Bókasafnið 35. árgangur • júní 2011
gegnir.is er vefviðmót bókasafnskerfis sem hýsir samskrá íslenskra bókasafna. Í samskránni eru einkum bækur, tímarit, tímaritsgreinar, tónlistarefni og myndefni. Allar prentaðar íslenskar bækur og íslensk tímarit eru skráð í gegnir.is. Kerfið veitir aðgang að upplýsingum um safnkost flestra bókasafna landsins, auk þess sem margvísleg þjónusta er í boði fyrir notendur.
Landskerfi bókasafna hf. www.landskerfi.is
bókasafnið
35. árg. 2011
Efnisyfirlit 4
Baldur Sigurðsson Ritver og bókasafn – ást við fyrstu sýn?
46
9
Eva Ósk Ármannsdóttir Upplýsingaarkitektúr. Þú getur ekki notað það sem þú finnur ekki
Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir Áhrif kreppunnar í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni
47
Guðbjörg Garðarsdóttir Skólasöfn á erfiðum tímum
17
Bragi Þorgrímur Ólafsson Lakasta bók Íslandssögunnar? Af ritdómi Jóns Sigurðssonar forseta 1844
48
Eyrún Ýr Tryggvadóttir Sá sem á garð og bókasafn þarfnast einskis frekar. Hugleiðingar um mikilvægi bókasafna
22
Sigrún Klara Hannesdóttir Á leið til fagstéttar. Bókavarðafélag Íslands 50 ára
49
Áslaug Agnarsdóttir Skemman og Opinn aðgangur
28
Sigrún Klara Hannesdóttir Það var jafnvel svolítill söknuður að fleygja allri spjaldskránni... Viðtal við Huldu Sigfúsdóttur
54
Þórhallur Þórhallsson Tvö ljóð
31
Kolbrún Björk Sveinsdóttir og Svanhildur Eiríksdóttir Sögupokar til að efla tengsl og örva ímyndunarafl
55
Bækur og líf
58
33
Steinvör Haraldsdóttir Upplýsingahegðun og óhefðbundnar heilsumeðferðir. Ritrýnd grein
Hólmkell Hreinsson Minning þriggja bókavarða
60
Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir Minning: Finnbogi Guðmundsson 1924-2011
40
Sólveig Þorsteinsdóttir Niðurskurður hjá Heilbrigðisvísindabókasafni Landspítalans. Áhrif á vísindavirkni og klínískt starf á Landspítalanum
61
Afgreiðslutími safna
66
Höfundar efnis
45
Guðrún Hannesdóttir Aðföng. Ljóð
Frá ritstjóra Í þessu hefti Bókasafnsins eru nokkrar greinar undir fyrirsögninni Bókasöfnin og kreppan. Óneitanlega hefur samdráttur undanfarinna ára haft áhrif á starfsemi bókasafna. Hér er ekki um skipulagða rannsókn að ræða, en í einni grein er þó sagt ítarlega frá því hvernig kreppan hefur haft áhrif á starfsemi Heilbrigðisvísindabókasafns Landspítalans. Og vissulega hefur kreppan líka áhrif á þetta rit, áskrifendum hefur fækkað og auglýsingar eru vandfengnari. En óþarft er að berja lóminn. Við höfum ekki þurft að kreista út ritsmíðar, þvert á móti komst ekki allt það efni fyrir sem ritnefnd stóð til boða. Blaðið þyrfti því að stækka, og reyndar hefur það löngum verið stærra en nú er, en það kostar líka meira. Almennt er ekki verið að berja lóminn á sviði bókasafna og upplýsingafræða, þvert á móti lifum við spennandi tíma, að sönnu nokkuð ógnandi í bland, en til þess eru ógnir að mæta þeim. Miklar umræður eru á þessum vettvangi og má þar til dæmis nefna viðbrögð bókasafna við hinni rafrænu þróun, sem er í senn ógnandi og gefur líka fyrirheit um nýja möguleika: er hin efnislega bók að hverfa, leysast upp í rafeindir, eru gælur fingurs við pappír að víkja fyrir köldum tökkum eða snertiskjá? Eru mannleg samskipti að breytast í rafboð, lyktarlausan sýndarveruleika? Nokkur íslensk almenningsbókasöfn eru í samvinnu við bókasöfn á hinum Norðurlöndunum farin að spá í „næsta bókasafn“ og þar er horft bæði til hinnar rafrænu byltingar og menningarlegs og félagslegs hlutverks bókasafnins. Efni bókasafnins er ekki bara að leysast upp í rafbylgjur, suður á Reykjanesi fá börnin sögur í poka. „Frá bókasafni til samfélags-/menningarhúss“ var heiti á námskeiði á vegum Upplýsingar í vetur og í vor var viðfangsefni eins Morgunkorns Upplýsingar ímynd bókasafns- og upplýsingafræðinga og bókavarða. Í grein í tilefni 50 ára afmælis Bókavarðafélags Íslands er vikið að þróun bókavarða til fagstéttar en í annarri grein er meðal annars fjallað um starfsheitið „upplýsingaarkitekt“. Hulda Sigfúsdóttir rifjar upp í viðtali þegar spjaldskrá Borgarbókasafns var hent og annars staðar er fjallað um registur yfir Landsbókasafns Íslands frá miðri 19. öld og má segja að langur vegur sé milli þess og Gegnis nútímans. Skipulag upplýsinganna er mikilvægt sem og tæknin til að leita og hversu opinn aðgangurinn er. En hvað um þann sem leitar upplýsinga og vinnur úr þeim? Um það er fjallað annars vegar í grein um ritver og bókasöfn og hins vegar í fyrstu ritrýndu grein Bókasafnsins, grein um upplýsingahegðun græðara. Frá og með þessu hefti birtir Bókasafnið ritrýndar greinar í bland við aðrar. Einar Ólafsson
Útgefandi: Upplýsing. Félag bókasafns- og upplýsingafræða Lyngási 18 | 210 Garðabæ | Sími 864 6220 | Netfang: upplysing@upplysing.is Veffang: www.upplysing.is Prentun: GuðjónÓ – vistvæn prentsmiðja Forsíðumyndin er bútasaumsteppi eftir Sigurbjörgu Júlíusdóttur, fyrrverandi bókavörð í Borgarbókasafni Reykjavíkur, Gerðubergi. Í Gerðubergi var öflugur bútasaumshópur um margra ára skeið og var Sigurbjörg mjög virk í honum. Um þessa starfsemi var fjallað í 19. árgangi Bókasafnsins árið 1995. Ljósmyndirnar í teppinu eru annars vegar af móður listakonunnar, Hildi Þorfinnsdóttur, og vinkonu hennar, Hönnu Karlsdóttur, og hins vegar af ömmu listakonunnar, Steinunni Egilsdóttur.
Bókasafnið • 35. árgangur júní 2011 • ISSN 0257-6775
Ritnefnd: Einar Ólafsson, ritstjóri – bokasafnid.timarit@gmail.com Kristín Ingunnardóttir, gjaldkeri – kingunnar@gmail.com Sigurborg B. Ólafsdóttir, ritari – sigurborg@internet.is Hallfríður Hr. Kristjánsdóttir, – hallfridurk@landsbokasafn.is Áslaug Óttarsdóttir – aslaugo@hi.is Kristína Benedikz – krist@hi.is Bókasafnið hefur frá árinu 1989 verið lyklað í Library & Information Science Abstracts (LISA)
Ritver og bókasafn – ást við fyrstu sýn? Af hverju ekki fyrr? Þetta er lykilspurning, og flestir virðast sammála um að við þurfum að leggja meiri rækt við að kenna ungu fólki að skrifa á faglegan og fræðilegan hátt um viðfangsefni sín allt frá fyrsta ári í háskóla. Leiðsögn um skrifin sjálf er hins vegar utan hins eiginlega hlutverks kennara í stóru námskeiði vegna þess að skrif eru sérstakt viðfangsefni, óháð því sem um er skrifað hverju sinni, og til að leiðbeina um skrif þarf að ræða við hvern og einn. Baldur Sigurðsson
Þótt undarlegt megi virðast glíma margir við mikla erfiðleika í sambandi við skrif, erfiðleika sem ekki há fólki í mæltu máli. Þetta geta verið einföld praktísk atriði um skráningu heimilda, vandi við málfar, stafsetningu eða málnotkun, skipulag framsetningar í smáu eða stóru, hugmynda og hugsana, en alvarlegustu erfiðleikarnir tengjast sjálfu ritferlinu, því að skrifa. Skrif virðast geta valdið sálarkvölum og kvíða sem meðal annars birtist sem ritstífla frammi fyrir auðri síðu eða tómum skjá. Þessi einkenni ættu að vera lesendum að góðu kunn, því flestir lenda í svipuðum sporum einhvern tíma á lífsleiðinni. Stúdentum í meistaranámi við Háskóla Íslands hefur fjölgað gríðarlega á síðari árum. Gerðar eru kröfur um töluvert umfangsmikið skriflegt lokaverkefni til meistaraprófs og fyrir marga er það fyrsta verkefnið á lífsleiðinni þar sem reynir á að geta skrifað texta samkvæmt þeim kröfum sem fræðasamfélagið gerir. Þótt skólaganga flestra sé vörðuð mörgum ritunarverkefnum, til dæmis allveglegu bakkalárverkefni (algengast er 10e verkefni á Menntavísindasviði), er eins og stúdentar hafi getað komist í gegnum þau án þess kunna sérstaklega mikið til verka. Meistaraverkefnið er umtalsvert stærra (yfirleitt 30e eða meira), kröfur um framsetningu eru farnar að nálgast það sem gerist í lífinu sjálfu, návígið við leiðsögukennarann er meira og stúdentar þurfa að gera grein fyrir efni sínu frammi fyrir stærri hópi. Fyrir vikið verður gagnrýni óvægnari og umsagnir nákvæmari. Stúdentar, sem vanir er hinu verndaða umhverfi skólans, verða eðlilega fyrir áfalli, taka gagnrýnina nærri sér og fyllast óöryggi og kvíða. „Af hverju var manni ekki sagt þetta fyrr?“ spyr unga fólkið réttilega. Og þá verður kennurum ljóst hvað stúdentar þurfa raunverulega mikla aðstoð og stuðning við skrifin.
4
Stofnun ritvers á Menntavísindasviði Á Menntavísindasviði Háskóla Íslands var í nóvember 2009 sett á laggirnar ritver, miðstöð þekkingar og fræðslu um fræðileg skrif á sviðinu. Hlutverk þess er meðal annars að leiðbeina stúdentum um skrifleg verkefni, stuðla að því að stúdentar skrifi meira og betur um viðfangsefni sín í náminu og vera kennurum innan handar um hvers kyns hjálpargögn um fyrirlögn skriflegra verkefna, yfirferð og mat. Höfundur þessarar greinar var ráðinn forstöðumaður og eini starfsmaður í fjórðungsstarf gegn helmingsafslætti á kennsluskyldu. Með forstöðumanni starfar sex manna stjórn. Ritverinu var valinn staður á bókasafninu. Innarlega á safninu var komið fyrir skrifborði með tölvu og síma og svæðið merkt með skilti: Ritver. Aðra aðstöðu þurfti ekki. Bókasafn Menntavísindasviðs er rúmgott. Bókaskápar standa í röðum og afmarka misstór svæði þar sem komið er fyrir vinnuborðum og stólum. Í hornum er gert ráð fyrir borðum til lestrar í „einrúmi“, en flestum húsgögnum er þannig fyrir komið að nemendur geti unnið saman að lausn verkefna sinna, og í samræmi við það er heimilt að tala saman í safninu. Staðsetning ritvers á bókasafninu var engin tilviljun. Ritver við háskóla eiga sér hartnær hálfrar aldar sögu (Ask, 2007; Elmborg og Hook, 2005). Á sjöunda áratug liðinnar aldar sáu fyrstu ritverin dagsins ljós við bandaríska háskóla (writing labs, síðar writing centers), sprottin af sama vanda og lýst var í inngangi, stúdentar þurftu meiri aðstoð við að skrifa en unnt var að veita innan þess ramma sem hefðbundin kennsla setti. Svo virtist sem skilvirk kennsla og aðstoð við ritun væri annars eðlis en hefðbundin kennsla í hópi. Rannsóknir Sofiu Ask á því hvernig stúdentar ná tökum á að skrifa fræðilegan texta benda til að hið eiginlega nám í skrifum fari aðallega fram í samskiptum við kennara og aðra stúdenta þegar höfundar fást við eigin verkefni (Ask, 2007).
bókasafnið
35. árg. 2011
Viðtölin fara fram við skrifborð forstöðumanns, fyrir opnum tjöldum, ef svo má segja. Fyrir framan skrifborðið er eitt af mörgum vinnusvæðum stúdenta á bókasafninu með nokkrum borðum og nemendur að störfum, en lágvær kliður í lofti af samræðum.
Hugmyndin um ritver sem hluta af starfsemi skóla breiddist snemma út um öll Bandaríkin, bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi, og á tíunda áratug síðustu aldar nam hún land á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu, en hefur kannski fyrst komist á flug eftir þúsaldamótin. Nú starfa alþjóðleg samtök ritvera (IWCA) í mörgum undirdeildum eftir heimsálfum, svæðum og löndum. Evrópsku samtökunum (EWCA) hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu árin og sama má segja um evrópsk samtök háskólakennara sem kenna fræðileg skrif (EATAW). Útgáfa bóka og tímarita á þessu sviði hefur farið vaxandi. Við á Menntavísindasviði gátum sótt í digran sjóð reynslu og þekkingar um hvernig staðið skyldi að stofnun ritvers. Höfundur þessarar greinar fór í kynnisferð til háskólans í Mary land í Bandaríkjunum og aflaði sér gagna úr ýmsum áttum en skorinorðustu leiðbeiningarnar um stofnun nýs ritvers komu frá Lottu Rienecker, stofnanda og forstöðukonu ritversins við Kaupmannahafnarháskóla sem stofnað var árið 2002. Leiðbeiningar hennar taka mið af stofnanagerð og hugsunarhætti sem við þekkjum í okkar menningu og því var nærtækt að fylgja þeim að svo miklu leyti sem þær áttu við hugmyndir okkar og aðstæður. Að öðru leyti var tekið mið af hálfrar aldar reynslu Bandaríkjamanna og annarra sem sett hafa ritver á laggirnar og svo af sérstöðu okkar, fámenni og takmörkuðum fjárráðum. Þegar ritveri er valinn staður er mikilvægt að gera upp við sig hvers konar hlutverki það á að gegna. Möguleikarnir eru að minnsta kosti þrír.
• Í fyrsta lagi getur ritverið verið einhvers konar angi af íslenskudeild skólans, mannað íslenskukennurum sem fyrst og fremst hugsa um að stúdentar skrifi rétt og gott mál. Þegar fyrstu ritverin sáu dagsins ljós í bandarískum háskólum var algengt að þau tengdust enskudeildum skólanna og enn í dag eru mjög mörg þeirra (líklega flest, nákvæma tölu hef ég ekki) tengd starfsemi enskudeildar. Á stórri háskólalóð er ritverið þá gjarnan staðsett í námunda við enskudeildina. Þessi tenging er hluti þeirrar arfleifðar að móðurmálskennarar hvers lands hafa séð um ritgerðarkennsluna en víða hefur þessi arfur haft þær afleiðingar að tengslin við aðrar deildir og fræðasvið verða ekki sem skyldi. • Í öðru lagi getur ritverið verið hluti af stoðþjónustu skólans, líkt og til dæmis þjónusta námsráðgjafa eða hjúkrunarfræðinga. Í samræmi við þá hugmynd er ritverið staðsett á sama gangi eða í sömu byggingu og námsráðgjöfin. Þessi tenging hefur það í för með sér að stúdentar líta á ritverið sem „úrræði“ fyrir þá sem eiga í sértækum örðugleikum og þorri stúdenta telur slíka þjónustu ekki eiga erindi við sig. • Í þriðja og síðasta lagi getur ritverið verið hluti af almennri þjónustu skólans við stúdenta og kennara, líkt og bókasafn eða tölvuþjónusta, þjónusta sem allir þurfa á að halda, án þess endilega að eiga í sérstökum vandræðum.
5
bókasafnið
35. árg. 2011
Frá upphafi var litið svo á að þjónusta ritvers væri af því tagi sem lýst er í þriðja lið, almenn þjónusta við alla, bæði stúdenta og kennara. Þess vegna var það staðsett á bókasafninu til þess að notendur litu á ritverið sem eðlilegan hluta af þeirri fjölþættu starfsemi sem þar fer fram. Starfsemi ritvers, að aðstoða fólk við að skrifa, koma þekkingu sinni á framfæri á skipulegan hátt og samkvæmt viðurkenndum kröfum fræðasamfélagsins, er í beinu framhaldi af þeirri starfsemi bókasafna að greiða leið notenda að heimildum og þekkingu. Í annan stað var tekin sú stefna að ritverið væri í sem nánustum tengslum við sem flest fræðasvið, kennara og námsgreinar innan Menntavísindasviðs. Þótt undirritaður, forstöðumaður ritversins, sé íslenskukennari að upplagi er formaður stjórnar, Hafþór Guðjónsson, lífefnafræðingur og menntunarfræðingur og aðrir stjórnarmenn úr ýmsum áttum. Sú tilviljun að fyrsta ritver á Íslandi skuli stofnað á Menntavísindasviði er í rauninni afar heppileg því sviðið er mjög þverfaglegt í eðli sínu og stúdentar almennt áhugasamari um fræðslu- og leiðsagnarhlutverk en gengur og gerist. Ritverið tengist því ekki íslensku eða íslenskukennslu sérstaklega, heldur almennt því hlutverki, sem segja má að sé meginþema sviðsins, að leiðsegja og fræða. Því ætti að það að hafa alla möguleika á að ná til stúdenta og kennara í öllum greinum. Starfsemi ritvers fyrsta árið Í undirbúningi að stofnun ritvers var áhersla lögð á að koma upp heimasíðu sem yrði andlit ritvers og auglýsing, miðill til samskipta og sá brunnur fróðleiks og þekkingar sem ritverið á að vera. Í samvinnu við Helgu Birgisdóttur, doktorsnema í íslensku, var vefur ritversins settur upp af vefþjónustu Háskólans. Fyrir stofndaginn, 30. nóvember 2009, tókst að setja töluvert efni á síðurnar, en kannski aðallega safn af krækjum á slóðir erlendra ritvera og fróðleiksbrunna hér heima og erlendis. Frá upphafi var gert ráð fyrir að starfsemin yrði þrenns konar og skal nú gerð grein fyrir henni. Námskeið og fræðslufundir Í fyrsta lagi var gert ráð fyrir námskeiðum og fræðslufundum um einstaka þætti fræðilegra skrifa sem haldin yrðu reglulega yfir veturinn. Samkvæmt niðurstöðum Ask (2007) og rannsókna sem hún vísar til nýtast námskeið höfundi illa nema þau hitti höfund fyrir á réttum stað í ritunarferlinu. Tekin var sú stefna að leggja áherslu á stutta fundi, eina eða tvær kennslustundir um afmörkuð efni, sem yrðu endurteknir eftir þörfum og áhuga yfir misserið. Þessir níu fundir voru boðnir á vormisseri 2010: 1. Meðferð heimilda í EndNoteWeb. 2. Gegnir: Uppbygging efnis og leitarmöguleikar. 3. Tímaritaskrá A-Ö: Leitarmöguleikar og gagnagrunnar. 4. Ritvinnsla stórra verkefna í Orði (Word). 5. Meðferð heimilda skv. APA-staðli. 6. Skipulag lokaverkefnis: Rannsóknarspurning og rann sóknaráætlun.
6
7. Mál og málnotkun í fræðilegum ritsmíðum. 8. Uppsetning og frágangur meistararitgerða. 9. Uppsetning og frágangur bakkalárritgerða. Sumir fundirnir voru haldnir einu sinni, aðrir oftar, og reynt var að tímasetja þá með tilliti til þess að þeir hittu á réttan stað í ritunarferlinu fyrir þá stúdenta sem áttu að skila ritgerð sinni um vorið. Fundirnir voru skipulagðir í náinni samvinnu við Margréti Guðmundsdóttur, sem sér um notendafræðslu á vegum bókasafnsins. Um vorið kom fram ósk frá stúdentum um stuðning við lokaverkefni um sumarið og sá ritverið þá um að skipuleggja samfellt námskeið um flesta þætti fræðilegra skrifa. Námskeiðið var haldið í júní og sá Ingibjörg Frímannsdóttir um að leiðbeina bakkalárnemum, en Veturliði Óskarsson kenndi meistaranemum. Í tengslum við þessa sumarfræðslu stóð bókasafnið fyrir kynningu á rafrænum gagnasöfnum og Margrét Guðmundsdóttir hélt fræðslufundi fyrir báða hópana um meðferð heimilda í EndNoteWeb. Fundirnir á vormisseri voru prýðilega sóttir, yfirleitt um 15 til 30 manns á hverjum fundi, og sama má segja um sumarnámskeiðin. Bakkalárhópurinn þynntist eftir því sem á leið en meistarahópurinn hélt vel út. Námskeið nr. 4, Ritvinnsla stórra verkefna í Orði, var tekið upp í fjórum 30 til 45 mínútna þáttum sem settir voru á vef ritversins og getur hver og einn sótt sér þessa þætti eftir hentugleikum. Þar með er ekki talin þörf á að halda það námskeið sérstaklega aftur. Ekki er vitað hversu margir hafa tekið Word-námskeiðið á vefnum en ráða má af samtölum við fólk að námskeiðið hafi náð til allmargra og gert töluvert gagn. Stefnt er að því að gera fleiri þáttum skil í stuttum vefnámskeiðum sem stúdentar geta sótt sér á vef eftir þörfum. Slíkt ætti að koma til móts við fjarnema. Fræðslufundir voru ekki haldnir á haustmisseri vegna annarra verkefna, sjá síðar, en efni frá fundum vorsins er aðgengilegt á vef ritvers. Viðtalsfundir Í öðru lagi var gert ráð fyrir að stúdentar gætu pantað einstaklingsviðtal um verkefni sín. Viðtalsþjónusta um skrifleg verkefni af öllu tagi í náminu er eitt meginhlutverk ritvera víða um heim. Hér tókum við þá ákvörðun, þar sem undirritaður var eini starfsmaðurinn á vormisseri 2010, að veita viðtalsþjónustu einungis við lokaverkefni. Stúdentar geta pantað tíma á vef ritversins og fá klukkustund í senn. Þessi þjónusta var kynnt stúdentum sem hafa skráð sig í lokaverkefni og þeir leituðu töluvert til ritvers, sérstaklega stúdentar á meistarastigi eins og búist var við. Viðtölin fara fram við skrifborð forstöðumanns, fyrir opnum tjöldum, ef svo má segja. Fyrir framan skrifborðið er eitt af mörgum vinnusvæðum stúdenta á bókasafninu með nokkrum borðum og nemendur að störfum, en lágvær kliður í lofti af samræðum. Ef lagt er við hlustir má heyra hvað rætt er við næstu borð. Við óttuðumst í byrjun að stúdentar mundu verða feimnir við að ræða ritsmíðar sínar svo aðrir heyrðu en sá ótti hefur reynst ástæðulaus, að svo miklu leyti sem við
bókasafnið
35. árg. 2011
Hugmyndin með því að vera ekki með viðtölin í sérstöku viðtalsherbergi heldur í opnu rými er sú að nemendur sjái að ráðgjöf um ritun snýst ekki um persónuleg vandamál heldur um fagleg atriði sem ekki eiga að þurfa að vera feimnismál. Að því leyti eru þau hliðstæð samræðu við bókasafns fræðing en gerólík þjónustu námsráðgjafa.
höfum kannað hug stúdenta til þessa atriðis. Við getum dregið fram laust þil svo að ekki sjáist af vinnusvæðinu að skrifborðinu, en sá möguleiki hefur ekki verið nýttur. Svo virðist sem stúdentar séu alvanir að vinna saman og einbeita sér að eigin verkefnum þótt aðrir séu að tala í kringum þá, og ef þetta fyrirkomulag reynist vandræðalaust ætti það að styrkja þá ímynd ritversins að þjónusta þess sé fyrir alla. Hugmyndin með því að vera ekki með viðtölin í sérstöku viðtalsherbergi heldur í opnu rými er sú að nemendur sjái að ráðgjöf um ritun snýst ekki um persónuleg vandamál heldur um fagleg atriði sem ekki eiga að þurfa að vera feimnismál. Að því leyti eru þau hliðstæð við samræðu við bókasafnsfræðing en gerólík þjónustu námsráðgjafa. Í Bandaríkjunum er alsiða að stúdentar starfi við ráðgjöf í ritveri, að undangenginni fræðslu og þjálfun, en í Evrópu er meira um að akademískir starfsmenn gegni þessu hlutverki, til dæmis í Kaupmannahöfn og Árósum. Frá upphafi var stefnt að því að fá stúdenta til starfa í ritverinu að bandarískri fyrirmynd. Fyrir því eru þrjár ástæður. Í fyrsta lagi eru stúdentar tiltölulega ódýr starfskraftur miðað við fasta starfsmenn og það er eina leiðin til að geta veitt þjónustu við önnur verkefni en lokaverkefni án þess að kostnaður fari úr böndum. Í öðru lagi hefur leiðsögn stúdenta hvers við annan allt önnur áhrif en þegar kennari leiðbeinir og fær stúdenta til að hugsa á annan hátt um viðfangsefni sitt. Í þriðja lagi getur það haft góð áhrif víða í námssamfélaginu, þar sem mikið er um hópvinnu og umræður, þegar meðal stúdenta eru einstaklingar sem lært hafa til verka í ritveri og hafa faglega þekkingu á því hvernig unnt er vinna með texta og bæta hann.
Á haustmisseri fékkst leyfi til að halda fimm eininga námskeið fyrir stúdenta sem veitir réttindi til að starfa sem ráðgjafi í ritverinu. Á námskeiðið voru lengst af skráðir 24 stúdentar en þegar á reyndi voru þeir einungis 11. Þessi litli hópur fékk grundvallarfræðslu um hvernig eigi að leiðbeina öðrum um fræðileg skrif en meginverkefnið var að leiðbeina fyrstaársstúdentum um tvær ritsmíðar, aðra í námskeiðinu Talað mál og ritað, hina í námskeiðinu Þroska- og námssálarfræði. Þessi vinna féll öll á fimm vikur frá lokum september og út allan október. Vegna þess hvað stúdentar á fyrsta ári voru margir en leiðbeinendur færri en reiknað var með, komu býsna margar ritgerðir í hlut hvers. Hér var um algera frumraun að ræða og sú reynsla sem þarna fékkst verður dýrmætt veganesti til næstu ára. Vonir standa til að ritverið fái svolitla fjárveitingu á árinu 2011 svo unnt verði að ráða þessa stúdenta fáeina tíma í viku til að sjá um viðtalsþjónustu við öll önnur verkefni en lokaritgerðir. Þegar fram líða stundir má vera að unnt verði að fela þeim að leiðbeina um lokaverkefni á bakkalárstigi, en ekki er talið ráðlegt að aðrir en akademískir starfsmenn leiðbeini um meistararitgerðir. Málstofur fyrir kennara og nemendur Þriðji þátturinn í starfsemi ritvers á fyrsta ári var að vekja athygli og umræðu meðal starfsmanna um vanda þess að skrifa, mikilvægi góðrar leiðsagnar og þar með á starfsemi ritvers. Í því skyni gekkst ritverið fyrir einni málstofu á vormisseri, og annarri á haustmisseri. Báðar málstofurnar voru með því sniði að framsögu og umræðum var deilt á þrjú til fjögur skipti.
7
bókasafnið
35. árg. 2011
Á vormisseri var fjallað um hlutverk leiðbeinandans. Fyrsti frummælandi var Andrea Milde, sendikennari í þýsku við Háskóla Íslands og sérmenntuð í leiðsögn við skrif. Á haustmisseri var fjallað um skapandi hugsun í fræðilegum skrifum og þar var fyrsti frummælandi Sofia Ask frá Linnéháskólanum í Växjö, sem sérstaklega hefur rannsakað hvernig stúdentar í kennaranámi tileinka sér ritfærni um sérsvið sitt í háskóla. Aðrir frummælendur voru úr hópi kennara af Mennta- og Hugvísindasviði og tveir doktorsnemar af Menntavísindasviði. Málstofurnar voru alveg þokkalega vel sóttar eftir því sem gengur og gerist og að mínu mati var ekki síst mikilvægt að heyra raddir doktorsnema og fá frummælendur úr öðrum skólum og af öðrum sviðum en Menntavísindasviði. Í okkar litla samfélagi er nauðsynlegt að heyra raddir annars staðar að og skiptast á hugmyndum og reynslu. Ef marka má viðtökur kennara hafa málstofurnar náð að vekja nokkra athygli á ritverinu og mikilvægi ritunarverkefna í námi eins og að var stefnt. Sambúð ritvers og bókasafns Þegar litið er yfir þetta fyrsta starfsár er óhætt að fullyrða að starfsemi ritvers og bókasafns fellur einkar vel saman. Hlutverk ritversins er að styðja og styrkja stúdenta, eða hvaða höfunda sem er, á öllum skrefum ritunarferlisins, frá söfnun hugmynda og upplýsinga, gegnum úrvinnslu þeirra og skipulag framsetningar til endanlegrar birtingar og frágangs. Við blasir að bókasafnið gegnir lykilhlutverki í fyrri hluta þessa ferlis. Í síðari hlutanum kemur meira til kasta kennara og leiðbeinenda, sérfræðinga um efni ritsmíðar og framsetningu, málnotkun og útgáfu. Ekki er víst að öllum sé ljóst hvert hlutverk bókasafns er í síðari hlutanum en þar gegnir safnið vitaskuld hlutverki með sinn fjársjóð handbóka og leiðbeininga, en umfram allt sem hið mikla forðabúr góðra fyrirmynda um það hvernig góðar ritsmíðar eiga að vera. Ritverið hefur rækt fræðsluhlutverk sitt í náinni samvinnu við bókasafnið, og Margrét Guðmundsdóttir bóksafnsfræðingur hefur séð um þriðjung þeirra námskeiða sem ritverið hefur auglýst. Húsnæði bókasafns Menntavísindasviðs hentar einkar vel fyrir starfsemina. Opin vinnusvæði hér og hvar um safnið, frjálslega umgirt bókahillum, skapa mjög heppilega umgjörð fyrir samvinnu um verkefni og nám, og stúdentar líta á samvinnu og samræður á safninu sem sjálfsagðan hlut. Ritverið er staðsett á einu þessara svæða. Svæðið kringum ritverið er ekkert mjög stórt, hæfilega girt bókahillum og í miðju þess er lítið rautt sófasett sem gefur færi á að skapa ögn óformlegri umgjörð um samræðu en verður við skrifborð. Á þessu fyrsta starfsári hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en stúdentar séu algerlega óþvingaðir í þessu umhverfi og ekki sé knýjandi þörf á að skipuleggja einstaklingsviðtöl í lokuðu rými. Það að sitja með leiðbeinanda virðist vera jafn eðlilegt fyrir stúdenta og að ræða verkefni sitt við hvern annan eða leita til starfsmanna bókasafnsins. Þá daga sem starfsmaður sat við skrifborðið í ritveri, komu stúdentar sem áttu bókaðan tíma
8
en þess á milli leituðu stúdentar í safninu til ritvers með ýmsar fyrirspurnir eins ekkert væri sjálfsagðara. Síðastliðið haust, þegar stúdentar leiðbeindu fyrstaársnemum með verkefni sín, var allt vinnusvæðið kringum ritverið undir lagt. Í ljósi þess hvernig safnið er skipulagt og hvaða hefðir hafa þar skapast um umgengni og nýtingu, reyndist bæði einfalt og sjálfsagt að taka frá eins mörg borð og þurfti hverju sinni fyrir ráðgjöf ritvers. Þegar ráðgjafar voru ekki að störfum nýttist vinnusvæðið með venjulegum hætti fyrir aðra gesti safnsins. Ef ályktanir mínar af reynslu ársins eru réttmætar tel ég að ritverið hafi náð mjög mikilvægum áfanga í því að skapa starfsemi sinni þá ímynd sem að var stefnt í upphafi, nefnilega að ritverið sé eðlilegur þátttakandi í umræðu um ritsmíðar stúdenta, en ekki sérúrræði fyrir þá eina sem eiga í einhverjum erfiðleikum. Að lokum Ritver Menntavísindasviðs er hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Mörgum hér á landi er tamt að líta svo á að ráðgjöf við skrif snúist fyrst og fremst um að leiðbeina um málfar og leiðrétta mál- og stafsetningarvillur. Því er víðs fjarri, starfsemi ritvers snýst að minnstu leyti um það. Á vef ritvers er gerð grein fyrir hlutverki þess og þar er líka gerð grein fyrir því hvaða þjónusta er ekki í boði: Í ritveri er ekki unnt að fá … • prófarkalestur • ritgerð sína leiðrétta • vottorð um að ritsmíð sé í lagi og laus við mál- og stafsetningarvillur • verkefni þýdd á annað tungumál • einkunn Markmiðið er að styrkja stúdenta til sjálfshjálpar. Við hæfi er að ljúka þessari umfjöllun með orðum sem Lotte Rienecker, forstöðukona Akademisk skrivecenter, notaði í bréfi til undirritaðs til að lýsa hlutverki ritversins við Kaupmannahafnarháskóla: „… vi arbejder især meget med hvordan de studerende kommer ind i studierne og ud af dem igen“. Þessi orð höfum við haft að leiðarljósi þetta fyrsta starfsár. Heimildir Ask, S. (2007). Vägar till ett akademiskt skriftspråk. Växjö University Press, Växjö. Sótt 15. desember 2010 af http://lnu.diva-portal.org/smash/ get/diva2:205075/FULLTEXT01 Elmborg, J. K. og Hook, S. (ritstj.). (2005). Centres for learning: Writing centres and libraries in collaboration. Chicago: Association of college and research libraries. Á heimasíðu ritvers Menntavísindasvið Háskóla Íslands, http://vefsetur.hi.is/ritver er að finna krækjur á vefi nokkurra ritvera sem eru vel skipulögð náma fróðleiks og leiðbeininga.
Upplýsingaarkitektúr Þú getur ekki notað það sem þú finnur ekki
Eva Ósk Ármannsdóttir
Inngangur „Hver sem er getur sett vefsíðu á Veraldarvefinn án gæðastjórnunar eða annars eftirlits“ (Kristín Ósk Hlynsdóttir, 1997, bls. 16). Eftir að almenningur fór að nota Internetið árið 1995 varð sprenging í magni gagna sem sett voru á netið. Sambandið á milli innihalds (e. content) og samhengis (e. context) upplýsinganna gleymdist oft eftir því sem upplýsingarnar urðu flóknari og magn þeirra jókst. Þegar fólk fór að reiða sig á upplýsingarnar skapaði þetta vandamál fyrir notendur (Cumming, 2009). Fyrirtæki fóru að nota vefsetur (e. web site) til að kynna starfsemi sína og notkun tölvupósts varð hluti af vinnu skrifstofumannsins (Cronin, 1995). Um aldamótin fór að bera á ofgnótt upplýsinga á vefnum og með Internetbólunni (e. Internet boom) varð gríðarleg aukning á vefsíðum (e. web pages) með lítilli stjórnun á innihaldi þeirra (Cumming, 2009). Buttler Group er tölvufyrirtæki sem sérhæfir sig í rannsóknum á sviði upplýsingatækni. Í rannsókn sinni komust þeir að því að þegar upplýsingaleitir starfsmanna skila ekki árangri hefur það bein áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækja. Þetta bæði skaðar fyrirtækin og setur þau í hættu. Allt að 10% af launakostnaði fer í að greiða fyrir ómarkvissa leit starfsmanna að áreiðanlegum upplýsingum. Rannsakendurnir segja að starfsmenn þjáist bæði vegna ofgnóttar upplýsinga sem og einnig vegna skorts á upplýsingum. Niðurstaðan er sú að hinn venjulegi starfsmaður eyðir hátt í einum fjórða á hverjum degi í leit að réttum upplýsingum til að geta unnið vinnuna sína (Dubie, 2006, Time spent searching cuts into company productivity). Niðurstöður annarrar rannsóknar sem Delphi Research framkvæmdi árið 2004 sýnir sömu niðurstöður (Palarchio, 2004).
Uppspretta góðrar þekkingar kemur með góðum upplýsingum (Wurman, 1989). Í dag er aðgengi að allskonar gögnum nánast ótakmarkað en þar fara gæði og magn ekki endilega saman og við mikið magn upplýsinga að glíma. Ef notandinn veit ekki svarið við ákveðinni spurningu þá „gúgglar“ hann það bara. En hvernig eru gæði þeirra upplýsinga sem við fáum við upplýsingaleit, til dæmis á netinu? Finnum við alltaf það sem við leitum að? Upplýsingaarkitektúr og tilgangur hans Upplýsingaarkitektúr snýst um að umbreyta gögnum í upplýsingar og gera þær aðgengilegar. Peter Morville og Louis Rosenfeld (2006) útskýra upplýsingaarkitektúr á eftirfarandi hátt: • Hönnun á upplýsingum sem er deilt, til dæmis á Internetinu. • Samþætting á leit, leiðakerfi og nafnakerfi á vefsetrum og innraneti. • Listin og vísindin við að aðlaga upplýsingar og reynslu til að styðja við nytsemi og auka líkur á að finna efni á Veraldarvefnum. • Styðst við meginreglur hönnunar á rafrænum miðlum, svo sem vefsetrum, gagnasöfnum og fleira. „Upplýsingaarkitektúr snýst um að búa til áætlun um og skipuleggja uppsetningu gagna til að notendur geti náð markmiðum sínum á skilvirkan hátt með gagnsæu notendaviðmóti“ (Anna Sveinsdóttir munnleg heimild glærur, 24. janúar 2008). Wurman lýsti upplýsingaarkitektúr svona árið 1996 í bók sinni Information Architects: Upplýsingaarkitekt. 1) Einstaklingur sem skipuleggur mynstur sem felst í gögnum eða gerir það flókna skýrt. 2) Einstaklingur sem býr til, byggir upp eða kortleggur upplýsingar sem gerir öðrum kleift að finna þeirra eigin veg í átt að vitneskju. 3) Vaxandi fagstétt 21. aldarinnar sem tekst á við öld þarfarinnar sem einblínir á skýrleika, skilning manneskjunnar, og vísindin á bak við flokkun upplýsinga. (Morville og Rosenfeld, 1998, bls. 10).
