Bókasafnið 34.árgangur

Page 1

Bókasafnið 34. árgangur • júní 2010


gegnir.is er vefviðmót bókasafnskerfis sem hýsir samskrá íslenskra bókasafna. Í samskránni eru einkum bækur, tímarit, tímaritsgreinar, tónlistarefni og myndefni. Allar prentaðar íslenskar bækur og íslensk tímarit eru skráð í gegnir.is. Kerfið veitir aðgang að upplýsingum um safnkost flestra bókasafna landsins, auk þess sem margvísleg þjónusta er í boði fyrir notendur.

Landskerfi bókasafna hf. www.landskerfi.is


bókasafnið

34. árg. 2010

Efnisyfirlit 4

Einar G. Pétursson Ritdómur. Willard Fiske, vinur Íslands og velgjörðamaður

6

Sigrún Klara Hannesdóttir Þurfti að finna eigin lausnir á öllum vandamálum í safninu. Viðtal við Guðrúnu Gísladóttur

39

Sigrún Hauksdóttir og Hildur Gunnlaugsdóttir Hjartað í Gegni. Nokkrar tölur úr bókfræðigrunni

44

Eva Sóley Sigurðardóttir Tímaritið Bókasafnið

47

Arngrímur Vídalín Gíraffinn er á stultum

10

Halldóra Jónsdóttir Bókasafn Akraness í nýtt húsnæði

48

14

Guðrún Jónsdóttir og Sævar Ingi Jónsson Í minningu bókvinar

Anna Torfadóttir Borgarbókasafn Reykjavíkur. Hvað næst?

49

17

Edda Bryndís Ármannsdóttir „Geturðu bent mér á góða bók?“ Um ráðgjafaþjónustu við fullorðna lesendur skáldsagna

Kristín R. Vilhjámsdóttir Fljúgandi teppi og önnur fjölmenningarleg ævintýri á Borgarbókasafni

52

Úlfhildur Dagsdóttir Líf og fjör í myndasögulandi

23

Þórdís T. Þórarinsdóttir Dewey-flokkunarkerfið og notkun þess á Íslandi

53

31

Arngrímur Vídalín Við Prinsessugötu

Cesar Vallejo Enginn býr núna í húsinu

54

Bækur og líf

32

Kristín Bragadóttir, Áslaug Agnarsdóttir og Þorsteinn Hallgrímsson Vefir á vegum Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns

58

Afgreiðslutími safna

62

Höfundar efnis

36

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. 1. desember 1994-2009 – 15 ára afmæli

Frá ritstjóra Í þessu hefti Bókasafnsins gerumst við svolítið sjálfhverf og birtum grein um tímaritið sjálft sem hóf göngu sína árið 1974. En efnið er annars fjölbreytt allt frá ljóðum til langra greina. Lengst er ítarleg grein um Dewey-flokkunarkerfið og notkun þess á Íslandi. Það var fyrst kynnt í blaðagrein árið 1899, tuttuguogþremur árum eftir að það var fyrst birt á prenti í Bandaríkjunum. Það er nú notað í flestum bókasöfnum hér á landi og greinarhöfundur gerir ekki ráð fyrir að á því verði breyting í bráð. Í síðasta hefti var einnig fjallað um flokkunarkerfi, en þá í víðara samhengi og horft til nýlegra kenninga þar að lútandi, meðal annars út frá tæknilegri og samfélagslegri þróun á sviði bókasafna og upplýsingamála. Breyttir tímar eru borgarbókaverði ofarlega í huga á níræðisafmæli Borgarbókasafns Reykjavíkur, spurningar vakna til dæmis um hversu stór útlánsþátturinn verður í störfum almenningsbókasafna í framtíðinni. Störfin á bókasöfnunum breytast, þau sinna í æ ríkari mæli ýmis konar menningarlegri starfsemi auk bókaútlána, eins og kemur fram í grein um fjölmenningarlegt starf á Borgarbókasafni. Þessar vangaveltur kallast líka á við aðra grein um ráðgjafaþjónustu við fullorðna lesendur skáldsagna. Það efni sem bókasöfnin geyma og miðla færist æ meir í rafrænan búning, rafbækur eru þegar komnar til sögunnar og vefþjónusta er orðinn mikilvægur þáttur í starfsemi bókasafna eins og fram kemur í umfjöllun um vefþjónustu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Mikilvægt er að nýta þann vettvang sem tímaritið Bókasafnið er til að fjalla um starfsemi bókasafna og upplýsingaþjónustu á breyttum tímum. En við megum ekki verða svo ölvuð af nýjum möguleikum tækninnar og glæstri framtíðarsýn að við gleymum fortíðinni, án traustrar undirstöðu hrynur allt, – um það þarf vart að fjölyrða. Okkur er því hollt að lesa viðtal við elsta núlifandi bókasafnsfræðinginn hér, Guðrúnu Gísladóttur, og grein um bókavörðinn, bókasafnarann og náttúruunnandann Pál Jónsson. Hið merkilega bókasafn hans er nú að finna í Héraðsbókasafni Borgarfjarðar. Og þá erum við komin á Vesturland þar sem Bókasafn Akraness er komið í nýtt húsnæði ásamt Héraðsskjalasafni og Ljósmyndasafni Akraness. Bókasafn Akraness átti líka 145 ára afmæli í nóvember 2009, þannig að Borgarbókasafnið er unglingur hjá því. Á Vesturlandi eru ýmsar vöggur íslenskra bókasafna og bókmenningar. Upplýsing ætti því að vera vel sett þar með landsfund sinn 2010, en hann verður haldinn í Stykkishólmi dagana 17. - 18. september. Vonandi sjáumst við þar sem flest. Einar Ólafsson

Útgefandi: Upplýsing. Félag bókasafns- og upplýsingafræða Lyngási 18 | 210 Garðabæ | Sími 864-6220 | Netfang: upplysing@upplysing.is Veffang: www.upplysing.is Prentun: GuðjónÓ – vistvæn prentsmiðja Veffang: www.bokasafnid.is Mynd á kápu er hluti listaverksins Tölum saman, sem meðlimir Söguhringsins unnu í sameiningu undir handleiðslu listakvennanna Fitore Berisha og Helgu Arnalds. Verkið er í Borgarbókasafninu í Grófarhúsi í Reykjavík og má sjá það í heild á ljósmynd á bls. 50.

Bókasafnið • 34. árgangur júní 2010 • ISSN 0257-6775

Ritnefnd: Einar Ólafsson, ritstjóri – bokasafnid.timarit@gmail.com Kristín Ingunnardóttir, gjaldkeri – kingunnar@gmail.com Sigurborg B. Ólafsdóttir, ritari – sigurborg@internet.is Hallfríður Hr. Kristjánsdóttir, vefstjóri – hhk1@bok.hi.is Áslaug Óttarsdóttir – aslaugo@hi.is Bókasafnið hefur frá árinu 1989 verið lyklað í Library & Information Science Abstracts (LISA)


Ritdómur Willard Fiske, vinur Íslands og velgjörðamaður Kristín Bragadóttir, Reykjavík, Háskólaútgáfan, 2008

Einar G. Pétursson

Þegar við skoðum t. d. bókina Ísland í aldanna rás, sem kom út nú fyrir jólin, þá er þar aftarlega skrá um konunga, landfógeta, stiftamtmenn, amtmenn og biskupa hérlendis á 18. öld. Margir úr þessum hópi eru ekki finnanlegir í Íslenzkum æviskrám, því að þar eru þeir ekki, sem eru af erlendu bergi brotnir. Réttilega hafa því ýmsir haft við orð að hér vantaði mjög æviskrár um erlenda menn í íslenskri sögu. Fleiri en þeir embættismenn sem hér hafa starfað eru verðugir að komast í slíkt rit. Hér er til umfjöllunar bók um mann sem hlýtur að verða einna óumdeilanlegastur í flokki þeirra, sem eiga skilið að komast í slíkt rit, en það birtist vonandi innan tíðar. Í raun ætti þess að vera lítil sem engin þörf að kynna Daniel Willard Fiske fyrir lesendum þessa tímarits. Hann var fæddur 11. nóv. 1831 í Ellisburgh í New York-ríki í Bandaríkjunum. Hann fékk snemma áhuga á Íslandi, fór til Kaupmannahafnar árið 1850, kynntist þar Íslendingum og var síðan eitt og hálft ár í Uppsölum, en þar hófust útgáfur íslenskra fornrita á 17. öld. Haustið 1852 hugðist hann fara til Íslands, en missti af skipinu. Næstu ár stundaði hann ýmis störf, en árið 1868 varð hann prófessor við nýstofnaðan háskóla í Cornell í Íþöku í New York-ríki í Bandaríkjunum. Þjóðhátíðarárið 1874 stóð hann fyrir bókagjöfum til Íslands þótt ekki kæmist hann sjálfur hingað. Fyrir vikið varð hann kunnur hérlendis og naut þess mjög þegar hann kom. Árið 1879 ferðaðist hann til Íslands og steig á land á Húsavík, fór ríðandi að Dettifossi, til Akureyjar, vestur að Hvammi í Dölum, til Reykjavíkur og alla leið austur að Bergþórshvoli. Næstum allt varð að fara ríðandi og geta menn ímyndað sér að ekki er létt að sitja á hestbaki marga klukkutíma daglega og er ekki fyrir gamla menn og

4

gigtveika. Á eftir var svo siglt kringum landið, nokkuð sem ekki er mögulegt nú á dögum. Í Reykjavík gekkst Fiske m. a. fyrir stofnun Lestrarfélags við Menntaskólann og stofnun Hins íslenzka fornleifafélags, sem enn gefur út Árbók. Fljótlega eftir Íslandsferðina kvæntist Fiske ríkri konu og unni henni mjög heitt, en þau nutust aðeins í ár því að þá dó hún. Mikil og erfið málaferli urðu út af arfi eftir hana, vann Fiske þau og fékk mikil auðævi til bókasöfnunar, en þetta fékk svo á hann, að hann ákvað að setjast að í Flórens á Ítalíu, þar sem hann dvaldi í 21 ár eða til æviloka 17. sept. 1904. Hann taldi sig ekki hafa heilsu til að fara aftur til Íslands þótt hann langaði til þess, enda ferðalög langtum erfiðari þá en nú. Á árunum í Flórens safnaði hann bókum af miklum dugnaði og fóru þær flestar til hans gamla Cornell-háskóla í Íþöku í Bandaríkjunum. Höfundur þessarar bókar, Kristín Bragadóttir, er sviðstjóri varðveislusviðs Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Hún getur þess í inngangi að víða hafi verið farið og leitað fanga: til Cornell þar sem hið stórmerka íslenska bókasafn Fiske er varðveitt, skoðað bréfaskipti hans við Íslendinga og Dani sem varðveitt eru í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn, farið til Uppsala í Svíþjóð og loks fór hún alla leið til Flórens og skoðaði þar húsið sem var bústaður hans. Vitanlega eru mörg og margvísleg gögn tengd honum varðveitt í Landsbókasafni. Annars er víða hægt að finna bréf frá Fiske, því að ég hef séð í Oxford fjögur bréf frá honum til Guðbrands Vigfússonar. Af þessu má sjá, að víða hefur verið leitað fanga og ekki látið nægja að skrifa aðeins upp úr prentuðum bókum. Bókin er með öðrum orðum ekki billeg blaðamennska. Ekki er að sjá að stafsetningu hafi verið breytt í tilvitnunum og er það vel. Galli er að ekki er vitnað í handritanúmer, en nöfn bréfritara eru í sérstakri skrá og ætti því ekki að verða mjög erfitt að finna bréfin. Þegar rit er skoðað hlýtur sú spurning að vakna, hver var tilgangurinn, hvernig er það unnið, er lögð of mikil áhersla á eitt á kostnað annars, með öðrum orðum hvernig eru hlutföllin? Ekki er sanngjarnt að gera kröfu til að hér sé fjallað um söfnun Fiske á bókum eftir Petrarca og Dante, en eðlilega er góður póstur um skák og skákbókasafn hans, sem nú er í Landsbókasafni. Einnig studdi Fiske skáklist hérlendis og gaf út skákdæmi, tímarit um skák og sögu skákar á Íslandi. Af uppsetningu bókarinnar er það að segja, að hún skiptist


bókasafnið í marga undirkafla, sem gerir hana miklu læsilegri en ella og mikið er af myndum. Satt að segja hefði verið sanngjarnt, þar sem um slíkan bókavin var að ræða, að leggja meira í pappír til að myndaprentun hefði orðið skýrari. Varla hefði nokkur bókamaður annar en Fiske átt það fremur skilið að nokkuð vel væri lagt í bók um hann. Annars hefur umbrot bóka á vegum Háskólaútgáfunnar stundum verið fremur viðvaningslegt. Ekki er nein grein gerð fyrir ættum Fiske, en ekki var hann af norrænum ættum, sem sennilega hefði getað skýrt áhuga hans á Íslandi. Segja má, að mest allt efni bókarinnar frá síðu 36, ef frá eru skildir kaflarnir um árið með konunni og erfðamálið, sé beint tengt Íslandi, en það geta varla kallast óeðlileg hlutföll. Miklu rými er varið í Íslandsferðina, enda vakti hún verulega athygli á sínum tíma, en þá bar meira á slíkum ferðalöngum en nú. Fiske var þekktur áður og því var honum betur tekið en ella hefði verið, en einnig mynduðust tengsl sem urðu honum mikilvæg við bókasöfnunina. Eðlilega er miklu púðri varið í hana, sem vitaskuld er rétt og skylt. Það er eins og að á þessum árum hafi Íslendingum verið gamlar bækur og fornir gripir ótrúlega lausir í hendi, því mikið af slíku var þá selt úr landi. Þess hefur Fiske notið, en sá útflutningur hefur orðið Íslendingum arðbærari en margt annað, því að þótt segja megi að bókasafnið hafi ekki verið notað mikið beint, þá hafa prentaðar skrár um það orðið mörgum að ómældum notum svo að bókasafnið hefur nýst mörgum óbeint. Einnig eru góðir kaflar um skákáhuga hans og velgerðir við Grímseyinga og birtar myndir af bókaskápum sem gefnir voru þangað. Einnig er nokkuð mikið um bókfræðiiðkanir Fiske, sem urðu grundvöllur að skrám um bókasafn hans. Seinasti kaflinn í bókinni er um íslensku deildina í bókasafni Cornell-háskóla og hefur höfundur dregið fram í dagsljósið skjöl um það að bókakassar frá Íslandi sem áttu að fara til Cornell hafi farið í hafið með Titanic 1912. Erfðaskrá Fiskes mælti svo fyrir að við íslenska safnið í Cornell yrði Íslendingur bókavörður og þar yrði gefið út tímarit um íslensk efni. Nefnist það Islandica og kemur út enn. Lengi starfaði þar Halldór Hermannsson og skrifaði sjálfur lengi tímaritið og setti saman og lét prenta vandaðar bókaskrár yfir safnið, sem eru enn í raun íslenskar þjóðbókaskrár, og er það vart skammlaust fyrir bókaþjóðina að hafa ekki gert þær skrár úreltar. Vonandi verður þó útgefin á næstunni heildarskrá um allar kunnar íslenskar bækur til 1844, en langt er þangað til þessar skrár yfir bókasafn Fiske verða alveg úreltar. Ekki er eðlilegt að frekar sé sagt frá störfum Halldórs, en vel hefði verið við hæfi að góð ritgerð væri um bókfræðistörf hans í Ritmennt, tímariti Landsbókasafns, ef út kæmi nú. Ekki rakst ég á neinar stórfelldar misfellur í bókinni, en þó má nefna að Guðbrandur Vigfússon var sagður (s. 14) bókavörður í Oxford, sem hann var ekki heldur prófessor; svo er að skilja (s. 161), að Grallarinn hafi verið gefinn út 1843, en seinasta útgáfa hans kom 1779. Þetta getur ekki kallast mjög alvarleg ónákvæmni. Í heild verður að segja að bókin sé fremur vel heppnuð og með henni sé þessum velgerðarmanni vorum góður sómi sýndur.

34. árg. 2010

“…en það borgaði svo að segja enginn“ 1848 tókst eg á hendur að vera bókavörður við stiftsbókasafnið, og átti eg að fá það í laun, sem fengist fyrir lán, því hver, er lánaði, átti að borga 3 mörk um árið, en það borgaði svo að segja enginn. Úr ágripi af sjálfsævisögu Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara og stiftsbókavarðar í Reykjavík. Úr fórum Jóns Árnasonar, fyrra bindi, Hlaðbúð, Reykjavík, 1950, bls. 12.

5


Þurfti að finna eigin lausnir á öllum vandamálum í safninu Sigrún Klara Hannesdóttir ræðir við Guðrúnu Gísladóttur, elsta núlifandi bókasafnsfræðinginn

Guðrún Hólmfríður Gísladóttir fæddist á Eyrarbakka 5. septem­ber 1920. Foreldrar hennar voru Gísli Ólafur Pétursson læknir og Aðalbjörg Jakobsdóttir kona hans. „Við vorum sjö systkinin sem upp komumst, sex bræður og ég, og á heimilinu var líka yngri fóstursystir. Eldri fóstursystir mín og systir dóu þegar ég var fimm ára. Einn bróðir minn var Jakob Guðrún Gísladóttir. Gíslason sem var orkumálastjóri um langt skeið. Heimilið var mjög gestkvæmt og alltaf nóg rými fyrir gesti og gangandi.“ Þegar Guðrún ætlaði að hefja nám í framhaldsskóla voru ekki margir kostir í boði, einkum fyrir börn sem búsett voru í dreifðum byggðum landsins. Þá var ekkert landspróf og í raun engin inntökupróf í menntaskóla nema í 1. bekk svo það gat verið flókið að komast inn. Það varð því úr að hún fór með frænku sinni Bergljótu Haralz, dóttur Aðalbjargar Sigurðardóttur, til Ísafjarðar til að undirbúa sig undir menntaskólanám. Þar var hún einn vetur í gagnfræðskóla Lúðvíks Guðmundssonar á Ísafirði. Þeir sem útskrifuðust hjá Lúðvík gátu síðan komist til Ágústs H. Bjarnasonar í Gagnfræðaskóla Reykvíkinga og áfram beint í 4. bekk í M.R. og það var leiðin sem Guðrún fór. Hún hóf nám í fjórða bekk menntaskólans árið 1937 og fór í stærðfræðideild, en þá voru bara tvær deildir í M.R., máladeild og stærðfræðideild. Ætlun Guðrúnar var að útskrifast sem stúdent 1940 en hún gifti sig árið 1939 og var maður hennar Pétur Sumarliðason, kennari. Það setti svo strik í reikinginn að fyrsta barn hennar fæddist 1940 og það seinkaði því að hún lyki stúdentsprófinu um eitt ár. Stúdent varð hún því 1941. „Ég hef þess vegna tilheyrt tveimur útskriftarárgöngum en ég þekkti betur þá nemendur sem útskrifuðust árið á undan mér enda hafði ég verið með þeim í nærri þrjá vetur. Við höfum lengi hist reglulega, fyrsta þriðjudag í mánuði. Fyrst voru þetta heimboð en það var alltof mikil fyrirhöfn og of

6

mikið álag á þá sem tóku á móti hópnum á hverjum tíma. Nú hittumst við á Grand Hótel og þá koma bara þeir sem vilja og það er engin fyrirhöfn fyrir hvern og einn.“ Eftir að drengurinn fæddist fór Guðrún með hann austur á Eyrarbakka. Þar var stórfjölskyldan og alltaf nóg rými fyrir ný börn. Þar skildi hún drenginn eftir og fór til Reykjavíkur til að ljúka stúdentsprófinu. Eftir stúdentsprófið tóku við enn meiri barneignir og 1944 voru strákarnir orðnir þrír og sá fjórði fæddist 1949. Einn vetur kenndi Guðrún stærðfræði í Kvennaskólanum, en það var ekki auðvelt að vinna úti því þá voru engin barnaheimili. Á stríðsárunum var talið gott að koma krökkum í sveit og þá gat hún komið strákunum sínum fyrir og þegar þeir voru farnir í sveitina fór hún að svipast um eftir sumarvinnu. Guðrún leitaði þá til Sigurðar Thoroddsen verkfræðings og spurðist fyrir um sumarstarf. Það var dálítið skondið að hann útvegaði Guðrúnu vinnu á Raforkumálstofnun (síðar Orkustofnun) hjá bróður hennar án þess að raforkumálastjóri vissi fyrirfram hver var umsækjandinn! Hvað gerðir þú fyrst á Orkustofnuninni? „Á þessum tíma voru miklar mælingar í gangi á hálendinu og síðan þurfti að reikna út mælingarnar til að hægt væri teikna eftir þeim og búa til kort. Þetta var mjög gott starf fyrir mig og ég gat gert alla þessa útreikninga heima. Ég reiknaði síðan út hvað þetta tók mig langan tíma og ég fékk síðan út á það svolitla kauphækkun. Seinna fékk ég vinnu við að teikna kortin.“ „Fljótlega var mér falið að huga að bókum stofnunarinnar. Bókasafnið var í einu horninu á teiknistofunni, en stofnunin hafði keypt mikið af bókum til að styðja við starfsemina. Margir fræðimenn komu til að vinna á Raforkumálastofnun eftir stríðslok og því var keypt efni sem þeir þurftu á að halda við sína vinnu. Bókasafn stofnunarinnar var þó ekki stórt, en strax var reynt að hafa reglu á safninu og fylgjast með innkaupum. Raforkumálastofnun hafði keypt þýska kerfið UDK, sem var mjög flókið, en eins og allir bókasafnsfræðingar vita byggir þetta kerfi á Dewey en notar formgreinarnar öðruvísi. Ég byrjaði samt að reyna að flokka bækurnar eftir þessu kerfi og


bókasafnið

34. árg. 2010

Á Bókasafni Orkustofnunar. Guðrún Gísladóttir og Siglinde Sigurbjarnarson bókavörður.

Á Bókasafni Orkustofnunar. F.v. Sigríður Valdimarsdóttir, Ingibjörg Gísladóttir, Erla Sigþórsdóttir og um öxl lítur Guðmunda Andrésdóttir.

koma skikki á safnið. En þetta var bara ígripavinna hjá mér í byrjun.“ Svo gerðist það að Björn Sigfússon háskólabókavörður fékk það verkefni að fara í ríkisstofnanir og kanna hvernig ástandið væri á bókasöfnum þeirra. Hann kom á Orkustofnun og var undrandi að Guðrún skyldi nota þetta þýska kerfi og hrósaði henni fyrir að hafa komið því í notkun. Eftir úttekt Björns kom svo að því að ríkisstofnanir voru skyldaðar til að ráða einhverja til starfa til að annast bókasöfnin. Ástandið var með besta móti á Hafrannsóknarstofnun þar sem Óskar Ingimarsson var umsjónarmaður með safninu og á Veðurstofunni þar sem Svanlaug Baldursdóttir vann, auk Orkustofnunar. Eftir þetta var Guðrún ráðin í fasta vinnu við bókasafnið

sjá hvað verið var að gera í öðrum söfnum. Tímarnir voru á eftirmiðdögum og laugardögum svo þetta hentaði vel með vinnu. Kennslan fór fram í Benediktssafni sem var hluti af Háskólabókasafninu. Lokaverkefni mitt í bókasafnsfræðinni var skrá um tímaritakaup í ríkisstofnunum og því lauk ég 1967. Ástandið var mjög bágborið víða og þetta verkefni varð svo grunnur að samskrá um erlend tímarit sem síðan var stækkuð og náði til fleiri stofnana. Eflaust hef ég hrist upp í einhverjum stofnunum með þessari könnun minni.“ Þó Guðrún væri búin að taka þrjú stig í bókasafnsfræðinni var hún samt ekki með tilskilin réttindi því hún þurfti að ljúka formlegu háskólaprófi eða að minnsta kosti B.A.-prófi. Hún skráði sig þá fyrst í dönsku, en þar var skyldumæting svo það gekk ekki. Um þetta leyti, eða 1969, hófst kennsla í jarðfræði og þá lá beint við að hún færi í jarðfræði þar eð kjarni safnsins voru jarðfræðibækur. Guðrún tók því tvö stig í jarðfræði. Aðalkennarinn var á þessum tíma Sigurður Þórarinsson og hún segir að það hafi verið mjög gaman í jarðfræðinni og námið kom sér einnig mjög vel fyrir það verk sem Guðrún var að vinna á Orkustofnun. Á þessum tíma var B.A.-prófið fimm stig en verið var að breyta því þannig að það þurfti sex stig og annað hvort tvær B.A.-ritgerðir eða eitt stig í þriðju greininni. Þórhallur Vilmundarson var þá deildarforseti í heimspekideild og var gamall bekkjarbróðir Guðrúnar. Hún sótti um að fá að ljúka B.A.-prófinu eftir gamla kerfinu og skrifaði deildarforseta bréf um málið enda fannst henni ekki henta sér að skrifa lokaritgerð í jarðfræði. En beiðni hennar fékk neikvæðar undirtektir og þá þurfti hún enn að finna nýja grein til þess að ljúka prófinu. Álfrún Gunnlaugsdóttir var þá að byrja að kenna almenna bókmenntafræði og Guðrún tók þá ákvörðun að skrá sig í bókmenntirnar. Hún segist alltaf haft bækur í kringum sig og þetta nám þótti henni sérstaklega skemmtilegt. B.Aprófinu lauk hún svo 1972 enda þótt B.A.-ritgerðin hafi verið unnin 1967 og því númer tvö af þeim sem útskrifast hafa frá Háskólanum.

En hvernig stóð á því að þú fórst að læra bókasafnsfræðina? „Þegar ég var komin með bókasafnið á mína ábyrgð var Svanlaug Baldursdóttir nýbúin í náminu en hún var fyrsti útskrifaði bókasafnsfræðingurinn frá Háskóla Íslands 1964. Ég man sérstaklega eftir viðtali við hana sem vakti athygli mína á þessu námi. Mér fannst þetta spennandi og auk þess fannst mér ég þurfa að bæta við þekkingu mína til að sinna starfinu betur. Annað mál var að þegar ég var að byrja með bókasafnið máttu stofnanir ekki borga fólki almennilega sem ekki hafði próf í þeirri grein sem það vann við. Ég var svo heppin að stofnunin var jákvæð í minn garð og óskaði eftir því að ég lærði til starfans. Þar sem þetta nám var samkvæmt beiðni fékk ég að sækja tímana í vinnutímanum. Jakob Björnsson sem þá var orkumálastjóri hvatti mig til þess að fara í skóla og afla mér réttinda. Ég fór því og sat í tímum hjá Birni Sigfússyni og Ólafi Hjartar.“ „Á þessum tíma voru aðalfögin flokkun og skráning. Við lásum Bókasafnsritið sem þeir höfðu samið, Björn og Ólafur. Við fundum okkur auk þess bækur og lásum um prentsögu og annað sem við gátum náð í. Björn var fróður um alla hluti. Hann hafði farið út og skoðað söfn á Norðurlöndunum og hann var mjög vel respekteraður af kollegum sínum á öðrum háskólasöfnum. Ólafur Hjartar hafði lært í Bretlandi og kenndi flokkun og bókfræði. Þegar ég fór í námið taldi Björn að ég þyrfti ekki að fara í námsvinnu því ég ynni á bókasafni, en þetta var ekki rétt hjá honum því ég hefði haft gott af að

Hvað vannstu lengi á Orkustofnun? „Það var nú ekki alveg ljóst, því eins og ég sagði þér þá byrjaði ég í lausavinnu við útreikninga á mælingum og síðan teikningar. Þegar farið var að reikna út lífeyrissjóðsréttindi mín

7


bókasafnið

34. árg. 2010

þá var miðað við árið 1952, en ég var viðloðandi stofnunina fyrir þann tíma, þó ég hafi ekki verið á bókasafninu.“ „Það var nokkuð merkilegt við þetta starf, að við urðum að finna lausnir á öllum vandamálum sem upp komu í skipulagningu og rekstri safnsins. Ég gat ekkert leitað því þekking á þessu sviði var mjög á byrjunarstigi á landinu. Skipulagning á Bókasafni Orkustofnunar var því mikill skóli fyrir mig. Stundum gat ég fengið aðstoð á sumrin einkum við utanumhald með tímaritunum. Ég fann upp á því að sérfræðingarnir hefðu sín tímarit hjá sér og báru þá ábyrgð á þeim. Síðan voru þau sett í geymslu. Ég hélt því fram að bókasafn í tæknistofnun þyrfti ekki að vera stórt ef geymslan væri góð og vel skipulögð.“ „Efnafræðingar og aðrir fræðimenn á rannsóknarstofn­unum Háskólans höfðu ekki aðgang að miklum bókakosti á sínum vinnustað en gátu nýtt sér safnið hjá mér. Margir voru að vinna mjög merkileg frumkvöðlaverkefni á þessum tíma. Má þar nefna Sigurð V. Hallsson sem vann miklar rannsóknir á þaraþurrkun og kom að stofnun Þaravinnslunnar á Reykhólum og Baldur Líndal efnaverkfræðingur sem var aðalmaðurinn í rannsóknum á vinnslu á kísilgúr. Þarna var því um hreina efnafræði að ræða og þeir þurftu mikið af bókum og fengu aðstöðu hjá Orkustofnun. Bækurnar urðu svo eftir hjá okkur þegar þeir fóru.“ „Ég man líka eftir ungum verkfræðingi sem kom til okkar. Hann hafði verið í framhaldsnámi í Englandi en kom svo til mín og bað mig að útvega sér sérstaka gamla bók. Hann gat lesið bókina á British Museum en ekki fengið hana lánaða. Hann hafði reynt að fá hana lánaða í millisafnaláni en hafði ekki haft erindi sem erfiði og hafði svo frétt að hægt væri að fá bækur í millisafnaláni í gegnum Háskólabókasafn. Ég sagði honum að ég héldi að bókin væri á safninu og það stóð heima. Í Bretlandi hafði hann ekki getað fengið aðgang að þessari bók en svo var hún bara í bókasafninu hjá okkur!“ „Mér fannst uppbygging safnsins takast mjög vel og ég man eftir því að ég hringdi einhvern tíma í Björn Sigfússon og spurði hann um rit. Hann svaraði því til að væri ritið ekki til hjá okkur þá væri það ekki til á landinu. Margir komu til að nota safnið og engum var vísað frá.“ Guðrún fór í tveggja mánaða námsdvöl á Tæknibókasafnið í Danmörku árið 1968 og fannst gott að finna að þar voru sömu vandræðin og á litla safninu hennar þó þar væru sérfræðingar á hverju strái. Sérfræðingar sáu t.d. um að velja bækur í safnið og þarna voru haldnir bókavalsfundir fyrir allar sérgreinarnar. Bókaverslanir sendu bækur í safnið og menn gátu ákveðið hvað átti að kaupa með bækurnar fyrir framan sig. Hjá Orkustofnun völdu sérfræðingarnir sjálfir bækurnar og safnið sá svo um að kaupa þær inn. Hins vegar var oft erfitt að eiga við tollinn. Guðrún þurfti að fara á staðinn og gera grein fyrir hverri bók sem kom og svo þurfti að ákveða hvernig ætti að tolla þær. Í þetta fór gríðarlegur tími. Annað mál sem Guðrún þurfti að sjá um voru skýrslurnar sem Orkustofnun gaf út. Mikil vinna fór í að halda utan um þær. Reynt var að draga úr útgáfu á öllum þessum skýrslum og loks var kosin nefnd til að ákveða hvort tiltekið efni skyldi gefið

8

út í skýrslu eða ekki. Síðan var Páll Ingólfsson landfræðingur ráðinn ritstjóri að skýrslunum. Guðrún var mjög ánægð með þá ráðstöfun og segir að hann hafi verið einstaklega góður starfsmaður og nákvæmur. Tekin var ákvörðun um staðlað og sérhannað útlit fyrir hvern flokk og síðan var auðveldara fyrir safnið að annast þær. „En skjalamálin hvíldu líka á mér. Það var mikið að gerast í skjalamálunum á Norðurlöndunum á þessum tíma. Rafmagnsveitur á Norðurlöndunum höfðu unnið sameigin­lega að uppbyggingu skjalakerfis og norrænn sérfræðingur kom til okkar til skrafs og ráðagerða. Ég var send út til að kynna mér notkun á kerfinu og fór þá bæði til Danmerkur og Noregs. Niðurstaða mín var sú að kerfið væri ágætt en passaði ekki fyrir Orkustofnun sem ekki var rafveitusafn. En uppbygging kerfisins var mjög handhæg og mér tókst að aðlaga það að efni stofnunarinnar. Á Orkustofnun var mikið til af gömlum gögnum sem þurfti líka að gera til góða en lítill tími til að sinna því verkefni. Eitt árið var ég svo heppin ef svo má segja að á skall langt verkfall hjá starfsmönnum BSRB. Meginhluti starfsemi stofnunarinnar lagðist niður og ég var ein á bókasafninu. Ég tók þá öll gömlu skjölin og skráði þau, merkti og kom þeim inn í kerfið enda gat ég unnið að þessu án truflana.“ Hvernig var samvinnan hjá ykkur í sérfræðibókasöfnunum? „Við héldum mikið saman, þessi svokallaði náttúrufræðihópur, bæði þau sem unnu á Keldum og á Hafrannsókn. Það þurfti að ráða fram úr alls kyns vandamálum og gott að geta haft samvinnu og samstarfið var ákaflega gott hjá þessum hópi. Tölvuleitirnar voru að byrja og þar var Kristín H. Pétursdóttir ein af forvígismönnunum þegar hún kom úr sínu framhaldsnámi frá Bandaríkjunum. Ég veit að yfirlæknirinn á Borgarspítalanum hafði miklar áhyggjur af því að hafa ekki læknisfræðibókasafn en svo kom Kristín og innleiddi þar alls kyns nýjungar.“ Hvað með félagsmál stéttarinnar. Tókstu ekki þátt í þeim? „Ég gekk fljótlega í Bókavarðafélagið og ég man að þar var Ólafur Hjartar mjög virkur, en ég var ekki sérlega virk til að byrja með. Ég var þó í stjórn 1964-1970. Ég man líka að árið 1968 fórum við fjórir fulltrúar frá Íslandi til Bergen til að taka þátt í 11. norræna bókavarðaþinginu en auk þess reyndi ég að sækja ráðstefnur og þing eins og kostur var. Ég var líka í stjórn Félags bókavarða í rannsóknarbókasöfnum 1975-1977. En svo stofnuðum við Félag bókasafnsfræðinga árið 1973 og ég var einn af stofnfélögum þess félags og í fyrstu stjórn þess. Íslenskufræðingarnir vildu ekki viðurkenna þetta félag og ég man að Finnbogi Guðmundsson landsbókavörður átti það til að tala niður til okkar og sagði gjarnan „væna mín“ ef honum fannst við of kröfuharðar enda flestar konur. Ég held ég hafi verið frekar respekteruð vegna þess að ég var búin að vera svo lengi í þessu fagi og líka eldri en hinir stofnfélagarnir. Við reyndum að útskýra fyrir þeim að við værum bara að reyna


bókasafnið

34. árg. 2010

Á Bókasafni Orkustofnunar Siglinde Sigurbjarnarson horfir til Helgu Sveinbjörnsdóttur tækniteiknara, Jón Ingimarsson verkfræðingur blaðar í kortum.

Á Bókasafni Orkustofnunar. Guðrún situr við símann, Erla Sigþórsdóttir stendur með bolla í höndum og til myndasmiðsins lítur Páll Ingólfsson.

að styrkja okkar réttindi en vildum ekki standa í neinu stríði við þá. Enginn efast um það lengur að það þurfi menntun í bókasafnsfræði til að sinna safnstörfum. Skjalastjórar eru núna mjög virkir og ég var stofnfélagi í Félagi um skjalastjórn. Það hefur líka verið misskilningur um að skjalamálin snúist alfarið um gömul skjöl. Það þarf ekki síður að halda vel utan um ný skjöl. En vissulega er þetta smám saman að verða viðurkennt.“

Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna og í nefnd til að undirbúa Kvennafrídaginn 1975 og Kvennavikuna 1980. Þessi frumkvöðull í stétt bókasafnsfræðinga hefur hlotið margvíslegan heiður fyrir lífsstarf sitt. Má þar nefna að hún er heiðursfélagi í Kvenréttindafélagi Íslands og Félagi um skjalastjórn og hún var ennfremur gerð að heiðursfélagi í Bókavarðafélagi Íslands árið 1997. Það hefur verið gaman að horfa til baka með Guðrúnu og rifja upp hversu mörg og flókin verkefni þurfti að leysa á frumbýlingsárum rannsóknarbókasafns fyrir 50 árum. Hvernig leita þurfti lausna fyrir notendur safna fyrir tíma tölvuvæðingarinnar, án netsins og án allra þeirra þæginda sem okkur finnst sjálfsagt að séu við hendina núna til að létta okkur störfin. Við þökkum Guðrúnu fyrir spjallið og óskum henni til hamingju með stórafmælið sem verður seinna á árinu 2010.

Þú varst mjög virk í Kvenréttindafélaginu líka. Hvernig kom það til? „Ég var mjög lengi í Kvenréttindafélagi Íslands. Móðursystir mín, Herdís Jakobsdóttir, var fyrsti formaður Sambands sunnlenskra kvenna árið 1928 og í gegnum störf hennar kynntist ég kvenréttindamálum. Ég byrjaði sem ritari á fundum hjá henni og komst því vel inn í málin og þegar ég flutti til Reykjavíkur 1944 gekk ég í Kvenréttindafélagið og var í stjórn þess frá 1952 og sat landsfundi félagsins. Á þessum tíma gátu allir stjórnmálaflokkar sem áttu menn á þingi tilnefnt fulltrúa í stjórn Kvenréttindafélagsins. Tvö baráttumál okkar má nefna hér, en það var að fá sömu laun fyrir sömu vinnu og síðan að konur fengju að hafa aðskilið skattaframtal. Þessi sameiginlegu skattaframtöl löttu konur til að fara út að vinna því það hækkaði skattinn á eiginmanninum. Einu sinni fór ég á svokallaða Eystrasaltsviku sem haldin var í Austur-Þýskalandi. Þar hitti ég Bruno Kress sem var gamall kennari minn og hann var okkur innan handar með þýskuna. Ég átti að segja fréttir frá Íslandi en þá var nýbúið að samþykkja lög þess eðlis að allir ættu að fá sömu laun fyrir sömu vinnu. Þetta vakti mikla athygli og ég var mjög hissa að sjá að við vorum framarlega í þessum málaflokki. En samt er enn verið að ræða um kvennastörf og karlastörf hérna hjá okkur. Enn má nefna eitt mál í réttindabaráttunni. Á Orkustofnun og fleiri ríkisstofnunum var komið upp því sem kallað var óunnin yfirvinna. Þessa óunnu yfirvinnu fengu karlarnir fyrst og fremst og sagt var að þeir fengju þessa tíma fyrir að lesa sér til og halda við þekkingu sinni. Ég sagðist nú aldeilis þurfa að lesa mér til ekki síður en þeir og svo var tekið tillit til þess og seinna fengu allir þessa óunnu yfirvinnu.“ Guðrún hefur komið víða við og hún var t.d. í stjórn

Abstract Had to find own solutions to all the library problems Gudrun Gisladottir, who will be 90 later this year, describes her life and career. She finished secondary school in 1941 but for family reasons she had to postpone further education and care for her four boys. In the early 1950s she was employed by the Icelandic Energy Institute to work with mapping out energy resources of the highlands of Iceland. Gradually she became involved with the library which she classified according to a German version of the UDK (Universal Decimal Classification) system. This was the beginning of systematic organization of special libraries in Iceland. Gudrun enrolled in the University of Iceland in 1964 to study librarianship and finished her studies with the creation of a union catalogue of research journals in government institutions. As one of the pioneers in Icelandic research librarianship she had to develop her own solutions to all issues that came up in her library. Gudrun became a founder of the Association of Professional Librarians in 1973 and the Icelandic Records Management Association –IRMA in 1988. She has received honorary membership from Upplysing - The Icelandic Library and Information Science Association as well as the Icelandic Women’s Rights Association.

9


Bókasafn Akraness í nýtt húsnæði

allt á einni hæð, góð aðstaða fyrir starfsfólk og næg bílastæði. Húsnæðið var afhent í byrjun júlí 2009 og opnað fullklárað 1. október síðastliðinn.

