Hljóðkerfi og orðhlutakerfi íslensku

Page 157

14.2.8 Tíð Áður var vani að gera ráð fyrir 8 tíðum í íslensku, eins og nefnt var í 4. kafla; nútíð, þátíð, framtíð, núliðin tíð (e. present perfect), þáliðin tíð (e. past perfect), þáframtíð, skildagatíð og þáskildagatíð (e. perfect conditional). Þar af eru bara tvær þær fyrstnefndu beygingarlegar, og verða þær einar taldar tíðir hér. Fyrir því að skilja hinar útundan eru ýmis rök. Í fyrsta lagi hinn formlegi munur; aðeins nútíð og þátíð eru ósamsettar, en hinar eru allar táknaðar með hjálparsögnum, og teljast því ekki beyging í þeim skilningi sem lagður er í það hugtak hér. Í öðru lagi er merkingarlegt hlutverk hinna samsettu tíða annað; þær tákna ekki afstöðu í tíma, eins og nútíð og þátíð, heldur fremur dvöl í tíma, eins og núliðin og þáliðin tíð; eða afstöðu talanda, eins og segja má að þær fjórar sem eftir lifa geri, og bent var á hér á undan. Samsettar „tíðir“ eru því flokkaðar hér undir horf eða jafnvel hætti. Þar sem aðeins tvær tíðir eru eftir dugar einn þáttur til að greina þær að; og auðvelt er að velja viðmiðunarpól. Nútíðin er ekki bara notuð sem nútíð, heldur einnig um ókominn tíma: Ég fer á morgun. Hún er líka notuð um það sem alltaf gerist: Ég sef alltaf lengi á morgnana, jafnvel þótt í slíkri setningu sé augljóslega miðað við liðinn tíma. Einnig má nefna svokallaða „sögulega nútíð“, þar sem nútíð er notuð í stað þátíðar í frásögn: Fara þeir nú og finna bónda. Þátíðin er hins vegar eingöngu notuð um liðinn tíma (að undanskildum viðtengingarhætti þátíðar, sem fjallað er um hér á eftir), þannig að einboðið er að nota þáttinn [±þátíð] til aðgreiningar. Samspil tíðar og háttar er allflókið. Það er ljóst að tíðgreining kemur eingöngu til þar sem um [+ph] er að ræða; en það er líka samspil milli þáttanna [±þt] og [±vh]. Þar sem þarna er um tvo tvígilda þætti að ræða, ættu þeir að geta raðast saman á fjóra vegu; en oftast eru í raun miklar hömlur á samröðun þeirra. Ef sögn í aukasetningu stendur í viðtengingarhætti, er tíð hennar ekki valin frjálst, heldur verður hún að vera sú sama og tíð sagnarinnar í aðalsetningunni; og viðtengingarháttur og nútíð fara t.d. nánast aldrei saman í aðalsetningum, eins og hér sést: Jón fer/*fari/fór/færi ef María kemur/*komi/kom/kæmi heim Viðtengingarháttur þátíðar er oft notaður á nokkuð sérstakan hátt; sem sé í framtíðarmerkingu, eins og kemur greinilega fram í setningunni Ég færi á morgun ef ég gæti. Þar er bæði færi og gæti formlega séð vh.þt., þótt augljóslega sé verið að tala um ókominn tíma. Hvernig eigum við að skýra þetta? Væntanlega er hægt að skýra þetta með þeim hömlum sem eru á samvali tíðar og háttar. Setningin hér að framan sýnir, eins og áður var bent á, að í aðalsetningum kemur vh.nt. (yfirleitt) ekki fyrir. Ef við hugsum okkur að hátturinn sé grunnþáttur, þá er ljóst að með því að velja vh. í aðalsetningunni erum við búin að útiloka nútíðina; þetta tvennt fer einfaldlega ekki saman. Við slíkar aðstæður, þegar nútíðarmyndin er útilokuð af formlegum ástæðum, má hugsa sér að þátíðarmyndin geti tekið að sér 155


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.