__MAIN_TEXT__

Page 1

Hjálparsveit skáta í Reykjavík Ársskýrsla 2017 - 2018


3

Efnisyfirlit

Ársskýrsla 2017 - 2018 Ávarp sveitarforingja

4

Björgunar- og leitarstörf

5-6

Fjármál og rekstur

7-8

Skipulag og útkallshópar

9 - 15

Almennt starf

16

Nýliðun

17

Embætti og stjórnendur

18

Umbrot, söfnun texta og mynda og yfirlestur: Haukur og Óli Jón

Hjálparsveit skáta í Reykjavík Hjálparsveit skáta í Reykjavík (HSSR) var stofnuð 1932. Markmið hennar er að vinna að björgun fólks og veita hvers konar aðstoð í neyðartilvikum þar sem þekking félaga og tæki hjálparsveitarinnar geta komið að notum. Sveitin gegnir hlutverki í skipulagi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Almannavarna höfuðborgarsvæðisins. Sveitin á aðild að Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Í sveitinni eru 99 félagar á fyrsta útkalli, og svo nálægt 166 aðrir fullgildir, en nú minna virkir félagar. Innan sveitarinnar starfa nokkrir sérhæfðir hópar auk almennra flokka. Í eigu sveitarinnar eru fjalla- og fólksflutningabílar, vélsleðar, snjóbíll og vöruflutningabifreið til flutninga á beltatækjum og öðrum þyngri búnaði. Sveitin er að mestu rekin fyrir sjálfsaflafé. Stjórn HSSR er sjö manna og er starfsárið nú frá 1. mars til loka febrúar, með aðalfund í maí. Hjálparsveit skáta í Reykjavík hefur aðsetur í 1.200 m2 eigin húsnæði að Malarhöfða 6. Sveitin hefur á að skipa einum starfsmanni í 30% hlutastarfi.


4

Ávarp sveitarforingja

Hjálparsveit skáta í Reykjavík hefur sett sér það það markmið að vera “... landbjörgunarsveit með öflugt fyrsta viðbragð og getu til að fylgja því eftir”. Í þessari setningu eru sett fram tvö ill mælanleg markmið, annars vegar að við ætlum að vera öflug landbjörgunarsveit og hins vegar að geta fylgt eftir fyrsta viðbragði. En hvað þýðir það að vera öflug landbjörgunarsveit? Við erum með stóra félagaskrá og nokkuð stóran hluta hennar á 112 útkalli, við eigum öflug tæki til að flytja um tvo þriðju útkallslistans á vettvang björgunarverkefna og við eigum talsvert af öðrum búnaði til að styðja við hver þau verkefni sem við teljum líklegt að við verðum beðin um að sinna.

Við vitum það af reynslunni að við höfum á að skipa mjög fjölbreyttum hópi fólks sem er tilbúið til að takast á við erfið verkefni hvar á landinu sem er. En nú bregður svo við að tilfinningin er að okkar félagar séu einhvern veginn minna viljugir til að „fara út að leika“ en oft áður og því hafa æfingar og atburðir oft orðið minni en til var stofnað. Hugsanlega er tíðarandanum um að kenna, mikill ferðamannastraumur dregur til sín marga þá sem í sögulegu samhengi hafa verið meðal okkar virkustu félaga. Ég kýs allavega að trúa því frekar en að félagar séu einhverra hluta vegna orðnir afhuga sveitinni sinni. Ég trúi því líka að tryggð félaganna muni skila þeim í verkefni þar sem fjöldans kann að verða þörf.

Við eigum öflug tæki og flotta aðstöðu sem rekin er af fé sem félagar hafa aflað með óteljandi vinnustundum og því er gaman að sjá þegar félagar eru duglegir að nýta sér aðstöðuna. Salurinn er nokkuð oft í láni undir gleðistundir félaganna og fjölskyldna þeirra, klifurveggurinn er notaður eins og til er ætlast og margir félagar eru duglegir að fara í ýmist litlum eða stærri hópum til alls konar útivistar og skemmtana, en þeir vildu oft svo gjarnan sjá jafnvel enn fleiri. Það er ekki sjálfgefið að viðhalda markmiðum okkar, en ef félagar eru duglegir að “fara út að leika sama” fá þeir meira út úr starfinu, þeir þekkjast betur og verða þá um leið gagnlegri fyrir sveitina alla. Í svona félagsskap eins og okkar gildir að eftir því sem maður leggur meira inn því meira fær maður út. Tómas Gíslason, sveitarforingi Hjálparsveitar skáta í Reykjavík, 2. maí 2018.