Halldóra Jónsdóttir

Bókasafn Akraness flutti í ný húsakynni á nýliðnu ári. Aðdragandinn var nokkuð langur, en í ársbyrjun 2006 ákvað bæjarstjórn að undangenginni þarfagreiningu að söfnin í Bókhlöðunni, Heiðarbraut 40, færu í nýtt húsnæði. Í byrjun maí 2006 var undirritaður kaupsamningur á milli Fasteignafélags Akraneskaupstaðar og Smáragarðs ehf. þar sem Fasteignafélag Akraneskaupstaðar keypti hluta af verslunarmiðstöðinni að Dalbraut 1, á nýju miðbæjarsvæði, fyrir Bóka- og Héraðsskjalasafn Akraness. Um var að ræða um það bil 1300 m² húsnæði, allt á einni hæð í stað 1050 m² á þremur hæðum á Heiðarbrautinni. Nýja húsnæðið átti að hanna með tilliti til þarfa safnanna og hófst vinna með arkitektum hjá Skapa og Skerpa, Þjónustumiðstöð bókasafna og Magnúsi H. Ólafssyni arkitekt og ráðgjafa vegna skjalageymslna strax í upphafi ársins 2006 og var vel á veg komin er nýr meirihluti bæjarstjórnar ákvað að hætta við flutninginn og fara í endurbætur á Heiðarbraut 40. Það er erfitt að vera með safnastarfsemi í húsnæði sem þarfnast mikillar viðgerðar og að lokum fór svo að bæjarstjórn fjárfesti í nýju húsnæði fyrir bókasafn og skjalasafn, þar sem einsýnt var að eldra húsnæðið þurfti mikillar viðgerðar við. Þann 26. júní 2008 var undirritaður samningur um byggingu á nýju bókasafni á Akranesi, en hið nýja safn er hluti af verslunar- og þjónustumiðstöðinni að Dalbraut 1, þar sem Tónlistarskólinn á Akranesi er einnig til húsa. Þetta er sama hús og áður hafði verið ákveðið að flytja söfnin í en önnur staðsetning. Ekki þarf að taka fram að hér er um byltingu að ræða í safnamálum á Akranesi. Gott aðgengi er að söfnunum,

10

Undirbúningur að flutningi Á ný hófst vinna með Elínu Gunnlaugsdóttur arkitekt frá Skapa og Skerpa og öðrum þeim sem komu að fyrra skipulagi. Hafa þurfti í huga þarfir bókasafns, skjalasafns og ljósmyndasafns. Húsnæðið er ekki stærra í fermetrum en það gamla, en hér er allt á einni hæð og lofthæð mikil, sem ákveðið var að nýta vel í geymslum. Arkitektinn hafði samráð við starfsfólk um innra skipulag en í hennar höndum var litaval á gólfefnum og lofti, val á loftljósum og klæðningu á húsinu að utan. Einnig hannaði hún innganga (að sunnan- og norðanverðu hússins) sem minna á Hvalfjarðargöngin. Stofnununum þremur, sem deila með sér húsnæðinu, var úthlutað 44,5 milljónum króna til kaupa á búnaði. Þar sem nýja húsnæðið er ekki stærra en það gamla og safneign mikil og varðveislusöfn héraðs- og ljósmyndasafnanna umfangsmikil, var ákveðið að kaupa hjólaskápa í skjalageymslu, sem hýsa einnig bókageymslur bókasafnsins. Nýr bókasafnsbúnaður var keyptur frá Þjónustumiðstöð bókasafna en allur eldri skrifstofubúnaður var nýttur áfram, svo og tölvubúnaður. Gamlir stólar voru yfirdekktir og notaðir í kaffistofu og í sal. Flutningur safnanna tók tvo mánuði. Söfnunum var lokað 1. ágúst og opnuð aftur 1. október 2009. Starfsfólk safnanna sá um skipulag flutninganna en verktaki var fenginn til að flytja safngögn og búnað. Einnig kom aðstoð frá unglingum í Vinnuskólanum við pökkun safngagna. Lánþegar hjálpuðu til við flutningana með því að taka bækur ríflega að láni. Útlán í júlí 2009 sló öll fyrri útlánamet, lánuð voru 8.669 safngögn, tæplega 50% meira en meðalútlán eru á mánuði. Auk Bókasafns Akraness eru Héraðsskjalasafn og Ljósmyndasafn Akraness í nýja húsnæðinu að Dalbraut 1 en frá og með árinu 2007 var rekstur þeirra færður til bókasafnsins. Þetta var gert með sparnað í huga, söfnin deildu með sér húsnæði og ýmsum tækjabúnaði og því þótti hagræði að sameina söfnin í eina rekstrareiningu, undir yfirstjórn bæjarbókavarðar.


bókasafnið

34. árg. 2010

Starfsfólk Bókasafns Akraness. F. v.: Hafdís Daníelsdóttir bókavörður, Sigríður Beinteinsdóttir bókavörður, Helgi Steindal bókavörður og nemi í bókasafns- og upplýsingafræðum, Auður Sigurðardóttir bókavörður, Nanna Þóra Áskelsdóttir deildarstjóri og Halldóra Jónsdóttir bæjarbókavörður. Ljósmynd: Ágústa Friðriksdóttir. Á myndina vantar Gerði J. Jóhannsdóttur skrifstofustjóra í Héraðsskjala- og Ljósmyndasafni.

Bókasafnið Við val á nýjum bókasafnsbúnaði var fengin ráðgjöf frá Þjónustumiðstöð bókasafna, sem einnig gerði tillögu að uppsetningu búnaðar. Valinn var hillubúnaður í nýrri Softline línu, sýningarbúnaður, bókavagnar og bókabíll í barnadeildina. Eldri hillubúnaður (Softline) var fluttur með og nýttur eins og hægt var. Barnadeildin er í sérrými, sem að hluta til er stúkað af frá útlánasal með glerhurðum og glervegg. Hér eru bækur fyrir yngstu börnin og hægt að skapa gott næði til að taka á móti leikskólahópum. Námsverið Svöfusalur er einnig í sérrými. Þar er fjarfundabúnaður og möguleiki fyrir nemendur að stunda fjarnám frá Háskólanum á Akureyri eða sitja námskeið sem Símenntunarmiðstöð Vesturlands býður upp á í gegnum slíkan búnað. Einnig er námsverið nýtt af háskólanemum og fræðimönnum til náms og lestrar þegar salurinn er ekki í notkun vegna fjarkennslu eða funda. Nemendur í háskólanámi geta fengið aðgangskort að salnum til að nýta sér aðstöðuna utan hefðbundins afgreiðslutíma.

Í nýja safninu hefur átthagadeild verið gefið meira rými en áður, en deildin hefur það að markmiði að varðveita útgefið efni sem varðar Akranes og Vesturland. Gögn í átthagadeild eru einungis lánuð til afnota á bókasafninu. Haraldssafn er deild í Bókasafni Akraness. Safnið er einkabókasafn dr. phil. Haraldar Sigurðssonar (1908-1995) og Sigrúnar Ástrósar Sigurðardóttur og telur um 4000 bindi. Akraneskaupstaður keypti safnið árið 1994. Þess má geta að kortabókasafn Haraldar er í Þjóðarbókhlöðu. Upphaflega stóð til að í nýja safninu væru glerskápar í útlánasal er sýndu bækur úr Haraldssafni, en vegna niðurskurðar varð að fresta þeim kaupum og er allt safnið í geymslu. Bækurnar eru að nær allar skráðar í Gegni og eingöngu lánaðar á lesstofu. Í Haraldssafni er mikið safn íslenskra þjóðsagna, nær öll tímarit í frumútgáfu frá því að útgáfa þeirra hófst og fram yfir miðja 19. öld og þau helstu eftir þann tíma. Einnig er þar mjög merkt safn fornrita, til dæmis gamlar útgáfur af Eddunum og flestar útgáfur Heimskringlu og Sturlungu. Haraldur Sigurðsson safnaði öllum útgáfum ritverka einstakra rithöfunda. Merkust eru ritverk Halldórs Laxness.

Mynd frá útlánasal. Við afgreiðsluborðið. Ljósmynd: Halldóra Jónsdóttir.

Úr skjala- og bókageymslunum.

Ljósmynd: Halldóra Jónsdóttir.

11


bókasafnið

34. árg. 2010

Séð yfir útlánasal.

Ljósmynd: Halldóra Jónsdóttir.

Stærsta sérsafnið er þó bókakostur um landafræði Íslands og undirgreinar hennar. Ferðabækur eru snar þáttur í þessari grein, ferðir erlendra manna um Ísland. Þess má geta að mjög hefur verið vandað til bands og annars frágangs á bókum safnsins og eiga flestir færustu handverksmenn í bókbandi sér minnisvarði í þessu bókasafni. Í Haraldssafni eru bækur úr Leirárgarða- og Beitistaðaprenti, en hluti af þeim ritum komu úr einkasafni sr. Björns Jónssonar fyrrverandi sóknarprests á Akranesi. Bókasafn Akraness veitir notendum sínum margvíslega þjónustu. Auk útlána í safninu sjálfu stendur bókasafnið meðal annars fyrir sögustundum fyrir börn og safnkynningum fyrir grunnskólanemendur. Einnig geta hópar óskað eftir safnkynningum. Sérstök heimsendingarþjónusta er við sjúka og aldraða, bókasafnsþjónusta við heimilisfólk á dvalarheimili aldraðra og sjúklinga á sjúkrahúsinu, útlánaþjónusta við áhafnir skipa og millisafnalánaþjónusta svo eitthvað sé nefnt. Gestir safnsins geta komist í tölvur á safninu (netkaffitölvur) og í safninu er þráðlaust net fyrir eigendur fartölva. Söfnin á Dalbraut 1 vinna sameiginlega að sýningum ýmist í safninu sjálfu eða annars staðar. Söfnin afla sér styrkja til að standa straum að sýningahaldi og hefur Menningarráð Vesturlands verið okkar helsti styrkveitandi. Í bókasafninu eru 5,3 stöðugildi. Þar af eru tveir bókasafnsfræðingar, forstöðumaður og deildarstjóri. Tímabundið hefur verið dregið úr starfseminni vegna efnahagsástands í þjóðfélaginu, stöðuhlutföll minnkuð og afgreiðslutími styttur. Þá hefur ekki verið ráðið í tímabundin forföll. Héraðsskjalasafnið og Ljósmyndasafnið eru saman um stöðugildi en af og til hefur fólk verið ráðið í átaksverkefni. Samstarf safna, Akraborg Í kjölfar viljayfirlýsingar menningarmálanefnda Akraneskaup­ staðar og Borgarbyggðar árið 2007 um samstarf á sviði menningarmála hafa Bókasafn Akraness og Héraðsbókasafn Borgarfjarðar gert með sér það samkomulag að eigi lánþegi gilt skírteini í Bókasafni Akraness getur hann nýtt sér þjónustuna í Héraðsbókasafni Borgarfjarðar og öfugt. Þetta hefur mælst vel fyrir og lánþegar eru duglegir að notfæra sér þennan möguleika.

12

Barnadeildin.

Ljósmynd: Halldóra Jónsdóttir.

Héraðsskjalasafn Akraness Héraðsskjalasafn Akraness var stofnað 27. apríl 1993. Umdæmi safnsins er Akraneskaupstaður. Héraðsskjalasafnið og Ljós­mynda­safnið hafa saman skrifstofu í norðurenda hússins og aðstöðu fyrir starfssemi sína. Þar eru skjalageymslur safnsins og grúskherbergi fyrir gesti skjalasafnsins. Ljósmyndasafn Akraness Ljósmyndasafn Akraness var stofnað 28. desember 2002 í tilefni af 60 ára afmæli kaupstaðarins. Fyrsta framlag til safnsins kom frá feðgunum Helga Daníelssyni og Friðþjófi Helgasyni. Hlutverk Ljósmyndasafns Akraness er að safna, skrá og varðveita ljósmyndaefni svo sem ljósmyndir, glerplötur, filmur og skyggnur sem og önnur gögn og skjöl sem tengjast greininni og hafa menningarsögulegt gildi og varpa ljósi á sögu Akraness. Safnið tekur við og varðveitir efni frá fyrirtækjum, stofnunum og einkaðilum sé þess óskað. Þá hefur það jafnframt það hlutverk að festa samtímasögu kaupstaðarins á mynd sem og að afla skipulega heimildaljósmynda um sögu hans. Markmið Ljósmyndasafns Akraness er að gefa heildarmynd af þeirri ljósmyndamenningu sem stunduð hefur verið í bænum frá því að byrjað var að taka ljósmyndir á Akranesi. Í tengslum við stofnun Ljósmyndasafns Akraness var vefur Ljósmyndasafns Akraness opnaður en á honum eru myndir safnsins gerðar almenningi aðgengilegar. Vefurinn er hannaður af Jóhanni Ísberg og er vistaður hjá Nepal í Borgarnesi en vefstjóri er Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir, deildarstjóri í héraðsskjala- og ljósmyndasafni. Á vef Ljósmyndasafns Akraness eru nú um 25.000 myndir eftir stóran hóp ljósmyndara. Vefurinn er gagnvirkur að því leyti að þegar myndir eru skoðaðar er gefinn kostur á að senda safninu upplýsingar um myndina. Hefur þetta verið ómetanleg hjálp við upplýsingaöflun og hafa margir haft gaman af. Vefslóðin er http://ljosmyndasafn.akranes.is/ Geymslur safnanna Hjólaskáparnir í geymslu eru framleiddir hjá Sarpsborg Metal AS í Noregi og keyptir hjá Ísold ehf. Skáparnir eru rafdrifnir og skiptast í tvær einingar, skjalasafn /ljósmyndasafn annars


bókasafnið vegar og bókasafn hins vegar og eru einingarnar læsanlegar hvor fyrir sig. Með því móti er hægt að hafa eitt geymslurými fyrir bókasafn og skjalasafn og spara kostnað og rými. A-hlutinn: Hér eru geymdar bækur /tímarit bókasafnsins, Haraldssafn, og átthagadeildin, um það bil 600 hillumetrar. Þessi hluti tekur um 35.900 bækur en nú eru um 27.000 safngögn í geymslu. B- og C-hlutinn: Geymslur fyrir héraðsskjalasafn og ljósmyndasafn, um það bil 1200 hillumetrar. C-hlutinn: Þessi hluti er með römmum sem eru sérstaklega gerðir fyrir ljósmyndir í römmum og málverk eða hluti sem þarf að hengja upp. Þessi hluti er 200 hillumetrar. Lofthæð var nýtt eins og hægt var, eða í 2,5 m hæð, og samtals eru skáparnir 2000 hillumetrar og taka um 130 m² gólfpláss. Skjalageymslan er umlukin eldvarnarveggjum og ýtrasta öryggis er gætt. Hitstig er haft um 17°C +/-2 og er sér hitastýring fyrir skjalageymlsu. Tæknirými er fyrir ofan skrifstofur og skjalageymslu. Þar er stýring fyrir vélræna loftræstingu, öryggiskerfi og netþjóna.

34. árg. 2010

Öryggiskerfi Í safnahúsnæðinu er innbrota- og brunaviðvörunarkerfi og aðgangsstýrikerfi. Slíkur öryggisbúnaður var ekki í gamla húsnæðinu og var meðal annars ein forsenda þess að söfnin voru flutt. Að lokum Mjög góð aðsókn hefur verið að söfnunum í nýju húsakynnunum og eru útlán Bókasafns Akraness árið 2009 um 4% fleiri en árið áður, þó svo lokað hafið verið í tvo mánuði. Lánuð voru 58.401 safngögn en til samanburðar voru útlán árið 2008 56.156 safngögn. Útlán hafa farið vaxandi síðastliðin þrjú ár og verður fróðlegt að sjá hver framvindan verður í nýjum húsakynnum. Árið 2009 voru að meðaltali 8,9 gögn lánuð til hvers íbúa á Akranesi, árið 2008 8,4 safngögn á íbúa svipað og árið 2007, 8,3 safngögn á íbúa. Lánþegum hefur fjölgað og eru nú 1726 en voru 1472 í árslok 2008. Bókasafnið fagnaði 145 ára afmæli 6. nóvember 2009, eða um það leyti sem starfsemi hófst að Dalbraut 1. Af því tilefni var ný vefsíða tekin í notkun, en hún er að formi til eins og vefsíða Akaneskaupstaðar. Þetta er þriðja útgáfa af vefsíðu Bókasafns Akraness og þar má nálgast ýmsan fróðleik um safnið. Slóðin er www.bokasafn.akranes.is

„Illa gengur annars með stjórnina á stiftisbókasafninu“ Illa gengur annars með stjórnina á stiftisbókasafninu. Eg skrifaði stjórnendunum til, mig minnir heldur í marz en apríl í vetur, um að fá nokkrar bækur á safnið, sem þá voru hér á boðstólum fyrir hálfvirði, en hef ekkert svar fengið enn. Þar á meðal var ættartöluhandrit, 2 bindi í 4to, frá síra Sigurði á Útskálum, sem þeir feðgar Espólín höfðu átt og supplerað, og þar á eftir Ó. Snóksdalín. Það átti að kosta 4 rdl, en var orðið nokkuð rotið aftan og framan, en þó læsilegt. Aftur hef eg orðið þess var, að í það vantar á stöku stað blöð. Mig minnir Benedikt lögmaður Þorsteinsson hafi samið þær ættartölur fyrstur. Nú fer ég annars bráðum að knýja á nefndina um skápana, sem hún hefur lofað mér á bókasafnið, og þá gæti eg komið handritunum betur fyrir en áður, ef eg fengi nokkurn styrk, en eg get varla ráðizt í mikið, þó eg fái 30-40 rdl fyrir frammistöðu mína um árið. Úr bréfi Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara og stiftsbókavarðar í Reykjavík til Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn 4. september 1855. Úr fórum Jóns Árnasonar, fyrra bindi, Hlaðbúð, Reykjavík, 1950, bls. 48-49.

13


Í minningu bókvinar

Guðrún Jónsdóttir og Sævar Ingi Jónsson

Síðastliðið sumar stóð Safnahús Borgarfjarðar ásamt Landsbókasafni Íslands fyrir málþingi í Borgarnesi til minningar um Pál Jónsson bókavörð. Þingið var haldið í samvinnu við Ferðafélag Íslands og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga og efnisval erinda fræðimanna á þinginu miðaðist við áhugaefni Páls. Hann var öflugur liðsmaður Ferðafélagsins og Héraðsskjalasafnið í Skagafirði geymir ljósmyndasafn hans sem er mikið að vöxtum. Báðir aðilar stóðu á þessum forsendum að málþinginu til að heiðra minningu góðs manns. Páll var lengst af bókavörður við Borgarbókasafn Reykjavíkur, en meðal annarra áhugamála hans voru ferðalög um náttúru Íslands og ljósmyndun. Í einkabókasafni hans er stór hluti ævistarfs hans fólginn. Þar hefur næmni og þekking bókasafnarans notið sín eins og best verður á kosið, en í safninu eru tæplega 7.000 bækur og margar þeirra afar fágætar. Þess skal einnig getið að margar af bókum sínum batt Páll inn sjálfur og þótti hann meðal bestu bókbindara landsins. Ekki sótti hann þó iðnnám í þeirri grein, en lærði mest á námskeiðum þýsks listbókbindara er hér dvaldist um nokkurra ára skeið eftir stríðslok. Páll Jónsson Páll var fæddur 1909 og var málþingið haldið á 100 ára afmæli hans, þann 20. júní 2009. Hann var fæddur á Lundum í Stafholtstungum í Borgarfirði, en fór fljótlega í fóstur að Örnólfsdal í Þverárhlíð. Leiðin lá síðan að heiman um 16 ára aldur og þá til Reykjavíkur þar sem hann starfaði við verslunarstörf fyrstu árin, en réðst svo sem auglýsingastjóri að dagblaðinu Vísi og starfaði við það í hátt á annan áratug. Árið

14

1953 hóf hann störf sem bókavörður við Borgarbókasafnið þar sem hann starfaði í um 27 ár. Hann lét þar af störfum 72 ára gamall árið 1980. Páll hafði eins og fyrr sagði mikinn áhuga á ljósmyndun, útivist og náttúruskoðun. Hann var einn stofnenda Farfuglahreyfingarinnar og sat í stjórn Ferðafélags Íslands í um þrjá áratugi og var ritstjóri Árbókar þess um 15 ára skeið. Sem dæmi um vægi ljósmyndasafns Páls má nefna að hann fór um Skagafjörð 1944-45 og tók þar myndir vegna Sturlunguútgáfu og útgáfu Árbókar 1946. Alls hafa 70 myndir úr ferðinni varðveist. Þar á meðal eru ómetanlegar myndir úr Stíflu í Fljótum, sem skömmu síðar var sökkt að stórum hluta vegna Skeiðsfossvirkjunar. Árið 1980 var Páll kosinn heiðursfélagi Ferðafélagsins. Í minningu hans var síðar stofnaður hjá félaginu sérstakur minningarsjóður sem veitir þeim viðurkenningu sem í máli eða myndum stuðlar að aukinni þekkingu manna á landi og þjóð. Þetta er svokölluð Pálsvarða sem fyrst var veitt árið 1985. Páll sá einnig um útgáfu nokkurra afmælisrita og á 75 ára afmæli hans 1984 útbjuggu vinir hans honum sjálfum veglegt afmælisrit, Land og stund, sem Sverrir Kristinsson gaf út.

Páll Jónsson í bókaherbergi sínu.


bókasafnið

34. árg. 2010

Ráðstöfun bókanna Það var árið 1985 sem Héraðsbókasafni Borgarfjarðar í Borgarnesi barst bókasafn Páls að gjöf og á slíkt sér varla hliðstæðu í sögu borgfirsku safnanna. Páll lést þann 27. maí 1985 og hafði mælt svo fyrir með gjafabréfi ári áður að bókasafnið færi í Borgarnes eftir sinn dag. Þar var því búinn góður staður í Safnahúsi Borgarfjarðar og opnað með viðhöfn árið 1989. Safnið er mikið að vöxtum og í því margar afar fágætar bækur. Forvitnilegt er að grípa niður í minnisbækur þær er hann hóf að skrifa um 1960 og kallaði Bókarabb. Í færslu frá árinu 1971 hugleiðir hann meðal annars hvað verði um safnið eftir sinn dag: Oft er eg á seinni árum spurður að því hvað eg ætli að gera við bækurnar þegar eg er dauður, hvort eg ætli ekki að ráðstafa þeim á einhvern hátt. Mér verður víst oftast svarafátt, en það sem eg segi verður oftast eitthvað á þessa leið: Sem bókasafnari finnst mér að eg hafi dálitlar skyldur við bækurnar sem væru þær vinir mínir. Eg vil búa svo vel að þeim sem eg hef kunnáttu og trúi því að það sé nokkur trygging fyrir því að svo verði einnig þó mín njóti ekki lengur við. Einhvern tímann sagði eg bæði í gamni og alvöru að helst hefði eg hugsað mér að hafa það líkt og Egill Skallagrímsson vildi hafa það með silfrið: sá því og sjá menn berjast um hnossið. Heyrt hef eg að einhver sænskur bókasafnari hafi mælt svo fyrir að bækur hans skyldu seljast á uppboði. Þá dreifðust þær til þeirra sem vildu leggja nokkuð í sölurnar. Þetta er dálítið lík hugmynd

Úr Pálssafni. Styttan er afsteypa af Móse eftir Michelangelo, gjöf til Páls frá Ferðafélagi Íslands á sjötugsafmæli hans 20. júní 1979.

og hjá Agli þó ekki leiði slík ráðstöfun til vopnaglamms eða pústra sem Agli var svo mikill unaður að horfa á. Það getur vel verið að ég eigi eftir að kynnast stofnun eða einstaklingi sem mér þætti þægilegt að hugsa mér sem eiganda bókanna eftir mig. Eg held mér fyndist þá máli skipta að einhver hefði þeirra not, en jafnframt væri sú krafa ofarlega í hug að þeirra væri vel gætt, þær yrðu hvorki fyrir skemmdum eða glötuðust.

Safnið Fyrsta bókin sem Páll eignaðist voru Péturs föstuhugvekjur en bókina fékk hann að gjöf frá Geir Ívarssyni í Örnólfsdal sem hann kallaði afa. Geir notaði hana til að kenna Páli að lesa en gaf honum síðan bókina þegar hann taldi hann vera fullnuma í listinni. Um fyrstu bókina sem Páll keypti sjálfur segir hann svo frá í áðurnefndum minnisbókum: Fyrsta bókin, sem ég keypti sjálfur, voru Þjóðsögur og munnmæli eftir Jón Þorkelsson, en þá hef ég verið 8 eða 9 ára. Einhvern dag á útmánuðum bar gest að garði með stóran poka á baki fullan af bókum. Sýndi hann varning sinn, og var eg þá nærstaddur. Þótti mér þessi bók einna girnilegust, og kostaði hún 5 krónur, en það var einmitt sú peningaupphæð sem eg átti. Fór svo að eg keypti bókina, og í gleði minni yfir þessari eign gekk eg á milli fólksins og sýndi því hana. „Skelfing er að vita hvað þú ætlar að verða ráðlaus, að kaupa bók fyrir alla peningana þína“ var svarið sem eg fékk hjá húsmóður minni. Varð eg vissulega hryggur því mikil ógn stóð mér af fátækt sem eg hafði grun um að væri voðaleg. En hvað sem því leið bætti bókin mér upp þessi vonbrigði, og mátti

Það er þó ekki fyrr en þegar Páll er kominn vel á fullorðins ár sem eiginleg bókasöfnun hefst. Í Pálssafni er áhersla einkum lögð á eftirtalda efnisflokka: íslensk ljóð, þjóðlegan fróðleik og rit tengd náttúru Íslands. Einnig er þar mikið af fágætum prentgripum sem hafa sérstakt varðveislugildi, bókum frá fyrri öldum, afbrigðaútgáfum og árituðum eintökum. Páll lagði á það mikla áherslu að safna eldri íslenskum bókum. Í safninu eru alls 29 íslenskar bækur frá 17. öld, þar af níu Skálholtsprent, einnig Þorláksbiblía gefin út á Hólum 1644 og þrjár af fyrstu fjórum útgáfum Passíusálmanna; gott eintak af fyrstu útgáfunni 1666 og sjaldgæfasta útgáfan frá 1682. Einnig má finna í safninu allar útgáfur Passíusálmanna frá 18. öld. Þar eru líka nær allar útgáfur af Vídalínspostillu, þar með talin fyrsta útgáfa hennar frá 1718-1720. Nefna má einnig bækur frá Hrappseyjarprenti, en af 83 bókum og smáritum sem prentuð voru í Hrappsey á árunum 1772-94 átti Páll alls 49 og er þar hvað öðru sjaldgæfara. Í viðtali við Braga Óskarsson í Morgunblaðinu í febrúar 1983 segir Páll að hann hafi eignast ljóðabækur flestra skálda á 19. öld og eigi þær flestallar í fyrstu útgáfu. En hann tekur einnig fram að bækur geti verið afar fágætar þótt þær séu mun yngri og nefnir sem dæmi ljóðabókina Skottið á skugganum eftir Sigurð Nordal sem kom út í 54 árituðum eintökum árið 1950. Páll átti fyrstu skáldritin sem út komu hér á landi. Má þar fyrst telja Pilt og stúlku eftir Jón Thoroddsen frá 1850. Einnig er í safninu þýddur reyfari sem kom út hér á landi tæplega öld fyrr og ber langt og mikið nafn: Þess svenska Gustavs landkrons og þess engelska Bertolds fábreytilegar Róbinsons

segja að eg læsi hana upp til agna.

15


bókasafnið

34. árg. 2010

eður lífs og ævisögur. Ritið er þýtt úr dönsku af Þorsteini Ketilssyni prófasti í Vaðlaþingi og er prentað á Hólum í Hjaltadal árið 1756. Ýmsar merkar bækur á erlendu máli eru einnig hluti safnsins. Þar má með þeim merkustu telja bók sem ber fangamark Brynjólfs biskups Sveinssonar (1605–1675). Hér er um að ræða Gyðingasögu eftir Josephus Flavius, prentaða í Genf í Sviss árið 1634. Ekki er vitað um sögu eintaksins eftir 1810 uns það kemst í eigu Páls, en á því eru fleiri áritanir en fangamark biskups, sem er táknað með LL (lupus loricatus = brynjaður úlfur). Ártalið 1658 er einnig skrifað á titilblaðið og er talið að þar sé um að ræða árið sem Brynjólfur kaupir bókina. Auk þessa standa stafirnir OI og SS og Thorvaldus Bödvarius við hlið annars ártals: 1732. Ekki er vitað hvað fyrri skammstöfunin táknar, en Páll taldi líkur á því að SS stæði fyrir nafn séra Sigurðar Sigurðssonar, sem var prestur í Holti í Önundarfirði á árunum 1730-1760. Sigurður var sonur Sigurðar Jónssonar prests í Holti sem giftur var Helgu Pálsdóttur, dóttur Páls Björnssonar í Selárdal (1621-1706) sem var einna kunnastur fyrir hlut sinn í galdraofsóknum 17. aldar. Páll var settur prestur í Selárdal árið 1645 af Brynjólfi biskupi og giftist Helgu Halldórsdóttur ári síðar, en Helga var systir Margrétar konu biskups. Páll Jónsson taldi þetta styðja það að bókin hefði á sínum tíma verið flutt frá Selárdal að Holti í Önundarfirði með Helgu Pálsdóttur, en hún var elst barna Páls og Helgu Halldórsdóttur, fædd 1650. Hún giftist (árið 1671) Sigurði Jónssyni (1643-1730) sem var aðstoðarprestur í Holti 1669-1680 og prestur þar frá 1680 til dauðadags. Bókin lendir svo að líkum hjá Sigurði syni hans (1684-1760) sem verður aðstoðarprestur í Holti árin 1709-1730 og prestur þar frá 1730 til dauðadags. Það er síðan vitað um bókina að sr. Þorvaldur Böðvarsson kaupir hana árið 1810, væntanlega af afkomendum sr. Sigurðar Jónssonar og Helgu Pálsdóttur. Sr. Þorvaldur fer síðar að Melum í Melasveit og endar þar sinn prestsskap árið 1836, þá 78 ára gamall. Hvort bókin var þá enn í eigu hans er ekki vitað. Elst bóka í Pálssafni er eitt rita Marteins Lúthers, prentað í Wittenberg árið 1521. Þar er einnig Biblia laicorum eða Leikmannabiblía eftir Johann Auman, sem prentuð var á Hólum 1599 í þýðingu Guðbrands biskups. Þetta er elsta íslensk bók í Pálssafni. Af öðrum Íslendingum frá fyrri tíð, sem hafa áritað eintök í Pálssafni, má nefna Skúla Magnússon landfógeta, sr. Þorstein Helgason í Reykholti og skáldin Þorstein Erlingsson og Einar Benediktsson sem áritað hafa eigin verk. Áritaðar bækur frá seinni tíð eru nær óteljandi. Árið 1993 barst bókasafni Páls Jónssonar í Safnahúsi kærkomin sending frá gefanda sem ekki vildi láta nafns síns getið. Hér var um að ræða elsta og fágætasta tímarit íslenskt, Islandske Maaneds Tidender, sem prentað var í Hrappsey og Kaupmannahöfn á árunum 1773-1776. Þegar þetta er skrifað er enn ekki vitað hver gefandinn er, en tímaritið er vel varðveitt í Pálssafni.

16

Verið er að bæta almennt aðgengi að Pálssafni og kynna bókakost þess fyrir almenningi og fræðimönnum, m.a. með því að skrá bækurnar í Gegni eftir sérhönnuðu kerfi sem hentar safninu. Safnið er deild í Héraðsbókasafni Borgarfjarðar og er stillt upp í sérstöku rými. Þar hafa fræðimenn aðgengi að bókunum samkvæmt sérstökum reglum, en þær eru ekki til útláns. Sérstök þriggja manna fagstjórn er um málefni Pálssafns og er hún skipuð Ásu Ólafsdóttur systurdóttur Páls, Ólafi Pálmasyni mag.art. og Guðrúnu Jónsdóttur forstöðumanni Safnahúss. Lokaorð Í erindi við opnun Pálssafns árið 1989 líkti Ólafur Pálmason Páli við sveininn í ævintýrinu sem hélt ungur út í heim en galt fósturlaunin með feng sínum við heimkomuna. Páll Jónsson hleypti heimdraganum aðeins 16 ára gamall. Þrátt fyrir að langt væri um liðið hugsaði hann heim þegar að leiðarlokum kom mörgum áratugum síðar. Þá ákvað hann að láta ekki leysa safnið upp heldur gefa það óskipt upp í Borgarnes. Stofnað hefur verið til þessa fágæta og fallega bókasafns af stakri natni og þekkingu. Það gefur dýrmæta innsýn í þann mikla menningararf sem bókakostur landsins er og undirstrikar jafnframt mikilvægi þess að hann sé vel varðveittur fyrir komandi kynslóðir. Safnahúsi Borgarfjarðar er heiður að því að fá að gæta bókasafns Páls Jónssonar, enda ber að líta á safnið sem eina af gersemum þjóðarinnar. Heimildaskrá Bragi Óskarsson. 1983. „Þess svenska Gústavs landkróns og þess engelska Bertolds fábreytilegar Róbinsons eður lífs og ævisögur.“ Rætt við Pál Jónsson. Morgunblaðið, 13. febrúar. Böðvar Kvaran. 1995. Auðlegð Íslendinga. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík. Jóhann Gunnar Ólafsson. 1971. Bækur og bókamenn. Almenna bókafélagið, Reykjavík. Morgunblaðið 1999. Hlaut Pálsvörðuna. 1. apríl. Ólafur Pálmason. 1991. Páll Jónsson og bókasafn hans. Sérprentun úr Árbók Landsbókasafns 1989, Reykjavík. Ólafur Pálmason. 2009. Pálssafn. Útg. af höfundi, Kópavogi. Steindór Steindórsson frá Hlöðum. 1989. Páll Jónsson frá Örnólfsdal. Örn og Örlygur, Reykjavík. Sveinn Níelsson. 1950. Prestatal og prófasta á Íslandi. 2. útgáfa með viðaukum og skýringum eftir dr. Hannes Þorsteinsson. Björn Magnússon sá um útgáfuna. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Óprentaðar heimildir

Páll Jónsson. Bókarabb (minnisbækur um bækur og bókamenn), skrifaðar 1960 til 1982. Unnar Ingvarsson. 2009. Erindi á málþingi um Pál Jónsson, haldið í Borgarnesi 20. júní 2009.

Vefsíður

h t t p : / / w w w. s a f n a h u s. i s / d e f a u l t . a s p ? s i d _ i d = 3 1 9 0 1 & t re _ rod=002|006|&tId=1 Samantekt Sævars Inga Jónssonar héraðs­bókavarðar undir heimasíðu Safnahúss Borgarfjarðar, www.safnahus.is.


„Geturðu bent mér á góða bók?“ Um ráðgjafaþjónustu við fullorðna lesendur skáldsagna

Edda Bryndís Ármannsdóttir

Á síðustu tveimur áratugum hefur mikið verið skrifað erlendis um readers´ advisory service eða það sem hér verður kallað ráðgjafaþjónusta við lesendur. Skrifin byggjast mest á reynslu sérfræðinga af þessari þjónustu almenningsbókasafna en minna á rannsóknum og snúast að mestu um framkvæmd sjálfrar þjónustunnar, hvernig megi bæta hana og færni þeirra sem hana veita. Lítið hefur farið fyrir umræðu og rannsóknum hérlendis. Grein þessi byggist á lokaverkefni mínu í BA námi í bókasafns- og upplýsingafræði (Edda Bryndís Ármannsdóttir, 2009). Verkefnið var heimildaritgerð um ráðgjafaþjónustu við fullorðna lesendur skáldsagna eða dægurbókmennta með sérstakri áherslu á samskipti starfsmanns og viðskiptavinar safnsins eða það sem á ensku kallast readers´ advisory interview. Hér verður heitið ráðgjafaþjónustuviðtal notað yfir þessi samskipti hvort sem þau eiga sér stað augliti til auglitis á sjálfu safninu eða eftir öðrum leiðum. Ástæðan fyrir þessari áherslu er að í ráðgjafaþjónustuviðtalinu kristallast aðalatriði þjónustunnar og út frá því má skilgreina grunnmarkmið hennar og meginþætti. Ákveðið var að einblína á fullorðna lesendur og skáldsögur, en flestar rannsóknir tengdar ráðgjafaþjónustu við lesendur hafa fjallað um börn og unglinga með uppeldislegt, fræðslulegt og þroskatengt gildi lesturs í huga. Það er ekki fyrr en á síðustu árum að athyglin er farin að beinast að skáldsögum, fullorðnum lesendum og gildi afþreyingar- og yndislesturs fyrir velferð þeirra (Ross, 1999; Bradshaw og Nichols, 2004; Charlton, Pette og Burbaum, 2004; M. C. Smith, 2000). Önnur

ástæða var sú að fullorðnir mynda stærsta hóp viðskiptavina almenningsbókasafna og skáldsögur eru vinsælasta útlánaefnið (Ross, 1991; Shearer, 1996). Þriðja ástæðan er sú sérstaða skáldsagna sem safnefnis að erfitt getur verið fyrir viðskiptavini að finna „góða bók“ eftir hefðbundnum leiðum. Vegna huglægni skáldsagna er efnisorðagjöf og flokkun þeirra nokkuð flókin og þær því ekki eins aðgengilegar í hillum og bókaskrám og annar safnkostur. Í sjálfri ritgerðinni má finna umfjöllun um sögu og þróun þjónustunnar, en í þessari grein er ætlunin að stikla á stóru annars vegar um það sem kallað er ráðgjafaþjónustuviðtal og hins vegar um hjálpartæki þjónustunnar.

Ráðgjafaþjónustuviðtalið Ráðgjafaþjónusta við lesendur er yfirgripsmikil þjónusta og í mörg horn að líta. En segja má að tilgangur hennar og markmið speglist í sjálfu ráðgjafaþjónustuviðtalinu. Í því reynir á alla þá fagþekkingu, færni og þjálfun sem góður ráðgjafi þarf að búa yfir. Leiðbeiningarreglur Samkvæmt tillögum þeirra Joyce G. Saricks og Nancy Brown (1997) þarf ráðgjafinn að tileinka sér sérstaka aðferð við að hugsa um bækur. Ferlið við það skiptist í þrjú stig: 1) Greina aðdráttarafl (e: appeal) bókar. 2) Flokka bókina með titlum og höfundum sem hafa svipað aðdráttarafl. 3) Skoða hvernig höfundarnir og titlarnir passa innan sagnategundar (e: genre). Hugtakið aðdráttarafl var fyrst kynnt í fyrstu útgáfu frumkvöðlaverks Saricks og Brown, Readers’ advisory services in the public library, árið 1989. Orðið vísar til þeirra einkenna bókar sem höfða til tiltekins lesanda. Reynsla höfundanna sýnir að lesendur eru sjaldnast að leita að ákveðnu efni heldur vilja þeir bók sem snertir þá á ákveðinn hátt. Þetta er nokkuð sem ekki er hægt að nálgast í efnisorðaforða gagnasafna. Það sem heillar lesendur sé helst að finna í fjórum grunnþáttum: Hraði (e: pace), persónusköpun (e: characterization), söguþráður (e: story-line) og umgjörð (e: frame). Á fyrsta stigi segja Saricks og Brown (1997) að ráðgjafinn þurfi að venja sig á að lesa bækur með það í huga að finna það sem einkennir

17


bókasafnið

34. árg. 2010

grunnþætti þeirra og gæti höfðað til lesenda. Oft stendur einn þáttur upp úr vegna sérkenna. Dæmi: Í einni spennusögu getur aðdráttarafl bókarinnar falist í sterkri, viðkunnanlegri söguhetju. Í annarri gæti það verið framandi sögusvið, hnyttin orðræða eða innsýn í ákveðin vandamál. Ráðgjafinn þarf einnig að vera meðvitaður um einkenni sem mögulega gætu dregið úr aðdráttarafli bóka fyrir suma lesendur, svo sem djarfar kynlífslýsingar, ofbeldi eða viss ritstíll. Með aukinni færni í að greina aðdráttarafl færist ráðgjafinn yfir á stig tvö, að flokka saman titla eða höfunda eftir aðdráttarafli. Þegar leikni í þessu eykst er jafnvel nóg að hafa aðeins lesið ritdóma eða umsagnir. Stig þrjú felur svo í sér að athuga hvaða sagnategund bókin tilheyrir. Það krefst þjálfunar að temja sér þennan hugsunarhátt en sá sem sinnir starfinu þarf einnig að þjálfa sig í að koma hugsunum sínum í orð. Ráðgjafinn þróar með sér skipulagðan lestur, heldur skrá yfir lesnar bækur og skrifar umsagnir. Hann æfir sig í að tala um bækur, aðdráttarafl og sagnategundir við samstarfsfólk og viðskiptavini. Aðferð þessi auðveldar honum að svara spurningum og hjálpa lesendum að skilgreina eigin lessmekk. Um ráðgjafaþjónustuviðtalið sjálft segja Saricks og Brown (1997) að grípa þurfi hvert tækifæri til að bjóða aðstoð. Algengustu fyrirspurnir viðskiptavina séu um ákveðinn höfund en stundum sé spurt um tiltekna sagnategund. Auk þess að svara fyrirspurninni á ráðgjafinn að nota tækifærið til að skapa tengsl og benda á fleiri bækur. Ef viðskiptavinurinn spyr til dæmis um eitthvað eftir rithöfundinn Mary Higgins Clark er upplagt að spyrja hvort hann hafi líka lesið Joy Fielding. Þannig kemst viðskiptavinurinn að því að starfsfólkið getur komið með uppástungur og taki samræðum um bækur fagnandi. Nokkuð algengt er að spurt sé um nýjar metsölubækur. Á almenningsbókasafni er slík bók sjaldnast laus. Þá er upplagt að stinga upp á líkum höfundi sem viðkomandi getur lesið í millitíðinni og spyrjast fyrir um hvað það er sem hann heldur að honum líki við í bókinni sem hann spurði um. Oft þarf ráðgjafinn sjálfur að hafa frumkvæðið að viðtalinu. Hann þarf að vera á röltinu innan um bókahillurnar og spjalla við viðskiptavini. Með þessu brýtur hann ísinn og eykur möguleikana á því að þeir þori að spyrjast fyrir. „Ertu að leita að einhverju sérstöku?“ eða „Má ég stinga upp einhverju að lesa?“ eru t.d. góðar leiðir til að hefja samræður. Ef viðskiptavinurinn vill þiggja aðstoð er reynt að fá hjá honum upplýsingar sem byggja má uppástungurnar á. „Hvað finnst þér gaman að lesa?“ er ekki gagnleg spurning því yfirleitt á fólk erfitt með að svara því fyrirvaralaust. Betra er að biðja viðskiptavininn að segja frá bók sem hann naut þess að lesa. Eftir að hafa hlustað og safnað þannig upplýsingum um smekk viðskiptavinarins og hvað honum hugnast þá stundina er hægt að benda honum á nokkrar bækur og lýsa í stuttu máli efni þeirra og aðdráttafli. Þannig ætti viðskiptavinurinn að vera komin með nægar upplýsingar til að geta valið. Samtalinu er svo slitið með því að hvetja viðskiptavininn til að koma aftur, láta vita hvernig honum líkaði lesturinn og fá fleiri uppástungur að bókum (Saricks og Brown, 1997).

