Page 1

Reyndar átti fréttabréf þetta að berast félagsmönnum þegar í mars, en áður en svo yrði þótti rétt að bíða þess að þingsályktunartillaga varðandi rammaáætlun yrði lögð fram á Alþingi. Apríl hófst síðan með páskum, en að þeim liðnum þykir nú rétt að hefjast handa, ganga frá fréttabréfi og senda það út til félagsmanna.

Gerð heimasíðu fyrir félagið stendur yfir þessa dagana og fer hún í loftið fljótlega. Þar verða birtar fréttir af félaginu, fundargerðir, ályktanir, greinar og fleira. Slóðin verður nsve.is. Þá heldur félagið úti Facebooksíðu undir nafni samtakanna. Þar er reglulega sett inn efni og tenglar sem varða málaflokkinn. Endilega fylgist með okkur á Facebook.

Betur heima setið en af stað farið var viðkvæðið þegar barin var augum þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um rammaáætlun. Þar er ekkert tillit tekið til þeirra athugasemda er bárust í haust varðandi rammaáætlun hvað varðar Suðvesturland. Athugasemdir streymdu inn m. a. varðandi Suðvesturland sérstaklega, frá NSVE, öðrum náttúruverndarsamtökum, útivistarsamtökum og ferðamálasamtökum. En tillitsleysið er algjört. Verði tillaga þessi samþykkt af Alþingi mun sú samþykkt leggja sveitarfélögum þá skyldu á herðar að skipuleggja jarðvarmavirkjanir á þeim stöðum sem þingsályktunartillagan mælir fyrir um. Verði hún ekki samþykkt þ. e. í núverandi gerð, má ef til vill tefja eða koma í veg fyrir skipulag og gerð virkjana, annars ekki. En við látum ekki deigan síga. Stjórn NSVE sendi þegar frá sér ályktun er þingsályktunartillagan hafði verið lögð fram þann 31. mars sl. Var tilkynningin lesin upp í útvarpi og birt í netmiðlum dagblaða. Stjórn NSVE hefur einnig sent öllum alþingismönnum, hverjum fyrir sig, bréf þar sem óskað er eftir fundi með viðkomandi. Á fundunum munu fulltrúar NSVE síðan gera grein fyrir rökum samtakanna varðandi rammaáætlun.


-ásamt með skipun í aðgerðahópa. Þann 17. apríl næstkomandi verður efnt til aðalfundar Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði klukkan 20:00. Á dagskránni verða venjuleg aðalfundarstörf, þar á meðal tvær lagabreytingatillögur. Önnur þeirra varðar kjör þriggja varamanna í stjórn og hin breytingu á skammstöfun samtakanna úr NSV í NSVE. Einnig verða til umræðu aðgerðahópar og stofnun þeirra. Þegar eru starfandi fjórar jarðvarmavirkjanir á Suðvesturlandi. Samkvæmt þingsályktunartillögu varðandi rammaáætlun ert gert ráð fyrir alls geti starfað 16 jarðvarmavirkjanir á Suðvesturlandi. Skipta má náttúruperlum þeim sem hugmyndin er að virkja eða þar sem virkjun er nú þegar í þrjú svæði þ. e. Reykjanes (Stóra-Sandvík, Reykjanes, Eldvörp og Svartsengi), Krýsuvík (Sandfell sunnan Keilis, Trölladyngja, Sveifluháls í Krýsuvík og Austur-Engjar) og Hengil (Gráhnúkar, Meitill, Hverahlíð, Hellisheiði (Kolviðarhóll), Innstidalur, Þverárdalur, Ölfusdalur og Nesjavellir). Hugmyndin er sú að myndaðir verði þrír aðgerðahópar, einn um hvert svæði. Hóparnir sérhæfi sig síðan í baráttunni um hvert svæði t. d. með athugasemdum og kærum, vegna skipulags og framkvæmda, í samræmi við lög þar um. Í fréttabréfi vetrarins (1. árg. 1. tbl.) var gerð ítarleg grein fyrir lögum þessum. Vonir standa til að félagsmenn muni gefa hugmynd þessari byr og skrái sig í aðgerðarhópa.


Þegar að lokinni gerð athugasemda við drög að þingsályktunartillögu varðandi rammaáætlun, hóf stjórn NSVE vinnu að því að tryggja athugasemdum NSVE, Landverndar og fjölmargra annarra samtaka, fylgis á meðal alþingismanna. Athugasemdirnar skyldu liggja fyrir í síðasta lagi þann 11. nóvember 2011. Stjórnarmenn NSVE áttu fundi, bæði formlega og óformlega, með þremur þingmönnum, sem sýnt hafa rammaáætlun sérstakan áhuga, og einum framkvæmdastjóra þingflokks, auk funda með umhverfisráðherra og aðstoðarmanni hans. Reynt var að koma boðskap NSVE til skila á fundum þessum sem og með bréfi til alþingismanna Suður-, Suðvestur- og Reykjavíkurkjördæma, en Suðvesturland skiptist milli þessara fjögurra kjördæma. Einnig voru upplýsingar varðandi stefnumið NSVE sendar öllum alþingismönnum. Einn alþingismaður og framkvæmdastóri þingflokks hafa auðsýnt málefnum okkar sérstakan áhuga og óskuðu eftir fundi þann 2. apríl með stjórnarmönnum NSVE og fleirum. Við þessari ósk var að sjálfsögðu orðið. Einstaka stjórnarmenn NSVE hafa sérstaklega látið að sér kveða á vissum