9
bókasafnið
35. árg. 2011
Tilgangurinn með góðum upplýsingaarkitektúr á vefsetrum er margþættur. Með góðum upplýsingaarkitektúr er til dæmis tryggt að hinn almenni notandi geti farið inn á vefsetur og séð um leið hvað er þar að finna. Vefsetrið þarf að vera augljóst og notandinn á ekki að þurfa að eyða tíma í að hugsa (Krug, 2006). Titill bókar Steve Krug segir þetta á afar einfaldan hátt, Ekki láta mig hugsa (e. Don´t Make Me Think). Hafa ætti í huga fjórar spurningar sem notandinn ætti að ná að svara á 25 sekúndum. • Hvar er ég? • Hvað getur vefsíðan gert fyrir mig? • Um hvað snýst fyrirtækið og hvað er það nýjasta í vörum fyrirtækisins eða þróun þess? • Hverjir eru möguleikar mínir á vefsetrinu/vefsíðunni og hvernig get ég nálgast það sem skiptir mig mestu máli? (Krug, 2006; Nielsen og Loranger, 2006). Upplýsingaarkitektar hanna notendavænt viðmót þar sem aðferðir bókasafnsfræðinnar eru notaðar til að merkja (e. tag) og flokka innihald vefsetra. Með því að hanna vefsíður með þarfir og væntingar notenda í huga er hægt að stytta verulega þann tíma sem fólk eyðir í ómarkvissa leit á Internetinu og til þess þarf einmitt góðan upplýsingaarkitektúr. Grafísk hönnun og forritun eru ekki hlutar af upplýsingaarkitektúr. Upplýsingaarkitektar hvorki hanna vefsetur né útfæra virkni þeirra. Þó er línan þarna á milli oft hárfín og erfitt að segja hvar upplýsingaarkitektúrinn byrjar og forritun tekur við (Morville og Rosenfeld, 2006). Upphafið Við upphaf upplýsingaaldarinnar árið 1975 nefndi bandaríski arkitektinn Richard Saul Wurman orðið upplýsingaarkitektúr (e. Information Architecture) mjög líklega fyrstur manna (Kalbach, 2003). Hann talaði um upplýsingaarkitektúr út frá sjónarhorni arkitektsins og hvernig arkitektum bæri að huga að mörgum ólíkum þáttum í hönnun sinni. Wurman var upptekinn af orðinu upplýsingar (e. information) og hvað fælist í orðinu sem slíku, „upplýsingarnar sjálfar upplýsa ekki“ (Wurman, 1989, bls 42). Það er ekki nóg að hafa mikið af gögnum, það þarf að breyta gögnunum í upplýsingar (Wurman, 1989) og það er það sem upplýsingaarkitektúr gerir. Wurman gerir því skýran greinarmun á gögnum (e. data) og upplýsingum. Þetta tvennt getur ekki verið án hvors annars. „Skilningur er brúin á milli upplýsinga og gagna“ (Wurman, 1989, bls 49). Við getum einnig átt erfitt með að greina góðar upplýsingar frá vondum þar sem við fáum svo mikið af þeim og að einblína á upplýsingarnar sem slíkar hefur leitt til upplýsingaofgnóttar (e. information overload). Magn upplýsinga fer ekki endilega saman við gæði þeirra heldur geta þær verið „upplýsingar með minni merkingu í stað þess að auka vitneskju“ (Wurman, 1989, bls. 42). Wurman skrifaði bókina Information Anxiety (ísl. upplýsingakvíði) árið 1989 þar sem hann fjallar um þá erfiðleika sem fólk glímir oft við í upplýsingaleit sinni, til dæmis þegar
10
það veit að upplýsingarnar eru til en getur ekki fundið þær (Wurman, 1989). Þetta vandamál hefur aukist gríðarlega með tilkomu tölvunnar og Internetsins vegna þess að bæði í tölvum og á netinu er hægt að geyma endalaust magn gagna án stjórnunar þeirra eða flokkunar. Eins og Wurman bendir réttilega á getur tölvan aldrei komið í staðinn fyrir manninn, því að maðurinn býr yfir ákveðinni reynslu sem hann hefur öðlast í lífinu. Wurman tekur dæmi um klæðskerasaumaðar skyrtur sem geta enst í allt að 10 ár. Í dag geta vélar saumað skyrtur mun hraðar en mannshöndin en þær endast ekki eins vel (Wurman, 1989). Wurman sá þörfina á skipulagningu upplýsinga í starfi sínu sem arkitekt. Hann skoðaði skipulag borga með tilliti til margra þátta, svo sem samgangna og þá hvernig þættirnir vinna hver með öðrum og hvernig fólk upplifir sig í borgunum. Wurman leit á starf arkitektsins sem vísindi og list við að hanna leiðbeiningar fyrir notendur svo að þeir ættu auðveldara með að nota skilgreind rými. Wurman hannaði leiðakerfi fyrir lestakerfið í Tókýó. Þar sést vel hversu skipulagður Wurman er í framsetningu upplýsinga. Sjá Mynd 1 á næstu síðu Wurman sagði að arkitektinn þyrfti að afla upplýsinga, skipuleggja þær og koma þeim á framfæri til að geta hannað byggingar sem fullnægðu ólíkum þörfum íbúanna. Þessi starfslýsing er mjög lík starfslýsingu bókasafnsfræðinga sem starfa sem upplýsingaarkitektar (Wyllys, 2000). Hér að framan eru skilgreiningar Wurmans á upplýsingaarkitektúr frá árinu 1989 og hafa ber í huga að þær eru settar fram fyrir daga almennrar netnotkunar. Svo kom Internetið og átti að bjarga öllu. Allt átti að vera aðgengilegt og ekkert mál að finna það sem fólk vantaði á netinu eða eins og Marinó G. Njálsson orðaði það „Netið er eins og risastórt bókasafn...“ (1995, bls 20). Upplýsingaarkitektar geta ekki tekið undir orð Marinós í dag. Internetið Internetið var fyrst notað á síðari hluta sjöunda áratugarins af bandaríska hernum. Tilgangurinn var sá sami og í dag, að deila upplýsingum og auka öryggi gagnanna (Clyde, 2004). Internetið gerði mönnum kleift að nálgast gögn frá mismunandi stöðum og tryggt að þótt ekki væri hægt að nálgast gögnin á einum stað var hægt að gera það annarsstaðar. Kerfið vatt upp á sig og fleiri tengdust því, svo sem háskólar og aðrar stofnanir. Fyrstu tilraunir til að opna Internetið fyrir hinum almenna notanda voru gerðar í Háskólanum í Minnesota árið 1991. Ári seinna var Veraldarvefurinn (e. World Wide Web) þróaður í European Organization for Nuclear Research (CERN) í Sviss af Tim Berners-Lee og fleirum. Fram að þeim tíma þurfti fólk að kunna svokallaðar UNIX skipanir til að geta notað Internetið. Þó að netið hafi verið til frá síðari hluta sjöunda áratugarins náði það ekki vinsældum fyrr en um 1995 eða með tilkomu Veraldarvefsins. Þá kom á markaðinn notendavænni hugbúnaður og með tilkomu vefvafra (e. browsers) eins og Mosaic, Netscape og seinna Internet Explorer og Opera varð almenn Internetnotkun meiri (Clyde, 2004).
bókasafnið
35. árg. 2011
Mynd 1 – Leiðakerfi fyrir lestakerfi í Tókýó sem Wurman hannaði
Í dag nota flestir Íslendingar netið á einn eða annan hátt og er það orðið órjúfanlegur þáttur af daglegu lífi fólks. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands fyrir árið 2009 nota 94% íbúa höfuðborgarsvæðisins Internetið. Talan er örlítið lægri fyrir landsbyggðina eða 91%. Internetnotkun eykst með hærra menntunarstigi en munurinn er þó ekki mikill þar sem 86% þeirra sem búnir eru með skyldunám nota Internetið að jafnaði, um 94% þeirra sem eru búnir með stúdentspróf eða iðnnám og um 98% háskólamenntaðra (Hagstofa Íslands, e.d., bls. 17). Þróun starfsheitisins Á sama tíma og netið var að ná vinsældum var fólk farið að starfa við upplýsingaarkitektúr þó að orðið sjálft væri sennilega ekki í starfslýsingu þeirra. Helstu frumkvöðlarnir á starfssviðinu eru Peter Morville og Louis Rosenfeld (2006). Þeir eru bókasafns- og upplýsingafræðingar að mennt og hafa unnið við skipulagningu vefsíðna frá 1994, vilja þeir meina að nám þeirra hafi nýst mjög vel í því starfi. Árið 1998 gáfu þeir út bókina Information Architeture for the World Wide Web sem fjallar um upplýsingaarkitektúr á vefsetrum og hvernig gera megi efni sem aðgengilegast fyrir notendur (Morville og Rosenfeld, 1998). Upplýsingaarkitektúr varð að sérhæfðri starfsgrein um
aldamótin síðustu (Cumming, 2009). Opinber fæðing stéttarinnar varð á fyrstu ráðstefnu upplýsingaarkitekta í Boston, sem haldin var árið 2000 af American Society for Information Science and Technology (ASIS&T) (Kalbach, 2003). Þar hittust sérfræðingar á sviði upplýsingaarkitektúrs í fyrsta skipti á ráðstefnu sem tileinkuð var fag- og starfsheitinu. Margir af aðalgúrúunum voru á fyrstu ráðstefnunni, svo sem Andrew Dillon, Louis Rosenfeld og Peter Morville (American Society for Information Science and Technology, 2000). Travis (2000) sagði í grein sinni í Bulletin að ASIS&T samtökin hafi leitt saman á ráðstefnunni sérfræðinga á sviði upplýsingaarkitektúrs og boðið þeim samastað þar sem upplýsingaarkitektar gátu myndað tengsl og fengið tækifæri til að deila þekkingu. Andrew Dillon (2001) tekur enn sterkar til orða og talar um fundinn sem „sögulegan atburð“ (bls. 27) þó að hann efist um nauðsyn hugtaksins eða jafnvel vöntun á skilgreiningu á upplýsingaarkitektúr. Hann talar um að skilgreiningin sé óljós, sé í raun og veru bara enn eitt heitið á því sem bókasafnsfræðingar gera. Engu að síður hefur hugtakið upplýsingaarkitektúr veitt þeim auðkenni sem vilja tilheyra ákveðnum hópi á nýjum vettvangi sem Internetið er. Andrew Dillon sagði líka árið 2001 að starfsheitið upplýsingaarkitekt heillaði marga, enda var blómatímabil upplýsingaarkitekta á þessum tíma og þótti fínt að vera upp-
11
bókasafnið
35. árg. 2011
lýsingaarkitekt samkvæmt Morville og Rosenfeld (2002). Þó efaðist Dillon (2001) um skilgreiningu orðsins og réttlætingu á því að fólk sem vann á sviðinu takmarkaði sig með því að skilgreina starfsheitið eingöngu við Internetið. Fyrir honum var það eins og að skjóta sig í fótinn. Kalbach (2003) svarar Dillon og færir rök fyrir starfsheitinu. Hann byrjar á að benda á samband upplýsingaarkitektúrs við bókasafnsfræðina. Hann vitnar í rannsókn sem gerð var árið 2001 sem sýndi að upplýsingaarkitektar voru að stórum hluta bókasafnsfræðingar. Í ljósi þessa segir Kalbach í grein sinni eðlilegt að spyrja hver sé munurinn á starfsstéttunum. Niðurstöður Kalbach eru að stéttirnar séu ólíkar, á meðan upplýsingaarkitektinn einblínir á notendur og hvernig hægt sé að gera líf þeirra bærilegra þegar þeir nota Internetið einblínir bókasafnsfræðingurinn meira á safnkost bókasafnsins þó að þeir sinni að sjálfsögðu líka viðskiptavinum sínum. Kalbach lýkur greininni með því að benda á að þessar tvær stéttir ættu að vera duglegri að vísa í hvor aðra og læra af hvor annarri. Morville og Rosenfeld gáfu út aðra útgáfu af bókinni Information Architecture for the World Wide Web árið 2002. Á milli útgáfu eitt og tvö varð gríðarleg fjölgun vefsetra á Internetinu vegna ofurtrúar á framtíð netsins á seinni hluta tíunda áratugarins. Á tímabilinu janúar 1994 til febrúar 2000 óx hlutabréfavísitala NASDAQ um 605% þegar hámarkinu var náð og höfðu hlutabréf tengd hátækni veruleg áhrif á þá aukningu (Gallbraith og Hale, 2004, bls. 2). Fyrirtæki Morville og Rosenfeld, Argus Associates, sem sérhæfði sig í upplýsingaarkitektúr vefsetra óx hratt á sama tíma. Þegar þeir skrifuðu fyrstu útgáfuna árið 1998 störfuðu hjá þeim fimm bókasafnsfræðingar en þeim fjölgaði ört og voru orðnir 40 um aldamótin. Mikil tengslamyndun varð á milli upplýsingaarkitekta og mikil sérhæfing varð til innan fagsins. Mikið bakslag varð í stéttinni þegar netbólan sprakk í mars 2000 (Shiels 2010) og fyrirtækið þeirra, Argus Associates, varð gjaldþrota fljótlega í kjölfarið. Allt viðskiptaumhverfið varð erfiðara og þættir eins og pólitík og menning fyrirtækja fór að hafa meiri áhrif á starf upplýsingaarkitekta. Að ráða sérfræðinga eins og upplýsingaarkitekta varð munaður sem fyrirtæki höfðu ekki lengur efni á (Morville og Rosenfeld, 2002). Þriðja útgáfa bókarinnar Information Architecture for the World Wide Web kom út árið 2006. Þá hafði Vefur 2.0 (e. Web 2.0) rutt sér til rúms þar sem samfélagssíður komu til sögunnar og fólk varð sífellt meiri þátttakendur á Internetinu (Morville og Rosenfeld, 2006). Nú gátu allir tekið þátt í að miðla upplýsingum t.d. á Wikipedia (Wikipedia, e.d.) en áður var upplýsingamiðlunin einhliða úr alfræðiorðabókum (e. Encyclopedia) á vefnum. Blogg og ýmsar samfélagssíður ruddu sér til rúms. Morville og Rosenfeld velta fyrir sér í þriðju útgáfu bókar sinnar hvernig upplýsingaarkitektinn getur aðlagað sig að breyttum vef þar sem allir eru farnir að vinna vinnu bókasafnsfræðinga og geta flokkað (e. tag) upplýsingar á netinu. Áður
12
fyrr var slíkt eingöngu á ábyrgð bókasafns- og upplýsingafræðinga (Morville og Rosenfeld, 2006). Ef einhver ætlar að leita að pípara á Internetinu getur sá hinn sami fengið í sömu leitarniðurstöðunni símanúmer hjá pípara eða fundið mynd á Facebook af Jóa pípara blindfullum að skemmta sér. Þetta er afleiðing samfélagslegrar flokkunar Vefs 2.0. Bókasafnsfræðingar virðast margir hverjir vera í tilvistarkreppu um hvað þeir eigi að kalla sig í ljósi tæknivæðingar og tilkomu Internetsins. Bates (2009) sem er bókasafnsfræðingur til margra ára veltir fyrir sér hvert starfsheiti hennar er, hvað felst í því og hvað bókasafnsfræðingar gera og gera ekki. Hinton er upplýsingaarkitekt sem er enn að jafna sig eftir áfallið sem hann fékk þegar einn af stofnendum IA Institute, Jesse James Garrett, sagði á árlegri ráðstefnu ASIS&T árið 2009: „það eru engir upplýsingaarkitektar og það eru engir gagnvirkir hönnuðir... það eru aðeins notendaviðmótshönnuðir“ (Hinton, 2010, What am I?). Launakönnun sem IA Institute hefur framkvæmt undanfarin ár styður fullyrðingar Garrett.
Tafla 1 – Þróun starfa Á töflu 1 og mynd 2 sést að vinsældir starfsheitisins upplýsingaarkitekt óx á árunum 2005 og 2006 en hefur verið á niðurleið frá árinu 2007. Þeim sem kölluðu sig gagnvirka hönnuði (e. Interaction Designers) fjölgaði frá árinu 2005 en þeim fækkaði árið 2009. Starfsheitið notendaviðmótshönnuður (e. User Experience Designers/Architect) er hins vegar greinilega að vinna á eins og Garrett heldur fram. Ekki var spurt um menntun í launakönnuninni heldur menntunarstig, svo sem háskólapróf, en flestir sem vinna á þessum starfssviðum hafa háskólamenntun (The Information Architecture Institute, 2010, Salary Survey, 2009; 2008; 2007; 2006; 2005). Út frá þessum tölum frá IA Institute má draga þá ályktun að störf upplýsingaarkitekta og störf þeirra sem vinna við notendaviðmótshönnun (e. User Experience) eru að renna saman í nýjan starfsvettvang sem er notendaviðmótshönnun/skipuleggjandi/hönnuður/arkitekt (e.User Experience/Planner/ Designer/Architect) (tafla 1 og mynd 2). Morville og Rosenfeld könnuðu hvaða menntun fólk hafði sem starfaði sem upplýsingaarkitektar árið 2006 fyrir þriðju útgáfu bókarinnar Information Architecture for the World Wide Web. Í könnuninni kom fram að 48,6% (heildarsvör 327) svarenda sögðust vera með háskólamenntun í upplýsingaarkitektúr, af þeim hópi voru 40,3% (62 einstaklingar) sem voru með menntun í bókasafns- og upplýsingafræðum (The Information Architecture Insitute, 2006, Survey 5: IA Education for Practitioners).
bókasafnið
Mynd 2 – Þróun starfa Peter Morville og IA Institute stóðu saman að keppni í byrjun ársins 2010 þar sem fólk var beðið um útskýra upplýsingaarkitektúr. Veitt voru peningaverðlaun fyrir bestu útskýringuna á upplýsingaarkitektúr, besta myndbandið sem lýsti heitinu og bestu skýringarmyndina. Þegar myndböndin og skýringarmyndirnar eru skoðuð sést að skilgreining á upplýsingaarkitektúr er enn sú sama og Morville og Rosenfeld (2006) nota. Fyrstu verðlaun fyrir bestu útskýringuna fékk myndband þar sem risaeðlumamma er í smá erfiðleikum með að útskýra fyrir unganum sínum hvað upplýsingaarkitektar gera. Í verðlaununum fyrir besta myndbandið er upplýsingaarkitektum líkt við Hróa Hött þar sem þeir „stela“ eða fá lánaðar hugmyndir og verkfæri annarra starfstétta til að gera vefsetur auðveldari í notkun fyrir notendur. Tveir fengu verðlaun fyrir bestu skýringarmyndina, önnur útskýrir að upplýsingaarkitektar tengi fólkið við innihald vefsetra og hin skýringarmyndin sýnir hvernig fimm ára sonur keppandans lýsir á myndrænan hátt hvað pabbi hans gerir. Vinningshafarnir voru kynntir 21. febrúar 2010 og má sjá verk þeirra á vefsetri The Information Architecture Institute (2010, 21. febrúar). Hvort þetta sé rétt aðferð til að hressa upp á starfsheitið skal ósagt látið en margar skemmtilegar tillögur bárust í keppnina. Á Íslandi hefur starfsheitið upplýsingaarkitekt ekki náð fótfestu á meðal bókasafns- og upplýsingafræðinga þó nokkrir starfi við það. Í könnun sem Óskar Þór Þráinsson gerði árið 2008 á starfsvettvangi bókasafns- og upplýsingafræðinga kom fram að tæp 17% vinna við kerfisvinnu (viðhald, hönnun eða þróun rafrænna upplýsinga) og tæp 25% vinna við vefstjórnun (umsjón eða ritstjórn vefsíðu) (bls. 32). Nothæfi Í allri umfjöllun um hvernig fólk notar Internetið er oftast vísað í orðið notendur. Hér er farið stuttlega yfir hvað felst í orðanotkuninni. Mýtan um meðalnotanda er í raun og veru röng, allir vefnotendur eru sérstakir og öll vefnotkun er sérkenni hvers og eins (Krug, 2006). Það sem skiptir máli er að finna út hver
35. árg. 2011
markhópur viðkomandi vefsíðu er og fá notendur úr honum til að taka þátt í notendaprófunum (Thurow og Musica, 2009). Það er ekkert sem getur komið í stað notendaprófana (Krug, 2006). Fjallað verður nánar um notendaprófanir síðar. Nielsen og Loranger (2006) skipta notendum í tvo hópa eftir því hversu lengi fólk hefur notað Internetið. Þau miða við hvað fólk er að gera á netinu, til dæmis netspjall, setja inn nýjan vafra, hvort það noti bókamerkingar og fleira. Þeir spyrja hvort fólk hafi búið til sína eigin vefsíðu, hvort það geti sjálft lagað vandamál tengt tölvunni og hversu mikið notendur eltast við allt það nýjasta á netinu. Notendur eru þó alltaf allir sem nota netið og þegar vísað er í notendur þá er nauðsynlegt að hafa það í huga þegar vefsíður eru hannaðar. Samkvæmt ODLIS (e. Online Dictionary for Library and Information Science) er nothæfi útskýrt sem: „Hversu vel óvönum notanda líður við að nota tölvuviðmót á skilvirkan og árangursríkan hátt. Það fyrsta sem huga þarf að við hönnun með notagildi að leiðarljósi er skýrt samræmt leiðakerfi með innihaldi“ (Reitz, 2007, Usability). Nielsen og Loranger útskýra nothæfi á eftirfarandi hátt: „Nothæfi er nokkurskonar gæðastimpill á hversu auðvelt er að nota eitthvað. Nánar tiltekið hversu fljótt fólk getur lært það, hversu árangursríkt það er, hversu auðvelt er að muna það, hversu laust við villur það er og hversu vel notandinn naut þess að nota það. Ef fólk vill ekki eða getur ekki notað þá möguleika sem í boði eru, gætu þeir alveg eins ekki verið til“ (Nielsen and Loranger, 2006, bls. xvi). Upplýsingahegðun notenda Þegar notkun leitarvéla er skoðuð kemur í ljós að notendur nota vefinn ekki alltaf eins og búast má við. Margir slá inn vefslóðir í leitarvélar í stað þess að slá það inn í vafrann. Spyrja má hvers vegna það sé? Svarið er að þetta virkar og er það oftast nóg fyrir flesta þó að þetta sé lengri leið. Þetta á við um alla hópa og oft eru ótrúleg göt í þekkingu sérfræðinga rétt eins og nýgræðinga. Þetta snýst um fólk sem þarf að komast að settu marki og það skiptir það ekki máli hvernig það fer að því (Krug, 2006). En er þetta þá ekki bara allt í lagi? Ekki samkvæmt Krug (2006) sem vill meina að þó að fólk nái oft að bjarga sér með þessum hætti þá er það ekkert sérlega árangursríkt fyrir notandann sjálfan þegar upp er staðið. Þess vegna er mikilvægt að notendur skilji vefsetrin sem þeir vafra á því það eykur líkurnar á að þeir finni það sem þeir leita að. Þeir skilja einnig betur hvað er hægt að gera á viðkomandi vefsetri án þess að
13
bókasafnið
35. árg. 2011
treysta á Guð og lukkuna og að lokum hjálpar notendavæn vefsíða notandanum að líða betur með sjálfan sig. Hægt er að komast upp með léleg vefsetur á meðan engin samkeppni ríkir, en hvað gerist þegar samkeppnisaðili býr til vefsetur sem er betra? Nielsen og Loranger (2006) segja að fólk í dag hafi minni þolinmæði gagnvart vefsetrum sem erfitt er að nota og fari annað sem þýðir ekkert annað en töpuð viðskipti fyrir viðkomandi fyrirtæki. Dreifileiðir upplýsinga Leiðakerfi er eins og áttaviti, það hjálpar notandanum á ferð hans um vefsetrið. Segja má að „hönnun leiðakerfis snúist um að bæta við hurðum og gluggum“ (Morville og Rosenfeld, 2006, bls. 115). Markmiðið er að notendur geti komist af forsíðu vefseturs á áfangastað innan þess og aftur heim á forsíðuna og geti nálgast upplýsingar á vefnum frá mörgum hliðum hans án þess að villast eða að þurfa yfirleitt að hugsa (Krug, 2006). Samhengi er það sem mestu máli skiptir við gerð leiðakerfis vegna þess að notendur geta komið inn á vefsetur hvaðan sem er, til dæmis frá leit í leitarvélum eða öðrum vefsetrum þar sem vísað er í þau. Þess vegna er mikilvægt að notendur átti sig á því um leið og þeir koma á vefsetrið hvar þeir eru (Morville og Rosenfeld, 2006; Nielsen og Loranger, 2006). Dreifileiðirnar geta verið mismunandi, til dæmis leiðakerfi, brauðmolaslóð, veftré, lyklun, leiðbeiningar, leitir og nafnakerfi. Aðgengi Aðgengi (e. accessibility) á Internetinu snýst um jöfn tækifæri fyrir alla til að nota vefinn, einnig þá sem stríða við einhverskonar skerðingu eða fatlanir. Þetta eru t.d. lesblindir, eldra fólk, fólk með lélega sjón, blindir eða fólk með einhverskonar hreyfihömlun sem gerir þeim erfitt um vik að nota tölvur og þar með netið. Það er í raun stórmerkilegt að ef vel er að vefnum staðið getur blindur maður án aðstoðar lesið efni hans með því að nota skjálesara (Krug, 2006). World Wide Web Consortium (W3C) hannar staðla fyrir vefinn sem nýtast fötluðum. Markmið þeirra er að allir geti notað Veraldarvefinn (W3C, 2009, -b). Tim Berners-Lee þróaði staðlana (W3C, 2009, -a), sá sami og þróaði Veraldarvefinn (Clyde, 2004). Web Content Accessibility Guidelines (WCAG) 2.0 er önnur útgáfa staðals frá W3C sem inniheldur ráðleggingar um hvernig hægt er að gera innihald á vefnum aðgengilegra. Ef farið er eftir ráðleggingunum mun það auka aðgengi fatlaðra og jafnframt bæta aðgengi almennt að vefnum (W3C, 2008). Margir eru farnir að nota netið í gegnum síma og ef vefsetur eru gerð eftir stöðlum W3C er auðveldara að skoða þau í símum (Krug, 2006). Árið 1998 setti bandaríska þingið lög, Section 508, sem gera kröfu um gott aðgengi á rafrænum miðlum fyrir fatlaða. Lögunum er ætlað að brjóta múra fatlaðra einstaklinga og gefa þeim jöfn tækifæri og hvetja til þróunar á rafrænum miðlum. Lögin gera þá kröfu á opinberar stofnanir í Bandaríkjunum að
14
starfsmenn og viðskiptavinir sem eru fatlaðir geti fengið sömu upplýsingar og aðrir (Section 508, e.d.). Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði fram tillögur um bætt aðgengi sem byggir á þremur stoðum sem ganga út á að ríkið kaupi tæknibúnað sem er aðgengilegur og sýni þannig gott fordæmi, skoði vottun á aðgengismálum og hvernig aðlaga megi lagaumhverfi með tilliti til aðgengis. En í breskri könnun frá árinu 2005 kemur fram að 70% vefsetra Evrópubandalagsins fá falleinkunn (UT vefurinn, e.d., Aðgengi fyrir alla, reglur). Á Íslandi eru ekki til lög sem eru eins vel skilgreind og Section 508. Þó eru til Lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992. Markmið þeirra er að fatlaðir hafi rétt og lífskjör til jafns við aðra þjóðfélagsþegna. Í Netríkinu Ísland 2008-2012 sem er stefna ríkistjórnarinnar um upplýsingasamfélagið á Íslandi segir: „Opinberir vefir fullnægi skilyrðum um aðgengi fatlaðra (a.m.k. kröfur W3C um A-vottun)“ (Forsætisráðuneytið, 2008, bls. 9). Kannanir sem fyrirtækið Sjá gerði fyrir Forsætisráðuneytið árin 2005, 2007 og 2009 sýna að aðgengi opinberra vefja batnaði mikið á milli áranna 2005 og 2007 en stendur því miður í stað árið 2009 (UT vefurinn, e.d.). Fyrirtækið Sjá ehf sér um aðgengisvottun á vefsíðum í samvinnu við Öryrkjabandalag Íslands sé þess óskað. Hægt er að fá þrjár vottanir allt eftir því hversu langt á að fara í aðgengi á vefsíðu. Uppfylla þarf vottun I til að fá vottun II og vottun II til að fá vottun III (Sjá, e.d.-a). Vefsetur sem fá vottun hjá Sjá og Öryrkjabandalaginu fá merki sem sett er á vefsetrin og gildir vottunin í eitt ár. Mjög fá fyrirtæki á Íslandi eru með aðgengisvottun frá Sjá og einungis eitt fyrirtæki, Tryggingamiðstöðin, er með vottun I, II og III (Sjá, e.d.-b). Lokaorð Upplýsingaarkitektúr hefur verið notaður við gerð vefsetra frá því að Internetið náði vinsældum almennings árið 1995. Starfsheitið upplýsingaarkitekt varð þó ekki til fyrr en um síðustu aldamót. Vísbendingar eru um að upplýsingaarkitektúr sé orðinn samofinn stétt þeirra sem vinna við notendaprófanir, sem eru til dæmis fólk sem vinnur með samskipti manns og tölvu (e. Human Computer Interaction) enda eru skilin þarna á milli afar óskýr og starfsstéttirnar ungar. Svo virðist vera sem færri noti eingöngu upplýsingaarkitekt í starfstitli sínum. Fleiri nota í dag notendaviðmótshönnun. Þar sem engin könnun hefur verið gerð á hvaða menntun fólk hefur í faginu eftir árið 2006 er ómögulegt að segja með einhverri vissu um hvort starfið sé að færast frá bókasafns- og upplýsingafræðingum yfir á aðrar stéttir. Bókasafnsfræðingar voru í meirihluta í starfsstéttinni í könnun sem gerð var árið 2001 og þeir voru um 40% stéttarinnar í könnun sem gerð var árið 2006. Á Íslandi hefur starfsheitið ekki náð fótfestu en hins vegar eru margir meðvitaðir um mikilvægi þess að vefsíður séu vel skipulagðar og aðgengilegar. Eftir að Vefur 2.0 varð til og þátttaka almennings í skipulagningu gagna á vefnum jókst verður sífellt meiri þörf á
bókasafnið markvissu skipulagi. Leitarvélar skila þúsundum niðurstaðna af gögnum í misjöfnum gæðum sem fólk alls staðar í heiminum hefur merkt og flokkað. Því verður sífellt erfiðara fyrir hinn venjulega notanda að finna áreiðanlegar upplýsingar og að geta skilið góðar upplýsingar frá vondum. Upplýsingalæsi hefur aldrei verið jafnmikilvægt og í dag. Bókasafns- og upplýsingafræðingar hafa heilmargt til að leggja í gerð vefsíðna. Þeir læra flokkunaraðferðir, lyklun og kerfisbundna efnisorðanotkun til að lýsa innihaldi. Ekkert annað háskólanám fer eins djúpt í þessi mál og bókasafns- og upplýsingafræðin. Bókasafns- og upplýsingafræðingar þurfa að vera duglegri við að minna á sig, vera meira áberandi og koma með tillögur að úrbótum þar sem þeir starfa. Mikilvægt er að bókasafns- og upplýsingafræðingar séu með í vefteymum þar sem það á við þar sem þeir eiga fullt erindi í þau.
Abstract Information Architecture. You cannot use what you cannot find The intention of this article is to analyse the origin of the concept Information Architecture and its definition. Who was the first to use the concept and in which circumstances did it emerge from? The article describes the early days of the Internet and demonstrates that Information Architecture has been used to make web pages more accessible since the Internet became popular. The article follows the development of the job title, from when it emerged 10 years ago, describes the development taking place today and accessibility on the web. Heimildaskrá American Society for Information Science and Technology. (2000). Conferences. Sótt 7. mars 2010 af http://www.asis.org/Conferences/ Summit2000/Information_Architecture/ index.html Bates, M. E. (2009). Do I look like a librarian? Online, 33(5), 64. Sótt 3. apríl 2010 af http://proquest.umi.com/pqdweb?did=1857454581&sid=1&Fmt=3&clientId=58032&RQT=309&VName=PQD Clyde, L. A. (2004). An introduction to the Internet, course manual v.12.0. Perth: Netweaver. Cronin, M. J. (1995). Doing more business on the Internet: how the electronic highway is transforming American companies. New York: Van Nostrand Reinhold. Cumming, M. (2009). Information architecture. Interaction-Design.org. Sótt 4. mars 2010 af http://www.interaction-design.org/encyclopedia/ information_architecture.html Dillon, A. (2001). I think therefore IA? Bulletin of the American Society for Information Science, 27(2), 27-28. Sótt 16. mars 2010 af http://www3. interscience.wiley.com/cgi-bin/fulltext/109861961/PDFSTART Dubie, D. (2006). Time spent searching cuts into company productivity. NetWorkWorld. Sótt 18. mars 2010 af http://www.networkworld. com/news/2006/102006-search-cuts-productivity.html Forsætisráðuneytið. (2008, maí). Netríkið Ísland: Stefna ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið 2008-2012. Sótt 3. apríl 2010 af http:// www. forsaetisraduneyti.is/media/frettamyndir/NETRIKID_ISLAND_ stefnuskra.pdf Gallbraith, J. K. og Hale, T. (2004). Income distribution and the information technology bubble. Sótt 17. apríl 2010 af http://utip.gov.utexas.edu/ papers/utip_27.pdf
35. árg. 2011
Hagstofa Íslands. (e.d.). Ísland í tölum 2009-2010. Sótt 1. apríl 2010 af http://hagstofan.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=10652 Hinton, A. (2010, 26. mars). What am I? Sótt 6. apríl af http://www.inkblurt.com/2010/03/26/ what-am-i/ Kalbach, J. (2003). IA, therefore I am. Bulletin of the American Society for Information Science and Technology, 29(3), 23-26. Sótt 5. apríl 2010 af http://www3.interscience.wiley.com/cgi-bin/fulltext/109861514/ HTMLSTART Kristín Ósk Hlynsdóttir. (1997). Upplýsingavefur Kópavogs þarfagreining. Óbirt BA-ritgerð: Háskóli Íslands, Félagsvísindadeild. Krug, S. (2006). Don´t make me think: A common sense approach to web usability (2. útgáfa). Indianapolis: New Riders. Lög um málefni fatlaðra. nr. 59/1992. Sótt 29. mars 2010 af vef Alþingis: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1992059.html Marinó G. Njálsson. (1995). Internetið í viðskiptalegum tilgangi. Reykjavík: Framtíðarsýn: Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands. Morville, P. og Rosenfeld, L. (1998). Infromation architecture for the world wide web. Sebastopol, CA: O’Reilly & Associates. Morville, P. og Rosenfeld, L. (2002). Infromation architecture for the world wide web (2. útgáfa). Sebastopol: O’Reilly. Morville, P. og Rosenfeld, L. (2006). Infromation architecture for the world wide web (3. útgáfa). Cambridge: O’Reilly. Nielsen, J. og Loranger, H. (2006). Prioritizing web usability. Berkeley, CA: New Riders. Óskar Þór Þráinsson. (2008). Rannsókn á starfsvettvangi bókasafns- og upplýsingafræðinga. Óbirt BA-ritgerð: Háskóli Íslands, Félagsvísindadeild. Sótt 4. apríl 2010 af http://skemman.is/bitstream/1946/4127/1/BA_ Verkefni_Oskar_Thor_Thrainsson_fixed.pdf Palarchio, M. I. (2004). Time spent searching for information. mip´s scan. Sótt 18. mars 2010 af http://www.mipsscan.com/2004/05/time_ spent_sear.html Reitz, J. M. (2007). ODLIS: Online dictionary for library and information science, Libraries Unlimited (Usability). Sótt 5. apríl 2010 af http://lu.com/ odlis/search.cfm Section 508. (e.d.). 508 Law. Sótt 29. mars 2010 af http://www.section508.gov/index.cfm Shiels, M.. (2010, mars). Where were you on 10 March 2000? Sótt 17. apríl 2010 af http://www.bbc.co.uk/blogs/thereporters/maggieshiels/2010/03/where_were_you_on_march_10_200.html Sjá. (e.d.-a). Aðgengisvottun. Sótt 2. apríl 2010 af http://sja.is/adgengisvottun/ Sjá. (e.d.-b). Forgangur I, II og III. Sótt 2. apríl 2010 af http://sja.is/ adgengisvottun/ forgangur-i-ii-og-iii/ The Information Architecture Insitute. (2006, ágúst). Survey 5: IA Education for Practitioners. Sótt 1. apríl 2010 af http://iainstitute.org/en/ learn/research/survey_5_ia_education_for_practitioners.php The Information Architecture Insitute. (2010). Salary survey 2005. Sótt 1. apríl 2010 af http://iainstitute.org/en/learn/research/salary_survey_2005.php The Information Architecture Insitute. (2010.) Salary survey 2006. Sótt 1. apríl 2010 af http://iainstitute.org/en/learn/research/salary_survey_2006.php The Information Architecture Insitute. (2010). Salary survey 2007. Sótt 1. apríl 2010 af http://iainstitute.org/en/learn/research/salary_survey_2007.php The Information Architecture Insitute. (2010). Salary survey 2008. Sótt 1. apríl 2010 af http://iainstitute.org/en/learn/research/salary_survey_2008.php The Information Architecture Insitute. (2010). Salary survey 2009. Sótt 1. apríl 2010 af http://iainstitute.org/en/learn/research/salary_survey_2009.php The Information Architecture Institute. (2010, 21. febrúar). Explain IA winners announced. Sótt 6. apríl 2010 af http://iainstitute.org/ news/001084.php
15
bókasafnið
35. árg. 2011
Thurow, S. og Musica, N. (2009). When search meets web usability. Berkeley, CA: New Riders. Travis, I, L. (2000). ASIS summit 2000: a special report. Bulletin of the American Society for Information Science, 26(5), 7-8. Sótt 16. mars 2010 af http://www3.interscience.wiley.com/cgi-bin/fulltext/109864028/ PDFSTART?CRETRY=1&SRETRY=0 Tryggingamiðstöðin. (e.d.). Forsíða. Sótt 21. apríl 2010 af http://www. tm.is/ UT vefurinn: Vefur um upplýsingatækni. (e.d.). Aðgengi fyrir alla, reglur. Sótt 29. mars 2010 af http://www.ut.is/adgengi/reglur/ UT vefurinn: Vefur um upplýsingatækni. (e.d.). Hvað er spunnið í opinbera vefi 2009? Sótt 3. apríl 2010 af http://www.ut.is/media/utvefur-skjol/ HESIOV_skyrsla_2dalka.pdf
W3C. (2008). Web content accessibility guidelines (WCAG) 2.0. Sótt 3. apríl 2010 af http://www.w3.org/TR/WCAG20/ W3C. (2009, -a). About W3C. Sótt 2. apríl 2010 af http://www.w3.org/ Consortium/ W3C. (2009, -b). WAI Mission and organization. Sótt 29. mars 2010 af http://www.w3.org/ WAI/about.html Wikipedia. (e.d.). Forsíða. Sótt 26. apríl 2010 af http://en.wikipedia.org/ wiki/Main_Page Wurman, R. S. (1989). Information anxiety. New York: Doubleday. Wyllys, R.E. (2000). Information architecture. The University of Texas at Austin Graduate School of Library and Information Science. Sótt 5. apríl 2010 af http://www.gslis.utexas.edu/%7El38613dw/readings/InfoArchitecture. html
Háskóli Íslands Háskólatorgi S. 570 0777 - Háskólinn í Reykjavík Sólinni Nauthólsvík S. 599 6469 boksala@boksala.is
www.boksala.is
16
Lakasta bók Íslandssögunnar? Af ritdómi Jóns Sigurðssonar forseta 1844
Bragi Þorgrímur Ólafsson
Inngangsorð Árið 1844 birtist ítarlegur ritdómur í Nýjum félagsritum eftir Jón Sigurðsson. Til umfjöllunar var tæplega 200 blaðsíðna bók sem kom út í Viðey tveimur árum áður. Bókin lét ekki mikið yfir sér og við fyrstu sýn mætti ætla að innihald hennar gæfi ekki tilefni til mikilla deilna. Í ritdóminum fann Jón umræddri bók þó allt til foráttu og sagði hann einfaldlega að hún væri „sú bók sem eg hefi séð ljótasta og verst af hendi leysta hingaðtil, og eg má fullyrða, að engin bók hefir komið lakari á prent á Íslandi þegar á allt er litið“ (Jón Sigurðsson, 1844, bls. 133).1 Ritdómurinn var allur á þessa leið og var svo hvass að honum hefur jafnvel verið líkt við frægan ritdóm Jónasar Hallgrímssonar um Tristans rímur Sigurðar Breiðfjörðs í þriðja árgangi Fjölnis árið 1837 (Jón Jacobsson, 1919-1920, bls. 53; Jónas Hallgrímsson, 1837). Bókin sem vakti þessi hörðu viðbrögð Jóns var skrá yfir bókaeign Stiftisbókasafnsins sem kom út árið 1842. Í þessari grein verður litið stuttlega á þennan harðorða ritdóm Jóns. Starf Jóns innan bóka- og skjalasafna Í ár er haldið upp á 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar. Þó að hann sé þekktastur fyrir stjórnmálaferil sinn vann hann stóran hluta starfsævi sinnar innan bóka- og skjalasafna, einna helst að útgáfu ýmissa fornrita og heimildasafna, uppskrift handrita og öðru því tengt, allt frá því hann var nítján
ára gamall í þjónustu Steingríms Jónssonar biskups í Laugarnesi, til starfa sinna innan Árnasafns og ýmissa fræðafélaga í Kaupmannahöfn á fullorðinsárunum.2 „Skrár, bréf og skjöl eru, eins og allir vita, hinn vissasti og áreiðanlegasti grundvöllr sögunnar í hverju landi sem er“ skrifaði Jón í fyrsta bindi Íslensks fornbréfasafns árið 1857, enda byggði hann bæði stjórn mála- og fræðaferil sinn á sögulegum grunni (Jón Sigurðsson, 1857-1876, bls. iii). Allt fræðastarf Jóns og heimildaútgáfa krafðist verulegrar þekkingar á uppbyggingu og forða bóka- og skjalasafna, enda segir Páll Eggert Ólason í ævisögu sinni um Jón að hann „hefir bersýnilega haft allt til þess að bera að verða yfirburðamaður í þjónustu skjalasafna eða bókasafna, hvort heldur var“ (Páll Eggert Ólason, 1929, bls. 287). Páll bætir ennfremur við að „[betri] forstöðumann slíkra safna en Jón myndi ekki auðið að finna, frá hverri hlið sem á væri litið“ (bls. 288). Jóni var líka annt um að öflug bóka- og skjalasöfn væru byggð upp á Íslandi. Hann barðist til dæmis fyrir því að endurreist Alþingi yrði háð í Reykjavík en ekki á Þingvöllum, meðal annars vegna þess að í Reykjavík væri betra aðgengi að bóka- og skjalasöfnum, og eftir endurreisn þingsins 1845 vann hann að stofnun sérstaks bókasafns
Jón Sigurðsson var afkasta mikill fræðimaður og vann alla sína starfsævi að ýmsum textaog heimildaútgáfum til hliðar við stjórnmálastarf sitt. Hann hafði góða þekkingu á upp byggingu bóka- og skjalasafna og vildi veg þeirra sem mestan.