18

Tillögur annarra sérfræðinga eru misjafnlega yfirgrips­ miklar en nokkuð samhljóma: Viðtalið er í raun fyrirvaralausar, óformlegar samræður milli viðskiptavinar safnsins og starfsmanns, augliti til auglitis. Starfsmaðurinn þarf að vera vel að sér í sagnategundum og aðdráttarafli bóka og nota hjálpartæki, svo sem uppflettirit og bókalista. Mikilvægi þess að orða spurningar þannig að svarið gefi sem gagnlegastar upplýsingar og að inna lesanda eftir því hvað það er við bók sem höfðar til hans kemur fram hjá öllum sérfræðingunum. Hugmyndir þeirra speglast í skilgreiningu Saricks (2005) á ráðgjafaþjónustuviðtalinu: Það er ólíkt öðrum upplýsingaþjónustuviðtölum að því leyti að það snýst ekki um svör við spurningum. Það er samtal þar sem lesandinn segir frá bókasmekk sínum og ráðgjafinn bendir á mögulega bókatitla og hvetur til áframhaldandi samskipta. Mælikvarði á árangur er hvort viðskiptavinurinn kemur aftur til að tala um bækur og fá uppástungur og efni sem fullnægir lesþörfum hans og viðvarandi samskipti verða til. Leiðbeiningarreglurnar endurskoðaðar En hvernig gengur bókasafnsstarfsfólki að aðstoða viðskipta­ vini að finna „góða bók“? Í grein May, Olesh, Miltenberg og Lackner, A look at readers´ advisory services, sem birtist í Library Journal árið 2000, er greint frá rannsókn þeirra á ráðgjafaþjónustu við lesendur á almenningsbókasöfnum í Nassau í Bandaríkjunum. Niðurstöður sýndu að í engum af 54 tilfellum átti hið ítarlega ráðgjafaþjónustuviðtal sér stað og aðferðum fyrrnefndra sérfræðinga var sjaldan beitt. Í 98 prósentum tilfella eða á öllum söfnum nema einu þurfti viðskiptavinurinn sjálfur að leita sér aðstoðar. Viðbrögð starfsfólks við fyrirspurnum um aðstoð voru allt frá því að bjóða fólk velkomið og til þess að vera fáskiptin og í nokkrum tilfellum brást það ergilegt við. Starfsfólki þótti beiðni um leiðsögn auðsýnilega óþægileg. Bókaábendingar byggðust oft á persónulegum smekk og reynslu en fagleg hjálpartæki voru sjaldan notuð og þá helst rafræn bókaskrá. Eftirfylgni var næstum aldrei í boði (May o.fl. 2000). Rannsóknir May og félaga og svipaðar athuganir Chelton (2003) benda til þess að þrátt fyrir leiðbeiningarreglur sérfræðinga virðist markviss, formleg ráðgjafaþjónusta við lesendur ekki vera fyrir hendi og venjan virðist vera að veita ófagleg, óformleg, handahófskennd svör við fyrirspurnum. Fagskrif sérfræðinganna nýtast því starfsfólki bókasafnanna ekki sem skyldi. En hvað getur starfsfólk bókasafna gert til að bæta fagmennsku sína? Er starfið jafnvel of erfitt í framkvæmd til þess að vera á allra færi? Duncan Smith (2000) telur að skýringuna megi rekja til þriggja mikilvægra breyta: Viðhorfa, skorts á hjálpartækjum og vöntun á yfirfærslu þekkingar í skipulagða framkvæmd. Hann bendir á að til að bæta ráðgjafaþjónustu við lesendur þurfi meira til en útgáfu leiðbeininga. Smith hófst því handa við að brúa bilið milli þekkingar og framkvæmdar. Það fólst í að skilgreina hlutverk ráðgjafaþjónustu við lesendur,


bókasafnið kortleggja starfið og gera það framkvæmanlegt. Afrakstur vinnunnar var bókin Talking with readers en henni er ætlað að vera handbók fyrir starfsfólk bókasafna. Þar eru sú þekking, færni og viðhorf, sem greining sýndi fram á að góður ráðgjafi þyrfti að búa yfir, skilgreind í 130 liðum sem skiptast niður á fjögur svið starfshæfni: 1) Bakgrunnur í skáldsögum og öðrum bókmenntum, 2) skilningur á fólki sem lesendum og lesendum sem fólki, 3) skilningur á aðdráttarafli bóka og 4) sjálf framkvæmd ráðgjafaþjónustunnar. Í handbókinni eru sviðin útskýrð ítarlega. Saman við þetta er fléttað leiðbeiningum um starfshætti og sjálfsmat ásamt ýmsum æfingum. Sérstakur kafli er ætlaður stjórnendum safna sem vilja koma á skipulagðri ráðgjafaþjónustu eða meta þá þjónustu sem til staðar er. Smith (2000) gengur, samkvæmt hefðinni, út frá því að besta leiðin til ráðgjafar sé augliti til auglitis. Neil Hollands (2006) setur hins vegar spurningarmerki við þessa ályktun sem og aðrar ályktanir sem sérfræðingar byggja leiðbeiningar um ráðgjafaþjónustuviðtal á. Hollands telur þær byggja á forsendum sem sjaldan eigi sér stoð í hinu daglega lífi á bókasafni. Hinar röngu forsendur eru: 1) Að viðskiptavinir leiti til bókasafns- og upplýsingafræðinga með fyrirspurn um lesefni. 2) Að sá sem leitað er til sé rétta manneskjan til að svara fyrirspurninni. 3) Að nægar upplýsingar fáist úr viðtalinu til að veita góða ábendingu. 4) Að nægur tími sé til að veita þjónustu. 5) Að auðvelt sé að nota nauðsynleg hjálpartæki í viðtalinu. 6) Að ráðgjafaþjónustuviðtal augliti til auglitis sé skráð á fullnægjandi hátt og veiti tækifæri til eftirfylgni. Hollands setur fram tillögur að betrumbættum leiðbeiningarreglum þar sem samskiptin við lesandann hefjast ekki augliti til auglitis heldur með því að hann lýsir bókmenntasmekk sínum á eyðublaði. Leiðbeiningum um þjónustu sem byggir á eyðublaði útlistar Hollands ítarlega og skiptir í sex þætti sem í stuttu máli eru: 1) Þjálfa ráðgjafateymi. 2) Hanna eyðublað. 3) Koma eyðublaðinu í hendur lesenda. 4) Fá til baka útfyllt eyðublað og koma því í réttar hendur. 5) Svara eyðublaðinu. 6) Skrá framkvæmdina og fylgja eftir. Ráðgjafaþjónustuviðtöl á Internetinu Ráðgjafaþjónusta við lesendur á Internetinu veitir ýmis sóknarfæri og getur haft ýmsa kosti í för með sér fyrir lesendur. Flest söfn nú til dags bjóða upp á fyrirspurnaþjónustu á vefsíðum sínum. Samskiptin fara þá fram með tölvupósti og falla inn í aðra upplýsingaþjónustu. Fyrrnefndar tillögur

34. árg. 2010

Hollands að eyðublaði í stað viðtals augliti til auglitis byggir hann á vinnu sinni við að koma slíkri þjónustu á laggirnar við Williamsburg Regional Library í Virginíu í Bandaríkjunum. Þjónustan þar hefur hlotið nafnið Looking for a good book og hefur unnið til verðlauna. Viðskiptavinir fylla út eyðublað á vefsíðu safnsins og fá sendan tölvupóst með uppástungum að bókum. Þeir geta svo haldið samskiptunum áfram og fengið fleiri uppástungur með eyðublaði sem ætlað er til eftirfylgni og tekur stuttan tíma að fylla út (Williamsburg Regional Library, 2009). Könnun safnsins árið 2004 meðal viðskiptavina sem nýttu sér Looking for a good book-þjónustuna sýndi mikla ánægju með hana og að 97 prósent þeirra væru tilbúnir til að mæla með henni við vini. Wyatt (2008) telur ókostinn við rafræn eyðublöð vera tímann sem það tekur að útvega fullnægjandi svör og bendir á að það leiði til þess að minni tíma sé varið í aðra ráðgjafaþjónustuvinnu, þar með talið að þjóna viðskiptavinum augliti til auglitis. Aftur á móti veiti eyðublöðin breiðari þjónustu, framúrskarandi þjálfun fyrir starfsfólk og ígrundaðri svör. Trott (2005) telur aðaláskorunina fyrir bókasafns- og upplýsingafræðinga vera að hanna eyðublað sem safni nógum upplýsingum án þess að notanda fallist hendur við að útfylla það. Annað tilbrigði við ráðgjafaþjónustuviðtalið er hið svokallaða spjall (e: chat) sem hægt er að bjóða upp á á vefsíðum bókasafna. Þekktasta dæmið um slíka þjónustu er líklega ReadThisNow sem er samstarfsverkefni almenningsbókasafna í Ohio í Bandaríkjunum og er í boði allan sólarhringinn fyrir íbúa ríkisins (State Library of Ohio, 2009).

Hjálpartæki ráðgjafaþjónustunnar Þeir sem sinna ráðgjafaþjónustu við lesendur geta hvorki lesið allar skáldsögur né munað allt sem þeir hafa lesið. Því er nauðsynlegt að hafa ýmis hjálpargögn við hendina í sjálfu ráðgjafaþjónustuviðtalinu sem og öðru starfi sem tilheyrir þjónustunni. Mikið er til af hjálpartækjum sem eru ýmist beinlínis ætluð faginu eða nýtast því þó að þau hafi verið hönnuð í öðrum tilgangi, svo sem sölusíður bókaútgefenda, bókmenntarit og bókadómar í tímaritum. Útgáfa tengd ráðgjafaþjónustu við lesendur hefur aukist mikið á síðastliðnum tveimur áratugum, jafnt á prenti sem á rafrænu formi, og auðvelt er að nálgast ýmis hjálpartæki á Internetinu. Hér skal litið á helstu tegundir og reynslu af notkun þeirra. Árið 2004 kannaði nefnd um ráðgjafaþjónustu við lesendur á vegum The Reference and User Services Association (RUSA) framboðið og gaf í kjölfarið út gagnlegan lista yfir þau átta rit sem hún taldi ómissandi í ráðgjafaþjónustu við lesendur almennt. Nefndin bendir einnig á fleiri og sérhæfðari bækur sem veita betri aðgang að ákveðnum sagnategundum, alls um 200 rit (CODES, 2004). Rafræn hjálpartæki: Gagnagrunnar og vefsíður Á allra síðustu árum hefur rafrænum hjálpartækjum fjölgað

19


bókasafnið

34. árg. 2010

gífurlega. Auk gagnagrunna sem gerast þarf áskrifandi að er fjöldinn allur af vefsíðum, ókeypis og gegn gjaldi, sem nýtast bæði fagfólki og lesendum. Hjálpartækin eru í hraðri þróun hvað umfang, eiginleika og aðgengi varðar. Dæmi um gagnagrunna sem fagfólk notar og mælir með eru NoveList frá Ebsco, What do I read next? frá Gale, Fiction connection frá Gale og Readers advisor online frá Libraries unlimited (Moyer, 2008; Chelton, 2003; Saricks, 2005; Kuzyk, 2006; Roncevic o.fl., 2008). Af vefsíðum sem bókasafns- og upplýsingafræðingar benda á sem fýsilega kosti fyrir ráðgjafa og lesendur má nefna What should I read next? (www.whatshouldireadnext. com), Booklist online (www.booklistonline.com), What´s next? (ww2.kdl.org/libcat/WhatsNextNEW.asp), Whichbook (www.whichbook.net), Overbooked (www.overbooked. org), Goodreads (www.goodreads.com), Library thing (www. librarything.com) og Shelfari (www.shelfari.com) (Moyer, 2008; Saricks, 2005; Kuzyk, 2006). Bóksöluvefir geta líka verið mjög góðar upplýsingalindir og er Amazon.com eitt besta dæmið um það. Síðast en ekki síst hjálpartækja og gott dæmi um áhrif Internetsins á samskipti bókasafns- og upplýsingafræðinga ber að nefna póstlista, blogg og umræðuvefi. Þekktastur þeirra er líklega Fiction_L. Vefmiðillinn, sem hannaður var 1995 af bókasafns- og upplýsingafræðingum Morton Grove Public Library, er vettvangur ætlaður bókasafns- og upplýsingafræðingum almenningsbókasafna en öðrum áhugasömum bókaunnendum er velkomið að taka þátt (Morton Grove Public Library, 2008). Fiction_L er mikið notaður og telur Saricks (2005) velgengni listans vera lýsandi dæmi um samstarfseðli ráðgjafaþjónustu við lesendur og gagnsemi þess að deila reynslu og þekkingu. Mat á hjálpartækjum En hvernig nýtast hjálpartækin og hvernig er best að nota þau? Hvað þarf að hafa í huga við val á hjálpartækjum fyrir safnið og viðskiptavini þess? Í meistaraprófsritgerð sinni árið 2001 greindi Quillen frá úttekt og samanburði á hjálpartækjum sem notuð eru í ráðgjafaþjónustu við lesendur. Til skoðunar valdi hún fjögur hjálpartæki. Þrjú þeirra voru tölvutæk, Amazon.com, Novelist og What do I read next og eitt þeirra, Now read this, var á prenti. Niðurstöður Quillen (2001) bentu til að allt væru þetta góð hjálpartæki til að aðstoða viðskiptavini með fyrirspurnir en ekkert þeirra væri hinn fullkomni upplýsingabrunnur. Því væri ráðlegt að nota þau öll og það krefðist færni að sjá hvert þeirra hentaði best hverju sinni. Adkins og Bossaller (2007) gerðu úttekt á þremur tegundum tölvutækra hjálpartækja: Bókaverslanir á Internetinu, gagnagrunnar ætlaðir ráðgjafaþjónustu við lesendur og rafrænar bókaskrár tveggja ónefndra safna. Bókaverslanirnar voru Amazon.com og BarnesandNoble.com og gagnagrunnarnir voru NoveList og What do I read next. Niðurstöður sýndu, líkt og niðurstöður úr rannsókn Quillen, að hjálpartækin bæta hvert annað upp. Netverslanir nota fleiri aðgangspunkta (e: access points) og af meiri samkvæmni en

20

hinar tegundirnar og bókasafns- og upplýsingafræðingar telja þær almennt mjög gagnleg hjálpartæki. Sé árangur metin í magni upplýsinga eru hann mjög góður. En sem leitartæki eru þær ekki gallalausar og viðmót þeirra er gjarnan erilsamt og einkennist af ofgnótt upplýsinga og auglýsingum. Vegna efnisorðagjafar og ritdóma gagnagrunnanna veita þeir gjarnan aukaupplýsingar sem ekki er að finna í netverslununum og reynast þeir oft betur til að finna eldri bækur. Til að leita að ákveðnum titlum eða bókum sem upplýsingar liggja þegar fyrir um er tiltölulega hagkvæmt að nota skrár safnanna (Adkins og Bossaller, 2007). Vefsíður bókasafna Umræður fagfólks um upplýsingaþjónustu á vefsíðum safna snúast nú um að móta staðla og reglur um framkvæmd. Í tveim ritum RUSA (2004) eru leiðbeiningarreglur fyrir bókasöfn sem veita þjónustu á Internetinu. Hvorki þar né í öðrum slíkum skrifum um rafræna upplýsingaþjónustu fannst sérstök umfjöllun eða leiðbeiningar um ráðgjafaþjónustu við lesendur. „Í allri þessari mótunarvinnu hefur ráðgjafaþjónustu við lesendur enginn gaumur verið gefin. Hún virðist vera svo til ósýnileg í fagskrifum um rafræna upplýsingaþjónustu.“ (Trott, 2005, bls. 211). Í meistaraprófsritgerð sinni greindi Kelly (2000) frá niður­ stöðum rannsóknar sinnar á vefsíðum bandarískra bókasafna. Aðeins rúmlega tíu prósent þeirra 530 vefsíðna sem hann skoðaði buðu upp á raunverulega ráðgjafaþjónustu við lesendur. Átt er við þjónustu eða efni skapað af starfsmönnum safnsins eða viðskiptavinum þess (t.d. bókalistar, umsagnir og gagnrýni) en ekki tengla í aðrar síður og í hjálpartæki á Internetinu. Í eigindlegri rannsókn í Kanada þar sem tekin voru viðtöl við 194 manneskjur sem lögðu mikla stund á yndislestur var meðal annars spurt út í ferlið við að velja sér bækur. Í ljós kom að skáldsagnaunnendur nota handahófsleit og treysta á fundsæld þegar þeir leita að bókum í hillum bókasafna (Ross, 1999). Stiklutexti vefsíðna höfðar til þessara leitaraðferða skáldsagnaunnenda. Það er ekki tilviljun að í ensku eru sömu orðin, að vafra og vafri (e: browse/browser), notuð um leit í bókahillum safna og í stiklutextaumhverfi veraldarvefsins. Vefurinn er því ákjósanlegasta leitarverkfærið fyrir skáldsagnaunnendur (Nielsen, 2005). Bókasöfn geta tekið tillit til þess við skipulagningu og framsetningu efnis fyrir skáldsagnaunnendur á vefsíðum sínum. Önnur kynslóð Internetsins Minnst hefur verið á bókavefsíðurnar LibraryThing og Shelfari. Þær eru svokölluð félagsnet og eru dæmigerðar fyrir aðra kynslóð Internetsins að því leyti að notendur geta tekið virkan þátt og mótað efni síðunnar. Slíkar síður eru vinsælar meðal bókaunnenda og framsýn bókasöfn eru þegar farin að kanna möguleika þeirra (Moyer, 2008). Wyatt (2007) segir þessa möguleika umbreyta ráðgjafaþjónustu við lesendur og skapa úrvals tækifæri til að stefna að æðsta takmarki hennar, þ.e.a.s. að hlúa að lestrarsamfélögum, örva allar samræður


bókasafnið um bókmenntir og hjálpa lesendum þannig að hjálpa hver öðrum. Auðvelt sé orðið að bæta efni frá viðskiptavinum inn í rafrænu bókaskrána eða bjóða upp á tengla úr henni í frekari upplýsingar. Eitt af söfnunum sem eru í farabroddi í umbreytingunni sé Ann Arbor District Library í Michigan í Bandaríkjunum (vefslóð safnsins: www.aadl.org). Donahue (2008) spáir því að merkingar (e: social tagging, folksonomy o.fl.) og tillögukerfi (e: recommendation/ recommender system) séu þeir eiginleikar annarrar kynslóðar Internetsins sem hvað mest áhrif munu hafa á ráðgjafaþjónustu við lesendur í nánustu framtíð og leggur áherslu á að skoða þurfi kosti þeirra og galla. Sjá má fyrir sér að sú gagnvirkni, þekking á viðskiptavinum (e: customer knowledge) og félagsnet sem vefsíður á borð við LibraryThing og Shelfari byggja á skapi bókasöfnum tækifæri til að bæta gæði og auka fjölbreytni ráðgjafaþjónustu við lesendur. Hægt er að safna saman á einn vettvang upplýsingum frá lesendum, hjálpartækjum og tenglum sem hæfa viðskiptavinum á þjónustusvæði safnsins. Með því geta þau komið á tengslum milli bókaunnenda á því svæði sem safnið þjónar og stutt við lestrarsamfélög. Almenn félagsnet, svo sem Facebook, verða sífellt vinsælli meðal almennings. Evans (2007) telur að almenningsbóka­ söfnin verði að taka þátt í þeirri þróun. Hann bendir þó á að ekki sé nóg fyrir söfnin að skrá sig á vefsíðurnar heldur þurfi þau að skapa sér sess þar, vera frumleg og bjóða upp á gagn­ legt efni. Þau eigi að nýta félagsnetin til að koma upplýsingum um safnkost, þjónustu og viðburði til fólks, vera með tengla í bókaskrána, gagnagrunnasíðuna og annað rafrænt efni og síðast en ekki síst svara fyrirspurnum. En áhugi fólks á að deila hugsunum sínum um bækur kemur meðal annars fram í því að félagsnetin skuli bjóða upp á viðbætur fyrir bókaunnendur svo sem Virtual bookshelf á Facebook.

Lokaorð Í hugmyndum og leiðbeiningarreglum sérfræðinga um vel heppnaða ráðgjafaþjónustu við fullorðna lesendur skáldsagna kemur fram sú fagkunnátta, þekking og þjálfun sem sá er sinnir þjónustunni þarf að búa yfir. Vinnan krefst auk þess innsæis, tíma, samskiptahæfni og ekki síst brennandi áhuga á skáldsögum og lesendum þeirra. Einnig kemur skýrt fram hversu ólíkt ráðgjafaþjónustuviðtalið er öðrum upplýsingaviðtölum. Það fylgir ekki ákveðnu mynstri og bókasafns- og upplýsingafræðingurinn getur hvorki flett upp hvað „góð bók“ er né fundið „rétta svarið“ við fyrirspurn lesandans. Í raun er fremur um samtal að ræða þar sem ráðgjafinn og viðskiptavinurinn reyna saman að komast að því hvernig bók gæti hentað þá stundina. Niðurstöður rannsókna (May o.fl. 2000) benda til þess að fagkunnáttu og þjálfun bókasafns- og upplýsingafræðinganna sé ábótavant og að leiðbeiningarreglur sérfræðinga nýtist ekki sem skyldi. Vöntun hefur verið á yfirfærslu þekkingar í framkvæmd en hagnýtar tillögur að stöðlun, skipulagningu, þjálfun og rafrænum ráðgjafaþjónustuviðtölum hafa mælst

34. árg. 2010

vel fyrir þar sem þær hafa verið nýttar (Smith, 2000; Hollands, 2006). Niðurstöður rannsókna sýna að þrátt fyrir úrval rafrænna hjálpartækja virðast þau prentuðu enn halda velli og að ekkert eitt þeirra er hið eina sanna. Öll átta hjálpartækin sem RUSA nefndin taldi nauðsynleg í ráðgjafaþjónustu eru prentuð og aðeins eitt þeirra einnig til á tölvutæku formi (CODES, 2004). Gagnagrunnar og vefsíður eru í örri þróun, sem á ekki síst rætur að rekja til annarrar kynslóðar Internetsins. Áhrif hennar á ráðgjafaþjónustu við lesendur virðast enn lítið hafa verið rannsökuð þó að bókasöfnin séu farin að nota hana. Hún veitir möguleika á að víkka hlutverk ráðgjafaþjónustunnar út og er vettvangur fyrir samræður og upplýsingaflæði á milli fullorðinna unnenda skáldsagna. Á þeim vettvangi gæti bókasafns- og upplýsingafræðingurinn verið nokkurs konar samskiptastjóri, milliliður og skipuleggjandi upplýsinga. Það að markaður skuli vera fyrir fjölda vefsíðna og félagsnet tileinkuð bókum og bókaunnendum er ábending til almenningsbókasafna um að lesendur vilji ólmir tala um bækur og „bera saman bækur sínar“. Þjónusta hvers safns mótast af umlykjandi menningu og samfélagi og þarf stöðugt að laga að sig þörfum viðskiptavinahópsins. Ég vona að grein þessi og ritgerðin sem hún byggir á veiti bakgrunnsupplýsingar og verði fagfólki og nemum hvatning til rannsókna á efni tengdu þessu sviði í því augnamiði að bjóða upp á skipulagða úrvalsþjónustu sem miðast við þarfir viðskiptavina íslenskra safna

Abstract „Can you help me find a good book? “: Readers’ advisory services to adult fiction readers Readers’ advisory services are widely known in public libraries and have been a popular topic in the trade journals in recent years. Studies show that, despite the instructions of specialists libraries, service staff still has difficulty with the application of these services and the use of its tools. This has led to proposals for the standardization and organization of the service. Selection, diversity and quality of electronic aids keep advancing but research hasn’t shown any one to be the ideal. Commercial webpages have often proved a better alternative than specialized databases of the library and information profession. The internet and its technical innovations give the public library the chance to provide fiction readers with a better and more comprehensive service. However there is an urgent need for research for optimal utilization of the technology. The article is based on the author’s BS thesis in library and information sciences from the University of Iceland.

21


bókasafnið

34. árg. 2010

Heimildir

Adkins, D. og Bossaller, J. E. (2007). Fiction access points across computermediated book information sources: A comparison of online bookstores, reader advisory databases, and public library catalogs. Library and Information Science Research, 29(3), 354-368. Bradshaw, T., Nichols, B. (2004). Reading at risk: A survey of literary reading in America. Research division report #46. Washington, DC: National Endowment for the Arts. Charlton, M., Pette, C., Burbaum, C. (2004). Reading strategies in everyday life: Different ways of reading a novel wich makes a distinction. Poetics today, 25(2), 241-263. Chelton, M. K. (2003). Readers’ advisory 101. A crash course in RA: Common mistakes librarians make and how to avoid them. Library Journal, 128(18), 38-39. Collection Development and Evaluation Sector (CODES) Readers´ advisory committee (2004). From the committees of RUSA: Recommended readers’ advisory tools. Reference and User Services Quarterly, 43(4), 294-305. Donahue, N. W. (2008). Online catalogs, Web 2.0 and user expectations. Í J. E. Moyer Research-based readers´ advisory (bls. 213-217). Chicago: American Library Association. Edda Bryndís Ármannsdóttir (2009). „Geturðu bent mér á góða bók?“ Heimildaritgerð um ráðgjafaþjónustu við fullorðna lesendur skáld­ sagna. Reykjavík: Háskóli Íslands. Evans, W. (2007). My MySpace comment. Library Journal, 132(3), 44-44. Hollands, N. (2006). Improving the model for interactive readers’ advisory service. Reference and User Services Quarterly, 45(3), 205-212. Kelly, J. M. (2000). Promoting fiction: Readers´ advisory and the use of public library web sites. Óbirt meistaraprófsritgerð: University of North Carolina. Sótt 4. desember 2008 af http://ils.unc.edu/ MSpapers/2594.pdf. Kuzyk, R. (2006). A reader at every shelf. Library Journal, 131(3), 32-35. May, A. K., Olesh, E., Miltenberg, A. W. og Lackner, C. P. (2000). A look at readers’ advisory services. Library Journal, 125(15), 40-43. Morton Grove Public Library (2008). Welcome to Fiction_L. Sótt 29. mars 2009 af http://www.webrary.org/RS/FLmenu.html. Moyer, J. (2008). Core collection: Electronic readers´ advisory tools. Booklist, 104(21), 10-11. Nielsen, H. J. (2005). New media and new roles of librarianship: Illustrated by a literary website of Danish libraries. New Library World, 106(11/12), 510-518.

Quillen C. L. (2001). Helping readers find books: An evaluation of four readers´ advisory resources. Óbirt meistaraprófsritgerð: University of North Carolina. Sótt 20. september 2008 af http://ils.unc.edu/ MSpapers/2714.pdf Reference and User Services Association (RUSA). (2004). Guidelines for behavioral performance of reference and information service providers. Sótt 8. mars 2010 af http://www.ala.org/ala/mgrps/divs/rusa/resources/guidelines/ guidelinesbehavioral.cfm Reference and User Services Association (RUSA). (2004). Guidelines for implementing and maintaining virtual reference services. Sótt 8. mars 2010 af http://www.ala.org/ala/mgrps/divs/rusa/resources/ guidelines/virtrefguidelines.cfm Roncevic, M., Avet, T., Connolly, B., Golderman, G., Guz, S. S. , Lampasone, L. o.fl. (2008). E-reference ratings: [1]. Library Journal, 133(19), 8-41. Ross, C. S. (1991). Readers’ advisory service: New directions. RQ, 30(4), 16. Ross, C. S. (1999). Finding without seeking: The information encounter in the context of reading for pleasure. Information processing and management 35(6), 783-799. Saricks, J. G. og Brown, N. (1997). Readers’ advisory service in the public library (2. útgáfa). Chicago: American Library Association. Saricks, J. G. (2005). Readers´ advisory service in the public library (3. útgáfa). Chicago: American library association. Shearer, K. D. (1996). Reflections on the findings and implications for practice. Í K. D. Shearer (ritstjóri), Guiding the reader to the next book, 169-183. New York: Neal-Schuman. Smith, D. (2000). Talking with readers: A competency based approach to readers advisory service. Reference and User Services Quarterly, 40(2), 135-142. Smith, M. C. (2000). The real-world reading practices of adults. Journal of Literacy Research, 32(1), 25-52. State Library of Ohio, (2009). About ReadThisNow. Sótt 2. apríl 2009 af http://www.readthisnow.org/about.php. Trott, B. (2005). Advising Readers Online. Reference and User Services Quarterly, 44(3), 210-215. Williamsburg Regional Library, 2009. WRL bookweb. Sótt 4. apríl 2009 af http://www.wrl.org/bookweb. Wyatt, N. (2007). 2.0 for readers. Library Journal, 132(18), 30-33. Wyatt, N. (2008). Take the RA talk online. Library Journal, 133(3), 32-34.

„Þá er að minnast á stiftisbókasafnið“ Þá er að minnast á stiftisbókasafnið; það hefur fengið Edduna frá skólabókasafninu, og alls á árinu 89 bindi (nr.), og hef eg í skýrslunni til stjórnenda safnsins tekið það fram, að nauðsyn bæri til að þakka fyrir bókasendingar þessar bæði Rafni, þó hann sé tregur á að supplera það sem vantar í af bókum þeim, sem hann hefur gefið út ( : Gröndals hist. Mindesmærker og Fornaldarsögur) – Friðriksháskóla, sem ávallt sendir hingað á hverju ári, og Ameríkumönnum, sem ekki gjöra heldur hina fyrri gjöf sína endasleppa, hvernig sem fer um endurgjald til þeirra. Frá Konungsbókasafninu höfum við ekkert fengið, nema frá „Kongens Haandbibliothek“ held eg séu bækurnar undir „4“ í yfirlitinu. Eg nenni nú ekki að senda yður skýrsluna, eða réttara sagt, má ekki vera að skrifa hana, – því eg get ekki játað á mig leti – „2. yfirlit“ stendur á listanum, af því að hann er frumrit til listans, sem eg sendi stjórnendum bókasafnsins, en „1. yfirlit“ var listi yfir lántakendur (sem voru liðið ár 58), léð bindi (sem voru 1422) og tekjur (tillagseyrir) bókasafnins (sem voru 42 rdl). Þann lista sendi eg heldur ekki, af sömu orsökum og skýrsluna sjálfa. Úr bréfi Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara og stiftsbókavarðar í Reykjavík til Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn 20. febrúar 1855. Úr fórum Jóns Árnasonar, fyrra bindi, Hlaðbúð, Reykjavík, 1950, bls. 45.

22


Dewey-flokkunarkerfið og notkun þess á Íslandi

Þórdís T. Þórarinsdóttir

Yfirlit greinar Greinin fjallar stuttlega um flokkunarhugtakið, þróun bókasafna á Íslandi og gefið er yfirlit yfir Dewey-kerfið. Fjallað er um þýðingar Dewey-kerfisins á íslensku og þróun kerfisins hér á landi. Ennfremur notkun kerfisins eftir safnategundum. Þá er fjallað um flokkun sem efnisgreiningu, Gegni og Dewey og að lokum eru hugleiðingar um framtíð Dewey-kerfisins hér á landi.

Inngangur Hvata þess að skoða notkun Dewey-kerfisins hér á landi má rekja til þess að vorið 2009 var undirrituð beðin um að flytja fyrirlestur um efnið á ráðstefnu sem haldin var í tengslum við þriðja ársfund notendafélags Dewey-kerfisins í Evrópu, European DDC Users Group (EDUG), sem vinnur að framþróun kerfisins. Notendafélagið var stofnað árið 2007 í samstarfi við OCLC og var fyrsti fundur þess haldinn í Bern það ár. Ráðstefnan, sem haldin var í Vínarborg, nefndist Dewey goes Europe: on the use and development of DDC in European libraries. Þar voru meðal annars fluttir fyrirlestrar um notkun kerfisins í ýmsum Evrópulöndum. Fyrirlesturinn kveikti í höfundi að skoða málið nánar. Við skoðunina reyndist þáttur Jóns Ólafssonar (1850-1816) ritstjóra, þingmanns og skálds við kynningu og útbreiðslu Dewey-kerfisins hér á landi meiri en undirrituð hafði áður áttað sig á og svo veigamikill að þýðing hans á kerfinu sem birtist í grein í Tímariti Hins íslenska bókmenntafélags árið 1902 hlýtur að teljast fyrsta þýðing þess á íslensku. Í heimildum um Jón er bókavarðarstarfi

hans ekki mikið hampað en hann var á árunum 1900-1913 með hléum bókavörður á Landsbókasafni Íslands. Hann hóf þar notkun Dewey kerfisins og vann þar með merkilegt brautryðjandastarf. Ekki hefur ýkja mikið verið skrifað um flokkun á íslensku og má þar einna helst nefna ofangreinda grein Jóns Ólafssonar frá 1902, umfjöllun þeirra Björns Sigfússonar og Ólafs F. Hjartar í Bókasafnsriti I (1952), grein eftir Björn Sigfússon frá 1956 og grein eftir Ólaf F. Hjartar frá 1970. Þá má nefna grein höfundar í ritinu Rannsóknir í Félagsvísindum X frá 2009. Að ógleymdri bók Susönnu Bury um liðflokkun (1974) og grein hennar um Bliss og flokkunarkerfi hans (1975) sem birt var í Afmælisriti Björns Sigfússonar.

Flokkunarhugtakið Flokkun er almennt skilgreind sem ferlið að skipa hlutum eða hugtökum niður í rökrétt stigveldi með undirflokkum sem byggjast á því sem flokkanir hafa sameiginlegt og því sem greinir þá að (Reitz, 2007). Efnisflokkun er beitt á efni bókasafna burtséð frá útgáfuformi og tekur flokkunin ennfremur til þess að merkja efnið með marktákni þess flokkunarkerfis sem notað er (Chan og Hodges, 2007). Það geta verið hrein marktákn, bókstafir eða þá tölur eins og í Dewey-kerfinu, eða blönduð marktákn þegar notað er sambland bókstafa og tölustafa eins og til dæmis í kerfi Library of Congress. Þrír meginhlutar flokkunarkerfis eru oftast taldir aðaltöflur (e. schedules), svokallaðar hjálpartöflur (e. tables/auxiliary tables) og efnislykill (e. index). Hjálpartöflur eru notaðar þannig að tölum úr þeim er bætt við tölur úr aðaltöflunum til að ná fram nákvæmari flokkun. Efnislykillinn samanstendur af heitum sem vísa í viðeigandi flokkstölur í aðaltöflum og hjálpartöflum. Almennt er greint er á milli tvenns konar flokkunar, grófflokkunar (e. broad classification) og fínflokkunar (e. close classification). Grófflokkun er oftast notuð þegar flokkunarkerfi er aðeins notað til að raða eftir efni í hillur og þá er oftast beitt frekari efnisgreiningu, svo sem lyklun. Við fínflokkun eru allir möguleikar viðkomandi flokkunarkerfis

23


bókasafnið

34. árg. 2010

notaðir til hins ýtrasta. Fínflokkun er gjarnan beitt þegar engin frekari efnisgreining fer fram eða jafnvel í rafrænum gagnagrunnum á sambærilegan hátt og lyklun. Flokkun og lyklun (efnisorðagjöf) eru meginþættir efnis­ greiningar heimilda og geta bætt hvort annað upp svo að kostir beggja aðferða nýtist þannig að flokkunin gefi til dæmis heildaryfirlit yfir efnisflokka viðkomandi safns en efnisorðin dragi út sérhæfðari svið safnkostsins.

Dewey-kerfið – Yfirlit Dewey-kerfið er nefnt eftir höfundi sínum Melvil Dewey (1851-1931) sem hannaði kerfið til að koma skipulagi á safnið þar sem hann starfaði (Amherst College í Massachusetts). Dewey-kerfið var fyrst gefið út árið 1876 og þá sem bækl­ingur. Allra fyrsta útgáfan var meira að segja án höfundaraðildar. Í fyrstu útgáfunni var samt að finna alla meginþætti kerfisins, það er stigveldisuppbyggingu efnisflokka (e. hierarchy), flokkstölu/marktölu/mörkun (e. notation) sem byggðist á tugakerfi (eiginlega aukastafir í tugstafakerfi eins og tugstafakomman sé framan við töluna) og afstæðan efnislykil (e. relative index). Ennfremur minnisatriði (e. mnemonics) í flokkstölum þar sem sama talan vísar alltaf til sama efnis. Aðalflokkar Dewey-kerfisins (hundruð) 000 100 200 300 400 500 600 700 800 900

Almennt efni Heimspeki Sálfræði Trúarbrögð Félagsvísindi Tungumál Raunvísindi Tækni (hagnýt vísindi) Listir Skemmtanir Íþróttir Bókmenntir og stílfræði Landafræði Ævisögur Sagnfræði

Rætur Dewey-kerfisins ná aftur í aldir sem útskýrir helstu gallana sem kerfið þykir hafa, til dæmis að stórir flokkar eru á milli tungumála (400) og bókmennta (800) annars vegar og félagsfræði (300) og sögu (900) hins vegar. Kerfið er byggt á flokkunarkerfi Harrys frá 1870 sem byggði sitt kerfi aftur á móti á viðsnúinni röð þekkingarkerfis Sir Francis Bacon (Chan og Hodges, 2007) sem skýrir röð flokkana. Dewey-kerfið varð fljótt mjög vinsælt og hefur þróast í gegnum tíðina. Fyrsta útgáfa þess var lítill bæklingur en síðustu óstyttu útgáfur eru fjögur þykk bindi. Sannast á kerfinu að mjór er mikils vísir og segja má að umfang þess endurspegli aukna útgáfustarfsemi í heiminum. Deweykerfið er nú eitt útbreiddasta flokkunarkerfið í heiminum og er í stöðugri endurskoðun. Kerfið er notað í yfir 135 löndum og hefur verið þýtt á meira en 30 tungumál.

