Page 1


Yfirskrift kvikmyndadaga Amnesty International vísar í starf samtakanna síðustu fimmtíu ár. Félagar í samtökunum neita að líta undan og krefjast þess að mannréttindabrot séu gerð sýnileg en ekki reynt að fela þau. Myndmál er miðlægt í lífi okkar allra í dag og myndir notaðar til að sýna og túlka raunveruleikann. Sú áskorun sem tekist er á við lýtur að því hvernig hægt sé að sýna fólki, sem býr fjarri þeim stöðum þar sem mannréttindabrot eiga sér stað, raunveruleika þeirra brota og um leið að fá fólk til að taka afstöðu gegn brotunum og grípa til aðgerða til að stöðva þau. Reynt er að varpa ljósi á aðstæður í daglegu lífi og umhverfi fólks og áhrif aðgerða og/eða aðgerðaleysis yfirvalda og annarra á líf þess. Aðdráttarafl heimildarmynda byggir ekki síst á því að myndefnið gefur tilvísun í líf utan myndanna og tækifæri til samskipta þvert á öll landamæri. Heimildarmyndir fela í sér tilraun til að ljá hinum ósýnilegu rödd. Áhorfendum kvikmyndadaga Amnesty International er boðið í ferðalag, ferðalag sem leiðir þá til allra heimshorna og veitir innsýn í líf og aðstæður fólks. Sýndar verða tólf ólíkar myndir, hver með sína nálgun á viðfangsefnið. Í Nero’s Guests fylgjumst við með blaðamanni sem skrifar um fátækt og sjálfsmorðsfaraldur meðal indverskra bænda. Myndin Pink Saris kynnir baráttu konu gegn ofbeldi og erfðastéttakerfinu á Indlandi. Silent Snow segir frá ungum Grænlendingi sem leitar orsaka þeirrar mengunar sem ógnar samfélagi inúita. The Devil Operation er mynd sem á mjög áhrifamikinn hátt segir frá áhrifum námavinnslu á líf bænda í Perú og hvernig námafyrirtæki skirrast ekki við að ógna íbúum. The Green Wave byggir á Twitter- og bloggfærslum frá Íran í aðdraganda og í kjölfar kosninganna árið 2009, við fáum innsýn í atburðina í gegnum sögu ungs stúdents. The Jungle Radio flytur okkur til Níkaragva þar sem við fylgjumst með lífi konu sem rekur útvarpsstöðina Raddir kvenna. The Mobile Cinema leiðir okkur til Kongó þar sem hópur kvikmyndagerðarfólks ferðast um stríðshrjáð svæði og sýnir íbúum kvikmynd í þeim tilgangi að hafa áhrif á viðhorf fólks til nauðgana. Í myndinni Budrus kynnumst við tilraunum Palestínumanns til að leiða saman ólíka hópa í friðsamlegri baráttu gegn aðskilnaðarmúrnum sem ógnar afkomu íbúa þorpsins Budrus. Nowhere in Europe færir okkur sögu fjögurra flóttamanna frá Tsjetsjeníu. Við kynnumst þeim hindrunum sem flóttafólk stendur frammi fyrir í leit sinni að griðastað. Í myndinni An Independent Mind er tekist á við tjáningarfrelsið, kynntar eru sögur fólks frá ólíkum löndum sem hvert á sinn hátt nýtir þennan grundvallarrétt andspænis ógnandi valdi. Sisters in Law flytur okkur til K­ amerún þar sem við kynnumst systrum sem báðar starfa sem lögfræðingar og fylgjumst með starfi þeirra í þágu kvenna og barna. Heimildarmyndin T­ ravel Advice for Syria veitir einstaka innsýn í sýrlenskt samfélag í aðdraganda uppreisnarinnar. Að ferðalaginu loknu höfum við kynnst fólki sem þrátt fyrir oft erfiðar aðstæður heldur áfram að krefjast réttar síns til að lifa með reisn. JKE


