi að gera þyrfti meira í dag en í gær. Hann nefndi mikilvægi sjálfboðaliða og kom inn á kostnað vegna ferða t.d. hjá ungum iðkendum fyrir vestan. Hann sagði að hlutverk hreyfingarinnar að hjálpa þeim sem minna mega sín. Að iðkendur haldi svipuðu mynstri og verið hefur og því væri slæmt þegar íþróttamannvirkjum væri lokað fyrr en áður vegna sparnaðar. Það kæmi niður á iðkendunum. Hann lagði áherslu á það að hreyfingin þyrfti að vera dugleg við að halda stjórnvöldum við efnið og að nauðsynlegt væri að allir gætu stundað íþróttir. Sigfús Helgason ÍBA kom í pontu og taldi ferðasjóð vera langstærsta málið sem íþróttahreyfingin á landsbyggðinni hefði tekist á við. Hann sagði mikilvægt að fyrirheit ríkisstjórnarinnar verði efnd og hugsar með hryllingi til þess ef ákveðið verður að láta staðar numið varðandi hækkun ferðasjóðs eða sjóðurinn jafnvel felldur niður. Það hefði augljósa fækkun ferða í för með sér. Tillagan var samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 11. íþróttabandalög.

Ályktun um stuðning við héraðssambönd og

Þingskjal 11 – Ályktun um stuðning við héraðssambönd og íþróttabandalög 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, hvetur ríkisstjórn að styðja héraðssambönd og íþróttabandalög með myndarlegum fjárframlögum. Slíkur fjárstuðningur myndi skapa grundvöll til ráðningu starfsmanna í héruðum, bættri þjónustu til aðildarfélaga og faglegri umgjörð um íþróttastarf á landsvísu. Engilbert Olgeirsson kom í pontu og sagði mikilvægt að þessi tilaga yrði samþykkt. Hann gat um reynslu sína að starfi fyrir héraðssamband og sagði samböndin afar misjöfn að stærð og styrk. Hann gat um álag á starfsfólk ÍSÍ og að bætt starfsemi héraðssambanda hefði áhrif inn í starfsemi ÍSÍ og álag á starfsfólk þar. Hann þakkaði félögum sínum í framkvæmdastjórn fyrir frábært samstarf en sagðist vera á leið út úr stjórn í raun mjög ungur og það væri vissulega dálítið sérstakt. Hann sagðist hvergi nærri hættur störfum í hreyfingunni og þakkaði kærlega fyrir sig.

44


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Hörður Oddfríðarson kom í pontu og sagðist ekki leggjast gegn tillögunni og taldi fjárframlög frá ríki ágæt en betur mætti þó ef duga skyldi. Hann telur í raun ákveðin öfugmæli í tillögunni þar sem óskað sé eftir myndarlegum fjárframlögum til héraðssambanda „líkt” og gert hefur verið gagnvart sérsamböndum. Hann telur styrki þangað hafa verið nánasarlega. Hann gat um orð nokkurra aðila sem voru með ávörp í upphafi þings að hreyfingin eigi að redda hinu og þessu fyrir ekki neitt eða í besta falli lítið. Gestur Guðjónsson kom í pontu og gerði það að tillögu sinni að orðin „líkt og gert hefur verið varðandi sérsambönd ÍSÍ“ falli brott. Þingforseti bar upp breytingartillöguna og var hún samþykkt samhljóða. Þingforseti las upp skeyti frá Ásdísi Höllu Bragadóttur með heillaóskum til Ólafs E. Rafnssonar. Ásdís Halla var stödd erlendis. Þingskjal 15. Ályktun um skattamál. Lagt til að tillögunni verði vísað frá. Sigurjón gat þess að tillagan væri í raun ekki frambærileg eins og hún liti út. Hann sagði nefndina telja að búið væri að taka á þessu máli annars staðar m.a. í verkefni ÍSÍ um fyrirmyndarfélög og því væri ekki ástæða til að bera þessa tillögu upp hér. Þingskjal 15 – Ályktun um skattamál Samþykkt að vísa tillögunni frá. Þingskjal 19. Tillaga um rannsóknarmiðstöð fyrir íþróttir. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt. Nefndin nefnir að mikið af tækjabúnaði sé til nú þegar í landinu og þau beri að nýta. Þingskjal 19 – Tillaga um rannsóknarmiðstöð fyrir íþróttir 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, hvetur ÍSÍ til að taka þátt í stofnun rannsóknarmiðstöðvar fyrir íþróttir í samstarfi við sérsambönd, héraðssambönd og aðra hagsmunaaðila, svo og háskóla og aðra þá aðila sem bestan hafa tækjabúnað og þekkingu á sviði rannsókna og mælinga á sviði íþróttafræða og hreyfivísinda. Stefnt skal að, að rannsóknarmiðstöðin verði staðsett í Laugardal, höfuðstöðvum íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Þingið hvetur ríkisvaldið til að styðja myndarlega við þetta verkefni. Stefnt skal að því að rannsóknarmiðstöðin taki til starfa eigi síðar en árið 2010. Auður Ólafsdóttir upplýsti þingheim um að rekin hefði verið stór rannsóknarmiðstöð af HÍ í ýmsum vísindum þar sem hægt væri að gera miklar og flóknar rannsóknir á íþróttamönnum. Hún nefndi að passa þurfi upp á það að 45