1. Í beinum tilvitnunum er stafsetning tekin upp óbreytt. 2. Sjá um fræðastörf Jóns Sigurðssonar t.d. Einar Laxness, 1979, bls. 137-150.
17
bókasafnið
35. árg. 2011
þess (Bragi Þorgrímur Ólafsson, 2008, bls. 33-35). Þá keypti hann og gaf bækur til Stiftisbókasafnsins (hér eftir kallað Landsbókasafn) í svo miklu magni að bókavörður þess sagði árið 1859 að Jón væri einhver staðfastasti velgjörðarmaður þess (Jón Jacobsson, 1919-1920, bls. 87-88). Jón var því kröfuharður notandi og velunnari bóka- og skjalasafna og vissi hvernig standa ætti að skráningu þeirra, flokkun og uppbyggingu svo þau kæmu að sem mestum notum og væru aðstandendum til sóma. Landsbókasafnið árið 1844 Árið 1844 var aðsetur Landsbókasafns á lofti Dómkirkjunnar og taldi um 7.500 rit.3 Safnið hafði verið stofnað 26 árum áður (1818), en var þó ekki aðgengilegt til almennrar notkunar fyrr en haustið 1825, þegar búið var að koma fyrir bókahillum og öðrum búnaði á lofti kirkjunnar. Um nokkurra ára skeið hafði staðið til að gefa út ítarlega skrá yfir bókaeign safnsins, en fyrsta skrá þess efnis kom út árið 1828, sem Jón taldi að hefði verið „vel samið og greinilegt“ (Jón Sigurðsson, 1844, bls. 132; Registr yfir Íslands Stiftisbókasafn, 1828). Síðan þá hafði bókakostur safnsins vaxið umtalsvert svo nauðsynlegt var talið að gefa út nýja skrá. Stjórnarnefnd safnsins fór að undirbúa hana um 1838 og leit hún dagsins ljós í desember 1842 (Jón Jacobsson, 1919-1920, bls. 49-52). Í nefndinni sátu þeir Steingrímur Jónsson biskup, Torkil A. Hoppe stiftamtmaður, Jón Thorstenssen landlæknir og Þórður Jónassen, síðar dómstjóri. Nefndin virðist hafa verið ánægð með útkomuna og ákvað að senda velunnara safnsins, Carl Christian Rafn, tíu eintök af skýrslunni, enda var Rafn einn af frumkvöðlum að stofnun þess árið 1818 og studdi dyggilega við það alla sína ævi með rausnarlegum bókagjöfum og annarri aðstoð.4 Í bréfi sem nefndin sendi með skránni til Rafns segir að hún muni auka og glæða áhuga landsmanna á safninu og gera þeim það notadrýgra en áður. Óskuðu nefndarmenn að Rafn dreifði skránni meðal velgjörðarmanna safnsins erlendis og þeirra sem láta sig stofnunina varða, enda var það nokkuð kappsmál fyrir safnið að fá bókagjafir erlendis frá (Jón Jacobsson, 1919-1920, bls. 52). Viðtökur bókarinnar Rafn skrifar nefndinni í lok árs 1843 og þakkar fyrir skrána og segist ánægður að sjá að mörg góð og gagnleg ritverk hafi bæst við safnið. Hann bætir þó við og segir hreinskilnislega: þessi bókaskrá er verk, sem ekki fullnægir kröfum tímans. Það er áreiðanlega mikil óregla í þessari skrá, sem allir hljóta að reka augun í, þótt þeir að eins fletti henni lauslega. Ég hygg því, að það mundi ekki verða stofnuninni að nokkru gagni, þótt ég sendi skrána vinum hennar erlendis. Á Íslandi getur hún vitanlega orðið að nokkrum notum, svona eins og hún er, en út fyrir landsteinana ætti áreiðanlega ekki að hleypa nokkru einstaki, því stofnuninni mundi enginn greiði með því gerður (Jón Jacobsson, 1919-1920, bls. 54). 3. Í árslok 1840 (Jón Jacobsson, 1919-1920, bls. 51). 4. Sjá um hann: Aðalgeir Kristjánsson, 1996, bls. 22-52.
18
Carl Christian Rafn var mikill Íslandsvinur og hvatti til stofn unar bókasafns á Íslandi árið 1818. Honum var umhugað um safnið eftir stofnun þess og sendi því fjölmargar bækur og tímarit til eignar. Þegar skrá yfir bókaeign safnsins kom út árið 1842 lýsti hann yfir vonbrigðum með hana og taldi ekki heppilegt að sýna hana erlendum velgjörðarmönn um. (Málverk eftir C.C. Andersen).
Rafn orðar þetta mjög varfærnislega og á kurteisan hátt eins og hans var von og vísa. Eflaust hefur svar hans orðið nokkuð áfall fyrir stjórnarnefndina, en það var þó ekkert í líkingu við gagnrýni Jóns Sigurðssonar. Jón var þá orðinn vel kunnugur Rafni og fékk eintak af skránni hjá honum eins og hann lýsir í bréfi til Páls Melsteð í október 1844: „Eg vissi ekki neitt um þessa ófreskju fyrri en eg fékk hana hjá Rafni, og vissi ekki einusinni hver höfundur var þegar eg skrifaði próduktið [ritdóminn], nema eg heyrði gizkað á Jónassen [Þórður Jónassen, sem sat í stjórnarnefnd safnsins]“ (Minningarrit aldarafmælis Jóns Sigurðssonar 1811-1911, 1911, bls. 88). Jóni hefur augljóslega blöskrað vinnubrögðin við skrána og tók til við að skrifa ítarlegan ritdóm til birtingar í tímarit sitt, Ný félagsrit. Hér á eftir verður vitnað í ritdóminn og Jóni gefið orðið að miklu leyti. Ritdómurinn Í upphafi ritdómsins byrjar Jón á því að fræða lesendur almennt um gildi bókasafna. Þar kemur skýrt fram hvaða hug hann ber til þeirra: Allir mentaðir menn og bókavinir finna það að vísu, eins á Íslandi og annarstaðar, hversu ómetanlegt gagn er að bókasöfnum. Enginn einstakur maður hefir efni á að útvega sér allar þær bækur sem hann þarf með, ef hann er vísindamaður, og þó fáeinir gæti það, þá er samt auðsætt, hversu miklu nytsamara er og jafnvel sparnaðarmeira, að hafa bókasafn, sem margir geta haft not af. Engin þjóð er nú til í veröldinni, sem siðuð vill heita, að hún leggi ekki stund á að eiga góð bókasöfn, og enar bezt mentuðu þjóðir verja ærna peningum úr almennum sjóði til að auka og prýða söfn þessi sem mest, og kaupa til þeirra það sem ekki fæst með öðru móti (Jón Sigurðsson, 1844, bls. 131). Jón bendir í framhaldinu á að það sé nauðsynlegt að til séu prentaðar skrár yfir bókaeign safnanna svo þau komi fólki að almennilegum notum. Ef slíkar skrár séu vel frágengnar geta
bókasafnið
35. árg. 2011
fyrir vísindalega hugsun þess sem tók skrána saman og telur í kjölfarið það furðu sæta að stjórnarmenn vilji senda bókina til erlendra velgjörðarmanna: „en væri það á Hornströndum, þá segði menn það væri svo til komið, að bókin væri umskiptingur, sem illur vættur hefði sent í stað ens rétta registurs, til að koma inn hjá útlendum mönnum forakti á Íslendíngum, og aptra þeim frá að sýna því landi nokkra velvild, en allrahelzt frá því að gefa þangað bækur“ (bls. 133). Hér kemur aftur fram sú hugsun hjá Jóni að nauðsynlegt sé að afla safninu dyggra stuðningsmanna erlendis frá og því þurfi að vanda til verka við skrá sem þessa.
Skrá yfir bókaeign Stiftisbókasafnsins, útgefin 1842. Lakasta bók Íslandssögunnar að mati Jóns, sem kallaði hana eina allsherjar prentvillu og taldi að brenna ætti upplag hennar og gefa út nýja skrá.
þær einnig hvatt fólk til að gefa safninu bækur, enda votti þær um að vel sé hugsað um safnkostinn og framsetningu hans. Aftur á móti segir Jón: „[e]f það er illa samið og óþokkalega frá því gengið, þá álykta allir menn svo, að þeir séu hirðulausir sóðar sem fyrir safninu eigi að sjá, og sú þjóð, sem ekki hirðir um bókasöfn sín, sé ekki orðin svo mentuð að hún kunni að meta nokkur andleg gæði, og sé þessvegna ekki verð þess að menn styrki hana“ bls. 132). Jón telur að bókaskráin 1842 falli í þennan flokk, enda er það „bæði ófullkomið, illa niðurskipað, rángt og ruglingslegt, og svo er vitleysunni haugað saman hverri ofaná aðra, bæði í nöfnum, tölum og bókatitlum, að það verður ekki sannari dómur sagður, enn að bókin sé öllsaman ekki annað enn ein einasta afskræmisleg prentvilla“ (bls. 133-134). Jón hefst því næst handa við að telja upp þær villur og þá vankanta sem hann finnur á ritinu „mest eptir lausri skoðun um fáeinar klukkustundir “ (bls. 134). Skipta má þessum athugasemdum Jóns í nokkra flokka. Höfundur: tómthúsmaður eða þaðan af minna? Jón vekur athygli á því að enginn höfundur sé tilgreindur að verkinu. Hann segir að lesendur bókarinnar myndu líklega álíta að einhver af stjórnarmönnum safnsins hefði tekið hana saman: „en þegar menn fara að fletta bæklingnum mun það fljótt verða augljóst hverjum manni, að enginn mentaður maður mun hafa gjört það, því síður nokkurr af stjórnarmönnunum, heldur muni höfundurinn vera tómthúsmaður eða þaðan af minna ...“ (bls. 133). Jón gefur því ekki mikið
Flokkun og röðun Í ritdómnum fræðir Jón lesendur um það hvernig flokka eigi bækur á bókasöfnum. Jón segir: „Menn skipta ... bókunum fyrst í aðalflokka (guðfræði, lögspeki o.s.frv.) og síðan hverjum aðalflokki í aðra minni (t.a.m. guðfræði í: biblíufræði, trúarfræði, siðalærdóm, o.s. frv.). Því næst setja menn en almennu rit og aðalrit eða samfellurit fremst í hvern flokk, þar sem þau eru til, og síðan en einstaklegu á eptir“ (bls. 137). Jón bendir á að ekki sé fyllilega farið eftir þessum venjum í umræddri bókaskrá. Í guðfræðiflokknum megi t.d. finna alls óskylt efni, svo sem skýrslu frá Myntfræðifélaginu í London (Proceedings of the Numismatic Society), í sagnfræðiflokknum sé slegið saman bókum, tímaritum og landakortum, og fornsögur komi bæði á undan og eftir tímaritunum í þeim flokki, þar sé að finna skáldsögu (Sagan um þá tíu ráðgjafa af Rask [Historien om de ti Vezirer og hvorledes det gik dem med Kong Azád Bachts Søn]) og loks séu handrit ekki aðskilin frá prentuðum bókum. Það er því ekki furða þegar Jón segir að „enginn veit hvar hann á að leita, nema hann fletti blað fyrir blað allri bókinni, og þó höfundurinn vísi manni á hvern aðalflokk ... þá skyldi enginn maður því treysta eða fylgja þeirri bendingu“ (bls. 137). Skráning Jón bendir á að ekkert samræmi sé í skráningu safnkostsins: „Það er almenn venja, að rita nöfn höfunda fyrst, síðan sjálfan titil bókarinnar stutt og greinilega, þvínæst nafn staðar þess sem bókin er prentuð á, og seinast brotið ... hér er það allt andhælis ... Nöfn höfundanna standa hér ýmist fremst eða aptast, og stundum er þeim sleppt, þó nöfn þeirra standi á bókunum og sé til færð í enu eldra registri, en stundum eru þau raung, og það nöfn frægra manna, sem allir mentaðir menn þekkja“ (bls. 139).
„Allir mentaðir menn og bókavinir finna það að vísu, eins á Íslandi og annarstaðar, hversu ómetanlegt gagn er að bókasöfnum. Enginn einstakur maður hefir efni á að útvega sér allar þær bækur sem hann þarf með, ef hann er vísindamaður, og þó fáeinir gæti það, þá er samt auðsætt, hversu miklu nytsamara er og jafnvel sparnaðarmeira, að hafa bókasafn, sem margir geta haft not af.“ Jón Sigurðsson, 1844
19
bókasafnið
35. árg. 2011
Villur: mannanöfn, titlar, útgáfuár, brot Í ritdómnum tekur Jón nokkur dæmi um villur. Í fyrsta lagi tilgreinir hann mannanöfn og bendir til dæmis á að P.E. Müller biskup á Sjálandi sé bæði kallaður Møller og R. Møller, sjófarinn Kort Adeler er kallaður Adler, sagnaritarinn Riegels er kallaður Niegels, Munthe sagnaritari er kallaður Mynthe, Oelszner er kallaður Ollsern og Katrín önnur í Rússlandi er kölluð Katrín ellefta og svo mætti lengi telja (bls. 139140). Í öðru lagi eru fjölmargir bókatitlar rangir, til dæmis „M. Stephensens om Skaptafjeldet i Island“ sem á að vera „M. Stephensen; Kort Beskrivelse over den nye Vulcans Ildsprudning i Vester-Skaptefjelds Syssel“, „Nokkrar Íslendinga sögur“ á að vera „Ágætar fornmanna sögur“ og „Kristjaníu lýsing“ (topographie) er breytt í „Kristjaníu prentsmiðja“ (typographie)! Í þriðja lagi segir Jón að ekki sé rétt greint frá broti fjölda bóka eða að þær upplýsingar vanti „og á einum stað, (bls. 70) er það rángt á 3 bókum af 11 á einni hálfri blaðsíðu, og eru þær allar íslenzkar sögubækur, sem allir ætti að þekkja“ (bls. 140). Loks eru mörg röng ártöl í skránni sem Jón segir að sé í nokkrum tilfellum hlægilegt, svo sem þegar bók er sögð vera gefin út árið 1330 – „sem mun þá vera elzt allra prentaðra bóka“ segir Jón, eða á ókomnum árum, svo sem í lok nítjándu aldar – eða jafnvel á ókomnum öldum! (bls. 139-140). Gloppur Jón bendir á að erfitt sé að sjá tölur yfir heildarbókaeign safnsins. Við fyrstu sýn mætti ætla að ritin séu 3.718 talsins, (og hafi þá fækkað um 59 frá 1828!), en í raun sé skráin sé svo ruglingsleg að engin leið sé að átta sig á þessum tölum. Jón segir: engum manni er auðið að sjá af því hversu stórt safnið sé, eða bera það saman við hið fyrra. Þar er nú fyrst slengt í böggla (eða „bundt“) heilum flokkum, sem taldir eru upp greinilega í enu eldra registri (t.a.m. dispútazíum); þarnæst er mörgum bókum slengt saman undir eina tölu, og merkt með bókstöfum sumstaðar, en sumstaðar ekki með neinu ... er þá bágt að telja á fingrunum þegar bindin eru frá a og til ggg ... allrahelzt þegar menn vita ekki hvort höfundurinn telur eptir íslenzku stafrófi, eða dönsku, eða latínsku ... þá er og stundum sett sama bók á tvo (eða fleiri) staði, og veit enginn hvort er ein eða tvær eða enn fleiri ... (bls. 136). Þá tilgreinir Jón að það vanti fjölda bóka sem voru í skránni
1828, til dæmis innan læknisfræðinnar þar sem vanti um þrjátíu bækur. „Frá þessu ætti skírt að vera, svo menn vissi á hvern veg bækurnar hefði týnzt, verið seldar safninu til gagns ... eða á hvern veg þær væri horfnar; þegar slíka skírslu vantar, hugsar hverr maður að slíkt komi af vanhirðingu og trassaskap“ (bls. 136-137). Þá sé ekkert getið um fjölmörg landakort og koparstungur í eigu safnsins, sem voru 359 talsins í skrá safnsins 1828 og loks er ekkert minnst á bókagjafir Frakkans Paul Gaimard til safnins, en hann ferðaðist um landið árið 1836 og gaf safninu fjölda franskra bóka. Jón telur að þetta sé „að öllu leyti óviðurkvæmilegt og ósæmilegt“ enda mikilvægt að sýna erlendum gefendum þá virðingu að bókagjafa þeirra sé getið í skrám safnsins (bls. 135). Útlit Loks segist Jón ekki vera ánægður með útlit bókarinnar, enda segir hann að það sé engu líkara en að prentarinn hafi verið „drengur, sem hafi verið að leika sér að setja saman ljótustu stafina úr allrahanda letri, sem hafi legið fyrir honum í hrúgum“ (bls. 133). Lítið samræmi sé í stafagerðunum, latínuletrið sé ýmist beint eða skáletrað, stórir stafir í gotneska letrinu eigi sjaldan við, og sumir stafir séu úr stærra letri og „standa einsog fleigar í orðunum“. Hið eina jákvæða sé að pappírinn sé sæmilegur (bls. 141). Viðbrögð við ritdómnum Í fyrrnefndu bréfi sem Jón skrifaði til Páls Melsteð í október 1844 má sjá að harður ritdómur hans hefur vakið umtal meðal manna og einhverjir hafa furðað sig á því að lærður maður hafi látið svo þung orð falla. Jón var vissulega harðorður, enda segir hann sjálfur að „Rafn aumínginn er skælandi yfir trassadómi þessum, og það er von, því ekkert er sorglegra en að vera að berjast við að safna í höndurnar á þeim, sem maður feygja og svívirða það alltsaman viljandi, og geta svo ekkert við gjört“ (Minningarrit..., , 1911, bls. 87-88). Í ritdómnum segir Jón ennfremur að „frumkvöðull safnsins og velgjörðarmaður, eta[t]zráð Rafn, þorir nú ekki að sýna bókina neinum manni, enn síður að senda hana nokkrum þeim, sem hann ímyndar sér að muni líta í hana, heldur læsir hana niður, og er það góðmannlega gjört, og tekur mikla svívirðing af bókasafninu og Íslendingum“ (Jón Sigurðsson, 1844, bls. 141-142). Jón telur það heppilegt að erlendir velgjörðarmenn safnsins sjái ekki skrána, því þeir myndu ekki dæma hana „eins vægilega og vér gjörum“(!) (bls. 141). En átti ritið þessi hörðu orð skilið? Jón rökstyður orð sín vissulega ítarlega í ritdómnum og nafni hans Jacobsson segir
„Engin þjóð er nú til í veröldinni, sem siðuð vill heita, að hún leggi ekki stund á að eiga góð bókasöfn, og enar bezt mentuðu þjóðir verja ærna peningum úr almennum sjóði til að auka og prýða söfn þessi sem mest, og kaupa til þeirra það sem ekki fæst með öðru móti.“ Jón Sigurðsson, 1844
20
bókasafnið í sögu Landsbókasafns að stóryrði Jóns séu „því miður alt of sönn og vel rökstudd með fjölmörgum dæmum“ (Jón Jacobsson, 1919-20, bls. 53) og Páll Eggert Ólason segir að bókin sé „í fám orðum að segja hin mesta ómynd að öllu leyti“ (Páll Eggert Ólason, 1929, bls. 346). Það liðu enda aðeins fjögur ár þar til ákveðið var að gera nýja skrá yfir safnið. Hún kom þó ekki út fyrr en þjóðhátíðarárið 1874.5 Að lokum Jón lýkur ritdómi sínum á þessum orðum: „þetta registur ætti að brenna upp, svo það verði engum til ásteytíngar, nema mönnum þætti hæfa að geyma eitt af þeim í safninu sjálfu til sýnis handa eptirkomendunum“ (Jón Sigurðsson, 1844, bls. 142). Það má geta til gamans að í safninu eru nú varðveitt þrjú eintök af þessu margumrædda riti, þar á meðal eintakið sem Jón Sigurðsson átti sjálfur með athugasemdum hans. Þetta eintak er núna til sýnis á sýningu um fræðastörf Jóns Sigurðssonar í Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli hans.
35. árg. 2011
Heimildir Aðalgeir Kristjánsson. (1996). „Carl Christian Rafn. Tveggja alda minning.“ Ritmennt. Ársrit Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. 1. ár, bls. 22-52. Bragi Þorgrímur Ólafsson. (2008). „Endurreisn Alþingis 1845 og aðgangur að skjala- og bókasöfnum.“ Bókasafnið 32. ár, bls. 33-35. Einar Laxness. (1979). Jón Sigurðsson forseti 1811-1879. Reykjavík. Jón Jacobsson. (1919-1920). Landsbókasafn Íslands 1818-1918. Minningarrit. Reykjavík. Jón Sigurðsson. (1857-1876). „Formáli.“ Diplomatarium Islandicum. Íslenzkt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf og gjörninga, dóma og máldaga og aðrar skrár, er snerta Ísland eða íslenzka menn. I. bindi, bls. iii-xii. Kaupmannahöfn. Jón Sigurðsson. (1844). „Registr yfir Islands stiftisbókasafn. Videyar klaustri. Prentad á kostnað stiftisbókasafnsins 1842. 8.“ [Ritdómur] Ný félagsrit 4. ár, bls. 131-142 . Jónas Hallgrímsson. (1837). „Um rímur af Tristrani og Indíönu.“ Fjölnir 3. ár, bls. 18-29. Minningarrit aldarafmælis Jóns Sigurðssonar 1811-1911. [Bréf Jóns Sigurssonar. Úrval]. (1911). Reykjavík. Páll Eggert Ólason. (1929). Jón Sigurðsson. I. bindi. Reykjavík. Registr yfir Íslands stiftisbókasafn. (1828). Kaupmannahöfn. Registur yfir Íslands stiftisbókasafn. (1842). Viðey. Skrá yfir prentaðar íslenzkar bækur og handrit í Stiptisbókasafninu í Reykjavík. (1874). Reykjavík.
5. Skrá yfir prentaðar íslenzkar bækur og handrit í Stiptisbókasafninu í Reykjavík, 1874. Sjá um hana: Jón Jacobsson, 1919-1920, bls. 62 og 65.
21
Á leið til fagstéttar Bókavarðafélag Íslands 50 ára
Sigrún Klara Hannesdóttir
Í desember 2010 voru 50 ár liðin frá því Bókavarðafélag Íslands var stofnað. Hér verður lítillega fjallað um skilgreiningar á fagstétt, sagt frá elstu félögum bókavarða og skoðað hvernig nágrannaþjóðirnar skipulögðu sín fagfélög. Síðan verður skoðað hvernig stofnun Bókavarðafélagsins fellur inn í skilgreiningu um fagstétt og hvaða viðfangsefni Bókavarðafélagið setti á oddinn á fyrstu 10 árum starfsemi sinnar og hver voru helstu baráttumál þess fólks sem vann í bókasöfnum á Íslandi fyrir 50 árum. Frá starfsstétt til fagstéttar Bókavarðastéttin er ekki gömul í mannkynssögunni þótt bókasöfn séu með elstu stofnunum hvers samfélags. Lengi vel voru það lærðir menn og sérfræðingar ýmiss konar sem taldir voru best hæfir til starfa við bókasöfn. Rökin voru þau að þeir þekktu alla þá þekkingu sem í ritum var fólgin og sem geymd var í viðkomandi safni. Eftir miðja síðustu öld var mikið rætt um stöðu fagstétta innan margra greina þar sem menntun og fagleg vinna var að aukast. Þar með hófust tilraunir til að skilgreina hvað þyrfti til að venjuleg starfsstétt gæti orðið að fagstétt og voru bókaverðir meðal þeirra sem fundu þessa þörf. Í tilraunum til að skilgreina fagstétt má finna nokkur mismunandi atriði en þessar skilgreiningar eru þó nokkuð samhljóma. Fagstétt hefur verið skilgreind sem stétt sem sinnir starfi sem byggist
á sérhæfðri þekkingu á ákveðnu, takmörkuðu sviði og krefst akademísks undirbúnings. Fagleg störf kalla á vinnubrögð sem grundvallast á kerfisbundinni þekkingu og færni. Í bók sinni Introduction to Librarianship1 frá 1976 telur höfundur, Jean Key Gates, upp sex þætti sem séu grundvöllur að skilgreiningu á fagstétt: 1) kerfisbundin hugmyndafræði, 2) sérhæfing, 3) viðurkenning samfélagsins, 4) siðareglur, 5) faglegt umhverfi og 6) skilgreint þjónustuhlutverk. Á Wikipediu má finna svipaða skilgreiningu þótt uppröðunin sé nokkuð önnur, það er skilgreind menntun og prófgráða, sameiginleg hugmyndafræði, fagfélög, afmörkuð og lokuð stétt, lögverndun og siðareglur.2 Í báðum þessum skilgreiningum eru fagfélög talin sem ein af kjarnastoðum í þeirri viðleitni að auka fagmennsku í störfum. Því er ekki úr vegi að skoða stofnun elstu bókavarðafélaganna og bókavarðafélaga í nágrannalöndum okkar. Melvil Dewey og stofnun American Library Association 1876 Við skoðun á þróun frá almennu bókavarðastarfi yfir í fagstétt á alþjóðavettvangi koma til mörg þekkt nöfn. Þó er á engan hallað þótt Melvil Dewey sé hér fyrst nefndur, en hann fæddist 1851 í New York í Bandaríkjunum. Hann er best þekktur fyrir flokkunarkerfi hans sem út kom árið 1876 og notað er víða um heim. Kerfið hlaut fádæma vinsældir strax og það kom út Melvil Dewey, einn af stofn vegna þess hve einfalt það var í endum American Library notkun. Ekki verður ferill Dewey Association. rakinn hér en aðeins minnst á þátt hans í því að stofna elsta bókavarðafélag í heimi, American Library Association. Fyrst var gerð tilraun til að stofna til félagsskapar bókavarða í Bandaríkjunum árið 1853 þegar
1. Gates, Jean Key: Introduction to Librarianship. New York, McGraw Hill, 1976. 2. http://en.wikipedia.org/wiki/profession
22
bókasafnið
35. árg. 2011
Stofnfundur Bókavarðafélags Íslands. Á myndinni eru: Ólafur Hjartar, Björn Sigfússon, Jón úr Vör, Jóhann Sveinsson, Bjarni Vilhjálmsson, Aðalgeir Kristjánsson, Hilmar Jónsson, Kristín Bjarnadóttir, Kristín Þorsteinsdóttir og Haraldur Sigurðsson.
bókavarðaráðstefna var haldin í New York borg og sótt af um 80 karlmönnum. Ætlunin var að halda næsta þing ári seinna en af því varð ekki. Þegar heimssýningin var haldin í Philadelphiu 1876 var efnt til fundar þar sem 103 bókaverðir, 90 karlmenn og 13 konur, sóttu fund sem kallaður var „Convention of Librarians“ og var haldinn 4.-6. október það ár. Þátttakendur komu víða að, allt frá Chicago til Bretlands. Meðal þeirra sem fundinn sóttu var Melvil Dewey. Niðurstaða þessa fundar var stofnun American Library Assocation. Tilgangur félagsins var að gera bókavörðum störf þeirra auðveldari og ódýrari. Afmæli American Library Assocation er miðað við 6. október 1876.3 Breska bókavarðafélagið stofnað 1877 Breska bókavarðafélagið (Library Association) var stofnað 1877 og árið 1899 fékk félagið leyfi (Royal Charter) til að gefa meðlimum félagsins faglegan (chartered) stimpil. Árið 1986 fékk það endurnýjað leyfi og hlutverk þess og markmið voru færð til nútímahorfs. Í lögum félagsins, sem sett voru eftir nýja leyfið 1986, segir að það sé formælandi og faglegur vettvangur fyrir fólk sem vinni við eða hafi áhuga á bókasöfnum og upplýsingaþjónustu (represent and act as the professional body for persons working in or interested in library and information services).
Árið 1958 var stofnað annað félag á Bretlandi, The Institute of Information Scientists, sem í voru aðallega þeir sem störfuðu á einhvern hátt við tölvuvæðingu upplýsinga, eða svokallaða documentation. Þeir litu svo á að þeirra störf væru mjög ólík gömlu bókavarðastörfunum og þeir ættu því litla samleið með gamla félaginu. Alls voru um 2200 félagar í IIS þegar vegur þess var sem mestur en margir breskir bókaverðir voru í báðum félögunum. Eftir nokkuð langt samningaferli voru þessi tvö félög sameinuð og 1. apríl 2002 var stofnað nýtt félag á grunni þessara tveggja félaga. Það er kallað CILIP: the Chartered Institute of Library and Information Professionals og er sá félagsskapur sem í dag stendur vörð um réttindi og skyldur bókavarða, bókasafnsfræðinga og upplýsingafræðinga á Bretlandi.4 Danska bókavarðafélagið stofnað 1905 Danska bókavarðafélagið (Danmarks Biblioteksforening) er eftir því sem best er vitað elsta bókavarðafélag á Norðurlöndunum. Það voru einkum almenningsbókaverðir sem að því stóðu enda hefur Danska bókavarðafélagið haft mikil áhrif á þróun almenningssafna í Danmörku og einnig mikil pólitísk áhrif enda eru stjórnmálamenn meðlimir félagsins. Persónulegir meðlimir eru nú um 500 en auk þess fjöldi stofnana og flest sveitarfélögin.5
3. http://www.ala.org/ala/aboutala/missionhistory/history/index.cfm 4. http://www.cilip.org.uk/about-us/history/unification/Pages/default.aspx#library 5. http://www.dbf.dk/Default.aspx?ID=98Library
23
bókasafnið
35. árg. 2011
Norska bókavarðafélagið stofnað 1913 Norska bókavarðafélagið (Norsk bibliotekforening – NFB) er opið fyrir alla sem starfa við bókasöfn, heimildavinnu eða upplýsingastarfsemi en í Noregi starfar einnig Norsk fagbibliotekforening (NFF) en allir meðlimir þar eru líka tengdir Norska bókavarðafélaginu. Félaginu er skipt upp í svæðisbundnar einingar eftir landfræðilegri skiptingu og hafa þær eigin stjórnir. Í félaginu eru um 3200 félagar.6 Sænska bókavarðafélagið stofnað 1915 Sænska bókavarðafélagið (Svensk Biblioteksförening) var stofnað 1915 undir heitinu Svenska Allmänna Biblioteksföreningen (SAB). Árið 1921 var sett á stofn annað félag undir heitinu Svenska bibliotekariesamfundet (SBS). Þessi tvö félög voru svo sameinuð árið 2000. Bókavarðafélagið er nú félagsskapur allra bókavarða og taldi árið 2009 um 3700 félaga sem eru bæði einstaklingar og stofnanir.7 Bókavarðafélag Íslands stofnað 1960 Það liðu mörg ár frá því bókaverðir formuðu sín félög í kringum okkur og í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við og þar til tími var til kominn til að stofna félagsskap fyrir íslenska bókaverði. Aðstæður hér á landi voru mjög ólíkar því sem tíðkaðist á hinum Norðurlöndunum, einkum hvað snerti almenningsbókasöfnin. Hjá okkur var útgáfa bóka lengi vel svo takmörkuð að vel lesinn maður gat mjög vel innt af hendi þjónustu við almenning. Langt fram eftir síðustu öld var almenningsbókasöfnunum stýrt af sjálfboðaliðum, rithöfundum eða „bókfróðum“ einstaklingum sem tóku að sér að lána út bækur úr litlum lestrarfélögum eða bókasöfnum. Árið 1955 voru fyrstu lög um almenningsbókasöfn sett eftir að Guðmundur G. Hagalín hafði ferðast um landið til að gera úttekt á stöðu almenningsbókasafna. Í þessum fyrstu lögum var stofnað til embættis bókafulltrúa ríkisins og fyrsti bókafulltrúi ríkisins var einmitt Guðmundur G. Hagalín. Árið 1956 hóf Björn Sigfússon að kenna bókasafnsfræði við heimspekideild Háskóla Íslands og var kennslan miðuð við þá sem ætluðu sér að starfa í Landsbókasafni eða Háskólabókasafni og höfðu gráðu í íslensku eða sagnfræði. Engin áhersla var lögð á þjónustu almenningsbókasafna. Í ritinu Á leið til Upplýsingar8 fjallar höfundurinn, Friðrik G. Olgeirsson, um stofnun Bókavarðafélags Íslands en hann segir einnig að lítið sé til af upplýsingum um aðdragandann að stofnun félagsins og af hverju þessi sérstaki tímapunktur var valinn. Hann telur þó að heimsókn Magnus K. Kristoffersen, sem hingað kom frá Bandaríkjunum þetta sama ár til að
halda námskeið fyrir almenningsbókaverði, gæti hafa orðið hvatinn sem þurfti til að koma félagsskapnum af stað.9 Einnig hafði Guðmundur G. Hagalín ferðast um allt land og kynnt sér stöðu bókasafna og kynnst þeim sem í bókasöfnunum störfuðu og gat því haft beint samband við þá og látið þá vita um fyrirhugaða stofnun félagsins. Í skemmtilegu viðtali við Guðmund G. Hagalín10 segir hann frá afskiptum sínum af bókasöfnunum, tilurð fyrstu skýrslu um almenningsbókasöfnin og fyrstu lögum um almenningsbókasöfn og skipun sinni í embætti bókafulltrúa ríkisins. Það var sunnudaginn 4. desember 1960 að bókaverðir víða að af landinu hittust í Bókasafni Hafnarfjarðar við Mjósund 12 til að stofna félag. Herborg Gestsdóttir frá Borgarbókasafni Reykjavíkur var fundarstjóri, Haraldur Sigurðsson frá Landsbókasafni var fundarritari en fundurinn hófst með frásögn Guðmundar G. Hagalíns af störfum hans við að undirbúa stofnfundinn. Alls höfðu 37 aðilar gefið til kynna að þeir vildu gerast stofnfélagar.11 Í fyrstu lögum félagsins eru ýmis merkileg ákvæði fyrir utan tilgang og félagsaðild: Tilgangur félagsins er: 1. Að vekja sem víðtækastan skilning ráðamanna þjóðarinnar og alls almennings á hlutverki bókasafna og gildi þeirra og koma því til leiðar að löggjöf um bókasöfn, fjárveitingar til þeirra og aðbúnaður allur verði þannig að starfsemin geti orðið sem víðtækust og fjölþættust. 2. Að vinna að aukinni menntun og hæfni bókavarða, stuðla að bættum kjörum þeirra og standa á verði um réttindi þeirra og aðstöðu.12 Rétt til þátttöku í félaginu hafa allir, sem hafa á hendi bókavörzlu í bókasöfnum og skjalasöfnum, sem eru kostuð af almannafé. Enn fremur þeir, sem lokið hafa bókavarðaprófi frá háskóla eða annarri kennslustofnun, er félagsstjórn tekur gilda.13 Það er athyglisvert að svo lítið félag skuli hafa sérstaka grein sem veitir félagsstjórninni heimild til að skipta félaginu upp í deildir sem hafi þó eigi færri en 10 félaga. Þessar fjórar deildir virðast í raun vera sérstök félög og skulu þær hafa sérstakar stjórnir og starfsreglur. Þessar deildir eða félög hafa eftirfarandi nafngiftir: 1. 2. 3. 4.
Félag bæjar- og héraðsbóka- og skjalavarða. Félag sveitarbókavarða. Félag bókavarða í skólum og hælum. Félag bóka- og skjalavarða í ríkisstofnunum.14
6. http://www.norskbibliotekforening.no/ 7. http://www.biblioteksforeningen.org/ 8. Í þessari grein er mikið stuðst við rit Friðriks G. Olgeirssonar. Á leið til Upplýsingar. Saga Bókavarðafélags Íslands, aðildarfélaga þess og Félags bókasafnsfræðinga. Reykjavík. Upplýsing, 2004. 9. Friðrik G. Olgeirsson, sama rit, s. 38. 10. S[teingrímur] J[ónsson]: Bókavörður og bókafulltrúi. Viðtal við Hagalín. Bókasafnið 6 (1982) 1, s. 4-10. 11. Lista yfir alla stofnfélagana er að finna í Á leið til Upplýsingar bls. 40-41. 12. Lög BVFÍ 1960, gr. 2. 13. Lög BVFÍ 1960, gr. 3. 14. Lög BVFÍ 1960, gr. 4.
24
bókasafnið
35. árg. 2011
Fjórir formenn Bókavarðafélags Íslands. F.v.: Else Mia Einarsdóttir (1971-1973), Herborg Gestsdóttir (1960-1963), Haraldur Sigurðsson (1965-1969), Óskar Ingimarsson (1970-1971).
Það má túlka þessa grein um að skipta megi félaginu upp í deildir sem fyrirboða þess að menn hafi frá upphafi talið að verkefni og viðfangsefni félagsmanna væru svo ólík að erfitt gæti verið að láta eitt og sama félagið annast þau öll enda voru í upphaflega hópnum starfandi bókaverðir í almenningssöfnum, bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu, á Landsbókasafni, Háskólabókasafni og skjalaverðir í Þjóðskjalasafni. Rætt var um hvort skjalaverðir skyldu fá að vera félagar og virtust engar mótbárur hafa komið upp gegn þeirri tilhögun enda segir í 4. grein að skjalavörðum sé heimil þátttaka. Í fyrstu stjórn Bókavarðafélagsins var Herborg Gestsdóttir kosin formaður, Haraldur Sigurðsson ritari, Anna Guðmundsdóttir varaformaður, Ólafur Hjartar féhirðir og Hilmar Jónsson meðstjórnandi, það er tveir frá Landsbókasafni og þrír almenningsbókaverðir. Á þessum fyrsta fundi var jafnframt samþykkt ályktun til stuðnings frumvarpi um almenningsbókasöfn sem lagt hafði verið fram á Alþingi. „Skora fundarmenn á ríkisstjórnina að leggja fyrrgreint frumvarp fyrir Alþingi það sem nú situr og tryggja því framgang.“15 Má telja víst að þessi ályktun eigi rætur að rekja til áhuga Guðmundar G. Hagalíns á málefnum almenningsbókasafnanna. Í fundargerðabók Bókavarðafélags Íslands fyrstu 10 árin kemur fram hver voru helstu áherslumál stéttarinnar og má leiða að því líkur að þau hafi verið það sem mest brann á bókavörðum á Íslandi á þessum tíma og verða hér talin nokkur fyrstu verkefnin sem eru býsna metnaðargjörn. Flokkun og skráning Á stjórnarfundi í febrúar 1961 lagði Björn Sigfússon fram beiðni um „kosningu undirbúningsnefndar til þess að ganga
frá reglum um samræmingu tugakerfisins fyrir íslensk bókasöfn.“ Þá þegar var skipuð nefnd til að vinna að þessu verkefni og í nefndina völdust Björn Sigfússon Háskólabókasafni, Ólafur Hjartar Landsbókasafni, Anna Guðmundsdóttir Bókasafni Hafnarfjarðar og Hulda Sigfúsdóttir Borgarbókasafni. Haustið 1969 virtist flokkunarkerfið vera tilbúið til útgáfu en þá kom upp mikil misklíð um í hvaða formi skyldi gefa það út, hvort það ætti að vera í lausblaðaformi eða prentað. Talsverður hiti var í stjórnarmönnum varðandi þetta mál og gengu tveir úr stjórn þegar ákveðið var að prenta flokkunarkerfið. Flokkunarkerfi fyrir íslenzk bókasöfn var síðan gefið út, prentað af Bókafulltrúa ríkisins, árið 1970. Á aðalfundi Bókavarðafélagsins 1961 var borin upp tillaga frá Hilmari Jónssyni, Bókasafni Keflavíkur, um að huga að skráningarreglum sem fylgi flokkunarkerfinu. Þessi tillaga er samþykkt einróma en ekki var skipað í þessa nefnd fyrir en 1966. Í grein sem Ólafur Pálmason skrifaði í Árbók Landsbókasafns16 segir hann að í nefndinni hafi starfað Einar Sigurðsson Háskólabókasafni, Gróa Björnsdóttir Borgarbókasafni og Ólafur Pálmason Landsbókasafni í alls fjögur ár. Aðaltilgangur útgáfunnar var að samræma skráningarhætti íslenskra bókasafna. Skráningarreglurnar voru gefnar út í lausblaðaformi sem bráðabirgðaútgáfa árið 1970. Fræðsla og menning Mjög fljótlega eftir stofnun félagsins voru flutt menningarleg og fræðandi erindi um hin ólíkustu málefni. Má þar nefna Guðmund Böðvarsson sem flutti erindi um bóklestur og menningu og hlutverk bókasafna á því sviði. Haraldur Sigurðsson flutti erindi um elstu frásagnir af Íslandi og helstu ferðabækur sem um Ísland fjalla til loka 17. aldar. Guðmundur G. Hagalín
15. Fundargerð Bókavarðafélags Íslands. Stofnfundur. 16. Ólafur Pálmason, Skráningarreglur bókasafna, Árbók Landsbókasafns 1970, s. 157-167.
