Page 1

Lambhagafréttir 2011

Kæru vinir. Við óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Elísabet, Gísli, Hákon og Loki.

Menntun og músisík Lambhagafréttir komu ekki út á síðasta ári vegna tæknilegra örðugleika. Þannig var að prentari heimilisins bilaði, en eftir áramótin kom reyndar í ljós að bilunin stafaði af bréfaklemmu sem hafði hætt sér inn í tækið. Þó engir hafi enn kvartað yfir lesefnisskorti við afgreiðslu blaðsins erum við þess fullviss að víða bíði fólk í ofvæni frétta af okkur. Af drengjunum er ýmislegt að frétta. Hákon lauk 10. bekk í Vallaskóla með láði og lék frumsamið tónverk á gítar með Fannari Pálssyni bekkjarbróður sínum við útskriftina. Einkunnirnar sem hann fékk á grunnskólaprófinu hefðu nægt honum inn í hvaða framhaldsskóla landsins sem er. Hann valdi Menntaskólann að Laugarvatni og líkar vel þar. Hann er í Kösinni, æskuvinurinn og frændinn Ólafur Andri er herbergisfélagi hans og Hrafnkell vinur hans er líka í skólanum. Hins vegar er heldur fámennt

flesta daga í Lambhaganum eftir að bræðurnir fluttu að heiman, en Loki gerir þó sitt til að halda uppi fjörinu. Þetta val Hákonar á skóla útheimtir reyndar nokkur ferðalög því Hákon er í tónlistarskólanum á Selfossi, lauk 2. stigi á gítar síðasta vor og stefnir á það þriðja vorið 2012. Hann þarf því að sækja tíma á Selfossi einu sinni í viku, sem þýðir að faðir hans þarf að fara tvær ferðir fram og til baka á Laugarvatn á mánudögum. Í mars fær Hákon væntanlega bílprófið, sem fækkar ferðunum nokkuð. Síðasta sumar fékk Hákon vinnu í Húsasmiðjunni og líkaði vel. Hann hefur líka unnið þar

aðra hverja helgi í vetur með skólanum. Skúli lauk 5. stigi í trommuleik í tónlistarskólanum á Selfossi síðasta vor, og var þar með búinn að ná menntunarstigi kennara síns. Hann sótti um í tónlistarskóla FÍH í Reykjavík, stóðst inntöku-

próf með glans og fékk skólavist. Aðalkennarinn er ekki minni maður en Einar Valur Scheving, einhver albesti trommari landsins, og Skúli er alsæll með vistina í FÍH. Hann hefur spilað með að minnsta kosti fjórum hljómsveitum á árinu. The Assassin of a Beautiful Brunette er aðalbandið, Banarnir eru ballhljómsveit skipuð sömu mönnum, Fluga í súpunni er jasstríó skipuð þremur úr fyrrnefndum hljómsveitum, og svo lék Skúli líka á tónleikum og í hljóðveri með þjóðlagasveitinni Korku, sem er alls ótengd hinum sveitunum. Tónlist piltanna í Assassin má meðal annars heyra á soundcloud.com: (http://soundcloud.com/ theassassinof).

Orlof skal það heita Í vetur er Gísli í svokölluðu námsorlofi. Orlofinu ver hann til að ljúka meistaranámi í íslensku, sem hann hljóp frá hálfkláruðu fyrir 30 árum. Til allrar hamingju reyndist fyrra nám ekki vera fyrnt þrátt fyrir að vera komið til ára sinna, en þá hjálpaði líklega að framfarir eru ekki örar í þessum geira vísindanna. Gísli sækir kennslustundir í HÍ, en mestur tíminn fer þó í að vinna að MA-ritgerð sem til stendur að ljúka á næsta ári. Einnig hefur hann rifjað upp kynni af byggingarvinnu með því

að rétta Þórði svila sínum hjálparhönd við það sem Kristín mágkona kallar 'lagfæringar' á æskuheimili hans að Langagerði 82 í Reykjavík.

Elísabet er að leggja drög að því að semja kennsluefni á næstu mánuðum, m.a. í félagi við Idu Lön samkennara sinni. Til að sinna því verki ætlar hún að taka sér launalaust leyfi frá kennslu á vorönn 2012, sem og til að vera karlinum til samlætis í orlofinu. Þá stendur til að fara með foreldrana, Ingunni, Guðbjörgu og Skúla, til Kanarí í febrúar í hálfan mánuð til að fá smá yl í kroppana.


