Page 1


Andardrátturinn er ör en samt er eins og súrefnið nái ekki alla leið niður í lungu. Fæturnir svo blýþungir að ég verð að einbeita mér að því að ná öðrum fram fyrir hinn. En ég verð að halda áfram – ég verð að halda áfram – ég verð að halda áfram. Það er að ná mér! Ég finn kalda beinabera fingur fálma í hárið á mér. Frostkaldan andardrátt á hnakkanum. Heyri óreglulegt másið og hvæsið sem færist nær. Hægt og bítandi. Það nær taki á hárinu, rykkir í svo höfuðið kastast til, það leggur blautar og kaldar varir upp að eyranu á mér. Ég teygi fram hendurnar í örvæntingu og … Ég hrekk upp, sprett fram úr rúminu og slæ með flötum lófum á eyrað, ríf og tæti með báðum höndum í hárið á mér og stappa niður fótunum. Gólfið er ískalt svo ég stekk aftur upp í og kúri mig í myrkrið undir sænginni á meðan ég bíð eftir að hjartað hægi ferðina. Ég finn svitann leka niður bakið um leið og hrollurinn hristir á mér axlirnar. Sængin er þvöl og lakið krumpað og smám saman skríður veruleikinn aftur að mér. Hér er ekki gott að vera. Það er dimmt og það er kalt og ég er ein. Alein. Það er öllum sama um mig.


Þetta er ekki fyrsta martröðin mín og örugglega ekki sú síðasta en það var eitthvað öðruvísi núna. Eitthvað sem vakti mig. Ég reyni að fálma í minninu gegnum myrkrið og martraðaþokuna og er næstum viss um að hafa vaknað við skell. Eða hristing. Garnirnar gaula ámátlega. Þá dugar ekkert annað en að fara á fætur og laga te, það ætti að vera eitthvað eftir af brauðinu og jafnvel kæfubiti í ísskápnum. Ég sest aftur upp og finn um leið fyrir hreyfingu í maganum. Barnið mitt. Ég vef sænginni um axlirnar, yfir báðar lopapeysurnar, og þreifa ullarsokkaklæddum fótunum yfir gólfið í leit að lúnu flókaskónum. Um leið og tærnar smjúga í skóna rís ég á fætur og teygi mig í náttborðslampann. En það kviknar ekki á honum. Ég styð annarri hendinni við bakið og paufast eftir minni í kolniðamyrkrinu að slökkvaranum við svefnherbergisdyrnar, þreifa á veggnum og Húsið skelfur! Ég skell harkalega á gólfið og heyri að eitthvað dettur og brotnar. Þrátt fyrir nokkur lög af ull sárverkjar mig í öxlina þegar ég staulast á fætur og finn loksins slökkvarann á veggnum. En ljósið kviknar ekki.


Ég blóta í hálfum hljóðum, fálma mig áleiðis fram í eldhús og reyni öll ljós á leiðinni. Kvöldið áður hafði hitinn skyndilega dottið niður á öllum ofnum og núna virðist rafmagnið vera farið líka. Myrkrið er dýpra en ég á að venjast. Ég geng að eldhúsvaskinum og lít út um gluggann en fyrir utan er ekkert að sjá. Myrkrið er þétt og þungt og gleypir allt, svo virðist sem slökkt sé á útiljósunum og ekki einu sinni tunglið aumkar sig yfir mig. Aftur hristist allt og nötrar. Ég gríp um borðplötuna til að detta ekki og heyri að eldhússkápurinn fyrir aftan mig opnast, eitthvað þeytist út úr honum og lendir á gólfinu með háværu brothljóði. Af hæðinni fyrir ofan berst hvellt óp. Útidyrahurðin á blokkinni skellur með látum og ég sé útlínur fólks sem hleypur í myrkrinu fyrir utan. Loftið er mettað steypuryki. Jörðin rymur undir fótunum á mér og hristingurinn kemur í bylgjum. Brothljóðin aukast jafnt og þétt. Einhvers staðar innan úr húsinu heyrist hvellur og barn hágrætur. Ég ranka skyndilega við mér, kippist til og gríp verndandi um kúluna. Barnið mitt sparkar á móti. Það hrynur úr loftinu og ég veit að ég verð að koma mér út. Koma OKKUR út. Húsið er farið að hristast svo mikið að ég hætti við að leita að kápunni, ég passa hvort eð er ekki


lengur í hana, gríp prjónatöskuna af stólnum og rýk að útidyrunum. Um leið og þær opnast skellur á mér sterkur ljósblossi og loftið hrynur …


