Vor siður 2021

Page 1

VOR SIÐUR ÁRSRIT ÁSATRÚARFÉLAGSINS

2021


Efnisyfirlit 4 Frá ritstjóra Haukur Bragason Lundarmannagoði 6 Bilað skiptiborð Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði 10 Ár bergrisans Jóhanna G. Harðardóttir 12 Mímir Sigurlaug

Kjalnesingagoði

Lilja Jónasdóttir

16 Landnámsdýrkun Þórs Kári Pálsson 22 Að austan, norðan og víðar Baldur Pálsson Freysgoði 24 Félagsstarfið á tímum kórónuveirunnar Haukur Bragason Lundarmannagoði 28 Skrifstofan flutt í Öskjuhlíð Jóhanna G. Harðardóttir Kjalnesingagoði 30 Ásatrú í nútíma Óttar Ottósson lögsögumaður

Vor siður Ársrit Ásatrúarfélagsins 2021 Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Haukur Bragason Forsíðumynd: Kristín María – kristinmaria.com Baksíðumynd: Kristín María – kristinmaria.com Prófarkalestur: Haukur Bragason Útlitshönnun og umbrot: Árni Torfason Prentun: Prentmet Oddi


2021

Blót fram undan Í þeim tilfellum sem tímasetninga er ekki getið eða staðsetningar eru ónákvæmar verður það auglýst þegar nær dregur á heimasíðu félagsins. Tímaog staðsetningar eru gerðar með fyrirvara um breytingar og eru félagsmenn því eindregið hvattir til að kanna tilkynn­ ingar á netinu stuttu fyrir viðburð. Sérstaklega er bent á þetta í sambandi við sóttvarnaaðgerðir sökum COVID-19.

2021 17. apríl: Blót í Haukadal í Dýrafirði kl. 17:00. 22. apríl: Sigurblót í Öskjuhlíð í Reykjavík kl. 14:00. Sigurblót á Hamarkotstúni á Akureyri kl. 18:00. Sigurblót í Ásheimi í Skagafirði kl. 13:00. Sigurblót í Borgarfirði.

Listi þessi er ekki tæmandi og blót geta bæst við með skömmum fyrirvara. Athugið einnig að blót eru ekki einu viðburðirnir á vegum félagsins því reglu­ lega eru haldin opin hús, leshópar, opnir lögréttufundir, allsherjarþing og fleira. Bent er á dagatal Ásatrúarfélagsins 2021, vefsíðu og Facebook-síðu félags­ins ef fólk vill nálgast frekari upplýs­ingar um slíka viðburði.

1. desember: Landvættablót samtímis í öllum landsfjórðungum og á Þingvöllum kl. 18:00.

29. maí: Gróðurblót að Mógilsá kl. 14:00.

21. desember: Jólablót í Öskjuhlíð í Reykjavík kl. 18:00. Jólablót á Ráðhústorgi á Akureyri kl. 19:00. Jólablót við Ferjusteina við Lagarfljótsbrú á Egilsstöðum kl. 18:00. Jólablót í Ásheimi í Skagafirði kl. 18:00.

5. júní: Vorblót að Síreksstöðum í Vopnafirði kl. 18:00.

30. desember: Níu nátta blót á Akranesi kl. 18:00.

19. júní: Sumarsólstöðublót í Ásheimi í Skagafirði kl. 18:00.

2022

20. júní: Sumarsólstöðublót við Múla í Álftafirði í Djúpavogshreppi kl. 14:00.

21. janúar: Þorrablót í Reykjavík. Þorrablót á Akureyri.

21. júní: Þingblót á Þingvöllum kl. 18:00. Sumarsólstöðublót á Hamarkotstúni á Akureyri kl. 18:00.

20. mars: Vorjafndægrablót í Borgarfirði. Vorjafndægrablót í Hlésey í Hvalfirði kl. 18:00.

24. júlí: Blót í Grundarfirði.

21. apríl: Sigurblót í Öskjuhlíð í Reykjavík kl. 14:00.

25. júlí: Njarðarblót við Fossflöt í Hveragerði kl. 13:00. 13. ágúst: Blót í Selárdal í Arnarfirði kl. 20:00. 21. ágúst: Blót á Stykkishólmi. 23. september: Haustjafndægrablót í Hlésey í Hvalfirði kl. 18:00. 25. september: Haustblót í Borgarfirði. 23. október: Veturnáttablót í Reykjavík. Haustblót í skógræktinni á Seyðisfirði kl. 14:00. Haustblót á Hamarkotstúni á Akureyri kl. 16:00. Haustblót við Sævang á Orrustutanga við Hólmavík kl. 14:00.

Sigurblót á Hamarkotstúni á Akureyri kl. 18:00. Sigurblót í Blöndalsbúð í Fljótsdalshéraði kl. 17:00. Sigurblót í Haukadal í Dýrafirði kl. 18:00. Blótadagskrá eftir sumardaginn fyrsta 2022 verður tilkynnt í dagatali félagsins 2022–2023 og í Vorum sið 2022.

3


VOR SIÐUR

Frá ritstjóra Haukur Bragason Lundarmannagoði

Útgáfudagur Vors siðar er sumardagurinn fyrsti og þess vegna fylgir árleg kveðja: Gleðilegt sumar! Þegar ég ritaði pistil ritstjóra við þetta tilefni í fyrra sagði ég að einkennilegt vorið hefði snúist í einu og öllu um COVID-19. Við tók svo sumar, haust, vetur og annað vor sem einnig litaðist allverulega af þessum vágesti sem við þekktum ekki svo ýkja vel fyrir ári síðan en nú er svo komið að annar hvor Íslendingur er orðinn sérfræðingur í faraldursfræðum. Starf Ásatrúarfélagsins hefur farið fram með breyttu sniði í skugga veirunnar eins og nánar verður vikið að í blaðinu en eitt af því sem ekki breyttist er útgáfa veglegs ársrits sem kemur nú út í sjötta skipti. Það kennir ýmissa grasa í ársritinu. Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði segir frá skemmtilegu símtali sem var upphafið að óvæntri atburðarás. Baldur Pálsson Freysgoði flytur fregnir úr Austurlandsgoðorði í stuttum pistli sem goðarnir á Akureyri, þeir Ragnar Elías Ólafsson Þveræingagoði og Sigurður Mar Halldórsson Svínfellingagoði, og Ásdís Elvarsdóttir ritari lögréttu voru einnig með puttana í. Jóhanna G. Harðardóttir Kjalnesingagoði segir frá flutningum sem marka ákveðin þáttaskil í sögu félagsins og færa okkur skrefinu nær því að koma okkur fyrir í hofinu sem er að 4

rísa í Öskjuhlíð. Sömuleiðis skrifar hún um landvættablót, sér í lagi á Suðurlandi þar sem þau eru helguð bergrisanum, landvætti fjórðungsins. Sá sem hér ritar sá einnig um grein sem fjallar um starf Ásatrúarfélagsins í yfirstandandi heimsfaraldri auk stuttrar frásagnar um einkennilegt blót með óvæntum en velkomnum gesti. Kári Pálsson birtir í blaðinu kafla úr ritgerð sinni sem ber rétt eins og greinin heitið „Landnámsdýrkun Þórs“. Fjallar hún um átrúnað á Þór við landnám eins og nafnið gefur til kynna. Sigurlaug Lilja Jónasdóttir fyrrverandi lögsögumaður sendi inn grein sem fjallar um Mími og er það hugmynd hennar að í næstu tölublöðum Vors siðar geti aðrir fylgt fordæminu og sagt lesendum frá öðrum sögupersónum úr Eddum sem fólk veit ef til vill almennt minna um en helstu goð og gyðjur. Tekur ritstjóri að sjálfsögðu undir þá prýðishugmynd. Síðast en ekki síst segir Óttar Ottósson lögsögumaður, sem einmitt tók við keflinu þegar Sigurlaug Lilja lét af störfum, frá trúarlegu ferðalagi sínu og því sem reyndist vera áfangastaðurinn, Ásatrúarfélaginu. Ég vil þakka þessu fólki innilega fyrir sitt framlag til ársritsins okkar. Vinir mínir, þau Halldóra og Hobie hjá Arctic Weddings Iceland og Kristín María hjá kristinmaria.com voru svo góð


2021 Árni Torfason Haukur Bragason

að gefa leyfi fyrir birtingu mynda úr sinni smiðju. Þessar myndir frá hjónavígslum, af helgigripum goða og náttúru landsins okkar ljá blaðinu fallegan blæ og veita innsýn í þá hlið starfsins sem hefur orðið hvað verst úti í kórónuveirufaraldrinum. Ég vil þakka þeim þremur fyrir og vonast eftir því að geta brátt á nýjan leik hitt þau í því gefandi starfi sem það er að gefa saman ástfangið fólk. Dagatal Ásatrúarfélagsins 2021–2022 kemur út samhliða Vorum sið og verður sent heim til félagsmanna þeim að kostnaðarlausu. Í dagatalinu er að finna allar helstu upplýsingar um bæði fornt og nýtt tímatal, yfirlit yfir viðburði á vegum félagsins og valin erindi úr Grímnismálum.

Alda Vala Ásdísardóttir Hvammverjagoði hafði sem fyrr umsjón með því verki og Hilmar Örn sá um val á erindunum. Kann ég þeim bestu þakkir. Að lokum verð ég að þakka Árna Torfasyni fyrir einstaklega liðlegt samstarf en hann sá um útlitshönnun og umbrot blaðsins og dagatalsins ásamt því að smella mynd af trýninu á ritstjóra og ýmislegt annað enda sannkallaður þúsundþjalasmiður. Allt þetta góða fólk hefur beint og óbeint hjálpast að við að mynda þá afurð sem þið, lesendur góðir, hafið í höndunum eða á skjánum fyrir framan ykkur sem og dagatalið sem hangir á veggjum margra heimila. Njótið vel og ykkar heill.

