Page 1

FRÉTTABRÉF STARFSMANNA ARION BANKA

1. TÖLUBLAÐ | 2014

Innsýn

1


Með hornsteinana að leiðarljósi stjórnendum, stöðugan fréttaflutning á innrivef, bætta upplýsingagjöf varðandi markaðsstarf og fréttabréfið Innsýn. Að auki koma töflufundir A plús mjög sterkir inn hvað upplýsingagjöf varðar.

Það skiptir miklu að mæta til vinnu og hitta fyrir góðan hóp fólks sem gaman er að vinna með. Þar búum við klárlega vel. Það skiptir líka máli að verkefnin sem við tökumst á við séu gefandi og vel metin. Hrós skipta einnig máli og við þurfum að halda áfram að hrósa hvert öðru þegar verk eru vel unnin. Margt af því sem kom best út í síðustu vinnustaðagreiningu snéri að þessum þáttum - snéri að vinnustaðnum og samstarfsfólkinu. Það er frábært veganesti fyrir okkur - góður grunnur að byggja á. Á þeim tíu fundum sem ég tók með 100 starfsmönnum til að ræða og kryfja þau atriði síðustu vinnustaðakönnunar sem þörfnuðust frekari greiningar við, fór mestur tími í að ræða fjögur atriði: samstarf og upplýsingagjöf innan bankans, ímynd hans og þjónustu. Ég get sagt að almennt hafi þessi góði hópur, sem samanstóð af fólki af öllum sviðum bankans, verið á því að samstarf innan bankans hafi breyst til batnaðar á undanförnum árum og sé í nokkuð góðu horfi í dag. Vissulega er alltaf hægt að gera betur og það ætlum við okkur að gera. Þá er einnig mikilvægt, eins og við ræddum á starfsdaginn

Árlegur starfsdagur fór fram með örlítið breyttu sniði laugardaginn 11. janúar. Á honum var meðal annars fjallað um hvað felst í að vera góður tengslabanki. 96% þátttakenda voru ánægð eða mjög ánægð með daginn.

Öskudag bar upp í byrjun mars og mættu margir starfsmenn prúðbúnir til vinnu, þar á meðal í Smáraútibúi sem hafði að geyma ofurhetjur í sínum röðum. Það er aldrei of seint að finna barnið í sér.

2

Á fundunum ræddum við ítarlega þjónustu bankans. Arion banki er þjónustufyrirtæki, hér gengur allt út á að veita viðskiptavinum okkar, hvort sem um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki, stofnanir eða fjárfesta, góða þjónustu. Og við veitum góða þjónustu, um það vorum við sammála. En við ætlum að gera enn betur eins og þið vitið. Þá eru fjölmörg verkefni í gangi sem gera okkur betur í stakk búin til að veita framúrskarandi þjónustu.

okkar, að hvert og eitt okkar byggi upp sitt eigið tengslanet innan bankans, þekki vel önnur svið og hlutverk þeirra. Þetta er mikilvægur hluti af því að vera góður tengslabanki. Hvað upplýsingagjöf innan bankans varðar þá var ekki annað að skilja en hún væri í góðu horfi enda hefur ýmislegt verið gert í þessum efnum. Má þar nefna reglulega upplýsingapósta frá

Umræðurnar á þessum 10 fundunum voru oftar en ekki einna líflegastar þegar við ræddum hugmyndir okkar um ímynd almennings af bankanum. Sitt sýndist hverjum, en það er alveg ljóst að það er langtímaverkefni okkar allra að bæta ímynd bankans. Mælingar sýna að við erum á réttri leið. Hér held ég að þar skipti mestu að við veitum okkar viðskiptavinum góða þjónustu og sinnum okkar störfum af ábyrgð með hornsteinana okkar að leiðarljósi.

Árshátíð bankans fór fram í Hörpu annað árið í röð og stigu starfsmenn trylltan dans fram eftir nóttu í takt við flutning fjölda listamanna á borð við Eyþór Inga, Kaleo, Stjórnina og fleiri.

Útibú bankans á Ólafsfirði fagnaði 100 ára afmæli sínu í byrjun árs og varð á sama tíma elsta og yngsta útibú bankans en Sparisjóður Ólafsfjarðar sameinaðist Arion banka í september 2012.

Lífshlaupinu lauk í lok febrúar og tóku 549 starfsmenn þátt í ár eða um 60% af bankanum. Arion banki hélt forystunni í keppninni alveg fram á síðustu stundu þegar Landsbankinn tók fram úr okkur og hirti af okkur fyrsta sætið sem við náðum af þeim í fyrra. Við látum þetta ekki gerast aftur og stefnum á sigur að ári liðnu. Innanhússkeppnina vann A-lið skrifstofu bankastjóra.


SIGURJÓN SVEINSSON SÉRFRÆÐINGUR Í REKSTRARÁHÆTTU

ÁHÆTTUSTÝRINGARSVIÐ

Ekur um á löglegu gamalmenni

Á

ður en Sigurjón bauð sig fram sem formaður Skjaldar ráðfærði hann sig við eiginkonu sína sem og sinn yfirmann, Rós Guðmundsdóttur, enda fylgir formennskunni heilmikil vinna. „Rós er sjálf í einni nefnd Skjaldar og skilur mikilvægi þess að starfsmannafélaginu sé sinnt af kostgæfni. Skemmtileg og spennandi verkefni, góður starfsandi, gott félagslíf o.þ.h. skiptir starfsfólk oft mun meira máli en t.d. hærri laun og bankinn veit að það þarf að gera ráð fyrir þessu. Hæft fólk fer þangað sem því líður vel og gott starfsmannafélag er liður í því að ná í hæft fólk og halda í það.“ Sigurjón er einn af stofnfélögum ljósmyndaklúbbs Skjaldar og er jafnframt formaður hans. „Mig langaði að vinna frekar að starfsmannamálum og ákvað því að bjóða mig fram til formennsku þegar ég komst að því að Simmi ætlaði ekki að bjóða sig aftur fram.“

Sigurjón með erfðagripinn, Volvo 240 GL, árgerð 1987.

„Gott starfsmannafélag er liður í því að ná í hæft fólk og halda í það“

Spilar með sigurliðinu Sigurjón hefur gegnt margvíslegum störfum síðan hann byrjaði í bankanum fyrir níu árum. Hann hóf störf á UT-sviði enda menntaður tölvunarfræðingur en starfaði einnig um tíma sem gæðastjóri á UT- og rekstrarsviði og er nú kominn á áhættustýringarsvið. „Ég hef mjög gaman af samskiptum við fólk og hvet alla að hafa samband við mig sem hafa hugmyndir fyrir félagið. Við þurfum að að virkja starfsfólk meira og sýna því að hugmyndirnar sem okkur berast enda einhvers staðar. Þær eru teknar fyrir og verða mögulega að einhverju frábæru,“ segir Sigurjón og leggur áherslu á að án þátttöku starfsmanna sé ekkert starfsmannafélag. Sigurjón er reglulega spenntur fyrir þessu nýja hlutverki sem nú hefur bæst við störf hans en Sigurjón hefur enn fremur starfað sem trúnaðarmaður innan bankans. „Frakkar segja stundum að maður breyti ekki liði sem vinnur og ég held að við séum með sigurlið hér. En hlutirnir breytast samt sem áður og ég sé fullt af

Þegar fyrrum liðsmaður frönsku útlendingahersveitarinnar tekur við formennsku Skjaldar er ekki við öðru að búast en að Skildi verði stjórnað með heraga en gæðablóðið Sigurjón mun vafalaust fara vel með okkur. sóknartækifærum. Það gildir það sama í þessu eins og í íþróttum, það er alltaf hægt að gera betur og eitt af því sem mætti bæta er að virkja fleira fólk í nefndirnar. Nefndirnar hafa verið frekar sjálfstæðar hingað til og verða það áfram en mig langar samt sem áður að þétta eftirfylgni með afköstum og nýtingu því við erum að sýsla með fé starfsmanna og það er hagur okkar allra að við nýtum það sem best.“

Ástarsambandið við Volvóinn „Hinn stórkostlegi fósturafi minn, Kristján S. Kristjánsson, átti bílinn upphaflega og keypti

hann þegar bíllinn var aðeins ársgamall, árið 1988. Afi átti bílinn þar til hann lést árið 2005, eða í 17 ár, og pabbi erfði bílinn eftir hann. Pabbi er vélstjóri og hefur allt til alls til að halda við svona gömlum bílum en hann er með aðra bíla sem hann notar aðallega og vill því að ég sjái um að hreyfa Volvóinn fyrir sig, halda honum liðugum og ryklausum. Það má því segja að ég sé umsjónarmaður bílsins,“ segir hann og hlær. „Volvóinn er löglegur fornbíll, löglegt gamalmenni eins og þeir segja og er svo sannarlega fasteign á hjólum. Þetta er frábær og kröftugur bíll sem fer vel með mann og minnir mig alltaf á hann fósturafa minn sem var mér mjög náinn.“

3


ARNALDUR LOFTSSON FRAMKVÆMDASTJÓRI FRJÁLSA LÍFEYRISSJÓÐSINS

Arnaldur með börnunum sínum; Elsu Kristínu 7 ára, Bjarka 11 ára og Valdísi 13 ára.

