ÍSLAND - Atvinnuhættir og menning 2010

Page 109

Verslun og þjónusta | 111

Á

bæjarins beztu ehf.

horni Pósthússtrætis og Tryggvagötu í Reykjavík má finna einn af hinum föstu punktum í miðbæjarbragnum og hans helsta kennileiti. Hér er átt við hinn ástsæla og rótgróna pylsuvagn sem betur er þekktur undir kjörorðunum „Bæjarins Beztu“ og þá sem stytting fyrir „Bæjarins beztu pylsur“. Í dag fer starfsemin fram á þremur öðrum stöðum, í Holtagörðum, Skeifunni og Smáralind. Hjá fyrirtækinu starfa 45 manns. Pylsuvagn „Bæjarins beztu“ er smæsti, vinsælasti og elsti skyndibitastaður landsins, en hann á að baki meira en 70 ára sögu. Hið merkilega er að starfsemin hefur haldist óskert innan sömu fjölskyldunnar fram á þennan dag. Núverandi eigandi, Guðrún Kristmundsdóttir, er þriðji ættleggur stjórnenda í föðurætt. Elstu staðfestu heimildir má rekja til kaupsamnings sem gerður var árið 1937, en með því komst vagninn í eigu afans og ömmunnar, Jóns Sveinssonar og Guðrúnar Kristmundsdóttur, eldri. Mágur Jóns og fyrrum samstarfsmaður í vagninum, danski kjötiðnaðarmaðurinn Alf Peter Nielsen, tók að sinna verkefnum fyrir Sláturfélag Suðurlands og gerði þar merkilegar tilraunir með að þróa íslenskar pylsur úr lambakjöti. Í hefðbundinni, alþjóðlegri pylsugerð er gjarnan notast við svínakjöt, en þar sem fáar slíkar skepnur voru ræktaðar hér á landi, var það íslenska sauðkindin sem fékk það ábyrgðarmikla hlutverk að leggja til annálað gæðahráefni í hið staðbundna bragð íslensku pylsunnar.

Pylsa með öllu Niðurröðun og magn meðlætis á pylsu er auðvitað háð persónulegum smekk hvers viðskiptavinar fyrir sig. Í hinni sígildu samsetningu „Pylsu með öllu“ hjá Bæjarins beztu er hráum og steiktum lauk sáldrað ofan í neðsta lag upphitaðs pylsubrauðsins og tómatsósan ofan á. Síðan er pylsan lögð ofan í og yfir hana dælt sitthvorri línunni af sinnepi og remolaði, í réttri röð.

Upphafleg staðsetning Pylsuvagns „Bæjarins beztu“ mun hafa verið við Kolasund, sem eitt sinn lá á milli Austurstrætis og Hafnarstrætis, en sundið vék síðar fyrir þeirri byggingu sem nú stendur á milli Héraðsdóms og Pósthússins. Á fyrstu árunum kostaði hver pylsa 25 aura og voru þær eingöngu afgreiddar með tómatsósu og sinnepi ásamt hálfri brauðsneið, en fyrir þá sem vildu gera vel við sig, gátu hinir sömu greitt 10 aura að auki fyrir að bæta við sneið af vínarbrauði að viðbættu mjólkurglasi. Árið 1943 hóf Krismundur Jónsson, faðir Guðrúnar yngri, störf í pylsuvagninum, en ári síðar fluttist starfsemin á núverandi slóðir, sem þá var kallað Steinsplan. Eftir seinna stríð tekur samsetning hinnar sígildu „pylsu með öllu“ að þróast í réttum takti við öra þróun neyslusamfélagsins. Steikti laukurinn kemur árið 1947 og ári síðar bætist sérbakað pylsubrauðið við, enda hveitiskortur stríðsáranna þá orðinn hverfandi. Hrái laukurinn lætur á sér kræla árið 1951, en síðan er það ekki fyrr en árið 1972 sem fíngerð og einstök remolaðisósan slær smiðshöggið á samsetninguna. Ekki þarf að fjölyrða mjög um hylli og virðingu pylsuvagns „Bæjarins beztu“ á meðal Íslendinga, enda um að ræða óopinberan þjóðarrétt þeirra. Orðsporið hefur nú þegar náð út fyrir landsteinana. Heimsathyglin var fyrst vakin árið 2004 þegar Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, kom til landsins í stutta heimsókn. Við það tækifæri staldraði hann við hjá Guðrúnu í Bæjarins beztu og snæddi þar eina pylsu með remolaði en eftir það hefur slík útgáfa aldrei verið kölluð annað en „Clinton“. Árið 2006 hlotnaðist pylsuvagninn sá heiður frá breska blaðinu The Guardian að lenda í öðru sæti yfir bestu sölustanda skyndimats í Evrópu.

Oft eru langar biðraðir fyrir utan söluturn Bæjarins beztu.


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.