5


VOR SIÐUR

Bilað skiptiborð Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði

Árið 2020 uppgötvaði ég hlaðvarpið. Auðvitað vissi ég af því fyrr og hafði hlustað á hin eða þessi hlaðvörpin síðustu árin en í fyrra fattaði ég að það var hægt að skipuleggja hlustun og hægt að undirbúa langar ökuferðir með fræðslu og skemmtanagildi í huga. Það voru börnin mín sem björguðu mér með tæknihliðina og ég fann skýr kynslóðaskipti fara í gang og það var ekkert að því. Og ég fór að taka mér yngri dóttur mína til fyrirmyndar og fá mér blátannarheyrnartól og gat þannig hlustað á efni úr farsímanum mínum eða fartölvunni og í leiðinni enduruppgötvaði ég blátannarhátalarann. Ég var svo heppinn að þau hlaðvörp sem ég var í fyrstu mánuði ársins voru öll gerð af vönu fólki sem lagði vinnu og metnað í að gera þetta sem best, hljómgæði voru góð og mikil undirbúningsvinna skilaði því að framsetningin var hnökralaus og fólk var ekki að spyrja út í bláinn. Eftir það fór ég úr því að hlusta á sjálfan mig og telja tafs, stam og hik yfir í að hlusta á eldri hlaðvörp og fann þar marga fjársjóði. Fólk var að senda inn fyrirspurnir um fleiri viðtöl og eitt nafnið sem kom upp um mitt árið í fyrra var kunnuglegt. Ég svaraði úr netfangi félagsins og lét þau sem sendu fyrirspurnina fá einkanetfangið mitt og farsímanúmer. 6

Stuttu síðar hringdi farsíminn og þetta var sama Jóanna og ég hélt. Hún var sjarmerandi og fyndin og sagði að viðtal við mig í þættinum Heart and Soul á BBC World Service hefði vakið forvitni sína og hana langaði til að spyrja margra spurninga en hún vildi undirbúa þetta vel. Hver þáttur væri um það bil 45 mínútur og hún og félagi hennar sem væri líka með tækni- og rannsóknarhliðina á sinni könnu vildu að allt flæddi á lífrænan hátt og hver þáttur væri helst ekki klipptur eða snyrtur á neinn hátt. Fyrir utan hina augljósu tengingu okkar Íslendinga við náttúruna vildi hún líka spyrja mig út í „bilaða skiptiborðið“, á ensku „the faulty switchboard“. Ég hváði eins kurteislega á ensku og ég gat og eftir nokkrar mínútur (sem mér finnst lygilega stuttur tími eftir á að hyggja) kom skýringin: Þetta hafði ekki neitt með BBC að gera heldur að sameiginleg vinkona okkar sem ég hafði unnið með 15 árum áður og kom þarna óvænt upp í samtalinu hafði endursagt sögu sem ég hafði sagt af sjálfum mér fyrst sem tíu ára gömlum dreng skjálfandi af dauðageig heima hjá afa og ömmu (með stafla af spíritistabókum ömmu minnar við rúmið sem ég las þá helgina í einum rykk ömmu til mikillar gleði og efahyggjumanninum afa mínum til


2021 Arctic Weddings Iceland Hilmar Örn Hilmarsson

skelfingar því þarna fannst honum ég vera kominn í krumlurnar á Hafsteini miðli og séra Jóni Auðuns). Og síðan hvernig ég, barnið, týndi mér í hinum ýmsu trúarbrögðum og skipti um átrúnað oftar en sokka þangað til að Ásatrúarfélagið var stofnað og tók mér fagnandi og að lokum hvernig ég notaði þessa reynslu til að róa ungan dreng í minni umsjá mörgum árum síðar með því að láta hann ímynda sér hvað myndi gerast ef fólk vaknar óvænt í „rangri“ handanvist. Dæmin sem ég tók voru jurtaætu­ búddistinn, bardagaglaði stereótýpu­ vík­ ing­ urinn, einn af eyðimerkur­ feðrunum sem var búinn að fleygja sér á ótal netlu­ runna og láta sporðdreka og slöngur nærast á sér og nágranni hans sem lét sig dreyma um (6 + 6) x 6 þokka­ dísir sem biðu hans hinum megin ef hann uppfyllti ákveðin skilyrði. En hvað ef kerfið ruglast og búddistinn vaknar upp með drykkjarhorn í annarri og flæskesteg í hinni og það er hrímþurs í þann mund að fara mölva á honum hausinn,

meinlætamaðurinn sem var nýbúinn að svipta sig úr úlfaldahárskirtlinum og stokkinn í rósarunna vaknar í fanginu á 72 hispursmeyjum, víkingurinn vaknar í hinu gjörsamlega ástríðulausa nirvana og grenjar á aksjón og svo má heimfæra þetta upp á fleiri trúarbrögð og láta misskilninginn fara í veldisvöxt. Ég prjónaði svo enn og aftur við þessa sögu, við hlógum og hún sagðist vera fegin að þetta hefði bara verið svona einfalt. Svo fórum við að ræða um bræðurna William og Henry James og hún sagðist vera nokkuð örugg um að okkur myndi ekki skorta umræðuefni. Ég sat lengi eftir þetta símtal og hló innra með mér því það var eitthvað mjög heillandi við þessa konu og ég gúgglaði smá um hennar sérkennilega lífshlaup og lofaði sjálfum mér í billjónasta skipti að láta af fordómum gagnvart sumum öngum hippahreyfingarinnar. Ákvað síðan að grafa upp þessa sameigin­ legu vinkonu okkar sem ég hef ekki hitt allt of lengi og fór að pæla í því hvort það stæði upp á mig. Rifjaði að lokum upp að 7


VOR SIÐUR

einhverjum hefði þótt þetta góð hugmynd fyrir barnabók. Hvernig gat einhverjum dottið svoleiðis vitleysa í hug? Ég sagði nokkrum frá þessu símtali og var bent á nokkrar skemmtilegar tengingar sem mér höfðu yfirsést. „The Cosmic Coincidence Control Centre í overdrive,“ sagði einhver íslenskumaðurinn. Það leið ekki langur tími þar til ég hnaut um frétt þar sem var sagt frá andláti þessarar sómakonu úr krabbameini sem hafði tekið sig óvænt upp aftur. Hún var ekki á leiðinni neitt þarna stuttu áður… Ég sendi póst á vin hennar og félaga og fékk fallegt svar til baka, það kom í ljós að þau voru líka gift, og tók í kjölfarið þátt í athöfn þar sem fólk úr öllum heimshornum minntist frábærrar manneskju sem hætti aldrei leit sinni. Hún og gamli kærastinn höfðu á sínum tíma kannað Bardöið, svæðið sem sálin ferðast um í 49 daga eftir dauðann í tíbeskum búddisma, á mjög svo vestrænan hátt en sem betur fer hafa forsvarsmenn og -konur þeirrar trúar þroskaða kímnigáfu, annars gætu þau ekki horft fram hjá öllu því rugli sem þau eru tengd við. Og það hefur líka verið fjallað um Bardöið á næmari hátt. Leit á YouTube með lykilorðunum „Leonard Cohen“ og „Tibetan Book of the Dead“ skilar fallegri mynd! Og ef skiptiborðið hefur verið bilað var Jóanna komin með allgóða reynslu í því að takast á við hið óvænta. Ég hef skemmt mér við að búa þetta ókláraða hlaðvarp til í huganum og vona að vinur hennar og félagi fái sömu hugmynd því mig dreymir um að klára fleiri af mínum góðu áformum og lofa sjálfum mér í billjónasta og ellefta skiptið að vera ekki vondur við gamla hippa. Og svo langar mig að gera eitthvað praktískt eins og að safna gömlum og nýjum formælingum af því tagi sem hafa verið nefnd „blótsyrði“ til höfuðs hinum forna átrúnaði sem þurfti að sverta og sópa undir persneska teppið…

8


2021

Arctic Weddings Iceland

9


VOR SIÐUR

Ár bergrisans Jóhanna G. Harðardóttir Kjalnesingagoði

Eitt af mínum uppáhaldsverkum sem goði er að halda landvættablót. Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi landvætta og verður oft hugsað til þeirra, sérstaklega þegar áföll ríða yfir þjóðina. Allt frá því ég var barn hef ég sett heilmikið traust á landvættirnar og kýs að skríða í skjól þeirra þegar svo ber undir. Í gegnum tíðina hlýtur að hafa þurft ofurkrafta þeirra til að vernda okkur Íslendinga, jafnt fyrir náttúruöflunum sem okkur sjálfum. Það hefur oftast komið í minn hlut að halda blót bergrisans sem er nátengdur Reykjanesinu eins og kunnugt er. Það hentar mér sérlega vel því sannast sagna hef ég alltaf varið málstað trölla og jötna þar sem mér hefur gjarnan fundist þeir utangarðs og í hálfgerðu einelti í samfélaginu. Bergrisinn hefur því orðið nokkurs konar kunningi minn eða vinur. Ég hef átt í talsverðum samskiptum við hann á blótum auk þess sem hann sækir stundum sterkt á huga minn, ekki hvað síst þegar samfélagsmál eru ofarlega á baugi. Landvættablótin mín hafa nánast alltaf verið haldin einhvers staðar á Reykjanesinu og uppáhaldsstaðurinn er við Garðskagavita þar sem úfinn sjór umkringir okkur nánast á alla vegu og vindurinn æðir yfir og rífur í hár manns og klæði og gerir heiftarlegar atrennur 10

að blóteldinum í kerinu. Ekki svo að skilja að alltaf sé illviðri á Suðurnesjum, ég kem þangað oft í sumarblíðu og tengi þá vel við brunnin hraunin, standbergin, gufustrókana sem liðast í bólstrum upp í heiðan himininn og rakan fagurgrænan mosann. Ég tengi líka mjög vel við úthafið sem skellur á eyðilegum ströndum, sumum sandmjúkum og hlýjum en öðrum grýttum og illum yfirferðar. Byggðirnar við sjóinn eiga sér einnig stað í hjarta mér, híbýli Suðurnesjamanna sem hafa kosið að búa við þessar hrjúfu aðstæður sem búa þó yfir svo mikilli auðlegð af náttúrunnar hendi. En 1. desember ár hvert er eins og landið okkar og náttúran hafi einsett sér að sýna Ásatrúarmönnum í tvo heimana og láta reyna á þolrif þeirra. Það bregst ekki að þá er annað tveggja: snarvitlaus hríðarbylur eða glitrandi rjómablíða. Þau eru ansi mörg skiptin sem við hjónin höfum þurft að berjast í stórviðri á leiðinni út í Garð þar sem við höfum hálfkalin leitað í kófskímunni frá vasaljósi að skjóli til að kveikja blóteld, umkringd blótsgestum sem láta sér ekki allt fyrir brjósti brenna og skýla staðnum með líkama sínum, kappklæddir að sið pólfara. Þessi blót hafa alltaf orðið eftirminnileg. Náttúran lætur finna fyrir sér og virðingin fyrir ógnarkröftum hennar gerir okkur


2021

Jóhanna G. Harðardóttir

hógvær og lítillát. Bergrisinn sjálfur með járnstaf í hendi gnæfir yfir okkur meitlaður í stein, sterkur, óhagganlegur og traustur og ber höfuð yfir fjöllin. Blótið hefst og ég er allt í einu orðin að skjólstæðingi hans. Hér stend ég í skjóli risans, verndarvættar sem aldrei hvikar, aldrei gefst upp og mun verða hér meðan land rís úr sæ hvað sem tautar og raular. Hér á þessum stað þörfnumst við þess sáttmála sem við gerðum í árdaga við hann og aðrar landvættir. Við hétum því að virða náttúruna, vinna með náttúrulögmálum og spilla ekki landkostum og treystum þess í staðinn að landvættir haldi yfir okkur hlífiskildi og verndi fyrir illum öflum.