25
bókasafnið
35. árg. 2011
fjallaði um alþýðumenningu, bóklestur og bókasöfn. Þorsteinn M. Jónsson flutti erindi um bókagerð og bókaást Íslendinga. Páll Jónsson sýndi litmyndir af ferðum sínum víðs vegar um landið. Ólafur Pálmason flutti erindi um Magnús Stephensen og bókmenntastarfsemi hans og Vigdís Björnsdóttir flutti erindi um vörslu skjala og bóka og viðgerðir á gögnum, auk þess sem hún sýndi sýnishorn af viðgerðu efni. Þessi upptalning gefur sýnishorn af því hversu ríkt menningarhlutverk félagsins var frá upphafi. Árið 1962 var lögð fram tillaga í stjórn félagsins um að sett yrði á laggirnar nefnd til að koma á námskeiðum fyrir bókaverði og einnig væru haldin bókavarðaþing, til dæmis annað hvert ár þar sem flutt væru fræðandi erindi og efld kynning á bókasöfnum. Fenginn var til landsins K. C. Harrisson yfirbókavörður frá Westminster bókasafninu í London og flutti hann fyrirlestra um starfsemi almenningsbókasafna árið 1967. Fleiri erlendir fyrirlesarar komu til landsins, svo sem Barbara U. Westby frá Bandaríkjunum svo einhver dæmi séu tekin. Launamál Umræður um kjaramál voru talsverðar á fyrstu árum Bókavarðafélagins. Strax árið 1962 var rætt um nauðsyn þess að samræma launakjör bókavarða og sérstök nefnd vann launaflokkaskiptingu fyrir bókaverði í almenningssöfnum. Haldnir voru sérstakir fundir þar sem fjallað var um launakjör. Rætt var um þörf þess að stofna stéttarfélag og einnig var kannað hvort Bókavarðafélagið gæti gerst aðili að BSRB, en þeirri umleitan var endanlega hafnað af BSRB árið 1968 á þeim forsendum að félagið væri ekki kjarafélag og launamál félaga í Bókavarðafélagi Íslands væru í mjög ólíkum farvegi. Launanefnd var síðan skipuð af félaginu 1970 til að vinna að bættri stöðu almenningsbókavarða. Landsfundir Á fundi 1969 lagði Eiríkur Hreinn Finnbogason fram tillögu um landsfund. Tilgangur svona landsfunda átti að vera þríþættur: Að efla stéttarvitund, að auka menntun bókavarða og vekja athygli á starfi safnanna eða „að það hafi áróðursgildi“ eins og segir í bókun. Fyrsti landsfundur Bókavarðafélags Íslands var haldinn 1970 og var þriggja daga ráðstefna. Um 70 bókaverðir mættu á fundinn og var mikið um dýrðir. Menntamálaráðherra, Gylfi Þ. Gíslason, og borgarstjórinn í Reykjavík, Geir Hallgrímsson, fluttu báðir ávörp og kaffisamsæti var haldið í Höfða í boði borgarstjórans. Dagskráin var fjölbreytt og fjallað um íslensk rannsóknarbókasöfn og almenningsbókasöfn, flokkunarreglur og skráningarreglur, íslensk skjalasöfn og handritadeild Landsbókasafns. Einnig hittust almenningsbókaverðir sérstaklega og ræddu um lög um almenningsbókasöfn og launakjör. Rannsóknarbókaverðir ræddu um samskrá um safnkost og bókakaup þeirra. Á þriðja degi var svo fjallað um þjónustu safna fyrir hina ýmsu hópa og einnig töluðu Páll Líndal og Þórhalldur Vilmundarson
26
sem notendur og sögðu frá reynslu sinni. Loks var móttaka í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu fyrir alla ráðstefnugesti. Landsfundir hafa verið haldnir með reglulegu millibili annað hvert ár og haustið 2010 var landsfundur haldinn í Stykkishólmi en þangað var boðið fyrrverandi forseta IFLA, Claudiu Lux frá Þýskalandi, svo segja má að enn hafi landsfundir yfir sér sérstakan brag. Fréttabréf og útgáfa Umræður um útgáfu félagsrita má rekja til 1966 en þá var rætt um möguleika á að gefa út tímarit til fróðleiks fyrir bókaverði og kynningar á starfsemi bókasafna. Árið 1971 hófst útgáfa Fregna sem þá var fjölfaldað og hét Fréttabréf Bókavarðafélags Íslands. Það kom svo út með nýju heiti, Fregnir, 1975. Árið 1974 kom út fyrsta hefti Bókasafnsins og var sú útgáfa í samvinnu við bókafulltrúa ríkisins, Stefán Júlíusson, en embættið hafði hafið útgáfu á Bókasafnstíðindum. Gekk það blað inn í útgáfu Fregna. Upphaflega komu út tvö hefti á ári en undanfarið hefur Bókasafnið aðeins komið út í einu árlegu hefti. Skemmtanir og ferðalög Félagið bauð félögum sínum í skemmtiferðir og voru þessar skemmtiferðir nokkuð reglulegur viðburður. Heimsóttir voru staðir nálægt Reykjavík og einu sinni farið til Vestmannaeyja. Voru þessar skemmtiferðir yfirleitt mjög vel sóttar. Kynningarmál Tillaga um að sýna kvikmyndir af erlendum bókasöfnum var lögð fram árið 1962. Árið 1967 bar Kristín H. Pétursdóttir fram tillögu um að gerðir yrðu sjónvarpsþættir frá bókasöfnum til að kynna starfsemi þeirra. Gerður var sérstakur þáttur sem sýndur var í sjónvarpinu, auk þess sem átak var gert í að kynna bókasöfn bæði í blöðum og útvarpi. Má þar sérstaklega nefna eitt hefti af Samvinnunni sem helgað var bókasöfnum með fjölda greina sem fjölluðu á einn eða annan hátt um nútímastarfsemi bókasafna. Önnur viðfangsefni Margt bar á góma á fundum félagsins. Til viðbótar því sem áður er nefnt má geta um tillögu um að skoða möguleika á innkaupasambandi fyrir almenningsbókasöfn sem gætu sameinast um að kaupa inn bækur en ekkert varð af því. Erlend samskipti Þegar Bókavarðafélagið var stofnað 1960 var þegar nokkur samvinna milli Landsbókasafns og norrænu systursafnanna og því ekki óeðlilegt að starfsmenn í rannsóknarbókasöfnum yrðu þeir fyrstu sem fyndu þörf fyrir sérstakan vettvang. Nordiska Vetenskapliga Bibliotekarförbundet (NVBF) hafði verið stofnað 1947 og var mjög virkur vettvangur fyrir norræna starfsmenn háskóla- og rannsóknarbókasafna. Finnbogi Guðmundsson landsbókavörður sat ársfund NVBF árið 1964 og leiddi það til þess að árið 1966 var fyrsta deildin innan Bókavarðafélagsins stofnuð - Deild bókavarða í rannsóknarbókasöfnum - sem hafði að megintilgangi að efla samstarf bókavarða í íslenskum rannsóknarbókasöfnum. Deildin hafði
bókasafnið
35. árg. 2011
talsvert mikið sjálfstæði frá upphafi og kom fram sem íslenskur fulltrúi í norrænni samvinnu án mikillar samvinnu eða samráðs við Bókavarðafélagið. Deild starfsfólks í almenningsbókasöfnum (DESTAL) var stofnuð 13. júní 1976 og var Hilmar Jónsson, bókavörður frá Keflavík, fyrsti formaður þess, en alls voru 12 stofnendur. Deild skólasafnvarða (DESKÓ) var stofnuð 10. mars 1982 og voru stofnendur 26 og fjölgaði upp í 32 um mitt ár. Fyrsti formaður deildarinnar var bókasafnsfræðingurinn Jónína Guðmundsdóttir. Þar með voru deildirnar orðnar þrjár. Bókavarðafélagið breytir um skipulag Þegar hér var komið sögu vann Bókavarðafélagið mestmegnis í þremur deildum með mismunandi virkni. Félag bókasafnsfræðinga (FB) var stofnað 10. nóvember 1973 og voru margir félagar í einni eða fleiri deildum innan BVFÍ og jafnframt í FB. Því var kallað eftir skipulagsbreytingum og á árunum 1982-1983 var Bókavarðafélagið í sinni upprunalegu mynd lagt niður og gert að regnhlífarsamtökum þriggja sjálfstæðra félaga þar sem deildirnar þrjár voru gerðar að sjálfstæðum félögum. Þannig starfaði félagið um skeið en sífelld vandkvæði voru á skipan í stjórnir þessara félaga þannig að enn var kallað eftir breytingum. Upplýsing verður til árið 2000 Til að gera langa sögu stutta má segja að þróun félaga fyrir starfsmenn bókasafna hafi orðið sambærileg á Íslandi og í nágrannalöndunum þótt tímaramminn sé annar og Bókavarðafélagið stofnað miklu seinna en elstu félögin í þessum löndum. Þau félög sem störfuðu á Íslandi annars vegar og á Norðurlöndunum hins vegar voru ólík að uppbyggingu og inntaki en á svipuðum tíma og Upplýsing var stofnuð árið 2000 var líka verið að sameina ólíka hópa í eitt félag, bæði á Bretlandseyjum og í Svíþjóð. Með stofnun Upplýsingar var komin lending í þeirri þróun að mismunandi áherslur í starfsemi bókasafna og upplýsingamiðstöðva ættu sér altént sameiginlegan, heimspekilegan og faglegan grunn sem fælist í skipulagningu og miðlun upplýsinga án tillits til starfsvettvangs.
Abstract The Icelandic Library Association (Bókavarðafélag Íslands) was founded on December 6, 1960 and is therefore 50 years old. The foundation of an association for librarians came about much
Fundargerð stofnfundar með hendi Haraldar Sigurðssonar.
later in Iceland than in the neighbouring countries, such as the Nordic countries. The Association was founded by 37 individuals from public libraries, the University Library, the National Library and the National Archives. During the first 10 years the Association was very active, focused on professional issues such as an Icelandic version of the Dewey Decimal Classification System as well as Icelandic cataloguing rules. Furthermore they were concerned with education and training of librarians, publications of a newsletter and later a journal, annual conferences and PR-activities to emphasize the importance of libraries. Gradually the Association was divided into three special groups, research librarians, public librarians and school librarians. By the 1980s the Association became an umbrella for the three groups that became special association. By 2000 all the factions were united into one association, Upplysing - the Icelandic Library and Information Science Association.
27
Það var jafnvel svolítill söknuður að fleygja allri spjaldskránni... Sigrún Klara Hannesdóttir ræðir við Huldu Sigfúsdóttur, fyrstu íslensku konuna sem lærði bókasafnsfræði
Hulda Sigfúsdóttir, fyrsta íslenska konan sem lærði bókasafnsfræði.
Hulda fæddist 24. júlí 1929 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Sigfús Sigurhjartarson, alþingismaður og borgarfulltrúi og Sigríður Stefánsdóttir frá Brettingsstöðum í Laxárdal. Systkin Huldu eru Adda Bára Sigfúsdóttir veðurfræðingur og Stefán Sigfússon landgræðslufulltrúi. Hulda gekk fyrst í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi en þegar hún var 12 ára flutti fjölskyldan af Nesinu til Reykjavíkur og settist að í Miðstræti og fór hún þá í Miðbæjarskólann.
Fyrsta íslenska konan fer til náms í bókasafnsfræði „Tilviljun réði að ég fór í þetta nám. Adda Bára systir mín var að læra veðurfræði í Osló og hún skrifaði mér einu sinni að hún hefði hitt konu sem sagði henni frá systur sinni. „Og veistu hvað. Hún er að læra bókasafnsfræði. Heldurðu að það gæti ekki verið eitthvað fyrir þig.“ Aðstæður mínar voru þá þannig að ég veiktist þegar ég var í 6. bekk Menntaskólans í Reykjavík og þurfti að liggja heilan vetur í rúminu. Ég lauk því stúdentsprófinu utanskóla í ársbyrjun 1950 og vissi í raun ekki hvað mig langaði að gera. Það varð úr að Adda Bára kynnti sér þetta nám nánar og skrifaði mér um það. Mér leist bara vel á en ég hafði engar eiginlegar fyrirmyndir. Ég hafði þó oft komið í Borgarbókasafnið sem þá var til húsa í Ingólfsstræti 12. Pabbi fór með mig á safnið strax og við fluttum í bæinn til að fá lánsskírteini fyrir mig svo ég gæti fengið bækur að láni. En þegar ég hafði skoðað upplýsingarnar frá Öddu fór pabbi á stúfana og útvegaði mér vinnu sem nema í eitt ár til að prófa starfið. Ég var í almennri afgreiðslu í safninu, raðaði bókum, lánaði út og sá alla vega hvernig þetta starf var.“ Þegar Hulda byrjaði í safninu vorið 1950 var Snorri Hjartarson borgarbókavörður. Hún man aðeins eftir af hafa séð
28
Sigurgeiri Friðrikssyni rétt bregða fyrir þegar hún var barn í heimsókn á bókasafninu, en hann hætti við safnið árið sem hann lést eða 1942. Sigurgeir var fyrsti íslenski bókasafnsfræðingurinn og varð jafnframt fyrsti borgarbókavörður, eða bókavörður Alþýðubókasafnsins eins og það hét þá. Eftir árið á Borgarbókasafninu skrifaði Hulda út og sótti um að komast í nemastöðu á Deichmanske bibliotek í Osló. Námið var þannig skipulagt að hver nemandi þurfti að vera tvö ár sem nemi í safni áður en hægt var að hefja nám við Statens bibliotekskole sem síðan var eitt ár. Þetta gekk allt eftir og hún fékk árið á Borgarbókasafninu metið. Námið í Noregi Hulda fór út með Gullfossi til Kaupmannahafnar og síðan með lest til Osló. Flugið var rétt að byrja en það þótti samt sjálfsagt að fara með skipi. En það var nokkuð ævintýralegt og hún var týnd um tíma! Íslensk kona átti að taka á móti henni í Kaupmannahöfn, en þegar skipið lagðist að bryggju var enginn á staðnum svo hún var þarna vegalaus. Þá sá hún fyrir tilviljun tvær íslenskar stúlkur sem hún kannaðist við og þær buðu henni heim til sín. Seinna um daginn fóru þær út að ganga og þá hittu þær Íslending sem þekkti til og gat sagt henni hvar þessi vinkona hennar ætti heima og þær fundu hana. Vinkonan hafði sent aðra fyrir sig til að taka á móti Huldu þar sem hún sjálf hafði þurft að vinna, en fyrir klaufaskap sendiboðans fórust þær á mis. Það var ævintýralegt að koma á Deichmanske bibliotek, borgarbókasafnið í Osló. Það var gríðarlega stórt og mikið. Fengin var stúlka til að fara með Huldu um allt safnið og sýna henni allar deildir og jafnvel geymslurnar og allt þetta virkaði yfirþyrmandi. „Ekki láta mig hræða þig svo þú komir ekki aftur,“ sagði stúlkan. Hún hefur trúlega séð að Huldu var nokkuð brugðið. „Ég fór til náms án þess að vita í raun hvað ég var að fara út í, en þegar maður er ungur eru svona hlutir ekki svo skelfilegir.“ Allt var spennandi og Huldu fannst ekki eitt starf eða deild meira spennandi en önnur. Allt var framandi og við fyrstu sýn var bókasafnið ótrúlega stórt og flókið, til
bókasafnið
35. árg. 2011
Nemendahópurinn við Statens biblioteksskole 1952-1953. Hulda er í öftustu röð, önnur frá hægri.
dæmis voru spjaldskrárnar svakalega stórar. „Allir voru mjög góðir við mig, sérstaklega fullorðnu konurnar sem unnu á bókasafninu og þær fóru með mig um allt til að sýna mér sem mest. Mér hefur alltaf fundist Norðmenn sérstaklega vinalegir og vingjarnlegir gagnvart Íslendingum. Norskan var mér ekki erfið og ég gat fljótt bjargað mér með skóladönskuna mína.“ „Á Deichmanske bókasafninu var ég fyrst á barnadeild, síðan fór ég í útibú og eitthvað fleira. Það voru margar deildir, tekniska avdelingen, og musik avdeling og ég gekk á milli deildanna til að kynnast starfseminni sem best.“ En svo hófst hið eiginlega nám við Statens biblioteksskole haustið 1952 og lauk vorið 1953. Bókasafnið var jafnframt kennslustaður og kennslustofan var á efstu hæðinni í bókasafninu. „Við vorum um 30 nemendur í bókavarðaskólanum og ég var fyrsti og eini útlendingurinn. Við fórum tvo daga í viku í háskólabókasafnið sem var einnig kennslusafn. Sérhæfing var lítil en þó var hægt að sérhæfa sig svolítið á síðasta hluta námsins. Þá gat maður valið á milli tveggja lína, almenningsbókasafna og rannsóknarbókasafna. Í mínum huga var aldrei nein spurning að ég var ákveðin í því að velja almenningsbókasafnið. Ég sá alltaf fyrir mér vinnu á Borgarbókasafninu í Reykjavík.“ Námsgreinarnar í Statens biblioteksskole á þessum tíma voru flokkun og skráning, norsk bókfræði, erlend bókfræði, upplýsingaþjónusta (referansearbeid), norskar bókmenntir og efnisskráning (emnekatalogisering). Í Osló leigðu systurnar saman á pensionati, en í Osló kynntist Hulda manninum sínum, Flosa Hrafni Sigurðssyni, sem var að læra veðurfræði í Osló á þessum tíma. Þau Flosi giftu sig á Þorláksmessu 1953, en hann var þá enn við nám. Þau bjuggu svo saman eftir að Hulda fór út aftur. Börn Huldu og Flosa eru Ágústa Hjördís doktor í hafvísindum og löggiltur skjalaþýðandi og Sigurður tónlistarmaður og yfirkennari við jazzdeild Tónlistarskóla FÍH.
Heim á ný „Ég kom heim eftir námið vorið 1953 en þá hafði Borgarbókasafnið verið lokað og húsnæðislaust í ár. Það hafði verið borið út úr Ingólfsstræti 12 sem var leiguhúsnæði og flutt í geymslu borgarinnar í Skúlatúni 2. Um haustið fékk ég vinnu á safninu, en þá var verið að flytja inn í Esjuberg sem borgin hafði keypt fyrir safnið. Esjuberg var flott einbýlishús sem hafði verði lagfært til að henta betur starfsemi safnsins, en var í raun strax of lítið og á margan hátt óhentugt.“ Árið 1955 fékk Hulda launalaust leyfi frá Borgarbókasafninu og vann þá við Deichmanske bibliotek í Osló, fyrst í aðalútlánsdeildinni og síðan við upplýsingaþjónustu á lestrarsalnum. Hún telur þetta ár hafi verið mjög lærdómsríkt og góð viðbót við skólalærdóminn. Hulda kom heim í ársbyrjun 1956 og fór strax að vinna í Borgarbókasafninu, aðallega við flokkun og skráningu, en flokkunarkerfið sem safnið notaði var danskt afbrigði af Dewey sem Sigurgeir Friðriksson hafði komið með til Íslands frá sínu námi. Flokkunarkerfi Borgarbókasafns var sambland af þessum venjulega Dewey og danska Dewey. Sigurgeir hafði haldið dönsku aðaltölunum, til dæmis var landafræðin í 400 flokknum, en hann notaði samt þrjár tölur fyrir framan punktinn þar sem í Danmörku er punktur settur eftir annan staf. „Oft hafa komið upp þær hugmyndir að breyta um kerfi, en endurflokkun er mikið mál og því hefur ekki verið ráðist í hana. Núna eru flokkstölur mestmegnis uppröðunartæki og ef til vill lítill tilgangur að leggja í þá miklu vinnu sem endurflokkun er. Efnisleit fer nú mest fram í tölvu eftir efnisorðum en ekki flokkstölum.“ Ekki var margt starfsfólk í safninu þegar Hulda byrjaði. Lára Pálsdóttir hafði starfað í safninu um langt árabil, en auk hennar voru þarna Katrín Magnúsdóttir, Páll Jónsson, Kristín Bjarnadóttir, Páll Sigurðsson, Jóhann Sveinsson og Herborg Gestsdóttir. Herborg var nokkurs konar framkvæmdastjóri
29
bókasafnið
35. árg. 2011
og gegndi embætti borgarbókavarðar stuttan tíma eftir að Snorri Hjartarson hætti og áður en Eiríkur Hreinn Finnbogason tók við árið 1966. Fyrsti vísir að upplýsingaþjónustu varð til á þessum fyrstu árum Huldu með því að skrifaðar voru niður í möppu tilvísanir í heimildir sem skólafólk gæti notað við ritgerðasmíð. Þetta kom sér oft vel því lítið var til af skrám og efnisorðalyklum tímarita. Á þessum árum var einnig gerð flokkuð skrá yfir bókakost safnsins. Gerður var efnisorðalykill við skrána og nýttist þessi skrá vel í upplýsingaþjónustunni sem þá var verið að koma á fót í útlánadeildinni. Elísabet Halldórsdóttir og Þóra Sigurbjörnsdóttir unnu þetta verk að hluta til sem lokaverkefni í bókasafnsfræðinni við Háskóla Íslands en verkið var strax nýtt í Borgarbókasafninu. Ekki var nein samvinna milli almenningsbókasafna og rannsóknarbókasafna, hvorki um tölvukerfi, um þróun efnisorða á íslensku né annað. Svo einkennilegt sem það var virtust þetta tveir aðskildir heimar sem ekki studdu hvor annan á nokkurn hátt. Bókavarðafélagið og flokkunarnefndin Bókavarðafélag Íslands var stofnað 1960 og var Hulda einn af stofnendum þess. Stofnfundurinn var haldinn í Hafnarfirði og var Guðmundur G. Hagalín einn af helstu hvatamönnunum að stofnun félagsins. „Það var sérstakt að halda fundinn í safninu hennar Önnu Guðmundsdóttur í Hafnarfirði og okkur þótti safnið ákaflega fínt,“ segir Hulda. Stofnfélagarnir voru nálægt 40 þar af átta konur, allar úr almenningsbókasöfnum. „Stemningin var góð á stofnfundinum en mér fannst þetta ekkert merkilegt, meira bara sjálfsagt.“ Eitt af því fyrsta sem Bókavarðafélagið beitti sér fyrir var að setja á laggirnar flokkunarnefnd til að þýða og aðlaga Deweykerfið að íslenskum aðstæðum. Í flokkunarnefndinni voru Björn Sigfússon, háskólabókavörður, Ólafur Hjartar af Landsbókasafni, Anna Guðmundsdóttir yfirbókavörður á Bókasafni Hafnarfjarðar og Hulda. „Björn Sigfússon var upphaflega formaður flokkunarnefndarinnar. Hann var stórmerkilegur maður. Hann hlustaði alltaf á rök og var oft snöggur að fallast á þau, þótt hann hefði áður haft aðra skoðun og var fyrstur manna til að meta það sem fram var lagt. Hann var minnugur og fróður og það var sko ýmislegt sem bar á góma í þessari flokkunarvinnu, sem var bráðskemmtileg.“ Mikil vinna var lögð í þessa útgáfu en þegar átti að gefa ritið út urðu miklar deilur út af því í hvaða formi þessi bók ætti að vera. „Við í nefndinni vildum að bókin yrði prentuð, en tveir úr stjórn Bókavarðafélagsins kröfðust þess að kerfið yrði gefið út ódýrt í lausblaðaformi. Niðurstaðan var samt sú að flokkunarkerfið var gefið út prentað á vegum Bókafulltrúa ríkisins árið 1970. Þetta varð svo mikið hitamál að þessir tveir gengu úr stjórninni í mótmælaskyni.“ Horft um öxl Fyrir utan þrjú ár við nám og störf við Statens biblioteksskole og Deichmanske bibliotek í Osló starfaði Hulda alla sína starfsævi við flokkun og skráningu í Borgarbókasafninu. Þegar hún
30
Starfsfólk Borgarbókasafns í janúar 1954. Frá vinstri Páll Jónsson, Kristín Bjarnadóttir, Lára Pálsdóttir, Snorri Hjartarson, Hulda Sigrús dóttir, Katrín Magnúsdóttir og Herborg Gestsdóttir.
er spurð hvað henni finnist hafa verið merkilegast á starfsferlinum er hún fljót að svara að það sé tölvuvæðingin. „Gríðarleg vinna var við gerð spjaldskrárinnar. Við fórum í leiðangra úr skráningardeildinni til að raða spjöldum inn í skrár útibúanna. Okkur fannst mikil framför þegar við fengum spjaldafjölritara svo hægt var að fjölga spjöldunum en þurfa ekki að vélrita þau endalaust upp. Vinnan við spjaldskrárnar var gríðarlega mikil og tímafrek og það urðu mikil straumhvörf þegar tölvurnar tóku við og hægt var að leggja af alla þessa spjaldavinnu. Aldrei hefði verið hægt að ímynda sér í upphafi að hægt yrði að henda allri spjaldskránni og allri þeirri vinnu sem fór í að byggja upp skrárnar. Það var jafnvel svolítil eftirsjá í því að fleygja allri þessari vinnu, en svona er tæknin.“ Hulda lét af störfum við Borgarbókasafnið 1. maí 1999 og voru þá liðin 50 ár frá því hún hóf þar fyrst störf.
Abstract It was almost sad to see the card catalogue disappear Hulda Sigfúsdóttir was the first Icelandic woman to study librarianship. She got her degree from Statens bibliotekskole (Norwegian Library School) in Oslo, Norway where she studied 1952-1953. Before that she had worked at the Reykjavik Public Library for a year and in the Deichmanske bibliotek (Oslo Public Library) another year but the entrance requirements for the Library School in those days were two years of practicum before being accepted into the year-long studies. After her studies Hulda returned to Iceland and became one of the key persons in Technical Services for the Reykjavik Public Library creating the card catalogue for the Main Library and all the branches. Hulda was one of the founders of the Icelandic Library Association (Bókavarðafélag Íslands) in 1960 and she was also a member of a three-person committee that created the first Icelandic version of an abridged version of the Dewey Classification System in 1970. She retired in 1999 and that year there were 50 years from the time she had started working in the Reykjavik Public Library.
Sögupokar til að efla tengsl og örva ímyndunarafl
Kolbrún Björk Sveinsdóttir og Svanhildur Eiríksdóttir
Í norrænu bókasafnavikunni 2009 kynnti starfsfólk Bókasafns Reykjanesbæjar nýjan þjónustuþátt fyrir börn og foreldra, sögupoka. Markmið sögupokanna er að efla tengsl foreldra og barna og að gera söguna meira lifandi og skemmtilegri með hlutum henni tengdri. Í hverjum sögupoka er bók og dót sem lesandinn notar til að þroska skynjun barnanna og örva ímyndunarafl. Kynntust verkefninu hjá leikskóla Sögupokunum kynntumst við í leikskólanum Tjarnarseli í Reykjanesbæ en þar eru pokarnir notaðir bæði til skemmtunar og í markvissu lestrarnámi. Verkefninu kynntist starfsfólk skólans í námsferð til Edinborgar árið 2006 og fór að huga að því fljótlega eftir heimkomuna. „Okkur fannst þetta stórkostlegt, sögur í poka,“ sagði Margrét Kolbeinsdóttir leikskólakennari og deildarstjóri í Tjarnarseli í samtali við greinarhöfunda.1 Viðbrögðin hjá börnunum eru ekki síður stórkostleg, þau verða spennt og setjast prúð og stillt líkt og þau séu að fara að upplifa leiksýningu eða horfa á bíómynd. Draumurinn er að lána pokana heim til barnanna um síðir. Það sem er ekki síst heillandi við sögupokana er einfaldleikinn í kringum þá. Leikskólinn á gamla saumavél og við hlið skólans er vefnaðarvöruverslun sem hefur gefið honum
efnisafganga í pokana. Af bókum er nóg í hillum og þegar búið er að ákveða hvaða saga á að fara í viðkomandi poka er farið um allan skólann og fundnir hlutir sem tengjast sögunni. Ef ekkert finnst er það búið til. Leikskólinn á nú 20 sögur sem notaðar er á öllum deildum, meðal annars í markvissri lestrarþjálfun en leikskólinn hefur unnið með hana allt frá árinu 2003 og fengið foreldraverðlaun Heimilis og skóla fyrir. Af öðrum lestrarverkefnum má nefna orðaspjall innan þróunarverkefnisins „Bók í hönd og þér halda engin bönd“2 og bækur eru notaðar eins og hvert annað leiktæki í skólanum, að sögn Ingu Maríu Ingvarsdóttur leikskólastjóra. Sögupokar á fjölskyldudögum Aðstæður á almenningsbókasafni eru öðruvísi en í leikskóla svo lítið hefði gagnast að ganga um safnið og tína saman hluti í sögupoka. Eitthvað nýttist þó af því sem til var en greinarhöfundar brugðu á það ráð að gefa gömlu dóti nýtt líf með því að fara í verslun Rauða krossins í Reykjanesbæ, Kompuna og Góða hirðinn í Reykjavík. Sami hlutur er gjarnan notaður í fleiri en einn poka og ef ekkert finnst er reynt að búa það til. Árangurinn er 10 sögupokar, misstórir eftir sögu og líkt og í Tjarnarseli eru pokarnir heimasaumaðir. Þær sögur sem Bókasafn Reykjanesbæjar á í sögupokum eru: Rauðhetta og úlfurinn, Lata stelpan, Pétur og úlfurinn, Lína langsokkur, Vinaleitin, Allir saman nú, Stjarnan hennar Láru, Örkin hans Nóa og Þrír litlir grísir. Að auki á bókasafnið gamla lúna ferðatösku með bók Bjarkar Bjarkadóttir, Allra fyrsti atlasinn minn, og munum og kortum sem tengjast ferðalögum. Ferðataskan er tekin fram á sumrin. Tveir sögupokar eru hengdir á þar til gerða snaga í hnokkadeild Bókasafnsins á föstudögum, en þá er mesta umferð fjölskyldufólks á safninu. Pokarnir eru einungis ætlaðir til notkunar á safninu, þar sem sýnt þykir að erfitt verður að halda utan um innheimtu hluta sem kunna að lenda með öðru dóti á heimilinu. Oft og tíðum þekkja börnin sögurnar það vel að bókin getur staðið á borði til hliðar og úr verður lítið leikrit,
1. Samtalið fór fram í leikskólanum Tjarnarseli 19. nóvember 2010. Auk Margrétar ræddi Inga María Ingvarsdóttir við greinarhöfunda. 2. Sjá upplýsingar um verkefnið á vef leikskólans, http://tjarnarsel.is/Leikskolinn/Bok_i_hond. Sótt 19. nóvember 2010.
31
bókasafnið
35. árg. 2011
Mæðginin Svala Björk Reynisdóttir og Tómas Tómasson voru með þeim fyrstu að nota sögupokana á Bókasafni Reykjanesbæjar. Hér bregða þau á leik með Rauðhettu og úlfinn.
þar sem handbrúður og hlutir sem fara vel í hendi eru gjarnan notaðir. Með þessu móti má auka gæðasamverustundir fjölskyldunnar og njóta skemmtilegrar upplifunar við iðju sem kostar ekki neitt.
ennfremur hægt að velja hluti sem tilheyra ákveðinni sögu, t.d. hluti sem tilheyra sögunni um Rauðhettu og úlfinn, hluti sem tengjast ákveðnu þema eða hluti af handahófi.6
Nýting hérlendis sem erlendis Það var breski kennarinn og rithöfundurinn Neil Griffiths sem átti hugmyndina að sögupokunum (e. storysacks) en honum fannst að hægt væri að gera lestrarupplifun meira lifandi og áhugaverðari fyrir börn og foreldra. Honum leist ekki á hvað foreldrar og kennarar lögðu of lítinn metnaði í að segja sögu.3 Á undanförnum árum hefur notkun sögupoka í leikskólum, skólum og bókasöfnum aukist til muna og það tíðkast í Bretlandi að sveitarfélög láni út sögupoka, t.d. til menntastofnana, og leikskólar og bókasöfn til almennings. 4 Sögupokar hafa verið notaðir af bókasöfnum til að ná til félagslega einangraðra samfélagshópa, svo sem í fátækrahverfum og fólks af ólíkum uppruna, sem er einangrað vegna tungumálaörðugleika.5 Einnig hefur tíðkast að nota sögupoka í sérkennslu til að efla lestrarfærni og auka áhuga á sögum og lestri og ekki síður í kennslu tvítyngdra barna. Það er meðal annars gert hjá Reykjavíkurborg og í verkefni frá Huldu Karen Daníelsdóttur, „Við kunnum að kenna íslensku“, eru sögupokar nefndir undir góðum ráðum fyrir þá sem kenna íslensku sem annað mál:
Eins og lesa má í þessari grein hafa sögupokar margþætta notkunarmöguleika og auðvelt er að búa þá til án mikils tilkostnaðar. Bókasafn Reykjanesbæjar er stolt af því að geta boðið upp á þá tegund samverustunda sem sögupokarnir gefa möguleika á.
Notið sögupoka með hjálparhlutum. Útbúið sögupoka með heimilishlutum, verkfærum, fötum, snyrtivörum, fígúrum eða hverju öðru sem hægt er að nota til að styðja við sögur og bækur. Í sögupokann er
Í sögupokanum með Örkinni hans Nóa er grænt og blátt efni úr saumakassa starfsmanna fyrir land og haf, plastörk og plaststigi sem fannst á markaði sem seldi notaðan fatnað og dót, Ficher Price tré sem kom úr dótasafni sona starfsmanns og hluti af leikmunum úr stórri tréörk sem innihélt Nóa og frú og par af nokkrum dýrategundum og var til á safninu.
3. Af http://www.nationalliteracytrust.net/Pubs/griffiths2.html. Sótt 22. nóvember 2010. 4. Af http://www.cambridgeshire.gov.uk/leisure/libraries/children/storysacks.htm. Sótt 22. nóvember 2010. 5. Af http://www.nationalliteracytrust.net/socialinclusion/earlyyears/storysackspractice.html. Sótt 22. nóvember 2010. 6. Af http://www.rvk.is/desktopdefault.aspx/tabid-2332/4197_view-74. Sótt 19. nóvember 2010.
32
Upplýsingahegðun og óhefðbundnar heilsumeðferðir Ritrýnd grein
Steinvör Haraldsdóttir
Inngangur Umfjöllunarefni þessarar greinar er upplýsingahegðun græðara. Græðarar veita heilsumeðferðir sem eru oftast kallaðar óhefðbundnar, heildrænar eða viðbótarmeðferðir. Þær eiga sammerkt að þær eru almennt stundaðar utan ramma opinbera heilbrigðiskerfisins. Vegur óhefðbundinna heilsumeðferða fer vaxandi um hinn vestræna heim. Sama þróun á sér stað hér á landi. Samkvæmt nýlegri rannsókn Landlæknisembættisins á notkun óhefðbundinnar heilbrigðisþjónustu á Íslandi, hafði ríflega þriðjungur þátttakenda gengist undir óhefðbundnar heilsumeðferðir. Að mati rannsakenda fer sá hópur stækkandi (Björg Helgadóttir, Rúnar Vilhjálmsson & Þóra Jenný Gunnarsdóttir, 2010). Samfara aukinni notkun óhefðbundinna heilsumeðferða má telja víst að margir séu á höttunum eftir upplýsingum um þessi efni. Jafnframt má ætla að sá hópur fólks sem leitar upplýsinga um óhefðbundnar heilsumeðferðir sé margbreytilegur. Þrátt fyrir vísbendingar um að ofangreindur hópur sé fjölmennur og fari sístækkandi hefur raunverulegt umfang hans og eðli lítið verið kannað. Að sama skapi hafa fáar rannsóknir verið gerðar á upplýsingahegðun1 fólks í tengslum við óhefðbundnar heilsumeðferðir. Hins vegar hafa fjölmargar rannsóknir verið gerðar á upplýsingahegðun sjúklinga og almennings í tengslum við heilsutengd málefni (Case, 2002) og á upplýsingahegðun hinna ýmsu starfsstétta innan heil-
brigðiskerfisins (Case, 2002; Detlefsen, 1998; McKenzie, 2004). Aftur á móti takmarkast rannsóknir á upplýsingahegðun heilbrigðisstétta í tengslum við óhefðbundnar heilsumeðferðir við upplýsingaleit lækna og læknanema (Owen & Fang, 2003; Lie & Boker, 2006) og rannsóknir á upplýsingahegðun meðferðaraðila sem veita óhefðbundnar heilsumeðferðir eru teljandi á fingrum annarrar handar (Steinvör Haraldsdóttir, 2010). Efni þessarar greinar er sótt í MLIS-ritgerð mína sem ber heitið: „Minn sannleikur“ upplýsingahegðun græðara og áhugafólks um óhefðbundnar heilsumeðferðir. Ritgerðin byggir á eigindlegri rannsókn sem var gerð undir handleiðslu dr. Jóhönnu Gunnlaugsdóttur. Markmið og aðferðir Þekking á upplýsingahegðun í tengslum við óhefðbundnar heilsumeðferðir er af skornum skammti. Hér á landi hefur engin rannsókn verið gerð á því hvernig meðferð eða notkun upplýsinga á þessu sviði er háttað. Megintilgangur rannsóknarinnar var að bæta úr ofangreindum þekkingarskorti með því að varpa ljósi á helstu einkenni upplýsingahegðunar græðara í tengslum við óhefðbundnar heilsumeðferðir. Í rannsókninni var leitað svara við fjórum meginspurningum. Í fyrsta lagi var rýnt í upplýsingaþarfir þátttakenda og spurt hvaða aðstæður í lífi þeirra lágu að baki því að þörf fyrir upplýsingar um óhefðbundnar heilsumeðferðir vaknaði og í hverju upplýsingaþarfir þeirra fólust. Í öðru lagi var skoðað hvernig upplýsingaöflun þátttakenda var háttað og hvaða tegundir upplýsinga þeir nýttu sér. Í þriðja lagi var sjónum beint að upplýsingamiðlun þátttakenda og kannað hvaða tilgangi hún þjónaði og hvernig hún fór fram. Loks, í fjórða lagi var leitast við að greina helstu þætti sem settu mark sitt á upplýsingahegðun þátttakenda. Eins og fyrr sagði er ennþá margt á huldu um upplýsingahegðun einstaklinga í tengslum við heilsumeðferðir sem eru stundaðar utan opinbera heilbrigðiskerfisins. Þess vegna hentuðu eigindlegar rannsóknaraðferðir viðfangsefninu einkar vel þar sem styrkur þeirra felst meðal annars í því að
1. Allt hátterni mannsins sem snýr að upplýsingum og aðgangi að upplýsingum (Wilson, 2000).
33
bókasafnið
35. árg. 2011
un. Kynjahlutfallið í rannsókninni endurspeglar þá staðreynd að allflestir græðarar á Íslandi eru konur. Eigindleg rannsóknarhefð byggir á svonefndri aðleiðslu þar sem hlutverk rannsakandans felst í að draga ályktanir af upplýsingum sem gögnin geyma. Í framhaldi af því eru niðurstöður settar fram (Esterberg, 2002). Í byrjun, þegar efni rannsóknarinnar var ákvarðað, var ætlunin að einskorða hana við könnun á upplýsingahegðun græðara. Við greiningu rannsóknargagna kom auk þess ýmislegt í ljós sem varðaði upplýsingaþarfir og upplýsingaleit viðmælenda áður en þeir gerðust græðarar. Í kjölfarið var ákveðið að bæta við umfjöllun um upplýsingahegðun þátttakenda á meðan þeir voru enn í sporum áhugafólks um óhefðbundnar heilsumeðferðir. Þar með gáfu niðurstöðurnar innsýn í sjónarmið bæði græðara og notenda óhefðbundinna heilsumeðferða. Það ber að hafa í huga að niðurstöður rannsóknarinnar endurspegla vitanlega aðeins sjónarhól fáeinna einstaklinga og því ber að forðast að draga almennar ályktanir af þeim. Samt sem áður eru niðurstöður lýsandi fyrir skoðanir þátttakenda og gefa vísbendingar um stöðu mála.
