__MAIN_TEXT__

Page 1

Safnaðarblað Glerárkirkju 1. tbl. 35. árg.

Desember 2020

Lögmannshlíðarkirkja 160 ára Kirkjan á tímum Covid Að rækta andlega lífið Nýtt starfsfólk Glerárkirkju Eftirvænting og aðventan


K

Kveðja frá sóknarpresti

æru íbúar í þorpinu, ég sendi ykkur hugheilar jóla- nýjárskveðjur héðan úr kirkjunni og þakka fyrir góðar móttökur þegar ég tók við stöðu sóknarprests í mars síðastliðnum. Reyndar var kirkjunni skellt í lás vegna Covid í sömu viku og ég tók til starfa svo við höfum þurft að láta reyna á hugmyndaauðgina og sköpunargleðina í störfum okkar, fundið nýjar leiðir til að sinna verkefnum okkar og þjónustunni við fólkið í kirkjunni. Satt best að segja hefur þetta verið spennandi verkefni að takast á við, þótt ég finni, eins og þið flest líklega, að það verður gott þegar við erum komin út úr kófinu og fáum að upplifa eðlilega daga aftur. Þegar við getum sleppt grímunum, tekið í höndina hvort á öðru, tekið utan um fólkið okkar og fundið að áhyggjur af smitvörnum eru víðsfjarri. En eins og segir í bók prédikarans í Gamla testamentinu þá er „öllu afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma. Að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma, að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma.“ Þetta tímabil varir ekki að eilífu, það gengur yfir. Ég vona að jólin færi okkur birtu og yl, lýsi upp skammdegið og fylli okkur von um það að nýtt ár gefi okkur eðlilega og góða daga, hversdag þar sem við getum faðmað, hlegið og notið þess að vera til, áhyggjulaus. Friður Guðs veri með okkur öllum. Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur

Nýtt starfsfólk í Glerárkirkju

Jóhann Þorsteinsson, formaður sóknarnefndar

Á

rið 2020 hefur verið öðruvísi en nokkur hefði getað spáð fyrir og margt hefur verið frá okkur tekið í hversdagslegu lífi sem við áður kannski töldum svo sjálfsagt. Kannski árið verði okkur ágæt þjálfun í þakklæti fyrir hversdagslegu hlutina og æfing í náungakærleik sem getur veitt birtu inn í erfiðar kringumstæður. Í Glerárkirkju urðu líka á árinu miklar mannabreytingar. Sr. Gunnlaugur Garðarsson sem þjónað hefur samfélaginu í þorpinu frá 1991 varð sjötugur í febrúar og lét þá af störfum. Sr. Sindri Geir Óskarsson sem þjónað hafði sem sóknarprestur í Noregi og sem héraðs- og sjúkrahúsprestur hér á Akureyri var valinn nýr sóknarprestur og tók við starfinu í mars.

Eydís Ösp Eyþórsdóttir

Um miðjan júní var haldinn aðalsafnaðarfundur og lét Vilhjálmur Kristjánsson formaður sóknarnefndar af störfum eftir 4 ár. Undir lok sumars lét Sunna Kristrún Gunnlaugsdóttir djákni kirkjunnar af störfum og flutti til Vestmannaeyja með fjölskyldu sinni. Auglýst var eftir verkefnastjóra fræðslu- og fjölskylduþjónustu kirkjunnar í lok sumars og var Eydís Ösp Eyþórsdóttir djáknakandídat sem áður hafði starfað sem svæðisstjóri KFUM&K á Norðurlandi valin í starfið. Við þökkum Gunnlaugi, Sunnu og Vilhjálmi fyrir það mikla og dýrmæta starf sem þau hafa unnið hér í kirkjunni og bjóðum Sindra og Eydísi hjartanlega velkomin í þorpið.

Sr. Sindri Geir Óskarsson

Foreldramorgnar

Eydís Ösp Eyþórsdóttir, verkefnastjóri fræðslu- og fjölskylduþjónustu

Glerárkirkja Sími 464 8800 www.glerarkirkja.is glerarkirkja@glerarkirkja.is www.facebook.com/glerarkirkja Safnaðarblað Glerárkirkju 1. tbl. 35. árg. Glerárkirkja Bugðusíðu 603 Akureyri

Umbrot og ábyrgð Sindri Geir Óskarsson Prentun Ásprent Upplag: 2.800 stk.

