__MAIN_TEXT__

Page 1

Nรกmsefni fyrir miรฐstig grunnskรณla


Kennsluleiðbeiningar fyrir „Fiskídag“ Til kennara: Námsefnið „Fiskídag“ er hluti af átaki sem unnið er innan samstarfsverkefnis Matís ohf. og lykilhagaðila í íslenskum sjávarútvegi. Gerð námsefnisins var styrkt af Lýðheilsusjóði Embættis Landlæknis og AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi. Markmið átaksins er að auka neyslu ungmenna á fiski og vekja þau til umhugsunar um fjölbreytileika hans og hvaða næringarlega gildi hann hefur. Einnig er markmiðið að kenna nemendum hvernig best sé að vinna með fisk, eyða mýtum tengdum honum og gera eldun og neyslu fisks að ánægjulegri upplifun. Efnið er aðgengilegt öllum á veraldarvefnum á heimasíðunni www.fiskidag.is. Það er hugsað sem stuðningur fyrir þá kennara sem vilja auka og dýpka umræðu nemenda um fisk og fyrir þá sem hafa áhuga á því að vinna meira með fisk sem hráefni með nemendum sínum. Efninu fylgja sjónvarpsþættir, uppskriftir og ítarefni, m.a. meðhöndlun á fiski, matreiðsla og næringarfræði.

Inngangur Námsefnið „Fiskídag“ fjallar um fisk á fjölbreyttan hátt, meðhöndlun hans, næringu og mikilvægi. Námsefnið er ætlað nemendum á efsta stigi grunnskóla en einnig er hægt nýta efnið fyrir framhaldsskóla. Efnið er miðað við nemendur á aldrinum 12 – 16 ára. Námsefnið er samið með markmið heimilisfræði í huga en efnið nýtist einnig í öðrum námsgreinum. Hægt er að nota námsefnið sem þemaverkefni en einnig er hægt að brjóta það upp og taka einn hluta fyrir í einu. Námsefninu er ætlað að auka áhuga nemenda á neyslu fisks og vekja þá til umhugsunar um það hvernig aukin neysla fisks getur stuðlað að hollu og næringarríku mataræði. Markmiðið með námsefninu er að auka þekkingu nemenda á fiski, kenna þeim rétt handtök við meðhöndlun hans, eyða mýtum sem hafa fylgt fiski í gegnum árin og kenna þeim að matreiða fjölbreytta og bragðgóða fiskrétti. Námsefnið er byggt í kringum „Fiskídag“ sjónvarpsþættina og efni hvers þáttar er í samræmi við efni hvers kafla. Matreiðslumaður vinnur með fiskmeti, kennir ýmis vinnubrögð sem þarf að beita við meðhöndlun á fiski, fjallar um mýtur tengdar fiski og matreiðir í lokin einn einfaldan fiskrétt. Í námsefninu er til viðbótar ítarefni tengt næringarfræði, fjölbreytileika fiskmetis og uppskriftir. Allt námsefnið er aðgengilegt á heimasíðunni www.fiskidag.is.


Fiskur – mikilvægi og hollusta Fiskur er mjög holl fæða og hefur hann verið á borðum Íslendinga frá upphafi byggðar. Embætti landlæknis mælir með því að fisks sé neytt að minnsta kosti tvisvar í viku. Samkvæmt hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla í heimilisfræði er greininni ætlað að fjalla um manninn, líf hans og lífsskilyrði, líkamlegar og andlegar þarfir. Einnig að stuðla að góðu heilsufari, heilbrigðum lífsháttum og neysluvenjum. (Mennta- og menningarmálaráðuneytið,2011, bls. 152). Því er mikilvægt að brýna fyrir nemendum að neysla fisks er mikilvæg. Fiskur er næringarrík fæða sem inniheldur m.a. hágæðaprótein og snefilefni eins og joð og selen (Magnúsdóttir, 2005). Í ráðleggingum frá Embætti landlæknis um mataræði og næringarefni kemur fram að feitur fiskur sé auðugur af D-vítamíni og löngum ómega-3 fitusýrum, þessi næringarefni finnast í fáum öðrum matvælum en fiski. Embætti landlæknis mælir með að borða bæði feitan og magran fisk. Fiskur virðist hafa jákvæð áhrif á heilsuna, m.a. hjarta- og æðasjúkdóma. Í heimilisfræði gefst tækifæri til að hafa áhrif á lífsstíl nemenda með markvissri fræðslu um hollustu og holla matargerð (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 152). Hér fyrir neðan koma nánari lýsingar á þeim helstu næringarefnum sem fiskurinn inniheldur: Ómega-3 fitusýrur: Fjölómettaðar og mikilvægar fitusýrur, þær eru nauðsynlegar byggingareiningar í frumuhimnum og himnum frumulíffæra. Ómega-3 fitusýrur taka þátt í stjórnun blóðþrýstings, nýrnastarfsemi, blóðstorknunar, sýkingar, ónæmisviðbrögðum og annarri vefjastarfsemi. Langar ómega-3 fitusýrur (20 kolefnisatóm eða fleiri) eru einkennandi fyrir fiskfitu. D-vítamín: Í raun hormón en ekki vítamín því að líkaminn getur myndað það í húðinni, fái hún næga geislun frá sólinni. Á Íslandi er myrkur mikinn hluta sólarhringsins á veturna, Íslendingar verða því að gæta þess að fá D-vítamín úr fæðunni. D-vítamín er í mjög fáum fæðutegundum. Einu fæðutegundirnar sem eru auðugar af D-vítamíni eru lýsi, fisklifur og sumar feitar fisktegundir. Aðalhlutverk D- vítamíns í líkamanum er að styrkja bein og tennur. Prótein: Hágæðaprótein er að finna í fiski. Líkaminn þarf prótein til þess að byggja upp og endurnýja vefi líkamans. Einnig til þess að mynda ýmis lífsnauðsynleg efni svo sem ensím, hormón og mótefni. Joð: Bestu joðgjafarnir eru fiskur og sjávarafurðir. Joð er nauðsynlegur hluti skjaldkirtilshormóna en þau stjórna meðal annars orkunýtingu líkamans. Með því að borða fisk í aðalmáltíð nokkrum sinnum í viku og fiskiálegg sem oftast, ætti okkur ekki að skorta joð. Selen: Bestu selengjafarnir eru m.a. fiskur og sjávarafurðir. Mest er af selen í lifur, nýrum, hjarta og milta. Selen er nauðsynlegur hluti ensíms sem verndar fjölómettaðar fitusýrur í frumum og frumuhimnum gegn þránun. (Magnúsdóttir, 2005)


Mynd 1. Bleikja Mynd: Jón B. Hlíðberg Silungur: Samheiti fyrir urriða og bleikju. Silungur er laxfiskur sem lifir bæði í vötnum og sjó á Norðurslóðum. Silungur getur orðið allt að 100 cm langur og 15 kg. Litur silungsins er mjög breytilegur og eru heimkynni hans upprunalega í Evrópu. Á undanförnum árum hefur bleikjueldi aukist verulega á Íslandi.