þær gera rannsakandanum kleift að afla víðtækrar innsýnar í persónuleg sjónarmið og markmið þátttakenda og að draga fram áhrifaþætti sem móta hugsunarhátt og ákvarðanir fólks (Taylor & Bogdan, 1998). Í þessari rannsókn var gagna aflað með opnum, hálfstöðluðum viðtölum við átta viðmælendur og með einni þátttökuathugun. Val á þátttakendum í rannsókninni miðaðist við að viðkomandi hefði á einhverju tímabili haft lifibrauð sitt af ástundun óhefðbundinna heilsumeðferða og væri aðili að Bandalagi íslenskra græðara.2 Alls tóku sjö græðarar þátt í rannsókninni; tveir höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnarar, tveir heilsunuddarar og tveir hómópatar. Auk þess var rætt við hómópata sem kom á fót upplýsingavefsíðu um óhefðbundnar heilsumeðferðir. Í samanburðarskyni var einnig rætt við einn notanda óhefðbundinna heilsumeðferða. Auk ofangreindra viðmælenda komu fjórir nafngreindir einstaklingar við sögu sem rannsakandi hitti við þátttökuathugun sem gerð var á heilsusetri. Viðmælendur voru nær eingöngu konur, það er að segja utan eins karlkyns græðara sem rætt var við í þátttökuathug-
Upplýsingaþarfir Fimm af átta viðmælendum greindu frá því að áhugi þeirra á óhefðbundnum heilsumeðferðum hafi kviknað þegar traust þeirra á opinbera heilbrigðiskerfinu beið hnekki. Í rösklega helmingi tilvika tókst ekki að ráða bót á heilsukvillum sem viðmælendur eða börn þeirra áttu við að etja með hefðbundum læknismeðferðum. Í máli viðmælenda kom einnig fram að úrræða- og skilningsleysi sem þeir upplifðu af hálfu lækna og hjúkrunarfólks átti þátt í að þeir leituðu á náðir óhefðbundinna meðferðaraðila. Sem dæmi um slíkt fundu tveir þeirra til vanmáttarkenndar þegar þeim var vísað frá einum lækni til annars, án árangurs. Í tveimur tilvikum þóttu svör lækna misvísandi og stöku sinnum voru umkvartanir viðmælenda ekki teknar trúanlegar. Tvær kvennanna urðu fyrir vonbrigðum með harkalega framkomu heilbrigðisstarfsfólks í sinn garð þegar þær létu í ljós efasemdir um gagnsemi bólusetninga. Það voru ekki einungis vonbrigði með þjónustu heilbrigðiskerfisins sem ollu því að viðmælendur beindu sjónum að óhefðbundnum heilsumeðferðum. Í máli eins viðmælenda kom fram að hann hafi ávallt verið fullur efasemda um óskeikulleika ríkjandi gilda og stofnana. Sú sannfæring birtist meðal annars í áhuga hans á svokölluðum hjávísindum eða fræðum sem falla ekki að kenningum viðurkenndra vísinda. Ennfremur sögðu þrír viðmælenda að áhugi þeirra á óhefðbundnum heilsumeðferðum hafi vaknað samhliða því að þeir tileinkuðu sér hugmyndir og lífstíl sem miðaði að því að lifa í takt við náttúruna. Loks ber að nefna að þrír viðmælenda töldu að
2. Græðarar tilheyra starfsstétt sem veitir heilsumeðferðir sem eru oftast nefndar óhefðbundnar eða heildrænar. Samkvæmt lögum nr. 34/2005 er félögum í Bandalagi íslenskra græðara heimilt að nota auðkennið græðari auk fagheitis. Skilyrði fyrir aðild að Bandalagi íslenskra græðara er að meðferðaraðili fullnægi menntunar- og hæfniskröfum fagfélags sem hann tilheyrir. Þær kröfur eru breytilegar eftir einstökum fagfélögum. Níu fagfélög eru aðilar að Bandalagi íslenskra græðara; Aromatherapyfélag Íslands, CranioSacralfélag Íslands, Cranio, félag höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnara, Félag lithimnufræðinga, Organon, fagfélag hómópata, Svæðameðferðafélag Íslands, Samband svæða- og viðbragðsfræðinga á Íslandi og Shiatsufélag Íslands (Bandalag íslenskra græðara, 2009).
34
bókasafnið
þörf þeirra fyrir upplýsingar á sviði óhefðbundinna heilsumeðferða mætti rekja til fróðleiksþorsta þeirra og löngunar til þess að menntast og öðlast aukinn persónulegan þroska. Í kjölfar þess að viðmælendur hófu að starfa sem græðarar breyttust upplýsingaþarfir þeirra í þá veru að þeir sóttust fyrst og fremst eftir hagnýtum upplýsingum sem gerðu þeim kleift að mæta þörfum og óskum skjólstæðinga. Í tilvikum viðmælenda sem störfuðu einir fléttaðist upplýsingaþörf við þörf til þess að hafa samskipti við jafningja sem deildu sömu aðstæðum og þeir. Þátttaka viðmælenda í námskeiðum og í öðrum mannamótum á vegum græðara hafði þar af leiðandi þann tilgang að afla nýrra upplýsinga samhliða því að njóta samskipta við starfsystkini. Loks ber að nefna að í tilvikum þriggja viðmælenda fólst ein ástæða upplýsingaþarfar í ríkri þörf fyrir að miðla öðrum af þekkingu sinni um óhefðbundnar heilsumeðferðir. Hin sterka þörf fyrir að veita upplýsingar leiddi þannig af sér löngun til þess að afla upplýsinga. Upplýsingaleit og upplýsingabrunnar Eins og áður segir hófst upplýsingaleit flestra þátttakenda í kjölfar þess að þeim varð ljóst að hefðbundin meðferðarúrræði dugðu ekki til þess að vinna bug á sjúkleika sem þeir sjálfir eða ættingjar þeirra glímdu við. Í fyrstu vissu viðkomandi hvorki hvar né hvort úrræði væru fyrir hendi og gátu þar af leiðandi ekki leitað upplýsinga með virkum hætti. En þá greip tilviljun inn í gang mála. Sem dæmi um það bárust við-
35. árg. 2011
mælendum upplýsingar um óhefðbundnar heilsumeðferðir til eyrna í samtölum við vini og ættingja. Einnig voru dæmi um að þeir rákust á viðtöl við græðara og á aðra umfjöllun um starfsemi þeirra í fjölmiðlum. Í framhaldi af því leituðu konurnar meðferða hjá græðara. Góður og óvæntur árangur af heilsumeðferðunum vöktu hrifningu þeirra og áhuga á að kynna sér óhefðbundnar heilsumeðferðir nánar. Viðmælendur áttu allir sammerkt að hin sterka jákvæða reynsla og áhugi sem kynni af óhefðbundnum heilsumeðferðum vöktu með þeim urðu vendipunktar í upplýsingaöflun þeirra um þessi efni. Í framhaldinu markaðist leit þátttakenda ekki eingöngu af tilviljunum heldur varð hún mun markvissari. Viðmælendur nýttu sér margvíslegar leiðir til þess að nálgast markmið sín. Þeir lögðu áherslu á mikilvægi þess að afla sér greinargóðra upplýsinga á hefðbundnum jafnt sem óhefðbundnum heilsumeðferðum í bókum, á námskeiðum og með hjálp netsins. Vinsælustu og aðgengilegustu upplýsingauppsprettur þátttakenda voru netið og samskipti við fólk sem hafði þekkingu og reynslu á sviði óhefðbundinna heilsumeðferða. Vinsældir þess að afla upplýsinga í samtölum fólust í því að samtöl voru aðgengilegur upplýsingabrunnur og höfðu í för með sér samskipti við aðra á sömu bylgjulengd. Það veitti stuðning og hvatningu. Netið naut vinsælda sökum þess hversu auðvelt og fljótlegt var að nálgast yfirgripsmiklar upplýsingar. Það mátti greina þrenns konar aðferðir sem viðmælendur notuðu til þess að nálgast upplýsingar á netinu. Í fyrsta lagi heimsóttu þeir ákveðna vefi sem þeir þekktu fyrir. Í öðru lagi reikuðu viðmælendur um netið á tilviljanakenndan hátt. Þá nýttu þeir sér bæði Google-leitarvélina og vefsíður, sem þeir þekktu fyrir, sem upphafsreit leitarinnar. Í þriðja lagi nýttu tveir þeirra samskiptamöguleika netsins til þess að skiptast á upplýsingum við aðra notendur. Viðmælendum var einnig tíðrætt um gildi þess að sækja fyrirlestra og námskeið. Ennfremur höfðu allir þátttakendur viðað að sér bókum í tengslum við græðarastarfið. Að þeirra sögn kom námsefni og uppflettirit sem fjölluðu um mataræði, bætiefni, líkamsstarfssemi og fleira því tengt, að mestum notum í starfi. Aftur á móti minntist einungis einn viðmælandi á að hann sæktist eftir að kynna sér umfjöllun tímarita á sviði óhefðbundinna heilsumeðferða. Loks er vert að geta þess að þrír viðmælenda höfðu nýtt sér þjónustu bókasafna við upplýsingaleit í tengslum við græðaranám eða -starf. En takmarkað úrval upplýsinga sem bauðst á þessu sviði og fyrirhöfn við að sækja þjónustu almenningsbókasafna dró úr áhuga þeirra á að nýta safnkost bókasafnanna. Þess má geta að það hvarflaði ekki að neinum viðmælenda að upplýsingar um óhefðbundnar heilsumeðferðir væri að finna á háskólabókasöfnum. Þrír viðmælenda sögðu að skráðar upplýsingar nægðu þeim ekki einar og sér þar sem þær kæmu ekki í stað persónulegrar reynslu. Þar af leiðandi töldu þeir mikilvægt að kynna sér verkun heilsumeðferða og náttúrulyfja af eigin raun þar sem það gerði þá betur í stakk búna til þess að ráðleggja fólki um notkun þeirra.
35
bókasafnið
35. árg. 2011
Upplýsingamiðlun Í viðtölum við græðarana kom fram að upplýsingamiðlun þeirra þjónaði tvenns konar tilgangi. Annars vegar fólst hún í ráðgjöf til einstakra skjólstæðinga og hins vegar þjónaði upplýsingamiðlun því hlutverki að kynna þjónustu græðara á opinberum vettvangi. Í hugum allflestra viðmælenda var upplýsingamiðlun sjálfsagður þáttur í daglegu starfi þeirra og óaðskiljanlegur hluti samskipta á milli græðara og skjólstæðinga. Upplýsingamiðlunin fólst einkum í ráðgjöf í tengslum við meðferðir sem skjólstæðingar gengust undir og átti sér bæði stað í samtölum og í tölvupósti. Þátttakendur töldu að samfara vaxandi áhuga fólks á að axla ábyrgð á eigin heilsufari væri brýnt að græðarar veittu skjólstæðingum traustar upplýsingar. Jafnframt litu viðmælendur svo á að hlutverk þeirra fælist ekki eingöngu í því að svara spurningum skjólstæðinga heldur bæri þeim einnig að vekja skjólstæðinga til vitundar um mikilvægi þess að taka fulla ábyrgð á ákvörðunum sem snertu heilsuna. Viðmælendum var einnig tíðrætt um miðlun upplýsinga á opinberum vettvangi. Hún átti sér einkum stað á mannamótum, á netinu, í fjölmiðlum, í kynningum og í upplýsingabæklingum. Á opinberum vettvangi fólst meginmarkmið upplýsingamiðlunar viðmælenda í að auglýsa heilsumeðferðir sem þeir veittu. Kynningin fór fram á tvenns konar máta, annars vegar með virkri þátttöku viðmælenda og hins vegar án beinna afskipta þeirra, í formi afspurnar. Græðararnir töldu afspurn og persónulegar reynslusögur fólks af óhefðbundnum heilsumeðferðum áhrifamestu kynningarleiðina. Að mati flestra viðmælenda kom netið einnig að góðu gagni við að koma upplýsingum um óhefðbundnar heilsumeðferðir á framfæri. Allflestir viðmælendur álitu fjölmiðla vel til þess fallna að koma upplýsingum um óhefðbundnar heilsumeðferðir á framfæri. Einn þátttakenda sem hafði sjálfur skrifað greinar í dagblöð, taldi mikilvægt að gæta varkárni í umgengi við fjölmiðla, þar eð þeim hætti til þess að afbaka upplýsingar og sýndu neikvæðri umfjöllun um óhefðbundnar heilsumeðferðir mestan áhuga. Annar viðmælandi var á öndverðu meiði. Hann taldi hvers kyns umtal af hinu góða því að samkvæmt reynslu hans hafði neikvæð fjölmiðlaumfjöllun um meðferðategund sem hann veitti, vakið athygli á störfum hans og hafði aukna aðsókn í för með sér. Á heildina litið fólst megintilgangur upplýsingamiðlunar græðara, hvort sem hún átti sér stað á milli græðara og skjólstæðings eða á opinberum vettvangi, í því að koma áreiðanlegum upplýsingum varðandi óhefðbundnar heilsumeðferðir á framfæri. Í máli þriggja græðara kom auk þess skýrt fram að það var þeim mikið hugsjónamál að fræða fólk um óhefðbundnar heilsumeðferðir. Áhrifaþættir á upplýsingahegðun Hér á undan hefur verið gerð grein fyrir ferlinu sem hegðun viðmælenda fylgdi í leit og miðlun að upplýsingum. Af því má ráða að fyrir tilstilli tilviljunar sem og ríkrar innri sannfæringar
36
viðmælenda um að þeir hefðu fundið þörfum sínum farveg, tóku þeir ákvörðun um að hefja markvissa leit að frekari upplýsingum um óhefðbundnar heilsumeðferðir. Það mátti greina tvo meginþætti sem höfðu áhrif á markvissa upplýsingaleit og upplýsingamiðlun viðmælenda. Annars vegar voru það einstaklingsbundnir eiginleikar og sjónarmið viðmælenda og hins vegar aðstæður sem ríktu í umhverfi þeirra. Áhrifaþættir á upplýsingahegðun sem áttu rætur að rekja til persónulegra eiginleika birtust í fyrsta lagi í því hvernig viðmælendur mátu áreiðanleika upplýsinga. Almennt mátu viðmælendur gæði upplýsinga meira ef þær voru í takt við fyrri þekkingu þeirra og samræmdust viðurkenndum kenningum fræðanna. Auk þess réð persónuleg reynsla og ekki síst innri sannfæring, sem einn viðmælanda kallaði: „minn sannleikur“ miklu um það hvort þátttakendur töldu upplýsingum treystandi. Annars konar persónubundinn áhrifaþáttur fólst í viðbrögðum þátttakenda við ofgnótt upplýsinga á netinu, í fjölmiðlum og víðar. Oftast olli hún minniháttar truflun og pirringi meðal viðmælenda. Í einu tilviki brást viðmælandi við því sem hann kallaði innihaldsrýrt upplýsingaflóð netsins með því að sniðganga netið alfarið. Í máli fimm þátttakenda kom fram sannfæring þeirra um að forsjónin gegndi mikilvægu hlutverki í upplýsingaleit. Þeir sögðust oftsinnis hafa upplifað að nauðsynlegar upplýsingar hafi rekið á fjörur þeirra af einskærri tilviljun. Þeir voru sannfærðir um að þar hafi forsjónin gripið inn í gang mála og fyrir tilverknað hennar hafi réttar upplýsingar borist þeim á háréttu augnabliki. Helstu utanaðkomandi aðstæður sem höfðu áhrif á upplýsingahegðun þátttakenda og hvöttu þá til þess að afla upplýsinga var gott aðgengi að upplýsingum á netinu og fjöldi námskeiða og funda sem bauðst um málefni á sviði óhefðbundinna heilsumeðferða. Á hinn bóginn leiddi rannsóknin í ljós að ótti við gagnrýni af hálfu almennings og heilbrigðisstarfsfólks takmarkaði upplýsingaleit og upplýsingamiðlun þátttakenda. Það lýsti sér í því að að þátttakendur fóru gætilega í allri umræðu um störf græðara. Í tveimur tilvikum treystu þeir sér ekki til þess að vekja máls á óhefðbundnum heilsumeðferðum ef þeir þekktu ekki afstöðu viðmælenda í garð óhefðbundinna meðferða. Einnig voru tvö önnur dæmi um að reynsla þátttakenda af harkalegum viðbrögðum heilbrigðisstarfsfólks þegar óhefðbundnar heilsumeðferðir bar á góma hafi leitt til þess að þeir forðuðust alfarið að bera spurningar eða vangaveltur sem tengdust óhefðbundnum heilsumeðferðum undir lækna eða hjúkrunarfræðinga. Loks má geta þess að viðmælendur mættu ekki einungis hindrunum í leit og miðlun upplýsinga í samskiptum við utanaðkomandi aðila. Einn græðari taldi sig skynja tregðu starfsfélaga sinna við að miðla þekkingu til starfssystkina. Ástæðuna rakti hann til samkeppni sem ríkti innan hópsins.
bókasafnið
Umræður Ljóst er að notkun á þjónustu græðara er í sókn hér á landi. Ástæður þess eru vafalaust margar. Niðurstöður rannsókna erlendis (Jonas,1998; Chao, Wade, Kronenberg, Kalmuss & Cushman, 2006) benda til þess að helstu skýringar á því hvers vegna fólk leitar á náðir græðara séu þær að viðteknar lækningar hafa ekki gagnast því sem skyldi. Samkvæmt rannsókn Zollmann og Vickers (1999) fólst sú óánægja ekki síst í því að fólki þótti skorta bæði tilfinningalegan stuðning heilbrigðisstarfsfólks og skilning á þörf sjúklinga fyrir að taka virkari þátt í eigin meðferð og ákvörðunum sem snertu hana. Í rannsókninni sem er hér til umfjöllunar voru niðurstöður á sama veg. Fimm af átta þátttakendum hófu að leita upplýsinga um óhefðbundnar heilsumeðferðir vegna óánægju með þjónustu almenna heilbrigðiskerfisins sem stafaði annars vegar af því að læknismeðferðir báru ekki tilætlaðan árangur og hins vegar mislíkaði viðkomandi skilningsleysi og totryggni sem þeir töldu sig hafa mætt í samskiptum sínum við lækna og hjúkrunarfólk. Annar helsti drifkraftur að baki upplýsingaleitar þátttakenda um óhefðbundnar heilsumeðferðir var ákafur fróðleiksþorsti og löngun til þess að menntast og að efla persónulegan þroska. Það rímar við niðurstöður upplýsingafræðingsins Thomas D. Wilson (2006) sem áleit að upplýsingaþarfir fólks væru ekki einvörðungu byggðar á þörf fyrir að leysa tiltekið vandamál eða á þörf fyrir að koma til móts við líkamlegar þarfir heldur mætti ekki síður rekja þær til tilfinningalegra
35. árg. 2011
hvata sem fólust í þrá eftir öryggi og sjálfsvirðingu. Jafnframt spila vitsmunalegar þarfir inn í sem ýta undir löngun til þess að skipuleggja fram í tímann og löngun til þess að læra eitthvað nýtt. Í máli þriggja þátttakenda mátti greina að það var þeim mikið áhugamál að deila þekkingu sinni og reynslu af óhefðbundnum heilsumeðferðum. Þarna birtist knýjandi tilfinningaleg þörf til þess að miðla upplýsingum. Það kemur heim og saman við kenningar upplýsingafræðingsins Ken Rioux (2006) um að upplýsingamiðlun fólks stafar ekki síst af tilfinningalegri fullnægju og ánægju sem hlýst af því að uppfræða aðra. Eins og við var að búast breyttist upplýsingaöflun þátttakenda í kjölfar þess að þeir hófu að stunda óhefðbundnar heilsumeðferðir. Hún varð markvissari og beindist að hagnýtum upplýsingum sem nýttust beinlínis í starfi. Græðararnir sem rætt var við sögðust einkum afla upplýsinga í bókum, á námskeiðum og á netinu. Rannsóknir á upplýsingahegðun græðara í bæði Ástralíu og í Bandaríkjunum sýndu að, rétt eins og þátttakendur í rannsókninni, leituðu þeir aðallega upplýsinga í skráðum heimildum (Burns, 2007; Smith o.fl., 2005). Hins vegar leituðu erlendu græðararnir fyrst og fremst upplýsinga í fagtímaritum og í rafrænum gagnasöfnum. Í ljósi þess kom á óvart að einungis einn viðmælandi í rannsókninni nefndi að hann læsi reglulega fagtímarit á sviði óhefðbundinna heilsumeðferða. Enginn þeirra kannaðist við að hafa nýtt sér rafræn gagnasöfn eða háskólabókasöfn en þrír höfðu gert tilraun til þess að afla sér upplýsinga á almenningsbókasöfnum. Aftur á móti töldu þátttakendur í rannsókninni óformlega upplýsingaöflun þeim mun mikilvægari. Þeir voru á einu máli um að ein helsta leiðin til þess að afla sér nýrrar þekkingar í fræðunum væri að ræða við starfssystkin og aðra sem þekktu til á sviðinu og einnig kom fram mikilvægi þess að afla nýrrar þekkingar í faginu með því að prófa heilsumeðferðir og náttúrulyf af eigin raun. Rannsóknin leiddi í ljós að upplýsingahegðun þátttakenda mótaðist af ýmsum áhrifaþáttum, bæði einstaklingsbundnum sem og utanaðkomandi. Áhrif sem mátti rekja til persónulegra eiginleika fólust meðal annars í viðmiðum sem þátttakendur notuðu til þess að meta gagnsemi og gæði upplýsinga. Samkvæmt þátttakendum ákvörðuðust gæði heimilda einkum af fyrri þekkingu og reynslu og af því hvort þær rímuðu við sannfæringu þeirra. Það kemur heim og saman við niðurstöður sálfræðirannsókna sem sýna að upplýsingar öðlist fremur hljómgrunn þegar þær samræmast fyrri skoðunum, þekkingu og gildum einstaklingsins (Wilson, 1997). Upplýsingahegðun þátttakenda mótaðist auk þess bersýnilega af utanaðkomandi áhrifaþáttum og þá ekki síst af neikvæðum viðbrögðum sem þátttakendur sögðust hafa mætt meðal almennings og heilbrigðisstarfsfólks. Það hafði í för með sér að viðkomandi þátttakendur héldu áhuga sínum á óhefðbundnum heilsumeðferðum og upplýsingum um starfsemi sína innan afmarkaðs hóps fólks sem það treysti. Það er umhugsunarefni hvort að sama máli gegni almennt um áhugafólk og notendur óhefðbundinna heilsumeðferða og þá einkum í ljósi tilmæla Landlæknisembættisins:
37
bókasafnið
35. árg. 2011
Landlæknisembættið hefur ávallt lagt á það áherslu að fólk sem er haldið einhverjum sjúkdómi og leitar til þeirra sem stunda óhefðbundna meðferð geri það með vitund síns heilbrigðisstarfsmanns, læknis, hjúkrunarfræðings, sjúkraþjálfara o.s.frv. (Landlæknisembættið, 2009). Í niðurstöðum rannsóknarinnar komu fram ýmis líkindi við niðurstöður rannsókna bandaríska upplýsingafræðingsins Elfreda Chatman (1991) sem rannsakaði einkum upplýsingahegðun jaðarhópa, það er hópa fólks sem deila ekki kjörum og/eða ríkjandi skilningi meirihluta fólks. Einstaklingur sem tilheyrir jaðarhópi býr við hömlur sem eru skapaðar af fólki valdahópum og draga úr möguleikum viðkomandi til þess að tjá hugsanir sínar, tilfinningar og þarfir og koma í veg fyrir að hann njóti og þroski eigin hæfileika. (Young, 2000). Þrátt fyrir að rannsóknir Chatman beindust í flestum tilvikum að fólki sem tilheyrði lægri stéttum og höfðu mun minni almenna menntun en íslenskir græðarar, komu fram ýmis sameiginleg einkenni með þátttakendum rannsóknarinnar og hópum sem Chatman rannsakaði. Sem dæmi bjuggu meðlimir hópanna yfir sameiginlegri heimssýn sem utanaðkomandi kunna að eiga erfitt með að skilja (Chatman, 1991). Það sama átti að vissu leyti einnig við um þátttakendur rannsóknarinnar sem voru sannfærðir um tilvist ákveðinna krafta eða lögmála sem hafa áhrif á gang náttúrunnar og mannslíkamann þar með talinn þó svo að viðurkennd nútímavísindi hafi ekki fært sönnur fyrir þess konar lögmálum. Chatman (1991) taldi ennfremur að fólk sem tilheyrði jaðarhópum hefði tilhneigingu til þess að takmarka upplýsingaleit við óformleg og persónuleg samskipti við fólk sem það treysti. Áþekka tilhneigingu mátti glöggt greina í upplýsingaöflun viðmælenda. Þeir leituðust við að afla upplýsinga með óformlegum hætti og þá einkum í samræðum við jafningja eða aðra sem deildu svipuðum viðhorfum til óhefðbundinna heilsumeðferða. Annað sameiginlegt einkenni upplýsingahegðunar viðmælenda og einstaklinga sem tilheyrðu jaðarhópum birtist í trú græðaranna á að forsjónin stýrði upplýsingaleit að einhverju leyti. Þrír þeirra greindu frá reynslu sinni af því að hafa rekist á gagnlegar upplýsingar fyrir tilstilli forlaganna. Það má spyrja hvort að skýringa á forlagatrú þátttakenda í upplýsingaleit sé að leita í kenningum upplýsingafræðinganna Natalya Godbold (2006) og Elfredu Chatman. Samkvæmt þeim er trúin á mátt forsjónar í upplýsingaleit afleiðing áhrifaleysis og vanmáttakenndar sem fólk í jaðarhópum upplifir. Þær tilfinningar leiða til þess að viðkomandi treystir sér ekki í upplýsingaleit heldur reiðir sig á að forsjónin færi þeim nytsamar upplýsingar. Lokaorð Rétt er að minna á að niðurstöður rannsóknarinnar endurspegla vitanlega aðeins sjónarhól fáeinna einstaklinga og lýsa fyrst og fremst skoðunum og reynslu þátttakenda. Því ber að forðast að draga almennar ályktanir af niðurstöð-
38
unum þó í þeim felist óneitanlega vísbendingar um upplýsingahegðun græðara og um áhrifaþætti sem móta hana. Í framhaldinu mætti nýta niðurstöðurnar til þess að rýna enn frekar í einstaka þætti upplýsingahegðunar græðara hér á landi, til dæmis í því augnamiði að bæta aðgengi græðara, skjólstæðinga þeirra og annarra að upplýsingum sem varða óhefðbundnar heilsumeðferðir. Hugsanlega mætti sameina ofangreind markmið með þróun og gerð upplýsingakerfis. Slíkt kallar óhjákvæmilega á frekari rannsóknir upplýsingafræðinga á mögulegum notendahópum kerfisins og þörfum þeirra.
Abstract Information behaviour and complementary and alternative medicine In spite of increased use and practice of complementary and alternative medicine (CAM), research of information needs, information seeking and information sharing is lacking in this field. The aim of this study was to provide insight into the information behavior of individuals who have both received and practiced CAM. Their information needs, information seeking and information sharing as well as the effects of intervening variables which are rooted in personal caracteristics and in the social context of each person, were examined. The research was based on a qualitative research. Research
bókasafnið material consists of interviews with eight individuals and of one participant observation which was conducted in a health center for CAM. The findings of this study indicate that, in the beginning, the main motivations for seeking information on CAM was the need for solving health issues and/or a strong interest in theories and methods applied in CAM. Originally participants mainly encountered information on CAM by accident, either in conversations with friends and relatives or in the media. These encounters led 7 of 8 participants to complete studies in diverse health treatments and to begin practicing alternative medicine. After the participants began practicing CAM the nature of their information seeking became increasingly goal oriented with practical information regarding their occupation as the main objective. Their principal information sources were personal experience of the effects of divers healing methods, conversations with colleagues and the Internet, as well as books, courses and lectures. Participants had little or no experience of information seeking in libraries or in electronic databases. The information sharing of participants took place in relation to their practice of CAM. The aim of their information sharing was patient consultation and promotion of CAM. The majority of the participants had experienced harsh criticism among the general public, medical doctors and nurses concerning their use and practice of CAM. As a consequence participants were cautious when discussing these topics. For example, they generally avoided to bring up matters concerning CAM when they consulted health professionals. On the whole participants had a strong penchant for constricting information seeking and information sharing to those initiated in the theories and use of CAM. It is important to bear in mind that this study reports only the experience and opinions of a limited number of individuals. Therefore it is inadvisable to make general assumptions based on this study.
35. árg. 2011
Chatman, E.A. (1991). Life in a small world: Applicability of gratification theory to information seeking behavior. Journal of the American Society for Information Science, 42(6), 438-449. Detlefsen, E.G. (1998). The information behaviors of life and health scientists and health care providers: Characteristics of the research literature. Bulletin of the Medical Library Association, 86(3), 385-390. Esterberg, K.G. (2002). Qualitative Methods in Social Research. Boston: McGraw Hill. Foster, A. (2003). Serendipity and information seeking: An empirical study. Journal of Documentation, 59(3), 321-340. Godbold, N. (2006). Beyond information seeking: Towards a general model of information behavior. Information Research, 11(4). Landlæknisembættið (2009). Óhefðbundin meðferð. Sótt þann 16. febrúar 2011 af http://landlaeknir.is/?PageID=387 Lie, D.A. & Boker, J. (2006). Comparative survey of complementary and alternative medicine (CAM) attitudes, use, information-seeking behavior among medical students, residents & faculty. BMC Medical Education, 6(58). Jonas, W.B. (1998). Alternative medicine - Learning from the past, examining the present, advancing to the future. Journal of the American Medical Association, 280(18), 1616-1618.Kaptchuk, T.J. & Eisenberg, D.M. (1998). The persuasive appeal of alternative medicine. The Annals of Internal Medicine, 129(12), 1061-1065. McKenzie, P.J. (2004). Positioning theory and the negotiation of information needs in clinical midwifery setting. Journal of the American Society of Information Science and Technology, 55(8), 685-694. Rioux, K. (2006). Information acquiring-and-sharing. Í Karen E. Fischer, Sandra Erdelez, & Lynne McKechnie (ritstj.), Theories of Information Behavior. Medford. New Jersey: Information Today, Inc., 169-173. Smith, C., Martin, K., Hotham, E., Semple, S., Bloustien, G. & Rao, D. (2005). Naturopaths practice behavior: Provision and access to information on complementary and alternative medicines. BMC Complementary and Alternative Medicine, 5(15). Steinvör Haraldsdóttir (2010). „Minn sannleikur“ upplýsingahegðun græðara og áhugafólks um óhefðbundnar heilsumeðferðir. Óútgefin meistaraprófsritgerð, Háskóli Íslands, Reykjavík. Taylor, S.J. & Bogdan, B. (1998). Introduction to Qualitative Research
Heimildaskrá Bandalag íslenskra græðara (ódagsett). Bandalag íslenskra græðara – fyrir hvað stendur það? Sótt þann 15. febrúar 2009 af http:/big.is Björg Helgadóttir, RúnarVilhjálmsson, Þóra Jenný Gunnarsdóttir (2010). Notkun óhefðbundinnar heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Læknablaðið 96(4), 267-273. Burns, A.M. (2007). A Study of Information Seeking Behavior of Integrative Medicine Professionals. Óútgefin meistaraprófsritgerð, The School of
Methods. A Guidebook and Resource (3. útg.). New York: John Wiley & Sons. Wilson, T.D. (1997). Information behavior: An interdisciplinary perspective. Information Processing & Managing, 33(4), 551-572. Wilson, T.D. (2000). Human information behavior. Informing Science, 3(2), 49. Wilson, T.D. (2006). On user studies and information needs. Journal of Documentation, 62(6), 658–667. Young, I. M. (2000). Five faces of oppression. Í Maurianne Adams,
Information and Library Science of the University of North Carolina at
(ritstj.), Readings for Diversity and Social Justice. New York: Routledge,
Chapel Hill, North Carolina.
35-49.
Case, D.O. (2002). Looking for Information: A Survey of Research in Information Seeking, Needs and Behavior. Amsterdam: Academic Press.
Zollmann, C. & Vickers, A. (1999). Complementary medicine and the patient. British Medical Journal, 319(7223), 1486-1489.
Chao, M., Wade, C., Kronenberg, F., Kalmuss, D. & Cushman, L.F. (2006). Women’s Reasons for Complementary and Alternative Medicine Use: Racial/Ethnic Differences. The Journal of Alternative and Complementary Medicine, 12(8), 719-720.
Myndskreytingar með þessari grein eru sóttar í Flóru Íslands eftir Stefán Stefánsson, 2. útg., Kaupmannahöfn 1924.
39
Niðurskurður hjá Heilbrigðisvísindabókasafni Landspítalans Áhrif á vísindavirkni og klínískt starf á Landspítalanum
Sólveig Þorsteinsdóttir
samhengi þarna á milli. Greint er frá erlendri samvinnu vísindamanna LSH, tilvísanatíðni, aðgangi að vísindagreinum þeirra og birtingu þeirra í opnum aðgangi og fjallað um mikilvægi birtingar á greinum á íslensku og hlutverk bókasafnsins við að koma íslenska efninu á framfæri. Einnig er fjallað um erlendu vísindagreinarnar og mikilvægi þess að birta á erlendum tungumálum. Að lokum er fjallað um niðurskurð hjá safninu frá því að kreppan skall á og hugsanleg áhrif á vísinda- og klínísk störf á Landspítalanum.
Útdráttur Vísindastarf hefur aukist um 900% á Íslandi á tímabilinu 19942008. Rannsóknir og vísindi á heilbrigðissviði eru um 58% af vísindum á Íslandi og er Landspítalinn þar framarlega. Mælingar sýna að í samanburði við aðrar þjóðir er Ísland í efstu sætunum hvað snertir fjölda tilvísana í birtar ritrýndar greinar í heilbrigðistímaritum (1, 2). Aukning á birtingu erlendra ritrýndra greina frá Landspítalanum var 52% á tímabilinu 20012009 (3). Fjöldi vísindamanna sem birti ritrýndar erlendar greinar árið 2009 frá Landspítalanum var um 190. Helstu erlendu samstarfsaðilar Landspítalans í greinaskrifum eru Svíþjóð, Bandaríkin og Bretland. Á fjögurra ára tímabili 20072010 voru 70% samstarfsaðila vísindamanna frá Landspítalanum erlendir. Starfsumhverfi vísindamanna er mikilvægt og skiptir miklu að hafa greiðan aðgang að upplýsingum. Á síðustu þremur árum hefur niðurskurður verið mikill á Heilbrigðisvísindabókasafni LSH. Vísindatímarit eru mikilvægasti hluti safnkostsins en á þessu tímabili hefur hann verið skorinn niður um 25%. Þessi niðurskurður ásamt fækkun starfsfólks á LSH og sú hætta að ungir læknar sem hafa lokið námi erlendis skili sér ekki til starfa á Landspítalanum gæti haft áhrif á vísindavirknina hjá LSH á komandi árum.
Tafla 1: Ritrýndar greinar og bókakaflar LSH 2001-2009
Inngangur Fjallað verður um vísindastörf á Landspítalanum á tímabilinu 2001-2010. Gróska í vísindastörfum hefur verið mikil á þessum tíma. Samtímis hefur aðgangur að rafrænu efni frá bókasafninu aukist og einnig þjónusta. Fjallað verður um hugsanlegt
Samkvæmt samantekt frá Rannís (1), eru áhrif greinaskrifa vísindamanna í heilbrigðisvísindum á Íslandi hæst í ríkjum OECD að meðaltali á tímabilinu 2003 til 2007. Hlutur Íslands í birtingum greina innan Norðurlandanna og á heimsvísu er stór miðað við mannfjölda. Klínískar læknisfræðirannsóknir
40
Tímabilið 2001-2010 – vísindi og rafrænn aðgangur Tafla 1 sýnir birtingar ritrýndra vísindagreina, bóka og bókakafla á níu ára tímabili. Aukning á birtingum erlendra ritrýndra greina frá Landspítalanum var 52% á tímabilinu 2001-2009. Fjöldi vísindamanna sem birtu ritrýndar erlendar greinar árið 2009 frá Landspítalanum var um 190.
bókasafnið eru stærsta rannsóknarsviðið á Íslandi. Þriðjungur birtinga á Íslandi er á því sviði(1). Landspítalinn er þar fremstur í flokki. Til að bera saman tilvísunartíðni Landspítalans við helstu háskólasjúkrahús á Norðurlöndunum var gerð leit í gagnasafninu Web of Science frá ISI (WOS). Tafla 2 sýnir þann samanburð. Samanburðartímabilið var 2007-2010. Fjöldi greina frá Landspítala eru færri en í töflu 1. Í töflu 1 var framkvæmd kembileit að öllum greinum frá Landspítalanum og þannig fundust greinar eftir starfsmenn Landspítalans sem höfðu ekki skráð nafn Landspítalans rétt í greinum sínum og fundust þær ekki þegar leitað var að Landsp* í WOS. Þar sem leitast var við að gera sambærilega leit fyrir hin samanburðar sjúkrahúsin voru aðeins teknar með í töflu 2 greinar þar sem nafnið Landspítali kom fyrir í heiti stofnunar. Sama gildir um töflu 4.
35. árg. 2011
Tafla 3 sýnir alþjóðlega samvinnu Landspítalans. Mest er samvinnan við Svíþjóð, Bandaríkin og Bretland í þessari röð.
Tafla 2 sýnir að meðal tilvísunartíðni ritrýndra greina Landspítalans eru flestar í WOS en þriðja í röðinni þegar allt efni er tekið með í samanburðinum.
Meðal tilvísunartíðni, *allar birtingar 2007-2010
Meðal tilvísunartíðni á ritrýnda grein eða yfirlitsgrein
Landspitali University Hospital
7.62 (Allar birtingar 790)
10.98 (Greinar 535)
University Copenhagen Hospital
7.54 (Allar birtingar 1.224)
9.85 (Greinar 885)
Karolinska University Hospital
5.97 (Allar birtingar 5.817)
7.48 (Greinar 4.399)
Sahlgrenska University Hospital
8.34 (Allar birtingar 3.390)
6.32 (Greinar 2.419)
Helsinki University Central Hospital
8.13 (Allar birtingar 923)
6.21 (Greinar 1.246)
*Allar birtingar (greinar, ritstjórnargreinar, útdrættir, ráðstefnurit, yfirlitsgreinar, bréf og leiðréttingar) Tafla 2: Fjögur helstu sjúkrahúsin á Norðurlöndunum
Tafla 3: Alþjóðleg samvinna Landspítalans
Samvinna Landspítalans er aðeins önnur en alþjóðleg samvinna allra vísindamanna á Íslandi en helstu samvinnuþjóðir Íslands eru Bandaríkin, Svíþjóð og England í þessari röð (2). Tungumál, skráning og aðgangur Tafla 4 sýnir ritrýndar greinar í Hirslunni sem er varðveislusafn Landspítalans en af þeim greinum eru 70% greina birtar í erlendum tímaritum. Læknafélag Íslands gefur út Læknablaðið og þar eru hlutfallslega flestar greinar sem birtast um heilbrigðismál á Íslandi, eða 65% af heildarfjölda. Af þeim 600 erlendu ritrýndu vísindagreinum eru 535 vísindagreinar skráðar í WOS eða 89%. Af þessum greinum í WOS eru 73% birtar í samvinnu við stofnanir utan Íslands og 23% við aðrar íslenskar stofnanir. Aðeins 4% vísindagreina eru eftir höfunda sem eru allir starfandi á Landspítalanum. Ritrýndar vísindagreinar í Hirslunni frá Landspítalanum
í samanburði við tilvísunartíðni í ritrýndar greinar á Landspítalanum
Erlend samvinna í vísindum Erlend samvinna er mikilvæg fyrir litlar þjóðir eins og Ísland. Í samanburði við aðrar þjóðir er samvinna Íslendinga í vísindum mikil og er hún um það bil 25% hærri en á hinum Norðurlöndunum. Þetta gæti verið hluti af skýringunni hvers vegna Landspítalinn er með hærri tilvísanatíðni en norrænu sjúkrahúsin í töflu 2. Birting á móðurmálinu er mikilvæg en skilar lægri tíðni í gagnasöfnum eins og WOS. Samvinna þjóða er mikil þeirra á meðal en einnig þar fyrir utan og er samvinnan mikil við ESB-löndin og Bandaríkin (1). Sama gildir um Landspítalann.