F

oreldramorgnar byrjuðu aftur í haust eftir smá hlé og hefur þátttaka verið góð. Það var greinilegt að foreldrar hér í þorpinu hafa saknað þessa starfs. Foreldramorgnar eru vettvangur fyrir foreldra til þess að koma saman með börnin sín og njóta samveru hvers annars. Við höfum einnig hvatt foreldra sem eru heimavinnandi að koma líka – það er ekki skilyrði að hafa barn meðferðis en afskaplega holt og gott að komast út á meðal fólks til að spjalla og fá sér kaffibolla. Þann 1. október síðastliðinn sameinuðust Akureyrarkirkja og Glerárkirkja með foreldramorgna og fór það samstarf vel af stað áður en hlé varð að gera á sökum Covid. Stundirnar eru afslappaðar og foreldrarnir koma að því að skipuleggja dagskrána, en stefnt er að því að einu sinni í mánuði sé fræðsluerindi. Við höfum heyrt frá foreldrum með ung börn að einangrunin þessa dagana sé mjög krefjandi og munu foreldramorgnar byrja aftur um leið og hægt er. Hægt er að fylgjast með starfi foreldramorgna og dagskrá starfsins á facebookhópnum Foreldramorgnar Glerárkirkju


Kirkjan í streymi. Sr. Sindri Geir Óskarsson

...höfum sent út meira en 12 klukkustundir af efni...

V

ið höfum öll mætt nýjum og krefjandi verkefnum í ár. Hér í Glerárkirkju og í söfnuðum um allt land hefur starfsfólk kirkjunnar þurft að finna nýjar leiðir til að halda uppi þjónustu við fólkið sitt. Við höfum þurft að færa messur, bænastundir, fermingarfræðslu, barnastarf og tónleika yfir á netið - og satt best að segja hefur það gengið vonum framar. Í þessu ástandi hefur styrkur þjóðkirkjunnar sannarlega opinberast. Þessi streymi eru ekki bundin sóknarmörkum svo fólk um allt land getur sótt sér andlega næringu, kyrrð og bæn til þeirrar kirkju sem það vill. Frá upphafi faraldursins höfum við sent út meira en 12 klukkustundir af efni og áhorfið á stundirnar okkar í Glerárkirkju hefur sannarlega verið gott.

13

8

11

10

Guðsþjónustur Samanlagt áhorf: 26.804 Kyrrðar- og bænastundir Samanlagt áhorf: 8048

Tónleikar Samanlagt áhorf: 11.130 Barnastundir Samanlagt áhorf: 5691

Valmar Väljaots, Margrét Árnadóttir og Petra Björk Pálsdóttir. Meðan samkomutakmarkanir eru í gildi standa þau þrjú að ör-tónleikum í eldriborgarablokkunum við Lindasíðu í hádeginu á föstudögum. Tónleikunum er oftar en ekki streymt á facebooksíðu kirkjunnar.

Barnakórarnir Margrét Árnadóttir kórstjóri

S

tarfsemi barna- og æskulýðskórs fór mjög vel af stað í haust. Í Barnakórnum eru krakkar á aldrinum 7-9 ára og í æskulýðskórnum krakkar á aldrinum 10-15 ára. Við áttum margar góðar æfingar og það fjölgaði jafnt og þétt í hópnum eftir því sem leið á haustið. Rétt áður en samkomutakmarkanir röskuðu starfseminni hjá okkur héldum við mjög skemmtilega umbunarstund með veitingum, leikjum, dansi og karókí. Við hlökkum mikið til að koma aftur saman og syngja jólalögin á aðventunni. Þann 20. nóvember síðastliðinn var eitt ár síðan kórarnir ásamt barnakórum Akureyrarkirkju settu upp mjög skemmtilega sýningu á söngleiknum Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason, tónlistina samdi Kristjana Stefánsdóttir. Sýninguna settum við upp í tilefni 30 ára afmælis Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og var hún styrkt af Barnamenningarsjóði. Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og mikil upplifun fyrir krakkana að koma fram á stóra sviðinu í Hofi. Stefnt er á að vinna annað stórt verkefni á vorönninni ásamt barnakórum Akureyrarkirkju og fleiri kórum, sem verður flutt í Hofi og í Hörpu.