Í kjölfar innanhússkeppni eignastýringar í heilsurækt má segja að kviknað hafi á Forrest Gump geninu í Arnaldi en fram að þeim tíma hafði hann ekki verið ýkja hrifinn af hlaupum. Rúmu ári síðar hélt hann svo til New York til að fagna fertugsafmæli sínu með því að taka þátt í New York maraþoninu.

A

rnaldur fagnaði tíu ára starfsafmæli sínu sem framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins í byrjun þessa árs en hann hóf störf sem verktaki hjá Búnaðarbankanum sumarið 1998. Þá rak bankinn Séreignalífeyrssjóðinn þar sem Arnaldur starfaði sem sölumaður fyrir lífeyrissparnað. Á þessum tíma hóf ríkisskattstjóri í fyrsta sinn eftirlit með því að fólk greiddi í lífeyrissjóð og því var nóg að gera. Við sameiningu Kaupþings og Búnaðarbankans árið 2003 rann Séreignalífeyrissjóðurinn inn í Frjálsa lífeyrissjóðinn sem Kaupþing var með í rekstri og örfáum mánuðum síðar tók Arnaldur við sem framkvæmdastjóri sameinaðs sjóðs. „Fjölbreytnin í vinnunni er nú aðalástæðan fyrir því að ég hef enst í sama starfinu í tíu ár,“ segir hann og heldur áfram, „en aðalstyrkleiki sjóðsins felst í fólkinu sem vinnur við hann. Samstarfsfólk mitt er svo hæfileikaríkt og það

4

býr yfir mismunandi eiginleikum og styrkleikum sem nýtast vel í að byggja upp góða liðsheild.“

Úr einum bolta í annan Arnaldur byrjaði kornungur að tefla og hefur alltaf verið mikill íþróttamaður. Hann æfði fótbolta upp alla yngri flokka Vals en um tvítugt varð hann að velja milli skákarinnar og

fótboltans. „Þegar fótboltinn var orðinn heilsárssport varð skákin að láta undan því þá var maður farinn að æfa ellefu mánuði ársins og æfingar og keppnir voru á sama tíma og skákmót.“ Næsta áratuginn spilaði Arnaldur með meistaraflokki þriggja liða, lengst af með Val og Þrótti. Jafnframt spilaði hann fótbolta með háskóla sínum í Bandaríkjunum og fjármagnaði þannig námið. „Ég hætti þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn og var farinn að eyða meiri tíma hjá sjúkraþjálfara en á vellinum,“ segir hann en saknar ekki boltans því hann fann aðra íþrótt sem honum fannst ekki síður skemmtileg. „Golfið tók eiginlega við af boltanum og ég heillaðist algjörlega af þeirri íþrótt. Það má segja að ég hafi fengið golfbakteríu á háu stigi,“ segir hann og hlær. „Við það að hætta í fótboltanum skapaðist mikill frítími og allt í einu hafði ég mun meiri tíma til að eyða með fjölskyldunni og fara í sumarfrí sem ég gat ekki gert áður.“


EIGNASTÝRINGARSVIÐ

Ótrúleg upplifun í New York maraþoninu Vissir þú að Arnaldur spilaði á klarinett, óbó og fiðlu? Hann æfði á hljóðfæri þar til hann byrjaði í framhaldsskóla.

svo þegar ég kom niður af henni þá hljóp ég inn í öskrandi mannhafið og það var alveg ótrúleg upplifun.“

Vissir þú að Arnaldur hljóp sitt fyrsta hálfmaraþon á tímanum 1:53:52? Besti tíminn hans er nú 1:37:04. Vissir þú að Arnaldur sigraði í fyrstu Bikarkeppni Golfsklúbbs Skjaldar sem haldin var síðastliðið sumar?

Europe (IPE). Um er að ræða virtustu verðlaun sem veitt eru á þessu sviði í Evrópu. Nú síðast í fyrra var sjóðurinn valinn besti lífeyrissjóður smáþjóða með færri en eina milljón íbúa. „Fyrir utan það hvað það er alltaf gaman að keppa þá fær þessi keppni okkur til að hugsa um fyrirfram hvað hægt er að gera til að bæta rekstur sjóðsins eða þjónustu við sjóðfélaga. Í kjölfarið höfum við ráðist í verkefni sem hafa verið til hagsbóta fyrir sjóðfélaga og vakið athygli á þeim í tengslum við keppnina.“

Vissir þú að Arnaldur hljóp sitt annað maraþon í París í fyrra? Vissir þú að Arnaldur spilaði tvo landsleiki með U21 árs landsliðinu árið 1991?

Maraþonhlauparinn Nýjasta viðbótin við íþróttaiðkun Arnaldar eru hlaup. „Útihlaupin voru alltaf það leiðinlegasta sem ég gerði í fótboltanum og á þeim tíma hefði ég ekki getað ímyndað mér að ég myndi fara að stunda þau reglulega í framtíðinni,“ segir Arnaldur en í dag hleypur hann að jafnaði þrisvar sinnum í viku með hlaupahópnum Laugaskokki. „Galdurinn er að hafa fasta tíma og hlaupa með hópi. Útiveran og félagsskapurinn eru það sem heillar mig mest við hlaupin og þau eru frábær leið til að halda sér í góðu líkamlegu formi. Þessi keppni við sjálfan mig heldur mér einnig við efnið því ég hef metnað til að bæta tímana mína.“ Arnaldur byrjaði að hlaupa í kjölfarið á innanhússkeppni eignastýringar í heilsurækt árið 2009. Þegar keppninni lauk ákvað hann að halda áfram og seinna sama ár tók hann þátt í sínu fyrsta hálfmaraþoni. Ári seinna, í nóvember 2010, ákvað hann svo að fagna fertugsafmæli sínu með því að taka þátt í New York maraþoninu sem mun seint líða honum úr minni. „Það var einstök upplifun að hlaupa í New York. Allan tímann stóðu um 2 milljónir manna meðfram hlaupabrautinni að hvetja þátttakendur og sköpuðu þeir frábæra umgjörð og stemningu ásamt fjölda hljómsveita. Tilfinningin eftir um 25 kílómetra þegar ég kom inn á First Avenue á Manhattan af brú þar sem engir áhorfendur voru var alveg mögnuð. Á brúnni var algjör þögn og

Í skákinni með börnunum Arnaldur er stoltur þriggja barna faðir. „Það er svo gefandi og þroskandi að ala upp börn,“ segir hann brosandi þegar talið berst að börnunum. „Áhugi minn á að byrja aftur að tefla kviknaði þegar yngri börnin mín tvö hófu að æfa skák en kosturinn við skákina er að maður getur auðveldlega eytt tíma með þeim við áhugamálið. Ég tek oft þátt í hraðskákmótum með stráknum mínum og fylgist með stelpunni minni á skákæfingum og mótum. Það er frábært að sjá litlu krakkana keppa við ellilífeyrisþegana á jafnréttisgrundvelli. Skákin gerir engan greinarmun á ungum og öldnum,“ segir Arnaldur en nýverið tók hann þátt í sínu fyrsta kappskákmóti síðan árið 1990.

