__MAIN_TEXT__
feature-image

Page 1


Upplýsingar um starfsemina 2012 Enn eitt árið þurftu starfsmenn og stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu) að leita allra hugsanlegra leiða til að laga starfsemi stofnunarinnar að þeim fjárveitingum, sem fjárlög ársins gerðu ráð fyrir, með það að leiðarljósi að verja þjónustuna af fremsta megni. Ýmsar tillögur komu fram, sem m.a. voru kynntar velferðarráðherra og starfsfólki ráðuneytisins. Þær féllu í misgóðan jarðveg, en að lokum tókst að ganga frá rekstraráætlun í samræmi við fjárlög. Á vormánuðum hófst vinna við endurskoðun á stefnumótun stofnunarinnar, sem verið hafði í gildi frá árinu 2006. Sú vinna var langt komin í lok ársins. Áfram var haldið við hönnun á endurbótum við eldra húsnæði HSu á Selfossi, sem hófst vorið 2011. Fljótlega kom i ljós, að endurbæturnar verða mun umfangsmeiri en gert var ráð fyrir í byrjun. Ljóst var, að vegna slits og úreldingar á lögnum, fleiri einbýla, bættrar snyrtiaðstöðu ofl. þyrfti að gera miklar endurbætur. Þar að auki eru allt aðrar reglur nú varðandi rýmingarleiðir ofl. en voru fyrir 40 – 50 árum þegar húsnæðið var hannað. Því varð vinna við hönnun mun umfangsmeiri, auk þess sem ýmsar tafir urðu við þá vinnu. Hönnun endurbótanna lýkur væntanlega um mitt ár 2013. Ýmsar framkvæmdir voru við viðhald húsnæðis á hinum ýmsu starfsstöðvum HSu. Fasteignir ríkissjóðs annast allt meiri háttar viðhald og hefur mikið átak verið gert í þeim efnum á undanförnum árum. Endurnýja þurfti ýmis tæki og búnað eins og venjulega. Var það gert með stuðningi og gjöfum ýmissa samtaka og stuðningsaðila stofnunarinnar. Undanfarin ár hefur allur meiri háttar búnaður og tæki verið keyptur með stuðningi þessara aðila. Gerðir voru samningar við Sjúkratryggingar Íslands um aukningu á ýmis konar sérfræðiþjónustu, sem styrkir mjög

þjónustu við íbúa þjónustusvæðisins. Síðustu ár hefur tekist með slíkum samningum að bjóða upp á nýja þjónustu, sem áður þurfti að sækja á höfuðborgarsvæðið. Í þessu riti koma fram helstu upplýsingar um starfsemi HSu á árinu 2012. Stofnunin gegnir veigamiklu hlutverki varðandi skilyrði til búsetu, dvalar og ferðalaga á Suðurlandi. Starfsemin fer fram á átta starfsstöðvum frá Þorlákshöfn og Hveragerði í vestri til Kirkjubæjarklausturs í austri. Jafnframt sinna starfsmenn stofnunarinnar heilbrigðisþjónustu fyrir ýmsar aðrar stofnanir, fyrirtæki og sveitarfélög. Starfsfólk HSu á þakkir skyldar fyrir samviskusamleg störf í þágu skjólstæðinga stofnunarinnar. Starfsfólkið er helsti auður heilbrigðisþjónustunnar og þjónusta þess er ómetanleg. Íbúar og sveitarfélög standa ávallt þétt að baki stofnuninni og yfirstjórn heilbrigðismála metur þjónustu stofnunarinnar mikils. Öllum þessum aðilum er þakkaður öflugur stuðningur.

Magnús Skúlason, forstjóri.

Útgefandi: Heilbrigðisstofnun Suðurlands í júlí 2013. Umsjón og útlit: Gerður Óskarsdóttir í góðu samstarfi við Hólmfríði Einarsdóttur læknaritara og stjórn HSu. Ljósmynd á forsíðu: Ljósmyndari Lárus Guðmundsson. Loftmynd af Selfossi, tekin við vígslu Björgunarmiðstöðvarinnar 15. júní 2012. Aðrar myndir eru í eigu HSu.


