Page 1

Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

2. þing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands haldið í KA-heimilinu, Akureyri 24. – 26. mars 2000 Þingfundur hófst kl. 18.00 föstudaginn 24. mars, með því að Ellert B. Schram forseti ÍSÍ, Sigurður J. Sigurðsson forseti bæjarstjórnar Akureyrarbæjar, Þröstur Guðjónsson formaður ÍBA og Helga St. Guðmundsdóttir formaður KA, tóku á móti forseta Íslands, herra Ólafi Ragnari Grímssyni og fylgdu honum í þingsal. Við upphaf Íþróttaþings fluttu ungir tónlistarmenn frá Akureyri, þau Helgi Heiðar Stefánsson píanóleikari og Lára Sóley Jóhannsdóttir fiðluleikari, tvö lög. Fyrra lagið var Meditation eftir Massenet og seinna lagið var Vísur Vatnsendarósu, Íslenskt þjóðlag.

1. Þingsetning Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ, ávarpaði þingheim og gesti og sagði: "Herra forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson Menntamálaráðherra, Björn Bjarnason Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir Forseti bæjarstjórnar Akureyrarbæjar, Sigurður Sigurðsson Heiðursfélagar ÍSÍ Þingfulltrúar Aðrir góðir gestir Þetta þing sem hér er nú að hefjast átti samkvæmt lögum ÍSÍ að fara fram í nóvember á síðasta ári. Að athuguðu máli var það hinsvegar ákvörðun framkvæmdastjórnar ÍSÍ, að fresta þinginu fram í mars árið 2000 af tvennum ástæðum. Í fyrsta lagi fer hér fram vetraríþróttahátíð ÍSÍ, sem heimamenn bera veg og vanda af og það þótti við hæfi að tengja íþróttaþingið við þá hátíð á þessu merka ári, 2000 og beina þannig kastljósi fjölmiðla og almennings að íþróttunum og íþróttastarfinu með því að skipuleggja hvorutveggja á sama tíma, báðum aðilum til aukinnar athygli og umræðu. Með þessum hætti gefst forystumönnum íþróttahreyfingarinnar tækifæri til að fylgjast með nokkrum atburðum vetraríþróttahátíðarinnar og setja svip sinn á þá. Í öðru lagi var það eindregin skoðun framkvæmdastjórnar að íþróttaþing skyldi ekki haldið nema góð og skýr mynd fengist af starfi ÍSÍ frá því að síðasta þing fór fram. Ef þingið hefði verið haldið í nóvember 1999 hefðu reikningar þess árs ekki legið fyrir og þingfulltrúar ekki fengið upplýsingar eða yfirlit um starf ÍSÍ síðustu ellefu mánuði starfstímabilsins. Nú er lögð áhersla á skýra og gegnsæja reikninga og uppgjör, fyrirtækja, stofnana og samtaka sem okkar, og reikningar liggi fyrir sem gefi skýra mynd af starfseminni. Með því að fresta þinginu eins og nú hefur verið gert, fæst gott og glöggt yfirlit yfir starf ÍSÍ frá því í nóvember 1997 og til síðustu áramóta. Frestun þingsins var borin undir sambandsaðila og rædd á formannafundi og með vísan til þess að aðeins ein athugasemd kom fram gegn seinkun þingsins, varð það niðurstaðan að nú erum við hér samankomin til íþróttaþings, í vistlegum húsakynnum Knattspyrnufélags Akureyrar.

1


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Akureyri hefur ætíð verið mikill íþróttabær, sem stendur föstum fótum í íþróttahreyfingunni og það er okkur þingfulltrúum mikil ánægja að eiga þess kost að njóta gestrisni og mótttöku heimamanna, taka þátt í vetraríþróttahátíðinni og dvelja í bænum þessa helgi. Já, íþróttastarfið hefur haldið áfram af fullum þrótti. Tókuð þið eftir því að um síðustu helgi, var keppt til úrslita í fimleikum, sundi, borðtennis, blaki, karate, handknattleik og körfuknattleik, þar sem hundruðir keppenda tóku þátt? Um þessa sömu helgi var leikið í knattspyrnu, keppt á skíðum, efnt var til glæsilegrar skautahátíðar og sýningar í reiðlist. Hér fyrir norðan voru margar uppákomur í tengslum við vetraríþróttahátíðina. Sjálfur mætti ég í Laugardalinn í Reykjavík með syni mínum, þar sem fram fór æfingamót þriggja félaga, í sjötta flokki í fótbolta, á þriðja hundrað strákar í frosti og fönn og ekki skorti þar leikgleðina frekar en annarstaðar. Þúsundir keppenda, hundruðir starfsmanna, líf og starf og leikur vítt og breitt um landið. Við fáum ekki betri kynningu á því sem við erum að gera. Auðvitað skiptast á skin og skúrir eins og jafnan áður. Töp og sigrar eru hluti af íþróttum og keppni. Frá því við hittumst síðast á íþróttaþingi höfum við eignast nýtt afreksfólk og nýjar kynslóðir og nýja liðsmenn í forystusveitinni. Það var til dæmis gaman að koma á þing UMSB í Borgarfirðinum um síðustu helgi og sjá þar vaska sveit ungs fólks, sem ber uppi starf sambandsins. Það er stöðug gróska í starfinu og hvernig sem okkur vegnar á íþróttavellinum, er ekkert lát á áhuganum og endurnýjuninni og þeirri ólgandi uppsprettu sem einkennir starf sem lýtur að æsku og væntingum og iðandi mannlífi. Á síðasta þingi var formlega gengið til sameiningar Íþróttasambands Íslands og Ólympíunefndar Íslands undir nýju merki. Er skemmst frá því að segja að sú sameining hefur tekist svo vel, að enginn minnist lengur á hana, né heldur lætur sér til hugar koma að það skref hafi verið feilspor. Þvert á móti hefur það styrkt þessi regnhlífasamtök okkar til að standa betur að þjónustu, styrkjum og yfirstjórn hreyfingarinnar í heild. Vinstri höndin veit hvað sú hægri er að gera. Stjórnin hefur verið samhent og skilvirk. Í krafti nýs skipurits og stjórnar hefur náðst margvíslegur árangur. Hagræðing og sparnaður hefur átt sér stað í yfirstjórninni. Heilbrigðisráð og lyfjaeftirlit hefur haft betri yfirsýn. Barna- og unglingastefna hefur verið mörkuð sem og ný stefna í þjálfaramenntun, styrkir hafa aukist til afreks- og ólympíuverkefna og ÍSÍ hefur getað bætt þjónustuna við sambandsaðila, m.a. með því að ráða starfsmann með aðsetur hér á Akureyri. Fræðslumálin hafa verið tekin fastari tökum, lög- og reglugerðir hafa verið endurskoðuð, dómstólaskipan yfirfarin og tillögur þar að lútandi lagðar hér fram á þinginu, sem og breytingartillögur við endurskoðaða afreksstefnu. Starfsemi Getrauna og Getspár hefur verið sameinuð með þjónustusamningi milli fyrirtækjanna, útgáfumál hafa verið færð til betri vegar, námskeið og ráðstefnur hafa verið haldnar reglulega, þjónusta og eftirlit með sambandsaðilum hefur verið í fastari skorðum og öll útbreiðsla, kynning og málatilbúnaður af hálfu íþróttanna hefur verið markvissari og einbeittari eftir að samtökin hafa getað talað einni tungu, einni röddu gagnvart stjórnvöldum, almenningi og fjölmiðlum. Í starfsskýrslu framkvæmdastjórnar má sjá öll þessi verk og mörg fleiri upptalin, sem í heild sinni staðfestir að skrifstofa sambandsins og stjórnendur hafa látið hendur standa fram úr ermum. Mikið hefur hvílt á starfsliði ÍSÍ á þessu breytingarskeiði og vil ég sérstaklega hrósa starfsfólkinu öllu og þá sérstaklega framkvæmdastjóranum Stefáni Konráðssyni, fyrir frábæra og framúrskarandi vinnu í þágu íþróttahreyfingarinnar og Íþrótta- og Ólympíusambandsins.

2


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Samfara þessum aðgerðum og athöfnum, hefur samstarf og tengsl við stjórnvöld, einkum menntamálaráðuneytið og ráðherra, tekið stakkaskiptum til hins betra. Vil ég nota tækifærið og þakka Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra fyrir skilning og stuðning við þau málefni sem við höfum leyft okkur að bera undir hann. Sömu sögu er að segja um íþróttanefnd ríkisins, undir forystu Guðjóns Guðmundssonar og raunar hafa samskipti við stjórnvöld verið vinsamleg og jákvæð, enda þótt við höfum ekki náð öllu fram, eins og gengur. En hver er þá staða íþróttanna í upphafi nýrrar aldar? Hvar erum við á vegi stödd? Hefur okkur eitthvað miðað fram götuna til góðs? Ef litið er á stöðu íþróttahreyfingarinnar á innlendum vettvangi, leyfi ég mér að fullyrða að þróunin hefur verið mjög í rétta átt, að því er varðar bætta aðstöðu, vaxandi fjölda iðkenda og almennan skilning á gildi íþróttanna. Fjöldamörg íþróttamannvirki hafa risið á síðustu misserum vítt og breitt um landið og það nýjasta og merkilegasta er auðvitað vígsla knattspyrnuhallarinnar í Reykjanesbæ, sem skapar ný og áður óþekkt skilyrði fyrir knattspyrnumenn. Flest, ef ekki öll þau íþróttafélög sem hafa haslað sér völl á síðustu öld, starfa enn með miklum blóma og krafti. Við höfum einnig eignast ný og öflug félög, sem hafa verið að gera það gott. Hvarvetna á byggðu bóli á Íslandi stendur íþróttastarfsemin styrk og stöðug og það sem meir er um vert, almennur áhugi á íþróttaiðkun og líkamsrækt hverskonar fer sívaxandi. Fólk í líkamsræktarstöðvum, fólk á hlaupum, fólk í leik í íþróttasölum, íþróttaskólar hinna yngstu og íþróttamannvirki eru ekki fyrr risin, en aðsókn hefur sprengt alla starfsemi. Á unglingameistaramótum í frjálsum íþróttum, karate og sundi, nú á dögunum, svo eitthvað sé upp talið af handahófi, var troðfullt út úr dyrum af æsku- og íþróttafólki. Sama gildir um útiíþróttir, svo sem hestamennsku og golf. Þar fjölgar stöðugt. Hinu getum við heldur ekki horft framhjá, að það er mikið og alvarlegt brottfall unglinga úr íþróttaiðkun og æfingum keppnisfólks. Því vandamáli verðum við að mæta með gagnsókn og skipulögðu starfi til að koma til móts við þá árganga og það unga fólk, sem hellist úr lest þeirra bestu, en vill engu að síður og þarf miklu fremur, að halda áfram að stunda sína íþrótt, þótt ekki sé æft til keppni og afreka. Þar getur að mínu mati ÍFA, Íþróttir fyrir alla, átt samstarf við sérsamböndin og íþróttafélögin, sem hingað til hefur skort á. Íþróttasamtökin í landinu og þá sérstaklega íþróttafélögin sjálf hafa skyldum að gegna gagnvart almenningi og almenningsíþróttum, enda megum við ekki gleyma, að almenn iðkun og útbreiðsla íþrótta er annað af tveimur meginmarkmiðum hreyfingarinnar. Hér á þinginu eru lagðar fram tillögur til að treysta þau bönd og þann þátt íþróttastarfsins. Í þessu sambandi er sömuleiðis óhjákvæmilegt að horfast í augu við þá staðreynd að brottfall unglinga og eftir atvikum barna, á sér skýringu í þeim kostnaði sem það hefur í för með sér fyrir hverja og eina fjölskyldu að senda börn sín á íþróttaæfingar og taka þátt í mótum og ferðalögum. Þar tel ég skyldu sveitarfélaganna vera mikla og nauðsynlega til að koma til móts við fjölskyldurnar og íþróttafélögin til að halda kostnaði niðri og láta hann a.m.k ekki aftra unglingum frá því að taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi. Hinu má nefnilega ekki gleyma, að með vaxandi kröfum og aðsókn, reynist íþróttafélögum æ erfiðara að ná endum saman eða fá fólk til sjálfboðaliðastarfa. Raunar er ætlast til að íþróttafélögin standi svo fagmannlega að æfingum og félagsstarfi, að sjálfboðaliðar eru ekki taldir gjaldgengir og þetta eykur á vandann og það er hér sem sveitarfélögin verða að veita aðstoð og hlaupa undir bagga. Ég ber lof á mörg sveitarfélög fyrir að leggja fé til uppbyggingar mannvirkja, en þá verður líka að gera íþróttafélaginu á staðnum kleift að standa undir rekstri og taka á móti gestum

3


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð og gangandi, sem vilja notfæra sér nýja og glæsilega aðstöðu undir merkjum viðkomandi íþróttafélaga. Á sama tíma er það engin launung heldur að það íþróttafólk sem skarar fram úr, krefst greiðslu og ívilnana fyrir þátttöku sína og enn þurfa íþróttafélögin að svara þeim kröfum og reisa sér burðarás um öxl. Það er af þessum ástæðum sem mörg íþróttafélag hafa eða eru um það bil að breyta starfi sínu og stofna til svokallaðra rekstrarfélaga eða hlutafélaga, sem því miður getur verið eins og að tjalda til einnar nætur ef hlutirnir ganga ekki upp. Íþróttirnar draga dám af þróun samfélagsins og atvinnumennska og peningagreiðslur í einu eða öðru formi til íþróttafólks og starfsmanna, er kannski í ætt við þá nýju stefnu um árangurstengd laun, sem sækir “mótivasjónina” til hins alþjóðlega umhverfis sem við lifum í. Við lifum ekki lengur í einangruðu landi á hjara veraldar. Samanburðurinn við íþróttahéraðið í næstu sveit, við árangur í fyrra eða hittifyrra, er ekki lengur hafður til hliðsjónar. Sú tíð er liðin þegar íslensk heljarmenni gátu hrist af sér timburmennina, bitið í skjaldarendur og varpað kúlum og kringlum lengra en aðrir. Þeir tímar eru liðnir þegar knattspyrnuleikir unnust með því að sparka í rassinn á leikmönnunum og æpa: berjast strákar. Nú er það frammistaðan í samanburði við alþjóðavettvang sem gildir og hún kemur ekki af sjálfu sér. Hún kostar þrotlausar æfingar, einbeitingu, sálrænan jafnt sem líkamlegan undirbúning og hún kostar peninga. Þessi þróun, hvort sem okkur líkar betur eða verr, lendir að fullum þunga á félögum sem hafa metnað til að vera í fremstu röð og þá ekki síður á sérsamböndunum, sem hafa samskiptin við útlönd á sínum snærum, tefla fram landsliðum og bera allan kostnað af æfingum, undirbúningi og þátttöku í alþjóðamótum. Það er hér sem alvarlegasti vandi íþróttahreyfingarinnar blasir við. Það er hér sem skórinn kreppir. Að Knattspyrnusambandinu undanskildu, hafa sérsamböndin nánast enga fasta tekjustofna. Þau hafa litla sem enga möguleika til skipulagðrar afreksstefnu. Þau eru sífellt að elta skottið á sjálfum sér. Íþróttasambandið lætur eitthvað af hendi rakna en dugar hvergi. Afreksmannasjóður hjálpar til af takmarkaðri getu en mikið vantar upp á. Tekjurnar af lottóinu fara minnkandi og íþróttafélögin eiga nú í vaxandi samkeppni við menningu og listir, sem í seinni tíð hafa sótt styrki til atvinnulífsins. Í ljósi þess að í íþróttum erum við að keppa fyrir hönd Íslands og reyna að auka hróður þjóðarinnar, þá hefur sú spurning vaknað hvort ekki sé eðlilegt og sanngjarnt að ríkisvaldið, eða á ég að segja þjóðin, komi til móts við þarfir sérsambandanna í þessum efnum. Ríkisvaldið greiðir götu nýsköpunar í atvinnulífi, ríkisvaldið gerir ýmislegt til að örva ferðamannaþjónustu, ríkisvaldið leggur fram fé til margvíslegra menningarmála og ríkisvaldið styrkir kvikmyndagerð, kynningu á landi og þjóð erlendis og svo mætti áfram telja. Er það ósanngjarnt að ætlast til þess að ríkisvaldið létti undir með þeim aðilum hérlendis, sem hafa það að markmiði að koma afreksfólki í íþróttum og þar með þjóðinni sem slíkri á verðlaunapalla? Íslenskt landsliðsfólk keppir jú í nafni þjóðarinnar. Íþróttir eru vinsælasta sjónvarpsefni um allan heim. Íþróttir eru áhugamál hins breiða fjölda heimsbyggðarinnar. Er hægt að fá betri auglýsingu, betri kynningu en sigurvegara á Ólympíuleikum eða úrslitalið í Evrópukeppnum fótbolta eða handbolta? Hver væri hróður þjóðarinnar ef Kristinn Björnsson næði þeim herslumun sem upp á vantar að sigra í heimssvigskeppninni? Það er ekki barasta á fjármálamarkaði, ekki bara í bíómyndum, ekki bara í árangurstengdum launum, sem við erum að alþjóðavæðast. Ef einhverjir lifa í alþjóðlegu umhverfi, þá eru það íþróttir í upphafi nýrrar aldar. Og það er að þessu

4


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð umhverfi sem við verðum að laga okkur, ef við viljum á annað borð gera okkur gildandi og ala með okkur metnað. Íþróttasambandið sjálft teflir ekki fram íþróttafólki eða keppnisliðum. En ÍSÍ eru heildarsamtök allra íþróttagreina og sambanda og undir nafni þess, í krafti þess, ber okkur að sækja fram til aukins skilnings og stuðnings, sameiginlega, því sameiginlega eigum við þann draum, að geta staðið undir væntingum og lagt fram okkar skerf til þjóðarinnar og orðstír hennar í samfélagi þjóðanna. Í þessu sambandi má heldur ekki gleyma hlutverki íþróttanna til bætts heilbrigðis og til forvarna gegn þeirri vá sem eiturlyfin eru í nútíma þjóðfélagi. Og það er svo önnur hlið á starfi íþróttahreyfingarinnar, hverjir eru það sem eru mættir á þessu þingi? Hverjir eru það sem bera upp starf íþróttafélaga og sambandsaðila? Að langmestu leyti fólk, sem leggur fram störf sín og tíma og áhuga án endurgjalds. Fólk, sem er hvergi á launum, hvergi með skipun í stöðu, hvergi með skírteini eða ráðningu frá samfélaginu. Fólk, sem vinnur sína þegnskyldu fyrir þessa fjöldahreyfingu, fyrir æskuna og fyrir þjóðina í anda hugsjónar og heilbrigðs metnaðar. Þetta fólk, þessi mikli fjöldi sjálfboðaliða hverfur fljótt af vettvangi, gefst upp og snýr sér að öðru, ef og þegar ekki er komið til móts við sanngjarnar kröfur og þarfir. Grundvöllur alls þessa starfs hrynur og hverfur, þegar sjálfboðaliðarnir, þegar framvarðarsveit forystumanna og félagsmanna, kiknar undan álaginu. Og hvað ætlar samfélagið þá að gera til að skapa æskunni verkefni og til að halda félags- og uppeldisstarfinu gangandi? Ekki vill þjóðin án íþróttanna vera, ekki vilja foreldrarnir missa það skjól og það athvarf sem íþróttafélögin eru og ekki viljum við horfa upp á íþróttaþing sem þetta, skipað erindrekum, íþróttafulltrúum sveitarfélaga eða opinberum starfsmönnum, svo góðir sem þeir annars kunna að vera. Eða þá ekkert íþróttaþing, nei, íþróttaþing endurspegla þá staðreynd að hér er það áhuginn og sjálfboðaliðastarfið sem ræður för og þannig viljum við halda áfram. Það er á þessum vettvangi, á þessu þingi, sem við getum snúið bökum saman og skýrt það fyrir þeim sem með okkur fylgjast, að hinn sanni íþróttaandi sé enn í fullu gildi, en hann einn og sjálfur þokar okkur stutt, ef annað kemur ekki til. Þeir dagar eru liðnir, þegar íþróttamaðurinn hristi úr sér hrollinn, barði sér á brjóst og kastaði lengst með því að bölva í hljóði. Þeir dagar eru liðnir að hvatningarhrópin ein lyftu fjöllum. Það er ekki nóg að senda keppendur á vettvang, þeir þurfa aðstoð, æfingu og aðstöðu. Afrek í íþróttum verða því aðeins unnin, að íþróttamaðurinn leggi sig allan fram, gefi sig allan í verkefnið, fái bestu þjálfun mögulega, geti stundað æfingar og keppni við bestu skilyrði. Svo einfalt er þetta og þó er það svo óendanlega flókið og erfitt. Þetta skilja raunar allir og með samtakamætti okkar, stjórnvalda og almennings getum við þannig rétt æskunni örvandi hönd og boðið hana velkomna í heim heilbrigðis og hollustu, vellíðunar og hreysti. Í veröld þeirrar nautnar, sem er besta og sannasta nautnin, að takast á við sjálfan sig og sigra. Megi okkur öllum auðnast að fá sem flesta til liðs við okkur. Ég býð ykkur enn og aftur velkomin hingað til Akureyrar og segi íþróttaþing sett". Danssýning: Að lokinni setningarræðu forseta ÍSÍ sýndu þau, Ísak N. Halldórsson og Helga Dögg Helgadóttir þrjá dansa. Fyrsti dansinn var vals, annar tangó og loks vínarvals.

5


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

2. Ávarp forseta Íslands, herra Ólafs Ragnars Grímssonar "Heiðruðu þingfulltrúar, virðulegir ráðherrar, þingmenn, forystusveit Akureyrarbæjar, góðir gestir. Íslenskt íþróttalíf er vissulega í miklum blóma um þessar mundir og framvarðarsveitin í frjálsum íþróttum, hópíþróttum, sundi og fleiri keppnisgreinum hefur svo sannarlega skipað okkur á fremsta bekk á alþjóða velli. Þátttaka almennings í íþróttum og hollri hreyfingu fer vaxandi, bæði ungmenna og fólks á öllum aldri. Íþróttirnar eru sífellt mikilvægari hlekkur í samfélagi og menningu okkar Íslendinga. Þær efla þjóðarmetnað og samstöðu, treysta sjálfsmynd okkar og einnig örugga framgöngu þjóðarinnar í samstarfi heimsins. Rannsóknir vísinda og fræða sýna æ betur að iðkun íþrótta er einnig vörn gegn sjúkdómum hvort sem við stefnum að afrekum sem öðrum skáka eða viljum aðeins hlúa að eigin líkama og sál, efla þrek og þrótt og byggja þannig varnir gegn þeim sjúkdómum sem sækja á þjóðir heims með sívaxandi þunga. Við iðkun íþrótta þá finnum við aflið sem í okkur býr, lærum að treysta sjálfum okkur og vinna með öðrum, og íþróttirnar sýna nauðsyn samstöðunnar að ná settu marki í samspili með öðrum. Heimurinn er nú sannarlega orðin eins og lítið þorp og alþjóðavæðingin, eins og forseti ÍSÍ nefndi svo skilmerkilega hér áðan, hleypir atburðum og fólki frá fjarlægum stöðum inn fyrir alla múra í okkar litla samfélagi Íslandi, sem er ekki lengur eyland í úthafi heldur í beinum tengslum við allt sem gerist. Sú þróun er að flestu leyti ánægjuleg og hefur leyst úr læðingi hugvit og tækni og leikni sem gerir ungu fólki kleyft að líta á veröldina alla sem starfsvöll og þroskabraut. En óhjákvæmilegt er, því miður, að til okkar berast líka í krafti þessarar sömu alþjóðavæðingar einnig óholl áhrif, áhrif sem nauðsynlegt er að verjast eftir föngum. Það er því mikilvægt og kannski mikilvægara en nokkru sinni fyrr, að íslenskt æskufólk eigi fyrirmyndir á heimaslóð, átrúnaðargoð sem með framgöngu sinni og afrekum vísa öðrum veg að hollum lifnaðarháttum og heilbrigðri lífsgleði, sjálfsaga og samvinnu. Og slíkar fyrirmyndir, sem betur fer, sækir íslensk æska í auknu mæli til afreksfólks í íþróttum. Og það sáum við best um daginn sem vorum í Laugardalshöllinni þegar unga fólkið flykktist á Frjálsíþróttamót ÍR til að fylgjast með Jóni Arnari, Völu, Guðrúnu, Einari og öðru glæsilegu íþróttafólki sem þar þreytti keppni og sáum það svo hópast að hetjum sínum, til að eiga heima í herbergi áritaða mynd, minningu sem í senn hvetur og gleður og er varðveitt sem dýrgripur. Kappar og kvenhetjur Íslendingasagna voru svo sannarlega afreksfólk sinnar tíðar og um aldir fyrirmyndir ótalinna kynslóða í okkar landi og jafnvel okkar, sem nú erum á miðjum árum, þegar við vorum að alast upp. Og við lásum um það að þau voru vaskari og djarfari en aðrir menn þótt erfitt sé kannski að bera afrek þeirra saman við þau sem íþróttafólk vinnur á okkar tímum. Jón Páll Sigmarsson, sá góði drengur, afreksmaður sem dó langt um aldur fram, dáður fyrir afl sitt og leikni um allan heim svaraði því til þegar hann var spurður um styrk Grettis Ásmundssonar að Grettir hefði að vísu verið nokkuð sterkur en ekki vissi hann þó hverju Grettir hefði lyft í bekkpressu. Íþróttirnar hafa þannig bæði að fornu og nýju svo sannarlega gengt mikilvægu hlutverki í menningu, sjálfsvitund og menntalífi þjóðarinnar. En íþróttirnar eru á okkar tíð og enn frekar í framtíðinni ekki síður burðarás í heilbrigðismálum. Í baráttunni við suma erfiðustu sjúkdóma samtímans sem dýrast er fjárhagslega að glíma við og einnig í forvarnarstarfi gegn ávana- og fíkniefnum. Og þessi þáttur íþróttanna í eflingu heilbrigðis og í glímunni við sjúkdóma og veikindi, gleymist oft þegar rætt er um þá fjármuni sem renna til íþróttastarfs og vegið er og metið hvort auka skuli þá eða minnka. En rannsóknir á síðustu árum hafa ótvírætt leitt það í ljós, að þeim sem 6


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð stunda íþróttir á æskuárum eða reglubunda hreyfingu alla ævi, er síður hætt við ýmsum þeirra sjúkdóma sem skæðastir eru á okkar dögum, sjúkdómum sem einnig eru dýrastir í kostnaðarreikningi sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana. Og það má því leiða sterk rök að því, að það sé verulega hagstætt efnahagsreikningi þjóðarinnar að efla enn frekar stuðning við íþróttastarfið í landinu. Mér hefur þess vegna stundum fundist að umræðan um íþróttir, bæði íþróttir æskufólks og almennings og um fjármál og framlög til þeirra hreyfinga sem að íþróttum vinna, eigi ekki aðeins að vera dagskrárefni þegar kemur að ráðuneytum mennta og menningar í opinberum ákvörðunartökum eins og nú er samkvæmt stjórnskipun landsins, heldur ekki síður þegar Alþingi og sveitarfélög ákveða útgjöld til heilbrigðismála og félagslegra aðgerða í baráttunni við eiturlyf. Efling íþrótta meðal almennings á öllum aldri er ekki síður sparnaðaraðgerð en sameining sjúkrahúsa, en samt er sjaldgæft að rætt sé um framlag íþróttanna til hins mikla þjóðhagslega sparnaðar sem næst með aukinni hreyfingu og útivist, sparnaðar sem fólginn er í því að hefta útbreiðslu ýmissa sjúkdóma með heilbrigðum lífsháttum, sjúkdóma sem reynast æði dýrir, samfélaginu öllu þegar þeir berja að dyrum. Það væri fróðlegt að velta því fyrir sér um stund hvernig fjárhagur íþróttanna væri metin, ef þær á þessum forsendum væru færðar úr ráðuneyti mennta og menningar í ráðuneyti heilbrigðis og félagsmála, þótt ég sé í sjálfu sér ekki að gera þá tillögu hér og vilji alls ekki gera lítið úr því góða og merka ráðuneyti sem hefur verið og verður heimilisfang ykkar mála. En ég nefni þessa hugsun hér til að varpa ljósi á þátt sem ekki má gleymast í umræðu samfélagsins alls um þá fjármuni sem verja á til heilbrigðis og íþrótta. Rannsóknir og breyttir lífshættir hafa fært okkur nýja og víðtækari sýn á gildi íþrótta fyrir samfélagið allt ekki aðeins keppendur heldur allan almenning sem íþróttir stundar ævina alla, lífshamingju okkar, heilbrigði og efnahag samfélagsins alls. Það er vissulega fagnaðarefni að vera hér með ykkur í dag við upphaf þings Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og taka þátt í þeirri miklu vetrarhátíð sem hér er haldin á Akureyri. Og það eru sterk skilaboð í því fólgin að samspil íþrótta og útivistar sé enn á ný áréttað með þessum hætti, fegurð fjallanna og víðáttur Eyjafjarðar eru vissulega tignarleg umgjörð um þá góðu keppni sem hér mun fara fram og vonandi einnig þær árangursríku umræður sem einkenna munu ykkar þing. Ég óska íþróttahreyfingunni allri til hamingju með glæsilegt og heilladrjúgt starf á liðnum árum og vænti þess að framtíðin færi íslensku íþróttafólki í senn, nýja sigra og traustan sess í þeirri sjálfsmynd sem íslensk þjóð er óðum að skapa fyrir nýja öld. Þakka ykkur fyrir".