Kafli 1 „Fari það í hundrað þúsund hrokkinhærðar hámerar frá Hornafirði,“ tuldraði Hallgerður ofan í bringuna á sér og stappaði snjóinn af skónum. „Daginn, Hallgerður Evudóttir, ertu ekki hress?“ var sagt glaðlegri rödd fyrir aftan hana. „Eiturhress …“ sagði hún kaldhæðnislega, sneri sér við og hvessti augun. „… og þú ert?“ „… æ, góða,“ muldraði Kristófer og brosið dofnaði. Hallgerður horfði á eftir sætasta stráknum í bekknum og sá eftir að hafa verið svona stutt í spuna. Eins og hún vissi ekki nákvæmlega hver hann var. Hún andvarpaði og beygði sig niður til að losa um freðnar reimarnar. Það var bara svo margt … ekki nóg með að hún hefði aldrei á ævinni upplifað önnur eins snjóþyngsli heldur var megnið af dótinu hennar enn í Sunnuvík. Hún neyddist til að hírast í kjallaraholunni hjá ömmu og ofan á allt annað hafði hún sofið mjög illa. Óvænt frí í fyrstu tveimur tímum þessa ömurlega föstudagsmorguns hafði lítið hjálpað. Bjallan hringdi, Hallgerður gekk frá skónum og henti úlpunni inn í lúinn skáp en ákvað að halda stóra treflinum. Það blés meðfram gluggunum í


verstu veðrunum og nauðsynlegt að hafa einhverja vörn ef maður ætlaði ekki að liggja veikur fram á vor. Hún gekk einbeitt í sætið sitt beint fyrir framan kennaraborðið, undir vökulum augum bekkjarfélaganna, og velti fyrir sér hvaða árátta þetta væri í henni að sitja alltaf fremst. „Góðan daginn, allir tilbúnir í verkefni dagsins?“ sagði kennarinn og renndi augunum yfir bekkinn. „Núnú, kominn föstudagur í mannskapinn?“ bætti hann við þegar undirtektir voru dræmar. „Af því ég er í góðu skapi fáið þið korter í upphitun áður en við byrjum á fullu. Takið upp yndislestrarbækurnar ykkar. Einn, tveir og byrja!“ Hallgerður sótti bókina úr töskunni, þakklát fyrir þessa óvæntu kyrrðarstund. Þó að augun væru svo þreytt að stafirnir stigju fínlegan vals á blaðsíðunum var höfuðið á fleygiferð. Út í hvað var hún eiginlega búin að koma sér? Hún skildi enn ekki hvaða öfl það voru sem höfðu togað hana hingað til Rökkurhæða. Nóg höfðu stelpurnar í Sunnuvík reynt að fá hana ofan af því, þótt hún væri reyndar sannfærð um að það hefði meira að gera með öruggt partískjól í litlu leiguíbúðinni þeirra mæðgna en að stelpurnar sæju sérstaklega eftir henni. Allavega höfðu þær ekki mikið verið í sambandi síðan hún fór.


Eftir því sem leið á morguninn jókst bylurinn fyrir utan gluggann og kvíðahnúturinn óx í maganum. Af hverju notaði ég ekki tækifærið í morgun, hugsaði Hallgerður með sér þegar bjallan hringdi inn hádegishléið. Ef hún hefði bara heilsað Kristófer á móti og orðið samferða honum inn stofu í staðinn fyrir að láta eins og hrokafullur bjáni væri hún ekki í þessari asnalegu stöðu. Mamma Hallgerðar bjó á heimili þessa stráks, hann var búinn að vera með Hallgerði í bekk í tvær vikur og samt þekktust þau ekki neitt. Og hún gat ekki með nokkru móti kennt Kristófer um það. Matarboð kvöldsins átti á hættu að verða yfirgengilega hallærislegt ef hún gerði ekkert í málinu. Boltinn er allavega hjá mér, hugsaði hún með sér og stakk pennaveskinu ofan í tösku, ekkert annað í stöðunni en að finna drenginn og spjalla aðeins. Verður skárra en að gera það í fyrsta skipti í matarboði heima hjá honum í kvöld. „Jæja, hvernig líst þér svo á skólann?“ Hallgerður var svo niðursokkin í eigin hugsanir að hún hrökk í kút. „Æ, fyrirgefðu, ég ætlaði ekki að bregða þér,“ sagði kennarinn. „Nei, ekkert mál, ég bara …“ flýtti hún sér að segja en þagnaði svo. Ég bara hvað? Ég er bara á kafi í að reyna að koma mér úr hræðilega kjánalegum


