Page 88

Skilgreiningar Verg landsframleiðsla (VLF) mælir verðmæti þess sem framleitt er í landinu. Með vergri þjóðarframleiðslu (VÞF) er átt við þær tekjur sem þjóðin hefur af eigin framleiðslu auk þeirra tekna sem hún aflar utan landsteinanna. VÞF fæst með því að bæta sk. nettóþáttatekjum við VLF. Þáttatekjur eru launatekjur, arður og vextir. Vegna mikillar skuldsetningar þjóðarbúsins eru nettóþáttatekjur neikvæðar á Íslandi og því er VLF hærri en VÞF. Í þessu felst að arður af fyrirtækjum í eigu erlendra aðila telst með í VLF en ekki í VÞF. Enn mikilvægara þó er að vextir sem Íslendingar greiða til erlendra aðila dragast frá VLF þegar VÞF er reiknuð. VLF er oftast reiknuð út frá ráðstöfunarhlið, þ.e. lögð eru saman útgjöld þjóðarinnar og útflutningur vöru og þjónustu, og innflutningur vöru og þjónustu er dreginn frá. Þá fæst hver framleiðslan er í landinu. Útgjöld þjóðarinnar skiptast í einkaneyslu, samneyslu, fjárfestingu og birgðabreytingar. Hagvöxtur er breyting VLF á föstu verðlagi milli ára. Þegar þjóðhagsreikningatölur eru færðar á fast verðlag er hver liður staðvirtur með eigin verðlagsvísitölu, og þannig fundnar magnstærðir sem eru óháðar verðbreytingum. Þannig eru einkaneysluútgjöld færð á fast verðlag með verðvísitölu einkaneyslu, innflutningur með vísitölu innflutnings og útflutningur með vísitölu útflutnings. Viðskiptakjör sýna kaupmátt útflutnings gagnvart innflutningi, þ.e. verðvísitölu útflutnings er deilt með verðvísitölu innflutnings. Ef útflutningsverðlag hækkar meira en innflutningsverðlag geta landsmenn keypt meira magn innflutningsvara fyrir útflutningsvörurnar og þjóðarhagur batnar. Landstekjur er hugtak sem sjaldan er notað, en er gagnlegt því það sýnir kaupmátt verðmætasköpunar þjóðarinnar. Það fæst með því að bæta áhrifum breytinga viðskiptakjara við landsframleiðsluna (VLF). Þjóðartekjur fást með því að bæta áhrifum breytinga viðskiptakjara við þjóðarframleiðsluna (VÞF). Munurinn á þjóðartekjum og landstekjum felst í þáttatekjunum. Í þjóðartekjunum eru nettóþáttatekjur meðtaldar, en ekki í landstekjum. Með launum og tengdum gjöldum er átt við greiðslur í peningum eða fríðindum frá atvinnurekstrinum til launþega fyrir vinnuframlag. Með tengdum gjöldum er átt við tryggingagjöld, iðgjöld í lífeyrissjóði, sjúkra-, orlofs-, fræðslu og starfsendurhæfingarsjóði.

88

Profile for Bandalag háskólamanna

Í aðdraganda kjarasaminga  

Skýrsla um efnahagsumhverfi og launaþróun

Í aðdraganda kjarasaminga  

Skýrsla um efnahagsumhverfi og launaþróun

Profile for bhmvefur
Advertisement