„Það er svo gefandi og þroskandi að ala upp börn“ Margverðlaunaður lífeyrissjóður Undanfarin ár hefur Frjálsi lífeyrissjóðurinn, undir forystu Arnaldar, unnið til fjölda verðlauna á vegum fagtímaritsins Investment Pension

Arnaldur situr í nefnd fjármálaráðuneytisins sem vinnur að því að útfæra þá ákvörðun stjórnvalda að lántakendur geti nýtt viðbótarlífeyrissparnað til að greiða skattfrjálst inn á húsnæðislán. „Lántakendur munu geta greitt inn á höfuðstólinn með skattfrjálsu fé þannig að það er valkostur sem flestir ættu að reyna að nýta sér. Ókosturinn er sá að þetta þýðir lægri séreignarsparnað í framtíðinni en mögulega geta einhverjir lagt fyrir aukalega í staðinn, t.d. í hefðbundinn sparnað og hugsað hann fyrir efri árin.“

Arion starfsmaðurinn

Hvað gerir Arnaldur í vinnunni? Ég á mikil samskipti við samstarfsmenn í ýmsum deildum bankans sem sinna fjölbreyttum þáttum í rekstri sjóðsins og með aðstoð þeirra tek ég ákvarðanir um margs konar mál sem varða reksturinn. Starfið felur meðal annars í sér að undirbúa og sitja stjórnarfundi, taka þátt í að móta innra eftirlit sjóðsins, regluverk hans, fjárfestingarstefnu og markaðs- og þjónustustefnu. Enn fremur að halda fræðslufundi og eiga samskipti við sjóðfélaga, launagreiðendur, eftirlitsaðila og ýmsa samstarfsaðila utan bankans.

5


STARFSMANNAÞJÓNUSTAN

REKSTRARSVIÐ

Fólkið á bakvið starfsmannaþjónustuna

Hildur eignaðist þriðja drenginn sinn fyrir nokkrum vikum en hinir tveir eru 17 og 19 ára gamlir. Einhverjir gætu kannast við rödd hennar úr Barnaútvarpinu á Rás 1 þar sem hún vann sem útvarpskona á unglingsárum. Hún er vitlaus í lakkrís en hefur enga lyst á grænu nammi.

Sonja er þriggja barna móðir og á hund sem heitir Bilbó Baggins. Bilbó og hundurinn hennar Hildar eru bræður af tegundinni Cavalier. Hún bjó í Chiswick í London til 15 ára aldurs og á ættir að rekja til Írlands og Skotlands. Hún elskar fisk en borðar samt ekki sushi.

Helena hefur starfað í launadeildinni í 26 ár og man því tímana tvenna. Henni þykir mjög vænt um starfið sitt. Vel burstaðir skór heilla hana en slæm umgengni fer óskaplega í taugarnar á henni. Hún er mikill Valsari og styður Manchester United.

6

Jónas er öldungurinn í starfsmannaþjónustunni. Hann man þegar hitaveita var lögð í hús í Reykjavík. Jónas hefur verið gestur Elísabetar Englandsdrottningar og Filippusar og spjallað við Juan Carlos Spánarkonung og Sofiu prinsessu. Hann er stoltur afi þriggja barna sem öll eru yngri en sex ára.

Brynja er gift Ameríkana sem hún kynntist í Túnis. Hún hefur ferðast víða og búið í Bandaríkjunum, Saudí Arabíu, á Ítalíu og Englandi. Hún á strák og stelpu, er reiprennandi í ítölsku, stundar jóga og er ótrúlega liðug.

Guðrún Margrét er fædd og uppalin í Sandgerði. Hún er mikill aðdáandi vísindaskáldskapar og vampíra. Hún hefur nokkrum sinnum kafað í Peningagjá á Þingvöllum og vann eitt sinn danskeppni með Ómari Ragnarssyni á sveitaballi fyrir austan.

Birna er örvhent. Hún er unglingurinn í starfsmannaþjónustunni. Hún á lítinn strák og er menntaður viðskiptafræðingur sem býr yfir miklu keppnisskapi. Hún elskar raunveruleikaþætti og er líklega eina manneskjan á Íslandi sem fylgist enn með Survivor.

Hanna María er uppalin norður í landi en flutti til höfuðborgarinnar á unglingsárum. Hún er móðir þriggja barna sem verða 2, 8, og 11 ára á árinu. Hún spilar á þverflautu og var í blásarasveit og bjöllukór á árum áður. Hún er fróðleiksfús nammigrís og er gangandi síma- og afmælisskrá.

Ragnheiður er fædd og uppalin í Vík í Mýrdal. Hún hefur starfað á ýmsum sviðum bankans frá árinu 1995 þegar hún byrjaði sem gjaldkeri í útibúi. Hún á 17 ára son, 8 ára dóttur og 1 árs kött. Hún er mikill bókaormur sem hefur gaman af góðum mat, útivist og ferðalögum.


ÞÓRHALLA Sólveig SIGMARSDÓTTIR bókari

fjármálasvið

Hjólar á hælaskóm í vinnuna

F

yrir fimm árum byrjaði Þórhalla að nota hjólið sem fyrsta valkost til að komast til og frá vinnu. „Ég vildi nota þennan góða samgöngumáta mér til heilsueflingar, fá útiloftið í lungun og vera umhverfisvæn,“ segir Þórhalla aðspurð um ástæðu þess að hún byrjaði að hjóla en óþarfa peningaeyðsla hafði einnig áhrif. „Bensínverð fór stöðugt hækkandi á þessum tíma og það var meðvituð ákvörðun á heimilinu að minnka notkun einkabílsins og nýta frekar bensínpeninginn til ferðalaga.“ Þórhalla skilur bílinn eftir heima fjóra daga vikunnar og hjólar samtals níu kílómetra til og frá vinnu. Með þessu móti getur hún nýtt samgöngustyrkinn. „Styrkurinn er hvetjandi og honum fylgir ákveðið aðhald því þá dettur maður ekki úr hjólagírnum. Svo felst í honum fjárhagslegur ávinningur,“ segir Þórhalla en styrkurinn hljóðar upp á 10.800 krónur á mánuði. „Þessi lífsstíll, að hjóla og ganga, er að mínu mati besta leiðin til að halda sér í góðu formi. Allavega þakka ég honum að ég kemst enn í „flottu“ leðurbuxurnar sem ég keypti mér á Spáni árið 1984. Þær smellpassa enn, þrjátíu árum seinna,“ segir Þórhalla og hlær.

Hjólað í vinnuna Í fyrra lenti Arion banki í öðru sæti í keppninni Hjólað í vinnuna og ætlunin er að sjálfsögðu að vinna keppnina í ár. Gott getur verið að byrja að ganga eða hjóla til vinnu tvo daga vikunnar í nokkurn tíma og fjölga síðan skiptunum þar til allt ert klárt fyrir Hjólað í vinnuna sem hefst 7. maí næstkomandi og stendur til 27. maí. Samgöngustyrkurinn Samgöngustyrkurinn hljóðar upp á 10.800 krónur á mánuði. Þar af eru 7.000 krónur skattfrjálsar.

Ekkert mál að hjóla Þórhalla segir enga þörf á sérstökum hjólafatnaði. „Ég hjóla í mínum vinnufötum og á hælaskónum. Auðvitað kemur fyrir að maður þarf að verjast úrkomu og þá hendir maður yfir sig tilheyrandi skjólfatnaði. En vilji fólk hjóla þarf það ekkert nema hjól og hjálm til að byrja. Ég mæli með að fólk prufi að hjóla nokkrum sinnum, finni góða hjólaleið til vinnu sem er falleg og örugg og fólki líður vel á.“ Þórhalla er hörð á því að hálftíma hjólatúr á dag geri góða hluti fyrir heilsuna. „Þetta er hressandi byrjun á deginum. Það er gott að fá útiloftið í lungun og kroppinn og þetta gerir mann hressari og jákvæðari fyrir daginn. Maður kynnist borginni sinni vel og upplifir mannlífið og umhverfið á allt annan hátt en úr bíl. Á minni hjólaleið sé ég börnin streyma í skólann, ferðamenn fara um borð í hvalaskoðunarbáta, ráðstefnugesti streyma í Hörpu og æðarfuglinn á sundi í flæðarmálinu. Svo er einfaldega dásamleg upplifun að sjá allan fjallahringinn frá Snæfellsjökli í vestri til Hengils í austri í morgunsárið.“

Samgöngustyrkurinn er fyrir þá sem nýta almenningssamgöngur eða hjóla/ ganga til og frá vinnu að minnsta kosti fjóra daga vikunnar. Leyfilegt er að koma einu sinni í viku á einkabíl til vinnu. Til að fá styrkinn þarf starfsmaður að skrifa undir samgöngusamning sem finna má á innranetinu og senda á Sigurlaugu Friðriksdóttur.