aðstæðum. Hallgerður hristi höfuðið og hélt áfram: „Jújú, bara ágætlega.“ Hún reyndi að brosa. „Gott, gott, enda frábærir krakkar í þessum skóla.“ „Mhm, einmitt,“ svaraði Hallgerður. Rabbi, heitir hann það ekki? Óþarflega sætur, fyrir kennara. „Þú kemur með í skíðaferðina, er það ekki?“ hélt hann áfram. „Skíðaferð?“ „Árleg ferð unglingastigsins, förum í lok mars. Yfirleitt frábært fjör; skíðað allan daginn, borðað saman á kvöldin og svo kvöldvökurnar.“ Hann brosti breitt. „Hápunktur annarinnar, ekki spurning!“ „Ég á ekki skíði,“ svaraði hún að bragði, sneri sér undan og fór að fikta í lokinu á töskunni sinni. „Það er nú lítið mál að redda því,“ sagði hann. Þegar hún svaraði engu bætti hann við: „Svo veistu af okkur í félagsmiðstöðinni, ég er semsagt þar líka. Bíókvöld í kvöld.“ „Já, frábært. Gott að vita af því.“ Ókei, ertu ekki að fara … vandræðalegt móment í uppsiglingu, hugsaði Hallgerður, sem var komin með verki í brosvöðvana. „Áttu mikið eftir? Ég þarf nefnilega að læsa,“ sagði kennarinn eftir að hafa þagað stundarkorn og fylgst með henni bjástra við töskuna.


„Ó, Guð, fyrirgefðu,“ sagði Hallgerður og fann hitann rjúka upp eftir andlitinu. Hún snerist eldsnöggt á hæli og gekk rösklega að dyrunum. Hann kallaði kveðju á eftir henni en hún hraðaði sér burt án þess að líta við. Ekki tekur nú betra við hér, hugsaði hún með sér og hvarflaði augunum yfir þéttsetinn matsalinn. Hún var staðráðin í að standa við fyrirheit sín og heilsa Kristófer. Hún tók stefnuna á borðið þar sem hann sat ásamt fleiri strákum – eintómum strákum sem hún þekkti lítið sem ekkert! Þegar hún nálgaðist komst hún ekki hjá því að heyra ávæning af umræðuefni þeirra. Það runnu á hana tvær grímur þegar hún heyrði „svaka stökk“ og „flottan snúning“ og „parkour er málið“ og þegar einn þeirra galaði: „Rabbi þjálfari“ skipti hún um skoðun í miðju skrefi, snerist í hálfhring og hlammaði sér niður í fyrsta lausa sætið sem hún sá. „Er í lagi að ég setjist hérna?“ spurði hún og horfði óörugg á sessunautana. „Að sjálfsögðu, Hallgerður,“ sagði einn þeirra og brosti svo skein í skjannahvítar tennurnar. Þetta var rauðhærð stelpa á hennar aldri, með uppbrett nef og geislandi bros. „Ég heiti Kristín og þetta eru Ingibjörg og Vigdís,“ bætti hún áköf við og heiðblá augun blikuðu spennuþrungin. „Velkomin,“ sagði Ingibjörg og brosti.


