Page 1

Félags- og mannvísindadeild FÉL027F haust 2010: Atvinnulíf og skipulagsheildir - þróun, stefnumótun og stjórnun

Tækniframfarir, vinna og einkalíf

Kennari: Tómas Bjarnason Nemandi: Arnar Þorsteinsson 101067-2979


Inngangur Á undanförnum árum og áratugum hafa örar breytingar orðið á flestum sviðum mannlífsins, ekki síst fyrir tilverknað framfara í tölvu- og samskiptatækni. Atvinnulífið og það hvernig við nálgumst vinnuna er hér sannarlega ekki undanskilið þar sem starfsumhverfi flestra einkennist nú af meiri hraða og tíðari samskiptum en áður var. Þau samskipti virðast vera að breytast með svo hröðum hætti að ekki sér fyrir endann á, samstarfsfólk er jafnvel í órafjarlægð hvert frá öðru og margskonar sveigjanleiki í vinnunni virðist mikilvægari hvort tveggja vinnuveitendum og starfsmönnum en áður var.

Allar þessar hröðu breytingar sem ásamt upplýsingatækninni tengjast alþjóðavæðingu, breytingum á skipulagi fyrirtækja og breyttum kröfum neytenda, kalla því á meiri sveigjanleika í vinnuumhverfi fólks og aukinnar kröfu um samræmingu vinnu og einkalífs. Um þessar breytingar hefur margt verið ritað og rætt en kannski minna um það hvernig tækin og breytt boðskipti fólks eru að hafa áhrif á þessi mörk vinnu og einkalífs.

Þó svo að margvíslegar tæknilegar breytingar hafi sett svip sinn á atvinnulífið og það hvernig við sinnum störfum okkar, allt frá upphafi iðnvæðingar er hugsanlegt að sú bylting sem við erum nú að upplifa í upplýsinga- og boðskiptatækni eigi ekki síður eftir að hafa áhrif á starfsumhverfi þeirra sem á næstu árum munu koma inn á vinnumarkaðinn. Í eftirfarandi ritgerð verður stuttlega hugað að því hvaða afleiðingar tækniframfarir hafa á það hvernig við lítum á vinnuna og sér í lagi hvernig samskiptum fólks er háttað og hvaða áhrif tæknin hugsanlega hefur á mörkin milli vinnu og einkalífs. Er í þessu sambandi sérstaklega hugað að yngra fólki sem nú kemur inn á vinnumarkaðinn „sítengt“ frá barnæsku.

Leitað er fanga í nýlegum jafnt sem eldri hugmyndum um eðli vinnunar, samband vinnu og einkalífs og hvernig tækniframfarir hafa þar áhrif. Í umræðukafla eru hugleiðingar um niðurstöður nýlegra rannsókna á því hvernig yngri kynslóðir virðast leggja aukna áherslu á skil vinnu og einkalífs, hugsanlega á kostnað hins félagslega þáttar vinnunar.

2


Vinnan „Hvort sem okkur líkar það betur eða verr munum við eyða miklum hluta lífs okkar í vinnunni. Ekki aðeins mun vinnan stýra stórum hluta dagsins heldur oft einnig stjórna því hvar við búum, hvernig við lifum og hvers konar fólk við umgöngumst.“ (Riggio, 2009, s.2). Mikilvægi vinnunnar er sjálfsagt oft vanmetið miðað við það hversu mikill tími fer í að sinna henni, hugsa um hana og hversu mikil áhrif vinnan hefur á allt okkar líf. Enda hefur umræða um vinnuna lengi snúið að fleiru en þeirri grunnþörf að hafa í sig og á. Þó svo að margir myndu sjálfsagt enn taka undir með Freud (1930) að vinnan sé fremur óþægileg aðferð við að komast af var hann samt sem áður einnig á þeirri skoðun að hún hjálpaði til við að koma á reglufestu í lífinu. Fleira mætti týna til svo sem þá skoðun Marx að vinnan hjálpi mönnum að skilgreina sjálfa sig eða Heideggers að vinnan sé vettvangur mannsins til að fást við ögrandi verkefni (sjá Blustein, 2006). Raunar hafa hugmyndir manna um vinnuna í auknum mæli þróast frá ofuráherslu á framleiðni yfir á hinn mannlegri þátt hennar (Riggio, 2009).