Þórhalla er ein þeirra sem nýtir samgöngustyrkinn og hjólar til og frá vinnu flesta daga vikunnar. Hún þakkar þessum lífsstíl að hún kemst enn í flottu leðurbuxurnar sem hún keypti sér fyrir þrjátíu árum síðan.

Kostnaður fyrirtækja við gerð og viðhald eða leigu á bílastæðum getur verið mikill og rannsóknir sýna fram á færri veikindadaga hjá fólki sem hjólar til og frá vinnu en fólki sem keyrir. Það er því bankanum og starfsfólki í hag ef fólk hjólar til og frá vinnu.

7


ELÍSABET GRÉTARSDÓTTIR, forstöðumaður HILMAR GEIRSSON, SÉRFRÆÐINGUR

„Sókn er besta vörnin“

Hilmar í tölum 33 ára 200 cm 46 skóstærð 201 póstnúmer Fjölskylduhagir „Giftur og á tvo stráka, Pétur Geir, sem er að verða 5 ára, og Orra, 1 árs.“ Líkamsræktin „Fer í Sporthúsið til að taka vel á því. Svo finnst mér alltaf gaman að kíkja í körfu eða fótbolta og golf á sumrin. Einhver myndi kannski segja að ég væri íþróttafrík.“ Mataræðið „Ég reyni að borða þokkalega skynsamlega en þegar maður hugsar um mat allan daginn þá er maður ekkert bara að fara borða hollt.“ Skyndibitinn „Pizzan Garðabæ.“ Besta nammið „Bragðarefur úr gamla ísnum með trompi, jarðaberjum og Snickers.“ Ef þú værir dýr værirðu „Ég væri örugglega bragðarefur úr gamla ísnum með trompi, jarðaberjum og Snickers.“ Draumastaðurinn „Það þyrfti ekkert að snúa upp á höndina á mér til að fá mig til að búa í Californiu.“ Skrítnasti staður sem þú hefur freknur á „Ég held ég hafi aldrei séð þær freknur.“ Síðasta borg sem þú heimsóttir „Washington.“ Síðasti veitingastaður sem ég borðaði á „Munnharpan.“ Síðasti hlutur sem þú keyptir þér „Íþróttaskór sem ég keypti í nóvember. Shit hvað ég þarf að fara kaupa mér eitthvað!“ Síðasta hrós sem þú gafst „Ætli það sé ekki þegar ég sagði við konuna mína þegar við

8

vöknuðum hvað hún væri yndisleg og falleg – DJÓK!!! Ég hrósaði matnum í hádeginu í dag. Þetta eru miklir snillingar í eldhúsinu. Alfreð er mjög heppinn að hafa svona flinka einstaklinga með sér því að ég held að hann viti sjálfur ekkert hvað hann er að gera.“ Er femínismi kúl? „Já, en það eru samt ekki allir femínistar kúl.“ Hvernig viltu hafa kaffið þitt? „Svart og heitt.“ Uppáhaldsrauðhærða celeb-ið þitt? „Prins Harry. Amma sagði alltaf ég væri svo líkur honum þegar ég var lítill eða hann líkur mér. Ég man ekki alveg.“ Hvaða sólarvörn mælirðu með? „Sókn er besta vörnin. Fara bara út á kvöldin.“ Kanntu skriðsund? „Já, en það eru samt svakaleg læti í kringum mig þegar ég syndi skriðsund. Þú vilt ekki deila með mér sundbraut þegar ég dett í grunnskólaskriðsundið mitt.“ Hvaða land sigraði Eurovision árið sem þú fæddist? „Ekki hugmynd. Írland?“ Hvar er útsýnið best? „Mér finnst útsýnið alveg magnað á Þingvöllum.“ Vandræðalegasta mómentið? „Þegar ég var í slökkviliðinu þá fór ég einu sinni í útkall í fjölbýlishús. Þegar við komum að húsinu var anddyrið orðið fullt af fólki og fólkinu var ekki skemmt. Við fórum inn í húsið og könnuðum hvað var í gangi. Ég áttaði mig á því að ég hafði gleymt verkfæri sem ég þurfti úti við bílinn og skaust því út aftur. Þegar ég hljóp í gegnum anddyrið bombaði ég hausnum í EXIT skilti sem hékk úr loftinu og vankaðist aðeins við það. Ég hélt áfram, náði í verkfærið sem ég hafði gleymt og hljóp inn aftur en það vildi ekki betur til en að ég bombaði hausnum aftur í skiltið. Fullt anddyri af fólki, sem var að flýja heimili sitt út af reyk, gat ekki hætt að hlæja að þessum vitleysingi í slökkviliðsbúningnum.“ Lífsmottóið „Njóta dagsins í dag.“


Markaðsdeild

Það munar 40 sentimetrum og 10 skónúmerum á tveimur eldhugum markaðsdeildarinnar en saman gera þau lífið skemmtilegra með léttleikann í fyrirrúmi.

„Höskuldur splæsti“ Fjölskylduhagir „Gift með tvö börn. Nikulás Hrafn, 5 ára, og Ólafíu Gyðu, 3 ára.“ Líkamsræktin „Hleyp aðallega á eftir ormunum mínum.“ Mataræðið „Aðallega góður matur, mér finnst svo mikil synd að elda og borða vondan mat.“ Skyndibitinn „Sushi, ég held ég gæti lifað á því.“ Besta nammið „Prinspóló.“ Ef þú værir dýr værirðu „Stígvélaði Kötturinn því hann átti flott stígvél og fór sínar eigin leiðir.“ Draumastaðurinn „Draumaborgin mín er og verður líklega alltaf Stokkhólmur. Bjó þar í nokkur ár og finnst ekkert jafnast á við hana, Feneyjar Norðursins.“ Skrítnasti staður sem þú hefur freknur á „Ætli það sé ekki á olnbogunum. Ég er þó frekar lítið freknótt miðað við vestfirska ættbogann minn. Þau eru þakin frá hvirfli til ylja.“ Síðasta borg sem þú heimsóttir „Hamar í Noregi, vorum að skoða norskan banka. Norðmennirnir kunna þetta!“ Síðasti veitingastaður sem þú borðaðir á „Einhver sushi staður í Hamar í Noregi.“ Síðasti hlutur sem þú keyptir þér „Ég held það hafi verið fallegur kjóll frá Ella by Ella. Ég var búin að dást að honum lengi og notaði gjafakortið sem við fengum um jólin, þannig að Höskuldur splæsti.“ Síðasta hrós sem þú gafst „Maðurinn minn spilaði fyrir mig lög eftir sænska gítarsnillinginn Jose Gonzales í kvöld. Ég hrósaði honum fyrir það, enda frekar ljúft að hafa lifandi gítartóna heima við.“ Er femínismi kúl? „Já, alveg massa kúl. Það tapa allir á staðalímyndum, hvort sem er konur, karlar eða þeir sem staðsetja sig þar á milli. Við þurfum öll að fá að vera bara eins og við erum án þrýstings um það hvernig við „eigum“ að vera.“ Hvernig viltu hafa kaffið þitt? „Tvöfaldur latte í fjörmjólk.“

