Page 1

Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

66. þing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands haldið að Ásvöllum í Hafnarfirði 27. – 28. apríl 2002.

Þingið hófst kl. 10.00 með því að Ellert B. Schram forseti ÍSÍ o.fl. tóku á móti forseta Íslands, herra Ólafi Ragnari Grímssyni og fylgdu honum í þingsal. Framkvæmdastjóri ÍSÍ, Stefán S. Konráðsson bauð gesti og þingfulltrúa velkomna: Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson. Menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich. Heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson. Forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, Valgerður Sigurðardóttir. Bæjarstjórinn í Hafnarfirði, Magnús Gunnarsson. Heiðursforseti ÍSÍ, Gísli Halldórsson. Formaður UMFÍ, Björn B. Jónsson. Alþingismenn, sveitastjórnarmenn, aðrir góðir gestir, ágætu félagar á íþróttaþingi. Fyrir hönd ÍSÍ býð ég ykkur velkomin á 66. Íþróttaþing ÍSÍ sem haldið er á 90 ára afmæli sambandsins, hér í þessari stórglæsilegu íþróttamiðstöð Hauka, að Ásvöllum í Hafnarfirði í boði ÍBH og Hafnarfjarðarbæjar. Stefán kynnti tónlistaratriði þar sem Öldutúnskórinn undir stjórn Egils Friðleifssonar flutti lagið, Dagur er risinn, þjóðlag frá Gelíu við texta eftir Heimi Pálsson.

1. Setning þingsins, forseti ÍSÍ, Ellert B. Schram. Herra forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra. Heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson. Fulltrúar bæjaryfirvalda í Hafnarfirði og bæjarstjóri. Ágætu þingfulltrúar. Aðrir góðir gestir. Frá því við héldum síðast íþróttaþing á Akureyri, hafa þrír heiðursfélagar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, fallið frá. Það eru þeir Þorsteinn Einarsson, fyrrum íþróttafulltrúi, Björgvin Schram fyrrum form. KSÍ og Úlfar Þórðarson, fyrrverandi form. Vals og ÍBR. Ég bið ykkur um að votta minningu þessara heiðursmanna, ásamt öllum þeim öðrum sem látist hafa og horfið úr okkar röðum, virðingu og þökk, með því að rísa úr sætum. Hér erum við stödd í húsakynnum Hauka að Ásvöllum í Hafnarfirði. Þetta glæsilega íþróttamannvirki og félagsaðstaða, er einhver sú fullkomnasta sem finnst hér á landi. Hafnafjarðarbær hefur hlúið vel að sínum íþróttafélögum, enda íþróttaáhugi í miklum blóma og afrek hafnfirskra íþróttamanna og kvenna eru þekkt og rómuð. Við munum, síðar á þessu þingi veita Hafnarfjarðarkaupstað sérstaka viðurkenningu fyrir framlag bæjarins til íþróttamála. Haukar eru öflugt félag og sigursælt á síðari árum. Þeir hafa ekki aðeins yfir að ráða glæstum mannvirkjum, heldur og geta þeir státað af framúrskarandi íþróttafólki og síðast en ekki síst er forystusveitin og fylgismenn Hauka, hópur, sem öll önnur íþróttafélag geta öfundað þá af. Það er okkur sérstök ánægja að halda íþróttaþing á heimili þessa gróskumikla og sterka félags. Ágætu þingfulltrúar og gestir. Á þessu ári, nánar tiltekið 28 janúar s.l. voru níutíu ár liðin frá stofnun Íþróttasambands Íslands, sem nú heitir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands eftir sameiningu ÍSÍ og


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð Ólympíunefndar Íslands. Ólympíunefndin var raunar stofnuð af ÍSÍ og starfaði undir verndarvæng þess, fyrstu árin, svo segja má að Íþróttasambandið sé aftur komið í sína upprunalegu mynd, sem ríkir góð sátt um. Á slíkum tímamótum, merku afmælisári, er eðlilegt að staldra við og líta yfir farinn veg. Íþróttahreyfingin hefur stækkað og eflst með árunum, vaxið af sjálfstæði og sjálfstrausti í takt við eflingu og vöxt þjóðlífsins í landinu. Við minnumst forsprakkanna, allra forystumannanna í nær heila öld og allra þeirra fjölmörgu einstaklinga, sem sett hafa svip sinn á íþróttalífið, með þátttöku sinni í keppni, þjálfun og stjórnarstörfum. Við gleymum heldur ekki öllum þeim þúsundum liðsmanna, í okkar röðum, sem hafa komið að málefnum íþróttanna, í lengri eða skemmri tíma. Það er mikið gegnumstreymi í íþróttahreyfingunni og ég leyfi mér að fullyrða að flestir bornir og barnfæddir Íslendingar hafi einhvern tímann á ævi sinni, gengið til liðs við íþróttafélög, átt þar góðar stundir, lagt sitt af mörkum eða þá hrifist af og fylgst með íþróttaafrekum og starfi, með einum eða öðrum hætti. Íþróttir á Íslandi, fyrir tilstyrk öflugs starfs í grasrótinni, með skírskotun til æskufólks, með hjálp sveitarfélaga, fjölmiðla og ríkisvalds, eru ómissandi og snar þáttur í lífi og starfi þjóðarinnar. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sambandsaðilar þess er stærsta fjöldahreyfing á Íslandi um þessar mundir, og sú fjöldahreyfing, sem er virkust og öflugust að skapa félagsleg tengsl, samskipti og tjáskipti fólks og órjúfanlega vináttu, án tillits til kyns, búsetu, stéttar eða stjórnmálaskoðana. Þar sitja allir við sama borð, þar eru allir jafningjar, þar er ekki farið í manngreinarálit. Í nýlegri skoðanakönnun, sem Gallup framkvæmdi fyrir ÍSÍ, kom í ljós að 97% landsmanna telur reglubundna hreyfingu og líkamsrækt skipta miklu máli og 90% stunda eina eða aðra íþrótt, einu sinni eða oftar í viku, þar af 67% þrisvar sinnu í viku eða oftar. Í þessari könnun kemur líka fram að ÍSÍ nýtur velvildar og vinsælda alls þorra þjóðarinnar. 75% landsmanna eru jákvæðir gagnvart ÍSÍ. Fyrir það erum við þakklát og í ljósi þessara staðreynda getur íþróttahreyfingin vel við unað um stöðu sína eftir níutíu ára litríkan feril. Á þessu þingi er verkefni okkar fyrst og fremst að huga að og fjalla um stöðu okkar starfs að loknu tveggja ára tímabili, frá einu þingi til annars. Það getum við gert í samhengi og í samanburði við þá löngu sögu sem ÍSÍ á að baki, ekki síst vegna þess að það gefur okkur yfirsýn og er mælikvarði í ljósi sögunnar allrar. Við verðum nefnilega að muna að íþróttir og starfsemi þeim tengd, er þrotlaus barátta. Keppninni lýkur aldrei. Það tekur einn leikur við af öðrum, nýtt markmið tekur við af öðru, ný kynslóð af annarri. Við gerum stundum of mikið úr því sem aflaga fer. Ætlumst til of mikils, reisum okkur hurðarás um öxl. Við krefjumst fleiri sigra, meira fjármagns, betri aðstöðu. Og okkur sjálfum og þá ekki síður öðrum, hættir til að líta á íþróttahreyfinguna, samböndin og félögin, sem einhverja hornsteina, sem standa að eilífu. Við tölum um íþróttaforystuna, eins og hún sé tilteknir ódauðlegir og óhreyfanlegir einstaklingar. Allt er þetta misskilningur og ofmat. Ég talaði um gegnumstreymi hér áðan. Það er ekki út í loftið. Mannaskipti í forystu félaga, bandalaga og sambanda eru afar tíð. Aðeins einn maður hefur haldið út sem formaður í sérsambandi í þau rúm tíu ár, sem ég hef gegnt forystu hjá ÍSÍ. Dæmi eru um að félög skipti um formann annað hvert ár, hér á þessu þingi er sennilega helmingur þingfulltrúa á sínu fyrsta eða öðru íþróttaþingi. Íþróttaforystan er eins og iðandi fljót, straumþungur beljandi eða á ég að segja eins og sjávarföllin, sem bera sífellt nýjar öldur að landi. Íþróttafólkið og íþróttaforystan endurnýjar sig og er ekki annað en spegilmynd af fólkinu í landinu, berst upp í fjöru okkar eða er líkt og hlauparar í boðhlaupi, sem taka við keflinu hver af öðrum. Og við þessar mannabreytingar koma auðvitað nýjar kröfur og ný viðhorf. Nýtt fólk þekkir það sem það hefur, en ekki það sem var. Og nýtt fólk hefur markmið og langanir og væntingar í samræmi við tíðarandann og ríkjandi metnað. En ég segi, og hef þá söguna löngu, öll níutíu árin í huga, að starfi íþróttahreyfingarinnar hefur vel miðað og mikið farið fram. Sjáið öll þessi myndarlegu mannvirki, sem hafa risið á undanförnum árum, þökk sé breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og þrýstingi íbúa. Við höfum eignast nýja frjálsíþróttavelli á stöðum eins og Borgarnesi og Egilsstöðum, skautahallir á Akureyri og í Reykjavík, ný og fullkomnari skíðasvæði í Oddskarði, Sauðárkróki og annars staðar, svo ekki sé minnst á nýjar lyftur og gervisnjó, nú eigum við þrjár knattspyrnuhallir og fleiri eru í undirbúningi, í augsýn er ný 50 metra innisundlaug, bæði í Reykjavík og vonandi í Hafnarfirði og langþráð innnanhússaðstaða fyrir frjálsíþróttafólk í Reykjavík. Við sjáum glæsilegar íþróttahallir og velli hjá fjölmörgum íþróttafélögum, vítt og


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð breitt um landið og hér í dag, njótum við húsakynna Hauka, sem eru í senn glæsileg og táknræn um nýja og bætta aðstöðu. Í gær var vígt nýtt fimleikahús hér í Hafnarfirði. Við sjáum golfvelli hvarvetna spretta upp á byggðu bóli, sem og reiðvelli. Allt hefur þetta gerst á örfáum árum. Við sjáum ný afrek í íþróttum, Íslendinga sigra Rússa í knattspyrnulandsleik, handknattleikslið okkar ná fjórða sæti í Evrópukeppni, dansara, júdómenn, karatefólk, körfuboltastráka, sundmenn, já skylmingamenn, verða norðurlanda- og evrópumeistara í sínum greinum, Örn komast á verðlaunapall í heimsmeistarakeppni í sundi, Völu með bronsverðlaun á Ólympíuleikum og Jón Arnar, enn í hópi bestu tugþrautarmanna, hestamenn heimsmeistara í sinni íþróttagrein og marga af okkar glæstasta íþróttafólki, standa í fremstu röð með sínum liðum á erlendum vettvangi. Svo ekki sé minnst á einstök afrek Kristínar Rósar og annarra fatlaðra íþróttamanna. Í fjármálum hefur okkur einnig orðið vel ágengt. Sveitarfélög hafa staðið myndarlega að baki sínum heimafélögum, styrkir í gegnum ÍSÍ frá ríki, Ólympíufjölskyldunni og Ólympíusamhjálpinni hafa tvöfaldast á síðustu tíu árum. Lottóið heldur velli og vel það og Íslenskar getraunir skila vaxandi hagnaði. Við höfum eflt alla fræðslu, þjálfun, þekkingu á margvíslegum þáttum íþróttastarfsins og íþróttaiðkunar. Fyrir þessu þingi liggja viðamiklar lagabreytingar varðandi lyfjaeftirlit, svo ekki fari milli mála, að Íþrótta-og Ólympíusamband Íslands vill standa skipulega og markvisst að öflugu og réttlátu lyfjaeftirliti meðal íþróttafólks í samræmi við alþjóðlega staðla og nútíma kröfur. Hér eftir sem hingað til. Við sjáum hvarvetna hinn óbreytta borgara, taka aukinn þátt í íþróttaiðkun innan félaganna eða í eigin líkamsrækt. 70% fólks í landinu, segist hreyfa sig reglulega. Í skýrslu framkvæmdastjórnar ÍSÍ, sem hér er lögð fram á þinginu, sést að umsvif og verkefni hafa margfaldast á síðustu árum og Íþróttasambandið hefur orðið sýnilegra og skipulagðara og meiri og betri stuðningsaðili fyrir sérsambönd og einstakar íþróttagreinar, en nokkru sinni fyrr. Ég leyfi mér að draga þá ályktun, komast að þeirri augljósu niðurstöðu að vegur íþróttanna hefur vaxið með ótvíræðum hætti. Við eigum gott samstarf við stjórnvöld, íþróttafólk nýtur virðingar og fjölmiðlar verja stærra og rýmra plássi og tíma í umfjöllun um íþróttir. Auðvitað þurfum við enn að bæta í, auðvitað er enn margt ógert, auðvitað viljum við gera betur, en ef við erum alveg heiðarleg og sanngjörn, þá getum við ekki kvartað um tillitsleysi eða tilvistarkreppu. Í þessu ljósi var það stílbrot, þegar Tryggingastofnun og Tryggingaráð ákváðu að nýta sér ekki lengur heimild í lögum til að greiða íþróttafólki bætur vegna íþróttaslysa, nema það geti sýnt fram á tíu daga óvinnufærni. Til að bæta íþróttafólkinu þennan skaða, hefur heilbrigðisráðherra boðið fram 20 millj. kr. árlega sem styrk til að koma til móts við kostnað hreyfingarinnar og íþróttamanna vegna íþróttaslysa. Það er ekki hægt annað en vera þakklátur fyrir það. Það er sömuleiðis full ástæða til að þakka þær umtalsverðu hækkanir sem fjarveitingarvaldið fyrir tilstuðlan fyrrverandi menntamálaráðherra, lagði til íþróttamála með styrkjum til afrekssjóðs ungra og efnilegra, til landsliðsþjálfaramála og til þátttöku okkar fólks í Ólympíuleikum, heimsleikum og Smáþjóðaleikum. Allt þetta telur. Íþróttahreyfingin stendur vel. Hún er sterk. Hún er afl sem lætur gott af sér leiða og það veit þjóðin og þeir sem fyrir henni fara. En er þá ekkert að? Því fer fjarri. Fjármál einstakra félaga og sérsambanda eru brothætt, uppsafnaðar skuldir og rekstrartap, vegna aukins álags, metnaðar, krafna og reksturs sem er háður sjálfboðaliðum. Á okkur bitnar það aldarfar, að færri gefa kost á sér til sjálfaboðaliðastarfa en fyrr. Brottfall unglinga er of mikið úr íþróttum. Fjarlægð okkar frá öðrum löndum gerir alþjóðasamstarf dýrt. Skipulag og skipting íþróttahéraða er úrelt, og mörg íþrótta- og ungmennafélög búa enn við það fyrirkomulag að eiga aðild að tveim landssamtökum, sem veldur því að bitist hefur verið um fjárveitingar, verkefni, völd og stjórnsýslu. Þar á ég við ÍSÍ og UMFÍ. Ég ber mikla virðingu fyrir sögulegu hlutverki UMFÍ og lít á þau samtök sem samherja og sjálfsagða vini. Þessi tvö samtök, ÍSÍ og UMFÍ eiga að taka höndum saman á jafnréttisgrundvelli og í bróðerni, vegna þess að þannig mundu þau þjóna umbjóðendum


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð sínum, íþróttafólki og íþrótta- og ungmennafélögunum best, með því að ganga saman í einni fylkingu, undir einu merki. Síðasta íþróttaþing samþykkti að efna til viðræðna milli ÍSÍ og UMFÍ með það fyrir augum að kanna hagræðingu sameiningar ÍSÍ og UMFÍ. Það verk var unnið, þær viðræður fóru fram með ítarlegri kynningu og umræðum um land allt, en niðurstaðan varð sú, að UMFÍ og mörg héraðssambönd töldu slíka sameiningu ekki tímabæra. Það skal tvo til, þegar stofnað er til hjónabands. Og meðan bónorði ÍSÍ er ekki tekið, kemur ekki til hjónavígslunnar. Nú hefur UMFÍ á þingi sínu í október, sjálft samþykkt að halda áfram viðræðum við ÍSÍ og er það vel. Og það sem meira er, nú í vikunni undirritaði ég yfirlýsingu ásamt Birni B. Jónssyni, formanni UMFÍ, sem er svohljóðandi: “ÍSÍ og UMFÍ munu virða tilveru og sjálfstæði hvors annars en beita sér fyrir auknu samstarfi í tölvumálum, fræðslu- og útgáfumálum, starfsskýrslum, rekstri þjónustumiðstöðva um landið, endurskoðun á skiptingu íþróttahéraða og bættum samskiptum í allri starfsemi. Við erum einnig sammála um að gerð skuli ítarleg úttekt á úthlutun lottóarðs, með það að markmiði að samstaða náist um skiptingu arðsins, samkvæmt einni heildstæðri aðferð. Sett hefur verið í gang vinna þar að lútandi og starfshópur myndaður með fulltrúum ÍSÍ og skipulagsnefndar UMFÍ. Þegar niðurstöður af þeirri vinnu liggja fyrir, skulu tillögur kynntar fyrir hreyfingunum og stefnt að því að hægt verði að afgreiða breytt fyrirkomulag á næstu þingum sambandanna.” Ég er bæði sáttur og stoltur af þessari yfirlýsingu. Meðan bæði samtök starfa og lifa, er eðlilegt og nauðsynlegt að hvor um sig virði tilveru og sjálfstæði hins. Vegna margvíslegra verkefna, sem skarast og unnið er að jöfnum höndum, er sjálfsagt að eiga um þau samstarf. Síðast en ekki síst felur þessi yfirlýsing í sér vilja til þess að samræma úthlutanir samtakanna til sambandsaðila, þannig að litið verði á arð ÍSÍ og UMFÍ sem einn pott og úr þeim potti verði greitt eftir einni allsherjareglu. Ef það tekst, sem ég bind miklar vonir við, er rutt úr vegi erfiðum hindrunum, þ.e. ágreiningi og árekstrum vegna ólíkrar og stundum ósanngjarnrar skiptingar. Ég þakka formanni UMFÍ fyrir hans afstöðu og ákvörðun og ég tel þessa viljayfirlýsingu skapa ótal sóknarfæri. Góðir áheyrendur Ég er að tala um sóknarfæri. Þau eru mörg og víða. Efniviðurinn er fyrir hendi. Æska landsins, þörfin fyrir hreyfingu, löngunin til átaka, viljinn til metnaðar, sjálfur vaxtabroddurinn í hverju þjóðfélagi er í okkar höndum, því hvað sem líður atvinnuháttum og efnahagslífi, stjórnmálum eða búferlaflutningum, þá er það hin skapandi kraftur, æskufjörið og lífsneistinn sanni, sem er hvati og forsenda þeirrar iðju að stunda íþróttir, taka þátt í leik og lífi, félagsskapnum, heilbrigðri tómstundaiðju, sem gefur þjóðinni kraft til sjálfsbjargar og sjálfstrausts. Okkar vettvangur er þar sem fólkið er, án tillits til búsetu, efna eða arðs. Arðurinn okkar telst ekki í krónum, en hann telst í þroskuðum einstaklingum, manndómnum og þróttinum. Það er okkar framleiðsla, okkar framlag til þjóðfélagsins, okkar ávöxtur og arður og auður. Ég segi hér með sextugasta og sjötta íþróttaþing sett. Að lokinni þingsetningu Ellerts kynnti framkvæmdastjóri ÍSÍ stutt atriði frá karatedeild Hauka. KATA sýndu þau Lilja Pétursdóttir, Guðbjartur Ísak Ásgeirsson og Kristján Ó. Davíðsson. Stutt bardagaatriði, Kumite sýndu þau Ari Sverrisson og Egill Axfjörð Friðgeirsson annars vegar og Kristján Ó. Davíðsson og Guðbjartur Ísak Ásgeirsson hins vegar.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

