Skýrsla um félagsþjónustu sveitarfélaga 2012

Page 67

5. ÝMIS LÖGBUNDIN FRAMLÖG Samkvæmt mynd 1.1.1 rennur innan við 1% þess fjár sem veitt er til félagsþjónustu sveitarfélaga á lið sem heitir „ýmis lögbundin framlög“. Þessi lögbundnu framlög eru framlög til Orlofssjóðs húsmæðra samkvæmt lögum um orlof húsmæðra nr. 53/1972 og til Varasjóðs húsnæðislána samkvæmt X. kafla laga um húsnæðismál nr. 44/1998.

5.1 Orlofsnefndir húsmæðra Samkvæmt lögum um orlof húsmæðra nr. 53/1972 skiptir Kvenfélagasamband Íslands landinu í orlofssvæði. Sérhver kona, sem veitir eða hefur veitt heimili forstöðu, án launagreiðslu fyrir það starf, á rétt á að sækja um orlof. Til þess að standa straum af kostnaði við orlof húsmæðra skal sveitarsjóður leggja árlega fram fjárhæð, sem nemi minnst kr. 100 fyrir hvern íbúa sveitarfélagsins. Fjárhæð þessi tekur breytingum eftir vísitölu framfærslukostnaðar og miðast við vísitöluna eins og hún er í febrúar ár hvert. Framlag þetta skal greiða orlofsnefnd viðkomandi orlofssvæðis fyrir 15. maí. Árið 2010 er kostnaður sveitarfélaga vegna orlofsnefnda húsmæðra 24,7 milljónir króna (nettó) samkvæmt ársreikningum sveitarfélaga. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur um langt skeið barist fyrir brottfalli laganna. Í því erfiða rekstrarumhverfi sem sveitarfélögin glíma nú við er lögð rík áhersla á að skerða ekki grunnþjónustu en hætta eða draga úr stuðningi við önnur verkefni. Ljóst er að orlof húsmæðra telst ekki til grunnþjónustu sveitarfélaga í þeirri mynd sem það er nú framkvæmt. Er það því eindreginn vilji margra sveitarstjórna að lög nr. 53/1972 um orlof húsmæðra verði afnumin til að þau geti varið þeim fjármunum sem þeim er samkvæmt lögum skylt að greiða til þessa verkefnis í önnur og brýnni verkefni.

5.2 Varasjóður húsnæðismála Í X. kafla laga um húsnæðismál nr. 44/1998 er lögð sú skylda á herðar sveitarfélaga að starfrækja sérstakan varasjóð húsnæðismála sem skal vera í eigu og á ábyrgð þeirra. Varasjóður húsnæðismála er sjálfstæð rekstrareining en félagsmálaráðherra hefur yfirumsjón með starfsemi sjóðsins og setur honum reglur samkvæmt lögum þessum. Yfir sjóðnum er skipuð 5 manna ráðgjafarnefnd til 4 ára í senn. Hlutverk hennar er margþætt. Meðal annars skal hún veita rekstrarframlög til sveitarfélaga vegna hallareksturs félagslegra leiguíbúða eða íbúða sem hafa staðið auðar í lengri tíma. Þá skal hún veita framlög til sveitarfélaga vegna sölu félagslegra eignar- og leiguíbúða á almennum markaði. Sjóðurinn skal taka þátt í niðurgreiðslu við sölu á innleystum félagslegum íbúðum á almennum markaði í þeim tilvikum þar sem innlausnarverð er hærra en markaðsverð íbúðanna. Í lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 voru þau nýmæli að leyfilegt var að veita viðbótarlán til fasteignakaupa. Markmið viðbótarlána samkvæmt frumvarpinu var að koma í stað lána vegna félagslegra eignaríbúða og skyldu þau veitt þeim sem bjuggu við erfiðar aðstæður. Markmiðið var jafnframt að breyta áhrifum og ábyrgð sveitarfélaga og húsnæðisnefnda sveitarfélaga hvað félagslegt húsnæði og lánveitingar varðar. Í X. kafla sömu laga kemur fram sú skylda sveitarfélaga að starfrækja sérstakan varasjóð til að mæta hugsanlegu útlánatapi vegna viðbótarlánanna. Þessi varasjóður viðbótarlána var í eigu og á ábyrgð sveitarfélaga. Viðbótarlánin voru aflögð í lok árs 2004. Þar með var Varasjóður viðbótarlána felldur inn í Varasjóð húsnæðismála, og tók sá síðarnefndi við öllum eignum, réttindum og skyldum eldri varasjóðs samkvæmt lögunum. Árið 2010 er rekstrarkostnaður sveitarfélaga vegna varasjóðs húsnæðislána 26,3 milljónir króna (nettó) samkvæmt ársreikningum sveitarfélaga.

65


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.