Page 1


Grégoire Delacourt

Óskalistinn Guðrún Vilmundardóttir íslenskaði

neon


Útgáfa bókarinnar er styrkt af:

La liste de mes envies © 2012, éditions Jean-Claude Lattès Íslensk útgáfa skv. samkomulagi við Literary Agency Wandel Cruse. Þýðing: Guðrún Vilmundardóttir © 2014 Umbrot: Bjartur, sem forlag Kápuhönnun: Flash Gordon Prentvinnsla: Oddi Bók þessa má eigi afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis þýðanda og útgefanda. ISBN: 978-9935-454-26-3 neon – besti bókaklúbbur í heimi www.bjartur.is Bjartur | Reykjavík | 2014


Til stúlkunnar sem sat á bílnum, já, hún var þar.


„Allar sorgir eru leyfðar, allar sorgir eru ráðlagðar; það verður að láta vaða, það verður að elska.“ Le Future intérieur, Françoise Leroy.


Maður er alltaf að ljúga að sjálfum sér. Ég veit til dæmis vel að ég er ekki sæt. Ég er ekki með blá augu sem menn spegla sig í; sem þá langar til að drekkja sér í svo ég stingi mér á eftir þeim til að bjarga þeim. Ég hef ekki fyrirsætuvöxt; ég er þessi þrýstna týpa, eiginlega bara vel þétt. Sú sem þarf eitt og hálft sæti. Meðalstór maður nær ekki almennilega utan um mig. Ég er ekki tíguleg kona sem menn hjala við í lágum hljóðum og gera bara hlé til þess að taka andköf: Nei. Mér hæfa betur stutt skilaboð. Blátt áfram. Beinaber þráin, umbúðalaus, engin einangrandi fita. Ég veit allt þetta. Og samt, þegar Jo er ekki heima, þá fer ég stundum upp í herbergið okkar og tek mér stöðu fyrir framan fataskápinn – ég þarf að minna hann á að festa skápinn við vegginn áður en hann dettur á mig og kremur mig við þessa athugun mína. Þá loka ég augunum og afklæði mig rólega, það hefur aldrei neinn afklætt mig á þann hátt. Mér verður alltaf svolítið kalt; ég skelf. Þegar ég hef berháttað mig hinkra ég aðeins áður en ég opna augun. Ég nýt stundarinnar. –9–


Ég læt hugann reika. Ég leyfi mér að láta mig dreyma. Ég sé fyrir mér nautnalega útafliggjandi líkamana í lista­verkabókunum sem voru úti um allt í húsi foreldra minna, en svo síðar skornari líkamana sem maður sér í tískutímaritunum. Síðan opna ég augun varlega, augnlokin lyftast hægt og rólega. Ég virði líkama minn fyrir mér, svört augun, lítil brjóstin, ávalar línurnar, svartan brúskinn, og mér finnst ég vera falleg og ég get svarið að á því augnabliki er ég falleg, meira að segja mjög falleg. Þessi fegurð gerir mig reglulega hamingjusama. Og hrika­lega sterka. Hún gerir mér kleift að gleyma því sem er erfitt. Því sem er þreytandi við verslunarreksturinn. Slúðrinu og lottóinu hjá Danièle og Françoise – þær eru tvíburar og eiga snyrtistofuna Coiff’Esthétique sem er í næsta húsi við vefnaðarvöru­versl­unina. Fegurðin leyfir mér að gleyma því sem aldrei breytist. Einsog tíðindalausu lífi. Einsog þessu leiðinlega þorpi sem er grátt og flugvallarlaust, héðan er ómögulegt að flýja og hingað kemur enginn, enginn hjartaknúsari, enginn hvítur riddari á hvítum hesti. Arras. 42.000 íbúar, fjórir risamarkaðir, ellefu stór­ markaðir, fjórir skyndibitastaðir, nokkrar götur frá miðöldum, veggskjöldur í Rue du Miroir-de-Venise sem upp­lýsir gesti og gleymna um að hér fæddist Eugène– 10 –


François Vidocq hinn 24. júlí árið 1775. Og svo vefnaðar­ vöru­verslunin mín. Nakinni, svo fallegri fyrir framan spegilinn, finnst mér einsog ég þyrfti bara að blaka handleggjunum til þess að takast á loft, létt og tignarleg. Þá myndi líkami minn verða einn þeirra sem voru í listaverkabókunum á æskuheimilinu. Þá yrði hann jafn fallegur og þeir. Til eilífðarnóns. En ég þori því aldrei. Ég hrekk alltaf við þegar ég heyri Jo koma inn niðri. Það dregst til í silki drauma minna. Ég klæði mig aftur, með hraði. Skuggi fellur á bjart hörund mitt. Ég veit af þessari einstöku fegurð undir fötunum. En Jo sér hana aldrei. Einu sinni sagði hann mér að ég væri falleg. Það eru meira en tuttugu ár síðan og ég var rétt nýorðin tvítug. Ég var fallega klædd, í bláum kjól, með gyllt belti, í svolitlum svona Dior-stæl; hann langaði til að sofa hjá mér. Hrósið átti við fallegu fötin mín. Þið sjáið að maður er alltaf að ljúga að sjálfum sér. Af því að ástin getur ekki boðið sannleikanum birginn.