Mögnuðu leiðtogarnir sem hjálpa okkur með barna- og æskulýðsstarfið

Barnastarfið B Eydís Ösp Eyþórsdóttir

arna– og æskulýðsstarf Glerárkirkju fór vel af stað eftir sumarfrí og hefur þátttakan verið mjög góð. Myndast hefur góður kjarni barna og ungmenna og er sífellt að bætast við. Að vanda bjóðum við upp á fjölbreytt starf, fastir liðir eru sunnudagaskólinn, Glerungar (1.-4. bekkur), TTT (5.-7. bekkur) og UD – Glerá (8.-10. bekkur) en sökum Covid þurfti að gera hlé á öllu starfi innan kirkjunnar. Við höfum reynt að koma til móts við börnin og ungmennin með því að hafa sunnudagaskólann rafrænan og verið með uppákomur í gegnum netið fyrir unglingana. Glerárkirkja er í samstarfi við KFUM og KFUK á Akureyri með unglingastarfið og hefur það starf gengið mjög vel síðustu ár. Starfið er vel sótt og fastur liður í lífi margra krakka hér í þorpinu. Það gleður okkur líka afskaplega að fylgjast með ungmennum vaxa í starfinu og mörg þeirra sem taka þátt í unglingastarfinu hafa verið í barnastarfinu kirkjunnar alveg frá því þau voru kríli og komu með foreldrum sínum í sunnudagaskólann.

Barnakórinn að flytja Bláa hnöttinn

Það er bjart yfir barnastarfi kirkjunnar og verður gott að hitta krakkana aftur þegar dregið verður úr samkomutakmörkunum.


Nú við upphaf aðventu fagnar Lögmannshlíðarkirkja 160 ára afmæli. Kirkjan sem nú stendur er arftaki torfkirkju sem reist hafði verið 100 árum áður, en Lögmannshlíð er forn kirkjustaður og líkur á að í hlíðinni hafi staðið kirkja í tæp 1000 ár. Þegar Glerárprestakall var stofnað árið 1981, varð kirkjan sóknarkirkja okkar í þorpinu en hefur mest verið notuð fyrir skírnir, fermingar, brúðkaup og ljúfar sumarhelgistundir frá því Glerárkirkja var byggð og tók við sem sóknarkirkja.

Fólkið í kirkjunni

Innlit í Lögmannshlíð Þetta eru alltaf tvö til þrjú skref áfram en svo þurfum við að pakka saman og bíða eftir næsta styrk og þá koma kannski eitt, tvö skref aftur á bak á meðan við bíðum.

Kristjana Agnarsdóttir og Snorri Guðvarðsson

S

éra Sindri gómaði Snorra Guðvarðsson og Kristjönu Agnarsdóttur, hjón og kirkjumálara, í Lögmannshlíðarkirkju á fallegum haustdegi og spjallaði við þau um kirkjuna. Þar hafa þau haldið til hluta úr sumrinu og tekið kirkjuna í gegn að utan, skafið af gömlu málninguna og grunnað hana svo það er allt annað að sjá kirkjuna. Þegar viðtalið var tekið voru þau að taka gluggana að innan og koma þeim í gott stand fyrir veturinn. Akureyringar þekkja þau hjón vel, en þau hafa komið að endurbótum á kirkjum víða um land undanfarna áratugi. Spurð út í fjölda kirkna sem þau hafa sinnt segja þau að þær séu orðnar 58, og þar fyrir utan sé annað eins af friðuðum húsum. En hvað er langt síðan þið byrjuðuð að sinna viðhaldi á Lögmannshlíðarkirkju? Snorri: „Það er komið á annan áratug, við byrjuðum á því að taka stjörnurnar niður, laga þær og steyptum nokkrar nýjar. Þá hreinsuðum við hvelfinguna, pússuðum og máluðum. Það er venjan að byrja uppi í hvefingu og vinna sig niður. Nokkrir gamlir góðir þorparar sjá eftir setningunni, sem var sitthvoru megin við altaristöfluna og það er ástæða fyrir því. Kirkjan er ekki fullmáluð ennþá. Þetta er bara grunnur á veggjunum og setningin bíður þess að koma aftur.” Viðhaldi hafði ekki verið sinnt nægjanlega vel áður en Kristjana og Snorri hófu að hlúa að henni. Kirkjan var í slæmu ástandi og þyljurnar á veggjunum voru allar laflausar og gengu til, en þau hafa unnið að því að taka kirkjuna í gegn í smá skömmtum í rúman áratug og verkinu hvergi nærri lokið. Kristjana: „Það þarf að hækka bekkina. Þú ert ekkert átakanlega