3. Afhending Heiðurskross ÍSÍ Á eftir ávarpi forseta Íslands fór fram afhending Heiðurskross ÍSÍ, æðstu heiðursviðurkenningu ÍSÍ. Ellert B. Schram forseti ÍSÍ tók til máls: "Ágætu þingfulltrúar ! Íslensk íþróttahreyfing, og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, fyrir hennar hönd, þarf að skiljanlegum og augljósum ástæðum að hafa mikil samskipti við stjórnvöld, leita á náðir stjórnvalda, leita eftir jákvæðri afgreiðslu erinda, hafa samráð við gerð og setningu reglna og framkvæmdar þeirra og síðast en ekki síst, að fá skilning og stuðning við óskum um auknar fjárveitingar. Í gegnum tíðina hafa erindi okkar fengið misjafnar viðtökur eins og gengur og gerist og bæði hefur það verið undir þá sök selt að talsmenn íþróttahreyfingarinnar hafa ekki verið nægjanlega ötulir eða þá að eyru stjórnvalda og stjórnmálamanna hafa verið hálf sljó við tilmælum okkar. Á 7


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð undanförnum árum höfum við notið samstarfs við Björn Bjarnason núverandi menntamálaráðherra, og þó ég ætli ekki að fara gera samanburð á milli hans og annarra, þá vil ég aðeins segja það eitt að það hefur verið ákaflega gott að leita til hans, hann hefur ekki alltaf sagt já við öllu sem við höfum komið með en hann hefur hlustað á okkur og gefið okkur tíma og tekið afstöðu með afdráttarlausum hætti þannig að það hefur verið gott að leita til hans hvort sem að við höfum gengið bónleiðir til búðar eða ekki. Hann hefur sýnt íþróttahreyfingunni áhuga og skilning og við í forystu hreyfingarinnar kunnum vel að meta þetta Björn og þó að hvorugur okkar sé gefinn fyrir mærðarlegt tal eða væmið lof þá vil ég aðeins segja það eitt að nú hefur framkvæmdastjórn ÍSÍ einróma ákveðið að sæma þig æðsta heiðurmerki hreyfingarinnar, Heiðurskrossi ÍSÍ, fyrir það góða samstarf og þann skilning sem þú hefur sýnt okkur. Ég mundi vilja biðja þig um að koma hingað upp og veita þessari orðu viðtöku".

4. Ávarp Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra "Forseti Íslands, forseti ÍSÍ, ágætu þingfulltrúar og aðrir góðir áhorfendur. Fyrir mig er það mikill og sannur heiður að taka við Heiðurskrossi ÍSÍ. Væri ég með hugann við heiðursmerki yrði það líklega einna síðasta sem mér hefði flogið í hug að verða sæmdur þessum krossi af forseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands við hátíðlega athöfn eins og þá sem efnt er til hér í dag. Fyrir utan heiðurinn er það mjög óvænt ánægja að fá að njóta hans. Haft hefur verið að orði við mig að það hafi farið ónot um ýmsa íþróttafrömuði, þegar það fréttist fyrir tæpum fimm árum að ég ætti að taka við störfum menntamálaráðherra. Töldu þeir að íþróttirnar ættu lítinn hauk í horni þar sem ég væri. Þeim mun meira met ég viðurkenninguna sem mér er veitt nú hér á þessu íþróttaþingi. Við höfum sameiginlega unnið að því á undanförnum árum að styrkja íþróttastarfið í sessi. Frá mínum bæjardyrum séð er það ekki hlutverk ríkisins að hlutast til um innri málefni íþróttahreyfingarinnar eða skipta sér að því sem er að gerast innan vébanda hennar. Að hálfu ríkisvaldsins og sveitarfélaga á hins vegar að búa þannig um hnúta að ytri aðstæður til alhliða íþróttastarfs séu sem bestar í öllu tilliti. Góð samstaða náðist um ný íþróttalög sem komu til sögunnar árið 1998 og hefur verið unnið á grundvelli þeirra síðan. Sama ár gerðum við samning um stuðning ríkisins við Afreksmannasjóð ÍSÍ og munum vinna samkvæmt honum til ársins 2003 við að efla sjóðinn. Af hálfu ríkisins er litið á samningin sem viðurkenningu á því hve víða við höfum eignast afreksfólk í íþróttum. Undir handarjaðri menntamálaráðuneytisins og á grundvelli samþykkta Alþingis hefur verið unnið að athugunum á ýmsum þáttum íþróttastarfsins. Er von mín að á grundvelli þess starfs verði unnið að frekari stefnumótun. Í því sambandi bind ég vonir við gott starf sem unnið er í Íþróttanefnd ríkisins undir forystu Guðjóns Guðmundssonar alþingismanns, en nefndin er að mínu mati kjörin samstarfs- og samráðsvettvangur um framtíðarmálefni og til úrlausnar á einstökum álitamálum hverju sinni. Íþróttamenn eru kappsamir í öllu tilliti og ekki síst þegar þeir ræða um fjármál við okkur ráðherra og þingmenn. Sé ég og heyri að í tilefni af þessu íþróttaþingi hafa menn lagt mikla áherslu á að Ríkissjóður þurfi að veita íþróttahreyfingunni meira fjármagn um leið og það er viðurkennt sem áunnist hefur.

8


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Þegar róið er á þessi mið er alltaf álitamál hvaða aðferðir skila mestum afla. Frá mínum bæjardyrum séð er leiðin til árangurs hvorki sú að metast við aðra eða gera svo miklar kröfur að erfitt sé að ná uppí þær. Hitt er mér ljóst að ávalt þarf að leita að verðugum sameiginlegum verkefnum og standa saman að framkvæmd þeirra. Við sjáum til dæmis góðan árangur af slíku samstarfi hér á Akureyri þegar við lítum til Vetraríþróttamiðstöðvarinnar og þess starfs sem hér er unnið undir merkjum hennar um þessar mundir. Vetraríþróttamiðstöðin er sameiginlegt verkefni með þátttöku Ríkisins og er að mínu mati mjög gott fordæmi um það hvernig skynsamlegt er að vinna. Á árinu 1998 var nám íþróttakennara fært á háskólastig í Kennaraháskóla Íslands og innan framhaldsskóla er víða áhugi á að bjóða nám á íþróttabrautum. Kennaraháskólinn mun halda úti íþróttakennslu á Laugarvatni og mér er kunnugt um að viðræður hafa farið fram á milli forystumanna ÍSÍ og rektors skólans um málefni Íþróttamiðstöðvar Íslands á Laugarvatni. Ég tel að með auknu samstarfi Kennaraháskólans og ÍSÍ megi styrkja forsendur kennaranámsins og íþróttastarfsins í landinu. Á þessu sviði eins og öðrum gildir að nýta sér menntun, þekkingu og rannsóknir sem best. Raunar sé ég fyrir mér að á Laugarvatni mætti stefna að því að koma upp aðstöðu til rannsókna og þjálfunar sem höfðaði jafnt til innlends sem erlends afreksfólks. Stjórnvöld víða um lönd láta að sér kveða í baráttu forystumanna í íþróttum gegn ólögmætri lyfjanotkun. Við Íslendingar megum ekki slá slöku við á þessu sviði, og Alþingi samþykkti á síðasta ári aukafjárveitingu til að við gætum látið meira af okkur kveða í þessu efni. Ber að halda áfram á þeirri braut. Í verkefnaáætlun næstu ára fyrir menntamálaráðuneytið, sem ég kynnti í byrjun þessa árs, segir meðal annars: Fylgt verði eftir skýrslu um eflingu íþrótta og aukin hlut kvenna í íþróttum. Stuðlað verði að aukinni samvinnu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands svo opinberar fjárveitingar til stjórnsýslu á sviði íþróttamála nýtist sem best. Í þessum orðum felast í raun mikil fyrirheit þegar litið er til skýrslnanna sem nefndar eru því þar er lagt á ráðin um uppbyggingu og eflingu íþróttastarfs og einnig eins og segir; um aukin hlut kvenna í íþróttum, og hvoru tveggja mun að mínu mati skila okkur langt fram á veg. Hitt er ekki síður mikilvægt að mínu mati að opinberum fjármunum sé ekki varið í margfalda stjórnsýslu í kringum íþróttastarfið. Góðir áheyrendur! Ég þarf ekki að árétta það hér á þessum stað hve miklu íþróttir skipta fyrir einstaklinga og þjóðir. Ávinningur af þeim verður aldrei metin til fulls. Ég lík þessum orðum mínum með því að ítreka þakkir mínar fyrir heiðurinn. Þakka ykkur fyrir gott og oft á tíðum fórnfúst starf og með því að heita góðu samstarfi við ykkur áfram um það sem til heilla horfir í íslenskum íþróttamálum. Innilegar þakkir".

5. Ávarp Sigurðar J. Sigurðssonar, forseta bæjarstjórnar Akureyrarbæjar "Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, ráðherrar, alþingismenn, forseti ÍSÍ, virðulegir þingfulltrúar og gestir. Ég býð ykkur velkomin til Akureyrar. Það er okkur mikið fagnaðarefni að íþróttaþing skuli haldið hér á Akureyri í tengslum við vetraríþróttahátíðina. Sú hátíð er nú einmitt með öðrum hætti en áður og nær hápunkti sínum um þessa helgi. Vegsemd Akureyrar hefur vaxið síðan Vetraríþróttamiðstöð Íslands var formlega stofnuð hér fyrir tveimur árum síðan og sú ákvörðun var okkur mikið gleðiefni. Hvatningin sem í þeirri ákvörðun fólst hefur þegar sannað áþreifanlega gildi sitt, það sjáum við meðal annars í nýrri skautahöll og 9


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð nýrri og glæsilegri aðstöðu í Hlíðarfjalli. Hér sjáum við metnaðarfullt samstarf ríkis, bæjar og íþróttahreyfingarinnar skila mikilverðum árangri og þannig þurfum við að vinna saman að uppbyggingu öflugs starfs. Það er einlæg von okkar að þingfulltrúar og gestir geti á meðan þeir dvelja hér fengið yfirsýn yfir það þróttmikla starf sem íþróttahreyfingin stendur fyrir hér á Akureyri. Starfið er fjölbreytt og snertir flestar ef ekki allar greinar íþrótta. Sá sami Grettir og forseti vor minntist hér á áðan sagði eitt sinn “oft þykjumst ég ekki oft hælin kappmælum” eða sjaldan þykist ég vera mjög sjálfhælinn í kappræðum. Ekki veit ég hvort að það verði sagt um okkur Akureyringa því sannarlega erum við stolt yfir því fjölbreytta starfi íþróttahreyfingarinnar og bæjarfélagsins sem æsku þessa bæjar stendur til boða Ég vil taka undir orð forseta ÍSÍ sem hann kom inná áðan og reyndar áður í blaði ÍSÍ þar sem hann vekur athygli manna á því mikla og óeigingjarna starfi sem unnið er af sjálfboðaliðum, íþróttahreyfingunni til heilla. Hvergi í okkar samfélagi eru jafn margir að vinna af áhugamennskunni einni saman að framgangi mála og hjá íþróttafélögunum. En íþróttirnar eru ekki eingöngu til að auka hreysti okkar og kapp, þær eru líka sterk brjóstvörn gegn vágestum sem leita á æsku þessa lands, þar gildir enn það fornkveðna, hraust sál í hraustum líkama. Í báráttu okkar gegn neyslu ungmenna á vímugjöfum, leitum við stuðnings hjá þessum öflugu samtökum til að styrkja þá viðhorfsbreytingu sem við teljum að þurfi að ná fram hjá þessari þjóð, því íþróttahreyfingin kallar menn til leiks og starfa og hefur ótrúlega mikil áhrif og máttur samstöðunnar er mikill. Við upphaf þessa þings vil ég segja við ykkur: Látið þennan slagkraft sem í starfi ykkar er ná til þeirra sem minna mega sín, ekki síður en til keppnismanna. Verið djörf í baráttunni fyrir æsku þessa lands en jafnframt minnug þess að skapa hinum eldri tækifæri til að viðhalda heilsu sinni og veitið ríki og sveitarstjórnum hollar ábendingar um framfaraskref íþróttum til heilla. Það er einlæg von mín að störf ykkar á þessu þingi megi vera farsæl og gæfurík. Þakka ykkur fyrir".

6. Ávarp Þóris Jónssonar, formanns UMFÍ "Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, menntamálaráðherra Björn Bjarnason, alþingismenn, forseti ÍSÍ, ágætu þingfulltrúar. Það er sérstakt ánægjuefni fyrir íþróttahreyfinguna að Íþróttaþing skuli vera haldið hér á Akureyri því óvíða á landinu er íþrótta- og ungmennastarf jafn blómlegt. Íþróttaaðstaðan öll er mjög glæsileg sem raun ber vitni, og ég óska Akureyringum til hamingju með það hversu vel allur aðbúnaður er hér. Ég vil óska Birni Bjarnasyni, ráðherra, hjartanlega til hamingju með þessa viðurkenningu sem honum var veitt hér áðan og ég tek undir með forseta ÍSÍ að það er gott að leita til hans og hann á þessa viðurkenningu fyllilega skilið. Gangi þér allt í haginn. Ég flyt ykkur kveðjur stjórnar Ungmennafélags Íslands og einnig framkvæmdastjóra Ungmennafélags Íslands sem því miður getur ekki verið með okkur hér í dag. Ég mun ekki eyða löngum tíma frá ykkur í þetta ávarp það er margt sem bíður og mikið starf framundan. Markmið Ungmennafélags Íslands er ræktun lýðs og lands og við ætlum á þessu kjörtímabili að leggja áherslu á einstaklinginn, beita okkur fyrir aukinni leiðtogafræðslu og gera hinn almenna félagsmann hæfari til að taka þátt í fundum og félagsstarfi, sem er mjög mikilvægt, þannig að annað starf geti gengið með eðlilegum hætti. Nú kunna einhverjir að velta því fyrir sér hvort að einhver munur sé á Ungmennafélagi Íslands annars vegar og Íþróttasambandi Íslands hins vegar. Frá mínum bæjardyrum séð er munurinn all nokkur, og nægir þar að bera saman þau þing, annars vegar íþróttaþing eins og hér er að hefjast og þing Ungmennafélags Íslands hins vegar, þau eru ótrúlega ólík þó að 10


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð verulegur hluti þingfulltrúa sé aðili að báðum samtökum. Á síðasta þingi Ungmennafélags Íslands voru megin viðfangsefnin, umhverfismál, menningarmál, forvarnar- og fræðslumál svo eitthvað sé nefnt. En það sem fjallað er um íþróttir er fyrst og fremst um Landsmót Ungmennafélag Íslands sem að eiga sér hartnær 100 ára sögu. Einnig nú á seinni árum er fjallað um Unglingalandsmót UMFÍ en það vill nú svo til að bæði þessi mót, sem og ungmennafélagshreyfingin, eiga upphaf sitt að rekja hingað á Eyjafjarðarsvæðið. Þannig að við eigum í sjálfu sér Eyfirðingum mikið að þakka. Á síðasta íþróttaþingi, þegar ég ávarpaði þar, fór fyrir brjóstið á einhverjum er ég fjallaði um sameiningarmál ÍSÍ og UMFÍ. Ég er ekki kominn á þing, hvorki þetta né annað til þess að tala á eintómum, hugljúfum nótum. Ég er ekkert síður kominn á þing til þess að reyna vekja menn til umhugsunar um hin einstöku mál og mér finnst betra að tala tæpitungulaust heldur en að segja eitthvað allt annað en ég meina. Frá því að það þing var hefur afstaða UMFÍ verið óbreytt. Nú ég ætlaði ekki að fjalla um þessi mál hér en af gefnu tilefni og af því að fram hefur komið á opinberum vettvangi að menn eru farnir að sjá fyrir sér sameiningu ÍSÍ og UMFÍ, jafnvel innan næstu þriggja til fjögurra ára. En ég verð að hryggja áhugamenn um það að þessi mál eru ekki á dagskrá hjá Ungmennafélagshreyfingunni núna og við munum beita okkur að ýmsum mikilvægari málum sem okkur hefur verið falið af þingi UMFÍ á þessu kjörtímabili. Ég vil hins vegar lýsa því yfir eins og ég hef áður gert að ég er tilbúinn til samstarfs við Íþróttasamband Íslands og vil ég þakka það samstarf sem við höfum átt sem að kannski hefur verið mest núna undanfarið er varðar Íslenskar getraunir og Íslenska getspá, breytingar á skipulagi þar og þar vorum við mjög samstíga í þeim málum. Ágætu þingfulltrúar og gestir, eins og ég sagði í upphafi ætla ég ekki að eyða frá ykkur tíma, en ég vil að lokum óska Íþróttasambandi Íslands, íþróttaþingi og öllum fulltrúum heilla í sínum mikilvægu störfum og vona að þetta íþróttaþing verði til þess að fleyta Íþróttasambandi Íslands fram á veg til bjartari, enn bjartari tíma en eru í dag. Þó bjart sé yfir íþróttunum þá er mikilvægt að efla og bæta íþróttastarfið í landinu ekki síst út um hinar dreifðu byggðir sem eiga víða undir högg að sækja og ég hvet ykkur til að styðja við bakið á þeim félögum okkar sem að berjast víða um land. Gangi ykkur allt í haginn". Að loknum ræðum gesta var gert stutt hlé áður en gengið var til dagskrár.

7. Kjörnir 1. og 2. þingforseti Tillaga var gerð um að Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri Akureyrarbæjar yrði kjörinn 1. þingforseti og Eiríkur Björgvinsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi á Akureyri, 2. þingforseti. Var tillagan samþykkt samhljóða og tók 1. þingforseti þegar við fundarstjórn. Þingforseti kannaði lögmæti þingsins og fann enga meinbugi á. Enginn gerði athugsemdir við boðun þingsins.

8. Kjörnir 1. og 2. þingritari Tillaga var gerð um að Kristinn J. Reimarsson starfsmaður ÍSÍ yrði kjörinn 1. þingritari og Steinunn Tómasdóttir starfsmaður ÍSÍ 2. þingritari. Tillagan var samþykkt samhljóða og tóku þau þegar til starfa.

11


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

9. Kosning ungra íþróttamanna skv. grein 12.3 í lögum ÍSÍ Tillaga var gerð um eftirtalda íþróttamenn: • Ragnheiði Runólfsdóttur • Kristinn Björnsson • Önnu Margréti Ólafsdóttur • Brynju Þorsteinsdóttur Tillagan var samþykkt samhljóða.

10. Kosning fimm manna kjörbréfanefndar Tillaga var gerð um að eftirtaldir fulltrúar skipuðu kjörbréfanefnd: • Birgir Ari Hilmarsson, UMSK • Jónas Egilsson, FRÍ • Svala Stefánsdóttir, ÍBA • Hörður Þorsteinsson, GSÍ • Ólafur Thordersen, ÍRB Tillagan var samþykkt samhljóða. Starfsmaður nefndarinnar var tilnefnd Halla Kjartansdóttir starfsmaður ÍSÍ. Að svo búnu tók Kjörbréfanefnd til starfa.

11. Lögð fram Ársskýrsla ÍSÍ Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ, fór yfir skýrslu framkvæmdastjórnar í stórum dráttum.

12. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar Friðjón B. Friðjónsson, gjaldkeri ÍSÍ lagði fram endurskoðaða reikninga ÍSÍ og sérsjóða þess.

13. Umræður um reikninga og samþykkt þeirra Ingibjörg B. Jóhannesdóttir, UMSK: kom með fyrirspurn til framkvæmdastjóra ÍSÍ, þess efnis hvort að allir hefðu skilað inn kjörbréfum fyrir tilskilinn tíma eins og kveðið er á um í lögum ÍSÍ. Stefán S. Konráðsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ: svaraði því til að nokkrir aðilar hefðu fengið frest og þá vegna þess að rík ástæða þótti til m.a. vegna þinga héraðssambanda og sérsambanda sem ekki höfðu náð að velja sína þingfulltrúa í fyrra. Jafet Ólafsson, BSÍ: byrjaði á því að þakka það sem vel hefði verið gert. Hann talaði um peningalega stöðu íþróttahreyfingarinnar og taldi að hún hafi ekki verið nógu frek í samskiptum sínum við ríkisvaldið. Taldi það ekki rétt af forseta ÍSÍ að vera sækja peninga til ríkisins og á sama tíma vera gagnrýna stjórnmálamenn, taldi það ekki kunna góðri lukku að stýra og að það mætti ekki blanda saman pólitískum afskiptum við starfið.

12


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Annað sem hann vildi beina til stjórnarinnar var það að honum fannst sjóðir ÍSÍ alltof digrir og að hann væri ekki ánægður með þá ávöxtun sem væri á sjóðum ÍSÍ og vildi hann leysa upp Ólympíusjóðinn. Hann hvatti til að peningarnir yrðu notaðir. Stefán S. Konráðsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ: svaraði því til að ÍSÍ væri ekki með of digra varasjóði. Hann bað menn um að styrkja stjórn ÍSÍ í því að passa upp á þá sjóði sem til væru svo hægt yrði að mæta áföllum m.a. hjá sambandsaðilum og þegar illa gengi í rekstri. Guðmundur H. Þorsteinsson, ÍBR: sagði að íþróttahreyfingin stæði frammi fyrir miklum vanda sem væri fjárhagurinn. Taldi hann að íþróttahreyfingin væri undir fátæktarmörkum og hvatti hann menn til að standa saman í því að sækja peninga til ríkisvaldsins. Einnig hvatti hann íþróttahreyfinguna til að taka á tölvumálum hreyfingarinnar. Því næst gerði Birgir Ari Hilmarsson grein fyrir áliti kjörbréfanefndar. Nefndin lagði til að öll kjörbréf yrðu samþykkt án breytinga. Samþykkt samhljóða. Þar á eftir var Ársskýrsla ÍSÍ borin upp til afgreiðslu. Samþykkt samhljóða. Þá var reikningur Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands borinn upp til afgreiðslu. Samþykktur samhljóða.

14. Kosning þingnefnda a.

Kjörnefnd, fimm manna Tillaga var gerð um að Kjörnefnd yrði þannig skipuð: • Reynir Ragnarsson, ÍBR • Eggert Magnússon, KSÍ • Þröstur Guðjónsson, ÍBA • Þórunn Oddsdóttir, GLÍ • Valdimar Leó Friðriksson, UMSK Samþykkt samhljóða. Starfsmaður kjörnefndar var tilnefndur Stefán Konráðsson, starfsmaður ÍSÍ.

b.

Fjárhagsnefnd, fimm manna Tillaga var gerð um að Fjárhagsnefnd yrði þannig skipuð: • Sigurjón Pétursson, HSÍ • Sturlaugur Sturlaugsson, ÍA • Björn Jóhannesson, ÍBR • Árni Þorgilsson, HSK • Björn Ármann Ólafsson, UÍA Samþykkt samhljóða. Starfsmaður Fjárhagsnefndar var tilnefnd Steinunn Tómasdóttir.

13


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð c.

Allsherjarnefnd fimm manna Tillaga var gerð um að Allsherjarnefnd yrði þannig skipuð: • Friðrik M. Ólafsson, ÍBH • Helga St. Guðmundsdóttir, ÍBA • Ásdís Helga Bjarnadóttir, UMSB • Sveinn Áki Lúðvíksson, ÍF • Engilbert Olgeirsson, HSK Samþykkt samhljóða. Starfsmaður Allsherjarnefndar var tilnefndur Kristinn Reimarsson.

d.

Laganefnd fimm manna Tillaga var gerð um að Laganefnd yrði þannig skipuð: • Lárus Blöndal, UMSK • Sesselja Árnadóttir, SSÍ • Gestur Jónsson, ÍBR • Ólafur Rafnsson, KKÍ • Halldór Halldórsson, GSÍ Samþykkt samhljóða. Starfsmaður Laganefndar var tilnefnd Halla Kjartansdóttir.

e.

Aðrar nefndir samkvæmt ákvörðun þings: Tillaga um nefnd um afreksstefnu íþróttahreyfingarinnar, sjö manna: • Árni Þór Árnason, FSÍ • Pétur H. Sigurðsson, KKÍ • Þráinn Hafsteinsson, FRÍ • Anna K. Vilhjálmsdóttir, ÍF • Kristinn Svanbergsson, SKÍ • Lúðvík Georgsson, KSÍ • Halldór Rafnsson, GSÍ Samþykkt samhljóða. Starfsmaður nefndarinnar var tilnefnd Líney Rut Halldórsdóttir.

15. Stofnun nýrra sérsambanda Tillaga að stofnun Dansíþróttasambands Íslands, (DSÍ) Þingskjal 1

Stofnun Dansíþróttasambands Íslands Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frumælandi, Ellert B. Schram. 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.-26. mars 2000, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að stofna sérsamband um dansíþróttina. Greinargerð: Dansíþróttin er í örum vexti á Íslandi og styrkt stöðu sína verulega innan íþróttahreyfingarinnar. Í dag eru iðkendur dansíþróttarinnar um 1000 talsins og því er verulega brýnt að stofnað verði sérsamband um íþróttina í samræmi við lög ÍSÍ.

14


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Allsherjarnefndar. samhljóða.

Samþykkt

16. Lagabreytingar Eftirtaldar tillögur að lagabreytingum lágu fyrir þinginu: Þingskjal 2

Tillaga til lagabreytingar á 8. grein laga ÍSÍ Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi, Stefán S. Konráðsson. Í stað núverandi 8. greinar komi: Fyrir 15. apríl árlega skulu sambandsaðilar ÍSÍ senda framkvæmdastjórn ÍSÍ starfsskýrslur síðasta árs í tölvuskrá samkvæmt forriti sem ÍSÍ leggur til ásamt félaga- og iðkendatali síðasta starfsárs. Aðili, sem ekki skilar skýrslum í tæka tíð missir rétt til þátttöku í íþróttaþingi, svo og í opinberum íþróttamótum þar til skýrslum hefur verið skilað eða samið við framkvæmdastjórn um stuttan frest til þess. Lagabreytingin öðlast gildi þegar eftir samþykkt hennar. Greinargerð. Við sameiningu ÍSÍ og ÓÍ var þessari grein breytt frá því sem verið hafði áður. Reynsla tveggja síðustu ára af innheimtu starfsskýrslna bendir til að áhrif af lottóskerðingu séu afar seinvirk. Framkvæmdastjórn ÍSÍ leggur eindregið til að fyrirkomulag varðandi keppnisbönn verði tekið upp að nýju, enda var það fyrirkomulag afar fljótvirkt. Rétt er að hnykkja á að ÍSÍ hefur aldrei misbeitt ákvæðum um keppnisbönn heldur hafa keppnisbönn verið lokaúrræði og unnin í samráði við viðkomandi héraðssambönd/íþróttabandalög. Sú hefð hefur skapast í íþróttahreyfingunni að umsjón innheimtu starfsskýrslna hefur verið í höndum héraðssambanda/íþróttabandalaga. Miðað við aukin áhrif sérsambanda og oft á tíðum mun meiri tengingar þeirra við viðkomandi félög í héraði, leggur framkvæmdastjórn til að bæði héraðssambönd/íþróttabandalög og sérsambönd aðstoði ÍSÍ við innheimtu starfsskýrslna. Með þessu móti má tryggja mun betri árangur en verið hefur. Umræður: Geir Þorsteinsson, KSÍ: Taldi það ekki henta knattspyrnuhreyfingunni að taka upp keppnisbönn. Lagði til að fundnar yrðu upp aðrar leiðir. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Laganefndar. Samþykkt samhljóða.