2. Ávarp forseta Íslands, herra Ólafs Ragnars Grímssonar, verndara íþróttahreyfingarinnar. Virðulegu ráðherrar. Forseti ÍSÍ og aðrir í forystusveit íþróttahreyfingarinnar. Forráðamenn Hafnarfjarðar. Góðir þingfulltrúar, og aðrir gestir. Saga Íslendinga, á nýliðinni öld, er á margan hátt ævintýri líkust. Það var fátæk og fámenn þjóð fiskimanna og bænda sem öðlaðist sjálfstæðan sess í samfélagi heimsins og skóp sér lífskjör sem jafnast á við það besta sem þekkist annars staðar í veröldinni. Þróaði menningu og listir, sem í fyrstu voru að vísu aðeins á sviði bókmennta, sígildra og nýrra en hefur síðar blómstrað bæði í tónlist, myndlist, leiklist og öðrum greinum sem gefa lífinu fegurð og sígildan tón. Framfarir þjóðarinnar á þessu aldarskeiði hafa verið svo öflugar, víðtækar og litríkar að mörgum góðum gestum sem hingað koma er nánast ofviða að skilja hvernig þetta sé hægt. Og ekki minnkar undrunin þegar kemur að íþróttunum. Hvernig hafa Íslendingar sem aðeins voru um 100.000 á fyrstu áratugum aldarinnar sem ný er liðin og ríflega fjórðungur milljónar við lok hennar náð jafn fjölþættum árangri í íþróttum sem raun ber vitni. Orðið fullgildir þátttakendur í heimsmótum í fjölmörgum greinum. Við Íslendingar eigum nú nokkra tugi knattspyrnumanna í meistaraliðum víða um Evrópu og gerðum eftirminnilegt jafntefli við heimsmeistarana í fyrsta landsleiknum eftir að bikarinn komst í franskar hendur og vil ég nú frekar hampa því heldur en þeim sigrum sem forseti ÍSÍ nefndi hér áðan þó þeir hafi verið góðir á sínum tíma og við skákuðum nýverið flestum evrópuþjóðum í handbolta, og eigum líka í þeirri grein fjölmarga leikmenn sem náð hafa góðum árangri með erlendum stórliðum. Íslenskt afreksfólk í frjálsum íþróttum og sundi kemur heim með verðlaun af evrópumótum, heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum og í fjölda annarra greina eins og forseti ÍSÍ lýsti hér áðan hafa Íslendingar getið sér gott orð á alþjóðlegum völlum þar sem keppnin er svo sannarlega hörð. Sjálfsagt eru skýringarnar á þessum árangri bæði margar og breytilegar og ólíkar frá einu tímaskeiði til annars og einnig frá einni íþróttagrein til annarrar og ekki skulum við gleyma því að íþróttafólkið á hér sjálft örugglega stærstan hlut. Agi þess, atorka, einbeitni og hæfni hafa ráðið mestu. En þó er það hafið yfir allan vafa að máttur þeirrar hreyfingar sem hér kemur saman til íþróttaþings og fórnfýsi þúsundanna sem í 90 ár hafa helgað íþróttahreyfingunni krafta sína hafa verið og eru íslensku íþróttalífi einstæður bakhjarl. Íþróttahreyfingin, landssamböndin og einstök félög hafa í áratugi verið öflugasti félagsvettvangur landsmanna og skilað þjóðinni því verki sem aldrei verður að fullu þakkað. Vissulega hefur eins og þið vitið manna best oft verið á brattann að sækja. Fjárskortur hamlað för, húsakynni léleg hér áður fyrr og aðstaða til æfinga og þjálfunar varla bjóðandi. Starf sjálfboðaliðanna, sá bjargvættur sem kom hreyfingunni úr einum áfanga í annan. En slíkir erfiðleikar gleymast skjótt á sigurstundum sem hafa verið margar og í dag gleðjumst við yfir glæsilegri aðstöðu sem komið hefur verið upp víða um land og við sjáum ágætt dæmi þess hér í dag, íþróttahús sem eru stolt bæjarbúa en líka uppeldisstöð fyrir heilbrigða æsku og samkomustaður sem dregur jafnan mikinn fjölda að. Á merku afmælisári er Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands öflugra en nokkru sinni. Og gildi hreyfingarinnar fyrir þjóðina orðið samofið sjálfsvitund okkar og ættjarðarást, meginstoð í trú Íslendinga á eigin getu í upphafi aldar sem efalaust á eftir að breyta heimsmyndinni meira en nokkurn okkar getur órað fyrir. En á slíkum umbrotatímum, þá eru samstaðan og samkenndin besta veganestið og íþróttahreyfingin hefur öðrum fremur tengt þjóðina saman. Vakið gleði og stolt á sætum sigurstundum. Augnablikin þegar íþróttirnar þjappa þjóðinni saman, þegar Vala stökk í fjarlægri álfu og við horfðum öll á eða mörk voru skoruð í Svíþjóð á liðnum vetri eru vitnisburður um þann einingarmátt sem býr í íþróttahreyfingunni. Þessi minnisstæðu augnablik getum við Íslendingar aldrei fullþakkað íþróttafólkinu og hreyfingunni. En þó mætti hafa þau í huga þegar rætt er um framlög þjóðarbússins til íþróttanna. Sé litið til þess mikla ávinnings sem þjóðin fær í staðinn í öflugu íþróttalífi eru framlögin aðeins lítið brot. Og þá er ég ekki aðeins að vísa til þeirrar gleði sem sigrarnir vekja heldur umfram allt til heilbrigðis, hollustu og forvarna sem íþróttunum fylgja. Við þekkjum öll sem hér eru saman komin að


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð fjöldi rannsókna hefur staðfest að öflugt íþróttastarf, reglubundnar æfingar og hreyfing, koma í veg fyrir að fjölmargir sjúkdómar lami þrótt eða getu, stytti líf eða ræni marga heilsunni langt um aldur fram. Og íþróttirnar draga einnig stórlega úr hættunni á að unglingar verði fórnarlömb eiturlyfja og iðkun íþrótta á ungum aldri gefur líkamanum styrk til að verjast veikindum sem kunna að knýja dyra seinna á lífsleiðinni. Heilbrigðisþjónustan, kostnaður við rekstur sjúkrahúsa og heilsugæslu, meðferðarstofnana og við endurhæfingu er dýrasti þátturinn í útgjöldum hins opinbera og nemur árlega mörgum tugum milljarða. Því er á margan hátt eðlilegt að þegar verið er að meta hvaða fjármunir skuli renna til íþróttanna sé hafður í huga sá mikli ávinningur sem í þeim felst fyrir heilbrigðiskerfið. Hve mikill sá sparnaður er fyrir þjóðarbúið sem fylgir því að fjöldinn temji sér reglubundna hreyfingu og íþróttaiðkan hver og einn við sitt hæfi og áfram jafnt og þétt frá ungum aldri til elliára. Þetta er hið raunverulega samhengi sem leggja ber til grundvallar þegar fjárhagsrammi íþróttanna er borinn saman við önnur útgjöld. Með öflugu íþróttastarfi erum við að forða þjóðinni frá milljarða útgjöldum í rekstri heilbrigðisstofnana á hverju ári. Og þess vegna yrði í rauninni verulegur þjóðhagslegur sparnaður því samfara að verja verulegum fjármunum til íþróttanna. En okkur er hins vegar tamt að líta á íþróttastarfið fyrst og fremst sem félagslíf. En rannsóknir hafa fært okkur heim sannin um að íþróttirnar eru líka burðarás í nútímavæddu heilbrigðiskerfi og fjármunina ætti að meta í samhengi við þann veruleika. Ég vil í upphafi þessa íþróttaþings á þessu afmælisári færa ykkur öllum, bæði þeim sem hér eru og félagsmönnum íþróttahreyfingarinnar vítt og breytt um landið, alúðarþakkir íslenskrar þjóðar fyrir einstakt framlag hreyfingarinar á þessum áratugum, framlag ekki aðeins til samstöðu og velgengni í landi okkar, heldur líka til heilbrigðis og heilla þúsunda einstaklinga bæði fyrr og síðar. Þakka ykkur fyrir. Stefán Konráðsson þakkaði forseta Íslands fyrir hlý orð í garð íþróttahreyfingarinnar og kynnti næsta atriði Öldutúnskórsins sem var flutningur lagsins Maístjarnan, lag eftir Jón Ásgeirsson og texti eftir Halldór Kiljan Laxness.

3. Ávarp menntamálaráðherra, Tómasar Inga Olrich. Forseti Íslands. Heilbrigðisráðherra. Forseti ÍSÍ og heiðursforseti. Bæjarstjóri og aðrir forystumenn Hafnarfjarðarbæjar. Virðulegu þingfulltrúar. Aðrir góðir gestir. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að vera boðið á þetta glæsilega íþróttaþing og óska Íþróttaog Ólympíusambandi Íslands til hamingju með sívaxandi og farsælt starf í 90 ár. Við erum með ýmsum hætti nú að heiðra þá sem hafa tekið þátt í því að meitla ímynd Íslands bæði í augum okkar sjálfra og umheimsins. Við höfum verið með margvíslegum hætti að halda upp á hátíð nóbelsskáldsins sem hefur tekið meiri þátt í því en nokkur annar íslenskur rithöfundur að meitla ímynd Íslands í augum okkar sjálfra og annarra. Það er mjög við hæfi nú á þessum hátíðisdegi ÍSÍ að hugleiða það með hvaða hætti Íþrótta- og Ólympíusambandið hefur tekið þátt í því, ásamt þeirri miklu fylkingu sem sambandið er í forystu fyrir, að hafa áhrif á að meitla íslenska menningu á þessum mikilvægu tímum í sögu þjóðarinnar sem sambandið hefur starfað. Í raun og veru er rétt fyrir okkur að hugleiða það að þegar frumherjarnir sóttu fram var í raun og veru verið að reisa þetta samfélag nánast frá grunni. Allt var nánast ófullkomið og íþróttahreyfingin átti mjög mikilvægan þátt í því með sínu starfi að leggja grunn að sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og fyrir það er rétt að við séum þakklát og minnumst þess hér í dag. Árangur þessa starfs blasir hvarvetna við, hér þrífst blómlegt íþróttalíf, hér er ótrúlegur fjöldi íþróttaiðkenda og íþróttaafrek Íslendinga eru á heimsmælikvarða. Sá sem hér stendur hefur raunar á undanförnum árum verið talsvert á vettvangi utanríkismála, farið víða um heim á vegum sjálfs sín og þjóðarinnar og það hefur alltaf vakið athygli mína að orðstír Íslands og ímynd er skýr. Alls staðar kannast menn við þetta land og vita ýmislegt um það og verulegan hluta af þessari ímynd má rekja beint til íþróttamanna, afreksmanna í íþróttum.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð Það er ósjaldan þegar nafn Íslands ber á góma að þá beri jafnframt á góma nöfn þekktra íþróttamanna sem bera merki Íslands víða um heiminn. Sumir muna Vilhjálm Einarsson, aðrir nefna Bjarna Friðriksson, einnig ber í slíkum umræðum gjarnan nöfn Jóns Arnars, Völu og Þóreyjar hátt, þessi nöfn þau klingja í eyrum okkar eins og sérstök viðurkenning sem við erum stolt af. Árangur knattspyrnumanna sem gerðu jafntefli við Frakka árið 1998 og unnu Rússa og Tékka árið 2000, allt klingir þetta í eyrum okkar sem sérstök viðurkenning þessarar þjóðar. Fjórða sæti handknattleiksmanna í evrópumótinu nú í febrúar, sundafrek Arnar Arnarssonar eru stórkostleg og sömuleiðis skíðaafrek Kristins Björnssonar. Það er þetta framlag til íslensks veruleika bæði hér heima og í umheiminum sem er rétt að meta að verðleikum og líta á sem sérstakt framlag til íslenskrar menningar. Mjög merkilegt og gott starf í þágu íþrótta fatlaðra hefur einnig skilað sér með vellíðan og lífsfyllingu þátttakenda eins og greinilega hefur komið fram við mörg tækifæri og fáir íþróttamenn okkar geta státað af betri árangri á alþjóðavettvangi en íþróttamenn íþróttafélaga fatlaðra sem eiga fullar kistur gull- silfur- og bronspeninga. Ég vil gjarnan segja ykkur það að með athyglisverðari lífsreynslu sem ég hef kynnst er það að hafa orðið vitni að og komist í kynni við fatlaðan íþróttamann sem tókst á við það verkefni að sigrast á erfiðleikum sínum í gegnum íþróttirnar. Þetta er að mörgu leyti lífsreynsla sem ég held að ég muni búa að lengi. Það hefur að sjálfsögðu átt þátt í þessum öru framförum og auknum fjölda íþróttaiðkenda hve mikill kraftur, áhugi og samstaða hefur ríkt um uppbyggingu aðstöðu til íþróttaiðkana. Landsmenn hafa t.d. undanfarið orðið vitni að byggingu stórglæsilegra íþróttamannvirkja, stórglæsilegra halla eins og hér í Hafnarfirði og mörgum stórum sveitarfélögum. Þegar ég nálgaðist þessa miklu höll þá varð nú gömlum stjórnarmanni í KA hugsað til þess hvort það væri nú ekki rétt að fara hljóðlega og minnast ekki mikið á félagið sitt, ég leitaði ráða hjá Magnúsi Gunnarssyni bæjarstjóra og hann svaraði engu en leiddi mig hljóður að stórum skáp og löngum sem geymir bikara og heiðurspeninga sem Haukar hafa unnið á löngum og glæsilegum ferli, ég þurfti ekki meiri vitnanna við, ég óska Haukum til hamingju með þetta stórglæsilega hús og langan og glæsilegan feril. Það er rétt að geta þess í sambandi við þessa glæsilegu höll að þáttur sveitarfélaganna hefur verið geysilega mikilvægur í uppbyggingu aðstöðu til íþróttaiðkanna og má rekja til skynsamlegrar lagabreytingar og verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga frá árinu 1989 og þetta hefur skilað sér í góðum árangri. Það er stundum bent á að ríkið leggi óverulega fjármuni til íþrótta en vart verður því á móti mælt að á nokkrum undanförnum árum þá hefur ríkið tekið upp og aukið stuðning sinn við ýmsa þætti íþróttastarfsins. Má þar benda á aukinn stuðning við ýmis verkefni heildarsamtakanna, afreksfólk, lyfjaeftirlit og þátttöku í kostnaði við uppbyggingu á aðstöðu til íþrótta víða um landið. Ríkisvaldið hefur einnig hlaupið undir bagga og aðstoðað einstök sérsambönd fjárhagslega þegar mikinn og óvæntan vanda hefur borið að höndum og þegar íþróttamenn hafa staðið sig sérstaklega vel eins og t.d. þegar landsliðið okkar í handknattleik stóð sig sem best í Evrópumóti í febrúar sl. Þá hafa að undanförnu farið fram viðræður við stjórn ÍSÍ um aukinn stuðning við sérsamböndin og má segja að á þessu ári hafi í fyrsta sinn verið ákveðið sérstakt framlag til ÍSÍ vegna sérsambanda. Góðir áheyrendur, í raun er Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands merkisberi langrar hefðar sem rekja má aftur til fyrstu tíma Íslandsbyggðar og það sem mér finnst athyglisvert er það að elstu heimildir um íþróttalíf á Íslandi eru heimildir um það að Íslendingar hafi frá upphafi og þær þjóðir sem þeir rekja ættir sínar til, litið á andlegt og líkamlegt sem sama hlutinn. Ég ætla að vitna fyrir ykkur í bundið mál frá miðöldum sem segir þessa sögu. Það er norskættaður jarl frá Orkneyjum sem greinir svo frá íþróttum sínum: Tafl em egg örr að tefla Íþróttir kann ég níu Týni ég trauðla rúnum Tíð er mér bók og smíðir Skríða kann ég á skíðum Skít ég á ræk sá nýtir Hvortveggja kann eg hyggja Harpslátt og bragþáttur


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð Þessi heiðursmaður nefnir ekki hverjar þessar níu íþróttir eru en hann skríður einnig á skíðum þannig að þetta er forn tugþrautarmaður. Ég vil leggja áherslu á þetta vegna þess, að það er einmitt með þessum hætti sem mér finnst að eigi að líta og skynja íþróttirnar, þær eru hluti að menningu, andlegri og líkamlegri menningu, og það er mjög athyglisvert hvernig íslensk tunga nálgast hugtakið sem skilur á milli manna og dýra. Hugtakið menning sem er fornt í málinu, jafnframt kemur það fram í elstu heimildum, merkir í raun og veru að verða að manni og lýsir mannlegri reisn í orði og æði. Og á fáum sviðum mannlífsins er mannleg reisn eins einkennandi og í andlegri og líkamlegri einbeitingu íþróttamannsins. Þið eigið öll þess vegna drjúgan þátt í því að byggja upp og efla íslenska menningu, fyrir það vil ég sem menntamálaog menningarráðherra þakka, sérstaklega Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands fyrir að hafa veitt þessu forystu svo lengi og óska Íþrótta- og Ólympíusambandinu allra heilla á þessum merka degi og árna þeim allra heilla í framtíðinni. Þakka ykkur fyrir. Þegar hér var komið sögu skrifuðu forseti ÍSÍ og Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra undir samning um tryggingamál íþróttahreyfingarinnar. Heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson tók til máls og útskýrði hvernig þessi samningur kom til. Vonaðist hann til þess að samningurinn og sú skipan mála sem þar er verði íþróttahreyfingunni til farsældar. Hann fjallaði einnig um gildi hreyfingar og áhrif hennar á líkama og sál. Hann tók undir orð sem forseti Íslands hafði í ræðustól um að starf íþróttahreyfingarinnar og heilbrigðisþjónustan væru nátengd. Stefán þakkaði heilbrigðisráðherra fyrir og þá sérstaklega fyrir að leysa þetta mál sem hann sagði hreyfinguna vera afar þakkláta fyrir.