Mynd 2. Bláskel Mynd: Jón B. Hlíðberg Bláskel: Vex neðarlega í fjörum einkum á 5 – 10 metra dýpi. Bláskel njörvar sig niður með skeggi. Bláskel er jurtaæta, sjór streymir stöðugt inn og út um skelina og þannig fær hún fæðu sína. Bláskel er nýtt til matar á Íslandi og auðvelt er að nálgast hana víða um land.

Mynd 3. Blálanga Mynd: Jón B. Hlíðberg Blálanga: Meðalstór eða stór, langur og mjósleginn þorskfiskur. Á höku hennar er lítill skeggþráður. Blálanga getur orðið allt að 155 cm, hún er grá að lit að ofan og á hliðum en ljósgrá að neðan. Blálanga finnst allt í kringum Ísland og lifir hún á sjávarbotni.


Mynd 4. Lax Mynd: Jón B. Hlíðberg Lax: Við Ísland er mikið um lax, laxinn er rennilegur fiskur og straumlínulaga. Laxinn hrygnir í ám og vex þar upp í sjógöngustærð. Hann gengur þá til sjávar að vori eða fyrri hluta sumars. Í sjó vex hann þar til hann er kynþroska. Í sjó lifir laxinn á ýmsum smáfiskum svo sem loðnu og sandsílum. Þegar hrygningartíminn nálgast heldur laxinn í átt til árinnar sem hann á rætur að rekja til og hrygnir þar. Laxeldi er í vexti á Íslandi og 2014 var framleiðslan ríflega 12.000 tonn, sem var 4.000 tonnum meira en 2013.

Mynd 5. Skötuselur Mynd: Jón B. Hlíðberg Skötuselur: Mjög hausstór og kjaftvíður. Skötuselur er með tvo bakugga, sá fremri er með löngum og linum gisstæðum geislum. Fremsti geislinn getur hreifst í allar áttir og notar skötuselurinn hann sem eins konar veiðistöng til að lokka að sér bráð. Við Ísland hefur skötuselurinn einkum haldið sig í hlýja sjónum við suðaustur- og suðvesturströndina. Skötuselur er botnfiskur sem liggur gjarnan á botninum og lúrir eftir bráð og fiskar með „veiðistönginni“. Litur hans fer eftir botnlagi og lit botnsins.

Mynd 6. Ýsa Mynd: Jón B. Hlíðberg Ýsa: Straumlínulaga og allþéttvaxinn fiskur. Litur ýsunnar er grár- eða blágrænn á baki en silfurgljáandi á hliðum. Hún finnst allt í kringum Ísland. Ýsan er grunnsævis- og botnfiskur og er fæða hennar fjölbreytileg. Ýsan er veidd allt í kringum landið en síst þó við suður- og norðausturströndina.


Mynd 7. Þorskur Mynd: Jón B. Hlíðberg Þorskur: Straumlínulaga og rennilegur fiskur. Á höku hans er áberandi skeggþráður. Algengasti litur þorsksins er gulgrár á baki og hliðum með þéttum dökkum smáblettum. Þorskurinn er botnfiskur sem lifir á ýmsu dýpi og helsta æti hans eru ýmsir smáfiskar. Hann er frekar staðbundinn fyrstu árin en leitar svo í heitari sjó til þess að hrygna. Hann er veiddur allt í kringum Ísland.

Mynd 8. Lýsispillur Lýsi: Ýmist lifrarlýsi (unnið úr lifur þorskfiska) eða búklýsi (t.d. loðnulýsi) með mjög hátt hlutfall af fjölómettuðum fitusýrum og auðugt af A- og D- vítamíni. Lýsi styrkir vöxt tanna og beina, hefur góð áhrif á sjónina, styrkir hjarta- og æðakerfi og byggir upp viðnám gegn ýmsum kvillum. (G. Jónsson, J. Pálsson, 2006; G.P. Ólafsson, 1995; Hafrannsóknarstofnun, 2013; Lýsi hf., 2013; Icelandic Fisheries 2013; Landssamband fiskeldisstöðva 2014; Fiskbókin, 2015). Nánar er hægt að lesa um fisktegundirnar í Fiskbókinni, www.fiskbokin.is

Í töflunni hér til hægri sést næringargildi í hverri fisktegund fyrir sig auk lýsis. Upplýsingar eiga við hráan fisk:

Af þessum fiskum teljast lax og silungur til feitra fiska. Feitir fiskar geyma fitu að mestu leyti í vöðvum en magrir fiskar geyma fitu í lifur (Matís, 2013).