15


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

Þingskjal 3

Tillaga til lagabreytingar á 2. tölulið, 11. greinar laga ÍSÍ Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi, Ellert B. Schram. Í stað núverandi 11.2 komi: Íþróttaþing skal haldið annað hvert ár, á tímabilinu 1. mars til 1. maí. Skal það auglýst með þriggja mánaða fyrirvara og ítrekað síðar. Framkvæmdastjórn ákveður fundarstað. Lagabreytingin öðlast gildi þegar eftir samþykkt hennar. Greinargerð: Framkvæmdastjórn leggur til að hér eftir verði Íþróttaþing ÍSÍ haldið á vorin í stað haustin, á tveggja ára fresti á sléttri tölu, þ.e. 2000, 2002, 2004 o.s.frv. Með þessu móti sjá aðildarfélög og geta fjallað um reikninga þegar þeir eru nýlega endurskoðaðir en áður fyrr var Íþróttaþing að fjalla um reikninga sem voru 10-11 mánaða gamlir og rekstur ÍSÍ hafði verið í jafnlangan tíma án samþykktrar fjárhagsáætlunar Íþróttaþings. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Laganefndar. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 4

Tillaga til lagabreytingar á e-lið 18. greinar laga ÍSÍ Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi, Örn Andrésson. e-liður 18.gr. orðist svo: Að fylgjast með störfum sérsambanda og héraðssambanda/íþróttabandalaga. Skal framkvæmdastjórn í þessu skyni hafa fullan aðgang að bókhaldi og fylgiskjölum sambandsaðila. Ef ástæða þykir til getur framkvæmdastjórn tilnefnt sérstakan endurskoðanda fyrir sérsamband eða héraðssamband/íþróttabandalag og fyrirskipað ítarlega rannsókn á fjárreiðum viðkomandi sambandsaðila. Lagabreyting þessi öðlast gildi þegar eftir samþykkt hennar. Greinargerð: Með nýjum lögum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands voru sett inn ákvæði sem hnykktu á eftirlitsskyldu ÍSÍ gagnvart sambandsaðilum sínum. Þetta var gert að gefnu tilefni vegna nokkurra erfiðra fjárhagslegra mála ýmissa sambandsaðila ÍSÍ. ÍSÍ hefur sinnt þessari eftirlitsskyldu sinni með því að draga út tvö héraðssambönd og tvö sérsambönd, tvisvar sinnum á ári, þar sem farið hefur verið yfir ýmis atriði tengd bókhaldi og fjármálum viðkomandi sambandsaðila. Einn sambandsaðili hefur skriflega gert athugasemdir við þetta verklag og dregur í efa hversu langt eftirlitsskylda ÍSÍ getur gengið og hefur þess vegna ekki afhent bókhald viðkomandi 16


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð sambands. Framkvæmdastjórn telur hins vegar að til þess að hún megi sinna eftirlitsskyldu sinni þurfi hún nauðsynlega að hafa aðgang að gögnum sambandsaðila ÍSÍ. Laganefnd ÍSÍ hefur jafnframt ályktað að hún telji skilning framkvæmdastjórnar ÍSÍ á málinu réttan. Framkvæmdastjórnin vill þó tryggja að lagaleg ákvæði séu það skýr að ekki þurfi að draga í efa eftirlitsskyldu stjórnarinnar og því er þessi tillaga lögð fram á þinginu. Umræður: Júlíus Hafstein, BLÍ: Benti á að ÍSÍ hefði í dag heimild samkvæmt lögum að skipa sérstakan endurskoðanda til að fara yfir bókhald sambandsaðila, ef sérstök ástæða þykir til. Fannst það ganga of langt af setja upp rannsóknarráð. Lagðist gegn tillögunni. Gerði athugasemdir við ófagleg vinnubrögð við val á sambandsaðilum eins og gert hefði verið undanfarið. Páll Grétarsson SKÍ: Andmælti málflutningi formanns BLÍ. Taldi að mikið hefði unnist í fjármálum íþróttahreyfingarinnar á undanförnum árum. Vildi ganga skrefi lengra, og vildi að það yrði skoðað, sérstaklega fyrir minni sérsambönd, hvort að skrifstofa ÍSÍ gæti ekki tekið að sér að sjá um bókhald þeirra. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Laganefndar. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 5

Tillaga til lagabreytinga á 21. grein laga ÍSÍ Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi, Hafsteinn Pálsson. Í stað núverandi 21.gr. komi þann 1/6 2001: 21.grein Um dómstóla Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands skal fjalla í sérstökum lögum. Lagabreyting öðlast gildi 1.júní 2001 og fellur þá úr gildi núverandi 21.grein laganna. Greinargerð: Umfangsmiklar breytingar hafa verið gerðar á lögum um dómstólaskipan ÍSÍ, sem hafa í för með sér að núverandi 21.grein (5.kafli) er úrelt frá og með 1/6 2000. Frumvarp þar að lútandi liggur fyrir þinginu. Sama gildir um reglugerð um dóms- og refsiákvæði ÍSÍ, sem eru felld inn í dómstólalögin að svo miklu leyti sem þörf er á, miðað við breytta dómstólaskipan. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Laganefndar. Samþykkt samhljóða.

17


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

Þingskjal 6

Tillaga til lagabreytinga á 3. tölulið 25. greinar laga ÍSÍ Flutningsaðili: Knattspyrnusamband Íslands. Frummælandi, Halldór B. Jónsson. Lagt er til að stafliður b í 3 tölulið 25. greinar breytist svo: Val fulltrúa á sérsambandsþing miðist við fjölda iðkenda, félaga eða keppenda eða stöðu íþróttafélaga innan sérsambands en hvert héraðssamband / íþróttabandalag skal þó a. m. k. eiga rétt á einum fulltrúa. Fundarboð skal senda héraðssamböndum / íþróttabandalögum. Lagabreytingin öðlast gildi þegar við samþykkt hennar. Greinargerð: Eins og kunnugt er gætir ósamræmis milli laga KSÍ og ÍSÍ um val fulltrúa á knattspyrnuþing. Grein 8 í lögum KSÍ segir: 1. Knattspyrnuþingið sitja fulltrúar frá þeim aðilum, sem mynda KSÍ. 2. Fulltrúafjöldi þeirra ákvarðast af þátttöku félaga í Íslandsmóti meistaraflokks sem hér segir: a. fyrir félag, sem hefur rétt til þátttöku í Landssímadeildinni eða Meistaradeild kvenna á komandi leiktíð, komi 4 fulltrúar, b. fyrir félag, sem hefur rétt til þátttöku í 1. deild karla á komandi leiktíð, komi 3 fulltrúar, c. fyrir félag, sem hefur rétt til þátttöku í 2. deild karla á komandi leiktíð, komi 2 fulltrúar, d. fyrir félag, sem hefur rétt til þátttöku í neðstu deild karla eða kvenna á komandi leiktíð, komi 1 fulltrúi, enda hafi það tekið þátt í Íslandsmóti meistaraflokks 3 leiktíðir af síðustu 5, þar sem ein skal vera sú síðasta, e. fyrir sameiginlegt lið félaga komi fulltrúar sbr. a.-d., sem skiptast milli aðila að liðinu, f. fyrir héraðssamband komi þó að minnsta kosti einn fulltrúi. 3. Fulltrúafjöldi vegna félags skal einungis ákvarðast af einum þeirra liða a. til f. sem gefur flesta fulltrúa. Þessi aðferð við val fulltrúa var samþykkt á knattspyrnuþingi í desember 1995 og síðan staðfest af laganefnd ÍSÍ. Þá var ekki að finna neitt ákvæði í lögum ÍSÍ um val fulltrúa á sérsambandsþing. Ástæða þess að knattspyrnuhreyfing gerði þessa breytingu á lögum sínum má vera öllum kunn. Það hefur á engan hátt mátt treysta iðkendatölum sem leiddi augljóslega til skekkju í skipun fulltrúa á knattspyrnuþing sem aftur leiddi til mikillar gremju margra sambandsaðila á ári hverju. Aðferð KSÍ er einföld og um hana ríkir tiltölulega góður friður.

18


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

Umræður: Halldór B.Jónsson, KSÍ: Gerði grein fyrir því að vegna mistaka hefði síðasta setningin læðst með. Er óþörf þar sem hún kemur fram á tveimur öðrum stöðum í lagagreininni. Dró síðustu setninguna til baka. Guðmundur H. Þorsteinsson, ÍBR: Taldi tillögu KSÍ löngu tímabæra og studdi hana. Engilbert Olgeirsson, HSK: Studdi tillögu KSÍ, en vildi á hinn bóginn vekja athygli á því að sérsamböndin færu eftir lögum. Sagði meinbugi á því að sérsamböndin sendi héraðssamböndum þingboð. Þingforseti bar upp breytingatillögu frummælanda þar sem lagt er til að síðasta setning, “Fundarboð skal senda héraðssamböndum / íþróttabandalögum” detti út. Samþykkt samhljóða. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Laganefndar. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 7

Tillaga til lagabreytinga á 31. laga ÍSÍ Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi, Stefán S. Konráðsson. 1. og 2. töluliður 31. greinar hljóði svo: 31.1 Aðaluppistaðan í merki ÍSÍ er eldurinn, eldfjallið og Ólympíuhringirnir. Eldurinn er tákn fyrir eldgos, kraft og hinn ólympíska eld og fjallið er í fánalitunum. 31.2 Fáni ÍSÍ er hvítur með merki ÍSÍ. Lagabreytingin öðlast gildi þegar við samþykkt hennar. Greinargerð: Í ákvæðum til bráðabirgða við ný lög ÍSÍ var framkvæmdastjórn falið að standa að vali á nýju merki ÍSÍ og leggja til lagabreytingar þar að lútandi á næsta Íþróttaþingi. Umræður: Hörður Gunnarsson, ÍBR: Lagði fram tillögu til breytinga. 1. og 2. töluliður 31. greinar hljóði svo: 31.1 Merki ÍSÍ skal sýna gjósandi eldfjall hvílandi á Ólympíuhringjunum. Þrjár rauðar eldtungur eru tákn innri krafts, hreysti og hins ólympíska elds. Fjallið er stílfært úr fimm röndum í íslensku fánalitunum, blá og hvít til hvorrar hliðar og ein rauð í miðju. 31.2 Fáni ÍSÍ er hvítur með merki ÍSÍ í miðju. Lagabreytingin öðlast gildi þegar við samþykkt hennar.

19


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Þingforseti lagði til að tillögu framkvæmdastjórnar yrði vísað til Laganefndar. Samþykkt samhljóða. Þingforseti lagði síðan til að breytingartillögu Harðar vegna þingskjals nr. 7 yrði einnig vísað til Laganefndar. Samþykkt samhljóða. Breytingartillagan hlaut þingskjalsnúmer 8. Þingskjal 9

Tillaga að ákvæðum til bráðabirgða við lög ÍSÍ Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi, Hafsteinn Pálsson. Við lög ÍSÍ bætist við ákvæði til bráðabirgða: Dómarar þeir og varamenn þeirra sem kosnir eru á Íþróttaþingi 2000 skv. c lið 20.tl. 13.gr skulu aðeins kosnir til þess tíma er ný lög um dómstóla Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands taka gildi þann 1.júní 2001 sbr. þó undantekningu í 2.málsgr. bráðabirgðaákvæðis A í þeim lögum. Við dagskrá Íþróttaþings 2000 bætist eftirfarandi dagskrárliður d í 20.tl. 13.gr.: Kosning dómara í dómstól ÍSÍ og áfrýjunardómstól ÍSÍ samkvæmt bráðabirgðarákvæði B í lögum um dómstóla Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Bráðabirgðaákvæðið öðlast gildi þegar við samþykkt laganna. Þingforseti lagði til að tillöguninni yrði vísað til Laganefndar. Samþykkt samhljóða.

Þingskjal 10

Tillaga til Íþróttaþings Lög um dómstól Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. ______________________________________________

1. kafli. Dómstólaskipan og sameiginleg ákvæði. ____________________________________________ 1.gr. Dómstigin. 1.mgr. Dómstólar samkvæmt 2. og 3.mgr. nefnast einu nafni Dómstólar ÍSÍ og skulu þeir hafa fullnaðarlögsögu yfir þau málefni sem koma upp innan íþróttahreyfingarinnar og sem varða lög og reglur Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), sérsambanda, héraðssambanda, íþróttabandalaga, aðildarfélaga eða einstakra iðkenda eftir því sem við á. Sérsamböndum innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands er þó heimilt að ákveða í reglum sínum að viðkomandi sérsamband hafi sérstakan dómstól innan viðkomandi sambands. Ákveði sérsamband

20


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð slíkt skal slíkur dómstóll lúta dómstólareglum viðkomandi sérsambands og skulu öll ágreiningsmál er varða þá íþróttagrein rekin fyrir viðkomandi sérsambandsdómstól. Lög þessi um dómstólaskipan skulu þó vera þeim reglum til fyllingar, eftir því sem við getur átt. 2. mgr. Dómstóll ÍSÍ er fyrsta dómstig í málum sem upp koma innan íþróttahreyfingarinnar, nema viðkomandi sérsamband hafi sérstakan dómstól sbr. 1.mgr. 3.mgr. Áfrýjunardómstóll ÍSÍ er æðsti dómstóll innan íþróttahreyfingarinnar. 4.mgr. Dómstólar ÍSÍ skulu hafa aðsetur á skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík. ÍSÍ skal á skrifstofu sinni halda skrá yfir þau sérsambönd sem hafa eigin dómstóla. Sérsambönd skulu tilkynna án tafar allar breytingar sem verða á dómstólaskipan innan sambandsins, en skrá sú sem haldin er á skrifstofu ÍSÍ telst alltaf lögfull sönnun á því hvar eigi að reka mál.

2.gr. Vanhæfi. 1.mgr. Dómari, þar á meðal meðdómari, er vanhæfur til að fara með mál ef: a. hann er aðili að málinu eða fyrirsvarsmaður aðila. b. hann hefur gætt réttar aðila varðandi sakarefnið eða veitt aðila leiðbeiningar um það, umfram skyldu sem dómarar hafa. c. hann hefur borið eða verið kvaddur til að bera vitni um atvik málsins af réttmætu tilefni eða verið mats- eða skoðunarmaður um sakarefnið. d. hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar. e. hann tengist eða hefur tengst fyrirsvarsmanni eða málflytjanda með þeim hætti er segir í d-lið. f. hann tengist eða hefur tengst vitni í málinu með sama hætti og segir í d-lið. g. fyrir eru hendi önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa, m.a. ef dómari eða náinn skyldmenni eru félagsbundin aðila máls. 2.mgr. Verði allir dómarar dómstóls vanhæfir til setu í dómsmáli skal framkvæmdastjórn ÍSÍ skipa á stjórnarfundi, dómara, sem uppfyllir hæfisskilyrði til að fara með málið. Sé um fjölskipaðan dóm að ræða skal sá sem skipaður er af framkvæmdastjórn velja aðra dómara.

3.gr. Almenn hæfisskilyrði. 1.mgr. Reglulegir dómarar dómstóla ÍSÍ skulu fullnægja eftirfarandi skilyrðum: a) að vera svo á sig komin andlega og líkamlega að hann geti gegnt embættinu, b) að hafa lokið prófi í lögfræði c) að hafa náð 25 ára aldri. 2.mgr. Meðdómarar sem taka sæti í dómstól ÍSÍ skulu hafa almenna þekkingu á íþróttalögum og málefni íþróttahreyfingarinnar.

21


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

4.gr. Dómsforsendur. Dómstólar ÍSÍ geta í dómsorði auk efnisniðurstöðu m.a. kveðið á um eftirfarandi réttindi og skyldur til aðila málsins: 1. Dæmt mót ógild og eftir atvikum dæmt að mót skuli endurtekið. 2. Dæmt leiki ógilda og látið endurtaka þá eða dæmt öðrum málsaðila sigur í leiknum. 3. Ákvarðað dagsektir til ÍSÍ gagnvart aðildarfélögum og sérsamböndum en ekki einstaklingum. 4. Dæmt einstaklinga til áminningar eða í keppnisbann. 5. Ákveðið sektir á félög og sérsambönd. 6. Málskostnað, ef málsgrundvöllur telst vera tilefnislaus.

5. gr. Dómabækur. 1.mgr. Við dómstóla ÍSÍ skulu vera haldnar sérstakar þingbækur. Við fyrirtöku máls skal rita skýrslu í þingbók um það sem fram fer, hvaða gögn eru lögð fram, hverjir mæta í máli og hvað er afráðið um rekstur máls. Í þingbók skal jafnframt færa þær ákvarðanir sem teknar eru í málinu. Efni þingbókar skal að jafnaði ekki birt almenningi. 2.mgr. Við dómstóla ÍSÍ skal haldin sérstök dómabók sem hefur að geyma uppkveðna dóma og úrskurði. Dómabók skal vera aðgengileg.

II. kafli. Dómstóll ÍSÍ. 6. gr. Skipan dómsins. 1.mgr. Dómarar dómstóls ÍSÍ skulu vera sex. 2.mgr. Á reglulegu íþróttaþingi, á tveggja ára fresti, skulu kosnir tveir dómarar til setu í dómnum næstu sex árin. Við val á dómurum skal leitast við að velja aðila sem hafa sem fjölbreyttastan bakgrunn innan íþróttahreyfingarinnar. 3.mgr. Á fyrsta dómarafundi eftir reglulegt íþróttaþing skulu dómarar koma saman og kjósa dómsformann. Náist ekki niðurstaða með kosningu hver skuli kosinn formaður dómsins skal varpað hlutkesti milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fá í kosningu. Þá skal kosinn fyrsti og annar varaformaður dómsins með sama hætti. 4.mgr. Dómurinn skal hafa starfsaðstöðu á skrifstofu ÍSÍ. Allar kærur skulu berast á skrifstofu dómsins. Formaður ákveður hver af hinum reglulegu dómurum fer með það mál sem er til meðferðar. Mál skal rekið þar sem hagkvæmast er fyrir aðila hverju sinni. 5. mgr. Einn dómari skal fara með hvert mál. 6. mgr. Nú telur dómari þörf á meðdómurum og er honum þá heimilt, í samráði við formann dómsins, að kalla til tvo meðdómara í dóminn. Meðdómarar þurfa ekki að vera löglærðir. 22


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

8.gr. Kærufrestur. 1.mgr. Kærufrestur til dómstóls ÍSÍ er ein vika frá því að atvik það, sem kært er bar við eða ástandi lauk ef um ástandsbrot er að ræða. 2.mgr. Dómstóll ÍSÍ getur veitt leyfi til að mál sé höfðað eftir að kærufrestur er liðinn. 3.mgr. Sé máli vísað frá dómi hefur kærandi þriggja daga frest til að skjóta málinu aftur fyrir dómstólinn. Frestur skal byrja að líða þegar frávísun berst kæranda og almennir frídagar skulu ekki telja með.

9.gr. Meðalganga og upplýsingagjöf. 1.mgr. Telji aðili að mál varði mikilsverða hagsmuni hans, er honum heimilt að beina þeirri kröfu til dómsins að hann verði aðili málsins. Krafa þessi þarf að koma fram svo fljótt sem verða má og eigi síðar en við aðalflutning málsins.

10.gr. Form og efni kæru. 1.mgr. Kæra skal vera skrifleg. Dómstóll ÍSÍ skal láta útbúa sérstakt form fyrir kærur sem verður afhent á skrifstofu ÍSÍ. 2.mgr. Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í kæru: 1. Nafn, kennitala og heimilisfang kæranda, 2. Nafn kærða, kennitala og heimilisfang. 3. Nafn fyrirsvarsmanns kæranda, heimilisfang hans, símanúmer og númer myndsendis. 4. Greinargóð lýsing á því hvaða kröfur eru gerðar í málinu. 5. Lýsing helstu málavaxta. 6. Tilvísun til þeirra lagareglna sem við eiga. 7. Lýsing á helstu röksemdum aðila málsins. 8. Lýsing á þeim gögnum sem kærandi byggir mál sitt á, ásamt ljósriti af þeim gögnum. 9. Upptalning á þeim vitnum sem kærandi mun kalla til skýrslutöku. 3.mgr. Kæra skal send dóminum í tveimur eintökum.

11.gr. Málsmeðferð. 1.mgr. Mál telst höfðað með því að kæra berst á skrifstofu ÍSÍ. Kærandi á rétt á því að fá kvittun fyrir móttöku kærunnar. 2.mgr. Formaður dómsins skal svo fljótt sem hægt er taka afstöðu til þess hvort einhverjir formgallar samkvæmt 14.gr. geri að verkum að málið sé ekki tækt til meðferðar. Séu slíkir gallar á málinu skal dómsformaður vísa málinu frá dómi með úrskurði.

23


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð 3.mgr. Telji dómsformaður að málið sé réttilega höfðað skal hann innan tveggja virkra daga ákveða hvaða dómari skuli fara með málið. 4.mgr. Sé dómsformaður forfallaður skulu varaformenn annast þau verkefni sem til falla í þeirri röð sem þeir eru kosnir. 5.mgr. Dómari sem fær mál til meðferðar skal án tafar senda kærða (varnaraðila) áskorun um að halda uppi vörnum í málinu ásamt afriti af kærunni. Áskorunina skal senda með ábyrgðarbréfi eða á annan sannanlegan hátt. Almennt skal frestur til að skila greinargerð ekki vera lengri en ein vika. Greinargerð varnaraðila skal uppfylla þau skilyrði er koma fram í 14. grein, eftir því sem við getur átt. 6.mgr. Dómari getur óskað eftir skriflegum athugasemdum frá sérsambandi eða öðrum þeim sem málið varðar. 7.mgr. Þegar dómari hefur móttekið greinargerð varnaraðila, skal hann boða til dóms, þingfesta málið og ákveða framhald þess, þ.m.t. hvort málið skal flutt munnlega eða skriflega. Ef mál er ekki munnlega flutt skal aðilum gefinn stuttur frestur til að skila skriflegum athugasemdum. Dómari getur ákveðið annan hátt á málsmeðferð eftir þingfestingu. 8.mgr. Dómur skal kveðinn upp innan viku frá því að málflutningi lauk. Dómur skal sendur aðilum um leið og hann hefur verið kveðinn upp.

12.gr. Flýtimeðferð máls. 1.mgr. Telji formaður dómsins augljóst við skoðun á kæru sem honum berst, að brotið hafi verið gegn lögum og reglum íþróttahreyfingarinnar, er honum heimilt að beina þeirri kröfu til gagnaðila, að hann upplýsi innan sólarhrings hvort hann hyggst hafa varnir uppi í málinu og hverjar þær varnir séu. Komi í ljós að engar varnir verða hafðar uppi í málinu eða ef framkomnar varnir eru bersýnilega tilgangslausar er honum heimilt með úrskurði að dæma kæranda í hag. 2.mgr. Úrskurði samkvæmt 1.mgr. er hægt að hnekkja með kæru til dómstólsins, sem tekur þá efnislega afstöðu til málsins.

13. gr. Tilnefning talsmanns fyrir dómi. Telji dómurinn að hætta sé á að málsstaður annars málsaðila verði fyrir tjóni vegna þess að hann er ekki fær um að koma sínum sjónarmiðum að í málinu, getur formaður dómsins upplýst framkvæmdastjóra ÍSÍ slíkt. Framkvæmdastjóri ÍSÍ skal þá skipa aðila til að gæta hagsmuna viðkomandi málinu.

14.gr. Kæruréttur. 1.mgr. Rétt til kæru hefur hver sá, einstaklingar, félag og félagasamtök, sem misgert er við og hagsmuni hafa af niðurstöðu máls.

24


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð 2.mgr. Sérsambönd, héraðssambönd/íþróttabandalög og félög geti höfðað mál vegna allra atriða er varða viðkomandi sérsamband eða félag. 3.mgr. Framkvæmdastjórn ÍSÍ getur höfðað mál vegna allra brota á reglum ÍSÍ.

III. kafli. Áfrýjunardómstóll ÍSÍ. 15.gr. Skipan dómsins. 1.mgr. Í áfrýjunardómstól ÍSÍ skulu eiga sæti sex dómarar kosnir af reglulegu íþróttaþingi. 2.mgr. Hver dómari skal kjörinn til setu í dómstólnum í sex ár í senn. Á reglulegu íþróttaþingi, sem haldið er á tveggja ára fresti, skulu kosnir tveir dómarar til setu í dómnum næstu sex árin. 3.mgr. Forseti dómsins og varaforseti skulu kosnir á fyrsta dómarafundi eftir reglulegt íþróttaþing. Verði atkvæði jöfn við kosningu, skal sá sem lengur hefur starfað í dómnum vera rétt kjörinn.

16. gr. Fjöldi dómara. Þrír dómarar skulu dæma hvert mál fyrir dómstólnum. Forseti dómsins skal ákveða hverju sinni hvaða þrír dómarar skuli fara með mál. Forseti, eða varaforseti í forföllum hans, skal úrskurða um hæfi einstakra dómenda.

17.gr. Áfrýjun. 1.mgr. Heimilt er að skjóta til áfrýjunardómstóls ÍSÍ, dómum og úrskurðum dómstóls ÍSÍ og dómum og úrskurðum dómstóla sérsambandanna, nema viðkomandi sérsamband hafi ákveðið að hafa sjálfstæðan áfrýjunardómstól. Þar sem sérsamband ákveður að hafa sérstakan áfrýjunardómstól þá verður slíku máli ekki skotið til áfrýjunardómstóls ÍSÍ. 2.mgr. Frestur til að áfrýja máli til áfrýjunardómstólsins skal vera ein vika frá því að aðila máls var fyrst kunnugt um niðurstöðu málsins, en þó eigi síðar en 4 vikum eftir að dómur undirréttar var upp kveðinn. 3. mgr. Sá sem hyggst áfrýja máli skal senda dómstólnum sérstaka greinargerð þar sem lýst er þeim sjónarmiðum sem áfrýjandi byggir á ásamt gögnum málsins.

18.gr. Ný gögn og málsmeðferðarreglur. 1.mgr. Ný gögn skulu ekki lögð fram fyrir áfrýjunardómstól. Vitna og aðilaskýrslur skulu ekki fara fram. 2.mgr. Dómstólnum er heimilt að víkja frá ákvæði 1.mgr. þegar sérstaklega stendur á.

25


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð 3.mgr. Málsmeðferðarreglur III kafla laganna skulu gilda um áfrýjunardómstól ÍSÍ eftir því sem við á.

19.gr. Tegundir brota. Undir dómstóla ÍSÍ heyra öll brot á lögum ÍSÍ, sérsambanda, héraðssambanda/íþróttabandalaga og félaga samkvæmt þeim lögum og reglum er um það gilda. 1. Brot gegn móta- og leikreglum. a) Að láta skrá íþróttamann til keppni gegn vilja hans eða að honum forspurðum. b) Að koma ekki til leiks án löglegra forfalla, ef hlutaðeigandi íþróttamaður hefur látið skrá sig til keppni. c) Að blekkja eða reyna að blekkja starfsmann í leik eða óhlýðnast fyrirmælum sem hann gefur stöðu sinni samkvæmt. d) Að koma ósæmilega fram við eða ögra starfsmanni meðan á móti eða sýningu stendur eða síðar sakir atvika, sem þar gerðust. e) Að taka þátt í keppni eða sýningu með eða undir forsjá aðila, félags eða einstaklings, sem úrskurðaður hefur verið óhlutgengur, enda hafi óhlutgengisúrskurðurinn verið birtur samkvæmt 16. lið 7. greinar. 2. Brot gegn íþróttasamtökum. a) Að bera yfirvöld, einstaklinga eða félög innan íþróttahreyfingarinnar röngum sökum eða kæra þau að ástæðulausu. b) Að blekkja eða reyna að blekkja yfirvald innan íþróttahreyfingarinnar með röngum skýrslum, eða villandi upplýsingum. c) Að koma ósæmilega fram við, ögra eða hafa í hótunum við yfirvald innan íþróttahreyfingarinnar vegna atvika sem standa í sambandi við trúnaðarstörf yfirvaldsins fyrir íþróttahreyfinguna. 3. Brot gegn áhugamannareglum ÍSÍ eða sérsambanda þess. 4. Brot út á við, sem valda íþróttahreyfingunni álitshnekki. a) Að koma svo fram, að íþróttunum sé álitshnekkir að. b) Brot gegn hegningarlögunum, sem hafa í för með sér sviptingu borgaralegra réttinda. 5. Brot gegn reglum ÍSÍ um keppnisferðir.

20.gr. Refsingar. 1. Áminning. 2. Vítur. 3. Svipting réttar til að gegna trúnaðarstörfum innan íþróttahreyfingarinnar (hefur ekki í för með sér missi almennra félagsréttinda eða keppnisréttar). 4. Óhlutgengisúrskurður, sem veldur útilokun frá þátttöku í keppnum og sýningum innan íþróttahreyfingarinnar, um stundarsakir eða ævilangt. 5. Aðrar refsingar er lög eða reglur sérsambanda, héraðssambanda/íþróttabandalaga og félag tiltaka.

26


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

21.gr. Framkvæmdastjórn ÍSÍ í þeim greinum, sem ÍSÍ er sérsamband fyrir, og stjórnir sérsambanda, í sínum greinum, geta kveðið upp óhlutgengisúrskurði yfir íþróttamönnum, sem brotlegir eru, en skylt er að skjóta slíkum úrskurðum til Dómstóls ÍSÍ sem ber þegar að taka slík mál fyrir. Bráðabirgðaúrskurði, sem framkvæmdastjórnin kann að kveða upp samkvæmt c-lið 20. gr. laga ÍSÍ er heimilt að skjóta til Dómstóls ÍSÍ ef hann felur í sér refsingu samkvæmt réttarfars- og refsiákvæðum þessum og aðili vill ekki hlíta úrskurðinum, en vera skal hann þó bundinn við úrskurðinn meðan hann er ekki úr gildi felldur.

22.gr. Varðandi Reglugerð um lyfjaeftirlit: Mál vegna meintrar lyfjamisnotkunar íþróttamanna skal farið með skv. Reglugerð ÍSÍ um lyfjaeftirlit.