sviðum sem tengjast rammaáætlun beint eða óbeint. Þann 10. nóvember 2011 stóð NSVE fyrir almennum borgarafundi í Hveragerði að frumkvæði Björns Pálssonar. Á fundinum var aðal umfjöllunarefnið áhrif jarðvaramavirkjana á mann- og dýralíf í nágrenni þeirra. Frummælendur voru þeir Sigmundur Einarsson jarðfræðingur, Björn Pálsson og Birgir Þórðarson heilbrigðisfulltrúi, fundarstjóri var Jóhannes Ágústsson. Fundurinn heppnaðist í alla staði mjög vel. Ellert Grétarsson hefur með bloggi sínu sem og birtingu frábærra ljósmynda, sérstaklega frá Krýsuvíkursvæðinu, vakið athygli á málefnum NSVE og mun gera svo áfram. Eydís Franzdóttir hefur sérstaklega sinnt málefnum hvað varðar línulagnir í jörð og þá ekki síst innan marka sveitarfélagsins Voga. En samkvæmt nýrri skipulagsákvörðun Voga skal framvegis leggja línur í jörð. Í þessu sambandi hefur náttúruverndarfólk helst átt við að eiga fyrirtækið Landsnet. Helena Mjöll Jóhannsdóttir stjórnarmaður í NSVE hefur sem fulltrúi Hafnarfjarðarbæjar í stjórn Reykjanesfólkvangs tryggt samtökunum innsýn í starfsemi fólkvangsins.

Stóra-Eldborg í Krýsuvík. Ljósm/elg.


Landsnet hefur að undanförnu gert harða atlögu að landeigendum og bæjarstjórnarmönum í Vogum á Vatnsleysuströnd til að reyna að ná fram áformum sínum um lagningu háspennulína. Þeir hafa lagst svo lágt að fara um með lygum og mútum, kallað hvern landeiganda á fund til sín og reynt að telja þeim trú um að aðrir stærri landeigendur séu búnir að semja við fyritækið og því bíði viðkomandi ekkert annað en eignarnám. Sumum landeigendum hafa þeir einnig boðið greiðslu fyrir undirskrift. Sama á við um samskipti við bæjarstjórn Voga. Í bæjarstjórn bera þeir fréttir um að stórir landeigendur í Vogum séu búnir að semja og því verði bæjarstjórn Voga að veita fyrirtækinu framkvæmdarleyfi. Framganga Landsnets, fyrirtækis sem eitt stendur að flutningi raforku á landinu, er með ólíkindum! Virðing þeirra fyrir ákvörðun bæjarstjórnar Voga um að allar raflínur innan sveitarfélagsins verði lagðar í jörð og réttur bæjarstjórnar til að fara með skipulagsmál á svæðinu er algjörlega fyrir borð borinn af hálfu Landsnets.

Í kjölfar þessa máls var samþykkt þingsályktunartillaga á Alþingi 1. febrúar 2012, þar sem iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra var falið að skipa nefnd er móti stefnu um lagningu raflína í jörð og þau sjónarmið sem taka ber mið af hverju sinni við ákvarðanir þar um. Nefndina skipa Gunnar Svavarsson, formaður og fv. Alþingismaður, Guðríður Þorvarðardóttir, umhverfisráðuneyti og Ómar Örn Ingólfsson, verkfræðingur. Starfsmenn nefndarinnar eru Erla Sigríður Gestsdóttir, iðnaðarráðuneyti og Erla Björk Þorgeirsdóttir, Orkustofnun. Íbúar í Vogum, sem og aðrir sem eiga í baráttu gegn háspennulínum og yfirgangi Landsnets, gera sér miklar vonir um störf nefndarinar. NSVE hefur borist bréf frá nefndinni með ósk um athugasemdir og ábendingar varðandi mótun stefnu um raflínur í jörð, sem að sjálfsögðu verður svarað. Nefndin efnir til málstofu um málefnið föstudaginn 11. maí kl. 13-16 í stofu 101 í Odda (Háskóla Íslands). Rafmagnsverkfræðingadeild Verkfræðingafélags Íslands (RVFÍ) stendur einnig fyrir málþingi um háspennulínur og jarðstrengi þann 18. apríl kl. 13 á Grand Hótel Reykjavík, Gullteigi.