Sjaldan hef ég fundið jafn sterkt fyrir nærveru hans og styrk og þetta ár bergrisans með langvinnri baráttu við veiruna skæðu og Surt sem fer sunnan með jarðhræringum og eldi. Ég treysti bergrisanum og ég kýs að standa í skjóli hans hvort sem er við opin landamæri eða við gáttir jarðarinnar sjálfrar. Við höfum alltaf komið sterkari af blóti bergrisans en við fórum þangað. Veðurhamurinn sem nánast gekk af okkur dauðum í verstu hviðunum gekk yfir eins og önnur él og hugurinn varð eldheitur af stolti og sigurvissu eftir átökin. Megi sá kraftur aldrei dvína. Heill bergrisanum og öðrum landvættum — sem og þjóðinni allri.

11


VOR SIÐUR

Mímir Sigurlaug Lilja Jónasdóttir

Mímir er jötunn sem býr við rætur asks Yggdrasils. Mímir er sagður vitrastur allra jötna, tengdur við speki og spádómsgáfu og kenningar eru um að nafnið merki „hinn spaki“ eða „sá sem man“. Mímir er sagður eiga brunninn Mímisbrunn er spekt og mannvit er í fólgið. Sá brunnur liggur samkvæmt Snorra-Eddu undir þeirri rót asks Yggdrasils er til hrímþursa horfir, þar sem áður var Ginnungagap. Mímir og Mímisbrunnur hafa sterk tengsl við ask Yggdrasils á sama hátt og skapanornirnar þrjár við Urðarbrunn og Níðhöggur við brunninn Hvergelmi en öll eru þau og brunnarnir þrír við rætur trésins. Mímir er við rót asksins sem liggur í Jötunheimum en þótt hann sé jötunn þá virðist hann ekki beint vera óvinur ásanna og í sumum sögnum virðist þeim hafa verið vel til vina. Mímir er í Snorra-Eddu sagður „fullur af vísindum“ því hann drekkur úr brunninum af horninu Gjallarhorni. Óðin þyrsti alltaf í meiri þekkingu og er sagður hafa heimsótt Mími og beðið um að fá að drekka úr Mímisbrunni til að öðlast visku en Mímir á að hafa neitað honum. Það var ekki fyrr en Óðinn lagði auga sitt að veði sem Mímir samþykkti að leyfa Óðni að drekka úr brunninum. Eftir það var Óðinn eineygður og augað er sagt liggja á botni brunnarins. Í 28. vísu Völuspár segir: 12

Ein sat hún úti þá er inn aldni kom, yggjungur ása, og í augu leit: „Hvers fregnið mig? Hví freistið mín?“ Allt veit eg, Óðinn, Hvar þú auga falt, í inum mæra Mímisbrunni. Drekkur mjöð Mímir morgin hverjan af veði Valföðurs. Vituð ér enn — eða hvað? Í vísunni er völvan að segja Óðni að hún viti að hann hafi gefið upp auga sitt til að fá að drekka úr brunninum og mörgum finnst hún gefa til kynna að henni þyki sopinn hafa verið dýr. Þarna má kannski deila um hversu hlýtt var á milli Óðins og Mímis en í 4. kafla Ynglinga sögu, sem hægt er að finna í Heimskringlu Snorra Sturlusonar, er eiginlega talað um Mími eins og hann sé einn af ásunum eða í það minnsta samherji þeirra. Þar er Mímir kallaður „hinn vitrasti maður“. Frásögnin segir frá vanastríðinu þegar æsir og vanir börðust en lögðu að lokum á milli sín sáttastefnu og sömdu um frið. Þeir seldu þá gísla á milli. Vanir sendu Njörð og börn hans,


2021 Kristín María - kristinmaria.com

Frey og Freyju, yfir til ása en æsir sendu Hæni og Mími yfir til vana. Æsir sögðu Hæni vel til höfðingja fallinn og þegar í Vanaheim var komið var hann gerður að höfðingja. Mímir kenndi honum öll ráð en þegar Hænir var fjarri Mími og vandamál voru lögð fyrir Hæni þá svaraði hann alltaf: „Ráði aðrir.“ Þá grunaði vani æsi um græsku og að þeir hefðu verið sviknir í mannakaupum. Það leit út fyrir að Hænir væri ekki eins mikið höfðingjaefni og gefið hafði verið til kynna og því tóku þeir Mími, hálshjuggu hann og sendu höfuðið ásum. Óðinn tók þá höfuðið og smurði með jurtum, kvað galdra yfir og magnaði höfuðið upp þannig að það lifnaði við og sagði honum marga leyndardóma. Eftir það ráðfærði Óðinn sig gjarnan mikið við

höfuð Mímis þegar mikið lá við og eitt viðurnefni Óðins er „Míms vinur“. Til að mynda notar Egill Skallagrímsson „Míms vinr“ þegar hann talar um Óðin í sínu þekktasta ljóði, Sonatorreki. Við ragnarök er Óðinn sagður ríða til Mímisbrunns og ráðgast við Mími áður en hann og aðrir æsir hervæða sig og sækja fram í sinn síðasta bardaga. Í 53. vísu Völuspár segir: Hátt blæs Heimdallur, horn er á lofti, mælir Óðinn við Míms höfuð. Skelfur Yggdrasils askur standandi, ymur ið aldna tré, en jötunn losnar.

13


Kristín María — kristinmaria.com


2021

Nafnið Mímir má víða sjá í ýmsum kenningum. Í Skáldskaparmálum eru talin upp bæði „hregg-Mímir“ og „vet-Mímir“ sem kenningar eða heiti á himninum. Í íslenskri orðsifjabók stendur: „hregg­ mímir k. † nafn á neðsta himni (í þulum). Af hregg og Mímir jötunheiti,sbr. Hoddmímir og vettmímir. Sjá hodd og vetminnir.“ Staðurinn Hoddmímisholt kemur fram í Vafþrúðnismálum en Vafþrúðnir kvað í 45. erindi: „Líf og Lífþrasir, en þau leynast munu í holti Hoddmímis. Morgindöggvar þau sér að mat hafa, þaðan af aldir alast.“

Heimildir

Egils saga Skallagrímssonar. Ritstjóri: Sigurður Nordal. Íslenzk fornrit II. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1933. Íslensk orðsifjabók. Ritstjóri: Ásgeir Blöndal Magnússon. Reykjavík: JPV, 1989. Ólafur Briem. Norræn goðafræði. Reykjavík: Iðunn, 1940. Snorri Sturluson. Gylfaginning. Í: Snorra-Edda. Heimir Pálsson bjó til prentunar. Reykjavík: Mál og menning, 1984: 15–78. Snorri Sturluson. Skáldskaparmál. Í: Snorra-Edda. Heimir Pálsson bjó til prentunar. Reykjavík: Mál og menning, 1984: 79–204. Snorri Sturluson. Ynglinga saga. Í: Heimskringla I. Ritstjóri: Bjarni Aðalbjarnarson. Íslenzk fornrit XXVI. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1941: 9–83. Vafþrúðnismál. Í Eddukvæðum. Gísli Sigurðsson bjó til prentunar. Reykjavík: Íslensku bókaklúbbarnir, 2001: 57–70.

Vafþrúðnir er þarna að lýsa eftirmálum ragnaraka en Óðinn spyr í vísunni á undan hvaða menn muni lifa af hinn mikla fimbulvetur. Samkvæmt Gylfaginningu virðast Líf og Lífþrasir lifa af Surtarloga, sem brennir heiminn í ragnarökum, með því að fela sig í Hoddmímisholti. Hodd þýðir fjársjóður, gull eða geymslustaður helgra minja og holt þýddi í fornu máli skógur. Flestir draga þá ályktun að Hoddmímisholt sé í raun heiti á aski Yggdrasils. Í Fjölvinnsmálum er Mímameiðr einnig notað sem heiti yfir ask Yggdrasils. Mímir virðist því vera mikið tengdur við lífsins tré enda sagður búa undir einni rót trésins, við Mímisbrunn. Mímir hefur verið vel þekkt tákn visku og fræða og sögurnar um bæði Mímisbrunn og Mími sjálfan það vel þekktar að skáld hafa notað Mími í ýmsar kenningar, til dæmis á Óðni, aski Yggdrasils og himninum. Mímisbrunnur er enn í dag þekktur fyrir að vera viskubrunnur og flestallir Íslendingar hafa heyrt um Mími og tengja hann við visku og þekkingu.

15


VOR SIÐUR

Landnámsdýrkun Þórs Kári Pálsson

Íslenskar fornbókmenntir eru merkilegar heimildir og varðveita allmargar heimildir um fornar sögur og siði og jafnvel goðsagnir sem fjalla um Þór. Hér mun ég þó ræða mest um Landnámabók og Íslendingasögur sem snúa að Þórsdýrkun á Íslandi. Þótt fræðimenn hafi lengi deilt um heimildagildi þessara rita hefur verið sýnt fram á að margt sem finna má í þessum heimildum er komið úr munnlegri geymd og fornum fjölskylduminnum sem kynslóðir hafa varðveitt í gegnum aldirnar, sem þó taka samfélagslegum breytingum.1 Landnámabók er varðveitt í fimm gerðum, tvær frá 17. öld og þrjár frá miðöldum2 en þær gerðir sem ég mun nota eru Sturlubók [S] sem er rakin til sagnaritarans Sturlu Þórðarsonar (1214– 1284) og er textinn talinn vera frá 1250– 12803 og Hauksbók [H] sem eignuð er

lögmanninum Hauki Erlendssyni (látinn 1334) og talin rituð milli 1302 og 1310.4 Landnámabók greinir frá þegar Ísland var numið fyrir kristnitöku, nafngreinir fjölda landnámsmanna og lýsir hvar og hvernig þeir námu land og jafnvel fylgir með ágrip yfir helstu atburði sem gerðust meðal þeirra stuttu eftir landnám. Þótt augljóst sé að Landnáma er ekki tæmandi listi yfir landnámsmenn þar sem ómegð og ambáttir eru ekki nefndar á nafn má ætla að upptalning Landnámu lýsi helst höfðingjastéttum og valdamestu mönnum sem námu land. Af fjölda þeirra sem nefndir eru á nafn má ráða að Þór hafi verið mikilvægt goð á landnámsöld þar sem 25% landnámsmanna hafa forliðinn eða endinguna Þór.5 Athyglisvert er að sjá hve oft Þór kemur við sögu þegar siglt er til Íslands og þegar land er numið. Til dæmis greinir

1 Snemma á 20. öld mátti finna mismunandi fræðilegar áherslur íslenskra fornbókmennta. Fylgjendur sagnfestukenningarinnar voru á því að flest þessara rita varðveittu fornt munnlegt efni sem rekja mátti til Noregs á meðan fylgjendur bókfestukenningarinnar (oftast nefnt íslenski skólinn) voru á því að flest þessara rita væru höfundaverk, sjá: Liestøl, The Origin of the Icelandic Sagas, 15 og Jón Hnefill Aðalsteinsson, „Íslenski skólinn,“ 108. Upp úr 1960 hafa nýjar kenningar rutt sér til rúms líkt og nýsagnfestukenningin sem undirstrikar þátt bæði ritara og munnlegrar geymdar, sjá: Gísli Sigurðsson, Túlkun Íslendingasagna í ljósi munnlegrar hefðar, 41 og 294. 2 Jakob Benediktsson, „Formáli – Landnámabók,“ i. Landnámabók nefnir oft hvernig landnámsmenn námu land og rekur athafnir og sögu þeirra í stuttu máli og sögu örnefna á svæðinu sem tengjast landnáminu, sjá t.d.: Landnámabók [S 218], 250. 3 Jakob Benediktsson, „Formáli: Landnámabók,“ lxxv. 4 Jakob Benediktsson, „Formáli: Landnámabók,“ lxxxii. Að auki má nefna miðaldahandritið Melabók [M] en ég mun ekki nota þá gerð hér þar sem sú gerð virðist fella niður hinar ýmsu frásagnir og blótheimildir um Þór. 5 Sjá: Landnámabók, 514–520, Ólafur Briem, Heiðinn siður á Íslandi, 54 og Gunnell „Hve hár var hinn Hávi?“, 295. Í þessu eru ótalin þau örnefni í Landnámu sem innihalda nafnið Þór líkt og Þórsmörk sem Ásbjörn Reyrketilsson gaf nafn, sjá: Landnámabók [H 302], 346.