23.gr. Niðurfelling refsingar. Íþróttaþingi er heimilt með minnst 2/3 greiddra atkvæða að fella niður refsingu eða veita dæmdum íþróttamanni full réttindi að nýju innan íþróttasamtakanna.

Bráðbirgðaákvæði. Grein A. Lög þessi taka gildi 1. júní 2001, eftir samþykkt þeirra á Íþróttaþingi ÍSÍ. Á þeim tíma gefst sérsamböndum ÍSÍ kostur á að ákveða hvort þau ætli að starfrækja eigið dómstólakerfi eða falla undir dómstólakerfi ÍSÍ. Sérsambönd skulu senda ÍSÍ tilkynningu þar um áður en lögin taka gildi. Ef ekki berst tilkynning frá sérsambandi þar að lútandi, fellur það sjálfkrafa undir dómstólakerfi ÍSÍ. Við gildistöku laga þessara skulu Dómstólar ÍSÍ skulu taka yfir eldri mál sem eru í gangi fyrir dómstólum íþróttahreyfingarinnar. Þó er aðilum máls heimilt að sammælast um að ljúka máli fyrir þeim dómstól þar sem málið er rekið fyrir gildistöku laganna, enda verði slíku máli lokið innan 2 mánaða frá gildistöku þeirra. Grein B. Íþróttaþing ÍSÍ 2000 sem samþykkir lög þessi skal kjósa sex menn í dómstól ÍSÍ og sex í áfrýjunardómstól ÍSÍ. Skulu í báðum tilvikum tveir menn kosnir til tveggja ára, tveir til fjögurra ára og tveir til sex ára. Dómarar þessir skulu taka til starfa þann 1. 6. 2001, þegar lögin taka gildi. Grein C Núgildandi dóms- og refsiákvæði ÍSÍ falla niður um leið og lög þessi taka gildi.

27


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Umræður: Gunnar Guðmundsson, ÍBR: Taldi að tillagan væri lögð fram með of stuttum fyrirvara og gerði athugasemd við að engin greinargerð fylgdi með tillögunni. Vantaði gömlu lögin til að hafa til hliðsjónar. Fór í gegnum tillöguna og lagði til ákveðnar breytingar. Spurði hvort að menn hefðu kynnt sér hvernig þetta væri á hinum Norðurlöndunum. Lagði til að tillagan yrði betur kynnt og ekki yrði gengið frá henni á þessu þingi. Stefán S. Konráðsson: Sagði að þetta væri stórt mál fyrir íþróttahreyfinguna. Benti á að tillagan hefði fengið næga kynningu þar sem efni hennar hefði verið kynnt á tveimur síðustu formannafundum. Taldi að málið hefði fengið eðlilega umfjöllun og kynningu. Lagði til að tillagan yrði kláruð á þessu þingi. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Laganefndar. Samþykkt samhljóða.

17.

Dóms- og refsiákvæði og Móta- og keppendareglur ÍSÍ Engar tillögur til breytinga höfðu borist, þannig að þessi liður féll út.

18.

Aðrar tillögur sem kynntar voru í fundarboði Þingskjal 11

Fjárhagsáætlun ÍSÍ 2000-2001 Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi Friðjón B. Friðjónsson. Tekjur: 1. Framlag Ríkissjóðs vegna rekstrar

2000 41.700.000

2. Framlag Ríkissjóðs vegna Sydney

8.000.000

2

3. Frá íslenskri Getspá

6.500.000

3

6.500.000

4. Ósóttir vinningar

8.000.000

4

8.000.000

5. Frá Íslenskum getraunum

3.500.000

5

3.500.000

6. Styrkir IOC

5.500.000

6

3.500.000

7. Aðrar tekjur

3.000.000

7

2.000.000

Samtals

skýr 1

2001 45.000.000

76.200.000

68.500.000

2000

2001

Gjöld: 8. Skrifstofukostnaður

26.900.000

8

27.500.000

9. Þing og fundir innanlands og kostnaður vegna stjórnar

6.000.000

9

6.000.000

10. Þing og fundir erlendis

2.500.000

10

2.500.000

11. Framlag vegna fundaraðstöðu

1.000.000

11

1.000.000

12. Kostnaður vegna nefnda

5.500.000

12

5.500.000

28


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð 13. Annar kostnaður

4.250.000

13

4.250.000

14. Verkefnasjóður

2.500.000

14

2.500.000

15. Kostnaður við Íþróttamiðstöðina

2.000.000

15

2.000.000

16

4.500.000 6.000.000

16. Þátttaka í Smáþjóðaleikum San Marinó 17. Íþróttaleg samskipti-Afrekssvið

6.000.000

17

18. Ársþing

2.000.000

18

12.000.000

19

19. Ólympíuleikarnir í Sydney 20. Ólympíudagar æskunnar Murcia –sumar Vuokatti vetur 21. Íþróttahátíð Samtals

6.000.000 76.650.000

20

4.000.000

21

2.500.000 68.250.000

Skýringar 1. Framlag ríkissjóðs vegna rekstrar. Framlag ríkissjóðs til ÍSÍ hækkar eftir áralanga baráttu fyrir leiðréttingu á rekstrarframlagi sambandsins. Á árinu 2001 er gert ráð fyrir hækkun vegna samstarfs ÍSÍ og Menntamálaráðuneytisins vegna lyfjaeftirlitsmála. 2. Framlag ríkissjóðs vegna Sydney Sú hefð hefur skapast á Íslandi, eins og í öðrum Evrópulöndum, að ríkissjóður styrkir að hluta þátttöku í Ólympíuleikum. 3. Frá Íslenskri getspá ÍSÍ fær 5% af heildartekjum Íslenskrar getspár til reksturs. Tekjur þessar hafa minnkað á milli ára um 1 milljón króna og ekki er gert ráð fyrir því að þær hækki á næsta rekstrarári. 4. Ósóttir vinningar Síðasta rekstrarár námu þessar tekjur um 9,7 milljónum króna og höfðu hækkað um tæpar 2,7 milljónir á milli áranna 1998 og 1999. Vart er hægt að búast við jafnhárri upphæð á þessu rekstrarári. 5. Frá Íslenskum getraunum Reiknað er með aukningu á hagnaði Íslenskra getrauna til íþróttahreyfingarinnar og ÍSÍ í kjölfar verulegrar endurskipulagningar í fyrirtækinu og samstarfssamnings við Íslenska getspá. 6. Styrkir IOC Framlag IOC byggir að hluta á föstum styrkjum, svo sem skrifstofustyrk, verkefna styrk o.s.frv., en einnig koma til ýmsir styrkir vegna þátttöku í ráðstefnum og mótum. 29


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð 7. Aðrar tekjur Undir þennan lið færast nokkrir styrkir vegna útgáfumála og ýmsar endurgreiðslur. 8. Skrifstofukostnaður Skrifstofukostnaður skiptist þannig: Laun og launatengd gjöld Húsaleiga Rekstur húsnæðis Ritföng, pappír og prentun Sími, fax og póstgjöld Endurnýjun og viðhald skrifstofuáhalda Aksturskostnaður Kaffikostnaður Ýmis kostnaður SAMTALS Endurgreiddur kostnaður V/ ljósritunar, burðargjalda og síma

21.900.000 2.100.000 300.000 800.000 3.200.000 500.000 100.000 400.000 400.000 29.700.000

SAMTALS

26.900.000

2.800.000

9. Þing og fundir innanlands - Kostnaður vegna stjórnar ÍSÍ sendir fulltrúa á þing sambandsaðila sinna vítt og breitt um landið. Þá er nokkur kostnaður vegna stjórnarmanna sem búa úti á landi vegna stjórnar- og nefndafunda. Í þessum lið er einnig gert ráð fyrir launum forseta ÍSÍ. 10. Þing og fundir erlendis Gert er ráð fyrir að sóttir verði fundir á vegum IOC, EOC, ANOC, ENGSO, European Sport Conference, fundur íþróttaráðherra Evrópu, undirbúningsfundur vegna Ólympíudaga Evrópuæskunnar, fundir vegna nefndarstarfs á vegum EOC, nefndarstarfs á vegum Íþróttanefndar Evrópuráðsins, Smáþjóðaleikafundir, framkvæmdastjórafundur Norðurlandanna, undirbúningsfundur vegna Sydney 2000, fundir vegna norræns samstarfs og lækna- og lyfjanefndafundir. Gert er ráð fyrir því að hver fundur kosti að jafnaði um 80.000 kr. og fjöldi funda sé 30. 11. Framlag vegna fundaraðstöðu Rekstur kaffiteríu er fyrst og fremst á félagslegum grunni eftir að Sport- Hótel ÍSÍ var lagt niður. Gert er ráð fyrir því að greiða þurfi með rekstrinum eins og á síðustu tveimur árum. Til að draga úr hallarekstri á kaffiteríunni hefur opnunartíma verið breytt og starfsmönnum fækkað. 12. Kostnaður vegna nefnda Fræðslu- og útbreiðslusvið Heilbrigðisráð Aðrar nefndir

3.000.000 1.500.000 1.000.000

13. Annar kostnaður Móttaka gesta Gjafir og heiðursviðurkenningar Íþróttablaðið + ÍSÍ-fréttir

800.000 700.000 1.000.000

30


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Endurskoðun Ferðasjóður ÍSÍ vegna alþjóðastarfs sérsambanda

750.000 1.000.000

14. Verkefnasjóður Framlag til Verkefnasjóðs hefur verið óbreytt undanfarin ár. Sambandsaðilar geta sótt um styrki í Verkefnasjóð vegna útbreiðsluverkefna á landsvísu og hafa þeir styrkir verið vel nýttir. Þá hefur Verkefnasjóður úthlutað 10 þjálfarastyrkjum á haustin og 10 þjálfarastyrkjum á vorin til þjálfara í íþróttahreyfingunni til að þeir geti sótt menntun í viðkomandi íþróttagreinum erlendis frá. 15. Kostnaður við Íþróttamiðstöðina í Laugardal Nauðsynlegt er að ráðast í áframhaldandi viðhald á Íþróttamiðstöðinni. Á árinu 2000 verður farið í að endurnýja ýmsar hurðir og gluggapósta, auk þakviðgerða á húsi 3. Á árinu 2001 er gert ráð fyrir því að endurnýja þurfi skólplagnir undir og við Íþróttamiðstöðina. 16. Þáttaka í Smáþjóðaleikunum í San Marino Ísland mun senda glæsilegt lið á Smáþjóðaleikana í San Marino. Gert er ráð fyrir að ferðakostnaður geti orðið nokkuð lægri en áður þar sem flogið verður til Rimini á Ítalíu og er stefnt að samstarfi við ferðaskrifstofu til að samnýta flugið. 17. Íþróttaleg samskipti Fjármagn til íþróttalegra samskipta rennur fyrst og fremst til sérsambanda í formi styrkja vegna þátttöku þeirra og undirbúnings fyrir alþjóðleg stórmót en einnig vegna ýmiss kostnaðar ÍSÍ vegna þátttöku í mótum, þ.m.t. kostnaður vegna faglegrar aðstoðar fagteymis vegna afreksfólks. 18. Ársþing Kostnaður ÍSÍ vegna Íþróttaþings árið 2000 er fyrst og fremst fólginn í prentun skýrslu og gagna vegna þingsins, ferðakostnaði, uppihaldi og matarkostnaði á meðan á þingi stendur, svo og gjafa til þingfulltrúa. 19. Ólympíuleikarnir í Sydney Búist er við að um 25-30 fulltrúar fari frá Íslandi á Ólympíuleikana í Sydney; 12-16 íþróttamenn, fararstjórar, flokkstjórar, þjálfarar og fagteymi. 20. Ólympíudagar Evrópuæskunnar Sumarleikar Ólympíudaga Evrópuæskunnar verða haldnir í Murcia á Spáni sumarið 2001og gert er ráð fyrir góðri þátttöku íslenskra þáttakenda. Vetrarleikar Ólympíudaga Evrópuæskunnar verða haldnir í finnska bænum Vuokatti veturinn 2001. 21. Íþróttahátíð ÍSÍ Gert er ráð fyrir því að nettókostnaður ÍSÍ vegna Íþróttahátíðar muni nema um 8,5 milljónum sem dreift verði á tvö ár, þ.e. árið 2000 og 2001. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Fjárhagsnefndar. Samþykkt samhljóða.

31


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Þingskjal 12

Tillaga að reglugerð um Ólympíusjóð ÍSÍ Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi, Friðjón B. Friðjónsson. 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.- 26. mars 2000, samþykkir að fela framkvæmdastjórn að breyta reglugerð fyrir Ólympíusjóð ÓÍ til samræmis við að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur tekið yfir öll réttindi og skyldur Ólympíunefndar Íslands. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Fjárhagsnefndar. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 13

Stefnuyfirlýsing um afreksíþróttir Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi, Ágúst Ásgeirsson. 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA heimilinu á Akureyri 24. - 26. mars 2000, samþykkir eftirfarandi stefnuyfirlýsingu Íþróttaog Ólympíusambands Íslands í afreksmálum: Sameiginlegt markmið íþróttahreyfingarinnar er að Íslendingar eigi hverju sinni afreksmenn og afreksflokka í íþróttum er skipi sér á bekk með þeim bestu í heiminum og að stöðugt hækki afreksstig íslenskra íþrótta. Í því felst að efla hæfni og færni þeirra sem að afreksíþróttastarfinu koma og sem með afreksíþróttamanninum vinna, tryggja möguleika afreksíþróttamanna framtíðarinnar til að ná settu marki, stuðla að bættum framfærsluaðstæðum íþróttamannsins, og auka íslenska þjálfunarkunnáttu. Til þess að ná settu marki ber hreyfingunni að setja sér tímabundnar markvissar áætlanir um frammistöðu á stórmótum á borð við álfumeistaramót, heimsmeistaramót og ólympíuleikum. Til að tryggja slagkraft markmiðanna til langframa ber ásamt því að einblína á keppnisárangur, að styrkja eigin getu og hæfileika hreyfingarinnar til að vinna að langtímamarkmiðum í afreksíþróttum. Sérstaklega ber að leggja aukna áherslu á að efla þjálfunarþekkinguna, bæði innan einstakra íþrótta og þvert á íþróttastarfið; m.a. með því að mynda teymi fag- og færnisfólks til að auka þekkingu þjálfara. Lykilatriði til framfara er að koma þeirri þjálfunarþekkingu sem fyrir hendi er í landinu í miðlægan farveg þar sem þekkingin fær að „fljóta" þvert um hreyfinguna, milli íþrótta- og faggreina. (t.d. með Netinu) Skilgreining afreka Um afreksíþrótt er þá fyrst að ræða þegar einstaklingur eða flokkur skipar sér með árangri sínum í fremstu röð í heiminum, sbr. samþykkt Íþróttaþings 1992. Afburða afreksmaður er hver sá íþróttamaður/flokkur sem stenst ákveðna viðmiðun við heimsafrekaskrá í viðkomandi grein. Afreksefni teljast þeir íþróttamenn/flokkar sem ekki hafa náð jafn langt en taldir eru með markvissri og mikilli þjálfun geta skipað sér á bekk með þeim bestu.

32


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Þó yfirstjórn afreksíþróttastarfsins sé hjá heildarsamtökunum verður íþróttahreyfingin að axla sameiginlega ábyrgðina á því að halda úti afreksíþróttastefnu og skiptir þá öllu að ríkur metnaður til starfsins sé fyrir hendi jafnt hjá ÍSÍ, sérsamböndum, héraðssamböndum og félögum. Full ástundun forsenda aðstoðar Öll vinna að því að ná settu marki í afreksíþróttum skal eiga sér stað innan siðferðisgilda íþróttanna. Ennfremur ber að stefna að því að ástundun afreksíþróttamanna sé hluti af lífsmunstri og þau ár sem hann helgar íþróttinni krafta sína komi það ekki niður á þroska hans og undirbúningi undir að takast á við lífið að íþróttaferli loknum. Til þess að ná settu marki ber að veita þeim meðölum sem fyrir hendi eru til íþrótta og einstaklinga sem sýnt hafa getu til að skipa sér á bekk með þeim bestu. Allir, sem hátt stefna, hafa möguleika á að njóta stuðnings en árangur og geta ræður ferðinni um áframhald og möguleika á stuðningi. Framfarir og full ástundun af hálfu íþróttamanna og sérsambanda er forsenda áframhaldandi aðstoðar. Afrek er uppskera margra ára markvissrar starfsemi og lítil von er um árangur án faglegra vinnubragða og viðunandi starfsumhverfis íþróttamannsins til að þroska hæfileika sína. Markmið og viðfangsefni í afreksíþróttastarfinu •

Að bæta umhverfi það sem afreksíþróttir búa við,

Að beita sér fyrir aðstöðu til æfinga fyrir afreksíþróttir á vettvangi sveitarfélaga og ríkis,

Að skapa ákjósanlegustu æfinga- og þjálfunarskilyrði fyrir íþróttamenn 15 ára og eldri víðs vegar um land,

Að miðla niðurstöðum rannsókna á sviði íþrótta- og þjálfunarvísinda til þjálfara, íþróttamanna og annarra er málið varðar,

• Að efla samráð og upplýsingaþjónustu á sviði læknavísinda íþróttanna/íþróttaheilsufræði, • Að skapa kjöraðstæður fyrir íþróttamenn innan skólakerfis og á almennum vinnumarkaði til að ná árangri samhliða námi og starfi, •

Að veita hvers kyns ráðgjöf og stuðning er getur orðið til að efla afreksíþróttirnar og íþróttamenn, bæði meðan á keppni þeirra stendur og að loknum keppnisferli,

Að markaðssetja afreksíþróttirnar í þjóðfélaginu og kynna þær ungu fólki, t.d. í skólastarfi,

Að veita afreksíþróttamönnum/flokkum fjárhagslegan stuðning.

33


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Helstu leiðir til að vinna afreksstefnunni framgang 1. Teymi fag- og færnisfólks á sviði þjálffræði, sálfræði og íþróttameiðsla, sem ÍSÍ kemur sér upp (t.d. í samvinnu við HÍ eða aðrar menntastofnanir) til að sinna fræðsluverkefnum fyrir sambandið og miðla þekkingu til þjálfara með námskeiðum ásamt því að vera til staðar þegar á þarf að halda að mati afrekssjóðs, en honum verði heimilt að styrkja viðkomandi sérfræðinga til að sækja námskeið um nýjustu aðferðir íþróttavísinda. Með teyminu gefst íþróttamönnum jafnframt tækifæri á að leita eftir aðstoð til færustu sérfræðinga sem völ er á t.d. við meiðslum, sálfræðiaðstoð og þjálfunaraðferðum. . 2. Fjárstyrkir afrekssjóðs ÍSÍ, sem fyrst og fremst skal veita til ákveðinna verkefna, sem eru fyrirfram skilgreind og kostnaðaráætluð. Er þá t.d. átt við styrki til þátttöku í keppni, æfingabúðum, til ráðningu landsliðsþjálfara hjá minnstu sérsamböndum, til að bæta umhverfi og aðstöðu „afreksmanna”, til verkefna er lúta að því að leita uppi íþróttaefni. Styrkir til einstaklinga skulu taka mið af íþróttalegri þörf þeirra og félagslegum aðstæðum. Um afrekssjóð gildi sérstök reglugerð er stjórn ÍSÍ setur og skal í meginatriðum byggja á núgildandi reglugerð um Afreksmannasjóð ÍSÍ. Afrekssjóðurinn skal standa að uppbyggingu afreksíþrótta á Íslandi með því að styðja íslenska íþróttamenn og sérsambönd við að ná sem bestum árangri í alþjóðlegri keppni. Forsenda styrkveitinga er að sérsambönd hafi markvissa og raunhæfa afreksstefnu. Stuðningurinn felst í fjárframlögum, bættri menntun þjálfara og ýmiskonar tæknilegri aðstoð. Þannig verður afrekssjóður sérsamböndum til aðstoðar við að efla og bæta íþróttastarf sitt. Allar greinar sem viðurkenndar eru af ÍSÍ eiga rétt á að sækja um í sjóðinn að því tilskyldu að greinin sé aðili að alþjóðasérsambandi og að innan viðkomandi alþjóðasérsambands sé a.m.k. 60 aðildarþjóðir (kanna þetta betur hjá IOC) . Greinargerð Vinnuhópurinn leggur til að starfssvið núverandi Afreksmannasjóðs verði útvíkkað og einnig heimildir til afreksíþróttastarfs. Jafnframt er eðlilegt að breyta nafni sjóðsins t.d. í Afrekssjóð. Í þessu felst að viðurkennt er mikilvægi þess afreksstarfs sem sem fram fer í þeim sérsamböndum sem reka afreksstefnu, þó svo að afreksmenn eða landslið sérsambandsins séu ekki á heimsmælikvarða. Samkvæmt núverandi skilgreiningu Afreksmannasjóðs er málum ekki þannig háttað. Sem dæmi má nefna að íþróttamenn í fremstu röð í sinni íþróttagrein á Íslandi, hvort sem er í einstaklings- eða flokkaíþróttum, eru ekki afreksmenn samkvæmt núverandi skilgreiningu. Sérsambönd - Umsóknir Vinnuhópurinn telur eðlilegt að sérsambönd og/eða sérgreinanefndir ÍSÍ sem sækja um styrk í afrekssjóð þurfi að uppfylla ákveðnar kröfur sem Afrekssjóðurinn gerir. Sérsambönd skulu leggja til grundvallar umsókn sinni stefnu sína í afreksmálum til a.m.k. tveggja ára. Afreksstefna þessi skal vera nákvæm frá mánuði til mánaðar að lokatakmarkinu. Lokatakmarkið skal vera skilgreint. Fram þarf að koma hvaða þjálfarar vinna verkið, leggja ber fram ráðningarsamning við þá, upplýsingar um menntun þeirra og fyrri störf.

34


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Með umsókn skal skila fjárhagsáætlun þar sem fram kemur hver útgjöldin eru og hvaða tekjur koma á móti. Sérsambönd skulu leggja fram rökstutt mat á hversu raunhæft sé að markmið afreksstefnunnar náist og tilgreina þá forystumenn sem eru ábyrgir fyrir að stefnunni sé framfylgt. Tilgangurinn með þessu er að fá sérsambönd til að setja sér afreksstefnu og hvetja þau til að finna fylgja henni eftir. Sé ekki um markvissa afreksstefnu að ræða þá er tilgangslaust að veita styrki. Ef ekki er um hæfa þjálfara að ræða til að framfylgja afreksstefnunni gildir það sama. Sjái sérsamband enga möguleika á eigin fjáröflun getur Afrekssjóður ekki einn séð um fjármögnunina. Gera verður þá kröfu til sérsambanda að þau fjármagni hluta afreksstefnunnar sjálf. Þannig má gera ráð fyrir að hún verði raunhæf og að sérsambönd sníði sér stakk eftir vexti. Í þessu sambandi er athugandi hvort Afrekssjóður ætti að setja sér þá vinnureglu að sérsamband beri ákveðið hlutfall af kostnaði vegna viðkomandi verkefnis. Mikilvægt er að fram komi yfirlit yfir styrki frá alþjóðasérsamböndum eða mótshöldurum við einstök verkefni því séu slíkir styrkir fyrir hendi þá minnkar þörf sambandsins á aðstoð frá Afrekssjóði. Ef allur kostnaður vegna þátttöku í mótum er greiddur af mótshöldurum, kemur ekki framlag úr Afrekssjóði. Eigin fjáröflun sérsambands, innanlands sem utan, má þó ekki koma alfarið í veg fyrir styrk úr Afrekssjóði. Slíkt gæti hæglega verkað letjandi á viðkomandi sérsamband. Styrkveitingar til flokkaíþrótta Vinnuhópurinn telur eðlilegt að möguleikar sérsambanda á sviði flokkaíþrótta til styrkveitinga verði rýmkaðir. Úthlutun Afrekssjóðs grundvallaðist á því hvort sjóðurinn mæti viðkomandi verkefni styrkhæft samkvæmt reglum sjóðsins og að teknu tilliti til afreksstefnu viðkomandi sérsambands. Eðlilegt er að flokkur/lið verði styrkhæft nái það stórstígum framförum. Auk afrekshópa ber að athuga hvort ekki sé rétt er að veita styrki til ungra og efnilegra íþróttahópa og vegna þróunarstarfs, leyfi fjárhagsleg staða sjóðsins slíkt. Styrkveitingar til einstakra íþróttamanna Vinnuhópurinn telur að viðmiðanir Afreksmannasjóðs hafi verið skynsamlegar og áfram sé eðlilegt að styrkja íþróttamenn sem skipað hafa sér meðal 40 bestu íþróttamanna í heiminum. Sjálfasagt er að Afrekssjóði sé heimilt að styrkja viðkomandi íþróttamann í allt að 12 mánuði hinsvegar telur vinnuhópurinn af farið sé inn á nýjar brautir og tekið verði mið af framfærslukostnaði viðkomandi íþróttamanns svo og íþróttalegri þörf. Í því sambandi mætti hafa til hliðsjónar framfærslukostnað eins og hann er reiknaður út hjá Lánasjóði ísl. námsmanna hverju sinni. Það er t.d. mikill munur á að vera frjálsíþróttamaður í fremstu röð, 30 ára með tvö til þrjú börn á framfæri eða að vera fimleikamaður í fremstu röð, 16 ára í skóla og búa í foreldrahúsum. Í þessu felst að einstakir íþróttamenn hljóta mismundandi háa styrki úr sjóðnum Vinnuhópurinn telur sjálfsagt að Afrekssjóður styrki sérsamband til að standa straum af kostnaði vegna þjálfara viðkomandi íþróttamanns, keppnisferða þeirra sem og annan kostnað sem stjórnin viðurkennir og fram kemur í áætlun sérsambandsins, að frádregnum þeim tekjum sem viðkomandi sérsamband eða íþróttamaður hefur vegna keppni eða keppnisferða. Æskilegt er að viðkomandi þjálfari sé þjálfari hjá sérsambandinu og hafa þar ákveðnum skyldum að gegna. Með þessu er gert ráð fyrir

35


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð að sérsamband fái styrk vegna þjálfara viðkomandi íþróttamanns sem og nauðsynlegra ferðalaga. Markmiðið með að sérsambandið greiði þjálfaranum laun er að þá er auðveldara fyrir það að nýta starfskrafta viðkomandi þjálfara m.a. til námskeiðahalds, þjálfunar annarra íþróttamanna osfrv. Allar tekjur sem viðkomandi íþróttamaður vinnur sér inn í keppni skulu renna óskiptar til hans. Honum er þó skylt að gera sjóðnum grein fyrir þeim tekjum sem hann hefur unnið til á meðan hann er á styrk hjá sjóðnum. Eðlilegt er að Afrekssjóður taki tillit til tekna sem viðkomandi íþróttamaður hefur unnið sér inn á árinu á undan við næstu úthlutun til lækkunnar eða hækkunnar. Komi íþróttamaður til dæmis með að vinna sér inn háar fjárhæðir vegna íþróttaiðkunar sinnar er eðlilegt að Afrekssjóður dragi úr styrkveitingum sínum eða felli þær alveg niður um tíma við næstu úthlutun. Telja verður eðlilegt að þegar íþróttamaður er á styrk frá Afrekssjóði er honum óheimilt að semja við aðra styrktaraðila nema að fengnu leyfi afrekssjóðs og viðkomandi sérsambands, enda renni hluti viðkomandi styrks til íþróttastarfsins. Eðlilegt má teljast að þegar íþróttamaður er á styrk hjá Afrekssjóði að hann hafi ákveðnum skyldum að gegna gangvart sérsambandi sínu og íþróttahreyfingunni og skulu sérstök ákvæði þar að lútandi koma fram í samningi við hann og samband hans er gerður. Þjálfarar Til þess að efla þjálfunarþekkinguna bæði innan einstakra íþrótta og þvert á íþróttastarfið kann að vera skynsamlegt að Afrekssjóður geti styrkt þjálfara sem eru að þjálfa íþróttamenn í fremstu röð og landslið í viðkomandi grein til að auka við og bæta menntun sína. Einnig þjálfara sérsambands í íþróttagrein sem er að fara af stað með afreksstefnu. Gegn slíkum styrkveitingum skuldbindi þjálfarar sig til að halda námskeið fyrir aðra þjálfara í viðkomandi grein, helst innan sex mánaða frá styrkveitingu. Sjóðurinn á endurkröfurétt á styrk fari námskeiðin ekki fram. Starfsmaður - Eftirlit Ætla má að nauðsynlegt verði að sérstakur starfsmaður sinni verkefnum þeim sem Afrekssjóðnum eru falin. Slíkur starfsmaður þarf að geta fylgst með hvort afreksstefna einstakra sérsambanda sé framkvæmd og geta lagt mat á hana. Þannig auðveldar hann sjóðstjórninni starfið. Hann þarf einnig að hafa yfirlit yfir starfsemi sérsambanda almennt og vera þeim til ráðuneytis í afreksmálum. Ennfremur þarf hann að vera sérsamböndum sem ekki eru með afreksstefnu innan handar um að setja sér afreksstefnu. Starfsmaðurinn hafi eftirlit með því að fjárveitingum sé varið til þeirra verkefna sem þeim var úthlutað til, fari yfir fylgiskjöl og hafi virkt eftirlit með tekjum og gjöldum sérsambands og íþróttamanna vegna viðkomandi verkefna. Hann hafi tengsl við sérfræðinga sjóðsins og hafi milligöngu milli þeirra og sérsambanda. Umræður: Geir Þorsteinsson, KSÍ: Var mjög ánægður með endurskoðun á stefnunni. Sagði að knattspyrnan væri lang vinsælast íþróttgreinin á landinu en KSÍ hefði ekki hlotið styrki í samræmi við starfið. Íþróttahreyfingin hafi ekki getað metið þau afrek sem knattspyrnumenn hafi unnið á síðustu árum og nú síðast A-landslið karla.