Auka þarf fjölda félagsmanna í NSVE og eru þeir hér með hvattir til þess að inna af hendi félagsgjöld. Félagsgjöldin kr. 1.500 skal greiða inn á reikning nr. 0140-265009, kennitala: 501111-1630. Fjölga þarf félagsmönnum sérstaklega á Suðurnesjum, í Kópavogi og Reykjavík sem og Mosfellingum og Kjósverjum. Þeim mun meiri

umfjöllun sem NSVE og starfsemi þeirra fær þeim mun meiri áhugi ætti að vakna meðal almenningis á Suðvesturlandi og félagsmönnum ætti þannig að fjölga. En mikilvægust er þó hvatning velunnara NSVE og umræður þeirra manna á meðal hvað varðar stefnu og starf samtakanna.

Í bréfi frá Landvernd, dagsett 15. febrúar 2012, segir: „Stjórn Landverndar hefur tekið til afgreiðslu beiðni Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands frá 5. desember 2011 um aðild að samtökunum. Það tilkynnist hér með að Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands hafa fengið aðild að Landvernd.“ Þegar þann 14. október 2011, fjórum dögum fyrir stofnun NSVE, 18. október, voru fulltrúar hinna verðandi samtaka þátttakendur í Umhverfisþingi á Selfossi, á meðal þátttakenda og ræðumanna voru þeir Reynir Ingibjartsson og Jóhannes Ágústsson. Þann 12. nóvember tók Jóhannes einnig þátt í aðalfundi Hraunavina sem haldinn var á Álftanesi. Hraunavinir eru náttúruverndarsamtök og er starfssvæði þeirra

Álftaneshreppur hinn forni þ. e. Álftanes, Garðabær og Hafnarfjörður. Hraunavinir halda uppi öflugri starfsemi og áttu í fyrra aðild að kortlagningu stíga um Gálgahraun í Garðabæ og uppsetningu skiltis og gerð korts í því sambandi. Þá stóðu samtökin fyrir hreinsunarátaki á degi íslenskrar náttúru þann 16. september. Þann 30. mars tók Jóhannes Ágústsson þátt í ársfundi Umhverfisstofnunar á Grand Hótel í Reykjavík. Þau Ellert Grétarsson, Eydís Franzdóttir og Jóhannes Ágústsson tóku þátt í ráðstefnu um Reykjanesfólkvang þann 3. apríl í Hafnarborg í Hafnarfirði auk að sjálfsögðu Helenu Mjallar Jóhannsdóttur sem jafnframt því að vera stjórnarmaður í NSVE situr í stjórn fólkvangsins.


Þann 31. mars 2012 þótti rétt að NSVE sendu frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu og var hún birt í flestum fjölmiðlum: Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands harma þá aðför sem gerð er að náttúruperlum Suðvesturlands í þingsályktunartillögu að Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða. Sú tillaga sem ríkisstjórn Íslands hefur nú lagt fyrir Alþingi býður þeirri hættu heim að landshlutanum verði umbreytt í samfellt iðnaðar- og orkuvinnslusvæði frá Reykjanesi til Nesjavalla við Þingvallavatn. Verði af jarðvarmavirkjunum á þeim svæðum sem sett eru í orkunýtingaflokk, tapast ómetanleg náttúruverðmæti sem t.a.m. gætu gagnast til uppbyggingar á ferðaþjónustu í landshlutanum. Að ráðast inn í friðlýsta fólkvanga með virkjanir rýrir verulega mögleika íbúa svæðisins til að njóta ósnortinnar náttúru í nágrenni við heimili sín. Auk óafturkræfra náttúruspjalla yrðu jarðvarmavirkjanir þessar að öllum líkindum ekki sjálfbærar og á engan hátt hluti þess græna hagkerfis sem ríkisstjórnin hefur boðað og segir sig standa fyrir. Náttúruperlur þessar eru m. a. Sveifluháls í Krýsuvík, Eldvörp, Stóra-Sandvík og Sandfell sunnan Keilis. Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands hvetja ríkisstjórnina eindregið til þess að gera breytingar á þingsályktunartillögunni og færa náttúruperlur Suðvesturlands yfir í verndarflokk eða biðflokk. Náttúruverndarsamtökin hvetja alþingismenn eindregið til þess að samþykkja tillögu ríkisstjórnarinnar ekki óbreytta og koma náttúru Íslands til varnar, sem þeim hlýtur að bera skylda til. Rétt er að hinir 230.000 íbúar landshlutans fái notið þeirra náttúruperlna sem hann hefur að bjóða, en ekki sveðjunni brugðið og höggvið í sömu knérunn. Nóg er komið af náttúrueyðingu á Suðvesturlandi.

Stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands

Fréttabréf NSVE  
Fréttabréf NSVE  

1. tbl. 2.árg. 2012.