24

Tvenns konar útgáfa Dewey-kerfisins er fyrir hendi:

 Óstytt útgáfa fyrir stærri bókasöfn. – Nýjust er 22. útgáfa frá 2002.

 Stytt útgáfa fyrir minni söfn. – Nýjust er 14. útgáfa frá 2003. Útgáfurnar tvær eru nú algerlega samhæfðar (frá og með 19. óstyttu og 11. styttu útgáfunni frá 1979). Það þýðir að það má nota þær saman á sama bókasafni, til dæmis flokka sérefni eftir óstyttu útgáfunni og jaðarefni eftir þeirri styttu. Lengi vel var stytta útgáfan með ýmsum tilfærslum milli flokka sem gerði slíka samnýtingu örðugri.

Stiklað á stóru um bókasafnsmál hér á landi

Þróun og notkun Dewey-kerfisins hér á landi er samofin stofnun og þróun bókasafna og bókavarðafélaga í landinu en bókasafnsþjónusta var nokkuð seinna á ferðinni hér á landi en í öðrum Evrópulöndum. Á fyrri helmingi 20. aldarinnar var þróunin frekar hægfara en mun hraðari á síðari hluta aldarinnar sem má sjálfsagt meðal annars rekja til þess að efnahagur landsins batnaði verulega um og eftir heimstyrjöldina síðari og lýðveldi var stofnað árið 1944. Dewey-kerfið er notað á flestum bókasöfnum hér á landi og af öllum safnategundum. Af öðrum kerfum sem í notkun eru má nefna NLM kerfið (National Library of Medicine Classification) og UDC kerfið (Universal Decimal Classification). Þó bókmenning eigi sér langa sögu hér á landi á bókasafnsþjónusta eins og við þekkjum hana í dag sér ekki ýkja langa sögu. Fyrsta lestrarfélagið var samt stofnað árið 1790. Á seinni hluta 19. aldar voru lestrarfélög stofnuð víðs vegar um landið og byggðust á fróðleiksfýsn og sjálfboðavinnu. Á árunum 1790 til 1982 er vitað um stofnun 431 safns fyrir almenning, lestrarfélaga og almenningsbókasafna (Ingibjörg Sverrisdóttir, 1997). Árið 1937 voru sett lög um starfsemi lestrarfélaganna (Lög um lestrarfélög og kennslukvikmyndir) og árið 1955 voru fyrstu Lög um almenningsbókasöfn sett (Steingrímur Jónsson, 1983). Sama ár var embætti bókafulltrúa ríkisins stofnað í samræmi við lögin og stuðlaði það að aukinni fagmennsku á söfnunum. Bókafulltrúi ríkisins hafði umsjón með og sinnti almenningsbókasöfnum og skólasöfnum í grunnskólum. Mörg lestrarfélaganna hafa sameinast og verið endurskipulögð sem almenningsbókasöfn. Borgarbókasafn Reykjavíkur, sem stofnað var árið 1923, er langstærsta almenningsbókasafn landsins. Þegar þetta er skrifað (2010) eru um 40 almenningsbókasöfn á landinu og hefur starfsemi þeirra verið í örri þróun hin síðari ár. Landsbókasafn Íslands var stofnað árið 1818 og er langelsta rannsóknarbókasafn landsins. Árið 1886 voru fyrst sett íslensk Lög um skylduskil til bókasafna sem efldi safnkost þeirra safna sem eintök fengu. Háskóli Íslands var stofnaður árið 1911. Árið 1940 voru deildasöfn Háskólans sameinuð og


bókasafnið Háskólabókasafn stofnað sem sameinaðist svo Landsbókasafni Íslands og fluttist ásamt því í Þjóðarbókhlöðu árið 1994. Safnið er langstærsta rannsóknarsafn landsins en slík söfn eru einnig við aðra háskóla landsins svo og ýmsar stofnanir. Bókasöfn og upplýsingamiðstöðvar hafa verið í örri þróun á síðustu áratugum og er starfsemi þeirra öflug og metnaðarfull. Söfnin hafa með sér öfluga samvinnu, til dæmis um samskrá íslenskra bókasafna, Gegnir.is, og um landsaðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum, hvar. is (Þórdís T. Þórarinsdóttir, 2005a). Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar spruttu upp skólasöfn við grunn- og framhaldsskóla landsins (Sigrún Klara Hannesdóttir, 1997; Þórdís T. Þórarinsdóttir, 1997). Kennsla í bókasafnsfræði við Háskóla Íslands hófst árið 1956 að tilhlutan þáverandi háskólabókavarðar, dr. Björns Sigfússonar. Mikilvægt var fyrir framþróun starfsemi bókasafna að starfsfólk þeirra ætti þess kost að nema bókasafnsfræði hér á landi. Þegar kennslan hófst voru aðeins fjórir starfandi bókasafnsfræðingar hérlendis en árið 1964 lauk fyrsti nemandinn BA-prófi í bókasafnsfræði frá Háskóla Íslands (Friðrik G. Olgeirsson, 2004). Náminu óx þannig smám saman fiskur um hrygg. Árið 1993 var farið að bjóða upp á framhaldsnám í bókasafns- og upplýsingafræði, frá árinu 2004 hefur verið boðið upp á MLIS nám fyrir þá sem eru með BA-próf í annarri háskólagrein og diplómanám hófst á haustmisseri 2008 (Ágústa Pálsdóttir, 2009). Í desember 2002 var stofnað nýtt starfsnám á sviði bóka­­­ safns- og upplýsingafræða, bókasafnstækni, í framhalds­skólum sem ætlað var ófaglærðum bókavörðum og framhalds­ skólanemum en áður hafði ófaglært starfsfólk bókasafna átt þess kost að stunda bókavarðanám í Bréfaskólanum (Þórdís T. Þórarinsdóttir, 2006). Bætti námsleiðin úr brýnni þörf á menntunartækifæri fyrir ófaglærða bókaverði. Bókavarðafélag Íslands (BVFÍ) var stofnað 4. desember 1960 um og yfir hálfri öld síðar en í flestum nágrannalandanna. Félag bókasafnsfræðinga (Fb) var stofnað árið 1973. Félögin tvö ásamt aðildarfélögum BVFÍ voru í nóvember 1999 sameinuð í Upplýsingu - Félagi bókasafns- og upplýsingafræða sem tók formlega til starfa 1. janúar árið 2000. Stofnfélagar í BVFÍ voru 37 bókaverðir og í Fb fjórir (Friðrik G. Olgeirsson, 2004). Árið 2004, þegar Upplýsing hafði starfað í fimm ár, voru félagsmenn um 500 (Þórdís T. Þórarinsdóttir, 2005b) svo þróunin hefur verið hröð. Athyglisvert er að félögin hér á landi hafa byggt á einstaklingsaðild fólks starfandi á bókasöfnum en erlendis hafa félögin verið samtök bókasafna sem hafa verið fjárhagslegur bakhjarl félaganna í mun ríkari mæli en hér. Nafngiftin endurspeglar þetta, í öðrum löndum heita félögin yfirleitt samtök bókasafna (til dæmis library association, biblioteksforening). Öll félögin hafa haft mikil áhrif á þróun fagvitundar og eflt starfsemi bókasafnanna.

Dewey-kerfið kemur til Íslands Jón Ólafsson ritstjóri, skáld og þingmaður svo eitthvað sé nefnt, var ákaflega mikill áhugamaður um bókasafnsmál. Hann

34. árg. 2010

kynntist bókasöfnum og starfsemi þeirra í Bandaríkjunum innan við 20 árum eftir að Dewey-kerfið var fyrst gefið út en önnur útgáfa kerfisins, sem kom út árið 1885, var fyrsta útgáfan sem náði einhverri útbreiðslu að marki. Segja má að Jón hafi þannig kynnst kerfinu í frumbernsku þess. Hafa verður það í huga þegar þýðing hans er skoðuð. Á síðasta áratug 19. aldar starfaði Jón á bókasöfnum í Chicago, safni Field Columbium Museum og í Newberry Public Library, og kynnist þar Dewey-kerfinu og notkun þess ásamt aðferðum við skráningu bókakosts (Gils Guðmundsson, 1987; Guðrún Karlsdóttir, 1997). Þegar Jón Ólafsson kom aftur heim til Íslands kynnti hann Dewey-kerfið fyrir Landsbókasafni í bréfi frá árinu 1900 og sækir um starf við að flokka og skrá safnið. Á árunum 19001913 flokkar Jón erlent efni safnsins samkvæmt Deweykerfinu og skráir það einnig (Jón Jacobson, 1919-20; Gils Guðmundsson, 1987). Jón var mikill áhugamaður um bókasafnsmál og framgang bókasafna og ritaði greinar um efnið í tímarit, svo sem greinina „Hagnýting bókasafna“ í Ísafold árið 1899. Árið 1902 skrifaði Jón grein um starfsemi bókasafna í Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags sem má telja ein fyrstu skrif um bókasafnsog upplýsingafræði á íslensku. Þá grein kveðst Jón skrifa því leitað hafði verið ráða hjá honum um leiðbeiningar um skipulag bókasafna. Til að sem flestir hefðu gagn af leiðbeiningunum birti hann greinina (Jón Ólafsson, 1902). Þar er að finna leiðbeiningar um flokkun, skráningu og skipulagningu bóka­ safna og jafnframt fyrstu prentuðu þýðingu Dewey-kerfisins á íslensku og er þannig um algert brautryðjandastarf að ræða. Jón lýsir mjög ákveðnum hugmyndum um hvaða eiginleika góður flokkari þarf að hafa til að bera: „góður flokkari þarf að vera gagnmenntaður maður, ákaflega fjölhæfur og fjölfróður, hafa góða yfirlitsgáfu, glögga dómgreind og frábært minni, og ofan á þetta talsverða verklega æfingu.“ (Jón Ólafsson, 1902, bls. 95). – Og Jón heldur áfram. „Án æfingar getur sá, sem hefir alla hæfileika aðra til þessa að bera, ekki gert sér minnstu hugmynd um, hvert vandaverk þetta er, og hvern tíma það tekur.“ Segja má að þetta sé enn í fullu gildi. Grein Jóns sýnir almennt góðan skilning á starfsemi bókasafna og mikilvægi þeirra. Þýðing Jóns tekur til aðalflokka kerfisins og allmargra undirflokka. Alls eru marktölur hátt í 70 flokka nefndar.Strax í þýðingu sinni frá 1902 kom Jón Ólafsson (bls. 100) með aðlögun Dewey-kerfisins að íslenskum þörfum og notar þar þann valkost kerfisins að nota megi 810 flokkinn, sem annars er notaður fyrir bandarískar bókmenntir, fyrir þjóðtungu þess lands sem notar kerfið. Samanburður á notkun valkosta í bókmenntun í útfærslu Jóns Ólafssonar og í íslensku Dewey útgáfunni frá 2002 Þýðing Jón Ólafssonar 1902

Íslenska útgáfan frá 2002

810 Íslenskar bókmenntir 810.1 Ljóð 810.2 Sjónleikar [Leikrit] 810.3 Skáldsögur 810.4 Ritsöfn höfunda

810 Íslenskar bókmenntir 811 Ljóð 812 Leikrit 813 Skáldsögur 814 Ritgerðir, greinar

25


bókasafnið

34. árg. 2010

Eins og sjá má á töflunni hér að ofan hefur notkunin verið aðlöguð síðar og er útfærslan nú á nokkuð annan hátt en í þýðingu Jóns Ólafssonar. Aðrar þýðingar Dewey-kerfisins á Íslensku Hálf öld leið þar til næsta þýðing kerfisins leit dagsins ljós en það var árið 1952 þegar þeir félagar dr. Björn Sigfússon og Ólafur F. Hjartar gáfu út bók sína Bókasafnsrit 1. Myndunarog skráningarstörf með fulltingi menntamálaráðuneytisins. Í bókinni var fjallað um flokkun og ágrip af Dewey-kerfinu birt í þýðingu ásamt efnislykli. Fljótlega eftir að embætti bókafulltrúa ríkisins var stofnað var gefið út ritið Leiðbeiningar um flokkun og skráningu bóka (Guðmundur G. Hagalín, 1955). Ritið var ætlað litlum bókasöfnum og þýðingin mun ágripskenndari en áðurnefnd þýðing þeirra Björns og Ólafs. Nokkrum árum síðar eða 1961 gaf bókafulltrúi út ritið Um almenningsbókasöfn – fræðsla og bendingar um skipan þeirra og rekstur (Guðmundur G. Hagalín) þar sem er að finna heldur ítarlegri útdrátt úr kerfinu. Bæði ofangreind rit byggðu á Bókasafnsriti þeirra Björns og Ólafs sem þótti of ítarlegt fyrir lítil bókasöfn. Nánast strax eftir stofnun Bókavarðafélags Íslands (BVFÍ) árið 1960 var af stjórn félagsins „skipuð nefnd til þess að ganga frá reglum um flokkun fyrir íslenzk bókasöfn“ (Dewey, 1970, bls. 7). Tíu árum síðar var þýðing kerfisins, sem byggðist á 16. (frá 1958) og 17. (frá 1965) óstyttu útgáfunni, gefin út hjá bókafulltrúa ríkisins að tilhlutan BVFÍ sem fékk leyfi rétthafa fyrir útgáfunni sem í formála er kölluð „útdráttur úr kerfinu“ (Dewey, 1970, bls. 8) enda mikið stytt. Það að stuðst var við tvær útgáfur helgaðist af því að verkið dróst á langinn og „þótti nefndarmönnum einsýnt að taka bæri tillit til ýmissa breytinga, sem gerðar höfðu verið síðan 16. útgáfan birtist“ (Dewey, 1970, bls. 7). Þetta er í fyrsta skipti sem kerfið er gefið út í bókarformi hér á landi og hefur vafalaust verið mikill fengur að því fyrir íslensk bókasöfn. Næsta þýðing kerfisins var svo gefin út 17 árum síðar eða 1987 og byggðist aðallega á 11. styttu útgáfu þess (frá 1979) en að nokkru var stuðst við forprent af 12. útgáfunni sem þá var í undirbúningi (Dewey, 2002). Samstarfsnefnd um upplýsingamál stóð að útgáfunni en Flokkunarnefnd bóka­safna annaðist ritstjórn og þýddi jafnframt meginhluta verksins en nefndin hafði verið skipuð árið 1980 (Dewey, 1987). Miðað við næstu útgáfu á undan var þessi útgáfa miklu ítarlegri. Þriðja þýðingin í bókarformi kom svo út árið 2002 eða réttum 100 árum eftir að þýðing Jóns Ólafssonar birtist í Tímariti Hins íslenska bókmenntafélags. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn stóð að útgáfunni. Útgáfan hafði verið lengi í vinnslu en vinna við hana var hafin strax um 1990 (Þórdís T. Þórarinsdóttir, 1992a). Útgáfan er nokkuð nákvæm þýðing á 13. styttu útgáfunni frá 1997 en að einhverju leyti höfð hliðsjón af 14. útgáfunni sem var þá í vinnslu (Dewey, 2002). Þetta er langítarlegasta útgáfan á íslensku fram til þessa og endurspeglar hún í flestum tilvikum frumgerðina enda var kveðið á um í útgáfusamningi „að efnistök séu í sem mestu samræmi við alþjóðlegu (amerísku) útgáfuna“ (Dewey, 2002).

26

Þróunin hefur jafnan verið sú að hver ný þýðing Deweykerfisins á íslensku hefur verið ítarlegri og vandaðri en sú næsta á undan. Mikill fengur hefur verið að öllum þýðingunum fyrir íslensk bókasöfn og þær stuðlað að aukinni fagmennsku og samræmingu í flokkun. Einnig hefur það auðveldað flokkunarstörfin að hafa kerfið á móðurmálinu. Þýðingarnar hafa jafnan verið mjög lengi í vinnslu sem stafar af því að þýðingarstörfin voru að jafnaði unnin meðfram öðrum störfum á söfnunum en hve þýðingarnar voru lengi í vinnslu hlýtur að hafa orsakað tvíverknað þegar ný útgáfa kerfisins sem taka þurfti tillit til kom út áður en verkinu lauk. Samanburður á umfangi þýðinga Eins og glögglega má sjá á töflunni hér að neðan hefur mikil þróun orðið á umfangi og þar með nákvæmni þýðinga Deweykerfisins á íslensku. Yfirlit yfir þýðingar Dewey-kerfisins á íslensku Umfang og ítarleiki

Nr.

Ár

Útgáfuform

Bls.-fjöldi

1

1902

Tímaritsgrein

8

Ágrip - hluti tímaritsgreinar

2

1952

Bókarkafli

19

Ágrip en með efnislykli

3

1955

Bæklingur

8

Enn meiri stytting án efnislyklils fyrir lítil bókasöfn

4

1961

Bæklingur

12

Heldur ítarlegri en fyrri bæklingur

5

1970

Bók (leyfi)

174

Byggð á 16. & 17. óstyttu útg., stytt nánast útdráttur

6

1987

Bók (leyfi)

571

Byggð á 11. styttu útg. kerfisins, en meira stytt

7

2002

Bók (leyfi)

993

Þýðing á 13. styttu útg. kerfisins frá 1997

Íslenskir valkostir Dewey-kerfið býður upp á ýmsar staðfæringar fyrir hvert tungumál og land um sig. Sem dæmi má nefna að taka má flokkstölu bandarískrar ensku í bandarísku útgáfunni undir þjóðtungu þess lands sem kerfið er notað í. Bandarísk enska er þá flokkuð með breskri ensku. Viðkomandi tungumál fær þá flokkstölu fyrir bandarískar bókmenntir (810) sem eru í því tilviki flokkaðar með breskum bókmenntum (820). Einnig hafa ýmsar aðrar tilfærslur og breytingar verið gerðar – sérstaklega í fyrri útgáfum – en í íslensku útgáfunni frá 2002 er lítið um aðrar breytingar á kerfinu að ræða en fyrir íslensk sérsvið enda er ekki mælt með þeim hjá aðalritstjórn kerfisins. Útvíkkanir kerfisins, til dæmis í flokkun landsvæða, eru leyfðar í samráði við aðalritnefnd kerfisins. Gert er að skilyrði að öll frávik frá bandarísku útgáfunni önnur en útvíkkanir séu auðkennd sérstaklega. Í íslensku útgáfunni frá 2002 eru slíkar breytingar auðkenndar með tákninu # (tvíkross eða milla).


bókasafnið 400 Tungumál - Valkostir og breytingar Hér að neðan má sjá frávik íslensku útgáfu kerfisins frá 2002 frá bandarísku útgáfu Dewey-kerfisins í málvísindum. Frávik frá bandarísku útgáfunni eru auðkennd með #. Íslenska Dewey-útgáfan, 2002

Óstytta bandaríska útgáfan, 2003

400.1 #Heimspeki & kenningar 401 #Málvísindi 410 #Íslenska 439.6 #Norska 439.69 #Færeyska 439.8 #Danska

400.1 401 410 439.82 439.699 439.81

Ekki notað Heimspeki & kenningar Málvísindi Norska Færeyska Danska

Á töflunni hér að ofan má sjá samanburð á íslensku útgáfu Dewey-kerfisins (Dewey, 2002) og nýjustu bandarísku óstyttu útgáfunni (Dewey, 2003). Vinstra megin er sú íslenska og hægra megin sú bandaríska. Eins og sjá má hafa nokkrar tilfærslur og breytingar verið gerðar til að auka vægi íslenskunnar með því að hafa hana framar í flokknum og gefa henni styttri tölu. Í bandarísku útgáfunni (Dewey, 2003) fær íslenska stofntöluna 439.69. Í íslensku útgáfunni hefur flokkstölum nokkurra tungumála grannþjóðanna einnig verið hnikað til og tölurnar styttar. Í styttu bandarísku útgáfunni sem þýtt er úr (Dewey, 1997) eru danska og norska til dæmis hafðar saman í flokknum 439.8 en hér á landi kjósa bókasöfn að aðgreina þessi tungumál. 800 Bókmenntir - Valkostir og breytingar Það sama er uppi á teningnum í flokkun bókmennta. Þar hefur einnig verið notuð heimild til að gefa íslensku efni meira vægi með styttri flokkstölu. Hér að neðan má sjá þær breytingar sem gerðar hafa verið. Frávik frá bandarísku útgáfunni auðkennd sérstaklega (með #). Íslenska útgáfan frá 2002

Óstytta útgáfan frá 2003

810

#Íslenskar bókmenntir

810

Amerískar bókmenntir

819

#Fornbókmenntir [íslenskar]

(819)

Amerískar bókm. á

820

#Enskar, amerískar bókmenntir 820

á ensku ensku, s.s. kanadískar 839.6 #Norskar bókmenntir 836.69 #Færeyskar bókmenntir

Enskar og fornenskar bókmenntir

839.82

Norskar bókmenntir

34. árg. 2010

Hjálpartafla 2 – Landstölur: Ísland Landstölur eru notaðar með tölum úr aðaltöflum Deweykerfisins (skeytt aftan á tölur úr aðaltöflunum). Í hjálpartöfl­ unum sjálfum og í efnislyklinum eru tölur úr hjálpartöflunum auðkenndar með þankastriki (–) framan við töluna til að leggja áherslu á að slíkar tölur eru aldrei notaðar einar sér. Í banda­ rísku útgáfu Dewey-kerfisins er stofntala landstölu Íslands –4912 en í íslensku útgáfunni (Dewey, 2002) er stofntalan stytt í –491 til að stytta þær flokkstölur úr aðaltöflunum sem landstölu er skeytt aftan á. Dæmi um útvíkkun landstölu Íslands í þýðingunni frá 2002 (Dewey, 2002) –491 Landstala Íslands úr (hjálpar)töflu 2 –491 3 Vesturland (landshluti) –491 31 Mýra- og Borgarfjarðarsýsla (sýsla) –491 311 Akranes (bær)

Landstölutaflan er þannig aukin verulega í íslensku útgáfunni frá 2002. Eins og áður getur hefur stofntalan jafnframt verið stytt til að samsetningar verði meðfærilegri. Engir undirflokkar eru í bandarísku útgáfunni sem þýtt er úr en 53 í þeirri íslensku. Dæmi um notkun landstölu Íslands með aðaltöflum Land/ svæði

Landstala

Kirkjusaga

Jarðfræði

Landafræði

Mannkynssaga

(270)

(550)

(910)

(900)

Evrópa

–4

274

554

914

940

Norðurlönd

–48

274.8

554.8

914.8

948

Ísland

–491

274.91

554.91

914.91

949.1

Útvíkkun Íslandssögu Íslandssaga er einnig víkkuð verulega út í íslensku útgáfu kerfisins, sérstaklega í útgáfunni frá 2002, og undirflokkum bætt inn í. Í nýjustu bandarísku óstyttu útgáfunni (Dewey, 2003) eru sex undirflokkar í sögu Íslands og í þeirri styttu (Dewey, 2004) er einn. Í íslensku útgáfunni frá 2002 (Dewey, 2002) eru hins vegar 11 undirflokkar sem byggjast á hefðbundinni skiptingu Íslandssögunnar í tímabil.

839.699 Færeyskar bókmenntir 839.79 #Finnlandssænskar bókmenntir

Engin sérstök flokkstala 839.81

Danskar bókmenntir

839.8 #Danskar bókmenntir

Útvíkkanir í íslenskum útgáfum Dewey-kerfisins Breytingar og aðlaganir miða oftast að því að stytta flokkstölur svo þær verði meðfærilegri í samsetningum. Þetta kemur sérstaklega sterkt fram í Hjálpartöflu 2, Landstölum (Table 2) í kerfinu, sem tekur til landsvæða og svæðisbundinna talna, en tölum úr þeirri töflu er skeytt aftan við tölur úr aðaltöflunum til að fá nákvæmari flokkun.

Notkun Dewey-kerfisins hér á landi Dewey-kerfið er notað á flestum bókasöfnum hér á landi en mjög mismunandi er hvernig kerfinu er beitt og hvaða útgáfa er notuð. Grunnskólasöfn nota oftast íslenska útgáfu kerfisins – ekki í öllum tilvikum þá nýjustu. Framhaldsskólasöfn nota íslenska útgáfu fyrir íslenskt efni (svo sem íslenska tungu, íslenskar bókmenntir, landafræði og sögu) en stundum jafnframt óstytta útgáfu fyrir annað efni. Óstytta útgáfan er þá notuð fyrir allan þorra safnefnis en íslenska útgáfan fyrir séríslenskt efni. Almenningsbókasöfn nota flest íslenska útgáfu – en Borgarbókasafn Reykjavíkur hefur þar sérstöðu

27


bókasafnið

34. árg. 2010

því safnið notar Danska Dewey sem er töluvert frábrugðinn öðrum útgáfum sem notaðar eru hér á landi. Sérfræðibókasöfn nota oftast óstyttu bandarísku útgáfuna og íslenska útgáfu um séríslenskt efni. Umfangsmesta og nákvæmasta flokkunin hér á landi fer fram á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni sem er langstærsta safn landsins. Safnið hefur samkvæmt lögum leiðandi hlutverki að gegna á sviði bókasafns- og upplýsingamála en í 7. grein Laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn (1994) segir í 15. málsgrein að eitt af hlutverkum safnsins sé: „Að stuðla að samræmingu starfshátta í íslenskum bókasöfnum, veita þeim faglega ráðgjöf og eiga við þau sem víðtækast samstarf.“ Safnið gefur til dæmis út Íslenska útgáfuskrá (áður Íslensk bókaskrá). Í skránni, sem gefin er út á vefnum, eru töluyfirlit samkvæmt Dewey-kerfinu og hægt er að leita eftir einstökum flokkstölum en mjög væri til bóta ef hægt væri að velja þær úr flettilista. Sérstaða Borgarbókasafns Eins og drepið var á hér að ofan hefur Borgarbókasafn Reykjavíkur algera sérstöðu. Þar er notað danskt afbrigði af Dewey-kerfinu, Decimalklassedeling, DK. Helgast það af því að fyrsti borgarbókavörðurinn, Sigurgeir Friðriksson, lærði sín bókasafnsfræði í Danmörku og tók upp danska afbrigði kerfisins við stofnun safnsins árið 1923. Hann var jafnframt fyrsti Íslendingurinn til að ljúka námi í bókasafnsfræði og útskrifaðist árið 1921 (Friðrik G. Olgeirsson, 2004). Nú er notuð 5. endurskoðaða útgáfan frá 2007, DK 5. Kerfið hefur ekki verið þýtt á íslensku heldur er danska útgáfan notuð en gerðar hafa verið nokkrar breytingar á henni við flokkun í safninu. Danska afbrigði kerfisins er frábrugðið bandarísku útgáfunni bæði hvað varðar form og innihald. Samanburður á Dewey-kerfinu og DK Á töflunni hér að neðan sést samanburður á nokkrum flokkum í Danska Dewey og bandarísku útgáfu Dewey-kerfisins. Danski Dewey

Bandarísk útgáfa Dewey

110 130 140 150 400 890 910 920 990

110 130 140 150 400 890 910 920 990

Rökfræði Sálfræði Yfirskilvitleg fyrirbæri Siðfræði Landafræði og ferðir Tungumál Tímabilsskiptingar sögu Saga Frakklands Ævisögur

Frumspeki Yfirskilvitleg fyrirbæri Tilteknar heimspekistefnur Sálfræði Tungumál Bókmenntir annarra tungumála Landafræði og ferðir Ævisögur Aðrir heimshlutar (saga)

Verulegar breytingar og tilfærslur hafa verið gerðar á Dewey-kerfinu í dönsku útfærslunni. Danski Dewey er aðallega hugsaður fyrir almenningsbókasöfn. Í dönsku útgáfu Deweykerfisins er reynt að vega upp á móti þeim göllum sem kerfið þykir almennt hafa. Kerfið hefur til dæmis verið gagnrýnt fyrir að þrír aðalflokkar eru á milli tungumála og bókmennta og að landafræðin klýfur sagnfræðiflokkinn.

28

Aðalmunurinn á bandarísku útgáfu Dewey og þeirri dönsku er að 400 flokkurinn, tungumál, hefur verið fluttur yfir í bókmenntaflokkinn og er þar undirflokkur, það er 890, þannig að 500, 600 og 700 flokkarnir eru ekki á milli. Ennfremur hefur landafræðin verið flutt úr 910 þar sem þröngt er um hana (undirflokkur sem fær einn tug) auk þess sem hún klýfur sagnfræðiflokkinn. Fær landafræðin heilan aðalflokk í staðinn (hundrað), það er einn tíunda hluta kerfisins (400) í stað eins hundraðasta (910) eins og er í bandarísku útgáfunni. Hugmyndafræðin á bak við þetta var meðal annars að almenningsbókasöfn ættu meira efni um landafræði en tungumál og því þyrfti hún meira pláss í kerfinu en tungumálin. Breytingar á flokkstölum í DK Í Danska Dewey hafa einnig hafa verið gerðar breytingar á formi flokkstalna. Punkturinn í marktölunni (á íslensku lesið sem komma) sem í bandarísku útgáfunni er eftir þriðja staf er eftir öðrum staf í Danska Dewey og ekki er fyllt upp með núllum þannig að flokkstalan sé alltaf þriggja stafa að lágmarki. Á Borgarbókasafni Reykjavíkur er ekki farið eftir þessu heldur eftir almennum reglum kerfisins og punkturinn hafður eftir þriðja tölustaf. Á Borgarbókasafni er þannig notað sérstakt íslenskt afbrigði Danska Dewey. Í gegnum tíðina hefur oft verið rætt meðal starfsmanna bókasafna af hverju Borgarbókasafn Reykjavíkur noti Danska Dewey og taki ekki upp almennu útgáfuna eins og önnur bókasöfn landsins. Endurflokkun var skoðuð og metin sérstaklega áður en Borgarbókasafn gerðist aðili að nýja Gegni, samskrár, íslenskra bókasafna, í apríl 2004 (Gegnir var opnaður á vefnum þann 19. maí 2003, www.gegnir.is). Í ljós kom að endurflokka þyrfti mikinn hluta safnkostsins eða allt að 80% sem er bæði dýrt og tímafrekt. Önnur rök voru að engin samræming er á flokkun í bókasafnskerfinu Gegni hvort sem er þannig að hvert aðildarsafn um sig getur flokkað eins og hentar best í heimasafni þannig að sama safngagn hefur margar mismunandi flokkstölur í Gegni þó bandaríska útgáfan sé notuð (Þóra Sigurbjörnsdóttir, tölvupóstur, 19. febrúar 2009). Engin áform eru heldur uppi um að samræma flokkun í Gegni heldur er eingöngu litið á flokkstölur sem staðsetningartákn viðkomandi safns. Aftur á móti má geta þess að í Gegni er öflugt samræmingarstarf í gangi hvað varðar skráningu og lyklun og bæði skráningarráð og efnisorðaráð starfandi sem hafa mikilvægu samræmingar- og gæðastjórnunarhlutverki að gegna hvort á sínu sviði. Handbók skrásetjara Gegnis (2009) er aðgengileg á vefnum til að auðvelda aðgengi að sameiginlegum reglum. Af þessu leiðir að í Gegni koma flokkstölur ekki fram í fullri færslu heldur í tengslum við hvert eintak fyrir sig og eru notaðar sem staðsetningartákn eins og áður segir. Hægt er að leita eftir flokkstölum í ítarlegri leit og með skipanaleit sem búast má við að allur þorri notenda geti ekki nýtt sér að fullu nema með fulltingi aðila sem hefur leitir í kerfinu fullkomlega á valdi sínu. Flokkstölur koma ekki fram í flettilistum eða stiklutexta (e. hypertext) í fullri færslu.


bókasafnið Þeir sem flokka á bókasöfnum með aðild að Gegni verða að hafa í huga að mismunandi flokkunarkerfi eru lögð til grundvallar við flokkun efnis sem skráð er í Gegni. Jafnvel þó notuð sé sama útgáfan af Dewey-kerfinu þá geta söfn beitt henni á mismunandi hátt. Samt má búast við að með aukinni notkun Gegnis verði óhjákvæmilega með tímanum nokkur samræming í flokkuninni við það að flokkarar skoði færslur hjá öðrum söfnum til viðmiðunar fyrir flokkun í eigin safni.

Íslenskar hefðir í flokkun Í tímans rás hafa skapast ýmsar hefðir hér á landi í beitingu Dewey-kerfisins. Skáldrit Aðalregla Dewey-kerfisins er að flokka bókmenntaverk eftir upprunamáli. Þeirri aðferð er meðal annars beitt á Lands­ bókasafni Íslands – Háskólabókasafni og í nokkrum öðrum söfnum. Einn af valkostum Dewey-kerfisins er að flokka skáldrit ekki eftir upprunamáli heldur tungumáli ritsins. Þeirri aðferð er einkum beitt á almenningsbókasöfnum og grunnskólasöfnum. Á sumum söfnum tíðkast að flokka allar skáldsögur í einn flokk (S) og er það einkum hjá almenningsbókasöfnum og grunnskólasöfnum sem þeirri aðferð er beitt. Einnig þekkist að gefa skáldritum ekkert flokksmerki. Þó notað sé eitt og sama kerfið má þannig beita því á ýmsa mismunandi vegu. Ævisögur Meginregla Dewey-kerfisins nú er að flokka ævisögur með þeirri fræðigrein sem viðkomandi persóna tengist sterkast. Valkostur er að flokka allar ævisögur saman í 920 flokkinn og skipta þeim nánar eftir ævistarfi. Þessari aðferð er til dæmis beitt á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Á mörgum íslenskum bókasöfnum skapaðist sú sérstaka hefð að flokka ævisagnasöfn í 920 og ævisögur einstaklinga í 921. Flokkstalan 921 er séríslensk afbrigði sem er ekki í bandarísku útgáfunni (sbr. Dewey, 1970, 111; Dewey, 1987, 333). Helgaðist þetta af því að oft var erfitt að ákvarða í hvaða flokki viðkomandi ævisaga ætti best heima því margir tilheyrðu fleiri en einni starfsstétt. Þessari aðferð er beitt víða á söfnum hér á landi og hefur hún gefist vel. Innan flokksins er raðað eftir nöfnum þeirra sem skrifað er um.

Efnisgreining: Flokkun vs. Lyklun Fyrir tölvuvæðingu bókasafna var flokkun jafnan eina efnisgreiningin. Beitt var fínflokkun og hver bók fékk fleiri en eina flokkstölu (aukamarktölu, plúsmarktölu) ef efni hennar gaf tilefni til. Á þeim tíma var íslenskan ekki talin henta til lyklunar því hún væri beygingamál. Bókasöfn héldu þá spjaldskrár, það er stafrófsskrá og flokkaða skrá, sem notaðar voru við að finna efni safnanna, hvort tiltekið efni væri til og hvar það stæði í hillu væri það til. Gegndu skrárnar sama hlutverki og tölvuvæddar skrár gera nú. Reynt var að gera efni safnanna eins aðgengilegt og kostur var. Spjöldum fyrir flokkstölur var síðan raðað í flokkuðu skrána. Framan við aukamarktölu var + (plús) merki

34. árg. 2010

sem sýndi að talan var ekki staðsetningartákn og fyrir neðan þá tölu á spjaldinu var flokkstalan sem sýndi staðsetningu safngagnsins í hillu. Með lyklun gagna samfara tölvuvæðingu bókasafna upp úr 1990 minnkaði þörfin fyrir fínflokkun og aukamarktölur því efnisorðin komu í staðinn. Árið 1992 kom fyrsta útgáfa Kerfisbundins efnisorðalykils fyrir bókasöfn og upplýsingam­ iðstöðvar út, 2. útgáfa 1996 og sú þriðja 2001 (Þórdís T. Þórarinsdóttir og Margrét Loftsdóttir, 2001) með því markmiði að stuðla að samræmingu í efnisorðagjöf.

Þáttur miðlægrar skráningar í flokkun Árið 1974 var hafið að gefa út spjaldskrárspjöld sem bókasöfn gátu keypt og var flokkstala bókanna prentuð á spjöldin. Þjónustumiðstöð bókasafna tók við útgáfu og sölu spjalda þegar hún var stofnuð árið 1978 en jafnframt samtímaskrán­ ingu voru spjöld gefin út fyrir bækur gefnar út á árunum 194473 (Regína Eiríksdóttir, 1997). Spjaldaútgáfan stuðlaði vafa­ laust að samræmingu í flokkun á íslenskum bókasöfnum. Með tölvuvæðingu bókasafna minnkaði eftirspurnin og árið 1997 var þjónustunni hætt (Regína Eiríksdóttir, tölvupóstur, 17. apríl 2009). Þess má geta að frá árinu 1973 hefur Skólasafnamiðstöð Reykjavíkur flokkað og skráð efni skólasafna í grunnskólum í Reykjavík og þannig unnið mikið samræmingarstarf á sviði flokkunar. Fyrst var efnið skráð á spjaldskrárspjöld sem send voru út í söfnin en frá 1994 hefur allt efni verið tölvuskráð (Margrét Björnsdóttir, 1997).

Framtíð Dewey hér á landi Einsýnt er að íslensk bókasöfn munu áfram nota Dewey-kerfið um ófyrirsjáanlega framtíð til að skipa safnefni í hillur burtséð frá útgáfuformi. Ný þýðing af Dewey er æskileg. Þýðingin frá 2002 er einkum byggð á útgáfu frá 1997 en ný útgáfa kom út 2003 og enn er ný útgáfa kerfisins, 23. óstytta útgáfan og 15. stytta, í undirbúningi. Blönduð vefútgáfa gæti verið fýsilegur kostur hér á landi, þannig að stytta útgáfan væri á íslensku en þar sem henni sleppti væri hægt að fara beint inn í óstyttu bandarísku útgáfuna. Slík útgáfa gæti verið ódýrari þar sem ekki væri um prentkostnað að ræða. Einnig gæti hún stytt þýðingartímann og veitt aðgang að styttri og óstyttri útgáfu samtímis. Slík útgáfa er í undirbúningi í Svíþjóð og í skoðun í Noregi (Mitchell, Rype, Svanberg, 2009). Eins og áður getur er nú engin markviss samræming í flokkun á íslenskum söfnum. Með tilkomu aukinnar efnis­ orðagjafar hefur hlutverk flokkunar í flestum tilfellum breyst frá því að vera efnisgreiningar- og staðsetningarkerfi í að vera nær eingöngu staðsetningarkerfi. En með aukinni alþjóðavæðingu hefur mikilvægi flokkunar sem efnisgrein­ ingar aftur aukist. Dewey-kerfið hefur verið þýtt á fjölmörg tungumál og gætu marktökur þess því þjónað eins og nokkurs konar alheimsmál á sviði efnisflokkunar í rafrænum gagnaskrám. Í auknum mæli hefur verið fallið frá að nota staðfæringar og breytingar við flokkun til að skapa þjóðtungu

29


bókasafnið

34. árg. 2010

aukið vægi líkt og hefur tíðkast hér á landi sem og annars staðar. Heldur er aukin áhersla lögð á það að flokkstölur hafi sömu merkingu sem víðast til að auka vægi þeirra við að brjóta niður múra milli mismunandi tungumála. Um Dewey-kerfið má segja að það er síungt þó meira en 130 ár séu frá fyrstu útgáfu þess Undirbúningur fyrir nýja útgáfu er í fullum gangi og þrír vinnuhópar starfa til dæmis á vegum Evrópska notendafélagsins (European DDC Users Group, 2009) til undirbúnings henni, það er um 340 (lögfræði), 370 (menntamál), 930 (fornleifafræði) svo og um upplýsingatækni. Áhugavert væri að skoða nánar flokkun á bókasöfnum hérlendis, hvernig Dewey-kerfinu er beitt á einstökum söfnum svo og sögu flokkunar hér landi. Brautryðjendastarf Jóns Ólafssonar við innleiðingu og útbreiðslu Dewey-kerfisins hér á landi er ótvírætt. Það væri einnig verðugt verkefni að skoða betur starf hans að bókasafnsmálum en frekari skoðun efnisins verður að bíða betri tíma

eftir 11. styttri útgáfu Dewey Decimal Classification. Reykjavík: Samstarfsnefnd um upplýsingamál. Dewey, M. (1997). Abridged Dewey Decimal Classification and Relative Index. (Ed. 13). Ed. by Joan S. Mitchell & Julianne Beall. Albany: Forest Press. Dewey, M. (2002). Flokkunarkerfi Deweys ásamt afstæðum efnislykli. Stytt íslensk útgáfa. Ritstjóri Guðrún Karlsdóttir. Reykjavík: Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Dewey, M. (2003). Dewey Decimal Classification and Relative Index. (Ed. 22). Ed. by Joan S. Mitchell et al. Dublin, Ohio: OCLC. Dewey, M. (2004). Abridged Dewey Decimal Classification and Relative Index. (Ed. 14). Ed. by Joan S. Mitchell et al. Albany: Forest Press European DDC Users Group (EDUG). Sótt 9. janúar 2010 af www.slainte.org. uk/edug. Friðrik G. Olgeirsson. (2004). Á leið til upplýsingar. Saga Bókavarðafélags Íslands, aðildarfélaga þess og Félags bókasafnsfræðinga. Reykjavík: Upplýsing. Gils Guðmundsson. (1987). Ævintýramaður: Jón Ólafsson ritstjóri. Reykjavík: Vaka-Helgafell. Guðmundur G. Hagalín. (1955). Leiðbeiningar um flokkun og skráningu bóka.