36


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Friðrik Á. Ólafsson, ÍBH: Taldi að það væri fljótandi orðalag í stefnuyfirlýsinguni sem illa skildist. Beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að ekki yrði tekið tillti til Lánasjóðs ísl. námsmanna varðandi styrkveitingar til íþróttamanna. Úthlutanir úr honum væru undir fátæktrarmörkum. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til starfsnefndar um afreksstefnu. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 14

Tillaga um skiptingu Lottóhagnaðar Flutningsaðilar: Stjórn Íþróttabandalags Akureyrar, Stjórn Íþróttabandalags Hafnarfjarðar og Stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur. Frummælandi Reynir Ragnarsson. 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.-26. mars 2000, samþykkir eftirfarandi reglu um skiptingu nettó ágóða frá Íslenskri getspá: 1

Af óskiptum hagnaði fari 8% til Afreksmannasjóðs ÍSÍ. 5% til reksturs ÍSÍ. 17% í útbreiðslustyrk.

2

Af því sem þá er eftir þ.e. 70% fari 55% til héraðssambanda og íþróttabandalaga. 45% til sérsambanda.

3

Hluta héraðssambandanna verði skipt þannig: 12% jafnt óháð stærð þeirra. 88% eftir íbúafjölda 1. desember næstliðins árs með þeirri leiðréttingu að hlutur héraðssambanda með aðild að UMFÍ verði lækkaður um 85% vegna aðildar bæði að UMFÍ og ÍSÍ. Framkvæmdastjórn ÍSÍ úthlutar þessari skerðingu þannig: Til íþróttabandalaga sem ekki eiga aðild að UMFÍ 70%, miðað við íbúatölu sbr. að ofan. Til Afreksmannasjóðs ÍSÍ 10%. Til sérsambanda innan ÍSÍ 20%.

4

Hluta sérsambanda verði skipt þannig: 15% jafnt óháð stærð þeirra 85% miðað við iðkendatölur skv. innsendum starfsskýrslum liðins árs.

Greinargerð: Tillaga þessi er lögð fram til að ná fram leiðréttingu á því misræmi sem verið hefur á úthlutun fjármuna frá Íslenskri getspá. Þetta misræmi hefur einkum legið í því að þau héraðssambönd sem eru meðlimir bæði í ÍSÍ og UMFÍ hafa fengið úthlutun á þessum fjármunum frá báðum sambandsaðilum. Þetta hefur orðið til þess að þau íþróttabandalög sem ekki eru í UMFÍ hafa fengið verulega lægri fjárhæðir frá þessu 37


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð sameiginlega félagi íþróttahreyfingarinnar. Þar sem umræða er um að sameina íþróttahéruð er vert að huga að því að komið gæti upp staða sem er óviðunnandi, þ.e.a.s. að lítið félag sem er bæði aðili að UMFÍ og ÍSÍ fengi miklu meira fjármagn á hvern iðkanda heldur en stórt félag sem aðeins er aðili að ÍSÍ. Þá hefur því fé sem runnið hefur til úthlutunar hjá UMFÍ ekki verið á neinn hátt ráðstafað til sameiginlegra sjóða íþróttahreyfingarinnar s.s. í Afreksmannasjóð auk þess sem engin úthlutun hefur farið til sérsambanda. Þau eru mikilvægur hlekkur í öllu íþróttastarfi s.s. vegna afreksíþrótta, keppnishalds og útbreiðslustarfs sem kemur allri hreyfingunni til góða. Á meðfylgjandi töflu sést glögglega hve þetta misræmi er mikið, þannig að ekki verður lengur við unað. Á undanförnum árum hefur verið skerðing á þessum úthlutunum frá Íslenskri getspá, sem nemur 22%. Ljóst er að sú skerðing hefur hvergi verið næg, auk þess sem við hana var ekki gert ráð fyrir framlögum til Afreksmannasjóðs né til sérsambanda. Tillaga þessi er því einnig til að leiðrétta þetta. Umræður: Valdimar Leó Friðriksson, UMSK: Lýsti yfir óánægju með það að töflurnar sem vísað væri til í tillögunni hefðu ekki fylgt með þegar tillögurnar voru sendar út. Taldi að verið væri að blekkja sérsamböndin með þessari tillögu. Taldi einnig að með þessari tillögu væri um siðferðilega valdníðslu að ræða gagnvart héraðssamböndunum. Taldi að tillagan væri komin fram sem hefndarráðstöfun þar sem UMFÍ samþykkti ekki inngöngu ÍBR í UMFÍ sl. haust. Ítrekaði óánægju sína með þessa tillögu og þann formgalla sem væri á henni. Gunnar Sveinsson USVH: Leiðrétti íbúatölu síns héraðs frá því sem kom fram í töflum ÍBR. Einar Haraldsson, ÍRB: Leiðrétti tölulegar upplýsingar fyrir sitt hérað. Benti á að grundvöllur fyrir starfi félaga í héraði væri brostin ef þessi tillaga yrði samþykkt. Grímur Valdimarsson, ÍBR: Benti á það sem fimleikadeild innan Ármanns mundi fá við þessa breytingu. Valdimar Leó Friðriksson, UMSK: Lagði til að tillögunni yrði vísað frá. Þingforseti gerði stutt fundarhlé. Þingforseti gerði grein fyrir því að Valdimar Leó Friðriksson hefði dregið frávísunartillöguna til baka. Sagði að komin væri sátt um að málið yrði leyst innan nefndar. Ingibjörg Jóhannesdóttir,UMSK: Taldi að tillagan væri illa unnin. Gerði athugasemdir við fundarsköp og fundarstjórn. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Fjárhagsnefndar. Samþykkt samhljóða.

38


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Þingskjal 15

Ályktun um eflingu almenningsíþrótta Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ, Frummælandi, Ellert B. Schram 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið á Akureyri dagana 24.-26. mars 2000, er sammmála þeirri skoðun að eitt af lykilhlutverkum íþróttahreyfingarinnar í landinu sé að efla þátttöku almennings í íþróttaiðkun og líkamsrækt hverskonar. Í því skyni beinir þingið þeim tilmælum til íþróttabandalaga og héraðssambanda að skipa formlegar nefndir á sínum vegum um almenningsíþróttir og vinna sömuleiðis að því að almenningsíþróttastarf verði í auknum mæli tekið upp á starfsskrá einstakra íþróttafélaga. Slíkar almenningsíþróttanefndir eigi síðan aðild að samtökunum Íþróttir fyrir alla. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Allsherjarnefndar. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 16

Ályktun um tölvumál íþróttahreyfingarinnar Flutningsaðili:

Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi Örn Andrésson.

2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24. - 26. mars 2000, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að endurskoða stefnu íþróttahreyfingarinnar í tölvumálum með það að markmiði að auðvelda aðgengi og notkun á skráningarkerfum og bókhaldi fyrir forystumenn íþróttahreyfingarinnar. Greinargerð: Mjög ör þróun hefur átt sér stað í tölvumálum íþróttahreyfingarinnar, sem og annars staðar í þjóðfélaginu. Þáttaskil urðu í tölvumálum árið 1994 þegar ÍSÍ tók SportFjölni í notkun. Vegna hinna öru breytinga varð sá hugbúnaður fljótt úr leik varðandi nýjar lausnir og kröfur um hraða og skilvirkni. Þannig hefur Sport-Fjölnir ekki staðist tímanns tönn. Notkun á ýmsum hugbúnaði til að auðvelda forystumönnum skipulagningu og umsjón móta, skráningar og bókhalds hefur aukist gífurlega á mjög stuttum tíma. Ljóst er að íþróttahreyfingin verður að bregðast við þessari þróun. Internetið gegnir sífellt stærra hlutverki í daglegri starfsemi íþróttahreyfingarinnar. Kostnaður hreyfingarinnar vegna tölvumála fer sívaxandi og finna verður leiðir til að lágmarka hann svo að flestir geti nýtt sér kosti tölvutækninnar. Lagt er til að skráning félagsmanna, iðkenda og keppenda, ásamt bókhaldi, verði sett á Internetið og ÍSÍ sjái um kostnað þar að lútandi. Þar með gætu sambandsaðilar átt sín afmörkuðu svæði inn á slíku kerfi þar sem þeir gætu haldið utan um skráningarkerfi sín og bókhald. Kostnaður og þjónusta við slíkt kerfi yrði miðlæg, þ.e. hjá ÍSÍ. Með þessu mætti spara umtalsverða fjármuni fyrir íþróttahreyfinguna í heild. Ljóst er jafnframt að hugsanlega mætti minnka kostnað ÍSÍ af slíkri þjónustu með sölu upplýsinga og úrslita. Jafnframt því sem að bókhald og skráning yrði gerð miðlæg yrði að gera þá kröfu að kostnaður vegna mótakerfa sérsambanda legðist á þau sjálf. 39


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Aðeins 6 sérsambönd af 22 létu hanna fyrir sig sérstakt mótakerfi í Sport-Fjölni því staðreyndin er sú að þörf sérsambanda fyrir sérstök mótakerfi er afar mismunandi og því ekki talið eðlilegt að kostnaður vegna mótakerfa falli á heildarhreyfinguna. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Allsherjarnefndar. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 17

Ályktun um aukna fjárstyrki frá Alþingi til íþróttahreyfingarinnar. Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi Valdimar L. Friðriksson 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.-26. mars 2000, leggur áherslu á að framlög ríkisvaldsins til íþróttahreyfingarinnar verði stóraukin frá því sem nú er. Þingið felur framkvæmdastjórn ÍSÍ og sérsamböndum að móta aðgerðar- og áhersluáætlun um þetta mikilvæga málefni. Greinargerð: Íþróttahreyfingin stendur fyrir gífurlega þróttmiklu starfi í íslensku samfélagi þar sem forvarnar-, æskulýðs- og uppbyggingarstarf er í aðalhlutverki hinna mörgþúsunda sjálfboðaliða sem starfa fyrir hreyfinguna. Íþróttahreyfingin leggur áherslu á að starfsemi hennar sé viðurkennd með auknu framlagi frá Alþingi sem nýtist ÍSÍ og sérsamböndunum. Sérsamböndin hafa þurft að axla ábyrgð á víðtæku sviði, bæði hvað varðar uppbyggingu afreksstarfs, umsjón og skipulag mótastarfsemi, aukin erlend samskipti svo og útbreiðslu viðkomandi séríþrótta á landsvísu. Á sama tíma og sveitarfélög hafa, sem betur fer, aukið nokkuð styrki sína til íþrótta- og ungmennafélaga, hafa sérsamböndin orðið útundan í fjárveitingum, bæði hvað varðar fjárframlag frá Alþingi og fjárframlag frá sveitarfélögum. Í þessu sambandi er rétt að leggja áherslu á samstöðukraft íþróttahreyfingarinnar. Ljóst er, að aðeins með samstilltu átaki hreyfingarinnar allrar verður hægt að fá fram leiðréttingu á framlögum ríkisvaldsins til íþróttahreyfingarinnar. Íþróttahreyfingin er fullviss um að vilji er fyrir því hjá hinu háa Alþingi að íslenskir afreksmenn, bæði í einstaklingsíþróttum sem og í hópíþróttum nái árangri á erlendri grundu og haldi áfram að kynna land og þjóð með afrekum sínum. Í ljósi þess er ofangreind tillaga lögð fram á æðstu samkomu íslenskrar íþróttahreyfingar. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Fjárhagsnefndar. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 18

Nýir Heiðursfélagar ÍSÍ Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi, Ellert B. Schram. 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.-26. mars 2000, samþykkir að kjósa eftirfarandi einstaklinga Heiðursfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands fyrir frábær störf í forystu íslenskrar íþróttahreyfingar:

40


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Rafn Hjaltalín Akureyri Harald Helgason Akureyri Harald M. Sigurðsson Akureyri Harald Sigurðsson Akureyri Sigurð Magnússon Reykjavík Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Allsherjarnefndar. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 19

Ályktun um þjálfaramenntun Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi, Sigríður Jónsdóttir. 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.– 26. mars 2000, felur framkvæmdastjórn ÍSÍ að kynna vel uppbyggingu nýs áfangaskipts fræðslukerfis sem samræmt er fyrir allar íþróttagreinar. Þar með talið skilgreiningar um það hvers konar þjálfaramenntun sé fullnægjandi og viðeigandi til að stunda þjálfarastörf fyrir hvern aldurshóp. Greinargerð: Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti á fundi í ágúst ´99 að hrinda í framkvæmd nýrri stefnu í þjálfaramenntun sem samþykkt var á þinginu á Akranesi ´96. Þjálfaramenntun ÍSÍ er nú áfangaskipt fræðslukerfi í fimm þrepum þar sem skilgreindar eru kröfur um menntun fyrir ákveðna markhópa. Þetta kerfi er samræmt fyrir allar íþróttagreinar. Menntun á fyrstu þrem þrepunum er innan íþróttahreyfingarinnar. Þjálfarastig 4 og 5 eru háskólamenntun. Fyrstu þrjú þrepin eru hvert um sig 120 kennslustundir að lengd og skipt niður í 20 stunda afmarkaðar einingar. Ýmist eru þessar einingar almennar og í umsjón ÍSÍ eða sérhæfðar í umsjón sérsambands. Fræðslukerfið er í samræmi við samræmdar kröfur sem settar hafa verið fram af “Network of Sport Scieneces in Higher Education” (ENSSHE). Jafnframt hafa samtök frjálsra íþróttasamtaka í Evrópu (ENGSO) samþykkt að leggja beri aukna áherslu á menntun þjálfara, leiðbeinenda og leiðtoga fyrir íþróttastarf barna- og unglinga. Skilgreining á hæfniskröfum til þjálfara og leiðbeinenda fyrir mismunandi markhópa er eftirfarandi: Þjálfarastig Námskeið Réttindi Þjálfari 1-a Almennur hluti 20 kennslustundir Aðstoðarmaður eða leiðbeinandi Sérgreinahluti 20 kennslustundir hjá íþóttaskóla eða yngstu flokkum. Þjálfari 1-b

Almennur hluti 20 kennslustundir Þjálfari hjá yngstu flokkum að 12 ára Sérgreinahluti 20 kennslustundir aldri, undir eftirliti yfirþjálfara.

Þjálfari 1-c

Almennur hluti 20 kennslustundir Þjálfari hjá yngstu flokkum að 12 ára Sérgreinahluti 20 kennslustundir aldri.

Þjálfari 2-a

Almennur hluti 20 kennslustudir Sérgreinahluti 20 kennslustundir Sérgreinahluti 20 kennslustundir Sérgreinahluti 20 kennslustundir Almennur hluti 20 kennslustundir Sérgreinahluti 20 kennslustundir

Þjálfari 2-b Þjálfari 2-c Þjálfari 3

Þjálfari yngri flokka að 14 ára aldri Þjálfari yngri flokka að 16 ára aldri Þjálfari elstu unglinga og fullorðinsflokka

Almennur hluti 40 kennslustundir Afreksþjálfun elstu unglinga og Sérgreinahluti 80 kennslustundir fullorðinna. Yfirþjálfari félags.

41


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Umræður: Lúðvík Georgsson, KSÍ: Sagði að svo virtist, ef KSÍ gengist undir þessa tillögu, að KSÍ væri að færast fjær þeim kröfum sem Evrópska Knattspyrnsambandið gerði um samræmda þjálfaramenntun. Sagði hann að KSÍ muni skoða málið á næstu vikum og taka afstöðu í framhaldi af því. Sigríður Jónsdóttir: Taldi að við værum öll sammála um að menntun þjálfara væri mikilvæg. Með þessu værum við að móta atvinnutækifæri fyrir börn og unglinga framtíðarinnar. Foreldrar geri í dag auknar kröfur um menntun þjálfara. ENGSO hefur samþykkt auknar kröfur um þjálfaramenntun. Sagði að tillagan væri sett fram í fullu samræmi við KSÍ. Taldi mikilvægt að við stæðum einhuga saman um það að þjálfarar hefðu tilskylda menntun. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Allsherjarnefndar. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 20

Tillaga vegna viðurkenningar til fyrirmyndarfélaga/deilda: Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi Ingólfur Freysson. 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24. – 26. mars 2000, samþykkir að framkvæmdastjórn ÍSÍ veiti þeim félögum/deildum sem standa vel að barna- og unglingastarfi viðurkenningu sem FYRIRMYNDARFÉLAG - FYRIRMYNDARDEILD, að undangenginni umsókn og uppfylltum kröfum sem ÍSÍ setur fram og samþykktar eru á þingi þessu. Greinargerð. Íþróttahreyfingin gerir kröfur til samfélagsins um stuðning, bæði aðgang að mannvirkjum og beinan fjárstuðning. Íþróttahreyfingin vill að litið sé á þennan stuðning sem endurgjald fyrir þjónustu sem hún veitir öllum þegnum samfélagsins. Til þess að slíkar kröfur séu trúverðugar og réttlætanlegar þarf íþróttahreyfingin að sýna það í verki að hún geri raunhæfar kröfur til sjálfrar sín hvað varðar gæði og innihald þess starfs sem hún vinnur. Þetta hefur hún gert með samþykkt stefnuyfirlýsinga um afmarkaða málaflokka, þar sem fram kemur að hvernig starfi sé stefnt. Slíkar stefnuyfirlýsingar hafa m.a. verið samþykktar um barna- og unglingastarf, menntun þjálfara og forvarnastarf. Með því að taka upp viðurkenningu fyrir fyrirmyndar íþróttastarf geta íþróttafélög eða deildir látið gera úttekt á starfsemi sinni eða hluta hennar miðað við þær kröfur sem íþróttahreyfingin gerir. Standist þau þessar kröfur fá þau viðurkenningu á því frá ÍSÍ eða öðrum þar til bærum aðila. Líklegur ávinningur af slíkri viðurkenningu er margvíslegur. Félög og deildir sem hljóta viðurkenningu ættu að eiga auðveldara með að afla sér stuðnings frá sveitarfélögum sínum og öðrum stuðningsaðilum, sem frekar vilja leggja nafn sitt við fyrirmyndarfélög en önnur félög. Lítil félög og deildir geta fengið stuðning frá

42


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð sveitarfélagi til að verða sér úti um viðurkenningu. Stór félög og deildir þurfa ef til vill ekki slíkan stuðning en geta hinsvegar fengið styrk frá sveitarfélagi vegna þess að þau hafa þegar náð í viðurkenninguna. Tími og fjármunir félaganna munu því nýtast betur. Foreldrar munu væntanlega frekar senda börn sín til fyrirmyndarfélaga en annarra félaga. Þetta ætti að verða félögum hvatning til að bæta starf sitt og uppfylla kröfurnar, til að geta fengið viðurkenningu. Afraksturinn verður væntanlega betra íþróttastarf og betri ímynd hreyfingarinnar. Byrjað verður að vinna að viðurkenningum á barna- og unglingastarfi. Í samræmi við skilgreiningar í stefnuyfirlýsingu ÍSÍ um barna- og unglingaíþróttir er hér átt við að börn séu allir til og með 12 ára og unglingar séu allir 13-19 ára. Gerðar verði kröfur til eftirtalinna starfsþátta: 1) 2) 3) 4) 5) 6) 7) 8) 9)

Skipulag félags eða deildar Umgjörð þjálfunar og keppni Fjármálastjórnun Þjálfaramenntun Félagsstarf Foreldrastarf Fræðslu- og forvarnarstarf Jafnréttismál Umhverfismál

1) Skipulag félags eða deildar Skipurit Miðað við þær kröfur sem gerðar eru til íþróttahreyfingarinnar í dag verður skipurit að vera til staðar. Það þarf að vera lifandi og geta tekið breytingum út frá aðstæðum hverju sinni. Skipurit er nauðsynlegt til að gera grein fyrir uppbyggingu félagsins og eins til að tryggja að upplýsingaflæði á milli aðila fari réttar boðleiðir. Skipurit þarf að vera einfalt og ábyrgðarmörk skýr. Markmið Markmið félags/deildar þurfa að vera skýr og mælanleg. Ekki er nóg að vísa í markmið félagsins í lögum þess til að fá gæðaviðurkenningu. Markmiðin þurfa að vera þrenns konar: • félagsleg • íþróttaleg • fjármálaleg Markmiðin þurfa að vera hinum almenna félagsmanni sýnileg og leiðir að þeim skýrar. Unga fólkið hafi áhrif. Unga fólkið á rétt á því að eiga fulltrúa/áheyrnaraðila í stjórnum félaga líkt og er í framhaldsskólum landsins og á unglingastigum grunnskólans. Þar eiga nemendur rétt á því að skipa fulltrúa í ýmis konar ráð innan skólakerfisins. Kröfur: • Félagið/deildin þarf að hafa skipurit til staðar. • Félagið/deildin þarf að hafa skýr markmið • Félagið/deildin þarf að sjá til þess að ungt fólk geti haft áhrif.

43


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

2) Umgjörð þjálfunar og keppni Starfað sé í samræmi við stefnuyfirlýsingu ÍSÍ um íþróttir barna og unglinga. Fjölþættar æfingar - sérhæfing síðar Hér er átt við fjölbreytta hreyfingu sem miðar að því að efla hreyfiþroska og bæta samhæfingu iðkenda og nýtist iðkendum í þeirri grein sem þeir hafa valið sér eða munu síðar velja sér. Víða er þegar starfað í þessum anda. Skíðaráð Akureyrar er t.d. með sína krakka í sundi, júdó, útihlaupum á þeim árstímum sem ekki gefur til skíðamennsku, en á skíðum á veturna, þegar snjóa gefur. Æskilegt er að þjálfarar skipuleggi þjálfunina á þessum nótum og varist að hafa hana of einhæfa. Íþróttaskóli á að vera viðbót við sérgreinaæfingar en ekki koma í stað þeirra. Æskilegt er að íþróttaskóli sé valmöguleiki fyrir þau börn sem ekki vilja velja sér sérgrein strax. Einnig að þeir sem væru í íþróttaskóla geti, að einhverju leyti, valið sér grein eða greinar sem þeir hafa mestan áhuga á. Keppni Árangri má ná í keppni þó ekki sé endilega verið að mæla hver sé fljótastur heldur t.d. hver gerði ákveðna æfingu tæknilega rétt/réttast. Eftir því sem færnin eykst og aldurinn hækkar færist áherslan meira yfir í að mæla tíma, lengdir, hæðir og síðar kemur svo áherslan á að vera fyrstur/bestur. Gæta verður þess að allir iðkendur fái tækifæri til að taka þátt í keppni án tillits til getu. Skapa verður þessum iðkendum verkefni við hæfi. Mismunandi tilboð eftir áhuga - fleiri þátttakendur. Íþróttafélög og deildir ættu að hvetja börn og unglinga til að stunda fleiri en eina íþróttagrein og hafa samvinnu sín á milli um að skapa þeim tækifæri til þess. Samvinnan gæti falist í samræmingu þjálfunar, æfingagjalda m.a. Brottfall á sér oft stað vegna of mikilla krafna um mætingu. Fullorðið fólk myndi ekki láta bjóða sér að vera skyldað til að mæta fimm sinnum í viku í líkamsrækt ef það hefði ekki áhuga á því sjálft. Þessu er eins farið með unglingana. Þau vilja vera með á eigin forsendum. Sumir stefna að því að verða afreksmenn og mæta á allar æfingar sem í boði eru á meðan aðrir vilja vera með félögunum í sínu félagi tvisvar í viku. Verðlaun Miða skal við að í keppni yngstu barna fái allir jafna viðurkenningu. Kennslu- og æfingaskrá Félag/deild leggi fram kennslu- og æfingaskrá þar sem fram koma markmið þjálfunar í hverjum aldursflokki fyrir sig. Kröfur: • Félagið/deildin þarf að starfa í samræmi við stefnuyfirlýsingu ÍSÍ • Félagið/deildin þarf að leggja fram kennslu- og æfingaskrá og fylgja henni 3) Fjármálastjórnun ÍSÍ hefur sett reglur um aðskilnað fjárreiðna yngri og eldri iðkenda. Slíkt kostar vissulega meiri vinnu en hjálpar félögunum gagnvart sveitarfélögum, þ.e. auðveldar

44


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð þeim að sýna fram á kostnað við barna- og unglingastarf og fara fram á styrki til þess. Fjárhagsáætlun næsta árs fylgi ávallt reikningum fyrra árs. Félög/deildir þurfa að efla virkt eftirlit með fjármunum sínum. Aðalstjórn ber ábyrgð á fjármálum deilda. Laun þjálfara verði samræmd og miðist við menntun og reynslu. Laun þjálfara séu þau sömu miðað við menntun hvort sem viðkomandi þjálfar stúlkur eða drengi. Þjálfarar séu launþegar en ekki verktakar, ekki síst með tilliti til tryggingamála og spurninga um ábyrgð í því tilliti. Kröfur: • Félagið/deildin þarf að skilja að bókhald yngri og eldri flokka. • Félagið/deildin þarf að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir hvert rekstrarár. • Félagið/deildin þarf að samræma laun þjálfara. • Félagið/deildin þarf að ráða þjálfara sem launþega. 4) Þjálfaramenntun Kröfur samfélagsins til þjálfunar barna og unglinga eru sífellt að aukast og því þurfa kröfur til menntunar þjálfara að vera miklar. Til að vinna gegn brottfalli og virkja fleiri þátttakendur, þarf íþróttahreyfingin að geta státað af hæfum og vel menntuðum þjálfurum barna og unglinga. Þjálfarar yngstu barna þurfa að hafa lágmarksmenntun samkvæmt kröfum ÍSÍ um menntun þjálfara. Fjöldi þátttakenda á æfingum er oft á tíðum alltof mikill. Skilgreina þarf hámarksfjölda iðkenda á hvern leiðbeinanda og gera kröfur um aðstoðarþjálfara ef hópar eru stærri. Skilgreina þarf kröfur til menntunar aðstoðarþjálfara. Gerðar eru kröfur til félaga/deilda um starfsaðstöðu þjálfara, skipulagningu þjálfaramála, samráðsfundi þjálfara o.fl. Kröfur: • Félagið/deildin þarf að hafa menntaða þjálfara samkvæmt kröfum ÍSÍ um þjálfaramenntun. • Félagið/deildin þarf að sjá til þess að aðstoðarþjálfarar séu til staðar þegar um stóra hópa er að ræða og að þeir hafi viðeigandi menntun. • Félagið/deildin þarf að sjá til þess að skipulagning þjálfaramála, starfsaðstaða þjálfara, samráðsfundir o.fl. þess háttar sé í lagi. 5) Félagsstarf Mikilvægt er að íþróttafélög/deildir bjóði upp á meira en reglubundnar æfingar. Félag þarf að bjóða upp á samverustundir fyrir iðkendurna utan æfinga og keppni og gera áætlun um starfið. Slíkt starf þarf ekki að einskorðast við þann hóp sem æfir saman. Kröfur: Félagið/deildin þarf að leggja fram áætlun um félagsstarf og fylgja henni. 6) Foreldrastarf Ábyrgð foreldraráða annarsvegar og stjórna félags/deildar hinsvegar varðandi rekstur unglingastarfs þarf að vera skilgreind. Ákveða þarf hvort foreldraráðin eigi að vera 45


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð sjálfstæðar einingar eða lúta yfirstjórn stjórnar. Einnig þarf að skilgreina verksvið foreldraráða og finna þeim stað í skipuriti félags/deildar. Kröfur: • Félagið/deildin þarf að skilgreina verksvið foreldraráða. 7) Fræðslu- og forvarnarstarf Mikilvægt er að íþróttahreyfingin sé trúverðug í fræðslu- og forvarnarstarfi. Áfengisog eða tóbaksneysla á ekki að eiga sér stað í tengslum við íþróttastarf, s.s.: • áfengissala í tengslum við íþróttakeppni • áfengisneysla í lokahófum • reykingar og munntóbaksneysla á íþróttasvæðum • áfengisauglýsingar á eða við velli Afreksfólk er fyrirmynd og þarf að haga sér í samræmi við það. Spurningar um siðferði, landslög, skynsemi, gott fordæmi o.fl. vakna. Íþróttafélög/deildir setji sér reglur og/eða marki sér stefnu í forvarnarmálum samkvæmt stefnu ÍSÍ. Félög og deildir fræði börn og unglinga um skaðsemi vímuefna auk þess sem þau fræði sína ungu iðkendur um lyfjamál og bendi þeim á þær hættur sem geta fylgt lyfjanotkun. Kröfur: Félagið/deildin þarf að leggja fram stefnu í fræðslu- og forvarnarmálum og fylgja henni. 8) Jafnréttismál Mikilvægt er að innan félags/deildar sé gætt jafnréttis milli kynja og hópa. Þetta á meðal annars við aðstöðu, fjármagn og þjálfun. Oft eru búningurinn og félagsaðstaðan eini samnefnarinn innan félags/deildar. Ef þetta er reyndin, vaknar sú spurning hvað eigi að gera til þess að ólíkum hópum sé sinnt með sambærilegum hætti? Það hlýtur að verða eitt af viðfangsefnum þeirra sem ætla sér að fá gæðaviðurkenningu ÍSÍ. Félög sýni í bókhaldi hve mikið fé rennur til einstakra hópa. Kröfur: • Félagið/deildin þarf að sinna til jafns kröfum beggja kynja til íþróttaiðkunar s.s. æfingatímar, aðstaða, þjálfarar og fjármagn. • Félagið/deildin þarf að sýna í bókhaldi hve mikið fé rennur til stúlkna og hve mikið til drengja í kynjaskiptum æfingahópum. 9) Umhverfismál Íþróttastarfið þarf að fara fram í sátt við umhverfið. Mikilvægt er að halda umhverfinu hreinu. Fyrir utan jákvæð áhrif á þá sem starfa í íþróttahreyfingunni hefur það líka jákvæð áhrif á sveitarfélög, almenning, styrktaraðila og ríkisvald. Gæðaverkefnið er kjörinn vettvangur til að fá íþróttafélög til að byrja að hugsa um þessi mál. Umhverfisvernd hjá íþróttafélagi er meira en að safna dósum. Félög/deildir þurfa að skoða eigin rann og kanna hvað þau geti gert til að halda sínu umhverfi hreinu.