4. Ávarp bæjarstjórans í Hafnarfirði, Magnúsar Gunnarssonar. Forseti Íslands. Menntamálaráðherra. Heilbrigðisráðherra. Forseti ÍSÍ. Góðir þingfulltrúar og aðrir góðir gestir. Það er mér milkil ánægja og heiður að vera með ykkur hér í dag á 66. Íþróttaþingi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Við Hafnfirðingar höfum um áratugaskeið skipað íþróttum og heilbrigðum lifnaðarháttum í öndvegi. Við trúum því að íþróttir sem byggðar eru á faglegum grunni eins og kostur er, stuðli að auknu, líkamlegu jafnt sem andlegu heilbrigði bæjarbúa. Við teljum að öflugt íþróttalíf sé einn af lykilþáttunum í árangursríku forvarnastarfi. Íþróttir eru ennfremur sá vettvangur þar sem stuðla má að heilbrigðum félagsþroska og þeirri staðreynd að við megum og eigum að bera virðingu hvort fyrir öðru þótt við séum að takast á inni á íþróttavellinum. Til að gefa nokkra mynd af hversu frjór og gjöfull þessi jarðvegur er má t.d. nefna að hér í Hafnarfirði sóttu á sl. ári tæplega 600.000 manns íþróttahúsin í bænum og um 350.000 manns komu í sundlaugarnar tvær. Félagatal ÍBH árið 2000 taldi nær 10.000 manns sem samsvarar því að um helmingur allra Hafnfirðinga sé í íþróttafélagi og iðkendur voru um 6.500 sem eru um 33% bæjarbúa. En bak við góðan árangur í íþróttum er ekki aðeins elja og seigla íþróttamannanna sjálfra þó þar sé að sjálfsögðu drifkrafturinn mestur þegar mikið liggur við. Það er einnig sú mikla og oft á tíðum óeigingjarna vinna sem innt er af hendi af fórnfýsi fjölmargra einstaklinga sem taka þátt í stjórnum og ráðum í íþróttafélögunum sjálfum. Það skiptir einnig miklu máli gott skipulag, metnaður og framsýni heildarsamtaka íþróttafélaganna sjálfra. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands getur því á þessum tímamótum, í senn fagnað góðum árangri íslenskra íþróttamanna á íslenskri og erlendri grund um áratugaskeið, sem og þeim árangri sem öflug félagasambönd hafa áorkað með þróttmiklu starfi sínu. Framtíðin er því björt og það er heiður okkar að Íþrótta- og Ólympíusambandið haldi 66. Íþróttaþing sitt hér í Hafnarfirði á 90 ára afmæli sambandsins. Ég færi ÍSÍ og þingfulltrúm öllum árnaðaróskir bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og óska þess að íþróttahreyfingin muni eiga hér farsælt og árangursríkt þing. Takk.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

5. Ávarp formanns UMFÍ, Björns B. Jónssonar. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Menntamálaráðherra. Heilbrigðisráðherra. Forseti ÍSÍ. Stjórnendur bæjarfélagsins hér. Aðrir gestir og þingfulltrúar. Það er mér mikil ánægja og heiður að fá að ávarpa þetta afmælisþing ykkar. En fyrst af öllu færi ég ykkur kveðjur stjórnar UMFÍ og framkvæmdastjóra hreyfingarinnar. Það fer að styttast í eina öld sem UMFÍ og ÍSÍ hafa unnið saman að uppbyggingu æsku þessa lands. Þessar tvær hreyfingar sem í eðli sínu eru ólíkar hafa staðið saman að mörgum góðum uppbyggjandi málum fyrir unga fólkið og eiga vonandi eftir að gera um ókomna tíma. Nokkrar breytingar gætu þó verið í vændum hjá UMFÍ. Á síðasta ári var skipuð skipulagsnefnd UMFÍ sem hefur verið að störfum í vetur. Í þessa nefnd var valið fólk úr öllum landshlutum en formaður nefndarinnar er Helga Guðjónsdóttir varaformaður UMFÍ. Mun nefndin skila áfangaskýrslu fyrir 10. maí n.k. til stjórnar UMFÍ. Nefndinni var m.a. ætlað það hlutverk að skoða aðild íþróttabandalaga að UMFÍ. Ekki er opinbert að hvaða niðurstöðu nefndin hefur komist en þó er vitað að mikill vilji er til að opna á aðild íþróttabandalaga að UMFÍ sem gæti gerst í þrepum. Ef af því yrði að íþróttabandalögin kæmu inn í ungmennafélagshreyfinguna þá mun það þýða mikla skipulagsbreytingu fyrir UMFÍ eins og fyrir íþróttabandalögin sjálf. Þessi breyting snýr að landsmótum, þingum m.t.t. þingfulltrúa og fleiri þátta. Eins snýr breytingin að íþróttabandalögunum en hjá þeim snýst hún um aðlögun að stefnu og störfum ungmennafélagshreyfingarinnar. En það eru margir spennandi kostir í stöðunni og sá helstur að með þessu móti yrðu til ef af verður ein öflug grasrótarsamtök fólks sem vilja vinna að sameiginlegum málefnum ungs fólks á breiðum grunni. En hvað sem þessu líður þá vonast ég til að sú sameiginlega yfirlýsing forseta ÍSÍ og formanns UMFÍ sem Ellert las hér áðan verði liður í að auka alla samvinnu þessarra samtaka. Ég skrifaði undir þessa yfirlýsingu með fullum vilja til að koma þeim málum í höfn sem upp eru talin í yfirlýsingunni. Það er verk að vinna. Ágætir þingfulltrúar, ég þakka fyrir gott boð á afmælisfagnað ykkar hér í kvöld en því miður þá get ég ekki verið þar, þar sem að ég er með norrænt æskulýðsþing í Svíþjóð í dag og á morgun þar sem ég hef verið formaður í fjögur ár, þetta eru ungmennasamtökin NSU og verð því miður að fara hér á eftir en ég hefði viljað fá forseta ÍSÍ hingað upp og taka við kveðjum okkar greipta í grjót, þannig að ég geti gert það sem ég hefði annars fengið að gera í kvöld. En hér stendur, ÍSÍ 90 ára 2002, þökkum góða samvinnu við uppbyggingu íþrótta í 90 ár, innilegar hamingjuóskir, UMFÍ. Ég þakka fyrir.

6. Ávarp Friðriks Hafnarfjarðar.

Ólafssonar,

formanns

Íþróttabandalags

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson. Menntamálaráðherra. Heilbrigðisráðherra. Forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Formaður UMFÍ. Bæjarstjóri og bæjarfulltrúar Hafnarfjarðar. Þingfulltrúar og góðir gestir. Velkomin hingað til Hafnarfjarðar á þetta 66. þing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Það er bæði ÍBH og allra aðildarfélaga þess mikill heiður að þetta þing á afmælisári ÍSÍ skuli verða haldið hér í Hafnarfirði. Ég tel að meginástæða þess að þessu þingi skuli hafa verið valinn staður hér Hafnarfirði sé sú að við höfum öll hér í bæ staðið vel að uppbyggingarmálum


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð tengdum íþróttum. Einnig hefur árangur íþróttafólks frá Hafnarfirði verið til fyrirmyndar þannig að eftir er tekið. Árangur íþróttafólks okkar er ekki sjálfgefinn, en til þess þarf að sjálfsögðu að vera til frambærileg aðstaða til æfinga og keppni. Í uppbyggingarmálum íþróttasvæða hafa bæjaryfirvöld komið vel að málum og unnið eftir forgangsröðun ÍBH og byggt á samstarfssamningi ÍBH og Hafnarfjarðarbæjar. Þetta mannvirki sem við erum stödd í nú er bara eitt dæmi þess sem vel hefur verið gert hér í bæ fyrir íþróttalífið. Einnig hafa bæjaryfirvöld hér í bæ gert hina ýmsu samninga við bæði ÍBH og íþróttafélögin til að auðvelda þeim starfið í þágu allra bæjarbúa. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka bæjaryfirvöldum sérstaklega gott samstarf síðustu kjörtímabil. Eitt af meginmarkmiðum stjórnar ÍBH hefur verið að láta alla vita af því að ÍBH vinnur fyrir aðildarfélögin sín. Þetta er meginástæða þess að ÍBH virkar eins og það á að gera. Félögin einbeita sér að því að búa sem flesta iðkendur betur undir framtíðina og ÍBH einbeitir sér að því að vinna með og fyrir bæjaryfirvöld og ÍSÍ að þeim málum sem gagnast félögunum best hverju sinni. Það er von mín að þetta þing verði starfssamt og árangursríkt fyrir alla aðila og að hér megi drenglyndi ráða ríkjum. Ég vil benda öllum hér inni á að í þessu mannvirki á 2. hæð stendur yfir sögusýning íþróttalífs í Hafnarfirði í tengslum við þetta þing og hvet ég sem flesta til að skoða hana. Einnig munum við bjóða upp á rútuferð um kl. þrjú í dag, þ.e.a.s. þegar að venjulegum þingstörfum lýkur, áður en nefndarstörf hefjast, fyrir þá sem vilja skoða hið nýja fimleikahús Bjarkanna sem vígt var á sumardaginn fyrsta. Ég vil þakka bæjaryfirvöldum hér í bæ sérstaklega fyrir þann stuðning sem þau veittu okkar til að þetta þing gæti verið haldið hér að Ásvöllum. Að lokum ætla ég að gera nokkuð sem ÍSÍ var búið að nefna að ekki yrði gert, ég ætla að biðja framkvæmdastjóra ÍBH að ná í smá disk sem var búið að útbúa fyrir okkur. Eins og allir hér inni vita átti ÍSÍ 90 ára afmæli fyrr í vetur nánar tiltekið 28. janúar og í tilefni þess og að sjálfsögðu af því að þetta þing er haldið hér í Hafnarfirði hefur ÍBH og öll aðildarfélög þess ákveðið að gefa ÍSÍ gjöf sem unnin var að glerlistakonunni og Hafnfirðingnum, og við erum stoltir af því, meira að segja „Gaflaranum“ Steindóru Bergþórsdóttur. Gjöfin er diskur þar sem öll merki eða það sem oftast er kallað lógó aðildarfélaga ÍBH eru í úthringnum ásamt merki ÍBH og í miðjunni er merki Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Ég vil ljúka þessu ávarpi mínu með því að biðja forseta Íþróttaog Ólympíusambands Íslands, Ellert B. Schram, að koma hér og veita gjöfinni viðtöku.

7. Ávarp formanns Hauka, Lúðvíks Geirssonar Herra forseti Íslands. Ráðherrar. Forseti ÍSÍ. Þingfulltrúar og góðir gestir. Verið öll velkomin í íþróttamiðstöð Knattspyrnufélagsins Hauka hér á Ásvöllum. Það er okkur bæði mikill heiður og ánægja að fá að vera gestgjafar ykkar á þessu fjölmenna og glæsilega 90 ára afmælisþingi ÍSÍ. Styrkur íþróttahreyfingarinnar er mikill og hann er sýnilegur á margan hátt. Hann blasir við hér í þessum þéttskipaða sal. Hann kemur fram í sífellt öflugra og fjölbreytilegra íþróttastarfi, hann sést í stórfelldri uppbyggingu íþróttamannvirkja um allt land og hann sýnir sig í glæstum árangri okkar afreksfólks á heimsmótum. Íþróttahreyfingin hefur unnið gott og mikilvægt starf á liðnum áratugum þrátt fyrir oft þröngar og erfiðar aðstæður, fjárskort og skilningsleysi. Það hefur þurft til hugarfarsbreytingu meðal landsmanna og ekki síst ráðamanna og sú hugarfarsbreyting er að skila sér í auknum skilningi á gildi íþróttastarfs fyrir uppeldi og heilbrigði þjóðarinnar. Sveitarfélögin hafa mörg hver svarað kalli tímans með myndarlegum hætti. Gjörbylting hefur orðið á síðustu árum í aðstöðu og uppbyggingu íþróttamannvirkja. Hér í Hafnarfirði sem víðar um land hafa æskulýðs- og íþróttamál verið sett í flokk forgangsmála og um það hefur ríkt góð samstaða. Það var þarft verk að vinna og okkur miðar í rétta átt. Öflugt og markvisst íþróttastarf byggist ekki einvörðungu á glæstum byggingum. Eftir sem áður þarf að koma til fórnfúst starf þeirra þúsunda sjálfboðaliða sem bera uppi starfið. Það eru okkar dýrmætustu félagar. Íþróttahreyfingin er og verður hreyfing en ekki atvinnurekstur. Engu að síður skulum við ekki horfa fram hjá þeirri staðreynd að sífellt auknar kröfur og óskir um þátttöku og hlutverk íþróttahreyfingarinnar í æskulýðs- og uppeldisstarfi, kallar á menntað fólk til starfa, fagleg


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð vinnubrögð, skýr markmið, ábyrgð og traust. Það er ekki húsið sem skiptir höfuðmáli heldur starfsemin sem þar á sér stað. Íþróttahreyfingin verður að svara kalli tímans. Skyldur okkar eru miklar og við erum reiðubúin til að standa undir þeim. Það gerum við best með því að byggja upp og treysta enn frekar okkar félagsstarf. Treysta böndin og samvinnuna innan okkar félaga og okkar allra í milli. Sýna hvers við erum megnug. Í því er okkar styrkur fólginn. Ágætu þingfulltrúar, ég óska okkur öllum til hamingju með 90 ára farsælt starf og megi þinghaldið hér á Ásvöllum vísa okkur veginn til enn öflugra starfs á komandi árum og áratugum. Takk fyrir. Að loknum ræðum gesta var gert stutt þinghlé áður en gengið var til dagskrár.

8. Kjörnir 1. og 2. þingforseti Tillaga var gerð um Magnús Gunnarsson og Lúðvík Geirsson sem fyrsta og annan þingforseta og var hún samþykkt samhljóða. Magnús Gunnarsson 1. þingforseti tók við stjórnun þingsins. Hann tilkynnti um lögmæti þingsins og boðun þess samkvæmt framlögðum gögnum.

9. Kjörnir 1. og 2. þingritari

Tillaga var gerð um Viðar Sigurjónsson og Pétur Árnason sem 1. og 2. þingritara og var sú tillaga samþykkt samhljóða og tóku þingritarar þegar til starfa.

10. Kosning ungra íþróttamanna skv. grein 12.3 í lögum ÍSÍ Tillaga var gerð um eftirtalda íþróttamenn: Örn Arnarson, Þóreyju Eddu Elísdóttur, Ólaf Eiríksson og Hörpu Melsted. Tillagan var samþykkt samhljóða.

11. Kosning fimm manna kjörbréfanefndar

Tillaga var gerð um eftirtalda fulltrúa: Árna Þorgilsson HSK, sem formann, Birgi Ara Hilmarsson, UMSK, Elmu Guðmundsdóttur, UÍA, Þröst Guðjónsson, ÍBA og Sigrúnu Ögmundsdóttur, LH Tillagan var samþykkt samhljóða. Starfsmaður nefndarinnar var Halla Kjartansdóttir. Að svo búnu tók kjörbréfanefnd til starfa.

12. Lögð fram Ársskýrsla ÍSÍ Stefán Konráðsson gerði grein fyrir skýrslunni í stórum dráttum. Birgir Guðjónsson, framkvæmdastjórn ÍSÍ, gerði grein fyrir úrsögn sinni úr Heilbrigðisráði ÍSÍ. Hann fór yfir feril sinn og þær athugasemdir sem hann hefur haft við ákveðin mál.

13. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar Friðjón B. Friðjónsson, gjaldkeri ÍSÍ lagði fram endurskoðaða reikninga ÍSÍ og sérsjóða þess.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

14. Umræður um reikninga og samþykkt þeirra og einnig um skýrslu framkvæmdastjórnar. Reynir Ragnarsson, formaður ÍBR, var með nokkrar fyrirspurnir varðandi ársreikning ÍSÍ. Hann þakkaði gjaldkera fyrir greinargóðan flutning á reikningum en taldi áhyggjuefni ef hreyfingin væri að tapa stórum fjárhæðum á verðbréfaeignum. Gunnar Svansson, varaformaður ÍBH, var með fyrirspurnir um reikninga ÍSÍ og taldi útkomu reikninga virkilega til eftirbreytni fyrir hreyfinguna og taldi ástæðu til að þakka fyrir slíka útkomu og bað um leyfi þingforseta til að biðja um lófaklapp þingheims að þessu tilefni. Steinþór Einarsson, þingfulltrúi ÍBH, lýsti yfir áhyggjum sínum vegna halla Ólympíusjóðs o.fl. Júlíus Hafstein, form. BLÍ, þakkaði fyrir vel framlagða skýrslu og góða reikninga. Hann var með eina fyrirspurn vegna reikninga, um liðinn handbært fé sem hann taldi að mætti hugsanlega minnka og koma út til hreyfingarinnar. Einnig var Júlíus með nokkrar aðrar fyrirspurnir. Hann taldi ekki tekið tillit til fjölda íþróttaiðkenda þegar styrkjum frá ÍSÍ væri úthlutað. Hópíþróttir sætu ekki við sama borð og einstaklingsíþróttir. Hann afhenti þingforseta plagg sem framkvæmdastjóri BLÍ hafði unnið varðandi þessi mál. Júlíus gat þess að lyfjamálin væru ekkert einkamál hreyfingarinnar. Júlíus taldi sig t.d. ekki geta skilið hvernig erlendur íþróttamaður gæti komið hingað til lands með bann á bakinu vegna lyfjamála, keppt fyrir hönd einhvers félags hér á landi og farið svo út aftur. Hann taldi það útilokað að ekki giltu sömu reglur hér á landi og erlendis. Hann minnti á gildi Ólympíusáttmálans þegar einhver deilumál kæmu upp hér á landi eins og gerst hefur. Júlíus gagnrýndi einnig forseta ÍSÍ vegna gagnrýni hans á fjárveitingu Alþingis til UMFÍ. Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, svaraði nokkrum fyrirspurnum varðandi reikninga og skýrslu ÍSÍ. Friðjón B. Friðjónsson, gjaldkeri ÍSÍ, svaraði fyrirspurn Reynis Ragnarssonar ÍBR. Guðmundur H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri BLÍ, gat þess að Blaksambandið hlaut í vetur fyrirgreiðslu hjá Alþjóða Ólympíunefndinni og taldi þörf á að þakka fyrir það. Hann fagnaði skrifstofum ÍSÍ og UMFÍ á landsbyggðinni en sagði að oft vantaði boðlegar skrifstofur fyrir sérsamböndin eins og Blaksambandið. Hann þakkaði góðar skýrslur og flutning þeirra. Birna Bjarnadóttir, form. DSÍ, Talaði um skýrslu og reikninga ÍSÍ. Hún þakkaði fyrir frábærar viðtökur sem dansíþróttin hefur fengið. Hún sagði það fagnaðarefni að reikningar skuli vera jafn góðir og raun ber vitni. Hún gat um það að sérstaklega bæri að fagna fræðslu innan ÍSÍ t.d. fyrir forystumenn sérsambanda. Eggert Magnússon, form. KSÍ, þakkaði framkvæmdastjórn fyrir góða skýrslu og góða reikninga. Eggert telur að oft gleymist að hrósa þegar vel gengur. Hann átaldi aðila fyrir að gagnrýna óvægið meðferð verðbréfa því að þau hefðu alls ekki alltaf verið í slæmri ávöxtun. Hann þakkaði Birgi Guðjónssyni fyrir góð störf og minnti á það að ekki væru menn alltaf sammála um hlutina. Eggert sagðist oft ekki vera sammála mörgum öðrum og áskilja sér rétt til þess.

15. Álit kjörbréfanefndar Árni Þorgilsson form. nefndarinnar gerði grein fyrir fulltrúafjölda héraðssambanda og íþróttabandalaga. Það voru 98 fulltrúar mættir af 111. Þá gerði hann grein fyrir fulltrúum sérsambanda. Þar voru 88 fulltrúar mættir af 107. Kjörbréfin voru samþykkt með þorra atkvæða.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

16. Samþykkt reikninga Reikningar voru samþykktir samhljóða.

17. Kosning þingnefnda Tillaga um kjörnefnd: Reynir Ragnarsson, ÍBR, formaður nefndarinnar, Ásdís H. Bjarnadóttir, UMSB, Friðrik Á. Ólafsson, ÍBH, Ásgerður Halldórsdóttir, HSÍ og Eggert Magnússon, KSÍ. Samþykkt samhljóða. Starfsmaður nefndarinnar var Stefán S. Konráðsson. Tillaga um fjárhagsnefnd: Sigurjón Pétursson, HSÍ, formaður nefndarinnar, Lilja Sigurðardóttir, ÍBR, Heimir Haraldsson, GSÍ, Eggert Steingrímsson, KSÍ og Valdimar Leó Friðriksson, UMSK. Samþykkt samhljóða. Starfsmaður nefndarinnar var Berglind Guðmundsdóttir. Tillaga um allsherjarnefnd: Benedikt Sigurðarson, SSÍ, formaður nefndarinnar, Björn Jóhannesson, ÍBR, Birna Bjarnadóttir, DSÍ, Sveinn Áki Lúðvíksson, ÍF og Jón Albert Sigurbjörnsson, LH. Samþykkt samhljóða. Starfsmaður nefndarinnar var Steinunn A. Í. Tómasdóttir. Tillaga um laganefnd: Lárus R. Blöndal, UMSK, formaður nefndarinnar, Kristján Gunnar Valdimarsson, JSÍ, Halldór Halldórsson, KKÍ, Örn Sigurðsson, FSÍ og Rúnar Gíslason, GSÍ. Samþykkt samhljóða. Starfsmaður nefndarinnar var Halla Kjartansdóttir. Tillaga um nefnd um tölvumál: Pétur Hrafn Sigurðsson, KKÍ, formaður nefndarinnar, Anna Lilja Sigurðardóttir, BSÍ, Einar Jón Geirsson, UNÞ, Geir Þorsteinsson, KSÍ og Hörður Þorsteinsson, GSÍ. Samþykkt samhljóða. Starfsmaður nefndarinnar var Gígja Gunnarsdóttir.

18. Kosning heiðursfélaga ÍSÍ Ellert B. Schram gerði grein fyrir fundi framkvæmdastjórnar þar sem samþykkt var að tveir einstaklingur yrðu kjörnir heiðursfélagar ÍSÍ, Ástbjörg Gunnarsdóttir og Magnús Oddsson. Þingið samþykkti samhljóða.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

19. Tillaga um stofnun sérsambands

Þingskjal 1

Stofnun Taekwondosambands Íslands Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi, Ellert B. Schram. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að stofna sérsamband um taekwondoíþróttina – Taekwondosamband Íslands – skammstafað TKÍ. Greinargerð: Taekwondoíþróttin hefur vaxið nokkuð á Íslandi á undanförnum árum og uppfyllir íþróttin lagaskilyrði 26. greinar í lögum ÍSÍ varðandi stofnun sérsambands. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.

20. Aðrar tillögur sem lágu fyrir þinginu Lagabreytingar Nokkuð viðamiklar tillögur að lagabreytingum lágu fyrir þinginu. Þingskjal 2 (sjá fylgiskjal nr. 1) Ellert B. Schram og Sigurður Magnússon gerðu grein fyrir lagabreytingum. Jónas Egilsson gerði einnig grein fyrir lagabreytingum varðandi grein 11.3 og 11.4 í lögum.