Elísabet í tölum 34 ára 160 cm 36 skóstærð 220 póstnúmer Hvaða sólarvörn mælirðu með? „Það rignir bara á sumrin á Íslandi, þannig að það er engin þörf fyrir slíkt.“ Kanntu skriðsund? „Jádds… og líka listsund!“ Hvaða land sigraði Eurovision árið sem þú fæddist? „Það væri Ísrael með lagið Hallelujah. Hvenær á að útskýra fyrir þeim að þeir eru ekki í Evrópu?“ Hvar er útsýnið best? „Við rúmstokkinn hjá börnunum mínum.“ Vandræðalegasta mómentið „Ég vil meina að ég hafi frekar gott minni og á það til að muna ótrúlegustu hluti um fólk en get engan veginn munað nöfn. Ég held að það sé vegna þess að minnið mitt er afar sjónrænt en nöfn eru of „abstrakt“ fyrir minnið mitt. Stuttu eftir að ég kynntist manninum mínum steingleymdi ég til dæmis nafninu hans. Ég starði á „nýja“ kærastann og datt ekkert annað í hug en að vera hallærislega gellan og segja „Hei…. Þú!“. Það versta er að hann heitir Jón, algengasta karlmannsnafni á Íslandi. En þetta kom sem betur fer ekki að sök því núna, 18 árum seinna, erum við gift með tvö börn.“ Lífsmottóið „Lífið hefst þar sem þægindaramminn endar.“

9


Edward talar ensku við Elísabetu og Rakel og hefur alltaf gert. Þær eru því tvítyngdar þótt þær svari pabba sínum oftar á íslensku.

Sumarið 1995 ákvað Edward að það gæti verið gaman að heimsækja Ísland en ekki grunaði hann hvað sú heimsókn myndi hafa í för með sér. Hann kom til landsins um sumarið með hinum farfuglunum en hann var einn þeirra sem skipti um heimkynni í heimsókninni og varð eftir á Íslandi.

„Ég kom til að ferðast um landið, var með opinn flugmiða og hafði skráð mig á námskeið í íslensku fyrir byrjendur í Reykjavík um sumarið.“ Edward lærði þýsku og sænsku í háskólanum í Hull í Englandi og hefur alla tíð verið mikill tungumálamaður. Hann hafði kynnt sér öll norrænu málin nema íslensku þegar hann ákvað að koma hingað í frí. „Ég tók með mér tjald og ætlaði að sjá hvað myndi gerast en fór ekki langt því tveimur vikum eftir að ég kom til landsins hitti ég konu á bar,“ segir hann og brosir. Þessi kona er eiginkona hans í dag og það má segja að hann hafi á tveimur vikum fallið fyrir landi og þjóð og er hann nú ráðsettur, giftur, tveggja barna faðir í Kópavogi. Allt frá bernsku hefur Edward verið mikill útivistarmaður og finnst honum fátt

10

skemmtilegra en að ganga á fjöll. Það má því segja að Edward búi í rétta landinu fyrir fjallgöngugarp eins og hann. „Ég kann vel við sjálfan mig og finnst ágætt að ganga einn á fjöll. Ég hef ekkert á móti því að fara með öðrum en það felst ákveðið frelsi í því að fara einn. Þú getur farið á þínum hraða, þarft ekki að bíða eða láta bíða eftir þér og þú getur talað við sjálfan þig,“ segir hann og brosir en ætli það sé okkur ekki öllum hollt að tala öðru hvoru við okkur sjálf, þótt ekki væri nema til að athuga hvort okkur finnist við eitthvað skemmtileg.

Morgunhani með áhuga á fuglum Auk þess að ganga á fjöll er kíkirinn aldrei langt undan í útivistinni því Edward er forfallinn

fuglaáhugamaður og hefur alla tíð verið. Hann skráir allar tegundir samviskusamlega sem hann hefur séð og eru þær nú orðnar 1.447 talsins sem hann segir þó ekki vera mikið miðað við annað fuglaáhugafólk. Eins og tölurnar gefa til kynna lætur hann sér ekki nægja að skoða fugla á Íslandi heldur hefur hann ferðast víða um heiminn í þessum erindagjörðum. „Ég hef farið í fuglaskoðunarferðir til Spánar, Bandaríkjanna, Grænlands, Kenýa, Svíþjóðar, Ástralíu, Trínidad og Tóbagó, Tyrklands og Georgíu. Svo nýti ég auðvitað hvert tækifæri sem gefst þegar við hjónin förum í frí vegna þess að fuglalífið er mest við sólarupprás og það vill svo vel til að á þeim tíma vill konan mín fá að sofa,“ segir hann og hlær en það er heppilegt að hann skuli vera morgunhani.


EDWARD BARRY RICKSON ÞÝÐANDI

SKRIFSTOFA BANKASTJÓRA

Ferðast um heiminn að skoða fugla Á síðasta ári fór Edward með nokkrum félögum sínum í ógleymanlega ferð til Georgíu þar sem hinar ýmsu tegundir voru skoðaðar. „Við vorum stundum vaknaðir klukkan 3:30 á nóttunni til að geta verið komnir á réttan stað þegar sólin kom upp. Eftirminnilegasta dýrið úr þeirri ferð var þó ekki fugl heldur villt bjarndýr sem við sáum í fjallshlíð en við vorum í öruggri fjarlægð svo að við gátum fylgst með áhyggjulausir.“

„Ég tók með mér tjald og ætlaði að sjá hvað myndi gerast“ Í ferð sinni til Kenýa var Edward beintengdur náttúrunni með ekkert rafmagn. „Við vöknuðum klukkan fimm á morgnana og vorum að þar til sólin settist þannig að þetta var sko ekkert frí. Við gistum í tjöldum og þegar sólin settist varð dimmt á tveimur mínútum eða svo. Þar sem við vorum án rafmagns þá fórum við alltaf snemma í háttinn og í raun var þetta bara eins og í gamla daga þegar fólk var ekki að vaka fram eftir öllu eins og við gerum í dag,“ segir hann alsæll við tilhugsunina enda hljómar ekki illa að vakna snemma, skoða fugla og ýmis dýr allan daginn og fara svo snemma í háttinn til að vera vel úthvíldur. „Næst á dagskrá er fjölskylduferð til Ástralíu í sumar þar sem ég hlakka mest til að sýna stelpunum mínum krókódíla, kengúrur og risastórar leðurblökur.“

Það er frábært að eignast tvíbura Edward er yngstur þriggja bræðra og búa eldri bræður hans í Hollandi og Ástralíu. Foreldrar þeirra eru búsettir í Bretlandi og eru því ekki partur af sunnudagsrúnti sona sinna eins og gefur að skilja. „Foreldrum mínum finnst þetta vissulega erfitt en þau eru dugleg að heimsækja okkur bræðurna þrátt fyrir að vera að nálgast níræðisaldurinn. Þau hafa komið til Íslands á öllum árstímum en það skiptir ekki máli hversu heppin þau eru með veður, það er alltaf sama sagan þegar þau koma aftur heim til sín, þeim

fannst heldur kalt hérna,“ segir Edward og hlær. „Það er bara fast í þeim að það sé kalt á Íslandi þótt það hafi ekki verið kalt þegar þau komu.“ En Edward stofnaði til sinnar eigin fjölskyldu eftir að hann fann Kristínu konu sína á barnum eina sumarnóttina og þau eiga saman í dag tvíburadæturnar Elísabetu og Rakel. „Ég var alveg gríðarlega ánægður þegar við komumst að því að Kristín gekk með tvíbura. Læknirinn sýndi okkur hjartsláttinn á skjánum og svo sýndi hann okkur annan hjartslátt. Það þýddi að mamma mín þurfti að prjóna tvisvar sinnum hraðar og þann 25. maí 2007 fæddust stelpurnar, 9 og 11 merkur.“ Elísabet og Rakel eru að verða sjö ára og láta pabba sinn hafa nóg fyrir stafni. Eina vikuna fór hann átta sinnum í sund með þær en eins og glöggir lesendur eflaust vita eru bara sjö dagar í vikunni. „Það er frábært að eignast tvíbura,“ segir Edward og heldur áfram. „Þær eru það fyrsta sem ég hugsa um þegar ég vakna á morgnana og það síðasta sem ég hugsa um þegar ég fer að sofa á kvöldin. Þær kunna alveg að spila á mig, vita nákvæmlega hvernig þær eiga að fá sínu framgengt og hvernig þær geta pirrað mig.“

Myndi velja rússnesku í dag Edward hóf störf sem þýðandi í bankanum árið 2002 og tilheyrði þá fyrirtækjaráðgjöf en færðist yfir á skrifstofu bankastjóra árið 2009.