16


2021 Arctic Weddings Iceland

Landnáma frá Helga magra sem fór til Íslands með konu sinni og börnum og segir þar: Helgi var blandinn mjǫk í trú; hann trúði á Krist, en hét á Þór til sjófara ok harðræða. Þá er Helgi sá Ísland, gekk hann til frétta við Þór, hvar land skyldi taka, en fréttin vísaði honum norðr um landit. Þá spurði Hrólfr son hans, hvárt Helgi mundi halda í Dumbshaf, ef Þórr vísaði honum þangat.6 Þótt Landnáma segi að Helgi hafi verið blandinn í sinni trú er eftirtektarvert að sjá að hann neitar að gefa upp gamlan sið

þegar á reynir meðan siglt er yfir hafið. Svo fer jafnvel að sonur hans virðist gera grín að trúgirni föður síns og spyr hvort þeir myndu fara til Dumbshafs, sem hljómar ekki sem ákjósanlegur staður. Aftur á móti er orðalagið „gekk hann til frétta við Þór“ nokkuð sem mér þykir vert að veita frekari athygli. Ljóst er á frásögninni að Þór svarar með þeirri „frétt“ að Helgi myndi nema land fyrir norðan Ísland. Orðalagið „gekk til fréttar“ eða „að ganga til fréttar“ má sjá nokkrum sinnum bregða fyrir í íslenskum fornbókmenntum og er það iðulega tengt blótum og forspám7. Landnámsmaðurinn Þórólfur Mostraskegg er samkvæmt

6 Landnámabók, [S 218], 250. Á svipaðan máta hét Kráku-Hreiðar á Þór sem vísaði honum til lands, sjá: Landnámabók, [S 197, H 164], 232. 7 Um blót og blótfrásagnir Landnámu hefur þjóðfræðingurinn Jón Hnefill Aðalsteinsson (1927–2010) skrifað og bendir hann á óvenjulega jákvæða afstöðu Landnámu gagnvart slíkum blótum miðað við svipaðar frásagnir í öðrum forníslenskum bókmenntum. Niðurstaða Jóns Hnefils er sú að þær blótfrásagnir sem birtast í Landnámu séu forn minni sem lifað hafa í munnlegri geymd og séu vísir að fornum trúarháttum landsmanna, sjá: Jón Hnefill Aðalsteinsson, Blót í norrænum sið, 36–41 og „Blótminni í Landnámabók,“ 278–279.

17


Kristín María — kristinmaria.com


2021

Eyrbyggja sögu (talin rituð milli 1200 og 1245)8 sagður hafa haldið blót mikið og gengið til fréttar við Þór ástvin sinn sem veitti Þórólfi þá frétt að hann ætti að fara til Íslands.9 Eftir það segir Eyrbyggja svo frá: Hann tók ofan hofit ok hafði með sér flesta viðu, þá er þar hǫfðu í verit, ok svá moldina undan stallanum, þar er Þórr hafði á setit. Síðan sigldi Þórólfr í haf, ok byrjaði honum vel, ok fann landit ok sigldi fyrir sunnan, vestr um Reykjanes; þá fell byrrinn … Þórólfr kastaði þá fyrir borð ǫndvegissúlum sínum, þeir er staðit hǫfðu í hofinu; þar var Þórr skorinn á annarri. Hann mælti svá fyrir, at hann skyldi þar byggja á Íslandi, sem Þórr léti þær á land koma. … Eptir þat kǫnnuðu þeir landit ok fundu á nesi framanverðu, er var fyrir norðan váginn, at Þórr var á land kominn með súlurnar; þat var síðan kallat Þórsnes.10 Þegar þessi heimild er skoðuð athuga­ semdalaust virðist hún óneitanlega þrungin norrænni trú og þjóðfræði. Þó eðlilegt sé að spyrja sig hvort tilbúningur ritara Eyrbyggju (og Landnámu) leiki hlutverk í þessari frásögn tel ég að nokkur frásagnaeinkenni ættu að vera lesendum 13. aldar kunnug og mun ég ræða um tvö dæmi þess efnis að atburðir Landnámabókar og Eyrbyggju, þegar Þórólfur nemur land á Íslandi með hjálp Þórs, eiga sér hliðstæða hefð í seinni tíma norrænni þjóðtrú. Þórólfur fær þá frétt

eftir blót sitt frá Þór að hann ætti að fara til Íslands. Frásögnin um öndvegissúlurnar og hvernig Þór „lætur“ þær á land koma gefur til kynna að goðið Þór (sem Þórólfur er nefndur eftir)11 leiki lykilhlutverk fyrir Þórólf og komu hans hingað til lands frá upphafi til enda. Vitanlega vill Þórólfur ekki fara frá Noregi og skilja hof sitt og goð eftir þegar hann heldur á ókunnugar slóðir heldur tekur hann flestan við, hofmoldina og öndvegissúlurnar með sér líkt og hann sé að færa heimilið og helgisiðinn á nýjan stað þar sem hann geti haldið áfram samvist sinni og vináttu við Þór. Þórólfur lætur að auki allt í hendur Þórs um hvar nema skuli land og má sjá að byrinn var með hagstæðu móti fyrir Þórólf. Lesendur 13. aldar þekktu ef til vill þær hugmyndir að heita á eitthvað yfirnáttúrulegt til að fá góðan byr. Í Flóamanna sögu (talin vera rituð um 1280–1330)12 má finna frásögn af Þorgils Þórðarsyni sem dreymir þann draum stuttu eftir kristnitöku að Þór hafi komið til hans í draumi og hótað honum stormi, volki og háska ef hann gerðist ekki sinn maður á leið sinni til Grænlands. Í kjölfarið „mæltu sumir menn at þeir muni blóta Þórr til byrjar“.13 Einnig má sjá hvernig sú þjóðfræði er snúin yfir í kristinn búning. Í Þorláks sögu Biskups „hétu menn á Þorlák biskup til byrjar sér,ok fengu góðan byr“14 sem er algengt að sjá þegar kristnir sagnaritarar yfirfæra heiðin fyrirbrigði og þjóðfræði yfir í kristinn búning.15 Öndvegissúlur Þórólfs vekja að auki

8 Matthías Þórðarson, „Formáli: Eyrbyggja saga,“ 43. 9 Eyrbyggja saga, 7. Þá má nefna dæmi úr Landnámu þegar Végeir Végeirsson „gekk að blóti miklu“ en eftir athöfnina „gáði“ hann ekki til blótsins og braut skip sitt í illviðri þegar hann nam land því blótfréttin var ekki numin líkt og í tilviki Þórólfs og Helga þegar Þór vísaði þeim að landi, sjá: Landnámabók, [S 149], 188. 10 Eyrbyggja saga, 7–8. Þessa frásögn má einnig finna í Landnámu og eru allnokkur líkindi þeirra á milli þótt orðamunur sé á þeim, sjá: Landnámabók [S 85, H 73], 124. 11 Í Eyrbyggju er sagt frá því að fyrra nafn Þórólfs hafi verið Hrólfur. Hafði Þórólfur að auki skegg mikið sem gæti bent til aðdáunar hans á Þór. Hann „blés í skeggraust sína“ í Rögnvalds þætti ok Rauðs, sjá: Eyrbyggja saga, 6 og Rögnvalds þáttr ok Rauðs, 328. 12 Perkins, An Edition of Flóamanna saga with a Study of its Sources and Analogues, 6. 13 Flóamanna saga, 280. 14 Þorláks saga biskups hin elzta, 121. 15 Um þetta hefur Kjartan G. Ottósson (1956–2010) skrifað og sá hann svipuð einkenni í Fróðárundrinu í Eyrbyggju, sjá: Kjartan G. Ottósson, Fróðárundur í Eyrbyggju, 114–117.