5

Björgunar- og leitarstörf á starfsárinu

Hjálparsveit skáta í Reykjavík var boðuð alls 75 sinnum út til leitar, björgunar, aðstoðar og í lokunarpósta á starfsárinu. Að venju voru verkefnin fjölþætt og staðsetning þeirra bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Leitarverkefni voru samtals 33, þarf af 22 á höfuðborgarsvæðinu og 11 utanbæjarleitir. Björgunarverkefni voru átta talsins, beiðnir um aðstoð tólf sinnum og lokanir að beiðni Vegagerðarinnar voru 18. Sveitin var fjórum sinnum sett í viðbragðsstöðu vegna flugvéla hjá Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli. Engin verkefni voru vegna snjóflóða þetta starfsárið.Þó leitarverkefnin hafi verið mörg þá eru flest stutt, en nokkur voru í nokkrum lotum þar sem var kallað aftur út næsta dag eða næstu helgi. Byrjun árs 2018 tók þó nokkuð á með fjölmörgum lokunum á Hellisheiði og í Þrengslum ásamt verkefnum við að aðstoða bílstjóra á föstum bílum á og í kringum höfuðborgarsvæðið. Í heildina voru 481 mætingar félaga í þessu 75 verkefni, en oft sömu félagarnir. Samtals voru félagar í rúmlega 1.500 klukkustundir í útköllum á starfsárinu.

Björgunar- og leitarstörf 2017-18 - skipting

Björgunar- og leitarstörf 2005 - 2018. Fjöldi útkalla 527


6

Björgunar og leitarstörf á starfsárinu - sundurliðun Innanbæjarleit Á starfsárinu voru 22 leitir innanbæjar. Meirihluti þeirra kláraðist á innan við þremur klukkutímum, en tvær aðgerðir tóku meira en einn dag. Samtals 142 mætingar, 409 klukkustundir. Utanbæjarleit Ellefu utanbæjarleitir voru á árinu með 68 mætingum og tóku samtals 259 klukkustundir. Stærsta utanbæjarleit ársins var leit að manni sem féll í Gullfoss. Björgun Björgunarútköll voru átta talsins og tóku samtals 35 félagar þátt í um 76 klukkutíma. Undanfarar voru tvisvar sinnum kallaðir til að fara með þyrlu í fjallabjörgun. Eitt björgunarverkefni var við Hofsjökul þar sem snjóbíll og vélsleðar héldu af stað, en var snúið við þegar nóg var komið af öðrum björgum á slysstaðinn. Aðstoð Tólf sinnum var sveitin boðuð út til aðstoðar. Þrisvar vegna roks þar sem ýmsir hlutir voru farnir að fjúka. Eitt verkefni snérist um að flytja úr bílum fólk sem komst ekki leiðar sinnar vegna hálku og roks og þurfti þar þungan bíl á keðjum til þess að fjúka ekki út af veginum. Einu sinni var sveitin kölluð til aðstoðar við bruna þar sem sveitin kom með dróna til að streyma myndum af aðgerðinni til aðstoðar slökkviliði..Flest verkefnin voru vegna ófærðar og fastra bíla. Samtals mættu 108 félagar í 447 klukkustundir. Viðbragðsstaða Sveitin var fjórum sinnum boðuð vegna flugvéla í vandræðum. Þrisvar á Keflavíkurflugvelli og einu sinni á Reykjavíkurflugvelli. Öllum flugvélum var lent vandræðalaust. Samtals mættu 32 í samtals 28 klukkustundir. Snjóflóð Við höfum sem betur fer sloppið við snjóflóð þetta starfsárið. Lokanir vegna ófærðar Áframhald var á samningi HSSR við Vegagerðina um mönnun á lokunarpósti við Rauðavatn vegna ófærðar á Hellisheiði og í Þrengslum. Hlutverk sveitarinnar er að vara við ófærð á heiðinni, veita ferðamönnum upplýsingar og leggja til bifreið til vaktstöðunnar. Samningurinn tiltekur greiðslur til HSSR fyrir hvert útkall og felur því í sér bæði útkallsviðbragð og fjáröflun. Lokunarhópur HSSR sér um að manna verkefnið og fer skipulagning mikið fram í gegn um Facebook-síðu hópsins bæði í og utan útkalla.Á tímabilinu var kallað út 18 sinnum á grundvelli þessa samnings. Lokanir stóðu frá tæpum tveimur upp í tuttugu tíma og skiptust félagar á vöktum við að manna þær.


