Þrettándablaðið 2018

Page 13

Felix Örn Friðriksson: Margt spennandi framundan:

Lokatakmarkið að komast í eitt af stóru liðunum Jafnvel í ensku úrvalsdeildina þar sem hápunkturinn yrði að spila með Arsenal Felix Örn Friðriksson stendur á tímamótum á ferlinum, heldur á næstu dögum til Indónesíu með A-landsliði Íslands í fótbolta sem er liður í undirbúningi liðsins fyrir HM í Rússlandi í sumar. Hann var fastamaður í meistaraflokki ÍBV síðasta sumar. Er til skoðunar hjá erlendum liðum, skrifaði nýlega undir nýjan samning við ÍBV en framtíðin er óráðin og ljóst að margt spennandi er fram undan hjá þessum unga Eyjamanni. Felix Örn, sem er 18 ára og spilar stöðu vinstri bakvarðar var ekki gamall þegar hann fór að vekja athygli fótboltaáhugamanna. Hann var ekki hár í loftinu þegar hann tók stefnuna á að ná langt á knattspyrnuvellinum. „Ég byrjaði sex ára að æfa fótbolta og var orðinn tíu ára þegar maður fór að hugsa um að reyna ná langt,“ segir Felix Örn. „Kiddi Gogga var fyrsti þjálfarinn og hann hefur hellings vit á fótbolta. Hjá honum lærði maður undirstöðuatriðin og grunntæknina.“

Hann æfði hjá ÍBV upp alla yngri flokkana og hápunkturinn var á Akureyri í fimmta flokki. „Það var á N-1 mótinu þegar við töpuðum gegn FH í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik um fyrsta sætið. Það var sárt og maður fór að hágráta. En svona er lífið.“ Fyrstu skrefin með landsliðum steig Felix Örn með U-17 liðinu. „Tók svo stökk yfir í U-21 árs landsliðið þar sem ég spila núna. Þar er ég er búinn að leika fimm leiki og nú erum við að spila í undankeppninni fyrir EM. Þar erum við í fínum málum, í þriðja sæti og eigum einn leik til góða. Tvö efstu liðin komast áfram og við eigum góða möguleika.“ Aðspurður um fyrirmyndir segist Felix Örn á yngri árum hafa litið upp til pabba síns, varnarjaxlsins, Friðriks Sæbjörnssonar. „Ég sá hann aldrei spila en sá klippur með honum og fannst hann flottur. Svo var Andri Ólafs alltaf í miklu uppáhaldi þegar maður sá hann spila. Núna er það Marcelo hjá Real Madrid og áður horfði maður mikið á Eboue hjá Arsenal sem er mitt lið í ensku.“ Þegar Felix Örn var tíu ára og tók ákvörðun um að ná langt í fótboltanum

áttaði hann sig á að hann varð að borða rétt og æfa aukalega. Nú er það að skila sér með athygli erlendra liða á honum. „Það byrjaði með því að mér var boðið til nokkurra liða. Byrjaði hjá AZ Alkmaar í Hollandi og svo fór ég til Brighton í Englandi, Valerenga í Noregi og Wolves í Englandi. Núna eru þrjú lið sem hafa áhuga á að fá mig út að æfa. Það verður svo að koma í ljós hvað verður. Ég hef alltaf stefnt á að spila erlendis og mér finnst Norðurlöndin vera skynsamlegt fyrsta skref. Lokatakmarkið er svo að komast í eitt af þeim stóru, jafnvel í ensku úrvalsdeildina þar sem hápunkturinn yrði að spila með Arsenal.“ Felix Örn segir að eins og staðan er núna séu minni líkur á að hann spili með ÍBV næsta sumar. „Ég er reyndar nýbúinn að skrifa undir samning við ÍBV og lít á mig sem leikmann ÍBV. Spurningin er svo hvenær á maður að taka skrefið út.“ Eitthvað að lokum? „Það þarf að mæta vel á æfingar, taka auka æfingar og hugsa um öll litlu atriðin, hvað þú borðar, æfir og vera fyrirmynd,“ sagði Felix Örn að lokum. ÓG. 13


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.