Page 1

STEFNUSKRÁ

JÁKVÆTT SAMFÉLAG


Á J-lista Jákvæðs samfélags sameinast fólk úr ýmsum pólitískum áttum sem á sér þá sýn að samfélagið eigi að vera manneskjulegt, jákvætt og allir eigi að fá tækifæri til að eiga gott líf. J-listinn vill að sköpunargleði og kraftur einstaklinganna fái að njóta sín en að samfélagið sé líka til staðar fyrir þau okkar sem þurfa á stuðningi og aðstoð að halda. Við viljum að sveitarfélagið veiti íbúum sínum fyrsta flokks þjónustu og byggi upp nauðsynlega innviði. Stjórnsýslan þarf að vera gagnsæ og ábyrg og leggja þarf áherslu á íbúalýðræði og sjálfbærni. Hið nýja sveitarfélag þarf að takast af ábyrgð á við verkefni 21. aldarinnar og leggja sitt af mörkum til þess að skila Jörðinni í góðu standi til komandi kynslóða.

Í fjármálum og stjórnsýslu vill J-listinn Ábyrga fjármálastjórnun þar sem farið er vel með þá fjármuni sem kjörnum fulltrúum er treyst fyrir og eru sameign allra í samfélaginu. Að stjórnsýslan sé opin og gegnsæ. Efla rafræna stjórnsýslu þannig að íbúar eigi auðveldara með að nýta sér þjónustu og sækja sér upplýsingar. Auglýsa stöðu bæjarstjóra og ráða í hana út frá faglegum forsendum. Að stjórnskipulag sé einfalt og skilvirkt. Að þjónustuskrifstofur á vegum sveitarfélagsins séu bæði í Garði og Sandgerði. Að framkvæmdir og fjárfestingar taki mið af fjárhagslegri getu sveitarfélagins. Að sveitarfélagið hafi sterka rödd gagnvart ríki og öðrum sveitarfélögum með hagsmuni íbúa að leiðarljósi. Leggja áherslu á íbúalýðræði þar sem rafrænar íbúakosningar verði notaðar í auknum mæli. Hlúa vel að starfsfólki bæjarfélagsins með virkri starfsmannastefnu og jafnlaunastefnu til að tryggja jafna stöðu kynjanna. Að stytting vinnuvikunar hjá starfsfólki sveitarfélagsins verði skoðuð.


Í skóla og fræðslumálum vill J-listinn Fjölga leikskólaplássum með því að stækka Gefnarborg í Garðinum og byggja nýjan stærri leikskóla í Sandgerði til að taka við af Sólborg. Að ungbarnadeild verði í boði á leikskólastigi. Endurskoða og meta ólík rekstrarform leikskóla. Að sérfræðiþjónusta fyrir skólastarf verði byggð upp innan sveitarfélagsins og sérstaklega hugað að geðheilbrigðismálum ungmenna. Að unnin verði skólastefna fyrir sveitarfélagið sem taki mið af því góða starfi sem þegar er unnið í samráði við starfsfólk, foreldra og nemendur. Að námsgögn verði áfram gjaldfrjáls í grunnskólunum. Bjóða upp á öfluga skóla með fjölbreyttu námsvali fyrir alla. Að áfram verði öflugt starf tónlistarskóla í báðum byggðarkjörnum. Að lýðheilsu- og forvarnarstefna verði unnin fyrir sveitarfélagið. Leggja áherslu á að sjálfbært samfélag endurspeglist í starfi skólanna. Bæta útiaðstöðu á skólalóð Gerðaskóla.

Í ferða og atvinnumálum vill J-listinn Að sveitarfélagið verði vel merkt við Rósaselstorg hjá flugstöðinni. Virkja sögustaði fyrir ferðaþjónustu. Stuðla að góðu sambýli atvinnulífs og íbúabyggðar, m.a. með því að því að koma í veg fyrir lyktarmengun. Efla merkingar á merkilegum stöðum í sveitarfélaginu og viðhalda þeim merkingum sem eru til staðar. Halda áfram samstarfi við Reykjanes jarðvang – Geopark. Standa að öflugu menningarstarfi í báðum þéttbýliskjörnum. Laða að nýsköpunar- og sprotafyrirtæki. Rækta grasrótina í list og menningu. Vinna að uppbyggingu atvinnu- og þróunarsvæðis í kringum flugvöllinn með flugvallaryfirvöldum, ríki og nágrannasveitarfélögum. Að Sandgerðishöfn verði áfram fiskihöfn í fremstu röð.