Næringarefni í 100g af ætum hluta Prótein

Fita

Ómega 3

Joð

Selen

langar Blálanga

16 g

1g

0,5 g

Lax

20 g

12 g

2g

30 µg

28 µg

Silungur

19 g

12 g

2g

25 µg

36 µg

Skötuselur

16 g

1g

0,5 g

15 µg

40 µg

10,5g

3g

0,6 g

140 µg

21 µg

Ýsa

18 g

0,6 g

0,3 g

191 µg

39 µg

Þorskur

18 g

0,6 g

0,3 g

45 µg

28 µg

Þorskalýsi

0g

100 g

20 g

0g

0g

Krakkalýsi

0g

100 g

24 g

0g

0g

Bláskel


Skipulag og kennsluhættir Í aðalnámskrá grunnskóla kemur fram að kennsluhættir í list- og verkgreinum þurfi að mótast af virkni og sköpun þar sem verkefni nemenda eru áþreifanleg afurð (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011). Ekki er nóg að lesa um fiskinn, skoða myndir af honum og myndskeið heldur verða nemendur að fá að iðka fagið. Þessu er hægt að ná fram með því að leyfa nemendum að vinna með ferskan fisk og reyna réttu handbrögðin við meðhöndlun hans með leiðsögn frá kennara. Þannig fá nemendur að prófa sig áfram, gera mistök og læra af þeim auk þess sem þau geta lært hvert af öðru. Nám í verkgreinum felst í því að nemendur vinni verklega vinnu sem reynir á hug þeirra og hönd. Í gegnum skilningarvitin geta nemendur aflað sér þekkingar í gegnum skoðun, lykt og smökkun (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011). Undir leiðsögn kennara fá nemendur tækifæri til að prófa sig áfram og skapa þá lokaafurð sem þeir vinna að sem í þessu tilfelli er fiskréttur af einhverju tagi. Í gegnum námsefnið „Fiskídag“ eiga nemendur að fá tækifæri til þess að vinna með ferskan fisk, flaka hann, roðfletta, beinhreinsa og fleira. Kennari getur notað sjónvarpsþættina sem einskonar innlögn fyrir það sem taka á fyrir í kennslustundinni. Þættirnir eru átta talsins og í hverjum þeirra eru tekin fyrir ákveðin atriði tengd fiski, farið í gegnum ákveðin vinnubrögð, til dæmis beinhreinsun. Matreiðslumaðurinn fer í gegnum ákveðnar mýtur sem hafa fylgt fiskinum og sjávarfangi og í lokin er eldaður einfaldur og gómsætur fiskréttur. Hver þáttur er 6 – 8 mínútur. Nemendur horfa á hvernig matreiðslumaðurinn vinnur með fiskinn, eftir þáttinn getur kennari rætt við nemendur um efni þáttarins, farið yfir uppskriftina sem tekin var fyrir og farið í gegnum hráefnin. Næst rifjar hann upp vinnubrögðin með nemendum og leyfir þeim að prófa sjálfum að meðhöndla fiskinn og matreiða réttinn eftir uppskriftinni. Þættirnir og námsefnið er þannig uppbyggt að hægt er að skipta því niður og taka hvern þátt fyrir sig, til dæmis einn þátt í mánuði eða taka þættina í röð og skapa einhverskonar sjávarfangsþema í kringum námsefnið þar sem nemendur vinna með fisk á fjölbreyttan hátt. Einnig er hægt að taka hvern þátt og búta hann niður ef kennari vill leggja sérstaka áherslu á ákveðin atriði. Þetta námsefni er hægt að nýta við samþættingu við aðrar námsgreinar, t.d. náttúrufræði, líffræði, textíl og smíði svo einhver dæmi séu tekin.

Hlutverk kennarans: Hlutverk kennarans er fyrst og fremst að vera leiðbeinandi, að styðja við nemendur og kenna þeim verklag við meðhöndlun og eldun á fiski. Kennarinn þarf að taka mið af ólíkum þörfum nemenda sinna og tengja námið við daglegt líf þeirra og gera það þannig merkingarbært (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011).


Hlutverk kennarans frh: Það er ábyrgð kennarans að kynna efnið vel fyrir nemendum og ræða við þá um sjávarfang; næringargildi , fjölbreytileika, ferskleika og meðhöndlun. Einnig er mikilvægt að kennari skapi jákvæða umfjöllun meðal nemenda um fisk og mikilvægi hans sem hluta af hollu og næringarríku mataræði. Einnig er gott að setja umræðu um neyslu fisks og vinnslu hans í samhengi við nærumhverfi nemenda. Gera þeim grein fyrir mikilvægi sjálfbærni og samspili umhverfis- og félagslegra þátta í tengslum við fisk og fiskneyslu. Í umræðum sem slíkum er hægt að leggja fram spurningar eins og: • • • • • • • • •

Hvað vita nemendur um fisk? Hvað vilja nemendur vita um fisk? Hafa þau sjálf prófað að elda fisk? Hver er uppáhalds fiskrétturinn þeirra? Hvaða aðgengi hafa nemendur að fiski? Hafa þeir veitt fisk? Hvað vita nemendur um fiskvinnslu? Fiskveiðar - sjór og vötn Sjálfbærni fiskveiða – umhverfissjónarmið

Þessar spurningar eru aðeins settar fram sem dæmi en hægt er að bæta við fleiri spurningum eða fækka þeim eftir því hvernig umræður þróast og hvar áhugi nemenda liggur. Samkvæmt hæfniviðmiðum fyrir list og verkgreinar í aðalnámskrá grunnskóla eiga nemendur að vera hæfir til að hagnýta þá þekkingu og leikni sem þeir hafa öðlast til þess að takast á við fjölbreytt viðfangsefni og hafa sjálfbærni að leiðarljósi í vinnu sinni. Nemendur eiga einnig að geta beitt þeirri tækni sem námsgrein þeirra býður upp á og gera grein fyrir þeim hugtökum sem tengjast viðfangsefnum þeirra hverju sinni. Auk þess eiga þeir að sýna ábyrga og örugga umgengni við vinnu og frágang á vinnusvæði ( Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 142). Það kemur einnig fram í hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla að nemendur eigi að geta tjáð sig um heilbrigða lífshætti og tengsl þeirra við heilsufar og sett það í samhengi við ábyrgð hvers og eins á eigin heilsufari. Nemendur eiga að geta matreitt einfaldar og hollar máltíðir og nýtt það hráefni sem þeir eru að vinna með hverju sinni sem best. Auk þess eiga þeir að geta unnið sjálfstætt eftir uppskriftum og notað til þess algengustu mæli- og eldhúsáhöld (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 154). Nemendur eiga einnig að hafa sjálfbærni í huga við vinnu í heimilisfræði og tengja hana við viðfangsefni heimilisfræðinnar og átta sig á uppruna matvæla og meta útlit, gæði þeirra og hvernig best sé að geyma þau (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 155). Ábyrgð kennarans er sú að nemendur séu búnir að ná góðum tökum á þeirri færni sem gerð er krafa um samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla.


Kafli 1 –Ýsa Ýsa hefur verið einn vinsælasti fiskur á borðum Íslendinga í gegnum árin og er það enn. Í þessum kafla er ýsan elduð en fyrst þurfa nemendur að læra það hvernig hægt er að þekkja mun á ferskum og gömlum laxi.

Hæfniviðmið: •

Að vekja nemendur til umhugsunar um ferskleika fisks

Að nemendur geti notað skynfæri sín til að meta gæði fisks og þekki lyktina af skemmdum fiski

Að nemendur þekki þau hráefni sem þeir vinna með

Að nemendur geti matreitt einn einfaldan fiskrétt

Að vekja nemendur til umhugsunar um hreinlæti við matreiðslu og að þeir geti haldið starfstöðvum sínum hreinum og skipulögðum

Vinnutilhögun: Kennari kynnir og útskýrir efni og verkefni tímans og leggur fyrir framan nemendur tvö laxa- eða þorskflök (eitt alveg nýtt og annað vikugamalt). Passa þarf upp á að kaupa fiskinn sem á að geyma tímanlega og hafa við 0-4°C helst á ís. Lýsingar á ferskleika og skemmdareinkennum á bæði soðnum og hráum flökum af mögrum hvítum fiski eins og þorski, ýsu og ufsa má sjá hér, http://www.kaeligatt.is/media/uppsetning/Leidbeiningar_um_mat_a_ferskleika_gaedum.pdf

Kennari kynnir fisktegundina fyrir nemendum og leyfir þeim að finna lyktina af flökunum og snerta þau. Nemendum er gefið tækifæri til að lýsa lykt og áferð fiskflakanna. Nemendur og kennari horfa síðan á þátt nr. 1 í sjónvarpsþáttaröðinni „Fiskídag“. Eftir að nemendur hafa horft á þáttinn kynnir kennarinn fyrir nemendum uppskriftina sem þau munu vinna með og þau hráefni sem þarf til að elda fiskréttinn.