Blustein (2006) bendir á að vinnan er ekki einn afmarkaður þáttur í lífi okkar heldur samofin því og mikill áhrifavaldur. Mörkin á milli vinnu og einkalífs eru því ekki alltaf ljós enda hefur krafa um sveigjanleika atvinnulífsins og jafnvægi á milli vinnu og einkalífs mjög verið í umræðunni á síðustu árum. Því þó svo að aukin samkeppni, hnattvæðing og breyttar kröfur til fyrirtækja hafi skapað aukinn sveigjanleika í atvinnulífinu (Árelía Eydís Guðmundsdóttir, 2002) er áhugaverð spurning hvort og þá með hvaða hætti sá sveigjanleiki hafi sett sitt mark á skil vinnu og einkalífs.

Stefán Ólafsson og Kolbeinn Stefánsson (2005) benda á sérstöðu Internetsins í þessu sambandi sem eitt af því sem skapi „... hnattvæðingu nútímans sérstöðu samanborið við 19. öldina.“ (s. 66). Þeir benda einnig á að þær breytingar sem talið var að Internetið hefði í för með sér séu ekki endilega eins stórvægilegar og menn ætluðu í upphafi svo sem að borgarmyndun myndi líða undir lok. Internetið og margskonar ný tækni hefur þó óneitanlega breytt öllu markaðsstarfi heimsins, elft samkeppni á mörgum sviðum og verið undirrót breytinga á starfsháttum víða. Þannig hefur fyrirtækjaumhverfi mjög breyst og svokölluð þekkingarfyrirtæki rutt sér til rúms í stað hefðbundinna iðnaðarfyrirtækja hvers 3


framleiðsla er í auknum mæli unnin af sjálfvirkum vélum. Tæknin hefur því augljóslega breytt framleiðsluháttum og starfsumhverfi og áhugavert að velta fyrir sér mögulegum áhrifum þessa á það hvernig fólk nálgast vinnuna, mikilvægi hennar og hvort þessar breytingar hafi haft áhrif á skilin milli vinnu og einkalífs.

Hnattvæðing og sveigjanleiki Hugtakið „hnattvæðing“ hefur verið fyrirferðarmikið undanfarin ár og ekki af ástæðulausu. Þar er vísað til þess hversu hratt upplýsingar og fjármagn streyma manna, landa og heimshluta á milli og jafnvel notað sem einskonar samheiti fyrir hinar fjölbreytilegustu þjóðfélagsbreytingar í samtíma okkar. Í stuttu og einfölduðu máli má kannski segja að hnattvæðingin tengist þeirri staðreynd að heimur tækifæranna hefur stækkað samhliða því að takmörkunum í tíma og rúmi hefur fækkað (Stefán Ólafsson og Kolbeinn Stefánsson, 2005). Nákvæmlega hvernig beri að túlka hnattvæðingarhugtakið og hvað í því felst er afar umdeilt og nokkur losarabragur á notkun þess. Hlutverk tækniframfara og breytingar á boðskiptaleiðum fólks í millum er þó væntanlega eitt af því sem óumdeilanlega hefur valdið meiri hraða, svigrúmi og skjótari virkni í samskiptum fólks en áður var. Þar skiptir annað hugtak ekki síður máli en allur þessi hraði og alþjóðlega samkeppni hefur ýtt undir mikilvægi sveigjanlegra starfsumhverfis. Sá sveigjanleiki hefur verið skilgreindur þannig að fyrirtæki skipuleggi innra starf sitt með hliðsjón af ytri aðstæðum, eins konar andstæða við regluveldið sem Max Weber lýsti á sinni tíð (Árelía Eydís Guðmundsdóttir, 2002). Því þó svo að kostir regluveldisins; nákvæmni, stöðugleiki, ákveðni og ábyrgð eigi enn við hjá stórum fyrirtækjum hafa breytingar þróast í þá átt að ókostirnir; seinagangur og skriffinnska geta verið fyrirtækjum mikill fjötur um fót í hröðu samskipta- og viðskiptaumhverfi nútímans.