lítill og finnur meira fyrir því en stubbarnir við, hve bekkirnir eru lágir. Það þarf að gera eitthvað í þessu.“ Kristjana heldur áfram, „Svo þarf að hreinsa gólfið, vinna í bekkjunum sjálfum, taka söngloftið, handriðið og allt saman. Þetta er allt á grunni. Súlurnar eru hvítar núna en eiga ekki að vera þannig. Það eru ýmsar reddingar hér inni sem hefur verið bætt við, eins og til dæmis hvíta fjölin á prédikunarstólnum, en þetta er ekki upprunalegt og fer afar illa. Það er markmiðið að koma kirkjunni í upprunalegt ástand og jafnvel betra form en þá var.“ Skafið í gegnum söguna Það að sinna gömlum kirkjum kallar á töluverða rannsóknarvinnu. Það eru ekki til litmyndir af kirkjunni frá því að hún var ný og því þurfa hjónin stundum að skafa í gegnum málningarlögin til að uppgötva hvernig kirkjan var á litinn. Við prédikunarstólinn er til að mynda hvítt handrið í dag, en það er útilokað að það sé upprunalegur litur. Það bíður betri tíma að taka stólinn í gegn og koma honum í rétta liti. Snorri: „Það er margt sem þarf að gera, en eitt af því sem liggur svolítið á er að laga húsgrunninn. Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað hann er slæmur, en hann er brotinn sundur á norður og austur hliðunum svo norðausturhornið á kirkjunni er að síga.“ Kristjana: „Stóra málið er að það eru ekki til peningar til að klára þetta allt. Margir halda að við séum bara að vinna hjá ríkinu við að gera þetta upp, eða að Biskupsstofa sjái um að halda þessum kirkjum við en þetta byggist allt á styrkjum. Þess vegna erum við að taka þetta svona í smá pörtum, það tekst kannski að fá


áttahundruð þúsund eða 2 milljónir í styrk þetta og þetta árið og við vinnum fyrir það. En þegar upp er staðið er það dýrara en að vinna þetta allt í einu og klára verkið. Þetta eru alltaf tvö til þrjú skref áfram en svo þurfum við að pakka saman og bíða eftir næsta styrk og þá koma kannski eitt, tvö skref aftur á bak á meðan við bíðum.“ Hollvinasjóður Lögmannshlíðarkirkju Við í Glerárkirkju viljum gjarnan að Lögmannshlíðarkirkja fái að njóta sín og sé notuð, enda eiga margir góðar minningar frá kirkjunni. Í sumar fóru margar fermingar fram uppi í Lögmannshlíð og ömmur og afar, sem sjálf höfðu fermst í kirkjunni, glöddust yfir því að barnabörnin væru fermd þar og rifjuðu upp eigin fermingardag. Stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir er bara hvernig við getum lokið framkvæmdum sem fyrst og þurfum ekki að leggja allt okkar traust á styrki frá opinberum aðilum. Snorri: „Ég er búinn að hafa það í huga í langan tíma að það þyrfti að stofna hollvinasamtök Lögmannshlíðarkirkju sem stæðu að tónleikum og söfnun til að ná að klára verkið almennilega. Þá væri hægt að koma kirkjunni í þannig stand að hún yrði góð og eftirsótt næstu ár og áratugi.“ Það er nóg af verkefnum eftir. Við í Lögmannshlíðarsókn erum afskaplega þakklát fyrir það mikla starf sem Snorri og Kristjana hafa unnið. Þau hafa mikinn velvilja og bera hlýhug í garð kirkjunnar okkar og hafa lyft grettistaki í endurbótum og viðhaldi á Lögmannshlíðarkirkju. Hugmynd Snorra um hollvinasamtök eða hollvinasjóð Lögmannshlíðarkirkju er spennandi og gæti hjálpað okkur að ljúka því verki að koma kirkjunni í það ástand að hún geti þjónað samfélaginu á Akureyri áfram, eins og hún hefur gert undanfarin 160 ár. Sóknarnefnd Glerárkirkju langar að grípa þessa hugmynd á lofti. Í ljósi gildandi samkomutakmarkana er erfitt að bjóða til fundar, en með hækkandi sól stefnum við að því að bjóða í kaffispjall í kirkjunni til að ræða framtíð Lögmannshlíðarkirkju og mögulega stofnun hollvinasjóðs.

Lögmannshlíðarkirkja fagnar 160 ára afmælinu nýmáluð og glæsileg Hafir þú áhuga á því að koma að stofnun slíks sjóðs eða finnur að þig langar að leggja málinu lið er um að gera að heyra í okkur í kirkjunni. Hægt er að hringja í 464-8800, senda tölvupóst á glerarkirkja@glerarkirkja.is eða líta við í kirkjunni á skrifstofutíma.