Móta- og keppendareglur Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Ágúst Ásgeirsson.

Þingskjal 3

1. grein. „Íþróttasamband Íslands“ verði „Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands“ 2. grein. Tilvísun breytist í kjölfar breytinga á lögum ÍSÍ úr gr.8.4. í gr. 8.1 3. grein, liður a. Tilvísun breytist í kjölfar breytinga á lögum ÍSÍ, úr 19.1 i-liður í 18. grein. i-liður. 7. grein. Tilvísun breytist í kjölfar breytinga á lögum ÍSÍ, úr gr. 8.3 í gr. 8.1. Einnig lagt til að síðustu orðin í 1. málsgrein, þ.e. „og framkvæmdastjórnar ÍSÍ” falli út úr greininni. 11. grein. Lagt er til að greinin verði svohljóðandi: „Með mótmæli og kærur skal fara í samræmi við 4. kafla í lögum ÍSÍ, um dómstóla ÍSÍ.“


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð 18. grein. Önnur setningin hljóði svo: „Heimilt er að kæra meint brot og skal með slík mál farið skv. 4. kafla í lögum ÍSÍ, um dómstóla ÍSÍ.“ Samþykkt að vísa tillögunni til Laganefndar. Tillaga þingforseta um að Laganefnd hefji störf kl. 13.30, samþykkt.

Tillaga varðandi fjárhagsáætlun ÍSÍ Þingskjal 4 Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Friðjón B. Friðjónsson.

Fjárhagsáætlun ÍSÍ 2002-2003 Tekjur: Hvað 1. 2. 3. 4. 5. 6.

Framlag Alþingis Íslensk getspá Ósóttir vinningar Íslenskar getraunir Styrkir IOC/EOC Aðrar tekjur

skýr 1 2 3 4 5 6

Samtals Gjöld: Hvað 7. 8. 9. 10. 11.

skýr

Skrifstofukostnaður Þing og fundir innanlands og kostnaður stjórnar Þing og fundir erlendis Framlag vegna fundaraðstöðu Kostnaður vegna stoðsviða og nefnda

2002

2003

59.700.000 8.000.000 5.000.000 7.000.000 7.000.000 4.500.000

65.200.000 8.000.000 5.000.000 7.000.000 7.000.000 4.500.000

91.200.000

96.700.000

2002

2003

7 8 9 10 11

33.000.000 7.500.000 3.000.000 1.500.000 8.000.000

34.000.000 7.500.000 3.500.000 1.500.000 9.000.000

12. Smáþjóðaleikar á Möltu

12

5.000.000

10.000.000

13. 14. 15. 16. 17. 18. 19. 20. 21. 22.

13 14 15 16 17 18 19 20 21 22

0 6.000.000 6.000.000 2.500.000 3.000.000 3.000.000 2.700.000 5.000.000 3.000.000 2.000.000

6.000.000 7.200.000 6.000.000 3.000.000 4.000.000 0 2.000.000 0 0 3.000.000

91.200.000

96.700.000

Ólympíudagar æskunnar í Bled/París Íþróttaleg samskipti Annar kostnaður Verkefnasjóður Íþróttamiðstöð Laugardal Afmæli ÍSÍ Aðalfundur EOC Salt Lake Íþróttaþing Sjóður ungra og efnilegra

Samtals Samþykkt að vísa tillögunni til Fjárhagsnefndar.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Tillaga um ráðstöfun hagnaðar Þingskjal 5 Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Friðjón B. Friðjónsson. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að greiða rekstrarhagnað á ársreikningi ÍSÍ 2001, kr. 13 milljónir sem arð og í formi styrkja, til einstakra sambandsaðila, skv. nánari ákvörðun framkvæmdastjórnar. Greinargerð: Rekstur ÍSÍ gekk afar vel á árinu 2001. Ástæður fyrir rekstrarhagnaði eru fyrst og fremst þær að forystumenn sambandsins hafa gætt fyllsta aðhalds í rekstrinum. Einnig fékk ÍSÍ auka arðgreiðslu frá Íslenskum getraunum vegna breytinga á bókhaldsári og aukning varð á tekjum frá Íslenskri getspá og Alþjóða Ólympíunefndinni. Eðlilegt er að sambandsaðilar njóti góðs af þegar vel gengur í rekstri ÍSÍ. Samþykkt að vísa tillögunni til Fjárhagsnefndar.

Samþykkt um tölvu- og upplýsingakerfi íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar

Þingskjal 6

Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Stefán Konráðsson. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. – 28. apríl 2002, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að ganga til samninga um nýtt tölvukerfi íþróttahreyfingarinnar. Framkvæmdastjórn skal jafnframt falið að eiga samskipti við Ungmennafélag Íslands varðandi uppbyggingu kerfisins. Þá skulu ÍSÍ og UMFÍ leita leiða til að fjármagna kaup á kerfinu og rekstur þess. Greinargerð: Á síðasta Íþróttaþingi ÍSÍ var samþykkt tillaga um að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að endurskoða tölvumál íþróttahreyfingarinnar með það að markmiði að tölvukerfið sé aðgengilegt uplýsingakerfi fyrir alla íþróttahreyfinguna. ÍSÍ var einnig falið að fjármagna uppbyggingu kerfisins. Tölvu- og samskiptanefnd ÍSÍ hefur einbeitt sér að greiningu og skoðun á tölvumálum íþróttahreyfingarinnar. Viðræður hafa átt sér stað við Infosport Danmark A/S varðandi tölvukerfi danska Íþrótta- og Ólympíusambandsins og þreifingar hafa átt sér stað við norska Íþrótta- og Ólympíusambandið. Þá átti nefndin samskipti við menntamálaráðherra vegna skoðunar á styrkmöguleika frá Upplýsingasamfélaginu, sem er verkefni á vegum menntamálaráðuneytisins. Í byrjun þessa árs heimilaði framkvæmdastjórn ÍSÍ að nefndin semdi um óháða þarfagreiningu við Tölvu- og verkfræðiþjónustu Halldórs Kristjánssonar, í góðri samvinnu við Ungmennafélag Íslands. Þá hefur nefndin skoðað sérstaklega með hvaða hætti sé hægt að fjármagna uppbyggingu nýs tölvukerfis og rekstur þess. Með uppbyggingu tölvukerfis ÍSÍ árið 1994, voru stigin mikilvæg spor í tölvuvæðingu íþróttahreyfingarinnar. Hins vegar er alveg ljóst að kostnaður við uppbyggingu þess kerfis varð mun meiri en efni stóðu til. Því er afar nauðsynlegt að næstu skref í þessu máli verði skoðuð varlega m.t.t. heildarhagsmuna íþróttahreyfingarinnar. Samþykkt að vísa tillögunni til Tölvunefndar.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Ályktun um ÍSÍ/UMFÍ Þingskjal 7 Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Engilbert Olgeirsson. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, þakkar þá vinnu sem lögð hefur verið í viðræður við UMFÍ um hugsanlega sameiningu og/eða samvinnu ÍSÍ og UMFÍ, bæði af hálfu framkvæmdastjórnar sem og sérstakrar vinnunefndar. Þingið telur að þessar viðræður eigi að halda áfram. Þingið bindur einnig vonir við að UMFÍ samþykki aðild íþróttabandalaga að samtökum sínum og teldi það mikilvægt spor í átt að frekari samvinnu og/eða sameiningu að samkomulag geti tekist um nýtt fyrirkomulag og skiptireglu á arði beggja samtaka frá Íslenskri getspá. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.

Ályktun um tryggingamál íþróttahreyfingarinnar Þingskjal 8 Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Ellert B. Schram. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, lýsir vonbrigðum sínum með þá ákvörðun Tryggingaráðs að skerða réttindi íþróttafólks til slysabóta, sem mun bitna á íþróttafélögum og/eða íþróttafólkinu sjálfu og mun, þegar til lengri tíma er litið, stuðla að auknu brottfalli frá iðkun íþrótta og líkamsræktar. Þingið þakkar heilbrigðisráðherra þá viðleitni að koma til móts við þann fyrirsjáanlega skaða og kostnað sem af ákvörðun Tryggingaráðs hlýst, með styrkveitingu til ÍSÍ, og felur framkvæmdastjórn ÍSÍ að semja reglugerð um nýtingu og ráðstöfun á þeirri styrkupphæð. Greinargerð: Í bréfi dagsettu 22. mars sl. tilkynnti heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um breytingu á reglugerð um slysatryggingar íþróttafólks, skv. 3. kafla laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Þar kemur fram að ef slys í íþróttum veldur ekki óvinnufærni í 10 daga eða meira greiðist bætur ekki úr slysatryggingu íþróttamanna. Hér er um að ræða skerðingu á hagsmunum og réttindum íþróttahreyfingarinnar. Forystumenn ÍSÍ hafa átt viðræður við heilbrigðisráðherra og starfslið hans og hefur ráðherrann boðið fram styrk til að standa undir þeim kostnaði sem viðkomandi íþróttamenn hafa orðið fyrir og nú hefur verið skrifað undir samkomulag um fjárveitingu af hálfu ráðherra til ráðstöfunar til ÍSÍ til að draga úr þeim útgjöldum sem íþróttafólk og félög kunna að verða fyrir vegna íþróttaslysa. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.

Tillaga um endurskoðun reglugerða ÍSÍ um bókhald Þingskjal 9 Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Jón Gestur Viggósson. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að láta endurskoða reglugerð ÍSÍ um bókhald, leiðbeiningar ÍSÍ um bókhald og bókhaldslykla íþróttahreyfingarinnar. Greinargerð: Ljóst er að endurskoða verður reglugerðir ÍSÍ um fjármál og bókhald þannig að reglugerðin taki á þeim fjölmörgu atriðum sem nauðsynlegt er að séu til staðar í góðri fjármálastjórn. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Tillaga um aukinn hlut ÍSÍ í þátttökukostnaði sérsambanda í Smáþjóðaleikum

Þingskjal 10

Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Benedikt Geirsson. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, telur eðlilegt að hlutur ÍSÍ í þátttökukostnaði sérsambanda í Smáþjóðaleikunum verði aukinn, að því tilskyldu að styrkupphæðir ríkisins, sem nú eru veittar, lækki ekki. Greinargerð: ÍSÍ og sérsamböndin hafa skuldbundið sig til að taka þátt í Smáþjóðaleikum. Hingað til hefur ÍSÍ greitt 50% af þátttökukostnaði sérsambanda í leikunum. Þátttaka í Smáþjóðaleikum skipar aukinn sess í afreksstarfi margra sérsambanda ÍSÍ. Hjá sumum smáþjóðanna er þátttaka í Smáþjóðaleikum nánast eina stórverkefnið sem ráðist er í og greitt er af viðkomandi ríkisstjórn. Svo er ekki fyrir að fara á Íslandi þar sem tekið er þátt í stórmótum, s.s. Heimsmeistaramótum og Evrópumótum í mörgum íþróttagreinum. Með samþykkt Alþingis um fast 10 milljóna króna framlag til ÍSÍ vegna þátttöku í Ólympíuleikum og Smáþjóðaleikum, hefur myndast möguleiki á að auka hlut ÍSÍ í þátttökukostnaði sérsambanda í Smáþjóðaleikunum. Samþykkt að vísa tillögunni til Fjárhagsnefndar.

Ályktun um aukinn þátt bæjar- og sveitarfélaga í fjármögnun og rekstri íþrótta- og ungmennafélaga Þingskjal 11 Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Hafsteinn Pálsson. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, leggur áherslu á að bæjar- og sveitarfélög á Íslandi komi að fjármögnun og rekstri íþrótta- og ungmennafélaga í auknum mæli. Þingið skorar á bæjar- og sveitarfélög í landinu að marka sér stefnu í samráði við íþróttahreyfinguna hvað varðar uppbyggingu íþróttamannvirkja, rekstur félaga, styrkveitingar til barna- og unglingastarfs og eflingu fræðslustarfs. Þá fagnar þingið því að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur hafið undirbúning að því að aðgreina betur í bókhaldi sveitarfélaga framlög til íþróttahreyfingarinnar. Greinargerð: Íþróttahreyfingin innir af hendi afar ódýra þjónustu og forvarnarstarf fyrir samfélagið. Afar eðlilegt er að bæjar- og sveitarfélög greiði fyrir þessa þjónustu að raunvirði, eins og þau gera varðandi ýmsa aðra þjónustuþætti í rekstri sínum. Með því að aðgreina betur í bókhaldi sveitarfélaganna framlög til íþróttahreyfingarinnar, má fá fram samanburð um hversu mikið bæjar- og sveitarfélög greiða fyrir þjónustu íþróttahreyfingarinnar, samanborið við aðra þjónustu sem greitt er fyrir, t.d. rekstur félagsmiðstöðva, tónlistarskóla o.s.frv. Samþykkt að vísa tilllögunni til Allsherjarnefndar.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Áskorun um fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Þingskjal 12 Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Sigríður Jónsdóttir. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, skorar á íþrótta- og ungmennafélög á landinu að kynna sér vel þær kröfur sem ÍSÍ hefur sett varðandi „fyrirmyndarfélög ÍSÍ“ og setja sér metnaðarfull markmið um faglegan rekstur sem miða að því að félagið geti sótt um að gerast „fyrirmyndarfélag ÍSÍ“. Greinargerð: Íþróttahreyfingin gerir kröfur til samfélagsins um stuðning, bæði aðgang að mannvirkjum og beinan fjárstuðning. Íþróttahreyfingin vill að litið sé á þennan stuðning sem endurgjald fyrir þjónustu sem hún veitir öllum þegnum samfélagsins. Til þess að slíkar kröfur séu trúverðugar og réttlætanlegar þarf íþróttahreyfingin að sýna það í verki að hún geri raunhæfar kröfur til sjálfrar sín hvað varðar gæði og innihald þess starfs sem hún vinnur. Líklegur ávinningur af slíkri viðurkenningu þ.e. að ná því að verða „fyrirmyndarfélag ÍSÍ“ er margvíslegur. Félög og deildir sem hljóta viðurkenningu ættu að eiga auðveldara með að afla sér stuðnings frá sveitarfélögum sínum og öðrum stuðningsaðilum, sem frekar vilja leggja nafn sitt við fyrirmyndarfélög en önnur félög. Foreldrar munu væntanlega frekar senda börn sín til fyrirmyndarfélaga en annarra félaga. Þetta ætti að verða félögum hvatning til að bæta starf sitt og uppfylla gæðakröfurnar, til að geta fengið viðurkenningu. Afraksturinn verður væntanlega betra íþróttastarf og betri ímynd hreyfingarinnar. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.

Ályktun um úttekt á stöðu uppbyggingar íþróttamannvirkja á landsvísu Þingskjal 13 Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Helga H. Magnúsdóttir. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, samþykkir að beina því til framkvæmdastjórnar ÍSÍ að skipa nefnd sem geri úttekt á stöðu uppbyggingar íþróttamannvirkja á landsvísu með það að markmiði að meta hvar þörf er fyrir ný mannvirki og þá hvers konar mannvirki. Með þessu móti mætti vinna áætlun og vekja athygli sveitarfélaga og ríkisvalds á uppbyggingarþörf íþróttamannvirkja. Greinargerð: Sárlega hefur vantað stefnumörkun af hálfu íþróttahreyfingarinnar varðandi uppbyggingu mannvirkja á landsvísu. Með tillögu þessari er kallað eftir viðhorfum sérsambanda ÍSÍ, sem eru æðstu aðilar viðkomandi íþróttagreina á Íslandi, og ef vel tekst til má útbúa stöðu um þessi mál á Íslandi og samræmda stefnu sérsambanda ÍSÍ í málinu. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Ályktun um hnefaleikaíþróttina Þingskjal 14 Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Sigmundur Þórisson. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, fagnar ákvörðun Alþingis um lögleiðingu áhugamannahnefaleika á Íslandi, eftir nær hálfrar aldar bann, enda viðurkennd íþróttagrein um heim allan og keppnisgrein á Ólympíuleikum. Íþróttahreyfingin býður hnefaleikafélög og deildir velkomin í sínar raðir en hvetur til þess að gætt sé ítrustu varúðar og öryggis í æfingum og keppni. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.

Ályktun um almenningsíþróttir

Þingskjal 15

Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Unnur Stefánsdóttir. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, lýsir ánægju sinni með það verkefni sem ÍSÍ hefur efnt til í tilefni 90 ára afmælis sambandsins og nefnt er „Ísland á iði 2002“. Þingið undirstrikar þýðingu þess að ÍSÍ hafi áfram forystu í að efla almenningsíþróttir og skorar á sambandsaðila til að stuðla að virkri þátttöku almennings í hreyfingu og heilsusamlegu líferni, sér til ánægju og heilsubótar. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.

Ályktun um Getspá/Getraunir

Þingskjal 16

Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Örn Andrésson. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, fagnar þeim góða árangri sem náðst hefur með þjónustusamningi Íslenskrar getspár og Íslenskra getrauna. Þingið hvetur sambandsaðila sína til að standa áfram vörð um þessa helstu tekjulind íþróttahreyfingarinnar og kynna sér betur þá tekjumöguleika sem íþróttahreyfingin hefur í gegnum Getspá/Getraunir. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.

Tillaga um áróður gegn tóbaksnotkun Þingskjal 17 Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Björg Blöndal. 66. Íþróttaþing ÍSÍ haldið að Ásvöllum Hafnarfirði 27. – 28. apríl 2002, hvetur alla sambandsaðila ÍSÍ til að herða enn frekar áróður gegn tóbaksnotkun (munn- og neftóbaksnotkun og reykingum) í tengslum við íþróttastarf. Sérstaka áherslu skal leggja á mikilvægi þess að afreksfólk, sem öllu jöfnu eru fyrirmyndir þeirra yngri neyti ekki tóbaks. Eru íþróttafélög sem hafa sérstakan samning við sitt afreksíþróttafólk hvött til að setja ákvæði inn í samninginn þar sem öll tóbaksnotkun er bönnuð þegar viðkomandi kemur fram fyrir hönd félagsins.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð Greinargerð: Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands samþykkti á íþróttaþingi 1997 stefnuyfirlýsingu um forvarnir og fíkniefni. Framkvæmdastjórn ÍSÍ vill með tillögu þessari ítreka mikilvægi þess að íþróttahreyfingin sé meðvituð um forvarnargildi sitt og hvetur sambandsaðila sína að festa í lög sín ákvæði þar sem tekin er einörð afstaða gegn neyslu tóbaks í tengslum við íþróttastarf. Sérstaklega mikilvægt er að tekið verði á tóbaksnotkun (afreks)íþróttafólks og þeim gerð grein fyrir mikilvægu hlutverki sínu sem fyrirmyndir barna- og unglinga. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.

Tillaga um styrki til námsgagnagerðar Þingskjal 18 Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Sigríður Jónsdóttir. 66. Íþróttaþing ÍSÍ haldið að Ásvöllum Hafnarfirði 27. – 28. apríl 2002, samþykkir að beina þeirri áskorun til Menntmálaráðuneytisins að ráðuneytið veiti sérsamböndum ÍSÍ styrki til námsgagnagerðar í tengslum við uppbyggingu þjálfaramenntunar íþróttahreyfingarinnar. Greinargerð: Nú þegar náðst hefur samkomulag við Menntamálaráðuneytið um gagnvirkt mat á þjálfarakerfi ÍSÍ við kennslu á íþróttabrautum framhaldsskólanna er mikilvægt að gert verði átak í því að endurnýja og jafnvel útbúa nýtt kennsluefni allra sérsambanda ÍSÍ. Í flestum ef ekki öllum tilfellum er til námsefni fyrir allar íþróttagreinar sem hægt er að nálgast erlendis frá. Ef hægt á að vera bjóða uppá kennslu í sem flestum íþróttagreinum innan framhaldsskólanna þarf að vera til staðar kennsluefni. Styrkir til námsgagnagerðar getur verið einn liður í auknum styrk ríkisins/ráðuneytisins til sérsambanda ÍSÍ. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.

Tillaga um stóraukin fjárframlög frá ríkisvaldi til ÍSÍ og sérsambanda Þingskjal 19 Flutningsaðili: UMSK. Valdimar Leó Friðriksson. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, krefst þess að ríkisstjórn Íslands stórauki fjárframlög til ÍSÍ og sérsambanda þess. Samþykkt að vísa tillögunni til Fjárhagsnefndar.