46


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Kröfur: • Félagið/deildin þarf að sinna umhverfismálum í sínu nánasta umhverfi, marka sér ákveðna stefnu, setja sér markmið og skilgreina leiðir. Viðurkenningarferlið 1. 2. 3. 4.

Félag/deild sækir um viðurkenningu til ÍSÍ. ÍSÍ metur umsókn og fylgiskjöl. a) Félag/deild fær viðurkenningu. b) Félag/deild fær aðstoð til að ná í viðurkenningu og fer í gegnum ákveðið ferli til þess. Viðurkenning er veitt til fjögurra ára og þarf þá að sækja um hana á nýjan leik. Félag/deild sendir hins vegar inn skýrslu árlega. Starfsmenn ÍSÍ fara yfir skýrslurnar og halda uppi nauðsynlegu og reglulegu eftirliti. Lagt er til að starfsskýslur ÍSÍ verði lagaðar að þessu.

Fyrst yrðu valin félög til að fara í gegnum ferlið. Þegar búið væri að slípa vankanta yrði hægt að bjóða fleirum að vera með. Aðalstjórnir fjölgreinafélaga geti ekki sótt um viðurkenningu, aðeins deildir eða sérgreinafélög. Íþróttaskólar eða önnur sérverkefni geta fengið viðurkenningu að því tilskildu um sé að ræða verkefni sem er stöðugt í gangi eða a.m.k. meginhluta ársins. Stutt námskeið eða verkefni í stuttan tíma koma ekki til greina. Öll skjöl, eyðublöð og gátlistar skulu vera eins einföld og kostur er og æskja verður fylgigagna sem nauðsynleg eru til að hægt sé að skoða félagið /deildina nákvæmlega. Út frá þessum gögnum yrði ákveðið hvort félag þyrfti að fara í gegnum vinnuferli eða fengi viðurkenninguna strax. Félag/deild fær rétt til að kalla sig Fyrirmyndarfélag ÍSÍ/Fyrirmyndardeild ÍSÍ. Félag/deild fær að nota ákv. merki á bréfsefni og fleira. Góð kynning á útnefningu er mikilvæg og afhending viðurkenningar þarf að vera með viðhöfn. Með góðri kynningu í samfélaginu væri líka verið að tryggja aðhald að því að félagið/deildin fylgi kröfum. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Allsherjarnefndar. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 21

Ályktun um þátttöku ungs fólks í starfi íþróttahreyfingarinnar Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi, Björg Blöndal. 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24. – 26. mars 2000, samþykkir að efla þátttöku ungs fólks á aldrinum 16 – 25 ára í starfi íþróttahreyfingarinnar.

47


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Greinargerð. Hátt í 80% iðkenda innan íþróttahreyfingarinnar er á aldrinum að 25 ára aldri. Í all flestum tilfellum á þessi hópur engan fulltrúa sem talar máli þeirra innan hreyfingarinnar. Ein af samþykktum stefnuyfirlýsingar um barna- og unglingaíþróttir er sú að íþróttirnar séu lagðar upp frá forsendum unglinganna. Ekki eru allir sem taka stefnuna á toppinn en vilja mjög gjarnan fá að vera með. Til þess að áherslur í starfi félaga/deilda séu í samræmi við óskir/væntingar unga fólksins er mikilvægt að þau eignist fulltrúa í stjórnum félaga. Einnig mætti ná því fram með því að koma á sérstöku unglingaráði innan félaga/deilda. Aukin hlutdeild ungs fólks í leiðtogastörfum tryggir að hugmyndir þeirra, óskir og þarfir komist á framfæri. Einnig ætti það að tryggja að eðlileg endurnýjun á leiðtogum innan hreyfingarinnar eigi sér stað en skortur á leiðtogum er að verða vandamál. Ferskar hugmyndir hinna ungu og reynsla hinna eldri eru góð blanda. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Allsherjarnefndar. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 22

Ályktun um vátryggingar fyrir íþróttahreyfinguna Flutningsaðili : Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi, Ellert B. Schram. 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.- 26. mars 2000, ályktar að fela framkvæmdastjórn að vinna áfram að samningum um hópslysatryggingu fyrir íþróttahreyfinguna. Markmið vátryggingarinnar er að tryggja íþróttafólk vegna alvarlegra slysa sem valda varanlegri örorku og/eða dauðsfalli. Stefnt skal að því að drög að samningi liggi fyrir eigi síðar en í árslok og þau samningsdrög verði kynnt sambandsaðilum til þátttöku. Greinargerð: Framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur að undanförnu, með aðstoð tryggingarráðgjafa, kynnt sér möguleika til að koma á hópslysatryggingu gagnvart öllu því íþróttafólki, sjálfboðaliðum og starfsfólki sem kemur fram fyrir hönd íþróttafélags og verður sannanlega fyrir slysi vegna þeirra athafna sinna. Eftir kynningu málsins á Íþróttaþingi er lagt til að framkvæmdastjórnin vinni áfram að því að leggja fram drög að samningi og leggi slíkt tilboð fyrir sambandsaðila, sem taki þá afstöðu til þess, hvort þeir vilji gerast þátttakendur og aðilar að slíkri hópslysatryggingu fyrir sitt fólk. Stefnt skal að því að þessari vinnu verði lokið fyrir árslok, en allt eins má búast við því að samningsdrög geti legið fyrir mun fyrr. Smári Ríkharðsson, tryggingarráðgjafi gerði grein fyrir úttekt sinni á þessum málum. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Allsherjarnefndar. Samþykkt samhljóða.

48


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Þingskjal 23

Ályktun um íþróttir og tóbaksnotkun Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Frummælandi, Unnur Stefánsdóttir. 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24. – 26. mars 2000, beinir þeim tilmælum til sambandsaðila sinna að þeir hlutist til þess að öll tóbaksnotkun verði bönnuð í íþróttamannvirkjum, á íþróttasvæðum og í félagsheimilum, á þeirra svæði, sem tengjast íþróttastarfi og íþróttahreyfingunni. Greinargerð: Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands samþykkti á íþróttaþingi 1997 stefnuyfirlýsingu um forvarnir og fíkniefni. Framkvæmdastjórn ÍSÍ vill með tillögu þessari ítreka mikilvægi þess að íþróttahreyfingin sé meðvituð um forvarnargildi sitt og hvetur sambandsaðila sína að festa í lög sín ákvæði þar sem tekin er einörð afstaða gegn neyslu tóbaks í íþróttamannvirkjum, og á íþróttasvæðum. Sérstaklega mikilvægt er að tekið verði á tóbaksnotkun (afreks)íþróttafólks og þeim gerð grein fyrir mikilvægu hlutverki sínu sem fyrirmyndir barna og unglinga. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Allsherjarnefndar. Samþykkt samhljóða. Þingskjal 24

Ályktun um endurskoðun á skiptingu landsins í íþróttahéruð Flutningsaðili: Vinnuhópur um skiptingu landsins í íþróttahéruð. Frummælandi, Ellert B. Schram. 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.- 26. febrúar 2000, samþykkir að unnið verði áfram að endurskoðun á skiptingu landsins í íþróttahéruð. Ljóst er að ný kjördæmaskipan, sem nú er í burðarliðnum, sameining margra sveitarfélaga, bættar samgöngur og fjarskipti ásamt með verulegri röskun á búsetu landsmanna, hefur og mun hafa áhrif á umfang og starf einstakra sambandsaðila. Stækkun og sameining ýmissa íþróttabandalaga/héraðssambanda gæti orðið íþróttastarfinu á þeim svæðum til styrktar. Áherslu er lögð á að allar breytingar verði gerðar í fullu samráði við heimamenn og viðkomandi íþróttabandalög/héraðssambönd og tryggt verði að viðkomandi landssvæði og íþróttastarfið þar, gjaldi ekki fyrir breytingar á skipan íþróttahéraða í lægri framlögum útbreiðslustyrkja og lottógreiðslna. Þingið bendir einnig á að ef ÍSÍ getur styrkt rekstur á skrifstofu og starfsmanni fyrir stækkað héraðssamband, mundi það flýta fyrir og hjálpa slíkum samruna. Í millitíðinni telur þingið æskilegt að íþróttabandalög/héraðssambönd í hverjum landsfjórðungi (kjördæmi) taki upp nánari samvinnu og bendir á að nauðsyn ber til að íþróttbandalög/héraðssambönd innan hvers kjördæmis, hafi með sér formleg og regluleg samráð til að gæta sameiginlegra hagsmuna. Þingforseti lagði til að tillögunni yrði vísað til Allsherjarnefndar. Samþykkt samhljóða.

49


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

19. Teknar fyrir tillögur og önnur mál sem lögð hafa verið fyrir þingið og þingmeirihluti leyfir Liðurinn aðrar tillögur lagður niður, engar tillögur höfðu borist. Þingforseti vakti athygli á því að framboð til framkvæmdastjórnar, varastjórnar og dómsstóls ÍSÍ þyrftu að berast kjörnefnd fyrir kl. 9 á laugardagsmorgun. Framboð yrðu kynnt kl. 12.00 á laugardag. Áréttaði þingforseti reglur um framboð. Þingi frestað til kl. 09.00 á laugardag.

Laugardagur 25 . mars 20. Þingnefndir gera grein fyrir störfum sínum Tillögur sem lágu fyrir Laganefnd: Lárus Blöndal formaður Laganefndar gerði grein fyrir álit nefndarinnar á eftirtöldum þingskjölum: • Þingskjal nr. 2, tillaga til lagabreytingar á 8. grein laga ÍSÍ: Nefndin lagði til þá breytingu að aftan við hana bætist svohljóðandi setning: “Við beitingu þessarar greinar skal leitast við að refsingu sé beitt gagnvart þeim aðila, deild, félagi eða sambandi sem ábyrgð bera á því að skýrslu er ekki skilað.” Umræður: Halldór B. Jónsson, KSÍ: Bar fram fyrirspurn úr sæti þess efnis hvort að menn hefðu velt því fyrir sér hvaða áhrif keppnisbönn gætu haft í flokkakeppnum. Lárus Blöndal svarar: Taldi að þetta kæmi til með að virka. Geir Þorsteinsson KSÍ: Taldi það ekki hlutverk íþr.hreyfingarinnar að refsa félögum þegar stjórnarmenn væru ekki að vinna vinnuna sína. Vildi skilja á milli ábyrgðar stjórnenda og iðkun íþróttarinnar. Lagði til að tillagan yrði felld. Stefán Konráðsson: Hvatti þingheim til að samþykkja þessa breytingartillögu. Þingskjal nr. 2 samþykkt með áorðinni breytingu, með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. • Þingskjal nr. 3, tillaga til lagabreytingar á 2. tölulið, 11. greinar laga ÍSÍ: Nefndin hafði engar athugasemdir. Umræður: Hörður Gunnarsson, ÍBR: Benti á að það þyrfti að vera samræmi milli þinghaldsins og hvenær þurfi að skila inn starfsskýrslum. Vildi hafa þingið í apríl -maí. Lárus Blöndal: Sagði að tillagan hefði snúist um reikninga ÍSÍ, því ekki væri fjallað um starfsskýrslur félaga á ÍSÍ - þingum. Reynir Ragnarsson, ÍBR: Lagði til breytingu, þannig að þingið yrði haldið frá 1.mars 1.júní. Lárus Blöndal: Var sammála tillögu Reynis.

50


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Breytingartillaga Reynis borin upp til atkvæða, samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 3, samþykkt með áorðinni breytingu samhljóða. • Þingskjal nr. 4, tillaga til lagabreytingar á e-lið 18. greinar laga ÍSÍ: Nefndin gerði tilllögu til breytinga á orðaskipan e-liður 18.gr. orðist svo: Að fylgjast með störfum sérsambanda og héraðssambanda/íþróttabandalaga. Skal framkvæmdastjórn í þessu skyni: Hafa fullan aðgang að bókhaldi og fylgiskjölum sambandsaðila og ef ástæða þykir til getur framkvæmdastjórn tilnefnt sérstakan endurskoðanda fyrir sérsamband eða héraðssamband/íþróttabandalag og fyrirskipað ítarlega rannsókn á fjárreiðum viðkomandi sambandsaðila. Sambandsaðili getur krafist þess að bókhaldsgögn fari eingöngu um hendur löggilts endurskoðanda. Fylgjast með því að lögum og reglum ÍSÍ og sambandsaðila þess sé hlýtt. Fylgjast með því að þing/aðalfundir sambandsaðila séu haldnir og ef þörf krefur, annast um boðun og framkvæmd þeirra. Úrskurða í deilum á milli sambandsaðila. Umræður: Guðmundur Helgi Þorsteinsson, ÍBR: Vildi hafa lagagreinina eins og hún var. Lagði til að tillagan yrði felld. Stefán Konráðsson: Taldi mikilvægt út á við að hafa tillöguna í lögum ÍSÍ, gagnvart t.d. Ríkisskattstjóra. Lagði til að tillaga yrði samþykkt. Valdimar Leó Friðriksson, UMSK: Lagði til að tillagan yrði felld. Lárus Blöndal: Taldi þetta skipta máli vegna ímyndar íþróttahreyfingarinnar. Eftirlitsnefndin þarf að hafa aðgang að gögnum til að geta framkvæmt eftirlit. Ingibjörg Jóhannesdóttir, UMSK: Fagnaði tillögunni, lagði til að tillagan yrði samþykkt. Eggert Magnússon, KSÍ: Studdi eftirlit með fjárreiðum sambandsaðila. Fannst óþarfi að segja og fyrirskipa “ítarlega” rannsókn. Lagði til að orðið “ítarlega” yrði tekið út. Vildi að ÍSÍ byði öllum samböndum upp á löggilta endurskoðun. Ellert B. Schram: Eftirlitsskyldan hefur verið samþykkt og mun verða áfram, í lögum, hvað sem þessum breytingartillögum lýður. Tilgangur greinarinnar væri að koma í veg fyrir fjárhagsóreiðu sambandsaðila. Lagði til að tillagan yrði samþykkt. Lárus Blöndal: Var ekki sammála því að taka út orðið “ítarlega”. Þingskjal nr. 4, samþykkt með áorðinni breytingu með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða gegn tveimur. •

Þingskjal nr. 10, tillaga til Íþróttaþings. Lög um dómstóla Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands: Lárus Blöndal fór í gegnum þær breytingar sem nefndin lagði til að yrðu gerðar á lögunum. Umræður: Halldór B. Jónsson, KSÍ: Kom fram með athugasemdir við nokkrar greinar: 1.gr.2.mgr., 1.gr.4.mgr., 3.gr., 6.gr., 8.gr.9.mgr., 15.gr.3.mgr., 16.gr., 17.gr.1.mgr.3.tl., 21.gr. Lárus Blöndal: Fór í gegnum athugsemdir Halldórs. Ekki verulegar efnisbreytingar. Lagði til að tillaga yrði samþykkt með breytingu á 15.gr.3.mgr. 51


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Sigríður Jónsdóttir: Bar fram spurningu um 6.gr., “meðalganga”. Hvað þýðir orðið? Hörður Gunnarsson, ÍBR: Kom með breytingartillögu á 17.gr.1.mgr. Var síðan sammála síðasta ræðumanni um 6.gr. Þarfnast frekari skýringa. Gunnar Guðmundsson, ÍBR : Taldi þetta orðið betra "plagg" en áður, en alltaf má gera betur. Meðalganga; lagafrasi, þegar maður ætlar að stefna sér inn í mál sem hann hefur ekki verið aðili að. Lárus Blöndal: Sammála tillögu Harðar varðandi 17.gr.1.mgr. Ellert B. Schram: Dómstólamál hreyfingarinnar hafa verið í ólestri. Mál hafa þvælst milli dómstóla og ýmis vandamál hafa komið upp. Varð til þess að framkvæmdastjórnin fór í að láta endurskoða lögin um dómstólana. Þakkaði Ágústi Sindra Karlssyni, Lárusi Blöndal og nefndarmönnum Laganefndar ÍSÍ og Laganefndar þingsins fyrir vinnu vegna breytinga á lögunum. Breytingartillaga á 17.gr.1.mgr.3.tl., um dómsniðurstöður, samþykkt. Þingskjal nr. 10 samþykkt með áorðnum breytingum samhljóða. • Þingskjal nr. 5, tillaga til lagabreytinga á 12., 13., 18. og 21.gr. laga ÍSÍ: Nefndin lagði til að þær yrði samþykktar óbreyttar. Lagabreytingar á 12., 13. og 18. gr. settar fram v/ nýsamþykktra laga um dómstóla ÍSÍ. Lárus Blöndal: Kom fram með eina leiðréttingu á 5.tl.12.gr. Þingskjal nr. 5 samþykkt samhljóða. • Þingskjal nr. 6, tillaga til lagabreytinga á 3. tölulið 25. greinar laga ÍSÍ: Nefndin lagði fram breytingu á tillögunni. Gerð í samráði við tillöguflytjendur. Í stað "stöðu íþróttafélags innan sérsambands" kemur "eða eftir annari aðferð sem viðkomandi sérsamband ákveður." Þingskjal nr. 6, samþykkt með áorðinni breytingu samhljóða. • Þingskjal nr. 8, tillaga til lagabreytinga á 31. grein laga ÍSÍ: Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt. Þingskjal nr. 8, samþykkt samhljóða. • Þingskjal nr. 9, ákvæði til bráðabirgða við lög ÍSÍ, Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt. Þingskjal nr. 9, samþykkt samhljóða. Þingforseti las upp skeyti til Íþróttaþings frá Þorsteini Einarssyni. “ Herra forseti íþróttaþings. Þakka boð mér til handa sem ég get eigi þegið. Óska þinginu velfarnaðar, verðandi stjórn heilla og þingfulltrúum giftu í störfum.”

52


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

Tillögur sem lágu fyrir Fjárhagsnefnd: Sigurjón Pétursson formaður Fjárhagsnefndar gerði grein fyrir álit nefndarinnar á eftirtöldum þingskjölum: • Þingskjal nr. 11, fjárhagsáætlun ÍSÍ 2000 - 2001: Niðurstaða nefndar að fjárhagsáætlunin verði samþykkt óbreytt, en að ÍSÍ leiti nýrra leiða til að fjárfesta sjóði sína, en þó ekki með mikilli áhættu. Varð umræða í nefndinni um leigu sérsambandanna í Íþróttamiðstöðinni. Lagði nefndin til að framkvæmdastjórn skoðaði markaðsleigu með hugsanlegum styrk á móti. Þingskjal nr. 11, samþykkt samhljóða. • Þingskjal nr. 12, tillaga um reglugerð um Ólympíusjóð Íslands. Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt. Þingskjal nr. 12, samþykkt samhljóða. • Þingskjal nr. 14, tillaga um skipting Lottóhagnaðar: Á fundi Fjárhagsnefndar lögðu fulltrúar eftirtalinna héraðssambanda,UMSB, HSK, UMSK, HSÞ, UNÞ, USÚ, UMSB, HSH, UÍÓ, fram tillögu þess efnis að gera þyrfti úttekt á hagkvæmi þess að sameina ÍSÍ og UMFÍ. Jafnframt lýstu flutningsaðilar lottótillögunar því yfir að yrði þessi tillaga samþykkt myndu þeir draga sína tillögu til baka. Tillögu þessa gerði Fjárhagsnefnd að sinni og er hún svohljóðandi ásamt greinargerð.

Tillaga um úttekt á hagkvæmni þess að sameina ÍSÍ og UMFÍ Flutningsaðili: Fjárhagsnefnd. 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.-26.mars 2000, samþykkir að: fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að gera úttekt á hagkvæmni þess að sameina ÍSÍ og UMFÍ þannig að ein heildarsamtök hafi yfirumsjón með íþróttastarfsemi í landinu. Verði niðurstaða þessarar úttektar sú að sameining þessara samtaka sé hagkvæm, með tilliti til heildarhagsmuna íþróttahreyfingarinnar, skal framkvæmdastjórn ÍSÍ hefja samningaviðræður við stjórn UMFÍ með það að markmiði að hægt verði að leggja fram tillögu til afgreiðslu á næsta þingi UMFÍ og næsta Íþróttaþingi ÍSÍ um sameiningu UMFÍ og ÍSÍ. Greinargerð: Fyrir Íþróttaþingi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, sem haldið er í KA-heimilinu á Akureyri 24.-26. mars 2000, liggur tillaga frá stjórnum Íþróttabandalags Akureyrar, Íþróttabandalags Hafnarfjarðar og Íþróttabandalags Reykjavíkur um skiptingu lottóhagnaðar. Í greinargerð með tillögunni segir að hún sé lögð fram til að ná fram leiðréttingu á því misræmi sem verið hefur á úthlutun fjármuna frá Íslenskri getspá. Ljóst má vera að hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir íþróttabandalögin, héraðssamböndin, sérsamböndin og íþróttafélögin í landinu og því augljóst að erfitt getur verið að ná sátt um málið.

53


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Fjárhagsnefnd telur að vel komi til greina að skoða reglur um skiptingu lottóhagnaðar þar sem haft sé í huga hvaða reglur gilda í dag og hvaða breytingar kunnu að vera sanngjarnar að gera á þessum reglum. Hins vegar liggur fyrir að ef gerðar verða breytingar á þessum reglum þá hefur það veruleg áhrif á fjárhagsstöðu héraðssambanda og íþróttabandalaga. Fjárhagsnefnd telur því nauðsynlegt, áður en þetta mál er tekið til skoðunar, að gerð verði athugun á því hvort hægt sé að ná fram hagræðingu í rekstri íþróttahreyfingarinnar í heild, t.d. með sameiningu ÍSÍ og UMFÍ. Ljóst má vera að ef það er unnt þá kemur það allri hreyfingunni til góða. Í umfjöllun nefndarinnar kom fram þessi tillaga frá fulltrúum eftirtaldra héraðssambanda: UMSB, HSK, UMSK, HSÞ, UNÞ, USÚ, UMSB, HSH, UÍÓ, á þingi ÍSÍ. Tillögur þessa gerir fjárhagsnefnd að sinni. Á fundum nefndarinnar lýstu flutningsaðilar lottótillögunnar því yfir að verði þessi tillaga samþykkt dragi þeir sína tillögu til baka. Enda verði tími fram að næstu þingum UMFÍ og ÍSÍ vel nýttur í þessu máli. Fyrir íþróttaþingi liggur tillaga um aukna fjárstyrki frá Alþingi til íþróttahreyfingarinnar. Þetta er eðlilegt þar sem að íþróttahreyfingin þarf að reiða sig á framlög frá ríkisvaldinu, sveitarfélögum og öflugum fyrirtækjum. Á sama tíma og íþróttahreyfingin er að leita eftir framlögum frá þessum aðilum er nauðsynlegt að sýnt sé í verki að allt sé gert til að rekstur íþróttahreyfingarinnar sé sem hagkvæmastur. Þeir aðilar sem styðja við íþróttahreyfinguna eiga að gera kröfu um að stöðugt sé reynt að finna leiðir til sparnaðar og að ávallt sé hugað að því að að hagkvæmustu kostirnir séu valdir miðað við allar aðstæður. Meðal annars af þessari ástæðu má ÍSÍ ekki skorast undan því að skoða hvort sameining ÍSÍ og UMFÍ sé hagkvæmur kostur. Eflaust eru skiptar skoðanir á því hvort sameina eigi ÍSÍ og UMFÍ. Þrátt fyrir þetta telur Fjárhagsnefnd ekki stætt á öðru en að þessi kostur sé skoðaður af alvöru og að settir séu fram kostir og gallar við slíka ákvörðun. Ekki er á þessu stigi verið að leggja til sameiningu heldur aðeins að málið sé tekið til formlegrar skoðunar og ef sú skoðun leiðir í ljós að skynsamlegt sé að sameina þessi samtök þá verði tillaga um það lögð fyrir næsta UMFÍ þing og ÍSÍ þing. Með vísun til framanritaðs lagði Fjárhagsnefnd því til að framkvæmdastjórn ÍSÍ yrði falið að gera úttekt á hagkvæmni þess að sameina ÍSÍ og UMFÍ og ef slík úttekt gæfi til kynna að veruleg hagkvæmni felist í því að sameina ÍSÍ og UMFÍ skuli framkvæmdastjórn ÍSÍ hefja undirbúningsviðræður við stjórn UMFÍ um málið. Þingskjal nr. 14 samþykkt með áorðinni breytingu samhljóða. • Þingskjal nr. 17, ályktun um aukna fjárstyrki frá Alþingi. Nefndin lagði til að tillaga yrði samþykkt með viðbótarmálsgrein. Á eftir “mikilvæga málefni” kæmi “sem byggð sé á faglegum og tölulegum grunni, þar sem meðal annars komi fram forvarnargildi, sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið, verðmæti sjálfboðaliðastarfs og svo framvegis”. Þingskjal nr. 17 samþykkt með áorðinni breytingu samhljóða.