Abstract

Reykjavík: Fræðslumálaskrifstofan. Guðmundur G. Hagalín. (1961). Um almenningsbókasöfn. Fræðsla og bendingar um skipan þeirra og rekstur. Reykjavík:

On the Dewey Decimal Classification System (DDC) and its usage in Iceland The article discusses subject or library classification, gives a short outline of the Dewey Decimal Classification System (DDC), some background information on the library world in Iceland and a short overview of the recent status of the library and information services in the country as well. Describes the introduction of the DDC system in Icelandic libraries in the year 1900 by Mr. Jón Ólafsson, it´s promulgation and usage. Reports on the different translations of the DDC into Icelandic. Traces the use of the DDC versions in different Icelandic libraries, e.g. for subject analysis and for shelving as well. Discusses the use of the Danish Dewey in the Reykjavík City Library, the DDC options used in Iceland to give local emphasis and a shorter number to Icelandic language and literature and the expansion of Table 2 for Iceland and further specific Icelandic traditions in classification. Concludes by talking about future vision of the use of the DDC in Iceland.

Fræðslumálaskrifstofan. Guðrún Karlsdóttir. (1997). Flokkun í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Bókasafnið, 21, bls. 58-61. Handbók skrásetjara Gegnis. (2009, 29. desember). Sótt 31. janúar af http:// hask.bok.hi.is/. Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir. (1997). Upphaf og þróun lestrarfélaga. Í Guðrún Pálsdóttir & Sigrún Klara Hannesdóttir (ritstjórar), Sál aldanna. Íslensk bókasöfn í fortíð og nútíð, bls. 25-35. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan. Íslensk útgáfuskrá. (2007-). Reykjavík: Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. [Rafræn útgáfa: www.utgafuskra.is.] Jón Jacobson. (1919-1920). Landsbókasafn Íslands 1818-1918. Minningarrit. Reykjavík: Landsbókasafn Íslands. Jón Ólafsson. (1899, 12. desember). Hagnýting bókasafna. Ísafold, (77), bls. 307. Jón Ólafsson. (1902). Smábókasöfn – ýmislegt um fyrirkomulag þeirra, einkum röðun og skrásetning. Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 23, bls. 84-110. Lög um almenningsbókasöfn nr. 42/1955.

Heimildir Auður Gestsdóttir. (1997). 21. útg. Dewey-kerfisins: Dewey for Windows. Bókasafnið, 21, bls. 63-67. Ágústa Pálsdóttir. ( 2009). Framhaldsnám á meistarastigi í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Bókasafnið, 33, bls. 4-6. Björn Sigfússon. (1956). Flokkun safnsbóka. Menntamál, tímarit um uppeldis- og skólamál, 29, bls. 137-142. Björn Sigfússon & Ólafur F. Hjartar. (1952). Bókasafnsrit 1. Myndunar- og skráningarstörf. Afgreiðsla. Bókaval. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið. Chan, L. M. & Hodges, T. L. (2007). Cataloging and classification. An Introduction. Lanham: Scarecrow Press. Dewey, M. (1970). Flokkunarkerfi fyrir íslenzk bókasöfn. Reykjavík: Bókafulltrúi ríkisins. Dewey, M. (1987). Flokkunarkerfi. Þýtt og staðfært fyrir íslensk bókasöfn

30

Lög um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn nr. 71/1994. Lög um lestrarfélög og kennslukvikmyndir nr. 42/1955. Lög um skylduskil nr. 23/1886. Margrét Björnsdóttir. (1997). Skólasafnamiðstöð Reykjavíkur. Í Guðrún Pálsdóttir & Sigrún Klara Hannesdóttir (ritstjórar), Sál aldanna. Íslensk bókasöfn í fortíð og nútíð, bls. 435-448. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan. Mitchell, J. S., Rype, I., Svanberg, M. (2009, August). Mixed translations of the DDC: Design usability, and implications for knowledge organization in multilingual environments. Looking at the past and preparing for the future. Paper presented at the IFLA satellite preconference. Florence. Sótt 6. september 2009 www.ifla2009satelliteflorence.it/meeting2/program/ assets/MitchellRypeSvanberg.pdf.


bókasafnið Ólafur F. Hjartar. (1970). Um flokkun bóka. Árbók Landsbókasafns Íslands, 27,

34. árg. 2010

Þórdís T. Þórarinsdóttir. (1992b). Efnisgreining gagna og heimildaleitir í tölvuumhverfi. Bókasafnið, 16, bls. 13-16.

bls. 148-156. Regína Eiríksdóttir. (1997). Þjónustumiðstöð fyrir íslensk bókasöfn. Í Guðrún

Þórdís T. Þórarinsdóttir. (1997). Bókasöfn í framhaldsskólum. Í Guðrún

Pálsdóttir & Sigrún Klara Hannesdóttir (ristjórar), Sál aldanna. Íslensk

Pálsdóttir & Sigrún Klara Hannesdóttir (ritstjórar), Sál aldanna. Íslensk

bókasöfn í fortíð og nútíð, bls. 427-431. Reykjavík: Félagsvísindastofnun

bókasöfn í fortíð og nútíð, bls. 343-365. Reykjavík: Félagsvísindastofnun

Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan.

Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan.

Reitz, Joan M. (2007). ODLIS - Online Dictionary for Library and Information Science. Westport: Libraries Unlimited. Sótt 23. júlí 2009, af http://lu.com/ odlis.

Þórdís T. Þórarinsdóttir og Margrét Loftsdóttir. (2001). Kerfisbundinn efnisorðalykill fyrir fyrir bókasöfn og upplýsingamiðstöðvar. Reykjavík: Höf. Þórdís T. Þórarinsdóttir. (2005a). Libraries go digital. A report from Iceland.

Sigrún Klara Hannesdóttir. (1997). Skólasöfn í grunnskólum. Í Guðrún Pálsdóttir & Sigrún Klara Hannesdóttir (ritstjórar), Sál aldanna. Íslensk bókasöfn í fortíð og nútíð, bls. 305-320. Reykjavík: Félagsvísindastofnun

Í Peter Axelsson and Hellen Niegaard (Eds.), Nordic libraries and their organisations in the 21st century, bls. 6-7. S.l.: Nordic Library Associations. Þórdís T. Þórarinsdóttir. (2005b). Upplýsing fimm ára – yfirlit yfir starfsemi félagsins. Bókasafnið, 29, bls. 58-65.

Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan. Steingrímur Jónsson. (1983). Yfirlit um þróun bókasafna á Íslandi. Saga, tímarit Sögufélags, 21, bls. 162-183.

Þórdís T. Þórarinsdóttir. (2006). Bókasafnstækni – Nýtt starfsnám á sviði bókasafns- og upplýsingafræða. Bókasafnið, 30, bls. 65-74.

Súsanna Bury. (1974). Liðflokkun. Reykjavík: Án útg. Súsanna Bury. (1975). Bliss og flokkunarkerfi hans. Í Afmælisrit Björns Sigfússonar, bls. 212-244. Reykjavík: Sögufélag. Þórdís T. Þórarinsdóttir. (1992a). Íslensk efnisorðskrá. Í Sigrún Magnúsdóttir (ritstjóri), Íslensk bókfræði í nútíð og framtíð (bls. 23-34). Akureyri:

Þórdís T. Þórarinsdóttir. (2009). On subject classification and the use of DDC in Iceland. Í Gunnar Þór Jóhannesson og Helga Björnsdóttir (ritstjórar), Rannsóknir í félagsvísindum X. Félags- og mannvísindadeild. Erindi flutt á ráðstefnu í október 2009, bls. 127-141. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Háskólinn á Akureyri.

Arngrímur Vídalín

Við Prinsessugötu Morgunninn hverfur bakvið hornið á Vonarstræti og verður að engu draumarnir forðum kannski hvarfla með minningunni aftur lítið eitt blandast regninu skapa heimsmynd úr tóminu hamingju innanúr myrkrinu og færa sól inná stofuborð þarsem allt var meira eða minna svona einhvernveginn rétt meðan það varði og hefja það upp í æðra veldi aftur dag einn kannski afhausum við skömmina gerum það allt aftur finnum útúr því og göngumst við þessu öllusaman svona rétt meðan við tórum meðan kaffibollinn endist og bragðið af vörunum með sínu skemmtilega kitlandi fororði um ævintýrið forboðna framundan en í millitíðinni sendu mér aftur draumana heim á Prinsessugötu þarsem þú getur vænst þess að ég verði fyrir samanbrotna bundna með slaufu og reikning með eindaga þann 30. mars

31


Vefir á vegum Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn (Lbs-Hbs) býður um þessar mundir upp á tólf vefi eða vefþjónustur þar sem umferð er mæld með samræmdri vefmælingu frá fyrirtækinu Modernus. Þetta eru vefir sem er haldið úti á vegum safnsins eða tengjast því beint. Sumir vefirnir eru samstarfsverkefni og er vefur Landsaðgangs, hvar.is, þá talinn með. Á bak við vefina liggja ólík gögn, skrár og gagnagrunnar með mismunandi virkni og nú stendur yfir heildarendurskoðun á vefjum safnsins. Viðmót þeirra flestra verður fært í sama vefumsjónarkerfið, CMS Made Simple, auk þess sem útlit og leiðakerfi verður samræmt. Mikilvægt er að fylgjast með notkun á þessu efni þar eð mikil vinna liggur á bak við það og notkun eykst sífellt, enda er þessi þjónusta í boði allan sólarhringinn allt árið um kring (24/7). Hér á eftir er gerð grein fyrir þremur ólíkum vefjum.

skemman.is Skemman er rafrænt gagnasafn nokkurra háskólabókasafna og er hýst í Lbs-Hbs. Skemman var upphaflega rafrænt gagnasafn Háskólans á Akureyri (HA) og Kennaraháskóla Íslands (KHÍ). Þar voru geymd lokaverkefni nemenda beggja skóla og einnig rannsóknarrit kennara í HA. Snemma árs 2008 sendi samstarfsnefnd Háskóla Íslands og Lbs-Hbs tillögu til háskólaráðs HÍ um rafræn skil og varðveislu lokaritgerða nemenda og á fundi 21. febrúar 2008 var tillagan samþykkt einróma. Í kjölfarið var ákveðið að ganga til samstarfs við HA og KHÍ og við sameiningu KHÍ og HÍ þann 1. júlí sama ár var ákveðið að safnið tæki við hýsingu og rekstri Skemmunnar af KHÍ sem hafði hýst hana áður. Á svipuðum tíma og HÍ samþykkti að taka þátt í Skemmunni var samþykkt að Háskólinn í Bifröst, Listaháskólinn og Landbúnaðarháskóli Íslands (LBHÍ) fengju aðild að verkefninu. Allir fyrrnefndir háskólar eru nú þátttakendur. Háskólinn í Reykjavík hefur sótt um inngöngu og mun væntanlega gerast þátttakandi haustið 2010. Ný verkefnisstjórn var skipuð fyrir Skemmuna 2008 og í henni sitja fulltrúar frá öllum þátttökusöfnum.

32

Ákveðið var að hefja skil nemenda við Háskóla Íslands frá og með sameiningu HÍ og KHÍ. Skil allra sviða skólans annarra en menntavísindasviðs (áður KHÍ) í Skemmuna hófust því með októberútskrift 2008. Vegna tafa við uppsetningu var Skemman ekki tilbúin fyrr en á vormánuðum 2009 en reynt var að safna ritgerðum á annan hátt, til dæmis með því að fá ritgerðina senda í tölvupósti eða þá að nemendur skiluðu ritgerðinni á geisladiski. Skólaárið 2008-2009 voru farnar ýmsar leiðir til að innheimta stafrænu eintökin en frá og með vorútskriftinni gátu nemendur sjálfir skilað ritgerðum sínum í Skemmuna. Nú eru rúmlega 5000 höfundar að efni í Skemmunni, þar af hafa um 3000 nemendur Háskóla Íslands sent inn sína ritgerð. Þar kennir ýmissa grasa. Til dæmis er hægt að finna ritgerðir um bankahrunið, kreppuna, Facebook og blogg auk hefðbundnari ritgerða í lögfræði, bókmenntum og efnafræði, svo dæmi séu nefnd. Hægt er að fletta upp eftir höfundum, titlum eða efnisorðum en einnig er hægt að leita innan ákveðinna sviða eða deilda. Í Gegni er að finna tengingu við ritgerðir sem eru í opnum aðgangi. Safnið hefur lagt áherslu á að sem flestar ritgerðir séu í opnum aðgangi en safnið styður hreyfingu um opið aðgengi að rannsóknarupplýsingum (Open Access – OA) og vinnur markvisst að því að vísindalegt efni verði sem víðast aðgengilegt, ekki síst niðurstöður rannsókna sem unnar eru fyrir opinbert fé. Það hefur samt komið á óvart að hluti nemenda kýs að loka aðgangi að ritgerðum sínum en til þessa hafa þeir haft val um það. Skemman notar hugbúnaðinn DSpace sem er opinn hugbúnaður og verður ný útgáfa opnuð haustið 2010.

Áslaug Agnarsdóttir


bókasafnið

34. árg. 2010

vefsafn.is

timarit.is

Íslenska vefsafnið, vefsafn.is, inniheldur vefsíður og önnur gögn, sem birt eru eða gerð aðgengileg almenningi á hinum íslenska hluta veraldarvefsins, þ.e. þjóðarléninu .is, svo og efni sem birt er á öðrum lénum á íslensku eða af íslenskum aðilum.

Á vefnum timarit.is er aðgengi að stafrænni endurgerð prentaðra blaða og tímarita frá Íslandi, Færeyjum, Grænlandi, Kanada og Danmörku. Nú eru um 10 ár síðan stafræn myndun blaða og tímarita hófst í Lbs-Hbs í samvinnu við Landsbókasöfnin í Færeyjum og Grænlandi. Örn Hrafnkelsson sem var verkefnastjóri gerði ítarlega grein fyrir verkefninu í grein í Bókasafninu árið 2003 og verður því ekki fjallað frekar um upphaf og sögu þess hér.

Lbs-Hbs hóf reglulega söfnun og varðveislu þessa efnis haustið 2004 en það á sér langa forsögu því árið 1997 ákváðu þjóðbókasöfn Norðurlanda að vinna saman að varðveislu Veraldarvefsins til framtíðar. Það leiddi meðal annars til þess að þegar lög um skylduskil til safna (nr. 20/2002) voru endurskoðuð, var þess gætt að skilgreina hvernig háttað skuli söfnun og varðveislu íslenskra vefsíðna. Í 8. gr. laganna er kveðið á um að sá sem birtir verk á rafrænu formi á almennu tölvuneti skuli veita móttökusafni aðgang að verkinu. Í 6. gr. reglugerðar um skylduskil til safna nr. 982/2003 er svo tilgreint að Lbs-Hbs sé móttökusafn þessa efnis og skuli jafnframt varðveita það. Árið 2003 gerðist safnið stofnaðili að alþjóðlegu samstarfi IIPC – International Internet Preservation Consortium um vefsöfnun. Þar er unnið að skilgreiningu á stöðlum um vefsöfnun, þróun vefsafnara, gerð efnisyfirlits yfir vefsöfn og gerð aðgangsforrita fyrir vefsöfn. Safnið hefur frá upphafi átt sæti í stjórn samtakanna og lagt sitt af mörkum með formennsku í vinnuhópum, hugmyndavinnu og vinnuframlagi við þróun hugbúnaðar til vefsöfnunar sem kallast Heritrix. Árlega eru gerðar þrjár heildarsafnanir af þjóðarléninu .is á vegum Lbs-Hbs. Þessu má líkja við að tekin sé mynd af íslenska vefnum eins og hann er hverju sinni. Til að ná betur til þess efnis sem breytist mjög ört er jafnhliða heildarsöfnunum stöðugt safnað sérstökum völdum vefsíðum sem geyma efni sem telst áhugavert í þjóðfélagslegri umræðu. Þegar sérstakir merkisviðburðir eiga sér stað í þjóðfélaginu, t.d. kosningar á landsvísu er framkvæmd samfelld söfnun á lénum sem varða slíka viðburði. Til viðbótar íslenska vefnum er einnig safnað efni sem varðar Ísland eða Íslendinga og er til á öðrum lénum en .is. Stöðugt er unnið að því að finna þessar síður og þær sem taldar eru skipta máli eru afritaðar og settar í vefsafnið. Vefsafnið var opnað 29. september 2009. Nú eru í safninu um 16 terabyte af efni og um einn milljarður URL-a eða vefslóða. Aðgangur er opinn öllum en þess er gætt að það komi ekki niður á eða skaði hagsmuni þeirra sem eiga efni á raunvefnum. Nú er hægt að fletta upp efni eftir vefslóðum en unnið er að því að gera safnið leitarbært í textaleit, að minnsta kosti að hluta. Efnið er vistað í tveimur eintökum á seguldiskum og er annað eintakið vistað hjá Skýrr. Einnig eru sett tvö afrit á segulbönd.

Blöðin og tímaritin hafa að geyma, auk almenns fréttaefnis og auglýsinga, mikið efni á sviði bókmennta, sagnfræði, ættfræði, þjóðlífs, menningar, atvinnuvega og viðskipta. Notendur geta leitað að efni á ýmsan hátt, svo sem eftir löndum og titlum, eða að völdu orði í öllum texta ritanna. Þeir geta einnig blaðað í gegnum efnið og prentað út valdar blaðsíður. Jafnt og þétt bætast við safnið fleiri titlar frá öllum þátttökuþjóðunum. Upphaflega var ákveðið að setja inn öll íslensk tímarit fram til 1920, en það ártal var valið m.a. vegna höfundaréttarmála. Síðan var samið við Árvakur hf. um að mynda Morgunblaðið og 365 miðla ehf. um að mynda dagblöð í þeirra eigu og í framhaldi fékk safnið styrk frá Alþingi til að setja inn önnur íslensk dagblöð frá 20. öld. Þessum áföngum báðum er nú nær lokið og í bígerð er að taka fyrir tímarit gefin út 1920-1930. Þá hafa verið gerðir samningar við einstaka útgefendur eða hagsmunaaðila sem vilja að þeirra efni verði myndað og gert aðgengilegt á vefnum. Vefurinn hefur gengið í gegnum nokkra þróun í áranna rás og nýjustu gerð hans var hleypt af stokkunum síðla hausts 2008. Unnið er að ljóslestri á texta ritanna eða OCR lestri (Optical Character Reading) en þessi vinnsla hefur gert innihald safnsins aðgengilegra þar sem nú er hægt að leita að efni eða einstökum orðum í meginhluta textans. Þá er verið að færa efnið í pdf-snið til að auðvelda notkun. Síðasta nýjungin er leit að einstökum greinum eftir titli, höfundi og efnisorði. Notaðar eru greinifærslur úr Gegni, en enn sem komið er aðeins lítill hluti ritanna á vefnum greiniskráður. Jafnframt eru tengingar úr Gegni í timarit.is. Notkun á vefnum er geysimikil og er hann vinsælasti vefur safnsins eins og sjá má á mynd 1. Það sýnir að hann er auðveldur í notkun og hefur í raun gjörbreytt aðstæðum manna í mörgum fræðigreinum, aðgengi þeirra að heimildum hefur verið stórbætt. Mestur áhugi er á 20. aldar dagblöðunum enda er það stærsti hluti efnisins. Því ætti það að vera fagnaðarefni að myndun blaða frá þeirri öld er að ljúka og brátt verður hægt að leita í texta þeirra allra. Í árslok 2009 voru um þrjár og hálf milljón blaðsíðna komin inn á vefinn og heildarfjöldi ljóslesinna blaðsíðna var um þrjár milljónir. Helstu tilvísanir á vefinn eru frá Wikipediu og mbl.is.

Þorsteinn Hallgrímsson Kristín Bragadóttir

33


bókasafnið

34. árg. 2010 Mynd 1. Hlutfallsleg skipting notenda milli vefja Lbs-Hbs árið 2009. Timarit.is er langvinsælasti vefur safnsins og aukast vinsældir hans stöðugt. Mynd 1 sýnir hlutfall hans sem er næstum þriðjungur allrar notkunar á vefjum safnsins. Ekki eru þó marktækar tölur fyrir skemman.is og vefsafn.is því vefmæling á þeim hófst í mars og júlí 2009. Í þessu yfirliti er ekki notkun á gagnasöfnum og tímaritum í Landsaðgangi, einungis hvar. is, en sóttar greinar í fullri lengd verða hátt í milljón á árinu 2009. Til viðbótar má nefna Tímaritaskrá A-Ö sem er hýst í kerfinu TDNet en tölur um notkun eru dregnar úr kerfinu sjálfu. Árið 2009 var skráin sótt af 10.184 IP-tölum og flettingar voru 46.489.

Mynd 5. Notkun á timarit.is 2004 til 2009. Umferð meira en tvöfaldaðist milli áranna 2008 og 2009.

Mynd 2. Vikulegir notendur 2009. Notkun á timarit.is er oftast meiri en á sjálfum aðalvef safnsins. Í mars 2009 var fyrsta sinn sem fleiri notuðu timarit.is en aðalvefinn og notkunin hefur haldið áfram að aukast síðan.

Mynd 3. Síður á mánuði 2009.

Mynd 6. Flettingar í hverju innliti á timarit.is frá 2004 til 2009. Þegar notandinn er kominn inn á vefinn er freistandi að nota hann mikið og lengi. Timarit.is býður upp á flettingar í umfangsmiklum ritum. Vefurinn hefur verið í stöðugri þróun og orðið auðveldari í notkun og áberandi er hversu flettingum fjölgaði með nýju útgáfunni haustið 2008. Viðbrögð notenda láta ekki á sér standa og vefurinn er marglofaður. Fólki kemur á óvart hve auðveldur hann er í notkun og hve mikinn fróðleik þar er að finna. Öll gröfin eru unnin af Áka Karlssyni vefstjóra Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Mynd 4. Samanburður á fjölda notenda milli áranna 2008 og 2009.

Abstract Web services at the National and University Library of Iceland The National and University Library of Iceland now offers 12 different web services, some of them collaborative projects. Different kind of data and databases lie behind the web services and an extensive revision is now taking place. The web

34

design and user interface will be coordinated. The usage of the web services is monitored through web measurements and has been constantly growing over the years. Three different webs are described, timarit.is (periodicals and newspapers from Iceland, Faroe Islands and Greenland), skemman.is (a repository for university theses and research output) and vefsafn.is (the Icelandic web archive).


bókasafnið

34. árg. 2010

Landsfundur Upplýsingar 2010 - Upplýsingalæsi á 21. öldinni Landsfundur Upplýsingar verður haldinn dagana 17. – 18. september 2010. Fundurinn verður haldinn á Vesturlandi að þessu sinni, í Hótel Stykkishólmi. Þema fundarins er upplýsingalæsi/ leikni og mikilvægi þess í öllum safnategundum. Fyrirlesarar eru Guðrún Tryggvadóttir frá Háskólanum í Reykjavík, Kristín Björgvinsdóttir frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla og Birgir Björnsson frá Landsaðgangi bókasafna, hvar.is. Goethe Institut styrkir fundinn með komu Fr. Dr. Claudiu Lux Statsbibliothek Berlin, fráfarandi forseta IFLA, en hún mun flytja erindi á fundinum. Þá flytur Kristín R. Vilhjálmsdóttir frá Borgarbókasafni erindi um hlutverk bókasafna í þjóðfélaginu, ný verkefni á bókasöfnum, fjölmenningu og markaðssetningu bókasafna og sendir okkur heim með fullt af hugmyndum og full eldmóðs! Veislustjóri hátíðarkvöldverðar er Sigríður Margrét Guðmundsdóttir frá Landnámssetrinu í Borgarnesi. Að sjálfsögðu verður tími fyrir faghópa að funda og fólki gefst einnig tækifæri til að skoða Eldfjallasafnið og Vatnasafnið, bjórverksmiðjuna og annað skemmtilegt sem Stykkishólmur hefur upp á að bjóða. Í lokin gefst fundarmönnum kostur á að fara í siglingu með Sæferðum um Breiðafjörð. Landsfundarnefnd hvetur félagsmenn í Upplýsingu að fjölmenna á fundinn en þess má geta að Upplýsing er 10 ára á þessu ári. Landsfundarnefnd 2010 skipa : Halldóra Jónsdóttir, formaður, Nanna Þóra Áskelsdóttir, báðar frá Bókasafni Akraness, Hafdís Dögg Hafsteinsdóttir, FVA, Andrea Jóhannsdóttir, Háskólanum á Bifröst, Steinunn Aradóttir, LMÍ, Ragnheiður Óladóttir, Amtsbókasafninu Stykkishólmi og Sunna Njálsdóttir, Bókasafni Grundarfjarðar.

35


Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn 1. desember 1994-2009 – 15 ára afmæli

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir

Á þeim fimmtán árum sem liðin eru síðan Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafn voru sameinuð við flutning í Þjóðarbókhlöðuna hefur sameinað safn eflst og fest sig í sessi. Það umhverfi sem safnið starfar í hefur breyst verulega á þessum tíma og tæknibreytingar í heiminum hafa verið gífurlegar. Í takt við þetta hefur rafræn þjónusta og stafræn miðlun orðið sífellt umfangsmeiri í starfsemi safnsins. Segja má að annað þjóðbókasafn sé að verða til í netheimum. Safnið starfar eftir lögum nr. 71/1994 með minniháttar breytingum sem orðið hafa vegna breytinga á öðrum lagabálkum, svo sem lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Safninu var sett reglugerð nr. 706/1998 sem enn er að mestu í gildi en þó breytt með reglugerð nr. 664/2003. Meginbreytingin fólst í að deildaskipting var lögð niður en safninu skipt í þrjú svið og að starfseiningar skuli að öðru leyti skilgreindar af landsbókaverði að fengnu samþykki stjórnar safnsins. Endurskoðuð lög um skylduskil til safna nr. 20/2002 tóku gildi 2003 og þau taka m.a. til söfnunar og varðveislu stafræns efnis. Í reglugerð um skylduskil til safna nr. 982/2003 er kveðið á um framkvæmd skylduskilanna en varðveislusöfn eru Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Amtsbókasafnið á Akureyri og Kvikmyndasafn Íslands. Lögin um safnið bera þess merki að verið var að sameina tvær stofnanir á þeim tíma sem þau voru sett og eru nokkurs konar stefnumótun til næstu ára. Gerðar hafa verið a.m.k. tvær tilraunir til að endurskoða lögin og haustið 2008 var lagt fram frumvarp á Alþingi, en það dagaði uppi í umróti bankakreppunnar og breyttu pólitísku landslagi. Safnið

36

hefur hins vegar mótað sér stefnu og sett sér markmið með reglulegu millibili, árið 1999 undir heitinu Þekking, vísindi og menning við aldaskil, árið 2003 undir heitinu Þekkingarveita á norðurslóð og 2009 undir yfirskriftinni Þekkingarveita í allra þágu (sjá Bókasafnið 33. árg. 2009, bls. 34-37). Fyrsta skipurit safnsins var gert við sameininguna og var safninu þá skipt í sex deildir auk skrifstofu landsbókavarðar og kerfisþjónustu. Það var endurskoðað lítillega 1999 þar sem helsta breytingin var á sviði stoðþjónustu. Árið 2003 var ráðist í skipulagsbreytingar og nýtt skipurit var kynnt. Safninu var þá skipt í þrjú svið eins og áður segir og heyra þau beint undir landsbókavörð. Verkefni voru færð til innan safnsins og innri verkefnum og stoðþjónustu safnað undir Rekstrarsvið, en fagleg verkefni undir hin tvö sviðin, Varðveislusvið, sem ber ábyrgð á söfnun og varðveislu íslensks safnkosts, og Þjónustusvið, sem sinnir almennri notendaþjónustu með áherslu á háskólasamfélagið. Sviðsstjórar, aðstoðarlandsbókavörður og landsbókavörður mynda framkvæmdaráð sem hittist að jafnaði vikulega. Þar er upplýsingum miðlað, verkefni samhæfð og fjallað um rekstur safnsins. Þrír landsbókaverðir hafa starfað á þessu tímabili, Einar Sigurðsson 1994-2002, Sigrún Klara Hannesdóttir 20022007 og Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir frá 2007. Stjórnir safnsins eru skipaðar til fjögurra ára. Fyrsti stjórnarformaður var Jóhannes Nordal sem sat tvö tímabil, til 2002, en þá tók við Hörður Sigurgestsson sem er sitjandi stjórnarformaður. Í upphafi voru starfsmenn í rúmlega 85 stöðugildum og fjölgaði þeim nokkuð á næstu árum og urðu flest árið 1998 eða 99,31. Síðan hefur þeim fækkað og mest árin 2004 og 2005 í kjölfar skipulagsbreytinganna og vegna þess að starfseiningar voru lagðar niður. Fækkun stöðugilda hefur einnig verið möguleg vegna aukinnar nýtingar upplýsingatækni og breytts verklags, en um áramótin 2009-2010 voru 79,5 stöðugildi í safninu. Þess má til gamans geta að á undirbúningstíma safnsins gerðu áætlanir ráð fyrir 115 manna starfsliði miðað við fullan rekstur. Meginhluti safnsins og starfsemi þess er í Þjóðarbókhlöð­ unni sem var opnuð 1994. Bókhlaðan er 13.000 m² en safnið er einnig með 450 m² geymslurými í Mjódd og 800 m² í Reykholti


bókasafnið

34. árg. 2010

Hundrað ára afmælis bókbandsstofu var minnst með sýningu 2008. Þar var sýnd forláta bókaryksuga sem keypt var á fyrstu árum safnsins í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Á myndinni eru Eiríkur Þorláksson, Einar Sigurðsson, Jökull Sævarsson, Bragi Þ. Ólafsson og Elín Pálmadóttir blaðamaður.

í Borgarfirði fyrir varaeintakasafn. Þá eru afrit af stafrænu efni í hýsingu hjá fyrirtækinu Skýrr, um 22 terabyte. Nokkur útibú eru rekin í húsnæði Háskóla Íslands, en þeim fer fækkandi. Þau voru 15 árið 1994 en eru nú 6 talsins. Þá er Kvennasögusafn rekið sem sérstök eining innan safnsins frá árinu 1996 og einnig samstarfsverkefnið Miðstöð munnlegrar sögu frá árinu 2007. Starfsfólk safnsins tekur virkan þátt í þróun bókasafns­ kerfisins Gegnis og leitarsíðunnar gegnir.is. Gegnir er sam­ starfs­verkefni íslenskra bókasafna og er rekinn af Landskerfi bókasafna h.f. sem var stofnað 2001. Nú eru nær 300 bókasöfn sem nota Gegni. Annað samstarfsverkefni íslenskra bókasafna er Landsaðgangur að rafrænum tímaritum og gagnasöfnum og leitarsíðan hvar.is en safnið hefur rekið Landsaðganginn frá árinu 2003 samkvæmt þjónustusamningi við menntamálaráðuneytið. Í Landsaðgangi er aðgangur að um 14.000 erlendum tímaritum og 12 gagnasöfnum og safnið heldur jafnframt utan um aðgang að 1200 rafrænum tímaritum og 23 gagnasöfnum fyrir Háskóla Íslands. Sífellt stærri hluti safnefnisins er nú aðgengilegur á vef, auk þess sem upplýsingar um safnið og ýmiskonar þjónusta færist þangað í auknum mæli. Stafræn endurgerð íslensks safnefnis og miðlun þess á vef hófst í safninu fljótlega eftir sameiningu. Fyrsta verkefnið var kortavefurinn sem var opnaður 1997. Fyrir utan aðalvef safnsins, landsbokasafn.is, er nú haldið úti tólf öðrum vefjum eða upplýsingaveitum.

Starfsmannafélagið Hlöðver stóð fyrir grillveislu í grasagarði Bókhlöðunnar í ágúst 2009. Á myndinni eru m.a. Sólveig Ögmundsdóttir, Kristín Bragadóttir, Þórný Hlynsdóttir, Fanney Sigurgeirsdóttir og Ívar Jónsson.

Flest þessi verkefni hafa verið unnin sem samstarfsverkefni, bæði á innlendum og erlendum vettvangi og má þar nefna timarit.is og skemman.is. Unnið er að endurskoðun allra vefja safnsins og að færa þá í samræmt útlit og viðmót. Jafnframt eru í undirbúningi fleiri vefþjónustur og sú næsta í röðinni verður handrit.is í samvinnu við Árnastofnanir í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Nú veitir safnið aðgang að meira en þrem og hálfri milljón síðna af íslensku efni í stafrænni endurgerð í

37


bókasafnið

34. árg. 2010

gegnum vefina. Safnið setti sér stefnu um stafræna endurgerð árið 2006 og hefur hún verið endurskoðuð reglulega. Söfnun og varðveisla stafræns efnis er í verkahring safnsins og fyrsta stóra verkefnið á því sviði var söfnun íslenskra vefsíðna. Safnið hefur tekið þátt í erlendu samstarfi um söfnun vefsíðna og þróun vefsafna með Norðurlandaþjóðunum og undir formerkjum IIPC (International Internet Preservation Consortium). Íslenska vefnum, það er þjóðarléninu.is, og erlendum síðum sem fjalla um Ísland og íslensk málefni hefur verið safnað síðan 2003. Vefsafn.is var opnað árið 2009 og í því eru nú um einn milljarður vefslóða. Þá er verið að stíga fyrstu skref við móttöku og söfnun á öðru efni sem verður til stafrænt, svo sem bókum, tímaritum, tónlist og fleiru. Einnig er fylgst með þróun á sviði langtímavarðveislu þessa efnis. Nú er stafrænt efni safnsins um 22 terabyte eða tvöfalt það vegna afritatöku. Stefnt er að því að stafrænu gögnin verði aðgengileg víðar en á vefjum safnsins. Þau eru gerð leitarbær og lýsigögn fyrir þau unnin þannig að unnt verður að birta þau í öðrum upplýsingaveitum. Gegnir, kortavefurinn, sagnanetið og timarit.is eru nú aðgengileg gegnum TEL (The European Library) og stafrænu leitargáttina Europeana. Þá tekur safnið þátt í gerð samþættrar leitarvélar fyrir Ísland með Landskerfi bókasafna, en stefnt er að opnun hennar árið 2011. Þar verður veittur aðgangur að stafrænu íslensku efni frá bókasöfnum, skjalasöfnum og minjasöfnum auk annarra þeirra aðila sem vilja veita aðgang að stafrænu efni sínu. Þá er safnið að feta sig áfram í nýju vefumhverfi, svo sem á samskiptasíðunum MySpace og Facebook en þar er hægt að gerast vinur safnsins. Facebook-síðan er hugsuð fyrir kynningar á starfsemi safnsins almennt og viðburðum sem þar eru. MySpace-síðan er leið tón- og myndsafns til að nálgast tónlistarfólk sem kemur tónlist sinni á framfæri á vefnum. Starfsemi Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns byggist að verulegu leyti á vinnu starfsmanna og hvernig þeim tekst að nýta það fjármagn sem safninu er ætlað hverju sinni. Vel hefur tekist til og skal núverandi og fyrrverandi starfsmönnum þakkað fyrir framlag þeirra til safnsins þau ár sem það hefur starfað.

Meðal verkefna sem unnið hefur verið að s.l. 15 ár eru: 1994-95 1996 1996 1996 1997 1997 1998 1998 1999 1999 2000 2001 2002 2002 2002 2003 2003 2004 2004 2005 2005 2006 2007 2007 2008 2009 2009

Þjóðarátak stúdenta – Fyllum bókhlöðuna Fyrsti vefur safnsins opnaður Útgáfa Passíusálmanna Kvennasögusafn opnað Kortavefurinn opnaður Samstarfssamningur við Háskóla Íslands Aðgangur keyptur að fyrsta gagnasafninu með tímaritum – ABI/Inform Stöður starfsmannastjóra og forvarðar verða til Endurskoðað skipurit Fyrsti árangurssamningur við menntamálaráðuneytið undirritaður Bókminjasafn í Þjóðmenningarhúsi opnað Sagnanetið opnað Þjónustusamningur um rekstur Landsaðgangs undirritaður Innri vefur – Inngangur opnaður Útgáfa flokkunarkerfis Deweys – stytt íslensk útgáfa Nýr Gegnir, bókasafnskerfi fyrir allt landið opnað Stafræn endurgerð íslenskra dagblaða hefst (lýkur 2010) Útgáfa Starfsmannahandbókar Útgáfa Galdrakversins Vefsöfnun hefst Forskráning íslenskra bóka í Gegni hefst Skrá yfir doktorsritgerðir opnuð Íslensk útgáfuskrá opnuð Skjalastjórnarkerfi tekið í notkun Ný myndvinnslulína fyrir stafrænt efni tekin í notkun Vefsafn.is opnað Skemman.is, safn lokaritgerða háskóla opnað

Abstract

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn

Handritadeild

Tón- og myndsafn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns

38

The National and University Library of Iceland. December 1st 1994-2009 – 15th Anniversary The National and University Library of Iceland celebrated its 15th anniversary in 2009. The Library was established in 1994 with the union of the National Library of Iceland (founded in 1818) and of the Library of the University of Iceland (founded 1940). The National Librarian gives an overview of the National Library´s statutes, strategies, both older ones and a new one from 2009 under the banner Access to Knowledge for Everyone, organisational chart, staff and administration, housing and special units. The role of the Library in the Consortium of Icelandic Libraries, accessible at gegnir.is and the National Licences at hvar.is. are discussed as well as projects and collaboration in the field of harvesting, dissemination, and preservation of digital material.


Hjartað í Gegni Nokkrar tölur úr bókfræðigrunni

Sigrún Hauksdóttir og Hildur Gunnlaugsdóttir

Inngangur Markmið þessarar greinar er að lýsa bókfræðigrunni Gegnis með tölulegum upplýsingum. Leitað er svara við spurningum á borð við hversu margir titlar eru í bókfræðigrunni Gegnis, fyrir hvern gögnin í kerfinu eru og á hvaða tungumálum þau eru. Bókfræðigrunnurinn er skoðaður sem heild og einnig árlegar viðbætur. Allt síðan byrjað var að nota bókasafnskerfið Aleph 500 eða Gegni árið 2003 hafa aðildarsöfn Gegnis óskað eftir upplýsingum um árlegar viðbætur í bókfræðigrunninn, ásamt upplýsingum um framlag einstakra safna. Jafnframt hafa einstök söfn óskað eftir upplýsingum um framlag einstakra starfsmanna til bókfræðigrunnsins. Ástæða þess að nauðsynlegt þykir að afla nákvæmra upplýsinga um árlegar viðbætur í bókfræðigrunn Gegnis er að bókfræðiskráning er tímafrek, krefst mikillar nákvæmni og sérhæfðs mannafla. Forsenda þeirrar greiningar á tölulegum upplýsingum sem hér birtist er verkefni sem hleypt var af stokkunum veturinn 2008 - 2009 og snýst um að afla tölulegra upplýsinga fyrir bókfræðigrunn Gegnis. Verkefnið er unnið samkvæmt verkáætlun um gæðamál Gegnis sem byggist á samstarfi Landskerfis bókasafna, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Borgarbókasafns Reykjavíkur. Verkefninu er skipt í tvo áfanga. Fyrri áfanginn lýtur að því að ná heildarupplýsingum um skráningu í bókfræðigrunninn

án tillits til framlags einstakra aðildarsafna. Upplýsingarnar taka til skráðra bókfræðifærslna, þ.e. árlegra viðbóta frá og með árinu 2007. Einnig kemur fram heildarfjöldi færslna í árslok 2006, þ.e. skráðar færslur frá stofnun Gegnis og út árið 2006 án þess að árlegar viðbætur innan þeirra tímamarka séu greindar. Vegna yfirfærslu gagna í Gegni úr eldri kerfum og sameiningar á færslum eftir yfirfærslu eru upplýsingar um árlega bókfræðiskráningu í Gegni ekki marktækar fram til ársins 2007. Fyrri áfanga tölfræðiverkefnisins lauk í júlí 2009 með birtingu greinargerðarinnar, „Tölur úr bókfræðigrunni Gegnis : greinargerð um söfnun og úrvinnslu tölulegra upplýsinga“ eftir Hildi Gunnlaugsdóttur og Sigrúnu Hauksdóttur. Sambærileg greinargerð hefur verið birt fyrir árið 2010 þar sem afrakstur ársins 2009 er tekinn með í reikninginn. Þessar greinargerðir er að finna á vef Landskerfis bókasafna, www.landskerfi.is. Síðari áfangi tölfræðiverkefnisins verður unninn árið 2010 en hann lýtur að því að greina framlag einstakra safna til bókfræðigrunnsins.