Heilsugæsla HSu starfrækir 8 heilsugæslustöðvar á Suðurlandi, á Selfossi, í Hveragerði, í Þorlákshöfn, í Laugarási, á Hellu og Hvolsvelli, í Vík í Mýrdal og á Kirkjubæjarklaustri. Á öllum stöðvunum er veitt grunnþjónusta með áherslu á forvarnir og fræðslu, bráða- og slysaþjónustu, vaktþjónustu, skólaheilsugæslu, heimahjúkrun, mæðra- og ungbarnavernd, hjúkrunarfræðiþjónustu og sálfræðiþjónustu. Á heilsugæslunni er unnið fjölbreytt starf af læknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Auk venjubundinna starfa heilsugæslunnar eru framkvæmdar ýmsar rannsóknir s.s hjartalínurit, beinþéttnimælingar, öndunarpróf og heyrnamælingar. Móttaka sjúklinga: Móttaka lækna og hjúkrunarfræðinga er alla virka daga. Um er að ræða almenna móttöku sem sinnt er af starfsfólki sérhæfðu í heilsugæslulækningum og heilsugæsluhjúkrun. Heimahjúkrun: Markmið heimahjúkrunar er að veita einstaklingshæfða, markvissa, árangursríka og faglega heimahjúkrun, með það að markmiði að gera þeim, sem þjónustunnar njóta, kleift að búa heima við sem eðlilegastar aðstæður þrátt fyrir veikindi, heilsubrest eða öldrun. Skipulögð kvöld- og helgarþjónusta er á heilsugæslustöðvum Þorlákshafnar, Hveragerðis og Selfoss. Meðgönguvernd: Markmið meðgönguverndar er að stuðla að heilbrigði móður og barns. Veita faglega umönnun, stuðning og ráðgjöf, að greina áhættuþætti og bregðast við þeim og að veita fræðslu um meðgöngu og fæðingu. Ung- og smábarnavernd: Markmið ungbarnaverndar er að fylgjast reglulega með heilsu og framförum á þroska barna, andlega, félagslega og líkamlega. Einnig að styrkja foreldra í umönnun ungbarnsins/barnsins með ýmiskonar fræðslu og ráðgjöf . Skólaheilsugæsla: Skólaheilsugæslan leitast við að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Unnið er í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórn-

endur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda. Á svæði HSu eru 16 grunnskólar í umsjá skólaheilsugæslu. Sérhæfð móttaka/þjónusta: Sérhæfðar móttökur eru t.d stuðningur við ofþunga, astma og lungnamóttaka, unglingamóttaka, sykursýkismóttaka, sáramóttaka, þvaglekamóttaka, fyrirtækjaþjónusta, starfsmannaheilsuefling, heilsueflandi heimsóknir til 80 ára og eldri, þjónusta við dvalar og hjúkrunarheimili og sérstakt samstarf við leikskóla. Móttaka sérfræðilækna: Barnalæknir, háls- nef- og eyrnalæknir, augnlæknar, kvensjúkdómalæknir, hjartalæknir og meltingafæralæknir eru m.a. með móttöku á heilsugæslustöðvum. Greiningarteymi barna: Greiningarteymi barna er samstarfsverkefni HSu, Skólaskrifstofu Suðurlands, auk sveitafélagsins Árborgar. Til teymisins er vísað málum barna frá fæðingu að 10 ára aldri þar sem grunur er um þroskafrávik.

Skýringar á töflum: Samskipti á Klaustri skráðust að hluta í Vík, hluti af hjúkrun á Klaustri var sinnt frá Rangárþingi og skráist þar og hluti af heimahjúkrun í Hveragerði skráðist á Selfoss.


Skýringar á töflu: Hluti af hjúkrun í Hveragerði Skráist á Selfoss og hluti af hjúkrun á Klaustri skráist á Rangárþing.

Skýringar á töflu: Ný 20 rúma hjúkrunardeild, mönnuð að hluta 2008 og að fullu 2009


Sjúkrasvið Hand– og lyflæknisdeild: Á deildinni eru 18 legurúm sem opin eru allan sólarhringinn. Að auki eru 6 dagdeildarrúm fyrir aðgerðasjúklinga. Starfsemi deildar er mjög fjölþætt og yfirgripsmikil. Þar starfa reyndir hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar auk sérfræðinga í lyflækningum, skurðlækningum og sjúkraþjálfari. Á deildinni fer fram almenn og bráðaþjónustu í lyflækningum. Hún sinnir jafnframt dagdeildarþjónustu á sviði lyflækninga. Flestir sjúklingar sem leggjast inn koma þó vegna bráðra veikinda. Aðgerðir eru á skurðstofu stofnunarinnar 3 daga í viku. Handlæknishluti deildarinnar sinnir þeim sjúklingum sem þurfa að leggjast inn eftir þessar aðgerðir. Talsvert er um að bæklunarsjúklingar koma frá Landspítala til endurhæfingar. Starfsemi/hlutverk: Á deildinni er vaktþjónusta sérfræðings allan sólarhringinn og til staðar er sérfræðiþekking í almennum lyflækningum, hjartalækningum og meltingarfærasjúkdómum. Meginhlutverk deildarinnar er að veita almenna og bráða þjónustu. Auk þess sinnir deildin sjúklingum með langvinna sjúkdóma og líknandi meðferð. Á árinu 2008 hófst samstarf við LSH að sinna lyfjagjöfum krabbameinssjúkra einstaklinga á lyflæknisdeild HSu. Nú hafa aðrar sérhæfðar lyfjagjafir fylgt í kjölfarið sem áður var eingöngu sinnt á LSH sem sparar viðkomandi einstaklingum bæði tíma og ferðakostnað sem annars hefði fylgt. Fæðingar- og kvensjúkdómadeild: Á deildinni eru 2 rúm fyrir sængurkonur. Fæðingardeild HSu hefur fjölþætt hlutverk. Þar er ekki einungis tekið á móti börnum og annast um sængurkonur heldur sinnir deildin einnig konum með meðgöngutengd vandamál sem þurfa stutta innlögn eða göngudeildarþjónustu. Að auki eru haldin á deildinni fæðingarundirbúningsnámskeið fyrir verðandi foreldra. Konur sem fara í kvensjúkdómaaðgerðir leggjast einnig inn á deildina. Allri mæðravernd á Selfossi er sinnt á fæðingardeildinni auk þess sem mæðravernd á heilsugæslu-