Vinnan og einkalífið Mörk vinnu og einkalífs hafa einnig lengi verið mönnum hugleikin ekki síst í kjölfar breyttra samfélagshátta; tveir útivinnandi á hverju heimili og tíminn því dýrmætur. Árekstar á milli þessara tveggja þátta hafa því verið rannsakaðir frá ýmsum hliðum þó flestar rannsóknir hafi lengi vel snúið að núningi milli vinnunnar og ábyrgðar fjölskyldulífsins (Greenhaus og Beutell, 1985).

4


Mikilvægi jafnvægis á milli vinnu og einkalífs virðist fara vaxandi hjá yngri kynslóðum sem nú eru að koma fram á vinnumarkaðinn.

Eins og bent hefur verið á (Tómas

Bjarnason, 2004) skiptir þar margt máli. Þjóðfélagsgerð og framboð á félagslegri þjónustu, mismunandi aðstæður innan hverrar fjölskyldu, kynferði og síðast en ekki síst aðstæður þær sem fólk býr við í vinnunni. Má þar nefna vinnutíma, vinnuálag og sveigjanleika en svo virðist sem slíkir þættir tengist mjög togstreitu á milli vinnu og einkalífs (Tómas Bjarnason, 2004). Eitt af þeim hlutverkum sem vinna og þau störf sem við sinnum hafa í lífinu tengist þeirri staðreynd að maður er manns gaman, að vinnan og félagsleg samskipti samtvinnast og hafa áhrif hvort á annað. Þar skiptir að minnsta kosti þrennt máli. Í fyrsta lagi skarast alla jafna störf fólks og sá félagslegi heimur sem það býr í að öðru leiti. Þó ómögulegt sé eflaust að gera fullnægjandi grein fyrir þeim tengslum eða skilja til fulls má nefna hvernig störf hafa iðulega mikil áhrif á sambúð fólks, samskipti við vini og fjölskyldu og tækifæri til að stofna til nýrra tengsla. Í öðru lagi eru uppbyggileg samskipti líkleg til að hjálpa fólki við að takast á við flækjurnar í vinnunni; annars vegar með því að veita tilfinningalegan stuðning en einnig í þá átt að finna starf við hæfi, menntun eða þjálfun. Í þriðja lagi tengir vinnan fólk saman í víðum félagslegum skilningi, vinnan verður leið til að upplifa sig sem hluta af stærri heild (Blustein, 2006). Þörfin að tilheyra eða vera í sambandi er enda einn þáttur svokallaðra innri hvata vinnunnar og hluti flestra kenninga sem um það fjalla (Twenge, Campbell, Hoffman og Lance, 2010). Hvernig fyrrnefndar tækniframfarir hafa haft áhrif á þennan félagslega hluta vinnunnar er ekki síður aðkallandi spurning en hin augljósu áhrif á framleiðsluhætti, starfsumhverfi og framboð á störfum. Sú bylting sem orðið hefur á samskipamáta fólks með tilkomu forrita, sem gera okkur kleift að vera í beinu sambandi við vini og ættingja nánast öllum stundum, hlýtur með einhverjum hætti að tengjast vinnunni, samskiptum okkar á vinnustað og fyrrnefndum þremur þáttum hins félagslega mikilvægis vinnunar. Því er áhugavert að velta fyrir sér hvaða áhrif þær tækninýjungar hafa haft á tengsl vinnu og einkalífs og mikilvægi félagstengslanna í vinnunni.