2010
2009
2008
2007
Greinar birtar í erlendum tímaritum
152
157
141
150
70%
Greinar birtar í íslenskum tímaritum
52 *(38)
61 *(45)
75 *(47)
59 *(31)
30%
Ritstjórnargreinar Læknablaðið
22
20
21
21
Ritstjórnargreinar í erlendum tímaritum
2
2
1
1
228
240
238
231
Samtals
* Læknablaðið Tafla 4: Hlutfall ritrýndra vísindagreina sem hafa birst í erlendum og innlendum tímaritum frá Landspítalanum og skráðar í Hirsluna
41
bókasafnið
35. árg. 2011
Flestar greinar eru birtar á ensku eða 70% greina og á íslensku 30% greina. Greinar birtar á ensku hafa hærri tilvísanatíðni í WOS. Aðeins eitt íslenskt tímarit í heilbrigðisvísindum, Læknablaðið, er skráð í PubMed, Scopus og WOS. Aðeins hluti greina sem birtast í blaðinu eru skráðar í WOS en það eru aðeins ritrýndar vísindagreinar. Vísað var aðeins 12 sinnum í þær 52 greinar sem skráðar voru í WOS frá Landspítalanum í Læknablaðinu á tímabilinu 2007-2010. Meðal tilvísunartíðni var 0,23. Ef Læknablaðið væri ekki skráð í WOS væri meðal tilvísunartíðni á hverja grein frá Landspítalanum í WOS fyrir sama tímabil 11,81. Aðeins útdrættir greina í Læknablaðinu eru á ensku og áhrifastuðullinn í WOS er lágur. Það er mikilvægt að lítil þjóð eins og Ísland birti á móðurmálinu bæði til að viðhalda sínu fræðimáli í heilbrigðisvísindum og auðvelda þeim sem lesa ekki ensku að fræðast um heilbrigðismál á móðurmáli sínu. Enskan er mikilvægt birtingarform fyrir íslenska höfunda meðal annars til að auka tilvísunartíðni. Tilvísanatíðni er til dæmis mikilvæg þegar sótt er um erlenda styrki. Íslenskur höfundur sem skrifar um sama efni og gefur út bæði í Læknablaðinu og einnig í erlendu tímariti gæti fengið fjölda tilvísana í erlendar vísindagreinar en enga í sambærilega grein í Læknablaðinu. Læknablaðið hefur neikvæð áhrif á meðaltal tilvitnana á greinar í WOS. Meðal tilvísunartíðni fyrir allar greinar LSH í WOS yfir fjögur ár er 10,98. Með því að sleppa Læknablaðinu væri meðal tilvísunartíðnin 11,81. Munurinn er 0,83 í lægri meðaltilvísanatíðni. Læknablaðið hefur aðeins í nokkur ár verið skráð í alþjóðleg gagnasöfn og áhrif tímaritsins eru enn mjög lítil í WOS. Vísindagreinar frá Landspítalanum í erlendum tímaritum, sem birtast í opnum aðgangi, eru enn mjög lítill hluti greina. Leit var gerð í PubMed og var leitin takmörkuð við greinar frá Landspítalanum á tímabilinu 2007-2010. Af þeim 226 greinum sem voru frá Landspítalanum í þessari leit voru einungis 14% í opnum aðgangi. Af þessum 14% greinum voru 75% í opnum aðgangi í PubMedCentral og 25% í opnum aðgangi frá útgefendum þar sem höfundar höfðu greitt fyrir birtingu. Þetta hlutfall er lægra en opinn aðgangur í heilbrigðisvísindum á heimsvísu sem er um 22% (4). Allar íslenskar heilbrigðisvísindagreinar eru í opnum aðgangi. Þessar íslensku greinar eru varðveittar í Hirslunni. Íslenskir útgefendur hafa gert samkomulag við Hirsluna um birtingu í opnum aðgangi greina sem vistaðar eru í Hirslunni. Vísindaráð Íslands undirritaði Berlínar-yfirlýsinguna varðandi opinn aðgang í maí 2010. Vonandi verður það til þess að íslenskir vísindamenn fara að leyfa birtingu greina sinna í opnum aðgangi. Allar ritrýndar greinar, sem hafa birst í erlendum tímaritum frá Landspítala, eru skráðar og efnisteknar í Hirsluna og síðan er tengt í allan textann hjá útgefenda eða í erlend varðveislusöfn eins og t.d. PubMed Central eða UK PubMed Central. Aðeins 14% eru aðgengilegar í opnum aðgangi og 2% þeirra eru varðveittar í Hirslunni. Heimsóknir í Hirsluna hafa aukist á einu ári um 60%. Árið 2010 voru heimsóknir 135.000 og helmingur gesta kom erlendis frá.
42
Íslenskar greinar, sem hafa birst í íslenskum heilbrigðistímaritum, eru mikið sóttar í Hirslunni. Það sýnir að vísindagreinar sem eru skrifaðar á íslensku þjóna Íslendingum vel. Því er mikilvægt að höfundar skrifi bæði á íslensku og ensku. Niðurskurður og hugsanleg áhrif Niðurskurður hefur verið mikill hjá Heilbrigðisvísindabókasafni LSH frá 2008. Hefur þetta haft áhrif á þjónustu safnsins þar sem safnkostur hefur verið skorinn niður og starfsmönnum fækkað. Frá því að kreppan hófst hefur gögnum verið sagt upp og sparað í mannafla fyrir 63 milljónir króna. Tímaritsáskriftir hafa verið að skornar niður um 25%. Miklar breytingar hafa átt sér stað á tíu árum varðandi útgáfu tímarita. Áskriftir breyttust frá því að vera á prenti yfir í rafrænar áskriftir. Tafla 5 sýnir fækkun prentaðra tímarita hjá LSH. Á tímabilinu 2001-2009 fjölgaði rafrænum tímaritum um 90% en prentuðum fækkaði í sama hlutfalli.
Tafla 5: Fjöldi prentaðra tímarita í áskrift hjá LSH 2001-2009
Innkaupahættir breyttust yfir í miðlæg innkaup að hluta til en hluti af safnkostinum er keyptur eingöngu fyrir Landspítalann. Samlög voru stofnuð eins og til dæmis Landsaðgangurinn og önnur minni samlög sérfræðibókasafna. Til sögunnar komu pakkainnkaup tímarita frá útgefendum þar sem greitt var fullt verð fyrir tímarit sem höfðu verið í prentaðri áskrift hjá söfnunum en fjöldi annarra tímarita fylgdu með í pakkanum sem þurfti aðeins að greiða lítið fyrir, til dæmis 5% - 7% af fullu verði. Núna þegar kemur að niðurskurði reynist erfitt að skera niður þessa pakka. Útgefendur stilla verðinu þannig að ef valið er að taka aðeins hluta af pakkanum í áskrift þá lækkar verðið lítið. Aðgangur að aukatímaritunum lokast við uppsögn. Almennt hafa notendur verið mjög ánægðir með rafræna aðganginn og hafa nýtt hann vel. Því eru það vonbrigði að snúa þurfi þessari jákvæðu þróun við. Rafrænu tímaritin eru mikið notuð. Tafla 6 sýnir aukningu á sóttum greinum hjá notendum LSH á tímabilinu 2003-2008. Árið 2003 voru sóttar greinar rúmlega 70 þúsund en árið 2008 voru sóttar 201.895 greinar. Á tímabilinu 2009-2010 fækkar sóttum greinum um 35% og árið 2010 voru sóttar 73.000 færri greinar en 2008
bókasafnið þegar uppsagnir hófust. Þessi fækkun er meiri en uppsagnir tímarita sem eru 25%.
35. árg. 2011
Örfáar bækur hafa verið keyptar síðastliðin þrjú ár. Bókasafnið hefur á undanförnum árum byggt upp rafrænan bókakost um 400 bóka en litlu hefur verið bætt við það safn síðan kreppan skall á. Sumum af rafbókunum sem voru í áskrift og þurfti að endurnýja árlega hefur verið sagt upp. Þær bækur sem keyptar voru til eignar eru um 300. Þessar bækur hverfa ekki og kemur það sér vel að hafa aðgang að þeim þótt þær muni úreldast fljótlega. Millisafnalánaþjónustan hefur verið öflug hjá safninu frá stofnun þess árið 1968. Tafla 7 sýnir fækkun millisafnalána. Eftir að tímaritin voru aðgengileg í rafrænum aðgangi og fjölgun tímarita með Landsaðganginum og pakkasamningum, fækkaði millisafnalánum mikið.
Tafla 6: Sóttar greinar hjá notendum LSH frá árunum 2003-2010
Til að byrja með var tímaritum sagt upp sem voru með lægstu notkunartíðnina samkvæmt notkunartölum frá útgefendum. Einnig var haft samband við notendur til að kanna hvaða tímaritum mætti segja upp án þess að skerða verulega klíníska þjónustu, kennslu og vísindi. Þegar niðurskurðarkröfurnar jukust var ekki hægt að nota þessi viðmið lengur og flest þau tímarit, sem var sagt upp árið 2010, voru ekki talin skipta sköpum en í flestum tilfellum voru þau mjög dýr. Má þar nefna tímaritið Science sem hefur verið í áskrift hjá Landspítalanum í mörg ár. Rafrænn aðgangur hafði verið í tíu ár og þegar tímaritinu var sagt upp missti safnið aðgang að öllum fyrri árgöngum. Sumir útgefendur veita ekki aðgang að eldri heftum eftir uppsögn og kemur það sér mjög illa fyrir notendur. Ef tímaritið hefði verið á prenti hefðum við ekki misst þennan aðgang. Verðið á rafrænni áskrift fyrir Science var komið upp í 700 þúsund krónur á ári. Landsaðgangurinn hefur enn ekki verið skorinn niður og er það léttir á þessum niðurskurðartímum hjá safninu. Heilbrigðisvísindatímarit í Landsaðgangi beint frá útgefendum eru 1573 talsins. Tímarit í heilbrigðisfræðum eru líka aðgengileg frá EbscoHost og ProQuest Central og eru þau 2563. Sum eru líka í áskrift frá útgefendum. Þessi tímarit henta oft ekki vísindamönnum, sem þurfa aðgang að ritinu um leið og þau koma út eða jafnvel fyrr, en þessi tímarit eru sum með birtingartöf frá sex til tólf mánuðum. Landspítalinn er eftir niðurskurðinn 2010 með 714 tímarit í áskrift sem eru flest á rafrænu formi. Þessi tímarit eru ekki í Landsaðgangi þar sem þau eru mjög sérhæfð og dýr og henta því ekki samlagi eins og Landsaðgangi. Flest þessi tímarit eru ekki aðgengileg nema hjá Landspítalanum og þeim stofnunum sem eru með þjónustusamning við safnið. Opinn aðgangur vísindatímarita er að aukast og vonandi heldur sú þróun áfram. Áskriftum að nokkrum gagnasöfnum hefur verið hætt. Þar á meðal er gagnasafnið Md Consult. Þegar því var sagt upp missti safnið aðgang að 27 tímaritum varanlega þar sem enginn aðgangur er að eldra efni en þetta var áskrift í gegn um gagnagrunn. Einnig missti safnið aðgang að 66 rafrænum bókum, sem voru mikið notaðar.
Tafla 7: Millisafnalán á Heilbrigðisvísindabókasafni LSH frá árinu 2001-2009
Millisafnalán eru að verða mjög dýr þar sem höfundaréttur er orðinn mjög virkur og skilar sér inn í verð greina. Vegna takmarkana frá útgefendum er ekki hægt að afgreiða sumar greinar í lit og ekki á rafrænu formi. Greinar sem eru keyptar beint frá útgefanda eða frá öðrum söfnum þurfa að uppfylla ýmsar kröfur. Í sumum tilfellum má aðeins einn notandi opna greinina í lit. Einnig er greinum eytt úr tölvu notandans eftir stuttan tíma þar sem hugbúnaður tengdur við greinina þegar hún er seld, getur eytt greininni úr tölvu kaupandans samkvæmt reglum útgefenda. Bókasöfn sem hafa þurft að skera niður tímaritsáskriftir hafa reynt að bjóða upp á aðgang að greinunum í staðinn með því að kaupa eða fá lánaðar greinar. Í mörgum tilfellum hafa söfnin ekki getað það vegna mikils kostnaðar. Meðalverð á grein frá útgefenda er kr. 3.000,-. Safnið bauð upp á vinsæla þjónustu þar sem einstakar greinar voru keyptar beint frá útgefanda áður en þær voru gefnar út. Vísindamenn nýttu þessa þjónustu vel en nú hefur þessi þjónusta verið lögð niður vegna niðurskurðar. Í nóvember 2010 var gerð notendakönnun meðal starfsmanna LSH. Ein af spurningunum kannaði hvort niðurskurður tímarita hafi komið niður á störfum þeirra. Sumir notendur höfðu ekki yfir neinu að kvarta en bæði kennarar og vísindamenn höfðu áhyggjur af niðurskurðinum og fannst þetta skerða þjónustu safnsins. Vísindamönnum, sem voru vanir að fá aðgang að greinum á rafrænu formi frá bókasafninu, fannst það tímafrekt að nota millisafnalánaþjónustuna og voru tregir til þess. Sumir voru farnir að kaupa greinar af eigin ráð-
43
bókasafnið
35. árg. 2011
stöfunarfé eða biðja höfunda um að senda sér greinar. Þetta er aðferð sem tíðkaðist áður fyrr. Aðrir sem höfðu nýlega flutt frá Norðurlöndunum þar sem þeir stunduðu nám, gátu enn nálgast greinar í gegnum gamla bókasafnið sitt á Norðurlöndunum. Töldu þeir þennan aðgang gera þeim kleyft að stunda rannsóknir á Íslandi. Fyrir mörgum árum þurftu íslenskir vísindamenn að fara til útlanda til að stunda rannsóknir þar sem upplýsingar voru ekki aðgengilegar á Íslandi. Vonandi verður það ekki aftur raunin. Eftir þriggja ára samdrátt á bókasafninu stóðu vonir til að þessu færi að linna en á þessu ári 2011 tekur ekki betra við. Safnið verður að skera niður um 26,6% af fjárveitingu til safnsins. Heilbrigðisvísindabókasafn LSH er stærsta heilbrigðisvísindabókasafn landsins og er aðeins eitt slíkt starfandi á Íslandi en það er Fagbókasafn FSA á Akureyri. Það má búast við að slíkur samdráttur geti haft víðtæk áhrif á næstu árum. Notendahópur safnsins er stór þar sem safnið þjónar auk starfmanna Landspítalans Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Einnig hefur safnið gert þjónustusamninga við 11 heilbrigðis - og vísindastofnanir víða um land. Allar reiða þær sig á þjónustu safnsins. Á 15 árum hefur heilbrigðisvísindabókasöfnum fækkað um 82% hér á landi. Árið 1995 voru þau 11. Árið 2011 eru þau tvö eins og áður er getið. Fjögur heilbrigðisvísindabókasöfn sameinuðust í Heilbrigðisvísindabókasafn LSH. Tafla 8 sýnir þessa þróun. ØØ 1995-1996. Sjúkrahús Reykjavíkur. Samruni Borgarspítalans og St. Jósefsspítala Landakoti ØØ 3. mars 2000. Samruni Sjúkrahús Reykjavíkur og Landspítali háskólasjúkrahús ØØ 2001. Geðdeildarsafn LSH, Bókasafn LSH, Bókasafn Borgarspítala og Landakotssafnið = Bókasafn Landspítala háskólasjúkrahúss ØØ 2001. Bókasafns- og upplýsingasvið (BUSV) ØØ 2009. Heilbrigðisvísindabókasafn ØØ Þjónustusamningar við Krabbameinsfélagið 2001. Landlæknisembættið 2004. Reykjalundur 2004. Söfn lögð niður ØØ 2010. Heilsugæslan í Reykjavík. Vinnueftirlitið Tafla 8: Fækkun heilbrigðisvísindabókasafna frá árinu 1995
Bókasafns- og upplýsingafræðingum sem störfuðu á þessu sviði hefur fækkað að sama skapi. Við samruna sjúkrahússafnanna 2001 í eitt safn störfuðu á safninu 24 starfsmenn. Árið 2011 starfa á safninu 12 manns í 11 stöðugildum. Starfsmönnum Landspítalans hefur fækkað á síðustu þremur árum um 600. Sumir læknar hafa flutt frá Íslandi, sérstaklega yngri kynslóðin. Læknar sem hafa lokið sérfræðinámi erlendis eru tregir til að flytja aftur til Íslands á þessum verstu tímum. Það kemur fyrir að auglýstar eru stöður sérfræðinga á Landspítalanum sem enginn sækir um. Þetta er breyting frá því fyrir nokkrum árum þegar það var eftirsóknarvert að
44
snúa aftur heim til Íslands og vinna á Landspítalanum. Fjöldi vísindagreina í WOS eða Hirslunni árið 2010 eru aðeins færri en árið 2009. Samdráttur hefur ekki sett mark sitt á birtingu vísindagreina ennþá, en takmarkaður aðgangur að vísindagreinum hlýtur að hafa áhrif á rannsóknir á Landspítalanum. Nýlegar mælingar sýna gildi og arðsemi bókasafna og hafa niðurstöður sýnt að fjárhagslegur ávinningur fyrir hvern dollar sem er fjárfest í háskólabókasafni þar sem stunduð eru vísindi sé $1.6 eða 60% (5). Ein af forsendum þess að árangur náist í vísindum er að hafa aðgang að upplýsingum. Könnun sem gerð var hjá Elsevier árið 2007 sýnir samhengi milli aðgangs að vísindagreinum og útgáfu vísindagreina. Góður aðgangur að vísindagreinum frá bókasöfnum leiðir til betri upplýsinga og vísindamenn ná betri árangri í fræðistörfum sínum. ØØ Notkun - 54% aukning á hverju ári frá 2001-2006 ØØ Tekið mið af fjölda íbúa (höfðatölu) – Notkun tvisvar sinnum hærri en hjá öðrum þjóðum ØØ Fjöldi útgefinna vísindagreina frá Íslandi endurspegla notkun rafrænna gagna Samantekt frá Elsevier árið 2007 um Ísland
Skortur á fjármagni gæti haft neikvæð áhrif á Landspítalann. Háskólasjúkrahúsum sem tekst að laða til sín framúrskarandi starfsmenn ná betri árangri í vísindum og þá um leið góðum framgangi. Stuðningur við vísindastarf og þróunarverkefni er eitt af hlutverkum sérfræðisafna. Árangur byggist á því að niðurstöður rannsókna séu aðgengilegar og nýttar í starfi. Eitt af hlutverkum safnsins hefur verið að skrá útgefið íslenskt efni í heilbrigðisfræðum. Þetta hefur meðal annars verið gert með því að lykla íslensku heilbrigðistímaritin og skrá þau í Hirsluna og Gegni. Einnig hafa starfsmenn safnsins séð um að halda utan um öll vísindaskrif starfsmanna LSH og gera þau aðgengileg. Starfsmenn hafa byggt upp safnkostinn í samræmi við þarfir spítalans og gert hann aðgengilegan. Háskólasjúkrahús eins og Landspítalinn þarf öflugt safn til að styðja við vísindi, kennslu og klínískt starf. Brottflutningur starfsmanna til annarra landa og glötuð tækifæri til að laða ungt fólk aftur til starfa á Íslandi að loknu framhaldsnámi erlendis gæti haft áhrif á afköst í rannsóknum. Ef ekkert heilbrigðisvísindabókasafn er til staðar gæti svo farið að framúrskarandi starfsmenn kæmu ekki heim. Niðurstaða Rannsóknir á Íslandi í heilbrigðisvísindum hafa aukist mikið á síðustu tíu árum. Aukningin í birtingu vísindagreina eftir vísindamenn frá Landspítalanum er svipuð og hjá öðrum norrænum háskólasjúkrahúsum. Aukning hjá öðrum Norðurlandaþjóðum hefur verið í staðbundnum ritum en hjá Landspítalanum einnig í erlendum ritum. Meðaltal tilvísanatíðni vísindagreinar frá Landspítalanum er há í samanburði við önnur norræn sjúkrahús. Greinar, sem eru birtar, eru mun
bókasafnið færri en hjá hinum Norðurlandaþjóðunum en fjöldi birtinga er mikill ef tekið er mið af höfðatölu. Alþjóðlegar greinar frá Landspítalanum eru skrifaðar á ensku. Greinar í Læknablaðinu eru einu íslensku greinarnar sem eru skráðar í erlenda gagnagrunna. Þær eru skrifaðar á íslensku með útdrætti á ensku. Læknablaðið hefur ekki mikil áhrif í alþjóðlegum gagnagrunnum en er vel tekið á Íslandi. Alþjóðlegt samstarf er mikilvægt í vísindastarfi og birtingu vísindagreina. Vísindagreinar í opnum aðgangi eru færri á Íslandi en á alþjóðavísu. Klínísk vísindi eru öflug á Landspítalanum og samstarf við erlenda aðila er mikið og áhrifastuðull vísindagreina er hár á alþjóða vísu. Niðurskurður á Heilbrigðisvísindabókasafni Landspítalans er mikill og hversu mikil áhrif sá niðurskurður hefur á rannsóknir og klínískt starf á sjúkrahúsinu á eftir að koma í ljós.
35. árg. 2011
Heimildir 1. Rannsóknir og þróunarstarf á Íslandi 2009. Rannsóknarmiðstöð Íslands - Rannís; 2009 2. Ritrýndar birtingar og áhrif þeirra, samantekt um árangur Íslands. Reykjavík: Rannsóknarmiðstöð Íslands - Rannís; 2010. 3. Vísindastarf LSH 2009: Landspítali 2010. 4. Scalas E, Björk B-C, Welling P, Laakso M, Majlender P, Hedlund T, et al. Open Access to the Scientific Journal Literature: Situation 2009. PLoS One. 2010;5(6):e11273. 5. Tenopir C, King D, Mays R, Baer A, Wu L. Measuring value and return on investment of academic libraries. Serials. 2010; 23 (3):182 - 90.
Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn
http://www.facebook.com/pages/Reykjavik-Iceland/Landsbokasafn-IslandsHaskolabokasafn/49834298059
Handritasafn
http://www.facebook.com/pages/Reykjavik-Iceland/Handritadeild-Landsbokasafns-IslandsHaskolabokasafns/358872531088
Tón- og myndsafn
http://www.myspace.com/ton_og_myndsafn
Guðrún Hannesdóttir
Aðföng ég hef hlustað með öðru eyranu á ljúfan söng úr skugganum við bókaskápinn á slitrótt stef um lítil sundfit heyrist mér móðurást dúnmjúka bringu sveip í krúnu hrjúfa klaufska unaðstungu svo rennur upp stundin er hljóð taka að skýrast og mér fipast við lesturinn
það kveður við nýjan skerandi tón sarg og dauðahryglu brotnir hálsar brostin augu rifnar fanir og fjaðurstafir rjúkandi húðum og stýfðum vængjum er staflað á völl blóðkollum hlaðið í háan haug undan brekkunni níðingsverkin komin á fullan skrið löngu áður en stafur er kominn á bók ég græt þau þurrum tárum læt fórnarblóðið sem vind um eyru þjóta les sögurnar fagnandi aftur og aftur...
45
Bókasöfnin og kreppan
Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir
Áhrif kreppunnar í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni Í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni hefur starfsfólk þurft að hagræða og skera niður útgjöld eins og aðrir í þjóðfélaginu. Stefnan hefur verið að skerða grunnþjónustu eins lítið og unnt er. Þar má nefna afgreiðslutíma, mönnun í afgreiðslum, aðgang að tölvum og interneti, útlán, millisafnalán, prentun, ljósritun o.fl. Þá hefur hækkunum á gjaldskrá verið stillt mjög í hóf. Mikil áhersla var lögð á að halda Landsaðgangi óbreyttum eftir bankahrunið og með samstilltu átaki allra hagsmunaaðila tókst að tryggja óbreyttar áskriftir út árið 2012. Unnið hefur verið að verkefnum skv. stefnu safnsins en ljóst er að sum þeirra dragast, bæði vegna kostnaðar en einnig vegna færri starfsmanna. Árið 2009 lagði ríkisstjórnin fram áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum sem miðaði að því að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og jöfnuði í rekstrarafkomu ríkisins árið 2013. Áætlunin hefur verið endurskoðuð en safnið eins og aðrar ríkisstofnanir þurfa að skera verulega niður útgjöldin. Niðurskurðurinn hefur ekki verið flatur, heldur mismunandi eftir málaflokkum og hjá safninu var hann um 3% árið 2009, 6,5% árið 2010 og 10% árið 2011. Gert er ráð fyrir áframhaldandi niðurskurði um 5% árin 2012 og 2013. Þessu hefur verið mætt með ýmsu móti. Ársverkum í safninu hefur fækkað úr 82,55 í árslok 2007 í 76,55 í árslok 2010 eða um sex. Þar sem margir þeirra sem hafa hætt hafa verið í hlutastarfi þá hefur starfsmönnum fækkað um 11. Ekki hefur verið ráðið í störf sem hafa losnað nema brýna nauðsyn beri til. Verkefnum hefur verið skipt á aðra starfsmenn og fundnar leiðir til að gera hlutina öðru vísi en áður. Nokkrir hafa farið í lægra starfshlutfall og öll yfirvinna og vaktavinna endurskoðuð. Kostnaður vegna ferða og funda hefur verið skorinn mjög niður og miðast við nauðsynlega fundi vegna þátttöku í samstarfsverkefnum. Risna og veitingar á fundum eru í lágmarki,
46
veitingar við móttökur og opnun sýninga eru mjög hóflegar og rafræn jólakort hafa verið send síðustu ár. Nýjar og hagkvæmari leiðir í upplýsingatækni hafa verið teknar í notkun, til dæmis hafa prentmál verið tekin til gagngerrar endurskoðunar. Áður voru 30-35 starfsmannaprentarar í húsinu en nú er ein prentmiðstöð á hverri hæð með prentara, ljósritunarvél, faxi og öðrum nauðsynlegum tækjum. Kostnaður og utanumhald hefur minnkað umtalsvert og pappírsnotkun minnkað um helming. Símkerfið er í endurskoðun og verður meðal annars útvistað til að spara kostnað og utanumhald og sömuleiðis skjalastjórnarkerfið. Innkaup á efni hafa verið endurskoðuð, sérstaklega hafa áskriftir tímarita og ritraða verið grisjaðar verulega og var það í rauninni þarft verk. Þá hafa verkferlar verið endurskoðaðir til að koma í veg fyrir skörun í innkaupum. Þá hafa mjög margir samningar sem safnið hefur við ýmsa þjónustuaðila verið endurskoðaðir, svo sem ræsting og garðyrkja, og dregið hefur verið úr rafmagnsnotkun, meðal annars með því að slökkva á öllum tölvum í húsinu á nóttunni. Stór hluti viðgerða- og viðhaldsverkefna, svo sem yfirdekking og bólstrun á stólum fer fram innanhúss. Endurnýjun á tölvum hefur verið frestað en venjulega eru þær endurnýjaðar á 3-4 ára fresti. Hins vegar hafa diskastæður sem geyma stafræn gögn verið stækkaðar en lítið hefur verið bætt við af hillum þar sem kerfisbundið hefur verið grisjað í safninu undanfarin tvö ár. Á móti niðurskurðinum hefur safninu tekist að afla aukinna sértekna, meðal annars með þátttöku í ýmsum samstarfsverkefnum og stafrænni endurgerð. Flestir starfsmenn eru mjög meðvitaðir um sparnaðarráð og með augun opin fyrir leiðum til að spara. Sem dæmi má nefna að borga alla reikninga á réttum tíma til að forðast dráttarvexti, að borga marga erlenda reikninga saman eða litla reikninga með Visa korti, leita bestu verða, tilboða og samninga, nýta hlutina betur og hafa í huga að margt smátt gerir eitt stórt.
bókasafnið Guðbjörg Garðarsdóttir
Skólasöfn á erfiðum tímum Ég útskrifaðist í bókasafns- og upplýsingafræði frá Háskóla Íslands 2006 og hef starfað síðan í 350 barna grunnskóla í Reykjavík. Ég er í fullu starfi og þar sem ég er eini starfsmaður safnsins er oft ansi mikið annríki, en umfram allt er þetta einstaklega skemmtilegt og gefandi starf. Síðastliðin ár hefur ekki verið komist hjá miklum sparnaði í rekstri grunnskólanna og skólasafnið hefur lent undir niðurskurðarhnífnum eins og svo margt annað í rekstri skólans. Ég ætla í þessari umfjöllum að nefna nokkur atriði sem koma að daglegum rekstri safnsins. Upplestur Ég hef nokkuð reglulega staðið fyrir upplestrum á safninu, þar sem eldri nemendur lesa upp fyrir þá sem yngri eru og það er alltaf vinsælt. Einnig höfum við fengið rithöfunda í heimsókn til að lesa upp úr nýjustu bókum sínum og segja frá starfi rithöfundarins og nemendur hafa verið mjög ánægðir með þessar heimsóknir. Nú má segja að þessar heimsóknir séu úr sögunni í bili þar sem það kostar of mikla peninga. Rithöfundar hafa þó komið af og til og lesið upp úr bókum sínum án þess að fá greitt fyrir (Þorgrímur Þráinsson er þar fremstur í flokki) og er það alltaf mjög vel þegið og ég held að allir séu sáttir við sitt: Nemendur fá að hlusta á góðan upplestur og um leið tækifæri til að spjalla við höfundinn. Rithöfundar fá að sama skapi góða kynningu og allar bækur eftir viðkomandi höfund staldra stutt við á safninu næstu vikurnar. Kennsla Þar sem oft er mikið um að vera á safninu og lítill tími gefst til að ganga almennilega frá bókum í hillur hef ég að hluta til leyst það með því að virkja nemendur til að aðstoða mig á safninu í bókasafnstímum með því að skanna út bækur og ganga frá í hillur. Þetta er í beinni tengingu við það nám sem fram fer á safninu þar sem ég meðal annars kenni nemendum á flokkunarkerfið (Dewey) og á Gegni.is. Allir nemendur skólans koma reglulega í tíma á safnið og er kennsla samkvæmt námskrá grunnskólanna. Það hefur reynst nemendum mjög gagnlegt að „vinna“ við það sem þau eru að læra og ekki síður fyrir safnið sem nýtur góðs af.
35. árg. 2011
eyðurnar með því að fara á bókamarkaði. Það segir sig sjálft að þegar upp er staðið hafa allir tapað og ég hef sterklega á tilfinningunni að þarna sé verið að spara eyrinn fyrir krónuna. Millisafnalán Ég komst að því í vetur að á sama tíma og okkur á skólasöfnunum var gert að spara eins og unnt er í bókakaupum var ekki sjálfgefið að við fengjum áfram sömu þjónustu á Borgarbókasafninu. Sú leið var stundum valin að leita þangað til að bjarga sér fyrir horn og fylla upp í skort á bókum fyrir kennara í tengslum við kennsluna og nemendur með annað tungumál en íslensku. Við þurftum ekki að hafa áhyggjur af dagsektum þar sem samkomulag var um að skólasöfnin hefðu rýmri útlánstíma og sektir voru ekki inn í dæminu. Nú var lánstíminn styttur og útlit fyrir að við lentum í dagsektum og þá spurði maður sig hvaða vit væri í þessu, að taka úr hægri vasanum (Reykjavík) til að setja í þann vinstri (Reykjavík) með þeim kostnaði sem því fylgdi. Um tíma ríkti óvissa um þetta en sem betur fer hefur skynsemin enn fengið að ráða. Æsifregnir Nú um stundir lifum við ansi undarlega tíma þar sem mikið er um feitletraðar fyrirsagnir í æsifregnastíl í dagblöðum um stórfelldan niðurskurð í starfsemi skólasafnanna. Miklar áhyggjur hafa skapast í kjölfarið og eru allir kvíðnir gagnvart því hvað framtíðin beri í skauti sér og óvissan mikil þar sem enginn veit neitt en þó vita allir að frekari niðurskurður er óumflýjanlegur. Minnkar starfshlutfallið? Verða skólarnir sameinaðir og hvað tekur þá við? Það er erfitt að vinna í slíku starfsumhverfi og er óskandi að þessu óvissuástandi fari að linna svo hægt verði að halda áfram því góða starfi sem hefur verið til staðar á skólasöfnunum, nemendum og starfsfólki skólanna til gagns og ánægju.
Safnkostur Hvað safnkostinn varðar hef ég ætíð látið það ganga fyrir að kaupa sem flestar bækur eftir íslenska höfunda og síðan keypt þýddar bækur ef afgangur er af bókakvóta hverju sinni. Þetta hefur gefist ágætlega. Ég varð fljótlega vör við það eftir að kreppan skall á hversu lítið var um peninga til bókakaupa og um tíma var ekkert keypt. Þetta er mjög slæmt og illt í efni þegar eyða fer að myndast í safnkostinum þar sem ekki er hægt að halda honum eðlilega við ár eftir ár. Í dag kaupi ég einungis eitt eintak af hverri bók sem er óviðunandi fyrir þetta stóran nemendahóp og síðan reyni ég að fylla upp í stærstu
47
bókasafnið
35. árg. 2011
Eyrún Ýr Tryggvadóttir
Sá sem á garð og bókasafn þarfnast einskis frekar1 -Hugleiðingar um mikilvægi bókasafna Bókasöfn hafa verðugu og margþættu hlutverki að gegna í nútíma samfélagi. Þau veita ekki aðeins upplýsingaþjónustu og varðveita söguna, heldur veita þau skemmtun og afþreyingu fyrir unga sem aldna. Þau eru kyrrlátt skjól í lífsins ólgusjó þar sem allir eru boðnir velkomnir og engum má mismuna eftir kyni, kynþætti, trú eða öðru, allir landsmenn skulu eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna samkvæmt lögum nr. 36/1997. Bókasafn hvers sveitarfélags er sameign íbúanna allra og líklega fáir sem vildu missa þau úr samfélaginu. Nú ríður því á að starfsmenn bókasafna, ráðamenn og almenningur allur standi vörð um bókasöfnin í landinu, þegar niðurskurðarhnífnum er sveiflað sem aldrei fyrr og bókasöfn eiga víða undir högg að sækja. Þau eru nefnilega þess eðlis að enginn tekur eftir þeim fyrr en hann þarf á þeim að halda, þau eru hljóðlát og lítt áberandi, en þó mikilvægir máttarstólpar í baklandinu sem enginn vill vera án. Ekkert bendir til þess í dag að mikilvægi bókasafna sé að minnka, þvert á móti verður krafan um upplýsingar og þjónustu sífellt háværari á tímum þar sem allir eru í námi, allir vilja fylgjast með á öllum vígstöðvum, taka þátt í umræðunni, skipta máli. Bókasöfnin eru jú kjörinn vettvangur fyrir fólk til að leita sér heimilda, tilvitnana, samheita og hvaðeina. Hversu margir góðir ræðumenn skyldu lesa bækur? Og fræðimennirnir, menntafólkið? Svarið við því er augljóst og þarf ekki að tíunda hér en það eru ekki aðeins sérfræðisöfn og háskólabókasöfn sem eru mikilvæg fyrir þjóðina. Nei, almenningsbókasöfnin eru ekki síður mikilvæg enda þar að finna afþreyingu ekki síður en fræði fyrir unga sem aldna. Og það er kjarni málsins. Almenningsbókasöfn eru hvort tveggja fræðslustofnanir og menningarstofnanir. Þau hafa í gegnum tíðina oft verið kölluð háskóli alþýðunnar og margir þeir sem ekki hafa átt kost á formlegri menntun hafa sótt sína menntun á bókasöfn. Þau eru staður þar sem sækja má þekkingu, menningu og menntun, almenningi til ánægju og andans eflingar. Hér á landi hafa stjórnvöld margoft lýst þeirri stefnu sinni og framtíðarsýn að bókasöfn hafi mikilvægu hlutverki að gegna í þróun upplýsingasamfélagsins. Upplýsingar og aðgengi að þeim eru einn af hornsteinum þróaðra samfélaga, aðgengi að þekkingu er forsenda allrar þróunar og nýsköpunar. Því skýtur skökku við nú, að um leið og stjórnvöld telja rétt að leggja áherslu á menntun landsmanna og nýsköpun sem leið út úr efnahagsþrengingunum, er mikið skorið niður á bókasöfnum, inn að beini og jafnvel lengra.
1. Cicero, sjá www.tilvitnun.is
48
Við sem störfum á almenningsbókasöfnum vitum að þau voru síst ofalin á tímum hins svokallaða góðæris og því varla af nokkru að taka. Það er erfiður róðurinn víða þar sem þörfin fyrir þjónustuna hefur aukist á sama tíma og allsstaðar er klipið af, hvort sem er af stöðugildum eða innkaupum safngagna. Hér á Húsavík er staðan með þeim hætti að áætlaðar fjárveitingar til safnsins 2011 eru minni að krónutölu en var árið 2007, svo niðurskurðurinn er mikill ef litið er á verðlagsþróun síðustu ára. Öll innkaup eru skorin við nögl, stöðugildum fækkað og opnunartími skertur. En það er ljós í myrkrinu: Útlán hafa víða aukist, komum á bókasöfn fjölgar, fleiri sækja í ódýra afþreyingu, kyrrð og ró hefur náð vinsældum á ný. Því felst í ástandinu ákveðið tækifæri til að efla bókasöfn, auka starfsemi þeirra, teygja sig til þeirra sem orðið hafa illa úti í kreppunni svokölluðu. Margt er hægt að gera án mikils kostnaðarauka og náist aukin nýting safna mun það án efa styrkja okkur öll í baráttunni um fjárveitingarnar. Nú er því lag að bjóða notalegt umhverfi og uppbyggilega iðju fyrir unga sem aldna, bjóða jafnt upplýsingar sem afþreyingu og augnabliks flótta frá veruleikanum inn bækurnar þar sem hægt er að sökkva sér niður í ævintýraheima fjarri dagsins önn. Það er nefnilega svo að það þarf ekki að kosta mikið að láta sér líða betur og gera sér dagamun. Það er mín reynsla sem og margra annarra að séu lítil börn spurð hvert þau langi að fara er svarið ansi oft: Á bókasafnið.
Skemman og Opinn aðgangur
Áslaug Agnarsdóttir
Með hugtakinu „opinn aðgangur“ er átt við það að afrakstur vísindastarfs, sem kostaður er af opinberu fé, sé aðgengilegur öllum á veraldarvefnum. Þar er fyrst og fremst um að ræða rannsóknir sem unnar eru af fræðimönnum og sérfræðingum, meðal annars akademískum starfsmönnum háskóla, og þeim sem hljóta styrki úr opinberum rannsóknar- eða samkeppnissjóðum. Opinn aðgangur að vísindalegu efni er mikið hagsmunamál allra sem stunda einhvers konar rannsóknir eða almenna upplýsingaleit, ekki síst háskóla- og fræðimanna. Helsti tilgangur opins aðgangs er að miðla þekkingu en höfundarréttur breytist hvorki né skerðist. Það er mikilvægt að háskólar móti sér stefnu um opinn aðgang og oftast vinna háskólar og háskólabókasöfn saman að því að ná því markmiði. Hugtakið Opinn aðgangur (e. Open access) og hugmyndafræðin sem því fylgir var mótuð á ráðstefnu sem haldin var í Búdapest í desember 2001. Þar var samþykkt yfirlýsing sem kölluð hefur verið Búdapest-yfirlýsingin (e. The Budapest Open Access Initiative).1 Tæplega 5400 einstaklingar og rúmlega 540 stofnanir hafa skrifað undir samþykktina, meðal annars Harvard háskóli í Bandaríkjunum.2 Tæpum tveimur árum síðar eða í október 2003 var svo samþykkt önnur yfirlýsing um opinn aðgang að rannsóknarupplýsingum í Berlín,
Berlínaryfirlýsingin (e. The Berlin Declaration on Open Access to Scientific Knowledge).3 Í júní 2010 skrifaði Vísinda- og tækniráð undir Berlínaryfirlýsinguna, fyrst íslenskra stofnana. Vísinda- og tækniráð hefur líka tekið afstöðu með opnum aðgangi í stefnu sinni fyrir árin 2010-2012 þar sem segir meðal annars. „Gerðar verði kröfur um að niðurstöður rannsókna sem njóta opinberra styrkja verði birtar í opnum aðgangi og mótuð verði opinber stefna þar að lútandi,“ og „Efnt verði til almennrar vitundarvakningar innan vísinda- og nýsköpunarsamfélagins um mikilvægi opins aðgangs að rannsóknarniðurstöðum.“ 4 Margir erlendir háskólar hafa mótað stefnu um opinn aðgang að vísindalegum upplýsingum en enn hefur enginn íslenskur háskóli samþykkt slíka stefnu. Í viku opins aðgangs í október síðastliðnum unnu rektorar Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Bifröst og Listaháskóla Íslands að sameiginlegri viljayfirlýsingu um mótun stefnu um opinn aðgang en ekki tókst að ganga endanlega frá yfirlýsingunni. Háskóli Íslands hefur ekki skrifað undir þær alþjóðlegu samþykktir sem í boði eru en hefur sett sér það markmið í stefnu sinni fyrir árin 20112016 að móta stefnu um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum og lokaverkefnum. 5 Nefndar eru tvær leiðir við útgáfu í opnum aðgangi, „gullna leiðin“ og „græna leiðin“. Gullna leiðin (open access publishing) felur í sér að grein er gefin út í viðurkenndu tímariti í opnum aðgangi. Sumir útgefendur bjóða upp á þennan möguleika en aðrir taka gjald fyrir að leyfa opinn aðgang að greininni. Kostnaðurinn við birtinguna er oftast greiddur sem hluti af rannsóknarkostnaði af þeim aðilum sem styrktu rannsóknina. Stundum greiða höfundar sjálfir kostnaðinn. Ef græna leiðin (open access repository) er farin er greinin gefin út í opnum aðgangi í varðveislusafni sem oftast er rekið
1. Budapest Open Access Initiative. Sótt 30. desember 2010 á http://www.soros.org/openaccess 2. Budapest Open Access Initiative. Signatures. Sótt 30. desember 2010 á http://www.soros.org/openaccess/view.cfm 3. Berlin Declaration on Open Access to Knowledge in the Sciences and Humanities. Sótt 30. desember á http://oa.mpg.de/lang/en-uk/berlinprozess/berliner-erklarung/ 4. Byggt á styrkum stoðum. Stefna Vísinda- og tækniráðs 2010 til 2012, bls. 18. Sótt 30. desember 2010 á http://www.vt.is/files/Stefna_VTR_20102012_198837433.pdf 5. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016. (2010). Reykjavík: Háskóli Íslands.