Framkvæmd: Besta leiðin til að meta ferskleika og gæði fisks (og annarra matvæla) er að nota skynfærin okkar (skynmat). Við notum sjón-, lyktar-, bragð- og snertiskyn við að meta gæði fiskins. Mikilvægt er að ræða við nemendur um þá galla sem við sjáum á fiskinum eins og blóðbletti, bein og orma og einnig gefur litur og áferð á flökum ákveðnar hugmyndir um ferskleika. Nemendur þurfa að nota snertiskynið til að meta áferð fiskholdsins, t.d. með fingri, nemendur ýta þá á fiskholdið til þess að athuga hvort fiskurinn sé enn stinnur. Miklu máli skiptir að nemendur noti lyktarskyn sitt til þess að meta lyktina af fiskinum. Við erum mjög næm fyrir ýmsum efnum sem myndast í fiski þegar hann skemmist, eins og ýmsum brennisteins- og köfnunarefnissamböndum. Nemendur geta lært að þekkja lykt sem er einkennandi fyrir ferskan fisk. Mun auðveldara er fyrir nemendur að þekkja skemmdareinkenni á heilum fiski en flökum. Því er mikilvægt að nemendur takist á við það að meta ferskleika fisks í flökum. Það mun hjálpa þeim að meta ferskleika og gæði fisks í framtíðinni því að nánast allur fiskur er seldur flakaður og því þarf að meta ferskleika og gæði með því að horfa á flökin í fiskborði áður en þau eru keypt. Lýsing á lykt Þorskur

Nýr Fersk, hlutlaus, þörunga-, sjávar-,

Viku gamall Súr mjólk, ediksýra, úldin

graslykt Lax

Fersk þang, hlutlaus, gúrka, hey, málmlykt

Súr borðtuskulykt, úldin


Hráefni: ½ kg ýsa

Uppskrift 1: Ýsa í pítubrauði

1 tsk. sjávarrétta kryddblanda frá Pottagöldrum (t.d. Leyndarmál hafmeyjunnar) 3 msk. heilhveiti, má nota hvítt hveiti, spelt eða blöndu af öllu, hvað sem hentar best Salt og pipar 4 Pítubrauð 4 stökk salatblöð (t.d. lambhagasalat, eikarblöð) 1-2 tómatar

Aðferð: 1. Skerið ýsuna í bita og stráið kryddblöndunni yfir. 2. Veltið fiskinum upp úr heilhveiti og steikið á pönnu. 3. Saltið og piprið. 4. Hitið pítubrauðin í ofni. 5. Opnið brauðið vel og raðið inn eftir smekk , fiskinum, grænmetinu og sósunni.


Ýsa í pítubrauði frh. Jógúrtsósa með agúrku: 350 g grískt jógúrt Safi úr einni sítrónu 1 msk. hunang 2 tsk. dijonsinnep 1 agúrka 2 hvítlauksrif Pipar

Næringargildi í 100 g er u.þ.b. Orka Fita þar af - mettaðar fitusýrur Kolvetni Trefjar Prótein Salt

523 kJ / 123 kcal 0,8 g 0,2 16,5 1,5 11,7 0,2

g g g g g

Aðferð: 1. Setjið jógúrtið í skál, bætið í sítrónusafa, hunangi og sinnepi og blandið vel saman. 2. Skerið agúrku í tvennt, hreinsið kjarnann frá og rífið afganginn með grófu rifjárni út í jógúrtið. 3.Skrælið og maukið hvítlauksrifin og bætið saman við. 4. Piprið eftir smekk.


Kafli 2 –Blálanga Blálanga er þorskfiskur með ílangt vaxtarlag, hún hefur verið álitin einhverskonar millistig milli þorsks og áls, henni svipar til þorsks en er löng eins og áll. Hún getur orðið allt að tveir metrar á lengd. Í þessum kafla er blálanga elduð en fyrst er fjallað um hollustu lýsis. Hæfniviðmið: •

Að nemendur viti úr hvaða tegundum lýsi er helst unnið

Að nemendur viti hvaða næringarefni eru í lýsi

Að nemendur geti notað skynfæri sín til að meta gæði fisks og þekki lyktina af ferskum fiski

Að vekja nemendur til umhugsunar um ferskleika fisks

Að nemendur þekki þau hráefni sem þeir vinna með

Að nemendur geti matreitt einn einfaldan fiskrétt eftir hvern þátt

Að vekja nemendur til umhugsunar um hreinlæti við matreiðslu og að þeir geti haldið starfstöðvum sínum hreinum og skipulögðum

Vinnutilhögun: Kennari kynnir og útskýrir efni og verkefni tímans og sýnir nemendum ferska blálöngu. Kennari kynnir fisktegundina fyrir nemendum og leyfir þeim að finna lyktina af fiskinum og snerta hann. Nemendur og kennari horfa síðan á þátt nr. 2 í sjónvarpsþáttaröðinni „Fiskídag“. Eftir að nemendur hafa horft á þáttinn kynnir kennarinn fyrir nemendum uppskriftina sem þau munu vinna með og þau hráefni sem þarf til að elda fiskréttinn.


Fróðleikur um lýsi Lýsi er olía unnin úr fitu fisks og sjávarspendýra. Lýsi er almennt skipt upp í tvo flokka: 1) Lifrarlýsi (unnið úr lifur þorska, ufsa og hákarla) 2) Búklýsi unnið úr heilum fiski (unnið úr sardínum, ansjósum, loðnu og kolmunna) Lýsi er auðugt af A, D og E vítamínum. D vítamín gegnir mikilvægu hlutverki við verndun beina. D-vítamín er í fáum fæðutegundum en lýsi og feitur fiskur eru þær fæðutegundir sem hafa mest af D-vítamíni. Lýsi inniheldur fremur lítið af mettuðum fitusýrum en mikið af fjölómettuðum ómega-3 fitusýrum, EPA og DHA, sem eru manninum lífsnauðsynlegar. Rannsóknir hafa sýnt að ómega-3 fitusýrur í lýsi, og þá sérstaklega EPA og DHA, hafa jákvæð áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma. Rannsóknir hafa enn fremur sýnt að DHA hefur mikilvægu hlutverki að gegna í þroska heila og taugakerfis barna. Á heimasíðu Lýsis er hægt að lesa sig meira til, www.lysi.is. Hér er linkur á bæklinginn „Af hverju á ég að taka lýsi?“ https://issuu.com/lysi1/docs/lysi-broschure/3?e=0


Hráefni: 4 stk ciabatta brauð eða rúnnstykki 600 g blálanga ½ kúrbítur Olía til steikingar Salt og pipar 4 msk. majónes ½ sítróna 8 salatblöð 8 basilíkublöð

Næringargildi í 100 g er u.þ.b. Orka Fita þar af - mettaðar fitusýrur Kolvetni Trefjar Prótein Salt

602 kJ / 144 kcal 6,7 g 0,9 9,3 0,6 11,2 0,1

g g g g g

Uppskrift 2: Blálönguborgari


Blálöngu borgari frh.