5


Tæknin og vinnan Þær hnattrænu breytingar sem orðið hafa fyrir tilstuðlan tölvutækninnar eru „... afar víðtækar, flóknar og enn ekki að öllu leyti skiljanlegar (Blustein, 2006, s. 37). Eitt af því sem þessar breytingar hafa haft í för með sér virðist þó ljóst að tengist breytingum á samskiptamáta fólks jafnvel þannig að fólk upplifi minni tilfinningaleg tengsl og finnist það síður hluti af heild. Blustein (2006) bendir á að tæknin gefi kost á meiri raunverulegri fjarlægð

milli

starfsmanna

og

geti

með

þeim

hætti

ýtt

undir

ákveðna

einangrunartilfinningu. Hann heldur því fram að í okkar vestræna heimi lýsi starfsmenn í auknum mæli félagslegri einangrun á sama tíma og þeir reyni að eigi merkingarbær og uppbyggileg samskipti með tölvupósti eða á símafundum.

Hafa verði í huga að

mannskepnan sé hugsanlega ekki vel til slíkrar einangrunar í vinnunni fallin. Hvað sem um þá skoðun má segja virðist ljóst að áhrif tækninnar á vinnuumhverfi fólks eru umtalsverð. Far- og snjallsímar, tölvur sem rúmast í brjóstvasa og þráðlaus nettenging hafa gert það að verkum að fólk getur í auknum mæli unnið vinnuna sína hvar og hvenær sem er. Hvaða áhrif þær hröðu breytingar eru að hafa á mörk vinnu og einkalífs er eflaust ekki enn ljóst. Jákvæð hlið þessa getur til dæmis falist í sveigjanlegra vinnuumhverfi á meðan neikvæðari þættir snúa fremur að því hvernig tími starfsmanna nýtist og gæðí samskipta þeirra á milli (Guðrún Íris Guðmundsdóttir, 2008). Síðan má auðvitað ekki gleyma þeirri staðreynd að enn sem komið er vinnur mikill minnihluti fólks störf á borð við þau sem þekkingarsamfélagið og tæknin hefur skapað. Þegar rætt er um vinnuna er það oftar en ekki gert á forsendum þeirra sem búa við hinn hefðbundna skilning á hugtakinu „starfsferill“, hinnar velmegandi hvítu millistéttar. Þetta hefur Blustein (2006) raunar gagnrýnt og kallað „Goðsögnina um starfsferilinn“ (The grand career narrative). Áhrif tækninnar eru samt sem áður óvéfengjanleg enda hefur umræðan undanfarin ár snúist um það hvernig aukið aðgengi að upplýsingum og samskiptatæknin hafi áhrif á tímaskipulag og starfsaðstæður, ekki hvað síst með tilliti til jafnvægis vinnu og heimilislífs. Þar hafa tvær öndverðar skoðanir tekist á, annars vegar sú að tæknin taki yfir þann tíma sem alla jafna er frátekinn fyrir fjölskylduna en hins vegar að Internetið og tæknin skapi aukin sveigjanleika og geti þannig stuðlað að bættu jafnvægi milli vinnu og einkalífs (Wajcman, Rose, Brown og Bittman, 2010).