The Green Wave

Blogg-umræður og twitter-færslur frá Íran eru grunnurinn að þessari upplýsandi og á köflum átakanlegu kvikmynd í teiknimyndastíl sem sýnir Grænu byltinguna árið 2009 í Íran. Í maímánuði eru íbúar landsins enn sannfærðir um að samfélagsumbætur séu á næsta leiti en þegar Ahmadinejad „vinnur“ kosningarnar tekur kúgun aftur völdin. Kosningadagurinn í Íran í júní 2009 varð að einum allsherjar blekkingarleik: kjörseðlar glötuðust og kjörstöðum var lokað. Þetta varð upphafið að myrku tímabili í sögu Írans. Forsetaframbjóðandinn Mousavi var settur í stofufangelsi, Ahmadinejad hrifsaði til sín völdin og byssukúlum rigndi yfir mótmælendur. Þúsundir flykktust út á götur í Íran til að mótmæla kosningasvindli undir kjörorðunum „Hvað varð um atkvæði mitt?“ en mótmælunum var mætt af mikilli harðýðgi. Hin 26 ára gamla Neda Soltan lét lífið þegar hún mótmælti með þúsundum annarra í Teheran og varð fyrir tilefnislausri árás af hendi öryggissveita. Dramatískt myndskeið náðist af atvikinu. Námsmanni er kastað í dimma dýflissu þar sem hann sætir harðræði ásamt samföngum sínum og sumir lifa fangavistina ekki af. Ung kona rifjar upp daginn sem hún var leyst úr haldi: „Mér var sleppt úr litlu fangelsi en ég varð fangi í öðru miklu stærra: Íran.“ LENGD: 80 MÍN. LAND OG ÁR: ÍRAN/ÞÝSKALAND, 2010 TEXTI: ENSKUR LEIKSTJÓRI: ALI SAMADI AHADI SÝND: 3. NÓV. KL. 20 Verðlaun: The Youth Jury Award – FIFDH Genève 2011 Best Director Award One World Prague 2011 The Václav Havel Jury Special Award One World Prague 2011 Student’s Choice Award – Movies that Matter Festival 2011.


Sisters in Law

Sisters in Law er margverðlaunuð heimildarmynd í leikstjórn bresku kvikmyndagerðarkonunnar Kim Longinotto. Myndin fjallar um tvær systur sem starfa sem lögfræðingar, við mjög erfiðar aðstæður, í þorpinu Kumba í Kamerún. Á degi hverjum takast systurnar á við mannréttindabrot sem eru tíð í þorpinu. Litið er á konur sem óafturkræfa eign eiginmannsins, og verslað er með dætur eins og hvern annan varning. Heimilisofbeldi er útbreitt en skilnaðir engu að síður sjaldgæfir. Þrátt fyrir erfiðar kringumstæður hafa báðar systurnar til að bera sterkan persónuleika, mikla skapfestu og ríka kímnigáfu og það er þeim mikill styrkur í baráttunni fyrir kynsystur sínar í þorpinu. Stundum þvinga þær fram skilnað ef nauðsyn krefur og koma þrjóskum eiginmönnum í skilning um að 21. öldin er runnin upp. Systurnar geta jafnframt verið mjög harðskeyttar við kynsystur sínar sem hafa verið ákærðar, sérstaklega ef um barnaníð er að ræða. LENGD: 104 MÍN. LAND OG ÁR: BRETLAND/KAMERÚN, 2005 TEXTI: ENSKUR LEIKSTJÓRI: KIM LONGINOTTO SÝND: 4. NÓV. KL. 20 Verðlaun: Audience Award-International Documentary Festival Amsterdam 2005 C.I.C.A.E. Award-Cannes Film Festival 2005.


An Independent Mind

Skýrt er kveðið á um tjáningarfrelsið í 19. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, enda er um grundvallarmannréttindi að ræða. Tjáningarfrelsið er undirstaða lýðræðis og frelsis í samfélaginu. Heimildarmyndin An Independent Mind, í leikstjórn Bafta-verðlaunahafans Rex Bloomstein, segir sögu átta einstaklinga víðsvegar að úr heiminum, sem eiga það sameiginlegt að berjast fyrir rétti sínum til tjáningar. Ógnirnar sem þeir standa frammi fyrir eru með ýmsu móti. Ein sagan segir frá manni sem á fangelsisvist á hættu vegna skopteikningar af forseta sínum, önnur frá bræðrum sem eiga yfir höfði sér að verða sendir í vinnubúðir fyrir það eitt að segja brandara, þriðja segir frá ljóðskáldi sem var pyndað vegna skrifa sinna og enn önnur frá söngvara sem var hrakinn í útlegð vegna lagasmíða sinna. Þessar sögur snúast ekki aðeins um þróunarlönd heldur einnig vestræn lýðræðisríki. LENGD: 90 MÍN. LAND OG ÁR: BRETLAND, 2008 TEXTI: ENSKUR LEIKSTJÓRI: REX BLOOMSTEIN SÝND: 5. NÓV. KL. 20 Verðlaun: Biografilm Festival in Bologna – recipient of The Human Rights Award.