Tillaga um skipulag íþróttahreyfingarinnar

Þingskjal 20

Flutningsaðili: ÍBR. Reynir Ragnarsson. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að skipa fimm manna milliþinganefnd sem vinni að því í samstarfi við UMFÍ og ríkisvaldið að breyta skipulagi íþróttahreyfingarinnar út frá eftirfarandi tillögu:


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð Framtíðarskipulag íþróttahreyfingarinnar á Íslandi:

Íþróttahreyfingin á Íslandi framtíðarskipulag

ÍSÍ

Ríki

UMFÍ

Landshlutasambönd

Sérsambönd

Skipulag: Starfsemi ÍSÍ og UMFÍ verði í grunnatriðum óbreytt. ÍSÍ og UMFÍ vinni saman á ýmsum sviðum. Sérstaklega er hér átt við að þau standi saman að sameiginlegum rekstri landshlutaskrifstofa / starfsstöðva enda eru landshlutasamböndin aðilar að báðum samtökunum. ÍSÍ og UMFÍ ynnu einnig sameiginlega að útbreiðslu íþrótta og að tölvumálum (vinnuumhverfi og skráningu) svo eitthvað sé nefnt.

Sveitarfélög

Starfssvæði landshlutasambanda eru kjördæmin, Reykjavík þó eitt kjördæmi. Samböndin eru samtök þeirra íþróttabandalaga, héraðssambanda og félaga sem Félög starfa í viðkomandi kjördæmi. Hlutverk landshlutasambanda er að stýra íþróttamálum í hverju kjördæmi, skilgreina hvaða íþróttir henti best að starfrækja á hverjum stað, skipuleggja og/eða samræma mótahald og gera tillögur um hvar eigi að koma fyrir íþróttamannvirkjum. Hvert samband starfræki skrifstofu sem sjái um útbreiðslu, fræðslu og skipulagningu íþrótta á viðkomandi svæðum. Landshlutasamböndin starfi með sérsamböndum að útbreiðslu íþrótta á viðkomandi svæðum. Íþróttabandalög/ héraðssambönd

Starfsemi sérsambanda verði að grunni til óbreytt. Minni samböndin sameinist um skrifstofuhald og öll sérsambönd vinni með landshlutasamböndum að útbreiðslu eins og áður sagði. Starfssvæði héraðssambanda og íþróttabandalaga miðast við sveitarfélag. Þau eru samtök íþróttafélaganna í viðkomandi sveitarfélagi og vinna að hagsmunamálum þeirra gagnvart sveitarfélaginu. Í þeim sveitarfélögum þar sem íþróttafélög eru fá kann að þykja óþarfi að mynda samtök þeirra og hafa þau þá beina aðild að landshlutasambandi. Fjármál: Með tilliti til vaxandi fjárhagsvanda íþróttahreyfingarinnar er mikilvægt að til komi aukið fé frá hinu opinbera. Í Afrekssjóð renni 5% af hagnaði af lottó ásamt mótframlagi frá ríki sem svarar sömu upphæð. Afgangur tekna af lottó og allur hagnaður af getraunum fari til grasrótarinnar þ.e. félaganna. Í framhaldi af því komi til fé frá ríki til rekstrar ÍSÍ og UMFÍ. Þar sem rekstur landshlutaskrifstofa yrði samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ er eðlilegt að fé til þeirra kæmi einnig frá ríki. Sérsamböndin vinna á landsvísu og eiga því erfitt með að sækja á fjármagn frá sveitarfélögum. Þar verður ríkið einnig að koma til hjálpar með rekstrarfé. Í íþróttafélögunum fer mikilvægasti þáttur íþróttastarfsins fram þ.e. að bjóða börnum og unglingum upp á heilbrigt félagsstarf og holla hreyfingu. Félögin og samtök þeirra (íþróttabandalög/héraðssambönd) þurfa á kröftugum stuðningi sveitarfélaga að halda. Fulltrúafjöldi: Fjöldi fulltrúa á íþróttaþingi verði 70, 35 frá sérsamböndum og 35 frá landshlutasamböndum. Skipting fulltrúa milli sérsambanda fari eftir fjölda þátttakenda í Íslandsmótum. Hvert


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð sérsamband fær a.m.k. einn fulltrúa en aldrei fleiri en 8. Landshlutasambönd skipta fulltrúum í samræmi við fjölda íbúa og fjölda þingmanna á Alþingi í hverju kjördæmi. Á þingi UMFÍ verði einnig 70 fulltrúar en þeir komi allir frá landshlutasamböndum og yrði skipting þeirra í samræmi við fjölda íbúa og fjölda þingmanna á Alþingi í hverju kjördæmi, þó að hámarki 14 frá hverju þeirra. Á aðalfund/þing landshlutasambands skal a.m.k. einn fulltrúi frá hverju sveitarfélagi eiga seturétt. Að öðru leyti ákveða landshlutasambönd reglur um skiptingu fulltrúa enda aðstæður mismunandi milli kjördæma. Íþróttabandalög/héraðssambönd ákveða reglur um skiptingu fulltrúa á aðalfundi/þing með þeirri undantekningu að frá hverju virku félagi (virkt félag = tekur þátt í héraðs- og landsmótum) skal vera a.m.k. einn fulltrúi. Á þingum sérsambanda skal hvert virkt félag eiga a.m.k. einn fulltrúa. Að öðru leyti ákveða sérsambönd sjálf skiptingu fulltrúa. Almennt: Færa þarf hluta af starfsemi ÍSÍ og UMFÍ út í héruðin. Með því er landshlutasamböndunum gefið aukið vægi og jafnframt frelsi til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um skipulag íþróttamála á sínu svæði. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.

Tillaga um breytta skráningu iðkenda, keppenda og félaga í íþróttahreyfingunni Þingskjal 21 Flutningsaðili: ÍBR. Reynir Ragnarsson. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, samþykkir að teknar skulu upp nýjar reglur um skráningu félaga í íþróttahreyfingunni. Í nýju reglunum sem milliþinganefnd, sem framkvæmdastjórn ÍSÍ skipar, skal semja og leggja fyrir næsta íþróttaþing skal einkum tekið tillit til eftirfarandi atriða: Keppandi, það er íþróttamaður sem tekur þátt í opinberum og opnum keppnum s.s. landsmóti og héraðsmóti og er á skrá hjá viðkomandi sérsambandi. Iðkandi, það er sá sem stundar íþrótt sér til heilsubótar og tekur ekki þátt í opinberum keppnum. Iðkandi skal vera meðlimur í íþróttafélagi og greiða árgjald. Félagi, það er sá sem ekki stundar íþróttir að staðaldri en er meðlimur í íþróttafélagi og greiðir árgjald til síns félags. Greinargerð: Nauðsynlegt er að öll skráning félaga og iðkenda í íþróttahreyfingunni verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar og samdar verði reglur um á hvern hátt menn verði skráðir í hreyfingunni. Stefna skal að því að fulltrúar héraðssambanda á þingum ÍSÍ og sérsambanda verði valdir eftir íbúafjölda viðkomandi héraðs og fulltrúafjöldi sérsambanda á þingum ÍSÍ fari eftir fjölda keppenda í mótum samkvæmt nánari skilgreiningu þar um. Það þarf ekki að hafa langt mál um það ástand sem ríkir í skráningu iðkenda og félaga í hreyfingunni í dag. Ef skoðaðar eru útprentanir úr bókum ÍSÍ sést að þær tölur sem þar eru eiga ekki við nokkur rök að styðjast. Til að auka á trúverðugleika íþróttahreyfingarinnar er nauðsynlegt að taka þessi mál föstum tökum og byggja upp skráningu sem hægt verður að nota í sambandi við nýtt skipulag hreyfingarinnar. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Tillaga um að framkvæmdastjórn ÍSÍ vinni að því að fá hagstæðari samning um flugfargjöld fyrir alla íþróttahreyfinguna Þingskjal 22 Flutningsaðili: ÍBR. Reynir Ragnarsson. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. – 28. apríl 2002, samþykkir að framkvæmdastjórn ÍSÍ vinni að því að fá samning við flugfélög um flugfargjöld bæði innanlands og utan sem nýtast myndi allri íþróttahreyfingunni. Í þessu skyni yrði látið reyna á samtakamátt hreyfingarinnar til að ná fram hagstæðum samningum með því að allir tækju þátt í þessum samningum Greinargerð: Undanfarin ár hefur verið í gildi samningur á milli Flugleiða og ÍSÍ og milli Flugfélags Íslands og ÍSÍ auk þess sem ýmis sérsambönd hafa verið með sérsamninga. Þessir samningar hafa ekki nema að litlu leyti nýst félögunum þegar þau hafa verið að fara með hópa til æfinga og keppni erlendis. ÍSÍ hefur e.t.v. verið of upptekið af því að semja við sérsambönd og gleymt grasrótinni. Einnig hafa einstakir aðilar innan hreyfingarinnar talið sig vera í aðstöðu til að gera betri samninga en heildarsamtökin. Í vaxandi mæli eru einstök íþróttafélög að fara í æfinga- og keppnisferðir til útlanda. Það er því nauðsynlegt að allir sitji við sama borð í þessum efnum og að íþróttahreyfingin reyni að nýta stærð sína til að knýja á um hagstæða samninga. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.

Tillaga um dreifingu ábyrgðar og framkvæmd verkefna út til sambandsaðila ÍSÍ Þingskjal 23 Flutningsaðili: UÍA. Jóhann Tryggvason. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, skorar á framkvæmdastjórn ÍSÍ að dreifa ábyrgð og framkvæmd verkefna út til sambandsaðila sinna eftir því sem kostur er. Greinargerð: Í gegnum tíðina hefur það reynst erfitt hjá mörgum sérsamböndum, héraðssamböndum og íþróttabandalögum að halda úti starfsfólki á ársgrundvelli. Í þessum störfum eru oft á tíðum reynslumikið fólk með hæfileika og þekkingu sem nýst gæti allri íþróttahreyfingunni. Það væri því styrkur fyrir hreyfinguna í heild sinni að tímabundin verkefni á vegum ÍSÍ væru unnin sem víðast í hreyfingunni. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Tillaga um íþróttaiðkun án endurgjalds Þingskjal 24 Flutningsaðili: UÍA. Arngrímur Viðar Ásgeirsson. 66. Íþróttaþing ÍSÍ haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, skorar á yfirvöld íþróttamála, sveitarfélög og íþrótta- og ungmennafélög að stefna að því að öll börn yngri en 18 ára eigi kost á íþróttaiðkun án endurgjalds í frítíma sínum árið 2005. Framkvæmdastjórn taki forystu í málinu og komi af stað vinnuhópi um málið sem skili af sér greinargerð með útfærslu á mögulegri framkvæmd fyrir ársþing ÍSÍ 2004. Greinargerð: Ávinningur: Fá staðfesta viðurkenningu á forvarnargildi íþróttaiðkunar fyrir börn og unglinga. Gera fleiri iðkendum kleift að stunda íþróttir. Mikilvægt er að öll börn þjóðfélagsins eigi kost á að stunda íþróttir á vegum íþrótta- og ungmennafélaga. Í dag er því þannig farið að sumir foreldrar veigra sér við að setja börn sín í skipulega þjálfun innan íþróttafélaga vegna kostnaðar sem því fylgir. Yfirvöld geta komið að málinu með auknu fjárframlagi til barna- og unglingastarfs á vegum sambandsaðila ÍSÍ og sannað þar með stuðning sinn við það forvarnarstarf sem þar er unnið. Sveitarfélög greiða mörg í dag veglega styrki til íþróttastarfsemi í landinu en mjög misjafnlega er að málum staðið og í hvað fjármagnið fer. Með skilyrtu fjármagni sem væri varið til greiðslu launakostnaðar menntaðra þjálfara sem sinna barna- og unglingastarfi má hugsa sér að auðvelt væri að bjóða tvisvar til þrisvar í viku upp á ókeypis íþróttaæfingar fyrir börn og unglinga í sveitarfélaginu. Ekki er gert ráð fyrir, í tillögu þessari, að allar íþróttaæfingar á vegum íþróttafélaga verði án endurgjalds. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.

Tillaga um skipun skólaíþróttanefndar Þingskjal 25 Flutningsaðili: UÍA. Arngrímur Viðar Ásgeirsson. 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, vísar því til framkvæmdastjórnar ÍSÍ að skipuð verði skólaíþróttanefnd sem hafi það með höndum að vinna að auknum samskiptum íþróttahreyfingarinnar og skólakerfisins. Nefndin geri athugun á möguleika á að stofnað verði skólaíþróttasamband á svipuðum grunni og finna má á hinum Norðurlöndunum. Greinargerð: Á undanförnum misserum hefur á vettvangi íþróttamála verið komið inn á mikilvægi þess að efla samstarf íþróttafélaga og skóla. Kynning íþróttagreina og íþróttastarfs meðal ungmenna er mikilvægur þáttur í starfi okkar hreyfingar. Þar er lagður grunnur að áhuga íþróttamanna framtíðarinnar og einnig viðhorfi ungra einstaklinga til hreyfingar og íþróttaiðkunar. Samþykkt að vísa tillögunni til Allsherjarnefndar.

Þingforseti frestaði þingi til kl. 09.00 á sunnudag.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

21. Þingnefndir gera grein fyrir störfum sínum Tillögur sem lágu fyrir Laganefnd: Lárus Blöndal formaður laganefndar gerði grein fyrir áliti nefndarinnar á þingskjölum nr. 2 og 3: 1. Lagabreytingar til samræmis við breytingar á Ólympíusáttmála Alþjóða Ólympíunefndarinnar (IOC): Greinar 1.2, 1.3 og 1.4 Færast til en texti stendur óbreyttur. Grein 1.5 Nýr töluliður. Grein 1.6 Nýr töluliður. Grein 3.4 Nýr töluliður. Grein 3.5 Nýr töluliður. Grein 4.1.d Texti óbreyttur en flyst til í lögunum. Grein 4.1.e Viðbætur og lagfæringar á texta. Grein 4.l.g Viðbætur og lagfæringar á texta. Grein 4.l.h Nýr töluliður. Grein 4.l.i Viðbætur. Var áður hluti af grein 4.l.h. Grein 4.l.j Lagfæring. Var áður hluti af grein 4.l.h. Grein 4.l.k Flyst til – texti óbreyttur. Grein 4.l.l Flyst til – texti óbreyttur. Grein 4.l.m Flyst til – texti óbreyttur. Grein 4.2 Nýr töluliður. Grein 4.3 Nýr töluliður. Grein 11.2 Viðbætur við grein. Grein 12.3 Greinin var áður ein málsgrein en er nú skipt upp í tvo bókstafsliði, a) og b). Einnig viðbætur. Grein12.8 Nýr töluliður. Grein 12.9 Nýr töluliður. Grein 17.1.a Viðbætur. Grein 17.4 Nýr töluliður. Grein 60.3 Nýr töluliður. Grein 68.1 Nýr töluliður. Grein 68.3 Nýr töluliður. Laganefnd leggur til að framkomnar tillögur verði samþykktar. 2. Innsetning kafla um Dómstóla ÍSÍ. – 4. kafli Laganefnd leggur til að framkomin tillaga verði samþykkt. 3. Innsetning nýs kafla um Heilbrigðis- og lyfjamál – 5. kafli 4. kafli í núverandi lögum ÍSÍ, um Heilbrigðis- og lyfjamál fellur út í heild sinni, inn kemur nýr kafli um Heilbrigðis- og lyfjamál sem 5. kafli, á eftir nýjum kafla um Dómstóla ÍSÍ. Laganefnd leggur til að framkomin tillaga verði samþykkt. 4. Breytingar á kafla (lögum) um Dómstóla ÍSÍ, í kjölfar breytinga á kafla um Heilbrigðis- og lyfjamál Greinar 20.2, 22.2, 23.6, 24.1, 30.4, 36.2.4 og 36.3. Laganefnd leggur til að framkomnar tillögur verði samþykktar. 5. Lagabreytingartillögur frá framkvæmdastjórn ÍSÍ. Greinar 13.13 Í kjölfar nýrra laga um Dómstól ÍSÍ, fellur niður ”Dóms- og refsiákvæði ÍSÍ” og er verið að gera lagfæringu til samræmis við það.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð 15.1

Lögð er til ein breyting frá áður framkominni tillögu. Út falli orðin "að vori". 17.1.b, 2. töluliður Laganefnd leggur til að núverandi ákvæði haldist óbreytt. 17.1.b, 3. töluliður Laganefnd leggur til að núverandi ákvæði haldist óbreytt. 17.1.c Laganefnd leggur til að núverandi ákvæði haldist óbreytt. 19.1 Laganefnd leggur til tvær breytingar á áður framkominni lagabreytingu. Lagfæra þarf Afreksmannasjóð í Afrekssjóð, til samræmis við nafnabreytingu sem gerð hefur verið á sjóðnum. Einnig lagt til að "Heilbrigðisráð/lyfjaeftirlitsnefnd/lyfjaráð" breytist í "Heilbrigðisráð, lyfjaeftirlitsnefnd, lyfjaráð", þ.e. kommur verði settar á milli orða í stað skástriks. Laganefnd leggur til að framkomnar breytingar verði samþykktar með ofangreindum breytingum.

6. Lagabreytingartillögur frá Frjálsíþróttasambandi Íslands um boðunarfresti til íþróttaþings. Grein 11.3 og 11.4. Laganefnd leggur til að framkomnar breytingar verði samþykktar. 7. Ný tillaga Laganefndar – Lagfæringar og samræming texta og tölu- og bókstafsliða í lögum ÍSÍ. Grein 13 Textasamræming, sbr. 16. grein Grein 16 Merkja upp 16.1 til samræmingar Grein 17.3 Samþjöppun á texta Grein 18 Merkja upp 18.1 til samræmingar 4.2 í fjórða kafla. Út falli orðið "kafli". Grein 26.2 Töluliðir verði bókstafsliðir til samræmingar Grein 29 Merkja upp 29.1 til samræmingar Grein 32 Merkja upp 32.1 til samræmingar Grein 35 Merkja upp 35.1 til samræmingar Töluliðir verði bókstafsliðir Grein 36.1 Töluliðir verði bókstafsliðir Grein 36.2 Töluliðir verði bókstafsliðir Grein 38 Merkja upp 38.1 til samræmingar Grein 39 Merkja upp 39.1 til samræmingar Grein 44 Merkja upp 44.1 til samræmingar Grein 53.1 Setja inn "Samanber" í stað "Sjá þó". Einnig breyting á tilvísun, á að vera 53.2 í stað 54. gr. Grein 54.1.a Vantar punkt á eftir setningu. Grein 58.1 Vantar punkt á eftir setningu a og b Grein 62 (33) Greinin er ekki rétt merkt upp. Á að vera 62. grein í stað 33. greinar. Allir töluliðir þar á eftir breytast í kjölfar af þessari leiðrétttingu og lögin enda því á grein 71. Laganefnd leggur til að ofangreindar breytingar verði samþykktar. 8. Tillögur að breytingum á Móta- og keppendareglum. Laganefnd leggur til að framkomnar tillögur verði samþykktar. Engar umræður urðu um lagabreytingar. Allar tillögurnar samþykktar samhljóða. Sjá samþykkt lög ÍSÍ í heild sinni í fylgiskjali nr. 2


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

22. Kjörnefnd kynnir framboð Reynir Ragnarsson kynnti niðurstöður kjörnefndar. Reynir sagði að töluverðar umræður hefðu skapast um verksvið kjörnefndar. Reynir sagði það álit nefndarinnar að það væri ekki nægilega afdráttarlaust í lögum ÍSÍ hvort kjörnefnd hefði heimild til að stilla upp lista. Nefndin taldi að hún ætti að hafa heimild til slíks enda mjög erfitt fyrir nýtt fólk að komast að. Í framboði eru 14 einstaklingar sem hér eru upptaldir í stafrófsröð: Til forseta: Ellert B. Schram Til framkvæmdastjórnar: Benedikt Geirsson Engilbert Olgeirsson Friðjón B. Friðjónsson Gunnar Bragason Hafsteinn Pálsson Helga H. Magnúsdóttir Ingibjörg B. Jóhannesdóttir Jóhann Tryggvason Lárus H. Blöndal Sigmundur Þórisson Sigríður Jónsdóttir Steindór Einarsson Unnur Stefánsdóttir Örn Andrésson Dregið var um í hvaða röð nöfnum yrði stillt upp á kjörseðilinn. Þingforseti skipaði í talninganefnd, þá Ingva Hrafn Baldursson og Sigurð Jóakimsson og fá þeir aðstoð frá drengjum í 2. flokki Hauka.