Aðferð: 1. Skerið brauðið í tvennt og ristið á vel heitri grillpönnu (má eining gera á venjulegri pönnu). 2. Skerið blálönguna í sneiðar. 3. Skerið kúrbítinn í þunnar sneiðar eftir endilöngu.

4. Steikið hvorutveggja á sömu pönnunni í um 2 mín á hvorri hlið. 5. Smyrjið majónesi á brauðið og raðið salatblöðum á brauðbotninn. 6. Leggið kúrbítinn á salatblaðið og þar næst blálönguna. 7. Setjið basilíkublöðin ofan á og síðan hinn helminginn af brauðinu.


Kafli 3 - Lax (beinhreinsun) Hæfniviðmið: •

Að nemendur geti beinhreinsað fisk

Að vekja nemendur til umhugsunar um ferskleika fisks

Að nemendur geti notað skynfæri sín til að meta gæði fisks og þekki lyktina af ferskum fiski

Að nemendur þekki þau hráefni sem þeir vinna með

Að nemendur geti matreitt einn einfaldan fiskrétt

Að vekja nemendur til umhugsunar um hreinlæti við matreiðslu og að þeir geti haldið starfstöðvum sínum hreinum og skipulögðum

Vinnutilhögun: Kennari kynnir og útskýrir efni og verkefni tímans og sýnir nemendum ferskan lax. Kennari kynnir fisktegundina fyrir nemendum og leyfir þeim að finna lyktina af laxinum og snerta hann. Nemendur og kennari horfa síðan á sjónvarpsþáttinn um beinhreinsun . Eftir að nemendur hafa horft á þáttinn ræðir kennari við þá um efni hans, uppskriftina sem þau munu vinna eftir og þau hráefni sem þarf til að elda fiskréttinn. Nemendur fá ferskan lax, því næst æfa þeir sig í því að beinhreinsa til þess þurfa þeir góðan plokkara. Kennari sýnir nemendum hvar beingarðurinn liggur, er þeim innan handar og leiðbeinir við verkið.


Beinhreinsun: Flakið er snyrt og bein fjarlægð úr því. Það er gert á þann hátt að nemendur renna fingrunum eftir holdinu til þess að finna beinin. Ef þau finna bein fjarlægja nemendur þau með því að skera þau burt eða tína þau úr holdinu til dæmis með plokkara eða flísatöng.


Hráefni: 1 laxaflak Olía til steikingar Salt og pipar 2 hvítlauksrif Safi úr einni sítrónu 3 tómatar 1 lárpera (avocado) 8 taco skeljar 8 stilkar kóríander (má vera steinselja)

Uppskrift 3: Laxa tacos


Laxa tacos frh. Aðferð: 1. Skerið laxinn í bita. 2. Steikið laxinn í olíu á pönnu , saltið og piprið. 3. Skrælið hvítlaukinn og maukið, setjið yfir fiskinn ásamt sítrónusafanum. 4. Skerið tómata og lárperu í bita. 5. Setjið fiskinn, tómatana og lárperuna í taco skeljarnar og stráið steinselju eða kóríander yfir. Næringargildi í 100 g er u.þ.b. Orka Fita þar af - mettaðar fitusýrur Kolvetni Trefjar Prótein Salt

725 kJ /174 kcal 11,3 g 1,4 8,1 1,6 9,3 0,1

g g g g g


Kafli 4 – Skelfiskur Skelfiskur er notað sem yfirheiti yfir ýmis lindýr eða krabbadýr en ekki fisk. Lindýr eru t.d. kræklingur, kúfskel, ostrur og hörpuskel. Krabbadýr eru m.a. rækja og humar. Hafa skal í huga að skelfiskofnæmi er algengt matarofnæmi.

Upplýsingar um kræklingatínslu: Sumir svifþörungar í sjó geta myndað eiturefni. Þessi eiturefni geta síðan safnast upp í kræklingum þar sem þeir nærast á svifþörungum. Það getur valdið skelfiskeitrun þar sem menn og dýr veikjast eftir neyslu á eitruðum skelfiski. Fylgst er með fjölda eitraðra svifþörunga vikulega frá vori og fram á haust. Á upplýsingavef Hafrannsóknastofnunnar um vöktun eiturþörungar er sagt til um hvenær sé óhætt að tína kræklinga í Hvalfirði, Breiðafirði, Eyjafirði og Mjóafirði eystri, http://www.hafro.is/voktun/.


Hæfniviðmið: •

Að gera nemendum grein fyrir mögulegum eitrunum við neyslu skelfisks

Að nemendur geti aflað sér upplýsinga um hvenær óhætt er að tína krækling

Að vekja nemendur til umhugsunar um ferskleika fisks

Að nemendur geti notað skynfæri sín til að meta gæði fisks og þekki lyktina af ferskum skelfiski

Að nemendur þekki þau hráefni sem þeir vinna með

Að nemendur geti matreitt einn einfaldan fiskrétt

Að vekja nemendur til umhugsunar um hreinlæti við matreiðslu og að þeir geti haldið starfstöðvum sínum hreinum og skipulögðum

Vinnutilhögun: Kennari kynnir og útskýrir efni og verkefni tímans og sýnir nemendum nokkra kræklinga. Kennari kynnir skelfiskinn fyrir nemendum og fjallar um möguleika á eitrun séu þeir ekki meðhöndlaðir á réttan hátt eða tíndir á réttum tíma. Kennari leyfir nemendum að finna lyktina af kræklingnum og snerta hann. Nemendur og kennari horfa síðan á þátt nr. 4 í þáttaröðinni „Fiskídag“ þar sem unnið er með skelfisk. Eftir að nemendur hafa horft á þáttinn ræðir kennari við þá um efni hans, uppskriftina sem þau munu vinna eftir og þau hráefni sem þarf til að elda fiskréttinn. Kennari verður þeim innan handar og leiðbeinir þeim við verkið.