6


Miklar tækniframfarir hafa þó ekki alltaf þær breytingar í för með sér sem menn ætla í upphafi. Þannig er í dag afar áhugavert að glugga í bók Don Tapscott, Growing up digital, sem út kom 1998. Þar er talað um „net-kynslóðina“ líkt og um stökkbreytta manngerð sé að ræða „...óvenjulega forvitna, sjálfsörugga, þverúðuga, gáfaða, einbeitta, með mikla aðlögunarhæfni, sjálfsöryggi og vel áttaða í heiminum“ (s. 209). Þó ekki sé langt um liðið er greinilegt að höfundur telur að unga kynslóðin og tæknibyltingin muni hratt og örugglega breyta því hvernig við nálgumst vinnuna og telur upp ein tíu atriði máli sínu til stuðnings. Inntakið þar er að breytingar séu allar í átt til aukins sjálfstæðis og sjálfræðis, einstaka sjálfstæðar sameindir í stað skipulegs heildarmassa svo notuð sé samlíking Tapscott sjálfs. Þar er hins vegar rætt um lífið í vinnunni og utan hennar sem tvo aðskilda heima en ekki tvær hliðar á sama pening. Hvort það sé þróun sem tæknibyltingin muni með tíð og tíma leiða af sér er svo aftur ein af þessum áhugaverðu spurningum sem við stöndum frammi fyrir í dag. Þó í dag virðist ljóst að Netið og tækniframfarir hafi haft gríðarleg áhrif á vinnumarkað og starfsumhverfi fólks eru enn til að mynda skiptar skoðanir á því hvort þessir hlutir séu til góðs eða ills hvað varðar sveigjanlegt vinnuumhverfi og skil á milli vinnu og einkalífs. Þannig kemur til dæmis fram í nýrri ástralskri rannsókn, þar sem skoðað var hvernig starfsmenn nota Internetið í vinnu og einkalífi, að Netið sé oftar notað í persónulegum tilgangi í vinnunni en til að sinna vinnunni utan hefðbundins vinnutíma. Einnig benda niðurstöður þeirrar rannsóknar til þess að notkun Netsins utan vinnutíma geti stutt við jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Þeir starfsmenn, sem rætt var við, voru líklegri til að telja Netið hafa jákvæð áhrif á getu þeirra til að koma á jafnvægi milli vinnu og einkalífs, sér í lagi stjórnendur og sérfræðingar sem raunar virðast nota sér tæknina meira en fólk í öðrum starfsstéttum (Wajcman o.fl., 2010). Sjálfsagt geta áhrif tækninnar hvort tveggja haft jákvæð og neikvæð áhrif á samspil vinnu og einkalífs einstaklinga, allt eftir því hvernig menn kjósa að nýta hana. Hins vegar er ekki síður áhugavert að velta fyrir sér hvort og þá hvernig þær kynslóðir sem nú alast upp sítengd við Internetið, og með aðgang að margvíslegum samskiptasíðum þar, líta á hinn félagslega hluta vinnunnar. Skyldu hin félagslegu gildi vinnunar vera að breytast?

7


Kynslóðabil? Í bandarískri langtímarannsókn (Twenge o.fl., 2010) er greint á milli fjögurra kynslóða og hugað sérstaklega að þeirri sem nú er á leið út á vinnumarkaðinn. Sú er kölluð „GenMe“, fædd á árunum 1982 og 1999. Bent er á að hugsanlega hafi yngra fólk önnur gildi gagnvart vinnunni frá því sem áður var, meðal annars vegna þess að það hafi alist upp sítengt við Internetið, þannig vanist því að fá upplýsingar hratt og eiga með þeim hætti í samskiptum við vini, vinnufélaga og ættingja. Þeir segja ljóst að yngri kynslóðir séu áhugasamari um jafnvægi á milli vinnu annars vegar og fjölskyldu/einkalífs hins vegar og leggi hugsanlega ekki sömu áherslu á hefðbundinn starfsferil og eldra fólk. Þannig hafi mikilvægi sveigjanleika og fjarskipta í vinnu aukist auk þess sem yngra fólk vinni fremur hlutastörf eða sé lausara við á vinnumarkaði vegna árekstra við einka- og fjölskyldulíf. Vitnað er til rannsókna þar sem minnst er á þetta jafnvægi og aukið gildi frítímans á kostnað vinnunar. Einnig er bent á að fyrri rannsóknir séu nokkuð tvísaga um það hvort mikilvægi hins félagslega þáttar vinnunar sé að aukast eða sé minna metið nú miðað við fyrri kynslóðir. Niðurstöður rannsóknar Twenge og samstarfsmanna (2010) benda raunar til að „GenMe“ meti félagsleg tengsl í vinnunni marktækt minna en áður var jafnvel í samanburði við kynslóðina þar á undan (fædd 1965-1981) sem þó hafi upplifað með svipuðum hætti þær tæknibreytingar sem orðið hafa á vinnuumhverfi. Einnig kemur í ljós mjög aukin áhersla á gildi frítíma sem virðist endurspegla að þörfin fyrir jafnvægi á milli vinnu og einkalífs er síður en svo á undanhaldi. Þeir telja raunar að „GenMe“ kynslóðin sé síður líkleg til að leita eftir vinskap í tengslum við vinnuna og velta fyrir sér hvort ungt fólk í dag þurfi síður að treysta á vinnuna til að eignast vini og kunningja þar sem tæknin geri þeim kleift að vera í stöðugu sambandi við vini og fjölskyldu utan vinnunar. Hugsanlega finnst unga fólkinu nóg komið af samskiptum við vinnufélaga að loknum löngum vinnudegi, velji að eyða frítímanum í félagsskap utan vinnunar og sé því afar umhugað um frítíma sinn. Eins og bent er á er þetta svið sem lítið hefur verið rannsakað. Hugsanlega séu breytingar í farvatninu enda virðist nú lokið því tímabili þar sem fólki var launuð trúmennska með starfsöryggi. Sá tími sem frá 1980 hefur einkennst af örum breytingum, samdrætti, uppsögnum, óstöðugleika og hnattvæðingu gæti einnig verið tími minni áherslu á vinnu nema til þess grundvallaratriðis að eiga fyrir salti í grautinn. Eins og Blustein (2006) bendir á er hugtakið „starfsferill“ ekki það sem hann eitt sinn var og hugtakið nánast marklaust 8