The Devil Operation

Árið 2001 brutust út átök á Cajamarca-svæðinu í Perú vegna fyrirhugaðra áætlana á vegum Yanacocha-gullnámunnar um að færa út kvíarnar og hefja starfsemi í námunda við heilagt fjall. The American Mining Corporation stendur að baki framkvæmdunum og íbúar fjalllendisins uppgötva fljótlega að drykkjarvatnið þeirra er mengað. Íbúarnir bregðast við með mótmælaaðgerðum. Fyrir milligöngu staðarprestsins, Marco Arana, árið 2004 er komið í veg fyrir blóðsúthellingar en Arana og hópur umhverfissinna uppgötva sér til skelfingar að þeim er hvarvetna veitt eftirför og að þeir eru myndaðir með leynd. Kúgun og hótanir verða tíðar og einn einstaklingur lætur lífið. Spurningin er: Hver er að fylgjast með þeim? Höfundur myndarinnar, Stephanie Boyd, sem áður hefur gert myndir um mannréttindabrot námavinnuslufyrirtækja í Perú, ætlaði upphaflega að gera mynd sem fjallaði eingöngu um mótmælaaðgerðir bænda, en uppgötvaði smám saman að umrædd náma lá ekki aðeins á gulli heldur fjölda leyndarmála. LENGD: 69 MÍN. LAND OG ÁR: KANADA/PERÚ, 2010 TEXTI: ENSKUR LEIKSTJÓRI: STEPHANIE BOYD SÝND: 6. NÓV. KL. 20 Verðlaun: Special mention for the Best Canadian Film at Rencontres Internationales de Documentaire Montreal-FIDM Montreal 2010 Cinema for Peace International Human Rights Award-Berlin 2010.


Pink Saris

Í rúmlega tuttugu ár hefur Sampat, sem er leiðtogi Gulabi-gengisins, barist fyrir réttindum kvenna á Indlandi. Í myndinni Pink Saris fylgjumst við með Sampat heimsækja fjölskyldur á Indlandi sem hafa annað hvort gert dætur sínar brottrækar af heimilinu eða beitt þær ofbeldi. Oft á tíðum eiga bágindi innan fjölskyldna á Indlandi rætur sínar að rekja til erfðastéttakerfisins. Að sögn Sampat liggur skýringin á hörmulegum lífsskilyrðum margra á Indlandi í þeirri trúarlegu sannfæringu að tiltekinn samfélagshópur sé stéttlaus og óhreinn (hinir ósnertanlegu). Sampat leggur sjálf allt kapp á að brjótast út úr hinu hefðbundna stéttakerfi. Í augum indverskra stúlkna sem hafa strokið að heiman og eru útskúfaðar er Sampat eins og Móðir Teresa. Sampat er vel kunnugt um þessa stöðu sína: „Hver myndi þerra tárin þín ef mín nyti ekki við?“ Þegar eiginmaður Sampat lætur í ljós óánægju sína með frægðarsól hennar kemur í ljós viðkvæm hlið á þessari sterku konu. Breska kvikmyndagerðarkonan Kim Longinotto telur það skyldu sína að fordæma óréttlæti og hún fjallar um umdeild mál af einstöku næmi og djúpri hluttekningu. Myndir hennar sýna venjulegar konur sem leggja óvenjumikið á sig til að vinna gegn stöðluðum kynímyndum. LENGD: 96 MÍN. LAND OG ÁR: BRETLAND, 2010 TEXTI: ENSKUR LEIKSTJÓRI: KIM LONGINOTTO SÝND: 7. NÓV. KL. 20 Verðlaun: Best Documentary-Abu Dhabi International film festival 2010 The Special Jury Award-Sheffield Doc Fest 2010 Amnesty Award-Copenhagen DOX 2010.