Þinggerð Íþróttaþings 2009

ekki sé verið að sækja í sjóði þegar þekkingin og tæknibúnaður er til annars staðar. Guðjón Þorsteinsson spurði hvernig aðgengi íþróttamanna að þessari aðstöðu væri. Auður Ólafsdóttir sagðist ekki hafa nákvæmar upplýsingar um það. Hún sagðist þó vita að til stæði að efla rannsóknarmiðstöð HÍ og afla henni aukinna tekna með einhverjum hætti. Stefán Gunnlaugsson ÍBA kom í pontu og fannst vanta hugmyndir um kostnað þessu fylgjandi. Hann taldi nauðsynlegt að hugsa út í það að hugsanlega væri verið að skera niður ferðasjóð og því væri erfitt við aðstæður niðurskurðar að óska eftir auknum fjármunum í verkefni eins og þetta. Hann sagði þó verkefnið eflaust gott og þarft en ef valið stæði á milli þá veldi hann ferðasjóðinn í öllum tilfellum því að það væri forsenda fyrir þátttöku landsbyggðarinnar í íþróttastarfinu. Hann lagði áherslu á það að íþróttahreyfingin væri hreyfing allra landsmanna en ekki bara íbúa höfuðborgarsvæðisins. Auður Ólafsdóttir kom með svohljóðandi breytingartillögu. 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið í Reykjavík 17.- 18. apríl 2009, hvetur ÍSÍ til að stuðla að samstarfi við háskóla og aðra þá aðila sem bestan hafa tækjabúnaðinn og þekkinguna á sviði rannsókna og mælinga á sviði íþróttafræði og hreyfivísinda. Hörður Oddfríðarson kom í pontu og taldi að þrátt fyrir efnahagsástandið þá væri rétt að stefna lengra og nauðsynlegt væri að hafa sýn á framtíðina. Hann sagðist samþykkur Auði varðandi samstarf við aðila sem hafa yfir tækjabúnaði og aðstöðu að ráða. Honum fannst ekki rétt að setja höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina sem andstæða póla og lagði á það áherslu að hreyfingin væri ein heild. Aðilar í framkvæmdastjórn væru ekki fulltrúar landsbyggðar eða hinna og þessa landsvæða. Hann lagði á það áherslu að aðilar hreyfingarinnar á höfuðborgarsvæðinu berðust fyrir tilurð landsbyggðarfélaganna líka þannig að allir yrðu með. Arnþór Sigurðsson benti á greinargerð með tillögunni þar sem samráð er haft við sérfræðinga í íþróttafræðum og því full ástæða til að samþykkja tillöguna. Hann kallaði eftir frekari útskýringum á því út á hvað tillagan gengur í raun og veru. Frímann Ari Ferdínandsson ÍBR kom í pontu og fór frekar yfir tillöguna. Hann sagði fyrirhugaða staðsetningu tilkomna vegna staðsetningar þess tækjabúnaðar sem fyrir hendi væri. Hann nefndi búnað á Laugarvatni og í HÍ og áhuga HR á