19


Arctic Weddings Iceland

VOR SIÐUR

athygli og miðað við frásögn Eyrbyggju og Landnámu má ætla að ákveðin helgi hafi hvílt yfir súlunum fyrst hann tók þær með sér til Íslands. Þær tengjast Þór sem skorinn var út á annarri þeirra og er frásögn Eyrbyggju afdráttarlaus um að Þór hafi „látið“ þær koma á land og þegar þær fundust var „Þór á land kominn með súlurnar“. Hallvarður sonur Þórólfs hafði samkvæmt Landnámu ekki slíkar súlur með sér en „hann blótaði þar til þess, að Þórr sendi honum ǫndvegissúlur. Eptir þat kom tré á land hans“ og segir svo að slíkar súlur hafi verið notaðar í hverjum bæ í

Þorskafirði.16 Landnáma og Eyrbyggja gefa til kynna að slíkar viðargerðar súlur hafi verið notaðar í húskynnum og jafnvel hofum og hafi guðlegar tengingar. Slíka hefð má einnig sjá í skandinavískri þjóðtrú þar sem menn stunduðu það að fleyta viðardrumbum niður á, jafnvel að vötnum, og þar sem viðardrumbinn rak á land var byggð kirkja.17 Á Íslandi eru til nokkrar sagnir um byggingu Strandakirkju þar sem engill beindi för manns að ströndu í Selvogi og hét sá maður því að byggja kirkju úr „fórnarviðinum“ þar sem hann bjargaðist.18 Þótt frásagnareinkenni gætu verið ólík má þó sjá sameiginlegan grunn þar sem hið yfirnáttúrulega leiðir menn að helgum stað svo ekki er ólíklegt að sagnir Landnámu og Eyrbyggju um öndvegissúlurnar eigi sér norrænar menningarlegar rætur sem voru ef til vill ljóslifandi fyrir 13. aldar samfélag á Íslandi. Allt er lagt í sölurnar þegar öndvegissúlunum er varpað líkt og í tilviki Þórólfs eftir að hann hélt sitt blót, líkt og stórt trúarlegt hlutkesti ráði för. Eftir að land er numið hét Þórólfur því að „helga Þór allt landnám sitt og kenna við hann“ og byggði hof (sem lýst er í Eyrbyggju)19 og hafði „þar á nesinu, sem Þórr kom á land dóma alla“ á Þórsnesi. Samkvæmt Landnámu þótti ekki fýsilegt að ganga örna sinna á svo helgum velli svo ætlast var til að menn gerðu þarfir sínar á skeri skammt frá sem hét dritsker. Sagt er frá átökum þess efnis að heiftarblóði var úthellt svo „vǫllurinn var óheilagr af heiptarblóði“, sem varð til þess að þingstaðurinn var færður þangað sem er svokallaður Þórssteinn „er þeir brutu þá menn um, er þeir blótuðu, ok þar hjá er sá dómhringr, er menn skyldu

16 Landnámabók, [S 123, H 95], 163–164. Landnámssúlur Ingólfs voru samkvæmt Landnámu enn til í eldhúsi í Reykjavík þegar Hauksbók og Sturlubók voru ritaðar svo fólk gæti hafa haldið þeim til haga sem undirstrikar hugmyndir um mikilvægi þeirra, sjá: Landnámabók, [S, H 9], 45. 17 Strömbäck, „Hur kyrkan fick sin plats bestämd,“ 41–42. 18 Magnús Guðjónsson, Strandakirkja í Selvogi, 14–16. 19 Þá hoflýsingu rannsakaði Jón Hnefill Aðalsteinsson og komst hann að því að ritari sögunnar sé að lýsa húskynnum sem hann þekkti ekki enda ber ritari sögunnar hofið ítrekað saman við kirkju, sjá: Jón Hnefill Aðalsteinsson, Blót í norrænum sið, 167.

20


2021

til blóts dæma“.20 Ekki skal ég dæma sannsöguleika þessarar frásagnar heldur virðist sem ritarar Landnámu séu að skýra sögu örnefna og atburða sem afkomendur geymdu ef til vill í munnlegri geymd líkt og þeir þekktu og skildu söguna á 13. öld. Aftur á móti má finna í Sturlubók lýsingu á því hvernig slíkum þingum var háttað í stuttu máli og nefnast þau lög Úlfljótslög.21 Í þeim er lýst hvernig goði rjóðar blóði á bauginn og nefnir sér votta tvo eða fleiri sem eru vitni að lögeiðinum þar sem goði segir: „nefni ek í þat vætti, at ek vinn eið at baugi, lögeið. Hjálpi mér svá Freyr ok Njörðr ok inn almáttki Áss.“22 Fræðimenn hafa velt vöngum yfir hver hinn „almáttki Áss“ sé og hugmyndir hafa verið hvort hér sé um Óðin eða jafnvel hinn kristna guð að ræða en fræðimenn líkt og Jón Hnefill Aðalsteinsson og Terry Gunnell hafa bent á það að Óðinn sé ekki þekktur fyrir að vera „máttugur“ og rökstyðja að hér sé að líkindum um að ræða Þór.23 Úlfljótslög geta til að hér séu bæði mennskir menn og heiðin goð vitni að lögeiðinum sem svarnir voru áður en ritöld var hafin. Á þessum tímum var munnlegt samkomulag og eiðar í viðurvist guða sem innsiglaðir voru í blóði mikilvægir því líkt og Jón Hnefill segir að „slík trú hlaut að stuðla að því að menn óttuðust mjög að ganga á eiða sína, því þá var ekki eingöngu veraldlegra hefnda að vænta, heldur einnig guðlegra“.24 Ekki er óhugsandi að slíkir siðir hafi verið við lýði á Þórsnesþingi þar sem Þór kom að landi og verið áframhaldandi vinur Þórólfs Mostraskeggs eftir landnám sitt og verið með í ráðum landnámsfólks þegar lög og eiðar eru settir.

Heimildir

Eyrbyggja saga. Í: Eyrbyggja saga, Grænlendinga sögur. Ritstjórar: Einar Ólafur Sveinsson og Matthías Þórðarson. Íslenzk fornrit IV. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1935: 3–184. Flóamanna saga. Í: Harðar saga. Ritstjórar: Bjarni Vilmundarson og Bjarni Vilhjálmsson. Íslenzk fornrit XIII. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 2009: 274–282. Gísli Sigurðsson. Túlkun Íslendingasagna í ljósi munnlegrar hefðar: Tilgáta um aðferð. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, 2002. Gunnell, Terry. „Hve hár var hinn Hávi?: Hlutverk Óðins í íslensku samfélagi fyrir kristnitöku.“ Í: Þjóðarspegillinn. Ritrýnd grein. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, 2010: 294–303. Magnús Guðjónsson. Strandakirkja í Selvogi. Útgáfustað og útgefanda ekki getið, 1991. Kjartan G. Ottósson. Fróðárundur í Eyrbyggju. Ritstjóri: Sveinn Skorri Höskuldsson. Reykjavík: Menningarsjóður, 1983. Jón Hnefill Aðalsteinsson. Blót í norrænum sið. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1997. Jón Hnefill Aðalsteinsson. „Blótminni í Landnámabók.“ Í: Heiðin minni: Greinar um fornar bókmenntir. Ritstjórar: Haraldur Bessason og Baldur Hafstað. Reykjavík: Heimskringla, Háskólaforlag Máls og menningar, 1999: 257–282. Jón Hnefill Aðalsteinsson. „Íslenski skólinn.“ Skírnir, 165, (1991), 103–129. Landnámabók. Í: Íslendingabók: Landnámabók. Ritstjóri: Jakob Benediktsson. Íslenzk fornrit I. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1968: 31–397. Liestøl, Knut. The Origin of the Icelandic Sagas. Oslo: Aschehoug, 1930. Matthías Þórðarson. „Formáli: Eyrbyggja saga.“ Í: Eyrbyggja saga. Ritstjórar: Einar Ólafur Sveinsson og Matthías Þórðarson. Íslenzk fornrit IV. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1935: v–xcvi. Ólafur Briem. Heiðinn siður á Íslandi. 2. útgáfa. Reykjavík: Bókaútgáfa menningarsjóðs Reykjavíkur, 1985. Perkins, Richard. An Edition of Flóamanna saga with a Study of its Sources and Analogues. Oxford: óútgefin ljósrituð doktorsritgerð, 1971. Rögnvalds þáttr ok Rauðs. Í: Flateyjarbók I. Ritstjóri: Sigurður Nordal. Reykjavík: Flateyjarútgáfan, 1944: 319–331. Strömbäck, Dag. „Hur kyrkan fick sin plats bestämd.“ Í: Atlas Över Svensk Folkkultur. Sägen, tro och högtidssed II. Ritstjórar: Åke Campbell og Åsa Nyman. Uppsala: Kungl. Gustav Adolfs Akademien, 1976: 37–42. Þorláks saga biskups hin elzta. Í: Biskupa sögur I. Ritstjórar: Jón Sigurðsson, Guðbrandur Vigfússon, Þorvaldur Bjarnason og Eiríkur Jónsson. Biskupa sögur I– II. Kaupmannahöfn: Hið Íslenska bókmenntafélag, 1858: 89–124

20 Landnámabók, [S 85, H 75], 125. 21 Jón Hnefill Aðalsteinsson rannsakaði texta Úlfljótslaga og komst hann að þeirri niðurstöðu að þar kæmi fram „glöggt nákvæmni íslensks lagamáls“ sem ætti sér enga „hliðstæðu í öðrum norrænum ritum“, sjá: Jón Hnefill Aðalsteinsson, Blót í norrænum sið, 167. 22 Landnámabók [S 307–309, H 270], 313–315. 23 Sjá: Gunnell, Terry, „Hve hár var hinn Hávi?“, 296 og Jón Hnefill Aðalsteinsson, Blót í norrænum sið, 177. 24 Jón Hnefill Aðalsteinsson, Blót í norrænum sið, 217.

21


VOR SIÐUR

Að austan, norðan og víðar Baldur Pálsson Freysgoði

Á haustdögum 2019 hitti ég í fyrsta sinn, í félagsheimili Ásatrúarfélagsins, Ásdísi Elvarsdóttur sem situr í lögréttu en hún spurði mig þá grannt eftir því hvernig hið félagslega starf færi fram í goðorðum. Það varð fátt um svör að öðru leyti en því hvernig það hefði þróast á Austurlandi og að það væri tilviljanakennt og ómarkvisst og ég vissi lítið um hvernig félagslegt starf færi fram í öðrum goðorðum utan þess að þar, eins og á Austurlandi, væru haldin blót. Í lögum og starfsreglum félagsins er ekkert um hvernig skuli standa að grasrótarstarfi innan goðorða eða í félaginu yfirleitt utan blóta og svo opið hús á laugardögum í Reykjavík. Það var svo á jólablóti 22. desember 2019 sem ég ræddi við blótsgesti um hvort ekki væri kominn tími til að hittast og endurmeta starfið á Austurlandi og skoða hvert við værum að fara. Í framhaldi af því hófum við nokkur að skoða hvernig best væri að standa að endurskipulagningu starfsins, svo kom COVID og setti okkur mörk á að hittast en samt var haldið áfram að skoða málið í þröngum hópi. Eins og Ásatrúarfélagið er upp byggt í dag þá erum við með frekar einföld en skýr lög í níu greinum en starfshættir settir í „starfsreglur“ sem eru í 38 greinum og eru bara góðar fyrir það sem þar er tekið fram. 22

Ef við skoðum lýðræði í Ásatrúarfélaginu þá á hinn almenni félagi, til dæmis úr Austurlandsgoðorði, lítil tækifæri til að hafa áhrif á gang mála í félaginu nema að sækja allsherjarþing. Það er alltaf haldið í Reykjavík sem er eðlilegt miðað við að þar býr meirihluti þjóðarinnar en kostnaðarsamt að ferðast þangað til að fylgja eftir tillögu sem þá kemur kannski bara frá einum áhugasömum úr Austurlandsgoðorði svo dæmi sé tekið. Á Austurlandi hefur það sýnt sig að ef finnast góðir tengiliðir sem hefur verið raunin í þremur byggðakjörnum þá er það mjög til bóta og sú tenging við goða oftast orðið fyrir tilviljun. Ef tengiliðurinn flytur af svæðinu þá eru tengslin rofin og það félagslega starf sem komið var á dettur niður. Það er því mikilvægt að tryggja hvernig á að finna nýjan tengilið á lýðræðislegan hátt. Á vordögum 2020 var komin nokkuð heilleg mynd á hvernig væri best að koma á betra lýðræði í goðorðinu og fyrir tilviljun hittumst við Jónína K. Berg Þórsnesgoði og ræddum hugmyndirnar. Þegar hér var komið lagði Freysgoði í ferðalag til Eyjafjarðar og hitti Ragnar Elías Ólafsson Þveræingagoða og Sigurð Mar Halldórsson Svínfellingagoða og bar undir þá málefnið sem bara batnaði til