54


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

Tillögur sem lágu fyrir Allsherjarnefnd: Friðrik Á. Ólafsson formaður Allsherjarnefndar gerði grein fyrir álit nefndarinnar á eftirtöldum þingskjölum: • Þingskjal nr. 1, tillaga að stofnun Dansíþróttasambands Íslands: Nefndin lagði til að tillagan yrði óbreytt að því undanskildu að nafn sérsambandsins yrði tekið út. Breytingartillaga samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 1, samþykkt með áorðinni breytingu samhljóða. • Þingskjal nr. 15, ályktun um eflingu almenningsíþrótta: Nefndin lagði til svohljóðandi breytingu á seinni hluta ályktunarinnar. “Í því skyni beinir þingið þeim tilmælum til sambandsaðila að vinna í auknu mæli að útbreiðslu almenningsíþrótta í samstarfi við almenningssviðs ÍSÍ/ÍFA.” Breytingartillaga samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 15, samþykkt með áorðinni breytingu samhljóða. • Þingskjal nr. 16, ályktun um tölvumál íþróttahreyfingarinnar: Nefndin lagði fram eftrifarandi breytingu á ályktunni: 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24. - 26. mars 2000, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að endurskoða tölvumál íþróttahreyfingarinnar með það að markmiði að tölvukerfið sé aðgengilegt upplýsingakerfi fyrir alla íþróttahreyfinguna. Framkvæmdastjórn ÍSÍ verið falið að leita leiða til að fjármagna uppbyggingu kerfisins. Umræður: Eggert Magnússon KSÍ: Lagði til að “að leita leiða til” yrði tekið út úr ályktunni. Breytingartillaga Eggerts samþykkt. Þingskjal nr. 16 samþykkt með áorðinni breytingu samhljóða. • Þingskjal nr. 18, tillaga að nýjum Heiðursfélögum ÍSÍ: Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt óbreytt. Þingskjal nr. 18 samþykkt samhljóða. • Þingskjal nr. 19, tillaga vegna þjálfaramenntunar: Nefndin lagði til að bætt yrði við orðinu “Lágmarks” þegar talað er um skilgreiningar á hæfniskröfum . Þingskjal nr. 19 samþykkt með áorðinni breytingu samhljóða. • Þingskjal nr. 20, tillaga vegna viðurkenningar til fyrirmyndafélaga/deilda: Nefndin lagði til svohljóðandi breytingartillögu: 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24. – 26. mars 2000, samþykkir að framkvæmdastjórn ÍSÍ veiti þeim félögum/deildum sem standa vel að barna- og unglingastarfi viðurkenningu sem FYRIRMYNDARFÉLAG – FYRIRMYNDARDEILD. 55


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Breytingartillaga samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 20 samþykkt með áorðinni breytingu samhljóða. • Þingskjal nr. 21, tillaga vegna þátttöku ungs fólks: Nefndin lagði til að þingskjalið yrði samþykkt óbreytt. Þingskjal nr. 21 samþykkt samhljóða. • Þingskjal nr. 22, ályktun um vátryggingar fyrir íþróttahreyfinguna: Nefndin lagði til að þingskjalið yrði samþykkt óbreytt. Umræður: Ásgerður Halldórsdóttir bar fram svohljóðandi breytingartillögu: 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.- 26. mars 2000, ályktar að fela framkvæmdastjórn að vinna áfram að samningum um hópslysatryggingu fyrir íþróttahreyfinguna. Markmið vátryggingarinnar er að auka þá vátryggingarvernd sem nú þegar er tryggð íþróttafólki í dag í gegnum Tryggingarstofnun Ríkisins. Ennfremur að vátryggja þá aðila sem ekki njóta bóta samkvæmt skilgreiningu Tryggingarstofnunar Ríkisins. Stefnt skal að því að drög að samningi liggi fyrir eigi síðar en í árslok og þau samningsdrög verði kynnt sambandsaðilum til þátttöku. Ólafur Rafnsson, KKÍ: Tók undir orð Ásgerðar. Birgir Guðjónsson: Tók sömuleiðis undir orð Ásgerðar. Friðrik Á. Ólafsson: Lagði til að breytingartillaga Ásgerðar yrði samþykkt. Geir Þorsteinsson, KSÍ: Studdi tillöguna en taldi að það þyrfi að vinna þetta betur og kanna hvað það muni kosta íþróttafélögin í landinu að tryggja íþróttamenn sína. Breytingartillaga Ásgerðar samþykkt samhljóða. Þingskjal nr. 22 samþykkt með áorðinni breytingu samhljóða. • Þingskjal nr. 23, ályktun um íþróttir og tóbaksnotkun: Nefndin lagði til að þingskjalið yrði samþykkt óbreytt. Umræður: Hörður Gunnarsson, ÍBR: Lagði fram svohljóðandi breytingartillögu: “2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.- 26. mars 2000 beinir þeirri áskorun til sambandsaðila, að þeir stuðli að því að öll tóbaksnotkun verði bönnuð í mannvirkjum, sem tengjast íþróttastarfi og íþróttahreyfingunni, á félagssvæði þeirra.” Gunnar Bragason, GSÍ: Benti á vandkvæði þess að fylgja þessu eftir á golfvöllum. Ingibjörg Jóhannsdóttir, UMSK: Taldi útilokað að framfylgja þessu. Vildi láta landslög duga. Óskaði eftir að ályktuninni yrði vísað frá. Halldór B. Jónsson, KSÍ: Taldi slæmt að svona tillögu yrði vísað frá, t.d. gagnvart fjölmiðlum. Lagði til að tillagan yrði samþykkt og að breytingartillögu og frávísunartillögu yrði vísað frá. Ólafur Rafnsson, KKÍ: Áréttaði hverjar reglur um þingsköp væru.

56


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Frávísunartillaga felld með meirihluta atkvæða, 2 á móti. Breytingartillaga Harðar borin upp til atkvæða. Fara þurfti fram talning. Tillagan borin upp aftur. Ágreiningur varð um með hversu mörg atkvæði hver fulltrúi mætti fara. Gert var stutt þinghlé. Flutningsmaður breytingartillögunar, Hörður Gunnarsson, breytti tillögu sinni og varð hún því svohljóðandi: 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24. – 26. mars 2000, beinir þeirri áskorun til sambandsaðila að þeir hlutist til þess að öll tóbaksnotkun verði bönnuð í íþróttamannvirkjum, sem tengjast íþróttastarfsemi og íþróttahreyfingunni á félagssvæði þeirra. Friðrik Á. Ólafsson: Lagði til að breytingartillaga Harðar yrði samþykkt. Breytingartillaga samþykkt með meirihluta atkvæða, 5 á móti. Þingskjal nr. 23 samþykkt með áorðinni breytingu. • Þingskjal nr. 24, tillaga um endurskoðun á skipting landsins í íþróttahéruð: Nefndin lagði til að síðasta málsgreinin yrði tekin út. Þingskjal nr. 24 samþykkt með áorðinni breytingu með þorra atkvæða.

Tillaga afreksstefnunefndar: Árni Þór Árnason formaður afreksstefnunefndar, fór í gegnum breytingartillögur nefndarinnar á þingskjali nr. 13, stefnuyfirlýsing um afreksíþróttir. Umræður: Kári Jónsson, FRÍ: Taldi að vandmálin kæmu upp þegar kæmi að því að skilgreina afrekin og afreksmennina. Sagði sérsamböndin mislangt komin með afreksstefnu sína og ekki ætti að leyfa þeim að skilgreina hvað væri afreksmaður af því að þau þyrftu svo á því að halda að geta sótt í peninga í afrekssjóð. Taldi aðalatriðið í þessari stefnuyfirlýsingu vera að við ætluðum okkur að vera í fremstu röð í heiminum. Kom fram með breytingartillögu á annari málsgrein undir kaflanum “skilgreining afreka”. Vildi tala um “afreksíþróttamenn”, en ekki “afburða afreksmenn” og þessi málsgrein yrði fyrst undir þessum kafla. Fyrsta málsgrein yrði þá önnnur og þar yrði orðið “afreksíþrótt” tekið út og í staðinn kæmi “framúrskarandi íþróttamann eða flokk.” Hörður Gunnarsson, ÍBR: Hafði athugsemdir við orðalag og orða”leppa” tillögurnar en var að öðru leyti ánægður með inntak hennar. Þráinn Hafsteinsson, FRÍ: Vildi bæta inn í fyrstu málsgrein á eftir “í fremstu röð” orðunum “í heiminum”. Pétur H. Sigurðsson, KKÍ: Taldi að verið væri að gefa fleirum kost á að sækja um styrki til afrekssjóðs. KKÍ ætti aldrei möguleika á því að verða á meðal þeirra bestu, en gæti samt rekið afreksstefnu. Halldór Rafnsson, GSÍ: Taldi styrkupphæðir til afreksmanna of litlar í dag. Fannst "plaggið" of götótt. Árni Þór Árnason: Fór yfir þær breytingar sem ræðumenn höfðu verið að gera athugasemdir við. Vonaði að tillagan fengi farsæla afgreiðslu. Kári Jónsson, FRÍ: Varaði við því að afrekssjóður yrði notaður sem réttlætissjóður sem allir gætu sótt í. 57


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Viggó Jónsson, FRÍ: Taldi að við þyrftum að stefna á bestu afreksmenn í heiminum. Þráinn Hafsteinsson, FRÍ: Áréttaði fyrri athugasemd sína. Sagði að ekki hefði verið greidd atkvæði um það í nefndinni hvort strika ætti út orðin “í heiminum.” Árni Þór Árnason, FSÍ: Taldi að hvort sem orðin "í heiminum" yrðu inni eða ekki værum við að senda ákveðin skilaboð til þeirrar nefndar sem kæmi til með að búa til reglugerðina. Því næst var gengið til atkvæða. Tvær breytingartillögur lágu fyrir. Fyrst var gengið til atkvæða um tillögu Þráins um að bæta inn orðunum “í heiminum.” Breytingartillagan var felld. Óskað var eftir talningu atkvæða. Halldór Rafnsson, GSÍ: Gerði athugasemdir við fundarsköp og framgangsmáta við atkvæðagreiðslu. Ásgerður Halldórsdóttir: Þakkaði nefndarfólki sem vann að þessari stefnuyfirlýsingu störfin. Taldi að við gætum ekki sótt 150 milljónir til ríkisins ef við gætum ekki komið okkur saman um afreksstefnu. Lárus Blöndal, UMSK: Lagði til að heimilað yrði að menn greiði fleiri en eitt atkvæði. Breytingartillaga Þráins borin upp. Niðurstaða náðist ekki í málinu og þingforseti kvað upp þann úrskurð að skrifleg atkvæðagreiðsla um tillöguna færi fram á sunnudeginum með stjórnarkjöri. Formaður Dansnefndar ÍSÍ fékk orðið: Flutti þakkir til forseta ÍSÍ og framkv.stj. ÍSÍ sem og framkvæmdastjórnar fyrir ómetanlegan stuðning á undanförnum árum við uppbyggingu Dansíþróttarinnar.

21. Kjörnefnd kynnir framboð Reynir Ragnarsson formaður kjörnefndar las upp nöfn frambjóðenda í kosningum til forseta, aðalstjórnar og varastjórnar ÍSÍ. Eftirtaldir voru í framboði: Til embættis forseta ÍSÍ:

Ellert B. Schram

Til framkvæmdastjórnar ÍSÍ: Ágúst Ásgeirsson Benedikt Geirsson Engilbert Olgeirsson Friðjón B. Friðjónsson Guðmundur Björnsson Guðmundur H. Þorsteinsson Hafsteinn Pálsson Helga H. Magnúsdóttir Sigmundur Þórisson Sigríður Jónsdóttir Unnur Stefánsdóttir Örn Andrésson Til varastjórnar ÍSÍ:

Birgir Guðjónsson Björg Blöndal Jón Gestur Viggósson

Þingfundi frestað til kl. 10.00 sunnudag. 58


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

Sunnudagur 26. mars: Þingfundur hófst á því að gengið var til atkvæðgreiðslu um breytingartillögu Kára Jónssonar, á þingskjali nr. 13, stefnuyfirlýsing um afreksíþróttir. Tillagan samþykkt með meginþorra atkvæða gegn tveimur. Áður en gegnið var til kosninga gerði formaður Kjörnefndar, Birgir Ari Hilmarsson, grein fyrir þeim viðbótarþingfulltrúum sem sóttu þingið. Eftirtalin viðbót hafði átt sér stað: ÍBR: 1 fulltrúi LH: 1 fulltrúi USAH:1 fulltrúi GLÍ: 1 fulltrúi TSÍ: 1 fulltrúi KAÍ: 2 fulltrúar Þingheimur hafði ekki athugasemdir við kjörbréf. Því næst var gengið til skriflegrar atkvæðagreiðslu um breytingartillögu Þráins Hafsteinssonar, sömuleiðis á þingskjali nr. 13, þar sem bætt var inn orðunum “í heiminum.” Að talningu lokinni gerði þingforseti grein fyrir niðurstöðum. Atkvæði greiddu 214, já sögðu 109, nei sögðu 104 og einn seðill var auður. Breytingartillagan skoðaðist samþykkt. Þingskjal nr. 13 samþykkt, með áorðnum breytingum, með megin þorra atkvæða gegn 5.

22. Afhending heiðursviðurkenninga: Ellert B. Schram gerði grein fyrir tillögu framkvæmdastjórnar. Framkvæmdastjórn hafði ákveðið að afhenda tvo heiðurskrossa á þessu þingi, til Björns Bjarnasonar, menntamálaráðherra og Sigurðar Jónssonar, (Sigurðar Þingeyings) og tilnefna 5 nýja heiðursfélaga. Við upphaf þingsins fór fram afhending á heiðurskrossi til Björns Bjarnasonar og var nú komið að því að afhenda Sigurði Jónssyni, sundkappa, sinn heiðurskross. Tíundaði Ellert hans helstu afrek. Sigurður átti ekki heimangengt, en barnabarn hans, Sigrún Benediktsdóttir, tók við krossinum fyrir hans hönd. Viðurkenningar til heiðursfélaga: Þrír félagar af fimm voru mættir; Haraldur Helgason, Akureyri Haraldur M. Sigurðsson, Akureyri og Haraldur Sigurðsson, Akureyri. Sigurður Magnússon, Reykjavík og Rafn Hjaltalín, Akureyri áttu ekki heimangengt.

23. Kosningar Reynir Ragnarsson, formaður kjörnefndar gerði grein fyrir framboðum. Í fyrsta lagi til forseta ÍSÍ. Þar var einn í framboði, Ellert B. Schram. Þingforseti lýsti Ellert B. Schram sem réttkjörin forseta ÍSÍ næsta kjörtímabil. Því næst fór Reynir yfir nöfn þeirra 12 sem voru í framboði til framkvæmdastjórnar ÍSÍ. Stefán Konráðsson sannreyndi þingfulltrúa og dreifði kjörseðlum.

59


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Að talningu lokinni gerði Reynir Ragnarsson formaður kjörnefndar grein fyrir niðurstöðum kosninga. 214 greiddu atkvæði, tveir seðlar ógildir. Atkvæði féllu þannig: Hafsteinn Pálsson 210 atkvæði Benedikt Geirsson: 207 atkvæði Sigríður Jónsdóttir 206 atkvæði Helga H. Magnúsdóttir 197 atkvæði Friðjón B. Friðjónsson 193 atkvæði Ágúst Ásgeirsson: 189 atkvæði Unnur Stefánsdóttir 187 atkvæði Örn Andrésson 185 atkvæði Sigmundur Þórisson 183 atkvæði Engilbert Olgeirsson 143 atkvæði Guðmundur Björnsson 131 atkvæði Guðmundur H. Þorsteinsson 89 atkvæði Þingforseti lýsti þvínæst yfir að eftirtalin væru rétt kjörin til setu í framkvæmdastjórn ÍSÍ næsta kjörtímabil. Ágúst Ásgeirsson: Benedikt Geirsson: Engilbert Olgeirsson Friðjón B. Friðjónsson Hafsteinn Pálsson Helga H. Magnúsdóttir Sigmundur Þórisson Sigríður Jónsdóttir Unnur Stefánsdóttir Örn Andrésson Formaður kjörnefndar varpaði þeirri spurningu fram til þeirra sem ekki náðu kjöri hvort að þeir bjóði sig fram til varastjórnar. Guðmundur H. Þorsteinsson, ÍBR: Óskaði sigurvegurum til hamingju. Tilkynnti að hann færi ekki fram í framboð til varastjórnar. Kosning varastjórnar ÍSÍ. Eftirtalin voru í framboði til varastjórnar ÍSÍ. Birgir Guðjónsson Björg Blöndal og Jón Gestur Viggósson Fleiri tilnefningar komu ekki fram og lýsti þingforseti þau réttkjörin til setu í varastjórn ÍSÍ næsta kjörtímabil. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga ÍSÍ og tveggja til vara. Kjörnefnd lagði til að eftirtaldir yrðu kjörnir: Aðalmenn: Hallgrímur Þorsteinsson og Tryggvi Geirsson Varamenn: Þórður Þorkelsson og Sigurgeir Bóasson Fleiri tilnefningar komu ekki fram og lýsti þingforseti ofantalda réttkjörna aðal- og varaskoðunarmenn reikninga ÍSÍ næsta kjörtímabil.

60


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Kosning í Íþróttadómstóll ÍSÍ, fimm aðalmenn og fimm varamenn til 1.6. 2001 Kjörnefnd lagði til að eftirtaldir yrðu kjörnir: Aðalmenn: Jón G. Zoega Björgvin Þorsteinsson Karl Gauti Hjaltason Gunnar Guðmundsson Guðmundur Jónsson Til vara: Guðjón E. Friðriksson Halldór Frímannsson Þórir Haraldsson Ólafur Björnsson Þorsteinn Eggertsson Fleiri tilnefningar komu ekki fram og lýsti þingforseti ofantalda réttkjörna aðal- og varamenn í Íþróttadómstól ÍSÍ til 1.6.2001 Kosning sex manna í dómstól ÍSÍ sem starfi frá 1.6.2001. Kjörnefnd lagði til að eftirtaldir yrðu kjörnir: Íþróttadómstóll ÍSÍ: Gunnar Guðmundsson Halldór Frímannsson Þórir Haraldsson Halldór Halldórsson Björn Lárusson Ólafur Björnsson Fleiri tilnefningar komu ekki fram og lýsti þingforseti ofantalda réttkjörna aðal- og varamenn í Íþróttadómstól ÍSÍ frá 1.6.2001 Kosning sex manna í áfrýjunardómstól ÍSÍ sem starfi frá 1.6.2001 Kjörnefnd lagði til að eftirtaldir yrðu kjörnir: Áfrýjunardómstóll ÍSÍ: Gestur Jónsson Jón G. Zoega Snorri Olsen Guðmundur Jónsson Björgvin Þorsteinsson Karl Gauti Hjaltason Fleiri tilnefningar komu ekki fram og lýsti þingforseti ofantalda réttkjörna aðal- og varamenn í Áfrýjunardómstól ÍSÍ frá 1.6.2001 Formaður kjörnefndar þakkaði að endingu talningafólki frá KA og Þór fyrir þeirra starf. Valdimar Leó Friðriksson, UMSK: Tilkynnti að hann hafi ekki skrifað undir sáttatillöguna vegna lottótillögunar fyrr á þinginu, en hann væri tilbúinn til að gera það hér og nú. Þakkaði ÍBR, ÍBH og ÍBA fyrir það að gefa héraðssamböndunum möguleika á því að fara út í þessa sáttatillögu. Sagðist sáttur við hana.

61


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

24. Þingslit Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ ávarpaði þingheim og sagði: "Ágætu þingfulltrúar, þá er komið að lokum þessa íþróttaþings. Ég vil byrja á því að óska meðstjórnendum mínum öllum til hamingju með endurkosninguna, þar fengu allir traust sem hér hafa setið í stjórninni og gáfu kost á sér aftur. Ég býð Engilbert Olgeirsson sérstaklega velkominn í þennan hóp, þar fer reyndur og góður maður sem á fullt erindi inn í æðstu stjórn íþróttahreyfingarinnar. Ég þakka Hildi og Ingólfi, sem bæði láta nú af störfum í stjórn ÍSÍ, fyrir þeirra góða framlag á liðnum tveimur árum. Þau hafa verið góðir liðsmenn og ég treysti því að þau verði áfram innan seilingar þegar við þurfum á þeim að halda, bæði eru þau ung og upprennandi og eiga vonandi eftir að koma aftur seinna til starfa fyrir okkur hér hjá ÍSÍ. Ágætu þingfulltrúar, hér höfum við stigið það skref að heimila framkvæmdastjórninni að samþykkja nýtt sérsamband, Dansíþróttasambandið. Ég vil óska fulltrúum þeirra sem hér hafa verið og hafa mátt þola alla þessa umræðu, til hamingju með þennan stóra áfanga og býð þau velkomin í íþróttahreyfinguna. Við höfum afgreitt hér mörg merk mál, við höfum afgreitt hér nýjar áherlsur í afreksstefnum, og það er merkileg ákvörðun. Við höfum samþykkt nýja þjálfaramenntun, við erum búin að ákveða að setja allt á fullt í tryggingarmálum, við höfum samþykkt nýjar áherlsur í almenningsíþróttum og gæðaviðurkenningum og fjölmörgum öðrum málum og kannski veigamesta málið hvað þetta varðar eru lagabreytingar eða nýtt dómsstólakerfi. Nú viðkvæmasta málið á þessu þingi var að sjálfsögðu tillagan frá Reykvíkingum, Akureyringum og Hafnfirðingum um hugsanlegar breytingar á skiptingu lottósins og ég skil þau vel sjónarmið sem liggja að baki þeirri tillögu, ég skil líka þá sem að vildu ekki láta þessa tillögu yfir sig ganga. Ég ber fulla virðingu fyrir Valdimar Leó og hans fólki, þegar þau hreyfðu mótmælum og ég vil hér og nú þakka báðum fylkingum og öllum þingfulltrúum fyrir að finna farsæla lendingu í málinu. Auðvitað eru þessi vandamál sprottin af því að við mörg hver erum aðilar að tveimur landssamtökum, ÍSÍ og UMFÍ. Ég ber fulla virðingu fyrir ungmennafélagshreyfingunni og hún hefur fullan rétt til að starfa sjálfstætt og ég get ekki sagt þeim fyrir verkum. En ég get hins vegar beint orðum mínum til þeirra sem eiga þar aðild og eru líka félagar hjá okkur og vek athygli á því að það hlýtur að vera farsælast fyrir okkur sem störfum að íþróttamálum, að þessu máli sé skipað á þann veg að hver króna nýtist sem best, að yfirstjórnin sé sameinuð. Ég hef aldrei sagt að leggja ætti einn eða neinn niður, en með sameiningu og samstarfi ÍSÍ og UMFÍ þá ætti að vera hægt að ná fram mikilli hagræðingu til eflingar íþróttahreyfingunni og ég vona innilega að við getum unnið að því í bróðerni. Ekki með því að nýðast á einum eða neinum, ekki með því að traðka á gamalli og góðri hreyfingu eins og ungmennafélagshreyfingin, heldur með því að laða þá til samstarfs og fá þá til að skilja, forystu UMFÍ, og þið eruð náttúrulega hér fólkið sem er í grasrótinni, fá þá til að skilja að við eigum samleið undir einu merki. Ég þakka forsetum þingsins þeim Kristjáni Júlíussyni og Eiríki Björgvinssyni fyrir góða fundarstjórn. Ég get vel skilið að það sé erfitt að stjórna fundi þegar rísa upp hér menn með embættispróf í lögum og gera aðsúg að fundarstjóra eins og gerðist hvað eftir annað hér í gær en það tókst nú að landa þessum málum á farsælan hátt. Ég þakka þeim enn og aftur þingforsetunum. Ég þakka starfsfólki fyrir frábæran undirbúning og umsjón með þessu þingi. Ég beini þakklæti mínu til forráðamanna Knattspyrnufélags Akureyrar, til ykkar Helgu, formanns og Gunnars framkvæmdastjóra, þetta hefur verið ákaflega gaman og þægilegt að vera í þessum húsakynnum, hér ríkir gott andrúmsloft. Ég vil biðja starfsfólk um aðstoð við að 62


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð afhenda forsetum og formanni og framkvæmdastjóra KA, blómvendi. Ágætu þingfulltrúar, við höfum varið helginni frá föstudegi og nú fram til sunnudags til þess að sinna þessu hugðarmáli okkar, íþróttunum, ég held að við getum verið sammála um það að þetta hafi verið skemmtileg helgi og góð, og hér hefur verið sátt og samlyndi, gleðskapur, góður félagsandi, allt í anda íþróttanna og okkar hugsjóna. Ég þakka ykkur innilega vel fyrir komuna, setuna og samstarfið og hlakka til að eiga við ykkur samstarf næstu tvö árin. Ég segi þessu þingi slitið, takk fyrir".

_______________________________

______________________________

Kristján Þór Júlíusson 1. þingforseti

Kristinn J. Reimarsson 1. þingritari

63


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

Samþykktir 2. þings Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands 24. – 26. Mars 2000

64


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

Fjárhagsáætlun ÍSÍ 2000-2001 Tekjur: 1. Framlag Ríkissjóðs vegna rekstrar

2000 41.700.000

2. Framlag Ríkissjóðs vegna Sydney

8.000.000

2

3. Frá íslenskri Getspá

6.500.000

3

6.500.000

4. Ósóttir vinningar

8.000.000

4

8.000.000

5. Frá Íslenskum getraunum

3.500.000

5

3.500.000

6. Styrkir IOC

5.500.000

6

3.500.000

7. Aðrar tekjur

3.000.000

7

2.000.000

Samtals

skýr 1

2001 45.000.000

76.200.000

68.500.000

2000

2001

Gjöld: 8. Skrifstofukostnaður

26.900.000

8

27.500.000

9. Þing og fundir innanlands og kostnaður vegna stjórnar

6.000.000

9

6.000.000

10. Þing og fundir erlendis

2.500.000

10

2.500.000

11. Framlag vegna fundaraðstöðu

1.000.000

11

1.000.000

12. Kostnaður vegna nefnda

5.500.000

12

5.500.000

13. Annar kostnaður

4.250.000

13

4.250.000

14. Verkefnasjóður

2.500.000

14

2.500.000

15. Kostnaður við Íþróttamiðstöðina

2.000.000

15

2.000.000

16

4.500.000 6.000.000

16. Þátttaka í Smáþjóðaleikum San Marinó 17. Íþróttaleg samskipti-Afrekssvið

6.000.000

17

18. Ársþing

2.000.000

18

12.000.000

19

22. Ólympíuleikarnir í Sydney 23. Ólympíudagar æskunnar Murcia –sumar, Vuokatti vetur 24. Íþróttahátíð Samtals

6.000.000 76.650.000

20

4.000.000

21

2.500.000 68.250.000

65


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

Stefnuyfirlýsing um afreksíþróttir 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA heimilinu á Akureyri 24. - 26. mars 2000, samþykkir eftirfarandi stefnuyfirlýsingu Íþróttaog Ólympíusambands Íslands í afreksmálum: Sameiginlegt markmið íþróttahreyfingarinnar er að Íslendingar eigi hverju sinni afreksmenn og afreksflokka í íþróttum er skipi sér á bekk með þeim bestu í heiminum og að stöðugt hækki afreksstig íslenskra íþrótta. Í því felst að efla hæfni og færni þeirra sem að afreksíþróttastarfinu koma og sem með afreksíþróttamanninum vinna, tryggja möguleika afreksíþróttamanna framtíðarinnar til að ná settu marki, stuðla að bættum framfærsluaðstæðum íþróttamannsins, og auka íslenska þjálfunarkunnáttu. Til þess að ná settu marki ber hreyfingunni að setja sér tímabundnar markvissar áætlanir um frammistöðu á stórmótum á borð við álfumeistaramót, heimsmeistaramót og ólympíuleikum. Til að tryggja slagkraft markmiðanna til langframa ber ásamt því að einblína á keppnisárangur, að styrkja eigin getu og hæfileika hreyfingarinnar til að vinna að langtímamarkmiðum í afreksíþróttum. Sérstaklega ber að leggja aukna áherslu á að efla þjálfunarþekkinguna, bæði innan einstakra íþrótta og þvert á íþróttastarfið; m.a. með því að mynda teymi fagfólks til að auka þekkingu þjálfara. Skilgreining afreka Afreksmaður er hver sá íþróttamaður/flokkur sem stenst ákveðna viðmiðun við heimsafrekaskrá í viðkomandi grein. Um framúrskarandi íþróttamann eða flokk er þá fyrst að ræða þegar einstaklingur eða flokkur skipar sér með árangri sínum í fremstu röð í heiminum, sbr. skilgreiningu Afrekssjóðs ÍSÍ og viðkomandi sérsambands. Afreksefni teljast þeir íþróttamenn/flokkar sem ekki hafa náð jafn langt en taldir eru með markvissri og mikilli þjálfun geta skipað sér á bekk með þeim bestu. Þó yfirstjórn afreksíþróttastarfsins sé hjá heildarsamtökunum verður íþróttahreyfingin að axla sameiginlega ábyrgðina á því að halda úti afreksíþróttastefnu og skiptir þá öllu að ríkur metnaður til starfsins sé fyrir hendi jafnt hjá ÍSÍ, sérsamböndum, héraðssamböndum og félögum. Full ástundun forsenda aðstoðar Öll vinna að því að ná settu marki í afreksíþróttum skal eiga sér stað innan siðferðisgilda íþróttanna. Ennfremur ber að stefna að því að ástundun afreksíþróttamanna sé hluti af lífsmunstri og þau ár sem hann helgar íþróttinni krafta sína komi það ekki niður á þroska hans og undirbúningi undir að takast á við lífið að íþróttaferli loknum. Til þess að ná settu marki ber að beita þeim ráðum sem fyrir hendi eru til íþrótta og einstaklinga sem sýnt hafa getu til að skipa sér á bekk með þeim bestu. Allir, sem hátt

66


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð stefna, hafa möguleika á að njóta stuðnings en árangur og geta ræður ferðinni um áframhald og möguleika á stuðningi. Framfarir og full ástundun af hálfu íþróttamanna og sérsambanda er forsenda áframhaldandi aðstoðar. Afrek er uppskera margra ára markvissrar starfsemi og lítil von er um árangur án faglegra vinnubragða og viðunandi starfsumhverfis íþróttamannsins til að þroska hæfileika sína. Markmið og viðfangsefni í afreksíþróttastarfinu •

Að bæta umhverfi það sem afreksíþróttir búa við,

Að beita sér fyrir aðstöðu til æfinga fyrir afreksíþróttir á vettvangi sveitarfélaga og ríkis,

Að skapa ákjósanlegustu æfinga- og þjálfunarskilyrði fyrir íþróttamenn 15 ára og eldri víðs vegar um land,

Að miðla niðurstöðum rannsókna á sviði íþrótta- og þjálfunarvísinda til þjálfara, íþróttamanna og annarra er málið varðar,

• Að efla samráð og upplýsingaþjónustu á sviði læknavísinda íþróttanna/ íþróttaheilsufræði, • Að skapa kjöraðstæður fyrir íþróttamenn innan skólakerfis og á almennum vinnumarkaði til að ná árangri samhliða námi og starfi, •

Að veita hvers kyns ráðgjöf og stuðning er getur orðið til að efla afreksíþróttirnar og íþróttamenn, bæði meðan á keppni þeirra stendur og að loknum keppnisferli,

Að markaðssetja afreksíþróttirnar í þjóðfélaginu og kynna þær ungu fólki, t.d. í skólastarfi,

Að veita afreksíþróttamönnum/flokkum fjárhagslegan stuðning.