Kynning frambjóðenda Ágúst Ásgeirsson bað um orðið. Ágúst gerði grein fyrir burtför sinni úr framkvæmdastjórn ÍSÍ. Hann sagði að honum hefði tekist að upphefja togkraft framkvæmdastjórnarsætisins og þakkaði samstarfsfélögum sínum fyrir góða samvinnu og sagði þakklæti efst í huga sér. Hann óskaði stjórnarmönnum sem við taka velfarnaðar. Frambjóðendur í framkvæmdastjórn kynntu sig stuttlega í pontu.

Kjörnefnd – kosning

Reynir Ragnarsson. Reynir bað þá um að rétta upp hönd sem styddu Ellert enda var hann einn í framboði til forseta ÍSÍ. Á eftir fylgdi mikið lófaklapp þingheims. Reynir Ragnarsson las aftur upp þá sem voru í framboði til framkvæmdastjórnar. Stefán S. Konráðsson fékk orðið og fór yfir fjölda fulltrúa sem mættir voru f.h. sambandsaðila. Stefán gat þess sérstaklega að kjósa yrði 10 frambjóðendur til þess að atkvæði teljist gilt. Sambandsaðilar sóttu atkvæðaseðla sína jafnóðum og getið var um fjölda atkvæða viðkomandi.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Þingnefndir gera grein fyrir störfum sínum frh.: Allsherjarnefnd: Þingforseti bauð fulltrúa Allsherjarnefndar upp í pontu til gera grein fyrir störfum nefndarinnar. Formaður Allsherjarnefndar, Benedikt Sigurðarson, kynnti störf nefndarinnar. tillögum vísað til nefndarinnar af 25 skráðum þingskjölum.

Alls var 17

Þingskjal nr. 1; um stofnun sérsambands. Allsherjarnefnd gerði tillögu um að tillagan yrði samþykkt óbreytt.

Samþykkt samhljóða.

Þingskjal nr. 7; ályktun um ÍSÍ og UMFÍ. Nefndin gerði tillögu um breytingar á síðari hluta greinarinnar.

Breytingartillaga: Ályktun um ÍSÍ/UMFÍ

Þingskjal 7a

66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, þakkar þá vinnu sem lögð hefur verið í viðræður við UMFÍ um hugsanlega sameiningu og/eða samvinnu ÍSÍ og UMFÍ, bæði af hálfu framkvæmdastjórnar sem og sérstakrar vinnunefndar. Þingið telur að þessar viðræður eigi að halda áfram. Þingið fagnar sérstaklega sameiginlegri yfirlýsingu forseta ÍSÍ og formanns UMFÍ sem staðfestir skuldbindingu beggja aðila um stóraukið samstarf og sameiginleg áform um lausnir ágreiningsmála.

Samþykkt samhljóða.

Þingskjal nr. 8; tryggingamál. Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt óbreytt.

Samþykkt samhljóða.

Þingskjal nr. 11; um aukinn þátt bæjar- og sveitarfélaga í fjámögnun og rekstri íþrótta- og ungmennafélaga. Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt með lítilsháttar orðalagsbreytingu.

Breytingartillaga: Ályktun um aukinn þátt bæjar- og sveitarfélaga í fjármögnun og rekstri íþrótta- og ungmennafélaga Þingskjal 11a 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, leggur áherslu á að bæjar- og sveitarfélög á Íslandi komi að fjármögnun og rekstri íþrótta- og ungmennafélaga í auknum mæli. Þingið skorar á bæjar- og sveitarfélög í landinu að marka sér stefnu í samráði við íþróttahreyfinguna hvað varðar uppbyggingu íþróttamannvirkja, rekstur félaga, styrkveitingar til barna- og unglingastarfs og eflingu fræðslustarfs. Þá fagnar þingið því að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur hafið undirbúning að því að aðgreina framlög til íþróttahreyfingarinnar betur í bókhaldi sveitarfélaga. Umræður: Valdimar Leó Friðriksson form. UMSK kom í pontu og fagnaði frumkvæði framkvæmdastjórnar að tillögunni og kom með svohljóðandi viðaukatillögu:


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Viðaukatillaga – Valdimar Leó Friðriksson. Þingið felur stjórn ÍSÍ að skipa nefnd til að afla upplýsinga um ofangreind atriði og skal hún skila skýrslu um það á formannafundi ÍSÍ í haust. Jafnframt skal nefndin, framkvæmdastjórn og starfsfólk ÍSÍ sjá um að útbreiða upplýsingarnar til aðildarfélaga og aðstoða þau við að ná fram fjárstuðningi frá sveitarfélögunum.

Báðar tillögurnar samþykktar samhljóða.

Þingskjal nr. 12; áskorun um Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt töluvert breytt.

Breytingartillaga: Áskorun um "Fyrirmyndarfélag ÍSÍ" Þingskjal 12a 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, skorar á íþrótta- og ungmennafélög á landinu að kynna sér vel þær kröfur sem ÍSÍ hefur sett varðandi "Fyrirmyndarfélag ÍSÍ." Þingið hvetur félög og sambandsaðila til að setja sér metnaðarfull markmið um faglegan rekstur og vinna að því að geta sótt um að verða viðurkennd sem "Fyrirmyndarfélag ÍSÍ".

Samþykkt samhljóða.

Þingskjal nr. 13; ályktun um úttekt á stöðu og uppbyggingu íþróttamannvirkja á landsvísu. Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt með lítilsháttar orðalagsbreytingu til frekari áréttingar.

Breytingartillaga: Ályktun um úttekt á stöðu uppbyggingar íþróttamannvirkja á landsvísu Þingskjal 13a 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, samþykkir að beina því til framkvæmdastjórnar ÍSÍ að skipa nefnd sem geri úttekt á stöðu uppbyggingar íþróttamannvirkja og aðstöðu til íþróttaiðkunar, á landsvísu, með það að markmiði að meta hvar þörf er fyrir ný mannvirki, og þá hvers konar mannvirki. Með þessu móti mætti skapa yfirsýn og vekja athygli sveitarfélaga og ríkisvalds á uppbyggingarþörf íþróttamannvirkja. Unnið skal að verkefninu í samstarfi við sambandsaðila.

Samþykkt samhljóða.

Þingskjal nr. 14; ályktun um hnefaleikaíþróttina. Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt með orðalagsbreytingu.

Breytingartillaga: Ályktun um hnefaleikaíþróttina

Þingskjal 14a

66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, lýsir stuðningi við ákvörðun Alþingis um lögleiðingu áhugamannahnefaleika á Íslandi, eftir nær hálfrar aldar bann, enda viðurkennd íþróttagrein um heim allan og keppnisgrein á Ólympíuleikum. Íþróttahreyfingin býður hnefaleikafélög og deildir velkomin í sínar raðir en hvetur til þess að sett séu skýr aldursmörk gagnvart iðkendum.

Samþykkt með öllum þorra atkvæða.

Þingskjal nr. 15; ályktun um almenningsíþróttir. Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt með orðalagsbreytingu.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Breytingartillaga: Ályktun um almenningsíþróttir

Þingskjal 15a

66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, lýsir ánægju sinni með það verkefni sem ÍSÍ hefur efnt til í tilefni 90 ára afmælis sambandsins og nefnt er „Ísland á iði 2002“. Þingið undirstrikar þýðingu þess að ÍSÍ hafi áfram forystu í að efla almenningsíþróttir og kallar eftir samstarfi við sambandsaðila um að stuðla að virkari þátttöku almennings í hreyfingu og heilsusamlegu líferni, bæði til ánægju og heilsubótar.

Samþykkt samhljóða.

Þingskjal nr. 16; ályktun um Getspá/Getraunir. Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt óbreytt.

Samþykkt samhljóða.

Þingskjal nr. 17, tillaga um áróður gegn tóbaksnotkun. Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt töluvert breytt.

Breytingartillaga: Tillaga um áróður gegn notkun ávana- og fíkniefna

Þingskjal 17a

66. Íþróttaþing ÍSÍ haldið að Ásvöllum Hafnarfirði 27. – 28. apríl 2002, hvetur alla sambandsaðila ÍSÍ til að herða enn frekar áróður gegn ólöglegri tóbaksnotkun í tengslum við íþróttastarf. Þau íþróttafélög sem gera sérstakan samning við sitt íþróttafólk eru hvött til að hafa ákvæði inn í samningi þar sem tekið er á tóbaksnotkun og annarri óæskilegri neyslu þegar viðkomandi kemur fram undir merkjum félagsins. Umræður: Hörður Gunnarsson, taldi orðalagsbreytingu á tillögunni ekki nægilega skýra. Hann varpaði fram hvað átt væri við með orðunum „óæskilegri neyslu“. Hann taldi þar vanta frekari skilgreiningu og kom með tillögu að orðalagsbreytingu. Jónas Egilsson, vildi ganga enn lengra en Hörður og vildi að tillaga 17a yrði dregin til baka og tillaga 17 tekin upp aftur. Hörður Oddfríðarson, gerði þrjár tillögur um orðalagsbreytingar. Hann útskýrði þær. Daníel Jakobsson, taldi íþróttahreyfinguna eiga í miklum erfiðleikum með að taka af skarið varðandi þessi mál. Hann fór aðeins í orðalag og ónákvæmni í þeim efnum og sagði það skoðun SKÍ að fyrri tillagan væri betri. Steinþór Einarsson, lagði til að tillaga 17 yrði stytt. Hann útskýrði tillögu sína. Sigmundur Þórisson, tók heilshugar undir orð Steinþórs og lagði til að tillaga 17a yrði dregin til baka. Benedikt Sigurðarson, bað um að allsherjarnefnd fengi tækifæri til að setjast niður með þeim aðilum sem tóku þátt í umræðum þannig að hægt yrði að samræma sjónarmið aðila. Þingforseti lagði til við þingið um að tillagan yrði tekin af dagskrá og í samræmingavinnu með nefndinni og þeim sem kvöddu sér hljóðs. Þingið samþykkti samhljóða. Eftir þá vinnu varð niðurstaða nefndarinnar sú að leggja fram svohljóðandi breyttan texta:

Tillaga um áróður gegn notkun ávana- og fíkniefna:

Þingskjal 17b

66. Íþróttaþing ÍSÍ haldið að Ásvöllum Hafnarfirði 27. – 28. apríl 2002, hvetur alla sambandsaðila ÍSÍ til að herða enn frekar áróður gegn notkun ávana- og fíkniefna.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð Þingið hvetur þau íþróttafélög sem gera sérstakan samning við sitt íþróttafólk til að hafa ákvæði inn í samningi þar sem kveðið er á um bann við notkun ávana- og fíkniefna, - (þ.m.t. tóbaksnotkun) þegar viðkomandi íþróttafólk kemur fram opinberlega. Þingið telur ástæðu til að vara sérstaklega við notkun munntóbaks.

Samþykkt samhljóða.

Vegna þess hve afgreiðsla tillagna hafði dregist þá tilkynnti þingforseti að forseti ÍSÍ myndi nú afhenda viðurkenningar. Forseti ÍSÍ, Ellert B. Schram, tilkynnti að framkvæmdastjórn hefði ákveðið að sýna eftirfarandi einstaklingum þakklæti og virðingu fyrir störf í þágu hreyfingarinnar með því að sæma þá heiðursmerkjum hreyfingarinnar. Gullmerki ÍSÍ: Hjördís Guðbjörnsdóttir, Fimleikafélaginu Björk í Hafnarfirði. Ólafur Guðmundsson, Sundfélagi Hafnarfjarðar. Sveinn Magnússon, FH. Heiðurskross ÍSÍ: Þorgerður Gísladóttir, Fimleikafélaginu Björk í Hafnarfirði. Árni Ágústsson, Knattspyrnudeild FH. Haraldur S. Magnússon, Frjálsíþróttadeild FH. Ellert tilkynnti að framkvæmdastjórn ÍSÍ hefði ákveðið að sýna Hafnarfjarðarkaupsstað sérstakan þakklætisvott og viðurkenningu í ljósi þess að bærinn hefur verið í forystu við uppbyggingu íþróttamannvirkja. Ellert afhenti Magnúsi Gunnarssyni bæjarstjóra skjal þessa efnis. Ellert kallaði þar næst Ástbjörgu Gunnarsdóttur á svið og tilkynnti að þingið hefði samþykkt að gera hana að Heiðursfélaga ÍSÍ. Ellert afhenti Ástbjörgu innrammað plagg þessu til staðfestingar. Á hátíðarkvöldverði ÍSÍ kvöldið áður afhenti Ellert, Magnúsi Oddssyni sína viðurkenningu sem Heiðursfélagi ÍSÍ, en þingið hafði samþykkt þau tvö sem nýja Heiðursfélaga. Að lokum þakkaði Ellert þessu heiðursfólki, sem hlaut þessar viðurkenningar, fyrir störf þeirra fyrir íþróttahreyfinguna og gaf svo Magnúsi Gunnarssyni orðið. Magnús Gunnarsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar þakkaði veitta viðurkenningu til bæjarins.

Þingnefndir gera grein fyrir störfum sínum (frh.) Allsherjarnefnd: Þingskjal nr. 18, um styrki til námsgagnagerðar. Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt aðeins breytt, aðallega hvað snertir orðalag.

Breytingartillaga: Tillaga um styrki til námsgagnagerðar Þingskjal 18a 66. Íþróttaþing ÍSÍ haldið að Ásvöllum Hafnarfirði 27. – 28. apríl 2002, samþykkir að beina þeirri áskorun til Menntamálaráðuneytisins að ráðuneytið veiti ÍSÍ og sambandsaðilum styrki til námsgagnagerðar í tengslum við uppbyggingu menntunar íþróttahreyfingarinnar.

Samþykkt samhljóða.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Þingskjal nr. 20, tillaga um skipulag íþróttahreyfingarinnar. Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt töluvert breytt.

Breytingartillaga: Tillaga um skipulag íþróttahreyfingarinnar Þingskjal 20a 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, samþykkir að beina því til framkvæmdastjórnar ÍSÍ að eiga frumkvæði að því að leita eftir samstarfi við ríkisvaldið, Samtök íslenskra sveitarfélaga og UMFÍ um endurskoðun á heildarsamskiptum íþróttahreyfingarinnar og opinberra aðila, m.a. um skipan íþróttahéraða, verkaskiptingu, áherslur og fjárhagsleg samskipti. Umræður: Reynir Ragnarsson, fjallaði um tillöguna og taldi meðferð Allsherjarnefndar hreinlega slátrun. Hann taldi sig mjög ósáttan við nýju tillöguna og kom með breytingartillögu. Þingforseti fékk heimild þingheims til að taka þessa tillögu til umræðu síðar á þinginu vegna þess að allsherjarnefnd væri að störfum. Nefndin náði samkomulagi með Reyni um breyttan texta tillögunnar. Þegar Allsherjarnefnd hafði fjallað um tillöguna las þingforseti hana upp:

Tillaga um skipulag íþróttahreyfingarinnar Þingskjal 20b 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að eiga frumkvæði að samstarfi við ríkisvaldið, Samband íslenskra sveitarfélaga og UMFÍ um skipan vinnuhóps sem hafi það hlutverk að gera tillögur um endurskoðun á heildarsamskiptum íþróttahreyfingarinnar og opinberra aðila, m.a. um skipan íþróttahéraða, verkaskiptingu, áherslur og fjárhagsleg samskipti. Framkvæmdastjórn ÍSÍ skal gera grein fyrir stöðu þessa máls á næsta formannafundi ÍSÍ.

Samþykkt samhljóða.

Þingskjal nr. 21, um skráningu iðkenda, keppenda og félaga. Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt töluvert breytt.

Breytingartillaga: Tillaga um breytta skráningu iðkenda, keppenda og félaga í íþróttahreyfingunni

Þingskjal 21a

66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, samþykkir að beina því til framkvæmdastjórnar að stofna vinnuhóp til að undirbúa nýjar reglur um skráningu félaga í íþróttahreyfingunni. Í nýju reglunum skal m.a. skilgreina eftirfarandi atriði: Keppandi, það er íþróttamaður sem tekur þátt í opinberum og opnum keppnum s.s. landsmóti og héraðsmóti og er á skrá hjá viðkomandi sérsambandi. Iðkandi, það er sá sem stundar íþrótt sér til heilsubótar og tekur ekki þátt í opinberum keppnum. Iðkandi skal vera meðlimur í íþróttafélagi og greiða árgjald. Félagi, það er sá sem ekki stundar íþróttir að staðaldri en er meðlimur í íþróttafélagi og greiðir árgjald til síns félags.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Umræður: Svanur Gestsson, benti á það að erfitt yrði að setja dómara inn í þessar skilgreiningar.

Tillaga 21a samþykkt samhljóða.

Þingskjal nr. 22, varðandi ferðakostnað. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt töluvert breytt.

Breytingartillaga: Tillaga um að framkvæmdastjórn ÍSÍ vinni að því að ná fram lækkun á ferðakostnaði fyrir alla íþróttahreyfinguna. Þingskjal 22a 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að vinna að því að leita eftir samningum við aðila í ferðaþjónustu um hagstæð fargjöld bæði innanlands og utan sem nýtast myndi allri íþróttahreyfingunni. Í þessu skyni yrði látið reyna á samtakamátt hreyfingarinnar til að ná fram hagstæðum samningum með því að allir tækju þátt í þessum samningum.

Samþykkt samhljóða.

Þingskjal nr. 23, varðandi dreifingu og ábyrgð verkefna. Nefndin leggur til að að tillagan verði samþykkt örlítið breytt.

Breytingartillaga: Tillaga um dreifingu ábyrgðar og framkvæmdar verkefna út til sambandsaðila ÍSÍ.

Þingskjal 23a

66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, beinir því til framkvæmdastjórnar ÍSÍ að dreifa ábyrgð og framkvæmd verkefna út til sambandsaðila sinna eftir því sem kostur er.

Samþykkt samhljóða.

Þingskjal nr. 24, varðandi íþróttaiðkun án endurgjalds. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt aðeins breytt.

Breytingartillaga: Tillaga um íþróttaiðkun án endurgjalds. Þingskjal 24a 66. Íþróttaþing ÍSÍ haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, skorar á yfirvöld íþróttamála, sveitarfélög og íþrótta- og ungmennafélög að vinna að því að öll börn á grunnskólaaldri eigi kost á íþróttaiðkun án endurgjalds í tengslum við skólatíma. Framkvæmdastjórn er falið að taka forystu í málinu og koma af stað vinnuhópi um málið sem skili af sér greinargerð með útfærslu á mögulegri framkvæmd fyrir ársþing ÍSÍ 2004.

Samþykkt samhljóða.

Þingskjal nr. 25, varðandi skipan skólaíþróttanefndar. samþykkt töluvert breytt.

Nefndin lagði til að tillagan yrði


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Breytingartillaga: Tillaga um skipun skólaíþróttanefndar. Þingskjal 25a 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, beinir því til framkvæmdastjórnar ÍSÍ að skipuð verði skólaíþróttanefnd sem hafi það með höndum að vinna að auknu samstarfi íþróttahreyfingarinnar og skólakerfisins. Nefndin kanni m.a. möguleika á að stofnað verði skólaíþróttasamband á svipuðum grunni og finna má á hinum Norðurlöndunum. Umræður: Kristján Erlendsson, fagnaði umræðunni um samstarf hvað snertir íþróttaiðkun og veru í skóla. Hann útskýrði aðkomu sýna að hliðstæðum málum og niðurstöður þeim tengdum.

Tillaga 25a samþykkt samhljóða.

Tölvunefnd: Pétur Hrafn Sigurðsson gerði grein fyrir störfum nefndarinnar. Þingskjal nr. 6, samþykkt um tölvu-og upplýsingakerfi. samþykkt töluvert breytt.

Nefndin lagði til að tillagan yrði

Breytingartillaga: Samþykkt um tölvu- og upplýsingakerfi íþróttaog ungmennafélagshreyfingarinnar Þingskjal 6a 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að ganga til samninga um nýtt tölvukerfi íþróttahreyfingarinnar. Framkvæmdastjórn skal jafnframt falið að leita eftir samstarfi við Ungmennafélag Íslands varðandi uppbyggingu kerfisins, fjármögnun og rekstur þess. Taka skal mið af þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram í sérsamböndum ÍSÍ og skal kerfið tekið í notkun eigi síðar en vorið 2003.

Samþykkt samhljóða.