Hallgerður kinkaði kolli til Ingibjargar og horfði öfundaraugum á þykkt og sítt hár hennar. Vá, einu sinni var ég svona, hugsaði hún og strauk ósjálfrátt yfir stuttklipptan drengjakollinn. Síðan brosti hún til Vigdísar, sem kinkaði kolli og sneri sér aftur að samlokunni sinni. Hallgerður vissi ekki hvort var verra; að setjast hjá þessum stelpum eða hjá Kristófer og vinum hans. Hún stakk höfðinu næstum alla leið ofan í töskuna sína meðan hún velti fyrir sér hvort hún ætti að reyna að spjalla við þær eða hvort hún kæmist upp með að borða nestið sitt í þögn. Eftir því sem leið á losnaði um óþægindin í brjóstinu. Stelpurnar, sem voru allar í hinum tíunda bekknum, reyndust ekki jafnhræðilegar og hún hafði óttast. „Er mamma þín ekki blaðakona?“ spurði Kristín skyndilega en áður en Hallgerður náði svo mikið sem opna munninn hélt hún áfram. „Jú, ég man að ég las grein eftir hana um Svæði 51. Heyrðu!“ sagði hún svo og augun stækkuðu um helming. „Er hún að rannsaka eitthvað hérna í Rökkurhæðum? Ég frétti nefnilega að hún væri komin með aðstöðu á skrifstofum sýslumanns. Annars er Hallgerður Evudóttir frekar svalt – ha? Ég var einmitt að spá í að prófa að nota Drafnardóttir? Eða bara Kristín Drafnar – ha? Er það ekki frekar svona …


listakonulegt?“ sagði hún og skríkti í sama mund og bjallan hringdi. „Vona að íbúðin sem þið leigið sé ógeðslega kósí!“ sagði hún og stökk af stað. Vigdís ranghvolfdi augunum svo lítið bar á og hraðaði sér á eftir henni. „Ég bý reyndar hjá ömmu minni,“ tuldraði Hallgerður og fálmaði eftir stundatöflunni ofan í tösku. „Hvað segirðu, áttu ömmu hérna í Rökkurhæðum?“ spurði Ingibjörg. Hallgerður kinkaði kolli. „Já, svo er víst,“ sagði hún og dró krumpaðan snepil upp úr töskunni. „Val … ohh, ég lofaði að skila inn vali í byrjun vikunnar en hef ekki gefið mér tíma til að skoða almennilega hvað er í boði,“ bætti hún við pirruð. „Ég er að fara í Sögu Rökkurhæða, viltu koma með? Þú hlýtur að mega skoða aðeins hvað er í boði áður en þú ákveður afplánun fram á vor, síðasta önnin í grunnskóla og allt það,“ sagði Ingibjörg og brosti. „Tjahh,“ sagði Hallgerður og horfði hugsi á þessa viðkunnanlegu stelpu. „Saga er reyndar í uppáhaldi. Hver kennir?“ „Anna Guðmunda, íslenskukennarinn, hún er fín.“ Ingibjörg greip töskuna og skellti henni á bakið. „Ertu með?“


„Já, ætli það ekki bara,“ sagði Hallgerður og smeygði sér framhjá borðinu þar sem Kristófer sat með vinum sínum. Kvíðahnúturinn í maganum gerði aftur vart við sig. Bévítans matarboðið. Þetta verður pínlegt fyrir allan peninginn, hugsaði Hallgerður en það þýddi lítið að fást um það úr þessu.


Kafli 2 „Kristófer minn?“ sagði María og horfði biðjandi á son sinn. „Ekki að ræða það, mamma. Bí bí og blaka er farið að leka út úr eyrunum á mér eftir þessa viku,“ sagði Kristófer og stóð upp. „Svo er ég líka með gest,“ bætti hann ögrandi við og nikkaði yfir borðið. „Komdu, Hallgerður, við ætlum að horfa á mynd.“ Kristófer svipti upp eldhúsdyrunum og fór fram. Hallgerður leit vandræðaleg í kringum sig og lét sem hún biði eftir samþykki. Sannleikurinn var sá að hún treysti sér ekki til að standa upp alveg strax. Heimakristófer var eitthvað svo miklu meira spennandi en skólakristófer. „Ég skal,“ stundi pabbi Kristófers og stóð upp. Hallgerður notaði tækifærið, stóð líka upp og þakkaði fyrir sig. „Hún er frekar … ákveðin, litla systir þín,“ sagði Hallgerður og settist í hinn endann á stóra sófanum í stofunni. „Ákveðin,“ hnussaði Kristófer, „hún er bara drullufrek!“ Hallgerður fór að hlæja og gat ekki annað en samsinnt og þar með var ísinn endanlega brotinn. Kristófer notaði tækifærið og byrjaði strax að dæla