Travel Advice for Syria

Lengi vel var talið að Sýrland gæti orðið kyndilberi lýðræðisumbóta í arabaheiminum. Nú þykir aftur ljóst að landið lýtur einni grimmustu einræðisstjórn sem um getur í Mið-Austurlöndum. Atburðir síðustu mánaða bera því glöggt vitni. Árásirnar á mótmælendur í landinu hafa kostað rúmlega 2000 manns lífið. Þar af hafa 88 látið lífið í gæsluvarðhaldi af völdum pyndinga eða illrar meðferðar og eru börn og unglingar þeirra á meðal. Þá hafa 3000 manns verið látnir hverfa og er ekki vitað um örlög þeirra. Sænski kvikmyndagerðarmaðurinn Peter Löfgren hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir heimildarmyndir sínar um Mið-Austurlönd. Nýjasta mynd hans, Travel Advice for Syria, veitir áhorfandanum einstaka innsýn í sýrlenskt samfélag. Assad-fjölskyldan hefur ráðið lögum og lofum í landinu í nærri fjóra áratugi. Fjölskyldan hefur haldið völdum fyrir tilstuðlan lítillar elítu sem fær sífellt að auðgast á kostnað meirihlutans sem býr við kröpp kjör. Myndin sýnir ljóslega þau mannréttindabrot sem hafa átt sér stað í landinu á undanförnum árum og varpar ljósi á leynilegt samstarf sýrlenskra stjórnvalda við ráðamenn í Bandaríkjunum. Meðan á tökum stóð var Löfgren stöðugt veitt eftirför af leyniþjónustu Sýrlands og margir af tengiliðum hans í landinu voru handteknir og pyndaðir. LENGD: 58 MÍN. LAND OG ÁR: SVÍÞJÓÐ, 2008 TEXTI: ENSKUR LEIKSTJÓRI: PETER LÖFGREN SÝND: 8. NÓV. KL. 20


Nero’s Guests

Síðastliðin tíu ár hafa 200.000 bændur á Indlandi framið sjálfsmorð. Harmleikurinn stafar af sárri fátækt. Hvorki yfirvöld né fjölmiðlar sýna þessari staðreynd áhuga. Í kvikmyndinni Nero’s Guests er fylgst með blaðamanninum Palagummi Sainath sem er umhugað um örlög fátækra bænda. Sainath birti sögur þeirra í dagblaðinu The Hindu, sem er einstakt þar sem ekkert annað dagblað á Indlandi hefur hliðstæðan fréttaritara á sínum snærum, mann sem skrifar um fátækt. Yfirstéttin á Indlandi virðist líta svo á að sjötíu prósent þjóðarinnar hafi ekkert fréttagildi. Kvikmyndagerðarmaðurinn Deepa Bhatia fylgir Sainath eftir í heimsóknum hans til fátækra bænda. Þessi ástríðufulli og upplýsti blaðamaður dregur huluna af skelfilegu félagslegu óréttlæti á Indlandi. LENGD: 55 MÍN. LAND OG ÁR: INDLAND, 2009 TEXTI: ENSKUR LEIKSTJÓRI: DEEPA BHATIA SÝND: 9. NÓV. KL. 20 Verðlaun: Best Feature Documentary- Cinestrat 2010 Special Mention by the Jury- IFFLA 2010 Gold medal for Best Documentary- Indian Documentary Producers Association 2010 Best Documentary-Indian Film Festival of London 2010 FIPRESCI Critics Award-Mumbai Inte.