Hráefni:

Uppskrift 4: Bláskeljapasta

100 g skalotlaukur 4 hvítlauksrif 3 stórir vel þroskaðir tómatar 1 búnt fersk basilíka 2 tsk hreinn grænmetiskraftur Pipar 350 g pasta (má vera hvaða tegund sem er) 500 g kræklingur (bláskel) 50 g smjör 1½ dl mysa/hvítvín Salt

Næringargildi í 100 g er u.þ.b. Orka Fita þar af - mettaðar fitusýrur Kolvetni Trefjar Prótein Salt

437 kJ / 105 kcal 4,7 g 1,9 8,4 3,7 5,3 0,3

g g g g g


Bláskeljapasta frh. Aðferð: 1. Saxið skalotlauk og hvítlauk og hitið í örlítilli olíu í potti. 2. Skerið tómata gróft og bætið út í pottinn ásamt saxaðri basilíku (helming af uppgefnu magni). 3. Bætið grænmetiskraftinum út í og piprið, látið malla í um mínútu við vægan hita. 4. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum.

5. Setjið mysu/hvítvín í pott og bætið bláskel í pottinn, setjið lok á og látið vera á hitanum í nokkrar mínútur eða þar til skeljarnar hafa opnast. 6. Sigtið pastað þegar það er soðið og hrærið smátt skornu smjöri saman við. 7. Hellið kræklingum og tómatmauki yfir pastað og blandið varlega saman. 8. Saxið afganginn af basilíkunni og stráið yfir.


Kafli 5 – Saltfiskur (menning og hefðir) Í þessum kafla er fjallað um saltfiskinn í tengslum við fiskmenningu Íslendinga. Saltfiskverkun og saltfiskssala er sú atvinnugrein sem hvað mesta þýðingu hefur haft fyrir þjóðarbú og atvinnulíf Íslendinga á nítjándu og tuttugustu öld. Snemma var lögð áhersla á vönduð vinnubrögð og góða meðferð það er að blóðga fiskinn strax eftir veiði, kæla vel og salta sem fyrst eftir að í land var komið. Íslenskur saltfiskur þótti snemma afbragðs vara og var því tiltölulega auðvelt að selja hann í samkeppni við aðrar þjóðir, jafnvel á umtalsvert hærra verði. Stöðug aukning var í framleiðslu saltfisks seinni hluta 19. aldarinnar og framundir 1930, mestur mun útflutningurinn hafa komist í 80 þúsund tonn á einu ári, en var oftast á bilinu 30-50 þúsund tonn. Saltfiskframleiðslan hafði mikil áhrif á myndun byggðakjarna hér á landi, enda krafðist framleiðslan mikils vinnuafls sérstaklega þegar þurrkaður fiskur var meginuppistaða útflutningsins. Útflutningstekjur þjóðarinnar uxu hratt og tækifæri gafst til að flytja inn ýmsan varning og munaðarvörur. Hvað er saltfiskur ? Saltfiskur er venjulega unninn úr þorski, en einnig hafa aðrar bolfisktegundir verið nýttar í saltfiskverkun, svo sem ufsi, keila, langa, blálanga og ýsa. Fiskurinn er flakaður eða flattur og síðan saltaður og verkaður. Söltun er ævaforn aðferð til að geyma matvæli. (Saltfiskhandbókin) Hér má sjá ítarlegra efni þar sem kennarinn getur lesið sig til um saltfiskframleiðslu og sögu hennar: http://www.matis.is/media/baeklingar/Saltfiskur_baeklingur_LoRes.pdf http://www2.matis.is/media/frettir/Saltfiskbokin.pdf


Hæfniviðmið: •

Að vekja nemendur til umhugsunar um þátt saltfiskvinnslu í sögu Íslendinga

Að vekja nemendur til umhugsunar um mikilvægi fiskvinnslu á Íslandi

Að vekja nemendur til umhugsunar um menningu og hefðir Íslendinga varðandi fiskneyslu

Að vekja nemendur til umhugsunar um ferskleika fisks

Að nemendur þekki þau hráefni sem þeir vinna með

Að nemendur geti matreitt einn einfaldan fiskrétt

Að vekja nemendur til umhugsunar um hreinlæti við matreiðslu og að þeir geti haldið starfstöðvum sínum hreinum og skipulögðum

Vinnutilhögun: Kennari kynnir og útskýrir efni og verkefni tímans og sýnir nemendum útvatnaðan saltfisk. Kennari kynnir afurðina fyrir nemendum og leyfir þeim finna lyktina af fiskinum og snerta hann. Nemendur og kennari horfa síðan á þátt nr. 5 í þáttaröðinni „Fiskídag“. Eftir að nemendur hafa horft á þáttinn ræðir kennari við þá um efni hans, uppskriftina sem þau munu vinna eftir og þau hráefni sem þarf til að elda fiskréttinn. Kennari verður þeim innan handar og leiðbeinir þeim við verkið.


Uppskrift 5: Saltfiskpizza Hráefni: Pizzubotn (sjá uppskrift hér fyrir neðan) Pizzusósa (sjá uppskrift hér fyrir neðan) 250 g útvatnaður saltfiskur 1 mozzarellakúla 125 g rifinn mozzarellaostur 2 msk söxuð steinselja Hvítlauksolía

Næringargildi í 100 g er u.þ.b. Orka Fita þar af - mettaðar fitusýrur Kolvetni Trefjar Prótein Salt

842 kJ / 201 kcal 9,3 g 2,3 13,1 0,6 15,9 0,5

g g g g g


Saltfiskpizza frh. Pizzubotn: Hráefni: 200 g hveiti 50 g rúgmjöl 6 g þurrger 1 tsk hunang 1½ tsk salt 3 dl Vatn

Aðferð: 1. Blandið saman öllu hráefninu í pizzubotninn og hnoðið vel. 2. Látið hefast í 30 – 40 mínútur. Gott er að gera pizzusósuna á meðan.


Saltfiskpizza frh. Pizzusósa: Hráefni: 2 hvítlauksgeirar 200 g niðursoðnir tómatar 1 msk tómatpúrra 2 ferskir tómatar 1 tsk þurrkuð basilíka, 4 blöð ef notuð er fersk 1 tsk þurrkuð bergminta

Aðferð: Skrælið hvítlaukinn og maukið í mat-

(oregano), 1 stöngull ef

vinnsluvél ásamt

notuð er fersk

öllu öðru hráefni.


Saltfiskpizza frh. Pizzan sett saman Aðferð: 1. Fletjið út pizzudeig, bakið í um 5 mín. við 200°C, takið út úr ofninum og kælið aðeins. 2. Smyrjið sósunni yfir botninn. 3. Skerið saltfiskinn í sneiðar og dreifið á pizzuna. 4. Myljið mozzarellakúluna gróft og stráið yfir ásamt rifnum osti. 5. Bakið í um 200°C í um 15 mín eða þar til osturinn er bráðnaður. 6. Stráið saxaðri steinselju yfir. 7. Hellið hvítlauksolíu yfir eftir smekk.