á hana spurningum. Hann var eðlilega forvitinn um þessar dularfullu mæðgur úr Sunnuvík; konuna sem hafði skyndilega búið um sig í gestaherberginu heima hjá honum og dóttur hennar, sem bjó annars staðar í bænum. Enda hlaut lífsstíll þeirra að vera undarlegur í augum stráks sem hafði búið hjá báðum foreldrum sínum í sama húsinu frá því hann mundi eftir sér. Hallgerður sagði honum að Rökkurhæðir hefðu verið hluti af lífi þeirra mæðgna frá því hún myndi fyrst eftir sér. Að mamma hennar hefði gegnum árin fyllt hverja möppuna af annarri af úrklippum og útprentuðum fréttum og frásögnum af lífinu í Rökkurhæðum. „Ég hef samt á tilfinningunni að það hafi verið eitthvert ákveðið atvik sem … sem varð til þess að hún flutti hingað núna,“ sagði hún og strauk annarri hendi yfir mjúkt leðrið í sófanum. „Nú, hvað þá?“ spurði Kristófer og hagræddi púða við bakið á sér, værðarlegur á svip. „Ég veit það eiginlega ekki,“ sagði hún og teygði sig eftir öðrum púða. „Sem er satt að segja frekar óvanalegt því hún var vön að segja mér allt. Síðasta haust sagðist hún vera við það að gera meiriháttar uppgötvun og í kjölfarið tók hún upp á því að fara hingað í tíma og ótíma. Fyrst voru þetta stutt skrepp, rétt yfir daginn, en svo var hún farin


að taka fyrsta strætó á morgnana og kom stundum ekki heim fyrr en eftir að ég var sofnuð. Ég held það hafi verið í desember sem hún gisti fyrst hjá ömmu, ég meina, hún hefur aldrei viljað vita af þessari kerlingu, eðlilega, og …“ „Bíddu,“ sagði Kristófer og settist snögglega upp. „Sagðirðu desember?“ Hallgerður kinkaði kolli. „Matthías dó í desember!“ Hann horfði einbeittur á hana. „Matthías?“ Hallgerður hafði ekki hugsað um andlát Matthíasar í þessu samhengi. „Já, strákur sem var í tíunda bekk. Mamma tók á móti sjúkrabílnum sem kom með hann á spítalann. Hún segir manni sko aldrei neitt en hún var í svo rosalegu sjokki þegar hún kom heim úr vinnunni um kvöldið að hún fór strax að segja pabba frá og var ekkert að spá þótt ég stæði við hliðina á þeim og heyrði allt.“ „Af hverju tók mamma þín …“ byrjaði Hallgerður en Kristófer greip fram í fyrir henni. „Mamma er læknir, manstu! Líkið var víst alveg hræðilega illa útleikið. Hendurnar skaðbrenndar og skorpnaðar.“ Hann snarþagnaði. „Hvað? Hallgerður … er allt í lagi?“


Hallgerður hafði gripið fyrir munninn og kyngdi án afláts. Hún hristi höfuðið og blikkaði ótt og títt. Hún myndi aldrei gleyma þessum desemberdegi. Hún hafði verið svo einmana, hrædd og saknað mömmu sinnar. Hún þurfti svo á henni að halda þegar hún fékk fréttirnar af andláti Matthíasar en mamma hafði hvergi verið nærri og í fyrsta skipti hafði Hallgerði ekki tekist að ná sambandi við hana í síma. Það var þá sem hún fór fyrst að velta fyrir sér hvort samband þeirra mæðgna væri að breytast. „Hérna, veistu hvað kom eiginlega fyrir hann?“ spurði hún og ræskti sig. Kristófer horfði rannsakandi á hana. „Veist þú það ekki? Þið hljótið að hafa þekkst, voruð þið kannski saman í bekk í Sunnuvík?“ „Nei, reyndar ekki.“ Hún dró djúpt andann og reyndi að ná stjórn á tilfinningunum. „Og nei, ég veit ekki neitt. Fréttirnar sem náðu til Sunnuvíkur voru mjög loðnar og í raun alveg magnað að miðað við hversu margir þekktu til hans virtist enginn vita hvernig hann dó.“ Hún var ekkert að segja honum að hún hefði verið skotin í Matthíasi þegar hún var yngri og alltaf verið sannfærð um að einn daginn myndu þau ná saman. Kristófer greip gosglas og fékk sér sopa. „Mamma segir að hann hafi verið í einhverju rugli. Dópi eða