Hjálparstarfið 50 ára

sr. Guðmundur Guðmundsson, fulltrúi Hjálparstarfsins í prófastsdæminu

H

jálparstarf kirkjunnar er 50 ára á yfirstandandi ári. Það hófst með neyðaraðstoð í Bíafra í Afríku þar sem ríkti skelfileg hungursneyð. Prestastefna um sumarið 1969 hvatti þjóðkirkjuna til að koma á fót hjálparstofnun á hennar vegum til að bregðast við þeirri miklu neyð sem blasti þar við. Kirkjuráð gekk svo formlega frá stofnun Hjálparstofnunar kirkjunnar 9. janúar 1970 en nafninu var breytt í Hjálparstarf 1998. Frá upphafi hefur hlutverk stofnunarinnar verið að starfrækja mannúðar- og hjálparstarf í nafni íslensku þjóðkirkjunnar hérlendis og á alþjóðavettvangi. Það vinnur með ACT Alliance sem er Alþjóðahjálparstarf kirkna, sem gerir farveg hjálparinnar skilvirka, þar sem kirkjustarfsfólk sinnir þessari kærleiksþjónustu sem eðlilegum þætti í sínu starfi. Nærtækasta þátttaka safnaðanna á Akureyri og nágrenni er jólaaðstoð við þá sem lifa við fátækt í nærumhverfinu og viljum við hvetja almenning og fyrirtæki til að styrkja það starf. Hinn þátturinn er þátttaka fermingarbarna í söfnun til vatnsverkefna

í Afríku sem varð að fresta fram yfir áramót að þessu sinni. Það hefur verið uppörvandi að sjá dugnað þeirra undanfarin ár. Vatnið gjörbreytir lífi fjölda fólks aðallega í Eþíópíu sem lifir við sárafátækt varðandi heilsu, menntun og framfarir, eins og þessi „birka“ á meðfylgjandi mynd. Þeir sem vilja kynna sér starfið betur er vísað á vefsíðu Hjálparstarfsins help.is.


Að rækta andlega lífið Það er hlutverk kirkjunnar að boða þá lífssýn sem finna má í orðum og verkum Jesú. Trúarþörf okkar og trúarhugmyndir eru mjög mismunandi en hér langar okkur að kynna nokkur verkfæri sem fólk getur notfært sér til að rækta andlega lífið.

Hlaðvörp Kirkjucastið

Fyrsta íslenska hlaðvarpið um trúmál. Prestarnir Dagur og Benjamín ræða um trú, andlegt líf og hlutverk kirkjunnar í dag.

Another name for everything

Presturinn og fransiskana munkurinn Richard Rohr hefur undanfarna áratugi helgað sig félagslegu réttlæti og kennslu í íhugun. Í þessu hlaðvarpi ræða tveir fyrrum nemendur hans við hann til að kryfja hugmyndir hans og skoðanir til mergjar. Frábært hlaðvarp fyrir alla sem hafa áhuga á því hvernig trúin getur verið hreyfiafl til góðs í þessum heimi.

Guð-spjall

Í hlaðvarpinu ræða sr. Sveinn Valgeirsson og sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir um texta biblíunnar og prédikunartexta komandi sunnudags. Þau leggja út á dýpið með hlustendum og opna þessa gömlu texta fyrir okkur með aðferðum sagnfræðinnar og guðfræðinnar.

Forrit / öpp The Bible

Til eru mörg biblíuforrit en „The Bible“ frá Life Church býður upp á Biblíuna á Íslensku, bæði sem hljóðbók og til lestrar. Í forritnu er hægt að setja sér markmið um að lesa ákveðnar bækur eða lesa um ákveðin þemu. Forritið hjálpar okkur að muna eftir Biblíunni í hversdeginum og gerir hana aðgengilega hvar og hvenær sem er.

Centering prayer

Þetta forrit leiðir okkur í gegnum kyrrðarbæn, forna kristna íhugunaraðferð. Kyrrðarbæn er magnað verkfæri til að byggja upp frið og hugarró í hversdeginum. Nú þegar við getum ekki komið saman til að íhuga er gott að hafa forrit í símanum sem styður okkur í að halda í kyrrðina.

Á náttborðinu.

Hvað er Biblían eftir Rob Bell Sr. Sindri Geir Óskarsson

É

g er satt best að segja ekki nógu duglegur að lesa en er samt yfirleitt með tvær til þrjár bækur á náttborðinu til að glugga í. Stundum eru bækur þannig upp byggðar að það er erfitt að taka þær inn í litlum skömmtum og krefjast þess að maður haldi fullri athygli á milli kafla. Hvað er Biblían sem hefur verið á náttborðinu í nokkrar vikur er blessunarlega ekki þannig.

Bókin var gefin út af Skálholtsútgáfunni árið 2019 og er til sölu í flestum bókabúðum.