Til að tryggja samfélag fyrir alla vill J-listinn Að unnið verði að uppbyggingu hjúkrunarheimilis í sveitarfélaginu. Að boðið verði upp á dagdvöl fyrir eldri borgara. Fá heilsugæslu aftur í sveitarfélagið. Að áfram verði öflug heimaþjónusta fyrir þá sem þurfa. Að eldri borgarar hafi frítt aðgengi að heilsurækt. Að unnið verði gegn félagslegri einangrun. Að fjölmenningu verði fagnað og unnið að því að allir séu virkir þátttakendur í samfélaginu. Að fólk með fötlun fái þann stuðning og þjónustu sem því ber og njóti þannig sjálfsagðra mannréttinda. Að sveitarfélagið sé virkt í því að jafna aðstöðu kynjanna.


Í frístundum, íþróttum og heilsu vill J-listinn Gera sveitarfélagið að heilsueflandi samfélagi. Hlúa vel að íþrótta- og tómstundaiðkun fyrir alla aldurshópa í báðum byggðakjörnum og bjóða upp á fjölbreytta starfsemi með aðgengi fyrir alla. Hafa hvatastyrki fyrir öll börn til 18 ára aldurs. Gefa út samfélagskort fyrir íbúa sveitarfélagsins sem veitir þeim frían aðgang að sundlaugum og bókasöfnum. Byggja upp heilsueflandi göngustíga með æfingastöðvum og leiðbeiningum. Endurskoða opnunartíma íþróttamiðstöðva með það að sjónarmiði að efla þjónustuna enn frekar. Styðja áfram vel við íþróttafélögin í sveitarfélaginu. Styrkja og hlúa að starfsemi frjálsra félagasamtaka í sveitarfélaginu. Setja frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja á Kirkjubóli á dagskrá, mitt á milli byggðakjarnanna í Garði og Sandgerði.

Til að vinna að sjálfbæru og lifandi samfélagi vill J-listinn Stuðla að umhverfisvænni atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu. Taka upp flokkun á sorpi og hvetja íbúa til að huga að nærumhverfi með sjálfbærni að leiðarljósi. Fjölga sorpílátum á opnum svæðum. Bjóða upp á matjurtagarða fyrir íbúa til að rækta og sinna. Tryggja að áfram verði lífleg starfsemi í Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði og í Byggðasafninu á Garðskaga. Að Sólseturshátíðin og Sandgerðisdagar verði áfram bæjarhátíðir í sitt hvorum byggðarkjarnanum. Stuðla að hreinu umhverfi í samstarfi við íbúa, hagsmunasamtök og fyrirtæki. Huga að fegrun byggðarkjarnanna, meðal annars með aukinni gróðursetningu. Að bókasöfnin í báðum byggðakjörnum verði nýtt sem lifandi menningarmiðstöðvar. Að sveitarfélagið setji sér umhverfisstefnu sem tekið verði mið af í allri starfsemi sveitarfélagsins með áherslu á sjálfsbærni og jákvætt vistspor.

Í húsnæðis og skipulagsmálum vill J-listinn Leggja upplýstan göngustíg milli Sandgerðis og Garðs. Hefja undirbúning að stíg sem tengir byggðarkjarnana við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hefja strax vinnu við nýtt aðalskipulag fyrir nýtt sameiginlegt sveitarfélag með samtali og samvinnu við samfélagið og áherslu á sjálfbærni. Bæta samgöngur milli Sandgerðis og Garðs, m.a. með því að þrýsta á ríkið að breikka og bæta þjóðveginn þar á milli. Þrýsta á ríkið að þjóðvegirnir til og frá báðum byggðakjörnum verði endurbættir með öryggi að leiðarljósi. Ganga frá frárennslismálum til frambúðar í báðum byggðarkjörnum. Hafa frumkvæði að því að íbúðarhúsnæði sé fjölbreytt og henti ólíkum þörfum fólks. Haldið verði áfram að byggja upp virkan og heilbrigðan leigumarkað í samstarfi í við leigufélög sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Tryggja að strandlengjan njóti verndar um leið og aðgengi að henni verði bætt.

jlisti.is

Stefnuskrá J-listans  

Stefnuskrá J-listans fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018.

Stefnuskrá J-listans  

Stefnuskrá J-listans fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018.

Advertisement