stöðvum utan Selfoss er skipulögð og sinnt af ljósmæðrum deildarinnar. Ljósmóðir á næturvakt sinnir bakvakt fyrir hjúkrunardeildir HSu. Bráða– og slysamóttaka: Á Selfossi er rekin bráða- og slysamóttaka og er hún opin allan sólarhringinn. Þangað koma slasaðir og bráðveikir. Daglega leita á bilinu 20-70 manns á móttökuna ásamt því að fjölda manns er sinnt með ráðgjöf í síma. Á bráða- og slysamóttöku eru 2 rúm sem notuð eru í skammtímaveikindum. Skurð- og speglunardeild: Skurðaðgerðir eru gerðar 3 daga í viku. Helstu aðgerðirnar eru: Háls- nef- og eyrnaaðgerðir, almennar skurðaðgerðir, gallblöðrutökur, kvensjúkdóma- og ófrjósemisaðgerðir. Á speglunardeild eru maga- og ristilspeglanir framkvæmdar þrjá daga í viku. Á skurðstofunni fer fram öll pökkun og sótthreinsun fyrir sjúkradeildir og heilsugæslu Selfoss.

Hjúkrunardeildir Á Ljósheimum og Fossheimum eru 40 hjúkrunarrými og þar af er 8 rúma deild fyrir heilabilaða og 2 hvíldarrými. Á hjúkrunardeildunum er veitt einstaklingshæfð hjúkrun þar sem hjúkrunarfræðingur, sjúkraliði og starfstúlka hafa umsjón með hverjum einstaklingi og leitast er við að uppfylla líkamlegar, andlegar og félagslegar þarfir hans í samvinnu við aðstandendur hans og annað starfsfólk deildarinnar. Á deildunum er leitast við að aðstoða og styrkja einstaklinga í athöfnum daglegs lífs. Virkni í daglegu lífi er nauðsynleg og getur hún falist í ýmiskonar athöfnum allt eftir áhuga, vilja og getu hvers og eins. Virkni getur til dæmis falist í samveru og spjalli, föndri, söngstund, leikfimi eða göngutúr. Vinafélag heimilisfólks á Ljósheimum og Fossheimum hefur verið mikilvægur bakhjarl deildanna en meginmarkmið félagsins er að efla tómstunda- og afþreyingarstarf fyrir heimilisfólk á Fossheimum og Ljósheimum. Einnig auka möguleika þeirra á tilbreytingu í daglegt líf og að standa fyrir fræðslu um sjúkdóma og áhersluþætti sem snúa að eldra fólki.


Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Á árinu hættu nokkrir starfsmenn eftir langa starfsævi hjá HSu. Þeim eru þökkuð góð störf og óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.


Gildi HSu Fagmennska  Við erum fagleg og umgöngumst notendur þjónustunnar af virðingu og nærgætni.  Við erum opin fyrir þróun og nýbreytni í starfseminni og endurmetum vinnubrögð okkar í þeim tilgangi að bæta árangur.  Við vinnum eftir skýrum verkferlum og virku gæðakerfi. Virðing  Við sýnum notendum og samstarfsfólki virðingu.  Við hlustum og tökum tillit til ólíkra sjónarmiða við úrlausn mála og samskipti okkar byggja á trausti til hvers annars.  Við kappkostum að veita þjónustu á grundvelli jafnræðis og vinnum saman að lausn verkefna með velferð notenda þjónustunnar að leiðarljósi. Samvinna  Við veitum góðri frammistöðu athygli og hvetjum hvert annað.  Við deilum þekkingu og erum tilbúin að leita eftir handleiðslu hvert hjá öðru.  Við vinnum saman sem ein heild að hagsmunum og þörfum þeirra sem leita til okkar.