Silent Snow

Silent Snow er sláandi heimildarmynd um ungan inúíta sem ferðast til þriggja heimsálfa í þeim tilgangi að rannsaka áhrif mengunar á menn og umhverfi. Upphaf leiðangursins er norðurpóllinn. Í mynd sinni afhjúpar Gouden Kalf-verðlaunahafinn Jan van den Berg bæði fegurð og varnarleysi jarðarinnar. Efnaúrgangur sem berst með sjávarstraumum og snjóbyljum hefur valdið eyðileggingu og dauða í inúíta-samfélögum á Grænlandi. Meindýraeitur eins og DDT berst með þessum hætti um langan veg og veldur alvarlegum veikindum og jafnvel ótímabærum dauða, bæði meðal manna og dýra. Aðstoðarleikstjóri myndarinnar, Pipaluk Knudsen-Ostermann, er ungur inúíti sem ferðast til Tansaníu, Indlands og Kostaríku til að rannsaka hvert mengunin á rætur sínar að rekja og hvernig unnt er að stemma stigu við henni. Myndin leggur áherslu á alvarleg áhrif mengunar á norðurheimskautið en bendir jafnframt á höfuðorsakirnar og þau siðferðilegu vandamál sem fylgja, eins og notkun á DDT í baráttunni gegn malaríu í Afríku. LENGD: 75 MÍN. LAND OG ÁR: HOLLAND, 2010 TEXTI: ENSKUR LEIKSTJÓRI: JAN VAN DEN BERG, PIPALUK DE GROOT SÝND: 10. NÓV. KL. 20 Verðlaun: Stop Global Warming Award and J-Wave Audience Award, Short Shorts Film Festival In Japan, First Prize Planet in Focus, Toronto, Best International Film, HRAFF Australia, Prix du meilleur court métrage, FIFFEL, Lausanne, Children Earth Vision Award, Japan, Golden Snail, Slow Food on Film Festival Bologna, Honorable Mentions at INKAFEST Peru and HR Film Fest. Buenos Aires, First Prize Green Film Fest Seoul.


Budrus

Palestínumaðurinn Ayed Morrar leiðir saman félaga í Fatah-samtökunum og Hamas-hreyfingunni og ísraelska borgara í friðsamlegri baráttu gegn ísraelska aðskilnaðarmúrnum, sem rísa á nærri smáþorpinu Budrus á Vesturbakkanum, heimabæ Ayed. Aðskilnaðarmúrinn skilur að Palestíumenn og Ísraelsmenn. Kvikmyndin Budrus sýnir að friðarumleitanir hans í palestínska samfélaginu ganga vel. Ljóst er að rísi aðskilnaðarmúrinn við þorpið Budrus mun hann gjöreyða 120 hekturum af landi, eyða 3000 ólífutrjám og baka þorpsbúum mikinn tekjumissi. Í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að aðskilnaðarmúrinn rísi á þessum stað stofnar Ayed Morrar friðsama mótmælahreyfingu. Iltezam, fimmtán ára gömul dóttir Ayed, fetar í fótspor hans og kemur á laggirnar kvennahreyfingu sem berst fyrir sama málstað. Myndavélin fylgir frumkvöðlinum eftir í viðleitni hans til að gera hið ómögulega: að leiða Fatah-samtökin og Hamas saman, kynna til sögunnar kvenleiðtoga og bjóða hundruðum Ísraelsmanna í þorpið sitt til að styðja málstaðinn. Margir aðgerðasinnar frá Budrus halda friðsamlegri baráttu sinni áfram í þorpum eins og Bil’in, Nabi Saleh og Sheikh Jarrah í Austur-Jerúsalem. Kvikmyndin Budrus veitir forvígismönnum úr ýmsum áttum tækifæri til að tjá skoðanir sínar: palestínskum leiðtogum friðarhreyfingarinnar og ísraelskum stuðningsmönnum þeirra, Doron Spielman, talsmanni ísraelskra stjórnvalda, og yfirmanni landamæralögreglunnar sem hefur bækistöð í Budrus. LENGD: 75 MÍN. LAND OG ÁR: PALESTÍNA/ÍSRAEL/BANDARÍKIN, 2009 TEXTI: ENSKUR LEIKSTJÓRI: JULIA BACHA SÝND: 11. NÓV. KL. 20 Verðlaun: Spirit of Freedom Documentary Arward, Bahamas International Film Festival, 2010 Checkpoints Award, Bergen International Film Festival, 2010 Panorama Audience Award Second Prize, Berlin International Film Festival 2010 Winner Honorable Mention of the Jury.