49
bókasafnið
35. árg. 2011
af þeirri rannsóknarstofnun sem höfundur starfar hjá. Flestir háskólar á Vesturlöndum hafa til að mynda komið sér upp slíkum varðveislusöfnum. Á Íslandi eru nú starfrækt tvö varðveislusöfn, Skemman6 og Hirslan7 (sjá nánar hér fyrir neðan). Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur tekið þátt í norræna verkefninu Nordbib frá árinu 2006. Nordbib verkefnið var sett á laggirnar eftir að NORDINFO, norrænt ráð um vísindalegar upplýsingar, var lagt niður. Markmið NORDINFO var að stuðla að bættu aðgengi að upplýsingum í þágu vísinda og fræða á Norðurlöndum og markmið Nordbib hefur fyrst og fremst verið að vinna að kynningu opins aðgangs og veita styrki vegna verkefna sem tengjast því. Þátttaka safnsins í þessari vinnu hefur leitt til þess að undirrituð tók að sér að kynna hugtakið opinn aðgangur hérlendis ásamt Sólveigu Þorsteinsdóttur, forstöðumanni Bókasafns Landspítalans, og Ian Watson og Nirði Sigurjónssyni lektorum við Háskólann á Bifröst. Saman höfum við myndað áhugahóp sem hefur unnið að kynningu opins aðgangs með skrifum, málþingum og viðræðum við ýmsa aðila sem málið varðar. Landsbókasafn hefur staðið fyrir tveimur málþingum um opinn aðgang, hið síðara var undirbúið af áhugahópnum. Safnið hefur einnig sett upp drög að vefsíðu um opinn aðgang til kynningar. 8 Eins og áður segir eru tvö varðveislusöfn starfrækt hérlendis, Hirslan og Skemman. Hirslan er rafrænt varðveislusafn sem vistar, varðveitir og miðlar því vísinda- og fræðsluefni sem starfsmenn Landspítala − Háskólasjúkrahúss hafa gefið út. Landsbókasafn rekur og hýsir Skemmuna sem er rafrænt varðveislusafn háskólanna í landinu. Kostir opins aðgangs eru margir. Í grein sem Sólveig Þorsteinsdóttir skrifaði í Bókasafnið 2005 segir hún á bls. 17: „Opið aðgengi að vísindagreinum er svar vísindasamfélagsins og bókasafna við þeim gífurlega kostnaði sem bókasöfn og fræðimenn hafa þurft að leggja af mörkum til að fá aðgang að tímaritum.“ 9 Hún nefnir einnig að opinn aðgangur styrki vísindaþróun og að fræðimenn fái fleiri tilvísanir í verk sín. Peter Suber, einn helsti talsmaður opins aðgangs í Bandaríkjunum, hefur að auki meðal annars nefnt eftirfarandi kosti: greiðari aðgangur fræðimanna að rannsóknarniðurstöðum og aukinn sýnileiki rannsóknarvirkni háskóla.10 Opinn aðgangur nýtist sem sagt bókasöfnum, háskólum, fræðimönnum, sérfræðingum og almenningi sem vill kynna sér niðurstöður rannsókna sem eru unnar fyrir opinbert fé.
Skemman Skemman veitir aðgang að lokaritgerðum nemenda Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans í Reykjavík, Listaháskóla Íslands, Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands. Skemman varðveitir einnig rannsóknarrit kennara og fræðimanna og hýsir ráðstefnurit og tímarit í opnum aðgangi. Þegar þetta er skrifað í lok nóvember 2010 eiga tæplega 7000 höfundar efni í Skemmunni. Langflestir höfundar eru nemendur. Í Skemmunni er einnig að finna 23 doktorsritgerðir, eitt raftímarit með 68 greinum (Nordicum-Mediterraneum), eitt ráðstefnurit með 178 greinum (Rannsóknir í félagsvísindum 2010), bækur, meðal annars ráðstefnurit, ljóðabók, skýrslur og fleira. Ef ritgerðasafnið er skoðað kennir ýmissa grasa. Hægt er að finna ritgerðir um bankahrunið, kreppuna, kirkjutónlist, Kárahnjúkavirkjun, Facebook og blogg, svo dæmi séu nefnd, auk hefðbundnari ritgerða í flestum námsgreinum. Hægt er að fletta upp eftir höfundum, titlum, efnisorðum eða leiðbeinendum en einnig er hægt að leita innan ákveðinna sviða eða deilda. Í Gegni er að finna tengingu við allar ritgerðir sem eru í opnum aðgangi. Nýtt efni bætist við svo til daglega. Skil nema við Háskóla Íslands á rafrænu eintaki í Skemmuna byggir á samþykkt Háskólaráðs frá því í febrúar 2008.11 Þar var erindi frá samstarfsnefnd Háskóla Íslands og Landsbókasafns Íslands − Háskólabókasafns um rafræn skil og varðveislu lokaritgerða nemenda samþykkt einróma. Ákveðið var að nemandinn skyldi hafa val um opinn eða lokaðan (tímabundinn eða ótímabundinn) aðgang að ritgerð sinni og velja sjálfur aðganginn í skilaferlinu. Hafist var handa við að safna ritgerðum í október sama ár. Reyndar hafði Kennaraháskólinn (nú Menntavísindasvið Háskóla Íslands) hafið söfnun ritgerða fyrr ásamt Háskólanum á Akureyri en þeir skólar áttu frumkvæði að Skemmunni. Bókasafn Menntavísindasviðs sér enn um skil nemenda á því sviði en Landsbókasafn hefur umsjón með hinum fjórum sviðum Háskóla Íslands. Nú hafa um 4300 nemendur Háskóla Íslands skilað inn lokaritgerð sinni. Hér eftir verða skil nemenda við Háskóla Íslands á lokaritgerðum í Skemmuna veturinn 2009-2010 skoðuð og viðhorf nemenda til opins aðgangs könnuð eftir sviðum og deildum út frá tölum sem miðast við brautskráningu í júní 2010. Það væri áhugavert að gera sams konar könnun í öðrum háskólum og bera saman við Háskóla Íslands og vonandi verður það gert í náinni framtíð.
6. Skemman. Sótt 7. janúar 2011 á http://skemman.is/ 7. Hirsla, vísinda- og fræðsluefnissafn Landspítalans. Sótt 30. desember 2010 á http://hirsla.lsh.is/lsh/. 8. Opinn aðgangur – Open access. Sótt 30. desember 2010 á http://openaccess.is/ 9. Sólveig Þorsteinsdóttir. (2005). Opið aðgengi og rafræn geymslusöfn vísindagreina. Bókasafnið 2005, bls. 17-23. 10. Málþing um opinn aðgang. Glærur fyrirlesara. (Peter Suber. Open Access Policies for Icelandic Universities.) Sótt 30. desember 2010 á http:// openaccess.is/index.php?mact=News,cntnt01,detail,0&cntnt01articleid=2&cntnt01returnid=56 11. Háskólaráðsfundur 21. febrúar 2008. Sótt 30. desember 2010 á http://www.hi.is/is/skolinn/haskolaradsfundur_21_februar_2008
50
bókasafnið Tölfræði fyrir Háskóla Íslands Við tölfræðivinnsluna voru notaðir útskriftarlistar frá síðastliðnum vetri,12 en Háskóli Íslands brautskráir nemendur þrisvar á ári, í október, febrúar og júní. Tölur miðast við fjölda nemenda sem skiluðu inn ritgerð en ekki fjölda ritgerða. Stundum eru fleiri en einn höfundur að ritgerð. Nemendum á útskriftarlistunum var flett upp í Skemmunni, athugað hvort skil hefðu átt sér stað og hvort ritgerðin væri opin eða lokuð. Talsvert margir nemar skila ekki ritgerð (t.d. nemendur í diplómanámi og nemendur í grunnnámi í verkfræði) og voru þeir því ekki taldir með. Í sumum greinum í grunnnámi á Verkfræði- og náttúruvísindasviði hafa nemendur val um skil og voru þeir taldir með. Þess ber að geta að talning fór að mestu leyti fram sumarið og haustið 2010. Síðan hafa nokkrir nemendur beðið um breyttan aðgang að ritgerð sinni; flestir hafa beðið um lokun en örfáir hafa viljað opna aðganginn.
35. árg. 2011
varðar opinn aðgang er hann misjafn eftir útskriftum og erfitt að koma auga á einhverja reglu þar (sjá mynd 3). Til dæmis var Verkfræði- og náttúruvísindasvið með hátt hlutfall ritgerða í opnum aðgangi bæði í október og febrúar en talsvert lægra hlutfall í júní. Hugvísindasvið var með hærra hlutfall í febrúar en í október en lækkaði svo aftur í júní. Heilbrigðisvísindasvið var aftur á móti með lægra hlutfall í febrúar en hækkaði talsvert í júní. Menntavísindasvið hækkaði sitt hlutfall talsvert eftir því sem leið á veturinn en Félagsvísindasvið minnkaði sitt hlutfall lítillega. Sama má segja ef opinn aðgangur er borinn saman í deildum innan sviða og er mikill munur þar enda afar mismunandi námsframboð innan flestra sviða.
Mynd 2. Hlutfall skila nemenda við H.Í. í Skemmuna 2009-2010. Samanburður milli sviða. Mynd 1. H.Í. 2009-2010 – hlutfall heildarskila í okt., feb. og júní og hlutfall ritgerða í opnum aðgangi.
Á mynd 1 má sjá að skil jukust jafnt og þétt úr 81% í október 2009 upp í 93% í júní 2010. Hlutfall ritgerða í opnum aðgangi jókst einnig lítillega. Nokkur munur er á milli sviða og enn meiri munur á milli deilda innan sviða, bæði hvað varðar skil og hlutfall opins aðgangs og verður hvert svið skoðað nánar hér á eftir. Ef skipting á milli grunnnáms og meistaranáms þeirra sem útskrifuðust í júní 2010 er skoðuð óháð sviði kemur í ljós að skil voru svipuð eða annars vegar 93% (grunnám) og hins vegar 94% (meistaranám). Fleiri nemendur í grunnnámi völdu opinn aðgang (73%) heldur en nemendur í framhaldsnámi (65%). 27% þeirra sem útskrifuðust í júní voru meistaranemar en 73% útskrifuðust úr grunnnámi. Samanburður milli sviða Bæði í október og febrúar voru skil best á Menntavísindasviði. Í júní voru aftur á móti Félagsvísindasvið og Heilbrigðisvísindasvið með hæstu skilaprósentuna (sjá mynd 2). Hvað
Mynd 3. Opinn að gangur að ritgerðum nemenda við H.Í. í Skemmunni 2009-2010. Samanburður milli sviða.
Opinn aðgangur eftir deildum Nú verður opinn aðgangur hjá hverri deild skoðaður nánar. Tölfræðiúrvinnsla miðast hér eftir fyrst og fremst við útskriftina í júní 2010 en hún var langfjölmennust að vanda. Innan sviga er fjöldi útskrifaðra nemenda sem skiluðu ritgerð í Skemmuna.
12. Brautskráning kandídata 24. október 2009, 27. febrúar 2010 og laugardaginn 12. júní 2010. Sótt 30. desember 2010 á http://www.hi.is/skolinn/ brautskraning_kandidata_24_oktober_2009, http://www.hi.is/skolinn/brautskraning_kandidata_27_febrúar_2010 og http://www.hi.is/skolinn/brautskraning_kandidata_laugardaginn_12_juni_2010.
51
bókasafnið
35. árg. 2011
velja sömuleiðis flestir lokaðan aðgang. Í deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda og hjúkrunarfræðideild velja aftur á móti langflestir nemendur opinn aðgang.
Opinn aðgangur eftir deildum
Alls
Meistaranám
Grunnnám
Lagadeild (89)
24%
24%
23%
Lyfjafræðideild (16)
44%
44%
0
Matvæla- og næringarfræðideild (2)
50%
50%
0
Guðfræði- og trúarbragðafræðideild (8)
50%
50%
50%
Viðskiptafræðideild (105)
58%
56%
61%
Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild (99)
63%
67%
63%
Uppeldis- og menntunarfræðideild (27)
67%
89%
13%
Líf- og umhverfisvísindadeild (40)
68%
67%
68%
Hagfræðideild (37)
70%
55%
77%
Kennaradeild (251)
71%
92%
69%
Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild (7)
71%
83%
0%
Íslensku- og menningardeild (58)
72%
50%
77%
Umhverfis- og byggingarverkfræðideild (4)
75%
75%
0
Læknadeild (30)
77%
69%
82%
Félagsráðgjafardeild (60)
78%
87%
76%
Félags- og mannvísindadeild (74)
78%
79%
78%
Sálfræðideild (56)
80%
82%
79%
Stjórnmálafræðideild (41)
76%
83%
70%
Sagnfræði- og heimspekideild (35)
86%
73%
92%
Raunvísindadeild (15)
87%
83%
89%
Jarðvísindadeild (9)
89%
80%
100%
Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda (39)
90%
100%
89%
Hjúkrunarfræðideild (93)
97%
100%
96%
Rafmagns- og tölvuverkfræðideild (1)
100%
100%
0
Tafla 1. Opinn aðgangur eftir deildum og námsstigum að ritgerðum nemenda sem útskrifuðust í júní 2010 úr Háskóla Íslands.
Í töflu 1 má sjá að fjöldi útskrifaðra nemenda úr hverri deild er afar mismunandi og þær deildir þar sem flestir nemendur völdu opinn aðgang að sínum ritgerðum eru ekki á sama sviði. Innan sviða er víða mikill munur á milli deilda. Fjöldi útskrifaðra nemenda er líka afar mismunandi og minna er að marka hlutfallstölur þegar um fáa nemendur er að ræða. Það er áberandi að meirihluti nemenda í lagadeild velur lokaðan aðgang að ritgerð sinni og á það bæði við um nemendur í grunnnámi og framhaldsnámi. Nemendur í lyfjafræði
52
Félagsvísindasvið Frá Félagsvísindasviði útskrifuðust hlutfallslega fleiri meistaranemar en frá öðrum sviðum. 43% þeirra sem útskrifuðust í júní voru meistaranemar en 57% útskrifuðust úr grunnnámi. Innan Félagsvísindasviðs eru sex deildir með ólíku námsframboði. Deildirnar eru félagsráðgjafardeild, hagfræðideild, lagadeild, stjórnmálafræðideild, viðskiptafræðideild og félags- og mannvísindadeild. Í félags- og mannvísindadeild og í félagsráðgjafardeild voru 78% ritgerða í opnum aðgangi. Í stjórnmálafræðideild voru 83% ritgerða í opnum aðgangi og í hagfræðideild 70%. Í viðskiptafræðideild voru 58% ritgerða í opnum aðgangi en lagadeild skar sig verulega úr. Þar voru einungis 24% ritgerða í opnum aðgangi og á það bæði við meistaraprófsritgerðir og ritgerðir í grunnnámi. Á Félagsvísindasviði var því allt frá 24% upp í 83% ritgerða í opnum aðgangi. Í félags- og mannvísindadeild eru kenndar fjórar námsgreinar, bókasafns- og upplýsingafræði, félagsfræði, þjóðfræði og mannfræði. Auk þess er hægt að taka meistarapróf í blaða- og fréttamennsku, fötlunarfræði, náms- og starfsráðgjöf, safnafræði, þróunarfræði o.fl. Í grunnnáminu voru 78% ritgerða í opnum aðgangi (bókasafns- og upplýsingafræði 67%, félagsfræði 87%, mannfræði 73% og þjóðfræði 86%). Það er athyglisvert að í bókasafns- og upplýsingafræði sem hefur heimildaöflun og upplýsingamiðlun að leiðarljósi skuli hlutfallið vera lægst; aðeins 67% nemenda velja opinn aðgang að ritgerð sinni á meðan önnur fög deildarinnar eru með talsvert hærra hlutfall. Heilbrigðisvísindasvið Á Heilbrigðisvísindasviði var hlutfall ritgerða í opnum aðgangi 84%, sem er vel yfir meðallagi. Meistaranemar voru 32% þeirra sem útskrifuðust í júní en nemar í grunnnámi 68%. Hlutfall meistaranema á Heilbrigðisvísindasviði var næsthæst af sviðunum á eftir Félagsvísindasviði. Innan Heilbrigðisvísindasviðs eru sex deildir: hjúkrunarfræðideild, lyfjafræðideild, læknadeild, matvæla- og næringarfræðideild, sálfræðideild og tannlæknadeild. Enginn útskrifaðist úr tannlæknadeild. Fjöldi útskrifaðra er lágur miðaður við önnur svið, nema í hjúkrunarfræðideild (samtals eru nemar í þessari deild 96 eða 47% nema á öllu sviðinu), og eru hlutfallstölur þess vegna ekki eins marktækar í öðrum deildum. Mikill munur var á milli deilda hvað varðar opinn aðgang. Í lyfjafræðideild skila nemendur eingöngu meistaraprófs ritgerðum og voru aðeins 44% ritgerða í opnum aðgangi. Hjúkrunarfræðideild skar sig nokkuð úr varðandi bæði skil og opinn aðgang en 97% ritgerða í hjúkrunarfræði voru í opnum aðgangi, þar af allar ritgerðir meistaranema. Á Heilbrigðisvísindasviði var því allt frá 44% upp í 97% ritgerða í opnum aðgangi.
bókasafnið Hugvísindasvið Hlutfall ritgerða í opnum aðgangi á Hugvísindasviði var 79%, sem er yfir meðallagi. Einungis 65% meistaranema á Hugvísindasviði velja opinn aðgang að sínum ritgerðum en 82% nema í grunnnámi. Á Hugvísindasviði voru meistaranemar aðeins 21% þeirra sem útskrifuðust í júní en nemar í grunnnámi 79%. Innan Hugvísindasviðs eru fjórar deildir með fjölbreytt námsframboð. Deildirnar eru deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, guðfræði- og trúarbragðafræðideild, íslensku- og menningardeild og sagnfræði- og heimspekideild. Innan þessara deilda, sérstaklega íslensku- og menningardeildar eru margar ólíkar námsgreinar, svo sem kvikmyndafræði, listfræði, táknmálsfræði og þýðingafræði. Hvað varðar opinn aðgang var talsverður munur milli deilda í júní en hér gildir hið sama og á Heilbrigðisvísindasviði að tölur eru lágar í sumum greinum. Í deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda luku til að mynda einungis þrír nemendur meistaraprófi og voru allar ritgerðirnar þrjár í opnum aðgangi. Opinn aðgangur var líka algengur meðal nema sem útskrifuðust úr grunnnámi eða 89%. Á Hugvísindasviði voru allt frá 50% upp í 90% ritgerða í opnum aðgangi. Menntavísindasvið Á Menntavísindasviði var hlutfall ritgerða í opnum aðgangi 68% í júní 2010 sem er nokkuð undir meðallagi. Innan Menntavísindasviðs eru þrjár deildir: íþrótta-, tómstundaog þroskaþjálfadeild, kennaradeild og uppeldis- og menntunarfræðideild. Ef skipting milli grunnnáms og meistaranáms hvað varðar opinn aðgang er skoðuð kemur í ljós að 88% meistaranema á sviðinu velja opinn aðgang að ritgerðum sínum en aðeins 66% nema í grunnnámi. Hér ber að nefna að meistaranemar eru hlutfallslega mjög fáir á þessu sviði, aðeins 37 eða 9% af heildarfjölda útskrifaðra af sviðinu. Hvað varðar opinn aðgang var nokkur munur milli deilda í júní, en hlutfall ritgerða í opnum aðgangi var ýmist undir eða yfir meðaltali. Opinn aðgangur að ritgerðum nemenda í grunnnámi allra deilda sviðsins var undir meðaltali í júní eða 63%-71% (íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild 63%, kennaradeild 71% og uppeldis- og menntunarfræðideild 67%). Verkfræði- og náttúruvísindasvið Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði var hlutfall ritgerða í opnum aðgangi 75% sem er aðeins yfir meðallagi. Hlutfall ritgerða í opnum aðgangi minnkaði eftir því sem leið á veturinn. Ef skipting milli grunnnáms og meistaranáms hvað varðar opinn aðgang er skoðuð í júní kemur í ljós að 79% meistaranema á Verkfræði- og náttúruvísindasviði völdu opinn aðgang að sínum ritgerðum og 73% nema í grunnnámi. Hér ber að nefna að meistaranemar eru hlutfallslega fáir í öllum deildum, aðeins 31 alls (eða 28% af heildarfjölda útskrifaðra af sviðinu). Sama má segja um nemendur í grunnnámi en einungis 78 útskrifuðust af sviðinu í júní og af þeim skiluðu ekki nema 48 ritgerð í Skemmuna. Þess ber einnig að geta að í sumum
35. árg. 2011
greinum á þessu sviði geta nemendur valið hvort þeir skila lokaritgerð eða ekki og er því eðlilegt að skilatölur séu lágar miðað við önnur svið. Innan Verkfræði- og náttúruvísindasviðs eru sex deildir. Þær eru iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, jarðvísindadeild, líf- og umhverfisvísindadeild, rafmagns- og tölvuverkfræðideild, raunvísindadeild og umhverfis- og byggingarverkfræðideild. Fjöldi útskrifaðra nema er lágur í flestum deildum og hlutfallstölur um skil og opinn aðgang segja því lítið. Í raunvísindadeild geta nemendur víða valið hvort þeir skila ritgerð og sama á til dæmis við í tölvunarfræði en þar skilaði aðeins einn nemandi ritgerð af þeim sjö sem útskrifuðust. Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði voru 71%-100% ritgerða í opnum aðgangi: (iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræðiog tölvunarfræðideild 71%, jarðvísindadeild 89%, líf- og umhverfisvísindadeild 68%, rafmagns- og tölvuverkfræðideild 100% (1 nemandi), raunvísindadeild 87% og umhverfis- og byggingarverkfræðideild 75%). Eins og áður segir er lítið hægt á álykta út frá þessum tölum þar sem fáir nemendur liggja að baki tölfræðinni. Viðbrögð við Skemmunni Skemman hefur vakið almenna ánægju meðal flestra notenda. Borið hefur á jákvæðri umfjöllun hjá nemendum, kennurum og almenningi. Oftar en einu sinni hefur höfundur ritgerðar bent á það í fjölmiðlum að ritgerðin sé aðgengileg í Skemmunni. Alloft berast fyrirspurnir frá nemendum sem útskrifuðust áður en Skemman kom til sögunnar um hvort þeir geti skilað inn ritgerð sinni. Það er jákvætt en vandkvæðum háð því tryggja þarf að ritgerðin sem skilað er inn sé óbreytt frá þeirri sem skilað var inn á sínum tíma sem prentað eintak. Oftast hefur verið gripið til þess ráðs að biðja leiðbeinanda viðkomandi nemanda að staðfesta að um óbreytt eintak sé að ræða. Þó að viðbrögð við Skemmunni hafi að mestu leyti verið góð hafa einnig heyrst neikvæðar raddir. Einn kennari skrifaði bréf með efnisheitið „Skemmustarfsemi – skemmdarstarfsemi“ og fór fram á að ritgerð nemanda sem hann hafði umsjón með væri fjarlægð úr Skemmunni. Nemandinn hafði valið opinn aðgang. Annar kennari vildi láta loka ritgerð nemanda síns og taldi sig eiga höfundarétt að efni ritgerðarinnar þar sem rannsókn nemandans hafði verið unnin af teymi. Nokkrir nemendur hafa neitað að skila inn rafrænu eintaki af ritgerð sinni. Ástæðurnar eru eflaust margvíslegar en oftast er engin skýring gefin. Til bóta væri að Háskóli Íslands setti skýrar reglur um skil og aðgang. Samantekt Ef deildir og svið Háskóla Íslands eru borin saman í júní sést að ekkert eitt svið sker sig úr og deildirnar eru líka mjög mismunandi hvað varðar opinn aðgang. Það virðist því enn vera að mörgu leyti handahófskennt hvaða nemendur velja opinn aðgang og hverjir velja að loka aðgangi að ritgerð sinni. Innan Félagsvísindasviðs er munurinn einna mestur þar sem laga-
53
bókasafnið
35. árg. 2011
deildin er aðeins með 24% ritgerða sinna í opnum aðgangi en stjórnmálafræðideildin með 83%. Það er líka mikill munur á Heilbrigðisvísindasviði. Þar nær hjúkrunarfræðideildin 97%, sem er mjög hátt hlutfall, en lyfjafræðideildin er aðeins með 44% ritgerða í opnum aðgangi. Lagadeild og lyfjafræðideild skera sig verulega úr hvað þetta varðar. Ein ástæðan gæti verið ótti við hugverkastuld. Innan þessara greina er samkeppnin mikil. Aðrar ástæður nefndar fyrir lokuðum aðgangi eru: fyrirhuguð birting í ritrýndu tímariti, útgáfa í bók, viðkvæmar persónuupplýsingar og viðkvæmar fjármálaupplýsingar. Þó eru margar ritgerðir lokaðar þar sem engin þessara ástæðna er fyrir hendi. Einn nemandi orðaði það svo að honum þætti tilhugsunin um að aðrir væru að lesa eitthvað eftir hann á netinu óþægileg. En opinn aðgangur vinnur hægt og bítandi á og ef Háskóli Íslands og aðrir íslenskir háskólar setja sér stefnu um opinn aðgang munu æ fleiri eflaust velja að veita almenningi aðgang að rannsóknum sínum á netinu í framtíðinni. Lengri gerð þessarar greinar er að finna í Skemmunni
Abstract Skemman and Open Access Skemman is an institutional repository used by six Icelandic universities to archive and preserve electronic copies of academic research as well as students‘ theses. In late November 2010 a total of nearly 7000 authors had submitted their work to Skemman. This article examines the percentage of theses submitted by students at The University of Iceland during the academic year 2009-2010 as well as the percentage of open access theses. Students are required to submit an electronic
copy of their final thesis but can choose between open or closed access. The University of Iceland Council voted to make the submission of electronic copies of final theses mandatory in February 2008. Later that year The National and University Library took over the running of the repository and started to archive electronic copies of theses from the University of Iceland in October 2008. The first academic year of 2008-2009 was not very successful since the repository lacked both formal rules and the necessary publicity. Students graduate from The University of Iceland three times a year, in October, February and June. Results for the academic year 2009-2010 were as follows: In October 81% of those graduating submitted their theses to Skemman. Of these 67% were open access. In February 86% of the graduates submitted their theses and 71% of these were open access. In June 93% of all graduates submitted their theses and again 71% were open access. Whereas the percentage of submissions went up 12%, the percentage of open access theses only increased 4%. There is not an obvious difference between the five schools of The University of Iceland as regards open access but if faculties within the schools are examined a huge difference appears. In June 2010 only 24% of those graduating from the Faculty of Law chose open access as opposed to 97% of those graduating from the Faculty of Nursing. The University of Iceland has not implemented a policy of open access but plans to do so in 2011 which is the 100th anniversary of the foundation of the University. A formal policy is expected to raise the percentage of open access theses as well as encourage academic staff to make their research available to the public in the repository.
Þórhallur Þórhallsson
Sigling
Draumar
Fangaskip siglir fyrir vindum lífsins.
Þar sem draumarnir dvelja í hvítu eggi tröllsins þar sefur sakleysið blátt, skínandi eins og fugl fæðist til að fljúga, fljúga.
Sekkur í gráa eyðimörk. Siglum áfram í dagskímunni. Þú og ég á nýju skipi fegurðarinnar með veruleikann að baki.
54
bókasafnið
35. árg. 2011
Bækur og líf Bestu vinkonur
Jasmín Soffía Siggeirsdóttir
Bókin heitir Leyndarmál og höfundurinn er Jaqueline Wilson. Þóra Sigríður Ingólfsdóttir þýddi hana. Bókin kom út árið 2006 og í henni eru 196 blaðsíður. Aðrar bækur eftir Jaqueline Wilson eru meðal annars Stelpur í stuði, Stelpur í stressi, Stelpur í tárum, Stelpur í strákaleit, Sagan af Tracy Beaker, Lóla Rós, Vinkonur að eilífu og Koss.
Sagan fjallar um tvær stelpur sem heita Indía og Perla. Þær búa báðar í London. Þær eiga ekki svo marga vini og eiga báðar sín fjölskylduvandamál. Indía lítur upp til Önnu Frank sem var gyðingastelpa og þurfti að fela sig í leyniherbergi með fjölskyldu sinni í seinni heimsstyrjöldinni. Hún skrifaði dagbók á meðan hún var þar. Indía skrifar líka í dagbók og býr í ríku hverfi því foreldrar hennar eru ríkir. Mamma Indíu, Moya, á fatafyrirtæki sem heitir Moya Upton-föt og er fyrir stelpur á aldur við Indíu en henni líkar ekki við þau og mamma hennar segir að hún sé í stærri kantinum svo hún komist hvort sem er örugglega ekki í þau. Moya er svo horuð að það lítur út fyrir að það sé hægt að brjóta hendurnar hennar og fætur í tvennt með handafli. Pabbi hennar er framkvæmdastjóri í stóru verktakafyrirtæki sem heitir Hámarks árangur. Indíu finnst hún ekki fá nógu mikla athygli frá þeim og líður eins og hún sé ekki elskuð. Hún er með eldrautt, krullað og hrokkið hár og finnst hún sjálf vera feit. Perla býr við slæmar aðstæður þar sem kærasti mömmu hennar sem heitir Terry beitir hana ofbeldi stundum og svo í eitt skipti þegar hann meiðir hana illa með belti fer hún til ömmu sinnar og fær að búa þar. Amma hennar heitir Ríta og er með sítt ljóst hár og er mjög ungleg. Hún er mjög góð við Perlu en þær búa í Latimer-hverfinu sem foreldar Indíu sögðu að væri ógeðslegt hverfi. Perla skrifar dagbók sem hún er vön að kalla Terry-tæklaður, sem hún fann upp á til þess að beita á hann pyntingum. Perla er horuð og föl.
Fjölskyldan hennar Indíu er með vinnukonu sem heitir Vanda. Hún er dularfull með sítt svart nornahár og er næpuhvít. Hún sækir Indíu daglega í skólann en eitt skipti þegar hún gleymir því ákveður Indía að ganga heim og þarf að ganga í gegnum Latimer-hverfið sem Perla býr í. Þarna hittir Indía Perlu fyrir tilviljun og þær verða bestu vinkonur. Stuttu seinna hringir mamma Perlu og segist vilja fá hana hana aftur heim en hún vill það ekki vegna Terry en mamma hennar segist ætla að sækja hana og er sama hvort hún vilji það eða ekki. Þegar þau Terry koma að sækja hana er Indía búin að finna handa henni felustað svo þau finna hana ekki. Seinna skilja foreldrar Indíu svo pabbi hennar flytur í litla leiguíbúð en Indía býr samt að mestu heima hjá mömmu sinni. Perla fær á endanum að vera áfram hjá ömmu sinni því bæði langar hana ekki að hitta Terry aftur og svo veit hún að mamma hennar getur ekki hugsað um hana því hún á fyrir tvö börn með Terry. Bókin gerist í nútímanum og mér fannst hún skemmtileg og frekar spennandi vegna Perlu og hvort hún hefði sloppið frá Terry og hvernig. Mér líkaði við aðalpersónurnar og mér fannst söguþráðurinn skemmtilegur. Hún er mjög raunveruleg og nánast allir atburðir sem gerast í henni geta gerst í raunveruleikanum. Vandamálin sem koma fram í sögunni eru hvernig Perla gat sloppið frá Terry og hún gerði það með hjálp Indíu sem sýndi henni felustað og líka hjálp ömmu sinnar sem gerði hvað sem var til að Perla gæti búið hjá sér. Einnig hvernig Indía og Perla gátu eignast vini og það gerðist fyrir tilviljun að þær hittu hvor aðra og það var líka vandamál hjá Indíu að hún fékk ekki næga athygli og foreldrar hennar voru búnir að vera pirraðir við hana undanfarið. Það leystist þegar foreldrar hennar skildu því í raun og veru voru foreldar hennar pirruð á hvort öðru og voru ekki ánægð saman og tóku það út á Indíu. Ég hefði ekki leyst neitt af vandamálunum í þessari bók á annan hátt. Hún hentar fyrir stelpur á aldrinum tíu til þrettán ára. Boðskapur sögunnar er hvað það er mikilvægt að eiga góða vini sem geta hjálpað manni í gegnum erfiðar stundir.
Athugasemd Í 34. árgangi Bókasafnsins birtist grein um Dewey flokkunarkerfið og notkun þess á Íslandi eftir Þórdísi Þórarinsdóttur. Þar segir „að ekki ýkjamikið hafi verið skrifað um flokkun á íslensku“ (bls. 23), en hún nefnir þó til sögunnar nokkur verk. Þar láðist höfundi að nefna ritgerð mína, Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn, frá árinu 1994. Ég tel mikilvægt að halda þessu til haga í umfjöllun um kerfið hér á landi, enda var ritgerðin notuð árum saman til kennslu um flokkun í bókasafnsfræði við HÍ. Þar er á 62 síðum rakin saga Dewey kerfisins, gerð grein fyrir helstu flokkunarkerfum öðrum, en höfuðáhersla er lögð á einkenni, þróun, álitamál, kosti og galla Dewey kerfisins. Auk þess er rakin saga notkunar þess hér á landi. Virðingarfyllst, Bryndís Ísaksdóttir
55
bókasafnið
35. árg. 2011
Bækur og líf Hvernig ég hef notað bókasafnið gegnum tíðina Ég les eiginlega alltaf í rúminu, sofna helst aldrei án þess að lesa aðeins áður. Það liggja alltaf einhverjar bækur á náttborðinu og frekar en að lesa ekkert les ég sömu bækurnar aftur. Stundum vakna ég þegar bókin dettur, svo bækurnar mega helst ekki vera of stórar, ævisaga Gunnars Thoroddsen var til dæmis of stór. Sigríður Kristinsdóttir Þegar ég var lítið barn var ein af uppáhaldsbókunum mínum Sagan af honum Nóa eftir Loft Guðmundsson. Bæði las mamma hana fyrir mig og síðar las ég hana sjálf. Ég dáðist mest að því í þeirri sögu að það var í henni kona sem hellti upp á kaffi með annarri hendinni og prjónaði með hinni. Síðan hef ég verið meðvituð um þann eiginleika kvenna að geta gert margt í einu. Ég notaði bókasafnið við Hólsveg í Kleppsholti. Þar réði ríkjum Magnús stormur Magnússon. Þá mátti maður bara taka þrjár bækur í einu. Svo ætla ég að gera pínulitla játningu, að þrjár bækur dugðu mér ekki alveg, þannig að ég tók stundum aukabækur og setti inn undir úlpuna, svo fór maður og skilaði þeim seinna. Stundum gleymdist að skila bókum þótt maður færi á bókasafnið en þá var bara komið heim og bækurnar sóttar. Magnús var oft með vini sína inni á bókasafninu þannig að hann var ekki alltaf að fylgjast mikið með manni, það sátu hjá honum svona kallar og drukku kaffi og kannski eitthvað sterkara út í, stundum kaupstaðalykt inni á bókasafninu. Þegar ég stækkaði fórum við líka að sækja bókasafnið niðri í bæ, í Þingholtsstræti og var þá farið í strætó. Sem krakki las ég Dórubækurnar eftir Ragnheiði Jónsdóttur, líka þýddar bækur eins og bækurnar um Beverly Gray. Svo las ég bækur eftir Slaughter og Cronin og allar bækurnar eftir Guðrúnu frá Lundi. Móðir mín var nú ekki mjög hrifin af þessu bókavali og ég var eiginlega ekki búin að lesa neinar bækur sem voru heima, fannst þær svo erfiðar og þungar, til dæmis Þrúgur reiðinnar, bækur Kiljans og Þórbergs og svo ljóðabækur höfuðskáldanna, ekki þó Davíð og Tómas sem þóttu of borgaralegir. Mömmu ofbauð bókavalið hjá mér og þegar ég var tólf ára skipaði hún mér að lesa Atómstöðina og skýrði hana út fyrir mér. Hún sagði mér hver væri litli feiti maðurinn á svölum alþingishússins sem sveik landið. Þetta er mín uppáhaldsbók og tel að hún ætti að vera skyldulesning með skýringum mömmu minnar.
56
Sjálf las móðir mín fyrir okkur þegar við vorum lítil áður en við lærðum að lesa. Til dæmis sögu Jónasar Hallgrímssonar um það þegar drottningin á Englandi fór yfir til Frakklands að heimsækja kónginn þar. Táningurinn Sigríður las líka mikið af rósrauðum rómönum. En ég og vinkona mín, við lágum oft á sitt hvorum dívaninum inni í herbergi heima hjá henni, það var meira pláss þar en heima hjá mér, og við lásum hvor fyrir sig tímunum saman án þess að tala neitt, en fundum fyrir vináttu og nálægð við lesturinn. Þetta var á tímum þegar var tvískiptur skóli þannig að börn höfðu frið á daginn til að gera eitthvað annað en að vera í skipulögðu skóla- og tómstundastarfi, fengu að vera í friði fyrir fullorðnu fólki. Þegar ég fermdist fékk ég margar góðar gjafir, meðal annars Tuttugu smásögur eftir Einar H. Kvaran sem ég hélt mikið upp á þá. Einhvern veginn glataðist bókin en ég er nýlega búin að kaupa hana aftur hjá Braga. Sögurnar hans Einars eru margar mjög snjallar, ein sú besta er um manninn sem var alltaf að tapa en hafði tapað mest þegar hann giftist konunni sinni. Ég var lengi að skilja þá sögu. En það var auðvitað þannig að hann tapaði aleigunni því hann keypti konuna frá gömlum manni sem hún átti að giftast vegna skuldar föður hennar við hann og lét allar ærnar sínar, aleigu sína, í staðinn. Þegar ég eltist fór ég að meta Kiljan mikils og hef líka gaman af Þórbergi. Hjá ættingjum mínum voru alltaf miklar umræður í jólaboðunum um hvaða bækur væru bestar og yfirleitt höfðu þeir félagarnir vinninginn, sumir máttu ekki vatni halda yfir Sálminum um blómið eða Brekkukotsannál. Ég hef haft fyrir sið seinni ár að gefa barnabörnum og barnabarnabörnunum Íslandsklukkuna í skírnargjöf. Ég hef alltaf stundað bókasafnið, raunar mismikið eftir því sem tími hefur verið til. Ég á líka mikið af bókum sem ég les eftir hendinni. En þegar ég var ein með dætur mínar nokkur ár þá gaf ég sjálfri mér alltaf bók, var svo hrædd um að ég fengi ekki bók í jólagjöf. Ég pakkaði henni alltaf inn eins og þetta væri mikið leyndarmál. Á aðfangadagskvöld, þegar stelpurnar voru sofnaðar, tók ég bókina svo upp og fór að lesa. Ég gaf mér yfirleitt bók eftir Guðberg Bergsson. Fékk mér svolítið sérrí og konfekt með en oftast var ég orðin svo uppgefin að ég sofnaði fljótlega, eins og venjuleg þreytt húsmóðir, en hafði þá bókina á jóladag. Ég les bækur oft í einum rykk. Maðurinn minn heldur því fram að ég lesi ekki nema aðra hverja blaðsíðu en ég er fljótlæs. Svo er ég oft með margar bækur í einu og les þær til skiptis þegar ég fer að sofa.
bókasafnið
Núna förum við á Borgarbókasafnið nánast í hverri viku. Búum svo vel að eiga heima skammt frá Aðalsafninu. Það er mjög gaman að ganga um safnið og sjá hvernig fólk nýtir sér aðstöðuna. Það eru alltaf einhverjir að lesa blöðin eða fletta bókum, sumir taka jafnvel í prjóna. Margir foreldrar koma með
35. árg. 2011
börnin sín og venja þau þannig á bókasafnið. Svo er þarna gott barnahorn. Mér finnst líka gaman að sjá hvað starfsfólkið fylgist vel með tímanum með því að draga fram bækur sem eiga við atburði hverju sinni.
Biblían er ekki bögglað roð Ekki skal ég fullyrða hvenær ég varð læs, en áreiðanlega var ég farinn að lesa bækur 6 ára og bóklestur var eiginlega eina afþreyingin sem stóð til boða heima á Sauðárkróki í bland við óskalagaþætti, útvarpsleikrit og skemmtiþætti (kl. 9 á sunnudagskvöldum) á gömlu Gufunni og bíó klukkan 5 á sunnudögum. Ég Sölvi Sveinsson held ég hafi verið alæta á bækur, ef hægt er að taka svo til orða. Ég las nefnilega líka stelpubækur ef annað var ekki að hafa og eitthvað grautaði ég svo í fullorðinsbókum sem til voru á heimilinu. Ég man til dæmis vel eftir Öldinni okkar og sérstaklega myndinni af líkum áhafnarinnar og vísindamannanna á Pourquoi Pas? vestur á Mýrum og lík dr. Charcots í forgrunni. Ég á enn auðvelt með að kalla þessa mynd fram í hugann og með sínum hætti vakti hún með mér ugg fyrir dauðanum sem birtist m.a. með þeim hætti, að væri flaggað í hálfa stöng á Króknum þá fór ég ekki stystu leið í heimsókn til ömmu Stefaníu sem var upp með gamla spítalanum og fram hjá líkhúsinu sem stóð þar á bak við. Eitthvað á ég enn af bókum frá þessum árum en flestar fóru þær til systurbarna minna og þaðan áfram til næstu kynslóðar. Einni hef ég þó glatað og það þeirri sem síst skyldi, nefnilega sögunni um selinn Snorra. Ég lá lengi í mislingum einhvern vetur í æsku og gat ekki lesið sjálfur, en hún Sigurlaug amma las fyrir mig Selinn Snorra og ég gaf myndunum auga. Ég tók slíku ástfóstri við þessa bók - og kannski sérstaklega selinn - að ég litaði ísbjörninn Voða rauðan til þess að hann sæist betur á ísnum og ég klippti tennurnar úr háhyrningnum Glefsi til þess hann ynni nú engum skaða. Svona geta bækur og daglegt líf runnið saman í raunveruleik hvort sem menn eru ósjúkir eða með mislinga.