– 11 –


Jo, það er Jocelyn. Eiginmaður minn til tuttugu og eins árs. Hann er líkur Venantino Venantini, sæta stráknum sem lék hinn stamandi Mickey í Le Corniaud og Marghleypu-Pascal í Les Tontons flingeurs. Karlmannlegur kjálki, myrkt augnaráð, ítalskur hreimur svo að maður fær í hnén, sól, dökkt hörund, kurr í röddinni sem kallar fram gæsahúð hjá ungum skvísum nema hvað Jocelyno Jocelyni minn er tíu kílóum of þungur og hreimurinn er ekki til þess fallinn að dömurnar gleymi stund og stað. Hann hefur unnið hjá Häagen-Dazs síðan verksmiðjan var opnuð árið 1990. Hann þénar tvö þúsund og fjögur hundruð evrur á mánuði. Hann dreymir um að fá flatskjá í staðinn fyrir gamla túbusjónvarpið okkar. Og um Porsche Cayenne. Um arin í stofuna. Um allar James Bond-myndirnar á DVD. Um Seiko-úr. Og um yngri og fallegri konu en mig, en hann segir mér ekki þetta síðastnefnda. Við eigum tvö börn. Þrjú, raunar. Strák, stelpu og liðið lík. – 12 –


Romain kom undir kvöldið sem Jo sagði mér að sér fyndist ég falleg og þessi lygi hafði af mér skynsemina, fötin og meydóminn. Líkurnar voru einn á móti þúsundum að ég yrði ófrísk þarna í fyrsta sinn – og það kom í minn hlut. Nadine kom tveimur árum síðar og síðan hef ég ekki náð kjörþyngd aftur. Ég er bara feit, einsog innantóm ófrísk kona, sprungin blaðra. Loftbóla. Jo hætti að finnast ég falleg, hann hætti að vilja snerta mig: hann hefur vanið sig á að hanga fyrir framan túbu­sjónvarpið á kvöldin, háma í sig ís sem hann hefur fengið gefins í verksmiðjunni og drekka bjór: 33 Export. Og ég hef vanið mig á að fara ein að sofa. Eina nóttina vakti hann mig. Hann var með standpínu. Hann var fullur og hann grét. Ég tók á móti honum inn í mig og þessa nótt laumaði Nadège sér inn í magann á mér og drekkti sér í holdi mínu og sorgum. Þegar hún kom aftur út, átta mánuðum síðar, var hún helblá. Hjartað var stillt. En hún var með ótrúlega fallegar neglur, löng augnhár, og þótt ég hafi aldrei séð hvernig augun í henni voru á litinn, veit ég að hún var falleg. Daginn sem Nadège fæddist, sem var líka dagurinn sem hún dó, hætti Jo að drekka bjór. Hann braut og bramlaði allt í eldhúsinu hjá okkur. Hann öskraði. Hann sagði að lífið væri ógeðslegt, að lífið væri tík, helvítis hórutík. Hann barði sér á brjóst, á enni sér, hjarta og í – 13 –


veggina. Hann sagði að lífið væri allt of stutt. Það væri óréttlátt. Að maður þyrfti að vera vakandi, andskotans djöfull, af því að tíminn ynni ekki með manni, elskan mín, sagði hann og átti við Nadège, hvar ertu núna, elskan mín? Hvar ertu, augasteinninn minn? Romain og Nadine hlupu skíthrædd inn í herbergið sitt og það var þá sem Jo byrjaði að láta sig dreyma um fallega hluti sem auðvelduðu manni lífið og deyfðu sársaukann. Flatskjá. Porsche Cayenne. James Bond. Og sæta konu. Hann var sorgmæddur. Foreldrar mínir nefndu mig Jocelyne. Líkurnar voru einn á móti milljónum að ég giftist manni sem héti Jocelyn og auðvitað hlaut það að koma í minn hlut. Jocelyn og Jocelyne. Martin og Martine. Louis og Louise. Laurent og Laurence. Raphael og Raphaëlle. Paul og Paule. Michel, Michèle. Einn á móti milljónum. Og það kom í minn hlut.

– 14 –

Óskalistinn - fyrstu kaflar  

Óskalistinn eftir Grégoire Delacourt er nýjasta bókin í neon-bókaflokki Bjarts. Frönsk metsölubók sem er góð fyrir hjartað.

Read more
Read more
Similar to
Popular now
Just for you