Bókfræðifærslur í Gegni E=ir skráningar?ma Skráð 2007

Skráð 2008

Skráð 2009

Skráð fyrir árslok 2006

Mynd 1: Bókfræðifærslur í Gegni eftir skráningartíma. Í árslok 2009 voru skráðir í Gegni samtals 947.694 titlar. Síðustu þrjú árin var árleg viðbót nálægt fimm prósent. Þótt árlegt hlutfall sé svipað í stórum potti er munurinn umtalsverður milli ára. Árið 2007 bættust við 47.784 titlar, árið 2008 var viðbótin 50.667 titlar og árið 2009 skilaði 41.266 titlum.

Bókfræðigrunnur Gegnis Bókfræðigrunnurinn er hjartað í Gegni. Hann hýsir upplýsingar um alla titla sem til eru í kerfinu. Í bókfræðigrunninn eru skráðar upplýsingar um bækur, tímarit, myndefni, tónlist, kort, handrit o.s.frv. Hver titill er aðeins skráður einu sinni og

39


bókasafnið

34. árg. 2010

tengja söfn eintök sín við þá bókfræðifærslu. Að meðaltali eru fimm eintök tengd hverri bókfræðifærslu. Í árslok 2009 voru 947.864 virkar bókfræðifærslur í kerfinu og 4.646.587 eintök. Bókfræðigrunnurinn er sameign og á sameiginlegri ábyrgð allra aðildarsafna Gegnis. Samræmd vinnubrögð og reglur eiga að tryggja gæði gagnanna. Skráningarráð Gegnis hefur yfirumsjón með bókfræðigrunninum. Í samningum Landskerfis bókasafna við hvert aðildarsafn segir: „Skráningarráðið skal setja reglur um bókfræðilega skráningu og ber verkkaupa [aðildarsöfnum] að hlíta þeim reglum, enda sé markmið þeirra að auka gæði bókfræðilegra gagna í kerfinu.“ Að hverri bókfræðifærslu koma oft á tíðum mörg söfn og margir skrásetjarar og ógerlegt er að eigna einstökum söfnum tilteknar færslur. Heimild til að skrá í kerfið er bundin einstaklingi, ekki safni. Forsenda þess að einstaklingur fái skráningarheimild er að vera útskrifaður bókasafns- og upplýsingafræðingur og að hafa sótt sérstakt námskeið um skráningarþátt Gegnis hjá Landskerfi bókasafna. Í árslok 2009 höfðu upp undir 200 einstaklingar fengið skráningarheimild. Þessir einstaklingar starfa hjá u.þ.b. 90 söfnum. Þess ber þó að geta að meirihluti aðildarsafna Gegnis hefur ekki skrásetjara meðal sinna starfsmanna en tengja eintök við fyrirliggjandi bókfræðifærslur. Á hverju byggist tölfræðin? Tölulegar upplýsingar um bókfræðigrunn Gegnis byggjast að mestu á kóðum í markfærslum. Áreiðanleikinn er þess vegna háður vinnulagi gegnum tíðina. Skráningarráð Gegnis setti reglur um lágmarkskóðun haustið 2004 og byggist ákvörðun um val á kóðum á þeim reglum. (Sjá Handbók skrásetjara Gegnis http://hask.bok.hi.is) Rétt er að taka fram að fullkomið samræmi í kóðun er ógerlegt í gagnagrunni á borð við bókfræðigrunn Gegnis. Tölurnar, sem hér er gengið út frá, eru því í samræmi við markfærslurnar í bókfræðigrunninum en skekkjur vegna ónákvæmni, mismunandi vinnulags eða skorts á kóðun liggja milli hluta. Umfang bókfræðigrunnsins Safnkostur aðildarsafna Gegnis er skráður í bókfræðigrunn kerfisins. Sem vænta má er um að ræða margs konar efni á fjölbreyttu útgáfuformi. Lesmál er fyrirferðarmest, þ.e. bækur og bókarkaflar, tímarit og tímaritsgreinar, námsritgerðir, skýrslur o.s.frv. Nálægt níutíu prósent af færslum í grunninum er fyrir prentað lesmál. Færslur fyrir hljóðritaða tónlist nema 7,6%. Hljóðbækur, mynddiskar og myndbönd, handrit, tölvugögn og tæki eru einnig skráð en færslur fyrir það efni eru lítill hluti af heildinni. Um áramót 2009/2010 voru í bókfræðigrunni Gegnis 947.864 virkar færslur. Kerfið var tekið í notkun í maí 2003 og frá upphafi höfðu verið vistaðar í því 1.129.610 færslur. Mismunurinn, 181.746 færslur, eru óvirkar færslur. Þeim hefur verið eytt úr kerfinu en eru teljanlegar vegna þess að númerin hanga óvirk inni. Bókfræðifærslum er eytt þegar gögn eru afskrifuð og stundum þarf að eyða færslum vegna mistaka við skráningu. Drjúgur hluti þessara óvirku færslna á

40

rætur að rekja til þess að færslur fyrir tvískráð efni hafa verið sameinaðar, ýmist vélvirkt eða handvirkt. Búið er að eyða 16% af færslum sem voru vistaðar í kerfið frá því í maí 2003 til ársloka 2009. Árið 2009 bættust 41.266 bókfræðifærslur í Gegni. Skylt er að geta þess að samanburður á tölum úr bókfræðigrunninum er varasamur á milli ára. Það á bæði við um heildarfjölda og árlegar viðbætur. Ástæða þessa er að grunnurinn er breytilegur frá einum tíma til annars. Ekki er einungis bætt við nýjum færslum heldur er stöðugt verið að sameina gamlar færslur fyrir tvískráð efni. Líftími færslna er jafnframt mislangur vegna grisjunar á safnkosti aðildarsafna Gegnis og þar með grisjunar í bókfræðigrunninum.

Útgáfuform Útgáfuform 3%

2%

4% 3% 4%

Árslok 2009 Árslok 2009

16% 16% 2% 8%

8%

67% 67%

Bækur Bækur Tónlist Tónlist Myndefni Myndefni Greinar og bókarkaflar Greinar og bókarkaflar Námsritgerðir Námsritgerðir Annað Annað

Mynd 2: Útgáfuform, árslok 2009. Bókfræðifærslur í Gegni í árslok 2009. Gróf hlutfallsleg skipting eftir útgáfuformum. Útgáfuformið ,,Bækur“ inniheldur hér allar mónógrafíur aðrar en námsritgerðir frá íslenskum háskólum, þ.e. skýrslur, rafrænar bækur og doktorsritgerðir auk bóka í algengasta skilningi þess orðs. Undir ,,Tónlist“ fellur hljóðrituð tónlist á plötum/diskum/snældum, stök hljóðrituð lög og nótur. ,,Greinar og bókarkaflar“ eru tímaritsgreinar og stakir kaflar í bókum. Undir ,,Annað“ falla tímarit, hljóðbækur, kort, handrit, tölvugögn og tæki. Samtals eru þetta 947.684 titlar.

Gögn fyrir alla aldurshópa Gegnir er samskrá allra tegunda bókasafna og gögnin, sem þar eru skráð, eru ætluð fjölbreyttum hópi, börnum jafnt sem fullorðnum. Notkun gagnanna snýst um ýmiss konar fræðslu og afþreyingu, nám á öllum skólastigum og rannsóknir á fjölmörgum fræðasviðum. Samkvæmt mynd 3 eru fjögur prósent af heildarfærslufjölda í Gegni fyrir safnefni sem er gefið út með það fyrir augum að það henti börnum og unglingum. Sé einungis horft á viðbót næstliðins árs er þetta hlutfall sex prósent eins og sést á mynd 4. Þótt árleg viðbót sýni aukningu á barna- og unglingaefni vegur sú aukning ekki þungt þegar gögn frá öllum tímum eru lögð saman. Heildarfjöldi færslna, sem eru kóðaðar fyrir þennan aldurshóp, er nálægt 40.000. Sú tala getur verið nærri lagi vegna þess að í bókasafnskerfinu Gegni og fyrirrennurum þess er rík og óslitin hefð fyrir að auðkenna efni sem hentar börnum og unglingum. Engu að síður er ljóst að efni ætlað börnum er lítt áberandi í Gegni og hætt við að leit að því gangi brösuglega. Þetta er bagalegt vegna þess að árangursrík leit í Gegni á að vera ein varðan af mörgum í lærdómsferli virkrar upplýsingaöflunar.


bókasafnið Börn og fullorðnir Árslok 2009 32% Kóðað fyrir fullorðna Kóðað fyrir börn og unglinga

64%

Annað

34. árg. 2010

sem klárlega hefur áhrif á erlend aðföng safna. Árið 2009 var kreppa á Íslandi sem glöggt má sjá í fækkun nýskráninga í kerfið (mynd 1). Gögn á íslensku halda þó betur hlut sínum en gögn á erlendum tungumálum. Þegar á heildina er litið er tæplega þriðjungur efnis í Gegni á íslensku. Ætla má að vægi erlendra tungumála torveldi stórum notendahópum að nota upplýsingakerfið gegnir.is.

4%

Tungumál, öll útgáfuform Mynd 3: Börn og fullorðnir, árslok 2009. Bókfræðifærslur í Gegni í árslok 2009, öll útgáfuform. Kennsluefni grunn- og framhaldsskóla er hér talið með efni fyrir börn og unglinga. Samanlagt hafa tæplega fjörutíu þúsund titlar verið kóðaðir sem efni ætlað börnum og unglingum, þ.e. fjögur prósent af skráðum titlum. Undir ,,Annað“ falla færslur fyrir efni sem ekki er í boði að kóða fyrir tiltekinn notendahóp, t.d. kort og tímarit, einnig færslur sem ekki hafa verið kóðaðar fyrir notendahóp samkvæmt reglum skráningarráðs Gegnis um lágmarkskóðun. Reglurnar voru settar síðla árs 2004. Það sem skráð var fyrir þann tíma var að einhverju leyti kóðað nákvæmar en reglurnar segja til um og fellur þess vegna undir ,,Annað“, t.d. fræðilegt efni og almennt efni sem ætlað er börnum jafnt sem fullorðnum.

Börn og fullorðnir Viðbót 2009 6%

16% Kóðað fyrir fullorðna 78%

Árslok 2009 15%

32%

14%

39%

Íslenska Enska Norðurlandamál Annað

Mynd 5: Tungumál, öll útgáfuform í árslok 2009. Hér eru tungumál gagna flokkuð í rit á íslensku, ensku, Norðurlandamálum og annað. Tungumálagreiningin er bundin við eitt tungumál fyrir hvert rit/gagn. Ef fleiri en eitt tungumál hafa jafnt vægi fellur færslan undir ,,Annað“. Sé hins vegar eitt tungumál af mörgum greint sem aðaltungumál fellur færslan undir það tungumál. Undir ,,Annað“ falla gögn á öðrum tungumálum en hér eru talin ásamt gögnum þar sem tungumál er ekki skilgreint (t.d. hljóðritaður hljóðfæraleikur). Í árslok 2009 var 39% gagna í Gegni á ensku, 32% gagna á íslensku, 14% gagna á Norðurlandamálum og síðan flokkast 15% gagna undir annað.

Kóðað fyrir börn og unglinga Annað

Tungumál, öll útgáfuform Tungumál, öll útgáfuform Viðbót 2009 Viðbót 2009 Mynd 4: Börn og fullorðnir, viðbót 2009. Hér er sýnt hvernig efni, sem var skráð í Gegni árið 2009, skiptist eftir notendahópum. Titlar kóðaðir sem barna- og unglingaefni eru 2.401 eða sex prósent af heildinni. Árið 2009 voru 84% af skráðum færslum kóðaðar fyrir tiltekna notendahópa samkvæmt reglum skráningarráðs Gegnis um lágmarkskóðun.

19% 19% 8% 8%

44% 44%

Greining eftir tungumálum Skráning bókfræðiupplýsinga í Gegni, þ.e. aðföng aðildarsafnanna, speglar tímann. Þegar gögnin eru greind eftir tungumáli og tímabilum má sjá breyttar áherslur í samskiptum þjóðarinnar við önnur tungumálasvæði. Ein meginforsenda aðfanga aðildarsafna Gegnis er að notendur geti tileinkað sér efnið, þ.e.a.s. að notendur geti lesið og skilið það efni sem er keypt eða aflað á annan hátt. Þegar myndir 5 og 6 eru bornar saman má sjá þessa þróun. Í heildina, þ.e.a.s. í árslok 2009 samkvæmt mynd 5, eru gögn á ensku 39% en árið 2009 (mynd 6) voru gögn á ensku sem bættust við bókfræðigrunninn 44%. Í heildina er íslenska með 32%, nálægt þriðjung af gögnum í kerfinu, en árið 2009 var íslenska með 29%. Norðurlandamál, þ.e. danska, norska, sænska, finnska og færeyska, eru 14% í heildina og láta þau stöðugt undan síga; árið 2009 voru 8% nýskráninga í kerfið á Norðurlandamálum. Ljóst er að aðföng á ensku hafa aukist mjög síðustu árin á kostnað annarra erlendra tungumála og kemur varla á óvart. Efnahagsástandið er stór óvissuþáttur

29% 29%

Íslenska Íslenska Enska Enska Norðurlandamál Norðurlandamál Annað Annað

Mynd 6: Tungumál, öll útgáfuform, viðbót 2009. Sömu skilgreiningar gilda fyrir mynd 5 og 6. Hér má sjá að færslur fyrir gögn á íslensku eru 29% árið 2009, gögn á ensku eru 44%, gögn á Norðurlandamálum eru 8% og undir annað flokkast 19%.

Hvað eru gögnin gömul? Tilgangurinn með að greina nýskráð gögn eftir útgáfualdri er að fá hugmynd um skiptingu á milli nýrra og eldra efnis eftir skráningarárum. Áhugavert er að skoða hvort efnahagskreppan árið 2009 hafi haft áhrif á ný aðföng til safnanna og einnig hvort skráning gagna hafi almennt dregist saman vegna samdráttar hjá aðildarsöfnum Gegnis. Nýskráningar árin 2007, 2008 og 2009 voru greindar eftir útgáfuári gagna. Til að skerpa skilin á milli nýs og eldra efnis var undanskilið efni sem er hluti af útgáfu eins og tímaritsgreinar, bókarkaflar, lög eða stök tónlistarverk (greinifærslur) ásamt námsritgerðum háskólanna, þ.e.a.s. borin eru saman raunveruleg útgefin gögn sem hafa verið keypt eða aflað á annan hátt, sjá töflu 1.

41


bókasafnið

34. árg. 2010

Tafla 1 – Greining á nýskráningum fyrir árin 2007, 2008 og 2009, námsritgerðir og greinifærslur eru undanskildar Ár

Nýtt efni

Eldra efni

2007

14.307

24.270

2008

14.494

25.250

2009

11.556

19.479

Samkvæmt mynd 7 og töflu 1 er ljóst að u.þ.b. 60% af árlegum viðbótum í Gegni er efni sem er gefið út meira en þremur árum áður en það er skráð. Þetta vísar fyrst og fremst til þess að afturvirk skráning er enn í gangi hjá aðildarsöfnum Gegnis þó vissulega sé útgáfuár nýrra aðfanga mismunandi. Efnahagskreppan hefur haft umtalsverð áhrif á fjölda skráninga í Gegni, óháð því hvort litið er til heildarfjölda skráninga, skráningar nýs eða eldra efnis. Samdráttur í skráningu á milli áranna 2008 og 2009 er í heild 19%, skráning á nýlega útgefnu efni samkvæmt skilgreiningu (mynd 7) hefur dregist saman um 20% og skráning á eldra efni um 23%. Það kemur á óvart að skráning á eldra efni hefur dregist enn meira saman en skráning á nýlegu efni. Í megindráttum eru áhrif efnahagskreppunnar mikill samdráttur í skráningu óháð því hvort horft er á nýtt eða eldra efni.

Árleg viðbót greind e8ir aldri gagna 30,000 25,000 20,000 15,000

Ný< efni

10,000

Eldra efni

5,000

Heimildir um tölulegar upplýsingar: Hildur Gunnlaugsdóttir, Sigrún Hauksdóttir (2009). Tölur úr bókfræðigrunni Gegnis : greinargerð um söfnun og úrvinnslu tölulegra upplýsinga. Skýrsla, birt á vef Landskerfis bókasafna http://www.landskerfi.is undir yfirskriftinni Tölfræði Gegnis Hildur Gunnlaugsdóttir, Sigrún Hauksdóttir (2010). Tölur úr bókfræðigrunni Gegnis : greinargerð um söfnun og úrvinnslu tölulegra upplýsinga til ársloka 2009. Skýrsla, birt á vef Landskerfis bókasafna http://www.landskerfi.is undir yfirskriftinni Tölfræði Gegnis. Abstract

0 2007

2008

2009

Mynd 7: Árleg viðbót, greind eftir aldri gagna. Þessi mynd sýnir útgáfualdur nýskráðra gagna í Gegni árin 2007, 2008 og 2009. Gögnunum er skipt í nýtt og eldra efni. Undir nýtt efni falla hér gögn sem komu út innan næstliðinna þriggja ára. Eldra efni er gefið út meira en þremur árum áður en skráð er. Hér er verið að skoða útgáfuefni, það er ekki verið að greina hluta af útgáfu, eins og tímaritsgreinar, bókarkafla, lög eða stök tónlistarverk (greinifærslur). Námsritgerðir háskólanna eru einnig undanskildar. Á myndinni sést að nýskráning útgefins efnis í Gegni var svipuð árin 2007 og 2008 en fjöldi skráninga dregst mikið saman árið 2009.

Niðurlag Í þessari samantekt hefur verið reynt að varpa ljósi á nokkrar tölur úr bókfræðigrunni Gegnis. Bókfræðigrunnurinn var bæði greindur sem heild og einnig voru árlegar viðbætur greindar. Eftirfarandi tölur úr bókfræðigrunninum voru settar fram: bókfræðifærslur í Gegni eftir skráningartíma, greining eftir útgáfuformi í árslok 2009, greining í barna- og fullorðinsefni og eftir tungumálum fyrir bókfræðigrunninn sem heild og einnig viðbótina fyrir 2009. Ennfremur voru árlegar viðbætur

42

þriggja ára greindar eftir aldri gagna. Samanburður á upplýsingum úr bókfræðigrunni Gegnis getur verið varasamur en kóðun bókfræðifærslna hefur bæði batnað og breyst seinustu árin með samræmdum reglum og fræðslu. Þegar rýnt er í gögnin má sjá að ákveðnir efnisflokkar geta drukknað í heildinni. Þetta á t.d. við um efni ætlað börnum sem er lítt áberandi í Gegni eða um 40.000 titlar og einungis um 4% af heildinni. Af þessu er greinilegt að nauðsynlegt er að leita leiða til þess að auðvelda börnum að notfæra sér Gegni. Aðföng bókasafna á ensku hafa aukist mjög síðustu árin á kostnað annarra erlendra tungumála. Norðurlandamál láta stöðugt undan síga og voru gögn á þeim tungumálum árið 2009 8% nýskráninga í kerfið. Þegar á heildina er litið er tæplega þriðjungur efnis í Gegni á íslensku. Árlegar viðbætur íslensks efnis eru hlutfallslega minni en það, jafnvel þótt íslenskan haldi betur hlut sínum í nýskráningum en gögn á erlendum tungumálum. Árlegar viðbætur í bókfræðigrunn Gegnis tengjast efnahagsástandinu. Umtalsverður samdráttur varð á árlegri viðbót við bókfræðigrunninn í efnahagskreppunni árið 2009. Samdrátturinn á jafnt við um skráningu eldra og nýrra efnis.

The heart of Gegnir Gegnir, www.gegnir.is, is the union catalog of Icelandic libraries. The purpose of this article is to reflect in numbers on the union catalog. The statistical analysis is a cooperative project between the Consortium of Icelandic Libraries, the National and University Library of Iceland and the Reykjavík City Library. The goal is to gather information on the bibliographic database in order to determine factors like the number of active titles, how many titles are for children, which languages are presented etc. The union catalog is the heart of the unified Icelandic library system. The setup is a single bibliographic database which all participating libraries either catalog into or connect holdings to the existing bibliographic records. The catalog is a shared responsibility of the libraries. The adminstrative body is the Cataloging Council and its’ purpose is to control the quality of the database by deciding on rules and regulations. For comparison the statistical analysis is based on the whole database and yearly additions. The following figures were


bókasafnið reviewed: number of bibliographic records by year, analysis of material for children and adults, analysis by language and analysis on the age of the yearly addition by publication year. At end of the year 2009 the database contained 947.864 titles and yearly addition was 5%. Childrens material is 4% of the database or 40.000 titles. Gegnir is a database that serves all library types and the fact that material for children is not so visible must create difficulties for children to use the information system, www.gegnir.is. Acquisitions in English

34. árg. 2010

have increased in the last years at the expense of other foreign languages. Acquisitions in the Scandinavian languages are constantly declining and in 2009 8% of the cataloged titles were in those languages. Yearly additions to the bibliographic database reflect the economic situation. When reviewing yearly additions to the database by publication year it is clear that the Icelandic economic crisis in 2009 had an enormous effect on cataloging of both new and older material.

Ný bók: Almenningsbókasöfn á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum í sögulegu ljósi

Library spirit in the Nordic and Baltic countries, historical perspectives, ritstýrt af Martin Dyrbye, Ilkka Mäkinen, Tiiu Reimo og Magnus Thorstensson. Tampere, Finland, HIBOLIRE, 2009. 188 s. : 1 tafla, myndir : 25cm. ISBN 978-952-92-5875-8 Leiðréttingasíða er aftast í ritinu. Ritið er á ensku. Bókin sem út kom í árslok 2009 er gefin út af samtökunum HIBOLIRE (The Nordic-Baltic-Russian Network on the History of Books, Libraries and Reading) með fjárstyrk frá Norræna rannsóknarráðinu NordForsk. Á heimasíðu HIBOLIRE kemur fram að markmið samtakanna er að efla samvinnu milli aðildarríkja og samtaka þeirra, miðla upplýsingum og skipuleggja námskeið og ráðstefnur. Bókin hefur vakið athygli fyrir að fjalla sérstaklega um lönd og þjóðir sem litla umfjöllun hafa fengið hingað til, svo sem Áland, Færeyjar og Grænland og um bókasafnsþjónustu meðal Sama. Bókin er greinasafn 17 höfunda og þar er dregin upp áhugaverð mynd af ýmsum þáttum í sögu almenningsbókasafna. Fjallað er um þróun bókasafnsfræðináms og fagstéttar bókasafna, bókasafnsfræðinga í Danmörku og þróun almenningsbókasafna á Álandi, Íslandi, Eistlandi, Finnlandi, Grænlandi, Færeyjum, Lettlandi, Litháen, Noregi, í Samahéruðum (Sámpi) og í Svíþjóð. Einnig er fjallað um bókasafnabyggingu í Danmörku. Í bókarlok er tafla sem gefur yfirlit yfir þróun almenningsbókasafna í ofantöldum löndum. Formála ritar Sinikka Bohlin, formaður Norðurlandaráðs. Eftirfarandi kaflar eru í ritinu: Introduction: Volksbildung Meets Popular Enlightenment: Why Have Public Libraries Been So Successful in Northern Europe?, Ilkka Mäkinen; The History of Public Libraries in Iceland, Kristín H. Pétursdóttir og Stefanía Júlíusdóttir; Central and Public Library of Greenland, Elisa Jeremiassen; My World Might Be Small But My Philosophy is Great, Martin Næs; A Short History of Norwegian Public Libraries and „How They Got That Way“, Lis Byberg; From Vocation to Profession – Innovation and Change in the Focus of Librarianship 1905-1969, Martin Dyrbye; Library Spirit: The Construction of a Vocation for Danish Librarianship, Laura Skouvig; Library Spirit and Genius Loci: The Architecture and Design of the Nyborg Public Library as an Example of the

Scandinavian Style, Nan Dahlkind; Library Spirit in Sweden – Two Missionary Phases, Magnus Thorstensson; Girdjerádjusat Sámis – Libraries in Sápmi, Peter Sarri; History of Libraries in Åland, Kerstin Öberg; History of Finnish Public Libraries in a Nutshell, Ilkka Mäkinen; Books That Common People Read: Estonian Public Libraries Through the Centuries, Aile Möldre and Tiiu Reimo; Lists of Recommended Materials for Estonian Public Libraries 1882-1940. Progress and Lessons, Asko Tamme; Public Libraries in Latvia in the 20th Century, Jana Dreimane; Culture of Reading Formation in Lithuanian Public Libraries, 1918-1990, Ineta Sibrian; Library Spirit in the Baltic-Nordic Region. Comparative Analysis, Magnus Thorstensson.

43


Tímaritið Bókasafnið

Eva Sóley Sigurðardóttir

Fyrsta tölublað Bókasafnsins kom út árið 1974 og var það gefið út af Bókavarðafélagi Íslands, Félagi bókasafnsfræðinga og Bókafulltrúa ríkisins. Nú er blaðið gefið út af Upplýsingu – Félagi bókasafns- og upplýsingafræða og er áskrift innifalin í félagsgjaldi. Í þessari grein verður fjallað um tímaritið, verklagsreglur, ritstjórn, útgáfu og fleira. Útgáfa Útgáfan gekk hálf brösulega í fyrstu og blaðið var frekar smátt í sniðum til að byrja með. Eftir að Félag bókasafnsfræðinga var stofnað árið 1976 gekk útgáfan vel um nokkurt skeið en aftur seig síðan á ógæfuhliðina og ekkert blað kom á út árunum 1979-1981. Fyrstu árin var blaðið eingöngu unnið í prentsmiðju og útgáfukostnaðurinn var að sliga félögin sem stóðu að því. Árið 1983 var skipuð sex manna ritnefnd, þrír frá Bókavarðafélagi Íslands, tveir frá Félagi íslenskra bókasafns­ fræðinga og bókafulltrúi ríkisins. Ritnefndin kaus ritstjóra og gjaldkera úr sínum hópi. Sem fyrr voru birtar í ritinu fræðilegar greinar um fjölmargt sem tengdist bóksöfnum, bókasafnsfræði og bókavörðum. Frásagnir voru af ráðstefnum og námskeiðum og fréttir af landsþingum Bókavarðafélagsins (Friðrik, 2004). Blaðið hefur lengst af komið út einu sinni á ári en lengi vel gekk mjög illa að fjármagna útgáfu blaðsins. Með útgáfu 11. og 12. árgangs tókst loksins að fjármagna útgáfuna með auglýsingatekjum og hafa þær staðið undir útgáfukostnaði eftir það. Tímaritið Bókasafnið hefur verið aðgengilegt á vefnum frá og með 22. ágúst 1998 á slóðinni www.bokasafnid.is.

44

Verklagsreglur um útgáfu Bókasafnsins Í 29. árgangi Bókasafnsins árið 2005 (bls. 52-53) voru birtar verklagsreglur um útgáfu Bókasafnsins sem þáverandi ritstjóri, Eva Sóley Sigurðardóttir, og þáverandi formaður Upplýsingar, Þórdís Þórarinsdóttir, höfðu tekið saman og samþykktar voru á fundi stjórnar Upplýsingar og ritnefndar Bókasafnsins 3. mars 2005. Þar er Bókasafnið skilgreint sem fagtímarit bókasafns­ fræðinga, bókavarða og áhugamanna um bókasafna- og upplýsingamál. Gert er ráð fyrir að blaðið komi út kringum dag bókarinnar ár hvert (23. apríl) og sé sent öllum skuldlausum félögum Upplýsingar. Jafnframt skuli ritnefnd leitast við að auka útbreiðslu blaðsins. Þá er gert ráð fyrir að á vefsíðu blaðsins sé birtur útdráttur eða upphaf greina. Ritnefndin skal samkvæmt þessum verklagsreglum starfa sjálfstætt og bera faglega og fjárhagslega ábyrgð gagnvart Upplýsingu – Félagi bókasafns- og upplýsingafræða. Ritnefnd Bókasafnsins er skipuð fimm fulltrúum, sem kosnir eru á aðalfundi Upplýsingar í maí ár hvert. Skipunartími hvers ritnefndarfulltrúa er lágmark tvö ár en ritstjóri skal kosinn sérstaklega til þriggja ára með möguleika á framlengingu um eitt ár í senn. Nánar er kveðið á um starf ritnefndar í verklagsreglunum sem eru nú í endurskoðun eftir nokkurra ára reynslutíma. Ritstjórn Ritnefnd Bókasafnsins hefur frá byrjun verið skipuð nokkrum fulltrúum og yfirleitt hafa 3-5 setið í ritnefnd blaðsins. Fyrsti ritstjóri blaðsins var Páll Skúlason bókasafnsfræðingur og lögfræðingur en hann ritstýrði blaðinu fyrstu tvö árin. Næstu tvö blöð komu út 1976 og 1978, 4. og 5. árgangur í einu blaði, en enginn ritstjóri var tilnefndur þessi ár. Eftir það lá útgáfan niðri þar til Kristín H. Pétursdóttir tók við ritstjórninni árið 1982. Síðan hefur blaðið komið út árlega að árinu 1987 undanskildu.


bókasafnið

34. árg. 2010

Ritstjórar Bókasafnsins 1974-2010: • 1. árg. (1974) (tvö tölublöð komu út) og 2. árg. (1975), Páll Skúlason. • 3. árg. (1976), ritstjórn án ritstjóra Else Mia Einarsdóttir, Hilmar Jónsson, Hrafn Harðarson og Sigrún Klara Hannesdóttir. • 4.-5. árg. í einu blaði (1978), ritstjórn án ristjóra Else Mia Einarsdóttir, Helga Kr. Möller, Hilmar Jónsson og Sigurður Helgason. • 6. árg. (1982), Kristín H. Pétursdóttir. • 7. til 10. árg. (1983-1986), Viggó Gíslason. • 11.-12. árg. í einu blaði (1988), 13.-14. árg. (1989-1990), Guðrún Pálsdóttir. • 15.-16. árg. (1991-1992), Ásgerður Kjartansdóttir. • 17. árg. (1993), Helga Jónsdóttir. • 18. til 20. árg. (1994-1996), Regína Eiríksdóttir. • 21. til 24. árg. (1997-2000), Áslaug Agnarsdóttir. • 25. til 28. árg. (2001-2004), Dögg Hringsdóttir. • 29. til 31. árg. (2005-2007), Eva Sóley Sigurðardóttir. • 32. árg. (2008), Ásdís Paulsdóttir. • 33. til 34. árg. (2009-2010), Einar Ólafsson.

Efni Efni blaðsins hefur verið á svipuðum nótum allt frá upphafi en þó hafa bæst við efnisflokkar í gegnum tíðina meðan aðrir hafa lagst af. Helstu efnisflokkar verða listaðir hér að neðan. Listinn byggist að hluta til á flokkunarkerfi Brynhildar Axelsdóttur bókasafns- og upplýsingafræðings (Brynhildur, 1995) sem tók saman efnislykil fyrir blaðið 1995. Efnistökin hafa verið með svipuðu móti síðan þó að einhverjar breytingar hafi orðið vegna framþróunar í faginu á síðastliðnum árum. Helstu efnisflokkar 1974-2010: • Bókasöfn: Húsnæðismál, endurbætur, safnkostur, afgreiðslutími. • Starfsþættir bókasafna: Flokkun, skráning, varðveisla, efnisorðagjöf, aðföng. • Bókasafnsþjónusta: Millisafnalán, upplýsingaþjónusta, notendaþjónusta. • Bókasafns- og upplýsingafræði: Nám, rannsóknir, umfjöllun um lokaverkefni. • Starfsfólk bóka- og skjalasafna: Viðtöl, minningarorð. • Skjalastjórn: Skjalasöfn, þekkingarstjórnun. • Útgáfa: Bókarýni, vefsíðurýni, höfundarréttur. • Annað: Ljóð, smásögur, sagnfræði. Fræðileg framsetning Í grófum dráttum er talað um þrenns konar markmið með fræðilegum skrifum, hagnýtt markmið, lýsandi markmið og fræðilegt markmið. Það má segja að efni Bókasafnsins sé að mestu leyti skrifað með lýsandi markmið í huga þó að það sé auðvitað misjafnt og fari til dæmis eftir því hvaða afstöðu

Forsíða fyrsta heftis Bókasafnsins. Fyrstu sex heftin voru í minna broti en nú er og fyrstu þrjú með staðlaða forsíðu eins og hér sést, en framan á fjórða heftinu var litmynd úr Bæjarbókasafni Keflavíkur. Annars var kápan svarthvít til ársins 1989.

höfundur efnis (greinar) hefur til viðfangsefnis síns (Höskuldur, 2006, bls. 2). Tímaritið hefur verið notað mikið við kennslu í bókasafns- og upplýsingafræði í gegnum tíðina. Hvort sem það er vegna skorts á góðum kennslubókum í greininni eða vegna annarra ástæðna þá hafa greinar úr blaðinu reynst nemum í faginu ómetanlegt námsefni og eru greinar blaðsins mikið nýttar við ritgerðarsmíðar í faginu. Því má segja að hluti af efni blaðsins hafi einnig hagnýtt markmið. Fræðilegt markmið kemur einnig við sögu í blaðinu en það hefur færst mjög í vöxt undanfarin ár að höfundar segi frá rannsóknum sínum í blaðinu, til dæmis lokaverkefnum í framhaldsnámi. Slíkar greinar eru sendar blaðinu til að upplýsa og fræða kollegana um viðfangsefnið og hafa bæði lýsandi og fræðilegt markmið. Þó er óhætt að segja að ekki er mikið um flóknar fræðilegar ritgerðir eða niðurstöður flókinna rannsókna. Það er heldur ekki eðli greinarinnar að fást við flóknar rannsóknir heldur frekar að sinna ýmiss konar upplýsingaþjónustu. Þeir sem skrifa fræðilegar greinar, það er að segja um efni á sviði bókasafns- og upplýsingafræði, taka oft mið af því hverjir geta haft gagn af rannsókninni og gagn og gaman af skrifunum. Þó er það alltaf svo að sá sem skrifar texta fyrir aðra veit ekki

45


bókasafnið

34. árg. 2010

hvernig hann skilar sér og hvort hann leiðir lesandann til nýrrar þekkingar eða skilnings á viðfangsefninu (Booth, 2003, bls. 57). Umbrot og auglýsingar Fyrstu árin var blaðið eingöngu unnið í prentsmiðju og útgáfukostnaðurinn var að sliga félögin sem stóðu að því. Auglýsingatekjur skiluðu sér illa þar sem blaðið var gefið út löngu eftir áætlaðan útgáfutíma (Guðrún, 2006). Árið 1983 var ákveðið að Bókasafnið fengi breytt og endurbætt útlit, brotið var stækkað og fleira. Það hefur síðan verið í sama broti, A4, en mismunandi að þykkt og gæðum til dæmis varðandi pappír. Setning, umbrot, filmuvinna, prentun og bókband hefur verið í höndum nokkurra aðila í gegnum tíðina. Þau fyrirtæki sem hafa séð um þau mál eru: Prentsmiðjan Hólar hf., Prentstofa G. Benediktssonar, Ísafoldarprentsmiðja hf., Letur hf. og Borgar­ prent fram til ársins 1996. Gutenberg - Steindórsprent (seinna Gutenberg) sá um umbrot og prentun blaðsins frá 1997 til 2007 þegar prentsmiðjan sameinaðist Odda sem sá um prentun blaðins 2008. Frá árinu 2009 hefur prentsmiðjan GuðjónÓ séð um umbrot og prentun. Auglýsingasöfnun í blaðið var fyrstu árin í höndum ritstjórnar. Það var mikil vinna og tekjur af auglýsingum skiluðu sér seint og illa. Árið 1989 var leitað til utanaðkomandi aðila með auglýsinga­ söfnun og gekk sú vinna vel (Guðrún, 2006). Síðan þá hefur blaðið verið fjármagnað með auglýsingum sem safnað hefur verið af ýmsum aðilum. Útgáfufélagið Hænir sá um nokkurra ára skeið alfarið um auglýsingasöfnun í blaðið með ágætum árangri og stóðu þá auglýsingar að mestu leyti undir útgáfukostnaði, greiðslum til ritnefndar og greiðslum til höfunda greina. Vefsetur Greinar úr árgöngum 22 til og með 26 eru aðgengilegar í heild sinni á vefsetri blaðsins, www.bokasafnid.is. Frá og með 27. árgangi 2003 eru aðeins aðgengilegir útdrættir greina. Breyting þessi á rætur sínar að rekja til verklagsreglna um útgáfu Bókasafnsins sem samþykktar voru á vormánuðum 2005. Fyrsti árgangur sem gerður var aðgengilegur á vefnum var 22. árgangur 1998. Vefstjóri blaðsins frá árinu 1998 til 2006 var Kristín Ósk Hlynsdóttir, Martha Ricart var vefstjóri 2007 til 2008 og Hallfríður Hr. Kristjánsdóttir frá árinu 2009. Til stendur að gera breytingar og endurbætur á vefnum í samhengi við vef Upplýsingar, www.upplysing.is. Leiðbeiningar til höfunda og ritrýndar greinar Í ritstjórnartíð Evu Sóleyjar Sigurðardóttur voru unnin drög að leiðbeiningum til höfunda. Núverandi ritstjórn er með þau í áframhaldandi vinnslu. Þá hefur verið í bígerð að koma á ritrýni í blaðinu, að minnsta kosti einhverjum hluta þess. Til slíks þarf þó að vanda og undirbúa vel.

46

Lokaorð Tímaritið Bókasafnið hefur nú komið út í 36 ár og árgangarnir eru orðnir 34. Í júlí 2006 var gefið út sérstakt afmælisrit, bæði í tilefni þess að þá kom tímaritið út í 30. skipti en einnig vegna þess að á árinu voru liðin 50 ár síðan kennsla í bókasafns- og upplýsingafræði hófst við Háskóla Íslands. Afmælisritið var mjög veglegt í alla staði og taldi alls tæpar 150 blaðsíður. Hluti þess var á ensku eftir erlenda höfunda og einnig voru nokkrar greinar þýddar á ensku, svo sem minningargrein um dr. Anne Clyde bókasafns- og upplýsingafræðing og prófessor við Háskóla Íslands sem lést árið 2005. Bókasafnið hefur verið í stöðugri þróun þann tíma sem það hefur komið út en miklar breytingar hafa orðið í faginu á undanförnum árum og hafa félagsmenn verið iðnir við að skrifa um sín hjartans mál. Þá hefur aukist mikið á síðustu árum að bókasafns- og upplýsingafræðingar ljúki framhaldsnámi, svo sem MA, MLIS, MPA og doktorsprófi og greinum um slík verkefni hefur fjölgað mikið. Fastir liðir blaðsins verða á sínum stað áfram, liðir eins og viðtöl, greinar, umfjöllun um bækur og fleira en ritnefnd blaðsins hefur þó ýmislegt á prjónunum (Einar, 2010). Útgáfumál Upplýsingar hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu. Auk Bókasafnsins gefur Upplýsing út fréttabréfið Fregnir og hafa þessi tvö tímarit komið út samhliða frá árinu 1976. Frá árinu 2008 hafa Fregnir einungis komið út rafrænt á pdf-formi. Ennfremur birtast stöðugt fréttir og ýmsar upplýs­ ingar á vef félagins, www.upplysing.is. Tæknileg og fagleg þróun gefur því tilefni til að skoða útgáfumál félagins í heild án þess að endilega sé um einhverjar meiriháttar breytingar að ræða. Abstract One of the projects undertaken by the Icelandic Association of Professional Librarians on its establishment in 1976 was to take over publication of Bókasafnið, a small unofficial journal on library activities and librarianship which had been launched in 1974. Publication was stepped up to twice a year, in April and November. However, the magazine lost momentum and was not published at all in 1979-1981. In 1983 it was decided to relaunch Bókasafnið with a revamped design, larger format, etc. A six-person committee was set up comprising three members from the Icelandic Library Association, two from the Association of Professional Librarians and the State Library Services Officer. An editor and treasurer were elected from the committee’s own ranks. The magazine’s editorial policy remained unchanged, featuring academic papers, articles on a wide range of issues connected with libraries, librarianship and librarians, and reports on conferences, courses and the Library Association’s annual conference. It was normally published once a year but was long plagued by lack of funding. Volumes and 11 and 12 marked a turning point when publication was secured by advertising revenue, as it has been ever since. The magazine is now published by Information – the Icelandic Library and Information Science Association, which was founded in 1999 with the amalgamation of earlier library associations. An on-line version of Bókasafnið has been published since August 22, 1998 www.bokasafnid.is.


bókasafnið Heimildir Booth, Wayne C. 2003. The craft of research (2. útg.). Chicago: University of Chicago Press Brynhildur Axelsdóttir. 1995. Bókasafnið 1974-1994 Efnislykill. Námsritgerð í bókasafns- og upplýsingafræði. Háskóli Íslands. Einar Ólafsson [tölvupóstur 23. mars 2010]. Friðrik G. Olgeirsson. 2004. Á leið til Upplýsingar: Saga Bókavarðafélags Íslands, aðildarfélaga þess og Félags bókasafnsfræðinga. Reykjavík, Upplýsing – félag bókasafns- og upplýsingafræða. Guðrún Pálsdóttir [tölvupóstur 11. desember 2006].