46


Þinggerð Íþróttaþings 2009

aðstöðu fyrir sína starfsemi þessu tengdri. Hann undirstrikaði fullan vilja við alla aðila varðandi þessi mál, öllum möguleikum væri haldið opnum. Valdimar Leó Friðriksson kom í pontu og sagði það besta við tillöguna vera að hún hefði haft í för með sér skoðanaskipti þingfulltrúa. Hann gerði tillögu um smá breytingu á tillögunni. Samkvæmt tillögu Valdimars þá dytti eftirfarandi málsgrein út úr tillögunni: „Þingið hvetur ríkisvaldið til að styðja myndarlega við þetta verkefni“. Hann sagði það á hreinu að öll værum við að berjast fyrir því sama, allir vildu að ferðasjóður verði efldur. Það eigi ekki að vera deilumál af pólítískum toga. Þórdís Gísladóttir hvatti þingheim til að samþykkja tillöguna. Hún minnti á það að tveir háskólar væru að kenna íþróttafræði og taldi varhugavert að beina því til ríkisvaldsins að útvega fjármagn til kaupa á tækjabúnaði fyrir einn skóla umfram annan. Hún sagði þetta það eina sem á vantaði inn í langan íþróttaferil hennar. Snorri Olsen kom í pontu og taldi mikilvægt að þingið sendi skýr skilaboð um það hvað við vildum helst. Hann sagði það liggja fyrir að á næsta ári verði skorið niður um 500 milljarða. Hann sagði því mikilvægt að reyna að halda sjó, ferðasjóðurinn sé eitt af því mikilvæga og því beri að leggja áherslu á hann ef velja þarf á milli verkefna. Hann taldi að hreyfingin þyrfti að vera raunsæ hvað tillögur snertir. Þórdís Gísladóttir sagðist vera búin að vera í hreyfingunni síðan hún var 12 ára og nefndi aftur að hún vissi að þetta væri það eina sem hana vantaði á sínum ferli. Hún nefndi að ríkisvaldið talaði um nýsköpun, sprotafyrirtæki sem vænlegan kost þessa dagana og því væri það góður kostur að byggja upp rannsóknarmiðstöð þar sem það skiptir höfuðmáli varðandi afreksíþróttir. Hún taldi þetta ekki eiga að þurfa að kosta verulega mikið, Reykjavíkurborg hefði t.d. gefið vilyrði fyrir húsnæði vegna verkefnisins. Í raun vantar bara rannsóknarmiðstöð í Laugardalinn til að allir hlutir séu í lagi. Gísli Páll Pálsson kom með breytingartillögu sem kæmi til framkvæmda ef breytingartillaga Auðar yrði felld. Hann leggur þá til að úr upphaflegu tillögunni falli eftirfarandi málsgrein út: Stefnt skal að, að rannsóknarmiðstöðin verði staðsett í Laugardal, höfuðstöðvum íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Geir Þorsteinsson KSÍ kom í pontu og sagðist styðja skipulegt starf með afreksfólki. Hreyfingin væri aftarlega á merinni í þessum málaflokki. Hann sagði að KSÍ væri tilbúið til að styðja þetta fjárhagslega og hvatti til þess að tillagan yrði samþykkt. Hann sagðist treysta ÍSÍ til að vinna þessu brautargengi. Hann 47


