Page 1

Framkvæmdasýsla ríkisins vt. Óskar Valdimarsson, forstjóri Borgartúni 7A 105 Reykjavík Reykjavík, 25. júlí 2010 Varðar: Hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimili í Fjarðabyggð Til LEX lögmannsstofu hafa leitað höfundar tillögu þeirrar sem hlaut fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimili í Fjarðabyggð, útboð Ríkiskaupa nr. 14838, og falið stofunni að gæta hagsmuna sinna í kjölfar fundar með yður sl. miðvikudag, þann 21. júlí. Á fundinum var til umræðu að til greina kæmi að svipta þau fyrsta sæti í keppninni á grundvelli minnisblaðs frá LOGOS lögmannsþjónustu þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að „teljist vinningshafinn hafa verið vanhæfur til þátttöku í samkeppninni“. Undirrituð telur minnisblað þetta í öllum meginatriðum efnislega rangt. Það vekur strax athygli hvernig með hugtök er farið, hvort sem er í samkeppnislýsingu eða minnisblaði LOGOS lögmannsþjónustu. Væntanlega er með ofangreindri tilvitnun átt við að umbjóðendur mínir hafi ekki þátttökurétt í samkeppninni, sbr. grein 2.1 í samkeppnislýsingu vegna þessi að einhver nánar tilgreind atvik hafi áhrif á hið sérstaka hæfi eins dómnefndarmanna af fimm, en dómnefndin er sem kunnugt er fjölskipað stjórnvald og leggur mat á tillögur út frá málefnalegum forsendum sem fram koma í samkeppnislýsingu. Sérstök krafa er gerð um nafnleynd varðandi tillögur. Vart þarf að taka fram að slík afturköllun verðlauna er afar íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og þó tekið sé fram í 103. gr. laga um opinber innkaup, nr. 84/2007, að stjórnsýslulög nr. 37/1993 gildi ekki um ákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögunum, ef frá er talinn II. kafli laganna um hæfi, gilda hinar almennu ólögfestu reglur stjórnsýsluréttarins um rannsóknarskyldu, jafnræði og andmælarétt fullum fetum. Frá yður hafa hins vegar ekki með bréflegum hætti komið upplýsingar um nákvæmlega hvaða ávirðingar eru bornar á umbjóðendur mína sem haft geti svo alvarlegar afleiðingar og hvers sé krafist af þeim í tengslum við það. Fyrr en það hefur verið gert og þeim jafnframt verið veittur aðgangur að öllum gögnum í málinu, s.s. fundargerðum dómnefndar, er hvorki hægt að taka afstöðu til ávirðinganna né kynna til hlítar sjónarmið þeirra um að þátttökuréttur þeirra í keppninni standi óhaggaður. Bréf þetta er sent í tölvupósti til yðar, oskar@fsr.is, þar sem það kemur fram á heimasíðu Framkvæmdasýslu ríkisins að skrifstofa þess sé lokuð frá 26. júlí til 6. ágúst 2010. Vinsamlega staðfestið að yður hafi borist þetta bréf. Varað er við því að teknar séu ákvarðanir í fljótræði í þessu máli enda getur slíkt haft alvarlegar afleiðingar að lögum. Virðingarfyllst,

Dýrleif Kristjánsdóttir, hdl.

http://ai.is/wp-content/uploads/2010/08/Br%C3%A9f-Lex-til-Fsr-25.07.2010  

http://ai.is/wp-content/uploads/2010/08/Br%C3%A9f-Lex-til-Fsr-25.07.2010.pdf

http://ai.is/wp-content/uploads/2010/08/Br%C3%A9f-Lex-til-Fsr-25.07.2010  

http://ai.is/wp-content/uploads/2010/08/Br%C3%A9f-Lex-til-Fsr-25.07.2010.pdf

Advertisement