Vissir þú að Edward beið eitt sinn í þrjá tíma í 15 stiga frosti eftir að sjá ákveðna fuglategund, svokallaða norðmeisu? Vissir þú að Edward finnst dýralífsþættir með David Attenborough skemmtilegasta sjónvarpsefnið? Vissir þú að Edward heldur úti tveimur fuglaáhugamannavefsíðum? Vissir þú að Edward trúir á líf í geimnum en telur að við munum aldrei fá botn í málið á okkar líftíma?

„Þýðandastarfið getur verið krefjandi og það er kannski ekki það sem ég sá fyrir mér sem polli að ég myndi gera í framtíðinni. En það er sjaldnast þannig að fólk starfi við það sem það ætlaði sér þegar það var lítið.“ Edward hefur alla tíð haft mikinn áhuga á dýrum og ætlaði að verða dýralæknir á yngri árum. „Svo kom bara í ljós í skóla að ég var alveg ömurlegur í vísindum þannig að ég hætti snögglega við dýralækninn. Ég var mun betri í tungumálum og bókmenntum og endaði á því að fara í þýsku, sænsku og bókmenntir í háskólanum í Hull.“ Auk sænskunnar og þýskunnar hefur Edward lært hin ýmsu önnur tungumál og talar hann íslenskuna best fyrir utan móðurmálið. Þá lærði hann einnig frönsku og latínu í skólanum. „Mér fannst gaman að læra latínu enda kemur hún inn í fugla- og dýrafræðina. Ég kunni fullt af latneskum nöfnum áður en ég byrjaði að læra hana í skóla. Ef ég væri að velja mér tungumál til að læra í háskóla í dag myndi ég eflaust velja rússnesku eða kínversku.“ Hann hefur verið að kynna sér rússnesku en segir það ganga hægt. „Ég talaði dálitla rússnesku í Georgíu síðasta sumar og kunnu heimamenn vel að meta að maður kunni einhverja einfalda frasa, enda tala allir Georgíumenn rússnesku auk georgísku. Mín skoðun er sú að það sé mjög mikilvægt að geta sagt eitthvað á móðurmáli þess lands sem maður heimsækir þótt ekki séu nema fáein orð. Eina landið þar sem þetta virkar ekki er Grænland því þeir einu sem geta borið fram grænlensk orð eru heimamenn.“

11


REGÍNA BJÖRK JÓNSDÓTTIR ÞJÓNUSTUSTJÓRI Í VESTURBÆJARÚTIBÚI

Allir hafa gott af því að fá klapp á bakið varð hún trúnaðarmaður en hver starfsstöð með fleiri en átta stöðugildi hefur sinn eigin trúnaðarmann. Meðal þess sem trúnaðarmenn gera er að taka á erfiðum málum sem tengjast stjórnendum og samstarfsfélögum, ráðleggja fólki varðandi launamál og í einstaka tilfellum þurfa trúnaðarmenn að vera til taks ef kemur til uppsagnar. „Á síðasta fundi trúnaðarmanna kom í ljós að fólki fannst vanta meiri skilning frá samstarfsmönnum og yfirmanni á því hvað felst

Regína með stelpunni sinni Heklu Björk sem er 4 ára. Regína á líka 10 ára strák sem heitir Ísar Logi.

„Ætli ég endi ekki eins og uppstoppaður fálki í glerbúri“

Regína sinnir hinum ýmsu störfum innan bankans fyrir utan níu til fimm vinnuna en hún er trúnaðarmaður og situr að auki í trúnaðarmannaráði, var skipuð í eineltisteymi bankans árið 2012 og er einn af stuðpinnunum í skemmtinefnd Skjaldar. „Í mínum huga eru öll þessi störf sem ég hef verið að sinna í vinnunni hluti af því að byggja upp minn eigin tengslabanka. Ég hef kynnst svo mörgum innan bankans vegna þessara starfa og er þar af leiðandi í sambandi við fullt af fólki úti um allt,“ segir Regína ánægð en virkum dögum vikunnar eyðir hún jafnan í Vesturbæjarútibúi. „Þrátt fyrir að vera staðbundin í útibúi þá finnst mér mikilvægt að tengjast inn á aðrar starfsstöðvar til að kynnast fólki sem gerir vinnuna mína skemmtilegri. Við erum ekki bara tengslabanki út á við heldur líka inn á við og með því að taka þátt í þessum störfum verður vinnuumhverfi mitt skemmtilegra og auðveldara því ég þekki fólk víða í bankanum.“

Trúnaðarmaður frá upphafi Regína hóf störf í Vesturbæjarútibúi fyrir hátt í átta árum. „Ég er, þótt ótrúlegt megi virðast, með lengstan starfsaldur allra í útibúinu. Ætli

12

ég endi ekki bara eins og uppstoppaður fálki í glerbúri,“ segir hún og hlær. Regína byrjaði sem móttökustjóri í útibúinu en var fljótlega farin að sinna störfum þjónusturáðgjafa. Síðastliðið haust varð hún svo þjónustustjóri

„Við erum ekki bara tengslabanki út á við heldur líka inn á við“ en auk vinnunar hefur hún einnig stundað nám í viðskiptafræðum. „Á tímabili var strákurinn minn farinn að spyrja mig í hvert sinn sem ég fór út hvort ég væri á leið í skólann þannig að ég ákvað að hægja aðeins á ferðinni í náminu í bili en stefnan er að klára það fyrr en seinna.“ Fljótlega eftir að Regína hóf störf í bankanum

í því að vera trúnaðarmaður. Það verður einhver að sinna þessu starfi og flestir stjórnendur skilja að ef það er ekki þessi starfsmaður þá er það bara næsti sem tekur starfið að sér.“ Í fyrra settist Regína í trúnaðarmannaráðið en þar sitja fimm trúnaðarmenn af þeim 34 sem vinna þessi störf við bankann. Ráðið fundar á sex vikna fresti og tekur fyrir ýmis mál eins og fatastyrki, mötuneyti, uppsagnir, starfslok, jafnréttismál, fyrirspurnir frá trúnaðarmönnum, ráðleggingar til starfsmanna og trúnaðarmanna o.m.fl. „Trúnaðarmannaráðið er að vinna mjög gott starf og ég hef mjög gaman af því að taka þátt í því. Það má eiginlega segja að þar fái maður smá klapp á bakið þegar einhverjir áfangar nást enda hefðu þeir kannski ekki orðið að veruleika nema af því að einhver var að vinna í þeim. Ráðið tekur á vandamálum sem rata alla leið til okkar en trúnaðarmenn taka á ýmsu sem fer ekki endilega fyrir trúnaðarmannaráð,“ segir Regína


VIÐSKIPTABANKASVIÐ

HELEN ÓLAFSDÓTTIR SJÓÐSTJÓRI

STEFNIR

Langhlaupari ársins gefur góð ráð og fer fögrum orðum um formann ráðsins, Erlu Stefánsdóttur úr útibúinu í Borgarnesi.

Helen í Berlínarmaraþoninu í september. Hún hljóp á tímanum 2:52:30 sem er annar besti tíminn í maraþonhlaupi íslenskra kvenna frá upphafi.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar Í kjölfar vinnustaðagreiningar árið 2012 var sett á fót svokallað eineltisteymi til að sporna gegn einelti sem greindist í litlu magni í könnuninni. „Eineltisteymið er skipað af starfsmannastjóra og er alveg óskylt trúnaðarmannaráðinu. Okkar starf gengur út á að kynna teymið og þær leiðir sem fólk getur farið til að leita til okkar. Við leggjum mikla áherslu á að við gerum ekkert nema í fullu samráði við þann sem leitar til okkar, málið er ekki tekið lengra nema að hans ósk. Þetta fær fólk til að hugsa og vera meðvitað um að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Við þurfum að minna hvert annað á að við erum öll mismunandi og það sem einn getur tekið sem gríni tekur annar kannski á allt annan hátt.“ En svo vikið sé að léttari málefnum þá vill svo til að Regína er einnig í skemmtinefnd Skjaldar. „Það er skemmtilegt að vera í skemmtinefnd, þannig er það nú bara,“ segir Regína og hlær. „Haust- og vorfagnaðir taka hvað mestan tíma en um leið og þú hefur gert þetta einu sinni þá ertu komin með tilfinninguna fyrir þessu og allt gengur eins og smurð vél. Þegar ég mæti á fundi hér og þar í bankanum líður mér ekki lengur eins og gesti. Mér líður mun frekar eins og hluta af af liðinu og þannig vil ég vera, labba bara um og gefa „high-five“,“ segir hún að lokum og hlær.