Þinggerð Íþróttaþings 2009

taldi nauðsynlegt að hafa heildarsýn á stefnu hreyfingarinnar. Hann taldi KSÍ hafa orðið sér út um aukna fjárstyrki frá ríkisvaldinu með breyttri aðferðafræði en forysta ÍSÍ hefði brugðist í þeim efnum þó svo að vissulega ættu sérsamböndin einhverja sök þar á málum líka. Hann sagðist þó treysta forystu ÍSÍ til að vinna úr þessu máli, öllum til heilla. Arnór Benónýsson HSÞ kom í pontu og taldi umræðuna meira og minna fjalla um það sama. Hann fjallaði um margskonar styrki, þeir þyrftu ekki endilega að vera í formi fjármagns. Hann hvatti þingheim til að samþykkja tillöguna. Sigríður Jónsdóttir ÍSÍ kom í pontu og gat um að hún hefði lengi komið að störfum hjá háskólasamfélaginu og gat um það að í raun vantaði efni til rannsókna og þar gæti íþróttahreyfingin komið sterk inn. Hún tók það fram að þeir sem hefðu stundað rannsóknir í íþróttum á Íslandi þeir veki jafnan athygli fyrir það sem þeir eru að gera. Hún taldi afar líklegt að vel yrði tekið í óskir um rannsóknir um íþróttamál hjá háskólasamfélaginu. Varðandi fjárhagslegan stuðning þá benti hún á Rannsóknarsjóð Íslands sem væntanlega yrði vísað á í þessum efnum. Innan Rannsóknarsjóðs væri Tækjasjóður Ranníss. Hún benti á að þar væru miklir fjármunir. Sveinn Áki Lúðvíksson ÍF kom í pontu og ræddi um samstarf Íþróttafélags fatlaðra við Háskóla Íslands varðandi rannsóknir sem væru einstakar á heimsvísu og lagði til að tillagan yrði samþykkt. Guðlaug Baldvinsdóttir FRÍ kom í pontu og sagði að bráðnauðsynlega vantaði svona rannsóknarmiðstöð en sagði það jafnframt mikilvægt að áfram yrði hægt að ferðast til og frá landsbyggðinni. Þessu mætti ekki blanda saman, hvort tveggja væri afar mikilvægt. Hún taldi hagsmuni allra hafða í huga ef tillagan yrði samþ. Valdimar Leó Friðriksson dró breytingartillögu sína til baka. Þingforseti gaf Sigurjóni Péturssyni orðið. Sigurjón Péturson gerði það að tillögu sinni að fella texta inn í tillöguna og las hana upp þannig. 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, hvetur ÍSÍ til að taka þátt í stofnun rannsóknarmiðstöðvar fyrir íþróttir í samstarfi við sérsambönd, héraðssambönd og aðra hagsmunaaðila svo og háskóla og aðra þá aðila sem bestan hafa tækjabúnaðinn og þekkingu á sviði rannsókna og mælingar á sviði íþróttafræðinnar og hreyfivísinda. Rannsóknarmiðstöðin verði staðsett í Laugardal, höfuðstöðvum íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Þingið hvetur

48


Þinggerð Íþróttaþings 2009

ríkisvaldið til að styðja myndarlega við þetta verkefni. Stefnt skal að því að rannsóknarmiðstöðin taki til starfa eigi síðar en árið 2010. Gísli Páll Pálsson lagði til örlitla breytingu þar sem sett væru orðin ”stefnt væri að” staðsetningu miðstöðvarinnar í Laugardal en ekki kveðið alveg upp með það. 69. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið í Reykjavík 17.-18. apríl 2009, hvetur ÍSÍ til að taka þátt í stofnun rannsóknarmiðstöðvar fyrir íþróttir í samstarfi við sérsambönd, héraðssambönd og aðra hagsmunaaðila svo og háskóla og aðra þá aðila sem bestan hafa tækjabúnaðinn og þekkingu á sviði rannsókna og mælingar á sviði íþróttafræðinnar og hreyfivísinda. Stefnt skal að því að rannsóknarmiðstöðin verði staðsett í Laugardal, höfuðstöðvum íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Þingið hvetur ríkisvaldið til að styðja myndarlega við þetta verkefni. Stefnt skal að því að rannsóknarmiðstöðin taki til starfa eigi síðar en árið 2010. Tillaga Gísla var borin upp og var hún samþykkt með þorra atkvæða, einn var á móti.

16. Niðurstöður kosninga til framkvæmdastjórnar Þingforseti gaf Reyni Ragnarssyni orðið varðandi niðurstöður á kjöri til framkvæmdastjórnar ÍSÍ. Niðurstöður urðu eftirfarandi: Gunnar Bragason 262 atkvæði Lárus Blöndal 254 atkvæði Hafsteinn Pálsson 254 atkvæði Helga Steinunn Guðmundsdóttir 249 atkvæði Helga H. Magnúsdóttir 249 atkvæði Friðrik Einarsson 241 atkvæði Örn Andrésson 240 atkvæði Sigríður Jónsdóttir 239 atkvæði Jón Gestur Viggósson 230 atkvæði Helgi Sigurðsson 208 atkvæði Þorgrímur Þráinsson 194 atkvæði Tvö atkvæði voru ógild. Þingforseti taldi niðurstöður liggja fyrir um réttkjörna framkvæmdastjórn ÍSÍ, aðalstjórn. Hann innti Þorgrím Þráinsson eftir áhuga hans á að gefa kost á sér til varastjórnar og svaraði Þorgrímur því játandi. Þingforseti gaf Sigurjóni Péturssyni orðið.