7

Fjármál og rekstur Rekstur sveitarinnar starfsárið 2017–18 kom út með ágætum. Eins og ávallt eru flugeldakaup stærsti útgjaldaliður sveitarinnar, en að sama skapi stærsta tekjulind sveitarinnar ár hvert. Næst stærsti útgjaldaliðurinn er rekstur tækja. Við höfum staðið okkur þokkalega í að halda þeim kostnaði í lágmarki þó svo að árinu hafi orðið á aukning á útgjöldum og má þar helst nefna óvæntar viðgerðir á Reyk 1 og viðhald á öðrum tækjum sveitarinnar vegna tjóna. Tveir sleðar voru seldir og endurnýjaðir. Í ár var ákveðið að leita að flutningabíl með ADR vottun vegna þeirra breytinga sem eiga sér stað í reglum um flutning á flugeldum og stendur sú vinna yfir. Jafnframt er búið að semja um kaup á nýrri bifreið fyrir núverandi Reyk 7 og ætti hún að vera tilbúin í haust. Það er lán sveitarinnar að henni bjóðast fjáraflanir sem eru orðnar fastir liðir í tekjuöflun og má þar nefnda Hengilsverkefnið, sölu á Neyðarkalli, gæslu á fótboltaleikjum og mönnun lokunarpósta fyrir Vegagerðina. Fyrirfram er ekki gott að spá um hverjar verði tekjurnar af hverju verkefni fyrir sig, nema þá helst Hengilsverkefnið þar sem samið er um verkefnið fyrirfram. Sveitin hefur nú sinnt þessu mikilvæga verkefni fyrir Orkuveituna í fimmtán ár. Margir hópar innan sveitarinnar hafa tekið að sér verkefni á Henglinum og sjá þetta sem kjörið tækifæri til skemmtilegar útivistar í nágrenni borgarinnar ásamt því að láta gott af sér leiða fyrir sveitina. Fótboltagæsla fyrir KSÍ á sér ekki síður langa sögu, en innkoman er þá talsvert háð gengi landsliðanna og því ekki á vísan að róa frá ári til árs. Stórir leikir laða að sér fleiri áhorfendur og reglur krefjast þá fleiri gæslumanna sem skilar sér í auknum tekjum til sveitarinnar. Leggja þarf aukna áherslu á sölu Neyðarkalls því það er fjáröflun sem tekur stuttan tíma, en skilar vel til baka. Til þess að það gangi eftir þurfa félagar að vera duglegir í að taka söluvaktir, helst tvær eða þrjár, svo þetta gangi vel upp. Félagar eru því hvattir til þess að taka frá tíma í byrjun nóvember þegar Neyðarkallið verður sent út aftur. Mikið var um lokunarpósta eftir áramót sem leiddi til þess að erfiðara reyndist manna lokunarvaktir þegar leið á veturinn. Til viðbótar framantöldu er svo rétt að nefna reglulegar ferðir félaga á Bola sem farnar eru til ákomumælinga á öllum stóru jöklunum fyrir Landsvirkjun og Jöklarannsóknafélagið. Fjáraflanir eru sveitinni mikilvægar því stöðugt að huga að endurnýjun og viðhaldi og félagar þurfa að standa saman við öflun fjármagns. Án þess fjármagns sem fæst með vinnuframlagi félaga gæti sveitin ekki átt þau tæki og tól sem eru til staðar til æfinga og útkalla.


8

Fjármál og rekstur - rekstrarreikningur

Rekstrarreikningur starfsársins 1. mars 2017 til 28. febrúar 2018


9

Starfsemi hópa

Bílahópur Nokkuð hefur verið um ferðir bílahóps auk þess sem mikið starf hefur verið í því að sinna keyrslu fyrir annað starf í sveitinni. Fastur kjarni í hópnum er orðinn frekar lítill og innan hans er sífellt takmarkaðri reynsla af notkun breyttra bíla við erfiðar aðstæður. Til framtíðar litið þarf að fjölga í hópnum ef hann á að geta sinnt hlutverki sínu. Á árinu var hafið átak til þess að fjölga þeim sem búa yfir þessari færni með því að setja upp þjálfunardagskrá fyrir áhugasama. Þetta tókst vel, mikill áhugi var fyrir því að vera með og um fimmtán manns eru að ljúka þjálfun núna á vordögum. Það er von bílahópsins að hluti af þeim sem luku þjálfun skili sér inn í starf hópsins og að aðrir verði betur undir það búnir að takast á við aksturstengd verkefni þegar á þarf að halda. Nýir stjórnendur, Kormákur og Sveinn, tóku við hópnum á árinu. Á hliðarlínunni er síðan Haukur sem sá um uppsetningu á þjálfunardagskrá.

Tegund

Akstur á árinu

Heildarakstur

Notkun og reynsla

Reykur 1

Mercedes-Benz Atego 2001

4.787

135.215

Var lítið notaður og nokkuð um bilanir.

Reykur 2

Toyota Hilux 2013

13.576

59.319

Breyttur 38“ og hefur komið vel út þetta starfsár.

Reykur 3

Toyota Hilux 2016

5.927

5.927

Breyttur 44" og hefur komið vel út þetta fyrsta ár sitt í notkun

Reykur 4

Isuzu D-Max 2014

14.000

56.584

Óbreyttur bíll sem nýtist vel í almennu starfi og útréttingum. Hefur komið vel út.

Reykur 7

Ford Transit 2011

8.789

50.189

Hefur reynst vel á árinu. Yfirbygging var lagfærð eftir tjón.

Reykur 8

Ford F–350 2004

5.261 mílur

49.914 mílur

Breyttur 46“. Hefur komið vel út. Skipt var um vatnskassa og innvols í framdrifi.