34. árg. 2010

Guðrún Pálsdóttir og Sigrún Klara Hannesdóttir. 1997. Sál aldanna: safn greina um bókasöfn og skyld efni. Reykjavík, Félagsvísindastofnun: Háskólaútgáfan. Guðvarður Már Gunnlaugsson.1998. Leiðbeiningar um frágang greina. Gripla X:269–278. Höskuldur Þráinsson. 2006. Skrifaðu bæði skýrt og rétt (um málfræði). Handrit, Háskóla Íslands. Leiðbeiningar til höfunda efnis í Sögu. Finnanlegar á netinu á slóðinni: http://www.sogufelag.is/timarit/timarit_til_hofunda.htm Tímaritið Bókasafnið 1.-33. árgangur (1974-2009).

Arngrímur Vídalín

Gíraffinn er á stultum fyrir Hjálmar Skorrason Linnet

Kaldhæðni ævi minnar hlaut að vera að það yrði aftakaveður á aftökudaginn jæa betra er að hafa átt drauma og misst þá en vera andvaka fæddur ég held ég sé bara búinn að drepa svo mikinn tíma að ég sé dauður sjálfur býst við að aftökusveitin sé ósammála mér um það einsog annað þeir eru að drekka bjór og reykja þarna inni rúlla ljóðunum mínum í sígarettur fyrir lýrískt eftirbragð kannski þeir bjóði mér eina að skilnaði bara orðinn svo þreyttur á að hafa Sjón bundinn fyrir augunum niðursoðna drauma á útsölu og gíraffa á stultum og helvítis rigningin maður

47


Borgarbókasafn Reykjavíkur nírætt

Borgarbókasafn Reykjavíkur er nírætt um þessar mundir. Landsstjórnin ákvað árið 1919 að stofnað yrði alþýðubókasafn í Reykjavík. Það var stofnað 18. nóvember 1920 en hóf starfsemi 19. apríl 1923. Í grundvallaratriðum er starfsemi almenningsbókasafna hin sama og fyrir 90 árum, en margt hefur þó breyst og ef til vill stöndum við frammi fyrir enn meiri breytingum á komandi árum. Nýr safnkostur hefur bæst við, svo sem tónlist, kvikmyndir og myndasögur, og að undanförnu hefur hefur ýmisleg starfsemi færst í vöxt önnur en bein útlán safnkosts, svo sem allskyns menningartengdir viðburðir. Í tilefni afmælisins lítur Anna Torfadóttir borgarbókavörður fram á veginn, við lítum inn í myndasögudeild safnsins, sem fagnar tíu ára afmæli sínu, og fáum yfirlit yfir fjölmenningarlegt starf sem hefur blómstrað á safninu að undanförnu.

Anna Torfadóttir

Borgarbókasafn Reykjavíkur. Hvað næst? Á íslenskan mælikvarða eru níutíu ár hár aldur menningar­ stofnunar sem hefur alla tíð skipt miklu máli í samfélaginu og, sem stærsta almenningsbókasafn landsins, oft varðað veginn. Í níutíu ára sögu Borgarbókasafns hefur margt breyst en síðasta áratuginn hefur mesta breytingin falist í stór­­ bættu húsnæði. Í byrjun ársins 1997 skrifaði ég loka­ kafl­ ann, „Framtíðarsýn“, í grein Þórdísar Þorvaldsdóttur um Borgar­­­­­bókasafn sem birtist í ritinu „Sál aldanna“. Mesta tilhlökkunarefnið í þeirri framtíðarsýn var að ljóst var að aðal­ safn flytti í nýtt húsnæði innan fárra ára, það er árið 2000. Sá flutningur reyndist vera bylting í starfsemi safnsins. Þá hafa Kringlusafn og Ársafn ásamt nýjum bókabíl og sögubíl bæst við á síðasta áratug og vonandi er þess ekki langt að bíða að Grafarvogsbúar fái nýtt bókasafn. Stórbætt aðstaða fyrir gesti og starfsmenn þýðir betri samastaður og tækifæri til að fjölga viðburðum af ýmsu tagi. Ekki aðeins hefur vinnuaðstaða starfsmanna breyst til hins betra heldur einnig aðstaða til símenntunar og starfsþróunar. Sjálfsafgreiðsla var tekin upp árið 2007. Sú breyting minnkaði vinnuálag á starfsmenn og gaf þeim svigrúm til að sinna fjölbreyttari verkefnum og þjóna gestum á annan hátt. Þegar litið er til baka tel ég að auk stærra og betra hús­ næðis hafi kannanir haft mikil áhrif á starfsemi safnsins. Könnunum þessum má skipta í þrennt, þjónustukannanir

48

meðal borgarbúa og meðal gesta og starfsmannakannanir. Safnið gerði sína fyrstu þjónustukönnun meðal borgarbúa árið 1996 með 1200 manna slembiúrtaki úr þjóðskrá. Þátttakendur voru spurðir 17 spurninga. Niðurstöður þessarar viðamiklu könnunar komu að miklu gagni næstu misserin. Árið 1998 var gerð starfsmannakönnun innan Borgarbókasafns. Fyrsta þjónustukönnun Reykjavíkurborgar, að minnsta kosti á síðari árum, var gerð rétt fyrir aldamótin og hafa þær verið gerðar af og til síðan. Starfsmannakannanir hafa verið gerðar reglulega undanfarin ár. Þessar kannanir eru mikill styrkur við að meta stöðuna og móta stefnu safnsins. Það er sérstaða almenningsbókasafna nútímans, sem eru rekin af almannafé, að þar getur hver sem er fengið bækur og annað útgefið efni að láni án endurgjalds eða með því að greiða lágt árgjald. Vitaskuld er starfsemi almenningsbókasafna nútímans miklu fjölbreyttari en þetta og eru áratugir síðan menn fóru að tala um að hugtakið „bókasafn“ væri alltof þröngt og ekki nógu lýsandi fyrir alla þá menningarstarfsemi sem þar fer fram. Útlán hafa samt sem áður hingað til verið grundvöllur starfseminnar og fjölbreyttur og vandaður safnkostur verið aðalsmerki góðra almenningsbókasafna. Nú eru miklar breytingar hafnar með tilkomu rafbóka og annars efnis sem menn geta nálgast og notið án aðkomu bókasafna. Snjóboltinn er farinn af stað með æ meira framboði á efni og nú með notendavænum og þægilegum lestöflum. Menn lesa nú æ meira af skjá í stað pappírs. Í mörg ár hefur fólk vanist því að lesa tímaritsgreinar, dagblöð og kennsluefni rafrænt. Nú býðst skáldskapur og fræðirit (heilu bækurnar) í vaxandi mæli á rafrænu formi. Fólki yngra en 40 ára þykir


bókasafnið

rafrænn lestur eðlilegur lestrarmáti og les æ minna á pappír. Það sér engan mun á að lesa fræðigrein vegna náms eða starfs rafrænt og að lesa skáldsögu eða ljóð á þann hátt. Smám saman mun draga úr útgáfu á pappír. Tímarit og dagblöð um allan heim eru smám saman að færast af pappír yfir á rafrænt form og útgáfu þeirra á pappír er jafnvel hætt. Þess mun væntanlega skammt að bíða að bækur, fræðirit og skáldrit verði eingöngu gefin út rafrænt, pappírnum verði sleppt. Í árdaga skráðu menn og lásu sögur á tré- eða steintöflum. Nú eru sögur skráðar og lesnar á raftöflum. Hver verður staða almenningsbókasafna sem boðið hafa upp á „eigið“ efni til útláns? Mun grundvöllur tilveru þeirra breytast þegar rafrænu lestækin eru orðin svo góð sem raun ber vitni og úrval lesefnis eykst hratt á öllum tungumálum? Hvar eiga almenningsbókasöfnin að staðsetja sig í þessum breytta heimi? Hvernig varðveita þau góðu gildin sem starfsemi almenningsbókasafna hefur byggst á, það er að vera ein mikilvægasta stoð lýðræðis, örva skapandi hugsun og standa vörð um jafnan aðgang að menningu og menntun. Við, sem störfum í almenningsbókasöfnum, þurfum að búa okkur undir mjög breytt starfsumhverfi innan fárra ára.

34. árg. 2010

Almenningsbókasöfn víða um heim eru farin að undirbúa sig og leita nýrra leiða til að standa vörð um gildi sín. Í júní 2010 hefst þriggja ára samstarfsverkefni almennings­ bókasafna á öllum Norðurlöndunum með því að haldinn verður fyrsti vinnufundurinn af þremur í Reykjavík. Um 70 manns munu taka þátt í þessu verkefni sem kallað er „Næsta bókasafn - Next Library“ og er markmiðið að meta stöðuna, gera sér grein fyrir þeirri þróun sem framundan er. Hvernig viljum við, teljum við, að almenningsbókasöfn framtíðarinnar verði? Tímamót eru, eins og áður sagði, framundan þar sem sjónarhornið og þungamiðjan er ekki lengur safnkosturinn í bókasafninu. Almenningsbókasöfn hér á landi og víða um heim undirbúa ný og fjölbreytt verkefni í breyttu umhverfi. Segja má að nánast öll verkefni almenningsbókasafna hafi hingað til hverfst um safnkostinn, verið til þess ætluð að draga menn að safnkostinum á einn eða annan hátt. Ný verkefni verða ekki lengur „safnkostsmiðuð“ en þau verða eftir sem áður á vettvangi menningar og mennta, það er bókmennta, lesturs, upplýsingalæsis, barnamenningar, lista og fjölmenningar. Þessi verkefni almenningsbókasafna eru nú æ meira hugsuð sem skapandi verkefni fyrir, af og með þátttakendum. Verði „bókasöfn“ staður án bókahillna verða þau eftir sem áður staður samvista, sköpunar og örvandi hugsunar. Borgarbókasafn hefur átt því láni að fagna að þar hafa ævinlega starfað metnaðarfullir og faglegir starfsmenn. Sú staðreynd endurspeglast í könnunum á þjónustu safnsins. Í nýjustu þjónustukönnun sem gerð var fyrir Reykjavíkurborg í ágúst til september síðastliðinn af Capacent Gallup höfðu 70,4% borgarbúa heimsótt Borgarbókasafn síðustu 12 mánuði og 90,3% voru ánægðir með þjónustu safnsins. Í gesta­ könnun sem gerð var á sama tíma var ánægjan jafnvel meiri, en 98% voru ánægðir með viðmót starfsmanna og 94% með þjónustu safnsins. Á þessum tímamótum árið 2010 hefur gesta­fjöldi aukist um 22% á síðustu tveimur árum en árið 2009 komu 700 þúsund gestir í safnið.

Kristín R. Vilhjámsdóttir

Fljúgandi teppi og önnur fjölmenningarleg ævintýri á Borgarbókasafni Menningarmót, heimanámsaðstoð, samkomur og lifandi kynning á starfsemi bókasafnsins fyrir innflytjendur Hvernig bregst maður við þegar maður flytur í nýtt land? Þar kemur margt til: tungumálið, ólíkt þjóðfélag með öðruvísi innviði en það sem flutt var frá, lög og reglugerðir, vinnumarkaður og menntakerfi og síðast en ekki síst umrót tilfinninga þess sem flytur milli landa. Bókasöfn eru mikilvæg gátt inn í samfélagið og í mörgum löndum hefur bókasafnið haft mikla þýðingu og jákvæð áhrif meðal innflytjenda. Á bókasöfnum er aðgangur að

49


bókasafnið

34. árg. 2010

upplýsingum, bókmenntum, kvikmyndum, tónlist, dagblöðum og tímaritum, og starfsmenn eru sérlega færir að vísa fólki leið gegnum frumskóg upplýsinga. Auk þess að eiga feikimikinn safnkost og vera mikilvægur lykill að upplýsingasamfélaginu er bókasafnið staður þar sem einstaklingar mæla sér mót og hópar koma saman. Þar geta ný tengsl myndast og þar má byggja brýr milli menningarheima og þekkingarsviða. En til þess að geta notfært sér þetta verður hver einstaklingur að vita hvar bókasafnið í nágrenni hans er og hvernig hann getur sjálfur notfært sér starfsemi bókasafnsins í sínu eigin lífi. Síðan í febrúar 2008 hef ég verið svo heppin að fá að byggja upp fjölmenningarlegt starf á Borgarbókasafni Reykjavíkur. Fjölmenningarlegu verkefnin ganga út á að tengja innflytjendur við bókasöfnin á fjölbreyttan hátt, vekja athygli á að ólík menning getur auðgað eigin menningu og að miðla þekkingu og menningu milli Íslendinga og innflytjenda. Boðið er uppá lifandi stuðning við íslensku- og móðurmálskennslu, þar sem kennarar koma með hópa af nemendum (fullorðnum sem börnum), fá kynningu um bókasafnið, fara í ratleik og nýta möguleika og gögn safnsins í tungumálakennslunni. Gestirnir fá bókasafnsskírteini og oft verður þessi heimsókn til þess að safnið eignast dygga gesti. Í tveimur söfnum hafa skiptibókamarkaðir verið opnir þar sem hægt er að koma með bækur á erlendum tungumálum og taka sér aðrar í staðinn.

50

Borgarbókasafnið hefur yfirlýsingu IFLA um fjölmenningar­ legt bókasafn að leiðarljósi í þjónustu sinni við innflytjendur. Fjölmenningarleg verkefni Borgarbókasafns eru unnin í samvinnu við ýmsa aðila í samfélaginu og hafa þau verið sett inn í Horft til framtíðar, sem er stefnumótun og aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í málefnum innflytjenda. Aðalmarkmið safnsins er að gera heimsókn á Borgarbókasafn hluta af daglegu lífi innflytjenda, og koma því áleiðis að hér er um að ræða ókeypis þjónustu sem er öllum opin. Hér á eftir er stutt kynning á fjórum verkefnum þar sem áhersla er lögð á að flétta fjölmenningarlegt starf Borgarbóka­ safns inn í skólastarf og stuðla að félagslegum samkomum þvert á aldur og þjóðerni. Fljúgandi teppi – menningarmót í skólum Á menningarmótum sem kölluð eru Fljúgandi teppi fá nemendur, foreldrar og starfsfólk tækifæri til að hittast og kynna menningu sína og áhugamál í hvetjandi umhverfi og á skemmtilegan og lifandi hátt. Menningarmótin hafa verið notuð með góðum árangri bæði í Danmörku og hér á Íslandi. Þau eru yfirleitt haldin í skólum en geta líka farið fram á bókasafninu. Með verkefninu tekur bókasafnið þátt í að stuðla að gagnkvæmri virðingu og skilningi manna á milli.


bókasafnið Í samstarfi við kennara er búinn til vettvangur þar sem allir geta undrast og hrifist af því, sem er líkt og ólíkt í menningu þátttakenda. Hver þátttakandi er með sitt „svæði“ og kynnir sína menningu og áhugamál á margvíslegan hátt. Lögð er áhersla á að ekki sé einungis nauðsynlegt að vinna með þjóðar­menn­ ingu, heldur líka áhugamál og fyrst og fremst það sem skiptir mestu máli í lífi hvers og eins. Þátttakendur mætast í tónlist, dansi, myndlist, bókmenntum, kvikmyndum, matargerð, ævin­ týrum og goðsögnum, frásögnum, leiklist, leik og hreyfingu. Allir eru þátttakendur og áhorfendur um leið. Meira en tuttugu menningarmót hafa nú þegar verið haldin í reykvískum leik- og grunnskólum og tvö á Akranesi. Einnig flaug Fljúgandi teppi inn í Fjölbrautaskólann í Breið­ holti sem hluti af lífsleikniskennslunni og er á leið inn í fleiri framhaldsskóla. Eftir að menningarmót hefur verið haldið í skólum fylgja oft fleiri í kjölfarið – og geta þá þróast í ýmsar áttir. Hægt er að panta kynningu á menningarmótsverkefninu og ef óskað er þá er verkefnastjórinn tilbúinn til að leiðbeina og taka þátt í framkvæmd mótsins. Söguhringur kvenna Söguhringurinn er eitt af lifandi verkefnum Borgarbóka­ safnsins og er í samstarfi við Samtök kvenna af erlendum uppruna. Hér skapast vettvangur þar sem konur, íslenskar og erlendar, skiptast á sögum og reynslu – og skapa saman. Hann er ætlaður konum sem hafa áhuga á notalegri samveru sem byggist meðal annars á því að deila menningarlegum bakgrunni sínum með öðrum. Í söguhringnum gefst konum af erlendum uppruna einnig tækifæri til að tjá sig á íslensku, æfa tungumálið og fræðast um íslenska menningu. Eins árs afmæli Söguhrings kvenna var fagnað 1. nóv­ ember 2009 og var þá mikið fjölmenni og mikil gleði á aðalsafni Borgarbókasafnsins, Tryggvagötu 15. Frú Vigdís Finnbogadóttir afhjúpaði listaverkið Tölum saman sem meðlimir Söguhringsins höfðu unnið í sameiningu undir handleiðslu listakvennanna Fitore Berisha og Helgu Arnalds. Einnig var frumsýnt myndband eftir Helgu Arnalds um sköpunarferli verksins. Fólk af erlendum sem og íslenskum uppruna skemmti viðstöddum með tónlist og dansi og boðið var upp á veitingar. Listaverkið Tölum saman hangir nú uppi á 1. hæð aðalsafns og gleður augu gesta og gangandi. Heilahristingur - heimanámsaðstoð á bókasafninu Heilahristingur er heimanámsaðstoð við nemendur í 5.-10. bekk í grunnskólum Breiðholts og á innflytjendabraut Fjöl­ brautbra­utaskólans í Breiðholti. Tilgangur verkefnisins er að styðja og styrkja nemendur í námi sínu og kynna þeim þá þjónustu sem bókasafnið býður upp á í tengslum við nám, áhugamál, tómstundir og annað. Heimanámsaðstoðin er krydduð með ýmsum skemmtilegum uppákomum, svo sem dansi, kvikmyndasýningum og tónlist. Megináhersla er lögð á að bjóða gott umhverfi sem styður við skapandi barnaog unglingastarf, vekja nemendurna til umhugsunar um

34. árg. 2010

framtíðarmöguleika sína, styrkja sjálfsmynd þeirra og gefa þeim færi á að hitta vini sína og eignast nýja. Heilahristingur er tilraunaverkefni og ef vel tekst til verður boðið upp á heimanámsaðstoð í fleiri hverfum. Heilahristingur fer fram tvo daga í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 14.30 – 16.00. Sjálfboðaliðar leiðbeina nemendunum og eru meðal þeirra framhaldsskólanemendur, háskóla- og kennaranemar sem og kennarar á eftirlaunum. Verkefnið er samstarfsverkefni Borgarbókasafns og Reykja­ víkurdeildar Rauða kross Íslands og er unnið að fyrirmynd dansks verkefnis sem heitir Projekt 100 lektiecaféer. Bókasafnið er hentugt fyrir starfsemi af þessu tagi þar sem það er hlutlaus, afslappaður og óformlegur staður þar sem allir eru velkomnir. Auk þess nýtist safnkostur bókasafnsins vel í námi og leggur starfsfólk sig fram við að aðstoða nemendur og sjálfboðaliða í leit að gögnum og upplýsingum. Reykjavíkurdeild Rauða krossins hefur margra ára reynslu af heimanámsaðstoð og málörvun fyrir yngri bekki grunnskólanna og þekkingu á starfi með sjálfboðaliðum. Verkefnið fékk styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála og frá Menntaráði. Fjölskyldumorgnar á bókasafninu Borgarbókasafn bíður upp á vikulega fjölskyldumorgna í aðalsafni og Gerðubergssafni þar sem fjölskyldum með ung börn er boðið að koma í safnið og eiga þar notalega samverustund. Á safninu eru leikföng og alls kyns bækur fyrir börnin og þeir fullorðnu geta nálgast allt það spennandi efni sem safnið hefur upp á að bjóða, bækur, tónlist, kvikmyndir, blöð og tímarit, auk þess að hitta aðra foreldra til að spjalla, njóta samverunnar og þiggja hressingu. Í aðalsafni er auk þess lesið fyrir eldri börnin og sungið með þeim yngri. Eitt af markmiðum fjölskyldumorgnanna er að veita fjölskyldum ungra barna óformlega fræðslu um ýmis málefni sem varða börn og uppeldi og boðið er upp á kaffisopa. Hægt er að nálgast auglýsingu á 9 tungumálum á heimasíðu safnsins. Fjölskyldumorgnarnir eru samstarfsverkefni Borgarbóka­ safnsins, Menningarmiðstöðvarinnar Gerðubergs og Leikskóla­ sviðs Reykjavíkurborgar. Frekari upplýsingar: Fjölmenningarleg verkefni Borgarbókasafns Reykjavíkur og yfirlýsing IFLA um fjölmenningarlegt bókasafn: http://www.borgarbokasafn.is/desktopdefault.aspx/ tabid-3207/5152_read-12014/ Horft til framtíðar, stefnumótun og aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í málefnum innflytjenda: http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-757/521_ read-14517/ Heilahristingur - heimanámsaðstoð á bókasafninu: http://www.heilahristingur.is Projekt 100 lektiecaféer: http://www.statsbiblioteket.dk/sbci/videncenter/lektiecafe/ lektiecafe

51


bókasafnið

34. árg. 2010

Úlfhildur Dagsdóttir

Líf og fjör í myndasögulandi Í myndasögunni I, Librarian eða Ég, bókavörður, eftir James Turner segir frá bókaverði (og samstarfsfólki hans) sem þarf á hverjum degi að berjast við ýmsar óvættir sem ásælast bókakost safnsins á óheiðarlegan hátt. Sumir reyna að stela bókum meðan aðrir skila seint og illa og bókavörðurinn ferðast um allan heiminn (og geiminn) til að leita uppi skuldseiga lánþega. Daglegt líf bókavarða á Borgarbókasafni Reykjavíkur er þó tæplega svona dramatískt, né felur það í sér mikið af geimferðum, en þó mætti færa rök fyrir því að starfsemin gangi að nokkru leyti út á bardaga við óvættir: í formi sjálfsafgreiðsluvéla. Þar taka bókaverðir og lánþegar höndum saman og takast á við nýja tækni sem á stundum reynist ansi snúin og virðist jafnvel fjandsamleg þegar verst lætur. Lausnin er hinsvegar einföld; vélin er nefnilega myndasaga. Það eina sem þarf að gera er að lesa sig í gegnum þá stuttu og hnitmiðuðu myndasögu sem afgreiðsluvélin kynnir fyrir hverjum lánþega, og skiptir þar miklu að samhæfa lestur á texta og myndum, alveg eins og við lestur á myndasögum. Já, innleiðing sjálfsafgreiðsluvélanna var nefnilega ekki aðeins spurning um nýja tækni í bókavörslu heldur felur hreinlega í sér myndasöguvæðingu alls safnsins. Myndasögudeild aðalsafns fagnar nú tíu ára afmæli sínu, en deildin var stofnuð árið 2000 þegar aðalsafn flutti í nýtt húsnæði að Tryggvagötu 15, Grófarhúsi. Fljótlega stofnuðu önnur söfn Borgarbókasafns myndasögudeildir, og almenningsbókasöfn víða um land einnig. Deildin í aðalsafni er þó enn sem komið er umfangsmest. Myndasögur, sem lengi hafa mátt búa við ýmiskonar fordóma, eru ekki endilega sjálfsagðar á bókasöfnum. Norðurlandabúar hafa þó verið framarlega í því að koma upp myndasögubókasöfnum, og á undanförnum áratugum hefur vegur myndasögunnar á bókasöfnum eflst víða um hinn vestræna heim. Í þessu felst aukin viðurkenning á sérstæðum tjáningarmáta formsins, sem byggir á samspili orða og mynda, en uppgangur myndasagna á bókasöfnum helst að nokkru leyti í hendur við aukna áherslu á að víkka út safnkostinn í stað þess að afmarka hann við hefðbundið lesmál í formi bóka. Þannig felur innleiðing myndasögunnar í sér aukið lýðræði framboðs á efni og víðsýni gagnvart því hvað telst vera við hæfi virðulegra menningarstofnana á borð við bókasöfn. Mótvægið við þessi háleitu markmið er svo einfaldlega lymskuleg tæling. Myndasögur laða að þá tegund lesenda sem hvað síst lætur sjá sig á bókasöfnum, nefnilega unga karlmenn. (Og þegar litið er til þeirrar staðreyndar að starfsfólk bókasafna er að mestu leyti miðaldra konur þá fer þetta að virka verulega vafasamt.) Allt gengur þetta vel, auk þess sem tilkoma vinsælda japanskra myndasagna (manga) laðar einnig að unglingsstúlkur og þannig leggja myndasögudeildir net sín víða. Uppgangur manga er sérlega gott dæmi um þá möguleika sem myndasagan býr yfir. Innan Japan eru myndasögur sjálfsagt lesefni sem höfðar til alls almennings á öllum aldri. Fjölbreytnin er endalaus bæði hvað varðar myndrænt útlit og

52

viðfangsefni, en manga fjallar jafnt um einhverfu og ævi Búdda sem hasar, hrylling og ástir unglinga. Þetta á raunar við um myndasöguformið í heild, en eitt af því sem myndasögudeildir Borgarbókasafnsins hafa sýnt framá er að myndasagan er ekki eitthvað eitt eða einhæft (eða einfalt), innan myndasagna rúmast nákvæmlega jafnfjölbreytt flóra viðfangsefna og innan annarra frásagnarforma (bókmennta og kvikmynda). Þetta er undirstrikað með því að raða safnkostinum upp eftir efni, en í stað þess að hafa allar myndasögur í einfaldri stafrófsröð eru þær flokkaðar (og merktar) í efnisflokka sem gera lánþegum leitina að því efni sem höfðar mest til þeirra aðgengilegri. Bókasafnavæðing myndasögunnar hefur síðan, þegar á heildina er litið, gert myndasöguna aðgengilegri almennum lesendum. Lengi vel hefur myndasagan verið jaðarform, eitthvað sem höfðar til afmarkaðra hópa og þykir ómerkileg fyrir þær sakir. Innan þeirrar nördamenningar sem myndast hefur í kringum myndasögur er hún hinsvegar upphafin, jafnvel göfguð í hugum þeirra sem fylgt hafa eftir krókum og kimum raðsagna sem sumar hafa þrætt sig í gegnum rúmlega hálfa öld. Að mati sumra er myndasagan því sérheimur sem er ekki endilega æskilegt að „utanaðkomandi“ fái aðgang að. Slík viðhorf eru þó ekki endilega holl fyrir myndasöguna sem sjálfstætt listform sem þarf sárlega á aukinni viðurkenningu og útbreiðslu að halda. Bókasöfn leika lykilhlutverk í því að koma myndasögum á framfæri til nýrra lesenda og gera bæði eldri og nýrri lesendum kleift að kynna sér möguleika þessa fjölbreytta forms sem býður ekki aðeins uppá skemmtun, menntun og afþreyingu, heldur líka uppá leiðbeiningar um hvernig á að umgangast sjálfsafgreiðsluvélar.


bókasafnið

Cesar Vallejo

Enginn býr núna í húsinu

34. árg. 2010

og leitarumhverfi má þýða á hvaða tungumál þátttökusafnanna sem er. Að öðru leyti ríkja þrjú tungumál, enska, franska og þýska. Tungumálablandan kemur spánskt fyrir sjónir og hlýtur að teljast lýti á vefnum. Það er umhugsunarefni hvort gagnasöfnunum í íslenska framlaginu sé betur borgið með eða án þeirrar íslensku þýðingar sem nú birtist á hluta vefviðmótsins.

Enginn býr núna í húsinu, segirðu við mig, allir eru farnir. Stofan, svefnherbergið, innigarðurinn, allt er mannlaust. Hvað er einhver þarna eftir. að finna? Enginn er þar lengur. Og þá segi ég við þig: Þegar einhver fer verður Staðurinn þar sem maður Evrópubókasafnið samlag hefur dvalist verður ekki yfirgefinn. Sá staður er aðeins yfirgefinn af mönnum semerenginn komfjörutíu til. Ný húsogerusjö þjóðbókasafna. Samlagið inniheldur ríflega gagnasöfn, meira andvana en gömul vegna þess að veggir þeirra eru gerðir úr steini eða stáli en ekki mönnum.270 Húsið að búa stærð gerð. 180 gagnasöfn verður ekki til þegar lokið er við að byggja það heldur þegarmisjöfn farið er að í því.og Húsið lifirHartnær vegna mannanna eru gegnum vefgátt Evrópubókasafnsins eins og gröfin. Af því spretta ómótstæðileg líkindi milli húss og leitarbær grafar. Nema að því leyti að húsið nærist af er ávísað á hið eigin vefslóð hvers lífi mannsins en gröfin nærist af dauðanum. Þannig stendurog hiðjafnframt fyrra upprétt meðan síðarnefnda liggur og eins. flötum beinum. Tæplega hundrað gagnasöfn eru einungis leitarbær Allir hafa yfirgefið húsið í raun og veru en samt hafa allir orðið um kyrrt, sannleikanum samkvæmt. Ogerþað um eigin vefslóð. Stutt umfangslýsing gefin fyrir sem verður um kyrrt er ekki minningin um þá heldur þeir sjálfir. Þvígagnasafn. er ekki þannig að þeir hafihvort orðið eftir hvert Þarfarið kemur fram gagnasafnið í húsinu heldur halda þeir áfram að búa í því. Athafnir þeirraer ogleitarbært gerðir yfirgefa húsiðvefgátt með lestEvrópubókasafnsins eða flugvél eða gegnum og á hestbaki, fótgangandi eða á fjórum fótum. Það sem dvelur um kyrrt er lífsmagnið, drifkraftur gerandans jafnframt birt eigin vefslóð gagnasafnsins. og hringformsins. Fótatakið hefur horfið, kossarnir, fyrirgefningin, ódæðisverkin. Það sem býr enn í húsinu Á forsíðu vefs Evrópubókasafnsins er ermögulegt Gullbrá og birnirnirvarirnar, þrír. Myndin úr hjartað. bók í stafrænu fóturinn, augunerog Neitunserbnesku og samsinni, gottað ogtakmarka illt, hefur gufað upp. Sá sem hefur aðhafst leitina við flokk gagnasafnalifir með hliðbarnabókasafni. Í þessu gagnasafni er hægt að komast í 127 enn í húsinu.

stæðu innihaldi. Þar raðast saman bókfræðiskrár þjóðbókasafna, stafræn gagnasöfn, hljóðrit og nótur, myndir, handrit, kort, tímarit, barnaefni og síðasti flokkurinn er lokaritgerðir og doktorsritgerðir. Þessi flokkun gefur yfirlit um eðli og innihald gagnasafnanna en mismörg gagnasöfn tilheyra hverjum flokki. Leit í tveimur fyrstnefndu flokkunum getur skilað un eftir árum eða tímabilum er einungis hægt að miða niðurstöðum úr upp undir fimmtíu gagnasöfnum en leit þar við titla tímaritanna. „Stiftisbókasafnið – á eru eg samtals að kalla það svo?“ fimm gagnasöfn falla undir barnaefni, svo að dæmi Á vefsíðu Evrópubókasafnsins fjögur séu tekin. Þegar leit er takmörkuð við lokaritgerðir gagnasöfn undir hatti Íslands. Beinn aðgangur er að „Stiftisbókasafnið – á eg að kalla það svo? – liggur í sama saurnum, sem eg kom því ískila og skildi það í árið (1849)og doktorsritgerðir sér við niðurstöður úr einungis tveimur gagnasöfnum Landsbókasafns, auk þeirra 1850. Það er langt frá mér, að eg sé búinn að skilja við það, því meðan eg er og tóri í Reykjavík – en hér er nú ekki einu gagnasafni. tveggjaorðið fyrrnefndu sem falla undir sameiginlegu vefverandi – ætla eg ekki að sleppa því, en óumræðileg kvöl er að fást við það fyrir þann, sem nokkuð hugsar. Leitarkerfi er hægfara og gáttina.EgÞetta kortavefurinn Forn Íslandskort skrifaðieru stjórnendum safnsins þrisvar árið sem leið um sama hlutinn ogEvrópubókasafnsins bað þá samþykktar á honum, nl. þunglamalegt. Ekki er í boði að sem leitaþeir í öllum http://kort.bok.hi.is/ og Sagnanet http://sagnanet.is/. 10. marz, 15. september og 9. nóvember, og hef enn ekki fengið samþykki, og þó var þetta málefni, höfðugagnahendur að afgjöraum eftirvefgátt nýár 1855. Þetta er nú ekkisöfnunum spaug meðsamtímis aðgjörðaleysi. ár, 1855, 42 endaUmliðið reynir bið eftir hafa niðurstöðum Þessir falið vefirmér eruá ekki leitarbærir Evrópumenn notað lán af safni þessu og fengið að láni 1296 bindi. Bókasafnið hefur keypt 150 bindi og fengið gefins á þolinmæðina þótt minna sé lagt undir. Á vefnum er bókasafnsins en hægt að komast beint í þá um tengil 190 bindi eða númer; því þar í eru bæði talin 87 lagaboð, semvarað eg prakkaði út úr Guðjohnsen af stiftisskrifstofunni við að leita í fleiri en fimmtán gagnasöfnum í í vefslóðina. Á þann hátt er einnig beinn aðgangur að (þó vantar mikið á, að við höfum öll lagaboðin, sem komið hafa síðan alþing reis upp aftur, en þau vildi eg fá) og einu. Á yfirlitssíðu um gagnasöfnin er úr nokkrum Gegni grafskriftir og Tímarit.is. og boðsbréf, sem frá prentsmiðjunni komu. möguleikum að spila við að velja gagnasöfn til að leita Meginstefna Evrópubókasafnsins er að bjóða Úr bréfi Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara og stiftsbókavarðar í Reykjavík tilíJóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn 23. febrúar 1856. samtímis. fjöltyngt notendaviðmót. Samt er talið viðunandi að Úr fórum Jóns Árnasonar, fyrra bindi, Hlaðbúð, Reykjavík, 1950, bls. 51-52. Val eftir löndum gefur kost á að velja í einu lagi öll á sömu síðu geti birst texti á tveimur tungumálum. gagnasöfn viðkomandi lands eða merkja við einstök Þetta táknar í stórum dráttum að efstu lög vefsins

PLÁNETAN 2007

barnabækur. Stafræna serbneska barnabókasafnið var upphaflega liður í alþjóðlegu verkefni sem unnið var á árunum 2002–2007. Berglind Gunnarsdóttir þýddi Afrakstur þess er alþjóðlegt stafrænt barnabókasafn http:// www.childrenslibrary.org/ og serbneska framlagið birtist líka í Evrópubókasafninu.

6

?à >Ì À} ÊUÊxÊÇääÊÇÇÇÊUÊL Ã> >JL Ã> >° ÃÊUÊÜÜܰL Ã> >° Ã

BÓK AS AFNI Ð 32. ÁR G. 2 0 0 8

53


bókasafnið

34. árg. 2010

Bækur og líf Bók í hönd og þér halda engin bönd Gaman er að liggja og lesa langar nætur upp í bæli söguskruddur, skræður, pésa, skýrslur, ljóð og eftirmæli. Þegar ég var lítil fannst mér alls ekki óraunhæft að komast yfir að lesa allar þær bækur sem mig langaði virkilega til. Kannski af því ég vissi ekki þá hvað mikið var til af bókum í heiminum. Það gat reyndar verið snúið að komast yfir þær sumar. En svo breyttist tíðin. Aðgangur að æ fleiri bókum opnaðist á sama tíma og ekki lengur taldist við hæfi að liggja sumardaga eða sunnudaga langa flöt yfir bók. Nú finnst mér lífið vera eilíf barátta um að ná að lesa allt sem ég vil og þarf. Ég nota ýmis ráð til að vinna bug á þessum vanda. Ein er að fara aldrei út úr húsi án bókar ef vera skildi að gæfist einhvers staðar á annasömum degi næði til lesturs. Biðröð í Bónus getur reynst drjúg. Það fór með mig eins og Guðmund á Mýrum sem borðar bækur, það byrjaði upp á grín en varð svo kækur. Guðrún Geirsdóttir

Bækur eru þykkar, þunnar, þungar, léttar, djúpar, grunnar, óþekktar og öllum kunnar, augu og eyru, nef og munnar. Bækur hafa alltaf verið mér stórigaldur. Ekkert í heiminum finnst mér merkilegra en hægt skuli vera að raða táknum saman á síður og á þann hátt færa hugsanir, langanir og skoðanir annarra yfir í kollinn á mér. Þessi merkilegi galdur hefur opnað mér dyr að hugmyndum sem voru hugsaðar hér heima eða langt úti í heimi, af samtímafólki jafnt sem löngu dánu liði og – þökk sé þýðendum og tungumálakennurum – á ýmsum tungumálum. Mér finnst það galdur hvernig orð á síðum geta fengið mig til að hlæja dátt uppi í rúmi að kvöldlagi eða gráta með ekkasogum í biðröð á flugvelli. Ég varð snemma bókaormur sem fór sem engisprettufaraldur um bókahillur bókasafna og heimila. Stökk fimlega yfir ímyndaðar hindranir á borð við stráka- og stelpubækur eða barna- og fullorðinsbækur. Las undir sæng með vasaljósi, ætlaði að keyra Bókabílinn þegar ég fengi bílpróf og dreymdi um framtíðarstörf í bókabúð. Bækur urðu þannig fljótt stór hluti af lífinu og á köflum lífið sjálft.

54

Ótal bækur bíða í hillum, blína út í næturhúmið troðfullar af visku og villum, vilja komast með í rúmið. Sem bókafíkill skráði ég mig í janúar í fyrsta sinn á námskeið um jólabækurnar hjá Endurmenntun. Hvötin var að fá löglega ástæðu til að liggja í jólabókunum. Námskeiðið var gott og ég lærði margt en líklega hefur minn mesti lærdómur ekki verið á námskrá kennarans. Ég uppgötvaði sem sagt að í æsingnum yfir að komast yfir sem flestar bækur undanfarna áratugi hafði ég tapað því að njóta. Að lesa hægt, að lesa síðuna aftur, lesa bókina aftur, stoppa og hugsa, ná sambandi við höfundinn og eiga við hann þögult samtal. Ég er enn að æfa mig í að njóta – þó hún sé óþægileg sú tilfinning að þannig muni ég ekki ná að lesa nærri nógu margar bækur áður en ég dey. En ef vel tekst til í þessu lífi þá lendi ég á betri staðnum sem hlýtur að vera bókasafn opið til eilífðar. Þar er sól og þar er bylur, þar er sorg og mikil kæti, þar er allt sem þjóðin skilur: Þögn og ró og skrípalæti. (Þórarinn Eldjárn, Bækur úr Gælur, fælur og þvælur)


bókasafnið

34. árg. 2010

Leitin að Karíusi og Baktusi Bækur eru blessunarlega hluti af lífi okkar flestra. Sumir lesa meira og aðrir minna, eins og gengur, en fæst gætum við trúlega ímyndað okkur heim án bóka. Margir eiga sér eftirlætisbók, bók sem lesin er reglulega en bíður lúin uppí hillu þess á milli. Sumir eiga sér eftirlætissögu hetju eða rithöfund, hafa lesið allt Birta Björnsdóttir útgefið um ævi og örlög söguhetjunnar eða bíða spenntir eftir nýrri afurð frá rithöfundinum. Þá eru aðrir sem lesa allt sem að augum kemur, lestrarhestar sem ganga út af bókasöfnum með troðfulla plastpoka af fróðleik og upplifunum í formi bóka. Best er þegar bækurnar sem við lesum, atburðir þeirra og aðalpersónur lifa með okkur að lestri loknum. Margir hugsa reglulega til eftirlætisbóka sinna eða rifja upp söguþráð úr bók sem þeir hafa nýlokið. Svo eru það persónur úr bókum sem verða hluti af manns daglega lífi, félagar sem reglulega er vísað til í samtölum heimilismanna. Þetta á ekki síst við um yngstu kynslóðina. Á mínu heimili upphefst til dæmis mikil leit að Karíusi og Baktusi uppí munni fjögurra ára dóttur minnar á hverju kvöldi. Tennurnar verður að bursta nógu vel svo þessi hugarfóstur Torbjörns Egners taki sér þar ekki bólfestu.