Nowhere in Europe

Hér er á ferðinni áhrifamikil heimildarmynd um áhrif evrópskrar innflytjendastefnu á fjóra flóttamenn frá Tsjetsjeníu. Eftir að hafa flúið átökin í heimalandi sínu standa þeir andspænis nýjum vandamálum þegar þeir sækja um hæli í Evrópu. Þeir þurfa að færa sönnur fyrir því hverjir þeir eru og hvað hefur hent þá. Myndin sýnir vel hversu maðurinn má sín oft lítils gagnvart ríkisbákninu. Leikstjórinn Kerstin Nickig fylgir fjórmenningunum eftir í eitt ár og á þeim tíma þurfa þeir að sigrast á margvíslegum hindrunum til að geta hafið nýtt líf með fjölskyldum sínum í Evrópu. Áhorfandanum er veitt innsýn í drauma þeirra, ótta og þrá til að lifa hefðbundnu lífi. Ali er 39 ára blaðamaður sem bíður eftir úrskurði yfirvalda í Póllandi um hælisumsókn. Í reykmettuðu herbergi í flóttamannamiðstöðinni sem hann dvelur á, hefur Ali nægan tíma til að koma hugsunum sínum á blað. Hugsunum um Evrópu og þær vonlausu aðstæður sem hann er í. Wacha sem er 50 ára hefur verið veitt hæli í Austurríki en sonur hans býr í Rússlandi þar sem hann sætir lögsókn. Við fylgjumst með baráttu Wacha til að fá son sinn. Tamara er 55 ára gömul og býr í Vín ásamt eiginmanni og fatlaðri dóttur sem þarf á aðkallandi læknisaðstoð að halda, en brottvísun fjölskyldunnar úr landi virðist óumflýjanleg. Hinn 33 ára gamli Ruslan er fastur í Úkraínu, án húsaskjóls eða atvinnu. Hann vonast til að geta flutt með fjölskyldu sína til Vestur- Evrópu eins fljótt og auðið er. Myndin er gerð til heiðurs rúmlega 100.000 T­ sjetsjenum sem hafa flúið átökin í heimalandi sínu. LENGD: 98 MÍN. LAND OG ÁR: PÓLLAND/ÞÝSKALAND, 2009 TEXTI: ENSKUR LEIKSTJÓRI: KERSTIN NICKIG SÝND: 12. NÓV. KL. 20 Verðlaun: Best Documentary- Pravo Ljudski Human Rights Film Festival Sarajevo 2010 Special Mention of the Jury- Watch Docs Warsaw 2010.


The Jungle Radio

Kvikmyndin The Jungle Radio leiðir áhorfandann langt inn í frumskóga Níkaragva, þar sem femínistinn Yamileth Chaverría hefur stofnað útvarpsstöð í einstökum tilgangi: að fordæma heimilisofbeldi gegn konum og börnum sem er einkar algengt í landinu. Enda þótt Yamileth hafi sjálfri verið hótað ofbeldi margoft veigrar hún sér ekki við að hallmæla mönnum sem beita ofbeldi. Stuttu eftir að fellibylurinn Mitch reið yfir landið árið 1998 stofnaði Yamileth útvarpstöðina Palabra de Mujer eða Raddir kvenna. Áhrif fellibylsins voru mikil og fjöldi þorpa í Níkaragva einangraðist frá umheiminum. Engu að síður gat fólkið komið skilaboðum til fjölskyldna sinna og vina í gegnum útvarpsstöðina. En útvarpsstöðin hennar Yamileth gegndi öðru og stærra hlutverki en að koma í stað síma. Í daglegum þáttum sínum, Skilaboðanornin, ávítar hún gerendur heimilisofbeldis (og kynferðisofbeldis) og nefnir þá með nafni. Með því tekur hún jafnframt afstöðu gegn réttarkerfinu í Níkaragva, þar sem nær aldrei koma fram ákærur vegna heimilisofbeldis, jafnvel þótt slíkum málum ljúki stundum með dauðsfalli. Yamileth neitar að láta stöðva sig, jafnvel þó að hún hafi oft fengið líflátshótanir. Eins og hún orðar það sjálf: „Ef þeir skjóta mig í beinni útsendingu munu allir verða vitni að því.“ LENGD: 90 MÍN. LAND OG ÁR: HOLLAND, 2009 TEXTI: ENSKUR LEIKSTJÓRI: SUSANNA JÄGER SÝND: 13. NÓV. KL. 20 Verðlaun: FIDH Prize-Festval des Libertés 2010 First Prize-Filmfestival Espiello VIII Boltaña.