þannig. Að hann hafi verið í slæmum félagsskap í Sunnuvík og þess vegna hafi mamma hans flutt með hann hingað en hann hafi bara haldið áfram í ruglinu.“ Hann yppti öxlum. „Ég veit samt ekki, þetta var svalur gaur og ekkert mikið fyrir að skipta sér af okkur hinum en ég held ekki að hann hafi verið í neinu rugli.“ Hallgerður hafði litla trú á því að Matthías hefði verið að fikta við eiturlyf. Hún vissi að Matthías var ekki hrifinn af þeirri leið sem vinir hans úr Sunnuvík höfðu valið sér og var í raun sá eini í genginu sem þorði að standa á sínu. Og hvernig áttu eiturlyf svo sem að tengjast brunnum og skorpnuðum höndum? Hvað hafði eiginlega komið fyrir hann? „En þú?“ spurði Kristófer skyndilega og truflaði þankaganginn. „Hvers vegna fluttir þú í Rökkurhæðir? Mamma þín sagði að þú vildir ekki koma, að þú ætlaðir að klára tíunda bekkinn í Sunnuvík.“ „Ha, sagði hún það?“ spurði Hallgerður og hristi höfuðið undrandi og meira en lítið sár. „Það var ekki eins og mér stæði til boða að koma með, hún var bara allt í einu flutt til ömmu og svo þegar ég flutti til ömmu flutti hún til ykkar og …“ Hallgerður reyndi að taka sig taki. „Æi, fyrirgefðu, óþarfi að æsa sig við þig.“


„Ekki málið,“ sagði Kristófer. „Foreldrar,“ bætti hann við í mæðutón og dæsti. „Akkúrat,“ sagði Hallgerður og stundi. „Heyrðu, eigum við kannski að kíkja á mynd?“ Kristófer teygði sig í fjarstýringarnar og byrjaði að fletta. Þau komu sér saman um mynd, Kristófer setti hana í gang og stóð svo upp til að slökkva ljósin. Þegar hann kom aftur í sófann settist hann við hliðina á henni. „Er þér sama?“ spurði hann og hallaði sér upp að öxlinni á henni. Hallgerður jánkaði og brosti aðeins út í myrkrið. Þau höfðu valið mynd sem hún var nýbúin að sjá en henni var alveg sama. Hana langaði bara að fá tækifæri til að vera hérna aðeins lengur. Nálægt mömmu. Og Kristófer. Þótt hún kynni ágætlega við Kristófer, og kannski aðeins meira en það, vildi hún ekki segja honum hvað hún hafði verið einmana og saknað mömmu sinnar eftir að mamma flutti í Rökkurhæðir. Í fljótfærniskasti eftir skóla einn fimmtudaginn hafði hún sannfært skólastjóra Sunnuvíkurskóla um mikilvægi þess að hún fengi flutning þrátt fyrir að síðasta önn í tíunda bekk væri hafin, pakkað í tösku og stokkið upp í síðasta strætó til Rökkurhæða. Mamma hafði ekki beint dansað af