49


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Þingskjal nr. 25. Tillaga um stofnun starfshóps um hlutafélög innan íþróttahreyfingarinnar. Lagt til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Þingskjal 25 – Tillaga um stofnun starfshóps um hlutafélög innan Íþróttahreyfingarinnar Íþróttaþing 2009 samþykkir að skipa 5 manna starfshóp sem fari yfir þá þróun sem átt hefur sér stað með stofnun hlutafélaga til reksturs íþróttastarfsemi innan ÍSÍ og móti stefnu og tillögur um skipan þeirra mála. Stjórn ÍSÍ skal skipa starfshópinn og skal hann skila tillögum til stjórnarinnar í lok árs 2009. Gestur Guðjónsson FRÍ fagnaði tillögunni en taldi að starfshópurinn ætti að fjalla um mun fleiri þætti t.d. skattamál. Hann lagði fram eftirfarandi breytingartillögu. Þingskjal 25 – Tillaga um stofnun starfshóps um hlutafélög innan Íþróttahreyfingarinnar Íþróttaþing 2009 samþykkir að skipa 5 manna starfshóp sem fari yfir þá þróun sem átt hefur sér stað með stofnun hlutafélaga til reksturs íþróttastarfsemi innan ÍSÍ og móti stefnu og tillögur um skipan þeirra mála sem og alls skattaumhverfis íþróttahreyfingarinnar. Stjórn ÍSÍ skal skipa starfshópinn og skal hann skila tillögum til stjórnarinnar í lok árs 2009. Breytingartillagan var samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 28. Fjárhagsáætlun ÍSÍ. Sigurjón Pétursson gerði grein fyrir umræðum um tillögunni. Hann notaði tækifærið og hrósaði Gunnari Bragasyni gjaldkera ÍSÍ og hans fólki fyrir góð störf. Hann sagði einhug í nefndinni um að tillagan yrði samþykkt. Arnþór Sigurðsson FRÍ kom í pontu og gerði að umtalsefni kostnað vegna smáþjóðaleika. Hann bað um skýringu á kostnaðaraukningu á milli smáþjóðaleika og gat þess einnig að kostnaður vegna leikanna væri einungis helmingur þeirrar upphæðar sem í raun kæmi til því að sérsamböndin greiddu helming á móti ÍSÍ. Hann taldi varasamt að fara í verkefni sem þetta vegna kostnaðar en velti upp hvort hægt væri að sækja önnur mót með minni tilkostnaði. Gunnar Bragason þakkaði fyrir góðan stuðning í kjöri til framkvæmdastjórnar. Hann útskýrði kostnaðarauka m.a. með breyttu gengi sem nánast hefði tvöfaldast og nefndi að leikar á Kýpur væru nánast þeir dýrustu sem hægt væri 50


Þinggerð Íþróttaþings 2009

að sækja hvað smáþjóðaleika snertir. Hann sagði þátttöku á smáþjóðaleikum hafa fengið mikla umræðu en niðurstaðan væri sú að taka þátt með myndarbrag og vonaðist eftir skilningi þingheims í þeim efnum. Hann taldi að hreyfingu okkar væri verið að setja mikið niður ef við tækjum ekki þátt. Samþykkt samhljóða. Þingforseti þakkaði nefndinni fyrir gott starf.