2021 Kristín María - kristinmaria.com Eiðbaugur eða stallahringur.

muna við það og svo hitti ég þá aftur 6. mars síðastliðinn ásamt Ásdísi Elvarsdóttur sem hafði komið til Akureyrar gagngert til að hitta Þveræingagoða og Svínfellingagoða. Við veltum í sameiningu upp alls konar pælingum um heiðinn sið á Íslandi í dag og félagsstarf í goðorðum með aðstoð nútímatækni. Þar varð helst að ráði að Freysgoði hefjist handa við að hrinda hugmyndum þessum í gang á Austurlandi og fái til þess fulltingi og aðstoð ef með þarf frá öðrum viðstöddum á fundinum. Því er ætlunin að nú í apríl verði byrjað að auglýsa fundi í byggðakjörnum á Austurlandi þar sem óskað er eftir að tilnefndur verði tengiliður goða sem við að fornum sið getum kallað þingmann goðans. Hlutverk þingmanns

eða þingmanna er ráðgjöf við fjölda og skipulag athafna og annarra félagslegra starfa á viðkomandi svæði. Þá væri ekki úr vegi ef hægt væri að hafa einn fund á ári sem gæti þá heitið goðorðsþing. Hann yrði auglýstur fyrir alla í goðorði og þar yrðu málefni goðorðsins rædd og gerðar tillögur til úrbóta á starfsemi goðorðsins. Þá væri búið að koma á grasrótarstarfi fyrir hinn almenna félagsmann og nú er bara að sjá hvernig til tekst hér fyrir austan. Tekið saman af goðunum Baldri Pálssyni, Ragnari Elíasi Ólafssyni og Sigurði Mar Halldórssyni og Ásdísi Elvarsdóttur ritara lögréttu.

23


VOR SIÐUR

Félagsstarfið á tímum kórónuveirunnar Haukur Bragason Lundarmannagoði

Í Ásatrúarfélaginu starfar annars vegar lögrétta sem er stjórn félagsins og hins vegar hópur goðanna, að sjálfsögðu með ákveðinni skörun og í góðu samstarfi og sambandi sín á milli. Eitt stærsta verkefni beggja þessara hópa undanfarin misseri hefur verið að halda úti starfi félagsins í skugga heimsfaraldurs. Þetta hefur verið ærið verkefni en ég held að báðir hópar geti verið stoltir af því hvernig hefur til tekist. Auðvelt hefði verið að leggjast einfaldlega í híði og skríða úr því þegar jörð risi öðru sinni úr ægi iðjagræn og fullbólusett. Það hefði hins vegar verið háttur heigulsins en ekki heiðingjans. Streymi, fámenni og fjarfundir hafa einkennt starf Ásatrúarfélagsins síðan í upphafi árs 2020. Þar sem ég tók það ár við sæti Jóhönnu G. Harðardóttur Kjalnesingagoða í lögréttu (tveir goðar sitja í lögréttu samkvæmt félagslögum, allsherjargoði og annar kosinn af hópi goða — Jóhönnu gekk reyndar illa að losna og hefur setið fjölmarga fundi í hlutverki allsherjargoða enda staðgengill hans) hef ég setið þá alla nema einn og þetta hefur verið hið áhugaverðasta ferðalag fyrir mann sem telur sig bæði nokkuð ungan og nokkuð kunnugan tölvutækni. Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja eins og segir í máltækinu og það hefur svo 24

sannarlega átt við meðan nokkur okkar sem vinna nánast alla daga á fjarfundum og tilheyrandi höfum þurft að fylgjast með öðrum sem eiga í basli með að muna hvernig fartölva á að snúa. Nú vil ég ekki líkja félögum mínum í lögréttu við hunda (þó ég sé reyndar viss um að finna megi hunda sem kunna betur á Zoom en sumir þeirra) en það hefur verið grátbroslegt að reyna í sífellu að fá fólk til að hætta að tala á meðan það er með stillt á mute, bíða við fjórða mann á einum fjarfundi meðan aðrir fjórir eru á öðrum fundi því tvær slóðir voru sendar út, horfa á helming fundarmanna í símanum að hringja í aðra sem voru í basli með að komast inn á fundinn og þar fram eftir götunum. Tæknikunnátta er eitt en vilji er annað og hann hefur svo sannarlega ekki skort. Ég nefni engin nöfn en þó svo að sum hafi í upphafi litið á fjarfundi sem eitthvað sem væri álíka flókið og að koma fyrsta íslenska gervitunglinu á braut um jörðu þá hafa framfarir verið gífurlegar og nú kalla þau hin sömu ekki allt ömmu sína (enda myndi það ekkert heyrast, það er nefnilega óvart stillt á mute). Allnokkur blót hafa verið send út í streymi og fengið góð viðbrögð frá blótþyrstum félagsmönnum sem hafa lítið sem ekkert getað mætt og hitt fólkið sitt.


2021

Risinn, Ægir og ég

Þ

að kom í minn hlut að sjá um landvættablótið á Suðurlandi í fyrra því Jóhanna G. Harðardóttir sem oftast hefur séð um það blót eins og nánar er fjallað um í greininni „Ár bergrisans“ í blaðinu sá um blótið á Þingvöllum á sama tíma. Landvættablót eru haldin í öllum landsfjórðungum og á Þingvöllum samtímis, kl. 18:00 á fullveldisdaginn. Fyrir þessu er áralöng hefð sem við vildum ekki brjóta þrátt fyrir að geta ekki haft blótsgesti vegna samkomubanns sem ríkti á þessum tíma — og auðvitað skynsemi, sem réði frá upphafi öllum ákvörðunum lögréttu og goðahóps varðandi starfsemi í faraldrinum. Í áðurnefndri grein fjallar Jóhanna einnig um tíða storma þennan dag. 1. desember 2020 var þar aldeilis engin undantekning. Ég ákvað því að fara ekki að Garðskagavita sem er einn algengasti blótstaður landvættablóts í þeim landsfjórðungi heldur að fara styttra. Veðrið var vitlaust og enginn blótsgestur væntanlegur svo ég ákvað að vera skynsamur. Eitt skiptið fyrir einhverjum árum þegar ég sá um sama blót var ég nefnilega ekkert sérstaklega skynsamur og barðist út í Garð í einhverju því kolvitlausasta veðri sem ég hef upplifað. Ég ólst upp á Akranesi, ég veit hvað rok

er og þetta var rok. Blindbylur, skaflar og hvítfyssandi sjór. En það var búið að auglýsa blót og þá mætir goði, annað var vart í boði. Goði var hins vegar sá eini sem mætti. Það var hreint enginn gestur sem lét sjá sig á þessu blóti enda ásatrúarmenn upp til hópa nokkuð skynsamt fólk. Ég hélt samt mitt blót, öskraði á bergrisann við gamla vitann og hann öskraði á móti. Þegar ég færði blótfórnina í formi öls fékk ég meira að segja væna gusu til baka úr óvæntri átt því það var svo undarlega hvasst að bunan feyktist í hálfhring. Ég settist hlæjandi upp í bíl að blóti loknu, líklega angandi af öli þótt ég hefði ekki drukkið dropa og vil ég meina að þetta hafi verið eitthvert það skemmtilegasta blót sem ég hef nokkurn tíma mætt á. Ég hafði því meiri reynslu af allra mögulega fámennustu blótum en nokkur annar goði og ætlaði að nýta mér það forskot á fullveldisdaginn í fyrra. Ég lagði leið mína niður að höfn og hugðist blóta til móts við Þórsnes á Viðey sunnanverðri. Fyrir einhverja stórfurðulega tilviljun beið mín þar blótsgestur, á nákvæmlega þeim bletti sem ég hafði hugsað mér að blóta. Hann var hreyfingarlaus í dulúðlegri birtu frá eina kastaranum á svæðinu íklæddur gráum lit sem minnir óneitanlega á rykfrakka. Þetta var varðskipið Ægir. 25


VOR SIÐUR

Skásta og sísta tilraun mín til að ná mynd af aðstæðum, blótsgestum, horni og hring án þess að fjúka í sjóinn. Á þeirri hægri var ég reyndar á góðri leið þangað.

Nútímaleg útgáfa verndara landhelginnar, hálfgerður arftaki að hluta til eða í það minnsta liðsmaður landvætta í þeim efnum. Þetta var strax orðið skemmtilegt og þó ekki byrjað. Veðrið var fáránlegt. Ég hellti í hornið inni í bíl og íhugaði hvað ég væri eiginlega að gera í lífinu, hellandi maltöli í horn í óveðri til þess að fara út að eiga einsamall nokkur orð um landvættir úti á steini við sjóinn. Væri kakóbolli, teppi og góð bók ekki töluvert skynsamlegri leið til að eyða kvöldinu? En jæja, mínúta í að klukkan slægi sex og út fór ég. Það er ekki oft sem það er það hvasst að það verður erfitt að anda en þetta var eitt af þeim skiptum. Það var óvíst hvort blótfórn kvöldsins yrði hornið mitt eða húfan en mér var nokkuð sama hvort það yrði á þessum tímapunkti svo lengi sem það yrði ekki ég sjálfur. Ég fór í gegnum helgisiðina

26

og öskraði aðeins á bergrisann og hann sagði að honum hefði einmitt fundist að við ættum að gera þetta oftar. Minnugur þess hvað ég hafði lært einhverjum árum áður hellti ég úr horninu úr nánast engri hæð og fékk enga gusu framan á mig. Við áttum þrátt fyrir allt svolítið notalega stund þarna, bergrisinn, varðskipið og ég. Ég þakkaði þeim báðum fyrir að standa vörð um landið og lauk athöfn. Að lokum reyndi ég að taka mynd af viðstöddum en þar sem það var erfitt að standa í lappirnar, hvað þá annað, gekk það ekki sérlega vel. Það reyndist mér ómögulegt að halda símanum kyrrum nógu lengi til að myndin væri ekki hreyfð og í eitt skiptið flaug síminn hreinlega úr höndunum á mér. Það verður seint sagt að það sé auðvelt að halda landvættablót á Suðurlandi en enn síðar sagt að það sé leiðinlegt.