Höfundurinn Rob Bell varð þekktur í Bandaríkjunum fyrir tæpum áratug þegar hann gaf út bókina „Love Wins“ og afhjúpaði hvernig hugmyndir margra kirkna um helvíti eiga sér ekki stoð í Biblíunni. Bókin sat lengi á metsölulista New York Times og varð til þess að Bell var svo gott sem bannfærður af íhaldssömum kirkjudeildum. Sjálfur er ég mjög hrifinn af bókinni, en nóg með það, því hér er nýjasta bók hans til umfjöllunar. Hvað er Biblían er ekki hefðbundin bók um kristna trú, guðfræði eða kirkjuna. Hún er samansett af mörgum stuttum köflum þar sem Bell dregur fram húmorinn sem finna má víða í bók bókanna, tekst á við erfiðar spurningar um það hvað Biblían sé, skoðar mótsagnirnar og hvaða merkingu þessi gamla bók hefur fyrir okkur í dag. Sama hverju fólk trúir er þetta bók sem er allrar athygli verð. Við sem erum Biblíunni mjög handgengin rekumst á eitt og annað í þessari bók sem sýnir hlutina í nýju ljósi og hjálpar okkur þannig við að sjá þá upp á nýtt, á meðan þau sem ekki hafa lesið mikið í bókinni góðu fá hér áhugaverða yfirsýn yfir sögu og merkingu Biblíunnar. Heildarupplifunin er sú að þarna sé ákveðið kjarnarit sem hjálpar okkur að taka Biblíuna með okkur inn í 21. öldina og skilja afhverju ævaforn ljóð, sögur og bréf geta enn talað til okkar í dag og gefið lífinu dýpri merkingu.

Jólaaðstoð 2020 Ár hvert styðjum við yfir 300 einstaklinga og fjölskyldur á Eyjafjarðarsvæðinu.

Hægt er að styrkja jólaaðstoðina með því að leggja inn á: rk.nr. 0302-13-175063 kt. 460577-0209

Styrktaraðilar safnaðarblaðsins senda Akureyringum öllum hugheilar jóla- og nýjarskveðjur


Ljós og myrkur

Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands

Þ

að er erfitt að skilgreina tímann. Við mælum tímann, við notum tímann, við sóum tímanum, tefjum tímann, horfum til þess tíma sem var, vonum að tíminn lækni sárin og fleira mætti telja. Þegar við erum ung bíðum við gjarnan eftir tímanum og horfum til þess tíma sem var þegar við verðum eldri. Tíminn er eins og vatnið sagði Steinn Steinarr í samnefndu ljóði. Og víst er að vatnið og tíminn eru á ferð eins og líf hvers manns. Stundum er hraðinn mikill, stundum ekki eins mikill. Í hraða nútímans er hugur okkar gjarnan í framtíðinni. Við skipuleggjum það sem á að verða og gleymum oft að njóta þeirrar stundar sem er. Oft er sem tíminn stjórni lífi okkar þó við vildum helst stjórna tímanum sjálf. Það er ekki að undra að nú til dags erum við minnt á að lifa í núinu. Núvitund er það kallað þegar athyglinni er beint að líðandi stund. Eigum stundina með okkur sjálfum. Trúað fólk beinir huganum til Guðs sem lífið gaf og gefur hverja stund meðan lifað er. Bænin er tungumál vonarinnar. Ljós er eitt af táknum þess að Guð er með okkur. Jesús sem er ljós heimsins. Undanfarin ár hefur ljósasería verið á einu tré í garðinum við biskupsbústaðinn í Reykjavík. Ljósin hafa gefið birtu í svörtu skammdegi og því hef ég haft kveikt á þeim fyrir aðventu, á aðventu, jólum og vel fram yfir áramót. Oft er talað um birtu og yl í sömu setningunni. Við þráum birtuna hér norður frá og ylinn sem nauðsynlegur er á köldum dögum og nóttum yfir vetrartímann. Í ár hafa ljós verið tendruð utandyra jafnvel fyrr en venjulega. Með ljósunum kviknar von um betri tíma. Við erum ekki vön því hér á landi að athafnafrelsi okkar sé heft. Við viljum helst ráða lífi okkar og gjörðum sjálf án íhlutunar annarra. Oft þurfum við þó að sætta okkur við það sem við ráðum ekki yfir á lífsins leið. Eitthvað óvænt kemur og breytir lífi okkar og knýr okkur til að taka afstöðu eða breyta um kúrs. Stundum er það mjög erfitt, en sem betur fer leiðir það oft til góðs. Þeir áttu ekki von á því að reyna eitthvað óvænt hirðarnir sem sátu úti í haga og gættu hjarðar sinnar eins og Lúkas guðspjallamaður greinir frá. Við þekkjum þessa sögu þegar Ágústus keisari sendi út boðið um skrásetninguna og fólkið hlýddi. Fór til þess staðar sem ætt þeirra kom frá og lét skrásetja sig. Alveg sama hvernig á stóð. Heilbrigt fólk og lasið, ófrískar konur og vinnandi fólk. Og engum sögum fer af fæðingu barnsins sem fæddist þessa dimmu nótt. Eins gott að hún hafi gengið vel því ekki voru til sogklukkur þá og keisaraskurðir ekki þekktir.

