Page 100

ríkissjóðs. Horfur eru um að halli á ríkissjóði á árinu 2013 verði um 31 ma.kr., en fjárlög ársins gerðu ráð fyrir 3,7 ma.kr. halla. Fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar var lagt fram í byrjun október sl. Samkvæmt frumvarpinu er stefnt að því að reka ríkissjóð án halla og gerir frumvarpið ráð fyrir 500 m.kr. afgangi á rekstrargrunni. Gangi þetta eftir yrði það í fyrsta sinn frá 2007 að ríkissjóður væri hallalaus. Án aðgerða telur fjármálaráðuneytið að stefnt hefði í 27 ma.kr. halla á árinu 2014. Tekjuhlið frumvarpsins byggir á þjóðhagsspá Hagstofunnar frá júní sl. um 2,7% hagvöxt á næsta ári, en nú er margt sem bendir til að spáin sé of bjartsýn og því gætu skatttekjur verið ofmetnar. Veigamesta aðgerðin á tekjuhlið eru hækkun sérstaks bankaskatts sem einnig verður lagður á fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Tekjuskattur einstaklinga verður lækkaður með því að tekjuskattshlutfall í miðþrepi lækkar um 0,8 prósentustig. Áætlað er að fyrir vikið lækki tekjur ríkissjóðs um 5 ma.kr. og kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna aukist um 0,50,6%. Frítekjumark fjármagnstekjuskatts vegna vaxtatekna einstaklinga hækkar um 25% úr 100.000 kr. í 125.000 kr. og virðisaukaskattur á pappírsbleyjur lækkar úr 25,5% í 7,0%. Atvinnutryggingargjald, sem fjármagnar atvinnuleysistryggingar, verður lækkað um 0,6 prósentustig, gjald í Ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota um 0,25 prósentustig, en almennt tryggingagjald hækkað um 0,75 prósentustig. Samanlagt lækkar því tryggingargjald um 0,1 prósentustig. Atvinnulífið fær því ekki að njóta lækkunar atvinnutryggingagjalds, þrátt fyrir að hafa tekið á sig kostnað af auknu atvinnuleysi eftir fjármálakreppuna, en almenn samstaða var um að tryggingagjaldið lækkaði með minnkandi atvinnuleysi. Ráðstafanir á útgjaldahlið eiga að skila um 23 ma.kr. sparnaði. Þar vegur þungt að fallið er frá ýmsum fyrirhugðum og nýlegum verkefnum, m.a. í fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar, og sparast þar 5,8 ma.kr. Almenn hagræðingarkrafa á að skila 3,6 ma.kr. og breytingar á skilmálum skuldabréfs, sem gefið var út til að styrkja eiginfjárstöðu Seðlabanka Íslands, lækka vaxtagjöld um tæpa 11 ma.kr. Framlög til elli- og örorkulífeyrisþega og félagslegrar aðstoðar hækka um 5 ma.kr. vegna ýmissa breytinga á kjörum og réttindum þessa hóps. Þar er fyrst og fremst um að ræða lækkun á skerðingarhlutföllum ýmissa bótaflokka. Þá aukast framlög til almannatrygginga um 3,4 ma.kr. vegna fjölgunar bótaþega og verðbóta á lífeyri. Útgjöld í þessum málaflokki aukast því alls um 8,4 ma.kr. Lögum skv. er í fjárlagafrumvarpi birt langtímaáætlun í ríkisfjármálum fram til ársins 2017. Áætlunin gerir ráð fyrir að heildarjöfnuður verði lítillega jákvæður öll árin. Þá gerir áætlunin ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu muni lækka, en þó fremur vegna vaxtar landsframleiðslu en niðurgreiðslu skulda.

100

Profile for Bandalag háskólamanna

Í aðdraganda kjarasaminga  

Skýrsla um efnahagsumhverfi og launaþróun

Í aðdraganda kjarasaminga  

Skýrsla um efnahagsumhverfi og launaþróun

Profile for bhmvefur
Advertisement