2021 Sara Kristín Bjarkardóttir

Við goðarnir höfum hist þar sem hofið rís og haldið litla athöfn sem við gátum deilt með fólki, sumum í rauntíma og öðrum eftir á með smávegis myndvinnslu. Jóla­ blótið er til að mynda eftirminnilegt en þá sá Logi Hilmarsson um upptöku og eftirvinnslu í sjálfboðavinnu, hafi hann innilegar þakkir fyrir. Við goðarnir þrír sem vorum á staðnum og lögsögumaður launuðum honum með því að kasta örsmáum hljóðnemanum hans í eldkerið þegar skíðlogaði. Nú er lögsögumaður, Óttar Ottósson, ansi fimur og snar miðað við mann á hans virðulega aldri en ég verð að viðurkenna að hann kom mér verulega á óvart er hann tók heljarstökk með skrúfu og dýfu ofan í eldkerið þegar hann áttaði sig á að það væri líklega óheppilegur staður fyrir rándýran hljóðnema sem dottið hafði þangað. Mig grunaði aldrei að í honum blundaði fimleikastjarna. Þegar þetta átti sér stað hafði ráðherra reyndar sett bann við íþróttaiðkun í hópi svo óvíst er hvort málið muni draga dilk á eftir sér. Önnur blót hafa einfaldlega farið fram í fámenni. Þau hafa ekki verið auglýst enda fóru þau fram á tímum þar sem óleyfilegt og/eða óábyrgt hefði verið að smala saman fólki. Í stað þess tóku goðar sína nánustu, fólk úr sinni „jólakúlu“ eða hvað það var sem sóttvarnaaðgerðir kölluðu á hverju sinni — eða fóru einfaldlega einir. Eftir á var svo tilkynnt, til að mynda á Facebook-síðu félagsins, að blót hefði átt sér stað og myndir sýndar frá blótstað. Sumar þeirra voru skrautlegar og jafnvel mikilvægar fyrir síðari tíma sagnaritun, til að mynda festir ein þeirra merkilegan viðburð á filmu: Líklega í eina skiptið sem sést hefur til manns á Norðurlandi umvafinn hreindýraskinni með einnota maska fyrir vitum, nautshorn í annarri og iPhone í hinni. Eins skýrt hafa gamli og nýi tíminn sjaldan mæst. En hvað sem því líður var blóthald í faraldrinum eitthvað sem við goðar vildum endilega halda gangandi enda bæði mikilvægt að halda í hefðir og sannfæra fólk um að náttúru,

Sigurður Mar Halldórsson Svínfellingagoði á jólablóti á Akureyri.

goðum og vættum væri sýndur sá heiður sem þeim ber. Hjónavígsluathafnir hafa verið fáar, nafngjafir oft þurft að falla niður og svo mætti áfram telja. Inn á milli, þegar bylgju hefur lokið og tilslakanir gerðar, hefur verið hægt að gifta og nefna og hitta fólk augliti til auglitis en sá fjöldi athafna er í mýflugumynd samanborið við undanfarin ár. Eins og bólusetning gengur þegar þetta er ritað er þó líklega í fyrsta skipti komin góð ástæða til bjartsýni og ég leyfi mér því að enda á þeim nótum: Brátt munum við geta haldið blót sem veltur ekki á nettengingu, gefið saman fólk sem hefur þurft að bíða mánuðum saman, hlíft rándýrum tæknibúnaði velvildarmanna frá eldi og gefið stjórnarmönnum kærkomið frí frá því að reikna út skotstefnu gervitunglsins Zoom. 27


VOR SIÐUR

Skrifstofan flutt í Öskjuhlíð Jóhanna G. Harðardóttir Kjalnesingagoði

Febrúar árið 2021 var annasamur tími í Ásatrúarfélaginu. Að öllu jöfnu markast febrúar af rólegheitum þar sem jólablót og þorrablót eru að baki og undirbúningur jafndægrablóta og sumarblóts ekki enn hafinn. Húsaleigusamningur félagsins vegna skrifstofuhúsnæðisins í Síðumúla 15 rann út þann 28. febrúar síðastliðinn og sem betur fer virðast guðirnir hafa einhverja samúð með okkur því það viðraði ótrúlega vel þegar við réðumst í þessar fyrirkvíðanlegu framkvæmdir um hávetur. Sjálfskipaður flutningastjóri (sem er höfundur þessarar greinar) byrjaði strax upp úr mánaðamótum að undirbúa gjörninginn. Kössum, pappír og límbandi var safnað saman í hauga og ýmsir byrjuðu að pota ofan í einn og einn kassa, svo sem Hilmar og Ester sem þá voru komin í ferðahug. En tíminn er fljótur að líða og það sást strax að þetta verk yrði ekki unnið með aðra hönd í vasanum. Það var því blásið í herlúðra og menn dregnir nauðugir viljugir til verka, næstum á hárinu. Eins og gengur er fólk misupptekið og einhvern veginn fór svo að það var mikið til sama liðið sem stóð í stórpökkuninni og við Ester, Jói, Alda Vala og Jónas stóðum í stafni í pökkuninni síðustu dagana í 28

hálfgerðu æðiskasti. Á meðan voru aðrir að gera klárt fyrir flutningana á staðnum. Það var ærið verk að pakka niður öllum þeim býsnum af bókum, leirtaui, fatnaði, skrautmunum og alls kyns drasli sem safnast hefur í kringum okkur í Síðumúlanum og það endaði þannig að þegar ég pakkaði niður í fertugasta kassann minn hætti ég að telja enda ekki tími í svoleiðis dund. Einhvern veginn hafðist þetta allt. Það hljóp heldur en ekki á snærið að fá tvo kappa að austan, þá Baldur Freysgoða og Reyni Sigurðsson sem mættu suður á litlum sendibíl. Þeir félagar unnu eins og milljón manns og við þrjú fórum hamförum í vikunni fyrir flutningana við síðustu verkin sem oft eru snúin. Þeir kappar fluttu mikið af smádótinu jafnóðum og við pökkuðum og þegar kom að sjálfri flutningahelginni 20.–21. febrúar voru þeir búnir að koma nánast öllu smádóti í gámahúsnæðið í Öskjuhlíðinni. Baldur lét sig heldur ekki muna um að spartla í göt í veggjum í leiðinni. Þetta átak sparaði okkur mikla vinnu og ekki síður kostnað við flutning í stórum sendibíl. Laugardaginn 20. febrúar var búið láta boð út ganga til félagsmanna sem hugsanlega gætu orðið að liði. Í Síðumúlann mætti aldurshöfðingi


2021

Burðast með innréttingar. F.v.: Jónas, Alda Vala, Ásdís og Baldur.

goðanna, Eyvindur P. Eiríksson, ásamt Eyjólfi syni sínum og aðstoðuðu þeir okkur og Helga bílstjóra við að lesta í sendibílinn. Í Öskjuhlíðinni beið síðan vaskur hópur manna sem var ekki lengi að losa úr bílnum og bera inn. Þetta tók okkur innan við tvo tíma. Þvílíkur kraftur og einbeiting! Sögu flutninga félagsins í Öskjuhlíð var ekki þar með lokið. Mörg handtökin fóru í að koma hlutunum fyrir og lagfæra tímabundnu aðstöðuna svo hægt væri að hella upp á kaffi og halda áfram að vinna sig í gegnum kassastaflana. Skrifstofuhúsnæðið í gámaeiningunni í Öskjuhlíð er auðvitað aðeins hugsað

til bráðabirgða. Það var fyrirséð að skrifstofan yrði ekki opnuð í bráð enda enn verið að vinna í vatns- og pípulögnum, salernismálum og rafmagni á þessum tíma. Frá flutningunum er nú liðið vel á annan mánuð og sem betur fer gleymist allt erfitt og leiðinlegt fljótt og verður jafnvel að skemmtilegum minningum. Við erum flutt í Öskjuhlíðina og það er merkur áfangi. Það má loks segja að við séum komin heim og héðan í frá verða öll verk í eigin húsnæði, uppbygging á hofinu okkar og í okkar eigin þágu. Til hamingju Ásatrúarfélag og við öll!

Kátur og stoltur hópur eftir síðustu törnina. F.v.: Jónas, Óttar, Helgi hirðbílstjóri, Reynir, Alda Vala, Ásdís og Jóhanna.

29


VOR SIÐUR

Ásatrú í nútíma Óttar Ottósson lögsögumaður

„Ha, ertu ásatrúar? Spennandi! Nú er ég reyndar sjálfur kristinn en þetta á auðvitað fullan rétt á sér líka.“ Í þessum dúr hafa viðbrögðin iðulega verið þegar einhver viðmælandi minn kemst á snoðir um að ekki sé allt með felldu með trúarlega afstöðu mína. Slík viðbrögð hafa margoft komið mér þægilega á óvart og þá sérstaklega það umburðarlyndi og sú víðsýni sem virðist einkenna viðhorf fólks til ásatrúarinnar. Vissulega hef ég líka stöku sinnum orðið fyrir aðkasti af sömu sökum en offar ölmóðra steypuhausa nenni ég ekki að elta ólar við. Reyndar hef ég aðallega mætt þessu jákvæða viðmóti síðustu árin mín í Danmörku en þar kom endurreist ásatrúin ekki fram á sjónarsviðið fyrr en með stofnun trúfélagsins Forn Siðr – Asaog Vanesamfundet i Danmark undir lok síðustu aldar eða um aldarfjórðungi síðar en ásatrúarmenn fóru að láta á sér kræla hérlendis. Því má ætla að Íslendingar hafi vanist tilhugsuninni um endurfæðingu upprunalegra trúarbragða landsmanna þá hálfu öld sem liðin er síðan Sveinbjörn nokkur Beinteinsson og fáeinir félagar hans stofnuðu Ásatrúarfélagið 1972. Hér kippir enginn sér upp við tilvist okkar heiðingjanna lengur. Hverfum aðeins þessa hálfu öld aftur 30

í tímann. Ekki að ég ætli mér að segja sögu stofnunar félagsins okkar því það hefur þegar verið gert og fjölmargir betur til þess fallnir en ég sem var víðs fjarri þessum heimsviðburði heldur vil ég aðeins tæpa á minni eigin leið að hinni fornu trú. Þrátt fyrir að faðir minn hafi byggt hálfa risakirkju í Reykjavík, móðir mín sungið í kirkjukórnum áratugum saman og móðurafi minn verið meðhjálpari í þorpskirkju norður í landi í um hálfa öld sagði ég mig úr þjóðkirkjunni 18 ára. Ég vissi ekki þá að það hefði ég getað gert strax við 15 ára aldur án þess að spyrja kóng eða prest. Kannski var ég samt ekki orðinn nægilega afhuga kirkjunni fyrr en þarna var komið sögu. Já, þjóðkirkjunni nánar til tekið, ekkert endilega kristninni sem slíkri þótt ég hefði mínar alvarlegu efasemdir um ágæti hennar. Þetta nægði mér á þessum tíma. Ég leit á mig sem trúleysingja næsta aldarfjórðunginn eða kannski sá ég bara ekki ástæðu til að taka afstöðu til þessara mála um alllanga hríð. Þar kom þó að ég komst að þeirri niðurstöðu að líklega hefðum við öll blundandi í okkur einhvers konar trúarþörf. Við henni gekkst ég og valdi viðstöðulaust ásatrúna því ég kom ekki auga á neinn annan raunhæfan kost. Vera kann að það