gleði þegar dóttir hennar birtist á lúnum kjallaratröppunum hjá ömmu en bjó samt til pláss fyrir hana inni í herbergi hjá sér. Söknuðurinn eftir mömmu hafði samt lítið skánað því mamma hélt uppteknum hætti; var aldrei heima og skipti sér ekkert af Hallgerði. Þegar hún hafði svo tilkynnt yfir soðningunni fyrir nokkrum dögum að hún ætlaði að flytja í gestaherbergið til vinkonu sinnar „… af því það er svo ógurlega þröngt um okkur hérna í Skuggalundi“ varð Hallgerður orðlaus. Var mamma að flýja hana? Þess vegna hafði hún orðið svo glöð þegar mamma sendi henni skilaboð og bað hana að koma í mat. Þó svo að skilaboðin segðu: „María vinkona vill endilega hitta þig. Kemstu í mat?“ þá var þetta samt tækifæri til að hitta mömmu og komast að því hvað var í gangi hjá henni. Allt þetta hafði gert það að verkum að hún var óneitanlega taugaóstyrk þegar hún hringdi dyrabjöllunni á reisulegasta einbýlishúsi gamla hverfisins fyrr um kvöldið. Og ekki bara út af Kristófer. En matarboðið hafði gengið alveg ágætlega. Án þess að hafa rætt það áður létu þau Kristófer bæði eins og þau væru ágætis vinir. Hann talaði eins og Hallgerður þekkti alla í bekknum og flesta í hinum bekknum líka. Mamma hafði litið á hana


viðurkenningaraugum og hrósað henni fyrir að „vera komin út úr skelinni“ eins og hún orðaði það. Að öðru leyti kom hún fram við dóttur sína eins og hvern annan kunningja. Hallgerður hafði fengið sting í hjartað þegar hún fylgdist með mömmu sinni gantast við vinkonu sína og sá hvað hún átti stóra hlutdeild í lífi þessarar fjölskyldu, sem Hallgerður var rétt að kynnast. Hún mundi ekki einu sinni til þess að mamma hennar hefði átt nána vinkonu áður. Ekki frekar en hún sjálf. Þær höfðu að sjálfsögðu báðar umgengist kunningja í vinnu og skóla en þar fyrir utan voru það bara þær tvær. Það hafði dugað þeim báðum alveg ágætlega. Mamma var eitthvað svo breytt en Hallgerður gat ekki alveg sett fingurinn á hvað það var. Æi, aumingja mamma, það er kannski ekki við hana að sakast, hugsaði Hallgerður og dró að sér milda kryddlyktina sem fylgdi Kristófer. Mamma er búin að hafa Rökkurhæðir á heilanum í mörg ár og loksins er eitthvað að gerast. Það er ekkert skrítið þótt hún sé spennt og gleymi … Hallgerður hlustaði á djúpan og reglulegan andardrátt Kristófers og velti fyrir sér hvort hann væri sofnaður. Augnlokin þyngdust … ––-

Hallgerður hrökk upp við langdregið vein. Hún deplaði augunum, starði út í myrkrið og reyndi að


átta sig á hvort hljóðið hefði verið raunverulegt eða draumur. Myrkrið lá svo þungt á brjóstkassanum að hún náði varla andanum og varð að setjast upp. Þögnin þrýsti á hljóðhimnurnar. Augnlokin þyngdust aftur og Hallgerður var við það að láta fallast aftur á koddann, tilbúin að hverfa aftur í draumaheiminn, þegar hún mundi skyndilega hvar hún var. Hún reis varlega á fætur til að vekja ekki Kristófer og gekk í átt að ljósskímunni sem teygði sig undan lokuðum dyrunum. Hún ýtti á dyrnar og þurfti samstundis að loka augunum. „Ái,“ missti hún út úr sér. „Sæl, Hallgerður mín, er myndin búin?“ spurði María þegar Hallgerður birtist píreygð í eldhúsdyrunum. Hallgerður kinkaði kolli og ætlaði að taka til máls þegar María hélt áfram að tala eins og ekkert hefði ískorist. „Nonni er reyndar ekkert svo gamall,“ sagði hún ábúðarfull. „Bara einn af þeim sem verða að gamlingjum strax eftir tvítugt og breytast svo ekkert eftir það. Yngjast ef eitthvað er.“ „Magnað!“ Mamma fitjaði upp á nefið og bætti í hvítvínsglasið sitt án þess svo mikið sem líta í áttina til dóttur sinnar. „Maður veltir fyrir sér … nei, það er fáránlegt.“