Þegar barnaskarinn er borinn sofandi á milli rúma, eins og oft vil verða, liggur beint við að minnast Soffíu frænku úr Kardimommubænum, þó mannrán sé hreint ekki á dagskránni. Sex mánaða sonur minn hefur enn ekki þróað með sér sinn eigin smekk á bókum, hann er spenntur fyrir þeim öllum og treður þeim umsvifalaust uppí sig. Fyrir vikið fær hann viðurnefnið Guðmundur á Mýrum. Téður Guðmundur var nefnilega, samkvæmt ljóði Þórarins Eldjárns, í banni á bókasöfnum vegna þess að hann lagði bækur sér til munns. Nú þegar svo eldri systirin þykir ganga full harkalega fram í elskusemi sinni á litla bróður er oftar en ekki talað um 111. meðferð á börnum. Þar er vísað til misskilnings sem átti sér stað hjá Ljósvíkingnum Ólafi Kárasyni þegar hann var að reyna að stauta sig fram úr texta þar sem fjallað var um illa meðferð á skepnum í Heimsljósi Halldórs Laxness. Þegar svo slettist eitthvað uppá samlyndi heimilismanna má að lokum alltaf hóta flutningum og grípa til frasans góða: „Ég hef flött…“, orðin sem Lotta í Ólátagötu páraði á pappír rétt áður en hún flutti yfir til Frú Berg, þjökuð af samviskubiti yfir því að hafa klippt gat á peysuna sína, í Lotta flytur að heiman eftir Astrid Lindgren. Þegar börn alast upp við að vísað sé til persóna og atburða í bókum, venjast þau því að bækur og lestur þeirra verði hluti af daglegu lífi. Það getur nú varla talist slæmt veganesti.

„Alltaf gengur eitthvað, þegar að er verið“ Eg get ekkert gjört fyrir stiftisbókasafnið, því er ver, á meðan allt gengur eins og það hefur gengið, en eg er nú heldur að vona að réttist úr því, og er þá engu öðru að þakka en afskiptum Rafns; því núna á hálfum mánuði hafa verið haldnir 2 fundir, hinn fyrri til að útgera um 3 nauðsynjamál þess, sem eg hef skrifað þeim þrisvar um síðan í marzm. 1855, og eru þau öll útkljáð eins og eg fór fram á, svo hér sannast þó það, sem þér segið einhvers staðar í nýjum Félagsritum: „Alltaf gengur eitthvað, þegar að er verið.“ Úr bréfi Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara og stiftsbókavarðar í Reykjavík til Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn 21. maí 1856. Úr fórum Jóns Árnasonar, fyrra bindi, Hlaðbúð, Reykjavík, 1950, bls. 58.

55


Bækur og líf Af góðum og vondum bókum

Eydís Hörn Hermannsdóttir

Frá fyrstu kynnum hefur mér þótt vænt um bækur. Eiginlega um of á tímabili þar sem mér nægði ekki að leggja bókina frá mér á náttborðið heldur bjó um hana á mjúku beði og breiddi jafnvel eitthvað yfir hana til hálfs áður en ég lagðist til svefns. Oftar en ekki læddist inn samviskubit yfir að hafa gert bókunum mishátt undir höfði og ég þurfti að fara aftur á fætur og gera eitthvað fyrir hinar bækurnar. Það var ekki bara innihald bóka sem skipti mig máli, útlit, viðkoma og titill hafði mikið að segja. Ég hafði unun af því að fletta bókum, finna pappírinn og heyra skrjáfið og eyddi drjúgum stundum á bókasöfnum þar sem ég horfði á endalausar raðir af bókum og lét mig dreyma um að fá að raða þeim upp á nýtt. Kannski eftir lit eða stórar og litlar á víxl. Sumar bækur drógu að sér athygli en innhaldið olli vonbrigðum. Ég gerði til dæmis ítrekaðar tilraunir til þess að skilja bókina Nú er tréfótur dauður vegna þess að hún kallaði nánast á mig þar sem hún stóð í bókahillunni, lítil, létt, pappírinn mattur eins og ég vildi helst hafa hann og titillinn kom af stað ótal hugsunum: Hver er Tréfótur (hljómar sjóræningjalega), úr hverju dó hann, hvaða áhrif hafði dauði hans fyrst hægt var að skrifa heila bók um það? Ég náði ekki almennilega þræðinum en mér skildist fljótlega að Tréfótur væri ekki söguhetja eins og ég átti að venjast. Bókin var samt í uppáhaldi hjá mér lengi. Öfugt við Tréfót var bókin Fílar gleyma engu eftir Agöthu Christie ólesanleg vegna útlits. Ég hafði lesið allar Agöthubækur sem ég komst í tæri við en þessi var til heima í ómögulegri útgáfu. Fyrir utan ljóta kápumynd voru hlutföll bókarinnar óvenjuleg, kápan var lin og blaðsíðurnar hálfglansandi. Að útliti slepptu var ég opin fyrir flestum tegundum bóka en tók þó ævintýri fram yfir annað. Fræðslubækur þóttu mér frekar leiðinlegar og tilgangslausar. Síst vildi ég lesa sögur sem gerðust á Íslandi í nútímanum og best var ef land í fjarska kom við sögu. Sögur um munaðarlausa drengi sem lentu í hrakningum en stóðu sig eins og hetjur og lentu að lokum

56

hjá góðu fólki voru lengi í uppáhaldi. Þegar ég var 10 ára vakti bókin Skræpótti fuglinn eftir Jerzy Kosinski athygli mína í einni bókahillunni heima. Sagan gerist í Austur-Evrópu án þess að talað sé um lönd og ég hafði aðeins óljósa hugmynd um staðsetninguna. Í stuttu máli segir þarna frá grimmd, fáfræði og hræðslu mannskepnunnar séð með augum og skilningi ungs drengs. Margir urðu til að hrylla sig yfir því að ég skyldi lesa svo ljóta sögu og augljóslega átti margt í henni ekkert erindi við börn. Ég held samt að takmarkaður skilningur minn hafi hlíft mér og ég séð atburðina á svipaðan hátt og söguhetjan. Ég vorkenndi til dæmis skræpótta fuglinum sem sagt er frá í inngangi bókarinnar mun meira en mörgu af því fólki sem hlaut hræðileg örlög í sögunni. Skræpótti fuglinn vakti áhuga minn á þessu stórfenglega landi í fjarska og ég leitaði að fleiri slíkum bókum. Eftir nokkra leit fann ég Berfætlinga eftir Zaharia Stancu og síðar Meðan eldarnir brenna sem rauk upp í fyrsta sæti. Ég fylgdi líka Maxím Gorkí eftir þar til hann komst á fullorðinsár og varð hálfleiðinlegur. Í tvö ár renndi ég mér á sleða í nístandi kulda dúðuð í feldi eða hossaðist á vagnskrifli undir brennandi sumarsól. Ég ferðaðist um borgir og bæi í Rússlandi, norður til Síberíu undir verndarvæng kósakka sem reyndust svo skúrkar en ekki hetjur, fram og til baka í gegnum flest lönd í AusturEvrópu og endaði að lokum á grískri eyju með bókunum Frelsið eða dauðann og Sól dauðans. Eftir að ég náði þessum gífurlega þroska sem einkennir mig í dag hef ég lesið allar þessar bækur aftur. Ég komst að því að sums staðar mátti klárlega lesa annað út úr atburðum en ég hafði gert sem barn, Mikalis höfuðsmaður sem hafði borið höfuð og herðar yfir aðra og haft réttlæti að leiðarljósi reyndist óforbetranleg karlremba og veiklundaður afturhaldsseggur á meðan móðir Maxíms Gorkí hafði örugglega dáið gegn vilja sínum og ekki við hana að sakast. Þegar ég hafði lokið lestri þessara verka fannst mér ég hafa lesið allt. Aldrei myndi neitt ná slíkum hæðum aftur, ég hafði lesið það sem máli skipti. Ég sneri mér því að meira léttmeti og las Grím grallara og fleiri grínbækur af svo miklu kappi að faðir minn fékk áhyggjukast yfir stöðnun og forheimskandi innrætingu. Í lífi mínu hafa komið nokkrir slíkir lestrarkaflar þar sem ég heillast af landsvæði, fólki eða atburðum og les allt sem ég finn um efnið. Þegar ég komst yfir andúð mína á raunveruleikanum hafði ég gjarnan landafræðibækur við hendina eða önnur uppflettirit og bar saman. Engar bækur hafa þó haft eins gríðarleg áhrif á mig og þær sem ég hef nefnt hér að framan og ég er afskaplega ánægð með að hafa ratað á þær fyrir fullorðinsaldur. Ef ég væri að lesa þær í fyrsta skipti í dag myndu þær eflaust verða til að veikja trú mína á mannkyninu, valda áhyggjum af þjóðarhreinsunum nútímans og grimmdinni sem leynist alls staðar. Sem barn sá ég hvað var rétt og hvað rangt, hver var góður og hver vondur og þótt þeir góðu fengju skell vissi ég að þeir myndu sigra að lokum, annars gæti heimurinn bara ekki virkað.


bókasafnið

Færeyjarför sumarið 2007 (Glepsur úr dagbók)

Sigurður Jón Ólafsson

6. júlí Stundum gerist ýmislegt óvænt. Maður úthugsar einhverja áætlun sem breytist fyrirvaralaust og þá gerist eitthvað skemmtilegt. Ætlaði að Kirkjubæ en ók nokkra kílómetra í talsverðri þoku og loks þegar við vorum komin niðrúr henni kom í ljós að við vorum komin langleiðina til Vestmanna. Í Vestmanna búa um 1500 manns. Þaðan eru gerðir út bátar til fugla- og útsýnisskoðunar fyrir ferðamenn. Við ákváðum auðvitað, fyrst við vorum komin hingað á annað borð, að grípa tækifærið og fara í siglingu. Siglingin var ævintýri líkust. Við sigldum meðfram hömrum girtri suðvesturströnd Straumeyjar eða Vestmannafuglaklettum. Þarna var krökkt af sjófugli en það voru ekki þeir sem heilluðu okkur mest heldur þessi hrikalega og stórfenglega náttúra. Toppurinn á ferðinni var þegar við sigldum gegnum helli sem var ekki stærri en svo að báturinn rétt komst þar í gegn. En það heppnast ekki í öllum ferðum. Danskur ferðamaður sagði við mig: Den tur var helt fantastisk. Amríski túristinn kvað þó sterkara að orði þegar hann sagði við eiginkonu sína: I would have married you for this moment of our life! 10. júlí Nólsoy er lítil eyja skammt frá Þórshöfn. Þar búa um 200 manns og sækja flestir vinnu í Þórshöfn. Til Nólseyjar er ekki nema tæpra hálftíma stím með bátnum sem þangað fer nokkrum sinnum á dag með farþega og nauðsynlegan varning enda eina samgönguleiðin. Báturinn, Ritan, er kominn til ára sinna

34. árg. 2010

enda hafa Nólseyingar gert þá kröfu að fá nýjan bát og þyrlupall fyrir sjúkraflug. Nólsey má muna sinn fífil fegurri. Við ströndina eru verbúðir og bátalægi sem lengi hafa staðið ónýtt. Inngangurinn í þorpið, sem ber sama nafn og eyjan, eru bogadregin hvalbein sem mynda einskonar hlið. Eyjan er kannski ekki eins lítil og ætla mætti í fyrstu. Hún býður uppá ýmsa möguleika til gönguferða enda voru þeir ferðalangar sem með okkur voru flestir að fara í göngu um eyjuna. Við ætluðum á hinn bóginn að halda okkur við þorpið, skynja andrúmsloftið þar og eftilvill komast í kynni við eyjarskeggja. Eitt það fyrsta sem maður rekur augun í þegar komið er til þessarar eyju er minningarsteinn, rétt við áðurnefndan inngang, reistur til heiðurs Ove Joensen, sem vann það einstæða afrek að sigla einn á opnum báti til Löngulínu í Kaupmannahöfn með viðkomu á Hjaltlandi og Limafirði. Lagði hann að landi þarsem Litla hafmeyjan er. Þetta einstæða afrek vann hann á því herrans ári 1986. Það tók 41 dag að sigla þessa leið. Báturinn, sem er til sýnis í Nólsey, heitir því virðulega nafni Dana Victoria. Tilgangurinn með þessari einstæðu för var að afla peninga fyrir byggingu sundlaugar á eynni. Það fylgir sögunni að aðeins þremur mánuðum síðar hafi hann hrasað á hálku á bryggjunni með þeim afleiðingum að hann dó af völdum höfuðhöggs. Við spurðum hvernig við kæmumst í byggðasafnið. Svarið var: Hafið samband við konuna á pósthúsinu. Pósthúsið er opið klukkustund dag hvern. Hitti ykkur við húsið þegar ég er búin að loka, sagði konan á pósthúsinu. Við vissum ekki hvert þessara húsa væri byggðasafn og því þurfti hún að leita okkur uppi. Byggðasafnið er fyrrum íbúðarhúsnæði heldra fólks. Það var reist á 17du öld og bjuggu sömu ættliðir í því í þrjár aldir eða til 1960 þegar síðasti íbúinn flutti. Einhverjir vildu rífa þetta húsnæði en húsfriðunarfólki, þám pósthúskonunni, tókst að koma í veg fyrir það og var þá ákveðið að gera það að safni. Þarna eru ma margir merkilegir munir sem tilheyrt hafa húsinu svo að segja frá upphafi. Meðal merkra gripa er þarna færeyskur rokkur sem er allnokkru stærri en sá sem við þekkjum. Þegar báturinn leggur að safnast þeir saman við minnismerkið gömlu sjómennirnir sem nú eru komnir á eftirlaun. Á þessari eyju þarsem tíminn stendur næstum krafkjur, en andrúmsloftið er þægilegt, friðsælt og afslappað. Þegar báturinn lagði að með varning mátti ma greina í blaðabunkanum dreifirit frá Bónus. Jafnvel þessi friðsæla eyja fer ekki varhluta af áróðri Bónusveldisins.

57


bókasafnið

34. árg. 2010

Afgreiðslutími safna Biskupsstofa – bókasafn

Kirkjuhúsinu Laugavegi 31, 101 Reykjavík Sími: 528 4003, símbréf: 528 4099 Netfang: ragnhildur.bragadottir@kirkjan.is Veffang: www.kirkjan.is/biskupsstofa Mánud.-föstud. kl. 8.30-16 Lokað í hádeginu

Blindrabókasafn Íslands

Digranesvegi 5, 200 Kópavogur Sími: 545-4900, símbréf: 545-4906 Netfang: blibok@bbi.is Veffang: www.bbi.is Útláns- og símatími: mánud.-föstud. kl. 10-16

Bóka- og heimildasafn Þjóðminjasafns Íslands

Setbergi, Suðurgötu 43, 101 Reykjavík. Sími: 530 2247/530 2200 Netfang: groa@thjodminjasafn.is Veffang: http://www.natmus.is/fyrir-gesti/boka-og-heimildasafn Opið: mánud.-föstud. kl. 13-16 Lokað um mánaðartíma á sumrin.

Bókasafn og upplýsingaþjónusta Listaháskóla Íslands Skipholti 1, 105 Reykjavík Aðalnúmer: 545 2217/552 4000 Netfang: bokasafn@lhi.is Veffang: http://bokasafn.lhi.is

Aðalsafn - hönnunar- og arkitektúrdeild Skipholti 1, 105 Reykjavík Sími: 545 2217, símbréf: 562 3629 Mánud.-föstud. kl. 8.30-16.00 Myndlistar og listkennsludeild Laugarnesvegi 91, 105 Reykjavík Sími: 520 2402, símbréf: 520 2409 Mánud.-föstud. kl. 9.00-16.30 Leiklistar- og tónlistardeild Sölvhólsgötu 13, 101 Reykjavík Sími: 545 2295, símbréf 561 6314 Mánud.-föstud. kl. 8.30-16.00

Hagstofa Íslands - bókasafn Borgartúni 21a, 105 Reykjavík. Sími: 528 1100, símbréf: 528 1098 Netfang: upplysingar@hagstofa.is Veffang: www.hagstofa.is Mánud.-föstud. kl. 8.30-16

58

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn Arngrímsgötu 3, 107 Reykjavík. Sími: 525 5600, símbréf: 525 5615 Netfang: lbs@bok.hi.is Veffang: http://landsbokasafn.is/

Afgreiðslutími 1. sept.–16. maí: Almennt safnrými á 2., 3. og 4. hæð Mánud.-fimmtud. kl. 8.15-22, föstud. kl. 8.15-19, laugard. kl. 10-17, sunnud. kl. 11-17 Þjóðdeild á 1. hæð Mánud.-fimmtud. kl. 8.15-19, föstud. kl. 8.15-17, laugard. kl. 10-17, sunnud. lokað Handritadeild á 1. hæð Mánud.-föstud. kl. 9-17, laugard. og sunnud. lokað Handrit eru sótt í geymslu kl. 10 og 14 þá daga sem opið er Upplýsingaþjónusta á 2. hæð Mánud.-föstud. kl. 8.15-17, laugard. og sunnud. lokað Afgreiðslutími 17. maí–31. ágúst: Almennt safnrými á 2., 3. og 4. hæð Mánud.-föstud. kl. 9-17, laugard.10-14 (lokað 17.júní – 16. ágúst) sunnud. lokað Þjóðdeild á 1. hæð Mánud.-föstud. 9-17, laugard. og sunnud. lokað Þjóðdeild, handritadeild á 1. hæð Mánud.-föstud. 9-17, laugard. og sunnud. lokað Upplýsingaþjónusta Mánud.–föstud. kl. 9-16, laugard. og sunnud. lokað

Bókasafn Menntavísindasviðs Háskóla Íslands v/Stakkahlíð, 105 Reykjavík Sími 525 5930, símbréf: 525 5597 Netfang: menntavisindasafn@hi.is Veffang: www.mennta.hi.is/bokasafn Vetur: mánud.-föstud. kl. 08.00-18.00, laugard. kl. 10.00-15.00 Sumar: 09.00-16.00, lokað laugardaga

Myndlistaskólinn í Reykjavík – bókasafn Hringbraut 121, 107 Reykjavík Sími: 5614988 / 5511990 Netfang: bokasafn@myndlistaskolinn.is Veffang: http://myndlistaskolinn.is Mánudaga-föstudaga kl. 9.00 -14.00


bókasafnið Náttúrufræðistofnun Íslands - bókasafn Hlemmi 3, Reykjavík. Sími: 590 0500, símbréf: 590 0595 Netfang: bokasafn@ni.is Veffang: www.ni.is Mánud.-föstud. kl. 8.30-16

Norræna húsið - bókasafn

Sturlugötu 5, 101 Reykjavík Sími: 551 7090, 551 7030, símbréf: 552 6476 Netfang: nordlib@nordice.is Veffang: www.nordice.is Alla daga frá kl. 12-17

Safn Ríkisútvarpsins

Efstaleiti 1, 150 Reykjavík Sími: 515 3151, símbréf: 515 3010 Netfang: safn@ruv.is Veffang: www.ruv.is Vetur: mánud.-föstud. kl. 09.00-17.00 Sumar: 09.00-16.00

REYKJAVÍK Borgarbókasafn Reykjavíkur

Tryggvagötu 15, 101 Reykjavík Sími: 411 6100, símbréf: 411 6159 Skrifstofa opin: mánud.-föstud. kl. 10-16 Netfang: borgarbokasafn@borgarbokasafn.is Sjá nánar opnunartíma á heimasíðu: Veffang: www.borgarbokasafn.is Ennfremur: www.bokmenntir.is www.literature.is www.artotek.is Aðalsafn Grófarhúsi Tryggvagötu 15, 101 Reykjavík Sími: 411 6100 Ársafn Hraunbæ 119, 110 Árbær Sími 557 7119 Foldasafn Grafarvogskirkju v/Fjörgyn, 112 Reykjavík Sími: 411 6230 Gerðubergssafn Gerðubergi 3-5,111 Reykjavík Sími: 557 9122 Kringlusafn í Borgarleikhúsi Listabraut 3,103 Reykjavík Sími: 580 6200 Seljasafn Hólmaseli 4-6, 109 Reykjavík Sími: 587 3320 Sólheimasafn Sólheimum 27, 104 Reykjavík Sími: 411 6160 Bókabíll Bækistöð í Kringlusafni, sími: 699 0316

34. árg. 2010

REYKJANES Bókasafn Grindavíkur

Víkurbraut 62, 240 Grindavík Sími: 420 1108, símbréf: 420 1111 Netfang: bokasafn@grindavik.is Veffang: www.grindavik.is/bokasafn Mánud.-föstud. opið kl. 11-18 Frá 1. okt.-31. maí er einnig opið laugard. kl. 11-13

Bókasafn Reykjanesbæjar

Kjarna, Hafnargötu 57, 230 Reykjanesbær Sími: 421 6770, símbréf: 421 3150 Netfang: bokasafn@reykjanesbaer.is Veffang: www.reykjanesbaer.is/bokasafn Vetur: mánud.-föstud. kl. 10-19, laugard. kl. 10-16 Sumar: mánud.-föstud. kl. 10-19

Bókasafn Hafnarfjarðar

Strandgötu 1, 220 Hafnarfjörður Sími: 585 5690, símbréf: 585 5689 Netfang: bokasafn@hafnarfjordur.is Veffang: www.hafnarfjordur.is/bokasafn/ Mánud.-föstud. kl. 10-19, nema fimmtud. kl. 9-19, laugard. (1. okt.-31. maí) kl. 11-15 Tónlistardeildin er opin á sama tíma.

Bókasafn Álftaness

Álftanesskóla, 225 Álftanes Sími: 540 4708, Netfang: gudrun.gisladottir@alftanesskoli.is Veffang: www.alftanes.is/thjonusta/bokasafn Mánud. og fimmtud. kl. 16-19, miðvikud. kl. 16-21

Bókasafn Garðabæjar

Garðatorgi 7, 210 Garðabær Sími: 525 8550, símbréf: 565 8680 Netfang: bokasafn@gardabaer.is Veffang: www.gardabaer.is/bokasafn Mánud.-föstud. kl. 9-19, Fyrsta föstud. hvers mánaðar kl. 11-19 laugard. (1. okt.- 15. maí) kl. 11-15

Bókasafn Kópavogs - Aðalsafn

Hamraborg 6a, 200 Kópavogur Sími: 570 0450, símbréf: 570 0451 Netfang: bokasafn@kopavogur.is Veffang: www.bokasafnkopavogs.is Mánud.-fimmtud. kl. 10-20, föstud. kl. 11-17, laugard. og sunnud. kl. 13-17

Bókasafn Kópavogs - Lindasafn Núpalind 7, 200 Kópavogur Sími 564 0621 Netfang: lindasafn@kopavogur.is Sept.-maí: mánud.-fimmtud. kl. 14-19, föstud. kl. 14-17, laugardaga kl. 11-14 Júní- ágúst: mánud.- fimmtud. kl. 12-18, föstud. kl. 12-16

Bókasafn Seltjarnarness

Eiðistorg 11, 172 Seltjarnarnes Sími: 595 9170, símbréf 595 9176 Netfang: bokasafn@seltjarnarnes.is Veffang: www.seltjarnarnes.is/bokasafn Mánud.- fimmtud. kl. 10-19, föstudaga 10-17

59


bókasafnið

34. árg. 2010

Bókasafn Mosfellsbæjar

Kjarna, Þverholti 2, 270 Mosfellsbær Sími: 566 6822, 566 6860, símbréf 566 8114 Netfang: bokasafn@mos.is Veffang: www.mos.is/bokasafn Mánud.–föstud. kl. 12-19, auk þess miðvikud. frá kl. 10 og laugard. kl. 12-15 Upplýsingar í síma og aðgangur að Interneti og dagblöðum frá kl. 8 mánud.-föstud. Listasalur Mosfellsbæjar opinn á afgreiðslutíma safnsins

VESTURLAND Bókasafn Akraness

Heiðarbraut 40, 300 Akranes Sími: 433 1200, símbréf: 433 1201 Netfang: bokasafn@akranes.is Veffang: www.akranes.is/bokasafn Mánud.-fimmtud. kl. 11-19, föstud. kl. 11-18, laugard. kl. 11-14 (okt.-apríl) Lesstofa er opin yfir vetrarmánuði kl. 8-19.45 virka daga, en á afgreiðslutíma safnsins yfir sumarið

Héraðsbókasafn Borgarfjarðar Safnahúsi Borgarfjarðar Bjarnarbraut 4-6, 310 Borgarnesi Sími: 430 7200 Netfang: bokasafn@safnahus.is Veffang: www.safnahus.is Opnunartími: kl. 13-18 alla virka daga

Snorrastofa – bókhlaða Reykholti, 320 Reykholt Sími 433 8006 Netfang: gislina@snorrastofa.is Veffang: www.snorrastofa.is Mánud.-föstud. kl. 9-17

Amtsbókasafnið í Stykkishólmi

Hafnargötu 3, 340 Stykkishólmur Sími: 433 8160 Netfang: amtsty@stykkisholmur.is Vetur: mánud.-fimmtud. kl. 14-18.30 og föstud. kl. 13-17.30 Sumar: þriðjud.-fimmtud. kl. 14.30-18.30 og föstud. kl. 13-17

Bókasafn Snæfellsbæjar

Hjarðartúni 6, 355 Ólafsvík Sími: 433-6928 Netfang: bokasafn@snb.is Veffang: www.snb.is/bokasafn Mánud. og miðvikud. kl 16-18, einnig miðvikud. kl. 20-22 þriðjud, og fimmtud. kl. 10-13, föstud. kl. 13-15 Sumaropnun auglýst sérstaklega

VESTFIRÐIR Héraðsbókasafn V-Barðastrandarsýslu

Patreksskóla, Aðalstræti 53, 450 Patreksfjörður Sími: 456 1527 Netfang: bokpatro@vesturbyggd.is Sept.-apríl: mánud.-miðvikud. kl. 14-18, fimmtud. kl. 19.30-21.30 Maí-ágúst: þriðjud. kl. 13-18, fimmtud. kl. 19.30-21.30

60

Bókasafn Bolungarvíkur

Höfðastíg 3-5, 415 Bolungarvík Sími: 456 7194 Netfang: bsafn@bolungarvik.is Þriðjud. og miðvikud. kl. 15-18, fimmtud. kl. 15-19 Á skólatíma er einnig opið kl. 9-12 Sumaropnun 1. júní- 31. ágúst: Þriðjud. og fimmtud. kl. 17-19

Bæjar- og héraðsbókasafnið Ísafirði

Eyrartúni, 400 Ísafjörður Sími: 450 8220, 895 7138, símbréf: 450 8229 Netfang: bokasafn@isafjordur.is Veffang: http://safn.isafjordur.is Netskrá: http://marc.isafjordur.is/mikromarc Útlán í aðalsafni: mánud.-föstud. kl. 13-19, laugard. kl. 13-16 Upplýsingaþjónusta um síma eða net frá kl. 10 til 19 virka daga og laugardaga kl. 13-16

NORÐURLAND VESTRA Héraðsbókasafn V-Húnavatnssýslu Höfðabraut 6, 530 Hvammstangi Sími: 451 2607 Netfang: bokasafn@hunathing.is Mánud. kl. 14-18, miðvikud. kl. 10-20, fimmtud. kl. 10-18, föstud. kl. 14-18 Skjalasafnið er opið fimmtud. kl. 14-19

Héraðsbókasafn A-Húnavatnssýslu Hnjúkabyggð 30, 540 Blönduós Sími: 452 4415 Netfang: bokhun@simnet.is Mánud. og föstud. kl. 15-18, miðvikud. kl. 16-21 Í júlí-ágúst er opið á miðvikud. kl. 16-21

Héraðsbókasafn Skagfirðinga

Safnahúsinu v/Faxatorg, 550 Sauðárkrókur Sími: 453 5424, símbréf: 453 6460 Netfang: bokasafn@krokur.is Veffang: www.bokasafn.skagafjordur.is Mánud.-miðvikud. kl. 12-19, fimmtud. kl. 12-20, föstud. kl. 12-18 Í júlí-ágúst er opið mánud.-miðvikud. kl. 12-19, fimmtud. kl.12-20 Lokað á föstud.

Bókasafn Siglufjarðar

Gránugötu 24, 580 Siglufjörður Sími: 464 9120, símbréf: 464 9101 Netfang: bokasafn@siglo.is Þriðjud., miðvikud. og föstud. kl. 14-17.30, fimmtud. kl. 14-18

NORÐURLAND EYSTRA Bókasafn Háskólans á Akureyri v/Norðurslóð, 600 Akureyri Sími 460 8050, símbréf 460 8994 Netfang: bsha@unak.is Veffang: www.unak.is/bokasafn Vetur: mánud.-föstud. kl. 08.00-18.00, laugard. kl. 12.00-15.00 Sumar: 08.00-16.00, lokað á laugardögum


bókasafnið Bókasafn Dalvíkurbyggðar

og Héraðsskjalasafn Svarfdæla Bergi menningarhúsi, 620 Dalvík, Sími: 460 4930, símbréf: 460 4901 Netfang: sigurlaug@dalvik.is, dalbok@dalvik.is Veffang: http://www.dalvik.is/bokasafn Opið mánud.-fimmtud. kl. 12-18 og föstud. kl. 12-17

Bókasafnið á Húsavík

Stóragarði 17, 640 Húsavík. Sími: 464 6165 Netfang: bokasafn@nordurthing.is Veffang: http://bokasafn.nordurthing.is Mánud.-fimmtud. kl. 10-18, föstud. kl. 10-17

Bókasafn Öxarfjarðar

Snartarstöðum, 671 Kópasker Sími: 465 2171 Netfang: boknord@islandia.is Veffang: www.islandia.is/boknord Þriðjud. kl. 13-18, fimmtud. kl. 13-16, laugard. kl. 13-15 Á sumrin er lokað á laugardögum

AUSTURLAND Bókasafn Héraðsbúa Laufskógum 1, 700 Egilsstaðir Sími: 471 1546, símbréf: 471 1452 Netfang: bokasafn@austurland.is Mánud.-föstud. kl. 14-19

Bókasafn Seyðisfjarðar

Austurvegi 4, 710 Seyðisfjörður Sími: 472 1384 Netfang: bokasafn@sfk.is Veffang: www.sfk.is/bokasafn Sept.-maí: mánud. kl. 15-19, þriðjud.-föstud. kl. 15-18 Júní-ágúst: mánud.-fimmtud. 16-18

Menningarmiðstöð Hornafjarðar - bókasafn

Nýheimum, Litlubrú 2, 780 Höfn Sími: 470 8050, símbréf: 470 8051 Netfang: menningarmidstod@hornafjordur.is Veffang: www.hornafjordur.is/menningarmidstod Mánud.-fimmtud. kl. 9-17, föstud. kl. 11-17, laugard. kl. 10-14 Á sumrin er ekki opið á laugardögum Sögustundir fyrir börn á fimmtudögum kl. 14-15

Bókasöfnin í Fjarðabyggð Bókasafnið á Eskifirði

Grunnskóla Eskifjarðar, Lambeyrarbraut 16 735 Eskifirði Sími: 476-1586 Netfang: bokesk@fjardabyggd.is

Bókasafnið á Fáskrúðsfirði

Grunnskóla Fáskrúðsfjaðrar, Hlíðargötu 56 750 Fáskrúðsfirði. Sími: 475-9016 Netfang: bokfas@fjardabyggd.is

34. árg. 2010

Bókasafnið í Neskaupstað Nesskóla, Skólavegi 9 740 Neskaupstað. Sími: 477-1521 Netfang: boknes@fjardabyggd.is

Bókasafnið á Reyðarfirði

Grunnskóla Reyðarfjarðar, Heiðarvegi 14a 730 Reyðarfirði. Sími: 474-1366 Netfang: bokrey@fjardabyggd.is

Bókasafn Stöðvarhrepps

Grunnskólanum á Stöðvarfirði, Skólabraut 20 755 Stöðvarfirði. Sími: 475-9017 Netfang: bokstod@fjardabyggd.is

Norðfjörður Eskifjörður Reyðarfjörður Fáskrúðsfjörður Stöðvarfjörður

mánud. 14-19 14-17 14-17 14-19

Opnunartími bókasafnanna: þriðjud. mið­vikud. fimmtud. föstud. 14-17 14-17 14-17 14-17 14-19 14-17 14-17 14-17 14-19 14-17 14-17 15-19 15-17

SUÐURLAND Héraðsbókasafn Rangæinga

Vallarbraut 16, 860 Hvolsvöllur Sími: 488 4235, símbréf: 488 4259 Netfang: bokrang@snerpa.is Sept.-maí: mánud. kl. 13-20, þriðjud.-fimmtud. kl. 13-18, föstud. kl. 10-13 Júní-ágúst: mánud. kl. 15-20, þriðjud.-fimmtud. kl. 15-18

Bókasafn Árborgar, Selfossi

Austurvegi 2, 800 Selfoss Sími: 480 1980 Netfang: bokasafn@arborg.is Veffang: http://bokasafn.arborg.is Mánud.-föstud. kl. 10-19, laugard. kl. 11-14

Bæjarbókasafn Ölfuss

Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn Sími 4803830 / 8636390 Veffang: www.olfus.is/bokasafn Mánud.-miðvikud. kl. 11-18 Fimmtud. kl. 14-20, Föstud. kl. 11-17 Ennfremur 1. júní - 31. ágúst: laugard. 11-14

Bókasafnið í Hveragerði

Sunnumörk 2, pósthólf 100, 810 Hveragerði Sími: 483 4531, símbréf: 483 4571 Netfang: bokasafn@hveragerdi.is Mánud., miðvikud.-föstud. kl. 13-19, þriðjud. kl. 13-21, laugard. kl. 11-14

Bókasafn Vestmannaeyja

Safnahúsinu v/Ráðhúströð, 900 Vestmannaeyjar Sími: 488 2040, símbréf: 481 1174 Netfang: bokasafn@vestmannaeyjar.is Veffang: www.vestmannaeyjar.is/safnahus Mánud.-fimmtud. kl. 10-18, föstud. kl. 10-17, laugard. 11-14 (1. okt-1. maí).

61


bókasafnið

34. árg. 2010

Höfundar efnis Anna Torfadóttir er BA í bókasafnsfræði og bókmenntafræði frá H.Í. 1976, lauk masterspróf í stjórnun frá University of Wales 1995, borgarbókavörður í Reykjavík frá 1998. Arngrímur Vídalín er nemi í íslenskum fræðum og bókavörður við Borgarbókasafn Reykjavíkur. Hann hefur gefið út þrjár ljóðabækur, síðast Úr skilvindu drauma 2009. Á vordögum 2010 kemur út í hans umsjá bókin Meistarar og lærisveinar eftir óútgefnu handriti Þórbergs Þórðarsonar. Áslaug Agnarsdóttir er MLIS í bókasafns- og upplýsingafræði og starfar sem sviðsstjóri þjónustusviðs, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Berglind Gunnarsdóttir hefur gefið út ljóðabækur og skáldsögur auk ævisögu Sveinbjarnar Beinteinssonar. Ljóðaþýðingarnar Bragð af eilífð komu út 1995 en nýjasta bók hennar er ljóðabókin Ljóðleg sem kom út árið 2008. Berglind er starfsmaður Landbókasafns-Háskólabókasafns. Birta Björnsdóttir er sagnfræðingur. César Vallejo var ljóðskáld frá Perú, fæddur 1892, dáinn 1938. Edda Bryndís Ármannsdóttir útskrifaðist úr BA-námi í bókasafns- og upplýsingafræði vorið 2009. Að því loknu hóf hún störf við minjaskráningarverkefni hjá Landsvirkjun. Einar G. Pétursson er cand.mag í íslenskum fræðum frá H.Í. 1970, tók einnig 2 stig í bókasafnsfræðum, lauk doktorsprófi frá sama skóla 1998. Starfsmaður við Stofnun Árna Magnússonar frá 1972, ennfremur deildarstjóri þjóðdeildar Landsbókasafns Íslands 1984 til 1988. Eva Sóley Sigurðardóttir er BA í bókasafns-og upplýsingafræði og MA í útgáfufræðum. Hún er forstöðumaður skjalastöðvar Seðlabanka Íslands. Eydís Hörn Hermannsdóttir er grunnskólakennari. Guðrún Geirsdóttir er háskólakennari. Guðrún Jónsdóttir er BA í íslensku og forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar. Halldóra Jónsdóttir er BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá H.Í. 1980 og lauk diplómapróf í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands 2009. Hún er bæjarbókavörður Bókasafns Akraness. Hildur Gunnlaugsdóttir er BA í bókasafns- og upplýsingafræði og starfar sem gæðastjóri skráningar á Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni. Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir er bókasafns- og upplýsingafræðingur MA, stjórnsýslufræðingur MPA og er landsbókavörður frá 2007. Kristín Bragadóttir er BA í bókasafnsfræði, bókmenntasögu og sagnfræði frá HÍ 1977, cand.mag. í íslenskum bókmenntum 1992. Deildarstjóri á Háskólabókasafni frá 1993, síðar forstöðumaður þjóðdeildar Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, nú sviðsstjóri varðveislusviðs. Kristín R. Vilhjálmsdóttir lauk kennaraprófi í Silkeborg í Danmörku 1998, starfaði þar sem kennari en hefur verið verkefnastjóri fjölmenningar við Borgarbókasafn Reykjavíkur frá byrjun árs 2008. Dr. Sigrún Klara Hannesdóttir er fyrrverandi landsbókavörður og prófessor í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Sigrún Hauksdóttir er MLS í bókasafns- og upplýsingafræði og starfar sem þróunarstjóri hjá Landskerfi bókasafna. Sigurður Jón Ólafsson er með BA-prófî íslensku og bókasafns- og upplýsingafræði. Hann starfar við Borgarbókasafn Reykjavíkur. Sævar Ingi Jónsson er BA í íslensku og héraðsbókavörður í Safnahúsi Borgarfjarðar. Úlfhildur Dagsdóttir er bókmenntafræðingur og verkefnastýra á Borgarbókasafni Reykjavíkur. Þorsteinn Hallgrímsson er byggingarverkfræðingur (Msc) frá Danmarks Tekniske Höjskole árið 1968. Hann vann síðan hjá IBM á Íslandi og víðar við forritun, kerfisfræði, innleiðingu tölvukerfa o.fl. en hóf störf hjá Háskólabókasafni árið 1993, aðstoðarlandsbókavörður frá 1998. Hann hefur m.a haft yfirumsjón með upplýsingatækniverkefnum safnsins, átt samskipti við erlenda aðila um landssamninga og samstarfsverkefni og setið í stjórn IIPC (International Internet Preservation Consortion). Þórdís T. Þórarinsdóttir er bókasafns- og upplýsingafræðingur, MLS. Forstöðumaður bókasafns og upplýsingamiðstöðvar Menntaskólans við Sund. Í Efnisorðaráði Gegnis frá stofnun þess 2004. Fulltrúi í fastanefnd IFLA um flokkun og lyklun (IFLA Classification and Indexing Section) 2003-2011.

62


63


Softline bókasafnsbúnaður Hannaður til að mæta þörfum allra safnategunda sveigjanlegur og auðveldur í uppsetningu Veitum ráðgjöf og gerum tillögur að uppsetningu búnaðar.

Laugavegi 163

sími 561-2130