Arion starfsmaðurinn

Hvað gerir Regína í vinnunni? Fyrir utan að taka vel á móti viðskiptavinum okkar er ég þjónusturáðgjöfum til leiðbeiningar, sé um daglegt skipulag framlínunnar, hef umsjón með vakningartöflu í samvinnu við útibússtjóra ásamt því að sinna ýmsum sölu-, þjónustu- og starfsmannamálum.

best að vera búin að borða um tveimur tímum fyrir hlaup. Almennt er talað um að borða þremur klukkustundum fyrir keppni en þessir tveir tímar henta mér vel.“ Hvaða vegalengd er best fyrir byrjendur að hlaupa? „Fyrir algjöra byrjendur er sniðugt að skokka og ganga til skiptis. Minnka svo smám saman tímann í göngu þar til þú getur hlaupið samfellt t.d. 4 til 6 kílómetra. Aðalatriðið er að byrja rólega og auka svo smátt og smátt.“ Mælirðu með einhverju hlaupa-appi? „Strava er ferlega fínt, hentar bæði fyrir hjólreiðar og hlaupin. Annars nota ég Garmin hlaupaúrið mitt því ég hleyp ekki með símann á mér.“ Á ég strax að byrja að skrifa niður tímana mína? „Ekki spurning, þannig getur þú fylgst með framganginum og flett upp hvernig þú gerðir hlutina, hverju þarf að breyta og hvað er gott í æfingunum sem þú átt að halda í.“

Helen var á dögunum kosin langhlaupari ársins 2013 ásamt Kára Steini Karlssyni á vefsíðunni Hlaup.is. Hverjir eru helstu kostir þess að hlaupa? „Í mínum huga eru svo margir góðir kostir við hlaupin. Það er svo auðvelt að stunda hlaupin, bara reima skóna og skokka af stað. Persónulega gefa hlaupin mér mikið. Ég nota þau til að losa um daglega streitu og skipuleggja daglegt amstur. Svo jafnast ekkert á við þá vellíðan sem maður finnur fyrir eftir gott hlaup.“ Hver er besta flíkin sem þú getur mælt með fyrir þá sem ætla að byrja að hlaupa? „Skórnir skipta mestu máli og þar á eftir koma sokkarnir að mínu mati. Svo er einnig gott að eiga góðar hlaupabuxur og hlaupajakka.“ Hvað er best að líði langur tími frá því maður borðar þar til maður leggur í hann? „Ef ég er að fara í langa hlaupatúra finnst mér

Hvaða tónlist hjálpar á lokasprettinum? „Pink hentar vel á lokasprettinum, oft mikil reiði og tilfinning í lögunum hennar.“ Eitthvað sem þú vilt bæta við? „Víðs vegar um borgina eru skokkhópar sem eru yfirleitt með þjálfara sem eru boðnir og búnir að aðstoða þá sem eru að taka sín fyrstu hlaupaskref. Ég hvet alla til að taka fram skóna og fara út að hlaupa.“

Vissir þú að Helen hljóp sitt fyrsta maraþon árið 2010? Vissir þú að Helen kom rúmri mínútu á undan næstu konu í mark í hálfmaraþoni Reykjavíkurmaraþonsins síðastliðið sumar? Vissir þú að Helen er komin í Ólympíuhóp Frjálsíþróttsambands Íslands fyrir Ólympíuleikana sem munu fara fram í Ríó 2016.

13


VIÐAR REYNISSON FORSTÖÐUMAÐUR

VIÐSKIPTAUMSJÓN

Gefur sér góðan tíma í matseldina „Konan mín á þrjár systur á svipuðum aldri sem skiptast á að búa til börn þessi misserin, tengdamömmu til mikillar gleði. Sú hefð er komin á að þegar börnin koma í heiminn skiptast systurnar og makar á að útbúa kvöldverði, fyrir nýbakaða foreldra, sem vitað er að eru í uppáhaldi. Í sumar var komið að systur konunnar að eignast sitt fyrsta barn en það má segja að hún sé forfallinn humarfíkill auk þess sem hún hefur klárað nokkur klippikort hjá Saffran,“ segir Viðar og viðurkennir að þessi uppskrift hafi orðið til þegar hann gerði tilraun til að endurgera pizzu frá veitingastaðnum Saffran en að sjálfsögðu með smá útúrdúr. „Nú eru humarpizzur ofarlega á óskalistanum þegar við borðum saman en ég mæli með að fólk útbúi pizzuna í rólegheitum um helgar þegar það gefst aðeins meiri tími í matseldina, auk þess sem að þá er frekar tilefni til að opna eins og eina hvítvín með matnum.“

Arion starfsmaðurinn

Hvað gerir Viðar í vinnunni? Í stuttu máli felst starfið í að styðja samstarfsfólk við að ná markmiðum sínum og deildarinnar. Auk þess fer mikið af mínum tíma í skipulagningu eða þátttöku í fjölbreyttum verkefnum af öllum stærðargráðum. Stóru verkefnin undanfarið og framundan hafa t.d. verið AML átak bankans, tryggingaverkefnið, að þróa verklag vegna FATCA sem er bandarísk skattalöggjöf, skráning og yfirferð trygginga Esju lána og innleiðing á A plús í viðskiptaumsjón sem er á greiningarstigi.

Vissir þú að Viðar eignaðist litla stúlku þann 17. febrúar sl. sem fékk nafnið Þuríður? Vissir þú að Viðar átti fyrir þriggja ára dóttur sem heitir Guðrún?

14

Viðari finnst stórskemmtilegt að elda enda er hann mikill matgæðingur. Hann fær hugmyndir að uppskriftum héðan og þaðan og er þessi gómsæta humarpizza sem hann deilir nú með Innsýn innblásin af hollustunni á Saffran.

Aðferð Hrærið þurrgeri og sykri saman við volgt vatn. Látið standa í 10 mínútur þar til blandan hefur freytt vel. Á meðan beðið er skal blanda saman hveiti, heilhveiti og salti í hrærivélarskál. Notið krókinn á hrærivélinni og hellið vatnsblöndunni rólega út í skálina á meðan krókurinn vinnur. Aukið svo hraðann og hnoðið deigið í fimm mínútur. Skiptið deiginu í tvo eða fleiri hluta, fletjið það strax út og hafið botninn þunnan. Leggið viskastykki yfir og leyfið botnunum að hefast í 30 mínútur. Gott er að kveikja tímanlega á ofninum og stilla hann á hæsta hita og grill. Ef notaður er pizzasteinn er hann settur strax inn í ofninn. Blandið saman tandoori mauki, sítrónusafa, jógúrti og engifer í skál. Bætið humrinum út í marineringuna, hrærið saman og setjið til hliðar.

Tandoori humarpizza með grófum botni Deigið 200 g hveiti 200 g heilhveiti 1 tsk salt 1 bréf þurrger 250 ml volgt vatn Humar 200 g pillaðir humarhalar 3 msk (kúfaðar) tandoori mauk 1 msk sítrónusafi 1 msk jógúrt 1 tsk saxað engifer Annað álegg 4 msk pizzasósa 2 msk tandoori mauk mozarella kúlur mozarella rifinn rautt chilli grilluð paprika koríander

Blandið pizzasósu og tandoori mauki saman. Dreifið sósunni jafnt yfir botnana. Athugið að betra er að hafa frekar þunnt lag af sósunni þar sem hún er bragðsterk og einnig til að botninn verði stökkur. Skerið mozarella kúlurnar í sneiðar og dreifið yfir pizzurnar ásamt rifnum osti og söxuðum, grilluðum paprikum (þær er hægt að kaupa tilbúnar í olíulegi). Setjið svo humarhala á pizzurnar en best er að ná sem mestu af marineringunni af þeim svo þeir grillist frekar en soðni. Dreifið að lokum chilli sneiðum yfir pizzuna og bakið hana þar til hún er orðin vel stökk og osturinn fallega bráðinn. Stráið svo söxuðum kóríander yfir áður en pizzurnar eru bornar fram.


nefndin

karlakvöld arion banka

Látum gott af okkur leiða Allir geta verið með í happdrættinu með því að kaupa happdrættismiða á 1.500 kr.