2021 Lýður Skúlason Ásatrúarfélagið reisti fyrir um áratug stofnanda sínum og fyrsta allsherjargoða, Sveinbirni Beinteinssyni, minnisvarða í Öskjuhlíð við hof félagsins sem þar er í byggingu. Sonur hans, Georg Pétur, afhjúpaði verkið en ekki er vitað hvernig vofa meistarans rataði inn á myndina.

hafi haft sitt að segja að eftir tvo áratugi í Danmörku fannst mér ég vera orðinn nokkuð danskur í háttum og hugsun þótt ég yrði aldrei annað en Íslendingur svo ég leysti þann vanda með því að líta á sjálfan mig sem norrænan frekar en íslenskan eða danskan. Ríkisborgararéttur minn sem alla tíð hefur verið íslenskur varð þannig eiginlega aukaatriði. Að þessu viðhorfi féll ásatrúin eins og flís við rass og ég komst að þeirri niðurstöðu að hún

væri óaðskiljanlegur hluti norrænnar menningar enda er vor forni siður sannarlega ekkert séríslenskur heldur samnorrænn. Þetta gekk fagurlega upp! Við endurkomu mína til ættjarðarinnar vorið 2003 skráði ég mig strax í Ásatrúarfélagið og tók frá upphafi þátt í starfi þess af fullum hug og þunga. Ekki dró það úr sannfæringu minni um að ég væri loksins búinn að finna mína endanlegu trúarlegu syllu að á þeim 18 árum sem 31


Silke Schurack

VOR SIÐUR

Eitt margra blóta okkar í Öskjuhlíð.

síðan eru liðin hefur vöxtur og viðgangur félagsins verið ákaflega sannfærandi enda hefur félagafjöldinn fimmfaldast. Þegar hér er komið sögu er Ásatrúarfélagið orðið fimmta stærsta trúfélag landsins, með um 1,5% landsmanna innan sinna vébanda og fyrsta opinbera ásatrúarhof í heiminum í byggingu. Óhætt ætti því að vera að fullyrða að félagið hefur skotið styrkum rótum í þjóðfélaginu og nýtur að miklu leyti þeirrar virðingar sem því ber. Engu að síður eimir enn eftir af eins konar tortryggni í okkar garð. Ekki virðist til dæmis öllum vera orðið ljóst að Ásatrúarfélagið starfar um allt land og veitir alla þá þjónustu sem önnur trúfélög gera, meira að segja þjóðkirkjan þótt aðstöðumunur sé allverulegur. Ég hef stundum verið spurður hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að geta gengið í félagið. Ég svara því til að þau séu þau sömu og þjóðkirkjunnar: Engin! Enn fremur hafa 32

sumir efasemdir um trúrækni okkar ásatrúarmanna. Auðvitað er allur gangur á því. Sjálfur hef ég til dæmis aldrei dregið dul á að ég er dyggur og sannfærður félagi fremur af menningarlegum en trúarlegum ástæðum. Sumir félagar okkar eru í raun trúlausir, aðrir sanntrúaðir og enn aðrir allt þar á milli. Að öllum líkindum er mynstrið svipað því sem sjá má innan Þjóðkirkjunnar. Bæði hér og þar er fólki í rauninni trúræknin í sjálfsvald sett. Það gefur auga leið að trúfélag sem þrátt fyrir allt er í minna lagi og á svo sem enga óralanga sögu að baki í nútímaþjóðfélagi mæti ýmiss konar misskilningi og ranghugmyndum. Það stendur þó allt smám saman til bóta. Varla er nokkur maður lengur sem heldur að við étum smábörn í morgunmat eða að hrottalegt blóðbað einkenni blótin okkar. Nú hef ég sjálfur tekið þátt í tugum ef ekki


2021

hundruðum blóta hérlendis og ekki síður erlendis. Aðeins tvisvar hefur mér staðið til boða að ganga til blóts þar sem til stóð að færa dýrafórn. Það fyrra var einkablót hér á landi 1995. Þar var fórnardýrið myndarlegur þorskur sem blótsgestir gerðu góð skil að athöfn lokinni. Seinna tilvikið var um áratug síðar í Danmörku þar sem hæna skyldi vera skammlífur heiðursgestur. Það afþakkaði ég. Reyndar þekki ég ekki lagalegan grundvöll slíkra dýrafórna en læt mér það í léttu rúmi liggja því blóðfórnir eru einfaldlega ekki á dagskrá. Við þurfum ekkert á þeim að halda. Goðin okkar og aðrar vættir teljast fullsátt með skvettu af öli, örlítið brauðmeti eða svo sem eins og eitt hænuegg. Oftast nær er ölið látið duga eða jafnvel vatn ef svo ber undir. Víkjum nú stuttlega að inntaki siðarins. Þá verðum við fyrst að gera okkur grein fyrir að ásatrú er gjörólík þeim trúarbrögðum sem landsmenn þekkja einna helst. Kristni,íslam og gyðingdómur er sprottinn upp úr allt öðru umhverfi en trúarbrögð forfeðra okkar hér á norðurslóðum. Hugarheimur og áherslur eyðimerkurtrúarbragðanna bera vita­ skuld öðrum aðstæðum, lífsháttum og tíma­skeiðum skýr merki. Þar er af mörgu að taka. Annars vegar er um að ræða eingyðis­ trúarbrögð með alvaldan guð, hins vegar fjölgyðistrú með fjöldann allan af goðum og öðrum vættum. Í ásatrúnni eru engin boð og bönn og þar af leiðandi ekkert í líkingu við boðorðin tíu. Engar guðlegar refsingar, ekkert helvíti og engin synd. Síðastnefnda fyrirbrigðið þýðir ekki að ásatrúarmenn geti ekki gerst sekir um ýmiss konar misgjörðir. Það er hins vegar þeirra mál og þess samfélags sem þeir lifa og hrærast í. Goðin okkar hafa öðru að sinna! Af þessu leiðir að ásatrúarmenn stunda ekki trúboð. Þeir sem vilja ganga til liðs við okkur skulu vitaskuld vera hjartanlega velkomnir en það er af og frá að við förum að draga fólk inn í félagið hvort heldur

sem er nauðugt eða viljugt. Hver og einn verður að eiga það við sjálfan sig hvaða trúarbrögð hann kýs að aðhyllast. Það segir sig nú eiginlega sjálft því öll trú hlýtur að verða að koma innan frá, ekki með valdboði. Þegar svo mikil áhersla er lögð á frjálsan vilja hljóta ásatrúarmenn að vera öllum öðrum umburðarlyndari gagnvart öðrum trúarbrögðum. Siðurinn gefur einfaldlega ekki tilefni til annars. Samt sem áður eru þeir til sem ekki átta sig á því frjálslyndi sem í siðnum býr. Þar hittum við fyrir fáeina hópa illa áttaðra einstaklinga sem nota ása­ trúna sem eins konar yfirskin póli­tískrar yfirburðahyggju. Þetta fólk þyk­ ist geta fundið andúð sinni á útlend­ ingum og öðrum óþverraskap stoð í trúar­ ritum siðarins og notað hann sem hryggjar­ stykki kenninga sinna. Það gefur í rauninni tilefni til að efast um að þetta lið kunni yfirleitt að lesa. Til allrar hamingju eru slík fyrirbæri þó nánast óþekkt hér á landi en vinafélög okkar í sérstaklega Banda­ ríkjunum og Þýskalandi telja sig þurfa að vera stöðugt á varðbergi gagnvart þessari óværu. Mun þrálátara, þótt saklausara sé, er þó það álit margra að setja megi samasemmerki á milli ásatrúarmanna og víkinga. Það stenst ekki skoðun. Vissulega voru hinir sigursælu víkingar, forfeður okkar, heiðnir framan af. Rétt er að hafa í huga að velflestir höfðu þeir tekið kristni þegar eftir lifði um þriðjungur víkingatímans sem yfirleitt er talinn hafa staðið yfir á árabilinu 793–1066. Enn fremur hafði heiðinn siður þegar verið ríkjandi trúarbrögð um mestalla Norður-Evrópu í þúsundir ára þegar fyrsti víkingurinn kom fram á sjónarsviðið. Fyrir harðfylgi kirkjunnar manna tókst að mestu að útrýma siðnum og öðrum heiðnum siðum í gjörvallri Evrópu fyrir 800–1200 árum. Hann hefur þó reynst lífseigari en svo að vér heiðingjar látum okkur slíkan yfirgang lynda. Með upplýsingunni í Evrópu á 19. öld tóku að 33


VOR SIÐUR

blása nýir vindar frelsis og mannréttinda um álfuna okkar með þeim afleiðingum að hinum ýmsu kirkjudeildum var ekki lengur stætt á að halda lýðnum í heljargreipum trúarlegs ægivalds. Þar með fengu hin ýmsu þjóðlegu en aflögðu trúarbrögð byr undir báða vængi og gátu haslað sér völl á ný í skjóli trúfrelsis. En rétt eins og þjóðkirkjan á Íslandi er ekki eigandi kristninnar hefur Ásatrúarfélagið engan einkarétt á hinum þjóðlega sið enda eigum við okkur systurfélag hér á landi. Þar eð Ásatrúarfélagið er hátt í 200 sinnum stærra verðum við tæpast vör við þessa litlu systur en rétt er þó að taka fram að full sátt ríkir milli okkar. Hvorugt félaganna gerir tilkall til trúarlegs eignarhalds og hvorugt þeirra gefur hinn eina sanna tón enda er slíkur ekki til. Í framhaldi af því er rétt að undirstrika að þessar hugleiðingar allar eru mínar og mínar eingöngu þrátt fyrir að ég gegni trúnaðarstörfum fyrir Ásatrúarfélagið sem reyndar eru ekki einu sinni trúarlegs eðlis. Þrátt fyrir andstöðu okkar við trúboð vil ég hvetja þau ykkar sem á einhverjum tíma og að einhverju leyti hafa látið sér til hugar koma að ásatrú gæti verið rétt val að hugsa málið vel, kynna sér það efni sem í boði er um siðinn og þá alveg sérstaklega Háva­mál í eldri Eddu. Þau ykkar sem líst ekki á blikuna velja þá aðra leið en þið hin sem fáið það á tilfinninguna að ásatrúin sé það eina rétta og jafnvel virðist með­ fædd skulið vera hjartanlega velkomin. Ásatrúar­ menn eru alls konar. Trú­ lega höfum við hærra hlutfall kynlegra kvista meðal okkar en önnur trúfélög en er það ekki bara betra? Það gefur lífinu lit!

34


Kristín María — kristinmaria.com