Andstæðurnar ljós og myrkur eru áberandi í frásögninni. Við getum séð hirðana fyrir okkur úti í haganum, ornandi sér við eldinn í myrkrinu, gætandi að hjörð vinnuveitanda síns. Allt í einu skín ljós og rödd heyrist. “Verið óhræddir”. Það hefur nú löngum þótt auðveldara að segja þessi orð um hræðsluna og jafnvel minna sig á þau en að fara eftir þeim. Hvernig er hægt að vera ekki hrædd/ur þegar eitthvað óvænt gerist, þegar óvissa ríkir, þegar tíðindi berast sem breyta öllu? Það er lífsins kúnst að láta óttann ekki ná tökum á sér. Það vita þau sem reynt hafa. Kirkjan í heiminum hefur flutt fagnaðarboðskapinn um það af hverju við eigum ekki að láta óttann ná tökum á okkur. Hann er sá hinn sami og hirðarnir fengu fyrstir að heyra: “Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs”. Vegna þess að Guð er með okkur hér á jörð, í lífi okkar öllu, frá vöggu til grafar og eftir að lífsgöngu okkar líkur hér á jörð, þá þurfum við ekki að óttast. Við megum ganga fram í þeirri vissu að við erum ekki ein og yfirgefin. Að miskunn Guðs er nærri jafnvel þegar okkur finnst að svo sé ekki. Það þarf að rækta trúna eins og annað í lífinu. Það þarf að rækta allt það góða sem lífið hefur upp á að bjóða, líkama, sál, vináttu, hæfileika. Ljósin minna okkur á að þrátt fyrir þær skorður sem heimsfaraldurinn setur okkur og allar afleiðingar sem hann hefur á afkomu okkar og daglegar athafnir þá er von. Von um að þeir erfiðleikar og sá sársauki sem faraldurinn hefur í för með sér, heyri sögunni til einn daginn. Við höfum fengið fregnir um að raunhæfur möguleiki sé á að það gerist fyrr en síðar. Við eru stödd á mismunandi stöðum í lífinu. Aldur hefur þar eitthvað að segja sem og heilsufar og ytri aðstæður. Megi þau systkini, trú, von og kærleikur búa í hjörtum okkar og móta hugsanir okkar á aðventu, jólum og alla daga og færa okkur gleði og frið á helgri hátíð.

Rafmenn senda viðskiptavinum sínum og Akureyringum öllum hugheilar jóla- og nýjárskveðjur með þökk fyrir árið sem er að líða.

Rafmenn.is / Sími: 460-6000 / rafmenn@rafmenn.is


Ég hlakka svo til

Sr. Stefanía Guðlaug Steinsdóttir, prestur Glerárkirkju

H

vers vegna hlökkum við svona til jólanna? Er það ekki vegna þess að við eigum öll minningar frá bernskujólunum okkar sem voru fullkomin í huga barnsins? Einhver ólýsanleg tilhlökkun, hver dagur svo lengi að líða, að jólin virtust aldrei ætla að koma. Það að setjast niður og skrifa þessa hugleiðingu yljar mér langt, langt inn að hjartarótum. Líf barnsins sem var svo einfalt og fallegt, við saklaus lítil börn. Í dag er það í sérstöku uppáhaldi hjá mér að fá að upplifa jólin í gegnum börnin mín eða í gegnum börnin í kringum mig. Jólin eru hátíðin sem snerta hjörtu okkar og tilfinningar, á jólunum erum við að fagna fæðingu Jesú Krists sem fæddist sem barn, Jesús minnir okkur á að trúa þá glötumst við aldrei. Ég á sjálf margar góðar minningar frá jólunum úr minni bernsku, ein í sérstöku uppáhaldi var að vakna á aðfangadagsmorgun og hlaupa inn í stofu til að berja jólatréð í fyrsta skipti augum. Já pabbi skreytti nefnilega jólatréð alltaf eftir að við sofnuðum á Þorláksmessukvöldi og mamma þreif allt hátt og lágt og undirbjó kvöldmatinn. Allt var svo fallegt, skrautlegu pakkarnir undir trénu, jólaljósin, hangikjetslyktin. Fyrir mér standa jólin sem „hátíð barnsins“, öll getum við sammælst um það að markmið jólanna er að gleðja börnin, og að leyfa okkur sjálfum að gleðjast í gegnum þau.