17. Aðrar kosningar 2 skoðunarmenn og 2 til vara. Þingforseti las upp tilnefningar. Hallgrímur Þorsteinsson og Tryggvi Geirsson Sigríður Ármannsdóttir og Friðjón Friðjónsson Samþykkt samhljóða. Sex dómarar í dómstól ÍSÍ og sex dómarar í áfrýjunardómstól ÍSÍ. Þingforseti las upp tilnefningar í dómstól ÍSÍ. Gunnar Guðmundsson, Halldór Frímannsson, Hilmar Gunnlaugsson, Guðmundur Jónsson, Ólafur Björnsson og Sigurður Ingi Halldórsson. Samþykkt samhljóða. Þingforseti las upp tilnefningar í áfrýjunardómstól ÍSÍ. Eftirtaldir voru tilnefndir: Jón G. Zoega, Gestur Jónsson, Snorri Ólsen, Helgi I. Jónsson, Björgvin Þorsteinsson og Karl Gauti Hjaltason. Samþykkt samhljóða. Þingforseti tilkynnti kaffihlé. Þingforseti bauð formanni kjörnefndar að koma í pontu vegna kosninga í varastjórn ÍSÍ. Reynir kynnti framboð og bað fulltrúa sambandsaðila að koma upp jafnharðan og þeir yrðu lesnir upp og taka við atkvæðaseðlum. Þinghlé. Þingforseti bað Reyni Ragnarsson að koma í pontu og fara yfir kosningar í varastjórn framkvæmdastjórnar ÍSÍ. Reyni sagði að 254 atkvæði hefðu verið greidd, þar af tvö ógild. Niðurstöður urðu eftirfarandi:

51


Þinggerð Íþróttaþings 2009

Ingibjörg Bergrós Jóhannesdóttir 239 atkv. Þorgrímur Þráinsson 145 atkv. Gústaf Adolf Hjaltason 118 atkv. Þingforseti las upp tilnefningar í kjörnefnd. Eftirtaldir voru tilnefndir: Reynir Ragnarsson, Jón Ásgeir Eyjólfsson, Valdimar Leó Friðriksson, Guðrún Inga Sívertsen og Guðríður Aadnegard. Samþykkt samhljóða. Tilnefndir til vara: Sigríður G. Bjarnadóttir og Gísli Georgsson. Samþykkt samhljóða.

18. Þingslit Þingforseti þakkaði fyrir gott þing þakkaði þingfulltrúum fyrir góða samvinnu og ánægjulegt þing. Hann minnti á gildi íþróttahreyfingarinnar og sagði hana afar öfluga. Hann sagði einnig að ekki mætti gleyma því að margir sem tækju sæti hjá sveitastjórnum og á alþingi hefðu fengið uppeldi sitt hjá íþróttahreyfingunni. Að því mæltu gaf hann Ólafi Rafnssyni forseta ÍSÍ orðið. Ólafur Rafnsson þakkaði fyrir kosningu til forseta, þann hlýhug sem hann skinjaði í þingsal. Hann sagði það mun verðmætara að fá endurkjör en að fá kosningu í embætti í fyrsta sinn. Hann nefndi styrk liðsheildarinnar og gildi hennar í öllu starfi. Hann sagðist líta svo á að hann væri að þjóna hreyfingunni og taldi það ánægjulegt að taka við þökkum víða fyrir það sem væri í raun hreyfingarinnar. Ólafur óskaði aðilum í framkvæmdastjórn til hamingju með kjörið og leit svo á að í raun hefði enginn tapað. Hann lagði áherslu á að fólk í framkvæmdastjórn legði niður alla fána og búninga og ynni sem ein heild í stjórninni eins og verið hefði hingað til. Hann taldi skiptar skoðanir í hreyfingunni í raun jákvæðar, ástæða væri til að hafa áhyggjur ef allir væru alltaf sammála. Það væri mikilvægt að málin væru leyst með lýðræðislegum og málefnalegum hætti eins og hér hefði verið gert hingað til. Ólafur bað allt starfsfólk ÍSÍ og framkvæmdastjóra að koma fram á gólfið og bað þingheim að klappa vel fyrir þeim mannauði sem þar færi. Hann bað því næst þingforsetana að koma til sín í pontu og afhenti þeim blóm með þökkum fyrir góð störf. Hann minnti á hátíðarkvöldverðinn, þakkaði þingfulltrúum fyrir þingsetuna og óskaði öllum góðrar heimferðar. Að þeim orðum sögðum sagði hann Íþróttaþingi 2009 slitið. _____________________________ 1. þingforseti, Alfreð Þorsteinsson

____________________________ 1. þingritari, Viðar Sigurjónsson. 52

Þinggerð 2009  
Þinggerð 2009  
Advertisement