Lambhagafréttir 2011

Bls. 2

Brúðkaups– og útskriftarferð til New York Í júní fórum við fjölskyldan saman til New York í vikutíma. Þetta var eins konar blanda af síðbúinni brúðkaupsferð foreldranna, sem giftu sig 17. júlí 2010, og útskriftarferð sonanna, en Skúli útskrifaðist sem stúdent vorið 2010, út Tónlistarskóla Árnesinga vorið 2011, og Hákon einnig úr 10. bekk í vor. Við leigðum á netinu frábæra íbúð í Harlem, sem ekki hefði talist ráðlegt fyrir svosem 10 árum síðan en er ekki tiltökumál núna. Ástæðan er sú að yfirvöldum hefur tekist að hreinsa glæpaorðið af hverfinu svo nú

er það síst hættulegra en aðrir hlutar borgarinnar. Við könnuðum leyndardóma Manhattan frá

morgni til kvölds. Við fengum nasasjón af því helsta sem dregur túrhesta til borgarinnar sem aldrei

sefur, auk þess sem við upplifðum mannlífið og sinntum verslunarþörfum okkar, ekki síst Skúla. Þá nutu kaffihús og matsölustaðir góðs af komu okkar, ekki síst Starbuckskaffihúsakeðjan sem varð eftirlæti bræðranna. Tvennt vakti einkum athygli Gísla; annars vegar að háhýsin skyldu ekki vera hærri, og hitt að ekki skyldu sjást neinir alvöru bílar á ferðum okkar. Niðurstaðan er því sú að líklega séu meiri líkur á að sjá kagga á Selfossi en í Nýju Jórvík.

Lítil fjölskylda stækkar Þegar Skúli kom heim frá New York tóku flutningar við því þau Tinna fluttu saman í litla risíbúð í Ártúni tvö, gamla prestshúsinu. Um það hús var ort á sínum tíma: Rís nú bygging römm og há rauð á allar síður til að minna alþjóð á eld sem dæmdra bíður. Skúla og Tinnu fæddist lítil prinsessa þann 22. september síðastliðinn. Hún lét bíða eftir sér eins og prímadonna er síður, reyndar svo lengi að föðurafinn var farinn af landi brott þegar hún fæddist, sem

átti reyndar að vera ómögulegt samkvæmt áætluninni. Hinn 11. október opinberuðu Tinna og Skúli, og 23. október var sú litla skírð Berglind Emilía Ben Skúladóttir. Hún vex og dafnar vel, sýnir strax ýmis svipbrigði sem eru til vitnis um áhugaverðan persónuleika, og á orðið gott myndasafn á smettusíðum foreldranna (facebook öðru nafni) þar sem hún er gjarnan prúðbúin eins og

fyrirsæta. Íbúðin í Ártúninu reyndist ekki halda nógu vel hita á litlu fjölskyldunni þegar vetur gekk í garð. Þau fluttu sig því um set í nýlega íbúð á Fossvegi 10. Þar var allt málað með hraði og flutt inn í byrjun desember.

Húsbílaferðir Húsbílaferðir sumarsins voru tvær. Sú fyrri var farin á Reykjanesið um hinn þá enn ókláraða Suðurstrandarveg. Gist var á frábæru tjaldstæði i Grindavík, sem verður að teljast til fyrirmyndar á allan hátt, og einnig í

Hafnarfirði hjá skátunum. Síðari ferðin var um uppsveitir Árnessýslu með gistingu á Laugarvatni og í Reykholti. Húsbíllinn er því óðum að breytast í lítt hreyfanlegan sumarbústað, enda þorstlátur í meira lagi og því afar ríkiskassavænn.


Lambhagafréttir 2011

Bls. 3

Orlof á Benidorm Gísli nýtti sér frjálsræðið sem fylgir orlofinu til að skella sér í karlaferð til Benidorm með Þórði Bergmann svila sínum. Ferðin hófst 22. september, en samkvæmt áætlun átti Berglind Emilía þá að vera komin í heiminn. Hún beið hins vegar með það þar til

afinn var lentur á Spáni. Þar suðurfrá var sól og sumarveður allan þennan hálfa mánuð sem ferðin stóð. Tímanum var farið í afslöppun, skoðunarferðir um nágrennið, smátönun, og loks í þriggja daga ferð á bílaleigubíltil Valencia og þaðan inn í landið

Abbalabbar í Mývatnssveit Abbalabbar, en svo kallast gönguhópur starfsmanna FSu, fóru í árlega gönguferð í lok júní. Að þessu sinni var dvalið í Vogum í Mývatnssveit og farið í dagsgöngur um sveitina. Óvenju kalt var í veðri þessa daga en einna hlýjast 30. júní þegar lengst var gengið, frá Garði í Seljahjallagil og þaðan yfir í Nökkvabrekku. Að þeirri göngu lokinni var

til fjalla.Þar var mesta upplifunin að komast út úr ferðamennskunni allri og í heim Spánverjanna. Við vorum svo heppnir

að hafa túlk með í för, Gauja Bjössa frænda Þórðar, en án hans hefðum við lítið skilist á þessum slóðum þar sem enskan hjálpar manni nánast ekkert sem samskiptatæki. Svo nutum við fyrirgreiðslu og gestrisni Kristínar systur Þórðar og Gabríels manns hennar sem hafa starfað við ferðaþjónustu á Benidorm um árabil.