„Veltir hverju fyrir sér? Hvort hann eigi yngingarlyf?“ spurði María og hló við. „Kannski ekki.“ Mamma hló. „En samt, miðað við allt það dularfulla sem hefur gerst hérna veltir maður fyrir sér hvort hann hafi einhverjar tengingar sem aðrir hafa ekki. Ég meina það, Myndin af Dorian Gray kemur óneitanlega upp í hugann.“ „Jæja, segðu. En það gæti nú orðið erfitt að grafast fyrir um það því Nonni er alltaf jafndulur þegar talið berst að honum sjálfum en er svo með nefið ofan í hvers manns koppi,“ sagði María og hnussaði. „Þú gætir samt kannski náð til hans, ha, reynt að fá hans skoðun á því hvað olli hamförunum hérna uppi í hæð.“ „Ég? Það væri nær að þú, heimamanneskjan, hefðir eitthvað á hann!“ „Æi, ég veit það nú ekki. Það hefur aldrei verið sérstaklega kært á milli okkar Nonna, þrátt fyrir samstarfið.“ „Jæja, María, við ættum kannski að ræða þetta betur með aðeins færri áheyrendur,“ sagði mamma og leit skyndilega á Hallgerði. Hallgerður kyngdi með erfiðismunum og stóð upp. „Já, flott stelpa sem þú átt, Eva,“ svaraði María og brosti til Hallgerðar. „Hún vill kannski sofa bara á sófanum í nótt fyrst það er orðið svona framorðið.


Hvað segirðu um það, Hallgerður? Fer ekki ágætlega um þig?“ „Jú, takk,“ tókst Hallgerði að stynja upp, „ætli það sé ekki best. Góða nótt.“ „Var ég annars nokkuð búin að segja þér hvað ég er þakklát ykkur Kjartani fyrir að skjóta yfir mig skjólshúsi á meðan ég er í þessu stússi hérna,“ hélt Eva áfram og tók ekki einu sinni undir kveðju dóttur sinnar. „Iss, ekki nefna það, Eva mín. Það er gott að hafa einhvern með viti til að spjalla við – skál, elskan!“ Þegar Hallgerður nálgaðist sófann sá hún að Kristófer var farinn. Hún lagðist í hitann og lyktina frá honum, dró yfir sig tvö teppi og geispaði. Hún var rétt búin að koma sér notalega fyrir þegar hún greindi nafnið sitt í gegnum lágværan kliðinn úr eldhúsinu og fór ósjálfrátt að leggja við hlustir. „Nei, svo sem ágætt að hún kom, stelpan,“ sagði mamma hennar hátt og snjallt. „Fínt að losna undan leigunni. Líka heppin að það var fólk sem nánast beið eftir að komast inn – þetta raðaðist allt fullkomlega saman!“ Hallgerði brá svo að hún greip fyrir munninn. Losna undan leigunni? Var mamma virkilega búin að segja upp íbúðinni þeirra í Sunnuvík? Án þess að bera það undir hana … var hún þá föst í skítuga


kjallaraherberginu hjá klikkuðu kerlingunni og hafði ekkert val lengur … og hvað hafði mamma gert við dótið þeirra! „Já, greinilega,“ sagði María og hló. „En hefur þú engar áhyggjur af stelpunni þarna hjá kerlingunni, við gætum nú kannski komið henni fyrir hérna í …“ „Nei, elskan mín, ekki að ræða það. Ég er búin að pakka þessari stelpu inn í bómull síðan hún fæddist, hún hefur gott af því að fá smá nasaþef af lífinu. Svo nenni ég ekki að hafa hana hangandi utan í mér á meðan ég er að reyna að einbeita mér að þessum rannsóknum.“ Hallgerður fann aftur fyrir óþægilega þykkildinu í hálsinum. Var hún kannski að fá hálsbólgu? „Þú ættir að kíkja þarna upp í Hlíð við tækifæri, Eva, á þessar sögufrægu slóðir sem ég var að segja þér frá, manstu … og mundu að þetta er bara fyrir þín eyru!“ Í sama mund smullu eldhúsdyrnar aftur og Hallgerður var skyndilega alein í hljóðu myrkrinu. Glaðvakandi.

Endalokin: Útverðirnir (Rökkurhæðir)  

Hallgerður Evudóttir er nýflutt til ömmu sinnar í Rökkurhæðum. Hún fer að púsla saman sögusögnum af dularfullum atburðum sem þar eiga að haf...

Read more
Read more
Similar to
Popular now
Just for you