Kafli 6 – Þorskur (roðfletting) Þorskur er ásamt ýsunni einn vinsælasti fiskurinn á borðum Íslendinga. Hægt er að matreiða þorskinn á fjölbreyttan hátt.

Hæfniviðmið: •

Að nemendur geti roðflett fisk

Að vekja nemendur til umhugsunar um ferskleika fisks

Að nemendur geti notað skynfæri sín til að meta gæði fisks og þekki lyktina af ferskum fiski

Að nemendur þekki þau hráefni sem þeir vinna með

Að nemendur geti matreitt einn einfaldan fiskrétt

Að vekja nemendur til umhugsunar um hreinlæti við matreiðslu og að þeir geti haldið starfstöðvum sínum hreinum og skipulögðum


Vinnutilhögun: Kennari kynnir og útskýrir efni og verkefni tímans og sýnir nemendum ferskan fisk. Kennari kynnir fisktegundina fyrir nemendum og leyfir þeim að finna lyktina af fiskinum og snerta hann. Nemendur og kennari horfa síðan á sjónvarpsþátt nr. 6. Eftir að nemendur hafa horft á þáttinn ræðir kennari við þá um efni hans, uppskriftina sem þau munu vinna eftir og þau hráefni sem þarf til að elda fiskréttinn. Nemendur fá ferskan fisk þeir æfa sig í því að roðfletta, kennari verður þeim innan handar og leiðbeinir við verkið. Roðfletting: Fiskflak er lagt á borð og fyrir þá sem eru rétthentir snýr sporðurinn til vinstri. Holdið á fiskinum snýr upp og byrjað er á því að skera ugga af flakinu. Næst er hnífnum rennt á milli roðs og holds og hann dreginn alla leið, athugið að oft þarf að beita hnífnum aðeins á ská. Markmiðið er að sem minnst hold verði eftir í roðinu.


Uppskrift 6: Tortilla þorskur með tikka masala sósu

Hráefni: 900 g þorskur Salt og pipar

200 g tikka masala sósa 4 tortillakökur 180 g sýrður rjómi (10%) 1 agúrka eða kúrbítur 4 stökk salatblöð

Næringargildi í 100 g er u.þ.b. Orka Fita þar af - mettaðar fitusýrur Kolvetni Trefjar Prótein Salt

436 kJ / 103 kcal 2,6 g 0,2 10,3 0,3 9,6 0,4

g g g g g

Aðferð: 1. Skerið þorskflakið í bita og steikið á pönnu. 2. Saltið og piprið þorskinn. 3. Hellið tikka masala sósu yfir fiskinn. 4. Látið malla í um 2 mínútur á pönnunni. 5. Smyrjið sýrðum rjóma á tortillakökurnar. 6. Setjið fiskinn á tortilluna. 7. Skerið agúrkuna í bita og setjið ofan á fiskinn ásamt salatblaði og rúllið upp.


Kafli 7 – Skötuselur (næringarfræðsla) Skötuselur er frekar ófrýnilegur en bragðgóður fiskur. Hann er talinn vera hið mesta góðgæti. Hægt er að elda hann á mjög fjölbreyttan hátt. Skötuselur er ríkur af D-vítamíni og joði. Joð Joð er eitt lífsnauðsynlegra steinefna. Joðskortur er útbreiddur víða um heim og telst til alvarlegra heilsufarsvandamála af því hann getur bæði haft áhrif á andlegan og líkamlegan þroska. Mest finnst af joði í fiski (bæði ferskum og þurrkuðum) og öðru sjávarfangi, sérstaklega þangi og þurrkuðum sölvum. Joðmagn annarra fæðutegunda fer t.d. eftir fóðri dýranna og jarðveginum sem plönturnar eru ræktaðar í. Úti í heimi, á svæðum þar sem joðskortur er landlægur, er joðbæting í matarsalt algeng aðferð til að auka joðneyslu. Nægilegt joð fæst með því að borða fisk nokkrum sinnum í viku og neyta mjólkurvara daglega. Joðbætt matarsalt getur bætt joðneyslu þeirra sem hætt er við joðskorti, t.d. ungra stúlkna. Athuga þarf joðmagn fæðubótarefna vel. (Embætti Landlæknis)


Þari Elsta heimild um neyslu á þörungum á Vesturlöndum má finna í Egilssögu. Ákvæði um nytjar hér á landi eru einnig mjög gamlar, m.a. í Grágás og Sturlungu. Söl voru nýtt í mestum mæli, þá marinkjarni og fjörugrös. Einnig eru vísbendingar um notkun purpurahimnu. Þörungar voru einkum nýttir til matar, sem skepnufóður, áburður og eldsneyti. Söl, fjörugrös og marinkjarni voru einkum notuð til matar. Söl voru þeirra verðmætust og juku þau verðmæti jarða töluvert. Söl má finna neðan til í fjörunni og voru þau einkum tínd síðla sumars. Mikilvægt er að skilja eftir bút af sölvunum svo að endurvöxtur geti orðið næsta vor og getur hann jafnvel orðið meiri ef tínt er reglulega. Eftirfarandi þörungategundir eru taldar vænlegar til matar og má finna í þó nokkru magni við landið: Beltisþari vex neðst í fjörunni og er oft í talsverðu magni. Hann líkist Japansþara og er vinsæll til matar bæði í Asíu og á Vesturlöndum. Stórþari er sá þari sem mest er af í kringum landið. Hann er lítið notaður til matar. Sjóarkræða líkist mjög fjörugrösum. Finnst þó mun víðar en þau og jafnvel í mjög miklu magni. Purpurahimna er sú tegund sem skilar mestum arði í eldi í heiminum. Ræktuð í Kína, Japan og Kóreu. Um 11 tegundir af purpurahimnu (Poryphyra ssp.) finnast hér við land og eru þær allar góðar á bragðið. Hún er seintekin úr fjörunni. Maríusvunta er allt í kringum landið. Hún líkist salati í útliti, er bragðgóð og hægt að nota í ýmiss konar matvöru. (Matís) (Embætti Landlæknis)


Hæfniviðmið: •

Að nemendur geri sér grein fyrir mikilvægi joðs sem hluta af fæðu þeirra

Að nemandi þekki helstu matarþörunga við strendur landsins

Að nemendur þekki þau hráefni sem þeir vinna með

Að nemendur geti matreitt einn einfaldan fiskrétt

Að vekja nemendur til umhugsunar um hreinlæti við matreiðslu og að þeir geti haldið starfstöðvum sínum hreinum og skipulögðum

Vinnutilhögun: Kennari kynnir og útskýrir efni og verkefni tímans og sýnir nemendum ferskan skötusel. Kennari kynnir fisktegundina fyrir nemendum og leyfir þeim að finna lyktina af fiskinum og snerta hann. Eftir að nemendur hafa horft á þáttinn ræðir kennari við þá um efni hans, uppskriftina sem þau munu vinna með og þau hráefni sem þarf til að elda fiskréttinn.