10

Starfsemi hópa Búðahópur Starfsemi búðahópur snýst um að byggja upp reynslu og þekkingu í uppsetningu og rekstri búða og umsýslu á búnaði. Verkefni hópsins í aðgerðum felast í að koma upp og reka aðstöðu fyrir aðgerðastjórnendur, aðstöðu fyrir björgunar- og leitarhópa eða álíka verkefni. Hópurinn hefur umsjón með tjöldum sveitarinnar og tilheyrandi búnaði. Einnig tekur hópurinn þátt í starfi Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar (ÍA) og hefur umsjón með sameiginlegum búnaði hennar og húsnæði á Keflavíkurflugvelli. Hópurinn kemur saman mánaðarlega og tekur einnig þátt í starfi ÍA. Á vormánuðum tók hópurinn þátt í æfingunni Skýjum ofar við Þuríðartinda, en HSSR sá um uppsetningu á æfingunni og voru bæði Trella tjöldin notuð á æfingunni. Hópurinn aðstoðaði við prófun á búnaði fyrir hópslysakerrur sem verið er að koma upp víða um land með aðstoð ISAVIA og var m.a. farið í Skaftafell og á Mývatn með búnað. Á starfsárinu hélt búðahópur einnig smærri æfingar, vinnukvöld og prófun á búnaði á M6. Í október fóru sjö félagar búðahóps með ÍA á MODEX æfingu í Merseyside í Bretlandi. En MODEX æfingar eru á vegum European Community Civil Protection og eru haldnar reglulega með það að markmiði að efla samstarf og samvinnu viðbragðsaðila aðildarlandanna. Æfingin í Merseyside var hefðbundin rústabjörgunaræfing, en á æfingunni voru einnig frönsk rústabjörgunarsveit, þýsk sjúkrasveit og drónasveitir frá Frakklandi og Ungverjalandi. Á vegum ÍA voru einnig haldin fræðslukvöld og æfing. Einu sinni á starfsárinu var beðið um tjöld hópsins vegna leitar, en ekki var hægt að verða við þeirri beiðni þar sem búnaðurinn var í Bretlandi. Hópurinn var stofnaður 2009. Starfsemi hópsins er enn að þróast og má gera ráð fyrir að svo verði um ókomin ár. Framundan er frekari uppbygging með áherslu á aðstoð við stærri útköll hérlendis sem felst í skipulagsvinnu, eflingu búnaðar og þjálfun nýrra félaga.

Bækistöðvarhópur Bækistöðvarhópur HSSR skipuleggur viðbragð og mannar stjórnstöð á meðan útköllum stendur. Útköllin á liðnu starfsári voru mörg og mismunandi, en um þau er nánar fjallað í ársskýrslunni. Hópurinn hefur umsjón með fjarskiptabúnaði, kortasafni og bakvaktarsíma HSSR vegna útkalla og heldur einnig utan um útkallsmál sveitarinnar fyrir hönd stjórnar. Auk þátttöku í útköllum fundaði hópurinn að jafnaði einu sinni í mánuði á liðnu starfsári til að skipuleggja starf sitt. Bækistöð notar kerfið Svörun til að halda utan um svörun útkallsboða, skiptingu í hópa og í skipulagningu viðbragðs. Tölvuskráning félaga HSSR við komu í hús og yfirlitsskjár í anddyri gefa yfirlit yfir mætingu, viðbragð og skipulag útkalla fyrir þá sem eru í húsi. Hér skiptir virkni félaga við svörun útkallsboða og skráningu inn í hús á útkallstölvuna öllu fyrir skipulagningu í útkalli.


11

Starfsemi hópa Fjallahópur Fjallahópur hóf starfsárið af miklum krafti og var áherslan í vetur lögð á almenna útivist og fjallamennsku. Dagskrá vetrarins var lögð fram á kynningarfundi í september og tók hún litlum breytingum út veturinn. Hópurinn hittist að jafnaði á æfingum tvisvar í mánuði þar sem farið var í gönguferðir eða tæknilegri æfingar, t.d. klettaklifur, ísklifur og kennslu á gönguskíði. Í vetur var svo bryddað upp á þeirri nýjung að efna til lengri gönguferða á laugardegi einu sinni í mánuði. Þannig var farið á Hlöðufell, Botnssúlur, Þríhyrning og Skessuhorn og allar ferðir heppnuðust með eindæmum vel.

Flygildahópur Starfsemi flygildahóps var því miður í dálítilli lægð þetta starfsárið. Æfingar urðu engar, bæði vegna veðurs, en ekki síður vegna anna í einkalífi stjórnandans, sem sá sér ekki fært að kalla til æfinga þegar veður þó gafst. Í september héldum við lokað flygildanámskeið innan hópsins, þar sem Óli Jón "keyrði nýtt námskeið á okkur". Það lukkaðist vel og ég held að bæði við og hann hafi tekið ýmislegt frá því til gagns og fróðleiks. Áhugasamir félagar hópsins tóku flygildi með sér heim um stund, til að æfa flug og passa upp á hleðslu á rafhlöðum. Það gaf góða raun og því fyrirkomulagi verður væntanlega haldið áfram. Okkur tókst að finna villu í Inspire flygildinu, sem við það hvarf af skjánum og fannst ekki fyrr en nokkrum dögum síðar. Því miður var verið að prófa hitamyndavélina með því og hvort tveggja laskaðist í "lendingu". Það mál er í vinnslu hjá tryggingafélagi okkar. Þrettán útköll voru á tímabilinu þar sem flygildi var skráð í notkun. Hefðu líklega orðið fleiri ef við hefðum haft hitamyndavélina í lagi.