Starfsfólk kirkjunnar

Sr. Sindri Geir Óskarsson Opnir viðtalstímar í kirkjunni þriðjudaga og fimmtudaga kl. 11-12, annars eftir samkomulagi. Símar 464 8808 (í kirkju) 866 8489 (gsm). Netfang: sindrigeir@glerarkirkja.is Sr. Stefanía Guðlaug Steinsdóttir Viðtalstímar eftir samkomulagi. Símar 464 8802 (í kirkju) og 864 8456 (gsm). Netfang: stefania@glerarkirkja.is Eydís Ösp Eyþórsdóttir, verkefnastjóri fjölskyldu- og fræðslumála. Símar: 464 8807 (í kirkju) og 865 4721(gsm). Netfang: eydisosp@glerarkirkja.is

Fæðing er stórkostlegt kraftaverk sem við mannfólkið fáum að upplifa, verða vitni að því er lítið líf fæðist í heiminn. Lítið barn er svo sannarlega ljós lífsins og á jólunum tákna öll jólaljósin sem birtast í öllu litrófinu í gluggum, húsþökum, á trjám þetta kraftaverk, fjölbreytileika lífsins og mannfólksins. Því við erum allskonar. Við höfum öll verið skærar stjörnur í lífi einhvers, við eigum það sameiginlegt að vera kraftaverk sem fæðst hefur í þennan heim. Við höfum glatt og við höfum verið glödd af þeim sem elska okkur. Þar sem ég er byrjuð að hugsa um barnæsku mína, er ein af mínum uppáhalds stundum, er kirkjuklukkurnar hringdu inn jólin á slaginu sex. Klukkurnar hringja inn fæðingarhátíð frelsarans um hver jól, þær hringja inn hátíð ljóssins og hátíð friðarins. Á þessari stundu er eins og að tíminn standi í stað, eins og að friðurinn sé snertanlegur, allt verður svo hljótt, kyrrt og óendanlegt og enginn segir neitt rétt á meðan. Í dag eftir að ég varð prestur hefur þetta vissulega breyst, ég er ekki lengur heima í stofu með fjölskyldunni heldur er ég í kirkjunni. Sú upplifun er mér dýrmæt, ég horfi á allt fólkið og ég sé öll kraftaverkin sem upplifa þessa dýrmætu stund eins og ég sjálf. Ekki gleyma því að þú ert kraftaverk Guðs, Guð elskar þig og gleymir þér aldrei. Guð blessi þér hátíð ljóssins og friðarins og Gefi þér gleðileg Jól.

Haukur Þórðarson, umsjónarmaður Hægt að hafa samband á virkum dögum kl.11-16. Símar 464 8803 (í kirkju) og 661 7700 (gsm). Netfang: haukur@glerarkirkja.is Valmar Väljaots, organisti og kórstjóri. Viðtalstímar eftir samkomulagi. Símar 464 8804 (í kirkju) og 853 8001 (gsm). Netfang: valmar@glerarkirkja.is Oddur Óskarsson, kirkjuvörður. Símar 464 8805 (í kirkju) og 893 5205 (gsm). Netfang: oddur@glerarkirkja.is

Helgihald í desember Í ljósi samkomutakmarkana er ekki hægt að auglýsa hefðbundna dagskrá helgihalds. Ef aðstæður leyfa verður helgihald í kirkjunni um jólin og það auglýst vel í Dagskránni og miðlum kirkjunnar. HELGIHALD Í STREYMI Kirkjurnar í Eyjafirði-og Þingeyjarsveit standa saman að aðventustundum sem sendar verða út á facebooksíðum kirknanna á sunnudagsmorgnum.

JÓLADAGATAL KIRKJUNNAR Jóladagatal þjóðkirkjunnar á Norðurlandi birtist á facebook síðum kirknanna á svæðinu og gefur okkur innlit til fólks sem deilir með okkur uppbyggjandi orðum, ljóðum, tónum eða sögum sem fjalla um eftirvæntinguna eftir jólunum.

Profile for glerarkirkja

Safnaðarblað Glerárkirkju  

Safnaðarblað Glerárkirkju, haust 2020. 1.tbl. 35.árg.

Safnaðarblað Glerárkirkju  

Safnaðarblað Glerárkirkju, haust 2020. 1.tbl. 35.árg.

Advertisement