Uppskrift 7: Skötuselur með sobanúðlum Hráefni: 1 pk, um 400 g sobanúðlur eða aðrar núðlur 4 msk sesamolía 500 g skötuselur repjuolía til steikingar salt og pipar 1 msk fínt rifinn engifer 5 msk sataysósa 4 stönglar dill Næringargildi í 100 g er u.þ.b. Orka Fita þar af - mettaðar fitusýrur Kolvetni Trefjar Prótein Salt

609 kJ / 146 kcal 7,6 g 0,9 9,5 0,2 9,8 0,1

g g g g g


Skötuselur með sobanúðlum frh. Aðferð: 1. Setjið núðlurnar í sjóðandi saltað vatn og bætið 1 msk sesamolíu í. Sjóðið í um 2 mínútur og sigtið. 2. Skerið skötuselinn í litla bita og steikið á pönnu i blöndu af sesamolíu og repjuolíu. Saltið og piprið og bætið engifer út á pönnuna. 3. Steikið skötuselinn í um 2 mínútur, bætið sesamfræjum út í. 4. Bætið sataysósu út á pönnuna ásamt gróft rifnu dilli og blandið öllu varlega saman.


Kafli 8 - Hrár fiskur Undanfarið hefur hrár fiskur notið mikilla vinsælda, sér í lagi meðal ungs fólks. Mikilvægt er að kenna nemendum rétta meðhöndlun á hráum fiski. Hæfniviðmið: •

Að nemendur kunni að meðhöndla hráan fisk

Að vekja nemendur til umhugsunar um ferskleika fisks

Að nemendur geti notað skynfæri sín til að meta gæði fisks og þekki lyktina af ferskum fiski

Að nemendur þekki þau hráefni sem þeir vinna með

Að nemendur geti matreitt einn einfaldan fiskrétt

Að vekja nemendur til umhugsunar um hreinlæti við matreiðslu og að þeir geti haldið starfstöðvum sínum hreinum og skipulögðum

Vinnutilhögun: Þegar unnið er með hráan fisk er mælt með því að fiskurinn sé frystur í að minnsta kosti 24 klst. áður en hans er neytt. Með frystingunni er verið að tryggja það að öll sníkjudýr drepist. Frystingin á ekki að breyta bragði fisksins. Kennari kynnir og útskýrir efni og verkefni tímans og sýnir nemendum ferskan silung. Kennari kynnir fisktegundina fyrir nemendum og leyfir þeim finna lyktina af fiskinum og snerta hann. Nemendur og kennari horfa síðan á sjónvarpsþáttinn um matreiðslu á silungatartar. Eftir að nemendur hafa horft á þáttinn ræðir kennari við þá um efni hans, uppskriftina sem þau munu vinna með og þau hráefni sem þarf til að elda fiskréttinn. Því næst æfa þeir sig í því að meðhöndla hráan fisk, kennari verður þeim innan handar og leiðbeinir þeim við verkið. Matreiðsla: í þessari uppskrift er unnið með hráan fisk og því þarf ekki að elda hann. Mikilvægt er að gera nemendum grein fyrir því hvernig best er að meðhöndla hráan fisk.


Uppskrift 1: Silungatartar

Hráefni: 2 silungsflök 3 cm biti ferskur engifer 1 cm biti piparrót 1 rautt chili 8 graslaukar Safi úr einni límónu 2 msk ristuð sesamfræ Salt og pipar

Næringargildi í 100 g er u.þ.b. Orka Fita þar af - mettaðar fitusýrur Kolvetni Trefjar Prótein Salt

579 kJ /138 kcal 6,3 g 1,3 6,4 1,8 13,1 0,1

g g g g g

Aðferð: 1. Hreinsið og skerið silunginn í litla bita. 2. Rífið engifer og piparrót yfir fiskinn. 3. Saxið chili og skerið graslauk og bætið saman við fiskinn. 4. Saltið, piprið og bætið límónusafanum í. 5. Bætið sesamfræjum saman við og blandið vel saman, stráið síðan örlitlu af sesamfræjunum yfir.


Heimildir: Elísabet S. Magnúsdóttir. (2005). Næring og hollusta. Reykjavík: Mál og Menning. Embætti landlæknis. Ráðleggingar um mataræði og næringarefni fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri (bæklingur), 2006. Fagur fiskur, www.fagurfiskur.is Fiskbókin, http://fiskbokin.is/ Þóra Valsdóttir, Karl Gunnarsson, Róbert A. Stefánsson, Rósa Jónsdóttir (2011). Málþing um matþörunga Stykkishólmi 26. Febrúar 2011. Skýrsla Matís 18-11. Guðmundur Páll Ólafsson. (1995). Ströndin í náttúru Íslands. Reykjavík: Mál og menning. Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2006). Íslenskir fiskar. Reykjavík: Vaka – Helgafell. Hafrannsóknarstofnun.(2013). Ástand nytjastofna á Íslandsmiðum 2012/2013 og Aflahorfur fiskveiðiárið 2013/2014. Sótt af: http://www.hafro.is/undir.php?ID=26&REF=4 Icelandic Fisheries. Sótt af: http://www.fisheries.is/main-species/codfishes/blue-ling/ Ísgem (Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla). Sótt af: http://www.matis.is/ISGEM/is/umisgem/ Kæligátt. Sótt af: http://www.kaeligatt.is/neytendur/hollusta-fisks/ Landssamband fiskeldisstöðva. Sótt af: http://www.sf.is/attachments/article/175/Fiskeldi%20%C3%A1%20%C3%8Dslandi%202014 %20FIF_GR.pdf Lýsi hf. (2013). Þorskalýsi. Sótt af: http://www.lysi.is/ Matís (2013). Næringarefni í fiski. Sótt af: http://fraedsluvefur.rf.is/Undirflokkur/naering/ Mennta- og menningarmálaráðuneytið (2011). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti.


Reyking sjávarafurða (2014). Sótt af: http://www.matis.is/media/baeklingar/2014_04_07_Reyking_sjavarafurda_opnur_f_netid_ HiRes.pdf Saltfiskhandbókin (2012). Sótt af: http://www2.matis.is/media/frettir/Saltfiskbokin.pdf Veiðimálastofnun. Sótt af: http://www.veidimal.is/default.asp?sid_id=24304&tre_rod=001%7C005%7C004%7C002%7C &tId=1

Profile for Ingunn Jóns

Fiskídag námsefni  

Námsefni fyrir miðstig grunnskóla byggt á þáttunum Fiskídag

Fiskídag námsefni  

Námsefni fyrir miðstig grunnskóla byggt á þáttunum Fiskídag

Advertisement