Hundahópur Hundahópur tók þátt í fimm útköllum á starfsárinu. Fjögur voru á svæði 1, en það fimmta var við Gullfoss. Öll útköll voru vegna leitarverkefna. Svavar Jónsson og Orka fóru saman á eitt námskeið á starfsárinu, en þurftu að hverfa af útkallsskrá í mars á þessu ári. Í byrjun árs kynnti Helgi Tómas Hall að hann hefði hug á að koma með hund í sveitarstarfið og var því vel tekið.


12

Starfsemi hópa Leitartæknihópur Nýir stjórnendur leitartæknihóps tóku við haustið 2017, Jón Pétur Einarsson og Gunnar Ingi Halldórsson. Hryggjarstykkið í starfsemi leitartæknihóps hafa verið mánaðarlegar sameiginlegar æfingar með öðrum björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu. Í þeim æfingum er opið fyrir þátttöku allra félaga og nýliða sem tekið hafa námskeiðið Leitartækni. Leitartæknihópur fékk Eddu Björk frá Hjálparsveit skáta í Garðabæ í heimsókn í byrjun vetrar til að segja frá reynslu sinni, en þar starfar öflugur leitartæknihópur undir hennar stjórn. Sameiginlegu leitaræfingarnar eru fjölbreyttar og reyna m.a. á skipuleg vinnubrögð, rötun við mismunandi aðstæður, fjarskipti, samvinnu og notkun GPS tækja og korta. Æfingarnar eru einnig mikilvæg leið til að auðvelda samvinnu þessara sveita í raunverulegum leitarverkefnum sem skipta tugum árlega. Leitartæknimessa var svo haldin í febrúar 2018 á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og var þar góð mæting frá áhugasömum leitarmönnum frá HSSR. Starfinu vetrarins lauk svo í apríl með fjölmennri æfingu undir stjórn HSSR þar sem unnið var með straumvatnsbjörgunarbúnað og þekkingu sveitarinnar á sviði straumvatnsbjörgunar.

Léttsveitarhópur Starf léttsveitar hófst með hefðbundinni yfirferð búnaðar í byrjun september. Búnaður var vel yfirfarinn í lok sl. vetur og allt var í góðu standi. Búnaður sem um ræðir er notuður í óveðursútköllum.

Sjúkraráð Mikið er búið að vera í gangi hjá Sjúkraráði á þessu starfsári. Haldin voru tvö fyrstu hjálpar námskeið í árinu og fimm endurmenntunarkvöld. Hópurinn sá um sjúkragæslu fyrir skátamótið Moot, setti upp aðstöðu í Skaftafelli og dvaldi þar í fimm daga. Sveitin ákvað að gera öllum sem ætla að haldast á útkallsskrá að mæta á endurmenntunarkvöld. Í því skyni verða framvegis fimm kvöld á starfsári og gert er ráð fyrir að fólk sæki sér endurmenntun að lágmark á tveggja ára fresti. Endurmenntunarkvöldin hafa gengið vel á þessu starfsári og alltaf hefur verið ágætis mæting á þau. Keyptar voru tvær grjónadýnur fyrir sveitina á árinu til útkalls og notkun við kennslu, ein stærri og önnur minni.


13

Starfsemi hópa Lokunarhópur Lokunarhópur er útkallshópur sem sér um lokanir við Rauðavatn þegar færð spillist á Hellisheiðinni og/eða í Þrengslunum. Við sjáum um lokun vestanmegin, en Hjálparsveit skáta í Hveragerði og Björgunarsveitin Mannbjörg í Þorlákshöfn sjá um að loka austan heiðar. Starf hópsins snýst um að sjá um lokanir fyrir Vegagerðina sem greiðir fyrir þessi verk. Þannig að lokanirnar eru ekki aðeins aðstoð við vegfarendur, heldur teljast þær einnig til fjáraflana. Hópurinn er samsettur af virkum félögum og nokkrum eldri félögum sem eru lítið í starfi sveitarinnar, en taka eina og eina vakt í lokun. Alls var kallað út 18 sinnum vegna lokana á starfsárinu; einu sinni í apríl og tvisvar í nóvember 2017. Svo tók 2018 við með mun fleiri verkefnum þar sem kallað var út þrisvar í janúar og ellefu sinnum í febrúar (sem er næstum annan hvern dag). Útköllin voru mislöng þar sem þau stystu voru rúmur klukkutími í mjúkri lokun og það lengsta var 20 tímar og svo aftur kallað út næsta dag eftir nokkura klukkutíma opnun. Samtals voru 96 mæting vegna þessara 17 lokana, þar sem minnst einn mætti og þegar mest var mættu 15 manns sem skiptu verkinu með sér á nokkurra klukkutíma vöktum. Á liðnu starfsári sinntu 33 einstaklingar lokunum. Mikið var um að sömu einstaklingarnir væru að mæta í mörg útkallana, en svo var líka nokkur fjöldi félaga sem tóku stöku vaktir. Félagar vörðu um 360 klukkutímum í að manna lokanir þetta starfsárið. Í þó nokkur skipti var á sama tíma útkall vegna fastra bíla. Oftast voru þau á Mosfellsheiði, en í nokkur skipti þurfti að fara upp á Sandskeið eða lengra til að aðstoða fasta bíla. Lokun krefst tveggja félaga og eins bíls og er skipt upp í vaktir, þannig að þeir sem mæta í lokun eru oftast um 3-4 tíma í hvert sinn. Reykur 7 er yfirleitt notaður í lokun þar sem hann er rúmgóður þannig að það fer vel um mannskap að sitja inni í honum ásamt því að hann er vel búin af bláum ljósum og sést því vel í slæmu skyggni. Einnig er Reykur 4 notaður í vaktaskiptum til að skutla mannskap frá M6 að lokuninni og til baka. Einn af ósögðum kostum Lokunarhóps er að í honum geta eldri félagar fengið tækifæri til að tengja sig aftur inn í starf sveitarinnar á þægilegan og einfaldan máta, enda hefur sýnt sig að margir þeirra eru spenntir fyrir hópnum. Eru aðrir félagar í þeirra sporum hvattir til að gefa hópnum gaum og setja sig í samband við stjórnendur hans, vilji þeir frekari upplýsingar. Virkir félagar innan HSSR mega góðfúslega benda eldri og óvirkum félögum á tilvist hópsins. Stjórnendur Lokunarhóps eru Draupnir Guðmundsson og Unnar Már Sigurbjörnsson.