með öllu. Starfsferillinn í dag virðist enda hálf markalaus þar sem fólk flyst úr einni vinnu í aðra og takmarkar þau nánu tengsl sem áður mátti öðlast þegar fólk vann á ákveðnum stað í áratugum saman. Tæknin og tilkoma netsíðna á borð við Facebook hafa einnig búið til algjörlega nýja leið fyrir einstaklinga að vera tengdir sem minnkar þörfina fyrir hinn félagslega hluta vinnunnar.

Umræða Þó svo að óumdeilanlega hafi tækniframfarir haft í för með sér breytingar á vinnuumhverfi og viðhorfi fólks til vinnunnar er langt í frá ljóst í hverju þær breytingar eru nákvæmlega fólgnar, hvað sé til góðs og hvað hugsanlega hafi breyst til verri vegar. Svo virðist hins vegar sem það sem tæknin hefur getið af sér; hraðinn, hnattvæðingin og áherslan á sveigjanlegt vinnuumhverfi hafi aukið á mikilvægi samræmingar vinnu og einkalífs. Hvort aukinn sveigjanleiki í vinnunni samfara tækniframförum valdi enn frekari skörun við einkalíf fólks en áður var eða geti jafnvel hjálpað til við að skilja þar á milli er hins vegar spurning sem fræðimenn munu eflaust velta fyrir sér um ókomin ár. Félagslegt mikilvægi vinnunnar hefur fram að þessu verið tiltölulega óumdeilt, það er að hluti þess mikilvægis sem við tengjum vinnu og vinnuumhverfi felst í þeim samskiptum sem við eigum í tengslum við vinnuna. Hér eru tækniframfarir og breytt boðskipti hugsanlega að breyta einhverju. Það er víst löngu liðin tíð að fólk noti ekki síma nema erindið sé brýnt, í dag erum við sítengd við fjölskyldu, vini, kunningja og jafnvel ókunnuga hvenær sem okkur sýnist svo og er áhugavert að velta fyrir sér hvaða áhrif sú staðreynd hefur á hinn félagslega þátt vinnunnar. Eins og bent hefur verið á er þetta lítið rannsakað svið en að sama skapi áhugavert. Hnattvæðingin hefur getið af sér aukna kröfu um sveigjanlegra vinnuumhverfi sem aftur virðist kalla á að fólk geti með skýrari hætti skilið á milli vinnu og einkalífs þó svo að mörgum finnst mörkin þar á milli sjálfsagt óljósari en áður. Þannig er það sennilega afar misjafnt hvort einstaka starfsmenn geti nýtt þetta breytta, tæknivædda og sveigjanlega vinnuumhverfi fjölskyldu- og einkalífi sínu til hagsbóta. Niðurstöður bandarísku rannsóknarinnar sem vitnað var til eru hins vegar allrar athygli verðar sé það rétt að þau gildi sem ungt fólk leggur til grundvallar í vinnunni séu hugsanlega smám saman að breytast. Þarna eru þó greinilega ekki á ferðinni hraðvirkar breytingar en samt sem áður spennandi rannsóknarefni að fylgjast með hvaða áhrif