Vígsla Björgunarmiðstöðvar á Selfossi 15. júní 2012 var Björgunarmiðstöðin formlega vígð, en hún hýsir Sjúkraflutninga Árborgar, Brunavarnir Árnessýslu og Björgunarsveit Árborgar. Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) tók við sjúkraflutningum í Árnessýslu 1. janúar 2006 og segja má, að það hafi verið eðlileg þróun í takt við breyttar aðstæður. HSu hafði alla möguleika til að styrkja sjúkraflutningana með aukinni fræðslu og stuðningi annarra starfsmanna heilbrigðisstofnunarinnar. Umsjónarmaður sjúkraflutninga er Ármann Höskuldsson, en hann hafði starfað sem lögregluog sjúkraflutningamaður hjá Sýslumannsembættinu í Árnessýslu Sjúkraflutningar í Árnessýslu ná yfir sveitarfélögin Árborg, Hveragerði, Ölfus, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshrepp, Skeiða- og Gnúpverjahrepp, Hrunamannahrepp, Villingaholtshrepp, Hraungerðishrepp og Gaulverjabæjarhrepp. Íbúafjöldi á þjónustusvæðinu er um 16.000. Auk þess er veitt aðstoð við sjúkraflutninga annarsstaðar á þjónustusvæði HSu eftir því sem þörf er á. Til viðbótar við framangreindan íbúafjölda eru á þjónustusvæðinu þúsundir frístundahúsa og fjölsóttustu ferðamannastaðir landsins, þar sem koma hundrað þúsunda ferðamanna á hverju ári. Þá liggur einn fjölfarnasti hluti hringvegar landsins um þjónustusvæðið. Árlega eru um 2000 sjúkraflutningar í Árnessýslu. Til viðbótar við sjúkraflutninga í Árnessýslu annast heilbrigðisstofnunin einnig sjúkraflutninga í Rangárvalla- og V- Skaftafellssýslu. Í apríl 2006 var undirrituð viljayfirlýsing um byggingu Björgunarmiðstöðvar Árborgar í samvinnu við Brunavarnir Árnessýslu og Björgunarfélag Árborgar. 24. apríl 2006 var síðan tekin fyrsta skóflustungan að nýrri byggingu Björgunarmiðstöðvar Árborgar ehf., á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands við Árveg á Selfossi. Björgunarmiðstöðin tók á leigu lóð í eigu HSu og ríkisins og sá um byggingu hússins. Eigendur hússins eru Sveitarfélagið Árborg, Neyðarlínan og Björgunarfélag Árborgar. Heilbrigðisstofnunin og Brunavarnir Árnessýslu leigja húsnæði fyrir sína aðstöðu af Sveitarfélaginu Árborg. Í húsnæðinu er aðstaða fyrir sjúkrabifreiðar þær, sem Heilbrigðisstofnun Suðurlands rekur vegna sjúkraflutninga í Árnessýslu og öll

Árið 2012 ....

Ársskýrslu HSu má sjá í heild sinni á www.hsu.is

aðstaða sem tengist þeirri starfsemi. Um er að ræða rúmlega 360 fermetra húsnæðisins og aðgang að sameign. Samningurinn var staðfestur var staðfestur í hinni nýju Björgunarmiðstöð 12. júní 2008 með undirskrift Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þáv. heilbrigðisráðherra, og Árna M. Mathiesen, þáv.fjármálaráðherra, Í hinni nýju Björgunarmiðstöð er komin aðstaða fyrir miðstöð sjúkraflutninga á Suðurlandi, Brunavarnir og Björgunarmiðstöð Árborgar, ásamt því að Neyðarlínan hefur aðstöðu fyrir sína þjónustu Með þessu nýja og glæsilegu húsnæði hafa helstu viðbragðsaðilar á Suðurlandi fengið mjög góða aðstöðu í samræmi við nútíma kröfur um slíka aðstöðu.

....var íbúafjöldi á þjónustusvæði HSu um 19.550. ....var fjöldi inniliggjandi sjúklinga á legudeild um 1.142. ....voru ferlissjúklingar á göngu- og legudeildum um 5.932 ....voru móttökur á Slysa- og bráðamóttöku um 14.981 ....voru samskipti við heilsugæslu HSu um 204.470. ....var fjöldi samskipta vegna mæðraverndar um 3.342 ....var heildarfjöldi fæðinga á HSu um 61 ....var fjöldi myndgreininga um 6.976 ....var heildarfjöldi rannsókna um 94.556 ....var fjöldi máltíða úr eldhúsi að meðaltali pr. dag um 225 ....var þvottamagn úr þvottahúsi á dag um 380-400 kg.

Profile for Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Ársskýrsla 2012  

Ársskýrsla 2012  

Advertisement

Recommendations could not be loaded

Recommendations could not be loaded

Recommendations could not be loaded

Recommendations could not be loaded