Komandi föstudagskvöld, þann 21. mars, ætla karlarnir í bankanum að láta gott af sér leiða og standa af því tilefni fyrir Karlakvöldi í anda Konukvöldsins í október. Tilefnið er Mottumars og rennur ágóði kvöldsins óskiptur til rannsókna á krabbameinum.

Karlakvöld Arion banka

„Við erum að búa til nýjan standard fyrir karlakvöld framtíðarinnar.“

Hvar Borgartúni 19 Hvenær Föstudaginn 21. mars Nánar Húsið opnar klukkan 17, dagskrá stendur til klukkan 21 Verð Aðgöngumiðinn kostar 3.500 kr. Hver Karlmenn Arion banka Aðrir Hver karl má taka með einn gest og borgar 3.500 kr. fyrir hann Hvað Happdrætti, uppboð, ródeóvél, Hard Rock þema, BBQ, rif, buffalóvængir, grísasamlokur, Hurricane hanastél, G&T, úrval bjórtegunda og óvænt skemmtiatriði Af hverju Til styrktar góðu málefni; rannsóknum á krabbameini Karlakvöldið er eingöngu fyrir karlpening bankans líkt og Konukvöldið var fyrir kvenpeninginn. Hver gestur má taka með sér einn utanaðkomandi gest, tilvalið tækifæri til að bjóða félaganum, pabba gamla, brósa eða öðrum á gott kvöld í bankanum. Konukvöld Arion banka var haldið í október til styrktar báráttunni gegn krabbameini hjá konum. Hátt í 300 konur komu á Konukvöldið þar sem boðið var upp á tískusýningar, uppboð, happdrætti og léttar veitingar. Alls söfnuðust 1,5 milljónir sem runnu til Krabbameinsfélagsins. Karlpeningurinn í bankanum sá um öll þjónustuhlutverk á Konukvöldinu en nú verður hlutverkinu snúið við og mun kvenpeningurinn sjá um að skenkja í glös og munda posann á barnum á Karlakvöldinu.

Hilmar Geirsson

„Ég ætla ekki að missa af tækifæri til henda mér á Rodeo vél.“ Sigmar Ingi Sigurðarson

„Mikilvægt er að gleyma ekki boðskapnum í öllum þessum fagnaðarlátum sem er að fylgjast vel með breytingum í líkamanum og lifa heilsusamlegu lífi - og þreifa á pungnum! Hægt er að draga úr áhættu með því að reykja ekki, hreyfa sig reglulega, borða hollan og fjölbreyttan mat, takmarka neyslu áfengis og varast óhófleg sólböð.“ Bjarni Herrera Karlakvöldsnefndarmenn: Alfreð, Einar Már, Hilmar, Sigmar, Sævar, Einar Gunnar og Bjarni

15


RK STARFS LVI EM I

I SK

N

Á

I SKIPTA VI

URSSTJÓR NG NU RA

N

DV ÖD

1. TÖLUBLAÐ | 2014

A

Getraun úr blaðinu

R

FRÉTTABRÉF STARFSMANNA ARION BANKA

1. Hvaða árgerð er bíllinn hans Sigurjóns? 2. Hvað spilaði Arnaldur marga landsleiki með U21 árs landsliðinu? 3. Hver vann eitt sinn danskeppni með Ómari Ragnarssyni á sveitaballi fyrir austan?

H

LAG OG HÆ PU F

AR UG

A PLÚS

FAR OG HEG UN

I SK

A PLÚS

NI

4. Hver er upphæð mánaðarlegs samgöngustyrks?

A PLÚS

5. Hver er komin í Ólympíuhóp Frjálsíþróttasambands Íslands fyrir Ólympíuleikana í Ríó 2016?

A PLÚS

6. Hvenær varð Viðar tveggja barna faðir? Sendu svörin á godarfrettir@arionbanki.is og þú gætir dottið í lukkupottinn. Verðlaunin eru kökur og kaffi fyrir þig og vinnufélagana. Vinningshafi í getraun síðasta tölublaðs er Linda Dagmar Hallfreðsdóttir. Linda vann kökur og kaffi fyrir vinnufélaga sína í hópnum Fyrirtækjalán og þjónusta. Til hamingju Linda og félagar:)

A PLÚS

A PLÚS

50%

Góðar fréttir Ekki hika við að senda okkur línu á godarfrettir@arionbanki.is ef þú hefur frá einhverju skemmtilegu að segja eða vilt benda okkur á áhugaverða vinnufélaga. Við viljum endilega heyra frá þér.

Frammistöðusamtölin Nú fer hver að vera síðastur að klára árlegt frammistöðusamtal með sínum yfirmanni en þeim skal vera lokið fyrir enda marsmánaðar. Sérstaklega er rætt um hvernig gengur að vinna eftir hornsteinum bankans og er mikilvægt að allir séu vel undirbúnir fyrir viðtalið.

Innleiðingu á A plús lauk nýverið á fyrirtækjasviði og þar með hefur helmingur starfsmanna bankans farið í gegnum A plús innleiðingu. Innleiðingarferlið er hafið í viðskiptaumsjón og á Suðurlandi og mun ljúka þar í sumar. Stór áfangi náðist í A plús innleiðingarferlinu þegar útibúin í Garðabæ og Hafnarfirði bættust í hópinn. Nú er öll framlínan á höfuðborgarsvæðinu komin í A plús.

Við tengjum betur Annan hvern miðvikudag stígur starfsmaður bankans í pontu í Þingvöllum og heldur stuttan hádegisfyrirlestur. Næsti hádegisfyrirlestur verður þann 2. apríl nk. og mun þá Jónas Hvannberg starfsmannastjóri fjalla um vinnustaðargreiningar, fara yfir tilgang þeirra og mikilvægi ásamt því að skýra frá þeim aðgerðum sem gripið var til í kjölfar síðustu

vinnustaðargreiningar. Allir starfsmenn eru hvattir til að fylgjast með hádegisfyrirlestrunum. Þeir fara fram annan hvern miðvikudag í Þingvöllum, byrja kl. 12:40 og standa í 20 mínútur. Þeir eru að sjálfsögðu sendir út í beinni útsendingu á innranetinu og eru einnig aðgengilegir þar að þeim loknum.

Fatasöfnun Rauða krossins á næsta leiti Líkt og undanfarin tvö ár mun fatagámur frá Rauða krossinum vera settur fyrir utan höfuðstöðvar bankans þann 23. apríl næstkomandi, á síðasta vetrardegi ársins. Starfsmenn eru hvattir til að kíkja í geymslurnar og tína til gamlar flíkur til að setja í gáminn en í fyrra söfnuðust alls 800 kíló af fötum. Allar

flíkur nýtast í söfnunina, frá gömlum nærfötum upp í slitin sængurföt og allt þar á milli. Fötin eru ýmist gefin, seld eða send í endurvinnslu þannig að hver einasta flík nýtist. Skellum okkur í vorhreingerninguna og látum gott af okkur leiða í leiðinni.

Ábyrgðarmaður: Haraldur Guðni Eiðsson | Ritstjóri: Guðrún Heimisdóttir | Ljósmyndir: Tomasz Þór Veruson o.fl. | Uppsetning: Arion banki | Prentun: Ísafold, umhverfisvottuð prentsmiðja

Innsýn, fréttabréf starfsmanna Arion banka, 1. tbl. 2014  
Innsýn, fréttabréf starfsmanna Arion banka, 1. tbl. 2014  
Advertisement