9


hnattvæðingin, tæknivæðingin, sveigjanleikinn og ósk um skýr skil vinnu og einkalífs mun hafa á hina félagslegri þætti vinnunar. Ekki eru margar vikur síðan Pétur Gunnarsson rithöfundur var í viðtali í Kiljunni, bókmenntaþætti Ríkisútvarpsins. Viðraði hann þar þá hugmynd hvort Íslendingar ættu hugsanlega að hætta að hugsa svona mikið um vinnuna og leggja aukna áherslu á aðra þætti mannlífsins. Fyrir margan duglegan og vinnusaman Íslendinginn hefur sú hugmynd eflaust þótt óraunhæft og fráleitt listamannsraus. Hins vegar er ekki ómögulegt að ímynda sér að breytt starfsumhverfi fólks samfara þeim tækninýjungum sem hellast yfir okkur, nánast í viku hverri, muni smám saman verða til þess að mikilvægi frítímans og einkalífsins aukist svo um munar. Maður heldur vonandi alltaf áfram að vera manns gaman en spurning hvort félagslegt mikilvægi vinnunar haldist óbreytt til eilífðar.

10


Heimildir

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (2002). Íslenskur vinnumarkaður á umbrotatímum. Háskólinn í Reykjavík: Reykjavík. Blustein, David. (2006). The psychology of working: A new perspective for career development, counseling, and public policy. Mahwah, NJ: Lawrence Erlbaum. Freud, S. (1930). Civilization and its discontents. Oxford, England: Hogarth. Greenhaus, J. H. og Beutell, N. J. (1985). Sources of conflict between work and family roles. The Academy of Management Review 10 (1), 76-88. Guðrún Íris Guðmundsdóttir. (2008). Samspil vinnu og einkalífs. Óbirt MA – ritgerð: Háskóli Íslands, Viðskipta- og hagfræðideild. Riggio, R. E. (2009). Introduction to Industrial/Organizational Psychology. (5. útgáfa). New Jersey: Pearson education. Stefán Ólafsson og Kolbeinn Stefánsson (2005). Hnattvæðing og þekkingarþjóðfélag. Ísland í breyttu þjóðfélagsumhverfi 1: Háskólaútgáfan. Tapscott, D. (1998). Growing up digital: The rise of the net generation. New York: McGraw Hill. Tómas Bjarnason (2004). Jafnvægi vinnu og einkalífs í alþjóðlegu ljósi. Sótt 28. nóvember 2010 af http://hgj.rvk.is/Vidhorfskannanir/VidhorfskannanirGallup/nr/244 Twenge J. M., Campbell S. M., Hoffman B. J., Lance C. E. (2010). Generational Differences in Work Values: Leisure and Extrinsic Values Increasing, Social and Intrinsic Values Decreasing. Journal of Management, 36, 1117-1142. Wajcman, J., Rose, E., Brown J. E. og Bittman, M. (2010). Enacting virtual connections between work and home. Journal of Sociology, 46 (3), 257-275.

11

Vinna og einkalif  
Vinna og einkalif  

Ritgerð um samspil tækni, vinnu og einkalífs

Advertisement