slegið upp mikilli veislu eins og venja er í lok ferðar. Í ferðinni varð meðal annars til þessi kviðlingur þegar Mývetningar kvörtuðu sáran yfir allri verndarhyggjunni sem þar ríkir og bannar allt að þeirra sögn: Ekki ganga út úr slóð. Ekki draga úr vatni bein. Ekki byggja á eigin lóð. Ekki gera flugu mein.

Fermingarferðir Mæðginin Elísabet og Hákon fóru til Danmerkur í apríl til að vera viðstödd þegar Magnus systursonur Elísabetar var tekinn í fullorðinna manna tölu. Einnig komu Margrét og Magnus til Íslands í sumar og heim-

sem Magnus fékk vinnu í nokkrar daga við Laugavegshlaupið. Systurnar nýttu heimsókn Margrétar meðal annars til að skoða söguslóðir fjölskyldunnar í Reykjavík.

Skúrinn Af bílskúrsdeildinni er það helst að frétta að Gísli keypti sér bílalyftu frá Kína í byrjun sumars. Er hún ætluð til viðgerða, en einnig til að geyma fornbílinn þegar og ef hann kemst í fullbúinna bíla tölu. Reyndar er allur bílafloti fjölskyldunnar sem óðast að verða að fornbílum. Þá er útlit fyrir að Pontiac GTO fari að grænka með hækkandi sól. Einn bíll var seldur á árinu, eða efni í bíl réttara

sagt, og má fylgjast með vinnu við hann á vef Bílaklúbbs Akureyrar (http:// spjall.ba.is/index.php? topic=3597.0).


Hvalfjörður og Hofsós Í lok júlí fór Lambhagafólk í sumarbústað í Hvalfirðinum. Staðarvalið mótaðist nokkuð af því að þarna mátti hafa ferfætlinga með sér, en Loki fellur sem kunnugt er undir þá skilgreiningu þó hann skilji það ekki alltaf sjálfur. Við fengum góðar heimsóknir í bústaðinn (afi, ömmur, börn og barnabörn) en vorum svo ein að dunda okkur síðustu

dagana og koma okkur í vinnugírinn, enda stutt í skólann hjá Elísabetu og námskeið á Hofsósi hjá Gísla. Það námskeið varð reyndar minna í sniðum en ætlað var vegna forfalla amerísks fyrirlesara, en á Hofsósi er unnið ótrúlega merkilegt hugsjónastarf í tengslum við Vesturfarasetrið sem frábært var að kynnast i návígi.

Bett í London Elísabet og Gísli sóttu svokallaða Bett-sýningu í London dagana 13.-17. janúar. Þarna er á boðstólum alls konar tölvutengd framleiðsla fyrir öll skólastig, allt frá húsgögnum og innréttingum til tölvuforrita og háþróaðs tæknibúnaðar. Þetta var fróðleg og skemmtileg ferð. Hópurinn sem þarna var frá Selfossi fór einnig á söngleikinn Mamma Mia í Prince of Wales-leikhúsinu í London, fyrir forgöngu Elísabetar. Það var stórgaman að sjá hve vel var hægt að gera þetta efni að sviðsverki, enda flestir búnir að sjá kvikmyndina margfrægu. Í þessari ferð létum við verða af því að sigla á Thames - með hópi nokkurra gyðingafjölskyldna þar sem einn baðst svo látlaust fyrir allan tím-

ann sem siglingin stóð að það læddist að okkur grunur að þessi bátsferð, sem fljótt á litið virtist ekki mjög hættuleg, hlyti að enda með ósköpum. Skemmtilegasta persónan sem við hittum var reyndar þeldökkur leigubílstjóri, líklega frá Suður-Afríku, sem ók okkur frá flugvellinum á hótelið. Hann sagði að þetta Ice-save væri bara

gott á Bretana; þetta væru aðallega sektir sem menn eins og hann hefðu neyðst til að borga og Bretarnir hefðu ætlað að fá okurvexti á með þessu móti. „Gott á þá,“ sagði hann, og sauð í honum hláturinn. Hann afþakkaði hins vegar boð okkar Íslendinga um að ávaxta fyrir hann spariféð.

JOL2011  
JOL2011  

Jólablað, Lambhagi