Fjárhagsnefnd: Sigurjón Pétursson gerði grein fyrir störfum nefndarinnar. Þingskjal nr. 4, fjárhagsáætlun ÍSÍ fyrir árin 2002 og 2003. fjárhagsáætlunin yrði samþykkt óbreytt.

Nefndin lagði til að

Umræður: Geir Þorsteinsson, fjallaði um fjárhagsáætlunina og taldi nokkuð þurfa að lagfæra hana og reikninga sambandsins í framtíðinni þannig að raunveruleg umsvif ÍSÍ sæust betur.

Samþykkt samhljóða.

Þingskjal nr. 5, um ráðstöfun rekstrarafgangs ÍSÍ. samþykkt með eftirfarandi breytingum.

Nefndin lagði til að tillagan yrði

Breytingartillaga: Tillaga um ráðstöfun rekstrarafgangs

Þingskjal 5a

66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að greiða rekstrarafgang á ársreikningi ÍSÍ 2001, til sambandsaðila, skv. nánari ákvörðun framkvæmdastjórnar.

Samþykkt samhljóða.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð Þingskjal nr. 9, um endurskoðun reglugerða ÍSÍ um bókhald. Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt óbreytt.

Samþykkt samhljóða.

Þingskjal nr. 10, um aukna hlutdeild ÍSÍ vegna Smáþjóðaleika. Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt með smávægilegum orðalagsbreytingum.

Breytingartillaga: Tillaga um aukinn hlut ÍSÍ í þátttökukostnaði sérsambanda í Smáþjóðaleikum.

Þingskjal 10a

66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, telur eðlilegt að hlutur ÍSÍ í þátttökukostnaði sérsambanda í Smáþjóðaleikum verði aukinn og að styrkupphæðir ríkisins, sem nú eru veittar, lækki ekki.

Samþykkt samhljóða.

Þingskjal nr. 19, um stóraukin fjárframlög frá ríkinu til ÍSÍ og sérsambanda. Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt óbreytt.

Samþykkt samhljóða.

Kjörnefnd kynnir niðurstöður kosninga Reynir Ragnarsson formaður kjörnefndar gerði grein fyrir niðurstöðum. þannig: Sigríður Jónsdóttir Friðjón B. Friðjónsson Lárus Blöndal Benedikt Geirsson Hafsteinn Pálsson Örn Andrésson Helga H. Magnúsdóttir Engilbert Olgeirsson Sigmundur Þórisson Gunnar Bragason Unnur Stefánsdóttir Steinþór Einarsson Jóhann Tryggvason Ingibjörg B. Jóhannesdóttir

Atkvæði skiptust

200 atkv. 174 atkv. 171 atkv. 171 atkv. 168 atkv. 163 atkv. 162 atkv. 143 atkv. 142 atkv. 142 atkv. 126 atkv. 110 atkv. 81 atkv. 77 atkv.

Þingforseti lýsti því yfir að þeir 10 sem fengu flest atkvæði væru réttkjörnir í framkvæmdastjórn ÍSÍ.

Kosning í Íþróttadómstól ÍSÍ. Tillögur um: Gunnar Guðmundsson, Halldór Frímannsson, Halldór Halldórsson, Björn Lárusson, Ólaf Björnsson og Sigurð Halldórsson. Fleiri tilnefningar komu ekki fram og lýsti þingforseti þessa aðila réttkjörna til setu í Íþróttadómstól ÍSÍ.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Kosning í Áfrýjunardómstól ÍSÍ. Tillögur um: Gest Jónsson, Jón G. Zoega, Snorra Ólsen, Guðmund Jónsson, Björgvin Þorsteinsson og Karl Gauta Hjaltason. Fleiri tilnefningar komu ekki fram og lýsti þingforseti þessa aðila réttkjörna til setu í Áfrýjunardómstól ÍSÍ.

Skoðunarmenn reikninga. Tillögur um: Hallgrím Þorsteinsson og Tryggva Geirsson. Til vara: Þórð Þorkelsson og Sigurgeir Bóasson. Fleiri tilnefningar komu ekki fram og lýsti þingforseti þessa aðila réttkjörna í ofangreint embætti.

Varastjórn ÍSÍ. Tillögur um: Björg Blöndal, Jón Gest Viggósson og Ingibjörgu B. Jóhannesdóttur. Fleiri tillögur komu ekki fram og lýsti þingforseti ofangreinda aðila réttkjörna til setu í varastjórn ÍSÍ. Þingforseti sagði dagskrá þingsins svo gott sem tæmda og gaf forseta ÍSÍ orðið. Ellert þakkaði framkvæmdastjóra og starfsfólki ÍSÍ fyrir mikla vinnu við undirbúning og framkvæmd íþróttaþings. Ennfremur færði Ellert Haukamönnum miklar og góðar þakkir fyrir þeirra framlag til þess að þingið færi sem best fram. Ellert kallaði sérstaklega fram Sturlu Haraldsson rekstrarstjóra Ásvalla og þakkaði honum kærlega fyrir framlag Hauka. Ellert bauð nýtt fólk í framkvæmdastjórn velkomið til starfa og þakkaði fyrri stjórnarmeðlimum fyrir þeirra framlag í þágu íþróttanna. Einnig þakkaði Ellert þingfulltrúum fyrir stuðninginn í áframhaldandi embætti forseta ÍSÍ og sagðist reyna að fremsta megni að gera sitt besta í embætti. Að lokum þakkaði hann gott andrúmsloft og skjóta afgreiðslu mála og áleit að allir gætu farið út af þinginu jákvæðir og glaðir. Hann óskaði þingfulltrúum góðrar heimkomu og sagði íþróttaþinginu slitið.

______________________________ Magnús Gunnarsson 1. þingforseti ______________________________ Viðar Sigurjónsson 1. þingritari


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Samþykktir 66. Íþróttaþings Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands 27.-28. apríl 2002


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Fjárhagsáætlun ÍSÍ 2002-2003 Fjárhagsáætlun ÍSÍ 2002-2003 Tekjur: Hvað 1. 2. 3. 4. 5. 6.

Framlag Alþingis Íslensk getspá Ósóttir vinningar Íslenskar getraunir Styrkir IOC/EOC Aðrar tekjur

skýr 1 2 3 4 5 6

Samtals Gjöld: Hvað 7. 8. 9. 10. 11.

skýr

Skrifstofukostnaður Þing og fundir innanlands og kostnaður stjórnar Þing og fundir erlendis Framlag vegna fundaraðstöðu Kostnaður vegna stoðsviða og nefnda

2002

2003

59.700.000 8.000.000 5.000.000 7.000.000 7.000.000 4.500.000

65.200.000 8.000.000 5.000.000 7.000.000 7.000.000 4.500.000

91.200.000

96.700.000

2002

2003

7 8 9 10 11

33.000.000 7.500.000 3.000.000 1.500.000 8.000.000

34.000.000 7.500.000 3.500.000 1.500.000 9.000.000

12. Smáþjóðaleikar á Möltu

12

5.000.000

10.000.000

13. 14. 15. 16. 17. 18. 19. 20. 21. 22.

13 14 15 16 17 18 19 20 21 22

0 6.000.000 6.000.000 2.500.000 3.000.000 3.000.000 2.700.000 5.000.000 3.000.000 2.000.000

6.000.000 7.200.000 6.000.000 3.000.000 4.000.000 0 2.000.000 0 0 3.000.000

91.200.000

96.700.000

Ólympíudagar æskunnar í Bled/París Íþróttaleg samskipti Annar kostnaður Verkefnasjóður Íþróttamiðstöð Laugardal Afmæli ÍSÍ Aðalfundur EOC Salt Lake Íþróttaþing Sjóður ungra og efnilegra

Samtals

Stofnun Taekwondosambands Íslands 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að stofna sérsamband um taekwondoíþróttina – Taekwondosamband Íslands – skammstafað TKÍ.

Lagabreytingar – móta- og keppendareglur. (sjá fylgiskjal nr. 2)


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Tillaga um ráðstöfun rekstrarafgangs 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að greiða rekstrarafgang á ársreikningi ÍSÍ 2001, til sambandsaðila, skv. nánari ákvörðun framkvæmdastjórnar.

Samþykkt um tölvu- og upplýsingakerfi íþróttaog ungmennafélagshreyfingarinnar 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að ganga til samninga um nýtt tölvukerfi íþróttahreyfingarinnar. Framkvæmdastjórn skal jafnframt falið að leita eftir samstarfi við Ungmennafélag Íslands varðandi uppbyggingu kerfisins, fjármögnun og rekstur þess. Taka skal mið af þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram í sérsamböndum ÍSÍ og skal kerfið tekið í notkun eigi síðar en vorið 2003.

Ályktun um ÍSÍ/UMFÍ 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, þakkar þá vinnu sem lögð hefur verið í viðræður við UMFÍ um hugsanlega sameiningu og/eða samvinnu ÍSÍ og UMFÍ, bæði af hálfu framkvæmdastjórnar sem og sérstakrar vinnunefndar. Þingið telur að þessar viðræður eigi að halda áfram. Þingið fagnar sérstaklega sameiginlegri yfirlýsingu forseta ÍSÍ og formanns UMFÍ sem staðfestir skuldbindingu beggja aðila um stóraukið samstarf og sameiginleg áform um lausnir ágreiningsmála.

Ályktun um tryggingamál íþróttahreyfingarinnar 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, lýsir vonbrigðum sínum með þá ákvörðun Tryggingaráðs að skerða réttindi íþróttafólks til slysabóta, sem mun bitna á íþróttafélögum og/eða íþróttafólkinu sjálfu og mun, þegar til lengri tíma er litið, stuðla að auknu brottfalli frá iðkun íþrótta og líkamsræktar. Þingið þakkar heilbrigðisráðherra þá viðleitni að koma til móts við þann fyrirsjáanlega skaða og kostnað sem af ákvörðun Tryggingaráðs hlýst, með styrkveitingu til ÍSÍ, og felur framkvæmdastjórn ÍSÍ að semja reglugerð um nýtingu og ráðstöfun á þeirri styrkupphæð.

Tillaga um endurskoðun reglugerða ÍSÍ um bókhald 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að láta endurskoða reglugerð ÍSÍ um bókhald, leiðbeiningar ÍSÍ um bókhald og bókhaldslykla íþróttahreyfingarinnar.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Tillaga um aukinn hlut ÍSÍ í þátttökukostnaði sérsambanda í Smáþjóðaleikum 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, telur eðlilegt að hlutur ÍSÍ í þátttökukostnaði sérsambanda í Smáþjóðaleikum verði aukinn og að styrkupphæðir ríkisins, sem nú eru veittar, lækki ekki.

Ályktun um aukinn þátt bæjar- og sveitarfélaga í fjármögnun og rekstri íþrótta- og ungmennafélaga 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, leggur áherslu á að bæjar- og sveitarfélög á Íslandi komi að fjármögnun og rekstri íþrótta- og ungmennafélaga í auknum mæli. Þingið skorar á bæjar- og sveitarfélög í landinu að marka sér stefnu í samráði við íþróttahreyfinguna hvað varðar uppbyggingu íþróttamannvirkja, rekstur félaga, styrkveitingar til barna- og unglingastarfs og eflingu fræðslustarfs. Þá fagnar þingið því að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur hafið undirbúning að því að aðgreina framlög til íþróttahreyfingarinnar betur í bókhaldi sveitarfélaga. Þingið felur stjórn ÍSÍ að skipa nefnd til að afla upplýsinga um ofangreind atriði og skal hún skila skýrslu um það á formannafundi ÍSÍ í haust. Jafnframt skal nefndin, framkvæmdastjórn og starfsfólk ÍSÍ sjá um að útbreiða upplýsingarnar til aðildarfélaga og aðstoða þau við að ná fram fjárstuðningi frá sveitarfélögunum.

Áskorun um „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“ 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, skorar á íþrótta- og ungmennafélög á landinu að kynna sér vel þær kröfur sem ÍSÍ hefur sett varðandi "fyrirmyndarfélag ÍSÍ." Þingið hvetur félög og sambandsaðila til að setja sér metnaðarfull markmið um faglegan rekstur og vinna að því að geta sótt um að verða viðurkennd sem "fyrirmyndarfélag ÍSÍ".

Ályktun um úttekt á stöðu uppbyggingar íþróttamannvirkja á landsvísu 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, samþykkir að beina því til framkvæmdastjórnar ÍSÍ að skipa nefnd sem geri úttekt á stöðu uppbyggingar íþróttamannvirkja og aðstöðu til íþróttaiðkunar, á landsvísu, með það að markmiði að meta hvar þörf er fyrir ný mannvirki, og þá hvers konar mannvirki. Með þessu móti mætti skapa yfirsýn og vekja athygli sveitarfélaga og ríkisvalds á uppbyggingarþörf íþróttamannvirkja. Unnið skal að verkefninu í samstarfi við sambandsaðila.

Ályktun um hnefaleikaíþróttina 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, lýsir stuðningi við ákvörðun Alþingis um lögleiðingu áhugamannahnefaleika á Íslandi, eftir nær hálfrar aldar bann, enda viðurkennd íþróttagrein um heim allan og keppnisgrein á Ólympíuleikum. Íþróttahreyfingin býður hnefaleikafélög og deildir velkomin í sínar raðir en hvetur til þess að sett séu skýr aldursmörk gagnvart iðkendum.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Ályktun um almenningsíþróttir 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27. - 28. apríl 2002, lýsir ánægju sinni með það verkefni sem ÍSÍ hefur efnt til í tilefni 90 ára afmælis sambandsins og nefnt er „Ísland á iði 2002“. Þingið undirstrikar þýðingu þess að ÍSÍ hafi áfram forystu í að efla almenningsíþróttir og kallar eftir samstarfi við sambandsaðila um að stuðla að virkari þátttöku almennings í hreyfingu og heilsusamlegu líferni, bæði til ánægju og heilsubótar.

Ályktun um Getspá/Getraunir 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, fagnar þeim góða árangri sem náðst hefur með þjónustusamningi Íslenskrar getspár og Íslenskra getrauna. Þingið hvetur sambandsaðila sína til að standa áfram vörð um þessa helstu tekjulind íþróttahreyfingarinnar og kynna sér betur þá tekjumöguleika sem íþróttahreyfingin hefur í gegnum Getspá/Getraunir.

Tillaga um áróður gegn notkun ávana- og fíkniefna 66. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands haldið að Ásvöllum Hafnarfirði 27. – 28. apríl 2002 hvetur alla sambandsaðila ÍSÍ til að herða enn frekar áróður gegn notkun ávanaog fíkniefna. Þingið hvetur þau íþróttafélög sem gera sérstakan samning við sitt íþróttafólk til að hafa ákvæði inn í samningi þar sem kveðið er á um bann við notkun ávana- og fíkniefna, - (þ.m.t. tóbaksnotkun) þegar viðkomandi íþróttafólk kemur fram opinberlega. Þingið telur ástæðu til að vara sérstaklega við notkun munntóbaks.

Tillaga um styrki til námsgagnagerðar 66. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands haldið að Ásvöllum Hafnarfirði 27. – 28. apríl 2002 samþykkir að beina þeirri áskorun til Menntamálaráðuneytisins að ráðuneytið veiti ÍSÍ og sambandsaðilum styrki til námsgagnagerðar í tengslum við uppbyggingu menntunar íþróttahreyfingarinnar.

Tillaga um stóraukin fjárframlög frá ríkisvaldi til ÍSÍ og sérsambanda 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002 krefst þess að ríkisstjórn Íslands stórauki fjárframlög til ÍSÍ og sérsambanda þess.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Tillaga um skipulag íþróttahreyfingarinnar 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að eiga frumkvæði að samstarfi við ríkisvaldið, Samband íslenskra sveitarfélaga og UMFÍ um skipan vinnuhóps sem hafi það hlutverk að gera tillögur um endurskoðun á heildarsamskiptum íþróttahreyfingarinnar og opinberra aðila, m.a. um skipan íþróttahéraða, verkaskiptingu, áherslur og fjárhagsleg samskipti. Framkvæmdastjórn ÍSÍ skal gera grein fyrir stöðu þessa máls á næsta formannafundi ÍSÍ.

Tillaga um breytta skráningu iðkenda, keppenda og félaga í íþróttahreyfingunni 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, samþykkir að beina því til framkvæmdastjórnar að stofna vinnuhóp til að undirbúa nýjar reglur um skráningu félaga í íþróttahreyfingunni. Í nýju reglunum skal m.a. skilgreina eftirfarandi atriði: Keppandi, það er íþróttamaður sem tekur þátt í opinberum og opnum keppnum s.s. landsmóti og héraðsmóti og er á skrá hjá viðkomandi sérsambandi. Iðkandi, það er sá sem stundar íþrótt sér til heilsubótar og tekur ekki þátt í opinberum keppnum. Iðkandi skal vera meðlimur í íþróttafélagi og greiða árgjald. Félagi, það er sá sem ekki stundar íþróttir að staðaldri en er meðlimur í íþróttafélagi og greiðir árgjald til síns félags.

Tillaga um að framkvæmdastjórn ÍSÍ vinni að því að ná fram lækkun á ferðakostnaði fyrir alla íþróttahreyfinguna 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að vinna að því að leita eftir samningum við aðila í ferðaþjónustu um hagstæð fargjöld bæði innanlands og utan sem nýtast myndi allri íþróttahreyfingunni. Í þessu skyni yrði látið reyna á samtakamátt hreyfingarinnar til að ná fram hagstæðum samningum með því að allir tækju þátt í þessum samningum.

Tillaga um dreifingu ábyrgðar og framkvæmdar verkefna út til sambandsaðila ÍSÍ 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, beinir því til framkvæmdastjórnar ÍSÍ að dreifa ábyrgð og framkvæmd verkefna út til sambandsaðila sinna eftir því sem kostur er.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Tillaga um íþróttaiðkun án endurgjalds 66. Íþróttaþing ÍSÍ haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, skorar á yfirvöld íþróttamála, sveitarfélög og íþrótta- og ungmennafélög að vinna að því að öll börn á grunnskólaaldri eigi kost á íþróttaiðkun án endurgjalds í tengslum við skólatíma. Framkvæmdastjórn er falið að taka forystu í málinu og koma af stað vinnuhópi um málið sem skili af sér greinargerð með útfærslu á mögulegri framkvæmd fyrir ársþing ÍSÍ 2004.

Tillaga um skipun skólaíþróttanefndar 66. Íþróttaþing ÍSÍ, haldið á Ásvöllum í Hafnarfirði 27.-28. apríl 2002, beinir því til framkvæmdastjórnar ÍSÍ að skipuð verði skólaíþróttanefnd sem hafi það með höndum að vinna að auknu samstarfi íþróttahreyfingarinnar og skólakerfisins. Nefndin kanni m.a. möguleika á að stofnað verði skólaíþróttasamband á svipuðum grunni og finna má á hinum Norðurlöndunum.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Fylgiskjal nr. 1 Tillögur að lagabreytingum.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Fylgiskjal nr. 2 Gildandi lög ÍSÍ, eftir samþykktar breytingar á íþróttaþingi í apríl 2002.