14

Starfsemi hópa Straumvatnsbjörgunarhópur Dagskrá straumvatnshóps byrjaði með krafti þennan veturinn. Kom hópurinn saman í byrjun starfsárs og ákveðið var að hittast annað hvern þriðjudag í vetur. Haldið var námskeið í Straumvatnsbjörgun 1 fyrir nýliða 22. september. Á námskeiðið mættu sex nemendur og kenndu Freysteinn, Nikulás og Þorvaldur á námskeiðinu. Þá voru nokkrir í hópnum sem sóttu sér auka þekkingu í faginu og fóru á námskeiðið Straumvatnsbjörgun 2 dagana 8.-11. júní fyrir norðan. Búnaði hópsins hefur verið viðhaldið í vetur og er útkallsklárir sjö þurrbúningar, hjálmar, vesti og hanskar.

Undanfarar Starf undanfara hefur verið gott á starfsárinu. Fín mæting hefur verið á æfingar, þó frekar frá nýrri meðlimum hópsins. Hópurinn samanstendur af níu fullgildum undanförum og átta undanrennum ásamt því sem nokkrar risaeðlur eru á blaði. Hópurinn æfir annan hvern miðvikudag. Fyrsta miðvikudag hvers mánaðar er stór innanflokksæfing, en þriðja miðvikudag í mánuði er samæfing undanfara á svæði 1. Undanfarar þurfa að vera góðir í tveimur meginþáttum; fjallamennsku og svo fjallabjörgun. Æfingarnar snúast að mestu um mismunandi þætti fjallabjörgunar þar sem erfiðara er að æfa fjallamennsku í húsi. Á starfsárinu voru m.a. æfð straumvatnsbjörgun, snjóflóðaleit og auðvitað klassísk fjallabjörgun. Þá var haldin stór sprungubjörgunaræfing á Langjökli í nóvember með öðrum undanfarahópum sem heppnaðist mjög vel. Undanfarar gerðu sér glaðan dag og fóru að ísklifra í janúar og var það hin mesta skemmtun. Þá hefur hópurinn farið á fjallaskíði saman. Slíkir hlutir hrista hópinn saman og væri gaman að ná að gera meira af slíku. Undanfarar kenndu að vanda Fjallamennsku 1 og 2. Eitthvað af undanfaraútköllum var á starfsárinu, þó ekkert stórt. Þó nokkuð var þó um að beðið væri um undanfara til að fara með þyrlusveitum Landhelgisgæslunnar. Undanfarahópar Landsbjargar standa saman að Þyrluhópi undanfara, en það er hópur með reynslumestu undanförum hverrar sveitar sem æfir sérstaklega með LHG og fer með þeim í útköll. HSSR á fjóra fulltrúa í þeim hópi. Hópurinn er búinn að koma sér upp búnaði sem geymdur er niðri í þyrluskýli LHG. Nú geta undanfarar því mætt beint þangað í stað þess að koma fyrst við í hjálparsveitinni. Það hefur stytt útkallstíma mjög mikið og skilað góðum árangri.