Helstu leiðir til að vinna afreksstefnunni framgang 1) Teymi fagfólks á sviði þjálffræði, sálfræði og íþróttameiðsla, sem ÍSÍ kemur sér upp (t.d. í samvinnu við menntastofnanir) til að sinna fræðsluverkefnum fyrir sambandið og miðla þekkingu til þjálfara með námskeiðum ásamt því að vera til staðar þegar á þarf að halda að mati afrekssjóðs, en honum verði heimilt að styrkja viðkomandi sérfræðinga til að sækja námskeið um nýjustu aðferðir íþróttavísinda. Með teyminu gefst íþróttamönnum jafnframt tækifæri á að leita eftir aðstoð til færustu sérfræðinga sem völ er á t.d. við meiðslum, sálfræðiaðstoð og þjálfunaraðferðum. .

2) Fjárstyrkir afrekssjóðs ÍSÍ, sem fyrst og fremst skal veita til ákveðinna verkefna, sem eru fyrirfram skilgreind og kostnaðaráætluð. Er þá t.d. átt við styrki til 67


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð þátttöku í keppni, æfingabúðum, til ráðningu landsliðsþjálfara hjá minnstu sérsamböndum, til að bæta umhverfi og aðstöðu „afreksmanna”, til verkefna er lúta að því að leita uppi íþróttaefni. Styrkir til einstaklinga skulu taka mið af íþróttalegri þörf þeirra og félagslegum aðstæðum. Um afrekssjóð gildi sérstök reglugerð er stjórn ÍSÍ setur. Afrekssjóðurinn skal standa að uppbyggingu afreksíþrótta á Íslandi með því að styðja íslenska íþróttamenn og sérsambönd við að ná sem bestum árangri í alþjóðlegri keppni. Forsenda styrkveitinga er að sérsambönd hafi markvissa og raunhæfa afreksstefnu. Stuðningurinn felst í fjárframlögum, bættri menntun þjálfara og ýmiskonar tæknilegri aðstoð. Þannig verður afrekssjóður sérsamböndum til aðstoðar við að efla og bæta íþróttastarf sitt. Allar greinar sem viðurkenndar eru af ÍSÍ eiga rétt á að sækja um í sjóðinn.

Ályktun um aukna fjárstyrki frá Alþingi til íþróttahreyfingarinnar. 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.-26. mars 2000, leggur áherslu á að framlög ríkisvaldsins til íþróttahreyfingarinnar verði stóraukin frá því sem nú er. Þingið felur framkvæmdastjórn ÍSÍ og sérsamböndum að móta aðgerðar- og áhersluáætlun um þetta mikilvæga málefni sem byggð sé á faglegum og tölulegum grunni, þar sem meðal annars komi fram forvarnargildi, sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið, verðmæti sjálfboðaliðastarfs og svo framvegis.

Stofnun Dansíþróttasambands Íslands 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.-26. mars 2000, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að stofna sérsamband um dansíþróttina.

Ályktun um þátttöku ungs fólks í starfi íþróttahreyfingarinnar 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24. – 26. mars 2000, samþykkir að efla þátttöku ungs fólks á aldrinum 16 – 25 ára í starfi íþróttahreyfingarinnar.

68


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

Reglugerð um Ólympíusjóð ÍSÍ 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.- 26. mars 2000, samþykkir að fela framkvæmdastjórn að breyta reglugerð fyrir Ólympíusjóð ÓÍ til samræmis við að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur tekið yfir öll réttindi og skyldur Ólympíunefndar Íslands.

Ályktun um eflingu almenningsíþrótta 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið á Akureyri dagana 24.–26. mars 2000, er sammála þeirri skoðun að eitt af lykilhlutverkum íþróttahreyfingarinnar í landinu sé að efla þátttöku almennings í íþróttaiðkun og líkamsrækt hverskonar. Í því skyni beinir þingið þeim tilmælum til sambandsaðila að vinna í auknu mæli að útbreiðslu almenningsíþrótta í samstarfi við almenningssvið ÍSÍ/ÍFA.

Endurskoðun á skiptingu landsins í íþróttahéruð 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.- 26. febrúar 2000, samþykkir að unnið verði áfram að endurskoðun á skiptingu landsins í íþróttahéruð, einkum og sér í lagi þar sem sameining hefur verið á dagskrá eða þar sem viðkomandi héraðssambönd hafa sjálf óskað eftir breytingum vegna verulegrar röskunar á búsetu eða annarra breyttra aðstæðna. Lögð er áhersla á að hvert skref sé stigið í fullu samkomulagi og í nánu samráði við heimamenn. Ennfremur að viðkomandi landssvæði og íþróttastarfið þar, gjaldi ekki fyrir breytingar á skipan íþróttahéraða í lægri framlögum frá landssamtökunum. Þingið bendir einnig á að ef ÍSÍ getur styrkt rekstur á skrifstofu og starfsmanni fyrir stækkað héraðssamband, mundi það flýta fyrir og hjálpa slíkum samruna.

Þjálfaramenntun íþróttahreyfingarinnar. 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.– 26. mars 2000, felur framkvæmdastjórn ÍSÍ að kynna vel uppbyggingu nýs áfangaskipts fræðslukerfis sem samræmt er fyrir allar íþróttagreinar. Þar með talið skilgreiningar um það hvers konar þjálfaramenntun sé fullnægjandi og viðeigandi til að stunda þjálfarastörf fyrir hvern aldurshóp.

69


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

Ályktun um tölvumál íþróttahreyfingarinnar 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24. - 26. mars 2000, samþykkir að fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að endurskoða tölvumál íþróttahreyfingarinnar með það að markmiði að tölvukerfið sé aðgengilegt upplýsingakerfi fyrir alla íþróttahreyfinguna. Framkvæmdastjórn ÍSÍ verið falið að fjármagna uppbyggingu kerfisins.

Vátryggingar fyrir íþróttahreyfinguna 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.- 26. mars 2000, ályktar að fela framkvæmdastjórn að vinna áfram að samningum um hópslysatryggingu fyrir íþróttahreyfinguna. Markmið vátryggingarinnar er að auka þá vátryggingarvernd sem nú þegar er tryggð íþróttafólki í dag í gegnum Tryggingarstofnun Ríkisins. Ennfremur að vátryggja þá aðila sem ekki njóta bóta samkvæmt skilgreiningu Tryggingarstofnunar Ríkisins. Stefnt skal að því að drög að samningi liggi fyrir eigi síðar en í árslok og þau samningsdrög verði kynnt sambandsaðilum til þátttöku.

Íþróttir og tóbaksnotkun Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24. – 26. mars 2000, beinir þeirri áskorun til sambandsaðila að þeir hlutist til þess að öll tóbaksnotkun verði bönnuð í íþróttamannvirkjum, sem tengjast íþróttastarfsemi og íþróttahreyfingunni á félagssvæði þeirra.

Úttekt á hagkvæmni þess að sameina ÍSÍ og UMFÍ 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.-26.mars 2000, samþykkir að: fela framkvæmdastjórn ÍSÍ að gera úttekt á hagkvæmni þess að sameina ÍSÍ og UMFÍ þannig að ein heildarsamtök hafi yfirumsjón með íþróttastarfsemi í landinu. Verði niðurstaða þessarar úttektar sú að sameining þessara samtaka sé hagkvæm, með tilliti til heildarhagsmuna íþróttahreyfingarinnar, skal framkvæmdastjórn ÍSÍ hefja samningaviðræður við stjórn UMFÍ með það að markmiði að hægt verði að leggja fram tillögu til afgreiðslu á næsta þingi UMFÍ og næsta Íþróttaþingi ÍSÍ um sameiningu UMFÍ og ÍSÍ.

70


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

Nýir Heiðursfélagar ÍSÍ 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24.-26. mars 2000, samþykkir að kjósa eftirfarandi einstaklinga Heiðursfélaga Íþróttaog Ólympíusambands Íslands fyrir frábær störf í forystu íslenskrar íþróttahreyfingar: Rafn Hjaltalín Akureyri Harald Helgason Akureyri Harald M. Sigurðsson Akureyri Harald Sigurðsson Akureyri Sigurð Magnússon Reykjavík

Viðurkenningar til fyrirmyndarfélaga/deilda 2. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands haldið í KA-heimilinu á Akureyri 24. – 26. mars 2000, samþykkir að framkvæmdastjórn ÍSÍ veiti þeim félögum/deildum sem standa vel að barna- og unglingastarfi viðurkenningu sem FYRIRMYNDARFÉLAG – FYRIRMYNDARDEILD.

Lög um dómstóla Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. ______________________________________________

I. kafli. Dómstólaskipan og sameiginleg ákvæði. ____________________________________________ 1. gr. Dómstigin. 1.mgr. Dómstólar samkvæmt 2. og 3.mgr. nefnast einu nafni Dómstólar ÍSÍ og skulu þeir hafa fullnaðarlögsögu yfir þeim málefnum sem koma upp innan íþróttahreyfingarinnar og sem varða lög og reglur Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), sérsambanda, héraðssambanda, íþróttabandalaga, aðildarfélaga eða einstakra iðkenda eftir því sem við á en á þessum lögum og reglum skulu Dómstólar ÍSÍ byggja niðurstöður sínar. Sérsamböndum innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands er þó heimilt að ákveða í lögum sínum að viðkomandi sérsamband hafi sérstaka dómstóla, undirdómstig og áfrýjunardómstig, innan viðkomandi sambands. Sérsamband telst heyra undir dómstóla ÍSÍ þar til lagabreyting sem tiltekur að viðkomandi sérsamband hafi tekið upp eigið dómsstólakerfi, hefur verið staðfest af ÍSÍ. Dómstólar þeirra sérsambanda sem taka upp eigið dómstólakerfi skulu lúta

71


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð dómstólareglum viðkomandi sérsambands og skulu öll ágreiningsmál er varða þá íþróttagrein rekin fyrir viðkomandi sérsambandsdómstólum. Lög þessi um dómstólaskipan skulu þó vera þeim reglum til fyllingar, eftir því sem við getur átt. 2. mgr. Dómstóll ÍSÍ er fyrsta dómstig í málum sem upp koma innan íþróttahreyfingarinnar, nema viðkomandi sérsamband hafi sérstakan dómstól sbr. 1.mgr. 3.mgr. Áfrýjunardómstóll ÍSÍ er æðsti dómstóll innan íþróttahreyfingarinnar. 4.mgr. Dómstólar ÍSÍ skulu hafa aðsetur á skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík. ÍSÍ skal á skrifstofu sinni halda skrá yfir þau sérsambönd sem hafa eigin dómstóla. Sérsambönd skulu tilkynna án tafar allar breytingar sem verða á dómstólaskipan innan sambandsins, en skrá sú sem haldin er á skrifstofu ÍSÍ telst alltaf lögfull sönnun á því hvar eigi að reka mál.

2. gr. Vanhæfi. 1.mgr. Dómari, þar á meðal meðdómari, er vanhæfur til að fara með mál ef: a. hann er aðili að málinu eða fyrirsvarsmaður aðila. b. hann hefur gætt réttar aðila varðandi sakarefnið eða veitt aðila leiðbeiningar um það, umfram skyldu sem dómarar hafa. c. hann hefur borið eða verið kvaddur til að bera vitni um atvik málsins af réttmætu tilefni eða verið mats- eða skoðunarmaður um sakarefnið. d. hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar. e. hann tengist eða hefur tengst fyrirsvarsmanni eða málflytjanda með þeim hætti er segir í d-lið. f. hann tengist eða hefur tengst vitni í málinu með sama hætti og segir í d-lið. g. fyrir eru hendi önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa, m.a. ef dómari eða náinn skyldmenni eru félagsbundin aðila máls. 2.mgr. Verði allir dómarar dómstóls vanhæfir til setu í dómsmáli skal framkvæmdastjórn ÍSÍ skipa á stjórnarfundi, dómara, sem uppfyllir hæfisskilyrði til að fara með málið. Sé um fjölskipaðan dóm að ræða skal sá sem skipaður er af framkvæmdastjórn velja aðra dómara.

3. gr. Almenn hæfisskilyrði. 1.mgr. Kjörnir dómarar dómstóla ÍSÍ skulu fullnægja eftirfarandi skilyrðum: a) að vera svo á sig komin andlega og líkamlega að þeir geti gegnt embættinu, b) að hafa lokið embættisprófi í lögum. c) að hafa náð 25 ára aldri. 2.mgr. Meðdómarar sem taka sæti í dómstól ÍSÍ skulu hafa almenna þekkingu á íþróttalögum og málefnum íþróttahreyfingarinnar.

72


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

II. kafli. Dómstóll ÍSÍ. 4. gr. Skipan dómsins. 1.mgr. Dómarar dómstóls ÍSÍ skulu vera sex. 2.mgr. Á reglulegu íþróttaþingi, skulu kosnir sex dómarar til setu í dómnum til næsta reglulega þings. 3.mgr. Á fyrsta dómarafundi eftir reglulegt íþróttaþing skulu dómarar koma saman og kjósa dómsformann. Náist ekki niðurstaða með kosningu hver skuli kosinn formaður dómsins skal varpað hlutkesti milli þeirra sem flest atkvæði fá í kosningu. Þá skal kosinn fyrsti og annar varaformaður dómsins með sama hætti. 4.mgr. Dómurinn skal hafa starfsaðstöðu á skrifstofu ÍSÍ. Allar kærur skulu berast á skrifstofu dómsins. Formaður ákveður hver af hinum reglulegu dómurum fer með það mál sem er til meðferðar. Mál skal rekið þar sem hagkvæmast er fyrir aðila hverju sinni. 5. mgr. Einn dómari skal fara með hvert mál. 6. mgr. Nú telur dómari þörf á meðdómurum og er honum þá heimilt, í samráði við formann dómsins, að kalla til tvo meðdómara í dóminn. Meðdómarar þurfa ekki að vera löglærðir.

5. gr. Kærufrestur. 1.mgr. Kærufrestur til dómstóls ÍSÍ er ein vika frá því að atvik það, sem kært er bar við eða ástandi lauk ef um ástandsbrot er að ræða séu ekki skemmri frestir ákveðnir í lögum viðkomandi sérsambands. 2.mgr. Dómstóll ÍSÍ getur veitt leyfi til að mál sé höfðað eftir að kærufrestur er liðinn ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. 3.mgr. Sé máli vísað frá dómi hefur kærandi þriggja daga frest til að skjóta málinu aftur fyrir dómstólinn. Frestur skal byrja að líða þegar frávísun berst kæranda og almennir frídagar skulu ekki telja með.

6. gr. Meðalganga og upplýsingagjöf. 1.mgr. Telji aðili að mál varði mikilsverða hagsmuni hans, er honum heimilt að beina þeirri kröfu til dómsins að hann verði aðili málsins. Krafa þessi þarf að koma fram svo fljótt sem verða má og eigi síðar en við aðalflutning málsins.

73


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

7. gr. Form og efni kæru. 1.mgr. Kæra skal vera skrifleg. Dómstóll ÍSÍ skal láta útbúa sérstakt eyðublað sem nota má sem kæru. Eyðublað þetta skal liggja frammi á skrifstofu ÍSÍ. 2.mgr. Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í kæru: 1. Nafn, kennitala og heimilisfang kæranda, 2. Nafn kærða, kennitala og heimilisfang. 3. Nafn fyrirsvarsmanns kæranda, heimilisfang hans, símanúmer og númer myndsendis. 4. Greinargóð lýsing á því hvaða kröfur eru gerðar í málinu. 5. Lýsing helstu málavaxta. 6. Tilvísun til þeirra lagareglna sem við eiga. 7. Lýsing á helstu röksemdum aðila málsins. 8. Lýsing á þeim gögnum sem kærandi byggir mál sitt á, ásamt ljósriti af þeim gögnum. 9. Upptalning á þeim vitnum sem kærandi mun kalla til skýrslutöku. 3.mgr. Kæra, ásamt fylgigögnum, skal send dóminum í tveimur eintökum.

8. gr. Málsmeðferð. 1.mgr. Mál telst höfðað með því að kæra berst á skrifstofu ÍSÍ. Kærandi á rétt á því að fá kvittun fyrir móttöku kærunnar. 2.mgr. Formaður dómsins skal svo fljótt sem hægt er taka afstöðu til þess hvort einhverjir formgallar samkvæmt 14.gr. geri að verkum að málið sé ekki tækt til meðferðar. Séu slíkir gallar á málinu skal dómsformaður vísa málinu frá dómi með úrskurði. 3.mgr. Telji dómsformaður að málið sé réttilega höfðað skal hann innan tveggja virkra daga ákveða hvaða dómari skuli fara með málið. 4.mgr. Sé dómsformaður forfallaður skulu varaformenn annast þau verkefni sem til falla í þeirri röð sem þeir eru kosnir. 5.mgr. Dómari sem fær mál til meðferðar skal án tafar senda kærða (varnaraðila) áskorun um að halda uppi vörnum í málinu ásamt afriti af kærunni. Áskorunina skal senda með ábyrgðarbréfi eða á annan sannanlegan hátt. Almennt skal frestur til að skila greinargerð ekki vera lengri en ein vika. Greinargerð varnaraðila skal uppfylla þau skilyrði er koma fram í 14. grein, eftir því sem við getur átt. 6.mgr. Dómari getur óskað eftir skriflegum athugasemdum frá sérsambandi eða öðrum þeim sem málið varðar. 7.mgr. Þegar dómari hefur móttekið greinargerð varnaraðila, skal hann boða til þinghalds, þingfesta málið og ákveða framhald þess, þ.m.t. hvort málið skal flutt munnlega eða skriflega. Ef mál er ekki munnlega flutt skal aðilum gefinn stuttur frestur til að skila skriflegum athugasemdum. Dómari getur ákveðið annan hátt á málsmeðferð eftir þingfestingu. 74


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð 8.mgr. Dómur skal kveðinn upp innan viku frá því að málflutningi lauk. 9.mgr. Birta skal aðilum dóm eða úrskurð á ábyrgðarbréfi eða á annan sannanlegan hátt, ef þeir eru ekki viðstaddir dómsuppsögn og skal þá jafnframt greint frá heimild aðila til áfrýjunar, áfrýjunarfresti og hvert áfrýja megi. 10.mgr. Tilkynna skal alla dóma um óhlutgengi félagi hins dómfellda og viðkomandi sérsambandi, ef um einstakling er að ræða, en hlutaðeigandi samtökum íþróttahreyfingarinnar, ef dómþoli er félag.

9. gr. Flýtimeðferð máls. 1.mgr. Telji formaður dómsins augljóst við skoðun á kæru sem honum berst, að brotið hafi verið gegn lögum og reglum íþróttahreyfingarinnar, er honum heimilt að beina þeirri kröfu til gagnaðila, að hann upplýsi innan sólarhrings hvort hann hyggst hafa varnir uppi í málinu og hverjar þær varnir séu. Komi í ljós að engar varnir verða hafðar uppi í málinu eða ef framkomnar varnir eru bersýnilega tilgangslausar er honum heimilt með úrskurði að dæma kæranda í hag. 2.mgr. Úrskurði samkvæmt 1.mgr. er hægt að hnekkja með kæru til dómstólsins, sem tekur þá efnislega afstöðu til málsins.

10. gr. Tilnefning talsmanns fyrir dómi. Telji dómurinn að hætta sé á að málsstaður annars málsaðila verði fyrir tjóni vegna þess að hann er ekki fær um að koma sínum sjónarmiðum að í málinu, getur formaður dómsins upplýst framkvæmdastjóra ÍSÍ slíkt. Framkvæmdastjóri ÍSÍ skal þá skipa aðila til að gæta hagsmuna viðkomandi málinu.

11. gr. Kæruréttur. 1.mgr. Rétt til kæru hefur hver sá, einstaklingar, félag og félagasamtök, sem misgert er við og hagsmuni hafa af niðurstöðu máls. 2.mgr. Sérsambönd, héraðssambönd/íþróttabandalög og félög geti höfðað mál vegna allra atriða er varða viðkomandi sérsamband eða félag. 3.mgr. Framkvæmdastjórn ÍSÍ getur höfðað mál vegna allra brota á reglum ÍSÍ.

III. kafli. Áfrýjunardómstóll ÍSÍ. 12. gr. Skipan dómsins. 1.mgr. Í áfrýjunardómstól ÍSÍ skulu eiga sæti sex dómarar kosnir af reglulegu íþróttaþingi.

75


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð 2.mgr. Á reglulegu íþróttaþingi, skulu kosnir sex dómarar til setu í dómnum til næsta reglulega þings. 3.mgr. Forseti dómsins og varaforseti skulu kosnir á fyrsta dómarafundi eftir reglulegt íþróttaþing. Verði atkvæði jöfn við kosningu, skal varpað hlutkesti milli þeirra sem flest atkvæði fá í kosningu.

13. gr. Fjöldi dómara. Þrír dómarar skulu dæma hvert mál fyrir dómstólnum. Forseti dómsins skal ákveða hverju sinni hvaða þrír dómarar skuli fara með mál. Forseti, eða varaforseti í forföllum hans, skal úrskurða um hæfi einstakra dómenda.

14. gr. Áfrýjun. 1.mgr. Heimilt er að skjóta til áfrýjunardómstóls ÍSÍ, dómum og úrskurðum dómstóls ÍSÍ. 2.mgr. Þar sem sérsamband ákveður að hafa sérstaka dómstóla þá verður málum þeirra ekki skotið til áfrýjunardómstóls ÍSÍ. Þó er heimilt að áfrýja þeim málum áfrýjunardómstóla sérsambanda sem hafa almennt gildi fyrir íþróttahreyfinguna í heild. Áfrýjun tekur þá aðeins til þeirra atriða máls er hafa slíkt almennt gildi og tilgreind eru í áfrýjunarskjali. Áfrýjunardómstóll ÍSÍ ákveður í þessum tilvikum hvort kæruatriði séu þess eðlis að hann eigi um þau að fjalla. Ef áfrýjunardómstóllinn hafnar kæruatriðum áfrýjanda er málinu endanlega lokið. 3.mgr. Frestur til að áfrýja máli til áfrýjunardómstólsins skal vera ein vika frá því að aðila máls var fyrst kunnugt um niðurstöðu málsins, en þó eigi síðar en 4 vikum eftir að dómur undirréttar var upp kveðinn. 4. mgr. Sá sem hyggst áfrýja máli skal senda áfrýjunardómstólnum sérstaka greinargerð þar sem lýst er þeim sjónarmiðum sem áfrýjandi byggir á ásamt gögnum málsins.

15. gr. Ný gögn og málsmeðferðarreglur. 1.mgr. Ný gögn skulu ekki lögð fram fyrir áfrýjunardómstól. Vitna og aðilaskýrslur skulu ekki fara fram. 2.mgr. Dómstólnum er heimilt að víkja frá ákvæði 1.mgr. þegar sérstaklega stendur á. 3.mgr. Málsmeðferðarreglur II kafla laganna skulu gilda um áfrýjunardómstól ÍSÍ eftir því sem við á.

IV. kafli. Almenn ákvæði. 16. gr. Tegundir brota.

76


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð Undir dómstóla ÍSÍ heyra öll brot á lögum ÍSÍ, sérsambanda, héraðssambanda/íþróttabandalaga og félaga samkvæmt þeim lögum og reglum er um það gilda sbr. þó 2. ml. 1. mgr. 1. gr. og auk þess: 1. Brot gegn móta- og leikreglum. a) Að láta skrá íþróttamann til keppni gegn vilja hans eða að honum forspurðum. b) Að koma ekki til leiks án löglegra forfalla, ef hlutaðeigandi íþróttamaður hefur látið skrá sig til keppni. c) Að blekkja eða reyna að blekkja starfsmann í leik eða óhlýðnast fyrirmælum sem hann gefur stöðu sinni samkvæmt. d) Að koma ósæmilega fram við eða ögra starfsmanni meðan á móti eða sýningu stendur eða síðar sakir atvika, sem þar gerðust. e) Að taka þátt í keppni eða sýningu með eða undir forsjá aðila, félags eða einstaklings, sem úrskurðaður hefur verið óhlutgengur, enda hafi óhlutgengisúrskurðurinn verið birtur samkvæmt 10.mgr. 8. greinar. 2. Brot gegn íþróttasamtökum. a) Að bera yfirvöld, einstaklinga eða félög innan íþróttahreyfingarinnar röngum sökum eða kæra þau að ástæðulausu. b) Að blekkja eða reyna að blekkja yfirvald innan íþróttahreyfingarinnar með röngum skýrslum, eða villandi upplýsingum. c) Að koma ósæmilega fram við, ögra eða hafa í hótunum við yfirvald innan íþróttahreyfingarinnar vegna atvika sem standa í sambandi við trúnaðarstörf yfirvaldsins fyrir íþróttahreyfinguna. 22. Brot gegn áhugamannareglum ÍSÍ eða sérsambanda þess. 23. Brot út á við, sem valda íþróttahreyfingunni álitshnekki. a) Að koma svo fram, að íþróttunum sé álitshnekkir að. b) Brot gegn hegningarlögunum, sem hafa í för með sér sviptingu borgaralegra réttinda. 24. Brot gegn reglum ÍSÍ um keppnisferðir.

17. gr. Dómsniðurstöður. 1. mgr. Dómstólar ÍSÍ geta í dómsorði auk efnisniðurstöðu m.a. kveðið á um eftirfarandi réttindi og skyldur til aðila málsins: 1. Dæmt mót ógild og eftir atvikum dæmt að mót skuli endurtekið. 2. Dæmt leiki ógilda, látið endurtaka þá eða dæmt um úrslit þeirra. 3 Ákvarðað dagsektir gagnvart aðildarfélögum og sérsamböndum en ekki einstaklingum. Dagsektir renni til ÍSÍ. 4. Ákveðið sektir á félög og sérsambönd. 5. Málskostnað, ef málsgrundvöllur telst vera tilefnislaus. 2. mgr. Þær refsingar sem dómstólar ÍSÍ geta beitt eru: 1. Áminning. 2. Vítur. 3. Svipting réttar til að gegna trúnaðarstörfum innan íþróttahreyfingarinnar (hefur ekki í för með sér missi almennra félagsréttinda eða keppnisréttar). 4. Óhlutgengisúrskurður, sem veldur útilokun frá þátttöku í keppnum og sýningum innan íþróttahreyfingarinnar, um stundarsakir eða ævilangt. 5. Aðrar refsingar er lög eða reglur sérsambanda, héraðssambanda/íþróttabandalaga og félag tiltaka. 77


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

18. gr. Þingbækur/Dómabækur. 1.mgr. Við dómstóla ÍSÍ skulu vera haldnar sérstakar þingbækur. Við fyrirtöku máls skal rita skýrslu í þingbók um það sem fram fer, hvaða gögn eru lögð fram, hverjir mæta í máli og hvað er afráðið um rekstur máls. Í þingbók skal jafnframt færa þær ákvarðanir sem teknar eru í málinu. Efni þingbókar skal að jafnaði ekki birt almenningi. 2.mgr. Við dómstóla ÍSÍ skal haldin sérstök dómabók sem hefur að geyma uppkveðna dóma og úrskurði. Dómabók skal vera aðgengileg.

19. gr. ÍSÍ sérsamband. Framkvæmdastjórn ÍSÍ í þeim greinum, sem ÍSÍ er sérsamband fyrir, og stjórnir sérsambanda, í sínum greinum, geta kveðið upp óhlutgengisúrskurði yfir íþróttamönnum, sem brotlegir eru, en skylt er að skjóta slíkum úrskurðum til Dómstóls ÍSÍ sem ber þegar að taka slík mál fyrir.

20. gr. Lyfjaeftirlit Mál vegna meintrar lyfjamisnotkunar íþróttamanna skal farið með skv. Reglugerð ÍSÍ um lyfjaeftirlit.

21. gr. Niðurfelling refsingar. Íþróttaþingi er heimilt með minnst 2/3 greiddra atkvæða að fella niður refsingu eða veita dæmdum aðila full réttindi að nýju innan íþróttasamtakanna.

Bráðbirgðaákvæði. Grein A Lög þessi taka gildi 1. júní 2001, eftir samþykkt þeirra á Íþróttaþingi ÍSÍ. Við gildistöku laga þessara skulu Dómstólar ÍSÍ taka yfir eldri mál sem eru í gangi fyrir dómstólum íþróttahreyfingarinnar. Þó er aðilum máls heimilt að sammælast um að ljúka máli fyrir þeim dómstól þar sem málið er rekið fyrir gildistöku laganna, enda verði slíku máli lokið innan 2 mánaða frá gildistöku þeirra. Grein B Íþróttaþing ÍSÍ 2000 sem samþykkir lög þessi skal kjósa sex menn í dómstól ÍSÍ og sex í áfrýjunardómstól ÍSÍ. Dómarar þessir skulu taka til starfa þann 1. 6. 2001, þegar lögin taka gildi og starfa fram að næsta íþróttaþingi. Grein C Núgildandi dóms- og refsiákvæði ÍSÍ falla niður um leið og lög þessi taka gildi.

78


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

79


Íþróttaþing 2000 - Þinggerð

80

Þinggerð 2000  
Þinggerð 2000  
Advertisement