Stefanía amma mín var oft með Biblíuna í kjöltu sér og ævinlega á sunnudagsmorgnum og las þá kafla og kafla. Ekki las ég þá bók í æsku nema valda endursagða kafla í biblíusögutímum í skólanum og vitaskuld kann hver maður þær goðsagnir. Fyrir nokkrum árum varð ég að láta gera við fæturna á mér og þurfti að liggja og einsetti mér að lesa Biblíuna spjalda á milli og gerði það; skal þó játa að ég fletti býsna hratt ýmsum köflum með ættartölum eða útlistunum á lögmáli gyðinga og víst ýmsu fleira. Þetta var ánægjulegur lestur af ýmsum sökum. Í Biblíunni eru tugir rita, misgóð eftir atvikum, en í bland stórkostlegar og fjölbreyttar bókmenntir. Ótalmargir íslenskir talshættir eiga rætur í Biblíunni og alveg burtséð frá því hvort fólk er trúað eða ekki, þá er menningarheimur þessarar bókar sprelllifandi í nútímanum. Hvað ætli mörg listaverk séu beinlínis vaxin úr ritum Biblíunnar, málverk, skáldsögur, leikrit, ljóð, kvikmyndir? Ótal tákn í málinu sem við notum á hverjum degi eru þaðan komin og svo mætti lengi rekja. Eiginlega væri alveg þess virði að láta gera meira við fæturna á sér til þess að fá nokkurra daga næði til þess að glugga betur í þessa bók! Ég las Kóran síðar, af forvitni til samanburðar og þar er ólíku saman að jafna. Kóran finnst mér erfiður aflestrar því uppröðun efnis er með þeim hætti, að þáttum (súrum) er raðað eftir lengd, og styttist hver kafli eftir því sem líður á bókina. En margt er þar fagurlega og friðsamlega mælt og Helga Hálfdanarson brestur ekki smekkvísi á meðferð máls. Margvíslegt efni beggja þessara rita á rætur í sama jarðvegi. Öldin okkar, Selurinn Snorri, Biblían og Kóran. Sérkennileg og tilviljanakennd blanda frá liðnum dögum. Nú er framboð á afþreyingu miklu meira en eftirspurn. Samt er það svo að bestu næðisstundirnar og heilnæmasta hvíldin er með bók í hönd – þangað til svefn sígur á brár.
57
bókasafnið
35. árg. 2011
Minning Minning þriggja bókavarða Hólmfríður Jónsdóttir 1921-2008 Petrína Soffía Þórarinsdóttir Eldjárn 1922-2003 Hörður Jóhannsson 1929-2010
Ljúft er mér og skylt að minnast þriggja látinna bókavarða við Amtsbókasafnið á Akureyri, þeirra Hólmfríðar Jónsdóttur, Harðar Jóhannssonar og Petrínu Þ. Eldjárn. Öll störfuðu þau við útlánadeild safnsins á seinni hluta síðustu aldar, á þeim tíma þegar spjaldskráin var í fullu gildi og helstu hjálpartæki bókavarðarins voru ritvélin, myndavélin, stimpillinn og lesvélin. Hólmfríður var þeirra elst, fædd 4. febrúar 1921 á Ystafelli í Köldukinn. Hún var Þingeyingur í húð og hár, alin upp við þingeyska bændamenningu og giftist þar að auki sveitunga sínum, Árna Kristjánssyni frá Finnsstöðum sem var kennari við Menntaskólann á Akureyri og síðar héraðsskjalavörður og amtsbókavörður á Akureyri. Hólmfríður lauk prófi frá Héraðsskólanum á Reykjum árið 1938 og síðar Samvinnuskólaprófi árið 1941. Hún hóf störf á Amtsbókasafninu árið 1971, í hlutastarfi hin fyrstu ár en síðar í fullri vinnu þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir um áramótin 1991-1992. Hólmfríður lést 11. október 2008. Næst í röðinni var Petrína Soffía Þórarinsdóttir Eldjárn. Hún fæddist á Tjörn í Svarfaðardal 17. febrúar árið 1922. Hafi Hólmfríður verið Þingeyingur var Petrína Svarfdælingur alla tíð, þó svo að hún hafi búið á Akureyri mestan hluta ævi sinnar. Hún var alin upp á menningarheimilinu Tjörn og stundaði síðar nám við gagnfræðadeild MA og Kvennaskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Árið 1945 giftist Petrína Stefáni Árnasyni og stofnaði með honum heimili á Akureyri. Hún kom til starfa á Amtsbókasafninu árið 1975 og starfaði þar uns hún fór á eftirlaun í árslok 1992. Petrína lést 19. júlí 2003. Yngstur þeirra þriggja var svo Hörður Jóhannsson. Hann var fæddur á Syðra-Laugalandi í Eyjafirði 13. apríl 1929. Hann ólst upp í foreldrahúsum og stundaði bústörf á Garðsá til ársins 1966 er hann flutti til Akureyrar, að undanteknu námsári við Íþróttaskólann í Haukadal 1954-1955. Árið 1965 kvæntist hann Sigríði Margréti Hreiðarsdóttur. Árið 1968 réðst hann til starfa við Amtsbókasafnið á Akureyri og starfaði þar til ársins 1996, fyrst sem almennur bókavörður en sem deildarstjóri útlánadeildar frá 1971. Hörður lést 22. janúar 2010.
58
Ásamt Guðrúnu Bjarnadóttur voru þessi þrjú framvarðarsveit og fótgönguliðar útlánadeildar Amtsbókasafnsins um árabil. Þau voru á margan hátt ólík og í því lá styrkur þeirra. Hólmfríður var örgeðja og eldhugi. Hún tók þátt í félagsmálum, bæði í Kvenfélaginu Hlíf og ekki síður í stjórnmálabaráttu Kvennalistans. Það sópaði að henni þar sem hún lét til sín taka og það átti við um neðri hæðina á Amtsbókasafninu sem og aðra velli sem hún haslaði sér. Petrína fór sér hægar. Hún var ábyrgðin og traustið holdi klætt. Áhugamanneskja um listir og menningu og velferð og vellíðan starfsmanna og gesta. Hún var söngvin og eyddi tómstundum sínum í söng með Kór Akureyrarkirkju, Söngfélaginu Gígjunni og eflaust fleirum. Hörður var síðan fremstur meðal jafningja, deildarstjóri útlánadeildarinnar. Hans áhugamál voru bækurnar. Þær áttu hug hans allan. Hann þekkti þær allar og hafði lesið þær flestar. Allavega þær sem fjölluðu um sögu og þjóðlegan fróðleik. Helst að hann hefði horn í síðu matreiðslubóka. Hann var natinn að gera við og laga löskuð eintök og ljósritunarvélin fannst honum þörf uppfinning, því þá mátti bæta bilaðar bækur með ljósritum og til að gera síðurnar blakkar notaði hann ýmis brögð. Á yngri árum var hann liðtækur frjálsíþróttamaður og enn fór hann milli hæða á safninu í þrístökki án atrennu, eða kannski fimm skrefum, allavega ekki fleiri en sex. Á þessum árum var þröngt um ýmsa starfsemi á Amtsbókasafninu. Þannig var kaffistofa starfsmanna allt í senn: vinnuherbergi, flokkunarborð og starfsmannarými. Ævinlega var heitt á könnunni og svo var sérstakur kaffitími klukkan fjögur. Hörður drakk reyndar te og hafði hunang útí sem var keypt í lítravís í kaupfélagsbúðinni í Brekkugötu 1. Þá voru engar takmarkanir á reykingum innandyra og var því stundum ansi lágskýjað í kaffistofunni eða vinnuherberginu. Herði, Fríðu og Petrínu fylgdu oft gestir í kaffi. Fríða kom með sitt fólk, sem gátu verið Þingeyingar í kaupstað, brottfluttir Þingeyingar, Kvennalistakonur og aðrir vinir og vandamenn. Til Petrínu kom fjölskylda hennar úr Svarfaðardalnum og að sunnan og Hörður kom með Steindór frá Hlöðum og
bókasafnið
aðra spekinga. Auk þess voru fastagestir eins og Gísli Jónsson og Stefán Karlsson sem ævinlega áttu sitt sæti við borðið ef þannig stóð á. Af þessu leiddi að oft var það skemmtileg upplifun að sitja við skráningu þegar lífið var sem mest í kaffitímunum. Steindór sagði sögur og var ótrúlega víða vel heima. Hjörtur á Tjörn hafði líka frá ýmsu að segja og einu sinni var drifið fram segulband og þau systkinin frá Tjörn sungu saman „Buslubæn Ólafsfirðinga“: „Denne lille dreng Gik op på dette høje fjell Og denne og denne og denne. Ríða hringinn, ríða hringinn, ríða hringinn. En hvað Íslendingar hafa gaman af að tala við útlenda menn. Eru þið norskir, eruð þið sænskir? Nei við erum hvorugt við erum sunnlendingar. Hvort þá í logandi heitasta helvíti, ætli það verð‘ ekki þurrkur á morgun.“
Kvennalistakonur réðu ráðum sínum og oft urðu fjörugar umræður um stjórnmálin, en ennþá meira var gaman þegar sagðar voru sögur af mönnum og málefnum og allar ættir raktar og öll „forhold“ skýrð. Í dag heita svona kaffitímar þekkingarstjórnun af bestu sort, því allir fengu allar upplýsingar og sumt sem þar kom fram lifir enn. Á þessum tíma var ekki hægt að gúggla neitt og spjaldskráin var yfirleitt bara með höfundi og titli og kannski
35. árg. 2011
efnisorði ef um ævisögu einstaklings var að ræða. Þá skipti miklu fyrir bókavörðinn að vera vel að sér, muna hvaða bók fjallaði um hvaða efni, jafnvel þó ekki væri nema svolítill kafli. Þá var mikilvægt að allir legðust á árarnar ef djúpt var á svörum og stundum dugði það en svo var líka tengslanetið út um allan bæ sem hægt var að grípa til. Enda varð það svo að þegar þau fóru á eftirlaun öll þrjú sem hér um ræðir kom það fyrir oftar en ekki að hringt var í þau til að leita svara ef ekki fengust nógar upplýsingar úr þeim gögnum sem fyrir lágu. Og alveg fram í andlát sitt var Hörður með á reiðum höndum verðgildi hverrar bókar sem gefin hafði verið út á Íslandi og ævinlega tók hann vel þeim sem til hans leituðu. Það má kannski segja að þau þrjú hafi haft það að leiðarljósi sem æ síðan hefur verið eitt af einkunnarorðum starfsmanna Amtsbókasafnsins: „Það er ekki til nein heimskuleg spurning, nema kannski sú sem menn láta hjá líða að spyrja“. Nú eru aðrir tímar, önnur tæki og annað fólk. Sennilega er stimpill safnsins hið eina af tækjum þeirra Harðar, Fríðu og Petrínu sem enn er notað. Engu að síður myndu þau sóma sér vel á hvaða bókasafni samtímans sem er, því þau misstu aldrei sjónar á því sem mikilvægast er í starfi bókavarðarins: viljanum til að greiða götu þeirra sem safnið sækja heim, án tillits til þess hvaða tæki og skrár eða vélar eru fyrir hendi. Gott er að muna það og minnast þeirra. Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður
Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri 1977. Petrína er í miðröð önnur frá hægri og í fremstu röð eru Hörður lengst til vinstri og Hólmfríður önnur frá hægri.
59
Minning Minningarorð Finnbogi Guðmundsson 1924-2011
Finnbogi Guðmundsson fyrrverandi landsbókavörður lést á hjúkrunarheimilinu Holtsbúð í Garðabæ 3. apríl 2011. Finnbogi fæddist í Reykjavík 8. janúar 1924 en foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Finnbogason, sem var landsbókavörður 1924-1943, og Laufey Vilhjálmsdóttir kennari. Finnbogi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1949. Hann lauk doktorsprófi í bókmenntafræði frá HÍ 1961. Finnbogi var kvæntur Kristjönu P. Helgadóttur lækni er lést 1984. Dóttir þeirra er Helga Laufey og fósturdóttir Selma Jónsdóttir. Finnbogi Guðmundsson gegndi embætti landsbókavarðar í þrjátíu ár, 1964-1994 og það er óvenjulegt að sami einstaklingur gegni slíku starfi svo lengi. Þau verkefni sem marka öðru fremur starfstíma Finnboga voru húsnæðismál Landsbókasafnsins og sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðunni árið 1994. Frá því um miðja 20. öldina voru uppi hugmyndir um að sameina söfnin í eitt öflugt rannsóknabókasafn en forsenda
60
þess var að tryggja þeim hæfilegt húsnæði. Þegar skipuð var byggingarnefnd Þjóðarbókhlöðunnar árið 1970 var Finnbogi skipaður formaður. Fyrsta skóflustungan var tekin 1978 og hornsteinn lagður 1981. En það teygðist á framkvæmdatímanum þar sem illa gekk að fjármagna verkefnið og húsið stóð lengi tómt. Upp úr 1990 voru tryggðar auknar fjárveitingar til byggingarinnar og var hún opnuð við hátíðlega athöfn 1. desember 1994. Um leið voru söfnin sameinuð undir heitinu Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Meðal annarra verkefna sem unnið var að í Landsbókasafni í tíð Finnboga voru skrár um efni safnsins. Íslenskur ritauki var jafnan birtur í Árbók Landsbókasafns, en var frá og með útgáfu ársins 1974 gefinn út sem sérstakt rit undir heitinu Íslensk bókaskrá. Fljótlega var hafist handa við að vinna skrána í tölvum og eftir að fyrsta gerðin af Gegni var opnuð 1991 voru þær færslur fluttar í kerfið þar sem þær eru enn í einhverri mynd. Þá má einnig nefna að ný lög um skylduskil til safna voru samþykkt á Alþingi 1977 en Finnbogi átti sæti í nefnd sem vann að gerð frumvarpsins. Finnbogi hélt tengslum við nýja safnið og starfsfólk þess og kom jafnan í afmæliskaffi 1. desember. Fljótlega eftir að undirrituð tók við embættinu hafði Finnbogi samband og erindið var að ánafna safninu bókasafn sitt og föður síns Guðmundar Finnbogasonar, eða eins og segir í gjafabréfinu ,,bókasafn tveggja fyrrverandi landsbókavarða“. Þá hefur Finnbogi einnig afhent handritasafninu ýmis gögn úr fórum föður síns. Finnbogi var embættismaður af gamla skólanum og rak Landsbókasafnið með sparsemi og ráðdeild. Meðfram landsbókavarðarstarfinu sinnti hann jafnan fræðistörfum, þýðingum, ritstjórn og útgáfu. Hann átti einnig sæti í samstarfsnefnd um upplýsingamál og í stjórnum félagasamtaka sem tengdust bókasöfnum eða fræðasviði hans. Fyrir hönd starfsfólks Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns vil ég þakka Finnboga Guðmundssyni fyrir hans framlag til safnsins og þeirrar glæsilegu umgjarðar sem það býr við í dag, í Þjóðarbókhlöðunni. Við sendum ættingjum hans innilegar samúðarkveðjur. Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður
bókasafnið
35. árg. 2011
Afgreiðslutími safna Biskupsstofa – bókasafn
Hagstofa Íslands – bókasafn
Kirkjuhúsinu Laugavegi 31, 101 Reykjavík
Borgartúni 21a, 105 Reykjavík.
Sími: 528 4003, símbréf: 528 4099
Sími: 528 1100, símbréf: 528 1098
Netfang: ragnhildur.bragadottir@kirkjan.is
Netfang: upplysingar@hagstofa.is
Veffang: www.kirkjan.is/biskupsstofa
Veffang: www.hagstofa.is
Mánud.-föstud. kl. 8.30-16
Mánud.-föstud. kl. 8.30-16
Lokað í hádeginu
Blindrabókasafn Íslands
Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn Arngrímsgötu 3, 107 Reykjavík.
Digranesvegi 5, 200 Kópavogur
Sími: 525 5600, símbréf: 525 5615
Sími: 545 4900, símbréf: 545 4906
Netfang: upplys@landsbokasafn.is
Netfang: blibok@bbi.is
Veffang: http://landsbokasafn.is/
Veffang: www.bbi.is Útláns- og símatími: mánud.-föstud. kl. 10-16
Afgreiðslutími 1. sept.–15. maí:
Bóka- og heimildasafn Þjóðminjasafns Íslands
Almennt safnrými á 2., 3. og 4. hæð
Setbergi, Suðurgötu 43,
Mánud.-fimmtud. kl. 8.15-22, föstud. kl. 8.15-19,
101 Reykjavík.
laugard. kl. 10-17, sunnud. kl. 11-17
Sími: 530 2247/530 2200 Netfang: groa@thjodminjasafn.is
Þjóðdeild á 1. hæð
Veffang: http://www.natmus.is/fyrir-gesti/boka-og-heimildasafn
Mánud.-fimmtud. kl. 8.15-19, föstud. kl. 8.15-17,
Opið: mánud.-föstud. kl. 13-16
laugard. kl. 10-17, sunnud. lokað
Lokað um mánaðartíma á sumrin. Handritadeild á 1. hæð
Bókasafn og upplýsingaþjónusta Listaháskóla Íslands
Mánud.-föstud. kl. 9-17, laugard. og sunnud. lokað
Skipholti 1, 105 Reykjavík Aðalnúmer: 545 2217/552 4000
þá daga sem opið er
Netfang: bokasafn@lhi.is
Upplýsingaþjónusta á 2. hæð
Veffang: http://bokasafn.lhi.is
Mánud.-föstud. kl. 8.15-17, laugard. og sunnud. lokað
Aðalsafn – hönnunar- og arkitektúrdeild
Afgreiðslutími 16. maí–31. ágúst:
Handrit eru sótt í geymslu kl. 10 og 14
Skipholti 1, 105 Reykjavík Sími: 545 2217, símbréf: 562 3629
Almennt safnrými á 2., 3. og 4. hæð
Mánud.-föstud. kl. 8.30-16
Mánud.-föstud. kl. 9-17, laugard.10-14 (lokað 20.júní – 12. ágúst) sunnud. lokað
Myndlistar- og listkennsludeild Laugarnesvegi 91, 105 Reykjavík
Þjóðdeild á 1. hæð
Sími: 520 2402, símbréf: 520 2409
Mánud.-föstud. 9-17, laugard. og sunnud. lokað
Mánud.-föstud. kl. 9-16.30 Handritadeild á 1. hæð Leiklistar- og tónlistardeild
Mánud.-föstud. 9-17, laugard. og sunnud. lokað
Sölvhólsgötu 13, 101 Reykjavík Sími: 545 2295, símbréf 561 6314
Upplýsingaþjónusta
Mánud.-föstud. kl. 8.30-16
Mánud.-föstud. kl. 9-16, laugard. og sunnud. lokað
61
bókasafnið
35. árg. 2011
Bókasafn Menntavísindasviðs Háskóla Íslands
Bókasafn Hafnarfjarðar
v/Stakkahlíð, 105 Reykjavík
Sími: 585 5690, símbréf: 585 5689
Sími 525 5930, símbréf: 525 5597
Netfang: bokasafn@hafnarfjordur.is
Netfang: menntavisindasafn@hi.is
Veffang: www.hafnarfjordur.is/bokasafn/
Veffang: www.mennta.hi.is/bokasafn
Mánud.-föstud. kl. 10-18, laugard. (1. okt.-31. maí) kl. 11-15
Vetur: mánud.-föstud. kl. 8-18, laugard. kl. 10-15
Tónlistardeildin er opin á sama tíma.
Sumar: 9.00-16.00, lokað laugardaga
Myndlistaskólinn í Reykjavík – bókasafn
Strandgötu 1, 220 Hafnarfjörður
Bókasafn Álftaness Álftanesskóla, 225 Álftanes
Hringbraut 121, 107 Reykjavík
Sími: 540 4708,
Sími: 5614988 / 5511990
Netfang: gudrun.gisladottir@alftanesskoli.is
Netfang: bokasafn@myndlistaskolinn.is
Veffang: www.alftanes.is/thjonusta/bokasafn
Veffang: http://myndlistaskolinn.is
Mánud. og fi mmtud. kl. 16-19,
Mánudaga-föstudaga kl. 9.00 -14.00
miðvikud. kl. 16-21
Náttúrufræðistofnun Íslands – bókasafn
Bókasafn Garðabæjar
Hlemmi 3, Reykjavík.
Garðatorgi 7, 210 Garðabær
Sími: 590 0500, símbréf: 590 0595
Sími: 525 8550, símbréf: 565 8680
Netfang: bokasafn@ni.is
Netfang: bokasafn@gardabaer.is
Veffang: www.ni.is
Veffang: www.gardabaer.is/bokasafn
Mánud.-föstud. kl. 8.30-16
Mánud.-föstud. kl. 9-19,
Norræna húsið – bókasafn Sturlugötu 5, 101 Reykjavík
Fyrsta föstud. hvers mánaðar kl. 11-19 laugard. (1. okt.- 15. maí) kl. 11-15
Sími: 551 7090, 551 7030, símbréf: 552 6476
Bókasafn Kópavogs - Aðalsafn
Netfang: nordlib@nordice.is
Hamraborg 6a, 200 Kópavogur
Veffang: www.nordice.is
Sími: 570 0450, símbréf: 570 0451
Alla daga frá kl. 12-17
Netfang: bokasafn@kopavogur.is
Safn RÚV Efstaleiti 1, 150 Reykjavík
Veffang: www.bokasafnkopavogs.is Mánud.-fimmtud. kl. 10-19, föstud. kl. 11-17, laugard. kl. 13-17
Sími: 515 3151, símbréf: 515 3010
Bókasafn Kópavogs - Lindasafn
Netfang: safn@ruv.is
Núpalind 7, 200 Kópavogur
Veffang: www.ruv.is
Sími 564 0621
Vetur: mánud.-föstud. kl. 9.00-17.00
Netfang: lindasafn@kopavogur.is
Sumar: 9.00-16.00
Sept.-maí: mánud.-fimmtud. kl. 14-19, föstud. kl. 14-17, laugardaga kl. 11-14
SUÐVESTURLAND
Júní- ágúst: mánud.- fimmtud. kl. 12-18, föstud. kl. 12-16
Bókasafn Grindavíkur
Bókasafn Seltjarnarness
Víkurbraut 62, 240 Grindavík
Eiðistorg 11, 172 Seltjarnarnes
Sími: 420 1108, símbréf: 420 1111
Sími: 595 9170, símbréf 595 9176
Netfang: bokasafn@grindavik.is
Netfang: bokasafn@seltjarnarnes.is
Veffang: www.grindavik.is/bokasafn
Veffang: www.seltjarnarnes.is/bokasafn
Afgreiðslutími: mánud.-föstud. opið kl. 11-18
Mánud.- fimmtud. kl. 10-19, föstudaga 10-17
Bókasafn Reykjanesbæjar
Borgarbókasafn Reykjavíkur
Kjarna, Hafnargötu 57, 230 Reykjanesbær
Tryggvagötu 15, 101 Reykjavík
Sími: 421 6770, símbréf: 421 3150
Sími: 411 6100, símbréf: 411 6159
Netfang: bokasafn@reykjanesbaer.is
Skrifstofa opin: mánud.-föstud. kl. 10-16
Veffang: www.reykjanesbaer.is/bokasafn
Netfang: borgarbokasafn@borgarbokasafn.is
Opið: mánud.-föstud. kl. 10-19
Sjá nánar opnunartíma á heimasíðu: Veffang: www.borgarbokasafn.is
62
bókasafnið Ennfremur:
Héraðsbókasafn Borgarfjarðar
www.bokmenntir.is
Safnahúsi Borgarfjarðar
www.literature.is
Bjarnarbraut 4-6, 310 Borgarnesi
www.artotek.is
Sími: 430 7200
35. árg. 2011
Netfang: bokasafn@safnahus.is Aðalsafn Grófarhúsi
Veffang: www.safnahus.is
Tryggvagötu 15, 101 Reykjavík
Opnunartími: kl. 13-18 alla virka daga
Sími: 411 6100
Snorrastofa – bókhlaða
Ársafn
Reykholti, 320 Reykholt
Hraunbæ 119, 110 Árbær
Sími 433 8006
Sími 411 6250
Netfang: gislina@snorrastofa.is Veffang: www.snorrastofa.is
Foldasafn Grafarvogskirkju v/Fjörgyn, 112 Reykjavík Sími: 411 6230
Mánud.-föstud. kl. 9-17
Amtsbókasafnið í Stykkishólmi Hafnargötu 3, 340 Stykkishólmur
Gerðubergssafn
Sími: 433 8160
Gerðubergi 3-5,111 Reykjavík
Netfang: amtsty@stykkisholmur.is
Sími: 557 9122
Vetur: mánud.-fimmtud. kl. 14-18.30 og föstud. kl. 13-17.30 Sumar: þriðjud.-fimmtud. kl. 14.30-18.30 og föstud. kl. 13-17
Kringlusafn í Borgarleikhúsi Listabraut 3,103 Reykjavík
Bókasafn Snæfellsbæjar
Sími: 580 6200
Hjarðartúni 6, 355 Ólafsvík Sími: 433-6928
Sólheimasafn
Netfang: bokasafn@snb.is
Sólheimum 27, 104 Reykjavík
Veffang: www.snb.is/bokasafn
Sími: 411 6160
Mánud. og miðvikud. kl 16-18, einnig miðvikud. kl. 20-22 þriðjud, og fimmtud. kl. 10-13, föstud. kl. 13-15
Bókabíll
Sumaropnun auglýst sérstaklega
Bækistöð í Kringlusafni, sími: 699 0316
Bókasafn Mosfellsbæjar Kjarna, Þverholti 2, 270 Mosfellsbær
VESTFIRÐIR
Sími: 566 6822, 566 6860, símbréf 566 8114
Héraðsbókasafn V-Barðastrandarsýslu
Netfang: bokasafn@mos.is
Patreksskóla, Aðalstræti 53, 450 Patreksfjörður
Veffang: http://bokasafn.mos.is/
Sími: 456 1527
Mánud.-föstud. kl. 12-18, auk þess miðvikud. frá kl. 10
Netfang: bokpatro@vesturbyggd.is
og laugard. kl. 12-15 til 1. júní
Sept.-apríl: mánud.-miðvikud. kl. 14-18, fimmtud. kl.
Upplýsingar í síma og aðgangur að Interneti
19.30-21.30
og dagblöðum frá kl. 8 mánud.-föstud.
Maí-ágúst: þriðjud. kl. 13-18, fimmtud. kl. 19.30-21.30
Listasalur Mosfellsbæjar opinn á afgreiðslutíma safnsins
VESTURLAND Bókasafn Akraness Dalbraut 1, 300 Akranes Sími: 433 1200
Bókasafn Bolungarvíkur Höfðastíg 3-5, 415 Bolungarvík Sími: 456 7194 Netfang: bsafn@bolungarvik.is Þriðjud. og miðvikud. kl. 15-18, fimmtud. kl. 15-19 1. júní- 31. ágúst: þriðjud. og fimmtud. kl. 17-19
Netfang: bokasafn@akranes.is
Bæjar- og héraðsbókasafnið Ísafirði
Veffang: www.bokasafn.akranes.is
Eyrartúni, 400 Ísafjörður
Mánud.-föstud. kl. 10-18,
Sími: 450 8220, 895 7138, símbréf: 450 8229
laugard. kl. 11-14 (okt.-apríl)
Netfang: bokasafn@isafjordur.is Veffang: http://safn.isafjordur.is Netskrá: http://marc.isafjordur.is/mikromarc Útlán í aðalsafni: mánud.-föstud. kl. 13-19, laugard. kl. 13-16 Upplýsingaþjónusta um síma eða net frá kl. 10-19 virka daga og laugardaga kl. 13-16
63
bókasafnið
35. árg. 2011
NORÐURLAND VESTRA Héraðsbókasafn V-Húnavatnssýslu
Bókasafn Öxarfjarðar Snartarstöðum, 671 Kópasker Sími: 465 2171
Höfðabraut 6, 530 Hvammstangi
Netfang: boknord@islandia.is
Sími: 451 2607
Veffang: www.islandia.is/boknord
Netfang: bokasafn@hunathing.is
Þriðjud. kl. 13-18, fimmtud. kl. 13-16, laugard. kl. 13-15
Mánud. kl. 14-18, miðvikud. kl. 10-20,
Á sumrin er lokað á laugardögum
fimmtud. kl. 10-18, föstud. kl. 14-18 Skjalasafnið er opið fimmtud. kl. 14-19
Héraðsbókasafn A-Húnavatnssýslu
AUSTURLAND
Hnjúkabyggð 30, 540 Blönduós
Bókasafn Héraðsbúa
Sími: 452 4415
Laufskógum 1, 700 Egilsstaðir
Netfang: bokhun@simnet.is
Sími: 470 0745, símbréf: 471 1452
Mánud. og föstud. kl. 15-18, miðvikud. kl. 16-21
Netfang: bokasafn@austurland.is
Í júlí-ágúst er opið á miðvikud. kl. 16-21
Mánud.-föstud. kl. 14-19
Héraðsbókasafn Skagfirðinga
Bókasafn Seyðisfjarðar
Safnahúsinu v/Faxatorg, 550 Sauðárkrókur
Austurvegi 4, 710 Seyðisfjörður
Sími: 453 5424, símbréf: 453 6460
Sími: 472 1384
Netfang: bokasafn@krokur.is
Netfang: bokasafn@sfk.is
Veffang: www.bokasafn.skagafjordur.is
Veffang: www.sfk.is/bokasafn
Mánud.-fimmtud. kl. 12-19, föstud. kl. 12-18
Sept.-maí: mánud. kl. 15-19, þriðjud.-föstud. kl. 15-18
Afgreiðsla safnsins er lokuð á föstudögum í júní, júlí og ágúst
Júní-ágúst: mánud.-fimmtud. 16-18
Bókasafn Siglufjarðar
Menningarmiðstöð Hornafjarðar – bókasafn
Gránugötu 24, 580 Siglufjörður
Nýheimum, Litlubrú 2, 780 Höfn
Sími: 464 9120, símbréf: 464 9101
Sími: 470 8050, símbréf: 470 8051
Netfang: bokasafn@siglo.is
Netfang: menningarmidstod@hornafjordur.is
Þriðjud., miðvikud. og föstud. kl. 14-17.30,
Veffang: www.hornafjordur.is/menningarmidstod
fimmtud. kl. 14-18
Mánud.-fimmtud. kl. 9-17, föstud. kl. 11-17, laugard. kl. 10-14 Á sumrin er ekki opið á laugardögum
NORÐURLAND EYSTRA Bókasafn Háskólans á Akureyri
Sögustundir fyrir börn á fimmtudögum kl. 14-15
Bókasafnið á Eskifirði Grunnskóla Eskifjarðar, Lambeyrarbraut 16
v/Norðurslóð, 600 Akureyri
735 Eskifirði
Sími 460 8050, símbréf 460 8994
Sími: 476 1586
Netfang: bsha@unak.is
Netfang: bokesk@fjardabyggd.is
Veffang: www.unak.is/bokasafn
Mánud, þriðjud. og fimmtud. kl. 14-17, miðvikud. kl. 14-19
Vetur: mánud.-fimmtud. kl. 08.00-18.00 og föstud. kl. 08.00-16.00 Sumar: mánud.-föstud. kl. 08.00-16.00
Bókasafn Dalvíkurbyggðar
Bókasafnið á Fáskrúðsfirði Grunnskóla Fáskrúðsfjaðrar, Hlíðargötu 56 750 Fáskrúðsfirði.
og Héraðsskjalasafn Svarfdæla
Sími: 475 9016
Bergi menningarhúsi, 620 Dalvík,
Netfang: bokfas@fjardabyggd.is
Sími: 460 4930, símbréf: 460 4901
Mánud. kl. 14-19, miðvikud. og föstud. kl. 14-17
Netfang: sigurlaug@dalvik.is, dalbok@dalvik.is
Sumarlokun í júlí
Veffang: http://www.dalvik.is/bokasafn Opið mánud.-fimmtud. kl. 12-18 og föstud. kl. 12-17
Bókasafnið á Húsavík
Bókasafnið í Neskaupstað Nesskóla, Skólavegi 9 740 Neskaupstað.
Stóragarði 17, 640 Húsavík.
Sími: 477 1521
Sími: 464 6165
Netfang: boknes@fjardabyggd.is
Netfang: bokasafn@nordurthing.is
Mánud. kl. 14-19, þriðjud.-fimmtud. kl. 14-17
Veffang: http://bokasafn.nordurthing.is Mánud. og föstud. kl. 11-17, þriðjud.-fimmtud. kl. 10-18
64
bókasafnið
35. árg. 2011
Bókasafn Stöðvarhrepps
Bæjarbókasafn Ölfuss
Grunnskólanum á Stöðvarfirði, Skólabraut 20
Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn
755 Stöðvarfirði.
Sími 4803830 / 8636390
Sími: 475 9017
Veffang: www.olfus.is/bokasafn
Netfang: bokstod@fjardabyggd.is
Mánud.-miðvikud. kl. 11-18
Þriðjud. kl. 15-19 og fimmtud. 15-17
Fimmtud. kl. 11-19 og föstud. kl. 11-17
Sumarlokun í júlí
Ennfremur 1. júní - 31. ágúst: laugard. kl. 11-14
Bókasafnið í Hveragerði
SUÐURLAND
Sunnumörk 2, 810 Hveragerði Sími: 483 4531, símbréf: 483 4571
Héraðsbókasafn Rangæinga
Netfang: bokasafn@hveragerdi.is
Vallarbraut 16, 860 Hvolsvöllur
Veffang: http://sites.google.com/site/bokasafnidihveragerdi
Sími: 488 4235
Mánud.-föstud. kl. 13-19, laugard. kl. 11-14
Netfang: bokrang@bokrang.is Veffang: www.bokrang.is
Bókasafn Vestmannaeyja
Sept.-maí: mánud. kl. 13-20, þriðjud.-fimmtud. kl. 13-18,
Safnahúsinu v/Ráðhúströð, 900 Vestmannaeyjar
föstud. kl. 10-13
Sími: 488 2040, símbréf: 488 2001
Júní-ágúst: mánud. kl. 15-20, þriðjud.-fimmtud. kl. 15-18
Netfang: bokasafn@vestmannaeyjar.is Veffang: www.vestmannaeyjar.is/safnahus
Bókasafn Árborgar, Selfossi
1.sept.-31.maí: mánud.-fimmtud. kl. 10-18, föstud. kl. 10-17 og
Austurvegi 2, 800 Selfoss
1.okt-1.maí: laugard. kl. 11-14
Sími: 480 1980
1.júní-31.ágúst: mánud.-föstud. kl. 10-17
Netfang: bokasafn@arborg.is Veffang: http://bokasafn.arborg.is Mánud.-föstud. kl. 10-19, laugard. kl. 11-14 15.maí-15.sept: mánud.-föstud. kl. 10-18, laugard. kl. 11-14
Hversu vel þekkir þú íslenskt samfélag? Árbók Hagstofu Íslands, Landshagir Landshagir, hefur komið út í 20 ár. Hún er ómissandi rit um flesta þætti íslensks samfélags. Traustar hagskýrslur eru í raun forsenda þess að reka flókin velferðarsamfélög og markaðshagkerfi nútímans. Tuttugasti árgangur Landshaga var gefinn út aukinn og endurbættur á fyrsta alþjóðadegi hagtalna 20. október síðastliðinn. Bókin kostar aðeins 4.900 krónur og hana má panta á netinu.
Áskrift
9 9 9 9
Yfir 300 töflur Yfir 50 gröf og skýringarmyndir 468 blaðsíður, allar í lit Skýringartexti bæði á íslensku og ensku
Hagstofan býður bókasöfnum landsins að kaupa áskrift að Landshögum með 10% afslætti, en það má gera á auðveldan hátt á vefnum. Bækurnar hafa mikið upplýsingagildi og ættu að vera öllum aðgengilegar.
Vantar þig eldri árganga í safnið? Þau bókasöfn sem kaupa áskrift að Landshögum gefst kostur á að kaupa eldri árganga á aðeins 1.000 krónur stykkið. Hringið eða sendið tölvupóst og við sendum ykkur það sem vantar um hæl.
www.hagstofa.is/landshagir 528-1100 |
20 ÁRA
h upplysingar@hagstofa.is
65
bókasafnið
35. árg. 2011
Höfundar efnis Áslaug Agnarsdóttir er sviðsstjóri á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Baldur Sigurðsson er dósent og forstöðumaður ritvers á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Bragi Þorgrímur Ólafsson er sagnfræðingur og fagstjóri í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Eva Ósk Ármannsdóttir útskrifaðist með BA-próf í bókasafns- og upplýsingafræði frá Háskóla Íslands í júní 2010. Hún starfar sem bókasafns- og upplýsingarfræðingur hjá Þjóðskrá Íslands. Eyrún Ýr Tryggvadóttir stundaði nám í bókasafns- og upplýsingafræði við HÍ 1998-1999, útskrifaðist sem iðnrekstrarfræðingur frá HA 2001, lauk kennslufræði til kennsluréttinda frá HA 2005 og diploma í opinberri stjórnsýslu frá HÍ 2010. Hún hefur starfað sem forstöðumaður Bókasafnsins á Húsavík (Bókasafns Suður-Þingeyinga) frá 2002 og gefið út 3 skáldsögur: Annað tækifæri, 2004, Hvar er systir mín, 2008, og Fimmta barnið, 2009. Guðbjörg Garðarsdóttir er BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Háskóla Íslands og starfar sem forstöðumaður bókasafns Breiðagerðisskóla. Guðrún Hannesdóttir er bókasafnsfræðingur og starfar við Bókasafn Myndlistaskólans í Reykjavík. Hún hefur samið og myndskreytt fjölda barnabóka og gefið út tvær ljóðabækur, Fléttur, 2007, og Staðir, 2010. Hún hlaut bókmenntaverðlaunin Ljóðstafur Jóns úr Vör árið 2007. Hólmkell Hreinsson er amtsbókavörður á Akureyri. Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir er bókasafns- og upplýsingafræðingur MA, stjórnsýslufræðingur MPA og er landsbókavörður frá 2007. Jasmín Soffía Siggeirsdóttir er grunnskólanemi. Kolbrún Björk Sveinsdóttir er með BA-gráðu í ensku og stundar mastersnám í ensku með starfi sínu sem deildarstjóri á Bókasafni Reykjanesbæjar. Sigríður Kristinsdóttir er sjúkraliði. Dr. Sigrún Klara Hannesdóttir er fyrrverandi landsbókavörður og prófessor í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Sólveig Þorsteinsdóttir er MALS í bókasafns- og upplýsingafræðum frá University of Michigan, Bandaríkjunum, 1980 og með BS-gráðu í bókasafns- og upplýsingafræðum frá Eastern Michigan University, Bandaríkjunum, 1979. Hún starfar sem deildarstjóri Heilbrigðisvísindabókasafns Landspítala. Steinvör Almý Haraldsdóttir lauk MLIS-námi í bókasafns- og upplýsingafræði í febrúar 2010. Hún vinnur sjálfstætt og tekur að sér verkefni við skjalastjórn og vefsíðugerð. Svanhildur Eiríksdóttir er með BA-gráðu í almennri bókmenntafræði, diplómu í opinberri stjórnsýslu og stundar nú mastersnám í opinberri stjórnsýslu með starfi sínu sem deildarstjóri á Bókasafni Reykjanesbæjar. Sölvi Sveinsson er skólastjóri Landakotsskóla. Þórhallur Þórhallsson er ljóðskáld og bókavörður við Borgarbókasafn Reykjavíkur – Sólheimasafn. Hann hefur gefið úr nokkar ljóðabækur, síðasta bók hans er Feigðarleikur, 2010.
66
67
Softline bókasafnsbúnaður Hannaður til að mæta þörfum allra safnategunda sveigjanlegur og auðveldur í uppsetningu Veitum ráðgjöf og gerum tillögur að uppsetningu búnaðar.
Laugavegi 163
sími 561-2130