15

Starfsemi hópa Vélsleðahópur Vélsleðahópur HSSR hefur á að skipa 15-20 félögum, sjö sleðum ásamt þremur kerrum. Í hópnum eru félagar sem eiga sína eigin sleða og er það mjög hentugt ef margir hafa áhuga á að fara í sleðaferð, það gefur einnig hópnum tækifæri til að stækka og dafna án þess endilega að fjölga sleðum. Í hópnum eru félagar með alls konar þekkingu og færni sem nýtist vel í svona félagsskap sem sleðamennska er. Tveir sleðar eru nýir frá því um áramót; einn er eins árs og svo eru fjórir sem eru 2-3ja ára. Allir eru þeir af Polaris gerð og höfum við átt í góðu samstarfi við umboð þeirra til nokkurra ára. Félagar í hópnum eru einnig virkir í öðrum hópum hjá sveitinni; undanförum, straumvatnshópi, beltahópi og bílahópi svo eitthvað sé nefnt. Einnig taka þeir virkan þátt í útköllum og fjáröflunum sveitarinnar. Starfsár hópsins er að mestu leyti frá október til júní, en auðvitað er hægt að fara á jökla landsins allt árið um kring ef vilji er fyrir hendi. Hópurinn hittist á mánudagskvöldum allan veturinn þá er reynt að efla þekkinguna á hinum og þessum þáttum sleðamennskunnar, svo sem viðhaldi á sleðum, fjallabjörgun, skyndihjálp, notkun GPS og korta auk annara þátta. Svo er reynt eftir fremstu getu að komast í eins margar sleðaferðir fram á vorið eins og hægt er, en auðvitað spilast það eftir veðri og snjóalögum. Það skiptir miklu máli fyrir félaga að æfa vel, vélsleðar eru öflug tæki ef menn kunna með þau að fara. Talað er um að það þurfi að keyra um 1.500-2.000 km. á ári til að öðlast mikla færni á sleða.

Snjóbílshópur Starfsemi hópsins vera með venjubundnu sniði þetta árið, nokkrar ferðir verið farnar og auk þess að tækin hafa verið notuð í afkomumælingar á jöklum fyrir Landsvirkjun og Jöklarannsóknafélagið.Undir hópinn falla sjóbíll ásamt vörubíl fyrir fleti til að flytja snjóbíl. Þessi tæki hafa staðið sig vel á árinu, fyrir utan lítilsháttar mótorviðgerð á vörubíl. Á árinu á undan var farið í nokkuð umfangsmiklar viðgerðir og útlitsfegrun á snjóbíl. Hópurinn hittist ekki reglulega en kallaður er til mannskapur þegar þörf er á viðhaldi eða umbótum á tækjum og tólum.


16

Almennt starf Almennt starf var með nokkuð hefðbundnum hætti. Farið var í tveir vaktir í hálendisvaktir Norðan Vatnajökuls og að Fjallabaki, fjallahjólaferð að Fjallabaki og haldin var vel heppnuð árshátíð í Grafarvogi var sem í boði var eitt magnaðasta happdrætti sem um getur. Frá sveitinni fór vaskur hópur á Landsæfingu í Vestmannaeyjum. Við seldum Neyðarkalla í nóvember og flugelda í desember, máluðum stikur á Hengilssvæðinu og stuðluðum að friði og spekt á Laugardalsvelli. Hápunktur Menningarnætur var, að venju, í höndum skotstjóra sveitarinnar og fórst þeim verkið vel úr hendi. Oft var fjörlegt í húsinu og sannaðist þar að góð stemmning næst auðveldlega þegar tveir eða fleiri félagar mæla sér mót þar. Vinir HSSR hafa fundað jafnt og þétt og tengst sífellt betur inn í starfið. Af þessu má sjá að nóg var um að vera á Malarhöfðanum og þar sem félagar í HSSR komu. Það er okkar að hlúa að starfinu með góðri þátttöku og jákvæðum anda því þannig eru okkur allir vegir færir.

UT hópur UT hópur er óformlegur hópur félaga sem sinna ýmsum tölvu- og tæknimálum fyrir HSSR. Hópurinn hefur ekki haft formfast starf á árinu, en félagar í hópnum hafa komið að ýmsum málum varðandi netsambönd, tölvur og öryggiskerfi á árinu. Félagatal í hópnum er ekki formlegt og öllum með tækniþekkingu er velkomið að starfa með hópnum að þeim verkefnum sem liggja fyrir hverju sinni. Á árinu var lagður ljósleiðari í M6 sem bætti netsamband mikið. Eins þurfti að skipta út netbúnaði rétt fyrir flugeldasölu þar sem hann bilaði á versta tíma. Við fengum lánaðan spjaldtölvubúnað til að prufukeyra rafrænt sölukerfi á flugeldasölustað og mun reynslan af því hjálpa til við að velja næstu skref í þeim málum. Sturla Bragason á bestu þakkir skildar fyrir lánið. Öryggiskerfi voru keypt til að setja á alla sölustaði sem ekki voru með slíkt fyrir. Settir voru hreyfiskynjarar og reykskynjarar ásamt stjórnbúnaði.

Húsnæðisnefnd Nokkuð var um framkvæmdir á árinu, lagt var nýtt efni á gólf í anddyri, lagt var rafmagn í aðstöðu búðahóps og léttsveitar auk færslu á ýmsum raflögnum í tækjageymslu. Gert var við suðurvegg tækjageymslu og smíðaður nýr vaskur þar auk þess sem pöntuð var ný innkeyrsluhurð á norðurenda hússins. Einnig hófst skoðun á möguleikum á stækkun tækjageymslu en eingöngu er um skoðun er að ræða.