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

Fylgiskjal nr. 3 Skráðir þingfulltrúar samkvæmt kjörbréfum


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð

BLÍ

BSÍ

BTÍ

DSÍ

FRÍ

Júlíus Hafstein Guðmundur H. Þorsteinsson Jón Ólafur Valdimarsson Jason Ívarsson Hildur Mósesdóttir

Aðalfulltrúi Aðalfulltrúi Aðalfulltrúi Aðalfulltrúi Aðalfulltrúi

Þráinn Hafsteinsson Magnús Jakobsson Eggert Bogason Gunnar Einarsson Birna Björnsdóttir

Varafulltrúi Varafulltrúi Varafulltrúi Aðalfulltrúi Aðalfulltrúi

Vigfús Örn Hallgrímsson

Varafulltrúi

Helgi H. Garðarsson

Aðalfulltrúi

Björn Guðbjartsson

Varafulltrúi

Skúli Björnsson

Aðalfulltrúi

Reynir Guðmudsson

Aðalfulltrúi

Örn Sigurðsson

Aðalfulltrúi

Anna Lilja Sigurðardóttir

Aðalfulltrúi

Kristján Ingvason

Aðalfulltrúi

Sesselja Birgisdóttir

Aðalfulltrúi

Sigmundur Stefánsson

Aðalfulltrúi

Jón Allansson

Aðalfulltrúi

Helgi Kjartansson

Aðalfulltrúi

Helgi Jónsson

Aðalfulltrúi

Lárus Kjartansson

Varafulltrúi

Guðmundur Adolfsson

Aðalfulltrúi

Júlíus Rafnsson

Aðalfulltrúi

Sigríður Jónsdóttir

Aðalfulltrúi

Gunnar Bragason

Aðalfulltrúi

Gestur Valgarðsson

Varafulltrúi

Heimir Haraldsson

Aðalfulltrúi

FSÍ

GLÍ

GSÍ

Skúli Sigurðsson

Varafulltrúi

Rúnar S. Gíslason

Aðalfulltrúi

Jónas Þorsteinsson

Varafulltrúi

Hörður Þorsteinsson

Aðalfulltrúi

Ólafur Óskarsson

Varafulltrúi

Guðmundur Fr. Sigurðsson

Aðalfulltrúi

Sigurður Valur Sigurðsson

Aðalfulltrúi

Guðmundur Haraldsson

Aðalfulltrúi

Pétur Stephensen

Aðalfulltrúi

Þorvaldur Jóhannesson

Varafulltrúi

Kristján Jónasson

Aðalfulltrúi

Kristín Magnúsdóttir

Varafulltrúi

Ólafur K. Ólafsson

Varafulltrúi

Halldór Halldórsson

Varafulltrúi

Birna Bjarnadóttir

Aðalfulltrúi

Guðmundur Ólafsson

Varafulltrúi

Eyþór Árnason

Aðalfulltrúi

Anne Mette Kokholm

Varafulltrúi

Eggert Ólafsson

Aðalfulltrúi

Gunnar Gunnarsson

Varafulltrúi

Friðrik Björnsson

Aðalfulltrúi

Róbert Svavarsson

Varafulltrúi

Sigurbjörg A. Jónsdóttir

Aðalfulltrúi

Guðmundur Á. Ingvarsson

Aðalfulltrúi

Kjartan Haraldsson

Varafulltrúi

Sigurjón Pétursson

Aðalfulltrúi

Svanhildur Sigurðardóttir

Varafulltrúi

Ásgerður Halldórsdóttir

Aðalfulltrúi

Jón Eiríksson

Varafulltrúi

Þorbjörg Gunnarsdóttir

Aðalfulltrúi

Heiðar R. Ástvaldsson

Varafulltrúi

Knútur Hauksson

Aðalfulltrúi

Bjarni Þór Bjarnason

Varafulltrúi

Einar Þorvarðarson

Varafulltrúi

Jónas Egilsson

Aðalfulltrúi

Hermann Björnsson

Varafulltrúi

Sigurður P. Sigmundsson

Aðalfulltrúi

Bergþóra Sigmundsdóttir

Varafulltrúi

Kári Jónsson

Aðalfulltrúi

Þorgeir Haraldsson

Varafulltrúi

Sigurður Haraldsson

Aðalfulltrúi

Þorbergur Aðalsteinsson

Varafulltrúi

Katrín Sveinsdóttir

Aðalfulltrúi

Sveinn Áki Lúðvíksson

Aðalfulltrúi

Stefán Halldórsson

Aðalfulltrúi

Anna K. Vilhjálmsdóttir

Aðalfulltrúi

Þórður Guðmundsson

Aðalfulltrúi

Kristján Svanbergsson

Aðalfulltrúi

Guðmundur Sigurðsson

Varafulltrúi

Ólafur Magnússon

Varafulltrúi

Hreinn Jónsson

Varafulltrúi

Camilla Th. Hallgrímsson

Varafulltrúi

Gunnlaugur Karlsson

Varafulltrúi

Þórólfur Þórlindsson

Varafulltrúi

HSÍ

ÍF


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð ÍSS

JSÍ KAÍ

KLÍ

KKÍ

KSÍ

Viðar Garðarsson

Aðalfulltrúi

LH

Magnús Jónasson

Aðalfulltrúi

Elísabet Eyjólfsdóttir

Aðalfulltrúi

Vilhjálmur Skúlason

Aðalfulltrúi

Jóhanna Sara Kristjánsdóttir

Varafulltrúi

Birgir Sigurjónsson

Aðalfulltrúi

Héðinn Björnsson

Varafulltrúi

Vilhjálmur Ólafsson

Aðalfulltrúi

Kristján G. Valdimarsson

Aðalfulltrúi

Sigurður Ævarsson

Aðalfulltrúi

Arnar Marteinsson

Varafulltrúi

Sigrún Ögmundsdóttir

Aðalfulltrúi

Indriði Jónsson

Aðalfulltrúi

Haraldur Þórarinsson

Varafulltrúi

Reinharð Reinharðsson

Aðalfulltrúi

Sveinbjörn Sveinbjörnsson

Varafulltrúi

Ingólfur Snorrason

Aðalfulltrúi

Sigurður Ragnarsson

Varafulltrúi

Valgeir Guðbjartsson

Aðalfulltrúi

Sigfús Helgason

Varafulltrúi

Sigríður Klemensdóttir

Aðalfulltrúi

Páll Dagbjartsson

Varafulltrúi

Erla Ívarsdóttir

Aðalfulltrúi

Helga Fjóla Guðnadóttir

Varafulltrúi

Hörður I. Jóhannsson

Varafulltrúi

Sigurður Steinþórsson

Varafulltrúi

Björgvin A. Björgvinsson

Varafulltrúi

Valbjörn Jónsson

Aðalfulltrúi

Theodóra Ólafsdóttir

Varafulltrúi

Hallur Erlingsson

Aðalfulltrúi

Ásgrímur H. Einarsson

Varafulltrúi

Gísli Kristjánsson

Aðalfulltrúi

Ólafur Rafnsson

Aðalfulltrúi

Rúnar Helgason

Varafulltrúi

Hannes Jónsson

Aðalfulltrúi

Örvar Arnarson

Varafulltrúi

Gísli Georgsson

Aðalfulltrúi

Þorgeir Jóhannsson

Varafulltrúi

Halldór Halldórsson

Aðalfulltrúi

Einar S. Ólason

Aðalfulltrúi

Pétur Hrafn Sigurðsson

Aðalfulltrúi

Jón Rafn Sigurðsson

Aðalfulltrúi

Jóhannes Karl Sveinsson

Aðalfulltrúi

Egill Kolbeinsson

Aðalfulltrúi

Sturla Jónsson

Aðalfulltrúi

Páll Hreinsson

Varafulltrúi

Björn Leósson

Varafulltrúi

Kristín Bergþóra Pálsdóttir

Varafulltrúi

Friðrik Ingi Rúnarsson

Varafulltrúi

Guðrún J. Haraldsdóttir

Varafulltrúi

Gísli J. Friðriksson

Varafulltrúi

Egill T. Jóhannsson

Aðalfulltrúi

Sigurður Skúli Baldursson

Varafulltrúi

Jóhann Torfason

Aðalfulltrúi

Eggert Magnússon

Aðalfulltrúi

Páll Grétarsson

Aðalfulltrúi

Geir Þorsteinsson

Aðalfulltrúi

Daníel Jakobsson

Aðalfulltrúi

Eggert Steingrímsson

Aðalfulltrúi

Bjarni F. Jóhannesson

Aðalfulltrúi

Þórarinn Gunnarsson

Aðalfulltrúi

Kristinn Hauksson

Varafulltrúi

Björn Friðþjófsson

Aðalfulltrúi

Friðrik Einarsson

Varafulltrúi

Lúðvík S. Georgsson

Aðalfulltrúi

Benedikt Sigurðarson

Aðalfulltrúi

Jakob Skúlason

Aðalfulltrúi

Elías Atlason

Aðalfulltrúi

Ingibjörg Hinriksdóttir

Aðalfulltrúi

Ásdís Vatnsdal

Aðalfulltrúi

Ómar Bragi Stefánsson

Aðalfulltrúi

Óskar Örn Guðbrandsson

Aðalfulltrúi

Halldór B. Jónsson

Varafulltrúi

Hlín Ástþórsdóttir

Aðalfulltrúi

Ágúst Ingi Jónsson

Varafulltrúi

Aðalsteinn Ómarsson

Varafulltrúi

Einar Friðþjófsson

Varafulltrúi

Jóhannes Benediktsson

Varafulltrúi

Ástráður Gunnarsson

Varafulltrúi

Halldóra Húnbogadóttir

Varafulltrúi

Guðmundur Ingvason

Varafulltrúi

Ragnar Friðbjarnason

Varafulltrúi

Jóhannes Ólafsson

Varafulltrúi

Hörður Oddríðarson

Varafulltrúi

Jóhann Ólafsson

Varafulltrúi

LSÍ

SÍL

SKÍ

SSÍ

Jón Albert Sigurbjörnsson

Aðalfulltrúi

Einar Ragnarsson

Aðalfulltrúi


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð STÍ

TSÍ

HHF

Halldór Axelsson

Aðalfulltrúi

Ingólfur V. Ingólfsson

Aðalfulltrúi

Jón S. Ólafsson

Aðalfulltrúi

Anna S. Mikaelsdóttir

Varafulltrúi

Einar Páll Garðarsson

Aðalfulltrúi

Þorvarður Magnússon

Aðalfulltrúi

Eiríkur Jónsson

Aðalfulltrúi

Halldór Fr. Jónsson

Aðalfulltrúi

Arnfinnur Jónsson

Aðalfulltrúi

Ragnheiður Runólfsdóttir

Varafulltrúi

Guðmundur Gíslason

Varafulltrúi

Ellert Yngvarsson

Varafulltrúi

Kjartan Friðriksson

Varafulltrúi

Jón Heiðar Árnason

Aðalfulltrúi

Skjöldur Vatnar Björnsson

Aðalfulltrúi

Gunnar Ragnarsson

Aðalfulltrúi

Jón Gunnar Grétarsson

Aðalfulltrúi

Gunnar Kárason

Aðalfulltrúi

Raj Bonifacius

Aðalfulltrúi

Halldór Rafnsson

Aðalfulltrúi

Kolbeinn Tumi Daðason

Varafulltrúi

Þröstur Guðjónsson

Aðalfulltrúi

Gunnar Finnbjörnsson

Varafulltrúi

Einar Jóhannsson

Aðalfulltrúi

Ólafur Oddsson

Varafulltrúi

Sigurður Sigurðsson

Aðalfulltrúi

Sigmundur Þórisson

Varafulltrúi

Friðrik Ólafsson

Aðalfulltrúi

Sigurður Viggósson

Aðalfulltrúi

HSÞ

ÍA

ÍBA

ÍBH

Helga Jónasdóttir

Varafulltrúi

Jón Gestur Viggósson

Aðalfulltrúi

HSB

Katrín Gunnarsdóttir

Aðalfulltrúi

Gunnar Svavarsson

Aðalfulltrúi

HSH

Guðmundur M. Sigurðsson

Aðalfulltrúi

María Gunnarsdóttir

Aðalfulltrúi

Garðar Svansson

Aðalfulltrúi

Loftur Eyjólfsson

Aðalfulltrúi

Margrét Þórðardóttir

Varafulltrúi

Gunnlaugur Magnússon

Aðalfulltrúi

Lilja Stefánsdóttir

Varafulltrúi

Áslaug Jónsdóttir

Aðalfulltrúi

Árni Þorgilsson

Aðalfulltrúi

Steinþór Einarsson

Aðalfulltrúi

Bolli Gunnarsson

Aðalfulltrúi

Lúðvík Geirsson

Varafulltrúi

Guðríður Aadnegard

Aðalfulltrúi

Hafsteinn Þórðarson

Varafulltrúi

Markús Ívarsson

Aðalfulltrúi

Ingvar Viktorsson

Varafulltrúi

Þórður Ólafsson

Aðalfulltrúi

Óskar Ármannson

Varafulltrúi

Þröstur Guðnason

Aðalfulltrúi

Kristín Pálsdóttir

Varafulltrúi

Yngvi Karl Jónsson

Aðalfulltrúi

Reynir Ragnarsson

Aðalfulltrúi

Sigurður Jónsson

Aðalfulltrúi

Björn Jóhannesson

Aðalfulltrúi

Ragnar Sigurðsson

Varafulltrúi

Örn Andrésson

Aðalfulltrúi

Kristín Gísladóttir

Varafulltrúi

Kristinn Jörundsson

Aðalfulltrúi

Helgi S. Haraldsson

Varafulltrúi

Grímur Valdimarsson

Aðalfulltrúi

Guðmundur Kr. Jónsson

Varafulltrúi

Snorri Hjaltason

Aðalfulltrúi

Jón Jónsson

Varafulltrúi

Kristinn I. Jónsson

Aðalfulltrúi

Karl Gunnlaugsson

Varafulltrúi

Frímann Ari Ferdinandsson

Aðalfulltrúi

Jón H. Sigmundsson

Varafulltrúi

Þór Símon Ragnarsson

Aðalfulltrúi

Kjartan Lárusson

Varafulltrúi

Þorbergur Halldórsson

Aðalfulltrúi

Vignir Örn Pálsson

Aðalfulltrúi

Hörður Gunnarsson

Aðalfulltrúi

Jóhann Björn Arngrímsson

Varafulltrúi

Sigurður Tómasson

Aðalfulltrúi

Kristinn Jón Jónsson

Aðalfulltrúi

Birgir Gunnlaugsson

Aðalfulltrúi

Ingi Þór Ágústsson

Aðalfulltrúi

Hrefna Sigurðardóttir

Aðalfulltrúi

Arnar Guðmundsson

Varafulltrúi

Gunnar Guðmundsson

Aðalfulltrúi

Bjarni Einarsson

Varafulltrúi

Lilja Sigurðardóttir

Aðalfulltrúi

HSK

HSS HSV

ÍBR


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð ÍBR

ÍBS ÍBV ÍRB

Rúnar Geirmundsson

Aðalfulltrúi

ÍRB

Jón Olsen

Varafulltrúi

Kristinn Einarsson

Aðalfulltrúi

ÍS

Hallvarður Þ. Jónsson

Aðalfulltrúi

Örn Ingólfsson

Aðalfulltrúi

Ólafur Þór Ólafsson

Varafulltrúi

Gísli Gunnlaugsson

Aðalfulltrúi

Guðmundur Eyþórsson

Varafulltrúi

UDN

Jón Pétur Jónsson

Aðalfulltrúi

Sveinn Stefánsson

Aðalfulltrúi

Þorbergur Eysteinsson

Aðalfulltrúi

Stella Gunnarsdóttir

Aðalfulltrúi

Veronika Sigurvinsdóttir

Aðalfulltrúi

Kristinn Daníelsson

Aðalfulltrúi

Ásdís Helga Bjarnadóttir

Aðalfulltrúi

Björn Björgvinsson

Aðalfulltrúi

Guðmundur Sigurðsson

Varafulltrúi

Jóhannes Óli Garðarsson

Aðalfulltrúi

UMSE

Tryggvi Gunnarsson

Aðalfulltrúi

Árni Arnsteinsson

Aðalfulltrúi

Haraldur Haraldsson

Aðalfulltrúi

Gestur Hauksson

Varafulltrúi

Jóhanna Halldórsdóttir

Aðalfulltrúi

UMSK

Hörður Oddfríðarson

Aðalfulltrúi

Valdimar L. Friðriksson

Aðalfulltrúi

Ólafur Gylfason

Aðalfulltrúi

Snorri Olsen

Aðalfulltrúi

UMSB

Þórður Marelsson

Aðalfulltrúi

Lárus Rafn Blöndal

Aðalfulltrúi

Birgir Örn Birgis

Aðalfulltrúi

Gunnlaugur Nielsen

Aðalfulltrúi

Sólveig Ásgeirsdóttir

Aðalfulltrúi

Magnús Magnússon

Aðalfulltrúi

Hjördís Guðmundsdóttir

Aðalfulltrúi

Kristján Jónatansson

Aðalfulltrúi

Sigurgeir Guðmannsson

Varafulltrúi

Sveinn Gíslason

Aðalfulltrúi

Svava Ásgeirsdóttir

Varafulltrúi

Ingibjörg B. Jóhannesdóttir

Aðalfulltrúi

Elínborg Guðnadóttir

Varafulltrúi

Svanur M. Gestsson

Aðalfulltrúi

Guðmundur Gíslason

Varafulltrúi

Júlíus Stefánsson

Aðalfulltrúi

Júlíus Arnarson

Varafulltrúi

Kristján Erlendsson

Aðalfulltrúi

Magnús Ólafsson

Varafulltrúi

Sigurður Magnússon

Aðalfulltrúi

Þórir Ingvarsson

Varafulltrúi

Bjarnleifur Bjarnleifsson

Aðalfulltrúi

Guðni Indriðason

Varafulltrúi

Jón Ásgeir Eyjólfsson

Aðalfulltrúi

Ólafur Ólafsson

Varafulltrúi

Steinar Einarsson

Aðalfulltrúi

Þorsteinn Guðmundsson

Varafulltrúi

Daníel R. Ingólfsson

Aðalfulltrúi

Guðmundur Einarsson

Varafulltrúi

Ester Jónsdóttir

Aðalfulltrúi

Kristján Sveinbjörnsson

Varafulltrúi

Jónas Már Fjelsted

Aðalfulltrúi

Ívar Gissurarson

Varafulltrúi

Birgir Ari Hilmarsson

Aðalfulltrúi

Carl J. Eiríksson

Varafulltrúi

Hafsteinn Pálsson

Varafulltrúi

Guðrún Árnadóttir

Aðalfulltrúi

Albert H.N. Valdimarsson

Varafulltrúi

Kristján L. Möller

Varafulltrúi

Símon Á. Gunnarsson

Varafulltrúi

Gísli Valtýsson

Aðalfulltrúi

Sævar Kristjánsson

Varafulltrúi

Birgir Sveinsson

Varafulltrúi

Olga Lísa Garðarsdóttir

Varafulltrúi

Jóhann Magnússon

Aðalfulltrúi

Ásgeir Friðgeirsson

Varafulltrúi

Einar Haraldsson

Aðalfulltrúi

Hreinn Hreinsson

Varafulltrúi

Ásgeir Eiríksson

Aðalfulltrúi

Helga Einarsdóttir

Varafulltrúi

Kristbjörn Albertsson

Aðalfulltrúi

Einar Jóhannsson

Varafulltrúi

Ásdís Jakobsdóttir

Aðalfulltrúi

Þorsteinn Einarsson

Varafulltrúi

Hafsteinn Ingibergsson

Varafulltrúi

Birgir Magnússon

Varafulltrúi


Íþróttaþing 2002 - Þinggerð UMSK

Starfsfólk

Ómar Stefánsson

Varafulltrúi

Stefán S. Konráðsson

Hraunar Daníelsson

Varafulltrúi

Halla Kjartansdóttir

Árni Halldórsson

Varafulltrúi

Líney Rut Halldórsdóttir

Guðrún J. Haraldsdóttir

Varafulltrúi

Kristinn Reimarsson

UMSS

Steinunn Tómasdóttir

Haraldur Þór Jóhannsson

Aðalfulltrúi

Gígja Gunnarsdóttir

Hjalti Þórðarson

Varafulltrúi

Berglind Guðmundsdóttir

UNÞ

Vilborg Magúsdóttir

Einar Jón Geirsson

Aðalfulltrúi

Vilborg Stefánsdóttir

Varafulltrúi

USAH Smári Stefánsson

Aðalfulltrúi

Björgvin Þór Þórhallsson

Varafulltrúi

USVS Sigmar Helgason

Aðalfulltrúi

Þorgerður Einarsdóttir

Varafulltrúi

UÍA Jóhann Tryggvason

Aðalfulltrúi

Arngímur Viðar Ásgeirsson

Aðalfulltrúi

Jóna Petra Magnúsdóttir

Aðalfulltrúi

Elma Guðmundsdóttir

Aðalfulltrúi

Guðmundur Ingvason

Varafulltrúi

Björg Blöndal

Varafulltrúi

UÍÓ Rögnvaldur Ingólfsson

Aðalfulltrúi

Þorvaldur Hreinsson

Varafulltrúi

Framkvæmdastjórn ÍSÍ Ellert B. Schram Friðjón B. Friðjónsson Benedikt Geirsson Hafsteinn Pálsson Sigríður Jónsdóttir Björg Blöndal Jón Gestur Viggósson Helga H. Magnúsdóttir Engilbert Olgeirsson Unnur Stefánsdóttir Sigmundur Þórisson Örn Andrésson Ágúst Ásgeirsson Birgir Guðjónsson

Þinggerð 2002  
Þinggerð 2002  
Advertisement