The Mobile Cinema

Í heimildarmyndinni The Mobile Cinema er fylgst með kvikmyndagerðarmönnum þar sem þeir ferðast um stríðshrjáð svæði í Kongó og sýna margverðlaunaða mynd sína, Fighting the Silence, í þeim tilgangi að breyta viðhorfi fólks í landinu til nauðgana. Rúmlega þrjú þúsund manns sitja í þögn á grasfleti fyrir framan gríðarstóran skjá. Starfsliði kvikmyndarinnar The Mobile Cinema hefur tekist að ná til þúsunda fólks sem býr í afskekktum þorpum í Kongó. Augu allra beinast að heimildarmyndinni, Fighting the Silence, sem sýnir fórnarlömb nauðgana í Kongó heyja daglega baráttu gegn fordómum og bannhelgum samfélagsins. LENGD: 27 MÍN. LAND OG ÁR: HOLLAND, 2011 TEXTI: ENSKUR LEIKSTJÓRI: ILSE VAN VELZEN/FEMSKE VAN VELZEN SÝND: 13. NÓV. KL. 20


BJARGAÐU MANNSLÍFUM MEÐ FARSÍMANUM

SENDU SMS-SKEYTIÐ: AMNESTY í símanúmerið 1900 og skráðu þig í SMS-aðgerðanet Amnesty International

Á hverjum degi fær Amnesty International upplýsingar um mannréttindabrot, sem krefjast tafarlausra viðbragða: pyndingar, geðþóttahandtökur, þvinguð mannshvörf og önnur mannréttindabrot. Því hefur Íslandsdeild Amnesty International komið á laggirnar SMS-aðgerðaneti þar sem fólk getur notað farsímann til að bjarga mannslífum með því að senda SMS. Þannig safnast fjöldi undirskrifta á stuttum tíma.

Hvað þú gerir:

1 Þú skráir þig með því að senda sms-ið: AMNESTY í 1900 2 Þú færð sendar 2–3 aðgerðir (99 kr. per aðgerð) á mánuði:

Þú svarar fyrstu aðgerðinni með því að senda: AKALL <ÞITT NAFN> í 1900 (passaðu að hafa bil milli AKALL og nafnsins þíns – til dæmis: AKALL Jóna Jónsdóttir) og þá skráist nafn þitt á undirskriftalista vegna aðgerðarinnar. Nánari upplýsingar um hvert mál má svo lesa á heimasíðunni: http://www.amnesty.is/hvadthugetur/sms-netid/sms-netid-mal/

3 Einungis þarf að skrá undirskriftina einu sinni. Næst þegar þú svarar aðgerð er nóg að skrifa: AKALL og senda í 1900 og þá bætist nafn þitt sjálfvirkt við hlið annarra sem taka þátt í aðgerðinni.

4

Ef þú vilt hætta í SMS-netinu þá sendirðu: AMNESTY STOP í 1900 Taktu þátt í að bjarga fólki frá pyndingum, geðþóttahandtökum og aftökum og skráðu þig í sms-aðgerðanetið !


Heiðursgestur á kvikmyndadögum Amnesty International er sænski kvikmyndagerðamaðurinn, Peter Löfgren. Kvikmynd hans, Travel Advice for Syria er til sýningar á kvikmyndadögum þann 8. nóvember klukkan 20:00 í Bíó Paradís. Að sýningu lokinni mun Peter fjalla um gerð myndarinnar, greina frá ástandi mála í Sýrlandi í dag, setja það í samhengi við myndina og að lokum svara spurningum kvikmyndagesta. Peter Löfgren hefur unnið sem fréttaskýrandi fyrir sænska ríkissjónvarpið á ýmsum átakasvæðum heimsins og unnið til fjölda verðlauna fyrir heimildarmyndir sínar um Mið-Austurlönd.

Sýningarskrá 3. nóvember The Green Wave, 80 mín. 4. nóvember Sisters in Law, 104 mín. 5. nóvember An Independent Mind, 90 mín. 6. nóvember The Devil Operation, 69 mín. 7. nóvember Pink Saris, 96 mín. 8. nóvember Travel Advice for Syria, 58 mín. 9. nóvember Nero’s Guests, 55 mín. 10. nóvember Silent Snow, 75 mín. 11. nóvember Budrus, 75 mín. 12. nóvember Nowhere in Europe, 98 mín. 13. nóvember The Mobile Cinema, 27 mín. og The Jungle Radio, 90 mín. Allar sýningarnar hefjast kl. 20.00 Miðaverð 750 kr. á hverja mynd

Anmesty Iceland Documentary Film Festival  

The programme for Amnesty International's Documentary Film Festival at Bio Paradis Nov. 3-13, 2011.