17

Nýliðun Það er lán sveitarinnar að ár hvert sækir góður hópur fólks um sæti í nýliðaþjálfun. Ávallt er gefandi og skemmtilegt að taka á móti nýju fólki og leiða það í gegnum þau þekkingaratriði sem það þarf að tileinka sér til þess að verða fullgildir félagar og komast á útkallsskrá. Þetta starfsár skilar okkur góðum hópi N2 sem verða á aðalfundi að fullgildu björgunarfólki. Það skilaði okkar einnig vænlegum hópi N1 sem hafa alla burði til þess að vera firnasterkur hópur í seinni lotu þjálfunarinnar.

Nýliðar 1 Við lok fyrri lotu nýliðaþjálfunar standa eftir níu sem þreyttu nýliðaraun og stóðust hana með prýði. Veturinn með þessum hópi hefur verið skemmtilegur, enda nær hópurinn vel saman og í honum er góð eining og samhugur. Í vetur hefur hópurinn farið í gegnum hefðbundna námskeiðsdagskrá og staðist þær kröfur sem til hans hafa verið gerðar. Ánægjulegt verður að taka á móti þessum hópi í haust eftir að nýliðarnir hafa klárað metnaðarfullar sumarferðir. Þá taka við fleiri námskeið og vinna með útkallshópum sveitarinnar fram að fullgildingu í maí 2019. Nýliðar 2 Þjálfun nýliða 2 fór vel fram á starfsárinu. Nýliðar voru gerðir ábyrgir fyrir framgangi sínum í þjálfunarferlinu og virðist það hafa gefist vel. Þeir nýliðar sem höfðu raunverulegan áhuga á og getu til að ganga til liðs við sveitina bitu í skjaldarrendurnar og röðuðu sér niður á námskeiðin. Þar sem vægi valnámskeiða hefur aukist í seinni tíð þurftu nokkrir nýliðar að beita lagni og útsjónarsemi til að ná í einingarnar sínar, en allt gekk upp að lokum. Þurfti stundum að fara um langan veg til að ná markinu, en það var ekki nein hindrun. Á aðalfundi munu nokkrir N2 ganga til liðs við sveitina sem fullgildir félagar og væntir hún mikils af þeim í þeirra störfum.


Embætti og stjórnendur 2017 - 2018 Stjórn Tómas Gíslason, sveitarforingi Ólafur Jón Jónsson, 1. varasveitarforingi Draupnir Guðmundsson, 2. varasveitarforingi Íris Mýrdal Kristinsdóttir, ritari Edda Guðrún Guðnadóttir, gjaldkeri Nikulás Már Finnsson, meðstjórnandi Ragnhildur Kr. Einarsdóttir, meðstjórnandi Skoðunarmenn reikninga Anna Dagmar Arnarsdóttir Jónína Birgisdóttir Örn Guðmundsson

Umsjón N1 Draupnir Guðmundsson Íris Mýrdal Kristinsdóttir Nikulás Már Finnsson Ólafur Jón Jónsson Tómas Gíslason Umsjón N2 Sigríður Guðmundsdóttir Þór Blöndal Starfsmaður Brynjar Jóhannesson

Trúnaðarmaður Haukur Harðarson

Vinir HSSR Alda og Kristín Hrönn

Stjórn rekstrarsjóðs Edda Guðrún Guðnadóttir Egill Tryggvason Hildur Nielsen

Stjórnendur útkallshópa

Flugeldanefnd Ylfa Garpsdóttir Baldur Árnason Martin Swift Brynjar Jóhannesson Sigríður Gyða Halldórsdóttir Edda Guðrún Guðnadóttir Unnar Már Sigurbjörnsson Hengilsnefnd Ingi Valtýsson Sveinn Vignisson Ævar Aðalsteinsson Örvar Aðalsteinsson Húsnæðisnefnd Ingimar Ólafsson Haukur Harðarson Hallgrímur Magnússon Víðir Reynisson Örn Guðmundsson Svæðisstjórn á svæði 1 Gunnar Ingimarsson Helgi Reynisson Kristjón Sverrisson Ólafur Jón Jónsson

Bílahópur Sveinn og Kormákur Búðahópur Svava og Gunnar Kr Bækistöðvarhópur Draupnir og Ninna Fjallahópur Sigríður og Sigurður Flygildahópur Davíð Hundahópur Svavar Leitarhópur Jón Pétur og Gunnar Ingi Léttsveitarhópur Kjartan Long Lokunarhópur Draupnir og Unnar Sjúkraráð Jóhanna, Eiríkur og Freysteinn Snjóbílshópur Hlynur og Halldór Straumvatnsbjörgunarhópur Nikulás og Þorvaldur Undanfarar Daníel og Ívar Vélsleðahópur Sveinbjörn og Þorvaldur


Profile for Hjálparsveit skáta í Reykjavík

Ársskýrsla 2017-18  

Ársskýrsla Hjálparsveitar skáta í Reykjavík fyrir starfsárið 2017-18.

Ársskýrsla 2017-18  

Ársskýrsla Hjálparsveitar skáta í Reykjavík fyrir starfsárið 2017-18.

Profile for hssr
Advertisement